30.9.01

Menningarborgin


Annar dagur. St. Pétursborg er hrífandi falleg borg, skipulögð breiðstræti og fljótið rennur í síkjum um borgina, þetta er borg sem minnir á Feneyjar eða París. Það er greinileg mengun hér í loftinu sem fellur á húsin en hvergi er rusl að sjá. Ég held að það sé líka vandamál hér í sambandi við vatn og það þurfði mikið átak til að hreinsa neysluvatnið hér. Við vorum á fundi allan daginn. Í hádeginu fórum við nokkur á veitingastað, við vorum alveg í miðbænum og gengum framhjá skrýtinni kirku Kazan dómkirkjunni. Á Sovéttímanum var hún miðstöð trúleysingja. Svolítið undarlegt gerðist á leiðinni úr hádegismatnum, ég var að verða of sein á fund og gekk greitt eftir fjölfarinni götu. Skyndilega sá ég Irinu frá Arkangelsk koma á móti mér á götunni. Ég þekki bara tvo rússa og hún er annar þeirra, við erum saman í norræn-baltnesku samstarfsneti. Hún var á leiðinni á fund í Oulu í Finnlandi þennan sama dag svo við gátum bara talað saman í nokkrar mínútur þarna á götunni. Magnað að hitta svona óvænt einhvern sem ég þekki í þessu 150 milljón manna ríki. Þegar fundinum var lokið höfðum við góðan tíma svo við gengum um borgina í kvöldsól undir leiðsögn Maritu frá Finnlandi. Hún leiddi okkur að brúnni með ljónunum og að grænmetisveitingahúsinu Idiot Cafe sem kennt er við sögu eftir skáldið Dostoevsky sem bjó þarna í nágrenninu og þar gerðust margar sögur hans. Um kvöldið vorum við boðin í veislu í veitingahúsi og það var matur að sið Georgíu á borðum. Þetta var fullt af ljúffengum réttum, mikið af fiskréttum og grænmeti. Gaman var að kynnast hinni rússnesku hefð í veislum að veislugestir standa margir upp og halda stuttar ræður og skála í vodka eftir hverja ræðu.

Við Nevafljótið í St. Pétursborg


Ferðasaga frá St. Pétursborg. Fyrsti dagur. Ég flaug frá Stokkhólmi til St. Pétursborgar. Við vorum sótt á flugvöllinn og vorum á fundi um daginn. Flestir á fundinum voru rússneskir og var þýtt milli ensku og rússnesku. Vorum svo keyrð á hótel Moskvu þar sem við dvöldum. Þetta var svona gráleitt hótel með mörg hundruð herbergjum í dæmigerðum sovétskum byggingarstíl. Það bjó ég líka á sjöttu hæð eins og í hótelinu í Stokkhólmi og hafði útsýn út á Neva fljótið og yfir klaustur sem kennt er við Alexander Nevsky. Ég hugsaði um hve skemmtilegt væri að fara svona í kjölfar norrænu víkinganna sem hefðu komið hérna fyrir meira en þúsund árum, siglt upp rússnesku árnar og stofnað hér sjálfstæð víkingaríki. Svíar stofnuðu Garðaríki á Rússlandi þar voru höfuðstaðir Hólmgarður og Kænugarður sem nú heita Novgorod og Kiev. St. Pétursborg er núna stórborg með um fimm milljónir íbúa og heldur upp á 300 ára afmælið 2003. Árið 1703 var hérna sænsk virki og í námunda klaustur sem var miðstöð tjöru- og bikiðnaðar. En sænsku víkingarnir voru sem sagt sigraðir og borgin byggð í hvelli og var hún höfuðborg Rússlands frá 1712 til 1918 og var stærsta iðnaðarborg Rússlands í byrjun tuttugustu aldar. Borgin hefur verið miðstöð lista og menningar og það var hérna sem þjóðfélagshræringarnar byrjuðu, hér var Lenín og hér byrjuðu rússnesku byltingarnar bæði í 1905 og þær tvær sem voru í marts og október 1917. Við fórum niður í bæ með neðanjarðarlestinni. Það var skrýtin tilfinning að fara þar niður í iður jarðar og tapa öllum áttum og vita ekkert hvar maður er, geta ekki lesið úr neinum skiltum og sjá ekki einu sinni í hvaða áttir lestirnar fara lestarstöðvarnar eru öðru vísi en við eigum að venjast í Vestur-Evrópu, það eru bara dyr sem opnast þegar lestirnar koma en maður sér ekki lestina sjálfa. Mér virðist þeirra neðanjarðarlestarkerfi vera ansi fullkomið og það prýða listaverk lestarstöðvarnar. Fólkið í miðbænum er velklætt og við verðum ekki vör við mikið betl og það virðist ekki vera hættulegt að vera á ferli í miðbænum. Við fengum okkur skyndimat hérlendra en það eru rússneskar pönnukökur úr bóghveiti sem kallaðar eru blini. Kvöldið endaði á barnum á hótelinu þar sem við ræddum um menningu Norðurlanda m.a. bókmenntir og kvikmyndir gerðar eftir bókmenntaverkum og hvaða verk væru mest lýsandi fyrir menningu á einhverjum tilteknum stað. Ég man þar eftir umræðu um kvikmyndina "I hired a contract killer" og fleiri myndir eftir hinn finnska Aki Kaurismäki en hann og bróðir hans eru svon cult í finnskri kvikmyndalist. Plottið er sniðugt, er um lífsleiðan mann sem ræður leigumorðingja til að myrða sjálfan sig vegna þess að hann getur ekki framið sjálfmorð sjálfur og um leið öðlast líf hans tilgang, hann verður ástanginn og nýtur lífsins. Þarf að sjá þessa mynd.

