22.10.05

Kínversk lokun á Wikipedia

Kínversk stjórnvöld hafa í sumum héruðum lokað fyrir aðgang að alfræðiritinu Wikipedia Lokunin hefur staðið frá 18. október sjá nánar greinina Online encyclopedia Wikipedia censored (Reporters without Borders, 21 október 2005). Kínversk stjórnvöld hafa áður lokað aðgangi að Wikipedia, það var í júní og september 2004.

Ég var að fletta upp í Reporters without Borders til að athuga hvort þar væri umræða um svipuð málferli og þau sem Jón Ólafsson, búsettur í Bretlandi höfðaði gegn bróður mínum. Ég gúglaði líka um málið og fékk upp m.a. þennan áhugaverða pistil á kínversku:

Ég skil nú lítið nema mannanöfnin í þessum pistli en það er gaman að sjá hvað Kínverjar fylgjast vel með hömlum á ritfrelsi og tjáningarfrelsi á Íslandi, sennilega telja þeir sig geta lært á því. Það er svo bara trix hjá mér að setja þennan kínverska pistil hérna inn, það er til að draga að mér athygli kínverskra leitarvéla, þessi bloggfærsla er beinlínis skrifuð í því augnamiði að ná til kínverskra stjórnvalda og sýna að fréttir af ritskoðun í Kínaveldi berast strax í alla afkima og afskekktar eyjar á jarðkringlunni.
Jafnvel til Íslands.

20.10.05

Untitled

Flock - nýr open source vafri

Ég er núna að prófa nýjan vafra sem byggir á Firefox. Þessi vafri heitir Flock og hann er oft nefndur sem dæmigert web 2.0 verkfæri. Það er mjög sniðugt að sjá hvernig blogg er partur af vafranum, þetta virkar með blogger, typepad og wordpress. Það er líka mjög auðvelt að ná í flickr myndir og del.icio.us bókamerki. Mér sýnist þetta vera vafri sem smellpassar fyrir mig, ég nota hvort sem er þessi kerfi öll mikið. En þetta er í beta útgáfu og sennilega töluvert í land að allt virki vel. Ég setti inn mynd úr flickr með að draga hana svona inn.

Flickr Photo

Þessi Flock tilraun heppnaðist mjög vel. Flock vafrinn virðist góð endurbót við þá vafra sem ég nota þegar. Sennilega verða vafrar svona í framtíðinni. En ég fann grein á Wired um Flock Killer Buzz Flocks to New Browser og aðra grein í BusinessWeek Online Flock, the New Browser on the Block Þessi útgáfa sem ég prófa er Flock o.5 preview sem kom fyrst út í dag.

Harpa Sjöfn heitir nú Flügger

Það stóð í Mogganum í dag. Líka að Flügger verslanir eru allar skipulagðar með sama sniði og innréttaðar í sama stíl hvar í heiminum sem er og viðskiptavinir geta gengið að vörunum vísum hvar sem þeir finna Flügger verslun. Svo styrkir það vörumerkið að allar verslunir heiti það sama.

Við sogumst hratt inn í heim alþjóðavæðingar en samt tökum við ekki eftir því .. nema eitthvað verði til að við mælum breytingarnar eða tökum eftir breytingum sem verða á þekkingarlandslagi og leiðarkerfi okkar. Ég fór á erindi um alþjóðavæðingu í gær, einn fyrirlesarinn benti á að það mætti fylgjast með alþjóðavæðingunni á því að skoða veitingahúsin á Íslandi, hvaða vörumerki séu komin hingað. Þegar Sovétríkin liðuðust sundur og vestræn fjármálahugsun lagðist yfir Rússland þá man ég að það var stórfrétt í alþjóðapressunni þegar fyrsti MacDonald staðurinn opnaði í Moskvu, sagt frá því að eins og mikilvægum áfanga í frelsisátt.

En það eru ekki bara veitingahúsin sem eru vísbending um breytt landslag, það eru líka skiltin og verslunaheitin sem spretta upp núna á ensku. Vegmerkingar eru núna komnar á ensku, það stendur stórum stöfum BUS á nýrri rák fyrir strætó á breiðgötum borgarinnar og ungviðið talar einhvers konar ísl-ensku í sinni msn-gsm-sms veröld. Það verða alltaf fleiri og fleiri sem tala ensku í vinnunni. Enska verður smán saman vinnumálið, án þess að maður taki eftir því - fyrst þannig að stór hluti af vinnunni eru erlend samskipti og svo seinna þannig að allt upplýsinga- og skjalakerfið verður á ensku. Við erum nú tvítyngdu samfélagi þar sem enska vinnur á sem samskiptamál í atvinnulífi og reyndar öllu okkar lífi og íslenskan hopar.

