27.9.02

Nútímalegur skólafrömuður ha? ég?


Mér finnst flott að vera kölluð nútímalegur skólafrömuður og er bara töluvert upp með mér af þessum pistli hjá Brynjólfi.

Frida Kahlo og Diego Rivera
Þann 15. september fór ég með dætrum mínum á fyrirlestur í Alþjóðahúsinu um Fridu Kahlo. Fórum fyrst í Kolaportið og þar dróst ég að venju eins og segull að rekkum fornbókasalanna og keypti söguna um sjóræningakonuna Fu sem ég las sem barn á þeim tímum sem ég vildi verða sjóræningjakona og frásögn HC Andersen af lífi sínu og uppvexti og einhverja þriðju bók sem ég man ekki hver er. Þessi dagur er þjóðhátíðardagur Mexikó sagði konan sem flutti fyrirlesturinn. Vissi ekki mikið um Fridu Kahlo áður nema vinkona mín gaf mér einu sinni dagbók þar sem var mynd eftir Fridu á hverri opnu. Ég skrifaði aldrei í dagbókina, hún var fyrir árið 2000 en ég naut þess að hafa hana óskrifaða og opna á skrifborðinu hjá mér.

Eftir fyrirlesturinn fletti ég upp á Netinu og las um Frida Kahlo og Diego Rivera. Mér finnst þau bæði stórbrotnir listamenn og skoða núna list þeirra eins og táknmyndir um tvo heima - um tvenns konar myndir af heiminum, heimur Diego Rivera þar sem hann málar samfélög og heildir og söguleg samhengi, áróðursmyndir til að vekja hughrif hjá verkamönnum og alþýðu í Mexíkó, heimur Fridu Kahlo þar sem hún málar lífveruna sjálfa sig, stundum eins og vélveru spelkta saman og stungna nöglum, stundum eins og dýr, stundum eins og á jaðri þess að vera kona eða karlmaður, oft með samvaxnar augnabrúnir og yfirskegg. Mér finnst myndir Fridu vera nær nútímaskilningi og skynjun, alla vega nær minni eigin skynjun en veggmyndir Diego sem eru hluti af fortíðinni, svona eins og bibíumyndskreytingar í kaþólskum kirkjum.

24.9.02

Tvíburaturnar í Teigahverfinu


Fór í hádeginu í dag á fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélaginu um Guðmund Hannesson. Mér er málið skylt, því hann er skyldur mér og ég hef meira segja sett upplýsingar um hann og ættmenni okkar inn á ættarvef. Núna er vegur Guðmundar mestur sem skipulagsfrömuðar, hann skrifaði fyrstur Íslendinga rit um borgarskipulag. Honum var líka margt annað lagið, hann var fádæma góður skurðlæknir og skipti sér af öllu. Hann hafði gott smiðsauga og var sonur Hannesar smiðs á Eiðsstöðum langafa míns.

Svo segir um Guðmund í Sögu Sauðárkróks: "Þegar hann var á Sauðárkrók var sagt var um Guðmund lækni, að hann léti sér ekkert mannlegt vera óviðkomandi. Var naumast reist svo hús á Sauðárkróki, að hann kæmi þar ekki nálægt. Hefur hann sjálfur sagt frá því, er notkun þakjárns (bárujárns) hófst þar. Negldi smiðurinn þá jafnan í lægðirnar á plötunum. Guðmundur benti á rétta aðferð."

En nú er Guðmundur sem sagt í kastljósinu út af borgarskipulagi og skrifum um Reykjavík. Hann byggði og bjó í húsi hérna við Hverfisgötuna. Það kom fram í erindinu að Guðmundur var alveg á móti háhýsabyggingum í borgum, vildi að byggðin væri tvær og í mesta lagi þrjár hæðir og vildi líka að sveitarfélagið ætti landið því annars myndu eignaraðilar alltaf sælast í að byggja háhýsi á verðmætustu lóðunum. Hvað skyldi Guðmundur frændi hafa sagt við turnunum tveimur sem á að byggja ofan á Grand hótel hinum megin við götuna þar sem ég bý í Sigtúni? Ég held að þeir eigi að vera tólf hæða eða eitthvað álíka. Ég hugsa hann hefði ekki verið sáttur, það er erfitt að sjá hvernig þessi turnsmíð fellur að umhverfinu.