Metamorphoses


Ég er komin úr austurvegi og búin að endurskíra vefannálinn minn. Hann heitir núna Metamorphoses en það er nafn á skáldverki Orvid sem var uppi fyrir um tvö þúsund árum. Orðið þýðir umbreyting eða formbreyting eða hamskipti enda er verk Orvids safn af sögum sem eiga það sameiginlegt að þar kemur fyrir formbreyting svo sem að maður eða guð umbreytist í dýr eða tré eða einhvað náttúrufyrirbæri. Ein frægasta bók Kafka heitir líka Hamskiptin (Metamorphoses) og er um mann sem breytist í pöddu. Ég ætla að nota bók Orvids sem leiðarbók á næstunni og pæla í fornum goðsagnaheimi. Þessar sagnir hafa haft áhrif á marga listamenn, ég held að Jónsmessudraumur Shakespeares sé úr efniviði frá Orvid og á safninu Hermitage í St. Pétursborg sá ég mörg listaverk úr þessum goðsögum. Ég var hrifnust af málverkum Rembrandts og Titians af Danae. Danae er kóngsdóttir sem er grafin lifandi, hún er fangi í málmturni. Hún er einkabarn föður síns en hann hefur læst hana inni vegna þess að því hefur verið spáð að hún muni ala barn sem verði seinna afa sínum að bana. Danae verður þunguð af gullnu regni frá guðinum Seifi. Málverk Rembrandts af Danae var eyðilagt fyrir mörgum árum af brjálæðingi sem hellti yfir það sýru og risti sundur strigann. Það er eitt frægasta listaverkið í Hermitage og hefur nú verið endurgert og er undir gleri. Málverk Titians af Danae minnti mig á Ísland, gullna regnið í bakgrunninum var eins og eldgos. Það er gaman að skoða hvernig mismunandi listamenn sjá fyrir sér sama atburðinn á mismunandi hátt eins og þessir fjórir listamenn Rembrandt, Titiaan, Gossaert ogKlimt lýsa þungun Danae.

19.9.01

Vid Strandveginn i StokkhólmiKom til Stokkhólms í morgun og bý á sjöttu hæð á hóteli sem heitir Strand og hef útsýni yfir Strandveginn og hafið. Mjög fallegt hverfi. Er núna á kaffistofunni Zenit á Sveavegen sem ég uppgötvadi að er líka svona fjölmenningarhús, rádgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem er á leið til framandi landa og svo er líka listsýningar og fyrirlestrar og fólk kemur og les blöð og tímarit. Minnir svolítið á Geysishúsið. Ætli kaffihús verði svona. Einhvers konar sérstakur menningarheimur sem maður fer inn í bara á meðan maður dvelur þar. Kannski bókabúðir og kaffihús renni saman. Fer til St. Pétursborgar snemma í fyrramálið.

