31.12.02

Annáll ársins 2002
Hér ætla ég að setja annál ársins í einni eða tveimur málsgreinum og herma þannig eftir Gneistanum. Mér finnst þetta sniðugt og ætti að vera einfalt því þetta er fyrsta árið sem ég hef bloggað allt árið. Bara lesa bloggið yfir...
...klára síðar...er núna að fara í áramótadjammið... vildi helst bara vera á Netinu í nótt og halda áfram að lesa jón sigurðsson...er bara komin að 1841...en maður verður víst að vera eitthvað meðal fólksins...til hvers veit ég ekki...en alla vega ef einhver les þetta þá segi ég bara gleðilegt nýtt ár... geri ekki ráð fyrir að komast á netið fyrr en á næsta ári..
Jón Sigurðsson

Ég er að lesa Jón Sigurðsson og ég er komin að árinu 1840, þá rís Jón úr rekkju eftir mikið veikindi og Guðjón segir á nokkrum blaðsíðum frá hinum voðalega sjúkdómi syphilis eða fransósa og melluhverfum Kaupmannahafnar. Jón stekkur fram á sjónarsviðið sem stjórnmálamaður, hættir að vera bara fornritafræðingur og málfræðingur sem rýndi í fornar skræður. Hans atvinna er samt við það og hann vinnur í skjóli Finns Magnússonar sem var hæstsettur Íslendinga í Kaupmannahöfn á þessum tíma, Finnur var etatsráð og leyndarskjalavörður konungs. Á þessum tíma var Finnur að leggja lokahönd á rit sitt um Runamo og Jón Sigurðsson vann við próförk að því riti.

Bænarskrár og tímarit eins og Fjölnir og síðan Ný Félagstíðindi .... FRamhald síðar.

29.12.02

Draumur um þorp og bókasafnRétt fyrir jólin dreymdi mig að ég þóttist vera stödd í risastóru bókasafni. Það var allt fullt af krókum og kimum með borðum og stólum og hillum. Það var glerfínt og nýtt og á yfirborðinu var eins og allt væri í röð og reglu en það var ekkert líf í því. Í hillunum voru bækur og alls konar efni en það var ekkert kerfi þarna svona eins og á venjulegum bókasöfnunum. Ég var að skoða og lesa íslenskar skáldsögur og ákveð í leiðinni að búa til eitthvað kerfi, skrifa á litla gula-postit miða hvaða bækur eru í þessari hillu og reyna að setja eitthvað skipulag eða leiðarkerfi í þessa hrikalegu óreiðu sem hið undirliggjandi þekkingarkerfi var og mig minnir að ég hafi bæði sett þessa post-it miða og skrifað með blýanti á kantinn á bókahillum. Draumur endaði hins vegar með að starfsfólk í þessu safni réðst að mér og sagði að það væri bannað að drasla svona til. Ég var sármóðguð og ákvað að fjarlægja öll ummerki um þessi leiðarkort um safnið sem ég hafði verið að vinna með alls konar pári og lausum sneplum.

Í fyrrinótt (aðfaranótt 28. des) dreymdi mig einhverja ferð aftur í tímann. Kannski var ég að blaða í bók eða skoða eldgamla kvikmynd. En þarna sá ég eins og loftmynd af bóndabæ á eyju eða hólma og svo man ég eftir mynd af Ingibjörgu Sólrúnu að bíða eftir strætó eða rútu. Hún er glaðbeitt á svip en aðstæður er samt all svakalegar. Hún er á kafi í vatni nema höfuðið stendur upp úr, vatnið er tært og stillt eins og það hafi orðið eitthvað flóð og mér finnst eins og hún sé unglingur og í sveit á þessum bóndabæ. Ég kom síðar í einhvern kaupstað eða öllu heldur er að horfa á gamla kvikmynd sem tekin er í útjaðri kaupstaðs þar sem hesthúsahverfi er og myndir er ekki í svarthvítu, heldur sýnir rauðbrúna tóna. Það er mikið líf í myndinni, hestar eru bundnir fyrir framan eða sjást í gættum húsa og ég spái í hve vel hestarnir komi út í þessari gömlu þöglu mynd, þeir séu svo stórar skepnur og hreyfingar þeirra miklar á myndfletinum og þeir séu allir rauðbrúnir svo það skeri sig flott út úr bakgrunninum. Svo er einhver þulur undir myndinni sem segir söguna og segir að á þessum tíma hafi meira segja hestar frá þessum eina sveitabæ sem ég var áður að skoða fengið merkið II. Svo finnst mér ég vera sérstaklega að rannsaka og leita að verkum eftir einhverja þekkta listakonu og það mikið tækifæri að geta svona farið inn í lífið eins og það var í þessum kaupstað. Mér finnst þetta ekki vera eins og neinn íslenskur kaupstaður, mig minnir að húsin hafi verið tréhús svona falumrauð eða miðevrópuleg tréhús. En listin fólst í því að mála utan á húsin, að mála glugga og blóm á gluggalausa pakkhúsvegi og lífga þannig upp dimm sund og vöruskemmur. Svo finnst mér að listakonan sem hefur málað blómin á veggina vera útlendur gestur sem er þar í boði konunnar sem ræður öllu í kaupstaðnum og það er sú kona sem fær hugmyndir um hvar eigi að mála þessi framandi útlendu blóm utan á húsveggi. Mér finnst listakonan frekar upplifa sig sem handverksmann sem málar eftir pöntunum.

27.12.02

Jólabækurnar


Ég held þetta hafi ekki verið bókajól, sérstaklega held ég að skáldsögur seljist ekkert grimmt. Verðið er líka fáránlega hátt, eitthvað um fjögur þúsund fyrir einnota skemmtun í nokkrar klukkustundir að lesa bók og svo þarf að sjá fyrir geymslustað fyrir bókina sem kannski verður ekki lesin aftur fyrr en eftir áratugi. Ég set bækur í plastinu upp í bókaskápa hjá mér og tek ekki af plastið fyrr en bókin er lesin. Tók upp þennan sið eftir að ég las bækur Einars Kárasonar um braggalífið, þar segir hann frá fjölskyldu í blokkinni sem er svona í plastinu bæði með húsgögn og bækur og mér fannst þetta bráðsnjallt. Það eru margar bækur búnar að vera lengi í plasti hjá mér, kannski vegna þess að ég kaupi mest bækur á bókamarkaðnum sem ég er hvort er eð búin að lesa áður en langar til að eiga. Langar samt yfirleitt ekki til að lesa þær aftur. Kviður Hómers eiga metið, þær voru mörg, mörg ár í plasti og ég hefði ekki tekið þær úr plastinu nema af því bróðir minn kom einu sinni í heimsókn og vildi blaða í þeim smástund.

Kannski er tími skáldsagnanna að líða undir lok, svona svipað eins og rímnakveðskapurinn á tímum Fjölnismanna. Kannski verða skáldsögur fyrst og fremst hugmyndabrunnur og handrit fyrir kvikmyndir og annars konar margmiðlunarverk og gildi þeirra verður mest metið sem sagnfræðilegt og sálfræðilegt rannsóknarefni. Kannski verður litið á skáldsögu frá höfundi sem mannlýsingu sem lýsir fyrst og fremst hugarástandi og reynslu höfundar, áherslan verður á höfundinn frekar en söguna. Það er blómatími í sakamálasögum og það er blómatími í ævisagnagerð - sérstaklega ævisögur einstaklinga sem eru tákn fyrir einhvern tíma eða einhver viðhorf. Kannski er þetta liður í að skrifa söguna upp á nýtt, skrifa hana í gegnum ævi einstaklinga t.d. eins og ævisaga Jónasar Hallgrímssonar sem kom út fyrir nokkrum árum og ævisaga Jóns Sigurðssonar sem kom út núna. Meira segja eru skrifaðir miklir doðrantar um menn sem virðast hafa lifað tilbreytingarlitlu lífi og ekki verið litríkar persónur þó þeir væru stórbrotnir listamenn t.d. eins og Steinn Steinarr.

Ég er byrjuð að lesa tvær jólabækur. Það er bókin um mexíkönsku listakonuna Fridu og bókin um Jón Sigurðsson. Hér hef ég tekið lista yfir þær jólabækur sem mig langar til að lesa einhvern tíma í framtíðinni:
* Einar Már Guðmundsson: Nafnlausir vegir
* Andri Snær Magnason: Love Star
* Þórarinn Eldjárn: Eins og vax
* Sigurbjörg Þrastardóttir – Sólar saga
* Steinar Bragi: Áhyggjudúkkur
* Guðrún Eva Mínervudóttir – Sagan af sjóreknu píanóunum
* Davíð Oddsson - Stolið frá höfundi stafrófsins
* Ljóðaþing Eysteinn Þorvaldsson
* MIKLIR HEIMSPEKINGAR Bryan Magee
* Tækninnar óvissi vegur Þráinn Eggertsson ritstýrði
* Horfinn heimur Árið 1900 í nærmynd Þórunn Valdimarsdóttir
* Albert Einstein
* BRÉF VESTUR-ÍSLENDINGA II Böðvar Guðmundsson
* Frida Barbara Mujico
* Tolkien Michael White
* HALLDÓR LAXNESS - LÍF Í SKÁLDSKAP Ólafur Ragnarsson
* JÓN BALDVIN - TILHUGALÍF Kolbrún Bergþórsdóttir
* JÓN SIGURÐSSON Guðjón Friðriksson
* Landneminn mikli Saga Stephans G. Stephanssonar Viðar Hreinsson

Svo langar mig til að lesa Íslenskir sagnfræðingar en í þeirri bók munu vera fræðilegar sjálfsævisögur ellefu þekktra núlifandi sagnfræðinga þar sem þeir gera grein fyrir helstu áhrifavöldum í lífi sínu. Svona sjálfsævisögubrot verða nú kannski blogg í framtíðinni. Svo langar mig til að lesa bækur þessarra þriggja bloggara Betu, Sverris og Ármanns því ég fylgist reglulega með sjálfævisögubrotum þeirra.

