31.12.03

Hugleiðing um árið 2003


Árið sem Kristín Helga fermdist fór Magnús í hermennsku til Afganistan, hann var þýskri herdeild þar og líf hans frá morgni til kvölds snerist um hermennsku og heraga. Ég var á klakanum og tók þátt í stofnun Femínistafélags Íslands, gerðist ein af ráðskonum félagsins og tók að mér það sem sneri að vef og Interneti í félaginu. Það hefur verið mikil vinna hjá mér að sjá um póstlistann, fréttabréfið, vefinn feministinn.is og femínistaspjalli? en að auki hefur verið mikið starf tengt ýmsum viðburðum. Femínistafélagið var stofnað í mars og framhaldsstofnfundur var í apríl, við komum fyrst fram á 1. maí göngunni og 19. júnímáluðum við bæinn bleikan. Í lok október héldum við femínistaviku. Síðastliðið vor var brjáluð umræða ? á femínistapóstlistanum og á ýmsum vefsvæðum. Bæði voru þetta árásir á femínista og svo umræða um ýmis femínísk mál s.s. vændi og kynjaímyndir í auglýsingum. Þar sem þetta var kosningaár var tap kvenna á Íslandi í kosningum og ósýnileiki og valdalelysi kvenna í stjórnmálum og fjölmiðlum mér mjög hugleikin og tjáði ég mig um það á ýmsum vefmiðlum.

Ég var meira í fjölmiðlum (þ.e.öðrum en Netinu) þetta ár en áður, ég kom í viðtal um blogg í Morgunblaðinu í Fréttablaðinu. fór í nokkur útvarpsviðtöl t.d. í Víðsjá hjá Ægi, ég mætti í Laufskálann hja Sigríði 19. júní, í Hrafnaþing og fékk hin rómuðu vefverðlaun Gneistans.

Annars var umræðan á Netinu afar illskeytt á köflum og ég varð persónulega fyrir töluverðu aðkasti. Ég hef ekki ennþá skilið hvers vegna hófstillt og málefnaleg umræða mín og annarra femínista gat vakið svona heiftarleg viðbrögð. En heiftarleg viðbrögð eru kannski betra en þöggun, þau eru merki um árangur amk að umræðan hafi hreyft við fólki. En mér fannst óþægilegt þegar ég fann að fólk hundelti mig á Netinu og reyndi að koma höggi á mig persónulega. Það voru mörg dæmi um það á árinu og tók ég það alltaf nærri mér. Ég hugleiddi að hætta að tjá mig á Netinu eða að hætta að skrifa á íslensku um íslenskan veruleika. Eitt versta dæmið um það var að í einu tilviki var farið vandlega yfir allt sem ég hafði skrifað inn á málefnin. com til að geta fundið eitthvað á mig til að koma á mig höggi. Það tókst að því leyti að ég hafði mikinn ama af þessu og það rændi mig löngun til að starfa að ákveðnu verkefni. Eiginlega finnst mér þyngstu höggin vera sem maður fær af fólki sem rænir mann gleði, bjartsýni eða trú. Ég er ein af fáum sem tjái mig undir nafni á þeim málefnavefnum... Ég var í þessu tilviki að tjá mig um tjáningarfrelsi, var að verja tjáningarfrelsi eins og ég hef alltaf gert og ekki síst tjáningarfrelsi þeirra sem eru mér ekki sammála og sem hafa skoðanir sem ég hef viðbjóð á. Þessi tjáning mín um tjáningarfrelsi annarra varðaði krossfestingaratriðið Gaypride, fyrir mér snýst málið um samkynhneigð, trú og tjáningarfrelsi - um umburðarlyndi fyrir lífsstíl og lífsviðhorfum annarra, um rétt fólk til að tjá sig og um þá ábyrgð sem fylgir tjáningu sem er særandi fyrir aðra hópa en maður tilheyrir sjálfur. Annars birtist krossfestingarmyndin mín í Fréttablaðinu en ljósmyndir sem ég tók á árinu birtust á hinum ýmsu fjölmiðlum og tímaritum , s.s. tímaritinu Veru, Morgunblaðinu og svo margar á vefsíðu Femínistafélagsins.

