30.11.01

Jólaföndrið byrjað


Byrjuð á fullu á jólaföndrinu, er búin að föndra fjögur heimasmíðuð rafjólakort, eitt um laufabrauðsbakstur, annað um skötuveislu, þriðja með mynd af handavinnu nemenda í húsmæðraskóla Reykjavíkur og fjórða af saumakonu í peysufötum með Grýlu í bakgrunni. Ég bjó kortin til í Fireworks og notaði ljósmyndir sem ég hef sjálf tekið á stafræna myndavél. Svo sniðugt að senda bara vefkort í ár, enginn þarf að vera hræddur við miltisbrand eða eiturryk úr vefkortunum. Kortavefurinn hennar Jónu Bjargar Sætran vefkort.is er mjög skemmtilegur og einfaldur í notkun.

27.11.01

Kvenréttindi, talibanar og terroristar


Hvernig tengist þetta? Hillary Clinton orðar það vel í grein sem birtist í Time 24 nóvember. Hún segir þar: "A post-Taliban Afghanistan where women's rights are respected is much less likely to harbor terrorists in the future. Why? Because a society that values all its members, including women, is also likely to put a higher premium on life, opportunity and freedom—values that run directly counter to the evil designs of the Osama bin Laden's of the world." Þjóðfélag sem byggir á umburðarlyndi, samábyrgð og frelsi er ekki kjörlendi fyrir terrorista. En það voru ekki Afganir sem mönnuðu hryðjuverkasveitirnar þann 11. september og Osama bin Laden er ekki Afgani. Hryðjuverkamennirnir komu margir úr nálægum arabalöndum, ólust upp við velmegun og áttu kost á menntun.

26.11.01

Varahlutir í manneskjur


Las að núna hefur tekist að klóna manneskju og er það í þeim tilgangi að nota stofnfrumur úr fóstri til viðgerða og lækninga á viðkomandi manneskju. Það setur samt að manni hroll við þetta, hvenær hefur manneskjan réttindi til lífsins eða hvenær er manneska orðin manneskja og hætt að vera frumuknippi?. Má framleiða fóstur og deyða þau til að nota sem efnivið í varahluti fyrir manneskju? Það er auðvelt að sjá að þetta hlýtur að vera bylting í ýmsum lækningum, hvað ef hægt er að láta stofnfrumur búa til nýtt hjarta og það verða ekki svona vandamál eins og við líffæraígræðslu þegar ólík vefjagerð veldur því að viðtakandi hafnar líffærinu og myndar mótefni. Mikið vildi ég að það væri hægt að framleiða þessar stofnfrumur án þess að fara í gegnum þetta stig að búa fyrst til fóstur, þá væri þetta ekkert siðfræðilegt vandamál heldur bara sniðug lækningaaðferð. Ég fór á listsýningu í Ronneby um daginn og sá nokkrar myndir eftir sænska listmálarann Uno Svenson þar sem hann er að fjalla um fjölgunartækni og málar myndir af brúðum sem tákn fyrir mistök úr fósturframleiðslunni og niðurlægingu.

25.11.01

Kristallafræði og líffrænn rúnalestur


X-ray crystallography er tækni sem gengur út á að lesa út úr ljósbylgjum sem falla á kristala í efni hvernig uppbygging efniseindanna er, gott ef verið er að skoða svo lítlar efniseindir að þær verður að ákvarða svona með óbeinum hætti. Þetta er alla vega sá skilningur sem ég fékk út úr yfirborðslegum lestri um fyrirbærið. Minnir mig svolítið að þessa skuggaveröld Platós þar sem eina sem við sjáum eru skuggarnir og við verðum að giska á hvernig heimurinn er út frá þeim, það gildir líka í hinum örsmáa nanó-heimi.

Ég sá á fréttaveitum að vísindamaður í Boston hefur horfið. Hann heitir Don C. Wiley. Hann vann mikið við að rýna í svona örsmáar agnir og spá í veirur og frumur. FBI rannsakar málið því hann er sérfræðingur í hættulegum veirum sem nota má í eiturhernaði. Konan hans Katrín Valgeirsdóttir er íslensk og ég held að það hljóti að vera bekkjarsystir mín frá Kvennaskólanum í gamla daga og síðar MR sem ég hef ekkert frétt af fyrr en núna. Ég vona að einhver skýring komi fram sem fyrst og hugsa til hversu erfitt hlýtur að vera hjá fjölskyldunni núna.