18.9.01

Innrás í Afganistan


Ég vona að ef Bandaríkjamenn ráðast inn í Afganistan eins og allt bendir nú til þá verði það eins og þegar Bretar réðust inn í Ísland í seinni heimstyrjöldinni. Vona að það verði þannig að fólkið í Afganistan bara vakni upp einn daginn með tilkynningum og blöðum og útvarpi um að landið hafi verið hernumið. Vona að innrásarliðið byrji á að birta öllum almenningi reglur um hvernig Afganir eigi að hegða sér á meðan hernaðarástand stendur yfir og hvaða viðurlögum innrásarliðið muni beita við brotum. Vona að innrásarliðið byrji á að ráða ókjör Afgana í vinnu (alveg sama hvernig vinnu, bara einhvers konar skurðgröft eða eitthvað - svona tilgangslausa bretavinnu) og dæli inn peningum í landið þannig að allt fátækt fólk þar finni að það er betur sett efnahagslega með innrásarlið en ella. Vona líka að innrásarlið virði siði og menningu og trú sem er framandi og muni alltaf að þeir eru ekki velkomnir gestir. Ég vona að andlit innrásarliðsins verði sýnilegt og Afganir sái að innrásarliðið er fólk sem hefur eitthvað ákveðið markmið sem unnið er að en ekki gammar sem steypa sér niður úr skýjunum og granda öllu sem fyrir er.

14.9.01

Hvað bjó til Talibana?


Það er góð grein á mbl.is um Talibana. Þar kemur fram að þegar þeir komust til valda ríkti skálmöld og glundroði í landinu og allt var í rúst. Þeir voru einu sinni bandamenn Bandaríkjamanna. Þetta voru trúaðir ungir hugsjónamenn, margir aldir upp í skugga óhugnanlegs stríðs og trúin veitti skjól og von um lög og reglu. Ef til vill alþýða manna í Afganistan á sínum tíma verið hliðholl Talibönum, vonað að þeir kæmi á friði og skipulagi á þeirri ógnaröld sem ríkti í landinu. Ég las á einni vefsíðu að tilskipun Talibana um að konur yrðu að hyljast í burgua múslimasjali á almannafæri hafi í upphafi ekki verið litið á sem ógn heldur sem vernd af hálfu sumra kvenna. Talibanar komast til valda á tímum þar sem enginn var óhultur á almannafæri og konur gátu búist við nauðgunum og árásum hvar sem var. Í örvæntingar- og glundroðaástandi er sá sem endurskapar lög og reglu frelsari og hvað getur fengið menn til að sannmælast betur um reglur en sú sannfæring að þær séu guðleg forsjón.

13.9.01

Hryðjuverkamenn


Stríð. Við hvern? Heimsmynd mín er núna eins og brotinn spegill og ég er ekki viss um hvað er best. Reyna að líma saman brotin og rýna áfram í sama spegil þó hann verði alltaf óskýr, mattur og rákóttur. Eða búa til nýja mynd af heiminum. Það er eins og öll viðmið hafi skekkst og erfitt um sjá hver framvindan verður.

Hvernig getur lítill hópur hryðjuverkamanna búið til úr sjálfum sér og öðru fólki lifandi sprengjur og sprengt í tætlur táknræna staði í siðmenningu okkar. Virt mannslíf að engu. Þetta er óskiljanlegt, sorglegt og fylgir engum leikreglum sem við þekkjum.

Ég fór í gærkvöldi að lesa um aðra fámenna hópa sem hafa valdið miklum usla. Bakkaði fimm hundruð ár inn í mannkynssöguna og inn í Meso-Ameríku. Las um hvernig spænskur leiðangur sem Cortes stýrði sigldi frá Kúbu árið 1519. Það voru ellefu skip, 508 hermenn, 16 hestar og ýmis konar stríðsbúnaður. Þeir komu að landi í ríki Asteka og lögðu á skömmum tíma undir sig helgu borgina Tenochtitlán og allt ríki Asteka. Rústuðu Astekamenningunni. Samt voru hermenn Asteka mörgum þúsund sinnum fleiri og þetta var skipulagt menningarríki. Myndin er af Tlazolteotl, einni gyðju Azteka í vígahug.