Kannski ætti ég að lesa þessar blogghöfundabækur saman og finna hvað er sameiginlegt með að vakna í Brussel þar sem Beta rokk segir frá stúlku sem er lágt sett við hirðina nýju og sogast í sjálfseyðandi lífsstíl inn í nýja ríkið "Lísa er í Brussel. Hún er au pair, ópera. Hún gætir barna ESB og NATO. En hún er líka harðkjarna-djammari.." og finnur sér þannig stað í nýjum heimi og er líka heimild um sjálfsmynd og þjóðernisímynd Íslendinga við erlenda hirð eins og rannsóknir Ármanns á morknum skinnhandritum. Svo ætla ég að pæla í Þjóðerni í þúsund ár sem Sverrir ritstýrði og spá í hvernig sjálfsmynd allra beturokka nútímans komi inn á þjóðerni og hugmyndir Íslendinga um stöðu sína meðal þjóða heimsins. Mér finnst flott að spyrja:" Hverjir tilheyra hinni íslensku þjóð og hverjir ekki? Eru það ef til vill huldufólk eða vestfirskir sérvitringar sem eru hin eina sanna íslenska þjóð? ". Get samt ekki ímyndað mér að það sé neitt svar réttara en annað - jú kannski eru þeir þjóðin sem taka þátt í að búa til, varðveita og hafa ýmsa ritúala til að rifja reglulega upp sameiginlegar minningar.

Fræðibækur sem mig langar að lesa:
* Ísland á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson
* Ísland í aldanna rás Illhugi Jökulsson o.fl.
* Landneminn mikli eftir Viðar Hreinsson
* Verk Bjargar C. Þorláksson - Sigríður Dúna ritstýrði
* Bylting Bítlanna - Ingólfur Margeirsson
* Hvað er þá maðurinn? Úr heimi trúarbragðanna Rögnvaldur Finnbogason

Sakamálasögur:
* Arnaldur Indriðason – Röddin, Dauðarósir, Grafarþögn, Mýrin, Napóleonskjölin
* Viktor Arnar Ingólfsson: Flateyjargáta
* Árni Þórarinsson og Páll Kristinn Pálsson: Í upphafi var morðið
* Stella Blómkvist - Morðið í Alþingishúsinu

Svo gæti ég alveg hugsað mér að lesa bókina Óvinurinn – Emmanuel Carrère því ég fór á franska bókmenntakynningu fyrir jólin og þetta er víst sannsöguleg saga, saga af manni lendir í ógöngum og flækju vegna þess að hann hefur í raun ekkert sjálf, allt hans líf er meira og minna lygi.

Bókmenntaumfjöllun Úlfhildar og Þorgerðar í Kastljósi 2002
Bókatíðindi 2002

23.12.02

Grýluannáll 2002


Ég setti fyrst upp jólavef 1996 og síðan hef ég reynt að fylgjast með hvernig Grýlu- og jólasveinaímynd breytist og haldið svona Grýluannál. Í ár hef ég verið óvenju áhugalaus um þetta, held það fari saman með því að ég hef miklu minni áhuga á jólabækum en áður, mér sýnist að í fyrra hafi ég miklu meira pælt í jólabókum en í ár.

Reyndar hef ég svo lítinn áhuga á jólabókunum að ég hef eiginlega bara pælt í því hvaða bækur ég vil EKKI fá í jólagjöf. Þar tróna á toppnum bækurnar Fjandsamleg yfirtaka um hvernig einum fjármálamanni tókst ekki eitthvað sem hann kallar skuldsetta yfirtöku, Samúel eftir Mikael Torfason - mér sýnist sú bók ekki sáldra lífsgleði á lesendur alla vega er punknurse ekki kátur eftir lesturinn. Svo vil ég alls ekki fá í jólagjöf einhverja bók sem ég man ekki hvað heitir en sá í bókabúð MM áðan og var hellisbúaþankagangi, fyrirsögnin var eitthvað um að konur kynnu ekki að bakka bíl og karlar ekki að gera eitthvað sem ég man ekki. Alla vega vona ég að sú bók fái aldrei titil í mínum huga.

En Grýlur og jólasveinar hafa samt ekki farið alveg framhjá mér í ár þó ég hafi ekkert séð til þeirra í bókum. Í gær sá ég Grýlu og hún var að stýra sólstöðuhátíð á Austurvelli. Þessi hátíð hét að mig minnir Fjöll og fólk og var svona andkárahnjúkaleg hátíð þar sem óbyggðamyndum var varpar upp á risaskjá og svo voru tónlistaratriði.Mig bar þar að þegar hinn frægi Svavar og band hans stigu á stokk og hreifst ég mjög af tónsnilld hans sem og snörpum á(l)deilutextum sme og hugljúfum ástaróð um ástina sem kviknar alls staðar og berst um Öskjuhlíð. Svo sá ég líka einn ræfilslegan jólasvein í gær, hann var að áreita krakka við ruslutunnurnar hjá pulsulúgunni í Ikea og reyna að tróða í þau meira gotti. Í dag sá ég miklu reffilegri jólasvein og það var í lok friðagöngunnar niðri í bæ, þetta var hann Ástþór og hann var að áreita ræðumanninn í blysfriðargöngunni og reyna að stela athyglinni. Hann hélt á stóru skilti þar sem stóð eitthvað um að hann væri þorpsfíflið. Svo var hann líka með svartan linda bundinn fyrir munninn, svona falungongmótmælalegan. Mér finnst Helgi Hósíasson hafa eignast skæðan keppinaut um spjöldin. En ég kann miklu betur við svona jólasveina sem reyna að stela einhverju heldur en þessa kólasveina sem kynda undir neyslufíkn. Úttekt mín á Grýlu og jólasveinum árið 2002 er þessi: Grýla er orðin verndardýrlingur Kárahnjúka og náttúruverndarsinna og jólasveinarnir heimta málfrelsi, stela athygli og skipta sér af utanríkismálum.

Annars er skötudagurinn í dag. Ég borða ekki skötu en ég fór í sænskt jólaboð í vinnunni í dag og svo fór ég í friðargönguna. Hef aldrei farið í þessa göngu áður, finnst þetta skemmtilegur siður og svo er friður ekki núna eitthvað sem er sjálfsagt í mínum heimshluta. Síðustu dagar hafa mikið farið í ýmis konar jólafagnaði, á fimmtudaginn bakaði ég laufabrauð með ættingjum og á föstudaginn eftir vinnu var jólaboð í vinnunni og ég fór með liðinu á Tabasbarinn og Thorvaldssen en var komin heim um miðnætti.

22.12.02

Vetrarsólstöður


Ég er ein heima og hlusta á klukkurnar í Laugarneskirkju hringja til messu, feðginin fóru í kirkju eins og endranær á sunnudögum. Í dag eru vetrarsólstöður og það er hátíðisdagur í öllum trúarbrögðum, jólahátíð og heiðin sólstöðuhátíð. Ég fór að skoða ýmislegt um tímatal á vefnum og fann svona javaapplet frá Tim Stridmann á http://norse.narod.ru sem birtir gamla íslenska tímatalið:
21.12.02

Ósýnileg börn


það var hringt í mig áðan frá Gallup, ég hafði lent í úrtaki um könnun um netnotkun barna og ég var spurð ýmissa spurninga um netnotkun barnsins míns. Ég man eftir einni spurningu sem tengdist því sem barnið væri að gera á Netinu og ég svaraði að ég teldi að hún væri að leita að ýmsum upplýsingum og heimildum, spila leiki og væri stöku sinnum í tölvuspjalli. Ég var ekki spurð um hvað ég vildi að barnið mitt skoðaði á Netinu eða hvort ég reyndi að beina henni að einhverju efni þar. Næstum allar spurningarnar voru hins vegar um hvort eða hvernig ég passaði upp á að hún kæmist ekki í mannskemmandi efni, hvernig eða hvort ég vaktaði hvaða efni hún skoðaði á Netinu og fylgdist með tölvunotkun hennar. Svo var ég spurð nokkurra spurninga um viðhorf til netnotkunar í skólanum hennar og allar voru þær spurningar um hvernig ég vildi að fylgst væri með netnotkun nemenda, spurningar eins og hvort ekki væri ástæða til að tölvur væru í opnum rýmum þar sem sæist á skjáina svo börnin gætu ekki verið að pukrast inn á einhverjum óhollustusíðum. Ég vona svo sannarlega að netnotkun í skólum snúist meira um opna dyr og möguleika á að afla þekkingar frekar en að koma upp einhvers konar öflugri varðstöð til að birgja úti draslið. Vona að það verði ekki búið til samfélag forræðishyggju sem drepur einstaklinga í dróma. (hér ætlaði ég að tengja í afar mergjaða greiningu á sænsku samfélagi Ejutgang hjá einum bloggara en fann ekki þá vísun- veit einhver um hana?)

