27.6.02

Þessa heims og annars


Vefsíður Agnariusar og Braga bera með sér að þeir höfðu áhuga á dulrænum efnum og trúmálum.

Mótmæli fyrir þrjátíu árum


Var að blaða í Öldinni okkar og las að í maí 1972 kom utanríkisráðherra USA í opinbera heimsókn til Íslands. Ísland var fyrsti áfanginn á ferðalagi hans um átta Evrópulönd. Það átti að sýna honum og fylgdarliði hans Handritastofnun en þá var þar fyrir hópur ungs fólks sem meinaði honum inngöngu. Það varð að hætta við þá heimsókn. Þegar farið var til Keflavíkurflugvallar voru mótmælendur komnir á Álftanesveg í tveimur langferðabílum. Hafði fólkið meðferðis bensínbrúsa, var farið að hella bensíni á veginn og gerði sig líklegt til að kveikja í því. Stöðvaði lögreglan frekari aðgerðir og tók mikið af pappasaum og pappaspjöldum sem nöglum hafði verið stungið í gegnum og ætlunin var að sögn lögreglunnar að dreifa á veginn fyrir bifreiðar gestanna. Til þess að ekki þyrfti að aka gegnum elda og naglahrúgur þá var bílalestinni ekið neðri leiðina.

Í október 1972 þegar átti að setja Alþingi og þingmenn og forsetahjónin og biskup voru á leið úr dómkirkjunni í Alþingishúsið þá hljóp maður með fötu í hendi og jós úr henni skyrblöndu yfir þá sem voru fremstir. Hann náði að skvetta á um tuttugu manns. Þetta var Helgi Hóseasson sem er held ég ennþá að mótmæla við ýmis konar tækifæri einhverju sem ég skil ekki hvað er.

25. maí 1973 var afar fjölmennur mótmælafundur á Lækjartorgi, talið er að þar hafi verið um 30 þúsund manns. Það var verið að mótmæla innrás breska sjóhersins í íslenska fiskveiðilandhelgi. Eftir fundinn réðst hópur fólks á breska sendiráðið með grjótkasti.

Í lok maí 1973 kom Nixon forseti USA til Íslands til fundar við Pompidou Frakklandsforseta. Þeir funduðu á Kjarvalsstöðum. Hérstöðvarandstæðingar héldu mótmælafund við Sjómannaskólann.

Annars byrjaði að gjósa í Vestmannaeyjum í janúar 1993.

26.6.02

Púsluspil bernskunnar



Kristín kom í gær vestan af fjörðum og Magnús kom í nótt frá Spáni. Hann dvaldi fyrst nokkra daga í Barcelona og ók svo um Spán, Frakkland og Portúgal og var einn dag í Afríku. Hann sagði að ein áhrifaríkasta sýnin á ferðinni hefði verið þegar hann kom niður úr Pyreneafjöllunum frá Frakkland til Andorra, þá hefði ævintýralega fallegt landslag opnast fyrir honum og hann þekkti þetta landslag aftur þó hann hefði aldrei komið þar áður. Mundi eftir því að þegar hann var barn í norðlenskri sveit á Íslandi þá hefði hann raðað saman púsluspili einmitt með mynd af þessum fjallasal.

SMS ferðasaga
Það er sniðugt að nota SMS til að láta vita af sér í útlöndum. Getur líka virkað eins og nokkurs konar dagbók yfir ferðina. Hér eru SMS frá Magnúsi á meðan á ferðinni stóð og ferðasagan sem hann skrifaði niður út frá þeim:

5-10. júní. Vikuferð Starfsmannafélagsins Reykjavík til Barcelona.
Í "hrútakofann" Hotel Marvi var ég sendur ásamt Þorsteini, Hilmari, Steingrími, Erni og Þórhalli. Héldum við nokkuð hópinn þessa viku. Morgunverðurinn var fátæklegur: Tvær litlar bollur, smá smjör og sulta, lítið glas af appelsínusafa og kaffi. Þar sem ég hafði verið þarna í tvær vikur fyrir ári síðan, tók ég að mér hlutverk leiðsögumanns. Fyrsta daginn gengum við 15-20 km. Niður Römbluna að Kólumbusarstyttuni, út í Magne Marum þar sem litið var inn á Írskan bar beð beinni útsendingu frá HM í fótbolta. Þaðan í gamla verkamannabústaðahverfið Barceloneta og niður á ströndina, en hún er gerð af mannahöndum með aðflutningi á sandi. Þaðan í Ólympíuþorpið og garðinn Ciuetadella, upp að nautaleikvanginum, kirkjunni Sagrada Familia og í gamla spítalahverfið. Þaðan til baka niður á Plaza Catalunya, framhjá Gaudi husinu Casa Mila. Á næstu dögum var m.a. farið með kláfnum upp í fjallið Montjuic, á gosbrunnasýningu við Konungshöllina, upp í Kristsstyttuna í Tibidabo (Tibidabo merkir "allt þetta skal ég gefa þér ... " og vísar þar til flökkusagnar um Djöfsa og Jesú úr Biblíunni. Annars eru Kristsstyttur víða uppi á hæðum við borgir á Spáni). Farið var í strandbæinn Sitges og rölt um gamla bæinn Barri Gotic. Í ferðinni í klaustrið Í fjallinu Monteressat tókum við Hilmar góða rispu og klifum hæsta tind fjallsins. Náðum í rútuna rétt fyrir brottför. Að morgni 11. júní lauk þessari viku starfsmannafélagsins og við tók tveggja vikna ferðalag á bílaleigubíl sem ég tók og skilaði á flugvellinum. Steingrímur fékk far til Madríd með viðkomu í Baskalandi.

