30.11.04

Vormenn Íslands

Í mínum gamla skóla MR er nú allt logandi út af árshátíðarlaginu 2004, lagi sem stjórn skólafélagsins sá ástæðu til að verðlauna í lagasamkeppni og sem var til skamms tíma birt á vef skólans. Það eru fimm strákar í stjórn skólafélagsins en engin stelpa. Það var viðtal við Inspektorinn í Speglinum á Rúv þar sem hann er hrokafullur að verja þetta glappaskot. Það hefur verið töluverð umræða um þetta lag á málefnin.com og á sumum bloggum nemenda í MR og tveir pistlar á Málbeininu (Árshátíðartussan og Árshátíðartussan í MR-taka 2 )

En það er ekki bara í MR þar sem kvenfyrirlitning er dagskipunin. Ég skoðaði vef nemendafélags verkmenntaskólans á Akureyri og t.d. eru hér myndir frá karlakvöldi VMA sem haldið var nýverið.
Um það segir á vef skólafélagsins:
"Loksins koma myndirnar af karlakvöldinu sem var glæsilegt. yfir 250 manns voru á staðnum og skemmtu sér við leoncie og var keppt í nokkrum "karla"keppnum." Af myndum að dæma þá virðast karlaíþróttirnar hafa verið fólgnar í að tengja sjálfan sig með slöngu við bjór og drekka sér til ólífis. Svo virðist Leoncie hafa mætt á staðinn og dansað og fáklæddar stúlkur úr skólanum verið til sýnis.

Svona eru þrjár myndir frá thorduna.is
Það er einnig óhugnanlegt hvað er undir flokknum tenglar á vef nemendafélags VMA. Þar er t.d. einn liður "Unglingafræðsla Yngvars" og þar er sú argasta mannfyrirlitning og klám sem ég hef séð á íslenskum vef síðan Ranturinn leið undir lok. Uppfært 6.des. nú virðist sem betur fer vera búið að taka þessa vefsíðu niður.
Stjórn skólafélags MR virðist þó hafa lært sína lexíu, því þeir birtu svona afsökunarbeiðni á vefsíðunni og tóku út lagið:
" Afsökunarbeiðni frá stjórn
29. nóvember kl. 15:51 - Skólafélagsstjórn -
Jón Bjarni Kristjánsson
Stjórn Skólafélagsins biðst hér með formlega afsökunar á að hafa birt hið umtalaða Árshátíðarlag á vefnum. Skólafélagið viðurkennir fúslega að texti lagsins sé niðurlægjandi fyrir kvenfólk og var það slæm dómgreind og hugsunarleysi sem varð til þess að lagið var birt á vefnum okkar. Það var aldrei ætlun Skólafélagsins að niðurlægja neinn né að sverta ímynd MR sem því miður hefur gerst. Stjórn Skólafélagsins biður alla þá sem lagið særði eða móðgaði á nokkurn annan hátt afsökunar og heitir því að við munum í framtíðinni sjá til þess að nokkuð þessu líkt gerist aldrei aftur.
Með von um fyrirgefningu - Jón Bjarni Kristjánsson, Einar Búi Magnússon, Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, Ásgeir Birkisson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson"

23.11.04

Eldur í Sundahöfn - Vídeóklipp
Systir mín hringdi rétt rúmlega tíu í gærkvöldi og sagði að eitthvað væri að gerast. Lögregla og slökkvilið dreif að Sundahöfn og götum var lokað. Ég fór á staðinn og gerði þriggja mínútu stuttmynd um brunann.
Ég setti það upp á þessa vefsíðu:
http://www.asta.is/sundahofn.htm
Eftir því sem ég best fæ séð er þetta eina vídeóið af brunanum sem fór strax á vefinn. Það hefur verið auglýst að Rúv sýni myndir í sjónvarpinu kl. 8 núna. Það er núna í fréttum að um 600 manns hafi orðið að yfirgefa heimili sín í hverfinu mínu Laugarnesi og það hafi verið sett upp hjálparstöð í Langholtsskóla.

Hérna eru nokkrar stillimyndir sem ég klippti úr vídeóinu.







20.11.04

Fegurðin ein
Kennarinn Ólafur Kárason og lömuðu kennslukonurnar


Ég hlýddi á erindi Ingvars í gær um einstaklingsmiðað nám. Það voru líflegar umræður eftir erindið en ég man mest eftir því sem Þuríður sagði um kennara Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki.

