26.2.02

Feminismi


"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" eru þekkt orð höfð eftir Voltaire. Kom þessi setning í hug um helgina er ég ræddi við ungan velmenntaðan mann sem ég hef aldrei talað við áður. Við ræddum um störf Kristínar Ástgeirsdóttir í Kosovo og talið barst að stöðu kvenna á vígaslóðum. Maðurinn sagðist ekki skilja þessi kvein um að konur væru lokaðar inni og réttlausar í Afganistan, ástandið væri jú þannig að karlmenn væru teknir í hópum og skotnir, konur mættu bara vera fegnar að vera lokaðar inni. Ég varð kjaftstopp. En þetta vakti mig til umhugsunar um hvort mín viðhorf væru ekki jafnstuðandi á einhverja og þessi voru á mig. Ég er feministi og get ómögulega séð annað en það sé einn angi af friðsamlegri og skynsamlegri mannréttindabaráttu og held að fólk sem ekki er sama sinnis hljóti að vera að grínast.

En ég vildi að ég hefði sagt við manninn svona í femíniskum voltaire-anda: "Ég fyrirlít skoðanir þínar og þó ég sé reiðubúin til að láta lífið fyrir rétt þinn til að tjá þær þá ég er líka reiðubúin til að berjast gegn því að þú lokir mig inni vegna þeirra."

24.2.02

Flassarar á vefnum


Már mælir skarplega þegar hann bendir á hvernig auglýsingafólkið reynir að ímynda sér að vefurinn sé sjónvarp. Ég held svosem að flash sé ekki alltaf slæmt.

Námskeið og djamm

Var á námskeiði fyrir þá sem eru á viðbragðslista Íslensku friðargæslunnar á laugardag og sunnudag. Hundrað manns voru á námskeiðinu, fólk hafði mismunandi bakgrunn, ég sat hjá hjúkrunarfræðing sem hefur bæði verðið í Bosníu og Súdan og sagnfræðingi sem hefur sérþekkingu á sögu Rússlands og var í mörg ár í Pétursborg. Margt fólk sem vinnur á fjölmiðlum var þarna. Á laugardagskvöldið var veisla á veitingastað og síðan fór ég í heimsókn og seinna um kvöldið á bari í miðbænum. Veislan var fín en ég hefði betur sleppt barferðinni. Það er ömurlegt að horfa á fólk drekka frá sér ráð og rænu.

23.2.02

Föstudagskvöldið - Bíósýning, skrifstofuboð, boð í vesturbænum


Eftir vinnu í gær fór ég á bíósýningu sem bróðir minn stóð fyrir. Hann var að sýna ansi skemmtilega mynd sem ég held hann hafi gert sjálfur og var um Viðreisnarárin. Tilefnið var að hann var að skipta um skrifstofu og þess vegna bauð hann um hundrað manns á bíósýningu að skoða nýju skrifstofuna sína og fá snakk og bjór. Systir mín ætlaði að koma í bæinn og fara út til Möltu á morgun en var veðurteppt í hríðarkófinu á Vestfjörðum.

Ég fór í matarboð til vinkonu minnar, það var guðdómleg fiskisúpa og einhvers konar avokadósalat. Matargestirnir voru skemmtilegir og ræddu m.a. um heimspeki, guðfræði, sálkönnun og miðaldafræði. Það var líka rædd kenning um náttúruörnefni og ég heyrði sögu af ferð um landið á alla Finnastaði og Hjaltastaði, það var til að skoða þá kenningu að Finnastaðir væri afbökun, þeir væru í nánd við fen og að Hjaltastaði drægju nafn af hjöllum. Það voru lesin ljóð eftir ungverskt ljóðskáld (Atila? - man ekki nafnið ) og sagt frá lífi skáldsins, farið með hugleiðingu um tómið og ég las pistill um Finn Magnússon og Runemo.

