31.12.04

Draumalandið
Stundum koma löng tímabil þar sem ég man ekki drauma - og mér finnst mig ekki dreyma neitt. En stundum koma tímabil þar sem ég hrekk upp úr draumi sem er næstum eins og martröð eða ég man eftir einhvers konar tilfinningu eða hughrifum í draumi. Það er mjög erfitt að muna drauma, já eins og maður sé með eitthvað forrit í gangi sem sléttar yfir alla drauma um leið og maður vaknar alveg ... það er bara ef maður vaknar upp inn í drauminum og er einhvers staðar á milli draums og vöku að draumurinn er ljóslifandi fyrir manni... en ef maður nær ekki að klæða hann strax í búninga orða eða mynda eða leturs þá tínist draumurinn inn í dá gleymskunnar. Og maður man ekkert lengur nema hughrifin af draumnum...
En alla vega man ég að aðfaranótt jóladags dreymdi mig draum þar sem ég man hver hughrifin voru. Man það vegna þess að jóladagurinn er hátíð þar sem fæðingu sveinbarns er fagnað og vænting um betri tíð og frelsun er tengt þeirri fæðingu. Þess vegna fannst mér svo svo óhugnanlegt að dreyma feigð. Það sem ég man úr draumnum er að það voru tvö sveinbörn, nokkura ára að ég held og þau voru feig og það var vitað hvenær þau myndu deyja, þau höfðu lent í einhverju verið hrist eða fengið einhverja veiki og ég man að voru læknar að útskýra hvernig þeir sáu feigðarmerkin... þetta var svona andstæðan við leit að lífsmerkjum. En það var m.a. að vera blár á maganum og að þola ekki hljóð. Tveim nóttum seinna dreymdi mig líka langan draum en ég man að hann fjallaði eitthvað um hesta. Svo dreymdi mig að ég væri í lestarferð í ókunnu landi. Lestin var á ferð og ég ætlaði í vagninn sem var fyrir framan og geng út úr lestarvagninum sem ég var í, en þá villist ég og fer út úr lestinni sem þá hefur staðnæmst á lestarstöð. Ég reyni að komast í lestina aftur og lendi í hópi með fólki sem er eins ástatt með og heimafólk gefur okkur bendingar um hvert við eigum að fara, við skiljum ekki málið og við höldum að við séum að fara að inngangi inn í lest en svo rennur upp fyrir okkur að lestin er farin og líka skil ég að það var ekkert hægt að komast í lestina, það var enginn inngangur og kannski heldur enginn útgangur, ég hafði bara villst einhvern veginn út. Og mér finnst ég stödd á stað sem ég skildi ekkert í, það voru engin kennileiti þarna, bara hús eins langt og augað eygði og landið hækkaði lítillega í átt frá brautarstöðinni. Húsin voru mismunandi en mynstur þeirra var bara óreiða fyrir mér.Mér leið eins og ég væri einhverf miðað við fólkið þarna... ég var algjörlega vegalaus, ég var í umhverfi þar sem ég skildi ekki. Í nótt dreymdi mig líka svona feigðardraum, þar var líka um barn sem myndi deyja en það var íslenskt barn og tengt mér og það var þessi tilfinning og hugmynd um hvort lífið væri þess virði að lifa því af gleði ef endalokin væru skammt framundan. Og svona tilfinning sem líktist sorg, svona tilfinning um að vita örlög sín fyrir.

24.12.04

Grýlukastljósið
Ég mætti í Kastljósið 22.des. ásamt Davíð Þór Jónssyni og ræddum við um Grýlu og jólasveina við þá Sigmar og Kristján. Hér er hljóðupptaka af umræðunum