Ferðir:
Innanlands: Fór í nokkrar ferðir í Skagafjörð og Borgarfjörð. Í fyrstu reisunni fór ég með frænku minni og vinkonu á ættarslóðir í Húnaþingi og Skagafirði, og reisti þar minnisvarða um óþekktu systurina,ég fór í sjötugsafmæli Kristínar á Vöglumí byrjun ágúst og brúkaup Önnu og Sindra í september.

Ég fór þrisvar erlendis á árinu, í apríl til Joensuu i Finnlandi sem er miðja Karelia svæðisins.
Fór í júní til Kaupmannahafnar með Kristínu Helgu í menningarferð m.a. í Lousiana listasafnið, Rungstedlund, Ég veiktist alvarlega og ber ennþá ör sem aldrei hverfa. Ég fór út í nóvember til Lulea í Norður Svíþjóð.

Þetta ár einkenndist af tvennu - femínisma og hermennsku, Ég á kafi í mannréttindabaráttu femínista og Magnús við friðargæslu í Afganistan. Þetta var viðburðaríkt ár en ekki hamingjusamt. Sú tilfinning sem ég hef eftir þetta ár er kannski hægt að lýsa með einkennilegu atviki sem kom fyrir um það leyti sem Íraksstríðinu lauk. Síðdegis á föstudegi var ég á leiðinni heim, akandi niður að sjó eftir Kringlumýrarbrautinni, var að velta fyrir mér að fara á friðarfund kvenna á Arnarhóli en var ekki viss um að fundurinn yrði, kannski hafði honum verið aflýst úr því stríðið væri búið. En allt í einu fékk ég blóðnasir, ég fékk blóðnasir úr báðum nösum, ekki smávegis heldur fossandi blóðnasir og ég varð hrædd og ég réð ekkert við blæðinguna - satt að segja hélt ég að mér væri að blæða út og ég ákvað að ekki heim heldur á læknamiðstöðina í Lágmúla. Þar var ég skráð inn og var flutt á sjúkrabíll upp á slysavarðstofu, man að það var starfsmaður í sjúkrabílnum að spyrja mig spurninga, hann var að fylla út einhverja skýrslu og ég skildi ekki hvernig hann ætlaðist til að ég gæti talað með munninn fullan af blóði. Eftir einhverjar klukkustundir á slysavarðstofunni þá stöðvaðist blæðingin og það var framkvæmd einhver aðgerð. Ég fór heim með einhvers konar kemísk brunasár í andliti.

24.12.03

Jólaguðspjallið og indversk mannfjöldastatistik


Gleðileg jól til allra! Ég er að komast í hátíðarskap, búið að renna yfir jólaguðspjallið og vona að ég eigi eftir að hlusta á það líka í útvarpi eða sjónvarpi aftur í kvöld. Æ... sakna svolítið bernskujólanna þegar jólin komu bara með einhverri klukknahringingu og útvarpsmessu, alltaf á sama tíma og það hefðu verið helgispjöll ef allir hefðu ekki verið komnir í spariföt, allt glansandi hreint og allir við hátíðarborð nákvæmlega þegar útvarpið hringdi inn jólin. Breytti aðeins nethegðun minni í gær og dag í tilefni hátíðarinnar, hef ekkert verið að fletta upp á helförinni og stríði og raðmorðingjum og lýsingum á glæpum þeirra heldur verið mest að grúska í trúarlegum fróðleik á Netinu. Ekki bara kristninni trú. Reyndar hef ég heillast sérstaklega mikið af hindúasið, aðallega út af helgimyndunum held ég. Jú, kannski líka út af því að ég hef verið að pæla í mismunandi guðshugmyndum - eingyðistrú og svo trú á marga guði. Mér finnst þessi guðshugmynd á einn alvaldan guð sem hefur alla þræði í hendi sér og eigi að ráða öllu því hann einn viti hvað er best fyrir okkur - vera álíka gáfuleg eins og að trúa á miðstýrt ráðstjórnarríki. En ég afvegaleiddist þegar ég var að skoða alla guði Hindúa og fór að skoða mannfjöldatölur frá ýmsum héruðum í Indlandi.