21.11.01

RunamoTina sagði í lestinni til Ronneby að rúnaristan sem Magnússon réð hafi verið nálægt næstu járnbrautarstöð við Ronneby en það er Bräkne-Hoby. Ég leitaði á Netinu að efni um Bräkne-Hoby og Magnússon en fann ekkert, breytti leitinni þá í Bräkne-Hoby og rúnasteina og eftir dálitla leit fann ég söguna um dularfullu táknin í Blekinge og hvernig Íslendingurinn Finnur Magnússon fór um þær sömu slóðir og ég núna árið 1833. Hann var í vísindaleiðangri og það var í ferðinni líka jarðfræðingur sem átti að ákvarða hvort táknin í Runemo væru mannanna verk eða náttúrunnar. Fræðimaðurinn Finnur Magnússon gerði uppgötvanir í Runemo og var næstu árin að ganga frá niðurstöðunum. Svo var það árið 1841 sem hann var loksins búinn með sitt mikla ritverk um rúnalesturinn, það var Runamo og runestenene og var verk upp á 742 blaðsíður. Finnur Magnússon var á sínum tíma heimsþekktur fræðimaður og saga hans er svo sérstök að það er hreint furðulegt að minningu hans og þessari skrýtnu sögu sé ekki haldið meira á lofti. Þetta er saga vísinda allra tíma, saga um hvernig manneskjan leitar að merkingu í umhverfi sínu og hvernig við erum öll rúnaspekingar í okkar fræðum. Þau fræði geta hins vegar haft mismunandi sjónarhorn og það sem einn sér sem kvæði fyrri kynslóða getur öðrum birst sem eyðingarkraftur náttúrunnar. Þetta er líka sagan um hin hverfulu mörk milli vísinda og skáldskapar og hvernig skáldskapur flæðir inn í vísindi og við skynjum að sannleikurinn er ekki ein uppsprettulind heldur gegnsætt flæði og straumur sem við sjálf berumst með.

Hér er sagan um Finn Magnússon og Runamo:
Runamo 1: De mystiske tegn i Blekinge
Runamo 2: Mysteriet i Blekinge opklares
Runamo 3: Runamo i digtningen - Runamo i dag

Myndir frá RonnebyKomin frá Svíþjóð og búin að setja myndir frá ferðinni út á vefinn. Var á ráðstefnu um "Information Technology, Transnational Democracy and Gender".

16.11.01

Rúnarista eda jökulruðningurföstudagur.
Kom til Ronneby rétt eftir miðnætti í gær. Fór með lest frá Kaupmannahöfn. Hitti í lestinni nokkrar sem líka eru að fara á ráðstefnuna, þar á meðal danskan mannfræðing. Hún hefur mest verið að rannsaka fjölgunartækni en er núna komin í tæknipælingar og kennir kúrs um það við háskólann í Kaupmannahöfn. Hitti líka konu frá Austurríki sem er einn af aðalfyrirlesurum. Spjölluðum um heima og geima á leiðinni. Tina frá Danmörku sagði að hún hefði fyrir tilviljun komið til Ronneby vegna þess að maðurinn hennar hefði skrifað grein um skrýtinn hlut sem er staðsettur þar nálægt, það er rúnarista eða náttúruletur. Svo kom í ljós að hún átti við rúnaletrið sem Finnur Magnússon hafði ráðið í og svo seinna einhverjir haldið fram að væri jökulrákir eftir ísöldina og Finnur missti æruna. Verð að komast til að sjá þennan stein.

Var á ráðstefnunni allan föstudaginn. Skemmtilegt að ég settist í hádegismatnum hjá einni finnskri konu og þegar ég kynnti mig þá sagði hún mér að við hefðum hist áður, við vorum saman í svona leshring hjá Nordisk sommeruniversitet fyrir óralöngu. Vorum í hóp sem hét Systemteori og var að pæla í hvernig tölvur breyttu samfélaginu. Þessi hópur starfaði í nokkur ár en þegar hann lognaðist út af þá fór ég í annan hóp sem hét "Arbejdens fremtid". Í hádeginu gekk ég um árbakkana með Rebekku og Tinu, Rebekka er sænsk, var skiptistúdent á Íslandi í fyrra en er nú byrjuð í doktorsnámi í Lulea. Það er mjög fallegt svæði sem ráðstefnan er á. Ég gat ekki valið ráðstefnulotu því ég varð að stýra einni. Um kvöldið var kokteill og svo kvöldmatur. Fór svo með Sari á barinn á hótelinu.