Ég hafði heldur ekki hugleitt áður hve vel söguhetjan úr Heimsljósi Laxness hinn ofurnæmi Ólafur Kárason ljósvíkingur fellur inn í ímyndina um kennarann sem aðlagar námsefnið að hverjum nemanda. Og ljósvíkingurinn á ljóslifandi fyrirmynd í skáldinu á Þröm sb. frásögnina Magnús og mýtan

Hvað skyldi vera sameiginlegt með kennurum í Heimsljósi og Sjálfstæðu fólki Laxness og söguhetjum í Lömuðu kennslukonunum eftir Guðberg Bergsson. Kannski ekkert nema skáldverkin eru bæði eftir skáldjöfra sinna tíða og enduróma viðhorf þeirra til kvenna.

Um sögupersónuna Ólaf Kárason segir á vef mbl.is : "Ólafur Kárason Ljósvíkingur er aðalpersóna Heimsljóss. Hann er skáldið sem þráir að þjóna fegurðinni einni en ranglætið í kringum hann kemur í veg fyrir að hann geti það því að: „það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt.“ Heimsljós er mikið verk, í því er bæði mikil ádeila á þjóðfélagið og hvernig hinum veraldlega auði er skipt á milli manna. " og það segir líka "Eftir að hafa skrifað sögu saltfisksins og íslenska bóndans eins og Halldór sagði sjálfur snýr hann sér að skáldinu í næsta verki, Heimsljósi, sögunni af niðursetningnum og skáldinu Ólafi Kárasyni sem kom út í fjórum bindum árin 1937 til 1940 er nefnast Ljós heimsins, Höll sumarlandsins, Hús skáldsins og Fegurð himinsins. Ólafur Kárason á sér ekki viðreisnar von í þessum heimi en þjáning hans og hin skáldlega fegurð sem af henni sprettur eru miklu stærri og gjöfulli en það líf sem heimurinn hefur að bjóða.".

19.11.04

100% lán
Það er kannsi til eitthvað fólk til á Íslandi í dag sem er ekki annað hvort búið að endurfjármagna eða að hugsa um að gera það eða er búið að kaupa húsnæði með aðstoð bankanna eða er að leita að íbúð sem það ætlar að fjármagna með allt að hundrað prósent láni... en ég þekki bara ekkert svoleiðis fólk. Allir sem ég þekki eru önnum kafnir í einhverju húsnæðisbraski, annað hvort að endurfjármagna, nýfjármagna eða örmagnast í einhverjum peningapælingum "Ég get ekki tapað á þessu", "við lækkuðum mánaðargreiðslurnar um 40 þúsund eftir að við endurfjármögnuðum" þetta eru setningar sem maður heyrir ansi oft í dag. Reyndar er ástandið á íslenskum húsnæðismarkaði farið að líkjast því sem er þar erlendis sem ég þekki til, í flestum nágrannalöndum tíðkast að fólk borgi ekki nema lítill prósentuhluta út í íbúðum. Margir benda þó á að það sé sams konar ástand núna á fasteignamarkaði í heiminum eins og var með Internetbólunni sem sprakk um árþúsundamótin. Hér er úttekt í Economist í fyrra :House of cards May 29th 2003
Það virðist margir hagfræðingar á því að hrun sé í vændum á fasteignamarkaði í heiminum en það eru skiptar skoðanir um hvaða áhrif það hefur á hagkerfið og hversu mikið við munum taka eftir því. Mun verð fasteigna lækka? Það er bent á að hrun á húsnæðismarkaði hefur meiri áhrif en hrun verðbréfamarkaðar m.a. vegna þess að fyrsta lagi vegna þess að fleira fólk á húsnæði en verðbréf, í öðru lagi vegna þess að það er mun líklegra að fólk taki lán til að fjármagna húsnæði heldur en til að fjármagna hlutabréfakaup, í þriðja lagi vegna þess að hrun húsnæðismarkaðar mun valda því að hluti af húsnæði er veðsettur langt yfir markaðsverði og húseigendur geta ekki staðið í skilum við banka og arðsemi verður því minni í bankakerfinu vegna lána sem falla í vanskil.