Heimsýnin sem endurspeglast í þessari símakönnun er virkileg hrollvekja. Nokkurs konar sambland af Foucault og Gulaginu og nýja Internet-hlerunarfrumvarpinu hjá Bush stjórninni í USA. Ég hugsa að þegar niðurstöður í þessari könnun verði settar fram verði það af aðilum sem telja sig vaka yfir velferð barna. Og að einn liður í svoleiðið velferðarvöku sé að passa upp á að aðrir komist ekki í sorann.

Það voru líka margar spurningar í þessari könnun um hvort barnið hefði einhverjar upplýsingar um sig á Netinu, eigin heimasíðu og hvort þar væru ljósmyndir af því eða upplýsingar um áhugamál, nafn eða annað. Internetið á Íslandi er mjög opið og kannski er umhverfið hérna og viðhorf okkar of bernsk og græskulaus en ég bara vildi óska þess að það fengi að vera svona áfram. Svona umhverfi þar sem foreldrar sýna stoltir fram börnin sín á Barnalandi og skrásetja viðburði í lífi þess þangað til það er farið að tala fyrir sig sjálft. Með því aukum við líka við það góða efni sem er á Internetinu og breytum miðlinum - gerum hann að okkar stað, stað sem endurspeglar hvað okkur finnst mikilvægt.

Internetið gerir einstaklingum kleift að vera þátttakendur - þeir eru ekki bara hlustendur og viðtakendur , þeir geta sett inn eigið efni, tekið þátt í samræðum og hafa samskipti við aðra. Internetið er ekki eins svona rás sem útvarpar frá einum aðila yfir á marga, Internetið er ekki eins og prentað mál sem er dreift til margra, Internetið er - eða getur verið - miðill þar sem allir hafa möguleika á að tala við alla. Kannski finnst einhverjum að börn ættu að vera ósýnileg á Internetinu, að á einhvern hátt væri verið að vernda þau með að birta ekki af þeim myndir eða upplýsingar um líf þeirra og hvað þeim finnst mikilvægt og skemmtilegt - það væri verið að halda hlífiskildi yfir börn með því að gera þau ósýnileg á Netinu og passa að barnsraddir hljómi ekki í þessum miðli. Ég held að það séu alveg sömu rök sem eru notuð til að réttlæta að í sumum þjóðfélögum eru konur neyddar til að hylja ásýnu sína og vera ósýnilegar.

Annars upplýsti dóttir mín að hún væri búin að missa áhugann á leikjunum á Tilverunni og núna væri eftirlætisvefur hennar á Netinu www.neopets.com

20.12.02

Skoðanakönnun DV - Halldór úti - Ingibjörg inni


Ekki hefði mamma mín verið glöð yfir þessum tíðindum úr skoðanakönnun DV sem benda til að framsóknarmenn fái engan mann í Reykjavík og að formaður flokksins sé úti í kuldanum. Hún var alla tíð sanntrúuð framsóknarkona og fæddist inn í framsóknarfjölskyldu, faðir hennar var lærisveinn Jónasar frá Hriflu og hann afi var líka alltaf að reyna að komast á þing fyrir Framsókn á Norðurlandi en það tókst aldrei hjá honum en svo þegar bróðir hans Björn á Löngumýri var í framboði þá flaug bróðirinn inn og var á þingi í áratugi. Afi var beðinn um að halda sig til hlés í kosningabaráttunni bróður sinn og kannski það hafi bara gert útslagið.

En ekki hafa mér virst áhrif framsóknarmanna í Reykjavík vera mikil á stjórn landsins. Oftlega þrætti ég um stjórnmál við móður mína á meðal kjördæmaskiptingin var slík að atkvæði sem greidd voru framsókn í Reykjavík væru bara til að koma framsóknarþingmönnum annars staðar að, ég stríddi mömmu minni á að það væri bara pólítískur masókismi að styðja framsókn í Reykjavík. Núna hefur kosningalöggjöfin verið breytt og gerð sanngjarnari og núna er allt óljóst um næstu kosningar. Á kosningavefnum 2003 eru ýmsar merkilegar upplýsingar. Þar las ég að framsókn fékk í síðustu kosningum í kjördæmi Halldórs á Austurlandi 2.771 atkvæði en í Reykjanesi þar sem Sif umhverfisráðherra var í fyrsta sæti 7.190 atkvæði og í Reykjavík 6.832 atkvæði.

19.12.02

Borgríkið Reykjavík og þjóðríkið Ísland


Mér sýnist allt stefna í spennandi kosningar í vor, alla vega skemmtilegar umræður sérstaklega í mínu kjördæmi í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra. Nú er ég að pæla í hvort þessar kosningar þar sem Reykjavík er í fyrsta skipti klofin í tvö kjördæmi verði samt ekki tímamót þannig að áherslan snúist meira um borgarsamfélag og landfræðilega legu en þjóðríki. Ef til vill er kominn tími til að hugleiða hver staða þessa samfélags hér á eyju út í Atlandshafi er, þessa samfélag þar sem níu af hverju tíu íbúum lifa og búa í þéttbýlissvæðinu í og umhverfis Reykjavík. Ég er að spá í þetta út frá kenningurm Ian Angels sem hefur dregið upp afar óþægilega mynd af framtíðinni og hinum nýju barbörum netheima. Mér finnst skrif hans samt skynsamleg og held að hann sé spámaður sem eigi að hlusta á, sjá t.d. greinina Hinn hugrakki nýi heimur samrunans og umfjöllun um bókina
The New Barbarian Manifesto: How To Survive The Information Age.

Mér finnst borgarskipulag sem hefur þræði út í heim vera táknmynd hins frjálsa vestræna hagkerfis í dag. Mér finnst að 11. september árásin hafi frekar verið árás á stórborgarskipulag Vesturlanda og tilheyrandi infrastrúktúr og þá samfélagsgerð sem þannig er búin til en á ákveðið þjóðríki. Forsprakki þeirrar árásar var reyndar líka sérmenntaður í borgarskipulagi og hatrammur andstæðingur þess að vestrænt skipulag væri viðhaft í borgum múslima. Og þó ég hafi hvorki lesið bókina Áhyggjudúkkur eftir Steinar Braga eða Sólar saga eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur um stúlkuna sem faðmar undirstöðusúlurnar í borginni þá finnst mér þær á einhvern hátt fjalla um þessa árás á borgarskipulagið. Kannski breytist sú tilfinning þegar ég les þessar bækur.

18.12.02

Ferðasaga og myndir frá Lithauen


Nú er ég búin að setja upp myndasíðu frá Lithauenferðinni. Fundir voru í háskólanum í miðbænum. Mér finnst háskólinn eins og völundarhús, allt fullt af miðaldabyggingum sem tengjast saman og milli þeirra eru garðar og torg. Alls staðar kyrrð. Á föstudaginn fór ég í heimsókn í fjarkennslustofnun háskólans sem er fyrir utan bæinn. Svíarnir í hópnum héldu sína Lúsíugleði á föstudeginum, gengu syngjandi um með kertaljós og buðu glögg og lúsíukökur og piparkökur. Hinar saffrangulu lúsíukökur minna mig alltaf á forn sóltákn. Kannski varðveitist eitthvað langt aftur úr öldum þó að skipt sé um guði.

Það er heilagur staður í Vilnius við hæðina þar sem árnar mætast. Sagan segir að hertoginn Gediminas hafi verið að veiða í skóginum þar sem árnar mætast og um nóttina hafi hann dreymt stálúlf efst á hæðinni og ráðið drauminn svo að þar skyldi borg byggja. Lithauen var síðasta þjóðin í Evrópu til að taka kristni en Dómkirkjan í Vilnius stendur einmitt á þessum helga stað undir Gediminas hæðinni. Í fornum sögnum segir að á þessum sama stað hafa í heiðni verið Perkunas hof þar sem ævarandi eldur brann og þar var turn til að skoða himinhvolfin. Perkunas er þrumuguð og svipar um margt til hins norræna Þórs. Á Sovét-tímanum var dómkirkjan í Vilnius listasafn en varð svo aftur kaþólsk kirkja árið 1989. Á Sovét-tímanum voru líka reist í Vilnius hof fyrir nýja tegund af tilbeiðslum og draumleiðslum eins og hið mikla kvikmyndamusteri sem kallað er gjöf Stalíns til Vilnius. Núna veist víst enginn hvað á að gera við þetta mikla hof, blómatími ríkisrekinna bíóhúsa er liðinn í þessu landi og það eina sem fer fram í húsinu núna er dansskemmtanir fyrir aldraða. En þó að kirkjur og hof skipti um hlutverk og Lithauen hafi fyrir áratug slitið sig frá Sovétríkjunum og hafið markaðsbúskap og muni ganga í Evrópubandalagið árið 2004 þá er kjölfesta í stjórnmálum þar svo mikil að núverandi forsætisráðherra sem leiðir Lithauen inn í Evrópu og markaðshagkerfi Vesturlanda var líka formaður kommúnistaflokksins á meðan Lithauen var hluti af Sovétríkjunum. Hann hlýtur að vera snjall stjórnmálamaður en hann er líka snjall veiðimaður og í Trakai kastalanum hanga horn af veiðidýrum sem hann hefur fellt.

Við fórum á laugardagsmorgninum til Trakai kastala sem ævintýrakastali á eyju. Áður fyrr var vatnsborðið hærra og þá var sem kastalinn risi beint upp úr vatninu. Núna var vatnið ísilagt og snjór yfir öllu.

