29.11.02

Föstudagsgetraun í boði Meinhornsins


Hvað einkennir þessa dagská sem verður hjá Stúdentaráði HÍ á hátíðarsamkomu stúdenta 1. desember 2002?
kl. 11:00 Hátíðarmessa í kapellu Aðalbyggingar á vegum Guðfræðinema
Sr. Kristján Valur Ingólfsson sér um messuna, en predikari verður Ragnar Gunnarsson. Eftir messuna verður boðið upp á kaffi.
kl. 12:15 Stúdentar leggja blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar í Suðurgötukirkjugarði. Guðjón Friðriksson flytur minni Jóns.
kl. 13:00 „Frelsi og fullveldi á 21. öldinni”. Hátíðarsamkoma í hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
kl. 13:00 Tónlistaratriði kórs Háskóla Íslands
kl. 13:05 Ávarp Páls Skúlasonar, rektors Háskóla Íslands
kl. 13:20 Ávarp Helga Skúla Kjartanssonar, sagnfræðings og höfundar bókarinnar „Ísland á 20. öldinni“
kl. 13:35 Tónlistaratriði Hreiðars Inga Þorsteinssonar, Bjarna Snæbjörnssonar og Hafsteins Þórs.
kl. 13:40 Er Ísland ennþá fullvalda? Sigurður Líndal, lagaprófessor.
kl. 13:55 Staða ungra Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði.
kl. 14:15 Hátíðarræða Brynjólfs Stefánssonar, formanns Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
kl. 14:25 Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, býður hátíðargestum upp á kaffi og léttar veitingar.
Fundarstjóri verður Baldvin Þór Bergsson, stúdent og íþróttafréttamaður.

Þetta er krossapróf og valkostirnir eru þessir:
Það sem einkennir dagskrána er:
a) Frítt kaffi tvisvar sinnum og kannski hvítvín og bjór ef maður er heppinn og mætir snemma og nennir að hlusta á ræðurnar.
b) Vönduð skemmtiatriði í anda okkar ástkæra Jóns Sigurðssonar sem var Sverð Íslands, sómi þess og skjöldur. Húrra! húrra! Húrra!
c) Konur eru vel sýnilegar í dagskránni því planið er að láta sætustu og leiðitömustu ljóskurnar í HÍ leggja blómsveiginn á leiðið hjá Jóni kl. 12:15 og fá mynd af því í næsta Stúdentablað.
d) Dagskráin er alveg laus við frekjulæti.
e) Af 13 nafngreindum einstaklingum sem koma fram í dagskránni eru 13 karlmenn. Só vott!?!! Þeir sem ekki fíla það geta bara haldið sinn eiginn 1. des eða 2. des eða verið einhvers staðar þar sem þeir eru ekki fyrir.
f) Flott dagskrá og sýnir að Stúdentaforystan er á réttri leið. Það verður GASALEGA gaman. Ég mæti.

Það má líka alveg bæta fleiri valkostum við... þetta er svona opin getraun... ég vel hvað er rétt svar. Það þýðir ekkert múður með það. Ég ræð því.

28.11.02

Að stimpla sig inn í botnsætin



Örlítil samantekt um prófkjör og stjórnmálaþátttöku kvenna. Ég skoðaði vefinn hjá Nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum og sé að þar hafa verið haldin námskeiðin Fleiri konur á Alþingi sem mér sýnist ekki hafa virkað neitt. En þetta er fínn vefur og þarna eru vísanir í alls konar fróðlegar upplýsingar t.d. um kynjaskiptinguna í fyrsta sæti á listum í sveitarstjórnarkosningum 2002.
Látum tölurnar tala:
Karlar í fyrsta sæti voru 146 eða 80%
Konur í fyrsta sæti voru 36 eða 20%
Ekki get ég lesið það út úr þessum tölum að jafnréttisbaráttan sé komin á annað stig..... Hugsa að ég gæti það ekki heldur þó ég beitti bæði tegrun og diffrun.

Svo skoðaði ég umræðuna á Tíkinni og á vefnum hjá Stefaníu.

Stefanía Óskarsdóttir skrifar greinina Niðurstöður prófkjörs Sjálfstæðisflokksins Hún rekur ástæður til að konur séu minna sýnilegar í fjölmiðlum og bendir á að það stefni í að þingkonum Sjálfstæðisflokksins fækki úr níu í sex til sjö þrátt fyrir fjölgun þingsæta. Stefanía bendir einnig á að stuðningur kvenna var lítill við Sjálfstæðisflokkinn í síðustu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir skrifar á Tíkina greinina Prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Hún lítur svo á að Katrín og Lára verði í baráttusætunum og það sé jákvætt og hún vitnar í Hönnu Birnu sem sagði í Silfri Egils að jafnréttisbaráttan væri komin á annað stig og endurnýjunin hefði ekkert með kynferði að gera.

Á Tíkinni skrifar líka Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir greinina Tökum slaginn konur. Þar skýrir hún útkomuna með minni sýnileika í fjölmiðlum, minna tengslaneti og að það hafi vantað konur af ákveðinni kynslóð (thirtysomething ef ég skil hana rétt), það hefði þurft fleiri konur í prófkjörin og hún segir að Guðrún Inga og Soffía hafi unnið persónulegan sigur (þær voru í botnsætunum ef ég man rétt). Svo segir hún að til að laða konur að Sjálfstæðisflokknum og fá þær til að kjósa flokkinn þá þurfi efsta lag flokksins að senda þau skilaboð út konur séu öðruvísi en karlar og það sé gott - konur eigi að sérhæfa sig líka í mjúku málunum sem þær séu margar góðar í.

Mér finnst grein Þorbjargar Helgu ekki skynsamleg.

Guðrún Johnsen skrifar greinina Þar sem karlar blómstra og konur visna á Tíkina og endar hana á þessum orðum um Sjálfstæðisflokkinn: "Sem stendur blómstra karlmenn í áhrifastöðum hans, á hinn bóginn bíður eyðimerkurganga þeirra kvenna sem ætla sér að ná sama áfangastað". Guðrún segir að ekki sé hægt að líta framhjá að ein kona komst í eitt af átta efstu sætunum en sjö karlar og hún veltir fyrir sér þeirri stöðu og afleiðingum hennar, hverjar skýringarnar eru og hver sé hægt að gera. Þetta er einkar skynsamlega skrifuð grein og Guðrún Johnsen stimplar sig með henni inn hjá mér sem gáfuð kona sem horfist í augu við hlutina og er líkleg til afreka.

Um samsæriskenningar


Í hinni snörpu umræðu gærdagsins á kommentakerfinu hjá mér þá kom þetta innlegg frá Má Örlygssyni:
"Fyndið hvernig það eru bara karlmenn sem svara henni Salvöru í sambandi við þetta mál... Tilviljun eða ... samsæri?
P.S. mér finnst samsærisgaurinn hans Arnar Árnasonar í Spaugstofunni vera alveg brill...
Már Örlygsson | Email | Homepage | 11.27.02 - 12:16 pm"


Kannski er þetta einmitt kjarninn í því sem ég vildi sagt hafa. Már er upplýstur, gáfaður og víðlesinn og reynir að sjá málin frá mörgum hliðum. Hann er líka húmoristi og sér hið skoplega í tilverunni og þarna í hita umræðunnar þá kemur hann auga á hve ég og aðrir femínistar gætum búið til samsæriskenningu utan um þetta eins og fígúran í Spaugstofunni sem sér samsæri í hverju horni.