22.2.02

Mikið að gera


Nú er mikið að gera og skemmtilegt framundan. Var rétt áðan að fá nýja tölvu í vinnunni. Stefni á að fara í tvö boð í kvöld og svo á námskeið hjá Íslensku friðargæslunni allan laugardaginn og fyrrihluta sunnudags. Þarf að undirbúa mig fyrir helgarnámskeiðið með því að lesa um Sameinuðu þjóðirnar (UN) um öryggisráðið, allsherjarþingið og sérstök heimasíða friðargæsludeildar samtakanna (Dpt. on Peacekeeping) og um NATO um friðargæsluaðgerðir NATO í Bosníu, Kosóvó og Makedóníu (m.a. undir topics). og um Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE) en þar þarf ég að lesa handbók ÖSE. Svo líka eitthvað um ESB og þar um EU Institute of Security Studies (formerly the WEU institute) og skoða heimasíðu Matvælastofnunar Sþ.

21.2.02

(Ekki) Með skáldumÞað verður kynning og formleg opnun í kvöld kl. 20.00 á ljóð.is en þar á gestur og gangandi að geta hent inn ljóðum og ég var einmitt að prófa það áðan. Skráðu mig inn og fékk notendanafn og lykilorð og eigið heimasvæði þar sem ég gat skrifað inn ljóð. Ég gerði það. Svo ýtti ég á búið og allt hvarf. Samt hef ég ekki sest á skáldabekk enn og ljóðið mitt kemur ekki fram. Mig grunar að það sé út af einhvers konar ritskoðun á ljóðum, það var einhver ummæli um að aðstandendur vefsins þyrftu að samþykkja ljóð til birtingar. Mér finnst þetta svolítið eitrað, sé ekki tilganginn með setja aukagirðingar og þröskulda, sniðugra væri að ljóðin birtust strax og einhver fengi þau í póst og gæti litið yfir hvort þar væri svo mikill ósómi að það mætti alls ekki birtast á Interneti. En ég æstist svo mikið í birtingarþörf minni á ljóðinu sem fékk ekki að birtast strax á ljóð.is og sem ég orti fyrir nokkrum árum og tileinka Rimahverfinu og norðlensku stórskáldi að ég birti þar bara hér á mínum vefleiðara strax því þar ræð ég ein allri ritskoðun. Líka svo viðeigandi því að einmitt núna er ég að horfa út um gluggann á loðnuskip brenna í Reykjavíkurhöfn og þar er allt tiltækt slökkvilið borgarinnar núna.

Steinolíustrákurinn


Þegar borgin rumskar
læðist Steinolíustrákurinn
inn í grátómu húsin.
Tifar á strengjasteypunni
og safnar sprekum í eldinn.

Þegar borgin sprettur á fætur
með sírenuvæli, hrópum og skarkala
og gráir bólstrar teygja sig til himins
þá veit hann
að þeir njóta eldanna best
sem kveikja þá.

Viðbót: Var að sjá á mbl.is að loðnuskipið sem brann heitir Eldborg. Því til heiðurs og í tilefni þess að ég hef hér birt í fyrsta skipti ljóð opinberlega þá breyti ég hér með nafninu á ljóðinu, það heitir ekki Steinolíustrákurinn heldur heitir það hér eftir Eldborg.

20.2.02

Hrannar í rusliHrannar Samfylkingarprófkjörsframbjóðandi hlýtur að vera í rusli út af úrslitum í prófkjörinu en ég heyrði svo mikið talað um áðan einhvern ruslpóst eða einhvern bækling um rusl eða ruslpóst, veit ekki hvað því ég hef ekki séð þetta en þetta þykir athugunarefni og þetta er víst glerfín hönnun, svona bæklingur með dyrum svona eins og konfektkassi og þegar maður opnar þær blasir Hrannar brosandi við. Eitthvað á vegum einhverrar umhverfisnefndar eða Sorpu eða eitthvað. Leitaði smá á Netinu en finn þennan bækling ekki þar svo ég get ekki tengt í hann. En tengi í Sorpu í staðinn.

