29.8.02

Frettir fra Svithjod


Nu er eg stodd a herragardinum Bergendal vid Edvik strondina i Sollentuna i Svithjod. Var i Stokkholmi i gaer. Her er eg a norraenum fundi RAKO-seminarium 2002 thar sem themad er: "Att utveckla det elektroniska medborgarmötet".

27.8.02

Útskriftarárgangarnir á Netinu


Var að sjá að 30 ára útskriftarárgangur frá MR hefur komið sér upp vefsetri með myndum og æviágripi allra, sjá www.mr72.is. Fróðlegt að skoða hvert lífshlaup MR-inganna hefur verið, mér sýnist þeir flestir hafa menntað sig mikið og margir búa í útlöndum. Þetta er hippakynslóðin sem hélt upp á fimmtugsafmælin í ár.

Kosningablogg



Mér finnst að svona bloggkerfi séu fín til að auka lýðræðið og gaman að sjá dæmi um það. Við getum fylgst betur með heimsviðburðunum eins og ráðstefnunni í Jóhannesarborg með því að lesa fréttablogg frá ráðstefnunni eins og www.dailysummit.net.
Sniðugt líka fyrir stjórnmálamenn að setja upp blogg í tengslum við kosningabaráttu. Kannski íslenskir stjórnmálamenn fari að dæmi Tara Sue og byrji að blogga og tengi umræður fylgismanna sinna við bloggin sín.

Björn Bjarnason er frumkvöðull á Íslandi í að nota vef í stjórnmálum og hann hefur í mörg ár haldið út vef sem minnir á blogg, þar er dagbók og þar eru pistlar og ræður og greinar og maður getur gerst áskrifandi að póstlista.
Bloggkerfi þar sem maður getur skrifað inn pistla sem bæði birtast í tímaröð og svo líka í röð undir efnisorðum sem maður velur sjálfur og þar sem fylgismenn geta líka tjáð sig eru sniðug fyrir stjórnmálamenn sem vilja sjálfir uppfæra sína vefi. Kannski er kerfi eins og www.antville.org sniðugt fyrir svoleiðis.

Var að skoða vefinn fleirikonuristjornmal.is sem er fyrir átak til að fá fleiri konur til að láta til sín taka í stjórnmálum. Oft hef ég séð auglýst svona námskeið til að hvetja konur til aukinnar þátttöku og þá einn liður í því að æfa konur í að skrifa greinar í fjölmiðla og koma fram í sjónvarpi o.þ.h. Ætti ekki líka að æfa fólk í að koma skoðunum sínum á framfæri á Netinu? Það ætti bara að bæta bloggi inn í svona námskeið.

26.8.02

Gengið

Er að reyna að versla á Netinu hótel í eina nótt í Stokkhólmi og sá þá á hótelvef ansi sniðugt verkfæri, það er svona gengisbreytir sem getur skipt úr hvaða gjaldmiðli sem er í hvaða gjaldmiðil sem er. Hægt að setja svoleiðis á vefsíður (kostar ekkert) þannig að það poppi upp í litlum glugga. Líka hægt að velja gjaldmiðil og láta búa til gengistöflu. Þarf að setja svona gengisbreyti á einhverja vefsíðu hjá mér, handhægt þegar maður er bera saman verðlag milli landa. Verkfærið er http://www.xe.com. Skoða þetta seinna.

Ráðstefnuvefir - Viðburðavefir

Það er frábært hvað nú er orðið algengt að sett séu upp vefsetur fyrir ráðstefnur, ég held að það sé fátítt núna að halda ráðstefnu án þess að allt um ráðstefnuna sé á vefnum. Þetta er bæði auðveldara fyrir skipuleggjendur, því upplýsingar eru alltaf að breytast t.d. efni tengt fyrirlestrum/fyrirlesurum. Svo er oft ráðstefnuerindin eða glærurnar settar inn á vefinn og þannig eru ráðstefnuvefirnir oft fræðasetur sem þjóna tilgangi í langan tíma eftir að ráðstefnu lýkur.