En mér fannst þetta líka fyndið alveg eins og Má en bara ekki á sama hátt. Mér fannst þetta fyndið vegna þess að af þeim mörgu sem tjáðu sig þá var ein kona en það sem hún sagði varð ósýnilegt og Már tók það ekki með. Þetta gerist nefnilega oft með orðræðu og framlag kvenna. Og það var ekki eins og hér væri mesta kvenmannsgufan á blogginu að tjá sig heldur var þetta sjálf blogg.is með teljara sem snýst hraðar en margar skeiðklukkur, með gellumyndasyrpur af öllum atburðum úr lífi sínu, sú svalasta af öllum svölum sem getur tegrað hvern sem er undir borðið.
Já, það er sárt að vera ósýnilegur... :)

27.11.02

Vefverðlaunin hjá Gneistanum


Sniðug þessi vefverðlaun hjá Gneistanum Gneistanum. Ég náttúrulega samgleðst Bjarna Rúnari fyrir frumkvöðlaverðlaunin enda er maðurinn séní og fjársjóður fyrir íslenska netsamfélagið en vil benda á að þessi sami Bjarni er einn af strákaklíkunni sem hefur ofsótt mig í dag á kommentakerfinu mínu og hann kallar hinn málefnalega og hæverska málflutning minn FREKJULÆTI. Ég ætti kannsi að stinga því að Gneistanum að bæta við einum verðlaunaflokki... verðlaunum fyrir frekjulæti.

Jafnvel þó ég sé svona lítillát og hæversk þá finnst mér soldið gaman að forsíðufréttin á stjórnarráðsvefnum og á vefsetri menntamálaráðuneytis í augnablikinu er fréttatilkynning um eSchola verðlaunin. Þar stendur reyndar að ég hafi fengið þessa viðurkenningu fyrir námskeiðsvef en það er nú ekki rétt og reyndar alveg þvert á þá námsumhverfisýn sem verkefnið gekk út á því að námskeið sem væri verðlaunað fyrir vef kennara væri kennaramiðað. Ég fékk þessa viðurkenningu fyrir útfærða hugmynd af námskeiði þar sem námsumhverfið er sett utan um einstaka nemendur og að þeir byggi upp eigin þekkingarnet og byggi upp Digital Portfolios. Æ... það er svo gaman að vinna verðlaun..

Eggert Þór hefur úr nógu að moða



Þegar ég kom heim frá Stokkhólmi og fór yfir póstinn minn þá beið mín svarbréf frá Eggert Þór Aðalsteinssyni ritstjóra Stúdentablaðsins sem hann sendi 21. nóvember. Þetta var svar við bréfi sem ég skrifaði ritstjóra Stúdentablaðsins og formanni Stúdentaráðs strax eftir að kynjaumræða í HÍ var í fréttatíma RÚV en konan sem er skrifuð fyrir greininni "Eru karlmenn í útrýmingarhættu í Háskóla Íslands" kom þar fram og ásakaði jafnréttisöfl í HÍ fyrir að hafa reynt að ritskoða þá grein (minnir að það hafi komið beiðni frá jafnréttisfulltrúa um að fá að lesa greinina yfir áður en hún birtist - man ekki sjónvarpsfréttina orðrétt).

Hér er bréfið sem mér barst frá Eggerti Þór og upphaflega beiðnin mín:

Kæra Salvör,
ég biðst afsökunar á síðbúnu svarbréfi. Ég get ekki orðið við beiðni þinni um 1 bls. umfjöllun þar sem næsta tbl. er fullt og gott betur en það. Mér finnst einnig mikilvægt að ef lesendum finnst ástæða til að fjalla um efni sem eru tengd efni Stúdentablaðsins þá sé það gert strax því efnistök blaðsins eru mismunandi frá blaði til blaðs. Ég legg einnig áherslu á það að nemendur riti í Stúdentablaðið og hef því ekki óskað eftir efni annars staðar frá, enda hef ég úr nógu að moða.
Bestu kveðjur,
Eggert Þór Aðalsteinsson

>Kæri ritsjóri stúdentablaðs og formaður Stúdentaráðs

> Mig langar að koma á framfæri grein í næsta Stúdentablað sem er byggð á
> hugleiðingum í bloggi mínu (sjá www.asta.is/kyn ) um kynjaskiptinguna í
> Háskólanum og reyndar öðru háskólanámi.
>
> Ég á mikið af skemmtilegu myndefni með svona grein.
> ég hef í huga svona eina blaðsíðu.
>
> með von um að þið takið vel í þetta,
> bestu kveðjur,
> Salvör Gissurardóttir


Ég fæ ekki að skrifa í Stúdentablaðið vegna þess að ég er ekki nemandi í háskólanum. Ég fæ ekki að skrifa í Stúdentablaðið vegna þess að ég vil skrifa um efni sem ritstjóri Stúdentablaðsins segir að sé hvorki tímabært né í tengslum við efnistök blaðsins. Ég fæ ekki að skrifa í Stúdentablaðið vegna þess að ritstjórinn hefur úr nógu öðru að moða. Samt er Stúdentablaðið núna gefið út sem fylgirit með Morgunblaðinu og kemur þannig inn á mitt heimili hvort sem mér líkar betur eða verr. Efnið sem ég vil skrifa um tengist máli sem mjög hefur verið í brennidepli í háskólanum síðustu mánuði. Ég gæti auðvitað samið við einhvern í háskólanum um að vera skrifaður fyrir greininni en svo lágt gæti ég aldrei lagst.

Það er áhyggjuefni að þeir sem núna fara fyrir stúdentum og sýsla um málefni þeirra í fullu starfi skuli ekki hafa skilning á þörfinni fyrir opinni og heiðarlegri umræðu og þeirri mannréttindabaráttu sem femínismi er einn angi af. Umræða meðal stúdenta er ekki bara einhver sandkassaleikur heldur er hér fyrirboði um hvaða viðhorf og vinnubrögð verða ofan á í íslensku samfélagi eftir einhver ár. Gerjun í samfélaginu og þjóðfélagsbreytingar koma oft fyrst fram í háskólaumræðunni. Leiðtogar framtíðarinnar láta fyrst að sér kveða í háskólanum og starfa gjarnan í stúdentapólitíkinni. Er framtíðarmyndin og ástandið eins og dregin var upp í eftirfarandi nafnlausu athugasemd sem skrifuð var í bloggið mitt á sunnudaginn var þegar úrslit úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lágu fyrir:

"Þessar afleitu útkomu fyrir konur í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins fara að kveikja upp hugmyndir um hvort að ekki ekki sé kominn tími til fyrir konur að bjóða sér fram. Ég er farin að hallast að því að þetta sé aðallega karlaklúbbur sem flestum konum með skoðanir sé meinaður aðgagnur að. Þá þakka ég umræðuna um stúdnetblaðiðið og karlapólítíkina þar.Eru þetta ef til vill drengirnir sem eru að æfa sig fyrir hressilega inngöngu í karlaklúbbana með því að reyna að grafa undan konum í háskólanum og koma í veg fyrir áhrif þeirra. "

26.11.02

Reikistofnun í rannsóknarháskólanum


Það er svo spennandi að fylgjast með öllu þessu nýja sem gerist í háskólanum á Melunum sem er svona alvöru rannsóknarháskóli og þar taka menn sjálfan sig rosa alvarlega og þar sprettur upp hver stofnunin á fætur annarri og maður bara nær ekki að fylgjast með gróskunni. Var áðan að uppgötva nýja stofnun og það er þessi REIKISTOFNUN sem sagt er frá á þessari síðu en sú stofnun hefur umsjón með tæknistuttri háskólakennslu og að kynna möguleikana sem felast í notendanafni/netfangi einstaklinga. Þar er auglýst svo:
Tæknistudd háskólakennsla
Hvað fylgir notendanafni?
Umsjón Grettir Sigurjónsson og Reikistofnun Háskóla Íslands


Það er ekki að spyrja að þessari andlegu orku sem flæðir um háskólann og svona fordómalausri afstöðu til nýaldarreikimeistara. Þessi orka barasta smýgur beina leið inn í notendanöfnin og netkennsluna:)

p.s. vona að þetta sé ekki stafsetningarvilla og hér sé átt við hina aldurhnignu Reiknistofnun það er eitthvað svo miklu skemmtilegra að hugsa sér alla þessa anda og árur sem eru á reiki þarna vestur í bæ. En kannski eru þar bara púkar og árar eins og í Svartaskóla sem ekkert dugar á nema aðrir púkar eins og Vefpúkinn hans Friðriks Skúlasonar.