Maður íslenzkurÉg fór á hádegiserindi Sagnfræðingafélagsins í Norræna húsinu í gær. Unnur B. Karlsdóttir flutti þar erindi sem hún nefndi Maður íslenzkur. Um samband þjóðernis og kynþáttar. Unnur sem er af Brúsastaðaættinni hefur skrifað bók sem segir frá hugmyndum manna um að kynbæta fólk, hvernig þær komu upp í Ameríku og Evrópu og bárust til Íslands. Erindið fjallaði um íslenskar hugmyndir um hreinleika þjóðarinnar og blendningsþróttinn í kelta-germana mixinu sem hér nam land. Unnur vitnaði í útlitslýsingar Njálu á þeim eðalbornu hetjum sem þá riðu um hetjur og var ekki Gunnar "... vænn að yfirliti og ljóslitaður, rétt nefið og hafið upp í framanvert, bláeygur og snareygur og rjóður í kinnum, hárið mikið, gult, og fór vel."

Unnur sýndi fram á hvernig Jón Sigurðsson hefði endurómað þessar hugmyndir og margir aðrir Íslendingar eins og hann Guðmundur Hannesson landlæknir sem kenndi Íslendingum að byggja hlý hús og er frændi minn af Guðlaugsstaðaætt . Í umræðunum á eftir tók ég mest eftir athugasemdum um stað og orð, einn fundarmanna benti á hve Norræna húsið væri skemmtileg umgjörð utan um tal um fordóma fyrri kynslóða og eitthvað fannst fólki orðið nýbúi vera orðið hlaðið fordómum og vilja nýtt orð.

17.2.02

Miðsvetrarblót


Svo segir í Sögu daganna: "Á síðara hluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að tíðka samkomur sem þeir kölluðu "Þorrablót" að fornum hætti, matar- og drykkjuveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni Þorra og heiðinna goða. Einkum var Þór tengdur þorranum." Ég fór á þorrablót á föstudagskvöldið og síðla nætur fór ég á Næstabar sem varð minn blótstaður og Þórshof þessa nótt. Þar hitti ég tvær konur sem bera nöfn Þórs. Önnur er Þóra Þórisdóttir myndlistarkona sem hefur baðað sig í víngarðinum og saumað í brúðarlín. Skrýtið að Carl Larsson sem þekktur er fyrir heimilislegu myndirnar sínar hafi málað þessa veggmynd af miðsvetrarblóti þar sem konungi er blótað en Carl Larsson sækir efniviðinn í Ynglingasögu .

Á laugardagskvöldið fór ég á spilakvöld í Kópavoginn en við spilum Standard kerfið. Eins og venjulega fór eins mikill tíma í miðlun frétta frá vinkonum mínum, ég heyrði allt um Brian Tracy en ein hafði verið á helgarnámskeiðinu ásamt hinum 700 Íslendingunum og ég fékk fræðslurit Tourette samtakanna en ein er formaður þeirra. Skemmtilegasta sagan var þó frá einni sem fór á einhvers konar fulltrúafund útbreidds félagsskapar sem er líka alþjóðlegur og lætur til sín taka á mörgum sviðum. Það voru fulltrúar frá þrjátíu íslenskum klúbbum og það var verið að greiða atkvæði um hvað ættu að vera helsta baráttumálið árið 2002. Hún varð svo hissa þegar hún heyrði tillöguna um baráttumálið að hún ákvað að sitja hjá og þar varð bara soldið uppistand út af því. En tilllagan var samþykkt með 29 atkvæðum og ein sat hjá. Þannig að baráttumálið á árinu 2002 hjá þessum félagsskap er herferð á móti tyggjóklessum.