Mér virðist að fólk á Íslandi sem er ekki vant svona lánum sé allt of bjartsýnt - það getur vel gerst að húsnæðisverð hér snarlækki, það gerðist í Osló og reyndar fleiri Norðurlöndum fyrir tæpum áratug, ég var þá stödd í Osló og það var fáránlegt ástand. Fólk hafði fylrir hrunið fengið 100% lán frá bönkum til að fjárfesta í íbúðum, það hafði verið svona offramboð á lánsfjármagni á góðum vöxtum, svo snarlækkaði verðið á fasteignum og margt ungt fólk átti bara skuldir og enginn vildi kaupa húsnæði. Íbúðarverð í miðbæ Osló var eftir hrunið um það bil þrisvar sinnum ódýrara en hérna í Reykjavík og kaup sem fólk fékk í Osló var næstum helmingi hærra og það var næstum ekkert atvinnuleysi og mikill húsnæðisskortur. Samt var fólk í Osló paník og fólk þar þorði ekki að kaupa húsnæði, það höfðu svo margir brennt sig á því og enginn vissi hvort að botninum hafi verið náð. Á þessum tíma varð búseturéttur einskis virði, það skipti engu máli þó að maður hefði verið í búsetufélagi áratugum saman, það voru bara engir sem vildu kaupa húsnæði. Það tók mörg ár fyrir þessi panikárhrif að fjara út. Og margt ungt fólk varð stórskuldugt, þetta var eiginlega sams konar ástand og þessi misgengisár hér á Íslandi - árin þegar húsnæðislán voru verðtryggð en kaupið ekki. Verðbólgan varð eitt árið 70%.

17.11.04

Barn fætt í Brekkukoti
Anna og Sindri sem nú búa í Brekkukoti í Akratorfunni eignuðust son í morgun. Það er þriðji sonurinn, stóru bræður þess nýfædda eru Kristján 6 ára og Heiðar Sigurmon 2. ára.
Daginn sem drengurinn fæddist þá geysar hatrammt stríð í Írak, bandarískur innrásarher heyjir stríð um borgirnar Mosul og Falluja. Arafat leiðtogi palestínsku þjóðarinnar er fallinn frá og enginn veit hver kemur í staðinn. Á Íslandi er haldið upp á afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar - dag íslenskrar tungu og í fréttatíma sjónvarpsins var mynd af hátíðardagskrá á Ísafirði þar sem svartklæddir kennarar stilltu sér upp eins og líkfylgd á götum bæjarins þar sem menntamálaráðherra fór um - þögul mótmæli grunnskólakennara sem hafa verið í verkfalli í tvo mánuði í deilu þar sem engin lausn er í sjónmáli.

Það er núna hægt að fletta upp í timarit.is gömlum Morgunblöðum og mér datt í hug að skoða hvað hefði verið í fréttum daginn sem ég fæddist.

Daginn sem ég fæddist var gerð bylting í Sýrlandi og Egyptalandsforseta steypt af stóli. Daginn sem ég fæddist er kaldastríðið í algleymingi. Leiðarar Morgunblaðsins virðast á þessum tíma hrópa heróp gegn kommúnisma og Sovétinu. En hluti af leiðara Morgunblaðsins daginn sem ég fæddist er þó um Austurlönd. Hann er svona:

Sofandi lönd
Á skammri stund skipast veður í lofti. Á einum degi er tveimur einvöldum Arabaríkjanna velt úr valdastóli. - Byltingarráðið egypzka sviftir Naguib öllum mannvirðingum og setur hann í stofufangelsi. Uppreisn sýrlenzkra hersins fellir Shishakly einræðisherra, svo að hann kemst naumlega undan á flótta.
Slíkir atburðir eru að vísu lítið nýnæmi í Araba og múhameðstrúarlöndunum í Vestur-Asíu og Afríku. Hver uppreisnin hefur rekið aðra í Sýrlandi og Egyptalandi. Og enn er mönnum í fersku minni atburðirnir í Persíu, þar sem Mossadek hrifsaði smám saman alræðisvald í sínar hendur og var svo að lokum steypt af stóli.
Ástandið í þessum múhameðstrúarlöndum er alþjóðlega alvarlegt, vegna þess að á næsta leiti hlakkar í Rússum vegna þessarar pólitísku óreiðu. Þeir vænta þess að afleiðingin verði algert öngþveiti og auðvelt að ná yfirráðum á þessu þýðingarmikla svæði heimsins. Hvergi í heiminum beita kommúnistar eins áróðri sínum sem þarna og þeir munu vissulega ekki sleppa neinu tækifæri til að efla völd sín.
Arabalöndin eru sofandi lönd.
Þau dveljast enn á sviði miðaldanna. Gamalt og úrelt lénsskipulag er þar enn við ríkjum, fáeinir höfðingjar deila um völdin meðan allur þorri íbúanna lifir við sárustu neyð. - Menntun og menning er á furðulega lágu stigi og sjúkdómar herja fólkið. Flestum þessum ríkjum hefur boðizt aðstoð frá Vesturlöndum um framkvæmdir til að bæta kjör alls almennings, en þetta hefur komið að minna gagni en skyldi vegna innnalandsástandsins. Sem dæmi má nefna að Arabía hefur á síðustu árum fengið ógrynni fjár í olíugreiðslur, sem nota hefði mátt til að gerbreyta kjörum fólksins. En höfðingjarnir hafa sóað miklu af þessum fjármunum í óhófseyðslu.
Vesturlandaríki þau sem mest skipti hafa við þetta svæði telja enn sem fyrr mjög mikilvægt fyrir allan umheiminn að vekja múhameðslöndin af þyrnirósasvefni miðaldanna. Það má og benda á að eitt ríkið hefur vaknað, þar sem er Tyrkland.

Mér sýnist það helst hafa breyst í heimsmyndinni frá því að ég fæddist og þangað til litli drengurinn í Brekkukoti fæddist að núna eru miðstýrðu Sovétríkin engin ógn - já ógnin er eiginlega meiri af að þar sé of mikill glundroði. Rússlandsforseti, Bretlandsforseti og Bandaríkjaforseti virðast einhuga um það sem kallað er "the international war on terror".

12.11.04

Kosningarétt fyrir börn strax... takk!!!
Ég gæti ekki verið meira sammála Torfa Tulinius og öðrum sem töluðu á hugvísindaþingi Hí nýlega og færðu rök fyrir því að börn ættu að hafa kosningarétt.

Ef börn væru með kosningarétt þá myndi ekki yfir 40 þúsund manna hópur barna og unglinga og kennara hafa verið í verkfalli í næstum tvo mánuði og ef börn væru með kosningarétt þá hefði verið meiri pressa í þessu verkfalli og viðsemjendur ekki dirfst að bjóða fólki sem var búið að þreygja langt verkfall næstum sama samning og var á borðinu í upphafi og ef börn væru með kosningarétt þá myndi sáttasemjari gera meiri skurk í málum en að boða til funda með tveggja vikna millibili. Og ef börn væru með kosningarétt þá myndi hið háa Alþingi sem núna hefur pínt kennara aftur til starfa hafa lobbíað fyrir þessum stóra kjósendahóp sem á framtíðina undir hvernig tekst til með menntunina og einn stór partur af því er að bjóða kennurum sómasamleg laun.

8.11.04

Púður, súkkulaði og bækur
Fæða fyrir heilann


Hugleiðing um nýlegar snyrtivöruauglýsingar, hip-hop fataauglýsingar og súkkulaðiauglýsingar.

Tákn og ímyndir í auglýsingum er mál nútímans til að koma mikilvægum skilaboðum og boðskap til almennings. Ég vek athygli á splúnkunýrri auglýsingaherferð fyrir hinum frábærum snyrtivörum Cachez sem eru afar góðar til að hylja bauga og áverka. Það er Amnesty í Bretlandi sem stendur fyrir þeirri
auglýsingaherferð
og mér skilst að núna í nóvember verði í neðanjarðarlestum í London auglýsingaplaköt um þessar snyrtivörur, sjá nánar á vefslóð:
http://www.problemwhatproblem.com
http://www.amnesty.org.uk/svaw/pwp

Skilaboðin í auglýsingum er oft flókin og margræð - samt þannig að þau hitti fyrir markhópinn og ímyndin brennist inn í huga viðtakenda. Ég held að ein magnaðasta auglýsing sem ég hef séð hafi verið Willie Horton sjónvarpsauglýsingin í kosningabaráttu Bush eldri og Dukakis 1988 . Í þeirri frægu og illræmdu auglýsingu var Dukakis ásakaður um linkind gagnvart glæpamönnum og ennþá hljómar í eyrum mér hljóðið í fangelsishliðunum þar sem fangar fóru út og inn.