Kynjaskipting í HÍ


það fylgdi með Mogganum í morgun einhver kálfur um háskólann, ég veit ekki hvort þetta var borguð auglýsing eða eitthvað svoleiðis, vona ekki því alla vega virkaði hún ekki á mig. Eiginlega varð ég bara mjög stuðuð og pirruð út af einni heilsíðugrein þarna og tók þar af leiðandi ekkert eftir öðrum greinum í blaðinu. Þessi grein bar heitið "Eru karlmenn í útrýmingarhættu í Háskóla Íslands?" og það er Albertína Elíasdóttir (kannski þessi bloggari?) sem er skrifuð fyrir greininni. Saman fór þarna yfirborðsleg og flausturleg úttekt á jafnréttismálum í háskólanum skreytt nokkrum tölfræðilegum staðreyndum og vangaveltum um að það væri verið að eyða púðrinu á vitlausum stað og að sá sem valdi fyrirsagnir og millifyrirsagnir í greinina er ekki vandur að virðingu sinni. Aðalfyrirsögnin segir ansi margt um tón greinarinnar og sjónarhorn greinarhöfundar en áberandi millifyrirsögn er t.d. þessi: "Það er varla réttlætanlega að reka fullkomlega hæfa karlmenn úr stöðum til að ráða konur og jafna kynjahlutfallið".

Maður heldur að greinin sé um voða skandall þar sem á einhverjum stað og á einhverjum tíma í íslenskum háskólum hafi komið til greina af einhverjum að reka karlmenn til að koma konum að. Svo ég neyddi sjálfa mig til að lúslesa þessa grein til að finna það tilvik en þá eru þetta bara útleggingar greinarhöfundar sem hún setur fram þegar hún hefur hampað tölfræðinni um fjölda prófessora í háskólanum en prófessorar eru þar 171 talsins og þar af eru bara 22 konur.

Mér vitanlega hefur aldrei verið nein umræða um að bola karlmönnum úr starfi til að koma konum að og það er reyndar ekki þannig að konur njóti neins forgangs við hæfnismat og aðgang að störfum háskólakennara, mig minnir reyndar að núna fyrir einhverjum mánuðum hafi einmitt verið talin af mörgum kynbundin slagsíða á nýlegum hæfnisdómi þ.e. þannig að rannsóknir kvenkyns umsækjanda um stöðu hafi verið metnar lítilvægari en karlkyns umsækjanda (var ekki opna um þetta í mbl á sínum tíma?). Ég get alla vega ekki séð annað en það átak um að fá konur til að sækjast eftir stjórnunarstöðum og skoða nám í verkfræði- og tæknigreinum sé vel til þess fallið að fá fleiri konur í framtíðinni í ábyrgðarstöður og stjórn atvinnufyrirtækja sem þurfa stjórnendur með tæknimenntun. Það er ekki síður spurning um að leysa úr læðingi íslenskan mannauð - það er ekki gott upp á framtíð þessa samfélags ef ungt fólk er bundið af einhverjum fordómum eða neikvæðum viðhorfum gagnvart ákveðnu starfsvali og forðast ákveðin störf og þjálfun til ákveðinna starfa. Svo sem ef það viðhorf væri meðal stúlkna að fráleitt væri að fara í verkfræði eða tölvunarfræði eða meðal pilta að fráleitt væri að fara í hjúkrunarfræði eða félagsráðgjöf.

Það er umhugsunarefni hvers vegna konur eru í meirihluta í háskólanámi og hvaða afleiðingar það mun hafa í framtíðinni. Ég hef ekki pælt mikið í því en held að hugsanlega sé hluti af skýringunni að það er auðvelt og aðgengilegt að komast í háskólanám á Íslandi og það mismunar ekki körlum og konum eftir inngöngu og mismunun í sjálfu háskólanáminu er engin eða hverfandi. Jafnframt að konur eru bjartsýnar um að menntun muni skila þeim einhverju í meira spennandi störfum og meiri valkostum. Eða ef ég umorða þetta þá líti konur á menntun sem einu færu leiðina til að komast áfram í atvinnulífi seinna. Þegar ég hugsa um þetta þá man ég í svipinn ekki eftir neinni konu sem hefur komist til frama nema að hafa einhverja langskólamenntun en mörgum körlum. Svo getur líka verið að fjöldi kvenna í háskólanámi endurspegli atvinnuástandið, það er velþekkt á Norðurlöndum að atvinnuleysi er að hluta til dulið með því að fólk er í námi og það er líka hægt að benda á að konur hafa verið nokkurs konar varavinnuafl, sendar aftur inn á heimilin þegar atvinnuleysi er en gengið í öll störf þegar það vantaði fólk. Sérstaklega eru mörg dæmi um það frá atvinnulífinu í síðari heimstyrjöldinni þegar fjöldi karlmanna var kvaddur í herinn.

Einnig getur hluti af skýringunni á fleiri konum hlutfallslega í háskólanámi að þær starfsgreinar sem konur hafa verið fjölmennar í krefjast nú meira náms og prófgráðu til að fá starfs. Eitt hefði ég gaman af að vita og það er hvert af eldri nemendum sem hefja nám í háskólanum séu fleiri konur en karlar. Alla vega er það reynslan úr fullorðinsfræðslu að auðveldara er að fá konur en karlmenn inn á námskeið og inn í einhvers konar umskólunarprógrömm. Það getur hugsanlega verið að einhverju leyti kynbundið hvernig fólk bregst við breytingu á högum t.d. minnkaðri atvinnu og að konur skoði þá möguleika á námi fremur en karlar.