15.2.02

Hreisturgerð 2002Mér finnst tölvuorðanefnd hjá Skýrslutæknifélaginu bara stikla á stóru (hypertext=stiklutexti) að uppfræða lýðinn (Internet=lýðnet) og það bráðvantar íslensk orð fyrir sumt nýtt í vefskrifatísku og hönnun. Sum orð eru líka svo óþjál og tæknileg og ógagnsæ, ég var að sjá að nú stendur yfir GUI olympics þar sem "User Interface Designers" eða "skin authors" geta skilað inn tillögum. Hvernig þýðir maður þetta? Viðmótshönnuður...dáldið mörg atkvæði...kannski betra að kalla bara hreistrara eða skinnfyllir ... eða dusta rykið af orðinu holdtekja... hmmm...hljómar eitthvað biblíulega eða lostalega...

.... ef það væri ekki verið að mölva sundur húsið hérna við hliðina á mér og það hefði verið borað viðstöðulaust í nokkrar klukkustundir og hávaðinn væri ekki svona ærandi og ég alveg að sturlast þá væri ég ábyggilega ekki núna að spá í að hlaða niður þessu efnafræðisetti og leika mér að því núna þegar ég er í vinnunni.....Nei... Ég stóðst freistinguna með efnafræðidótið. Enda varla búin að jafna mig eftir baslið sem ég lenti í þegar ég hlóð niður fjallagerðarforriti í fyrrakvöld, það voru með því alls konar demomyndir af rosafínum og tignarlegum snæþöktum fjallstindum og vötnum sem maður átti að geta búið til en mér tókst bara að tjasla upp nokkrum hundaþúfum og þær voru forljótar.

The Blogger´s Manifesto


Æ, mér finnst eitthvað svo aumingjalegt hjá mér að vera ekki búin að búa til og birta vefskrifara Manifesto eins og allir alvöru- og alvörulausu bloggararnir. Már er búinn að því.

Bara ég gæti flogið...


Sá þetta sniðuga flugtæki á cnn.com, heitir Millennium Jet og kemst bara nokkra metra frá jörðu núna. Skemmtileg hugmynd ef þetta þróast áfram og þarf ekki flugbrautir til lendingar, bara pompar niður. Hmmm... skyldi þetta verða komið í almenna notkun þegar næst á að taka ákvörðun um hvort flugvöllurinn verði í Reykjavík? Sniðugt að skemmtilegustu hugmyndir um samgöngutæki sem ég hef séð núna síðustu mánuði þ.e. þetta og Segway eru smátæki sem einstaklingar nota og sem leysa knýjandi samgönguvandamál í borgum.

Talandi um samgönguvandamál í borgum þá finnst mér hryllilegt að ekki skuli vera tekið á vandamálum varðandi stærstu krossgötur í Reykjavík. Ég fór nýlega á fund um skipulagsmál í Reykjavík og þar kom fram (ef ég tók rétt eftir) að tryggingarfélögin greiða mörg hundruð milljónir á ári vegna slysa og árekstra á Miklubraut, langflest við gatnamótin Kringlumýrarbraut - Miklabraut. Ég hef sjálf lent í árekstri á þessum gagnamótum, það var fyrsti bíllinn minn, Austin mini, yndislegur bíll og ég var sorgmædd þegar hann var dreginn í burtu gerónýtur frá árekstrinum. En ég lifði.

14.2.02

Hjálpartæki ástarlífsins


Hvar og hvernig finnur fólk annað fólk? Vini, elskendur, félaga. Flestir eignast vini og elskendur í gegnum það umhverfi sem þeir ferðast mest í. Æskufélagar eru leikfélagar úr næsta nágrenni og vinirnir koma úr hópi skólafélaga, vinnufélaga og fólks sem hefur náð saman gegnum sameiginleg áhugamál. Ástvinir finna hvern annan á sömu stöðum en líka gegnum að fara á staði þar sem það liggur í loftinu að fólk í makaleit sækir, svona höslmarkaði hvort sem það er á irki eða miðbæjardjammi. Það eru mismunandi siðir eftir menningu hvar fólk ber niður í leit að einhverjum líklegum, ég var einu sinni að heimsækja Vestur-Íslendinga í Kaliforníu og var að segja þeim frá ættingjum heima á Íslandi, þar á meðal nokkrum myndarlegum ungum mönnum sem hefðu ekki fest ráð sitt og það væri illt í efni því þeir væru ekkert að djamma og kynntust þar að leiðandi engum stúlkum. Vestur-Íslendingurinn leit skilningsvana og undrandi á mig og sagði: "Hva - því fara þeir ekki í kirkju?".

