28.10.01

Tjáningarfrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs



Lýðræði og frelsi er ekki fólgið í því að geta kosið um allt smátt sem stórt sem þarf að taka ákvarðanir um í samfélaginu. Að nota tæknina til að auka lýðræðið er ekki bara það að koma upp kerfi fyrir rafrænar kosningar. Það er eins mikilvægt að tryggja aðgang að þeim upplýsingum sem við þurfum til að taka ákvarðanir og að tryggja að allar raddir heyrist. Líka þær raddir sem eru okkur ósammála og enduróma viðhorf sem við höfum fyrirlitningu á.

Hingað til hefur Internetið verið griðastaður þeirra sem trúa á tjáningarfrelsi og ferðafrelsi hugmynda. Skoðanir, frásagnir og hugverk hafa flætt um heiminn gegnum Internetið og engir landamæraverðir eða manngerðar hindranir megnað að stöðva og beisla það margkvíslaða fljót. Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa viljað koma böndum yfir þennan agalausa massa sem flæðir fram, virðir engin lög og leikreglur og býr stundum til farvegi sem grafa undan ríkjandi valdhöfum. Þannig hefur verið reynt að bendla Internetið við ólöglegt og siðlaust athæfi og réttlæta að það sé nauðsynlegt að hafa eftirlit með og stýra samskiptum með þeim miðli. Vissulega er framdir glæpir og unnin ill verk með aðstoð þessa tjáningarmiðils en réttlætir það að koma upp einhvers konar alþjóðlegu Interneteftirlitsríki eða landamæraritskoðun á efni sem flæðir um Internetið?

Eiturlyfjasala, brot á höfundarrétti og dreifing á klámefni hafa verið þær helstu ástæður sem hingað til hafa verið réttlættar fyrir afskiptum og þörf á boðum og bönnum opinberra aðila á Interneti. Núna hefur ný réttlæting og nýjar ástæður bæst við. Nú er horft til þess að öfgahópar og hryðjuverkasamtök geta þennan miðil eins og aðrir og þessi víðtæka hræðsla í okkar heimshluta við slík öfl hefur veitt stjórnvöldum meiri völd m.a. til að fylgjast með þegnum sínum. Sá á amerískum fréttavefjum að Bandaríkjaforseti þessa dagana skrifaði undir lög sem leyfa rafræna vöktun (electronic surveillance ) og getur alríkislögreglan í USA að undangengum dómsúrskurði sett upp einhvern hugbúnað sem kallast kjötæta (carnivore) og virkar eins og hlerunarbúnaður hjá Internetþjónustum. Meiningin er að ganga lengra með nýju lögunum þ.e. að hafa möguleika á að beina allri Internettraffík á ákveðna hlerunarvefþjóna. Sjá þetta:
FBI Seeking to Wiretap Internet (Fox News)
Carnivore, e-mail and the 4th Ammendment
Carnivore Diagnostic Tool (FBI)
Mér finnst þetta afleitt og ekki til þess fallið að auka lýðræði og jafnræði. Þetta er þróun í átt að lögregluríki þar sem einhverjum fáum er veitt umboð til að fylgjast með fjöldanum. Upplýsingar er vald. Get heldur ekki séð að þetta geri annað en þrengja kost okkar sem viljum nota Internetið á hátt sem samræmist þeim lögum sem við búum við og til að auka þekkingu okkar og hafa samskipti við fólk um víða veröld. Þeir sem eru að aðhafast eitthvað ólöglegt og siðlaust með tilstilli Internetsins munu halda því áfram, bara breyta aðferðum sínum og munu geta dulkóðað sendingar sínar í tölvupósti og á tölvunetum eins og fólk hefur gert um allan aldur. Bara dæmi um hvernig það var þegar varðskipin íslensku hér fyrr á öldinni voru að reyna að koma Bretum og öðrum að óvörum. Sögusagnir voru um að bresku skipin hefðu njósnara á sínum snærum á Íslandi sem sendu símskeyti eins og Mamma er lasin ef að varðskip var á þeirra slóðum. Minnir að sögupersónan Pétur Þríhross í Heimsljósi hafi verið einn slíkur.