Ein skýring getur líka verið að það sé að einhverju leyti auðveldara fyrir konur að þola við í háskólanámi nútímans, háskólaumhverfið einkennist af svolítið skýrri valdalínu og einstefnuboðleiðum milli kennara og nemenda og yfirleitt af góðu tengslaneti nemenda innbyrðis, nemendur eru valdalausir og umbun þeirra felst í úthlutun á númerum (kallað einkunnir) og þeir sem eru samviskusamir, varkárir, þægir og fara troðnar slóðir eru líklegastir til að fá hæstu tölunum úthlutað.

Kannski eru þetta ekki alltaf svona langsóttar skýringar, kannski eru það fríðindin eins og húsnæðið sem trekkir suma að , alla vega er mágkona mín ein núna við að ljúka BA prófi með afbragðseinkunn en hún skráði sig í háskólann fyrir þremur árum bara vegna þess að hún var á götunni, nýskilin og ein með þrjú börn og með því að vera í háskólanum fékk hún íbúð á stúdentagörðum og svo hefur hún skrimt þessi ár á barnabótum, meðlögum og mæðralaunum.

Hverjar sem ástæður þess eru að konur eru fjölmennari í háskólanum þá er ekki hægt annað en líta á þetta sem góðs viti fyrir stöðu kvenna í framtíðinni og fyrir almenna menntun í landinu. Í gegnum aldirnar hefur menntun og upplýsingin verið eitt besta verkfærið til að breyta samfélaginu innan frá.

Frelsi til að skapa, frelsi til að velja, frelsi til að tjá sig og reika um á Netinu án eftirlits


Í greininni Issues that will shape the Internet þann 15. september spáir Dan Gillmor í þróun Internetsins. Hann fjallar um hve mikilvægt er að hafa 1) frelsi til að skapa og prófa nýjungar, 2) valfrelsi og samkeppni, 3)öryggi og tjáningarfrelsi. Dan Gillmor hefur áhyggjur eins og við flest sem fylgjumst með þróun Internetsins af þeim hömlum sem verða settar gegnum höfundarréttarlög, gegnum stórfyrirtæki sem reyna að koma á samskiptastöðlum sem tryggja þeim einokunaraðstöðu, gegnum kapaldreifingafyrirtæki sem neita að flytja gögn eftir pípum nema þau geti stjórnað hvað fer eftir pípunum. Hann segir: "Today, a few corporate giants increasingly dominate the creation and delivery of news and entertainment. Give them the right to consolidate further, and average Americans will have fewer choices than ever. "

Svo bendir Dan Gillmor á að við förum offari í öryggismálum ef við byggjum ekki inn í tölvukerfin möguleika fyrir einstakling að hylja slóð sína og vera ósýnilegur á Netinu. Hann segir: "But if we don't build in privacy protections and the ability to be anonymous -- both of which are crucial to preserving liberty -- we will be creating the ultimate in surveillance tools. "

23.9.02

Jarðarför á Blönduósi


Á laugardaginn fór ég í jarðarför á Blönduós. Það var verið að jarða móðurbróðir minn. Veðrið var frábært, náttúran á leiðinni var í mildum haustlitum og alls staðar dýr á túnum, því nú eru hestar og kindur að koma af hálendinu. Líka svanir og gæsir. Við sáum víða smölun og réttir, í Víðidal voru hæðirnar fullar af kindahópum sem runnu hægt niður að réttinni, svona eins og lygn á. Kindurnar eru núna fallegar, svona stríðhærðar og stórar, eru eins og kringlóttir ullarboltar á túnunum, lömbin eru næstum eins stór og ærin eftir bara eitt sumar á fjöllum. Svo voru sums staðar stóðréttir. Systir mín kom vestan af fjörðum og eftir jarðarförina og erfidrykkju í félagsheimilinu litum við syskinin við hjá frænda mínum sem býr á Blönduósi og skáluðum fyrir minningu föður hans. Fræddumst um Blönduós, þar er kreppa og vonleysi og við ræddum um virkjanir. Það rifjaðist upp fyrir mér að móðurbróðir minn var einmitt að tala um virkjanir þegar ég hitti hann seinast, það var í fermingarveislu í vor. Hann vildi virkja í Vatnsdalnum þar sem hann var uppalinn, ég held einhvers konar smávirkjun bara 1,5 megawött. Mér skilst að einhver breyting á orkulögum geri svoleiðis virkjanir mögulegar. Sonur hans var líka á hrifinn af þessari heimilisvirkjunarhugmynd, sá þetta fyrir sér sem atvinnusköpun að setja upp iðjuver í aflögðum hlöðum og fjósum og framleiða eitthvað úr heimaframleiddri orku. Kannski fara allir núna að virkja, geri bara pínulitlar virkjanir. Ég get nú samt ekki séð slíkt fyrir mér sem neina atvinnubót, ekki flytur orkan úr Blönduvirkjun neina atvinnu í héraðið fyrir utan þá sem passa virkjunina. Kannski lengi Blönduvirkjun lífdaga Blönduóss sem atvinnupláss en nú er rækjan sem þar berst á land keyrð í burtu til frekari vinnslu og það er ekki þörf á þjónustu við landbúnað þaðan. Kannski er ekki einu sinni hagkvæmt að láta þjóðveg númer eitt liggja um Blönduós, kannski er Svínvetningabraut betri valkostur. En núna þegar flestöll merki um atvinnulíf eru horfin úr þessu sjávarplássi þá fer þorpið að verða fallegt og svo hefur jökulsáin Blanda verið hamin með uppistöðulónum og núna streymir bara lygn og falleg á um þorpið sem liggur báðum megin við árbakkana.