11. júní Hi vid SJ erum núna í Bilbao, skoðuðum í dag Zaragossa og San Sebastinan í Baskalandi.
Zaragossa er gömul borg, byggð við Ebró fljótið. Yfirleitt byggðust gömlu borgirnar á Spáni upp við ár eða hafnir. Dómkirkjan er voldug eins og í öðrum gömlum borgum frá stórveldistíð Spánar. Það verður nú að segja það að katólsku kirkjurnar eru nú glæsileg mannvirki og innréttingar stórfenglegar. San Sebastian er gamall sumardvalarstaður efnaðri spánverja frá seinni hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar, áður en Miðjarðarhafsstrendurnar komust í tísku. Þarna er fallegt, brimströnd, fljót með fullt af fiski og að sjálfsögðu Kristsstytta á hæð fyrir ofan borgina. Enga höfn sá ég þarna, ólíkt öðrum gömlum strandborgum Spánar. Í Baskalandi er töluð baskneska og er hún óskyld öðrum tungumálum. Baskar eru með tilburði til sjálfstæðis innan Spánar á sama hátt og Katalónar og Galisíumenn.

12. júní Komnir til Madrid, skoðuðum Gluggenheim safnið í Bilbao í morgun og höfuðborg Kantabríu Santander.
Guggenheim byggingin er mikið mannvirki úr stáli og gleri og sómir kannski sem slík þessari iðanaðarborg. Hins vegar finnst mér hún ekki henta vel sem listasafn, fremur sem minnismerki um byggingalist.

13. júní Skoðaði í dag konungshöllina og Prado safnið í Madrid. Fór til Toledo og skoðaði gamla bæinn.
Hér er sama sagan og í Barcelona, kóngsi vill ekki búa í þeim höllum sem reistar hafa verið fyrir embættið. Því er verið að breyta þeim í söfn og opna fyrir ferðafólki. Prado safnið er gott safn og byggingin hönnuð sem slík. Ekki er eins margt að sjá í Madrid og í Barcelona og mannlífið ekki eing fjörugt. Það var þó fjör allan sólarhringinn á torginu þar sem við bjuggum, Plaza del Sol, enda mjög miðsvæðis. Madrid er ekki mjög gömul borg, um 500 ára. Toledo er merkileg borg, mun eldri.

14. júní Fór aftur norður í land frá Madrid. Er núna á tjaldstæði vid borg sem heitir Leon.
Skoðaði margt á leiðinni, rómverska vatnsveitu í Segovia, miðaldabæ í Avila.
Vatnsveitan er um 1,6 km löng og mesta hæð steinbogamannvirkisins trúlega um 60 m. Þetta er eitt best varðveitta minnismerkið um vatnsveitur rómverja og ótrúlega tilkomumikið. Ekki var notað steinlím til að halda steinunum saman. Ástæðan fyrir þessu mannvirki er sjálfsagt sú að rómverjarnir vildu byggja sín borgvirki uppi á hæðumtil að auðvelda varnir þeirra, en þurftu þá að sjálfsögðu að leiða þangað vatn. Dómkirkjan í Avila er ótrúlega mikið mannvirki. Í hverri hliðarkapellu mætti koma fyrir íslenskri sveitakirkju og í miðhlutanum mætti koma fyrir mörgum Hallgrímskirkjum. Og þetta voru menn að dunda sé við á Spáni á meðan við Íslendingar voru enn hálf heiðnir og reistu sér jarðhýsi úr torfi og grjóti. Í þessum gömlu katólsku kirkjum á Spáni er skipanin þannig að sitt hvoru megin til hliðar við aðalsalinn, á milli burðarsúlna, eru kapellur, tileinkaðar ýmsum dýrlingum. Kveikir fólk á kerti til áheita, eða notar peninga til að tendra rafmagnsljós þar sem vaxkerti eru ekki leyfð. Oftast er þetta fullorðið fólk, en þó var mér sagt að stundum mætti sjá örvæntingarfulla námsmenn reyna þessa leið til að bæta upp slakan undirbúning fyrir próf.

14. júní Skoðaði háskólann í Salamanca en hann er hýstur í eldfornum en glæsilegum byggingum, og dómkirkjur í Samora og Valladolid. Einnig mörg þorp, sum í eyði. Spánn virðist í gegnum tíðina hafa byggst upp af smáþorpum (pueblos) amk. á hásléttunni (meseta), fremur en stökum býlum líkt og á Íslandi. Þetta höfðar ekki til unga fólksins og flyst til borganna. Í sumum þessara þorpa er aðeins gamla fólkið eftir, í öðrum allir farnir. Þetta er þó skárra þar sem hægt er að sækja vinnu til nærliggjandi borga.

15. júní Er á tjaldstæði í Galiciu. Skoðaði í dag frumstæð fjallaþorp og sjávarbyggðir sem eru að fara í eyði. Sá storka í hreiðri uppi á turni dómkirkjunnar í Leon.
Galicia er vanþróaðasti hluti Spánar. Í sumum þessara fjallaþorpa tíðkast sjálfsþurftarbúskapur fyrir tíma iðnbyltingar. Engar vélar, húsdýrahald í viðbyggingum og matvælarækt í bakgarðinum. Korn skorið af kerlingunni með sigð og flutt á asnakerru af karlinum. Vatn sótt í þorpskranann í krukkum. Konur að flytja varning á hausnum eins og í Afríku. Þó virðist þetta fólk vera ágætlega sátt við lífið og tilveruna. Sjávarbyggðirnar minna á Írland, enda eru Galicimenn af keltneskum uppruna og tunga þeirra, galíska, er blanda af keltnesku og portúgölsku. Hvert býli virðist hafa haft svolítinn landskika, nægilega stóran til að skrimta fyrr á öldum. Grjóthleðslur eru í kringum alla túnskika og garðholur, svipað og var á Íslandi fyrir tíma gadavírsins. Vegir eru mjóir, með grjóthleðslum í kring. Útvarpsstöðvarnar við sjóinn spiluðu einkum írsk tregaljóð, mikið var um yfirgefin hús og niðurníðslublær yfir öllu.