23.10.01

Eru Íslendingar til?


Í hádeginu í dag fór ég í Norræna húsið og hlustaði á sagnfræðinginn Guðmund Hálfdanarson flytja erindið "Hugmyndir Herders um þjóðina og endalok menningarlegrar þjóðar". Guðmundur er að gefa út nýja bók um þjóðríkið og hann endaði erindið á því að segja að það væri á fallanda fæti, eiginlega skildist mér að þjóðir væru ekki til. Í salnum voru bæði fyrrverandi og núverandi forseti íslenska lýðveldisins, veit ekki hve mikið þau hafa klappað fyrir lokaorðunum.

Margt fróðlegt í erindinu, m.a. um hvernig sameiginlegar minningar þjóða eru búnar til og tákn eins og frelsishetjur. Við eigun náttúrulega ekki nema eina frelsishetju hann Jón Sigurðsson sem er sómi Íslands, sverð þess og skjöldur og við flöggum á afmælisdaginn hans 17. júní. Ég er ekki kunnug því hverju Jón frelsaði okkur frá eða störfum hans en það kom fram í erindinu að Jón Sig. er alveg dæmigerð frelsishetja og þær eru víst gjarnan vitrir aldraðir karlmenn og það er dregið sérstaklega fram það karlmannlega í fari þeirra - það segja sumir sagnfræðingar að sé ein leið til að segja söguna bara frá sjónarhorni eins hluta samfélagsins þ.e. karlmanna.

Meira um þjóðernishyggju:
Nation Planet
Open Directory - Nationalism

Friðargæslan
Ég fór í dag í viðtal vegna þess að ég gaf kost á mér hjá íslensku friðargæslunni, ég vona að ég komist á viðbragðslistann þar. Gæti alveg hugsað mér að fara til Afganistan.

21.10.01

Afmælin - 2 af 3 búin


Helgin fór að mestu í að halda upp á 12 ára afmæli dóttur minnar. Seinasta barnaafmælið - næst heitir það unglingaafmæli. Fjölskylduboð á föstudagskvöldið, níu matargestir, matseðill að ósk afmælisbarnsins var lambalæri og lambahryggur og rjómaís og voru með kjötinu þrjár sósur (rjómalöguð sveppasósa, brún sósa og bernaisesósa) því smekkur matargesta var mismunandi. Umræður voru um hvaða sósa væri best og svo stjórnmál. Virkilega heimilislegt og viðeigandi í svona barnaafmælisboði og minnti mig á mína eigin bernsku. Á bernskuheimili mínu var aldrei talað um annað en stjórnmál við matarborðið. Man hvað ég var undrandi þegar ég uppgötvaði sem barn að á öðrum heimilum væri talað um annað, hafði ekki leitt hugann að því að það væri hægt. Mér fannst rjómalagaða sveppasósan best og svo fannst mér spurningin "þegar Bin Laden lét ræna þremur flugvélum og stefndi þeim á WTC turnana, var hann þá að biðja um fund?" dáldið djúp pæling.