Ef þróunin heldur áfram í sömu átt og með sama hraða þá bendir margt til þess að íslenskan muni smán saman hverfa, kannski ekki hverfa alveg, kannski verða svona skrautmál til að yrkja ljóð og minnast gamalla tíma og halda upp á fjölbreytni heimsmenningarinnar en verða ónauðsynlegt og óhentugt verkfæri í alþjóðavæddu daglegu lífi okkar.

Það er samt skrýtið hvað alþjóðavæðingin gengur á misvíxl, að mér virðist fyrir tilverknað stjórnvalda. Það er skrýtið hvað almenningi eru settar strangar skorður með athafnarými, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi á sama tíma og fjármagn getur flætt eins og vatn yfir öll lönd og landamæri. Það er bara fyndið að sjá öll þessi ensku vörumerki í landi þar sem þegnarnir mega ekki heita enskum nöfnum, já þar sem þegnarnir verða bara að heita nöfnum sem eru á sérstökum samþykktum lista yfir lögleg skírnarnöfn.

Kannski breytist samfélagið ekki mikið með svona alþjóðavæðingu, kannski er það bara umgjörðin sem breytist. Fólkið er eins og málningin er eins. Kannski verður eins að mála heiminn með svona Flügger litum og kannski verður eins auðvelt að þvo burt Flügger málningu.

19.10.05

Jakob Nielsen skrifar um blogg

Það hlaut að koma að því, Nielsen "usability" gúrú er farinn að tjá sig um blogg. Hann hefur sett saman þennan lista: Weblog Usability: The Top Ten Design Mistakes , frekar skynsamlegt flest og naumhyggjulegt eins og allt sem frá honum kemur en sumt er þó bara út í hött, hann segir t.d. " Having a weblog address ending in blogspot.com, typepad.com, etc. will soon be the equivalent of having an @aol.com email address or a Geocities website: the mark of a naïve beginner who shouldn't be taken too seriously." Hvað heldur hann eiginlega að hann sé? Það er þrælfínt að hafa blogg hjá blogspot eða typepad og það eru einmitt margir bloggarar sem vilja vera í þessum alþýðlegu miðlum, blogger er taltól alþýðunnar og það eru svo margir sem nota það verkfæri. Það er flott og grasrótarlegt hjá einstaklingum að hafa blogspot blogg. Það kostar nú reyndar ekki nema nokkra dollara á mánuði að hafa sitt eigið lén og það er nú sennilega sniðugt til lengdar, það er reyndar hægt að hengja eigið lén bæði á blogger og typepad.

18.10.05

Tjaldborg eða netbúðir sem námstæki

Ný tegund af óformlegum þingum eða ráðstefnum CAMP sem eru núna mikil tíska í tölvunördaheiminum, ekki síst hjá þeim sem þróa saman open source kerfi. Þekktasta dæmið um svona tjaldborgarráðstefnur eða netvinnubúðir er Foo-camp en hér er frétt á cnn.com um hvað fór fram á fyrsta Foo-camp árið 2004. When geeks go camping, ideas hatch.

Ég fór á Wikimania 2005 í Frankfurt síðasta ágúst, þar var svona CAMP stemming, ráðstefnan var haldin á farfuglaheimili og bara boðið upp á svefnpokapláss. margir saman í herbergjum en alls staðar súper nettenging. Það hefði náttúrulega líka verið stílbrot að vera á einhverju lúxushóteli að tala um verkfæri eins og Wikipedia. Enda líta Wikipedians á sig sem frelsisher netalþýðunnar og aðalgúrúinn opinberaði líka wikiboðorðin tíu á ráðstefnunni.

Á Wikimania var hefðbundin ráðstefnudagskrá og ég var þar með hefðbundið ráðstefnuerindi en áður en ráðstefnan hófst voru þar sem kallað er "hacking days" þar sem hundruðir nörda komu saman og leystu og ráðslöguðu um vandamál. Ég tók ekki þátt í því en held að stemmingin þar hafi verið eins og á "foo-camp". Stemmingin á Wikimania var allt öðru vísi en vanalega gerist á ráðstefnum sem ég fer á, ég held að það sé vegna þess að margir sem starfa við Wikipedia líta á sig sem "social activists" og líta á Wikipedia starfið sem þjóðfélagshreyfingu og eru miklir baráttumenn fyrir open source og opnum þekkingarkerfum. Ross Mayfield skrifaði ágætan pistil um Wikimania.