Önnur mögnuð auglýsing var oft sýnt í sjónvarpi þeim tíma sem ég bjó í USA 1988-1990. Þar i var egg brotið og spælt á pönnu. Þetta var áróður á móti eiturlyfjum. Eggið var heilinn og spælegg sem kraumar á pönnu sýndi hvernig eiturlyf fara með heilann. Þessi "This is your brain on drugs" er talin vera ein áhrifamesta auglýsing allra tíma. Eftir þessa auglýsingu sé ég alltaf heilann fyrir mér sem egg og skipti fólki í steiktum heila, harðsoðin egg, spælegg og fúlegg.

En það sjá ekki allir heilann fyrir sér sem fjöregg sem sumir fara illa með og steikja á pönnu. Það sést vel í auglýsingaherferðinni "Read Books, Get Brain". Hér er eitt af plakötunum frá þeirri herferð.


Þetta plakat virðist nú ansi sakleysislegt - virðist vera einhvers konar átak til að fá ungt fólk til að lesa bækur. Mjög gott náttúrulega á þessum síðustu og verstu tímum þegar allt liðið hengur bara hérna á Netinu og les ekkert á Borgarbókasafninu. Enda var þetta plakat sett á strætisvagna og hengt upp í strætóskýlum í Miami, Chicago, Los Angeles, Detroit, San Francisco og Philadelphiu.

En þetta er bara ekki auglýsing to að örva bóklestur. Þetta er klám og kóðað þannig að hin klámfengnu skilaboð komist bara til viðtakenda, ungs fólks í stórborgum - en aðrir skilji ekkert.
Sjá nánar grein í nydailynews 5. nóvember 2004.

Samgönguyfirvöld í New York voru í sjöunda himni þegar hip-hop klæðaframleiðandinn Akademiks vildi auglýsa á strætisvögnum og hvetja ungt fólk til að lesa. En þetta var bara hálfsögð saga. Núna hafa auglýsingarnar verið rifnar niður því það vakti svo sannarlega ekki fyrir auglýsandanum að stuðla að læsi. Markmiðið var að nota kóðað mál til að ná til markhópsins og skerpa skilin milli þeirra sem skilja skilaboðin og eru þannig hipp-og-kúl og hinna sem ekkert fatta. Markmiðið var þannig óbeint að gera gys af þeim sem ekki eru innvígðir - þeim sem eru ekki læsir á skilaboðin. Það kom nefnilega í ljós að slagorðið sem hefur verið á 200 strætisvögnum "Read books, get brain" er slanguryrði fyrir munnmök. Þetta er þrælútpælt hjá fatalínunni:

"We knew this," fessed up Anthony Harrison, Akademiks' ad designer. "It's coded language, city slang. Teens know what it means but the general public doesn't."

Þegar plakötin eru lesin eins og þau eru hugsuð fyrir markhópinn þá endurspegla þau hlutverk stúlkna sem aðila sem er til sýnis og þjónustar karlmenn. Meira segja fatnaðurinn endurspeglar það rými sem stúlkur hafa. Fatnaður stúlkna er reyrður eins og fjötrar, þær krjúpa og eru til þjónustu reiðubúnar. Á sumum plakötunum er mynd af ungum karlmönnum í fráhnepptum skyrtum, víðum peysum og gallabuxum í yfirstærðum og myndir af konum í níðþröngum kynæsandi klæðnaði. Í einni auglýsingin er mynd af ungum karlmanni að lesa bók og hálber stúlka situr í kjöltu hans. Ein auglýsingin er af konu í eggjandi búningi sem krýpur á hnjánum og heldur á opinni bók. Hún er ekki að lesa bókina.

Sjá nánar um málið í þessari grein í Guardian:
Guardian: Rauncy bus ads a no-brainer

Not for girls
Sumir halda því fram að "Not for girls" súkkulaðiauglýsingin frá Nestle sem birtist nýlega á heilsíðu í Morgunblaðinu sé saklaust grín og við femínistar sem ekki sjáum glensið í þessu séum að taka okkur of alvarlega. En auglýsingin er ekkert grín, þetta er útpæld markaðsetning á vöru að undangenginni markaðsrannsókn eins og tíðkast í heimi auglýsinga og ímynda. Heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu kostar heilmikið og í þessu tilviki er erlend markaðshugmynd flutt tilbúin inn til Íslands. Af því hún hefur virkað erlendis og væntanlega af því að söluaðilar telja að hún virki hérna.