En svona er nú það, ég hef ekki heyrt neitt af því að fólk í makaleit sæki í messukaffin í íslensku kirkjunum en frekar meira um að það skoði sig um á einkamal.is og er það ein vinsælasta íslenska vefgáttin. Mér sýnist mörgum ganga betur í ástarlífinu ef þeir bera sig eftir að nýta tæknina sem hjálpartæki, skrá sig á stefnumótasíður, vera á irkinu (er það kannski úrelt?) og kannski er gemsinn eitt mikilvirkasta hjálpartæki ástarlífsins. En mér finnst auglýsingarnar á einkamal.is vera voðalega hversdagslegar og er hissa á að fólk reyni ekki að draga upp betri mynd af sjálfum sér ef því er alvarlega að leita að félaga.

Svo eru sumar auglýsingarnar bara eins og frá einhvers konar einkafyrirtækjum eins og þessi sem ég er mjög hneyksluð á (út af stafsetningunni auðvitað, hefur fólk aldrei heyrt talað um stafsetningarleiðréttingaforrit!!!): "...oska after að kinnast fjarshlega vel stoddum helst giftum karlmonum með tilbreitingum i huga,er til i alt.sendu mer linu ---XXXXXhotmail.com---aðeins eldri korlmonum,er 27 ara mjog falleg og heit með stor brjost kvk. "

Ég ætlaði svona í tilefni Valentínusardagsins að fara að kynna mér ástarlífið á Netinu en það var ekkert sem kveikti á einkamal.is svo ég held að það sé bara betra að fá útrás fyrir rómantísku hliðina á www.ljod.is núna geta allir sem vilja sett þar inn ljóð. Kannski ég geri það.

13.2.02

Öskudagur 2002Rigning og rok. Dagurinn var líka merkilegur því í dag fór ég í fyrsta skipti í Smáralindina. Það kom mér ekkert á óvart hvernig þar var umhorfs, líktist öllum þessum bandarísku mollum sem ég hef farið í og get ómögulega þekkt hvert frá öðru. Við lindina var fullt af smávöxnu fólki sem margt hvert var illilegt ásýndum og huldi ásjónu sína undir grímum og nornahömum. Einstaka bjartálfi brá fyrir en mest var af svartálfum, myrkraverum, bófum og skrímslum. Þetta fólk virtist hungrað og þurfandi því það betlaði mat og safnaði í skjóður sínar og poka og víða mátti sjá það éta upp úr pokunum. Það gekk illa að komast í bæinn eins og alltaf þegar ég hætti mér svona langt út í jaðarbyggðina. Ég villtist á leiðinni úr Smáralindinni og lenti lengst upp á heiði á Rjúpnavöllum en svo virðist sem margir séu núna að setja niður nýbýli þarna á heiðunum.