Davíð var að plögga bók eftir sjálfan sig, það er vísnabók um jólasnótirnar þrettán sem eru hrekkjóttar og viðsjárverðar og nútímalegar systur jólasveinanna. Stórskemmtileg bók og jólasnótirnar eru margar hverjar hugljúfar eins og t.d. Rauðsokka sem læðir hárrauðum sokk í þvottavélina og litar allt bleikt. Davíð Þór hefur með þessari bók fetað í fótspor margra karlmanna á liðnum öldum sem hafa reynt að persónugera og kveða í kútinn óvininn eða ógnina í umhverfi sínu. Ég misnotaði náttúrulega aðstöðuna þarna í Kastljósinu þar sem ég sat með jólasveinunum og plöggaði jólavefinn minn og læddi líka inn lævísum femínistaáróðri, sagði Grýlu ekki hættulega fyrir börn lengur heldur væri hún núna fyrst og fremst ógn fyrir fullorðna karlmenn og svo væru jólasveinasögur nútímans ekki þroskasögur um börn heldur frekar þroskasögur karlkyns jólasveina sem verða að takast í við ný hlutverk t.d. að ala upp börn. Svo sálgreindi ég Ómar Ragnarsson og sagði frá því hvernig Grýlukvæði hans frá 1962 endurspeglar ógnina sem Ómar sér í virkjunum og stóriðju - Hann yrkir þar grínkvæði um Grýlu sem eldar fjöll og notar steypuhrærivél við matartilbúninginn en það er undirtónn í kvæðinu sem varar við hættunni, Grýlu sem er með hár sem er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla er önnum kafin við Kárahnjúka í dag og hefur þar mætt hinni erlendu St. Barböru sem hefur sest að á Íslandi. Ég bar líka saman hina mæddu Grýlu Þórarins Eldjárns frá 1992 og Grýluna hans Jóhannesar úr Kötlum frá 1932. Það er líka heill kafli í Grýluvefriti mínu frá 1996 sem ber saman þessi kvæði. Ég er langt komin með Grýluannál 2004.

22.12.04

Grýla og jólasveinar í Kastljósinu
Sigmar í Kastljósinu var að hringja og vill fá mig í Kastljósið í kvöld að spjalla um jólasveina. Ég sagði náttúrulega strax já þó ég verði að vera mætt upp í sjónvarp með minna en einnar klukkustunda fyrirvara. Hver segir að konur vilji ekki koma í fjölmiðla? Það er nú heldur ekki eins og það sé neitt í húfi. Aldrei hef ég sungið í útlöndum og ekki er ég að selja neinn geisladisk.

Í Kastjósinu verður líka Davíð Þór sem hefur kveðið upp ný jólasveinakvæði. Davíð Þór var einu sinni ritstjóri á Bleikt og Blátt og hafa femínistar ekki látið neitt dælt með hann. En ég hugsa að það verði ekkert talað um klám og staðalímyndir kvenna í kvöld í Kastljósinu. Nema kannski í sambandi við jólasveinanna. Ég held að kvæðin hans Davíðs séu um kvenkyns jólasveina.

21.12.04

Huldulandið - Ólöf eskimói
Vetrarsólstöður 2004



Í bókinni Ólöf eskimói er sögð saga húnvetningsins og vestur-Íslendingsins Ólafar Sölvadóttur frá Ytri Löngumýri sem meikaði það í Ameríku með því að villa á sér heimildir og segja sögur. Hún sagði Ameríkönum það sem þeir vildu heyra um frostna Norðrið. Á forsíðu DV í dag er því ljóstrað upp að Baltasar Kormákur vilji gera kvikmynd um þennan smávaxna sagnameistara. Það er gaman að lesa bókina frá 1887 Olof Krarer, the Esquimaux lady: A story of her native home sem er á Netinu, hér er ein tilvitnun í bókina sem lýsir hve vel hún miðar frásögnina við þann sem hlustar á söguna og hagræðir söguefninu eftir því:
"Americans, I think you do not realize your blessings in this great land of plenty, where you have so many fine things. Even here, I often see sad faces, and hear words of discontent. Sometimes I am a little discontented myself, when I see something I want, and think I cannot, or ought not to, have it.
But I soon get over that feeling when I remember my home in the frozen north, when we sat still in through the weary hours, shivering with the cold, choked be the smoke, and often perishing with hunger. If I was to go back to my race of people, I would not be able to tell them about what I see and hear in this country. They have not the language to express the thought. They have seen nothing like a sewing machine, or a piano. They have no materials to enable them to make machines. They never saw a painting or a drawing. Their wild rude songs is all they have that is anything like music.They have no idea of a book. They eat when they are hungry, and sleep when they're sleepy. They are happy and contented when they don´t know any better. "