Auðvelt er að kynna ráðstefnu með að senda stutta lýsingu og vefslóð í tölvupósti, ég fékk einmitt um daginn tölvupóst um áhugaverða ráðstefnu sem verður í Borgarnesi 5-9 september næstkomandi. Ráðstefnan er Sagas and Societies og fór á vefinn og sá að mér finnst sérstaklega áhugaverð dagskráin á laugardagskvöldið kl. 20:00-21:30:
Sagas in Virtual Reality
* Jón Karl Helgason, Ph.D.: “Sagas, Image and the Digital Age”
* Laufey Guðnadóttir, BA, & Soffía Guðný Guðmundsdóttir, BA: “Sagas on the Web: The Use of Information Technology to Introduce Cultural History”
* Harpa Hreinsdóttir, M.Paed., Teacher: “Sagas in Cyberspace”

Það getur verið sniðugt að setja upp vefsetur líka fyrir minni viðburði t.d. ættarmót eða vinnufundi. Ég held að einhver konar bloggkerfi séu mjög hentug til þess, sérstaklega kerfi þar sem auðvelt er að hafa marga höfunda. Ég hef verið að prófa antville.org og mér finnst það eitt alsniðugasta bloggkerfið, það er auðvelt að ákveða hvaða færslur eru opinberar og hvaða færslur huldar og gefa öðrum skrifréttindi á einstakar færslur. Ég er að skipuleggja um 15 manna lokaðan vinnufund í Reykjavík 12-15 september og gerði tilraun til að búa til sérstakt blogg í kringum þann fund en það er reykjavik.antville.org.

23.8.02

Klippibækur - Alþýðulist nútímans



Nú þegar svo margir hafa aðgang að tölvu og stafrænni myndavél þá má búast við að fólk noti þessa verkfæri fyrir það sem því finnst skemmtilegt og eitt af því er að búa til eigin minningabækur - safna saman og skrá og sýna efni um nánasta umhverfi.

Mér finnst gaman að spá í hvernig eitt nýtt tómstundagaman scrapbooking hefur breiðst út. Þetta er að búa til eigin mynda- og textamöppur, gjarnan með ýmis konar pappírsklippi. Þetta gengur út á að búa sjálfur til skemmtilegar úrklippibækur. Sennilega mun þetta vera undanfari tómstundagamans þar sem fólk gerir svona stafrænar myndabækur og setur upp á Netinu.

21.8.02

Fegurðarferlið


Miklir listamenn nota sjálfan sig sem efnivið. Það gerir Michael Jackson.

Blogg í kennslu


Gaman að sjá að Ann Clyde, kennari í upplýsingafræði í HÍ hefur skrifað greinar í maí 2002 um blogg. Skildu nemendur hennar í HÍ blogga í tengslum við námið?

Ég hef undanfarin tvö ár verið að prófa blogg sem námsverkfæri, bæði svona glósutækni og svo sem hluta af leiðarbók/ferilbók svona sem dynamískan hluta af "digital portfolio" og allir nemendur á námskeiðum hjá mér verða að halda vefdagbók.

Mín sýn er að byggja eigi námsumhverfið í kringum nemandann og bloggið er einn þáttur í því og getur stuðlað að því að nemandinn hafi betri yfirsýn yfir sitt námsferli. Þess vegna er ég alls ekki hrifin af kerfum eins og WebCT.


19.8.02

Internetið og afbökun sannleikans


Enn ein fréttin um stjórnvöld sem takmarka aðgang að Internetinu. Nú er það Víetnam sem setur hömlur á Internetkaffihús fyrir að hafa ekki leyfi og afbaka sannleikann.

Menningarnótt 2002


Röltum frá Hlemmi niður í miðbæ og aftur upp á Hlemm. Röltið hófst í Gallerí Fold en þar hlýddi ég á tenórinn Guðbjörn sem er vel við hæfi því sumarið 2002 hef ég gerst unnandi óperutónlistar og einsöngvara, það er í beinu framhaldi af byggingaframkvæmdunum í næsta húsi, ég hef uppgötvað að við slíkum barsmíðum er ekkert betra en eyrnatól tölvunnar, stórtenór í geisladrifið og skrúfa hljóðið upp í topp.

Í Gallerí Fold sá ég líka Gunnellu vera að mála mynd í sveitastíl, ég á einmitt eina svoleiðis mynd eftir hana.

Svo fórum við í vinnustofu Péturs Gauts á Snorrabraut, hann var með sýningu þar og djassband spilaði. Áfram fórum við niður Laugaveginn og skoðuðum listina í búðargluggum og litum inn í lítil gallerí og vinnustofur listamanna.


Á sýningu í vinnustofu listakonunnar Helgu sá ég mynd sem ég hélt að væri af nöktum karlmanni en svo var mér sagt að þetta væri mynd af tveim geitum. Komum við á Súfistanum en þar var þá Flensborgarkórinn að syngja. Verst að koma þangað svona seint og missa af upplestri bloggarans Betu rokk og andbloggarans Mikka, þar hefði ég viljað vera. Niðri í miðbæ keypti ég svona sjálflýsandi marglita ljósaborða handa mér og systur minni til að hafa um hálsinn og vorum við eina fólkið sem ég sá yfir fimm ára aldri sem skreytti sig svoleiðis.