Myndir frá eLearning Awards 2002


Ég er búin að setja upp vefsíðu með myndum frá eLearning Awards 2002 sem ég sótti um seinustu helgi í Stokkhólmi. Þessar myndir eru af Eminent ráðstefnunni sem stendur fyrir "Expert Meeting of International and National Educational Networks" og frá verðlaunaathöfninni sem var haldin í Riksdagen (þinghúsinu) í miðbæ Stokkhólms. Þetta var stór ráðstefna, eitthvað nálægt 200 manns. Frá Íslandi komu Arnór, Jóna, Salvör, Sólveig, María og Sigurlaug. Einnig voru þarna líka Íslendingarnir Magnús sem vinnur hjá Evrópska skólanetinu og Erla sem vinnur hjá norræna skólanetinu.

Eftir verðlaunaathöfnina fórum við og skáluðum í kampavíni á Grand Hótel við sjóinn í Stokkhólmi. Enda gátum við verið ánægð, það komust tvö íslensk verkefni í úrslit og þau hafa bæði með skipulag kennslu að gera. Svo vann íslenska verkefni þeirra Maríu og Sigurlaugar um skipulag náttúrufræðikennslu verðlaun fyrir raungreinakennslu og ég er náttúrulega sérstaklega ánægð með það því að María var nemandi minn í námskeiðinu Nám og kennsla á Netinu 2001 en það er einmitt skipulag þess námskeiðs ári seinna þ.e. Nám og kennsla á Netinu 2002 sem ég fékk viðurkenningu fyrir. Svo geta Íslendingar líka verið stoltir af frammistöðu hjá öðrum þjóðum því að eina verkefnið frá Austur-Evrópu sem komst í úrslit var frá Sloveníu og þar var í forsvari kona sem hafði verið nemandi Jónu á Kidlink námskeiðum sem Lára og Jónu voru með fyrir skólafólk í Austur-Evrópu fyrir nokkrum árum. Jóna var svo líka einu sinni nemandi minn, hún var í námskeiðinu Nám og kennsla á Netinu 1999. Ég hef haft umsjón með NKN námskeiðinu þrisvar sinnum þ.e. árin 1999, 2001 og 2002 og er þar með frábæra nemendur og þeir hafa gert stórkostlega hluti í íslenska skólakerfinu.

Íslenskt hugvit í menntamálum
Núna sé ég líka að það er bara á heimsmælikvarða það sem við erum að gera hérna á Íslandi og það er gaman að við getum flutt út okkar hugvit í svona málum þ.e. hjálpað við að bæta skólakerfið og hjálpa þjóðum að innleiða nýja tækni í námi og kennslu og breyta skólastarfi fyrir þekkingarsamfélag nýrrar aldar.

Ferðin til Stokkhólms var sannkölluð skemmtiferð. Það var kvöldverðarboð í Þjóðminjasafninu sænska í boði Sun fyrirtækisins. Reyndar var Sun með stífa kynningu á ráðstefnunni enda margir ráðamenn í menntamálum Evrópulanda á ráðstefnunni. Sun Star Office var þar gefið á nokkrum tungumálum og alls staðar nettengdir tölvustandar í boði Sun þar sem náttúrulega var hvergi uppi Internet Explorer. Mér sýnist allt stefna í harða samkeppni um að komast inn í menntakerfið og held að svoleiðis samkeppni ætti að gera hugbúnaðinn miklu ódýrari fyrir skóla, mér sýnist allir vera að færa sig núna yfir í "open source" hugbúnað. Það var glaumur og gleði líka á föstudags- og laugardagskvöldi en þá voru líka boð á veitingastöðum í Stokkhólmi fyrir verðlaunahafa og við kynntum líka verkefnin okkar.

Á laugardaginn var okkur boðið í menningarferð um Stokkhólm, við fórum í Vasasafnið og svo í gamla bæinn. Það myndaðist góð stemming í hópnum, þetta voru allt eldhugar og brautryðjendur og ég eignaðist marga góða kunningja og á núna heimboð víða í Evrópu. Sérstaklega náði ég góðu sambandi við Spánverjana frá Galisiu. Svo höfðu líka samband við mig kennarar frá nokkrum kennaramenntunarskólum og höfðu áhuga á að kynna sér verkefnið frekar m.a. frá kennaraskóla í Dublin og í Stokkhólmi.

24.11.02

Sidasta kvoldin i Stokkholmi
Var ad koma ur seinasta samkvaeminu herna i Stokkholmi og klukkan er meira en eitt um nott og eg flyg heim til Islands a morgun. Her i andyrinu a hotelinu er ein nettengd vel svo eg kikti a post og frettir. Las a mbl.is frettir af profkjori Sjalfstaedisflokksins. Tok mest eftir ad thetta profkjor kemur afleitlega ut fyrir konur i frambodi.

22.11.02

Eminent radstefna i Stokkholmi

Nuna er eg stodd a radstefnu um upplysingataekni i skolastarfi herna i Stokkholmi. Radstefnan fer fram i thinghusinu, i mjog fallegum solum. Thessi radstefna er a vegum Evropska skolanetsins og eru herna baedi embaettismenn sem fjalla um menntastefnu og menntagattir i Evropulondunum og svo var lika bodid fulltruum fra theim verkefnum sem komust i urslit i eSchola samskeppninni. Vid vorum fulltruar fra tveim verkefnum fra Islandi, minu sem heitir "Building Digital Portfolios in On-line Distance Education" og hitt verkefnid var liffraedikennsla i Fjolbrautaskolanum i Armula. Liffraediverkefnid fekk fyrstu verdlaun i flokknum um raungreinakennslu. Mitt verkefni fekk vidurkenningu i eTeaching, var eitt af niu sem fekk svona "Runner up" en auk thess voru veitt fyrstu til thridju verdlaun , fyrstu verdlaun fekk finnskt verkefni fyrir unglinga um svona thattokulydraedi, onnur verdlaun fekk saenskt verkefni um hvernig krakkar kynnast borginni og hverfinu og mig minnir ad thad hafi verid franskt verkefni sem fekk thridju verdlaun.

20.11.02

Málsvörn Brynjólfs Ægis Sævarsson



Mér barst áðan annað bréf frá Brynjólfi Ægi og hann biður mig að tengja í vefsíðuna www.hi.is/~baes þannig að fólk geti lesið um málið í heild sinni frá hans sjónarmiði. Mér finnst Brynjólfur Ægir þarna bregðast drengilega og heiðarlega við. Hann hefur gefið sér tíma til að setja upp málsvörn. Vonandi lærir hann af þessu og ver einhverjum tíma í að kynna sér sjónarmið þeirra sem hugsa öðruvísi en hann.

Ég held að við séum öll breisk og ég er ekki stolt af því að hafa birt orðréttar tilvitnanir úr hans bréfi á svo opinberum vettvangi og blogg er. Mér finnst það stílbrot en mín málsvörn er sú að það kom á mig við þetta bréf og mér fannst sendanda vera mjög umhugað um að ég vissi hans skoðanir á málinu og fannst að hann hlyti að tjá þær við hvern sem er. Svo hélt ég að þetta væri svarbréf við erindi frá mér en hann hefur sagt að svo var ekki. Ég hrökk ansi mikið við þegar ég var ásökuð um það í einu af hinum fjölmörgu kommentum að ég hefði skrifað seinasta blogg bara til að koma höggi á nafngreindan einstakling.