Laugardagur
Ráðstefna fyrir hádegi og síðdegis en um miðjan daginn var farið í ferð í menningarmiðstöð Ronneby og borðað þar. Þar voru þrjár sýningar, ein frá tveimur listakonum frá borginni sem höfðu ferðast um heiminn og safnað gögnum m.a. dagblöðum sem voru límd um alla veggi. Það var líka í menningarmiðstöðinni listsýning um tákn úr náttúrunni og svo ein sýning sem er víst alltaf þar og er á verkum listamannsins Uno Svensson sem býr í Frakklandi en er frá þessu svæði. Hann pælir mikið í svona genatækni og margar myndir hans lýsa á ógnvekjandi hátt afleiðingum þegar menn fara að framleiða fólk. Ég held hann pæli mikið í tæknifrjóvgun og þess háttar. Hann hefur t.d. gert myndir af dúkkum þar sem dúkkurnar eru svona mistök úr fósturframleiðslunni. Lúðrasveitin á staðnum var svo að æfa þegar við vorum að skoða sýningarnar svo þetta var ansi skemmtileg upplifum bæði hvað varðar sjón og heyrn. Um kvöldið var svo veisla í gömlum hátimbruðum leikfimissal sem stendur rétt hjá hótelinu. Núna er búið að breyta leikfimissalnum í svona þjálfunarmiðstöð fyrir kennara og grunnskólanemendur í tölvum og upplýsingatækni. Það var skemmtilegur samkvæmisleikur fyrir hvert borð, það var að fá búnka af orðum og átti hvert borð að semja ljóð úr orðunum og flytja sem þegar leið á kvöldið. Sönghópur kom fram. Fórum svo upp á hótel og vorum um stund að segja brandara, ekki alla viturlega eins og t.d. "hvaða orð nota Norðmenn yfir háhýsi eða skýjakljúfa?" Svar: hus pa hus pa hus...... og hvað heitir kvikmyndin Jaws á norsku? Svar: Kæmpetorsken. og hvað heitir kvikmyndin Inferno á norsku? Svar: "Der er ild i hytten min".

Sunnudagur
Ráðstefna um morguninn, síðan fundur eftir hádegi. Svo löng og skrykkjótt ferð til Kaupmannahafnarflugvallar, fyrst í lest, svo í rútu og svo aftur í lest og svo beint í flug heim til Íslands. Sem betur fer var ekki komin snjór og hálka því ég geymdi bílinn á flugvellinum og keyrði til Reykjavíkur. Ferðalagið frá Ronneby til Reykjavíkur tók samtals níu klukkustundir. Kom heim um miðnætti.

Draumar
Er að gera tilraun með að skrá niður drauma, ætti kannski að búa til sérstakt draumablogg. Man draum sem mig dreymdi fyrstu nóttina í Ronneby. Dreymdi að ég væri læknir og beitti lækningaraðferð sem var nokkurs konar viðtalstækni sem gekk út á að lifa mig inn í líf viðmælandans og hugsa með honum og eins og leysa upp vandamál eða flækjur þannig. Lækningaaðferðin gafst vel og ég var sannfærð um ágæti hennar en í draumnum var líka eitthvað um vesen út af lækningaleyfi, þessi lækningaaðferð hafði ekki löggildingu og ég ekki leyfi til að stunda lækningar. Man svo að í draumnum er ég búin með eitt viðtal og fer fram til að athuga hvort ég geti ekki farið en kom þá í biðstofu sem er full af fólki og er reyndar líka eins og geymsla eða vöruskáli, kössum er staflað upp. Draumurinn endaði það sem ég var að hugsa um hvað ég ætti að gera, velti fyrir mér þeim möguleika að gera einhvers konar plan eða skipulag og deila tíma niður á þá sem biðu. Í draumnum var það hins vegar í hrópandi ósamræmi við lækningaaðferðina að búta tímann svona niður í litla skammta.

13.11.01

DraumarÉg hugsa að það sé skammdegið og sú höfgi og depurð sem því fylgir sem veldur því að margir ferðast um í draumum á þessum árstíma. Kannski er ferðalagið mest inn í draumum annarra því núna detta jólabækurnar út úr draumaverksmiðjum höfundanna og við ferðumst í þeim, lifum okkur inn í dagdrauma og spuna þess sem hefur samið skáldverkið og drepum tímann. Ég sé að þjóðskáldið Hallgrímur Helgason kemur með nýjan draumapakka í ár, það er skáldsaga um rithöfundinn sem vaknar upp í eigin draumi. Ég hef verið að kynna mér höfundinn Steinunni Sigurðardóttur síðan ég fór á ritþingið hennar á laugardaginn. Ein þekktasta skáldsaga hennar heitir Tímaþjófurinn og hún hefur verið kvikmynduð. Í einni bókmenntaumfjöllun um verk Steinunnar las ég að sögupersónur hennar væru oft manneskjur sem eyddu meiri tíma í að hugsa um hlutina og fara yfir líf sitt en að lifa lífinu. Eyddu meiri tíma í að spá í ástina en að elska. Svona sögupersónur sem tærðust upp af ást og þrá og eftirsjá. Stundum finnst mér eins og við sem hrífumst af skáldsögum og lifum okkur inn í kvikmyndir séum eins og svoleiðis sögupersónur, við sökkvum okkur niður í drauma og það eru ekki einu sinni okkar eigin draumar.