Hlýddum á rappara á Austurvelli og sáum flugeldasýningu á Hafnarbakkanum. Svo lá leiðin á Vínbarinn í Kirkjustræti, þar drukkum við menningarlegt rauðvín frá Argentínu úr háfættum glösum. Lögðum af stað upp Laugaveginn og gekk ferðin vel enda áningarstaðir víða, við komum við á Næstabar, Dillon og Svartakaffi. Við mættum skrúðgöngu með lúðrasveit þarna löngu eftir miðnætti og hittum á förnum vegi margt skemmtilegt fólk.

Við hittum Sigurjón ásatrúarmann sem sagði okkur hvernig fundurinn um daginn hefði farið og við spáðum í hver myndi verða næsti Alsherjargoði. Með honum voru systkinin Sólveig og Mummi og vinkona þeirra en Mummi var með sinn eigin listviðburð á einni tröppu á Laugaveginum, var með svona gallerí í lítilli tösku, málaði myndir á pappaspjöld og seldi vegfarendum. Fengum okkur pitsu á Hlemmi og ég ók heim, edrú að vanda, drakk ekkert nema eitt rauðvínsglas á Vínbarnum snemma kvölds.

Reykjavík er yndisleg borg, listir blómstra þar, velmegun ríkir og þar er skemmtilegt og fjölbreytt mannlíf. Núna finnst mér Gaypride og Menningarnótt vera toppur á sumrinu í Reykjavík og ómissandi viðburðir. Samt eru þeir bara nokkurra ára gamlir. Gaman að bera þessar nýju hátíðir saman við 17. júní, þessar nýju hátíðir sem eru til að fagna fjölbreytileikanum og menningunni saman við þjóðhátíð sem er til að fagna sérstöðunni og upprunanum og sjálfstæðinu. Fjallkonan og dragdrottningin.

16.8.02

Þekkingarsamfélagið í Evrópu og á Íslandi


Hvernig verða næstu áratugir í atvinnumálum og þjóðlífi? Hvernig mun samfélagið aðlaga sig nýrri samskiptatækni og alþjóðavæðingu? Mun þekkingarsamfélag taka við af iðnaðarsamfélagi eða eru þetta bara tilbúin orð? Hvernig tekst stórum og kyrrstæðum samfélögum að aðlaga samfélagsgerðina og skipta lífsgæðunum? Verður massaatvinnuleysi og þjóðflutningar í Evrópu? Verður stríð og upplausn þar sem ríkin brotna upp innan frá? Eða búa Vesturlönd yfir einhverjum styrk og mannauð sem gerir þessa umbrotstíma að farsælum tíma þar sem flestir hafa aðstöðu og frelsi til að bæta lífskjör og lífsgæði sín.

Það verður alla vega spennandi að fylgjast með þróuninni í Evrópu og USA. Kannski verður hún líka mismunandi eftir því hvoru megin Atlandshafsins við erum og kannski mun fjölbreytileikinn í Evrópu, allar þessar mismunandi þjóðir og þjóðarbrot og ólíku tungumál og mismunandi sögulega arfleifð verða einhvers konar hulinn fjársjóður því einkenni nýrrar aldar eru fjölbreytileiki fremur en stórframleiðsla á færibandi. En þróun í Evrópu er núna hröð hvað varðar upplýsingasamfélagið, núna mælast í fyrsta skipti flestir Internetnotendur í Evrópu. Reyndar eru Internetnotendur flestir á Norðurlöndum og þar er Ísland á toppnum í maí 2002. Eitthvað hlýtur þetta að þýða að forskot og aðlögunartími fólks á Norðurlöndum er meiri til að taka upp nýja lífshætti sem nota tæknina. Margir telja einnig að hin mikla notkun á þráðlausum tengingum og gróska í símamálum (Nokia/Eriksson) ásamt áherslu á góða menntun þá hafi Norðurlönd enn frekara forskot núna þegar tímar hins þráðlausa Internets renna upp.
Career Space - vefur um starfsmenntun nýrra tíma í Evrópu
IST - upplýsingasamfélagið í Evrópu

15.8.02

Bloggkerfin Upsaid, Antville og Onclave


Var að prófa nokkur ný bloggkerfi og vil deila reynslunni af því hérna með bloggsamfélaginu, ef það getur nýst einhverjum, mér finnst nú blogger.com vera ansi stirt kerfi, svolítið erfitt fyrir byrjendur að setja upp blogg. Hef samt ekki fundið neitt annað sem býður upp á að senda blogg inn á eigin vefþjón. Nema auðvitað Movable Type en það er vesen ef notendur þurfa að hlaða niður einhverju forriti og þetta Perl dæmi fannst mér mjög fráfælandi. Ef hins vegar fólk notar sér að geyma bloggin sín ókeypis á blogspot.com þá eru öll kerfin sem ég prófaði í dag miklu betri og ekki með neinum auglýsingum og miklu einfaldara að búa til vefdagbækur. Þau eru líka öll ókeypis, held að þetta séu eins konar tilraunakerfi. Það fylgja með athugasemdakerfi og ýmsir fídusar sem eru ekki í blogger. .