Á laugardaginn var annað fjölskylduboð um kaffileytið, þar voru átta börn og sex fullorðnir og síðdegis kíkti systir mín og vinkona mín sem ég hef ekki séð lengi í kaffi. Þær voru á ráðstefnu um atvinnumál fatlaðra um daginn en vinkona mín á fatlað barn, hún á dóttur sem er einhverf, þroskaheft og flogaveik. Vinkona mín sagði okkur frá lífi sínu og fjölskyldu sinnar en þau hafa orðið að þola mikið andstreymi undanfarin ár vegna baráttu um að hafa mikið fatlaða dóttur sína í venjulegum grunnskóla. Dóttirin hefur verið rekin tvisvar úr grunnskóla og það var kært af foreldrum og kveðinn upp stjórnsýsluúrskurður þar sem önnur brottvísunin var felld úr gildi. Vinkona mín sagði okkur líka frá óskum sínum um framtíð dóttur sinnar sem núna er að verða fullorðin. Hún vill ekki að dóttirin búi á sambýli í framtíðinni heldur í sérstakri íbúðareiningu með eigið eldhús en með vakt og hugsanlega sjónvarpseftirlitsvél. Hún vill að dóttir sín eigi í framtíðinni völ á einhvers konar vinnu við sitt hæfi. Ég fór að hugsa um hvernig svona hugmyndir um góðan aðbúnað breytast, nú þykja sambýlin ekki góður kostur og áherslan er á að besta búsetuformið séu að einstaklingar búi sér. Ég trúi ekki öðru en þetta eigi eftir að breytast, ég get með engu móti séð að það séu mestu mannréttindin fólgin í að aðskilja fólk frá öðru fólki og setja alla í litlar einstaklingsíbúðir.
Ég hef fylgst með þessari fötluðu stúlku alveg síðan hún fæddist og séð hvernig erfiðleikarnir hjá fjölskyldunni aukast ár frá ári. Bæði verður sífellt erfiðara að annast hana eftir því sem hún verður stærri og sterkari. Svo er endalaust þjark í við allt umönnunar- og fræðslukerfið. Foreldrarnir krefjast þess réttar sem þeir hafa í lögum um að barnið sé í venjulegum skóla og í hvívetna í umhverfi sem styður blöndun fatlaðra og ófatlaðra.

18.10.01

Hryðjuverk á Internetinu


Í meira en eina viku er ég búin að vera nánast sambandslaus við umheiminn heima hjá mér. Bara með upphringimódemsamband á einhverjum lúsahraða. Ég hugsa með hrolli til þess að þurfa að búa við svona ástand, ég held í alvöru að ég flytji úr landi ef bandbreiddin verður ekki viðunandi og örugg á íslandi. Þetta ófremdarástand hjá mér sem stafar af einhverju veseni á loftlínusambandi hjá lina.net hefur orðið til þess að ég spái í hve ofurseld við erum að verða því að Internetið virki. Og hvað ef einhver vill ekki að það virki hjá okkur? Hef svo sem ekki leitt hugann mikið að þessu nema veit að það er nauðsynlegt að hafa vírusvarnir og eldveggi á sítengdum tölvum.

"Low tech" terroristar
Hvað ef hakkaraverk á Interneti hætta að vera fikt tölvunörda sem þurfa að sýna hve klárir þeir eru og það koma hakkarar sem hafa bara þann tilgang að valda usla og glundroða og lama kerfið og skemma sem mest. Í ljósi heimsviðburða núna þá sé líklegt að til sé svoleiðis fólk. Er eina vernd okkar að terroristar eru alltaf "low-tech"? Mér sýnist ekki viturlegt að gera ráð fyrir því. Það er örugglega fullt af fólki um allan heim sem er að prófa sig áfram á sjálfvirkan hátt að fá aðgang að nettengdum tölvur annarra, bara í gærkvöldi þá komu nokkrir tugir af aðvörunum á Zonealarm eldvegginn sem ég er með heima frá IP tölum í skrýtnum löndum s.s. Kóreu, Rússlandi, Makedóníu og Ísrael. Spái í hvort ekki sé öryggishola í svona forritum sem maður gefur sjálfvirkan aðgang á Netið s.s. babylon.com þ.e. kannski er mesta hættan í hugbúnaði sem er þarfur og maður notar mikið og treystir.

Ljósleiðarinn í sundur - hvað gerist?
Og hvað með sambandið við umheiminn? Mér finnst svolítið ferlegt að eiga allt undir einum ljósleiðara. Hann getur farið í sundur vegna þess að einhver togari passar sig ekki á honum og það virðist vera eina sem menn hérlendir óttast. Enda er á vefsíðum Símans gefin upp nákvæm hnit og kort á hvar hann liggur svo fiskiskipin geti haldið sig fjarri. Þessar upplýsingar gætu auðvitað verið verkfæri þeirra sem vilja ekki halda sig fjarri. Ég man ekki eftir neinu hryðjuverki á Íslandi nema þegar hvalveiðibátum var sökkt fyrir fjölmörgum árum, held það hafi verið í höfninni á Akranesi. Kannski þarf ekki að vera svo hræddur við að Internetið lamist, gott að rifja upp að það þróast upp úr hernaði, einmitt á þann hátt að það þurfti að vera hægt að starfrækja gagnakerfi þó einn staður væri skotinn í kaf, þá færu upplýsingar bara aðrar leiðir, kerfið er ekki háð neinni einni miðstöð.