Talandi um drauma þá man ég þá drauma sem mig dreymdi undanfarnar tvær nætur. Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri stödd í framandi landi á einhvers konar viðkomustað og ég gat ekki gert mig skiljanlega við neinn, reyndar fannst mér ég skilja allt sem fram fór en enginn skildi mig og ég fann heldur ekki hjá mér neina hvöt til að reyna að gera mig skiljanlega. Ég vissi eiginlega ekkert um hvar ég væri eða hvað ég væri að gera en var alveg sama um það og spáði ekkert í það. Bara var þarna og horfði og skynjaði. Tvær konur voru að reyna að finna út eitthvað um hvenær ég ætti að fara, ég held þær hafi fundið einhvern flugfarseðil með tímasetningu. Draumurinn endaði þar sem ég sat á bekk með I. að bíða eftir lest. Þessi draumur gerðist í mjög gráu og hrjóstrugu og köldu og manngerðu umhverfi, allt fullt af steinsteypu, bekkurinn var líka steyptur.

Síðustu nótt dreymdi mig miklu fjörugri og litskrúðugri draum. Mig dreymdi að ég byggi í blokk, held ég á þriðju hæð og svo horfði ég út um alla glugga og hvarvetna blasir við mér svona eins og her af fólki - já eins og her því allir héldu á spjöldum sem minntu mig á skildi og þau voru mjög litskrúðug og fjölbreytileg í lit og formi og á þau letruð alls konar tákn sem ég skyldi ekki - eins og svona myndletur þar sem á hverjum skildi var kannski eitt tákn. Og fólkið raðar sér með spjöldin eins og þéttur her eða varnarlið. Mér verður hvelft við í draumnum, held fyrst að þetta sé einhvers konar umsátur sem er beint gegn mér en átta mig svo á því að þetta hefur ekkert með mig að gera heldur er allt hverfið sem mér finnst núna vera breiðgata við strönd einhvers staðar þakið af fólki sem hefur stillt sér upp með svona skilti því það er einhver viðburður í vændum, einhvers konar hátíð. Á einum stað men ég eftir einhvers konar íþróttahátíð sem þó ekkert eins og nein sem ég hef séð. Einhvers konar tæki eða verur eða vélar sem flogið var beint upp í loftið, ekki mjög hátt, frá mér séð leit þetta út eins og fljúgandi hestar og var uppljómað. Mannmergðin fylgdist með þessu allt í kring.

11.11.01

Tímaþjófurinn


Gerði ekkert um helgina af þeim verkefnum sem hafa hlaðist upp hjá mér. Verð sennilega fram á rauða nótt að vinna í því. Eina sem ég gerði í dag og gær var að sofa og lesa bók Böðvars Guðmundssonar Lífsins tré. Í gær fór ég á ritþing Steinunnar Sigurðardóttur í Gerðubergi og kíkti á tvær myndverkasýningar það sýning í gallerý Hlemmur þar sem listakonan Ilmur Stefánsdóttir sýndi nokkur hugvitsverk og fannst mér einna flottast verkið sem var borð fyrir tvo en það var svona appelsínugulur vinnuhjálmur með plötu ofan á, handhægt í samkvæmun en kannski erfitt að fá einhvern til að bera hjálm og borð . Skoðaði líka sýningu í Ásmundarsal þar sem Margrét Jónsdóttir sýndi nokkur myndverk.

9.11.01

Grár traktor


Fór nýlega á árshátíð í Hótel Borgarnesi, við gistum þar og svo var líka boðið upp á skemmtiferð um Borgarfjörð í haustliti í Skorradalsskógi og svo að skoða búvélasafnið á Hvanneyri. Það var meiriháttar, ég hef alltaf hrifist svo af svona verkfærum og tækni sem menn nota til að umbylta jörðinni og gára yfirborðið með herfum og plógum. Líka spá í hverjir draga plóginn. Það flottasta á safninu fannst mér vera þessi gamli grái traktor og saga hans. Hann var fluttur til landsins eitthvað um 1920 en seldist ekki, bændur höfðu enga trú á traktorum þá. Svo ákvað innflytjandinn að gefa skólastjóranum á Hvanneyri traktorinn og sjá hvort hann gæti ekki eitthvað vakið áhuga búfræðinemanna. Skólastjórinn bauð upp á námskeið í traktorsnotkun en bara einn nemandi vildi fara á það. Ekki nema von, á þessum tíma voru menn mjög uppteknir af þessum nýju vélum sem hægt var að spenna á hesta og uku heyvinnuafköstin verulega. Ennþá má sjá kirkjugarða svona hestavinnuvéla við íslenska bóndabæi. Skrýtið hvað menn voru blindir á traktorinn og notagildi hans, ekki var það sama með rúllubaggana, rúllubaggabúskapur hefur gjörsigrað landbúnaðinn bara á áratug. Hvinurinn í súgþurrkuninni er hljóðnaður á íslenskum bóndabæjum.