Upsaid.com
Ég prófaði að búa til þetta blogg upsaid.com/salka. Gat því miður ekki íslenskað alveg viðmótið t.d. inn í gestabók og inn í athugasemdakerfinu, það er bara fyrir þá sem eru með pró útgáfuna en hún kostar reyndar bara $2 á mánuði og þá er hægt að setja upp spjall og íslenskun á mánuðum og vikudögum o.fl.

aintville.org
Ég prófaði að búa til þetta blogg salka.antville.org
Ég er mjög hrifin af antville.org eða þessu helma kerfi, þetta er næsta skrefið, bloggin eru svona sögur sem maður getur tengt saman, svo er hægt að búa til myndabanka og kannanir og hægt að stilla þannig að notendur geta líka skrifað þ.e. maður getur gefið mismikið skrifréttindi á bloggin. Sniðugt fyrir samstarf. Svo er algjörlega hægt að ráða útlitinu og setja sitt eigin skinn eða umhverfi upp. Ég gerði það reyndar samt ekki.

onclave.org
Ég prófaði að setja upp blogg í þessu kerfi og það gekk bara vel. Mér fannst viðmótið ekki spennandi en það eru ýmsir fídusar, það er hægt að senda í þetta úr tölvupósti og það eru sjálfkrafa búin til rss yfirlit svona eins og fréttaveitur. Sýnist þetta vera fyrst og fremst hugsað sem hópvinnublogg.
Ég bjó til þetta blogg onclave.org/people/children/Salvor_Kristjana/children/salka

14.8.02

Nýtt hús í KHÍ - Upplýsingatæknikjörsvið í fjarnámi


Ég var að kenna í gær í fyrsta skipti í nýju tölvuveri í nýbyggingu Kennaraháskólans, núna í ágúst koma fjarnemar hvaðanæva af landinu og sumir búsettir erlendis í tvær vikur á ýmis námskeið en svo halda námskeiðin áfram til áramóta í fjarnámi. Þetta var stór stund, nýjar tölvur og nýtt hús. Reyndar er húsið svo nýtt að það tók breytingum frá klukkustund til klukkustundar og maður hafði á tilfinningunni að það væru fleiri iðnaðarmenn en nemendur í skólanum. Alla vega heyrist meira í þeim, loftræstingin er ekki komin í gang og það var funheitt í stofunum og ekki nema stundum hægt að hafa opið framm á gang út af hávaða í vélsögum og borum. Það var verið að leggja gólfdúka á gangana. Gardínurnar voru ekki komnar, heldur voru pappaspjöld í gluggum svo eitthvað sjáist á skjávarpa. Í frímínútunum var skipt um stóla í stotunni, núna eru komnir fínir nýir skrifborðsstólar.

Það var náttúrulega ýmislegt sem kom upp á eins og alltaf þegar verið er að taka í notkun nýjar tölvur, sumar frusu og á tímabili varð netsambandið hægvirkt og álagið of mikið þegar líka var verið að kenna í hinu tölvuverinu. Núna er í fyrsta skipti í boði upplýsingatæknikjörsvið í fjarnámi og þetta var fyrsta kennslustundin hjá því kjörsviði. Minnti mig á þegar fyrsti fjarnámshópurinn var að hefja nám í KHÍ. en kennaranám í fjarnámi hófst í janúar 1993, þá komu nemendur inn í fjarnám og við kenndum þeim að nota tölvusamskipti í fjarnáminu. Ég held að þetta fjarnám í Kennaraháskólanum sem hófst fyrir áratug sé gífurlega merkilegt framlag til að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, þarna gat fólk á landsbyggðinni í fyrsta skipti stundað heildstætt nám á háskólastigi án þess að flytjast búferlum. Það er líka ein besta byggðastefnan að styðja við menntun og menningu á landsbyggðinni. Kennaranám sem byggir mikið á upplýsingatækni er góð leið til að flytja í byggðalögin færni sem kemur sér vel í þekkingarsamfélagi.

12.8.02

Jeppavinafélagið fundar


Hvaða fundur skyldi akkúrat núna standa yfir á Grand Hótel? Ég var að koma heim og finn ekki bílastæði í mílufjarlægð frá heimili mínu. Skrýtið samt hvað flestir fundarmenn hafa sams konar bílasmekk, það morar allt hverfið af jeppum og einhver sjónvarpsbíll fyrir utan svo þetta hlýtur að vera mikilvægur fundur hjá jeppafólkinu.
... búin að fatta hvaða fundur þetta var , sá á mbl.is að þetta eru stofnfjáreigendurnir og núna hafa þeir keyrt burt á jeppunum sínum svo nú get ég farið út og fært bílinn minn af gangstéttinni.