Við fórum svo með systur minni norður í Skagafjörð og fórum á bæi í Blönduhlíðinni, fórum fyrst á Vagla og síðan á Víðivelli og gistum þar og hittum frændfólkið þar. Borðuðum heimabakaða frábæra pitsu og kjötsúpu hjá Önnu og Sindra. Gaman að fylgjast með litlu börnunum og sjá hvað þau þroskast hratt, yngst eru Elín Rós 4 mánaða og Heiðar Sigurmon 9 mánaða. Lilja 3 ára og Kristján 5 ára léku sér saman allan daginn og búa í frábæru leikumhverfi, á hlaðinu vappa nokkrir tugir af íslenskum hænum, ekki svona hvítum ítölum heldur svörtum og brúnum og flekkóttum hænum og skrautlegum hana, þar eru líka tveir hundar og nokkrir hestar. Lækur rennur við hlaðið og það sést í skógræktina sem ræktunarkonan Lilja á Víðivöllum byrjaði á og nú heldur áfram á Ásgarði og Víðivöllum. Annars fjölgar skógræktendum í Blönduhlíðinni, núna er búið að selja Hrólfsstaði og skilst mér að kaupandinn ætli að byggja hús og rækta skóg. Kannski það verði samfellt skóglendi fyrir ofan veg á einhverjum kafla og þegar nær dregur heiðinni, alla vega sprettur skógur þarna vel og búskapur er alltaf að dragast saman, alla vega sauðfjárbú. En kúabúin sem eftir eru stækka og stækka, núna eru bændurnir á Víðivöllum og Vöglum farnir að rækta heilmikið korn og núna um helgina voru þeir á ferð með kornskurðarvélar og voru að byrja að skera kornið. Slétturnar í Skagafirði og veðurlag þar virðist henta vel til byggræktar. Núna eru þeir líka komnir með veðurþolnari afbrigði.

Legally Blond


Í síðustu viku horfði ég á myndina Legally Blond ásamt 12 ára dóttur minni. Hún var hugfangin af myndinni og vill núna endilega að ég fái mér hund eins og þennan sem söguhetjan var með alla myndina, svona rottulegan kjölturakka. Svo fannst henni æði hvernig ljóskan var klædd og hve mikið hún var á skjön við allt þetta grátóna og jarðlitamistur sem sveipast um iðjusömu uppana í myndinni. Mér fannst myndin þrælfyndin og í bland líka aulaleg og boðskapur einfaldur. Samt svo sem allt í lagi svona út frá mínu níðþrönga femínistalega sjónarmiði.

Þetta er saga um stelpu sem brýst áfram og sigrar, hún þorir að vera öðruvísi og últra kvenleg - líkist næstum dragdrottningu, hún leggur mikla áherslu á ytra byrði, ekki síst glálakkaðar neglur. Hún breytist í myndinni og vex að vitsmunum og þori. Allur söguþráður er miðaður við að það skilji hvert barn svona frá átta ára aldri. Myndin minnti mig á myndirnar My Fair lady og Educating Rita, svona eins og anno 2002 framhald af þeim. Eða er kannski öðruvísi að því leyti að hér er enginn lærifaðir, ekki neinn karlmaður af yfirstétt sem treður siðfágun inn í alþýðustúlku, í þessari mynd er það ljóskan sem sjálf ákveður að mennta sig og slá í gegn en heldur samt einkennum sínum og ljóskuleika.

19.9.02

Varnarlið og vírusar


MS er dularfullur sjúkdómur. Kannski kynsjúkdómur? Alla vega segja vísindamenn það í greininni MS might be sexually transmitted sem birtist í United Press í dag. Þetta er meira að segja stutt með rannsóknum á Íslendingum, ég bara vissi ekki að það hefði verið einhverjir MS faraldrar hérna með setuliðinu en í greininni segir: "Hawkes' research turned up four small MS epidemics that occurred on the Faroe, Orkney and Shetland islands and in Iceland following large influxes of Allied troops during World War II. This suggests sexual activity between women on the islands -- who previously had lower rates of infection -- and troops from geographic regions with higher rates of infection led to the outbreaks". Annnars var ég að finna grein í læknanemanum um heila- og mænusigg þar sem því er haldið fram að svona MS faraldur hafi ekki orðið hér.
Doktor.is MS-sjúkdómur
MS félagið