Hvítir skuggar í hljómskálanum


Þórunn Valdimarsdóttir skrifar eina af jólabókunum í ár, það er bókin Hvíti skugginn. Þetta er held ég ein fyrsta skáldsagan íslenska þar sem sögusviðið er mikið til vefurinn og Netið. Þetta hefur svo sem verið þema í einstaka skáldverki og smásögu t.d. irkdeitin en ég man ekki eftir neinni sem er svona eins og þessi saga. Fjallar um nokkurs konar blogg. Ég hlakka til að lesa bókina. Hún gengur víst út á fólk í flækjum rekst saman og reynir að vinna úr sínum málum með því að segja sögu sína á Netinu - játa syndir sínar.

Ekki nóg með það svo hefur líka verið settur upp vefur í tengslum við bókina - hljomskali.is þar sem bersyndugt fólk á athvarf. Þar eru gestgjafar Samtök sannleikans sem ég held að líka leiki hlutverk í bókinni en um þau segir á vefsíðunni: "Þessi ameríska hreyfing byggir á þeirri sálfræðilegu staðreynd að fólk bætir líðan sína með því að opna sig. Það hefur reynst mörgum vel að koma í ræðustól í Hljómskálanum, en ekki síður að setjast síðar í ró og næði heima við tölvuna og halda áfram að ræða um sín mál á Netinu. Allir hafa aðgengi að heimasíðunni okkar en sumir kjósa að skrifa þar undir dulnefni, meðan að fleiri og fleiri horfast í augu við heiminn með allt sitt. Í þeim hópi er að sumra dómi afbrotafólk, sem kýs að hafa syndir sínar öllum opnar á Netinu, með eigin apologiu. Æ fleiri viðurkenna að gott og illt hafi óljós mörk."

Ég féll alveg fyrir þessu tali og fann hjá mér hvöt til að játa syndir mínar og skrifaði inn eina játningu. Synd sem legið hefur á mér eins og mara síðan úr barnæsku. Það var þegar ég rændi pappírsþurrkum til að pússa gleraugu í Raggabúð. Þetta svínvirkar, mér stórlega létti þegar ég var búin að játa. Ekki bara að mér létti heldur varð einhver viðsnúningur þegar ég var búin að orða glæpinn og setja hann á blað. Jú þegar ég las yfir játningu mína sá ég að þetta var næstum enginn glæpur -eiginlega frekar hetjudáð og hugsjónastarf - svona vísir að þeirri köllun sem ég hef í lífinu - þessu göfuga starfi uppfræðarans að gera fólki kleift að sjá skýrar.Þetta var ansi gefandi að finna sinn eigin glæp breytast svona í hetjudáð og ég var hreykin af sjálfri mér. Fannst þetta næstum eins gott hjá mér og það sem Geir Svansson sagði um Megas og Jónas þegar ég gekk um sýninguna Omdúran á Nýlistasafninu um seinustu helgi undir leiðsögn hans. Geir Svansson (frægur hinseginfræðingur) sagði eitthvað á þá leið að Megas hefði orðið fyrir miklum áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni og hann hefði á sinn hátt verið að heiðra Jónas með því að gera honum svona hátt undir höfði að yrkja um hann og steypa honum af stalli. Það er tær snilld að fatta að Megas var að heiðra Jónas með kvæði eins og þessu hérna , ekki hefði ég séð það nema út af þessum töfraumsnúningi bókmenntafræðingsins. Það er ekki nema von að Megas fengi verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í fyrra. Mikið hefði það glatt Sigurð Breiðfjörð.

8.11.01

Stjórnvitringur á tíræðisaldri


Ég er búin að vera að kynna mér kenningar Peter Drucker en hann er gúrú á sviði stjórnunarfræða, ekki síst þekkingarstjórnunar. Hann er nú ekkert unglamb því hann fæddist í Austurríki árið 1908 og hefur lifað tvær heimstyrjaldir og heimskreppu. Segist vera eini háskólanemandinn sem hafi bæði verið í tímum hjá Keynes og Shumpeter. Karlinn er merkilega ern og fer ekki með neinar fleipur. Gaman að lesa það sem hann er að pæla í tölvutækninni og hvaða áhrif Interneti hafi. Hann segir á einum stað um að ef til hafi tölvurnar og reiknigeta þeirra orðið til þess að stjórnendur leggðu meiri áherslu á innri upplýsingar um fyrirtæki en of litla á ytri upplýsingar. Um Internetið er hann að spá í hvort það hafi mikla efnahagslega þýðingu og spáir í hvort það geti ekki verið að það hafi miklu meiri samfélagslega þýðingu. Hann heldur líka að við séum kannski ekki búin að finna þau viðfangsefni sem Internetið er best við ennþá. Hann trúir ekki á spádóma heldur það að skynja sinn samtíma og sitt umhverfi og þekkja söguna. Þetta er stórvitur maður með mikla reynslu sem hann deilir nú líka með heiminum og í einu nýjasta tölublaði Economis er úttekt á samfélagi okkar tíma - þekkingarsamfélaginu sem Peter Drucker stýrir. En hérna eru slóðir í viðtöl við Peter Drucker og greinar eftir hann.
http://www.pfdf.org/
http://www.peter-drucker.com/