Myndir frá Gaypride 2002



Fór í gleðigönguna á laugardaginn og tók myndir sem ég setti á vefsíðu. Hitti Ástu, Kjartan, Steina og Júlíu á Jómfrúnni og fór með þeim á Ingólfstorg. Fórum svo á annað kaffihús í Austurstræti og fylgdumst með út um gluggann þegar blöðrunum var sleppt og svo beint á Vídalín, þar var þrumustuð því þar spiluðu Rokkslæðurnar.

Nú er ég komin með þriggja ára myndaseríu frá hinsegin dögum, ég tók líka myndir í Gaypride 2001 og Gaypride 2000.

6.8.02

Sólardagur


Æ, hvað það var gott að sólin fór að skína aftur. Passleg líka eftir þessa hryllilegu og blautu verslunarmannahelgi. Á sunnudagskvöldið fór ég fyrst í bíltúr með vinkonu minni um Reykjavík til að tékka á hvort það séu einhverjir staðir í borginni sem eru fallegir í rigningu. Um kvöldið fór ég smá útúr bænum til að tékka á stuðinu á landsbyggðinni, fór á einhvern stað nálægt Smáralindinni í Kópavogi, ég held staðurinn heiti Players og Björgvin Halldórsson og Sigríður Beinteins spiluðu. Mér virtist vera heilmikið stuð en ég var einhvern veginn ekki þátttakandi í því. Ekki frekar en á 22 kvöldið áður. Eitt á ég sameiginlegt með Gunnari í Krossinum og Halldóri Laxness, mér finnst ömurlegt að vera innan um ofurölvi fólk. Í dag um fimmleytið gekk ég framhjá mannsöfnuði við strætóskýlið í Lækjargötu, þar lá einn maður á jörðinni en annar sem var strætóbílstjóri var mikið slasaður og alblóðugur og í geðshræringu, nokkrir lögreglumenn voru komnir þarna að og yfirheyrslur í gangi. Sennilega verið að bíða eftir sjúkrabíl. Mér skildist að þarna hefði drukkinn óreglumaður ráðist á strætóbílstjóra. Í miðbænum í Reykjavík er óreglufólk mjög áberandi og stundum hef ég gengið um miðbæinn um miðjan dag og nánast á öllum bekkjum á Austurvelli og í Lækjargötu verið dagdrykkjufólk sem situr að sumbli. Þetta er samt í fyrsta skipti sem ég verð vitni að einhverju ofbeldistengdu en mér finnst þetta mjög alvarlegt á þessum stað á þessum tíma, börn og unglingar þurfa að geta verið óhult um miðjan dag á stætisvagnabiðstöðvum og varla eru þau það ef þar ganga um menn í vímu sem ráðast á strætóbílstjórana.

Ég fór á Kaffi Viktor í Hafnarstræti með dætrum mínum eftir vinnu í dag og við sátum úti í sólskininu og borðuðum þar. Þar kom líka Ella Sigga og starfsfélagi hennar úr bankanum. Hún sagði okkur frá ferðalagi sínu til Færeyja en hún fór í íslenskt-færeyskt brúðkaup þar á Ólafsvökunni. Hún sagði að það hefði verið ævintýralegt að taka þátt í margra tíma hópdansi þar og sjá hvernig heil þjóð leiddist hönd í hönd og myndaði Orminn langa (ég hélt reyndar að það væri færeysk hljómsveit, vissi ekki að það orð væri notað yfir hópdansinn sem liðast um eyjuna - smart að hugsa sér fólksstrauminn eins og lifandi orm), nú langar mig til Færeyja.

Annars hefur mig dreymt skrýtna drauma undanfarnar nætur. Mann þá mjög vel en skrái þá hér til minnis.
Fyrstu nóttina dreymdi mig að úlnliðurinn á mér væri orðinn alveg holdlaus, eiginlega bara bein og ég gat auðveldlega náð með hinni hendinni utan um hann.
Aðra nótt dreymdi mig að ég myrti mann. (já það var eftir þáttinn um íslensk sakamál).
Þriðju nóttina dreymdi mig að ég væri í einhvers konar ferð upp á við, upp fjall held ég en þetta var bara ferð upp á við, ekki ljóst hver áfangastaðurin var. Áður en ferðin hófst þá var ég að skoða þrenna skó og var að velja skófatnað til ferðarinnar. Einir skórnir voru íþróttaskór, einir voru gönguskór en einir voru eldrauðir. Ég var í draumnum að furða mig á þessum rauðu skóm, var ekki viss um hvernig þeir hefðu birst eða hvort ég ætti þá. Svo man ég að ferðin var upp bratta brekku á örmjóum illfærum stíg og þar var fyrir snjósleði sem einhver hafði skilið eftir, einhver sem hafði stöðvast þar á leið sinni og það var alls ekki hægt að komast þar framhjá. Ég man að ég sparkaði snjósleðanum út af stígnum niður í hyldýpið, örg yfir að einhver hefði sett þennan faratálmi á leiðina. Þá hringdi síminn þó að klukkan væri bara sjö á mánudagsmorgni. Það var Princess Brown að hringja einhvers staðar frá útlöndum. Þannig að ég veit ekki hvernig ferðin endaði.