18.9.02

Málstofa um konur og upplýsingasamfélagiðMynd frá málstofunni. Fleiri myndir eru hérna->
Í seinustu viku frá fimmtudegi 12. september til sunnudags 15. september var ég á kafi í vinnu vegna þess að þá var hérna á Íslandi málþing um konur, upplýsingasamfélagið og lýðræði. Ég skipulagði þetta málþing og flutti erindi þar. Ótrúlega mikil vinna og mörg smá og stór atriði sem þurfti að láta smella saman, fá fyrirlesara, raða upp dagskrá, fá fundarstaði, panta mat og hótel, skipuleggja menningardagskrá og ferðir og bregðast við óvæntum atvikum. Líka að vera leiðsögumaður um íslenska menningu og sögu á meðan við vorum á ferðalagi.

Við fórum tveir Íslendingar þ.e. ég og Sólveig með útlendingana á Þingvelli og í Reykholt, skoðuðum Deildartunguhver og fórum að Bifröst þar sem við gengum á Grábrók eftir að málstofunni lauk. Sólveig var frábær sem leiðsögumaður, hún er líka upprunalega jarðfræðingur og fróð um náttúru landsins og kunni margar skemmtilegar sögur. Á föstudagskvöldið vorum við í Skólabæ og þangað kom Sigvarður og spilaði fyrir okkur á gítar eigin tónsmíðar og texta bæði á íslensku, ensku og frönsku. Eftir það fórum við á Kaffi Reykjavík og þær norsku fóru svo með okkur áfram í lengri skoðunarferð um öldurhúsið þ.e. á Næstabar, Kaupfélagið og Kaffi list.

Ég held það eigi nú reyndar vel við mig að skipuleggja svona uppákomur og ráðstefnur. Þetta málþing var í tengslum við norrænt-balteskt-rússneskt rannsóknarnet ITDG sem ég hef verið þátttakandi í frá 1999 og hingað til lands komu 12 erlendir fræðimenn frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi, Rússlandi og Lettlandi. Alls held ég að um nálægt 30 manns hafi tekið þátt í málþinginu og það var að hluta haldið í Bifröst í Borgarfirði því Lilja Mósesdóttir er komin þangað.

Þetta málþing á Íslandi heppnaðist feikivel, útlendingarnir voru mjög hrifnir af Íslandi og hvað við erum að gera hér í rannsóknar- og þróunarstarfi sem varðar upplýsingasamfélagið. Ég held að það sé mikilvægt að fá svona til landsins fræðimannahópa og afar góð landkynning og heppilegt til að tengja íslenska fræðimenn við alþjóðasamfélagið. Svona var dagskráin og hérna eru myndir sem ég tók, þær eru mest af menningartengdu dagskránni og úr gönguferðunum.

Sun Staroffice og Microsoft Office


Áhugavert er að fyrirtækið Sun gefur núna skólum víða um lönd hugbúnaðinn Staroffice 6.0 en það er sams konar búnaður og Microsoft Office pakkinn.

11.9.02

Árið eftir


Veit svo sem ekki hvað ég get sagt núna í dag þegar ár er liðið frá innrásinni í New York. Jú, get kannski rifjað upp hvernig þetta breytti mínu lífi og hvernig ég fylgist núna miklu betur með heimsmálunum og hvernig ég hef tapað traustinu - traustinu á að yfir heimi mínum vaki velútbúnir og hæfir bjargvættir og varnarflokkar ávallt til taks og í viðbragðsstöðu þegar einhver óvænt ógn steðjar að - traustinu á að heimur minn samanstandi af fólki sem spilar eftir sömu leikreglum og ég og virði það sem mér er heilagt og kært - traustinu á að þeir sem ráða yfir valdi og vopnum í heiminum líti á venjulegt fólk eins og mig sem vini og samherja þangað til annað kemur í ljós - traustinu á að áfram verði unnið að því að létta af hömlum sem ríkisvald setur einstaklingum og að létta af tálmum á ferðafrelsi, skoðanaskiptum og upplýsingagjöf.

Innrásin og eftirmálar hennar hafa haft gífurleg áhrif á líf mitt og heimsmynd mína og ákvarðanir í lífi mínu frá þeim tíma hafa verið teknar með hliðsjón af þessu. Að sumu leyti finnst mér eins og ég hafi glatað einhverju bernsku sakleysi og tiltrú - einhverju sem kemur aldrei aftur því það hafi runnið upp fyrir mér að ég hafi lifað í blekkingu og ævintýraveröld - eða kannski er ég núna komin inn í aðra og ógnvænlegri ævintýrasögu?

Þessi vefannáll sem ég hef haldið úti undanfarið ár ber líka merki frá 11. september. Hann hefur verið í svartri umgjörð frá þeim tíma, í eins konar sorgarbúningi. Nafnið Metamorphoses er líka komið frá 11. september, það er þannig til komið að ég ákvað að breyta vefannálnum miðað við hvað hefði verið efst í huga mínum og hvað ég hefði seinast skoðað og pælt í á Netinu áður en heimsmyndin hrundi. Það reyndist vera þessi sagnaflokkur Orvid um hamskipti, ég hafði verið að fletta upp sögunni um Iphis og heillaðist af Metamorphoses.