16. júní Er kominn til Portúgal.
Skoðaði mjög fallega hafnarborg A Coruna og helgasta stað Spánar, pílagrímaborgina Santiago de Compostela.
Þar gengu um hjarðir af fólki með pílagrímastafi í hönd. Þarna á vesturströnd Galiciu er ástandið betra en í norðurhlutanum.

17. júní Er í Aveiro að bíða eftir Kjartani. Skoðaði gamla bæinn í Porto í morgun.
Bæjarstæðið er fallegt, í hlíðunum upp af Douro ánni. Þarna er framleitt allt portvín heimsins, annars staðar er framleiðslan t.d. kölluð sherry. Bretar eru stórir í portaraframleiðslunni þarna.

17. júní Er í gleðskap með Kjartani, Eyjólfi og Sigurþóri uppi í fjallaþorpi. Kjartan biður að heilsa.
Eyjólfur er í saltfiskinum, en Sigurþór vinnur að ritstörfum. Portúgalar eru miklar saltfiskætur og er hann, ásamt sardínum á öllum matseðlum. Ísland flytur þangað um 8 þúsund tonn á ári, eða svipað og á Spán. Þó eru þar 5 milljónir íbúa, en 50 á Spáni. Portúgal er fátækasta land Evrópusambandsins og með minnimáttarkennd gagnvart Spáni. Syngja þeir tregaljóð og syrgja forna frægð. ESB er eð dæla í þá peningum til að auka fjárfestingu og neyslu til að ná þeim upp úr þessu volæði.

18. júní Farinn á stað til Lissabon. Skoðaði fjallaþorp í dag og næstelsta háskóla í Evrópu í Coimbra. Skoðaði helgasta stað landsins Fatima kom í bæi sem heita Bathala (Betlehem) og Nazaré (Nasaret).
Í Nasaret er siður að kerlingar klæðist stuttpilsum á hverju sem gengur, hvort sem þær eru að saltberja íslenskan fisk eða gera eitthvað annað.

18. júní Fasteignasali hringdi og bauð X milljónir í botnplötuna.

19. júní Skoðaði Lissabon og Sevilla í dag. Er á leiðinni til Gibraltar.
Sevilla er glæsileg borg og sannkölluð höfuðborg suðursins

20. júní Frekar léttur dagur. Skoðaði strandvirkisbæina Cadiz og Gibraltar ásamt fjallaborginni fögru Ronda. Komst ekki til Afríku vegna verkfalls. Reyni á morgun.

21. júní Er nálægt Malaga. Var í Tanger í Marokko í dag hjá Berbum. Það er skrítinn staður.
Í gamla bænum búa saman kristnir, kaþólskir og múmameðstrúarmenn, hver með sitt bænhús. Gyðingar voru þarna líka, en fluttu allir í annan borgarhluta á einhverjum óróatímum. Í gamla bænum snýst allt um markaðinn og þá ferðamenn sem koma á svæðið. Allt er gert til að plokka ferðalangana. Betlarar út um allt. Sjálfskipaðir leiðsögumenn eru á hverju horni, sýna þér gamla bæinn þara með þig til valinna kaupmanna og á veitingastaði sem selja marókkaskan/arabískan mat. Þetta er kannski svo slæmt, því að þarna er allt í ranghölum, mjóum húsasundum og blindgötum. Engin götuskilti til að vísa þér vegar. Engir barir ! Það eru viðbrigði frá Spáni, þar sem bar er á hverju götuhorni. Gjallarhorn með einhverju góli. Leiðsögumaður númer eitt sagði mér,þar sem við snæddum kus-kus, að verið væri að kalla múslima til bæna, en það er gert fimm sinnum á sólarhring. Leiðsögumaður númer tvö fór með mig til teppakaupmanns og eftir myntute með sykri, sýningu á ótal teppum og prútt um verð á einu sem mér leist vel á, voru viðskipti gerð, ég fékk silkiteppi, handofið af Berbum uppi í Atlasfjöllunum, kaupmaðurinn 1000 dínara sem ég náði út úr hraðbanka eftir smá ökuferð um borgina með syni teppasölumannsins og leiðsögumanninum. Að sjálfsögðu urðu þassir félagar að fá sína umbun, þótt ekki væri samið um neitt slíkt fyrirfram. Berbamarkaðurinn er kafli útaf fyrir sig. Þar er verslað með með allt milli himins og jarðar, mest þó matvæli og gamalt drasl. Á götunni sátu gamlir kallar með lifandi hænsnfugla í kringum sig, bundna saman á löppunum. Ekki veit ég hvort þetta voru varphænur eða leið til að sýna fram á ferskleika vörunnar. Allir hlutar sláturdýra eru nýttir þarna. Hægt var að kaupa heila, lungu, garnir og jafnvel klaufir. Mikið var af mönnum þarna, ungum sem gömlum sem greinilega höfðu ekkert að gera, en sóttu í mannlífið þarna.

22. júní Skoðaði í dag Alhambra höllina í Granada, dómkirkjuna í Murcia og aðalstaðinn í Alicante. Er á fjallatjaldstæði. Kuskus í Marokko fór illa í maga.