Úfff... .. Kannski ég fari í smásjálfskoðun... fari bara að tala vel um fólk....alla vega í nokkra daga...
Annars er ég nokkuð ánægð með hvernig svona kommentakerfi virka.

19.11.02

Lágmarkskröfur sem Brynjólfur Ægir gerir á bloggið mitt



Fékk skrýtið bréf áðan, það var frá frá Brynjólfi Ægi Sævarssyni framkvæmdastjóra Stúdentaráðs og hann virðist halda að hann hafi eitthvað með það að segja hvað ég skrifa í bloggið mitt.

Brynjólfur Ægir segist ekki hafa á móti því að ég tjái mig en það verði að vera lágmarkskrafa að það sé ígrundað og rökstutt. Og það er auðvitað hann sem einn veit hvað er ígrundað og hvað eru rök. Svo vill Brynjólfur bara hafa í gangi heilbrigða og málefnalega umræðu og hann virðist telja sig besta dómara á hvað er heilbrigt og málefnalegt og honum virðast finnast mín skrif mesti sori.

Svo talar hann alltaf um sjálfan sig í fleirtölu. Ég skil eiginlega ekki hvað Brynjólfi Sævari gengur til með þessu bréfi, hvers vegna er hann að skrifa mér bréf sem er þrungið bæði kvenfyrirlitningu og kvenhatri. Ég skrifaði þeim í Stúdentaráði og á Stúdentablaðinu örstutt bréf í gær og bað í mesta sakleysi um að fá að skjóta inn grein í Stúdentablaðið og fæ í dag þetta bréf sem mér virðist eins konar svarbréf og hann er eitthvað pirraður út í bloggið mitt í gær.

Að öllu jöfnu þætti mér ekki viðeigandi að taka hér upp í bloggi búta úr bréfi sem mér berst en ég get nú samt ekki tekið þetta bréf öðruvísi sem bréf frá framkvæmdastjóra Stúdentaráðs og sem nokkurs konar svar við bréfinu sem ég skrifaði Stúdentaráði og Stúdentablaði í gær. Vil samt að það komi skýrt fram að Brynjólfur Ægir segir á öðrum stað í bréfinu að hann sé ekki málpípa Stúdentaráðs og það sem komi fram í bréfinu séu hans persónulegu skoðanir.

En ég get ómögulega skilið hugsunaganginn sem endurspeglast í þessari málsgrein frá Brynjólfi Ægi sem var í bréfinu sem ég fékk í dag:

"Þegar þú segir svo að þú hafir „ekki pælt mikið í" hvers vegna konur eru fjölmennari í HÍ og hvaða áhrif það geti haft, fannst okkur sem þú hefðir betur getað sleppt því að skrifa þetta. Við erum auðvitað ekki mótfallnir því að þú tjáir þig um greinina eða blaðið, en það er lágmarkskrafa að það sé ígrundað og rökstutt. Við viljum að það sé í gangi heilbrigð og málefnaleg umræða um jafréttismál. Grein albertínu var málefnaleg, en þín skrif sem þú sendir á hi-starf voru það ekki. Í blogginu þínu í gær heldur þú svo áfram..."

Hér vil ég taka fram að ég sendi engin skrif á póstlistann Hi-starf, bara slóðina á þessa færslu í blogginu mínu.
Svo heldur Brynjólfur áfram á sömu nótum og segir:

"Eins og fyrr segir sendum við bréfið sem svar við skrifum þínum.Ekki vegna þess að það megi ekki gagnrýna Stúdentablaðið, heldur vegna þess að gagnrýnin var órökstudd og einhvers konar skot út í loftið. Að því er virtist í reiðikasti vegna þess að þér fannst vegið með einhverjum hætti að skoðunum femínista. Við tökum málefnalegri umræðu og gagnrýni fegins hendi...."

Jahérna, ég get ekki annað en glaðst yfir því að hér á landi ríkir BLOGGFRELSI. Það getur verið að ég fái ekki að skrifa í Stúdentablaðið en sem betur fer ráða ekki sömu aðilar og nú einoka stúdentapressuna öllu sem skrifað er í blogg hérlendis.

Og mér er alveg sama hvað Brynjólfi Ægi finnst um hvað ég skrifa.

18.11.02

Kynjamál í HÍ í fréttatíma RÚV


Það er ennþá heitt í kolunum í HÍ, ekki virðist fundurinn hafa slökkt neina elda. Aumingja Rósa er í vondum málum. Ekki get ég samt varið allt sem haft er eftir henni og kannski hafa femínistar þar farið offari...já það er erfitt að viðurkenna það...verandi eldheitur femínisti sjálf... samt...verð að vera sanngjörn...Þetta var sett fram á soldið móðgandi hátt fyrir stelpur í raungreinanámi. En það gekk nú fram af mér að núna í fréttatíma RÚV þá notaði Albertína Elíasdóttir tækifærið til sparka í Rósu út af allt öðru og hefja upp þessa bullgrein sem hún skrifaði í Stúdentablaðið 24 september síðastliðinn og bar heitið Eru karlmenn í útrýmingarhættu í Háskóla Íslands? Sú grein var tóm steypa eins og ég gerði grein fyrir á mínu bloggi þann dag.

Það er svo sannarlega sniðugt og þarft að velta upp hverjar ástæður eru fyrir að kynjahlutföllin eru mismunandi í deildum og hvort eða hvers vegna eitthvað á að gera í því. Ég gerði það líka og hafði svona "brainstorming" á mínu bloggi um hvaða ástæður gætu verið fyrir því. Var náttúrulega hæversk að vanda og viðurkenndi að ég hefði ekki mikið pælt í þessu, nú ég var að pæla í þessu þarna.Hélt í sakleysi mínu að það væri bara allt í lagi að ég tjáði mig um þetta (málfrelsið sko!) og aðstandendur Stúdentablaðsins (ég vissi ekki að þetta væri Stúdentablaðið fyrr en seinna, þetta var eitthvað svona plott að láta efni frá háskólanum og Stúdentaráði renna saman) yrðu himinlifandi yfir að einhver nennti að tjá sig um þetta og bjóst eiginlega við að ritstjórnin myndi verða bara klökk af geðshræringu og senda mér þakkarbréf.

Ó, nei, það var nú öðru nær. Eggert Þór Aðalsteinsson ritsjóri Stúdentablaðsins og Brynjólfur Sævar Ægisson framkvæmdastjóri Stúdentaráðs segja svona í bréfi á póstlista Hí: "Athygli vekur að Salvör telur greinina flausturs- og yfirborðslega en segist sjálf ekki hafa "pælt mikið í" hvers vegna konur séu í meirihluta við HÍ eða hvaða afleiðingar það hefur. Spurningin er því hvort ekki sé betur heima setið en af stað farið". Hvernig á eiginlega að skilja svona orðalag, má alls ekki gagnrýna Stúdentablaðið? Best að láta reyna á það, skrifa þeim Eggert og Brynjólfi Sævari og vita hvort ég megi ekki skrifa grein í næsta Stúdentablað....vonandi er engin ritskoðun þar.

Annars er ég að spá í að setja yfirskrift á vefinn minn www.asta.is/kyn þar sem ég held utan um hið (ill)kynjaða blogg mitt.. er að spá í að hafa yfirskriftina "Femínistar fara offari" eftir litla krakkanum sem var með þetta skilti á 1. maí... eða kannski ætti ég frekar að kalla þetta "Femínistaófarir"

....ÚPPPP!!!! mjög alvarlegt, Ég hafði skrifað að það væri Brynjólfur formaður Stúdentaráðs sem skrifaði bréfið á póstlista HÍ en það var víst Brynjólfur Ægir Sævarsson framkvæmdastjóri Stúdentaráðs. Ég byð Brynjólf Stefánsson innilega afsökunar á að hafa bendlað hann við þetta bréf og vil þakka Brynjólfi Ægi fyrir að leiðrétta þetta.