Einhvern veginn finnst mér mikilvægt hvað er í huga fólks rétt áður en örlagaatburðir gerast í lífi þess. Í dag reikaði ég um á Netinu eins og venjulega og kom inn á vefannál bandarískrar konu sem virðist búa í New York. Þetta var skemmtilegur annáll og ég fór að lesa áfram og skoða fjölskyldumyndir, líka frá bernsku hennar þar sem voru margar myndir af systkinum. Úr því það væri þessi dagur þá datt mér líka í hug að lesa dagbókina og spá í hvort atburðirnir 11. september hefðu einhver áhrif á líf hennar. Ég las það sem hún skrifaði í dagbókina sína 3. mars 2002 :
I Really don't Know What To Say
My brother killed himself last night. He was going to turn 27 years-old next month. He jumped off his building in Manhattan. His girlfriend had to identify his body. My dad called to wake me up and tell me, just like he woke me up early and told me about the planes on September 11.


Mér fannst mikilvægt að vita hvað leitaði á huga þessarar konu rétt áður en hún fékk þessar sorgarfréttir og sá að hún hafði skrifað í dagbókina 1. mars 2002 endurminningar um bernsku sína og martröð sem leitar á hana, þetta var frásögn um ungan mann sem kallaður var í Vietnam stríðið og kom stórskaddaður á sál frá þeim átökum og þegar hann eignaðist fjölskyldu gerði hann líf konu sinnar og barnanna sinna tveggja að martröð. Það er endurminning dóttur hans sem skrifuð er í dagbókina, hughrif sem leita á hana rétt áður en bróðir hennar fremur sjálfsmorð. Hún skrifar: I do still, however, I wake up in the night from terrible nightmares of someone trying to kill my family. And I know the person in my dreams is my father. I hate the Vietnam War for robbing me of my childhood, for robbing my dad out of his childhood at nineteen.


Kynjablöndun í skólum


Ágúst veltir fyrir sér kynjablöndun í skólum. Hmm... ég hef nú frekast reynslu af einsleitu kynjaumhverfi sjálf sem nemandi, var í Kvennaskólanum á unglingsárunum og stelpubekk í menntó. Það var reyndar fyrsti stelpubekkurinn í eðlisfræðideild MR, alla vega var þá námsvalið kynbundið og stelpur fóru frekar í máladeild. Ég held að það sé alla jafna best að stuðla að fjölbreytileika og blöndun og það að búa til hópa t.d. eftir kynferði eða háralit eða húðlit er sennilega ekki fallið til annars en að skerpa á andstæðum.Samt hafa feminstar bent á að margar helstir frumkvöðlar og baráttukonur fyrir kvenréttindum hafa menntast í kvennaskólum t.d. Vassar í USA.
Það hefur verið heilmikið umræðu um kynjablöndun á öllum skólastigum, m.a. má nefna hugmyndir Margrétar Pálu í leikskólastarfi þ.e. Hjallastefnuna. Einnig hefur
Kristín Ástgeirsdóttir fyrrum þingkona Kvennalistans mælt fyrir því að stofna kvennaskóla/kvennaháskóla. En lítum á söguna. Konur máttu um 1870 ekki setjast í Latínuskólann og stúlkur sóttust eftir að komast í vist hjá heldra fólki í Reykjavík til að forframast því litlir aðrir valkostir voru í stöðunni. Þóra Grímsdóttir Melsted stofnaði þá Kvennaskólann. Hún og Páll maður hennar byrjuðu með skólann inni í stofu hjá sér. "Tíu til tólf stúlkur sátu allar í kring um sama borð og saumuðu og prjónuðu. "Páll sagði þeim, eins og það var einhversstaðar orðað, "fallegar sögur úr veraldarsögunni" á meðan. "Svo var byggt skólahús við Austurvöll 1878 sem nú er þekkt sem Sigtún. Hmm. er það ekki skemmtistaðurinn Nasa? Svo tók kvenskörungurinn Ingibjörg H. Bjarnason við skólanum 1906 og núverandi skólahús var byggt 1909. Skólinn varð nútímalegur og þar voru kenndar greinar sem þá þóttu nýstárlegar eins og heilsufræði, bókfærslu, hjúkrun og félagsfræði.