15.10.01

Lífrænt-vélrænt-barnabókaþing-rannsókn málsins

Menningarneysla um helgina: Kíkti á sýningu í Hafnarhúsinu, mér sýndist sýningin samanstanda af þremur steinum og mynd sem var varpað upp á vegg af gárum á tjörn. Þetta er kallað hljóðlát innsetning og þemað er hið lífræna - vélræna og staða mannsins í tilverunni. Fór að pæla í hvað er vélrænt og hvað er lífrænt. Kannski að það sem getur vaxið og umbreyst sé lífrænt og það sem er njörvað í ákveðið form sé vélrænt. Það var í sýningarskránni skemmtileg pæling um hvort þvottavélar gætu farið að fjölga sér.

Barnabókaþing
Svo skoðaði ég líka sýningu á teikningum í barnabókum í Grófarhúsinu og fór í Norræna húsið á föstudagskvöldið og hlustaði á barnabókahöfundana Tor Åge Bringsværd og Ulf Stark. Það stendur núna yfir norrænt barnabókaþing. Reyndar finnst mér einhver tímaskekkja og nostalgia fólgin í að kenna svona þing við massa af trjákvoðu þ.e. er bækur, ég held að fólk á öllum aldri hlýði á sögur sem eru sagðar frá manni til manns, í leikritum, kvikmyndum og myndböndum, geisladiskum og Interneti eins og í bókum. Væri ekki skrýtið ef þetta væri barnakasettuþing, mér finnst skrýtið að kenna þingið við ákveðinn einn miðlunarmáta af sögum en ekki sjálft inntakið - sagnahefðina. Svo skil ég ekki alveg þetta að skipta bókum í barnabækur og ekki barnabækur.

Rannsókn málsinsÁ laugardaginn fór ég á sýningu fjögurra myndlistarmanna í Gerðarsafni, það voru Erla Þórarins, Steingrímur Eyfjörð, Hildur Hákon og Jón Óskar sem sýndu, sjá um sýninguna á jesh.org. Skemmtileg sýning en mér fannst eitt verkið sniðugast. Erla hafði fundið einhvern leyniskáp með fataslitrum inn á vinnustofunni sinni og listamennirnir Erla og Steingrímur ræða saman um rannsókn málsins: "...Fyrst ætlaði ég að nýta mér leiðir sem rannsóknarlögreglan notar til að fá mynd af atburðinum. En ég sá það strax að sú leið yrði ekki eins spennandi og að fá vörpun frá miðlum. Svo ég fékk 4 miðla til að túlka og segja mér hvað þeir skynjuðu frá hlutunum...hlutirnir séu hlaðnir orku sem hægt er að skynja sem atburði.....Ég reyni að gera þetta verk almennt þannig að þú þarft ekki að vita sannleikann heldur aðeins táknmyndina. Þess vegna nota ég miðla en ekki lögreglurannsókn....Vörpun miðlanna er sönn sem þeirra eigin túlkun og innsæi. En hvað gerðist í raun og veru skiptir ekki máli. Það er hægt að hugsa sér að túlkun miðlanna sé ekki ósvipuð túlkun sagnfræðinga á sögunni. Það er alltaf verið að endursegja söguna ...."

9.10.01

Jerúsalem og Svíþjóð


Konan á sænsku 20 krónu seðlunum er Selma Lagerlöf, fyrsta konan sem fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hún skrifaði Gösta Berlings sögu, Jerúsalem og Nils Holgerssons underbara resa genom Sverige sem er líka á ensku á vefnum. Þessi saga af ferðalagi Nils var einhvers konar kennslubók í landafræði og náttúrufræði, ég held að Selma hafi verið beðin um að skrifa svoleiðis bók. Sagan er um strák sem er svo óþekkur að hann smækkar og svo flýgur hann á bakinu á gæs um Svíþjóð. Las einhvers staðar að sagan gerðist milli Linköping og Norrköping. Þar hef ég verið og er núna í fjarnámi við háskólann í Linköping. Góð hugmynd að setja fræðslu inn í svona frásögn, ætla að lesa þessa bók.