Ég hef alltaf verið svo veik fyrir mannfjöldastatistik og tilburðum ríkisvaldsins til að safna upplýsingum um þegnana og það er líka svo jólaguðspjallslegt... byrjar ekki sjálft jólaguðspjallið á þessu "....En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina...." Jósep og María voru einmitt í svona skráningarferð þegar Jesú fæddist. En mannfjöldatölurnar frá Indlandi eru skrýtnar, þær sýna að það vantar meira en 20 milljón konur. Sumar voru deyddar í móðurkviði, sumar seinna.

19.12.03

Maður kemst bara í jólastuð með að sjá allan þann varning sem fólk býður fram á netinu. Skyldu þessir bolir verða vinsælir í ár svona er framhliðin og svona bakhliðin

18.12.03

Bylgjan fjallar um ásakanir mínar um ritstuld


Eftir að ég setti upp vefsíðu í gær þar sem ég rakti hvernig vefsetrið www.jol.is stundar blygðunarlausan ritstuld þá hringdi Júlíus á Dalvík í mig, hann sér um Jólavef Júlla og hann sagði farir sínar ekki sléttar varðandi www.jol.is. Júlíus sagðist í fyrra hafa orðið þess áskynja að gríðarlega mikið efni af hans jólavef, m.a. efni sem hann hafði samið eða frásagnir annarra sem hann hafði fengið leyfi til að setja á Jólavef Júlla - allt þetta efni amk 25 sögur hafði verið afritað og sett upp á www.jol.is og það án þess að geta hvaðað það er tekið og huga að höfundarrétt. Einnig virðist stór hluti af efninu á www.jol.is hafa verið afritað af Jólavef Ríkisútvarpsins. Júlíus sagðist hafa margoft gert athugasemdir við meðferð hjá www.jol.is á efninu og átt í miklu stappi við þá aðila. Þetta er ótrúlega svívirðileg framkoma, aðilar sem standa að þessum vef fara eins og engisprettufaraldur yfir vefsvæðin og éta allt í kópí-paste æði og þetta virðist vera gert í auðgunartilgangi, þarna er hugverkum annarra stolið í þeim tilgangi að lokka fólk inn á vefsvæði sem selur ýmis konar jólaglingur. Núna hefur hluti af efninu sem ég benti á að þeir hefðu afritað frá mér. En skömm þeirra verður meiri og meiri þvi það seinasta er að ljúga því upp að það hafi verið haft samband við mig í síma í fyrra og fengið leyfi fyrir þessari birtingu.

Það hringdi í mig útvarpsmaður frá Bylgjunni áðan, Hann var búinn að tala við Jón Gunnar hjá www.jol.is og vildi núna tala við mig. Mér skilst hann ætli að tala um þetta í hádegisfréttum á Bylgjunni í dag. (hægt að hlusta í beinni á www.bylgjan.is).

Hann hafði eftir Jóni Gunnari hjá www.jol.is að Jón Gunnar hefði sagt að hann hefði hringt í mig fyrir jólin í fyrra og fengið leyfi til að birta þetta. Það er í besta falli misminni hjá þessum Jóni Gunnari en í versta falli svívirðileg lygi og yfirklór. Ég myndi muna það ágætlega ef hann hefði haft samband við mig og ég hefði ALDREI, ALDREI gefið leyfi fyrir þessari meðferð á mínu efni.

En það fór eins og svo oft þegar maður vekur athygli á einhverju hróplega röngu - maður er sjálfur á einhvern undraverðan hátt gerður að sakborningi. Stór hluti af þessu símtali snerist um hvort ég væri ekki að brjóta höfundarréttarlög með að hafa sett ljóðlínur eftir Jón úr Vör inn á bloggsíðu mína í gær.

