30.9.04

"Þetta er alls ekki óframkvæmanleg réttarvarsla sem við stöndum í.“
.... sagði Jón H.B.Snorrason yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en hún mun hafa staðið fyrir rassíunni sem var í vikunni. Hann sagði líka "Hvar [rannsóknin] endar er auðvitað ennþá óljóst. Þessi samskipti eru rekjanleg og verða rakin og sönnunargagna aflað með þeim hætti."

Jón hefur á röngu að standa og sagan mun sýna það. Það vinnst ekkert með svona aðferðum nema að búa hérna til lögregluríki. Þeir sem vilja miðla efni munu finna nýjar leiðir.

Ég var að lesa frétt á mbl.is "Hald lagt á tölvur og gögn í tólf húsleitum"
Þar stendur um upphaf lögreglurassíunnar: "Upphaf málsins er kærur frá umboðsmönnum rétthafa tónlistar, kvikmynda og tölvuforrita sem og Samtökum myndbandaleigna sem beint var til embættis efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra." Þá vitum við það. Það var ekki ráðist í þessa rassíu gegn unglingunum vegna þess að löggæsluyfirvöld höfðu áhyggjur af velferð þeirra - heldur vegna hagsmuna rétthafa. Það muna kannski einhverjir eftir því að fyrir nokkrum árum gegnu opinberir aðilar erinda Microsoft og tóku upp einhvers konar hagsmunagæslu fyrir það ágæta fyrirtæki - það voru víða sett upp einhvers konar njósnaforrit í tölvur t.d. í skólum. Það hefur ekki verið gerð úttekt á því hvaða áhrif það hafði en ég held að það hafi ekki aukið viðskiptavild Microsoft og kannski er þetta ein af ástæðum þess að margir reyna að sniðganga það fyrirtæki - og nota helst bara ókeypis, open source hugbúnað. Kannski verður viðlíka þróun á tónlistarefni í framtíðinni... en ég held að fólk verði að búa sig undir að viðskiptamódelin bak við suma starfsemi er hrunin eða hrynja á næstu árum. Ég held að svo sé um tónlistardreifingu og ýmis konar þekkingu t.d. sem er miðluð í gegnum bækur. ´

Það er ekki víst að það komi fram eitthvað annað sams konar módel. Kannski verður tónlist og þekking verðlaus í framtíðinni.
Lögreglumál Deilis

Mér finnst þessi rassía hjá lögreglunni vera afar furðuleg. Ég er reyndar ekki búin að lesa allt um málið en sé að það er blússandi umræða á korkinum hjá Deili. En ég las pistil um þetta í DV og snöggreiddist. Þar var fyrirsögnin "Sjóræningar flýja netið eftir áhlaup lögreglu". Það var talað um Ásgarð og notendur þar eins og hættulega hryðjuverkamenn sem lögregla hefði gert vandlega undirbúið áhlaup á, löggan hefði skráð sig inn og farið að shara dóti og svo skráð hjá sér IP tölurnar sem voru þarna og fengið heimild til að rekja hverjir væru bak við IP tölurnar.


Var lögreglan virkilega að eltast við unglinganna á Ásgarði? Mér vitanlega eru það aðallega 12 til 14 ára krakkar og er dóttir mín og vinir hennar meðal þeirra. Ég tók eftir því fyrir einhverjum mánuðum að hún hafði hlaðið inn á tölvuna einhverju deiliforriti og fyllt stóran hluta af harða disknum með einhverju óspennandi rapptónlistardóti. Ég ætlaði að henda þessu með það sama en lét tilleiðast undan þrábeiðni hennar að láta þetta vera, hún sagði "þú veist ekki hvað það hefur tekið mig langan tíma að komast upp í gígabætið" sem mér skilst að hafi verið lágmarkið sem deilt var á Ásgarði. En þýðir þetta athæfi unglinganna að við séum komin á skrá hjá lögreglu sem grunsamlega IP tala og hugsanlegir glæpamenn?