Á laugardagskvöldið fórum við á háskólabarinn Prio Universito og var ég þar með Beathe frá Noregi fram á nótt. Hún nemur hugmyndasögu við Oslóháskóla og vinnur að verkefni um konur og símanotkun. Í matartímum skoðaði ég markaðinn og mannlífið í miðbænum, skoðaði hvernig hinir listrænu Lithauar skreyta bílana sína um jólin með grænum jurtum og gulum ávöxtum sem minna á sól og sumar og mótórhjólin sín með jólalegu silfurhreindýrahornum og greinum. Svo var einhver listræn uppstilling af jólabögglum og litadýrð og jólaljós alls staðar. Ég keypti dáldið af dóti á markaðinum, meðal annars svona einhvers konar verkfæri held ég við línvinnslu en mér finnst ekki skipta máli til hvers þau voru notuð, mér nægir bara að vita að þau hafi einhvern tíma verið verkfæri. Þetta ætla ég að hengja upp á vegg heima hjá mér fyrir neðan abakusinn sem ég keypti í Eistlandi. Hér er ég að útskýra hvernig við tökum ekki eftir fegurð hlutanna fyrr en þeir hætta að vera nytsamir. Ég tók sem dæmi íslensku fiskiþorpin sem verða ekki falleg fyrr en fiskurinn fer.

13.12.02

Slúðursögur, sjálfsfróun og símasex
Núna er ég stödd í Lithauen, nánar tiltekið á hóteli í hinum afar fallega miðbæ Vilniusborgar. Það hefur snjóað hérna, veðrið er stillt og milt og það eru jólaljós í háum trjám sem standa meðfram götum og torgum, ég hef komið hérna áður en tek núna ennþá betur eftir því hvað þetta er falleg borg. Hótelið er mjög fallegt og skemmtilegt, ég hef risastórt herbergi á þriðju hæð og það eru á því einkasvalir sem vísa í innigarð sem er eftir miðju húsinu. Herbergið minnir svolítið á safn því það hanga gamlir nytjahlutir úr sveitum á veggjunum, einhvers konar brauðbretti og ýmir hlutir úr tré en líka gamlir málmhlutir eins og gamlar skeifur og keðjur og ístöð. Svo er allur textíl hér í herberginu úr fallegum hör, gardínurnar, lampaskermurinn og rúmteppið. Best af öllu er að í þessu hóteli sem minnir á bóndabæ er líka Internettenging og þar sem ég er með fartölvuna með mér stakk ég henni bara í samband. Það er enginn aukakostnaður að vera svona sítengd hér á hótelinu.

Ég notaði náttúrulega þessa sítengingu til að skoða íslensku bloggin. Sá að dagurinn í dag hefur verið dagur þar sem einn bloggari var í viðtali í fréttum á Stöð 2 sem átti að fjalla um bloggið hennar en snerist upp í að fjalla um símasex. Einnig að annar bloggari hafi póstað slúðursögu en skotið þar rækilega yfir markið að dómi allra sem hafa tjáð sig og fjarlægt söguna. Sá sem varð fyrir slúðrinu svarar rækilega fyrir sig í þessu bloggi.

Mér finnst hér vera tekið á mjög stóru máli og það er léttir að sjá viðbrögð af þessu tagi, það er holl lexía öllum sem vilja auka eða halda í vinsældir sínar eða blogg-orðspor að það sé ekki liðið að segja sögur til að klekkja á einstaklingum. Ég man eftir mörgum öðrum tilvikum þar sem rætnar slúðursögur eru sagðar á bloggi eða þar sem nafngreindum persónum eða þjóðfélagshópum er lýst á afar illgjarnan og rætinn hátt eða vísað í myndir af fólki í mjög persónulegum og/eða neyðarlegum kringumstæðum. Það hafa samt því miður aldrei verið svona hörð viðbrögð við slíku - sennilega vegna þess að árásin hefur ekki beinst áður að öðrum bloggara og ekki að svo skeleggum málafylgjumanni og Guðmundur Svansson er. Hér rifjast reyndar upp fyrir mér nýleg árás eins bloggara á annan bloggara og það voru eitthvað svipuð rök sem árásaraðilinn færði fram, hann taldi sig hafa skotleyfi á viðkomandi af því "hann er alltaf að dissa mig..." og eins og ég skyldi málið þá var dylgjað um að viðkomandi hefði fallið í menntaskóla og eitthvað fleira. Því var svarað hérna.
Það hefur einnig verið í sumum bloggum afar rætin og niðrandi umfjöllun um ákveðna hópa t.d. gamalt fólk, innflytjendur, feitt fólk, karlmenn, konur, fatlað fólk o.fl. Ég hef aldrei séð svona grófa umfjöllun í erlendum bloggum eins og í sumum íslenskum, kannski endurspeglar þetta sérstakt umburðarlyndi fyrir illmælgi á Íslandi en ég held ekki að sú sé skýringin. Ég held að skýringin sé frekar að erlendis myndi verða gífurlegur þrýstingur á að svona umfjöllun fengi ekki vaða uppi, ef nemendur í háskólum hefðu slíkar hatursblogg á háskólasíðum sínum þá væri þrýstingur á háskólana að loka þeim, það væri þrýstingur á alla sem tengdu í slík blogg eða auglýstu þau á einhvern hátt og síðast en ekki síst væri höfðuð dómsmál fyrir meiðyrði. Ég er svo innilega sammála Guðmundi Svanssyni um að að það vantar prófmál sem færi fyrir dómstóla, mér finnst reyndar kannski ekki vera aðalatriðið hver ynni svoleiðis mál, ég held reyndar að bloggari sem dreifir slúðursögum og meiðyrðum á Netinu tapi alltaf slíku máli, tapið er fólgið í að vera sakborningur og þurfa að fara hefðbundna réttarleið til að verja mál sitt með þeim tilkostnaði og málaflækjum sem því fylgir, það nægir ekki að segja "keis klóst" og snúa sér að næsta fórnarlambi.

Mér finnst umhugsunarefni að velta fyrir sér hvers vegna sumir bloggarar og þá ekki síst þeir sem njóta mestrar lýðhylli (veit reyndar ekki hvernig eða hvort það er hægt að mæla - kannski með eru mest áberandi, svalastir og virðast fá flestar heimsóknir og er vísað mest í ) kjósa að fara þá leið að hæðast að og rakka niður nafngreint fólk eða ákveðna þjóðfélagshópa. Ég hallast helst af því að þetta sé að hluta bundið við fyrirmyndir, bundið við að fólk sem byrjar að blogga og skoðað í kringum sig merki um hverjum gangi best - hver fær mesta athygli og umbun í mestu kastljósi fjölmiðla og það sér það þannig að það séu þeir sem eru rætnastir og white-trash-tískulegastir. Svo reynir fólk að líkja eftir þeim sem hefur náð árangri með að vera svona "töff". Mér finnst ég sjá stundum sömu minnin berast á milli bloggara, hér dettur mér sérstaklega í hug að einn bloggari hefur skrifað margar færslur um hvað fólk er viðbjóðslegt sem iðkar með viðkomandi líkamsrækt (fólk sem sækir sömu líkamsræktarstöð), viðbjóðslega vaxið eða hallærislegt eða hegðar sér viðbjóðslega í sturtu eða annars konar líkamlegri nánd og ég hef séð þessar lýsingar útþynntar eins og verið sé að herma eftir þessu á öðrum bloggum. Stundum gengur þetta svo langt að það er nafngreint fólk sem er hæðst að og kannski telja þessi bloggarar sjálfan sig upphefjast meira og dáðst meira að eigin dirfsku eftir því sem manneskjan er háttsettari sem þeir beina spjótum sínum að, ég man hér eftir bloggi um forsetann í sturtu í einni af sundlaugum borgarinnar. Þessi færsla var svo endurtekin í nýlegu fjölmiðlaviðtali við þennan bloggara og var þar að ég held eina dæmið um blogg hans sem alla jafna er mjörg hresst og skemmtilegt og alls ekki alltaf rætið. Það er því miður þannig að athyglin og áhuginn sem beinist að bloggurum er í réttu hlutfalli við hversu andstyggilegir þeir eru og hversu rætnir í garð ákveðinna persóna þeir eru. Mér finnst þessi slúðursaga sem heimfærð var upp á nafngreindan einstakling í dag vera slæm mistök hjá skrifaranum, ég alla vega vona að það hafi ekki verið meiningin með þessu að ganga fram af fólki og lifa eftir boðorðinu að illt umtal er betra en ekkert.

En ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að staldra við og setja alla vega sjálfum sér einhvers konar siðareglur um hvernig tjáningargleðin brýst fram í skrifum og frásögnum af raunverulegu fólki. Held að svona siðareglur þurfi ekki endilega að vera til niðurskrifaðar, bara einhvers konar kerfi um hvað má og hvað má ekki. Kannski væri sniðugt að skoða upplýsingar sem eru um
siðareglur á vefnum. En það er kannski erfiðast að vera sjálfum sér samkvæmur, að gera sömu lágmarkskröfur um efnistök til vina sinna eða þeirra sem manni sjálfum finnst skemmtilegir og til þeirra sem tilheyra hópum sem manni hugnast ekki.