Ég skrifaði pistil um Patreksfjörð og ljóðabókina Þorpið eftir Jón úr Vör sem einmitt er frá Patreksfirði. Ég var spurð að því hvort ég væri ekki að brjóta höfundarréttarlög með að fara með þessar ljóðlínur. Til að taka af allan vafa þá hafði ég samband áðan við Bryndísi Kristjánsdóttur ekkju Jóns úr Vör og fékk leyfi hjá henni til að birta þetta á bloggsíðu minni. En mér sýnist að núna sé líklegt að ég verði sjálf hundelt út af höfundarréttarmálum. Það er örugglega hægt að finna dæmi um að ég hafi sjálf brotið höfundarrétt eða vísað rangt í heimildir en ég held því fram að ég reyni eins og ég get að vanda það sem ég set á Netið og virða hugverk annarra. Það gera ekki aðstandendur vefsins www.jol.is

17.12.03

Ritstuldur á www.jol.isÞeir ættu að skammast sín þeir sem eru með vefsetrið jol.is. Þeir hafa stolið fullt af efni af jólavefnum mínum, þar á meðal nokkrum köflum sem eru algjörlega frumsamdir af mér og þar sem fram kemur efni sem enginn hefur safnað saman annar en ég. Þeir svara bara með skætingi ef haft er samband við þá og þeim bent á höfundarréttarbrotin. Ég veit ekki hvað á að gera í svona málum, ég hafði samband við Hagþenki, félag fræðirita og kennslugagnahöfunda en sá sem svaraði mér í síma gerði ekki ráð fyrir að félagið kæmi að öðru en að senda bréf og biðja viðkomandi að taka út efnið.
Ég hef sett upp vefsíðu um málavöxtu.

En hér eru almennar hugleiðingar um höfundarrétt í framhaldi af þessu:

Það virðast margir halda að þeir geti farið ránshendi um allt efni sem er á vef og gert að sínu og notað í sínum verkefnum. Ég hef sett afar mikið af frumsömdu efni á vefsíður undanfarin ár og það gleður mig auðvitað að fólk noti það efni og þá vinnu og þær hugmyndir sem þar birtast og vitni í það. Það gleður mig hins vegar mismikið þegar fólk tekur efni sem ég hef lagt mikla vinnu í og gerir að hluta af sínum hugverkum án þess að geta höfunda eða þeirra upphafshugmynda sem verk þeirra eru sprottið úr. Í sumum tilvikum er þetta frekar lítilfjörlegt, samantektir eða hugmyndir frá mér eru notaðar af öðrum sem hafa það göfuga markmið að fræða aðra og er þá jafnan gleði mín yfir að fólk vilji nota mitt efni og mínar hugmyndir miklu yfirsterkari pirringi yfir að upphaflegt verk mitt sé gert ósýnilegt.

Ég vil nefna tvö nýleg dæmi þar sem mér finnst farið langt yfir strikið. Fyrra dæmið er að ég fór nýlega á alþjóðlega ráðstefnu og hafði ég áður verið beðin um myndir til að nota í einhvers konar inngangs powerpoint kynningu fyrir ráðstefnuna. Sem ég gerði fúslega. En þegar ég skráði mig á ráðstefnuna þá fékk ég og allir sem voru á ráðstefnunni vandaðan litprentaðan ráðstefnubækling og stórt plakat. Forsíða og baksíða bæklingsins og allar myndir á plakatinu voru fjölmargar ljósmyndir sem ég hef tekið, unnið og sett á vef. Ég var aldrei beðin um leyfi fyrir þessari myndnotkun og nafn míns var ekki getið. Hins vegar var getið um hver hefði hannað bæklinginn. Einnig sá ég heila opnu í háskólatímariti þar sem þessi ráðstefna var kynnt og voru þar einnig notaðar nokkrar af mínum myndum. Allar þessar myndir virðast bara hafa verið teknar beint af vefsvæðum mínum. Ég segi þessa sögu hérna vegna þess að ég veit að allir sem unnu að þessari ráðstefnu koma úr háskólaumhverfi þar sem gífurleg áhersla er lögð á vandaða notkun heimilda og siðfræði. Það virðist hins vegar alls ekki vera skilningur á hugverkum annarra ef þau eru efni á vef eða á öðru formi en texti í bók.