Hugmyndin með svona "camp" eða vinnubúðum er að það er engin dagskrá - dagskráin er bara búin til á staðnum eða rétt áður og uppskriftin er: Kallaðu saman stóran hóp snillinga sem hafa margt sameiginlegt, láttu þá tjalda á svæðinu og koma sér fyrir í notalegum fíling og logga sig inn í þráðlaust háhraða netsamband. Sjáðu svo til hvað gerist.... og það virðist margt gerast.

Hugmyndin er að brjóta niður múra milli þeirra sem vita (fyrirlesara/kennara) og þeirra sem hlusta (áheyrendur/nemendur), hugmyndin er að búa til námsumhverfi/námshóp sem stýrir sér sjálfur. Eða eins og segir í leiðbeiningum til þeirra sem fóru á Foo-camp:
"...Breaking the traditional barrier between The Ones Who Know (the presenter/teacher) and The Ones Who Listen (attendees/students) was surprisngly easy to implement... there were NO pre-arranged sessions. There was, however, a giant board that looked like a conference schedule--complete with rooms and times--except the session topics were blank! It was up to the campers to fill them in. A self-organizing learning experience"

Svo hafa komið nokkrar eftirmyndir af foo camp (foo camp er bara fyrir boðsgesti og það þykir merki um að þú sért með þeim færustu í heiminum ef þér er boðið) sem eru með opnari aðgangi fyrir alla. Barcamp http://barcamp.org er fyrir þá sem vinna við að þróa open source kerfi og tæknikerfi ýmis konar og Tag Camp http://tagcamp.org fyrir þá sem spá mikið upp á lýsigögn (metadata, tagging).

Reyndar finnst mér þessi hugmynd CAMP vera ansi svipuð og notuð hefur verið áratugum saman í Roskilde Universitet í Danmörku. Mér virðist flestar svona ráðstefnur tölvunörda í dag vera með myndasafn á flickr.com, hér er myndasafnið um Wikimania, ég á töluvert margar myndir þar.
Blogg og breiðband á Íslandi

Ég vil benda öllum sem hafa einhverjar upplýsingar um íslenska bloggsamfélagið og breiðbandsvæðingu á Íslandi að skrá sínar upplýsingar inn í tvö wiki hjá Socialtext. Það er til sérstakur wiki um evrópska bloggheiminn sem heitir LoicLeMeur Wiki: The European blogosphere , þar hef ég bætt við vefsíðu um blogg á Íslandi. Núna nýlega var stofnaður wiki um breiðbandsvæðingu í heiminum Broadband Planet Wiki og þar hef ég byrjað á vefsíðu um íslenska breiðbandsvæðingu.

Svo vil ég benda öllum sem hafa tekið saman eitthvað fræðandi efni sem þeir vilja að aðrir njóti á að kannski passar það inn í íslenska alfræðiritið http://is.wikipedia.org sem er íslenski hluti af Wikipedia. Hver sem er getur bætt þar við efni.

Svona wikiupplýsingaveitur fara núna eins og eldur í sinu um Netheima og hafa sýnt að þau vinnubrögð að allir geta bætt við og breytt geta alveg virkað vel. Það er líka miklu skynsamlegra að allir leggist á eitt við að lýsa upp heiminn, það sé ekki hlutverk einhverra útvalinna.

Eða eins og þjóðskáldið Jónas orðaði það:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.
En þaðan koma ljós
hin logaskæru
á altari hins göfga guðs.

Hmm.. ef til vill var Jónas ekki að hugsa um wiki og opensource vinnubrögð þegar hann kvað þetta en hann var það er samt næstum öruggt að hann hafði veraldarvíðnetið í huga þegar hann kastaði fram þessari stöku:

Ég er kominn upp á það
- allra þakka verðast -
að sitja kyrr í sama stað
og samt að vera að ferðast.

13.10.05

Betlarabörn í Barcelona

Á mörgum hornum í miðbænum í Barcelona sitja konur með ungabörn og betla. Hér er vídeóklipp sem ég tók af nokkrum þeirra. Ég er að bera saman tvö verkfæri til að setja vídeóklipp inn á vefinn, annars vegar www.youtube.com og hins vegar www.videoegg.com

Þetta virðast hvorutveggja vera aðgengilega kerfi.




Hér er videoegg









If the video does not display properly
click here to upgrade to Flash 8

12.10.05

Bloggarar, lagið straumana ykkar!