11.12.02

Ferð til LithauenÉg er að fara til Lithauen um helgina, verð á málþingi í Vilnius háskólanum Lithauen á föstudag og laugardag. Ég verð á hóteli í miðbænum í Vilnius. Það búa um 600 þús í Vilnius og það eru 44 þús. stúdentar í háskólum í borginni. Af íbúum borgarinnar eru um 53% Litháar, 20% Rússar og 20% Pólverjar.

Ef ég hef tíma þá langar mig til að skoða gamla miðbæinn í Vilnius, skoða bæjarhverfið Uzupis sem er víst eitthvað í niðurníðslu. Mér finnst lýsingar á Uzupis eins og þessi hljóma spennandi, vonandi eru þeir ekki búnir að skúra hverfið allt of mikið:
At first glance, some parts of Vilnius's Uzupis ("Over the River") district bring to mind some comparisons with notoriously "not-so tourist friendly" American neighborhoods like NYC's South Bronx or East St. Louis. Before frantically running back home and returning with an armored car to tour the area, take another look around and you will discover that Uzupis is actually a thriving cultural center and a hip bohemian hangout. Don't be discouraged or intimidated by its run-down appearance. Walk around the neighborhood for a half-hour and look for inventive street art in courtyards and crumbling, abandoned buildings.

Einnig væri gaman að kynna sér jólahaldið í Lithauen, þar er haldin Blukas hátíð á þorláksmessu, þar sem gamall trjádrumbur er dreginn um og það táknar fortíðina, ólokna hluti og væntingar sem ekki gengu eftir. Svo er trjádrumburinn brenndur og áhyggjur seinasta árs fuðra upp með honum og það er hægt að byrja að byggja upp að nýju.

If Prague is the new Paris then where is the new Prague?
Einhvers staðar las ég að svarið væri Vilnius, því þar er ennþá mest staðarbúar og ferðamennskan hefur ekki ært alla og breytt öllu.

Ekki er ég viss um að ég fari á hið fræga KGB safn í Vilnius með neðanjarðarpyntiklefum þar sem fyrrum fangar eru leiðsögumenn. Samt hef ég mikinn áhuga á hvernig samfélög kynda undir sameiginlegar minningar.

Frank Zappa er mikið dáður í Lithauen og í Vilnius var reistur minnisvarði um hann og eins og stendur í þessari grein er skemmtileg stemming í Lithauen og um Zappastyttuna segir: "It is not, however, the first example of a propensity among Lithuanians to embrace the weird and wacky." Jón Baldvin og Ólafur Ragnar eru líka í hávegum hafðir í Lithauen og hanga myndir af þeim í þinghúsinu þar.

Flugfargjaldafrumskógur


Alveg finnst mér furðulegt hvað rukkað er fyrir flugfargjaldaþjónustu og ég veit stundum ekki fyrir hvað er verið að borga. Ég var að panta far fyrir vinkonu mína erlendis og það voru tvö flug þ.e. eitt með erlendu flugfélagi og eitt með Flugleiðum. Ætlaði að ganga þannig frá að hún tæki miðann á flugvelli erlendis. Nú var verið að hringja í mig frá Flugleiðum og segja að það kosti aukalega 8 þúsund krónur að taka flugmiðann á flugvellinum, það þurfi að borga 4 þúsund aukalega fyrir hvern miða sem er svona gefinn út.

Stundum finnur maður til þess að búa hér á svona afskekktu skeri þar sem ekki er slegist um háloftaferðirnar. Flott væri að vera gæti maður bara pantað ferðirnar mel easyJet.com Annars eru þessir netjólapakkar hjá Flugleiðum ódýrir, ég ætti kannski að gefa sjálfri mér í jólagjöf svona heimsborgarferð á kr. 22.900, ábyggilega bætandi fyrir geðheilsuna í svartasta skammdeginu.

Mögnuð atkvæðagreiðsla í útvarpsráði


Var að lesa í Morgunblaðinu í dag um atkvæðagreiðslu í útvarpsráði í gær vegna ráðningar í stöðu fréttastjóra Sjónvarps. Þar kom fram að Elín Hirst fékk 3 atkvæði og Sigríður Árnadóttir 4 atkvæði. Ég þekki ekkert til Sigríðar nema það sem rakið er í þessari grein. En það er svo innilega augljóst á þeim staðreyndum sem koma fram í greininni í Morgunblaðinu að Elín er miklu hæfari og hefur miklu meiri menntun og reynslu til að gegna þessu starfi. Einnig mælir næsti yfirmaður fyrir umrætt starf eindregið með Elínu í starfið.
Ég skil ekki ábyrgðarleysi útvarpsráðsmannanna Kristínar Halldórsdóttur, Gissurar Péturssonar, Marðar Árnasonar og Önnu K. Gunnarsdóttur sem greiddu Sigríði Árnadóttur atkvæði og mun svo sannarlega fylgjast með því hvernig þau verja þessa atkvæðagreiðslu. Mér virðist atkvæðagreiðslan vera afar flokkslínuleg atkvæðagreiðsla. Það kemur fram að Sigríður hefur afar litla reynslu í sjónvarpi, hennar reynsla liggur í útvarpi og helsta röksemd þeirra sem greiddu Sigríði atkvæði er að með því sé verið að styrkja tengslin á milli fréttastofu útvarps og fréttastofu sjónvarps.

Einhverra hluta vegna minnir þetta mál mig á annað mál sem kom upp fyrir mörgum árum, líka í útvarpsráði. Þá var verið að ráða útvarpsstjóra og valið var á milli Ingu Jónu Þórðardóttur sem var þá formaður útvarpsráðs og annars aðila sem sóttist eftir að verða útvarpsstjóri og hafði sér það til ágætis að hafa mikið hlustað á útvarp. Kannski ráðning hans hafi verið liður í því að styrkja tengslin milli útvarpsins og hlustenda? Það væri fróðlegt að rifja upp hvernig það mál var á sínum tíma, alltaf gott að læra af reynslunni.

Mér finnst mikilvægt að það sé hugað að því hvernig mannaval er á þeirri stofnun sem ákveður hvað eru fréttir og hvaða sjónarhorn á að sýna landsmönnum. Það er ekki gott að það sé einhæfur hópur sem velst þar inn, það er best og sanngjarnast að þar sé blanda af fólki með ólíkan bakgrunn og það er skrýtið ef allir þar eru með sama pólitíska stimpilinn. Það er alveg þörf að ræða hvernig ríkisfjölmiðlar standa að mannaráðningum og þá er kannski alveg eins mikilvægt að beina sjónum að því hvernig nýliðar eru ráðnir inn og hvernig fólk kemst að t.d. með þætti.

10.12.02

Supernova


Ég er að fylgjast með ráðstefnunni Supernova sem núna stendur yfir í Kísildalnum. Ráðstefnan er um dreifða framtíð, aðstandendur ráðstefnunnar segja lausnarorðið í Internetkreppunni vera "decentralization". Það er náttúrulega blogg fyrir ráðstefnuna og þar er tengt í blogg fyrirlesara sem sumir blogga af krafti um allt sem gerist.

Skil ekki hvers vegna maður ætti að þvælast á ráðstefnur ef maður tengt sig svona beint við heila Doc Searl og aðra netgúrú. Var að skoða fyrirlestrarglærurnar hans, eitthvað um
götumerki um tengingar og mynd sem sýnir hvernig afþreyingariðnaðurinn sér Netið eins og pípulagnir til að dæla inntaki eftir á meðan netnördarnir sjá Netið sem almenning - svæði til samskipta og viðskipta - svona eins konar Kolaport eða basar.

Að vera femínistiÍ tilefni jólanna þá reyni ég að tjá mig í myndum og leita í ævintýraheim bernskunnar. Textinn er úr Píkutorfunni bls. 90.

9.12.02

Vofuleg gufa í þokuheimi


Bókin Hamingudúkkur eftir Steinar Bragi er að sögn þannig að sjónarhorn lesandans er á reiki frá einu höfði til annars og inn í bækur sem söguhetjurnar lesa og þaðan inn í höfuð næsta manns, lesandinn fer aftur og aftur í gegnum sömu hlutina en aldrei með sömu söguhetju í sögu sem gerist að stórum hluta á Laugavegi 18 í bókabúð MM og Súfistanum eða í rangölum hússins. Ég hef ekki lesið þessa bók, þarf að blaða í gegnum hana á Súfistanum við tækifæri því ég hef oft verið á Súfistanum og hugsanir úr bókum hafa flogið þar í hug minn og kannski flögrað áfram... Alla vega fjallar bloggið mitt frá 7. júní síðasta sumar um merkilega reynslu á Súfistanum : Albúm, Elding og Merkilegir draumar.

Svo er gaman að því að Steinar Bragi er jafnvel gæddur meiri miðilshæfileikum en Ástþór Magnússon og segir sjálfur: "Ég skrifaði bók sem heitir Turninn haustið 2000 áður en turnarnir hrundu. Þar urðu mistök í próförk og tveir kaflar urðu númer ellefu. Þetta vissi ég en vissi það samt ekki." Mikill skaði er að ekki skyldi hafa tekist að kveikja áhuga Ástþórs á bloggi eða ritstörfum.