Hvernig gat það gerst? Sennilega margir þættir en var ekki árásarliðið þar nokkurs konar sjálfmorðssveit sem æddi yfir, sveifst einskis og gereyddi öllu. Hryðjuverkamenn þeirra tíma, fífldjarfir hermenn sem virtu að engu það sem Astekum var heilagt. Ollu glundroða og ringulreið og notfærðu sér trú og siði Asteka, trú þeirra á að þeir væru ofurseldir örlögum sínum og spádómum. Innrásarliðið fámenna bjó líka yfir tækni sem Astekar skildu ekki og fylgdu öðrum leikreglum í hernaði. Tóku ekki fanga heldur drápu en héldu sjálfir lífi vegna siðar Asteka að taka stríðsfanga.

Astekar voru agndofa og skelfdir yfir eyðileggingarmætti árásarmanna, þeir höfðu byssur og hesta þannig að Astekum sýndist maður og hestur vera eitt og andstæðingarnir væru tvíhöfða skrímsli með sex fætur. Þeir höfðu spjót sem eldur logaði úr og svona er ein lýsing innfædds sjónarvotts frá þessum tímum: "Ærandi hávaði. Það var eins og steinn þeyttist út og springi í eldregni og neistaflugi. Reykjarmökkur fyllti loftið og ógeðslegri lykt sló fyrir vitin. Og skotið, þegar það lenti á fjalli þá molnaði fjallið - varð að dufti. Tré varð að spónum og sagi - hvarf eins og því hefði verið feykt burtu.(Florentine Codex). "

Það er auðvelt að sjá núna þegar litið er yfir söguna að Astekar hefðu getað stráfellt árásarliðið áður en það náði að bindast samtökum við aðra andstæðinga Asteka og þeir höfðu alla burði til að ráða við tækni Spánverja ef þeir hefðu haft snerpu, klókindi og grimmd ásamt því að vera í eigin landi og hafa yfirburða liðstyrk. En það er eins og þetta hafi komið þeim svo að óvörum og að skipulag þeirra, stjórnkerfi og trú hafi unnið með í að þetta stóra ríki liðaðist í sundur og gat ekki ráðið við svona utanaðkomandi ógnun. Astekar týndu niður menningu sinni og tungumáli og sagan er brotakennd því hún er eins og allar sögur, skráðar og túlkaðar af sigurvegurum. Ég er að læra spænsku núna vegna þess að það er draumur minn að fara einhvern tíma til Mexíkó og skoða ummerki um forna menningu Asteka og Maya.


Astekar
Decisive Battles - The Siege of Tenochtitlán 1521
Quetzalcoatl
Saga Mexíkó fyrir börn
Aztekar 2
The Goddesses of The Borgia

11.9.01

Dimmalimm


Minningargreinar. Saga um veröld sem var, sagnalist Íslendinga nútímans. Í morgun las ég minningargreinar í Morgunblaðinu. Ég komst að því að ég hef hitt prinsessuna Dimmalimm, ævintýrapersónu úr sögu Muggs. Ekki von að ég þekkti hana aftur, hún var orðin öldruð kona þegar ég hitti hana og hún var kynnt fyrir mér sem amma hans Kjartans. Hún var jörðuð í dag og á sama tíma lauk ævintýrinu. Ævintýrinu sem ég hef lifað í fram að þessu, um heim þar sem friður og velmegun ríkir, um heim þar sem hver nýr dagur ber með sér von um betri tíð. Þegar turnarnir á ævintýrahöllinni hrundu og reykjarmistrið lagði yfir eyjuna vissi ég að því ævintýri var lokið.

10.9.01

Stelpuslagur á Íslandi


 
Flott hjá íslenska landliðinu í kvennaknattspyrnu að vinna leikinn og gott hjá þeim að sýna að þær séu til og vilji láta taka á eftir sér. Það er ekkert til að hneykslast á þó allar séu þær léttklæddar á hópmynd og noti orðið stelpuslagur um átökin. Ég er sammála Ásgeiri á strik.isog öðrum sem hafa tjáð sig um málið á netmiðlum. Þetta er óvænt og öðruvísi og út á það ganga smellnar auglýsingar og þessi virkaði víst alveg. Á Íslandi hafa konur tjáningarfrelsi og mega klæðast því sem þær vilja og þær geta tekið þátt í leikjum sem auka þor þeirra og baráttuhug. Það er meira segja frelsi til að nota þau orð sem maður vill. Berum þetta bara saman við konur í Afganistan og öðrum strangtrúarríkjum. Þar eru fótboltavellir notaðir fyrir opinberar aftökur, þar fá konur ekki að vinna og verða alltaf á almannafæri að hyljast flík sem kallast burqua. Þar er flest allt bannað sem lýtur að tjáningu og frelsi. Ég las einhvers staðar að meira segja er pappír bannaður. Internetið er bannað í Afganistan.