Upp á síðkastið hef ég verið að prófa ýmsa fréttalesara og podcasting verkfæri og ég hef tekið eftir einu, það eru sárafáir bloggarar með straumana sína í lagi. Þetta þýðir að vinir ykkar og kunningjar og allir aðrir sem vilja fylgjast með því lífi sem þið varpið út á bloggsíður eru í stökustu vandræðum, vandræðum sem verða meiri og meiri eftir því sem dagarnir líða og fleiri og fleiri fara að vilja bara fylgjast með netpressunni í gegnum lesarana sína. Það mun með tímanum fækka þeim sem leita uppi vefsíðurnar ykkar, fólk vill að efnið frá ykkur flæði beint inn í fréttalesarana sem það hefur uppsett. Þess vegna er miklu, miklu mikilvægara í dag að vera með strauminn sem maður sendir út í lagi heldur en vera með eitthvað punt og glingur á síðunni.

Það er ekkert þjált íslenskt orð sem ég veit um fyrir svona strauma eða útsendingargeisla (feed, RSS feed eða Atom feed), kannski væri sniðugt að nota orðið geislavarp um þetta, eða eitthvað í sambandi við rásir því að fólk þekkir vel útvarp og útvarpsrásir og skilur hvernig maður tjúnar inn á ákveðna rás - en svona straumar eru fréttayfirlit á stöðluðu formi, stundum ítarleg en stundum bara fyrirsagnir á síðustu bloggum.

Það er mjög einfalt fyrir alla sem eru með blogg á blogspot að hafa þetta í lagi. Það eina sem þarf að gera er að velja SETTINGS og þar undir velja SITE FEED og þar er fyrsta spurningin "Publish Site Feed?" og það á að stilla á YES og vista svo þessar breyttu stillingar.
Ef þetta er gert þá býr blogger sjálfkrafa til straum þannig að bloggarinn anna.blogspot.com er með strauminn anna.blogspot.com/atom.xml og reyndar þarf oftast ekki að vita þetta því næstum allir fréttalesarar eru þannig að það nægir bara að slá inn blogspot slóðina. Þeir sem láta hins vegar blogger blogg vistast annars staðar en á blogger verða að tiltaka í hvaða möppu "sitefeed" á að vistast í (sama og blogger) og verða að tiltaka alveg slóðina inn í fréttalesurum. Helst ættu allir að hafa tengil á síðunni sinni sem vísar beint á strauminn, það auðveldar öllum að gerast áskrifendur.

Wordpress býr líka til rss straum og hnapp fyrir það (ég hef samt þurft að breyta því svolítið á mínu wordpress bloggi)

Þeir sem vilja fara einfalda leið, fatta ekki að breyta stillingum í blogger eða eru ekki eru með kerfi sem búa sjálfkrafa til RSS eða ATOM strauma sem fréttalesarar geta lesið ættu að notfæra sér að það er fullt af kerfum á netinu sem brennir svona strauma fyrir fólk og smíðar svona fréttayfirlit. Það nægir að skrá einu sinni bloggslóð t.d inn í feedburner.com þetta tekur enga stund. Ég spái í hvort það varðar eitthvað við höfundarréttarlög að brenna straum með bloggi annars fólks, hér er t.d. bloggið hjá formanni höfunda http://feeds.feedburner.com/Einkaml sem er víðlesinn (hér í merkingunni lesinn á bloggi af mörgu fólki) en hefur eins og margir bloggarar ekki kveikt á straumnum.

Það fer að líða að því að það verði algengara að fólk fylgist með straumum heldur en fólk leiti uppi fréttamiðlana á Netinu. Bloggveitan hans Bjarna sem margir íslenskir bloggarar eru á er náttúrulega dæmi um það og bloggveitan hans Mikka líka. Ég held samt að það hafi ekki verið mjög margir sem nýttu sér að búa til eigin bloggveitu þó að Bjarni hafi fyrir mörgum árum sett á vefinn leiðbeiningar með því. Það var of tæknilegt og mikið vesen fyrir flesta. En nú eru komin verkfæri sem eru miklu, miklu einfaldari, ég hvet alla til að prófa http://www.netvibes.com það er frábærlega einfalt, bara að skrifa ofan í hvað sem er og hver sem er getur sett upp sína eigin fréttasíðu á netvibes með þeim straumum sem viðkomandi vill fylgjast með og þá er líka hægt að skoða sína síðu á öðrum tölvum. Ég er sérstaklega hrifin af svona vefsíðum, ég held að þetta sé framtíðin, ég hef séð wiki síður sem eru svona, það þarf bara að byrja að skrá og breyta öllu og ekkert pæla í neinu. Önnur svona fréttastaumveita sem ég hvet fólk til að skoða er http://www.rojo.com Ég hef hingað til notað http://www.bloglines.com sem bloggfréttaveitu en mér sýnist þessi kerfi vera einfaldari, sérstaklega netvibes. Það er hægt að finna fullt af fréttalesurum á Netinu, bara slá inn newsreaders, hér er listi yfir fréttalesara sem ganga á Makka