Ég hef ekkert frekar við það að athuga að unglingar æfi sig í að deili efni og mynda sameiginleg vinnusvæði á Netinu heldur en t.d. dóttir mín hefði fengið geisladisk lánaðan hjá vinkonu sinni og afritað einhver lög á honum. En ég skoðaði sérstaklega Ásgarð til að fullvissa mig um að þetta væri ekki einhver klámdreifingarmiðstöð eða eitthvað sem ýtti undir ólöglega starfsemi og ég sá ekki annað en þar væri allt með felldu - þetta virtist vera öruggt umhverfi og það virtust vera sett skilyrði um hverju væri dreift og það voru póstaðar ábendingar um að virða höfundarrétt og dreifa ekki klámefni - reyndar sýndist mér nokkuð skorta á að krakkarnir þarna væru mjög meðvituð um lög og rétt - sem kannski er ekki nema von því þarna eru ekki sprenglærðir lögfræðingar heldur unglingar og þau tala og hugsa eins og unglingar. Mér sýndist mest vera þarna skipst á tónlist sem höfðar til unglinga. Mér finnst svona miðstöðvar eins og Ásgarður vera miklu betri en t.d. Kasaa.

Ég er að spá í að skrifa til dómsmálaráðuneytis og biðja um skýringar og hvort þetta sé virkilega satt sem stendur í DV greininni. Varðar þetta ekki umboðsmann barna eða barnavernd ef lögregla og höfundarétthafar leggja svona til atlögu við börn og unglinga?

Hér eru nokkrir molar úr umræðum á Deiliskorknum - notendur deilis virðast telja að rassían sé að undirlagi Skífunnar og það kemur fram að löggan er að leita að klámi og einhver notandi hefur falið gróft klámefni með sama heiti (shrek2.avi) og vinsælt kvikmyndaefni.

Úr umræðunum:

"Úff maður! Ég er með fasta ip tölu heima hjá pabba mínum og ég var hálfnaður að downloada Shrek2.avi fyrir litla bróður minn seinast þegar ég var þar! Vá maður! og svo var viss vinur minn sem að er btw. 12 ára opp á server hjá ykkur gegnum vin sinn. Úff maður hann er í fkn djúpum skít! En megi Skífan bara rotna! Nógu andskoti mikið græðir hún á okkur! Ég hef ekki borgað fyrir tónlist í 2 ár og er ekkert að fara að gera það á næstunni! "

"Einn á ircinu er að segjast hafa veirð tekinn í yfirheyrslu.. Hann sagði það vera útaf klámi í share hjá sér. "
"Datoffy þá gæti hann verið í vondum málum "
"Ójá I know.. Hann er í 7. bekk!En er eitthvað til í því að maður hafi fengið 120 milljóna króna sekt?"

"Okay! Þetta er búið að vera að berast á msn og ircinu og öllu bara.. En hvað.. haldiði í alvörunni að þeir taki 12 ára krakka? "

Ég reyndar vona að það sem löggan var fyrst og fremst að eltast við hafi verið klámdreifing og ólögleg sala á höfundarréttarvörðu efni. Mér finnst ferlegt ef börn og unglingar hafa getað nálgast klámefni á þessum miðlurum eða fólk verið ginnt til að hlaða niður efni sem það hélt að væri allt annað en var svo klám.

26.9.04

Týnd

Ólöf Dís er týnd. Hún er fjórtán ára. Hún átti að gista hjá mér í nótt af því hún fór á Scooter tónleikana með dóttur minni og við búum rétt hjá Laugardalshöllinni. Svo hringdi hún korter yfir tólf og sagðist fá far til ömmu sinnar í Grafarvogi, hún myndi gista þar. Ég sagðist henni að hringja til mín þegar hún væri komin til ömmu sinnar og þá myndi ég hringja í símanúmerið hjá ömmu hennar.

Ólöf hringdi ekki. Ég hringdi í ömmu hennar og hún var ekki komin þangað um tvöleytið í nótt. Ég hringdi í lögregluna og var sagt að koma niður á stöð ef hún skilaði sér ekki snemma í fyrramálið. Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem Ólöf Dís hverfur á þennan hátt.

Ég get ekki sofið og ég veit að amma hennar á áttræðisaldri getur ekki heldur sofið. Ég vil ekki hringja í mömmu hennar fyrr en í fyrramálið því þá mun hún verða andvaka líka og það er ekkert sem hún getur gert. Ég er að leita að mynd af Ólöfu Dís en finn ekki neina nýlega, bara mynd sem var tekin fyrir ári síðan.

23.9.04

Kínverski eldmúrinn

Kínverski eldmúrinn er ritskoðun nútímans. Kínversk stjórnvöld hleypa ekki því sem kemur frá blogger og typepad (sem eru ein vinsælustu aðsetur bloggara) inn í landið. Reyndar virðast stjórnvöld í Kína ekki vera búin að fatta ennþá að margir lesa blogg gegnum RSS strauma og hægt er að fylgjast með bloggum í Kína gegnum Bloglines. Þetta er eitt nýtt notkunarsvið á RSS veitna á vefnum - að komast fram hjá ritskoðun.