Hér eru nokkrar slóðir um konur í Afganistan:
The Taliban's War on Women: A Photo Gallery
Gjensyn med Arabia
Lives still restricted, Afghan women see hope -Christian Science Monitor 1999
Pictures of Afghan Women
SILENCE OF THE BURQA by Mohammed A. Qadeer
The Tribune, Chandigarh, India - Main News
Secret feminists fight tyranny of the Taliban, The Toronto Star , June 16, 2001
Revolutionary Association of the Women of Afghanistan (RAWA)
Physicians for Human Rights: Afghanistan Senate Testimony
Against Taliban Injustice
Pacific News Service
WOMEN'S DEMANDS AGAINST TALEBAN TYRANNY
The Village Voice: Nation: Mondo Washington: The Accidental Operative by Camelia Fard & James Ridgeway
THE WOMEN
Afghanistan Women: by Diana Mircheva
Muslim Head Coverings
Genders OnLine Journal - Between Here and There: Feminist Solidarity and Afghan Women
A Muslim's View on the Taliban and Afghanistan
Myndin af landsliðinu er hluti af auglýsingu um landleik sem birtist í Morgunblaðinu.

8.9.01

Tungumál


Svo mikið vesen með öll þessi mismunandi tungumál sem eru töluð í heiminum. Enskan er ekki samskiptamál nema hjá hluta heimsins. Fegin er ég að ég lærði smávegis í spænsku í sumar, verð að fara í spænskunám í vetur til að bæta við það. Get reyndar ekki gert mig skiljanlega á spænsku en skil alla vega sumt sem ég sé skrifað. Það er mjög erfitt að vera í Barcelona og skilja ekkert í spænsku, margir tala enga ensku. Er að spá í hvort ég eigi að reyna að læra eitthvað í rússnesku því ég ætla til St. Pétursborgar í september. Kannski bara nokkur orð eða alla vega hvernig þetta skrýtna letur þeirra rússana er. Ætla að safna hér slóðum um rússnesku og spænsku og tungumál og vélrænar þýðingar.
WorldLingo
Raging Search - Babel Fish
Lingotex.com (læra spænsku)

Ferðafrelsi á Netinu er mannréttindi!


Las á moggavefnum að Saudi-Arabar herða nú reglur um netkaffihús en m.a. verður fólki yngra en 18 ára bannað að vera á netkaffihúsum og öllum meinaður aðgangur að vefsíðum sem birta klám eða sem þykja sýna Íslam eða stjórnmálakerfi landsins óvirðingu. Einnig verða netkaffihúsin að hafa aðskilin svæði fyrir konur og karla.

Ennþá eitt dæmið um hvernig það að hefta aðgang að upplýsingum gegnum Internetið tengist stjórnháttum í landinu almennt. Ég las í grein í BBC um Saudi Arabia að talið er að tveir þriðju af Internetnotendum í Saudi-Arabíu séu konur og líklegasta skýringin sé það ófrelsi sem þær búa við. Konur þar mega ekki keyra bíl, mega ekki ferðast nema í fylgd ættingja eða eiginmanns, verða að klæðast svona múslímasjölum sem hylja líkama og andlit og ýmsar takmarkanir eru á hvað þær mega vinna. Saudi Arabía er ríkt land og veitir miklu í menntun, konur mega þar stunda nám og er meirihluti nemenda í skólum þar konur. Samt eru ríki Saudi Araba og ríki hinna fátæku Talibana eins að því leyti að fótum troða mannréttindi og reyna með öllum ráðum að gera konur ósýnilegar og valdalausar. Nú er ekki eins og konur séu einhver lítill minnihlutahópur í þessum ríkjum, þær hljóta að vera alla vega um helmingur íbúanna. Hvers vegna er svona mikið kapp lagt á að fjötra konur í þessum ríkjum? Er það vegna þess að það er auðveldasta og greiðfærasta leiðin til að hneppa alla í fjötra?

