30.9.05

Ég er fjölmiðlahóra

dv-forsida30sep-05-050930Svona til að gleyma ekki íslenskunni og halda sambandi við gamla landið þá spjalla ég stundum við vini mína málverjana og núna fyrir nokkrum dögum þá stofnaði ég þráðinn Götuvændi - vídeóklipp úr hverfinu þar sem ég bý, ég er nefnilega nýbyrjuð að taka upp svona vídeóklipp og birta á youtube.com vefnum, það er þrælsniðugur vefur sem gerir það sama fyrir vídeóklipp og flickr.com fyrir myndir. Ég er sérstaklega hrifin af svona kerfum sem eru svona folksomeries eða social bookmarks þ.e. notendurnir sjálfir setja efnisorð (tags) á sín innlegg og innleggin tengjast eftir efnisorðum - þekkingarkerfin eru búin til með þessum hætti. Del.icio.us kerfið er eitt þekktasta dæmið um slík kerfi.

En það gekk bara vel að blása eldi í umræðu um götuvændi á málefnunum, seinast þegar ég skoðaði voru komnar 3479 flettingar og 158 svör á þennan þráð. Ég kíkti aðeins á umræðuna áðan og sé þá mér til mikillar furðu að þráðurinn hefur ratað á forsíðu DV í dag og það með nokkuð furðulegum hætti.

Það stendur á forsíðunni "Systir Hannesar Hólmsteins fylgist með götuvændi í Barcelona" og að sögn málverja (þeir eru eina heimild mín um fréttir á Íslandi) þá er viðtal við bróðir minn inn í blaðinu. Þetta er nú með því skrýtnara.

En ég náttúrulega samstundis tók afrit af forsíðu DV og skellti inn í myndasafnið mitt í Flickr (já, veit... á gráu svæði höfundarréttarlaga...nei...kolbikasvörtu..) það er ekki svo oft sem ég er á forsíðum blaða og ég er fjölmiðlahóra... eða mediawhore eins og það heitir á alþjóðatungumálinu ensku. Ég hef lengi verið fjölmiðlahóra, alveg frá því ég fann einmana "tag" á flickr.com frá bloggaranum Kottke sem hann hafði einmitt skráð með efnisorðinu "mediawhore". Núna set ég myndir af greinum eða pistlum þar sem talað er um mig inn á flickr myndasafnið mitt og nota efnisorðið "mediawhore" og það eru komnar nokkrar myndir frá mér og öðrum inn í fjölmiðlahórusafnið. Bæði fannst mér þetta sniðugt, það er miklu einfaldara fyrir mig að geyma fjölmiðlaumfjöllun svona og svo er ég líka í hóp á flickr.com sem heitir Flickr Tag Orphan Rescue Society en það er leikur sem gengur út á að finna einhverja mynd á Flickr sem er einstæðingur þ.e. hefur verið skráð með efnisorði (tags) sem engin önnur mynd hefur.

Ég hef bjargað tveimur "tags" á flickr frá því að vera einstæðingar, það eru orðin "mediawhore" og "hackability".

Það er náttúrulega sérstaklega sniðugt að setja tagið "mediawhore" á fjölmiðlaumfjöllun um vændi.

23.9.05

Vídeóblogg - Götuvændi í Barcelona

Núna er ég búin að vera næstum þrjár vikur í Barcelona. Ég var á spænskunámskeiði í tvær vikur og því lauk í gær. Ég bý í Sant Antoini hverfinu og geng nokkrum sinnum á dag eftir Sant Antoini breiðstrætinu. Þar er fullt af tölvuverslunum og sérverslunum sem selja nýjustu stafrænu og rafrænu tækin, alls staðar er merki um hið þróaða og tæknivædda neyslusamfélag í Barcelona og þá velmegun sem hér ríkir. En á götunni fyrir utan híma vændiskonur, oft nálægt inngöngum í tækjaverslunirnar. Þær eru þarna allan daginn og mér virðist þetta alltaf vera sömu konurnar og alltaf á sama stað. Í gær sat ég um stund rétt eftir hádegi á t0rgi sem er við götuna. Þar var hópur af kornungum vændiskonum, þær sömu og eru þar alltaf. Þær virðast vera á aldrinum 15-17 ára og ég heyrði að þær töluðu allar rússnesku. Það kom fram í sjónvarpsþætti sem var í spænska sjónvarpinu í vikunni að það eru hundruðir þúsunda vændiskvenna á Spáni og að minnsta kosti 80% þeirra eru ólöglegir innflytjendur.