Klæðaburður í göngum


Ég er að hlusta á hljóðbókina Í aðalhlutverki Inga Laxness en þar les Silja Aðalsteinsdóttir endurminningar sem hún hefur skráð eftir Ingu Laxness. Þetta er svona mitt litla framlag mitt til Laxnessársins, ég hef einsett mér að heiðra hundrað ára árstíð hans með því að skoða hann og verk hans og samtíma eins og hann birtist í frásögn eiginkvenna hans. Eins ætla ég bera saman skáldsögurnar Eldingu og Aftureldingu. Ég keypti Eldingu í fornbókabúðinni á Vesturgötu en held að verði erfiðara að komast yfir Aftureldingu. Ég er búin að lesa bók Auðar Laxness um árin á Gljúfrasteini og er nú að hlusta á frásögn fyrri konunnar Ingu en hún var gift Halldór á mestu þroskaárum hans, árunum sem hann samdi sögurnar um Sölku Völku, Bjart í Sumarhúsum og Ólaf Kárason. Inga vann á Skattstofunni og handskrifaði skattskrána í Reykjavík á meðan Halldór var í Grindavík og handskrifaði þar Þú vínviður hreini. Hún vélritaði svo sögur Halldórs.

En ég safna líka öllu viðvíkjandi 1. maí og ég er komin að því þegar Inga Laxness segir frá að hún hafi ekki viljað fara í 1. maí göngurnar vegna föður síns sem var íhaldsmaður og um skeið þingmaður og ráðherra. Halldór starfaði á þessum árum í félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og skrifaði í Rauða penna og boðaði nýjan fögnuð. Eitt árið fannst Ingu að hún þyrfti að láta undan Halldóri að fara með honum í 1. maí gönguna.

Inga segir svo frá:
"...En þegar við förum að búa okkur út þá drífur Halldór sig í eldgamlan og skítugan rykfrakka og mig í svo andstyggilega druslu að ég gleymi því aldrei. Ég fór í þetta en ég skammaðist mín því ég var alltaf vel klædd og hann líka, hvort sem við vorum fjár eða blönk! Ég lét ekki oftar dubba mig upp í garma sem ég hafði átt fyrir mörgum árum og ég sagði við hann hreint út: Í svona falserí færðu mig aldrei aftur.
"

Skilaboðaskjóða og fréttayfirlit


Prófaði að setja inn þrenns konar i-frame hægra megin á bloggsíðuna mína. Setti inn fréttaveituna frá Bjarna þannig að hún birti 10 síðustu bloggin mín, setti inn skilaboðaskjóðu frá Tagboard, setti inn Nagportal glugga frá Agli. Ætla að athuga hvort svona skilaboð geta ekki gert sama gagn og "kommentakerfi", mér finnst flest þannig kerfi sem ég hef séð vera óþjál og svo flestir skrifa örstuttar athugasemdir.

Mér sýnist þetta ekki virka vel... alltof seinvirkt og skilaboðavefurinn annar ekki álaginu, svona er alltaf með þessi ókeypis verkfæri sem eru vinsæl. Setti þetta dót sem ég er að prófa á sérstaka síðu þ.e. bloggrúllur, skilaboðaskjóðu og fréttaveitu.

4.8.02

Matarboð hjá Kristínu Helgu


Gærkvöldið var skemmtilegt, Kristín Helga ákvað að halda matarboð og valdi uppskriftir sem hún fann á Netinu og lokaði sig svo inn í eldhúsi því enginn mátti vita hvað væri í matinn fyrr en hún bar réttina á borð. Hún var allan daginn að elda og baka. Það var margréttað eins og vaninn er í matarboðum Kristínar, boðið upp á marsipanvínarbrauð sem svona for-forrétt og svo komu tveir forréttir en það voru fylltar brauðbollur með skinku og ostajafningi og fylltir tómatar og sveppir með einhvers konar túnfiskajafningi. Í aðalrétt var svo kjúklingaofnréttur með hrísgrjónum og salati og í eftirrétt voru tvær forláta kökur önnur með marens og hin einhvers konar bananaterta. Borðhaldið stóð alveg til miðnættis því þetta voru svo margir réttir. Allt var frábærlega gott. Matargestir voru Kjartan, Ásta, Hóffý og Hjörtur auk okkar Kristínar. Magnús var á fjöllum, er í einhverri hálendisgöngu í Strútslaug nálægt Mýrdalsjökli. Seinna komu Sigvarður og Guðjón, þeir misstu af forréttunum og öðrum kjúklingaréttinum.