Hér segir bloggarinn Joi Ito frá því þegar hann var í Kína núna í september og fékk ekki upplýsingar í fréttalesarann sinn: The Chinese Firewall. Það er gaman að lesa svör lesenda hans, það koma ýmsar ráðleggingar m.a. um að nota Switchproxy og Stayinvisible og svo kemur fram að í Víetnam og fleiri löndum eru sams konar proxy-eldmúrar. Það miður vekur litla athygli á Vesturlöndum að fólk í mörgum Asíulöndum býr við ritskoðun á Netinu, persónunjósnir á Netinu, heftingu á tjáningarfrelsi á Netinu og heftingu á aðgengi að upplýsingum á Netinu. Ég held að það sé vegna þess að viðhorf okkar til margra þessara ríkja er mjög jákvætt, við dáumst að kínverskum stjórnvöldum og við teljum þau vera á réttri leið markaðshyggju og framfara.

En það er gaman að sjá í netpressunni í dag að augu heimsins beinast að bloggurum í Íran. Það var frétt á forsíðu prentaða Morgunblaðsins í morgum um málið - sem mér fannst skrýtið - er blogg virkilega orðið svo mikið afl og svo mainstream að það koma svona forsíðufréttir - sem meira segja ganga út frá því að lesendur viti hvað blogg er. Svo var þetta forsíðufrétt á BBC og hafa verið það áður. Sjá þessar greinar:
BBC: Iran's bloggers in censorship protest (sept 2004)
Iranian bloggers rally against censorship (des 2003)

21.9.04

Í bleikum börum

Það var bara flott þegar við afhentum forsætisráðherra bleiku börurnar um hádegisbilið í dag. Ég tók slatta af myndum og hér er Flickr slideshow með þeim. Femínistafélagið afhenti forsætisráðherra hjólbörufylli af lesefni um jafnréttismál og gjafabréf á jafnréttisnámskeið fyrir ríkisstjórnina.

Svona byrjaði fréttatilkynningin:
Þriðjudaginn 21. september kl. 11.30 afhendir Femínistafélag Íslands nýjum forsætisráðherra hjólbörufylli af lesefni um jafnréttismál, sem félagið telur mikilvægt að forsætisráðherra kunni góð skil á, tileinki sér og miðli til þjóðarinnar. Í hjólbörunum er að finna margvíslegan fróðleik um jafnréttismál, svo sem rannsóknir á viðhorfum kynjanna, hegðun þeirra og stöðu, sagnfræðirannsóknir, ævisögur, frásagnir og fæðingarsögur. Það er von Femínistafélags Íslands að forsætisráðherra hafi af gjöfinni bæði gagn og gaman og að hann stuðli að þeim breytingum sem þörf er á í samfélaginu til að jafnrétti náist í raun.


PaparazzilandFjölmiðlun er að breytast á Íslandi. Nýjasta dæmið er nýja viðskiptahugmyndin hjá forsetaframbjóðandanum en hann hefur sett upp ljómandi laglega vefsíðu sem sýnir að hann er á rangri hillu, hann ætti auðvitað að vinna hjá DV, hann er náttúrutalent í því. Enda hóf Ástþór sinn feril í myndmiðlun, í framköllunarþjónustu. Svo er Ástþór þessa daganna ekki að kaffæra opinbera embættismenn í spammi heldur veður hann elginn á málefnunum og kallar bljúgar afsökunarbeiðnir hjá DV frímerki. Og ég sem hef aldrei séð þvílíka auðmýkt hjá gulu pressunni á Íslandi.

Hér hitti skrattinn ömmu sína.

Hér er myndbrot úr nýjasta listaverkinu hjá Ástþór.
Hann stalkaði staffið á DV og Fréttablaðinu í dag.
Hér er frásögn þolanda
Það verður að skipuleggja áfallahjálp fyrir þetta fólk.


18.9.04

Lýðræði - Hugsjón ekki veruleiki?

Það var viðtal við Pál Skúlason háskólarektor um lýðræði í Morgunblaðinu 17. september. Páll segir að í raun og veru sé lýðræðið fremur hugsjón en veruleiki því ákvarðanir í samfélaginu séu oft ekki teknar eftir lýðræðislegum leiðum.