Sálfræðingur bloggsins


Ég er búin að uppgötva sálfræðinginn Ira Progoff og er er orðin einlægur aðdáandi hans. Hef reyndar ekki lesið neinar bækur eftir hann, bara það sem ég fann um kenningar hans og ritsmíðar í Google leit. Hann var lærisveinn Jungs og er þekktastur fyrir að þróa aðferð við leiðarbókaskrif, svona aðferð við að skrifa niður hugrenningar sínar miðað við ákveðin þemu. Ég hugsa að hann hefði þróað þessa aðferð miðað við blogg ef hann hafði verið uppi í dag. En það er gaman að uppgötva einhvern sem segir svona vel það sem maður hefur verið að hugsa - að skrifa LEIÐABÓK eða sína eigin BIBLÍU:

"He suggests that journal writing is - if you follow his procedures - potentially writing your own Bible, based on personal creativity rather than docile imitation."

Og það er munur á að lesa og skrifa sjálfur:
"Creative work means you become the author of something yourself. Progoff begins his book by referring to religious Bibles, which are written by other people. Reading them is imitative, because you are not generating insight yourself ."


Progoff var spurður í blaðaviðtali um hvað hefði orðið til að hann fékk svona áhuga á að láta fólk halda leiðarbækur og hann svaraði:
"....I realized in my studies that those persons who were creative (in the general sense of developing more fulfilling lives) were constantly in motion - by which I mean that they were actively engaged in a tangible project or work in which they had an intense interest. Therefore, any method that is devised to assist individuals in developing their lives must similarly focus on the underlying process rather than the contents of a person's life."

Og svo segir hann frá því hvernig leiðabókaskrif geti stutt fólk til frekari þroska:
"Writing in the journal is necessary because it leads to a person’s further self development. By writing and reading back their journal entries, new feelings and images are stirred inside themselves from which new thoughts, images, and energies are generated. Writing adds to the experience because we find that we are more in touch with our journal entries than we originally supposed. This process of writing and then reading back this material generates additional entries that builds a momentum from which to realize and to develop further our own potentials."

Svona leiðarbókaskrif eru ein af þeim aðferðum sem fólk hefur til sjálfskoðunar. Kannski verða netdagbókaskrif eins og bekkurinn hjá sálfræðingnum, táknmynd fyrir nýmóðins tegund af sjálfskrufningu. Ég hugsa nú reyndar að það séu fleiri aðferðir við að fylgjast með eigin þroska og öðlast yfirsýn yfir eigið sjálf en svona skráningar í almenningi Netsins.

17.11.02

Hindúasiður


Ég er búin að vera að kynna mér hindúasið á Netinu...tja eiginlega frekar verið að skoða myndir og ævintýrasögur af guðdómlegum verum. Er heilluð af litanotkuninni og frásagnarstílnum, svona sagnaheimur með ónáttúrulegum litum, svona barbíebleikir og englabláir litir og svo hvernig guðir sem eru samsettir úr mörgum verum eru teiknaðir í mannsmynd með fullt af útlimum. Var sérstaklega að skoða þetta goð Murugi sem ber spjót viskunnar.

15.11.02

Bloggarar athugið !!! Listamannalaun .... umsóknarfrestur að renna út!!!!


Er ekki ástæða til að minna alla orðlistamenn (eru ekki allir bloggarar orðlistamenn?) á að frestur til að sækja um listamannalaun rennur út klukkan 16 í dag. Nógur tími er samt til stefnu, bara að fylla út þetta eyðublað og senda í tvíriti. Í reitinn þar sem umsækjendur úr Listasjóði eru beðnir að tilgreina listgrein sína þá má reyna að skrifa orðið BLOGG og haka við að sótt sé um í launasjóð rithöfunda. Í stóra reitnum þar sem beðið er um "stutta og hnitmiðaða lýsingu á verkefni/verkefnum sem fyrirhugað er að vinna að á starfslaunatímanum" þá má reyna að gefa bara upp vefslóð á bloggið.
Svo þarf náttúrulega að fylgja með "Ýtarleg greinargerð um verkefnið sem liggur til grundvallar umsókninni". Hér má reyna að prenta allt blogg frá byrjun. Upplýsingar um listrænan feril, m.a. um helstu verk o.s.frv gætu verið svona setning: "Hefur bloggað í sautján mánuði. Aldrei orðið bloggfall."

Um rannsóknarháskóla

Í Morgunblaðinu í gær er vitnað í marga háskólarektora út af skýrslu HÍ um rannsóknarháskóla. Gaman að heyra að melakleppur sé orðinn rannsóknarháskóli, ekki bara svona gráðufabrikka. Annars finnst mér að háskólar hljóti eitthvað að finna fyrir tækniþróuninni, þetta eru stofnanir sem beinlínis byggjast á svona vitundar- og þekkingariðnaði, háskólarnir eru musteri hinna talandi stétta. Enda fann ég líka í Chronicle of Higher Education spádóm um það Technology Will Reshape Research Universities Dramatically, Science-Academy Report Predicts. Þessi grein er mest um nýútkomna skýrslu Preparing for the Revolution: Information Technology and the Future of the Research (2002)

Annars finnst mér áhugavert að pæla í svona rannsóknarhefðum og vísindaheimspeki. Núna er hin megindlega rannsóknaraðferð í tísku í hugvísindum.
Núna langar mig samt mest til að kynna mér svona Action Research og vinna í svoleiðis anda. Ætti að athuga hvort þetta tímarit Educational Action Research sé keypt af íslenskum söfnum.
Meira um Action Research:
Collaborative Action Research

13.11.02

Um skóla og skólaskyldu


Mjög spennandi framhaldssaga á netinu sem ég ætla að fylgjast með er Underground History of American Education. Einn kafli kemur í einu á Netið og þarna er víst flett ofan af goðsögninni um skólahald nútímans. Kannski ég ætti að lesa aftur Deschooling Society eftir Ivan Illich. Þetta var gúrúinn okkar þegar ég var í kennsluréttindanámi í eldgamla daga. Afskólun..

12.11.02

Erindi í Borgartúni á UT-skóla ráðstefnu


UT-skólaverkefniðvar að ljúka og því var ráðstefna um upplýsingatækni í skólastarfi í dag. Þar voru um 150 manns. Ég flutti þar erindi, kynnti verkefnið "NKN-2000 Building Digital Portfolios in On-line Distance Education". Er núna að reyna að setja saman eitthvað kynningarefni svo það sé tilbúið á íslensku og ensku upp úr 21. nóvember. Er líka að þræða vefinn og leita að hvort ekki séu fleiri í heiminum með svipaðar hugmyndir um notkun Internetsins í námi og kennslu. Þeir gætu verið Jason en hann segir einhver staða að mikilvægasta námið sem fari fram á Netinu sé að segja og deila sögum í ýmis konar vefumhverfi en að þessi geta Netsins sé ekki nýtt af skólastofnunum "...who are primarily focussed on controlled curriculum and easily accessible learning experiences" og að sterkasta frásagnarformið á Netinu sé vefsíðan og bloggið sé eitt nýstárlegasta verkfærið til að miðla sögum.

Um hinn dásamlega heim tvíundarkerfisins


Hér er skemmtileg frásögn af námsvali konu sem fór í tölvunarfræði: "Tölvunarfræði varð fyrir valinu að þessu sinni. Ég hef áður haft í hyggju að leggja stund á ensku, bókmenntafræði, íslensku og spænsku, en vatt kvæði mínu algjörlega í kross og byrjaði í tölvunarfræðinni. Ég sé ekki eftir því. Miðað við hina þurru fræði um formendur og hljóðeðlisfræði íslenskrar tungu þá er tvíundarkerfið dásamlegur heimur í mínum augum. "

Annars vakti þetta blogg mig mjög til umhugsunar, þetta er frásögn af framvindu alvarlegs geðsjúkdóms og á forsíðu segir hún að síðan sé skrifuð: "svo ég geti betur hent reiður á hugsanir mínar og þannig mögulega séð hvort mér fer fram eða aftur í leit minni að innra jafnvægi".