Ólöf eskimói - ævisaga íslensks dvergs í Vesturheimi
Frásögn af fyrirlestri Ingu Dóru hjá Mannfræðifélaginu

Annars er dáldið vinsælt að segja lygasögur af Íslandi út í hinum stóra heimi og það er ekkert að marka þá við höfum Google til að afla sjálf heimilda og hrekja lygina. Já, prófið bara að slá þar inn leitarorðin Google buys Iceland og fáið upp sannleikann um hvernig Ísland hefur verið keypt upp. Þar stendur:
"Iceland is not known for the strength of its information technology sector. It is, however, a forbidding, sulfurous, isolated place which would be perfect for a secret fortress, say industry observers. Many suspect Google of seeking a sutiable location in which to build a high-technology hideaway "with dark and pointy towers," free from international law."

En það er náttúrulega gríðarlega móðgandi að þeir skuli grínast með Ísland eins og eitthvað afturhaldsríki varðandi Internetið, við sem erum svona framarlega biggrin.gif

En ég man eftir þegar ég var við nám í Iowa í Bandaríkjunum þá birtist í stúdentablaðinu grein um Björk og það var svona hneykslunartón, það væri allt of mikið látið með þetta furðufrík sem kæmi frá "obscure island in the middle of nowhere that nobody ever heard of". Ég var náttúrulega mjög móðguð. Man þetta ekki vel alla fréttina en bara orðið OBSCURE... hmlrrrrrrr... ég er ennþá reið út af því

Þetta er svona viðhorf eins og í nútíma vesturíslenska unglingnum sem býr í USA og sendir okkur tóninn til Íslands í dag:
"...... fattid thid thad i alvorunni ekki ad thid buid a omerkilegri eyju sem skiptir engu mali fyrir restinni af heimunum? er einhver til sem er ekki islendingur sem finnst islendingar vera blomstrandi i tonlist og menningu? farid allir saman til helvitis og kafnid i eigin aelu, thid sem teljid thad merkilegt hversu margar hljomsveitir seu a storreykjavikursvaedinu, eda haldid ad sigurros meikid se klart takn um thad ad islendingar hafi upp a goda tonlist ad bjoda. thid erud ekkert skarri en fiflin sem bua i heimabae michael jackson og finnst thad spennandi, eda folkid i L.A. sem selur kort sem syna hvar "fraega folkid" a heima i hollywoood...." (sjá http://www.folk.is/sindrieldon )

Annars var ég búin að vera mógðuð í áratugi yfir að Ísland væri kallar "obscure island" en verð að viðurkenna að ég vissi aldrei hvað það þýddi, hélt að obscure væri eitthvað niðrandi dónaorð. Nú datt mér í hug að fletta því upp á Netinu og ég sé nú ekkert neikvætt í því orði - það þýðir held ég frekar hulið sjónum, eitthvað sem er erfitt að finna.
Hulduland eða yfirskyggður staður.

20.12.04

Fréttir frá Ísafirði
Mig dreymdi Ísafjörð og Vestfirði í nótt. Mig dreymdi að ég væri að fylgjast með fréttum þaðan, eitthvað sem mér fannst stórkostlega merkilegt. Þetta tengdist samt ekki snjó, frekar eldi og fólki. Það var einhver tómleikatilfinning að vakna og uppgötva að þetta var draumur. Engar fréttir. Þegar ég kom frá Skagafirði í gærkvöldi fór ég beint í laufabrauðsskurð. Þar var ein frænka mín sem sagði fréttir frá Suður-Ameríku.