Annað nærtækt dæmi er grófur ritstuldur sem núna er á mínu efni á vefsetrinu www.jol.is. Í stuttu máli er það þannig að söluvefurinn www.jol.is tók marga kafla af efni af jólavefnum mínum http://jol.ismennt.is og birtir í algjöru óleyfi og án þess að geta höfundar eða uppruna efnisins. Þetta er brot á mörgum ákvæðum í höfundarréttarlögum og algjört siðleysi.Sjá nánar á vefsíðu um málið


Aðstandendum vefsins www.jol.is var bent á þetta mál þannig að þeir geta ekki borið fyrir sig að þekkja ekki lög og reglur eða hafa gert þetta í athugunarleysi. Þeir svara ábendingum af fullkomnum hroka og hafa ekki fjarlægt efnið. Hér er tilvitnun í svarbréf frá þeim eftir að þeim var bent á að þeir afrituðu efni í heimildarleysi:

"Mikið af því efni sem er á jól.is er sótt á aðra vefi og ef það hefur verið efni merkt höfundum þá er þeirra getið. Ef Salvör væri höfundur laufabrauðsins er sjálfsagt að geta hennar þar, og það sama um þann sem er höfundur að grjónagrautnum."

Það er ljóst að í nánustu framtíð þarf einhverjar breytingar á höfundarréttarlögum og einhverjar skýrar reglur um hvernig nota megi hugverk annarra, ekki síst hugverk sem birtast á formi sem er ekki hefð fyrir (t.d. efni á vef). Það íslenska fræðsluefni sem nú er á vef er sett þar að mestu leyti í hugsjónastarfi einstakra manna sem vilja að aðrir njóti efnis sem þeir hafa lagt vinnu í að taka saman eða koma á vefform. Internetið gegnir sama hlutverki varðandi alþýðufræðslu hjá okkur eins og almenningsbókasöfnin. Það er mikilvægt að stuðla að því að sem mest efni komi á vef og að þar komi líka efni sem aðrir mega nota áfram og jafnvel breyta. En það táknar ekki það sama og ritstuldur eða að nöfn þeirra sem hafa þróað upphaflegu einingar verksins séu þurrkaðar vísvitandi út.

Það þarf einhvers konar "open source" hugsun í framsetningu á fræðsluefni á vef og reyndar almennt um upplýsingatækni í skólastarfi það þarf einhvers konar kerfi til að deila hugverkum, svona eins og http://creativecommons.org

15.12.03

ÞorpiðÞað eru meira en fimmtíu ár síðan ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör kom út. Þorpið er Patreksfjörður og ljóðin eru um fátækt fólk í sjávarþorpi snemma á síðustu öld. Jón lýsir fólkinu í þorpinu og lífi þess, mörg ljóðin eru eins og minningabrot. Hann yrkir um systkini sín og föður sinn:

Faðir minn hefur setið í fimmtíu ár
við skóaraborðið sitt og sólað fyrir þorpið,

frá þeirri tíð er bæði hans börn og annarra gengu á
roðskóm, sem brunnu í sundur í sjávarseltunni,
og fram á þennan dag.

Og hendur föður míns urðu svo svartar og harðar,
að hann varð að hafa þær í vösunum,
þegar hann fór til kirkju með konu sína og barnaskara.

Hann þekkir alla skó þorpsins
og veit hvernig það treður.


Ég held að Jón segi í einhverju ljóðinu að enginn geti flúið sinn fæðingarhrepp og hann segir frá móður sinni sem fylgir honum áleiðis út í heim og þorpinu sem býr alltaf innra með manni:

Enginn slítur þau bönd,
sem hann er bundinn átthögum sínum.