Amnesty International USA um ástandið í Saudi Arabíu
Amnesty International um Saudi Arabia
mynd af ósiðlega klæddum konum að fara yfir götu í Saudi Arabíu
Myndasafn af hefðbundnum kvenfatnaði í múslímalöndum
Discrimination Against Women in Saudi Arabia

7.9.01

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi verði Óperuhús!


Mér finnst að það ætti að kanna alvarlega hvort ekki sé sniðugt að taka nýlega risabraggann sem reistur var við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi og breyta honum í óperuhús. Sleppa þessu Faxaskálaævintýri. Ég veit náttúrulega ekkert um hljómburðinn en Áburðarverksmiðjan á hvort sem er að hverfa þarna úr Gufunesi og sem betur fer fyrir Grafarvogsbyggðina er hætt að framleiða þar áburð, ég held það sé bara seldur innfluttur áburður. En þetta er frábært svæði og náttúrufegurð mikið þarna við sundin bláu og það er svo íslenskt og þjóðlegt að taka gamla verksmiðjubragga og breyta honum í gullastokk og menningarsetur , er ekki einmitt Listasafn Íslands í gömlu fiskverkunarhúsi og æðsta stjórn ríkisins í gömlu fangelsi. Nýja listasafn Reykjavíkurborgar er svo í gömlu pakkhúsi við höfnina. Svo er komin listamannanýlenda við gömlu ullarverksmiðjuna á Álafossi og settar upp óperur í Dráttarbrautinni í Keflavík. Mér hefur líka fundist skemmtilegt að á túninu sem ég lék mér á sem barn reis sláturhús en í þá byggingu er núna Listaháskóli (varatillaga: Breyta Laugarnessláturhúsinu í óperu ef listaháskólinn fer) Tónar hljóta að óma betur í húsi með sögu. Saga verksmiðjubraggans stóra er reyndar ekki svo löng en mig minnir að það hafi verið eitthvað rifist um staðsetninguna á sínum tíma og að þessi bygging myndi festa verksmiðjuna þarna um aldur og ævi. En saga áburðarverksmiðjunnar er samofinn íslenskri atvinnusögu og reyndar stjórnmálasögu og kaldastríðsárunum. Svo er það líka í anda íslenskrar hógværðar að gera tónlistarmusteri þarna hjá gömlu öskuhaugunum í Gufunesi.

Mér líst ekkert sérstaklega á allar þessar hugmyndir um stórkostlegar landfyllingar út í sjó og búa til byggingarland þannig í Reykjavík. Smart slagorð í skipulagsmálunum að tala um borgina við sundin en er ekki fulllangt gengið að byggja borgina bara út í rúmsjó? Mér finnst það heldur ekki í neinu samræmi við að manneskjan lifi í sátt við náttúruna að menn geti ekki einu sinni sætt sig við að aðrir en þeir dragi mörkin milli þess hvað er land og hvað er sjór. Svo hefur flætt yfir Seltjarnarnes í manna minnum og það getur bara alveg gerst aftur.

Hins vegar finnst mér að þessar eyjur Engey og Viðey geti alveg komið til greina fyrir fyrir byggð nema auðvitað sá hluti af Viðey þar sem klaustrið stóð. En ég vona að áburðarverksmiðjan verði ekki rifin heldur öðlist einhvern nýjan tilgang og hýsi annars konar starfsemi.

6.9.01

Líkami og sál


Sá á einhverjum fréttavef í dag að nú er búið að ákæra mann í USA fyrir að njósna um konuna sína með forriti sem heitir eBlaster . Þetta forrit sendi með ákveðnu millibili tölvupóst til mannsins um allt sem konan var að gera á tölvunni sinni. Fór að hugsa um þetta eftirlitsþjóðfélag sem við lifum í, tæknin hefur gert allt eftirlit og persónunjósnir svo auðvelt og um okkur liggja hér og hvar alls konar upplýsingar. Hvernig hefði heimspekingurinn Michel Foucault lagt út af þessum nútíma og þessum aðstæðum? Foucault dó árið 1984 úr eyðni. Hann pældi mikið í valdi og líkama, pabbi hans og afi voru skurðlæknar og það hefur eflaust mótað hann.