Sigvarður kom með gítarinn og spilaði og söng fyrir okkur frumsamin lög. Það var svo gaman að klukkan var langt gengin í þrjú þegar við fórum á djammið. Fyrst fórum við á Dillon og náðum að hlusta á seinasta lagið með Rokkslæðunum, svo á Kaffi List og dönsuðum þar um stund, kíktum aðeins á Hús málarans og fórum svo á 22. Fórum þaðan snögglega því þegar slagsmál brutust þar út þá vildi samferðafólk mitt ekki vera þar lengur. Synd, mér fannst heilmikil stemming þarna og hefði viljað vera lengur. Svo vorum við allt of seint á ferð fyrir Innipúkann 2002, ég hefði svo mikið viljað kíkja þar inn, stórmerkt framtak að bjóða upp á svona prógramm fyrir nördana sem bara vilja vera heima hjá sér.

2.8.02

Ósýnilegar konur


Nú þurfa stúlkur í kvennaskólum í Teheran í Íran ekki lengur að dúða sig með þessum blæjum, það sá ég í frétt á mbl.is í dag. Þær mega meira segja vera í fötum sem eru ekki bara svartur kufl. Mikið held ég að stelpurnar þarna séu glaðar, kannski líður þeim eins og okkur í Kvennaskólanum í gamla daga þegar skólareglunum þar var breytt - áður hafði verið stranglega bannað að mála sig. Við vorum allar í viðbragðsstöðu, keyptum okkur allar stóreflis snyrtiveski og fullt af eye-liner og varalitum og svoleiðis og töldum niður dagana þangað til skólareglunum var breytt. Þegar stundin rann upp máluðum við okkur og litum út eins og stríðsmenn leið á til orustu.

Þetta er örlítið spor í áttina að frelsi og jafnrétti þarna í Íran og kannski gengur ekki nema að taka svona dúkkuspor á þessum slóðum. ég held ekki að samfélagið þar eða annars staðar í Arabaheiminum þoli neinar meiriháttar kollsteypur. En það er ömurlegt til þess að hugsa um hve mikið mannréttindi sem við teljum sjálfsögð eru fótum troðin í sumum Arabalöndum. Við vitum um kvennakúgun Talibana í Afganistan sem vonandi viðgengst ekki lengur. Þar var upplausnarástand og margt fór úrskeiðis og mikil fátækt og skortur ríkti. Þannig er það ekki í ríkidæminu í Saudi Arabíu en velmegunin þar er samt bara fyrir suma og hefur ekki fært konum nein völd eða frelsi. Þar verða konur að klæðast svarta kuflinum Abaya og hylja andlitið nema augun og verða að ferðast í fylgd karlmanna, þær mega ekki aka bílum eða hjóla á almenningsvegum og þær verða að sitja á sérstökum sætum í strætó. Minnir þetta ekki á aðstæður blökkumanna í USA á sínum tíma? og aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku?

mannréttindi eru fótum troðin í Saudi Arabíu
The women that time forgot grein birtist í Guardian Unlimited 6. júlí 2002

1.8.02

Íslensk sakamál - Vatnsberamálið


Ég horfði á þáttinn Íslensk sakamál í sjónvarpinu í gær, þessi þáttur var um Þórhall Ölver og Vatnsberamálið. Þetta er stórkostlega vel gerður þáttur, ég held ég bara muni ekki eftir að hafa séð svona áhrifaríkan og magnaðan íslenskan heimildaþátt áður. Vakti mig til umhugsunar um hvers konar örlagaþræðir tengja atburði saman og hvernig refsing og fangelsisdvöl geta brotið fólk niður og búið til skrímsli úr svikahröppum.

Þátturinn náði langt út fyrir að fjalla bara um sjálft sakamálið sem var morð Þórhalls á Agnari þann 14. júlí 2000. Þátturinn hófst á því að rekja hræðilega skotárás sem móðir Þórhalls og hann sjálfur lentu í þegar hann var unglingur og leitast var við að sýna hvaða áhrif sú reynsla hafði á hvernig Þórhallur brást síðar við á lífsleiðinni. Svo fjallaði þátturinn líka um íslensk atvinnulíf á ákveðnum tíma og hvernig erlendir og innlendir gullgrafarar og svikahrappar reyndu að búa til peninga úr engu og um afar litríkan og brösóttan feril Þórhalls í framkvæmdum, fjárglæfrum og fjársvikum. Þórhallur fékk árið 1995 einn þyngsta fangelsisdóm sem kveðinn hefur verið upp hérlendis fyrir auðgunarbrot en hann var dæmdur til 3 ára fangelsisvistar.