Þegar við ókum norður var snjór yfir öllu, fimmtán stiga frost og heiðskírt. Við vorum á tveimur bílum og keyrðum beint inn í líkfyldina sem var á leið frá Sauðárkróki að Silfrastaðakirkju. Skrýtið af því við vorum einmitt komin norður í kistulagningu og líkfylgd. En ekki þessa - þetta var líkfylgd Guðmundar á Egilsá. Hann dó sama dag og Gísli og var líka jarðsettur sama dag. Sama dag dó einnig ungur maður á Sauðárkróki, hann fannst örendur í brennandi húsi. Við fórum í kistulagningu á Sauðárkrók og fylgdum svo líkbílnum eftir að Miklabæ. Við Kristín sofnuðum á leiðinni og þegar við vöknuðum sáum við glitrandi stjörnur á himni og uppljómaðan krossinn á kirkjunni í hliðarspeglinum. Daginn eftir var jarðarförin og svo erfidrykkja í Héðinsminni. Við fórum í heimsókn til Önnu og Sindra í Brekkukoti á leiðinni suður.

16.12.04

Leiðir sem skerast - um lífið og dauðann

Þegar saga er sögð í bíómyndum er síminn oft notaður til að klippa á milli sena - til að sýna samband á milli persóna þó þær séu á sitt hverjum stað. Ég festist alltaf við að skoða símann og hvernig símtalið er og gleymi söguþræðinum um stund. Bílar og ökuferðir eru notaðar til að tákna hvernig persónur fjarlægjast eða nálgast. Hvað skyldi það tákna ef mann dreymir síma eða bíla? Það er eins og í lífinu sjálfu sé sími og bifreið tákn fyrir ferðalög í tíma og rúmi.

Í sumar var ég út í París kvöldið fyrir Bastilludaginn. Ég var að koma út úr neðanjarðarlestinni við Bastilluna þegar síminn minn hringdi. Þar sem Bastillan stóð er alltaf dansað á torginu fram á nótt þennan dag. Í símanum var íslenska lögreglan. Tilkynnti mér að keyrt hefði verið á bílinn þar sem hann stæði kyrrstæður á bifreiðastæði við Landsspítalann. Ég var undrandi, skyldi ekki af hverju bílinn var þarna. Daginn eftir náði ég í Ástu og fékk þá að vita að Embla og Ingó hefðu fengið bílinn lánaðan til að keyra á fæðingardeildina og þennan dag fæddist Úlfur sonur þeirra. Einhver hafði svo keyrt á bílinn í bílastæðinu og haft samband við lögregluna.

Svo var það seint um kvöld 12 nóvember síðastliðinn að ég er að sækja Emblu í Kópavoginn, Magnús og Ásta eru í bílnum og þar er hálka og snjókoma. Þegar við komum þangað bíðum við um stund í bílnum því Embla er svæfa Úlf og Ingó sýnir Ástu fyrsta eintakið af Brennunni sem hann hafði þá fengið í hendur. Síminn hringir og það er systir mín. "Ég lenti í árekstri, ég er heppin að vera á lífi - ég get ekki talað meira", hún sagði mér staðinn, það var á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns og ég lofa að koma þangað. Embla kemur inn í bílinn og við ökum á stað. Það er glerhált og ég er hrædd að keyra og kvíði aðkomunni á árekstrarstað. Hlusta annars hugar á þegar Embla segir Ástu frá því að bróðir Ingó hafi verið hættulega veikur, hafi fengið sýkingu í hjarta. Við komum niður í Borgartún einmitt þegar dráttarbíll er að draga bílinn í burtu, það er búið að draga hinn bílinn í burtu og það er bara lögreglan og systir mín á staðnum. Hún hafði verið á leiðinni til mín að sækja ferðatösku.

Í morgun þegar ég var að semja minningargreinina um Gísla las ég í Morgunblaðinu minningargrein um bróður Ingós.