http://www.business2.com/articles/mag/0,,13967,FF.html (Sage Advice)
http://www.business2.com/articles/web/0,1653,17104,00.html
http://www.business2.com/articles/web/0,1653,17104,00.html (On the Internet's Real Impact 2001)
http://www.business2.com/articles/mag/print/0,1643,4432,00.html
http://www.theatlantic.com/politics/ecbig/soctrans.htm (the age of social transformations)
http://www.allianceanalyst.com/Drucker.html (Peter Ducker, the nonprofit prophet)
http://www.cio.com/archive/091597_interview_content.html (a meeting of the minds)
http://www.the-x-economy.com/drucker-summary.htm
http://www.wired.com/wired/archive/1.03/drucker.html (post capitalism 1993)
http://www.wired.com/wired/archive/4.08/drucker.html
(the relentless contrarian 1996)
http://www.ksg.harvard.edu/ifactory/ksgpress/www/ksg_news/transcripts/drucklec.htm (Knowledge Work and Knowledge Society 1994)
Knowledge Work and Knowledge Society (the next information revolution)
http://www.npq.org/issues/v63/p21.html (post - business society)
http://www.upenn.edu/heia/proceed/present/druckertrans.html (Research: Knowledge Generation in the Global Information Age 1998)
http://www.theatlantic.com/issues/99oct/9910drucker.htm

6.11.01

Vatn og dagur hinna dauðu


Hrekkjavakan ameríska er nýliðin, hún er 31. október en strax á eftir þann 1. og 2. nóvember halda Mexíkóbúar hátíð hinna dánu skreyta grafir með kertum og blómum borða sérstakan mat sem er hlaðinn dauðatáknum og baka brauð sem eru eins og bein og sálir og borða sælgæti sem er eins og beinagrindur og líkkistur. Ísland hefur ekki tekið upp hrekkjavökusiðinn sem þó er ættaður f´rá næstu nágrönnum, kom til Ameríku með skoskum og írskum landnemum. Ekki heldur dauðahátíðina og kannski ekki furða því hún kemur frá Aztekum að menn telja. En að kvöldi 2 nóvember þegar alþýða manna í Mexíkó þyrpist í grafreitina til að halda hátíð með framliðnum þá fór ég á fyrirlestur í sláturhúsinu á bernskustöðvum mínum í Laugarnesi. Sú grafhverfing var þó aldrei notuð sem sláturhús því þar er núna listaháskólinn.

Það var erindi myndlistarmannsins Roni Horn sem dró mig í sláturhúsið. Það var verið að opna sýningu með verkum hennar í I8 í vikunni og hún ræddi um þau verk. Ræddi í klukkutíma um vatn. Sýndi líka ljósmyndir af vatni. Kannski er hún svona hrifin af vatni af því það er gegnsætt. Eftir því sem ég hef lesið um Roni Horn þá er list hennar nátengd Íslandi, hún hefur síðasta aldarfjórðung dvalið hér marga mánuði á ári. Hún skrifar bækur og blandar saman svona texta og myndverkum. Hún er mjög upptekin af því að staðsetja (to place) og hvað felist í að vera á stað og hugmynd hennar um Ísland er að það sé sögn fremur en nafnorð. Roni Horn er kannski alveg eins skáld eins og myndlistarmaður, hún er upptekin af kynleysi, þrá og eðli tungumáls og sækir efnivið í texta eftir Emily Dickinsson. Hún hefur velt fyrir sér hvernig Emily Dickinsson sá og skynjaði án þess að ferðast og hvernig Verne gat skrifað og lýst aðstæðum á Íslandi án þess að koma nokkurn tíma hingað. Hún pælir í því hvernig umhverfið verður manneskjan, hvernig eyðimörk getur ekki gefið manni neitt nema hún sé hluti af manni og hún segir "you are the weather" eða þú ert veðrið og hún hefur gert eina bók með myndum af íslenskri konu sem á að lýsa því, myndum sem eru teknar við mismunandi veður og það er ekki hægt að þekkja að það sé sama manneskja á myndunum því manneskjan verður veðrið. Hér til hliðar er forsíðumynd úr þeirri bók. Roni Horn er merkilegur listamaður og gaman að pæla í verkum hennar, þau eru ljóð eða mynd eða eitthvað sem er ekki bundið við form. Hún segir á einum stað: "The entrance to all my work is the idea of an encyclopedia of identity". Skil þetta ekki alveg en það verð að viðurkenna að það var ekki bara listsköpun Roni Horn sem varð til þess að ég fór á þetta erindi. Satt best að segja var það vegna þess að mig langaði til að sjá hana. Sjá hvort hún er lík þeirri ljósmynd sem hefur birst af henni oftar en einu sinni í DV. Og hún var það. Var alveg eins og Magnús.