Áhyggjudúkkur er bók mánaðarins á bokmenntir.is og þar er hægt að lesa brot úr bókinni og skrifa álit sitt á henni. og svo er viðtalið Kannski erum við fífl við Steinar Braga á strik.is

Í viðtali Þrastar Helgasonar við Steinar Braga í Lesbók Mbl. 7. des er fjallað um bókmenntir samtímans og Hamingjudúkkur. Þar var ekki talað fallega um blogg en ekki hafa orðið eins heiftarleg viðbrögð og við Svanborgarpistlinum. Binni skrifar pistilinn Steinar Bragi í viðtali og Hilma skrifar líka um viðtalið í Lesbókinni við Steinar Braga og veltir fyrir sér samhengi rithöfunda og bloggara

Mín skýring á hvers vegna viðtalið við Steinar Braga veldur engum úlfaþyt er sú að það er svo háfleygt að það bara þýtur eins og Flugleiðaþota yfir Reykjavík framhjá öllum bloggurum. Hver getur þráttað um tilbúin sjálf sem flæða stjórnlaust út á Netið og lifa þar sjálfstæðu lífi? Ekki ég. Ég get bara pælt í hvort ég eigi líf. Ég þyrfti að gefa mér svona eitt ár í bókmenntafræði bara til að skilja titilinn HUGLÆGNISVÍMA. En upp á seinni tíma ef sú stund kemur einhvern tíma að ég hætti mér út í að tjá mig um þetta þá er bloggpistillinn svona:

Huglægnisvíma og skjótfengnar skoðanir
En á meðan þú talar um hvarf hins sterka sjálfs virðist manni sem höfundar hafi sjaldan verið jafn uppteknir af sjálfum sér. Að undanförnu hefur til dæmis verið rætt um svokallaðar bloggarabókmenntir þar sem tilbúin sjálf flæða stjórnlaust út á Netið og lifa þar sjálfstæðu lífi. Þaðan flæða þau síðan inn í bækur.
"Bloggið er misvel skrifað og mér sýnist í svipinn að það sé bara huglægnisvíma sem rennur óhindruð inn í sýndarveruleikann. Það er engin ögun í þessum skrifum. Bloggið er veita fyrir skjótfengnar skoðanir, það er allt látið vaða enda er allt jafn gilt. En þetta er auðvitað það hættulegasta sem maður gerir, að gagnrýna bloggara sem skipta þúsundum og hafa vökult auga með fjölmiðlum. Maður á sennilega von á aftöku í Netheimum.

En það fylgir kannski þessum upplausnartímum að vandvirknin er ekki upphafin, heldur eiga menn að kýla á það, segja það sem þeim finnst. Að því leyti getur bloggið verið enn einn dauði höfundarins. Bloggarar geta líka haft miklu meiri áhrif á fólk en rithöfundar. Þeir ná til jafnmargra lesenda á einum mánuði og rithöfundur alla ævi."


Svo kemur fram að Steinar Bragi er svona svartálfur með mikinn áhuga á dauðanum (það heitir vera ofboðslega "morbid"), hann fór í læknisfræði og sótti ítrekað um vinnu á líkstofu Landspítalans og fór svo í bókmenntafræði. Hmmm.... skil samt ekki hvers vegna hann er ekki í sakamálasögunum, læknisfræðikunnáttan mundi koma sér vel í nútímasakamálasögum þar sem líkskurðarsérfræðingurinn er eins mikilvægur og morðrannsakandinn. En mér finnst skemmtilegt að heyra að Steinar Bragi pælir í Jung og erkitýpum.

Svo finnst mér eftirfarandi vel orðað, eiginlega einhver tilfinning sem allir rithöfundar hljóta einhvern tímann að hafa fundið fyrir:
Tilfinning mín fyrir þokusjálfum birtist í þessari bók og lýsir sér í því að það er eins og samtíminn sé skrifaður í gegnum mann, eins og maður sé andsetinn af orðræðu annarra sama hvað maður gerir, þó að maður fjalli um nafnkunnar persónur í bók er maður samt sem áður alltaf að fjalla um sjálfan sig, maður er aldrei að fjalla um neitt áþreifanlegt utan sjálfs sín.

Að espa upp jólasveinaÉg fór á meðal fólks um helgina og svaraðu þannig kallinu " Plís, get a læf!!!!" sem barst inn í bloggheima í vikunni. Byrjaði með að ganga inn í hamarinn því á föstudaginn var hátíðarsamkoma og hanastél hjá KHÍ en það var verið að vígja nýbygginguna Hamar. Gleðin stóð til að ganga miðnættis með árlegri hangikjötsveislu. Signý og Ólöf voru hjá okkur um helgina og þær bökuðu piparkökur á laugardaginn en svo fórum við niður í miðbæ og kíkja á jólastemminguna. Á Laugaveginum mættum við tveimur jólasveinum sem virtust hafa miklu meiri áhuga á eldri konum (mér) en að gefa börnum piparkökur. Voru þeir mjög umfaðmandi og alúðlegir og spurðu spurninga eins og hvort ég væri hrifin af mönnum í einkennisbúningum. Magnús taldi að þetta hátterni jólasveinanna stafaði af því að ég minnti þá á Grýlu. Dóttirin tók þessu ekki vel og sagði við mig með nokkrum þjósti:" Geturðu aldrei verið venjuleg? Þarftu endilega að vera að espa upp jólasveinana?"

Svo fórum við niður á Lækjartorg og þar varð fyrir mér ungmennahópur sem hafði bundið eina lúna gönguskó upp í jólatré. Ég spurði hvernig jólaskreyting þetta væri og þeir svöruðu að þetta væri tákn heimilislausra. Þessi ungmenni litu reyndar öll út fyrir að vera útigangsfólk eða vera klædd eftir nýjustu rappmenningar tísku sem ég held að sé líklegra því þau höfðu frekar yfir sér fas þeirra sem hafa allt að vinna en þeirra sem hafa engu að tapa. Svo hófu tveir úr hópnum dans í kringum jólatréð og ég náttúrulega brá mér með og söng og dansaði "Göngum við í kringum einiberjarunn.." enda var málefnið göfugt að minnast svona heimilislausra. Dóttur minni líkaði þetta hátterni mitt miður vel og þegar við fórum svo í Kolaportið þá sensaði ég að það var ekki rétti tíminn til að taka upp tússið og blöðin sem ég var með í töskunni til að búa til alls konar kröfuspjöld og taka myndir af því svona í tilefni af lausagöngunni 2002.Svo ég fór bara í bókadeildina þar og keypti mér útsaumaðan klukkustreng með rósamynstri. Ég hugsa að það verði ekki mikið um fjölskylduferðir í miðbæinn á næstunni nema ég lofi að espa ekki upp jólasveina og dansa ekki á torgum.

6.12.02

"Ritstjórn með sans fyrir hvað er áhugavert fyrir almenning..."Ekki hafa bloggarar setið þegjandi undir ádrepu Svanborgar Sigmarsdóttir í greininnin Af fjasi og fjösurum á www.kreml.is þann 5. desember 2002 Greinin er hér:
"Einhver ritstjórnarmeðlimur linkaði á bloggsíðu, þannig að ég kíkti... og rak mig áfram á fleiri þekkta sem óþekkta bloggara. Hverskonar ego-tripp er þetta eiginlega?!?!? Þetta er á sama stigi og ”raunveruleikasjónvarp” – bara sorglegra. Amk, hefur reality TV einhvers konar ritstjórn sem hefur sans fyrir því hvað er áhugavert fyrir almenning og hvað ekki. Að horfa á raunveruleikasjónvarp á að lýsa einhvers konar ”gægjuhneigð”. En hvort ætli sé verra að láta undan gengdarlausum auglýsingum til að horfa á fólk gera sig að fífli – eða vera haldin það mikilli sýnihneigð að maður bara verði að auglýsa öll sín helstu axarsköft á netinu? Að ég tali nú ekki um þá bloggara sem skrifa oft á dag. Eigið þið enga vini til að tala við? Ef ekki þá er rauði krossinn að auglýsa vinalínu – notfærið ykkur það í neyð. Fáið ykkur vinnu, farið út á meðal fólks, gerið eitthvað! Þá munuð þið líklega komast að því að fólki er almennt alveg nákvæmlega sama hvaða fræga fólk þið hafið hitt, hvaða heimilistæki er bilað hjá ykkur eða hvaða teiknimyndasögur eru í uppáhaldi. Plís, get a læf!!!!"

Þessir tjáðu sig:

Árás á bloggheiminn (Stefán)
Aðförin mikla að bloggheimum (Svanson)
Hnýtt í bloggara (Potturinn)
Enn fjölgar í bloggheimum (Erna)
kreml.is (Gummijoh)
Árás á bloggheiminn (litlar bloggstelpur)
Mitt móttó...er að vera alltaf sæt og góð.. (Ása Arnfríður)
Voddafokk...og myndir af kettlingi (Herra Muzak)
Sparkað í minni máttar (Blogg Kattarins)
Jæja, nú er gjörvallur bloggheimur sár (Einkamál Sverris)
Krapp á Kreml (Jón Bentsson)
Í framhaldi af umræðum þessarar konu... (Gambrinn)
Ritstjórn með sans fyrir hvað er áhugavert fyrir almenning (Salvör)

Svanborg Sigmarsdóttir er stjórnmálafræðingur og vinnur að doktorsverkefni um mannlega virðingu og kennir við háskólann námskeið á því sviði. Hún hefur einnig haldið ýmsa fyrilestra um mannlega virðingu og mannréttindakenningar; frjálslyndiskenningar og mannréttindi. Pistill eftir Svanborgu birtist í kreml.is en það vefrit segist vera með ritstjórn skipaða frjálslyndum markaðssinnuðum jafnaðarmönnum. Það eru 12 manns í ritstjórn, þar af 2 konur (já, tók eftir kynjahlutfallinu:)

Mér finnst pistill Svanborgar vera gott dæmi um að fólk skynjar ekki það sem er í umhverfi þess ef það gefur sér ekki tíma til að hlusta og taka eftir. Svanborg ber bloggið saman við sjónvarp og það er eðlilegt þegar við mætum einhverju nýju að bera það saman við það sem við þegar þekkjum. Hún sér ego-tripp og sýniþörf úr bloggi, hún sér fólk gera sig að fífli, hún sér fólk sem á ekkert líf tala um ómerkilega hluti.