15.12.04

Þegar raunveruleikinn er settur á svið

Núna er nýkomin sérstök rás á breiðbandið sem heitir Reality TV en sviðsettur raunveruleiki er ekki bara á þeirri rás. Ég held að svona frásagnir séu tjáningarform sjónvarpsins í dag og sennilega eitt vinsælasta sjónvarpsefnið. Ég horfði í gærkvöldi á þátt á einni dönsku stöðinni - það var heimildarmynd um heimildarmynd um raunveruleikann. Það var dauðastríð Lance Loud. Árið 1971 er Lance eitt af börnunum í fjölskyldu sem verður fyrsta raunveruleikasjónvarpsfjölskyldan. Fjölskyldunni var fylgt eftir af sjónvarpsmönnum í sjö mánuði og árið 1973 eru þættir um hana sýndir í bandarískum sjónvarpsstöðvum. Foreldrar Lance eru að skilja og hann sjálfur að koma út úr skápnum. Hann er fyrsti homminn sem kemur út úr skápnum í útsendingu og ræðir opinskátt um kynhneigð sína. Tíu milljónir horfa á þættina og þeir vekja mikla athygli og hneykslun. Lance verður frægur. Og það sem hann á eftir ólifað þá er hann frægur fyrir að vera frægur.

Helstríð Lance Laud er kvikmyndað, hann er kominn á líknardeild og kveður líf sitt og horfir yfir ævina, hann er að deyja úr eyðni og lifrarbólgu C en hann dettur aldrei út úr gervi. Hann er fyrirmynd, hann er tákn. "I also stand as a role model as to what not to do in one’s life" segir hann og það er varpað upp svipmyndum úr ævi hans, við sjáum lífsglaðan ungling á hjóli, uppreisnarmann í vafasömum félagsskap, poppara í hjómsveit, steratröll, rithöfund við tölvu, fársjúkan og tálgaðan mann á banabeði.

En það er eins og frægðin hafi yfirskyggt allt líf hans og hann lifði á því að vera frægur. Og á því að selja sig. Í frásögn Jim Fouratt um Lance Laud segir "Disco hit, Studio 54 was the place to be. Lance still was a recognizable celebrity and he was welcomed. Like many of the Studio 54 youth, he became a working boytoy for what has become known as the Velvet Mafia. Then it was the 80s and Lance had stopped performing as a musician and discovered the gym and cocaine. AIDS hit NYC and he moved back to California, to LA to become a writer. And so had some of the Velvet Mafia, so he continued with his survival work. West Hollywood and Silver Lake were his turfs. He was both a WeHo gym bunny/escort and a Silver Lake rock and roll fag. "

Á meðan ég horfi á myndina þá rennur það upp fyrir mér hversu mikil blekking líf Lance Laud í útsendingu er. Ungmennið sem brakar af lífsgleði á skjánum er djúpt sokkinn fíkill og stríðir við þunglyndi. Massaða vöðvatröllið sem ljómar af hreysti er felubúningur til að dylja veikindi því þá hefur hann veikst af Aids.

Lance Laud sagði: "Television ate my family" og hann sökk djúpt og var mörg ár ævi sinnar að leita að sjálfum sér. Þegar ég horfi á hans síðustu daga og boðskap hans til heimsins þá finnst mér eins og hann hafi ekki fundið það sem hann leitaði að. Persónan í sjónvarpinu er gríma- eins og hann vildi vera og eins og áhorfendur vildu sjá.
En var nokkuð bak við grímuna?

13.12.04

Íslenska sveitin

Einu sinni var íslenska sveitin í hugum okkar Skagafjörður og alltaf þegar við komum yfir Vatnsskarðið og horfðum niður á sléttuna og inn í dalina þá snýr Magnús sér að mér glaður í bragði og segir: "Það er alltaf sól í Skagafirði". Og svei mér ef það er ekki rétt, það er alltaf sól einhvers staðar í firðinum, ég held að það sé vegna þess að víðáttan er svo mikil að fjörðurinn spannar mörg veðurbelti. Það er sama þó það sé þykk þoka á láglendinu það stirnir alltaf á einhvern tindinn á Tröllaskaga eða einhvers staðar er rof á skýjahulunni sem sólarljósið smýgur í gegnum.