23. júní Er farinn að éta aftur eftir eiturbrasið í Marokko. Skoðaði Valencia í dag og fékk mér kaffi á Plaza de la Virgines að ráði Þóru. Er á leið til Frakklands.
Ólæti í Spánverjunum fram eftir nótt, en þennan dag halda þeir miðsumarhátíð og sprengja hvellhettur. Flugeldar eru trúlega bannaðir vegna íkveikjuhættu á þessu þurra landi.

24. júní Skoðaði sveitir Suður Frakklands og borgina Toulouse. Er á suðurleið og gisti í fjallasal uppi í Andorra. Mjög fallegt er í Pyreneafjöllum.

25. júní Skilaði bílnum á flugvellinum um hádegið og fór niður á Römblu í nokkra tíma áður en flogið er heim. Akstur í ferðinni var um 7000 km.

25.6.02

Kúluhús álfa í Laugarnesi



Ekkert skil ég í fólki að amast við Hrafni í Laugarnesfjörunni, ég fór í gærkvöldi með vinkonu minni að skoða hin ýmsu umhverfislistaverk hans þarna. Mér finnst Hrafn stórbrotinn listamaður, hver gerir svona hús og hver annar skynjar eins vel töfra landslagsins og fegurðina í gömlum ljósastaurum og njóla. Laugarnes er líka helgur staður, biskupasetur og holdsveikraspítali og þar var Hallgerður langbrók heygð. Mér finnst búskapur Hrafns falla vel að landinu og laða að fleiri kynjavætti. Fellur líka vel að þeirri byggð sem þarna er fyrir, það eru fleiri en Hrafn með sérkennilegan arkitektúr þarna, álfabyggðin er sérkennileg þarna segir hún Erla Stefánsdóttir álfasjáandi. Erla lýsir álfahúsunum svo:


"Hér voru víða álfabyggðir til skamms tíma en nú hefur jarðrask og hávaði manna víða hrakið þessar verur á brott. Nokkrar álfabyggðir eru þó eftir hér í borginni. Í Laugarnesinu er margt að sjá. Þar eru álfar í mörgum stærðum, huldufólk í hólum og dvergar utarlega á nesinu. Þar er að finna mjög sérkennilegar byggingar álfa, kúluhús, en slíkar álfabyggingar hef ég hvergi séð annars staðar á landinu. Neðri hluti þessara kúluhúsa er líkt og hlaðinn úr torfi en hvolfþakið sjálft er sem úr gleri. Huldufólkið hefur þannig smíðað sér kúluhús löngu áður en mönnum datt það í hug."
Mér finnst Hrafni takast vel upp í að ná réttri stemmingu á þennan stað, þetta eru líka leikvangur bernsku minnar og ég þekkti einu sinni alla kletta og skúta þarna í fjörunni.

Álfakonungurinn á Íslandi Viðtal Braga Óskarssonar við Erlu Stefánsdóttur er í greinasafni Braga á vefnum.

24.6.02

Jónsmessuhelgin



Á laugardaginn fór ég með dóttur minni í garðveislu á Seltjarnarnesi. Þar var skemmtilegt fólk og það var sungið og spilað á harmóníku, gítar, píanó og trommur. Það var hátíðarstemming, það voru mörg dýr í garðinum, fullt af litlum fallegum hundum og köttum. Einn hundurinn var með eitt blátt auga og eitt brúnt. Hér eru tvær myndir úr garðveislunni, önnur af hljómsveitinni Rokkslæðan sem tróð þarna upp og hin þegar Steina sem er að fara til Súdan spilaði gítar og leiddi söng en ein af Rokkslæðunum spilaði undir á trommur. Rokkslæðan eru frábært band! Fór svo um kvöldið í heimsókn í Þingholtin. Vorum fjögur þar og fórum síðar á bar. Nóttin endaði á slysavarðstofunni og ég kom ekki heim fyrr en um sexleytið. Fjallahringurinn sunnan Reykjavíkur var fjólublárri en ég hef áður séð.

Á sunnudagskvöldið fór ég í næturbíltúr með vinkonu minni til Grindavíkur í rigningu og þoku. Fórum líka upp að Álafossi að gömlu verksmiðjuhúsunum/listamannahverfinu. Þar var bjartara yfir.

19.6.02

Þuríður sundafyllir og Þorbjörg lítilvölva


Kvenréttindadagurinn 19. júní hjá mér var helgaður tveimur íslenskum vísindakonum frá landnámsöld, þeim Þuríði sundafylli og Þorbjörgu lítilvölvu. Þuríður var brautryðjandi í raunvísindum á Íslandi og náði allgóðum árangri í fiskeldi. Hún var líka frumherji í viðskiptum eða eins og segir í Landnámabók: "Þuríður sundafyllir og Völu-Steinn son hennar fór af Hálogalandi til Íslands og nam Bolungarvík, og bjuggu í Vatnsnesi. Hún var því kölluð sundafyllir, að hún seiddi til þess í hallæri á Hálogalandi, að hvert sund var fullt af fiskum. Hún setti og Kvíarmið á Ísafjarðardjúpi og tók til á kollótta af hverjum bónda í Ísafirði".