Það er aðalþemað í þessari auglýsingu að um sé að ræða vöru sem er "not for girls" og það er tilgangur að 1) hamra á mismuni milli kynjanna (svona eins og leikritið Hellisbúinn) og 2) snúast gegn öllu sem femínismi stendur fyrir. Ég læt hér fylgja með tilvitnun úr markaðskönnun (Sjá hérna pdf skjal) :

Hence, the campaign. Its objective was "to reclaim Yorkie as the chocolate for men." Its research revealed "key consumer insights":

"1. Society is moving towards 're-genderization'. Beyond feminism and beyond androgyny, people are examining the different values men and women can bring to a society: 'Vive la différence'. Men love being men - and women appreciate and/or are amused by the differences. Coupled with this is increasing gender equality. PC boundaries have therefore changed and humour is once again exploring 'men being men'

"2. The rise of feminism has led to a decreased role for men today. The media are constantly reminding us of the increasing success of women in today's society. Whether it's better reading ability of girls at primary school or female graduates now getting better degrees than men, the rise of the woman, particularly to men, seems unstoppable. With women now having the gall even to drink pints (of Guinness!), you have to agree with one respondent who said, 'There aren't many things a man can look at and say, "that's for me".'"


Öll markaðssetning á þessari Nestle súkkulaðitegund er í andanum "not for girls" og það er reynt að skapa umtal. Þannig hafa svona súkkulaðistykki verið gefin t.d. á neðanjarðarstöðvum en þá passað að gefa bara strákum en skilja stelpur út undan. Skilaboðin eru skýr frá Nestle. Í markaðskönnunum hefur verið fundið inn á að það selur súkkulaði að höfða til öryggisleysis drengja varðandi eigið kynhlutverk í heimi þar sem hefðbundin kynhlutverk eru að rakna upp - og það er gert með því að hamra inn að kynhlutverkin séu eins og þau hafa alltaf verið "men will be men".

Ég held að sumar auglýsingar séu áhrifaríkar vegna þess að þær segja markhópnum það sem hann vill heyra. Ég held að auglýsingar séu áhrifaríkar vegna þess að þær hugga þá sem auglýsingar beinast að og benda á "quick fix". Að fá sér súkkulaðistykki. Að hlægja að Hellisbúanum og samsama sig þeirri heimsmynd sem það leikrit miðlar. Heimsmynd eðlishyggju og heimsmynd þar sem kynhlutverk eru skýr. Og það er ekki svo mikill munur á þeirri heimsmynd sem kemur fram í auglýsingunni "read books get brain" og auglýsingum um "not for girls" súkkulaði. Í báðum er bullandi kvenfyrirlitning og svona "þú-skalt-ekki-halda-að-þú-sért-eitthvað" viðhorf til stúlkna.

Ég er að safna saman slóðum í plaköt gegn kynbundu ofbeldi á þráð á femínistaspjallinu. Ég held að besta leiðin í stöðunni sé að tileinka sér og læra táknmál auglýsinga og beita því eins og Amnesty púðurauglýsingarnar gera. Það er þannig púður sem þarf sem sprengiefni.

2.11.04

Kosningamaskínan í USA

Spennandi að fylgjast með forsetakosningunum og ekki síst hvernig þeim gengur við það sem margir kalla rafrænt lýðræði. Það hafa gegnum tíðina verið fundnar um ýmsar bráðsnjallar og tæknilega fullkomnar kosningavélar og núna í dag munu sum fylki bjóða upp á rafrænar kosningavélar, hér er fyndið vídeóklipp um hvernig þessar kosningavélar vinna núna árið 2004 . Þetta er náttúrulega stór munur á milli kosninga, miklu auðveldara og skýrara fyrir kjósandann og gaman að skoða muninn frá kosningunum 2000 en þær voru með gamaldagslagi, svona kjörseðlum sem párað var á, svona eins og þessi:



1.11.04

Fjölmiðlanemar og blogg

Ég sá þessa setningu á bloggi nemanda í fjölmiðlafræði:
"Ég var að koma úr tíma (fjölmiðlafræði) og þar var verið að tala um blogg..hverjir blogga og af hverju..nú, svo spurði kennarinn hvort að einhverjir blogguðu og ég náttúrulega játti því...sem eina manneskjan í bekknum sem blogga...og þá spurði kennarinn hvort að ég væri tilbúin að taka ábyrgð á því sem ég er að skrifa eftir 20 ár...20 ár...ég er ekkert viss um að ég sé tilbúin til þess..."
Hér les ég milli línanna að blogg er ekki í hávegum haft í fjölmiðlafræði. Ætli það sé út af því að svoleiðis margradda, persónuleg og óritstýrð miðlun er framandi fyrir þá sem líta eingöngu á fjölmiðla sem eitthverja miðstöð þar sem ritrýndu efni er útvarpað eða dreift til fjöldans. En þetta er afar leiðandi spurning hjá kennaranum. Af hverju snýr hann sér ekki að nemanda sem ekki er með blogg og spyr hvort hann geri sér grein fyrir afleiðingum þess að vera ósýnilegur og reyna ekki að öðlast ritfærni í samræðu við sjálfan sig? Af hverju eru ekki allir í fjölmiðlafræði með blogg? Þetta er aðgengilegt, ódýrt og einfalt verkfæri til að skrá persónulega þroskasögu - sem einn part af portfolíó mati. Þetta er líka miðlun sem er mjög í takt við tímann og póstmoderniskan hugsunarhátt í heimi innsprengingarinnar. Útvarpaðir miðlar og prentmiðlar sem eru eins og gjallarhorn í eigu þeirra sem hafa völdin hentuðu ákaflega vel í miðstýrðu verksmiðjusamfélagi síðustu aldar, það var ágæt leið til að koma boðum til fjöldans. Og það er reyndar ágæt leið til að halda völdunum annó 2004 því ennþá er það bara lítill hluti af fólkinu í landinu sem tjáir sig á Netinu og netmiðlun hefur ennþá ekki haft afgerandi áhrif á stjórnmálin. En það eru ýmis teikn sem benda til að það sé að breytast. Það þarf ekki annað en að fara yfir þá umræðu sem hæst er í samfélaginu - og sjá að nú er ekki lengur þannig að netumræðan tekur upp það sem er í fjölmiðlum og ræðir það - heldur er það æ oftar í hina áttina. Það er því glappaskot hjá fjölmiðlanemum nútímans ef þeir skoða ekki vel og prófa blogg sem eina tegund af miðlun. Bloggmiðlun er miklu nær þeirri miðlun sem verður ríkjandi í framtíðinni og svona "communities of practice", svona sjálfstýrðum laustengdum hópum þar sem hópurinn eða samfélagið er vitrara og flóknara en einstaklingarnir. Þetta er svona eins og maurabú þar sem sú heild er vél sem getur framkvæmt flóknari og vitrænni hluti en einstakir maurar.

En er ástæða til að óttast það sem maður segir í dag eftir 20 ár? Ég held satt best að segja að það sé miklu meiri ástæða til að óttast að verða ósýnilegur og undir hulinshjálmi í samfélagi morgundagsins - og þeir sem leiða hjá sér samskiptaverkfæri og tjáningarform nútímans eru ekki vel undirbúnir undir framtíðina. Allra síst í fjölmiðlun. Þeir sem eru ósýnilegir í orðræðu samfélagsins hætta líka á að vera valdalausir. Í mörgum löndum er einmitt reynt að gera ákveðna hópa ósýnilega t.d. í Saudi Arabíu þar sem konur fengu til skamms tíma ekki persónuskilríki og í sumum strangmúslimaríkjum verða konur að hylja sig kufli. Talibanar settu í lög að konur ættu að læðast um eins og konan sem kynti ofninn í kvæðinu eftir Davíð.

Sennilega munum við eftir tuttugu ár gjarnan vilja orna okkur við minningar um veröld sem var og verðum bara fegin ef við höfum blogg eða dagbók frá liðnum tíma. Kannski rifja upp tímann þegar bloggin voru einu óháðu miðlarnir á Íslandi, tímann þegar Baugur átti allt annað.