4.11.01

Hugvísindaþing - Trúarstef, Aristoteles, Nietzsche


Hlýddi á tvær málstofur á hugvísindaþingi í HÍ á laugardaginn. Ein var um trúarstef í kvikmyndum en það er hópur sem er með vefinn Deux ex cinema. Þar var fjallað um fjórar myndir en ég hef enga þeirra séð. Myndirnar voru Blár eftir Kieslowski, Cast Away, Pleasantwille og kúrekamyndin Pink Rider (eða var það pale rider) sem hefur vísun í Opinberunarbókina. Sé á vefnum þeirra trústefjunga líka umfjöllun um Bridget Jones Diary, hélt nú ekki að sú mynd væri trúarstefjuð, nú samt kannski ekki skrýtið þegar trúin er svona alltumleitandi og allt í kring. Það getur varla farið fram hjá neinum að mynd eins og Matríx er hlaðin trúarstefjum, reyndar líka með vísanir í margar aðrar sögur eins og Lísu í Undralandi. Held að allar góðar sögur hafi vísanir í tákn og minni og aðrar sögur sem líklegt er að áheyrendur þekki og virki á tilfinningar þeirra og það gera trúarleg stef.

Mjög áhugavert en ég hef samt eiginlega meiri áhuga á að tæta kvikmyndir og sögur meira niður. Pæla í hvers vegna trúarstefin eru og hvað er ofin inn í þau - hvernig þau sem og annar söguþráður vegsama eina tegund af breytni svo sem fórnfýsi og kærleika og gefur forskrift um hegðun sem er kannski mismunandi eftir því hvers kyns sögupersónan er og þar með sá sem samsamar sig sögupersónunni. Var að hugsa um þetta sérstaklega þegar umfjöllunin um myndina Blár var, mynd um frelsið - um konu sem fær óvænt og óvelkomið frelsi - hún fær frelsi með því að öll fjölskylda hennar ferst í bílslysi. Hún reynir um tíma að slíta sig frá fortíðinni en kemst að raun um að svoleiðis takmarkalaust frelsi er einskis virði og hún fellst í lokin á að ljúka tónverki sem eiginmaður hennar var með í smíðum þegar slysið varð og yfirgefur hús sitt fyrir ástkonu hans og ófædd barn þeirra. Hmmm.. trúarstef og frúarstef... mér reynist nú miklu auðveldara að lesa inn í þessa mynd fjötra. Þetta er eins og allar þessar dæmisögur Esóps sem ég las sem barn, allar þessar sögur sem gylla fjötra og húsdýrahald og enduróma að þrá eftir frelsi og hinu ókunna og ókannaða sé hættuleg. Esóps var þræll og þó sögur hans séu þúsund ára þá smýgur í gegnum þær boðskapurinn sem þrælinn og hinn ánauðugi þarf að hafa til að lifa af og þola fjötrana. Kona lifir ekki á brauði einu saman og þarf sögur og siði sem fá hana til að sætta sig við hlutskipti sitt. En kannski það sé hollt fyrir mig að horfa einhvern tíma á svona myndir með öðrum gleraugum en þessum femínisku.

Talandi um gleraugu og sjónarhorn og fórnfýsi þá horfði ég á myndina um hina sjóndöpru og fórnfúsu Selmu í Dancer in the Dark á vídeói um helgina. Stórbrotið listaverk, ég horfði tvisvar á myndina og þarf að gera það aftur. Þetta er ein af bestu myndum sem ég hef séð, ef ekki sú besta. Það snart mig djúpt hvernig sögupersónan dáleiðir sjálfa sig og hverfur inn í draumaheima til að þola við í raunveruleikanum. Svo þekkti ég þetta umhverfi sem sagan er tekin í, bústaður Selmu minnir mig á grænu sveitirnar í Iowa þar sem ég var við nám og ég hef unnið í dósaverksmiðju sem stóð nálægt Hlemmi, var þar á aukavaktinni milli klukkan fimm og tíu á kvöldin. Myndin náði samt ekki þeim hávaða sem kemur þegar málmur er skorinn, formaður og logsoðinn og ekki heldur því samblandi af kulda og hita sem ég man eftir í verksmiðjuhúsnæði á Íslandi þar sem vélar sem bræða málmasamskeyti og logsjóða eru aðalupphitunin. Ég þekki líka þessa þörf á að beita sjálfsefjun og hverfa af vettvangi inn í drauma, sennilega eitthvað sem allir reyna við óbærilegar aðstæður.