Vísindakonan Þorbjörg lítilvölva á Grænlandi sem segir frá í Eiríks sögu rauða var gædd miklu innsæi og var á sinni tíð mikils metin fyrir skarpa greiningu á ástandi þjóðmála og vandaða spádóma um efnahags- og atvinnumál. Svo minntist ég líka Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og kvenréttindabaráttunnar í dag og skoðaði mbl.is því þar er kvennadagssíða og þar má sjá ártöl og áfanga í íslenskri kvennasögu. Gaman að ungar konur skuli núna halda úti tveimur öflugum vefjum Tíkin og Bríet.
Meira um vísindakonur á landnámstímanum:
Women and Magic in the Sagas
Seiðr, Gender and Transformation
Spae-Craft, Seiðr, and Shamanism

13.6.02

Gongoblíða - gjörningaveður


Enn einn blíðviðrisdagurinn, gongarar búnir að vera á Arnarhóli í allan dag. Ætla að skoða nú á Austurvelli hvort þeir eru þar líka.
Var að gonga á Netinu og fann ýmislegt sniðugt um Falun gong iðkun. Örugglega hollt að stunda svona leikfimi og svo segja þeir þetta ágætis hrukkukrem eða eins og stendur í 1.lexíu "After a period of cultivation practice, our Falun Dafa practitioners look quite different in appearance. Their skin becomes delicate and reddish-white. For the elderly, wrinkles become fewer or even extremely few, which is a common phenomenon."
Og skrýtið með þetta heilaauga sem sér gegnum holt og hæðir og yfir í aðra víddir:.

Óvissuferð á hestum, línuskautum og báti



Fór með nemendum mínum í óvissuferð í gærkvöldi. Hér eru nokkrar myndir frá því. Við fórum í útreiðartúr hjá Íshestum , komum við í Fjörukránni í Hafnarfirði, sigldum á snekkju á haf út til sjóstangaveiði, sigldum um sundin og lögðum að bryggju í Kópavogi hjá Sibbu og vorum þar langt fram á nótt. Lærðum á línuskauta.

Það voru Sibba,Hrund og Arndís sem skipulögðu þessa frábæru ferð en auk þeirra mættu Bergþóra, Björgvin, Eygló, Ingveldur, Lilja, Rún, Heiða, Amalía, Sólveig og ég.

12.6.02

SPAMMING, SPAMMING, SPAMMING


Úfff.... aðilar sem standa að peace.is hafa núna sett nýtt met í ósmekklegheitum og siðleysi.

Friðsamleg mótmæli við Njarðvíkurskóla



Fór til Njarðvíkur í gær að fylgjast að fylgjast með friðsamlegum mótmælum. Hér eru myndir sem ég tók.

11.6.02

Eitthvað gult


With friends like these who needs enemies segir Bjarni og það er djúp speki. Nú er Ástþór og félagar í Frið 2000 farnir á stjá og boða mótmælafund og bílalest til Njarðvíkur þar sem allir eiga að koma með eitthvað gult t.d. klút, veifu eða vera í gulum fatnaði.

Held ekki að ég taki þátt í neinu sem er skipulagt af Friði 2000 en góð hugmynd með gula litinn, ég ætla að sýna samstöðu með þeim sem á friðsamlegan hátt vilja tjá skoðanir sínar með því að hefja bloggfærslur fyrir næstu daga á gulum banana.

Blogg í kennslu


Anna benti mér á þessa grein um hvernig blaðamannaskólinn í Berkley í Kaliforníu ætlaði að nota blogg í náminu næsta vetur. Gaman að heyra, sýnir að svona bloggskrifstíll er að komast inn í hefðbundna blaðamennsku.

10.6.02

Bjartar sumarnætur

Á björtum sumarnóttum þegar bátar líða um sundin og Sólfarið sindrar meira en vesturgluggar þá finnst mér stundum Esjan vera sjúkleg og Akrafjallið geðbilað að sjá og fjöllin bak við Esjuna fjólublárri en draumar mínir.

Helgin var ljúf, kíkti á miðbæjardjammið á föstudagskvöldið sem er í frásögur færandi því ég fór að mig minnir seinast á bar fyrir mörgum mánuðum og það var hryllileg lífsreynsla. Hitti vinkonu mína fyrst á írska barnum Celtic Cross þar sem hún hafði komið sér upp aðdáendasveit múrbrotsmanna sem allir litu út eins og keppendur í Sterkasti maður Íslands. Fórum svo á Næstabar og þar var mér rórra því aðdáendur voru þar allir væskilslegri. Hitti marga sem ég þekki og kynntist fleirum, gaman að hitta Steina og Serge frá Múrmansk sem Kjartan hafði kynnst í Portúgal og sent upp í Kjós. Spjallaði við Sigurð Gylfa um blogg, dagbækur og einsögu en Sigurður Gylfi hefur mikið rannsakað dagbókaskrif og gekkst fyrir degi dagbókarinnar fyrir nokkrum árum.

Óðinn búvísindanemi kom í heimsókn á laugardag en hann vinnur við bútækni á Hvanneyri í sumar. Á sunnudagskvöldið kom vinkona mín í heimsókn. Ég er margs vísari um búvélatækni og æðarvarp.

9.6.02

Falun Gong



Í washingtonpost.com 7. júní er greinin Falun Gong Barred from Iceland.
Í mbl.is er frétt um að félagar í Falun Gong ætli að efna til friðsamlegra mótmæla á Íslandi. Þar segir m.a. :"Morgunblaðið hefur öruggar heimildir fyrir því að kínversk stjórnvöld hafi krafist þess að Íslendingar kæmu í veg fyrir að Falun Gong liðar væru í landinu meðan á heimsókninni stendur. Þau hafi jafnvel krafist þess að engir mótmælendur sæjust frá Hótel Sögu þar sem Jiang Zemin mun dvelja. "

Talsmaður kínverskra stjórnvalda segir: "Falun Gong is not an organization that promotes health, nor a religious group, but an evil cult that has seriously harmed the safety of the Chinese society and people. By banning the Falun Gong cult according to law, the Chinese Government has safeguarded the basic human rights and freedom of the its people and maintained the rule of law"