12.2.02

Áhrifamestu vefverkfærin

Guardian Unlimited birti í desember 2001 greinina The Seven Wonders of the Web sem eru Google, Yahoo, Project Gutenberg, Multimap, Ebay, Amason og Blogger. Ég fór að spá í hvaða veftól hafa verið mestu áhrifavaldar í lífi mínu eða opnað augu mín fyrir nýrri notkun. Kom upp með þennan lista:
Google (og áður altavista) - æðisleg leitarvél
Yahoo - vefgátt með öllu.
Napster - nýtt vinnuumhverfi - allir setja pláss á sínum diskum undir sameiginlegt svæði
Usenet - antik. Internetráðstefnur sem ég les ekki lengur en gerðu mér hér á Íslandi kleift að fylgjast með.
ELM - antik. Eina forritið sem ég notaðu í meira en áratug en get ekki notað lengur því allir sem ég er með póstföng hjá hafa skrúfað fyrir telnet aðgang. En nú er vefpóstur og að geyma póst á vefþjóni líka orðið inn aftur svo mér er sama.
Mosaic - Kynntist þessum antik vefrýni árið 1994. Svo kom Netscape og útrýmdi honum. Held reyndar að IE sé sprottinn upp úr Mosaic.

11.2.02

Hvað les ég á bloggi?


Már setur fram lista yfir uppáhaldsvefleiðara sína og þá fór ég að spá í hvernig ég myndi hafa þann lista. Renndi yfir vefleiðara á nagportal og rss.molar.is og pældi í því. Hef reynt að fylgjast með mörgum af og til undanfarið ár, er að spá í hvort fyrirbæri af þessum toga muni breyta umræðu og fjölmiðlun, sama og ég var að spá í fyrsta blogginu.

Held ég sé næstum alæta á blogg...hmmm...þegar ég hugsa þetta nánar þá er nú sumt sem mér finnst ekkert spes. t.d. allt trúboð. Finnst ekki svo skemmtilegt að setja mig inn í hugsanir fólks sem hefur uppgötvað einhvern stórasannleika sem það hamrar á og telur að það hafi ekkert að sækja út fyrir sjálft sig og geti ekkert lært af öðrum, allra síst þeim sem eru öðruvísi. Svo er líka með bloggara eins og fólk í daglega lífinu, það eru til orkusugur sem eru svo magnaðar að maður finnur hvernig lífsþróttur og lífsgleði fjarar út við að setja sig inn í hugarheim þeirra. Aðrir eru hins vegar svo kátir og kankvísir í skrifum sínum að maður kemst í gott skap við að lesa skrifin þó þau risti kannski ekki djúpt. Skemmtilegast finnst mér samt að lesa skrif pælara sem leyfa sjálfum sér að þroskast og leita að efnivið til þess.

Almennt hef ég stutt athyglisspan þannig ég les helst stutt og skýr blogg sem fjalla um eitthvað ákveðið efni. Þó mér finnist alveg ágætt að lesa djúpar pælingar um andans jöfra og útleggingar á hringiðu heimsviðburða þá finnst mér stundum alveg eins merkilegt að fylgjast með fólki í dagsins önn og pælingum um hversdagslega viðburði og heimilishald. Kannski er frásögn um mislukkað matarboð 4. febrúar í Víkurbakkanum í Breiðholti alveg eins djúp og fussusvei greinar póletísku vefritanna.

10.2.02

Blogglist


Ég hef verið að þróa nýja listgrein og hér eru fyrstu þrjú verkin sem ég gerði.Þetta gengur út á að gera lítil textalistaverk úr spakmælum bloggara sem eru bara einhverjar setningar sem ég finn í vefannálum og sem mér finnst merkilegar og myndrænar. Blása svo upp einstök orð og reyna að sjá myndina í þeim og túlka hana með hráu letri - svona eins og teikna með grófum leturpenna.
Doc Searl skrifaði í gær um tengingar sem ekki virka (hina frægu 404 villu - vefsíða finnst ekki). Hann talar um hve mikil áhersla er lögð á viðmótið og gott útlit, að síður séu fljótt að hlaðast upp en svo gleymist í hönnun að spá í krækjurnar og að vísanir haldist alltaf réttar og óbreyttar. Stundum haga þeir sem setja efni út á Internetið því svo að efnið hverfur eða flyst til í aðrar möppur eftir einhvern tíma og þá virka engar tengingar. Doc mælir svo:
"Links are fundamental to writing and publishing on the Web.
Writing for the Web without linking is like eating without digesting. It's literary bulemia.
Disrespecting the links others have made to your work is irresponsible to their good intentions and disrespectful to your own authority as a source. It says fuck-you to the world and to your own ass."
Það er sagt að tvo verkfæri séu að breyta því hvernig við notum vefinn og það eru leitarvélin google og svo vefannálaverkfæri eins og blogger o.fl. Google leitarvélin er eins og framlenging á skammtímaminni okkar og hún er meira, hún er minni allra sem hafa notað vélina og hún vex og dafnar og lærir eftir því sem fleiri nota hana. Vefannálarnir eru líka framlenging á minninu og svona sameiginleg hugsun. Google og blogg eru þannig með í að búa til ALMENNING (shared space) á Netinu eða eitthvað sameiginlegt svæði þar sem margir hugsa saman í.

Ég held að það sé einhvers konar eðlishvöt hjá manneskjunni að líma sig við aðrar manneskjur, ég er ekki einu sinni viss um að það sé skynsamlegt að skilgreina lífveruna manneskju sem einstakling, frekar en skoða einn maur í maurabúi, alveg eins sniðugt að skilgreina lífveru stærri, sem samfélag eða sem borg. Sæborg kannski. En Weinberger tók þessa skemmtilegu líkingu sem minnir mig á bútasaum og hann er nýbúinn að gefa út bókina Small Pieces - Loosely Joined sem hann hafði allan tímann út á vefnum og leitaði eftir ábendingum meðan hann var að skrifa hana í fyrra.

Talhús


Skemmtilegt hvernig Reykjavík hefur fyllst af kaffihúsum undanfarin ár. Ég held að það að sitja á kaffihúsi eða einhverjum álíka samkomustað sé stór partur af félagsneti fólks í sumum samfélögum, þar er fréttum miðlað, skoðanir reifaðar og málin krufin. Stundum eru sagnakvöld, ljóðakvöld eða uppistand á kaffihúsum og börum en ég held að þessi hugmynd að hafa talhús (conversation cafe) hafi ekki borist hingað. En það er góð hugmynd.

4.2.02

Vefsíðusnið


Það urðu tímamót í vefsíðugerð hjá mér í byrjun þessa árs. Nú vil ég helst nota tilbúin snið (template) við alla vefi og eyða sem minnstum tíma í tæknileg atriði varðandi framsetningu efnis. Ég er þegar búin að setja upp þrjá vefi sem nota tilbúin ókeypis snið sem ég fann á Netinu. Mér sýnist verðið fyrir snið vera í flestum tilvikum innan við 3000 íslenskar þannig að það borgar sig tvímælalaust að byggja á einhverri tilbúinni hönnun. Ég er líka núna að gera tilraunir með kennsluvefi sem eru þannig að ein vefsíða er dagbók uppfærð í blogger en hinar síðurnar bara venjulegar vefsíður. Með þessu vil ég sýna nemendum á námskeiði hjá mér hvernig við getum búið til vefi sem er svo auðvelt að uppfæra. Mér finnst líka svona kennsluvefir með bloggi á forsíðunni vera sniðugir í fjarkennslu. Hér eru nýju vefirnir mínir þrír:
1. Nám og kennsla á Netinu 2002 vefur fyrir námskeið í fjarnámi við Kennaraháskólann
2. Vefsíðugerð vefur um vefsíðugerð í Dreamweaver og myndvinnslu í Fireworks
3. Vefhönnun vefur um framsetningu ýmis fræðsluefnis á vefnum.

2.2.02

Vefleiðari í kennslu


Nú hefst fyrsta tilraun mín á því að búa til sérstakt blogg sem á að vera eins konar fjarkennsla, svona hluti af fjarkennsluvef um vefsíðugerð í Dreamweaver 4. Ég hlóð niður svona sniði fyrir blogger sem mér fannst hæfa þessu og svo setti ég inn nokkrar síður og lagaði forsíðuna. Afraksturinn er þessi vefur Vefsíðugerð.