11.11.02

Bloggað um blogg


Ég hef núna bloggar 27 sinnum um blogg og þar að auki skrifað 67 blogg um Internetið og tæknina. Að þessu komst ég þegar ég setti upp fyrsta vísirinn að vefnum Blogg fyrir byrjendur, slóðin er www.asta.is/blogg. Ég vil hér með kalla eftir framlögum á þennan vef t.d. vísunum í blogg um blogg sem aðrir bloggarar hafa bloggað um. hmmm...kannski væri sniðugt að setja þennan vef upp sem blogg....

10.11.02

Karlmenn í umönnunar- og uppeldisgreinum


Það er mjög fínt mál að fá fleiri stelpur til að íhuga nám í verkfræði og mér sýnist alveg hafa tekist að vekja athygli á misvæginu milli kynja þar. Ég vildi óska að eitthvað púður væri líka í umræðu um hvað það eru fáir karlmenn sem sækja nám í ýmis konar umönnunar- og uppeldisgreinum.

Ingvar Sigurgeirsson prófessor við KHÍ skrifaði 28 maí síðastliðinn grein í Morgunblaðið þar sem hann hvatti karlmenn til að íhuga kennaranám, leikskólakennaranám og þroskaþjálfanám. Ingvar benti á að aðeins einn karlmaður var þá í leikskólakennaranámi við KHÍ og fjórir í þroskaþjálfanámi en innan við 2% leikskólakennara eru karlar og innan við 4% þroskaþjálfa og að aðsókn karla í grunnskólakennaranám hefur undanfarið verið að minnka.

Spennandi og fjölbreytt störf
Ingvar segir í greininni:
Engin rök eru í raun fyrir öðru en að störf kennara og þroskaþjálfa eigi að höfða jafnt til karla og kvenna. Þau gera öll miklar kröfur um hæfni í mannlegum samskiptum og reyna á stjórnunarhæfileika. Öll eru störfin afar fjölbreytt og enginn starfsdagur öðrum líkur. Starfsvettvangur kennara og þroskaþjálfa einkennist um þessar mundir mjög af margs konar þróunarstarfi. Þar leika ferskir vindar og viðfangsefni eru sérlega áhugaverð. Nefna má leikskólann sem dæmi, en óvíða hefur verið meiri gróska að undanförnu en einmitt á þeim vettvangi. Má þar nefna nýjar hugmyndir um leikskólauppeldi, frjóar kenningar um gildi leiks og leikuppeldis, aðferðir sem beinast að því að efla hlut leikrænnar tjáningar, hreyfingar og skapandi starfs, aðferðir sem sóttar eru til gæðastjórnunar, þróun öflugs foreldrasamstarfs, hugmyndir um að nýta tölvu- og upplýsingatækni í leikskólum og barnaheimspeki.

Hvers vegna fara karlmenn ekki í þroskaþjálfanám?
Ingvar segir í greininni:
Þroskaþjálfar eru eina stéttin í landinu sem er sérstaklega menntuð til þess að styðja fatlað fólk og gera því kleift að vinna og lifa í samfélaginu við hlið ófatlaðra. Á þessum vettvangi er gríðarlega hröð þróun og sannarlega ráðrúm fyrir nýjar hugmyndir, snjallar lausnir og þróunarstarf. Óskiljanlegt er með öllu hvers vegna störf með fötluðum höfða ekki til karlmanna meira en raun ber vitni.

Svo benti Ingvar á að bæði kennara- og þroskaþjálfanám er í boði í staðnámi eða fjarnámi og fjarnámið er skipulagt með það fyrir augum að unnt sé að stunda það með hlutastarfi og að grunnnám við Kennaraháskólann lokar engum leiðum og möguleikar til símenntunar og framhaldsnáms eru meiri en í flestum öðrum starfsgreinum.

Karlmenn styrktir sérstaklega til náms í félagsráðgjöf við HÍ
Félagsþjónustan í Reykjavík veitti karlmönnum námstyrki fyrir skólaárið 2002-2003 til að stunda nám í félagsráðgjöf. Aðeins einn af hverjum tíu félagsráðgjöfum er karlmaður. Þetta þykir sérstaklega bagalegt m.a varðandi barnavernd og forsjármál.

Hvatningarátak um hjúkrunarfræði
Þá hefur verið sérstakt hvatningarátak á þessu ári í framhaldsskólum um nám í hjúkrunarfræði og störf hjúkrunarfræðingsins. Markmið hvatningarátaksins er að karlnemendur í hjúkrunarfræði og útskrifaðir karlhjúkrunarfræðingar geti orðið yngri karlnemendum í framhaldsskólum hvatning til að fara í hjúkrunarfræði.

9.11.02

Brjóst og blástrákar


Finn hjá mér mikla þörf fyrir að tjá mig um FUNDINN. Ég var ekki á þessum fundi en ég hef lesið blogg hjá fólki sem var heldur ekki á þessum fundi og og það fólk vísar í blogg hjá fólki sem var á fundinum og vefrit sem lýsa því sem gerðist á fundinum. Fór að hugsa um hvað bloggumræðan hefur breyst, núna er málefnaleg og rökstudd umræða um jafnréttismál og stöðu kvenna á mörgum bloggum og það jafnt hjá karlkyns og kvenkyns bloggurum. Man að þegar ég byrjaði að blogga þá voru nánast eingöngu karlmenn (að mér virtist nánast eingöngu verkfræðinemar) að blogga og eina kynjaumræðan í bloggi voru grófar klámmyndir af konum og gróft orðfæri þrungið kvenfyrirlitningu hjá einstaka bloggurum sem virtust nota það sem ráð til að auka lesendahóp sinn....

Hva..Ha! ...Skil ekki....Hvernig tengist þessi brjóstamynd vitundariðnaðinum og honum Jakobi Frímanni? .... Höfundurinn er bara skrifaður menningardeild Deiglunnar... eins gott að ég áttaði mig á þessu... var farin að halda út af þessum mörgu jafnréttisgreinum undanfarið að Deiglan væri fínt veftímarit og ágætis lesning fyrir bæði karlkyns og kvenkyns femínista, ekki bara rit smástráka sem upp úr vellur einhver últra hægri froða.

Aha!... nú fatta ég... þetta er náttúrulega svona útpælt statement um að Deiglan hafi ekki breyst í femínistavefrit heldur haldi áfram að vera rit fyrir blástráka skrifað af blástrákum.

Yfir fjöll og firnindi með kjörkassana


Systir mín var að hringja, hún mun núna í kvöld og nótt pikka upp innsiglaða kjörkassa á ýmsum stöðum á Vestfjörðum ásamt hinum Vestfirðingunum í kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja og víðfeðma Suð-Vesturkjördæmi. Svo leggja þau af stað yfir fjöll og heiðar og reikna með að komast í náttstað í fyrsta lagi klukkan þrjú í nótt. Geta þá sofið í örfáa tíma því talning hefst á sunnudagsmorgni í Borgarnesi og getur ekki hafist fyrr en búið er að blanda öllum atkvæðaseðlum saman. Ætli kosningafyrirkomulag við prófkjör verði svona fyrir næsta þingkosningar? Kannski kýs fólk bara heima hjá sér eftir fjögur ár, allir verða komnir með einhver stafræn skírteini og gagnaflutningur verður vottaður og öruggur.