Magnús er frá Vöglum í Blönduhlíð, bæ sem er svo langt upp í hlíðinni að mér finnst hann alltaf vera upp á fjalli og afleggjarinn að bænum frá þjóðvegi númer 1 er langur, ekki bara í kílómetrum heldur líka í tíma. Það er eins og að fara inn í annan heim að koma þangað en samt er sá heimur ekki framandi. Ég þekki aftur það Ísland sem einu sinni var alls staðar og sem ég kynntist gegnum minningar móður minnar og annarra af íslensku sveitinni, það Ísland sem núna er varðveitt til í bæjum sem eru fjarri alfaraleið.

En svo umhvolfðist heimsmyndin 11 september 2001 og Magnús bóndasonur úr Blönduhlíðinni fór í friðargæslu til Afganistan sumarið sem Kristín fermdist og svo aftur núna í ár. Hann var eini Íslendingurinn fyrra sumarið en þá var hann þar í sex mánuði og lenti í ýmsum háska. Í sumar var hann í íslensku sveitinni sem nú taldi sautján manns og vann við flugvöllinn í Kabúl. Flestir Íslendingarnir voru flugumferðarstjórar eða slökkviliðsmenn, Magnús var eini verkfræðingurinn. Fyrstu vikurnar voru með þeim kvikmyndatökumenn sen unnu heimildarmynd um Íslendinganna og við fórum 2 desember á frumsýningu á kvikmyndinni Íslenska sveitin Þetta var góð heimildarmynd og lýsti að ég held lífinu þarna á raunsannan hátt. Reyndar ef til vill ýkjusögu, hetju- og ofurhugasögustíl ... mér finnst eins og að í gegnum frásagnir Magnúsar þá hafi vistin á flugvellinum ekki einkennst af þeim hraða og spennu og framkvæmdum sem er í frásögninni í myndinni. En ég held að persónusköpun sé góð og það sé lýst á raunsannan hátt hvernig hópur af Íslendingum kemur í framandi umhverfi í sundursprengt múslímaríki þar sem stríðsástand ríkir og tekur að sér framandi hlutverk og ber vopn.

Magnús leikur sjálfan sig í myndinni og hann kemur alla tvisvar einn í viðtal á skjánum - og í bæði skiptið er hann bóndasonurinn sem hugar að uppskerunni og ástandi jarðarinnar. En það sem hann segir eru döpur sannindi. Hann segir frá því hve ópíumframleiðslan hafi margfaldast í Afganistan og hann segir frá því hvernig sífellt gengur á grunnvatnið í landi sem nú er orðið skóglaust og bert eftir langvarandi stríðástand. Og Magnús á lokaorðin í kvikmyndinni um íslensku sveitina í Afganistan. Myndin endar á því að rödd Magnúsar segir með klingjandi skagfirskum hreim: "Það er alltaf sól og blíða".

9.12.04

Sniðugt bloggkerfi - MSN Spaces
Ég var að prófa glænýtt bloggkerfi hjá MSN og bjó til blogg: http://spaces.msn.com/members/salvor/
Þetta er að mörgu leyti sniðugt kerfi, það er ókeypis og sennilega eitt það besta fyrir byrjendur. Því miður er ekki hægt að íslenska viðmótið, ég fann ekki út úr því. Það er einfalt að setja inn myndir (10 mb hámark í fríu plássi) og setja upp sjálfspilandi myndasýningar. Ég setti inn myndaalbúm af Kristínu sem hármódeli. Þetta bloggkerfi býr líka til RSS og tengist MSN þannig að það sést í MSN hvenær bloggið var uppfært. Þetta er Beta útgáfa þannig að ef til vill verður þetta betra. Það á að vera hægt að uppfæra bloggið í tölvupósti en ég er ekki búin að prófa það.

Ég spái því að þetta framtak MSN verði til þess að bloggurum fjölgi verulega í heiminum, sums staðar eru nefnilega fáir sem vita hvað blogg er, hér á Íslandi virðast flestir yfir tíu ára hafa bloggað einhvern tíma og íslensku vefsvæðin folk.is, blogcentral.is, hexia.net, simblogg.is og fleiri eru vinsæl. Blogger hefur samt verið vinsælastur og það var til marks um ógurlegar vinsældir bloggsins að það hafa verið búin til yfir milljón blogg þar. En möguleikar á MSN eru gríðarlega miklu meiri það eru 360 milljónir í heiminum sem nota MSN í hverjum mánuði og bloggið er ekki enn orðið eitthvað sem allur almenningur í heiminum gerir. Ég sá í Yahoo grein að samkvæmt Pew Internet and American Life Project hafi 6 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna búið til blogg en 17% lesið blogg annarra.