Hann bendir á að háskólar hafi verið meðal lýðræðislegustu stofnana og segir"....það er mjög merkilegt að það eru einmitt þessar lýðræðislegu stofnanir sem hafa lifað lengst. Þær virðast hafa feikilega aðlögunarhæfni og möguleika á að endurnýja sig eftir ákveðnum lýðræðislegum leikreglum. Háskólalýðræðið einkennist af því að þar er mjög ör, skipulögð og öguð miðlun upplýsinga og skoðana þar sem fólk veik hvað aðrir eru að hugsa og á hvaða forsendum. Þannig er það sem einkennir háskólalýðræðið er sífelld rökræða þar sem menn koma saman til að ræða mál og leiða þau sameiginlega til lykta."

Einnig segir Páll í viðtalinu: "Með nýrri tækni virðast menn nú í fyrsta sinn eygja möguleika á að mynda samfélag þar sem upplýsingum, skoðunum og hugmyndum er miðlað mjög hratt innan mjög stórra hópa fólks. ........ En með þessum tækninýjungum og samskiptamöguleikum eygjum við engu að síður þann möguleika að gera drauminn um eiginlegt lýðræði að veruleika. Ég er sjálfur sannfærður um að hann verður að veruleika"

Þó ég hafi verið háskólakennari í einn og hálfan áratug þá er ég ekki viss um að háskólar séu eðli sínu samkvæmt neitt sérlega lýðræðislegar stofnanir.... ekki alla vega í þannig skilningi að allir séu þátttakendur í ákvörðunum og hlustað sé á alla. Frekar má lýsa háskólum nútímans amk á Íslandi sem afar dreifstýrðum stofnunum þar sem sjálfstæði lítilla eininga er mikið. Kannski andstæðan við her. En háskólar hafa verið miðstöðvar fyrir nýsköpun þekkingar og fyrir miðlun þekkingar. En ég held að það sé töluvert til í því að lýðræðisfyrirkomulagi fylgir aðlögunarhæfni og meira svigrúm til breytinga..og það er mikilvægt á umrótstímum. Sennilega liðaðist skipulag Sovétríkjanna svona snögglega í sundur vegna þess að það var ekki innbyggt í það kerfi nóg aðlögunarhæfni við nýjum aðstæðum, það fer ekki saman miðstýrður áætlanabúskapur til fimm ára og snögg viðbrögð.

16.9.04

Allt fram streymir...

Það er allt orðið að bloggi eða einhvers konar straumum. Nú er einn bloggari í Mexíkó búinn að búa til kerfið Gallina sem lætur tölvupóst sem maður sendir í Gmail birtast eins og blogg. Svör við tölvupósti birtast svo sem komment á bloggfærslurnar. Ég nota Gmail og það er ferlega sniðugt póstkerfi.

Svo var að koma útgáfa af Firefox sem birtir víst RSS strauma eins og bókamerki. Ég fékk það reyndar ekki til að virka hjá mér. En það má búast við að einhvers konar tækni til að lesa XML/RSS verði innbyggð í fleiri vafra á næstunni.

Svo býr Flickr.com til RSS fyrir alla myndstrauma, það er hægt að fá RSS fyrir sínar myndir - en það er ennþá sniðugra að það er hægt að fá RSS fyrir ákveðin efnisorð eða merki (tags) sem sett hafa verið á myndir. Þannig er hægt að vera áskrifandi að RSS straumi frá Flickr yfir allar myndir sem eru merktar með Iceland eða allar myndir sem eru merktar með menningarnótt eða hestar eða hvað sem manni sýnist.

Og ekki nóg með það að tölvupósturinn, myndasafnið og bloggið sé farið að streyma með RSS tækni - heldur er ég núna farin að safna bókamerkjum (bookmarks, favorites) sem hægt er að gerast áskrifandi að bókamerkjastraumi frá mér ... ég er byrjuð að safna bókamerkjum yfir kennsluefni á vef og það er hægt að sjá það á http://del.icio.us/salvorice þar er neðst á skjánum RSS merki svo hægt er að vera áskrifandi að þeim straumi. En það er líka hægt að gerast áskrifandi að undirstraumum t.d. öllum bókamerkjum sem ég safna um eðlisfræði eða plöntur eða dýr. Hér er t.d. bókamerkjastraumurinn minn um dýr: http://del.icio.us/rss/salvorice/dýr

Þetta deli.icio.us er ferlega sniðugt og það er held ég svipað og Spurl sem kynnt er á vefnum hjá Hexia.net, ég sá íslenskt nafn sem höfundur á Spurl. Svo hefur Sigurður Fjalar reynslu af að nota Furl og hælir því kerfi. Hér er blogggrein um muninn á Furl og Spurl og hún byrjar "Bookmarks are so yesterday...".