8.11.02

Mósaik - margt smátt gerir eitt stórt


Var að uppgötva eitt ógeðslega sniðugt tómstundagaman á Netinu, það er að taka þátt í að búa til mósaíkmynd þar sem ekki er einn höfundur, heldur gerir hver um sig eitt spjald eða þil í myndina, kannski í kringum eitt þema. Ég var t.d. að skoða eina tilbúna mósaíkmynd, það er svona kindaþema. Minnti mig á að sumir listamenn mæla allt í kindakílómetrum. Eitthvað svo bútasaumsleg svona samvinnuhreyfing listamanna.

Ætti kannski að skipta bakgrunninum hjá mér í tölvunni heima og setja þessa mósaikmynd í staðinn... Og hugsa sér hve mikla útrás maður fær í því að taka þátt í að skapa ófreskur með öðru fólki. Ófreskja eða ófreskjuhluti hvers og eins verður að blandast alveg við þiljurnar sem áður eru komnar. Hvernig skyldi Frankensteinsaga nútímans hljóma? Gengi örugglega mikið út á svona participatory design...

6.11.02

Skiptir Internetið máli í kosningum 2002 á Íslandi?


Margir bandarískir bloggarar voru í gær með brýningu til lesenda sinna að kjósa því það voru þingkosningar þar í gær. Þar í landi er kosningaþátttaka ótrúlega lítil. Í greininni No, Really, This One's a Net Election eftir Nicholas Thompson er úttekt á því hvernig Internetið skipti máli í kosningunum í USA árið 2002.

Bráðum verða prófkjör í Reykjavík hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og uppstilling verður í janúar hjá Framsókn en ég veit ekki hvaða háttur verður hjá Vinstri Grænum.

Margir farnir að blogga, skrifa dagbækur eða pistla í tímaröð
Það er fróðlegt að skoða hvernig frambjóðendurnir nota upplýsingatækni núna. Langflestir nota vefinn til að kynna sig og það sem þeir standa fyrir. Sumir halda úti eigin vefsetri þar sem þeir skrifa pistla eða dagbók og virðast líta á vefinn sem samskiptatæki sitt við kjósendur. Það er stærra skref en kyrrstæð kynning því pistlar í tímaröð (blogg) og einhvers konar samskipti við lesendur gera kosningavefina líflegri og gera upplýsingaflæðið betra og það vonandi eykur lýðræðið, þ.e. öflugur fréttaflutningur til kjósenda um hvað frambjóðandinn er að gera og pæla og svo að það sé auðvelt fyrir kjósendur að ná til frambjóðenda og skýra sín sjónarmið. Ég leit á nokkur vefsetur frambjóðenda og sá að Bryndís skrifar pistla, Helgi er líka byrjaður að skrifa pistla og Sigrún Grendal skrifar líka pistla og Jóhanna skrifar pistla og gefur lesendum kost á að skrifa henni um sína skoðun og Kolbrún skrifar pistla og það gera líka Ásta Ragnheiður, Guðrún Ögmunds og Siv og Ögmundur og Valgerður og Björn skrifa dagbækur. Vonandi munu stjórnmálamennirnir ekki bara vera svona duglegir í vefskrifum rétt fyrir kosningar, ég held að svona safn af vefpistlum verði bara merkilegra eftir því sem árin líða og geti orðið svona reynslusjóður fyrir framtíðina. Vefurinn hjá Birni Bjarnasyni er ein besta yfirsýn yfir hvað var að gerast í menntamálum á Íslandi þau ár sem hann var menntamálaráðherra. Björn var líka brautryðjandi í að nota tölvupóst og það var held ég einsdæmi fyrir nokkrum árum að almennir borgarar gætu skrifað ráðherra og fengið strax svar frá honum.

Sumir frambjóðendur virðast ekki leggja mikla áherslu á vefinn enn sem komið er. Ég vildi óska að það væru meiri upplýsingar á vefsíðum hjá Stefaníu Óskarsdóttir og Hólmfríði Garðarsdóttir, ég þekki þær báðar og þær eru frábærar og hafa báðar mikla reynslu og yfirsýn.

Hvernig frambjóðendur sjá sjálfan sig og kjördæmið
Jakob Frímann og Ágúst Ólafur hafa svona kynningarvefi, gaman að bera saman hvernig þeir sjá sjálfan sig og umhverfið þ.e. Reykjavíkurborg því þeir setja báðir á forsíðu á vefsetrum sínum mynd af sér og borgarbakgrunn. Jakob Frímann sér sjálfan sig og borgina í lit og rústrauðum tónum og hans tákn er turninn á Næpunni, ég tek þetta sem tákn um áherslu á menningu og listir og alþjóðavæðingu (minnir á bakgrunnsmyndina af Kremlarturnum í stuðmannalaginu þegar leiðtogafundurinn var í Reykjavík), þessi áhersla á hið framandi og það sem stingur í stúf við umhverfið. Ágúst Ólafur sér sjálfan sig og borgina þannig að hann einn er í lit (reyndar frekar einlitur, svona í gulbrúnum tónum) en borgin í grátónum og það eru manngerðu línurnar í landslaginu sem koma fram - beinar línur tjarnarbakkanna og vegirnir og húsablokkir sem raðast við vegi, það er bara hægt að greina stóru stofnanirnar, áherslan er á borgarskipulag og infrastrúktúr, þetta er svona sviðsmynd úr Simcity.

5.11.02

Hugleiðing um stelpustærðfræði


Deiglan birtir í dag grein eftir Brynjólf Sævarsson um stelpustærðfræði.Þetta er málefnaleg grein og gott innlegg í kynjaumræðuna. Það er vissulega óheppilegt orðalag sem haft er eftir Rósu Erlingsdóttur í greininni t.d. " ... að vera hræddar við stærðfræðina þannig að við drögum svolítið úr kröfunum á fyrstu námsárunum til þess að halda þeim inni í þessum greinum." Ég efast um að þær stúlkur sem hafa valið verkfræði eða raungreinar séu hræddar við stærðfræði og sé reyndar enga skýringu á hvers vegna stelpur ættu að vera hræddari við stærðfræði en strákar. Svona orðalag er móðgandi fyrir konur í verkfræði- og raunvísindanámi.

Það má hins vegar alveg ræða hvort að inntak og skipan raunvísindanáms sé í takt við það starfsumhverfi sem býður nemenda að námi loknu og ég hugsa að meiri áhersla á félagsvísindi og hugvísindi geti alveg bætt tækninámið. Inntak náms og þau dæmi og nálganir sem þar eru teknar mega ekki vera á skjön við það sem nemendur upplifa sem mikilvægt og áhugavert og tengt því starfi sem þeir hafa hug á að vinna. Ég veit ekki hvort það er kynbundið en ein af ástæðunum fyrir því að námsár mín í viðskiptafræðinni (þjóðhagfræði) í HÍ voru mér kvöl og pína var sú ofuráhersla sem þar var á stærðfræði og að skýra gangvirki samfélagsins út frá stærðfræðiformúlum. Það passaði alls ekki við veruleikann sem blasti við mér þá og það passar ennþá síður núna. Það er ekki hægt að skýra alla breytni mannfólksins með lögmálum um framboð og eftirspurn og stærðfræðilíkönum, samfélagið er ekki bara flæði af vörum og þjónustu, það er líka byggt upp gegnum trúarlíf og siðvenjur og sameiginlegar minningar eða sameiginlega gleymslu, sameiginlega sjón eða sameiginlega blindu.

Saga af hvernig stærðfræðin fór úr námskeiði og í staðinn kom fiskur og peningar

Á fyrstu árum mínum í kennslu tók ég að mér á miðjum vetri kennslu á tölvur í útgerðartækni við Tækniskóla Íslands, held reyndar að það nám sé ekki til lengur heldur hafi þanist út í eitthvað sem heitir rekstrarfræði og er víst stærsta brautin í Tækniháskóla Íslands núna. Vissi ekki fyrr en ég var búin að ráða mig að fyrirrennari minn hafði gengið út í fússi og mikill kurr væri í nemendum. Þeir höfðu verið að læra forritun, ég man ekki hvort það var forritunarmálið Basic eða pascal en man að öll verkefnin gengu út að reikna rúmmál og flatarmál hluta. Á þeim tíma var tölvukennsla reyndar líka nánast það sama og stærðfræðiformúluútreikningur, tölvur voru galdratól sem fyrst og fremst hjálpuðu við flókna útreikninga. Útgerðartækninemunum fundust þessir útreikningar flóknir og óskiljanlegir.