Fann þessa grein á Netinu:Western Democracy Bends to Totalitarian Regime, Bans Ethnic Chinese During Dictator's Visit
Ég er búin að lesa mér til um Falun Gong og hef ekki séð nein merki um að þetta séu hættuleg samtök,ekki hættulegri en Vottar Jehóva eða Krossinn hér á Íslandi. Mér virðist þeir trúa á kraftaverk og alls konar skrýtilegheit og leggja mikið upp úr svona hugrækt og leikfimi.
Safna hér slóðum um Falun Gong:
Falun Dafa
Clearwisdom.net
meistarinn að kenna dafa
Aumingjaskapur (Silfur Egils 7.júní)
Umfjöllun CNN.com um Falun Gong

7.6.02

Albúm, Elding og Merkilegir draumar


Fór á Súfístann eftir vinnu í gær, las Albúm eftir Guðrúnu Mínervudóttur og aðra bók sem mig minnir að heiti Fjallræðufólkið og var um persónur í sögum Laxness. Leiddist sú bók, endalaust tal um jesúgervinga en samt á stöku stað áhugaverðar frásagnir á hvað hefði verið að brjótast um í huga Halldórs þegar hann var að skrifa bækurnar og hvaða höfunda hann hefði lesið og virt eða haft skömm á. Albúm er svona þægileg léttlestrarbók, stórt letur og mjóar blaðsíður og lítið á hverri blaðsíðu og langt bil milli lína. Svona einsoghálfskaffibolla bók. Glettnar og sannfærandi myndir úr lífi höfundar en samt er þetta sögð skáldsaga. Albúm endar á frásögn af þegar höfundur fer inn í bókabúð á Vesturgötu og festir augun á gömlu póstkorti og uppgötvar að hún þekkir viðtakanda og sendanda kortsins, það er frá mömmu hennar til fyrrum stjúpbróður og það er minnst á hana sjálfa í textanum.

Gaman að lesa frásögn sem gerist í þessari bókabúð því svo vildi til að ég var nýkomið þaðan og hef samt aldrei komið þar áður. Ég flýði úr vinnunni smástund í gær út af byggingarhávaða og fór í göngutúr einmitt í bókabúðina á Vesturgötunni, sú búð er griðastaður þar sem sem maður getur horfið afturábak í tímann. Ég var ekki að leita að neinu sérstöku, þannig að það var bara eins konar tilviljun hvaða bækur ég veiddi úr búnkunum og ég var spennt að sjá hvað ég kæmi út úr búðinni með. Svona eins og að fá lukkupakka á tombólu.

Endaði með að ég keypti tvær lúnar og gamlar bækur eina þýdda sem heitir Merkilegir draumar og eina heimainnbundna íslenska skáldsögu sem heitir Elding. Sú skáldsaga gerist á 10. öld og hún er eftir Torfhildi Hólm og kom út árið 1889. Veit ekki hvort ég á nokkurn tíma eftir að lesa Eldingu, langaði bara að eiga einhverja bók eftir Torfhildi og líka svona eldgamla bók. Minnti líka að Torfhildur hefði haft áhrif á Halldór Laxness og núna áðan fann ég líka grein eftir Hermann Stefánsson á Netinu sem heitir INN Í ÖNGSTRÆTIÐ gluggað og grautað í skáldsögu sem er ekki til sem fjallar einmitt mikið um þessa bók Eldingu og þau áhrif sem Torfhildur Hólm hafði á Halldór.

Greinin eru um sögu eftir Halldór sem einu sinni var kannski til og týndist eða var goðsögn eins og söngur Garðars Hólm sem kannski heitir líka í höfuðið á Torfhildi Hólm og sagan týnda heitir eftir sögu Torfhildar, það er sagan Afturelding sem Halldór skrifaði 12 ára gamall og segir sjálfur: "Og þó að ég væri núna, 12 ára gamall, svo fastráðinn í að segja skilið við fyrra líf mitt að ég brendi ritsafni mínu einsog það lagði sig daginn áður en ég fór, þá liðu ekki nema fáeinar vikur áður en ég var orðinn hálfvolgur í tónlist og alkaldur í myndlist og tekinn til við að semja þessa stóru skáldsögu Aftureldíngu á móti Endurlausnarkenníngunni og frú Torfhildi Hólm."

Gaman að koma í bókabúðina dularfullu á Vesturgötunni, þar sem viðskiptamönnum var boðið upp á nýbakaðar pönnukökur og enginn asi var á neinum og svo hitti ég líka vinkonu mína óvænt á leiðinni þangað og á leiðinni þaðan vék sér að mér vottur og gaf mér teiknimyndasögu með rauðum titli "Þetta var þitt líf!" og var um þau hryllilegu örlög að finnast ekki skráður í lífsins bók á dómsdegi. Undir hverju skyldi fólk vera skráð þar? Nafni? Fingrafari? Genamengi?

Kristín hringdi í mig vestan af fjörðum þegar ég var á Súfistanum að skima bækur og drekka kaffi. Hún sagði mér frá draumförum sínum og martröð nóttina áður en það var svo mikill kliður á kaffistofunni að ég heyrði ekki mikið um drauminn, bara að hann var hryllilegur og þegar hún sofnaði aftur dreymdi hana áfram sama drauminn eða nýja sögu í sama draumnum og það var eins og að lesa í bók einn kafla af öðrum. Í gærkvöldi sofnaði ég út frá hinni bókinni sem ég keypti og heitir Merkilegir draumar og er frekar svæfandi og óskemmtileg, skrifuð undir áhrifum frá spíritisma og endurholdgunarkenningum. Man mest eftir frásögnum þar um Edgar Cayce. Svaf draumlausum svefni og vaknaði um miðja nótt við símhringingu, Kristín hringdi og var andvaka. Eða réttara sagt þorði ekki að sofna og detta inn í sama drauminn og nóttina áður.