Eins gott að hanga ekki á Þjóðarbókhlöðunni á kvöldin og lesa í þykkum skræðum eins og Jón Helgason í den í Köben þegar hann orti:

Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti
út við kvikaði borgin með gný sinn og læti
hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég niðinn í aldanna sígandi straumi.

Í túlkun ársins 2004 er borgin orðin sæborg og straumurinn er RSS /XML.


15.9.04

Gekk í Framsókn

Ég veit ekki hvort það verða einhver veðrabrigði í íslenskum stjórnmálum í dag en akkúrat núna stendur yfir ríkisstjórnarfundur þar sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skiptast á ráðherrastólum. En ég ákvað að minnast þessa með þeim hætti að ég gekk í Framsóknarflokkinn rétt áðan. Ef ég hef tíma þá ætla ég að starfa með þeim flokki og hafa þau baráttumál helst að stuðla að siðbót og jafnrétti í íslenskum stjórnmálum. Ég hef ekkert starfað með stjórnmálahreyfingu síðan Kvennalistinn var sjálfstæð hreyfing.

14.9.04

Skype er sniðugt

Ég var að hlaða niður símaforritinu http://www.skype.com/ sem ég held að sé bráðsnjallt og vera fyrirboði þess hvernig síminn rennur algjörlega inn í Internetið. Það hefur góð hljóðgæði, það er einfalt að setja það upp og það er ókeypis. Gallinn er hins vegar sá sami og var í árdaga tölvupóstvæðingar - eins og er þá eru svo fáir sem maður getur talað við. Reyndar er einhvers konar kerfi sem ég er ekki búin að prófa þannig að hægt er að kaupa einhvers konar pakka til að geta hringt inn í símakerfi viðkomandi landa þ.e. ef maður ætlar að hringja í einhvern sem er ekki með Skype. Ég sé að það eru þegar yfir fimmtíu Skype notendur skráðir undir Íslandi en það vakti furðu mína að það virðast bara vera karlmenn. Það eru 47 karlkyns nöfn en 5 kvenkyns nöfn skráð. Sem sagt 9 af hverjum 10 íslenskum skype notendum eru núna karlkyns. Fyndið... það var nefnilega alltaf gert grín í skrýtlunum í gamladaga að konur töluðu svo mikið í síma.
En svo getur maður sett svona borða á heimasíðuna sína svo fólk sem hefur líka Skype uppsett hjá sér hringt í mann:


Skype er frá sömu og Kasaa. Margir óttast að það séu einhver njósnaforrit inni eða eigi greiðan aðgang gegnum það því þetta er P2P kerfi eða deiliforrit. Reyndar er fullyrt að það sé ekkert njósnaforrit núna með Skype.

Ég hugsa að Skype verði spennandi kostur fyrir símafundi, mér skilst að í framtíðarútgáfum eigi að koma útgáfa fyrir ráðstefnur. Ég hugsa að þetta verkfæri nýtist í fjarkennslu, ekki síst að bjóða nemendum sem eru utan Íslands upp á símatíma/símafundi. Þeir sem búsettir eru erlendis og vilja hringja ókeypis til Íslands ættu að kynna sér Skype. Það er líka útgáfa fyrir makka.

13.9.04

Fréttastraumar framhald


Ég er að stúdera meira svona RSS og er núna búin að setja svona merki á þetta blogg sem vísar í atom.xml skrána sem blogger býr til.


Ég er líka búin að brenna svona fréttarás á Feedburner:Hér er svo RSS straumur sem 2RSS.com bjó til úr atom.xml straumnum , það þarf að breyta atom í rss þar. Ég reyndi að setja upp svona rsslib hjá mér en eitthvað klikkaði. Ég ætlaði er reyna að setja upp vefsíðu með nokkrum rss straumum - svona eins og fréttaveitu, hvert straumur kæmi svona. Mér finnst ekki nógu handhæg verkfæri núna til að setja upp rss strauma á vefsíðu, það hljóta samt bráðlega að koma fram einfaldari verkfæri.