Selma ferðaðist til Miðausturlanda og í Palestínu hitti hún sænska innflytjendum frá þorpinu Nås í Dölunum. Þessi kynni urðu kveikjan að því að hún skrifaði bókina Jerúsalem, bók um prédikara sem fær hóp af fólki með sér til Jerúsalem að bíða endurkomu Krists. Jerúsalem er um ofsatrú og hvernig mannlegar ástríður flæða saman með trúnni. Ég var í Jerúsalem fyrir mörgum árum. Skildi eitthvað hafa breyst þar, skyldu ennþá vera bláir strætisvagnar fyrir Palestínumenn og rauðir fyrir Ísraela?

8.10.01

Stríðið í háloftunum


Í nótt dreymdi mig stríð. Mig dreymdi einhverja skyndilokun á flugvöllum á Vesturlöndum. Dreymdi að ég væri að skoða á fréttaveitum hvaða flugvöllum væri búið að loka og sá þar að flugvöllurinn í London var lokaður og að flugvélar sem höfðu áætlað að lenda þar sveimuðu þar yfir vegalausar. Man að ástandinu þar var lýst á fréttaveitu með orðunum: "Stuck in mid air". Ekki svo skrýtið að dreyma stríð, það þrengir sér inn í vöku sem draum en skrýtið að dreyma orðatiltæki á ensku sem ég veit eiginlega ekki hvað þýðir og held að sé ekki notað um flugvélar á flugi. Held að þessi draumur endurspegli sálarástand og hvernig heimsmynd blasir við mér núna.

7.10.01

Þögnin og raddirnar


Ég er að byrja að lesa bókina Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur og ætla um leið að kynna mér hugmyndir um schizophrenia eða geðklofa. Mér skilst að þetta sé geðsjúkdómur sem hrjái 1% af fólki og sjúklingar þjáist gjarna af ofskynjun og ofsóknarbrjálæði og hafi brenglað veruleikaskyn. Algengt að sjúklingar heyri raddir sem engin skýring er á (ekki úr GSM símunum). Svo eru sumir sem eru ekki sáttir við að skilgreina þetta sem sjúkdóm og heimspekingar eins og Foucault og sálfræðingar eins og Laing hafa skrifað og rannsakað þetta. Sumir telja jafnvel að stundum geti verið um að ræða sálarástand sem er einhvers konar dýpri skynjun eins og kemur fram í þessari grein um Nietzsche sem var pottþétt geðklofi. Jónas Sen hefur á vef sínum nokkrar greinar um geðveika snillinga. Ég ætla að ganga út frá því að orðið schizophrenia eða geðklofi séu orð sem menn hafa búið til og sé lýsing á einhverju sálarástandi sem víkur frá því sem talið er eðlilegt og sé ekki endilega sjúkdómur. Hmm... ef ég verð ennþá sömu skoðunar þegar ég búin að pæla í Þögninni og hlýða á þær raddir sem tjá sig um þetta á Netinu, hvernig á ég þá að tengja þetta við þessa skimun á erfðamengjum hjá ÍE þar sem þeir eru næstum búnir að finna geðklofagenið. Hvernig passar það ef ég kemst að þerri niðurstöðu að geðklofi sé ekki sjúkdómur?

5.10.01

Kynlíf í borginni og strákur sem dansar ballett



Sjónvarpsþátturinn Sex and the City og bíómyndin Billy Eliot eru kvikmyndaefni sem mér finnst innihalda viðbjóðslegar senur. Þetta eru ólíkar myndir, sjónvarpsþátturinn Sex and the City er um fjórar siðspilltar gellur í New York í útreiðartúrum en Billy Eliot um ellefu ára gamlan strák í kolanámubæ sem þráir að verða ballettdansari en vill ekki læra að boxa. Það eru afbragðsleikarar og myndskot í þessum myndum og það er gaman að horfa á þær.