Áður er ég byrjaði að kenna þarna spurði ég deildarstjórann hvort hann gæti gefið mér einhver ráð um hvernig verkefni ég ætti að búa til fyrir nemendurna og hann sagði tvö orð: FISKUR OG PENINGAR. Ég fór heim og samdi verkefni eftir því. Öll verkefnin sem ég lagði fyrir nemendurna voru sprottin upp úr sjávarútvegi og gengu út á að reikna aflahlutdeild eða gera framleiðsluútreikninga í fiskvinnslu. Svo henti ég fyrir borð þessari forritunarkennslu og fór að kenna nemendunum á verkfæri sem hafði fylgt tölvunum en enginn hafði notað eða sett sig almennilega inn í. Mér sýndist það verkfæri henta betur til svona útreikninga með peninga og fisk. Þetta verkfæri var kallað "spread sheet " og var seinna á íslensku kallað töflureiknir. Þetta var eftir því sem ég best veit í fyrsta skipti sem töflureiknar voru notaðir í kennslu á Íslandi. Þessi breyting sló í gegn hjá nemendum og ég held það hafi verið miklu hagnýtara fyrir þá að læra fjármálaútreikninga í tölfureiknum og þeir hafi getað leyst miklu flóknari dæmi þar heldur er ef áherslan hefði eins og áður verið á að búa forrit sem reiknuðu flatarmál. Sumum fannst samt með þessu væri verið að gera námið of létt og draga úr stærðfræði. Kannski var verið að gengisfella gæði háskólanáms?

Engir ljósir punktar


Vinkona mín var í heimsókn fyrr í kvöld og þegar ég sagði henni frá því að ég hefði fengið tölvupóst í dag um að verkefnið mitt hefði komist í úrslit fyrir eLearning Awards í Evrópska skólanetinu og mér væri boðið til Stokkhólms 21. nóvember á verðlaunaafhöfnina ásamt hinum finalistunum þá sagðist hún vilja óska þess að hún fengi í sinni vinnu stundum bitlinga eins og svona ókeypis utanlandsferðir. Svo hæddist sonur hennar að mér þegar ég sagði að Kristín væri alltaf að læra. Ég er ekki að meika það.

4.11.02

Jean Baudrillard og Immanuel Velikovsky


Baudrillard og Velikovsky eiga að ég held ekkert sameiginlegt nema það á sunnudaginn var ég að staulast í gegnum rit eftir þá. Skil reyndar ekki hvers vegna, held að það hafi bara verið tilviljun, jú ég keypti um daginn þunnt kver sem heitir Frá eftirlíkingu til eyðimerkur og fannst ég þurfa að lesa hana, alla vega til að vera kjölfróð um þessa innsprengingu og þennan raunveruleika sem er bara eftirlíking. Skildi mest lítið í þessu kveri. Svo datt ég um Velikovsky í leitarvélinni Google, held ég hafi verið að leita að einhverju um tímatal Asteka. En alla vega finnst mér mjög áhugavert að hugsa um einhverja sameiginlega dulvitund mannkynsins og eitthvað sem heitir "shared amnesia". Á eftir að pæla meira í þessu. Kannski tengjast Baudrillard og Velikovsky...
Í réttarsalnum með Jean Baudrillard e. Birnu Bjarnadóttur
Serbar og hin dulda dagskrá Vesturlanda
Horfinn sannleikur - Nokkur orð um heimspeki Jean Baudrillard e. Þór Steinarsson
Sýnd verund í hjáheimum: Um upplifanir í stafrænni vídd e. Geir Svansson

Undirheimar og veiðimenn í útnorðri



Vaknaði úr svæfingunni um fjögurleytið á föstudaginn og var sagt að fara heim og halda kyrru fyrir. Svo kom í ljós að ég mátti ekki keyra heim, hefði verið ólögleg í umferðinni . Það var hins vegar ekkert um að maður væri ólöglegur á gangi svo ég gekk beint í næsta kokteilboð. Fannst á þeirri stundu viðeigandi að fagna upprisu minni þar sem hana bæri einmitt upp á hápunkti dauðrahátíðarhalda í Mexíkó El Dia de los Muertos . Það reyndist líka vera vel til fundið því ég lenti í mikilli veislu í lok misserisþingsins, það var verið að halda upp á mörg hundruð ára afmæli. Var þar fram að kvöldmat, þegar ég kom heim var systir mín ennþá í bænum, hafði verið á biðlista með flugi vestur og var búin að bíða út á flugvelli og var búin að afhenda farangurinn, vask og fleira sem hún hafði keypt en svo kom einhver sem átti miða hlaupandi á síðustu stundu og hún komst ekki með. Hún vildi gera gott út úr þessum leiðindum svo hún fór í leikhús með dætrum mínum en ég þorði ekki að fara með þó mig langaði.

Fór á laugardaginn á sýningu í nýju gallerí hjá gamla Álafossi, það heitir gallerí Hildur eða Undirheimar og fyrir dyrum voru goðamyndir. Gamla verksmiðjuhverfið hefur breyst í listamannanýlendu og ég hvert skipti sem ég kem þar er búið að gera eitthvað meira. Sýningin er skemmtileg, vinnustofan og sýningarsvæðið rann saman og stundum vissi ég ekki hvort þetta væri uppstilling á listaverkum eða raðað dót sem einhver hefði sankað að sér. Hver er annars munurinn? Fórum svo á sýningu í Norræna húsinu um veiðimenn í útnorðri. Þar voru uppstoppaðir selir og ísbirnir og lundar. Líka frosnar sjávarafurðir í frystikistu. Fór svo með dætrum mínum á kaffi Nauthól í Öskjuhlíðinni þar sem við drukkum kakó og þær léku með tilþrifum fyrir mig senur úr leikritinu Beyglur en þær fóru á það leikrit í Iðnó kvöldið áður.

1.11.02

Ráðstefnublogg - Misserisþing í Kennó


Núna er ég stödd á misserisþingi í KHÍ og er með fartölvuna þráðlausa og án þess að vera í sambandi við rafmagn. Ég er að prófa að nota bloggið eins og glósubók á meðan ég er að hlusta á fyrirlestrana. Dagskrárliðurinn sem er núna heitir Hugsað upphátt um kennslu. Núna er Kristín Karlsdóttir að tala en ég held að ég sé seinust á mælendaskrá. Hún er að tala um kennslu í leikskólafræðum. ....Þráðlausa sambandið reyndist gloppótt, ég var stundum úti og stundum inni...
Svo talaði Kristín Ólafsdóttir, hún kennir leikræna tjáningu. Ragnhildur Bjarnadóttir talaði um vandann við gífurlega fjölmenn byrjunarnámskeið í þroskasálfræði, Sigrún Guðmundsdóttir talaði um kennslu um náttúru og listir, Sigurbjörn Arngrímsson talaði um íþróttakennslu og ég talaði um nám og kennslu á Netinu. Er búin að setja glærurnar mínar á Netið. Það eru eitthvað um hundrað manns á þessu misserisþingi, flestir kennarar í KHÍ eða HÍ sýndist mér. Gat ekki verið lengur því ég er að fara til læknis.

Nú er klukkan 13.15. Er búin að vera fastandi í dag því ég reikna með að þurfa að fara í svæfingu eftir korter. Ég er sjúklega hrædd við svæfingar.