Móðir þín

fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í

heiminn

en þorpið fer með þér alla leið.


Það er sennilega enginn skóari á Patreksfirði núna og fólk flytur núna úr þorpinu af öðrum orsökum en fólkið sem flosnaði upp í ljóðum Jóns og fátæktin er öðruvísi. Kannski er ekki lengur efnahagsleg fátækt, frekar fátækt sem er fólgin aðstöðumuni... að vera afskekkt þorp í byggðalagi sem er að fara í eyði... að hafa ekki von um framtíð...

Stöku sinnum berast fréttir frá Patreksfirði. Oft eru það ekki góðar fréttir. Núna síðast voru það fréttir af grun um kynferðisafbrot gagnvart börnum og birti DV ítarlega umfjöllun og mynd af hinum grunaða og frásögn að því hvernig staðið var að handtökunni, sjá umræður á press.is. Ég veit ekki hvort myndbirting skiptir svo miklu máli, ég held að allir Patreksfirðingar hafi vitað strax hver sakborningur var og líklegt að frétt um hver maðurinn væri og fleiri upplýsingar hafi fljótlega verið á ýmsum vefsíðum. Kannski er bara betra að bakgrunnsupplýsingar komi fram í opinberum fjölmiðli, það er auðveldara að leiðrétta þar rangar upplýsingar heldur en ef rógur og slúður færi eftir óformlegri leiðum. Fréttaflutningurinn í DV sló mig samt. Ekki orð blaðsins sem mér fannst ekki vega af æru þess sem er núna handtekinn, heldur fannst mér einstaklega ómanneskjulega og níðingslega staðið að handtökunni og mér fannst agalegt þegar vitnað var í bæjarstjórann í þorpinu sem talaði mest um áfallahjálp sem börnin í skólanum þyrftu að fá og um hvað það væri mikið áfall að þorpið væri í umræðunni út af svona atburði.... Ég skil þetta ekki, var aðaláfallið fjölmiðlaumfjöllunin? Varð glæpurinn til þegar talað var um hann í fjölmiðlum?

Ég held að við því verði ekki spornað að fjölmiðlar komi með svo nærgöngula umfjöllun og DV. Það er eðli nútímans og það er hér frjáls fjölmiðlun og það verður varla sagt að löggæsluyfirvöld á Patreksfirði séu að halda málinu leyndu, þeir handtóku manninn í þrítugsafmæli eiginkonu sinnar og það kemur fram í fréttum að múgur og margmenni úr rannsóknarlögreglunni hafi verið að störfum á Patreksfirði til að upplýsa málið. Vonandi gerist það sem fyrst að réttað verður í þessu máli og þá fyrst verður einhver dæmdur sekur eða saklaus.

Ég held að það sé miklu nær að beina orkunni að því að upplýsa fólk um að ákæra er ekki jafnt og sök og að maður sem er ákærður um eitthvað er ekki endilega sekur, við höfum dómara og málaflutningsmenn til að finna út úr því. Og það allra mikilvægasta er að beina fólki að því að velta sér ekki upp úr ógæfu annarra og niðurlægingu - í gær var Saddam handtekinn og ég hef sá á ótal breiðbandsstöðvum sömu niðurlægjandi senuna af handtöku hans - lúsaleit og svokallaða læknisskoðun. Samt er þetta brot á alþjóðasamþykktum um meðferð fanga, þeir eiga ekki að vera til sýnis á niðurlægjandi hátt. Ég heyrði líka marga ágæta menn íslenska tala af lítilsvirðingu um manninn sem hefur verið handtekinn, ég heyrði forsætisráðherra tala um kallinn í holunni, ég heyrði Jón Orm tala og ég las blogg Hr. Muzak um málið:"..... Sitjandi á botni þriggja metra djúprar holu, skítugur og skeggjaður, auðmjúkur og aumingjalegur með 750.000 dollara í ferðatösku... Hversu lágt leggjast menn? Hversu aumingjalega er hægt að enda feril sinn sem harðstjóri? Hann gat ekki einu sinni sýnt þann dug að skjóta sig í hausinn..."