12.9.04

Gamli hundraðkallinn

Á hundraðkallinum frá 1957 er mynd af Tryggva Gunnarssyni sem var fyrsti íslenski bankastjórinn, reyndar var bankinn víst bara opinn til að byrja með tvo tíma á dag tvisvar í viku en hann var við Bakarastíg sem við það breyttist í Bankastræti. Ég man eftir að í sögukennslunni sem ég hlaut í íslenska skólakerfinu var mikið gert úr þessum banka á Íslandi og hvaða máli fjármálastarfsemi hérlendis skipti fyrir íslenskt atvinnulíf - að auðurinn sem varð til í atvinnulífi hérlendis væri settur í fjárfestingar hérna. Tryggvi bankastjóri lánaði á fyrstu árum bankans í þilskip sem hann segir að hafi borgað sig upp á þremur árum. En núna er öldin önnur bankarnir eru ekki lengur við íslensku verslunaræðina á Bankastræti og Laugaveg heldur sprettur upp fjármálahverfi hérna í fjörunni við Sæbrautina með undrahraða og allir hafa útsýni út á Atlandshafið og Esjuna enda eru allir í útrás. Reyndar finnst mér þetta ganga allt út á að flytja þann auð sem verður til hér á landi til annarra landa. Ég á nokkuð erfitt með að kyngja gamla skólalærdóminum um að það sé best fyrir Ísland að auðlegðin sem skapast hér á landi sé lögð í íslensk atvinnulíf... og mér finnst dáldið furðulegt kerfi í heiminum í dag, þessi ofurtrú á mátt peninganna til skapa verðmæti með óheftu flæði.


Á hundraðkallinum með Tryggva er líka mynd af fjárrekstri. Ég fann á dyravernd.is þetta um Tryggva og dýr:

Árið 1891 skrifaði Tryggvi eftirfarandi í Dýravininn:

"Mig hefur oft á seinni árum langað til að gangast fyrir því að stofna íslenskt dýraverndunarfélag, en ég ann þess ekki, hvorki sjálfum mér né nokkrum öðrum karlmanni. Konunum er tileinkuð blíða og viðkvæmni, er það því eðli þeirra samboðið að taka málstað munaðarleysingjanna."


Soldið skemmtilega orðað hjá hundraðkallinum.Soldið skemmtilegt líka að hafa mynd af bankamanni


11.9.04

Beslan og Madrid og 911

Hryðjuverkin í New York 11. september fyrir þremur árum eru núna eins og í þoku... þoku sem sprengjur í Beslan og Írak og Madrid hafa þyrlað upp. En ég get ekki varist þeirri tilhugsun - Hvar verður sprengt næst?

10.9.04

Skeiðarsafnið

Síðdegis í dag fór ég með samstarfsfólki í ferð í Gnúpverjahrepp, okkur var boðið í sumarbústað hjá Kálfá. Okkur sóttist ferðin seint því við mættum Skeiðasafninu, það voru mörg þúsund kindur sem lögðu undir sig veginn. Það verður réttað á morgun í Skeiðum en í dag var réttardagur í Skaftholtsrétt í Gnúpverjahreppi og núna í kvöld þá keyrðum við fram hjá fjárhópum sem verið var að reka heim á bæi.

Hér er kennsluvefur um kindur sem Ástríður nemandi minn gerði árið 2002. Svo er hérna kindaleikur,
Fréttaveitur, fréttastraumar, efnisvakar

Ég hef tekið saman pistil um RSS og fréttalesara fyrir nemendur mína.
Slóðin er þessi:
http://starfsfolk.khi.is/salvor/skolastarf/rss.htm
Vonandi nýtist það einhverjum öðrum. Ég held að núna sé akkúrat tíminn fyrir RSS, við eigum að fara fram á að félög og opinberar stofnanir og fyrirtæki hafi rétt upp sett RSS yfirlit svo við getum gerst áskrifendur að því efni sem við höfum áhuga á. Ég skoðaði nokkra vefi og mér sýnist það bara vera Stjórnarráðið og Þjóðkirkjan sem býður upp á þetta. Einstaklingar virðast fljótari að tileinka sér þessa tækni enda gera mörg bloggkerfi svona sjálfkrafa.

Mér finnst sniðugt að nota Bloglines.com til að kynna þetta fyrir fólki sem þegar er með blogg á blogspot. Það geta allir skráð sig í Bloglines og gerst áskrifendur að bloggum og búið þar til einhvers konar hópblogg eða vefrit eins og ég gerði á http://www.bloglines.com/blog/salvor
Svo er hægt að hnoða saman bloggrúllum úr þeim bloggum sem maður er áskrifandi að, ég bjó til bloggrúllu yfir nokkur íslensk blogg sem ég tók af handahófi.