Þetta eru hressandi myndir og söguhetjurnar eru fólk sem gerir á vissan hátt uppreisn gegn ríkjandi gildum í umhverfi sínu, ekki síst kynhlutverki. Konurnar í Sex and the City rása um borgina á mannaveiðum, leita sér að nýrri bráð í hverjum þætti, lifa hátt og tala dónalega. Strákurinn Billy Eliot horfir á kennslustund þar sem stelpur á hans aldri dansa ballett og hrífst svo að hann þráir það eitt að verða dansari.

Það er ekki þessi uppreisnartónn eða söguhetjur sem þora að vera öðruvísi sem stuðar mig varðandi þessar myndir. Og það eru ekki nektarsenurnar eða stunurnar eða dónatalið í Sex in the City. Og alls ekki að þetta séu illa gerðar og inntakslausar myndir. Það eru þær ekki, þvert á móti er hver sena í smáatriðum útpæld og leikurinn oft á tíðum snilld. Allt er svo útpælt og unnið með sálfræðingum og ímyndarsköpunarsérfræðingum að áhrifamiklar auglýsingar eru vandlega duldar og ofnar saman við söguþráðinn. Enda eru auglýsingarnar líka um efni sem er alls staðar ólöglegt að auglýsa. Reykingar.

Markhópurinn er ungar konur og börn og unglingar
Sennilega stendur hvergi á framleiðslureikningum þessara mynda orðið auglýsingar. Frekar er eflaust talað um kostun. Eða að eiturefnasalarnir eigi kvikmyndafyrirtækin sem framleiða þessar myndir. Ég veit ekki hvort er en bæði Sex and the City og Billy Eliot eru eins og langar auglýsingar tóbaksframleiðenda. Gylla reykingar og tengja það við lífstíl þess sem þorir. Markhópurinn er líka á tæru, í Sex and the City eru það ungar konur og í Billy Eliot eru það börn og unglingar. Tveir mikilvægir markhópar fyrir tóbaksframleiðendur, viðskiptavinir framtíðarinnar eru börnin sem nú vaxa upp og svo eru ungar konur sá hópur þar sem reykingar hafa vaxið hvað mest. Þetta er viðbjóðslegt og ég þoli ekki að horfa á svona reykingasenur í myndum sem eru augljóslega kostaðar af tóbaksfyrirtækjum. En ég virðist vera ein um að hafa ekkert þol gagnvart þessu, getur verið að enginn annar taki eftir þessu eða að fólki finnist þetta allt í lagi?

3.10.01

Fjöldamorðingjar og límið sem límir þá saman


Hvernig eru fjöldamorðingjar? Hvernig hugsa þeir, hvers vegna og hvernig myrða þeir og hvað varð til þess að þeir taka upp þessa iðju? Það er fróðlegt að skoða æviágrip og lýsingar á athæfi raðmorðingja sérstaklega, sérstaklega úr hvernig umhverfi þeir koma og hvernig brot þeirra þróast. Mér finnst margt í þessum ódæðisverkum í New York minna á athæfi sumra raðmorðingja og ég held að það séu sömu hvatir að baki. Að finna djúpa nautn og sælu í því að beita ofbeldi og drepa og valda eyðileggingu og skelfingu. Að undirbúa slíkar nautnastundir vandlega og með einhverjum ritúölum. Ég held ekki að það sé múslemsk bókstafstrú sem hafi búið til morðóðar ófreskjur heldur hafi hópur af tilvonandi ofbeldismönnum sogast að þeirri trú því hún veitti skjól og réttlætingu fyrir voðaverk og varð það lím sem límdi ódæðismenn saman.

Forsprakki ódæðismannanna er talinn Muhamed Atta en hann er egypti, sonur lögfræðings í Kairo. Skákmaður. Menntamaður. Hann lauk arkitektanámi í Egyptalandi og var í framhaldsnámi í Þýskalandi í borgarskipulagi. Hann á tvær eldri systur sem báðar hafa lokið doktorsprófi. Hann taldi sig ekki ná nógu langt í Egyptalandi. Hann skrifaði meistaraprófsritgerð um borgarskipulag og múhameðstrú og var afar mikið á móti því að skýjakljúfar væru byggðir í borgum múslíma. Skákáhuginn og áhugi á skipulagi borga bendir til þess að hann hafi viljað skipuleggja og lifa í plönuðum heimi sem hann hefði yfirsýn yfir.