Þegar ég fór í Kvennó var skólinn þriggja eða fjögurra ára bóknámsskóli og landsprófsdeildin víðfræg, alltaf hæst yfir landið. Það var erfitt að komast inn í Kvennó, það þurfi að hafa háa einkunn á barnaskólaprófi og eftir tveggja ára nám við skólann var svo aftur síað inn í landsprófsdeildinni. Þetta var því nokkurs konar elítuskóli sem eingöngu tók inn stúlkur og er reyndar athyglisvert að á þeim tíma var það notað sem röksemd í fjölmiðlaumræðu fyrir að skólinn væri óþarftur hve góður námsárangur var jafnan þar. Í Morgunblaðið 23. maí, 1999 var viðtal við kennara minn frá þessum tíma Aðalsteinn Eiríksson en hann lýsir þar vel viðhorfum til skólans. Aðalsteinn segir líka frá innrásinni í Kvennaskólann árið 1970 en þá var ég einmitt í landsprófsbekknum þar. Þetta voru róstur og læti og ég var á þingpöllum þegar Kvennaskólafrumvarpið var tekið fyrir. Þar var magnað f´jör.

"Eftir tilkomu grunnskólalaganna kom það til umræðu að leggja skólann niður," segir Aðalsteinn. "Það þótti hæpið að vera að púkka undir einhvern kvennaskóla þegar Menntaskólinn í Reykjavík og Verslunarskólinn voru í næsta nágrenni. Því var haldið fram að skólinn fleytti bara rjómann af hverjum árgangi grunnskólanna í Reykjavík og svo gætu kennarar í Kvennaskólanum bara hallað sér afturábak í stólunum og svo lærðu þær bara sjálfar, þær væru svo miklir snillingar."

Innrás í skólann 1970


Þegar Aðalsteinn er inntur eftir einhverju eftirminnilegu atviki úr sögu skólans minnist hann átaka sem upp komu um hvort leyfa ætti skólanum að útskrifa stúdenta. "Þetta gerðist löngu áður en grunnskólalögin voru sett og ákveðið var að Kvennaskólinn yrði framhaldsskóli. Skólinn sóttist þá eftir að fá að útskrifa stúdenta og eingöngu stúlkur. Þetta varð gífurlegt hitamál, miklar æsingar í kring um það og hundruð blaðagreina voru skrifuð. Þá var gerð innrás í skólann og kennsla stöðvuð af fólki sem taldi að verið væri að framkvæma einhvern kynferðislegan fasisma með því að ætla að halda stúlkum sér. Að skólinn væri þá að ummyndast í andhverfu þess sem lagt hafði verið af stað með í upphafi, að berjast fyrir hagsmunum kvenna og jafnrétti. Nú væri svo komið að skólinn ætti að vera sérstakt ghettó fyrir stúlkur, kvenstúdenta. Í janúar 1970 réðst heil hersing inn í skólann og tók hann á sitt vald með látum." Aðalsteinn brosir við þessar endurminningar sem augljóslega standa honum lifandi fyrir hugskotssjónum. Enda ekki á hverjum degi sem innrás er gerð í Kvennaskóla.

10.9.02

Auglit ferðamannsins

Um helgina fór ég í Borgarfjörð. Svona venjubundin haustferð með barnahóp, fór á berjamó - tíndum bláber nálægt Langavatni, krækiber hjá EInifelli og sólber í okkar eigin skógrækt. Fór á mánudagskvöldið og hlýddi á John Urry en hann hélt erindi um The Tourist Gaze

7.9.02

Íbúðaskipti


Frænka mín ein hefur í tvígang skipt á íbúð og bíl í sumarfríinu við fjölskyldu erlendis, fyrst í Róm og síðan í Belgíu. Þetta var allt í gegnum Internet samskipti, hún er í einhverjum samtökum þar sem fólk býður fram íbúðir og bíla og segir hvert það vill fara og hvar það býr. Skemmtilegt hvernig Internetið hefur í svona málum stuðlað að fólk stundi eins konar vöruskipti - stað þess að fara sem túristi og vera á hóteli og taka bílaleigubíl þá ferðu í íbúð einhvers fólks og tekur yfir bílinn þess og vökvar blómin hjá því og hugsar um gæludýrin og sama fólk er í þinni íbúð hér heima.

Mér finnst þetta skemmtileg og ný tegund af túrisma, alla vega fellur maður meira inn hvernig fólk lifir á staðnum - er ekki í einhvers konar túrístagettóum fullum af hótelháhýsum. Kannski Internetið breyti ferðamennsku á hátt sem við sjáum ekki alveg fyrir, alla vega finnst mér núna skemmtilegast að skipuleggja sem mest eigin ferðir og panta mér beint flug og hótel á Netinu með að skoða og bera saman valkosti. Var í Stokkhólmi í síðustu viku og var þar á gistiheimilinu Det Tre sma rum sem ég pantaði gegnum Netið eftir að hafa skoðað myndir. Það kom svo í ljós að þetta var fallega staðsett og afar miðsvæðis, örstutt í neðanjarðarlest og almenningssamgöngur. Stefni á að prófa svona íbúðaskipti við tækifæri.

4.9.02

Svo haustlegt...


Æ, alltaf vont veður, rigning dag eftir dag...vinkonan flutt út til Spánar og allt að klæðast vetrarbúningi. Allt að sölna og gulna. Falun gong liðar meira segja komnir í vetrarbúning, þeir hafa verið undanfarna daga í leikfiminni sinni á Arnarhóli í gulum regnkápum.