Staffið hjá MSN Spaces bloggar og þar má fylgjast með þróuninni. Hér er 14 mín. vídeóklipp Demo of MSN Spaces það er hjá
Boingboing hefur prófað MSN Spaces og líkar ekki hvað MSN telur dónaskap

Ég fann þessa ágætu mynd hér fyrir neðan á MSN spaces


7.12.04

Remix er hið stafræna listform nútímans
Eftir að ég endurskapaði sjálfa mig sem "remix artist" fyrir nokkrum dögum þá hef ég verið að lesa um REMIX sem listform. Við Remix listamenn verðum að taka okkur alvarlega, það skiptir samt ekki máli þó enginn annar geri það. Ég hef ekki fundið neitt á íslensku, reyndar held ég að bókin Níu þjófalyklar eftir Hermann Stefánsson sé soldið í þessum anda.
En hetja remix listamanna er Danger Mouse, sniðugur strákur sem blandaði saman svörtu og hvítu og fékk út grátt. En þá gránaði gamanið því svoleiðis list er bönnuð í dag.

Fóður fyrir remix listamenn:
Radio Show: The Creative Remix, by Benjamen Walker
tvær hljóðskrár, yfir 100 mb af eðalefni.
http://www.negativland.com/nobiz/ það er hægt að syngja og tralla með í þeim tveimur lögum sem komin eru, "there is no business like stealing..." og "downloading."
http://www.downhillbattle.org Músíkaktívistar

6.12.04

FACE REALITY er mitt Quarashi remix

Það er ömurlegt að hlusta á textann í mörgum hip hop og rapp textum og hjá mörgum þeim músíkböndum sem vinsælust eru í dag. Ég held að hið illræmda árshátíðarlag MR um stúlkuna með brund í hárinu - lag um stúlku í menntaskóla sem mætir á árshátíðina, strippar, deyr í áfengis- eða dópvímu og strákarnir taka heim til sín og hafa mök við - sé enduróm frá tónlistarmyndböndum sem þessi kynslóð hlustar á. Sama kvenfyrirlitning er áberandi í fjölmörgum af textum þeirra hljómsveita sem nú eru vinsælastar. Hljómsveitin Quarashi sem núna er með remix samkeppni á vefnum er þar engin undantekning. Ég tók þátt í þessari remix samkeppni og sendi inn eitt remix úr textum frá Quarashi. Mitt remix er unnið út frá hughrifum af árshátíðarlagi MR.
Þetta remix sem ég skýrði FACE REALITY eða Horfðu í augu við raunveruleikann tekur einn bút úr lagi með Quarashi, bút þar sem flytjandi ávarpar stúlku sem hann hefur verið í sambandi við. Hér er tenging í kosninguna sem nú stendur yfir á mbl.is: http://www.mbl.is/mm/folk/quarashi-kosning.html


Reyndar gekk svolítið erfiðlega að fá mitt remix samþykkt í keppnina. Ég þurfi töluverð bréfaskipti til þess. Hákon á rokk.is skrifaði og sagðist hafa verið 99.9% viss um að það væri ekki ég að senda inn heldur einhver í mínu nafni.

Skilgreining á remix er þessi:

The Remix: An appropriation from a source in which there is invervention and transformation of the original intent. Often cultural content such as newspapers, radio programs, television, Internet is recombined to form new context. There is often strong political objective in the remix, particularly when there is cultural content.

En það er erfitt að horfast í augu við raunveruleikann því það er eins og að vakna upp og horfa á hryllingsmynd. Adam Horovitz í bandinu Beastie Boy orðar það svo: "Sexism is so deeply rooted in our history and society that waking up and stepping outside of it is like I'm watching "Night of the Living Dead Part Two" all day everyday."