Hann forðaðist konur. Hann vildi ekki heilsa konum og hann vildi ekki vinna með konum. Hann skrifaði erfðaskrá árið 1996 þar sem hann leggur bann við því að konur komi að gröf hans eða í jarðarför hans. Samt skrifað hann undirbúningsbréf til fylgismanna sinna þar sem hann lofað sæluvist þar sem fagurbúnar meyjar taka á móti ódæðismönnunum en þar stendur m.a
"Know that the gardens of paradise are waiting for you in all their beauty, and the women of paradise are waiting, calling out, "Come hither, friend of God." They have dressed in their most beautiful clothing."
Svo eru í bréfinu líka í alls konar ritúalar sem morðingjarnir áttu að fylgja við undirbúninginn. Fara í sturtu, raka sig og steinka á sig kölnarvatni, vera í sokkum og gyrða sig. Hrópa svo töfraorðin "Allahu Akbar," til óvinanna því þá yrðu þeir svo hræddir.

1.10.01

Pétursborg kvödd


Á sunnudegi flaug ég aftur til Stokkhólms. Ég reyndi að kaupa svolítið að minjagripum áður en ég fór en hef ekki komist upp á lag með að versla hérna. Hér virðist hvergi vera sjálfsafgreiðsla heldur svona eins og þannig að viðskiptavinurinn segir hvað hann ætlar að fá og það er verslunarfólkið sem réttir honum vörurnar. Hér má kaupa skartgripi og svona handmálaða muni, svona með sömu tækni og við íkonagerð. Mér er sagt að góð kaup séu hér í geisladiskum, þeir kosta allir svona einn og hálfan dollara og er ekki annað að sjá á hylki og áletrum á diskum en að þetta sé frá framleiðanda. Ég keypti nokkra diska með rússneskri tónlist og einn disk með Björk og er ég viss um að henni þykir vænt um að vita að tónlist hennar er hér seld á viðráðanlegu verði fyrir heimamenn. Kaupgjald er hér allt annað en við þekkjum, sérstaklega hafa þeir sem eru í opinberri þjónustu svo sem kennarar afar lág laun og skilst mér að margir sinni slíkum störfum af hugsjón einni saman en neyðist til að hafa aðra vinnu með til að framfleyta sér. Skilst mér að það borgað innan við hundrað dollara á mánuði fyrir skrifstofustörf. Einnig er víst mikið atvinnuleysi í borginni. Ég gekk um í nágrenni hótelsins og sá að þar eru einhvers konar verksmiðjur sem mér sýnist ekki vera í rekstri. Á hótelinu er fullt af búðum fyrir túrista og finnst mér eins og það sé hluti af þeirri skipulagningu sem samfélagið einkenndist af þ.e. að svona hótel fyrir túrista séu með öllu sem ferðamaðurinn þarf. Það virðist vera meira eftirlit en við erum vön, það var ekki þrautalaust að fá vegabréfsáritun hingað og svo þurftu þeir á hótelinu að fá vegabréfin manns þegar maður kom á hótelið og hafa það í sólarhring. Til hvers veit ég ekki. Ég held að það hafi verið slakað á ýmsu en samt eimir ennþá eftir af ýmis konar skriffinnsku og eftirliti sem ég get ekki séð að hafi tilgang. Ég vona að borgin vaxi og dafni en mér finnst sárgrætilegt að menntun og fræðistörf hlýtur að vera það sem líður hvað mest undan ástandinu eins og það er í dag. Það getur verið að opnara markaðskerfi sé farið að skila einhverju til þeirra sem eiga og reka smærri fyrirtæki en ég held að háskólar og aðrar menntastofnanir eigi erfitt með að vera reknar í markaðskerfi, þessar stofnanir hafa ekki aðra tekjustofna en þá sem koma úr sameiginlegum sjóðum og mér sýnist það sé ekki um mikið að ræða núna. Hvað skyldi nú gerast með Háskóla Íslands ef tekjur íslenska ríkisins yrðu sáralitlar og framlög til háskólans myndu minnka niður í bara brot af því sem nú er? Ég held samt að þó erfitt sé að reka mennta- og menningarstofnanir núna í Rússlandi og greiða starfsfólki þar laun sem það getur lifað af þá hljóti um langa hríð að vera búið að því að hér var mikið lagt upp úr menntun og vísindum. Ég held að St. Pétursborg hafi allt til að verða enn á ný vagga nýrra hugmynda og hræringa og muni laða að sér listamenn, skáld og hugsuði. Samt er ótrúlegt að lesa sögu þessarar borgar alla síðustu öld og hvaða örlagaatburðir hafa hér átt sér stað. Bæði byltingarnar í byrjun aldarinnar og svo umsátur Nasísta um borgina í seinni heimstyrjöldinni og þá hungursneið sem umsátrið olli. Ég vona líka að með nýrri tækni og breytingum á framleiðslu verði dregið úr mengun lofts og vatns. Á leiðinni út á flugvöll urðum við að stöðva um hríð því það stóð yfir´50 km maraþon ST. Pétursborgar og hlauparar þurftu að fara yfir götuna. Í margar mílur keyrðum við þannig að hlauparar hlupu á móti okkur í trjágöngum á milli akreina á veginum. Mér fannst þetta vera eins og sýning um hverju maðurinn fær áorkað með eigin afli og drifkrafti.