Það er góð leið til að setja sig inn í rss hugsunarháttinn að vera þátttakandi í þessu sjálfur. Að útvarpa sjálfur sínum rss yfirlitum og gerast sjálfur áskrifandi að bloggum. Annars hafa þeir bloggarar sem eru á rss.molar.is þónokkra reynslu í þessu og skilning á málinu því Bjarni Rúnar setti upp fyrir mörgum árum þessa fínu græju.

7.9.04

Hljóðblogg og vídeóblogg

Skyldi verða vinsælt á næstunni setja hljóðklipp og vídeóklipp á blogg? Ég held reyndar að það þurfi dáldinn tíma til að venja fólk við - nú þegar er mjög einfalt að senda talblogg úr GSM síma en mér virðast fáir gera það. Textastraumar hafa svo mikla yfirburði þegar kemur að því að greina þá og flokka og geyma og fletta upp í þeim seinna. Mér finnst hljóðbloggið á þessu Audioblogging Manifesto vera fyndið og svo finnst mér drepfyndið þetta kynningardemó á einu vídeóblogg verkfæri þar sem bloggarar geta sett upp eigið stúdíó og skipt um bakgrunn heima hjá sér svo þeir séu heimsborgaralegri. Það fylgir með einhver framsóknargrænn dúkur til að hafa bak við sig það er lestrarvél svo maður þarf ekkert að muna bara vera læs og svo er hægt að þvo burt framsóknargrænkuna með einu klikki og setja einhvern heimsborgaralegri flassandi bakgrunn.

Það er áhugaverður vefur http://www.itconversations.com sem er mest með hljóðklippum og þar er t.d. um stafrænt lýðræði O'Reilly & Associates' Digital Democracy Teach-In 2004

Annars er spurning um hvernig fólk notar samskiptatækni nútímans mest í á næstu árum og hvaða áhrif það hefur á samfélagið. Verður það kannski til að blogga þ.e. skrásetja líf sitt og reyna að finna úr því einhverja merkingu? Eða verður það til að vera í stöðugu sambandi við annað fólk og byggja upp félagslegt net? Það er gaman að fylgjast með breytingum í notkun verkfæra, mest notaða verkfærið núna er væntanlega ritvinnsla og tölvupóstverkfæri en í nýrri PEW könnun um How Americans Use Instant Messaging kemur fram að 53 milljónir Bandaríkjamanna nota IM og 24% þeirra nota IM meira en tölvupóst. Svo fannst mér athyglisvert að fólk virðist verja töluverðum tíma og sýna áhuga á að setja upp prófælinn og buddy icon þ.e. skrá sína eigin tilvist í slíkum kerfum.

6.9.04

Blóðugur endir í Beslan ... byrjun á hverju?

Það er ekki alveg ljóst hverjir áttu hlut að máli í voðaverkunum í Beslan og hin opinbera útgáfa rússneskra stjórnvalda er ekki endilega hárrétt, sb. þessa grein á BBC vefnum Analysis: The hostage-takers . En það er alveg ljóst hverjir voru fórnarlömb þessara voðaverka og það voru óbreyttir borgarar. Þarna voru mörg hundruð börn drepin eftir að hafa verið lokuð inni án vatns og matar í nokkra daga. Þetta er mynd stríðsátaka í fjölmiðlum nýtímans, innanríkjastyrjaldir í okkar heimshluta eru ekki borgarastyrjöld og skæruhernaður í skógarhéruðum og afskekktu fjalllendi heldur skæruhernaður í vestrænum borgum og sprengjurnar eru voðaverk eða fjölmiðlasprengjur þar sem allt gengur út á að skelfa og lama andstæðinginn og valda sem mestum glundroða. Hryðjuverkamenn virðast hafa skipulagt árásina mörgum mánuðum áður og falið vopn í skólanum.

Mér fannst skrýtið að hlusta á Pútsín forseta Rússlands og finnast ég vera í liði með honum... heimsmyndin hefur umhvolfst svo mikið á rúmum áratug að núna er eins og ráðamenn Austurs og Vesturs séu samherjar að glíma við sömu vandamál og við setum traust okkar á þá að vernda okkur fyrir hryðjuverkamönnum. Ekkert getur verið mikilvægara en vernda okkur fyrir fólki sem fer með stríð á hendur börnum.