Stærsta baðleikfang í heimi


Dáldið svekkjandi að sjá í fréttum alla þessa gleði Norðmanna út af Keikó sem álpaðist þangað eftir að hafa verið að busla í einhverri vík í Vestmannaeyjum árum saman. Enginn fékk að gefa honum þar eða leika við hann og túristar drógust ekki mikið að Eyjum út af honum. Svo minnir mig að Stykkishólmur hafi ætlað út í Keikó túristaútgerð en það gengur nú varla eftir úr því hvalurinn fór.

Afskipti okkar af Keikó eru voða mislukkuð. Fyrst er hann veiddur hérna lifandi, ég man eftir fréttinni og hvað mér fannst þetta sniðugt að þarna væri verið að veiða lifandi og óætar ófreskjur og selja til útlanda. Fannst skrýtið að einhver þar vildi kaupa svona ógeðsleg kvikindi. Fannst ennþá furðulegra þegar kom í fréttum seinna að einhverjir reyndu að hindra þessar háhyrningsveiðar Íslendinga og þá út af einhverjum náttúruverndunarsjónarmiðum. En í bernsku minni var hvalur ennþá skorinn í Hvalfirði og einu sinni gekk hvalavaða á land í Laugarnesinu og þá breyttust hverfisbúar í blóðþyrsta villimenn og fóru vopnaðir hnífum í fjöruna og skáru hval.

En svona er líf þessa merkishvals Keikó, fyrst er hann veiddur við Ísland og seldur til útlanda þar sem hann er hafður til sýnis og í haldinu þar verður hann kvikmyndastjarna sem leikur í kvikmyndum hval sem er frelsaður. Dáldið pínlegt náttúrulega að hafa svona fangelsaðan hval að leika í kvikmynd sem halar inn tekjur á því að sýna draum um hval sem var frelsaður. Svo er Keikó sendur í endurhæfingu til Íslands til að verða villtur aftur og finna háhyrningafjölskyldu sína og lifa hamingjusamur alla sína daga. Hann syndir burt til Noregs og er þar hafður sem gæludýr og kastað til hans mat, er kallaður stærsta baðleikfang í heimi. Keikó er meira en hvalur, hann er samviska heimsins og Íslendinga gagnvart náttúrunni og tákn fyrir síkvika náttúrusýn mannsins sem arðrænir, leikur sér að og reynir að breyta og kefla hina villtu náttúru.

2.9.02

Þráðlaust
Áhugavert að skv. mbl.is bjóða 24 skólar á Íslandi núna upp á þráðlaust net. Ég var reyndar nýlega að tala við kennara á Bifröst sem sagði að þar hefðu menn horfið frá þráðlausu netunum, þau hefðu ekki verið nógu stabíl og nú væru komnar Internettengingar í allar kennslustofur og allar vistarverur.

1.9.02

UmhverfislistÍ Nazca í Perú eru skemmtileg umhverfislistaverk sem eru alls konar línur sem teygja sig yfir 217 fermílna svæði. Línurnar mynda yfir 70 táknmyndir af dýrum, fólki og formum. Þessar línur og þau tákn sem þær mynda sjást ekki nema úr flugvél. Þær voru fyrst uppgötvaðar af fornleifafræðingnum Mejia Xespe árið 1927 og svo tók Paul Kosok árið 1939 að rannsaka þær, hann var að rannsaka merki um forn áveitukerfi. Það var svo árið 1946 sem Marie Reiche tók við rannsókninni og vann að þessu í fimmtíu ár, hún hreinsaði umhverfið og þá fyrst komu margar myndirnar í ljós. Hún helgaði líf sitt því að varðveita og rannsaka þessar menningarminjar og varð þjóðhetja í Perú og núna eru línurnar á skrá yfir menningarminjar heimsins. Margar tilgátur hafa komið fram um tilgang myndanna, giskað hefur verið á að línurnar séu sólaralmanak eða kort yfir gang himintungla, Erich von Daniken tengdi línurnar við geimverur og las úr þeim lendingarbrautir fyrir geimskip. Einnig hefur verið giskað á að línurnar tengist vatni og áveitukerfi á einhvern hátt eða séu gönguslóðir. Samt er þetta ennþá furðulegt að alla vega er ekki efast um að þessar myndir og línur séu til, gaman er að bera þetta saman við Runemo rúnirnar sem Íslendingurinn Finnur Magnússon rannsakaði áratugum saman af jafnmikilli alúð og María Reiche rýndi í línurnar. Hann hlaut samt enga fremd fyrir sínar tilgátur.

Maria Reiche
Maria Reiche (á spænsku)
Maria Reiche (á þýsku)
Atlas de Cultura Peruana
Guardian of the Ancient Nasca Lines Maria Reiche Gone At Age 95
landscape geometry
The Nazca Lines
Mystic Places Discovery Channel