Svo fór ég á aðra málstofu þar sem femínistar fjölluðu um heimspeki. Hlustaði á heimspekinginn Vigdísi frá Noregi rekja sýn Aristótelesar á hlutverki kynjanna. Óttalegur rugludallur þessi Aristóteles en honum er kannski vorkunn, hafði enga innsýn í genahugmyndafræði nútímans en þurfti bara að útskýra náttúrannar eðli þannig að það væri valdhöfum þóknanlegt og réttlætti þeirra stöðu. Hann tjáði sig líka um þrælahald og er það álíka bull og þessi kynjapæling hans. Aristóteles hélt því fram að sæði mannsins væri það sem gæfi lífverum form, konan legði bara til efnið. Hún væri nokkurs konar blómapottur fyrir sæði mannsins sem væri eins og akarn sem sprytti í moldinni. Passar ekki vel við erfðaefnishugmyndir nútímans. Eitthvað var lagt út af þessu um þrá eftir ódauðleika og að reyna að sigra dauðann, maðurinn var að reyna að endurskapa sjálfan sig, að klóna sjálfan sig. Svo talaði Sigríður Þorgeirsdóttir og lagði út af kenningum Nietzche um dauðann. Skyldi ekki alveg hvernig það tengdist femínisma nema kannski í gegnum það að þörf mannanna til að eignast afkvæmi er hluti af hinni eilífu afneitun á dauðanum. En mér fannst áhugaverð pælingin um að það er dauðinn sem gefur lífinu gildi. Held að það sé nokkuð til í því, held við myndum ekki taka eftir að við erum lifandi nema af því að okkur er áskapað að deyja einhvern tíma. Hvernig myndi ódauðlegur maður skynja dauða? Kalla það breytingar eða upplausn lífsforma ef hann sér dauða í umhverfi sínu.
Internet Women's History Sourcebook

2.11.01

Hagkaupssloppur og heimilishjálp


Ég er búin að vera að þvælast á vefsíðum héraðsdóma og leita að þessum dómi öldruðu konunnar sem sveik út fé úr mörgum einhleypum karlmönnum og var dæmd til að greiða einn tíunda part til baka. Búin að leita af mér allan grun um að þeir dómar eru ekki aðgengilegir á Netinu ennþá. Sá eitthvað um málið í fjölmiðlum og langaði til að kynna mér þetta nánar. Heyrði eitthvað um að þessi mildi dómur væri út af því að málið hefði verið sótt á vitlausum forsendum. Líka að þessi sem tapaði einna mestu og hefði ekki ætlað að halda kæru til streitu en svo hætt við og það þá ekki verið tekið til greina því að konan hefði byggt málflutning sinn á því að sú kæra kæmi ekki fram. Finnst þetta alveg einmuna mildir dómar um frekar stórt (í krónum talið) brot og veit mörg dæmi að harkalegra hafi verið tekið á fólki sem prettar og lýgur. Getur verið að lygna konan hafi logið sig líka inn á dómarana að þeir hafi bara komist við af hennar sannfæringarkrafti um hennar vesæla líf. Þetta er kona sem er búin að þola margt mótlæti og misst mörg börn. Að eigin sögn.

Mikið finnst mér leiðinlegt að geta ekki flett upp dómnum á Netinu. Verð þá bara að reiða mig á þessa óformlegu orðræðu og slitrum sem ég man úr fréttum af málinu. Hitti skólasystkin mín að vestan um daginn og þau sögðu að hún hefði hringt í frænda annars þeirra, það var aldraður einstæðingur, bóndi úr afskekktri sveit sem var nýbúinn að bregða búi og selja jörðina sína. Hún bar sig aumlega og bað um lán. Bóndinn gamli spurði hvað hún hefði fengið upplýsingar um hann og jarðasöluna. Hún sagðist bara hafa hringt í bændasamtökin. Svo heyrði ég líka sögu af einum sem missti víst mikið fé af viðskiptum við konuna. Konan hafði verið heimilishjálp hjá manninum. Sá hafði verið æði aðhaldssamur gegnum tíðina og var altalað að hann lúrði á fé, ekki var hann að eyða og spenna. Eina sögu heyrði ég af samhaldsseminni en hún er svona: Móðir hans öldruð bjó út í sveit en var orðin lasburða og veik og þurfti að fara í rannsókn til læknis hér í höfuðborginni. Sonurinn tekur þá gömlu með sér um borgina, hún hafði nú ekki komið þar áður og fór með hana í Kringluna. Hún fer í Hagkaup og verður þar yfir sig hrifin af einum sloppnum í Hagkaup og langar þessi ósköp í hann. Sonurinn sparsami segir þá: "En mamma - eigum við ekki að bíða og sjá hvað kemur út úr rannsókninni?". Þetta er auðvitað skrök og klassísk nútímaþjóðsaga. En Hagkaupsslopparnir voru flottir og tákn um veröld sem var.