Reyndar er Google með svona lesara í beta útgáfu http://www.google.com/reader en það verður að segjast eins er, það kerfi er ekkert spes núna. Hinir þrír risar Google, Yahoo og Microsoft eru núna í óðaönn að búa til netstaði fyrir sitt fólk - og reyndar líka netstaði sem loka á vissan hátt fólk inn í rýmum sem eru sérstaklega tengd þessum fyrirtækjum. Þetta er uggvænleg þróun en það besta sem getu spornað við henni er samkeppni þessara fyrirtækja, og að það verði mörg stór fyrirtæki sem keppa sín á milli. Annars er líka uggvænleg þessi þróun á Íslandi þar sem bloggin hjá litlu krökkunum og unglingunum á blogcentral.is, folk.is og barnaland.is eru notaðir sem peð í fjölmiðlaslagnum sem núna stendur yfir á Íslandi, klikk á bloggsíður eru mikilvæg til að sýna vinsældir fjömiðlavefja og auglýsa upp ákveðna fjölmiðla.

7.10.05

Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

Þegar ég kom heim til Íslands var nýtt mál bróður míns í algleymingi, mál sem ég vissi ekki að væri til. Það virðast öll spjót standa á honum þessa dagana. Öll blöð og ljósvakamiðlar fjölluðu um að hann hefði verið dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði, fyrir að láta að því liggja að íslenskur athafnamaður hafði komið undir sig fótunum á eiturlyfjasölu. Þetta munu vera ummæli sem sögð voru á fjölmiðlaráðstefnu á Íslandi fyrir nokkrum árum og sem voru á íslenskri heimasíðu. Það mun vera til einhver samþykkt(Lugano samningur) sem Ísland er aðili að, sem kveður á um að dómar sem kveðnir eru upp í einu landi séu aðfararhæfir á Íslandi. Það er raunar eðlilegt í fjölþjóðasamfélagi, viðskiptahagsmunir eru ekki bara bundnir við ákveðið landssvæði. En mér finnst skrýtið og bein og harkaleg aðför að tjáningarfrelsi hér á Íslandi ef breskur dómstóll getur ákveðið hvað má segja á Íslandi.

Geta Íslendingar geta ekki gagnrýnt einhvern sem er atkvæðamikill í íslensku samfélagi og lýst íslenskum veruleika án þess að eiga á hættu að á þá falli dómur í Bretlandi? Ég hef hingað til alltaf haldið að það sem við segjum hérna á Íslandi og á íslenskum vettvangi sé eitthvað sem við þurfum að vera tilbúin til að verja fyrir íslenskum lögum. Ég hef kynnt mér íslensk lög og reyni að passa hvað ég segi miðað við þau. Ég hef engin tök á að kynna mér ensk lög og haga því sem ég segi eftir breskum reglum og ég geri ráð fyrir að það eigi við um velflesta Íslendinga.

Bróðir minn mun hafa látið að því liggja að þekktur og valdamikill íslenskur athafnamaður sem hefur núna dvalarleyfi í London muni hafa auðgast á eiturlyfjasölu. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við dópsalalistann hans Björns, ég sá í fjölmiðlum að nýlega hafa tveir lögreglumenn sem nafngreindir voru á listanum hafið málaferli og krefjast fébóta af Birni. Það mál er rekið á Íslandi. Í báðum þessum tilvikum eru menn ásakaðir um eiturlyfjasölu, menn sem augljóst er að skaðast af því að vera bendlaðir við slíka iðju og í báðum tilvikum eru það gögn á vefsíðu sem er það saknæma - annars vegar gögn á vefsíðu sem er vistuð á Íslandi og hins vegar gögn á vefsíðu sem vistuð er á blogspot.

Þessi mál eru mjög áhugaverð út frá tjáningarfrelsi, hver er lögsaga Internetsins, nær íslensk lögsaga yfir það sem skrifað er á blogspot og nær bresk lögsaga yfir það sem er skrifað í íslenskum vefrýmum? Er alveg sama hvar við vistum gögn okkar og upplýsingar, er hægt að sækja okkur til saka hvar sem er í heiminum? Eða getum við fengið okkur vefsvæði í Malasíu eða einhverju landi sem ekki er aðili að milliríkjasamningum, skráð okkur undir dulnefni og þannig verið hrópendur í útlegð og tjáð okkur hömlulaust um íslenskt samfélag? Það eru reyndar til nokkur íslensk netsamfélög þar sem flestir virðast undir dulnefni og vettvangurinn er vistaður erlendis s.s. malefnin.com og hugsjon.com