Hún ber blogg saman við sjónvarpsþætti sem henni finnst lákúrulegir og finnst bloggið vera verra af vondu því það hefur ekki "einhvers konar ritstjórn sem hefur sans fyrir því hvað er áhugavert fyrir almenning og hvað ekki".

Í mínu fyrsta bloggi í apríl 2001 sem bar yfirskriftina Álitsgjafar Íslands velti ég fyrir mér þessu fyrirbæri á Netinu, hvernig einstaklingar tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Þar segi ég um bloggin:

Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Það hefur margt breyst á þessum hartnær tveimur árum sem eru frá þessu bloggi. Ef ég hefði skrifað þennan pistil í dag þá mundi ég hafa breytt setningunni "Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla" því þetta er ekkert hlægilegt, bloggið er ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla og þá ekki síður vefmiðla eins og Kreml sem eru sniðnir eftir sömu forskrift, svona ritstýrð útvörpun á skoðunum lítils hóps yfir annan stóran hóp sem kallaðir eru lesendur eða áhorfendur. Þessi palladómur í Kreml um bloggin og nýleg umræða um hvaða greinar eru birtar og hvaða greinar fást ekki birtar í Stúdentablaðinu (já, varð að koma því að:) eru ágæt dæmi um það.

Annars bendi ég Svanborgu á safnsíðu mína um annálaskrif og býð fram aðstoð mína til að hjálpa henni að setja upp blogg. Ég vona að með því að kynnast miðlinum af eigin raun þá muni viðhorf hennar breytast.

4.12.02

StáltaugarÞað þarf stáltaugar til að lesa bloggumræðuna um jafnrétti og fullveldisdaginn og taka því af æðruleysi þó að notuð séu niðrandi og lítillækkandi orð um manns eigin málflutning, sérstaklega þarf að beita sjálfan sig hörðu að bregðast ekki við á sama hátt. Núna hefur umræðan farið út um víðan bloggvöll og er ekki bundin við svör og andsvör á athugasemdakerfi mínu. Nokkrir bloggarar kallast á af sínum blogghólum síðasta sólarhringinn um þetta málefni og á öllum þessum bloggum eru mér ekki vandaðar kveðjurnar. Bersi skrifar pistilinn jafnrétti,Guðlaugur skrifar um fullveldisdaginn og átök hjá stúdentum , Ásta Sóllilja skrifar pistilinn Jafnréttismál Stúdentaráðs enn í umræðunni og Tómas skrifar pistilinn Dýpri skilningur og pistilinn Barist við karlrembuna

Mér virðist ég eiga fáa bandamenn og skoðanasystkin meðal bloggara og það fylgir því ákveðin einmanaleikatilfinning. Líka virðist mér að ákveðnir hópar geri núna aðsúg að mér persónulega. Ég vona að þetta taki enda hvað mína persónu varðar því það eru takmörk fyrir því hvað ein manneskja getur haft mikinn slagkraft í svona baráttu. Ég hef svarað Bersa, Guðlaug og Tómasi á athugasemdum á þeirra bloggum en Ásta Sóllilja hefur ekki athugasemdakerfi svo ég svara henni hér á eftir:

Ásta Sóllilja segir mig nota hvert tækifæri til að úthúða starfsemi stúdenta. Hún segir að ég slengi fram fullyrðingum sem hún kallar ábyrgðarlausa sleggjudóma. Hún segir að ég hafi mér til fulltingis lið kvenna til að hjálpa til að úthúða Stúdentaráði fyrir jafnréttisstefnu sína. Ég myndi ekki ganga svo langt að segja að ég úthúði Stúdentaráði, man ekki annað en að allt sem ég hef sagt hafi verið andsvar byggt á viðbrögðum í birtum bréfum og athugasemdum frá framkvæmdastjóra Stúdentaráðs og ritstjóra Stúdentablaðsins.

Ásta Sóllilja upplýsir að í Stúdentaráði séu 11 konur af 20 og hún segist hafa verið í nefndinni sem undirbjó dagskrá Stúdentaráðs á fullveldisdaginn undir kjörorðinu "Frelsi og fullveldi á 21. öldinni". Ásta Sóllilja spyr : "Skyldi undirbúningsnefnd fullveldishátíðarinnar vera haldin kvenhatri og kvenfyrirlitningu?" Ef þessari spurningu er beint til mín þá myndi ég svara að svo væri ekki, þetta var athugunarleysi af nefndinni að allir 12 nafngreindu aðilar sem koma fram í dagskránni eru karlkyns og alls ekki heppilegt á sama tíma og Stúdentaráð og Stúdentablaðið sitja undir ásökunum um jafnréttisslagsíðu. Mér finnst mjög skiljanlegt að þeir sem voru í undirbúningsnefndinni og lögðu á sig mikla vinnu fyrir þessa dagskrá séu sárir þegar dagskráin er höfð svona að háði og spotti, allir sem hafa komið að undirbúningi svona viðburða vita hvílík vinna þetta getur verið. Það er skrýtið að Ásta Sóllilja sé ánægð með daginn og hvernig þetta heppnaðist, ef ég væri búin að leggja mikið á mig fyrir vandaða dagskrá þá þætti mér leiðinlegt ef mjög fáir hefðu mætt. Systir mín sagðist hafa séð þetta í sjónvarpinu og það hefðu verið að hún hélt fjórir stúdentar fyrir utan forsetann. En hún hefur kannski ekki talið rétt.

Það var ekki fallegt af mér að setja upp þessa föstudagsgetraun Meinhornsins og draga fram að það væru bara karlar að hylla hina karlmannlegu frelsishetju okkar. Eiginlega var það bara soldið meinlegt hjá mér.... Þessi færsla var bara hugsuð sem brandari og valkostir í getrauninni eru bara út í loftið, ekki byggðir á neinum heimildum heldur bara teknir úr athugasemdum á blogginu mínu t.d. er valkosturinn engin frekjulæti tekinn með vegna þess að Bjarni kallaði minn málflutning amk í tvígang frekjulæti. Mér finnst hins vegar afar skrýtið að enginn skyldi hafa tekið eftir þessari kynbundnu slagsíðu á dagskránni eða fundist þetta vera atriði sem skipti máli. Ég vil að það komi skýrt fram að ég hef aldrei gert lítið úr þeim aðilum sem komu fram í dagskránni og vil sérstaklega nefna að ég er mikill aðdáandi Helga Skúla og Guðjóns.

Ég get ekki skilið annað á grein Ástu Sóllilju en að það sé mikil samheldni og einhugur meðal þeirra sem sitja í Stúdentaráði um alla framgöngu forystumanna stúdenta í þessu máli. Hér verð ég að játa að það eru mér mikil vonbrigði ef enginn þeirra 20 sem nú sitja í Stúdentaráði og enginn þeirra sem sitja í ritnefnd Stúdentablaðsins hefur nokkuð við framgöngu stúdentaforustunnar að athuga.

Vændi


Þetta var ekki smart grein sem birtist nýlega í Fréttablaðinu um vændi. Ég hef áður tjáð mig hér um vændi, þarð var í bloggi frá 28. maí síðastliðnum undir heitinu Femínistar, klám og vændi Núna hef ég tekið þátt í vændisumræðunni á tveimur bloggum, hjá Ásu Arnfríði og hjá Hildi.Góð greinin sem Guðrún Ögmundsdóttir skrifaði í DV í vikunni og birtir líka í blogginu sínu. Guðrún hefur líka skrifað um vændi á Íslandi og verslun með manneskjur. Ég fann greinina Vændi er bannað en hvern er verið að verja? á Lágmarksríki og umræðu hjá Bjarna um vændi og dómsmálaráðherra kynnti skýrslu nefndar en sú nefnd lauk störfum í júní 2002 og skilaði skýrslu um úrbætur vegna kláms og vændis.

3.12.02

Það sýður í pottinum


Það sauð og kraumaði í pottinum í morgun og þar var tekið á stóru málunum. Þau voru hrun kommúnismans og hvers vegna ég fór á jólabasar hjá Oddfellow frekar en kætast með stúdentum á fysta des. Hrun kommúnistans afgreiðir Potturinn bara í tveimur setningum enda jafnast það ekkert við langt syndaregistur mitt en þar er nýjast að hafa ekki mætt hjá stúdentum og ekki einu sinni haft þar í frammi nein mótmæli. Potturinn skrifar langan pistil um þetta stórmerkilega mál. Potturinn býr til mikla samsæriskenningu og plott út úr þessu og það að ég skyldi vera svo athugul að taka eftir kynjahlutfallinu (hmmm...hvers vegna þarf ég að verja það að vera athugul, er það ókostur hjá mér eða er það ókostur hjá öllum? En ég er alltaf svona athugul, get ekkert að því gert frekar en þessari óstjórnlegu tjáningarþörf sem brýst út í krassi og bloggi:) á fullveldisskemmtun stúdenta og ákveða að snúa því upp í getraun og setja fram til að tékka á því hvort aðrir tæku eftir því ef það væri svoleiðis lýst upp er sett fram sem dæmi um plottið:

"Eftir að þær uppgötvuðu þótti þetta það merkilegt að þær þurftu ekki einn heldur tvo pósta á póstlistann HI-starf til að auglýsa upp þetta kynjamisrétti. Þeim þótti samt ekki ástæða til að mæta og mótmæla eða sýna sig eins og þær hvöttu aðra til heldur héldu eigi 1. des í fýlu."