En ég er bara að hugsa um hver verndar okkur gegn grimmum stjórnvöldum... kannski grimmum stjórnvöldum sem brýnt hafa vígtennur sínar í baráttu við hryðjuverkamenn og skólað heimssýn sína í að fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum í því skyni að efla friðinn... stjórnvöld sem fara að líta á alla borgara sem pótensial hryðjuverkamenn og meðhöndla þá sem slíka. Og hvernig mun Rússland núna bregðast við hryðjuverkaógninni? Verður það eins og The New War Against Terror í öðrum heimshlutum?

Bloggarinn Noam Chomsky er málvísindamaður og hann segir:

.... One is the fact that terrorism works. It doesn’t fail. It works. Violence usually works. That’s world history. Secondly, it’s a very serious analytic error to say, as is commonly done, that terrorism is the weapon of the weak. Like other means of violence, it’s primarily a weapon of the strong, overwhelmingly, in fact. It is held to be a weapon of the weak because the strong also control the doctrinal systems and their terror doesn’t count as terror...... Terrorism is not the weapon of the weak. It is the weapon of those who are against ‘us’ whoever ‘us’ happens to be.
Noam Chomsky Resources


3.9.04

Magnús kominn frá Afganistan

Ég fór með Kristínu til Keflavíkur í dag að sækja Magnús. Hann var að koma til landsins eftir þriggja mánaða dvöl í Afganistan.

Þetta var í annað skipti sem hann fer þangað og núna var hann á flugvellinum í Kabúl allan tímann og með hópi Íslendinga.

Ég held að dvölin hafi ekki verið sérlega ævintýraleg núna, þeir voru alltaf á flugvellinum á örlitlu svæði og bjuggu þrír saman í gámi.


Við hittum Hóffý á flugvellinum, Hún var að sækja litla Markús sænskíslenska frænda minn og Malín mömmu hans.

Markús var að koma í fyrsta skipti til Íslands og virtist kunna vel við sig hérna.

Stafræna myndavélin mín er í viðgerð þannig að ég verð að taka myndir bara á myndavélina í GSM símanum mínum. Það er reyndar dáldið sniðugt, ég sendi myndina beint úr símanum inn á Flickr.com og vísa í hana þar.

2.9.04

Flickr - myndir inn í blogg


Núna eru stafrænar myndavélar orðnar ódýrar og algengar og núna er sprengja í notkun myndsíma - reyndar má gera ráð fyrir að bráðlega verði allir með GSM síma með myndavél og hafi þannig möguleika á að senda tal, texta og myndir úr símanum. Það er ekki mikið farið að nota þessa stafrænu möguleika í námi og kennslu en mér virðist hér geti verið ný vídd, við eigum núna sem kennarar mun auðveldara með að miðla gögnum á myndrænu formi til nemenda en það er ekki síður mikilvægt að við getum núna lagt viðfangsefni fyrir nemendur þar sem verkefni og samvinna nemenda byggir á myndefni frá þeim sjálfum, sem þeir miðla til samnemenda og nota í námsferlinu og við verkefnaskil.

Ég hef undanfarna mánuði verið að prófa kerfi sem heitir Flickr sem er netsamfélag sem sýslar fyrst og fremst með myndir. Það er einfalt kerfi til að setja inn myndir og grunnaðgangur er ókeypis og mér sýnist þetta kerfi vera gott fyrir alla sem vilja setja myndir á Netið og fylgjast með ljósmyndastreymi frá öðrum.

Ég samdi leiðarvísir með þessu kerfi sem er á þessari vefslóð:

http://starfsfolk.khi.is/salvor/skolastarf/flickr.htm
Vona að þetta nýtist einhverjum.

Þetta er eitt einfaldasta kerfið til að koma myndum á Netið og ef vill þá má senda myndirnar beint inn á bloggsíður. Reyndar er einfalt að stilla þetta þannig að maður þurfi bara að senda bréf í tölvupósti á eitthvað netfang með mynd sem viðhengi og þá fari myndin inn á myndasafnið í Flickr og svo inn á bloggið með textanum sem var í bréfinu. Myndin er þá sjálfkrafa minnkuð en hægt er að smella á myndina til að fá hana í upprunalegri stærð. Dæmi um svoleiðis blogg (allar færslur voru sendar í tölvupósti með mynd sem viðhengi) er http://laugarnes.blogspot.com