Ég get ekki séð að það sé með nokkru móti mögulegt að koma böndum á Internetið og ritstýra orðræðu þar með meiðyrðalöggjöf, það er vissulega hægt að elta uppi þá sem skrifa undir nafni og þá sem skrifa í vefrýmum sem vistuð eru á Íslandi. En ef miklar hömlur og viðurlög eru við að fólk tjái sig undir nafni þá mun sennilega flest svona tjáning fara fram nafnlaus og með hætti þar sem ekki er hægt að rekja.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga. Tjáningarfrelsi er ekki bara að verja rétt þeirra sem eru sammála okkur og tjá sig á þann hátt sem við viljum, tjáningarfrelsið er líka fyrir óvini okkar, óvinsælar skoðanir og upplýsingar og gögn sem okkur finnst að ætti ekki að tjá sig um. Tjáningarfrelsi er líka fyrir rógburð og illmælgi. Fólk verður hins vegar að vera tilbúin til að verja mál sitt og sýna fram á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem það hefur fram að færa og sæta refsiábyrgð ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti eða eru upplýsingar sem ekki má birta t.d. sem varða einkahagi og persónuvernd.

Það er réttlætismál að sem minnstar hömlur séu á tjáningarfrelsi, í mörgum tilvikum er það eina vopn hins smáða og réttlausa að hafa rödd og geta tjáð sig um kúgunina. Þannig er hins vegar að samfélög eru oft skipulögð þannig að eina röddin sem heyrist og bergmálar í samfélaginu eru rödd þeirra sem hafa þegar völd og áhrif - og það eru í gangi alls konar mekanismar til að þagga niður raddir jaðarsettra hópa. Heimspekingurinn Voiltaire sagði :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" og ég vil geta sagt það sama. Það skiptir ekki máli hversu vel okkur geðjast að því sem einhver segir, það mikilvægasta er að það séu sem minnstar hömlur lagðar á tjáningarfrelsi viðkomandi.

Einn liður í kúgun er að maður sé dæmdur eftir leikreglum sem maður þekkir ekki og sem maður hefur enga möguleika á að hafa áhrif á. Við Íslendingar getum fylgst vel með íslenskum lögum og ef okkur finnst þau ósanngjörn þá getum við barist fyrir breytingum á þeim. Við höfum hins vegar enga möguleika á að hafa áhrif á bresk lög og fæst okkar vita einu sinni hvaða lög og reglur gilda í Bretlandi - ég geri ráð fyrir að fæst okkar hafi leitt hugað að því að þau gætu þurft að hlíta dómi í útlöndum yfir það sem við segjum hérna.

Það hvernig við tjáum okkur um íslenskan veruleika er hluti af íslenskri menningu. En hérna er tjáningin oft svo hömlulaus og tillitslaus við menn og málefni að það er þörf á nýjum vinnureglum. Hérlendis eru gífurlega margir sem tjá sig í netrýmum og þeir tjá sig oft alveg eins og þeir væru að tjá sig við vinahóp sinn í einkasamkvæmi. Það hefur komið sumum bloggurum illa að hafa ekki viðhaft nógu mikla varúð í umtali. Í ágúst síðastliðnum missti fjölmiðlamaður á RÚV vinnuna vegna þess að hann fór mjög óvægnum orðum um nafngreinda Íslendinga á bloggsíðu sinni. Það var umræða um þetta mál og bloggfrelsi á málefnavefnum og ég skrifa þar 26. ágúst svohljóðandi hugleiðingu:

".......
Það eru því miður margir Íslendingar sem tjá sig svona á bloggsíðum, sérstaklega er margt ungt fólk sem finnst svona tjáningarmáti bara vera eðlilegur. Ég veit að margt af því fólki er ágætt sem einstaklingar en það kann sér bara ekki hófs í opinberri orðræðu. Það er líka þannig með íslenskt samfélag að til skamms tíma hefur verið hér mjög einleitur hópur Íslendinga sem allir hugsa mjög svipað og við höfum ekki kippt okkur neitt verulega upp við ruddalegt orðfæri, vegna nálægðarinnar þá þekkjum við einstaklingana á bak við og vitum hvaða meining býr að baki. Í öðrum samfélögum þar sem fjölbreytileikinn er meiri og fjöldinn meiri þá hefur þetta aldrei liðist. Það myndi strax vera farið í málaferli ef fólk leyfði sér sumt af því orðfæri sem ég hef séð á íslenskum bloggsíðum.