Hmmm.... eitthvað finnst mér þetta skrýtið. Ég ætlaði aldrei að mæta á 1. des og ég er ekki einu sinni í háskólanum (já, veit.. fæ ekki að skrifa í Stúdentablaðið:-) og hef aldrei farið á þessa skemmtun fyrir utan að ég glæptist á þetta fysta veturinn minn í HÍ fyrir margt löngu. Svo var ég ekkert í fýlu, bara naut mín í hátíðarstemmingu undir málverkum af stórsírum og með jólasveinum á Oddfellow-basar.

Mér finnst líka full langt gengið að hnýta í mann fyrir að mæta ekki á fullveldisskemmtun stúdenta til að mótmæla, er þetta orðin svona fámenn samkoma að það þurfi að draga eldri konur af jólabösurum til að hafa eitthvað fjör þarna og fylla upp í áheyrendaskarann og ef þær mæti ekki til að vera í klappliðinu þá eigi þær sko að mæta til að mótmæla?

Ég skrifaði ekki á póstlista starfsmanna HÍ en er nokkuð sátt við að föstudagsgetraun mín hafi opnað augu fleiri fyrir þessu skrýtna mynstri sem var reyndar líka hjákátlegt einmitt á sama tíma og stúdentaforustan fór hamförum á móti opinni umræðu um málefni kvenna í háskólanum (lesist: vildu ekki grein eftir mig í Stúdentablaðið:-). Það er gaman að sjá hvað mikið er lagt upp úr í umræðunni að benda á hver kynjaskiptingin hafi verið í undirbúningsnefndinni og það hjá sömu aðilum og kannski í næstu setningu fullyrða að það sé út í hött að nota kynjakvóta... sniðugt að það þurfi að draga fram kynjaskiptinguna til að afsaka mistökin en hún skipti ekki máli við annað.

Svo finnst mér gaman að eitthvað hefur síast inn hjá Pottinum , hann notar orðfærið : ".....að auglýsa upp þetta kynjamisrétti..." Það eru hans orð að kalla þetta kynjamisrétti. Ég hefði ekki gengið svo langt, þetta var bara hallærislegt athugunarleysi. En það ber að fagna því að Potturinn er farinn að sjá kynjamisréttið í kringum sig og kannski allt í lagi þó hann sjái það í hverju skoti, það er hollt að vera næmur fyrir mannréttindum annarra hópa en maður tilheyrir sjálfur.

Það hefur aftur soðið upp úr hjá Pottinum út af þessu máli og hann skrifar pistilinn: Barist við karlrembuna þar sem hann rekur í löngu máli 1. des. dagskrána og bendir réttilega á að tala karlmanna á hátíðinni er meira í ætt við postulana en jólasveinana.

2.12.02

1. desember hátíðarhöldin mín


Ég hélt mína eigin fullveldishátíð með fjölskyldunni í gær, ég vildi gera daginn eftirminnilegan og halda upp á fullveldið þar sem sem dýpri skilningur er á íslensku samfélagi og stöðu kvenna heldur en hjá Stúdentaráði svo ég náttúrulega var ekkert að þvælast á fullveldissamkomu stúdenta. Sá smávegis frá þeirri samkomu í sjónvarpsfréttunum og mér sýnist ekki fjölmennt þar.
Hvar ég hélt upp á fullveldið?... Já, það var rétt ágiskun, það var auðvitað með Oddfellow-reglunni á Íslandi. Fór í veislukaffi og jólabasar hjá Rebekkustúkunum sem haldinn var á jarðhæðinni í Oddfellow-húsinu sem alveg í hjarta Reykjavíkurborgar, stendur á milli Alþingishússins og Ráðhússins. Það eru bara konur í Rebekkustúkunum og þegar ég sá allar konurnar þarna sem héldu basarinn prúðbúnar og svartklæddar, með fullt af alls konar oddfellowmerkjum þá var ekki laust við að mig langaði til að ganga í svona Rebekkustúku enda er ég mjög veik fyrir alls konar félagssköpum sem byggja á fornum hefðum og hafa ekki endilega borist með tímanna fljótandi straumi.

Svo fannst mér líka viðeigandi að fagna fullveldinu með því að hugsa til allra þeirra frjálsu félagasamtaka sem hafa með samstilltu átaki líknað bágstöddum og hvatt félagsmenn sína til að leggja fram vinnu og fé til samfélagsheilla. Alþjóðlega Oddfellowreglan reisti Holdsveikraspítalann í Laugarnesi og Oddfellow reglan á Íslandi styrkti uppbyggingu Líknardeildarinnar í Kópavogi þar sem móðir mín dvaldi síðustu mánuði ævi sinnar og er ég ævandi þakklát fyrir að hún skyldi vera þar en ekki á venjulegri spítaladeild sem á engan hátt er sniðin að fólki sem er að deyja.

Það er andblær liðins tíma sem svífur um í Oddfellow húsinu og þar er haldið fast í sumar gamlar hefðir sem sumar eru ekki góðar t.d. má reykja í setustofunni. Svo er ein stofan með myndum af öllum forystumönnum reglunnar frá upphafi en þeir eru kallaðir stórsírar. Ég tók myndasyrpu af dætrumum undir málverkunum af stórsírunum og á sumum myndunum þá æfðu þær sig í að vera virðulegar og "fara í Ólaf" en það er víst ákveðin tegund af handayfirlagningu til að vera virðulegur og landföðurlegur (í framtíðinni landsmóðurlegur:-) á ljósmyndum. Þær sögðu mér að táknið fyrir Ólaf forseta á táknmáli heyrnarlausra væri einmitt svona handayfirlagning.

Svo röltum við um miðbæinn og fórum í Mál og menningu og þar blaðaði ég í bókinni hans Guðjóns um Jón Sigurðsson til að halda enn frekar upp á fullveldisdaginn. Mér sýnist þetta skemmtileg bók, enda ekki von á öðru frá Guðjóni og ég ætla að lesa hana einhvern tíma. Ég er komin í bókinni þar sem Íslenski stúdentahópurinn sem bara var 25 manns í Kaupmannahöfn var hnípinn og sorgmæddur því einn þeirra hafði dáið, held ég drukknað í einhverju síkinu og þetta var foringi þeirra en hann var líka ofdrykkjumaður. Seinasta setningin sem ég las var einhvern veginn svona: "Það byrjaði ekki að bera á Jóni fyrr en Skafti var allur". Blaðaði líka í bókum um Laxness, sýnist þessi bók eftir Auði barnabarn hans vera skemmtileg.

Svo endaði líka fullveldishátíðin í jólastemmingu, Kristín skreytti piparkökurnar sem hún bakaði daginn áður með Ástu. Við erum búin að taka upp allt jóladótið og setja alls konar smáfígúrur hér og þar og bráðum fara ljósaseríurnar í gluggana. Veit ekki hvort ég eigi að einbeita mér að jólaskreytingum hérna heima eða hvort ég eigi að punta meira jólavefinn minn á jol.ismennt.is .

Annað sem ég gerði í vikunni: Þessi dagbók er orðinn svo mikill vettvangur fyrir annað að ég hef alveg gleymt að skrá hjá mér atburði úr lífi mínu. Fór í tvö barnafmæli seinasta sunnudag um leið og ég kom frá Svíþjóð, Lára var 6 ára og Hjörtur var 12 ára. Svo fór ég í jarðarför á mánudag, það var maður föðursystur minnar sem var jarðaður. Fór í viðtal hjá blaðamanni eftir vinnu á þriðjudag út af jólavefnum og það var stór hádegisverðarfundur á föstudaginn þar sem kynnt var úttekt á verkefni sem ég hef unnið í undanfarin ár. Anna og Sindri komu í heimsókn á laugardaginn með börnin Heiðar Sigurmon og Kristján. Amma Kristjáns sem er indversk er núna stödd á Íslandi og bráðum hittir Kristján ömmu sína í fyrsta skipti. Ég setti upp blogg fyrir Víðivelli vidivellir.blogspot.com og Önnu langar til að prófa að skrá frásagnir úr sveitinni. Kristín og Ásta bökuðu margar sortir af kökum á laugardaginn og svo gerðu þær pitsu í kvöldmatinn. Ég þurfti að vinna um helgina, á laugardagsmorgninum hélt ég tvo fyrirlestra um íslenska upplýsingasamfélagið og NKN námskeiðið á framhaldsnámskeiði hjá Sólveigu í KHÍ, á laugardagskvöldið fór ég í samkvæmi út á Seltjarnarnes og hitti þar nemendur mína frá því í hitteðfyrra. Við fórum svo niður í bæ og vorum á Kaffi List mestallan tímann. Þessa nótt voru Norðurljós á himni skærari en ég hef áður séð og spænsk stemming á Kaffi List enda átti vinkonan afmæli.