Þarna er verið að tala um beygðan mann sem hefur þolað mikið mótlæti undanfarið, synir hans hafa verið drepnir og hann hefur ennþá ekki verið dæmdur. Ég held ekki að Saddam sé góður maður og hann lét fremja voðaverk í stjórnartíð sinni en ég held að við séum ekki á réttri braut ef við látum blindast af hefndarþorsta og múgæsingu. Það var vestrænum fjölmiðlum til skammar hvernig fréttaflutningur var af handtöku Saddams og það var til skammar þessi líksýning af sonum hans á sínum tíma. Herra Muzak skrifar nokkrum dögum áður í bloggið sitt undir yfirskriftinni Verðug áminning þar sem hann vitnað í óhappasöguna hans Togga. Sú frásögn lætur engan ósnortinn og látum frásögn Togga verða verðuga áminningu - ekki bara um eitthvað sem gerðist í fortíðinni - heldur um að réttlát og manneskjuleg umfjöllun á líka að vera um allt fólk sem er handsamað fyrir glæpi. Jafnvel þó okkur finnist þeir glæpir viðurstyggilegir og við teljum að viðkomandi sé hættulegur. Fólk telst líka saklaust þangað til það hefur verið dæmt af dómstólum. En fólk sem hefur verið dæmt fyrir glæpi og afplánað refsingu sína á heldur ekki að sæta eilífri útskúfun. Ég ætla ekki að verja umfjöllun DV en að sumu leyti þá finnst mér þessi nærgöngula umfjöllun varpa betra ljósi á málin og að stundum vera manneskjulegri. Mér fannst átakanleg örstutt frásögn í DV af vitorðsmanni í vopnuðu ráni í Bónus, ungum pilti sem reyndi að fyrirfara sér eftir ránið. Mér fannst maður átta sig betur á hvernig sá sem fremur glæp eða er ásakaður um glæp er ekki bara einhver ófreskja heldur líka venjulegur maður í venjulegri fjölskyldu og það er ekki bara sá sem fremur glæpinn sem líður.

12.12.03

Grýluannáll 2003


Er búin að uppfæra jólavefinn minn fyrir árið 2003. Samdi líka Grýluannál ársins, kannski bæti ég einhverju við ef ég finn meira efni eða hef tíma. Í dag er líka árlegur Grýludagur og ég er á leiðinni í jólahangikjöt.

10.12.03

Tæki til að afrita heiminn


Var að róta í draslinu heima hjá mér í dag. Er búin að gefast upp við að kalla slíka iðju tiltekt... en þetta alla vega byrjaði með þannig ásetningi. Eins og venjulega fann ég fullt af áhugaverðu dóti sem ég fór að spá í .... val alveg búin að gleyma sumum af þessum vélum og tækjum sem ég hef fengið mér og nota aldrei. Reyndi aðeins aftur við þetta digital hljóðupptökutæki sem ég hef aldrei fengið til að virka. Mundi svo eftir að ég á tvo skanna sem ég hef aldrei notað... Þetta er undarlegt... er þetta ekki einhvers konar árátta?? ... að vera alltaf að reyna að afrita heiminn og sanka að sér tækjum til þess. Trúa á tæknina og halda að hún muni virka... en hún virkar bara ekki...

Saumavél


Á enga. En þetta hefur gerst í tæknimálum undanfarið. Ég fór fyrir nokkrum dögum á örnámskeið í notkun prentara-ljósritunarvélar sem er komin í Kennó, svakasniðug græja, prentar bæklinga út beint úr tölvu, prentar báðum megin og heftir líka. Uppgötvaði að ég hef ekki dreift neinu efni á pappír í kennslunni þetta misseri og prenta sjálf voða lítið út. Er búin að vera að föndra og gera tilraunir með alls konar bæklinga síðan á námskeiðinu. Stefni á kombakk í pappír á næsta ári.