Ég hef oft óskað þess að einhver sem orðið hefur illa fyrir barðinu á umræðu á bloggsíðum fari í mál og það mál yrði til umræðu í fjölmiðlum, ég held að það væri einn liður í því að bloggarar lærðu mörkin milli þess sem þeir mega segja. Ég er viss um að fólk gætir orða sinna betur ef það kostar það mörg hundruð þúsund að svívirða aðra.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að bróðir minn lagði fram útprent af bloggsíðu í málaferlum sem hann er sakborningur í núna, þ.e. þessu gæsalappamáli. Þar hafði bloggari sem tengdur er fjölskyldu Halldórs Laxness ráðist á bróður minn af fullkominni heift og orðið sjálfum sér til skammar með níðskrifum. Þessi skrif bloggarans lýstu líka djúpstæðum fordómum hans á samkynhneigðu fólki, fordómum sem hann gerði sér ábyggilega ekki grein fyrir sjálfur.

Þessi bloggari er listamaður sem ég dái og ég hef oft gaman af að lesa þetta blogg og skoða verk hans, ekki síst vegna þess að í bæði orðum hans og myndum býr kraftur. Svona svipað eins og í bloggi dr. Gunna sem er geysiskemmtilegur bloggari sem þó á það til að vera óvæginn og kjarnyrtur þegar hann talar um menn og málefni. En mér finnst aðalatriðið að dæma ekki fólk af því sem það gerir verst og hafa hugann við að bloggið og svona tjáning almennings er nýr miðill og það eru einnþá bernskubrek þar, fólk er ekki búið að læra á hvernig að umgangast svona miðla..."

Þegar ég les þetta yfir þá finnst mér lífið skrýtið, ég hef oft óskað þess að einhver hefji málaferli til að lækka rostann í netverjum og kenna þeim mannasiði en svo hefur það gerst að Jón Ólafsson sem er ekki vammlausasti maður Íslandssögunnar (smáníð til að prófa hvað margar milljónir ég þarf að borga fyrir þetta :-) hefur gerst sá krossfari og bróðir minn orðið sá sem var sakborinn.

Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu annarra og reynslu bróður míns og vera viðbúin því við verðum sótt til saka bæði fyrir að tala ógætilega um menn og málefni og fyrir brot á höfundarrétti. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt í þeim miklu hræringum sem eru í samskiptamunstri okkar þegar við hringsnúumst inn í netsamfélagið - þær venjur og þau lög og þær reglur sem gilda um orðræðu og hver má tala og hvenær og hvernig og hver á orð og hugsanir og hver má nota orð og hugsanir og hin hefðbundnu lög um tjáningarfrelsi og eignarrétt á hugverkum eru engan veginn í takt við hin nýja netsamfélag.

Ég geri ráð fyrir að bróðir minn hafi vel verið meðvitaður um áhættu á málaferlum sem hann tók með þessari orðræðu en hafi búist við því að það yrði málaferli á Íslandi miðað við þá mildu meiðyrðalöggjöf og refsingar sem hér tíðast. Það hefði líka verið líklegt að það neikvæða kastljós sem myndi þá beinast að Jóni Ólafssyni þar sem fortíð hans yrði gerð tortryggileg yrði til að málaferlin sköðuðu Jón mest sjálfan. Sumir bloggarar tala á mjög rætinn hátt um þekkta einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst stjórnmálamenn, eiginlega stundum í ofurdrambi þeirra sem halda að þeir séu óhultir vegna þess að stjórnmálamenn eða fyrirtæki sem þurfa að varðveita ímynd vilja með engu móti vera í umræðunni baðaðir í neikvæðu ljósi, skotspænir gróusagna og niðrandi kjaftasagna.

Bróðir minn vera á góðri leið með að verða píslarvottur og ég vona að hann haldi uppi öflugri málsvörn, ég vona að á orðræða á Íslandi verði í framtíðinni þannig að hann og aðrir Íslendingar geti gagnrýnt miskunnarlaust þá sem með völdin fara - hvort sem það eru fjármálaleg eða stjórnmálaleg völd - og að allir Íslendingar hafi aðgang að upplýsingum og gögnum en þau séu ekki lokuð inn fyrir útvalda og ég vona að einhvern tíma komi skilningur á því að við erum að fara inn í remix tíma þar sem ekkert er að því að endurnýta og endurvinna upp úr verkum annarra.

Mér finnst þær sakir sem á hann hafa verið bornar í tveimur óskyldum málaferlum vera öðrum þræði spurning um hver má lýsa íslenskum veruleika og hver má skrá íslenska sögu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á verk hans eða hann verði að standa fyrir máli sínu en sú aðför sem er að honum núna er svo heiftúðug að það nálgast vitfirringu.