Vetrarhöllin


Þriðji dagur. Þetta var laugardagur og okkur var boðið að kynnast menningu og listum í Pétursborg. Við borðuðum á veitingastað á fallegum stað við eitt borgarsíkið og fórum svo í Vetrarhöllina í Hermitage safnið. Þetta safn geymir um þrjár milljónir listmuna, marga eftir heimsþekkta listamenn. Það var sérstakur leiðsögumaður með okkur sem sagði okkur sögu verka og listamanna og benti á listasöguleg atriði. Við vorum í margar klukkustundir í safninu en sáum bara brot af því sem þar er sýnt. Það var frábært að ganga sal úr sal og sjá listaverk í fullri stærð sem maður hefur oft séð í bókum, í Hermitage safninu er t.d. mikið af verkum eftir frönsku impressionistana. Það var líka gaman að sjá ýmsa dýrgripi Rússlandskeisara, móttökusali og hásæti og listilega lögð viðargólf og skreytt loft og veggi.
Um kvöldið fórum við á ballettinn Giselle sem sýndur var í Hermitage leikhúsinu en það er frekar lítið leikhús og var ætlað keisaranum og hirð hans. Það eru upprunalegu leiktjöldin með fuglinum sem er merki keisarans. Það var skrýtið að sitja í leikhúsi keisarans og hugsa til þess að keisarafjölskyldan hafi verið hérna að horfa á sýningu nokkru áður en þau voru myrt. Ég var að hugsa um þetta og hve hverfult veraldarlánið er á meðal ég horfði á ballettinn og reyndar vissi ég ekki fyrr en í hléinu hvaða ballett ég var að horfa á en þá var aðalsöguhetjan Giselle dáin úr sorg. Hafði eiginlega ekki ímyndað mér að það skipti máli um hvað ballettinn væri, það er ekki eins og ég sé alltaf á svona sýningum. Ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem ég fer á ballettsýningu. En ballettinn Giselle er svona rómantískur ballett og kveikjan að honum kemur frá texta eftir skáldið Heine. Höfundur ballettsins Gautier hreifst af lýsingu Heines af snjóhvítum álfameyjum eða öndum sem dönsuðu í tungsljósi og mistri. Seinni hluti ballettsins er um wilis eða vofur ungra meyja sem hafa verið sviknar af elskhugum sínum. Hver maður sem verður á vegi þeirra frá miðnætti til sólarupprásar örmagnast og deyr af því að taka þátt í dansi þeirra.