Þórhallur Ölver var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Útflutningsfyrirtækisins Vatnsberans hf., sem var stofnað til að undirbúa útflutning á vatni. Agnar vann í bókhaldinu hjá því fyrirtæki. Fjársvikin voru framin á árunum 1992-1994 á þann hátt að skilað var vikulega röngum virðisaukaskattskýrslum.

Þórhallur Ölver krækti víða í fé, m.a. fékk hann töluvert fé frá Ábyrgðarsjóði launa vegna orlofs sem Vatnsberinn hefði átt að greiða honum, hann mun hafa hafði rætt við starfsmann sjóðsins og þá m.a. lýst því yfir að Vatnsberinn væri líknarfélag sem menn störfuðu fyrir af hugsjón. Allt féð sem svikið var út virðist hafa farið í umsvif Vatnsberans nema að Þórhallur segir að Agnar hafi komið undan fé og lagt á reikning í útlöndum, það var rót að misklíð þeirra og vígi Agnars.

Þórhallur og Agnar voru vinir. Atli Helgason og Einar Örn voru líka vinir og ráku saman fataverslun í Reykjavík. Atli var skiptastjóri í dánarbúi Agnars og sagði að í því búi hafi ekki verið sá erlendi sjóður sem Þórhallur segir Agnar hafa skuldað sér. Atli var nokkrum mánuðum seinna ákærður fyrir manndráp og fjárdrátt, m.a. fjárdrátt úr búi Agnars. Atli banaði Einari Erni 8. nóvember 2000 með því að slá hann margoft í höfuðið með hamri á bifreiðastæði í Öskjuhlíð í Reykjavík. Hann faldi líkið í Grindavík og tók sjálfur þátt í leitinni að Einari Erni.

Rúmu ári seinna eða 18. febrúar 2002 var Þór Sigurðsson á ferð um nótt á Víðimel vopnaður sveðju, slaghamri og kjötexi. Hann var í vímu og að koma úr innbrotsferð á fyrrum vinnustað sinn Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar og banar Braga Óskarssyni sem er að koma úr vinnu. Ekki er vitað til þess að þeir hafi þekkst.

Sennilega afplána þessir þrír morðingar núna refsingar sínar á fangelsinu á Eyrarbakka, þeirra afbrot eru stór og morðin óhugnanleg. Spurning er hvernig manneskjur þeir verða þegar þeir hafa afplánað og hvort þeir fá einhver tækifæri til að bæta fyrir glæpi sína og byggja sjálfa sig upp meðan á afplánun stendur. Þeir voru í áfengis- og fíkniefnaneyslu þegar morðin voru framin.

Það var viðtal við aðstandendur Þórhalls í þættinum í gær og það kom fram hvernig fangelsisdvölin fyrir fjármálabrotin hafði brotið Þórhall niður og hve óttaslegin þau eru um hvað tekur við eftir þegar hann hefur afplánað.

Bandarískur maður náði valdi á vefsvæði sem hann hafði keypt


Það er svo skrýtið hvað mbl.is finnst fréttnæmt, núna í morgun segja þeir frá manni sem hakkaði sig sjálfan. Hann keypti lénið alneda.com og fyllti það af alls konar dóti svona til að líta út eins og það væri vefsvæði á vegum al-Qaeda-samtakanna . Svo föttuðu Arabarnir að þetta var plat og FBI vildi ekki eða gat ekki hjálpað honum við plottið svo hann nennti þessu ekki lengur og breytti gögnum á sínu eigin léni og hafði hamskipti - mjög dæmigerð hegðun hjá lénsherrum á Internetinu.

Það er hægt að brosa að þessari moggafrétt en í dag sá ég alvarlegri frétt á BBC um hvernig stjórnvöld í Suður-Afríku eru að reyna að fá algjört vald yfir Internetinu þar í landi, sjá South Africa 'hijacking the internet og svo allar þessar nýlegu fréttir um lokanir á Internetkaffihúsum í Kína. Stjórnvöld segjast vera að tryggja öryggi og koma í veg fyrir Internetglæpi. Mér finnst ágætt að skoða hve mikil höft eru á aðgengi að Interneti og hve mikil rafræn vöktun/hlerun/eftirlit er á því sem þegnar gera á Internetinu sem einn mælikvarða á stjórnarfar.