Veit ekki hvort svona njósnir eins og með e-blaster séu tengdar líkama, frekar eins og njósnir um sálarlíf og hugsanir. Foucault pældi mikið í því hvernig fólk færi að því að stjórna sér og öðrum og fylgjast með sjálfu sér. Svona njósnir eða eftirlit inn á heimilum, hvernig myndi Foucault hafa fellt það í sínar kenningar? Er það einhvers konar dæmi um að fólk sé að hafa eftirlit með sjálfu sér?

Fann annars þessa áhugaverðu BA ritgerð :Gálur og Garpar: hin félagslega mótaða kynlífsímynd á vefnum og svo fann ég nýja kynjafræðilega túlkun á Leigjandanum en það varð um erindi Garðars Baldvinssonar á Skáldsagnaþingi 2001 um Leigjandann. Á sínum tíma var sú bók fyrst og fremst túlkuð sem táknsaga um Íslendinga og herinn á Miðnesheiði.
Sá líka að það er kominn upp Heimspekivefur en ekki mikið efni þar ennþá.

3.9.01

Óþjóð


Ég fór í seinustu viku á hádegisfund sagnfræðingafélagsins um HVAD ER (O)THJOD? Þetta er fyrirlestraröð sem var að byrja og er nokkurs konar naflaskoðun íslensku þjóðarinnar og eftir því sem mér skilst þannig að þjóðin er skilgreind eftir því hvað er að vera ekki þjóð. Það læðist nú reyndar að mér sá grunur þegar ég skoða fyrirlestraheitin að það væri búið að svara þessu. Búið að leggja til efniviðinn í nýju heimsósómaljóðin. Það er svona blöndun á því erlenda og því íslenska, líka framandleg og tæknistudd menning. Svona eyvindur&halla.com.

Það var Matthías skáld og fyrrum Morgunblaðsritstjóri sem flutti erindi á hádegisfundinum sem ég fór á. Það sem mér fannst Matthías leggja áherslu á var einhvers konar laxasamlíkingar, svona um að laxinn yrði ekki að rækju þó hann borðaði mikið af skeldýrum, þetta var svona myndlíking hjá honum um að við gætum tekið við erlendum menningaráhrifum án þess að við yrðum eins og sú menning sem við ætum. Þessi laxasamlíking virkar bara ekki vel á mig, kannski af því ég er ekki veiðimaður. Víst er það satt að við verðum ekki endilega það sem við borðum en jafn satt er það að við erum ekki endilega það sem við sýnumst vera. Vitund okkar er ekki líkami, ekki lax sem spriklar í straumharðri á. Ef til vill er betra að líkja vitundinni og huga okkar við einhvers konar samlífi þar sem ein lífvera tengist og vex inn í aðra og saman mynda hugsanir og vitundir einhvers konar þéttriðið net sem samt er ósýnilegt og kannski búið til úr sama efni og nýju fötin keisarans í ævintýrinu - er bara til af því að við trúum að það sé til.


Ópera í dráttarbrautinniÍ gærkvöldi fór ég á óperuna Z-ástarsaga í Dráttarbrautinni í Keflavík. Skrýtið að hlusta á óperu um ástir og örlög og dauða í þessu hráslagalega húsnæði sem hefur ekki aðra merkingu fyrir mig en vera staðurinn þar sem Geirfinnsmálið byrjaði. Las svo bókina nætursöngvar eftir Vigdísi, það voru nokkrar sögur um draumfarir og leiðsögumaður í þeim draumum er maður með hrafnsandlit.

Á föstudaginn fór ég í sjötugsafmæli í Rúgbrauðsgerðinni og var afmælisbarnið landsfrægur ökumaður. Fór síðan á Sportbarinn á Hverfisgötu en þar voru dætur mínar að spila snóker. Fylgdist með því um stund, langar ekki til að læra það spil en upplýstir billjardsalir eru einhvern veginn mjög flottir, svona flúorlýstir og grænt flosið á borðunum drekkur í sig ljósið en það endurkastast af kúlunum. Hef séð nokkur málverk af billjardsölum, skil vel hvers vegna listmálarar mála svona senur. Hefði getað verið ein of sviðsmyndunum í myndinni Villiljós sem ég horfi á um helgina, það er soldið svona súrrealísk mynd og svona litasenur.