Keypti mér nýjan GSM síma í fyrradag, féll fyrir vodafone jólatilboðinu, þessi nýji er með vasaljósi, útvarpi, myndavél og litaskjá og svo fylgdi með eitthvað föndurkitt til að breyta um útlit. Alls konar nýjir fídusar. Þetta er GSM sími númer þrjú í minni eigu.

En mig langar í saumavél. Mér finnst saumavélaspor og útsaumsspor flott - sérstaklega ef það er eins og einhver slóð eða leið og er ekki beint.... Mig langar að prófa að sauma í pappír... sauma bækur...

3.12.03

Ég og hin hundrað skáldin


Það er dáldið góð tilfinning að eiga sitt ritverk í jólabókaflóðinu. Ég er þegar búin að fara í tvö útgáfuteiti út af jólabókum af því ég þekki höfundana vel og það voru sko engin smáverk þar - ég fór til Emblu og Ingós höfunda Blóðregns sem er teiknimyndasaga byggð á Njálu og ég fór líka í boð daginn sem fyrsta bók bróður míns um skáldjöfurinn mikla kom út. Hvort tveggja er þetta byrjanir á miklum sagnaflokkum - nýr kveðandi og ný sjónarhorn um það íslenskast af öllu - um Njálu og Nóbelskáldið. Óska þessum höfundum til hamingju með ritverkin og megi hróður þeirra vaxa með hverju riti!

Verst að ég missti af mínu eigin útgáfuteiti. Hmmm.... kannski var ég ekki boðin?? En ég sé mér til mikillar gleði að búið er að gefa út ljóðabókina Hundrað og 1 ljóð og það var haldið útgáfusamkvæmi 27. nóvember. Ég er ansi stolt að eiga eitt ljóð í þeirri bók og hér eftir fer ég fram á að fólk tali um mig sem Skáldið. Það hefur aldrei verið sett samasem merki milli magns og gæða í ljóðagerð og maður getur alveg verið skáld þó eftir mann hafi bara birst á prenti eitt ljóð.

Svo er þetta eina prentaða ljóð mitt líka galdraljóð. Alla vega fyrir mig. Það breytir um merkingu með aldrinum... eða kannski var merkingin alltaf þarna... kannski var einhver fyrirboði í ljóðinu. En þetta ljóð er nokkurra ára gamalt, það var fyrsta ljóðið sem ég skilaði inn í fyrsta tímanum á ritlistarnámskeiði hjá Nirði P. Njarðvík. Ég man að hann var ósáttur við orðalagið "tifaði á strengjasteypunni" en ég hef ekki fengið mig til að taka það út. Því ef það orðalag er ekki þá skynja ég ekki tímasprengjuna í ljóðinu. Það er mikilvægt... ég sá alltaf fyrir mér tikkandi tímasprengju í þessu ljóði. Þetta ljóð er með alvöru fyrirmynd. Það er á yfirborðinu um strák sem ég frétti af upp í Flétturima sem kveikti í öllu sem hann náði í. Það er líka um Rimahverfið sem á þeim tíma var kallað Rimlahverfið og stöðvaðist snögglega í byggingu þegar góðærið stöðvaðist og hálfbyggðar blokkirnar stóðu auðar árum saman og byrjuðu að líktust rústum en höfðu samt aldrei verið hýbýli mannanna. Einu blokkirnar sem voru kláraðar á tímabili voru félagslegt húsnæði og þeir sem bjuggu þarna milli nýbyggingarrústanna voru mestmegnis fátækt fólk sem bjó þarna af neyð af því það gat ekki fengið húsnæði annars staðar.

Það er í ljóðinu vísun í ljóð Davíðs Stefánssonar um konuna sem kyndi ofninn hans.
Ég birti þetta ljóð aftur 1. maí. Þá breyttist það í baráttuljóð og ljóð um kvenfrelsi.