6.6.02

Ráðstefna í Tallinn um vændi og mansal



Það var nýlega norræn 300 manna ráðstefna í Tallinn í Eistlandi um mansal og vændi. Í Ekstrabladet.dk er grein um hegðun eins þátttakandans.

Óvinurinn og fangamark hans



Sá í pappírsútgáfu Mbl. í dag að nú verður í Reykjavík að skrásetja alla sem fá göt í eyrun og halda skrá með nöfnum og kennitölum. Þetta er samþykkt frá umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Það hafa líka verið settar reglur sem kveða á um að einstaklingar undir 18 ára aldri sem vilja láta gata eyrnasnepla sína, þurfi skriflegt leyfi forráðamanna. Hmmm... held ekki að svona nefnd hafi umboð til að setja slíkar reglur eða fylgjast með gjörðum borgara á þennan hátt.

En í USA er í bígerð öðruvísi skrásetning og þar er á fingraförum og öðrum kennimörkum útlendinga, sjá grein í BBC More visitors to US face fingerprinting. John Ashcroft í USA hefur lagt fram tillögu um hert eftirlit með útlendingum í USA, sérstaklega grunsamlegum útlendingum ATTORNEY GENERAL PREPARED REMARKS ON THE NATIONAL SECURITY . Ashcroft segir:

"In this new war, our enemy''s platoons infiltrate our borders, quietly blending in with visiting tourists, students, and workers. They move unnoticed through our cities, neighborhoods, and public spaces. They wear no uniforms. Their camouflage is not forest green, but rather it is the color of common street clothing."

Annars er svona skrásetningarboð frá yfirvöldum ekkert nýtt, í Lúkasarguðspjalli er sagt frá þegar boð komu frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina og allir fóru til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Ég ætti kannski að lesa meira í biblíunni alla vega langar mig til að vita hvers vegna þessi Ágústus var að skrásetja alla og hvaða upplýsingar setti hann í skrána og hvernig hann vann úr skránum og hvort hann hafi samkeyrt upplýsingar? Mig minnir að í því sögulega efni sem ég hef lesið þá hafi skrásetningar yfirvalda oftast verið til að skrá eignir og mögulegar tekjur og aðallega verið til að hægt væri að skattleggja þær.

Þessar skrásetningar á eyrnasneplagöturum á Íslandi og útlendingum í USA eru ekki til þess.

5.6.02

Myndir frá fimleikasýningu og stúdentsveislu


Setti myndir frá fimleikasýningu í Laugardalshöll á vefsíðu
Setti myndir úr stúdentsveislu Áslaugar á vefsíðu.

Skólaslit - Námsmat


Á mánudaginn voru skólaslit í Laugarnesskóla og við mættum þar því Kristín var að útskrifast úr 12 ára bekk og fer í Laugarlækjarskóla næsta vetur. Þetta var hátíðleg stund, nemendur að kveðja skólann og kennarann sinn. Nemendur spiluðu á hljóðfæri og fóru með ljóð. Kristín las upp ljóð um sumarið eftir Tómas Guðmundsson. Skólastjórinn hélt ræðu og kallaði upp þá nemendur sem höfðu sýnt framúrskarandi námsárangur. Kristín var í hópi þeirra. Þetta er í fyrsta skipti á átta ára skólaferli hennar sem ég hef heyrt hvernig hún standi sig í samanburði við aðra fyrir utan samræmt próf í nokkrum greinum sem var tekið í 11. ára bekk.

Ég er mjög sátt við þá skólastefnu að ala ekki á metingi og samanburði milli nemenda og það er stórhættulegt að reyna að mæla allan árangur í námi á einkunnaskala. Nemendur eiga að læra að afla sér fróðleiks og þekkingar af eigin hvötum og til að leysa verkefni sem þeim finnst mikilvæg en stjórnast ekki eingöngu af tilbúnu stigakerfi. Það er mikilvægt að þeir keppi við sjálfa sig og reyni að bæta sína eigin frammistöðu.

Annars held ég að það sé sennilega best að hafa margs konar matsaðferðir í skólastarfi, aðalatriðið er að mat hafi jákvæð áhrif á nemandann þ.e. hvetji hann til frekari dáða og ef hófleg samkeppni er þannig að hún hafi góð áhrif á alla nemendur þá er hún sennilega af hinu góða. Svo er náttúrulega skólum uppálagt að kenna í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og það verður að vera einhvers konar mat og eftirlit með því að skólastarf miði að því. Svo getur það líka eflt sjálfstraust nemenda að vita að þeir séu góðir í einhverju eða þeir hafi bætt sig verulega - það verður bara að vera nógur fjölbreytileiki þannig að allir geti skarað fram úr á einhverju sviði. Kristín fékk nýlega viðurkenningu eða einhvers konar hvatningarverðlaun fyrir að hafa tekið mestum framförum í sínum hópi í fimleikafélaginu Ármanni og það hafði þau áhrif að hún vill æfa fimleika í sumar til að verða ennþá betri. Ég held að margs konar viðurkenningar og viðburðir sem vekja athygli á góðri frammistöðu og góðum árangri séu af hinu góða, ekki síst til að vekja athygli á viðfangsefninu sjálfu svona eins og ólympíuleikar í stærðfræði.

Annars er ég núna mest að pæla í portfolio assessment og einhvers konar leiðarbækur/ferilbækur. Þetta finnst mér núna vera sú tegund af námsmati sem hæfir best þekkingarsamfélaginu, samfélagi þar sem hver einstaklingur lýsir sér með verkum sínum og þar sem lögð er áhersla á nám sem ferli.