4.10.05

Á ströndinni
xIMG_0009
Ég fer til Íslands á morgun og nú er ég í tvö daga á öðrum stað í Barcelona, ég er gisti í Residencia Campus del Mar, það er alveg niður við sjóinn í Barceloneta. Mjög þægilegt gistiheimili, það fylgir eldhúsaðstaða með herberginu og það er hægt að tengjast internetinu. Reyndar ömurlega hæg Internettenging. Það er allt öðru vísi andrúmsloft hérna, allir bara að ganga um og njóta lífsins, það er sól og blíða þó það sé komið fram í október. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á ströndina hér í Barcelona í þessari ferð, ég sat lengi í dag í svona strandstól eins og sést á myndinni, mjög fallegir steyptir stólar sem snúa að sjónum, og hlustaði allan tímann á lífið er ljúft geisladiskinn með Bubba, sérstaklega lögin sem aldrei fyrr, öldueðli og afkvæmi hugsana minna. Yfirleitt leiðist mér að sitja svona í sól og aðhafast ekkert en eftir ipod/itunes væðingu þá hefur það breyst. Ég er búin að hlaða helling af spænskum lögum inn í itunes, finna textana og setja þá inn líka, ég ætla að prófa hvort það er ekki góð leið til að læra spænsku. Reyndar er svolítið takmarkað orðalag í spænskum lögunum, virðist allt ganga út á "dolor" og "corizon" og trega og söknuð og brostin hjörtu. Gott að orðaforðinn sé svona takmarkaður en soldið dapurt að hlusta of mikið á alla þessa kvöl. En þarna á ströndinni í dag þá var ekki spænska kvölin heldu Bubbi sem passaði best við stemminguna, mér finnst hann líka stórbrotinn listamaður.

3.10.05

Fimm atriði um mig

Árni klukkaði mig, mér finnst gaman að lesa svona klukk, gaman að sjá brot úr lífi fólks og heyra um atvik og reynslu sem eru skondin og skrýtin og sem hefur skilið eftir spor í vitund fólks. Það var gaman að lesa um afreksverk Árna svo sem glæstan leikferil þar sem hann lék stór hlutverk í Þjóðleikhúsinu í ýmsum meistarastykkum, reyndar lék hann líka ýmis stykki svo sem aftari enda á asna Tóbísar í Kardimommubænum og fremrihluta á ísbirni í Ferðinni til Tunglsins. Mjög póstmódernískt.

En hér eru fimm atriði um mig:

1. Ég teikna. Meina teikna. Ekki svona útpældar myndir sem eru af einhverju ákveðnu. Ekki svona þrívíddarmyndir með dýpt og perspektívi, heldur svona eins og einhver kort eða myndletur eða mynstur eða krass. Ég teikna stjórnlaust á allan pappír sem verður fyrir mér, ég fylli allt af teikningum og ég get mjög sjaldan séð neitt samhengi milli þess sem ég er að hugsa og þess sem ég teikna. Það er eins og höndin hafi sjálfstæðan vilja en það hjálpar mér að hugsa að teikna á meðan.

2. Ég þekki ekki hægri frá vinstri. Sennilega tengt því að ég er örvhent en ég hef aldrei haft neina skynjun á hægri og vinstri. Ég get samt fundið út úr þessu ef ég hef nægan tíma en ef ég er í bíl og einhver segir snögglega "Beygðu hérna til hægri" þá eru 50% líkur á að ég beygi til hægri.

3. Mér fannst gaman að syngja þegar ég var lítil, þá var ég í KFUK og þar var oft sungið úr einhverri söngbók. Sérstaklega gaman fannst mér að syngja lög þar sem stóð fyrir ofan textann "Með sínu lagi" því það túlkaði ég þannig að hver mætti syngja með sínu eigin lagi, ég reyndi þá alltaf að syngja allt öðruvísi en allir hinir og vera alls ekki í sama takti.

4. Ég hef samið eina teiknimyndasögu. Við vorum þrír nemendur í kennslufræði í háskólanum fyrir meira en tuttugu árum sem skiluðum teiknimyndasögu sem ritgerð. Teiknimyndasagan heitir "Afskólun" og var svona hugleiðingar uppreisnargjarns ungs fólks sem vill leggja niður hefðbundna skóla. Teiknimyndasagan var gefin út og var ef ég man rétt fylgirit með einu eintaki af Menntamálum. Soldið fyndið þar sem ég hef nánast alltaf síðan þá unnið í hefðbundnu skólakerfi fyrst sem framhaldsskólakennari og síðar sem námstjóri og háskólakennari.

5. Ég trúi á álfa og huldufólk.