En ég er að gera tilraun með að lýsa því sem ég sé á götunni með vídeóbloggi. Ég geng bara eftir götunni með myndavélina stillta á upptöku. Hér eru tvö vídeóklipp sem ég tók af götuvændinu í Barcelona, önnur tekin á Sant Antoini en hin á götunni Calle Ramon. Það nægir að smella á ásinn fyrir neðan myndina til að keyra vídeóbloggið.

Hér er San Antoini in the afternoon


Hér er Calle Ramon

1.9.05

Bloggfrelsi og rassálfar

Rassálfar Það passar að rísa upp úr bloggdái núna í septemberbyrjun. Það næðir líka núna um sum blogg, nemendurnir hennar Hörpu á Akranesi kunna ekki allir að meta mergjaðan ritstíl hennar og DV og barnaland.is enduróma það.

Harpa hefur vakið athygli á nýjum kynkvistum álfa en það eru svonefndir rassálfar. Þessi áður óþekktu álfar munu núna vera að hefja framhaldsskólanám og aðferðir þeirra við þekkingarleit eru ekki alls kostar að skapi Hörpu. Ég held að hérna sé á ferðinni RSS kynslóðin upprennandi og það er kannski bara sniðugt að kalla þau rssálfa. Þau munu bráðum læra að láta þekkingu eða ómenningu streyma til sín í litlum lækjum úr þeim miklu starfrænu elfum og úthöfum sem renna um netheima.

En það er gott að á Íslandi sé ennþá bloggfrelsi og það er betra að það gusti um blogg heldur en að tjáningin sé heft eins og sums staðar í heiminum. Ég var áðan að fletta upp bloggi eins kínverks bloggara sem ég kynntist á Wikimania ráðstefnunni í Frankfurt í sumar, hann heitir Isacc Mao og bloggið hans er ritskoðað af kínverskum stjórnvöldum. Hann flutti einmitt erindi um þann veruleika sem kínverskir netverjar búa við í dag. Ég fæ svona upp þegar ég skoða bloggið hans núna: "Not isaacmao.com isaac's backup site. If you were redirected from accessing www.isaacmao.com, it means the isaacmao.com is still being blocked".
Ég vil vekja athygli Íslendinga á þessu, sérstaklega forseta vors því hann er í miklum og góðum samskiptum við Kína og getur kannski bent kínverskum stjórnvöldum í næstu kurteisisheimsókn kurteislega á að það sé kannski allt í lagi að leyfa gáfuðum hugsjónamönnum eins og Isacc Mao að tjá sig. Það skiptir ef til vill ekki máli að ég tjái mig um hömlur á málfrelsi í Kína, hversu mikils má rödd eins hrópanda úr eyju út í Atlandshafi gagnvart hinum voldugu kínversku stjórnvöldum en ég ætla samt að halda því áfram eins og ég hef gert árum saman. Ég held að það sé bara um að gera að sem flestir tjái sig um þetta og láti sig þetta varða. Kannski hlustar þá einhver um síðir. Hér eru nokkrar greinar frá mér um efnið:

blogg í Svíaríki og Kína 2005
kínverski eldmúrinn 2004
tjáningarfrelsi, bloggfrelsi 2003
Internetlögga í Kína 2002

Megi Harpa á Íslandi og Isacc í Kína tjá sig sem opnast og greiðast á Internetinu.