Eftir skólaslitin í Laugarnesskóla héldum við upp á daginn með því að fara á kaffihúsið Viktor og sitja þar úti á stétt fram á kvöld, svo fórum við í billjard upp í Öskjuhlíð og gönguferð um Öskjuhlíðina. Vorum svo úti í garði að umpotta trjáplöntum fram yfir miðnætti. Á þriðjudaginn fór Magnús til Spánar og Kristín til Ísafjarðar.

3.6.02

Lamb í hreiðri



Sauðburður er að enda og lambær á túnum. Í fjárhúsunum í Arnarholti sá ég þetta lamb sem kúrði ofan á baki móður sinni eins og fuglsungi í hreiðri.

Helgi í Borgarfirði - Sjómannadagurinn



Magnús átti afmæli á laugardaginn, hann fékk tímamælir og sagnaánnál í afmælisgjöf. Ég gaf honum sögu 20. aldar og Kristín gaf honum heimasmíðað dagatal. Við fórum upp í Arnarholt, komum við í Borgarnesi og feðginin spiluðu golf í rigningunni en á meðan var ég inn í golfskálanum í Hamri með fartölvuna tengda. Hef ekki komið þar áður en þetta er vistlegur staður og útsýnið frábært. Líka góður vinnufriður því fáir fara í golf í hellirigningu. Við grilluðum (líka í rigningu) og um kvöldið fórum við á sagnakvöld í Reykholti . Þar komu fram átta sagnaþulir sem sögðu sögur af einkennilegu fólki, skýtnum tilsvörum og skondnum atvikum. Mér fannst þetta stundum minna á uppistand, svona glettnisögur sem maður hefur heyrt oft áður en núna snúið upp á menn í þessari sveit.

En það var gaman að hlusta á Gísla úr Borgarnesi segja frá skrýtnum Skagfirðingum, Bjartmar á Norður-Reykjum syngja um nágrannana á Stafholtsveggjum og Hamraendum og Höllu í Ytri-Fagradal fara með þulur aftan úr forneskju og segja frá hlaðlökkum á miðilsfundi og manni með svo mikla skyggnigáfu að orgel spilaði í gegnum hann. Svo var Flosi sagnastjóri og hann sagði að sagan yrði ekki til fyrr en búið væri að taka það sem hefði gerst og sáldra inn í það lygi, annað væri bara staðreyndaupptalning. Flosi sagðist hafa æft sig í lygasögum á ömmu sinni en hann sagði henni sögur á hvernig hann bjargaði börnum úr tjörninni eða höfninni. Flosi sagði líka frá því að sagan er sögð eftir því hvernig áheyrendur eru og sagnaminnið breytist, svo segir hann sögu af manni sem borðar hrognkelsi en stundum eru það svið.

Stundum finnst mér eins og munnleg frásagnarhefð hafi týnst niður í öllu öðru en að segja brandara. David Campbell hinn skotski var sá eini sem sagði ævintýri og líka sá eini sem ekki sagði gamansögur. Ævintýrið sem hann sagði fjallaði um sjómann og selkonu og hamskipti. Sunnudagurinn var sjómannadagurinn og veðrið var gott. Feðginin fóru aftur í golf en ég las á meðan í Byggðum Borgarfjarðar um selina í Hvítá og rjómabúin og annað sem einu sinni var en er ekki lengur. Komum til Reykjavíkur um kvöldmatarleytið og í gærkvöldi bauð Kristín mér í bíó, það var Ali G In Da House sem er bresk aulafyndni sem hafði samt svipað þema og margar frásagnir á sagnakvöldinu, það var bara breyting svona eins og Flosi setur svið stundum í staðinn fyrir hrognkelsi í sínum sögum þá var hass í staðinn fyrir heimabrugg í sögum Ali G.

1.6.02

Einkadans og vændi



Ég var í garðveislu í Krókamýrinni í Garðabæ um seinustu helgi. Frændi minn sagði eitt húsið í götunni vera í eigu Óðals og þar byggi hópur af hinum erlendu kvendönsurum sem hér hafa viðdvöl um skeið og hafa atvinnuleyfi eins og listamenn. Ekkert ónæði væri af þessum nágrönnum, þær væru keyrðar og sóttar milli vinnustaðarins og íveruhúss.

Þær sýna hér súludans en einnig líka einkadans eða eins og stendur í þingskjali 22"Ein er sú þjónusta sem nektardansstaðirnir hér á landi bjóða upp á og kölluð er einkadans. Í einkadansi bjóða eigendur staðanna viðskiptavinum aðgang að litlum klefum þar sem stúlka dansar nakin fyrir þá eina. Verðlagningin tekur mið af þeim tíma sem viðskiptavininum er tryggð einvera með dansaranum. Verðlistar hanga uppi á stöðunum og viðskiptavinurinn greiðir staðnum fyrir þjónustuna, en ekki stúlkunni." Ég get ekki séð neinn reginmun á þessum klefum og gluggaklefunum í rauða hverfinu í Amsterdam og held að þegar vinnuveitendur stúlknanna leggja áherslu á að svona kynlífsþjónusta sé í boði þá sé líklegt vændi sé einnig í boði. Enda segir í frétt á mbl.is í dag að stúlkur frá baltnesku löndunum segjast hafa stundað vændi hér á landiog að vinnuveitendur þeirra á Íslandi hafi lagt að þeim að stunda vændi og hafi hótað þeim ofbeldi ef þær segðu frá.

Vændi er ólöglegt á Íslandi og hver sem stundar vændi sér til framfærslu skal sæta fangelsi allt að 2 árum.Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af lauslæti annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum.