31.12.05

Jarðarsala

Þau undarlegu tíðindi bárust mér rétt í þessu að Kristín á Vöglum hefði selt Gísla Birni syni sínum jörðina Vagla. Gísli Björn er eitt af átta börnum Kristínar og einn af þremur sonum hennar sem býr þarna. Þeir munu ekki hafa vitað af þessum gjörningi né nokkurt annað barn Kristínar. Kristín situr í óskiptu búi. Það er skilningur minn og að ég held allra Vaglasystkina nema Gísla Björns að búið á Vöglum sé félagsbú þeirra bræðra og móður þeirra og sú eign sem skapast hefur í búinu með vinnu þeirra undanfarna áratugi sé sameign þeirra. Þetta er stórbýli og bara kvótinn er langt yfir hundrað milljónir. Gísli Björn hefur flæmt báða bræður sína burtu og hafa þeir að undanförnu unnið daglaunastörf hjá öðrum bændum í grenndinni. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þessi lagagjörningur stenst.
Glamúr-afmælisboð Ástu

Ásta hélt upp á afmælið sitt í gær með glamúrboði, allir áttu að koma klæddir glitklæðum eða í það minnsta skreyttir á einhvern hátt. Sumir brugðu á það ráð að klæðast jólaskreytingum. Hún bauð upp á marglita kokteila og fagurlega skreytt borð hlaðið ávöxtum og ostum. Ýmis skemmtiatriði voru og hreifst ég mest af söng Kolbráar af lagi eftir hana "Every man is a women" en það lag tileinkar hún Elvis Prestley og hefur enda gert stórt listaverk sem þetta lag er samið í tengslum við. Einnig var spilaður geisladiskur sem afmælisbarnið fékk í afmælisgjöf frá bróður sínum sem er í MH og syngur hann öll lög á disknum. Geisladiskurinn heitir "Sindri syngur um kynsjúkdóma" og fjallar hvert lag um kynfæri og einn kynsjúkdóm á grípandi og melódískan hátt. Sennilega speglar þetta lagaval og flutningur vilja höfundar til að hneyksla og ná athygli en líka að hann er að lýsa samtíma sem er upptekinn af líftækni og líkama og hvernig líkaminn eyðist og breytist vegna utanaðkomandi áhrifa.

Ég held að Gestur Guðmundsson sem er sérfræðingur í ungmenningu/popmenningu hafi einhvers staðar skrifað um nöfn hljómsveita. Núna heita margar hljómsveitir nöfnum bílategunda, sérstaklega bílategunda frá Austur-Evrópu og Rússlandi, ég er að spá í hvaða merkingu það hefur, kannski einhvers konar nostalgía eða hylling á veröld sem var, framleiðslukerfi á farartækjum sem brotnaði niður.

En ég prófa að setja hérna inn myndasýningu úr flickr frá afmælisboðinu.
Það gengur reyndar ekki ennþá, en hér er þá slóð á myndasýninguna á meðan ég finn út hvers vegna hún vill ekki spilast.

29.12.05

Netfyrirlestur um Wikipedia og wiki 30. des. kl.10

Á morgun ætla ég að halda fyrirlestur á Netinu, sjá eftirfarandi auglýsingu:


Fyrirlestur á Netinu : Wikipedia alfræðiritið og önnur wiki samvinnuverkefni

Netfyrirlestur verður föstudaginn 30. desember 2005 kl. 10:00 á vegum Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands

Fyrirlesari: Salvör Gissurardóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands Í þessum fyrirlestri verður skoðað hvernig ný tegund af samvinnu og ritun ryður sér til rúms með wiki. Sérstaklega verður fjallað um alfræðiritið Wikipedia
www.wikipedia.org Skoðað verður hvernig wiki getur nýst í námi og kennslu, sjá nánar á http://www.esjan.net/wiki

Þessi fyrirlestur verður á Netinu og þú getur hlustað á hann í nettengdri tölvu og tekið þátt í umræðum ef tölvan er rétt uppsett. Til að hlusta á hann þarf að fara í fyrirlestrasal KHÍ á Netinu en hann er í fjarkennslu/fjarfundakerfinu Horizon Wimba.

1) Fara á slóðina
http://wimba.skyrr.is
2) Smella á "Participant login"
3) Slá þar inn nafnið þitt og smella á Enter
4) Ef þú hefur ekki áður farið inn í Horizon Wimba þarf að athuga uppsetningu á tölvunni þinni (Setup Wizard), quicktime og java þarf að vera á tölvunni og leyfa þarf pop-up glugga. Setup Wizard athugar þessa uppsetningu og setur inn þau kerfi sem vantar en ef þú hefur einu sinni sett þetta upp þá má smella beint á "Click here" to enter Live Classroom
5) Þá kemur listi yfir hvaða fyrirlestraherbergi eru opin.
6) Smelltu á "KHI" til að fara inn í netfyrirlestrasal KHÍ.
7) Þegar fyrirlestur byrjar sérðu glærur og heyrir rödd fyrirlesara. Þú getur tekið þátt í umræðum með annað hvort að skrifa inn í textaglugga neðst á skjánum eða smella á TALK hnappinn og halda honum niðri á meðan þú talar.
Mælt er með því að þú athugir uppsetningu töluvert áður en fyrirlestur hefst því það getur tekið tíma ef hlaða þarf inn hugbúnaði.

27.12.05

Um tilgangsleysi allra hluta

Ég ráðlegg fólki að eindregið að smella ekki á rauða hnappinn hér fyrir neðan. Það er líka tilgangslaust að láta sandinn í keröld í þessum java-leik og tóm tímaeyðsla að sprengja upp þetta bóluplast hérna neðan.










26.12.05

Þar sem göturnar eru kviksyndi
Ég límdi inn hér fyrir neðan vídeó með Akon frá Senegal sem flutti 7. ára til New Jersey. Akon syngur í laginu Ghetto um borgarhverfi sem eru eins og kviksandur sem íbúarnir sökkva.
Ég stillti autostart=0 þannig að það verður að smella á örina til að byrja að spila vídeóklippið. Það er mjög óþægilegt að hafa einhverja tónlist sem spilast í síbylju þegar maður kemur á vefsíður.

Music Videos & Codes - MusicVideoMonster.com

Akon er þekktur m.a. fyrir lagið Belly Dancer

25.12.05

Gleðileg jól - flash jólaborðar og jólakort















Hér eru tveir flash jólaborðar sem þú getur notað fyrir jólakveðjur á vefsíðum og bloggi. Það er hægt að setja sinn eigin texta inn í talblöðruna og líma inn kóða sem er á þessari vefsíðu http://freecartoons.blogspot.com og breyta slóðinni þar í http://starfsfolk.khi.is/salvor/jol/jol1.swf eða http://starfsfolk.khi.is/salvor/jol/jol2.swf ef fólk vill hafa textann Gleðileg jól en ekki Merry Christmas. Í blogger verður að smella á Edit Html áður en maður límir inn kóða, annars kemur kóðinn bara sem letur. Það er sniðugt að geta notað tilbúin flash jólakort og sérhanna þau fyrir sínar jólakveðjur.

23.12.05

Neysluskrímslið og netaktívismi


Jólakötturinn hefur breyst í neysluskrímsli.
Mín fyrsta tilraun til netaktívisma utan Íslands hefur aðeins farið úr böndunum. Ég skrifaði pistil á ensku Myspace in the Brave New World og það hafa þúsundir skoðað þann pistil og það hefur verið stofnaður Y-O-U-T-U-B-E stuðningshópur á Myspace. Youtube bloggið vísaði í pistilinn og þaðan hafa væntanlega flestar heimsóknir komið. Það hafa margir skrifað athugasemdir og ábendingar m.a. að það er hægt að komast hjá ritskoðun með að nota urlsnip.com en það er ótrúlegt hvernig Myspace hefur brugðist við þessari mjög svo málefnalegu gagnrýni minni og því að nokkur hundruð manns skoðuðu myspace bloggið mitt í gær. Núna rétt áðan tók ég eftir því að það er búið að loka fyrir aðgang minn á Myspace og koma í veg fyrir að nokkur maður geti skoðað gagnrýnina sem ég póstaði þar og það kemur orðsending um að þetta blogg sé ekki opinbert. En ég á sem betur fer skjámyndir af fyrsta (sjá hérna) og öðru blogginu (sjá hérna). Hér er skjámynd af því sem Myspace er að gera núna við aðgang minn og Myspace bloggið mitt

Þetta er hryllingsmynd af framtíðinni og ef einhver heldur að við á Vesturlöndum lifum í eitthvað skárri heimi að Kínverjarnir með sína ritskoðun þá er bara gott að aflétta strax þeirri blekkingu. Ritskoðun á bloggi á Vesturlöndum er bara öðruvísi en hún gengur út á það sama og ritskoðun í Kína, hún gengur út á að sá sem hefur vald yfir miðlunum notar vald sitt til að tryggja að ekki sé umfjöllun sem grefur undan valdinu. Í kínverskum bloggum eru ritskoðuð út orð eins og "human rights , Taiwan independence, freedom, democracy, demonstration" en í einu vinsælasta vefrými unglinga í heiminum í dag þá eru ritskoðuð út orð þar sem vitnað er í fyrirtæki eða vefþjónustu sem er Myspace ekki þóknanlegt - væntanlega út af viðskiptahagsmunum - og þar að auki skirrist Myspace ekki við að loka umsvifalaust aðgangi þeirra sem á einhvern hátt ógna hagsmunum fyrirtækisins t.d. með umfjöllun sem þeim er ekki að skapi.

Ég bjó til nokkur baráttuspjöld í comicstripgenerator.com

Technorati tags Myspace , Youtube , censorship , social networks , freedom of expression , citizen journalism

21.12.05

Vetrarsólhvörf - Stefnuljós - Slepptu mér aldrei

Einmitt í því augnabliki sem ég skrifa þetta er sólstöðumínútan ef Gneistinn fer með rétt mál. Það er hátíðastund og ég hef fagnað Vetrarsólstöðum frá því í gærkvöldi, þá fór ég með Ástu á tónleika hjá Moskvits og hljómsveit Hafdísar Bjarnadóttur í Alþjóðahúsinu. Í hádeginu í dag hitti ég nokkrar skólasystur mínar úr viðskiptafræðinni á La Primavera í Austurstræti og eftir það gekk ég upp Laugarveginn í vetrarbirtunni og skoðaði í búðir. Eða öllu heldur skoðaði búðir því frá því ég fór seinast um á þessum slóðum hafa sprottið upp margar nýjar spennandi búðir. Það eru komnar margar hönnunarbúðir neðst á Laugaveginn, svona staðir sem selja bæði föt og fagra og sérstaka muni sem ekki eru fjöldaframleiddir.

xIMG_0040Ég hreifst mest af skyrtubolahönnun í sönnum anda jólanna, meyrnaði öll við slóganið BE KIND en margar aðrar búðir voru líka skemmtilegar t.d. Oni búðin hennar Bryndísar Ísfold og önnur búð neðst á Laugaveginum sem ég man ekki hvað heitir var svona eins og listræn kaupfélagskrambúð.

Ég sá Erlu listakonu tilsýndar inn í einni fatahönnunarbúðinni og þá mundi ég eftir tjöldunum í Ráðhúsinu sem þær Gerla og Erla hönnuðu og kalla Vetrarsólhvörf - Endurspeglun. Einu sinni hittust þær alltaf á vetrarsólstöðum í Ráðhúsinu og yfirfóru tjöldin. Ég hitti reyndar fleiri listakonur, ég hitti Kristínu Blöndal og ég hitti myndlistarkennarann minn úr listaskólanum Rými, hún rak þann skóla í Listhúsinu í Laugardal fyrir fimmtán árum. Hún sagðist ekkert mála núna, hún vinnur að vefverkefninu grasagudda.is

Ég fór á Súfistann og ákvað hvaða bækur ég skyldi skanna með kaffinu til að fagna vetrarsólstöðum. Fyrir valinu urðu Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro og Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson , þessar bækur heilluðu mig mest í dag. Mér finnst gaman að lesa bækur við sérstakar aðstæður og velja sérstaklega bækur fyrir aðstæður, þá verður bóklesturinn eins og ritúall sem færir mér merkingu og hughrif sem tengjast mínu lífi og þeim stað og stund sem ég leyfi þessum hugsunum annarra að flæða inn í mína hugsun. Þannig verður saga úr bók til að spinna áfram mína sögu og merking sögunnar breytist og tekur á sig lit eftir þeim aðstæðum sem ég les hana í. Annars er áhugavert að skoða blogg sem fyrirbæri þar sem höfndurinn er fastur í eigin sögu.

Ég var búin að lesa Never let me go á ensku nema seinustu blaðsíðurnar, ég las þá bók upp í háloftunum á leiðinni yfir Atlandshafið, þegar ég fór til Kanada í nóvember og horfði niður á Grænlandsjökullinn og ísbreiðurnar og úthafið á meðan ég las um fólkið sem var framleitt í varahluti sem var skólað og siðmenntað til að sýna fram á að það hefði sál. Góð bók sem en ég skil ekki alveg pointið með sálina, er það að vera með sál að vera formaður í það mót sem bresk yfirstétt notar til fága og skóla sína nýliða? Kannski er sálarmæling eins og einsun á fegurð í fegurðarsamkeppnum þeir sem eru eins og við eða eins og við viljum vera eru með sál, aðrar verur eru sálarlausar. Og hvers vegna eiga verur sem við skilgreinum með sál að meðhöndlast á betri hátt en aðrar verur? Eru dýr þá ekki með sál og ekki verðug góðrar umönnunar? Ég hélt líka að plottið í bókinni myndi vindast upp eins og í Agötu Christie glæpasögu á seinustu blaðsíðunum en það gerði það ekki, það var bara staðfest það sem við vitum öll að það er enginn frestur gefinn á endalokunum, það er bara hægt að gera hérvistina bærilegri.

Stefnuljós hjálpaði mér ekkert með aksturlag í lífinu því ég hvort sem er gef alltaf stefnuljós og þessi bók ku vera svo djúp og torskilin að það sé bara fyrir innvígða bókmenntafræðinga að fatta út á hvað hún gengur. En mér fannst hún samt góð bók og áhugaverðar pælingar um bakstur í brauðgerðarvélum og nauðsyn þess að hafa reykskynjara um allt og setja upp úðunarkerfi. Þetta er mikilvæg þekking einmitt svona um jólaleytið.

20.12.05

Böddi bloggari á Roklandi

Í bókinni Rokland eftir Hallgrím Helgason er sögupersónan bloggarinn Böðvar Steingrímsson á rokland.blogspot.com. Ég las í gegnum byrjunina á þessari bók yfir kaffibolla á Súfístanum fyrir nokkrum dögum , bókin vakti áhuga minn vegna þess að hún er eftir Hallgrím sem hefur skrifað óborganlega skemmtilegar sögur t.d. söguna "Þetta er allt að koma" og svo er söguhetjan bloggari og sagan gerist í Skagafirði og sögusviðið er að hluta hótelið þar. Dætur mínar eru báðar af skagfirskum ættum og ég fer oft í Skagafjörð og þegar ég var 18 ára þá réði ég mig í sumarvinnu á hótelið á Sauðarkrók. Það varð þó ekkert úr því að ég færi þangað en ég hef oft hugsað um hvernig hefði verið að vinna þar. Svo fjallar sagan á sinn hátt um samfélagsbreytingu, ekki um flutninginn í úr sveit í borg eins og Indriði Þorsteinsson skrifaði um á sínum tíma heldur um flutninginn úr þorpinu inn í fjölmiðlaheim og netheim, nú flytur fólkið ekki á mölina heldur grefur sig í skjáina og vefur sig inn í tengingarnar við útlönd.

Ég var nú ekki komin lengra í sögunni en Bödda hefur fæðst sonur eftir mjög lítið rómantískt næturævintýri og hann er að reyna að fá barnsmóður sína til fylgilags við sig á þeirri forsendu að þau eigi barn saman. Í lýsingu á þeim aðstæðum er sérstaklega getið um nautn Bödda að serða dóttur vinnuveitenda síns sem hefur nýlega rekið hann og nautn Dagbjartar sem felst í því að leggjast með þeim sem hún vissi að fjölskylda hennar hefði ímugust á. Dagbjört þakkar Bödda fyrir dráttinn og býður honum far. Það kemur fram að hún vildi gjarnan eiga barn og þetta mökunarsena er þáttur í því. Móðir Bödda og sú sem eldaði fyrir hann soðningu á hverjum degi hefur dáið. Reyndar var hún lifandi dauð fyrir. Þessi tenging við móður, afkvæmi og barnsmóður er dáldið lík 101 Reykjavík svona karlhlutverk að vera sæðisgjafi og njóta umönnunar.

Ég les nú eitthvað annað út úr þessari bók en í þeirri bókmenntagagnrýni sem ég hef séð, þar er Böddi kallaður vitsmunavera og heimspekingur. Sögupersónan Böddi er álíka gáfulegur og spennandi og Bryggjutröllin og hugðarefni hans og hugrenningar eru álíka spennandi og langhundar Bryggjutröllanna um ekki-kynlíf. Reyndar finnst mér Bryggjutröllin vera alveg eins og sögupersónur úr Íslendingasögunum sem hafa dagað uppi og orðið að steini á vitlausri öld. Það er bara þannig að mannkostir sem þóttu gjörvuleiki á söguöld koma fólki í steininn í dag.

Eini munurinn er að Böddi böðlast áfram með þýskum skáldum og vill þrykkja öllum út úr 21. öldinni inn í Grettissögu. Svo finnst mér magnað að heyra að Böddi sé einhvers konar andsvar við umhverfi þar sem lágmenningin hafi sigrað. það skín í gegn það viðhorf höfundar að þetta tímabil Grettissögu hafi verið eitthvað betra menningarstand. Ég hef fyrir langa löngu afneitað Njálu og öllum hinum Íslendingasögunum, það var nú meira lágmenningartímabilið , það er ekki minn menningararfur og svona karlasaga eins og Grettissaga er bara eins og hver önnur blóð og hryllingssaga sem núna fæst í búnkum á vídeóleigum.

Hér er þrjár mínútur á Odeo hljóðbloggi það eru hljóðklipp sem ég tók úr viðtali við Hallgrím í Víðsjá RÚV 7. desember. Ég setti þetta fyrst inn í Audicity og stillti svo recording á "mono out".

19.12.05

Myspace er meira draslið

My Odeo Channel

Nú er ég að prófa podcasting og hljóðupptökur, smelltu á hnappinn hér fyrir ofan til að heyra upptökuna, ég las þetta blogg upp og gerði líka annað um íslenskun á podcasting.

Ég prófaði Myspace.com um helgina vegna þess að það var grein í Business week Online um þetta kerfi og sagt frá því að þar væru amk 20 milljónir notenda, sérstaklega unglingar. Það er líka podkast með þar sem þetta umhverfi er dásamað fyrir möguleikana sem það býður í að láta krakkana tala hvert við annað um vörur og þjónustu, þannig geti þau sjálf auglýst vörurnar fyrir fyrirtækin. Þetta kerfi minnir um margt á Livejournal, þarna var einfalt bloggkerfi og þarna var einhvers konar félagskapur eins og í flestum svona kerfum, hægt að skrá sig í hópa og skrá einhverja sem vini sína. Þessir vinir sem eru á flakki þarna eru nú ekki allir raunverulegir, það var mikið um illa dulbúnar auglýsingar sem margar virtust fyrir kynlífsþjónustu. Það þarf ekki að taka fram að slíkt efni var jafnan löðrandi í kvenfyrirlitningu. Það er einhver tilbúinn kall sem skrifar þér bréf og þykist vera vinur allra sem gerast áskrifendur en það er líka tiltölulega auðvelt að kaupa sér vini þarna. Svo var kerfið ósmekklegt og mikið kraðak og allt þakið í auglýsingum.

Þetta virðist stíla upp á aðila sem selja ungu fólki þjónustu svo sem hljómsveitir sem eru að selja tónlist. Látum nú vera þó þetta sé hallærislegt kerfi með gervifólki sem þykist vingast við unglinga til að selja þeim vörur og þjónustu og látum vera þó þetta sé svona lokað og hallærislegt. Þessi kerfi sem íslenskir unglingar eru læstir inni í eru ekkert skárri, sjá bara auglýsingaborðana á folk.is.

En það sem stuðar mig óendanlega var hallærisleg ritskoðun á því sem maður skrifar inn. Það virðist vera eitthvað stríð í gangi milli myspace.com og youtube.com þannig að ekki er lengur hægt að spila vídeóklipp frá youtube á myspace. Ég ætlaði að vísa í vídeóklippin mín hjá youtuber en viti menn... í hvert skipti sem ég skrifaði nafn fyrirtækisins youtube þá breyttist það í þrjá punkta ... og það var ekki hægt að tengja í þann vef. Mér fannst eins og ég væri komin til Kína í það ritskoðunarumhverfi sem þar ríkir. En er þetta hin frjálsa nýja veröld sem netkynslóðin vex upp í? Ef svo er þá er @-kynslóðin þrælakynslóð innmúruð í umhverfi neyslusamfélags og miðstýringar. Hryllileg blanda.


Ég skrifaði pistil á ensku á vídeóblogginu mínu um þetta og setti þetta líka inn í digg.com:
Myspace in the Brave New World

Technorati tags: myspace youtube censorship citizen journalism digg

15.12.05

Podcasting - Ég í Skype viðtali

Í hinni nýju veröld alþýðlegrar fréttamennsku þá eru ekki bara stjörnublaðamenn að taka viðtöl við stjörnur. Mér sýndist á bloggráðstefnunni um daginn að fólk væri mest að tala viðtöl hvert við annað. Nicole Simon tók fjölmörg podcast viðtöl bæði fyrir og meðan á Les Blogs ráðstefnunni stóð. En það það er ekki einu sinni nauðsynlegt að hitta þá sem maður tekur viðtal við, nú eru viðtöl gegnum Skype afar vinsæl hjá bloggurum. Damien sem var á bloggráðstefnunni Les Blogs sá að ég var femínisti, ég held hann hafi séð það út af flickr myndunum mínum og hann spurði mig hvort ég væri til í Skype viðtal og ég var nú alveg til í það. Hann hringdi svo í mig og við spjölluðum saman (ég talaði, hann þagði:-) í 20 mínútur og hann hefur sett viðtalið við mig út á bloggið sitt Bloggingthenews

Hann með podcastinu einhvern texta á frönsku sem ég skil ekkert í. En þetta var bara skemmtilegt, þetta var mitt fyrsta Skype viðtal og mér finnst svona Podcasting alveg æði og ætla að kenna nemendum mínum svoleiðis á næstu önn. Það finnst víst fleiri Podcasting sniðugt því að PODCAST var kosið orð ársins 2005. Hérna er mynd af Kristínu Helgu með nýja Ipodinn sinn, hún fékk hann þegar ég kom frá Kanada í nóvember.

The image “http://static.flickr.com/31/61864743_2d0ded2c62.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Technorati tags: lesblogs podcast feminism flickr

12.12.05

Vídeóviðtöl - Vídeóklipp - Flott myndakerfi

Ég dæli út á vef stuttum vídeóklippum af Les Blogs 2.0 ráðstefnunni. Núna var ég að prófa kerfi sem heitir Woomp.com, það er kerfi sem maður getur notað fyrir bæði myndir og vídeóklipp. Vídeóklippin verða að vera á svokölluðu Flash Videóformi, hafa endinguna .flv en upprunalega koma vídeóklippin mín á .avi formi, þannig skilar stafræna myndavélin mín þeim frá sér. Ég tek öll vídeóklipp núna upp á litlu Ixus myndavélina mína, hún er lófastór og ég er alltaf með hana á mér. Ég keypti nýlega Gígabæta minniskubb að það breytir öllu þegar maður tekur upp vídeó.

Það þarf sem sagt að umbreyta .avi eða .mov í Flash Video. Ég hlóð niður Riva FLV Encoder sem er frítt forrit og set vídeóklippin þar inn til að breyta þeim. Það er frekar einfalt kerfi og virkaði þrælvel fyrir .avi vídeóklippin mín sem ekkert þurfti að breyta.

Í flestum tilvikum þarf vill maður vinna vídeóklippin eitthvað áður en maður skellir þeim á vefinn. Ég nota til þess Windows MovieMaker eða Quicktime Pro, það er eru bæði afskaplega einföld kerfi. Það kom hins vegar í ljós að woomp.com virkar ekki fyrir fyrir nýjasta Windows Movie Maker (virkar ekki fyrir codex 9 af því hann er ekki open source) þannig að ég gat ekki umbreytt .wmv skrám. Ég prófaði þá að klippa saman vídeóin í Quicktime Pro en get ekki umbreytt .mov skrám frá Quicktime í .flv skrár. Ég fann hins vegar út úr því að það var vegna þess að það var ekki réttur staðall á hljóði og með að vista úr Quicktime Pro (velja export) undir öðrum hljóðstaðli (smella á options og sound og velja annan hljóðstaða) þá gekk þetta eins og skot. Ég set þetta tækniblogg hérna inn ef það gagnast einhverjum, ég hef ekki hugmynd um hvað allir þessir staðlar í vídeó og hljóði merkja og vil helst ekki setja mig inn í það. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt núna eins og sést á þessu dæmi. Eins og er þá er sennilega langbesta leiðin fyrir vídeóbloggara að setja vídeóklipp á eitthvað flash eins og www.youtube.com og www.woomb.com gera, það tryggir að bæði makka og pc notendur geta spilað þau og flestir hafa Flash uppsett.

Það er mjög flott hvernig hægt er í Woomp að setja upp síðu fyrir vídeoklippin mín. Það þarf bara að smella smámynd af hverju vídeóklippi til að það byrji að spila. Annars get ég líka mælt með www.woomp.com og www.bubbleshare.com sem kerfum til að setja inn hefðbundin myndaalbúm, þetta eru einföld kerfi og það kostar ekkert að skrá sig. Hámarkið er hins vegar 100 mb sem maður má setja inn af efni, það er fljótt að fara ef maður setur inn vídeóklipp. Flickr er náttúrulega samt skemmtilegasta myndakerfið.

Technorati tag: lesblogs, lesblogs2, lesblogs2.0, woomp youtube flickr

7.12.05

Blogg um blogg - Bakrás á bloggráðstefnu

Bloggráðstefnunni Les Blogs 2.0 í París lauk í fyrradag og ég mun blogga nokkur blogg um hana á næstunni. Margir bloggarar blogguðu um þessa ráðstefnu í beinni og halda áfram eftir að heim er komið, það voru allir beðnir um að setja efnisorðið "lesblogs" á bloggin sín fyrir technorati.com og því þá geta allir fylgst með lesblogs ráðstefnuumræðustraumnum. Nú og svo áttu allir líka að merkja flickr myndirnar sínar með lesblogs og þar sem bloggarar virðast vera búnir að fá sér stafræna myndavél eða farsíma með myndavél þá streyma lesblogs myndirnar á flickr, seinast þegar ég athugaði voru komnar um 4000 myndir af báðum les blogs ráðstefnunum sem hafa verið haldnar. Ég fann þessa mynd af mér þarna í flaumnum þar sem ég sit á fremsta bekk umkringd af nördum.



Annars er allt brjálað í bloggheimum út af uppákomu sem átti sér stað seinni dag ráðstefnunnar. Á ráðstefnunni var irkrás í gangi sem er ekki í frásögur færandi en margir þátttakendur göntuðust með menn og málefni á rásinni. Það var hins vegar skrýtið að irk-rásin var stundum til sýnis, notuð til að flikka upp á sviðsmyndina og var varpað upp fyrir aftan fyrirlesara á tveimur risastórum skjáum. Það kom sem sagt oftar en einu sinni fyrir að fyrirlesarar voru hafðir að háði og spotti á irkrásinni sem rann fram fyrir aftan þá og allir þáttakendur fylgdust með. Ég hef nú reyndar verið að blogga á meðan á ráðstefnunni stóð og eftir að henni lauk en mér fannst það vera að bera í bakkafullan lækinn að blogga á hefðbundinn hátt og setja myndir inn á flickr. Þess vegna ákvað ég að halda mig við vídeóblogg, fannst það framúrstefnulegra og það eru ekki ennþá margir sem blogga þannig þó að flestir hafi mjög aðgengileg verkfæri til þess. Ég nota bara ókeypis verkfæri og tek öll vídeóin upp á litlu stafrænu myndavélina mína, Canon Ixus. Vídeobloggið mitt er hérna http://www.samkoma.net/videoblog og í dag póstaði ég pistil og vídeó þar með titlinum Every story has two points of view þar sem ég fjalla um þetta irk-rásarmál.

technorati: lesblogs, backchannel

4.12.05

Félagslíf í París

Hvað gerir maður í París þegar maður er einn og þekkir engan? Nú, það er hægt að hanga á Netinu eins og venjulega ef maður hefur góða Internettengingu. En það er líka hægt að nota Netið til að koma sér í samskipti við annað fólk. Ég athugaði hvort það væri ekki eitthvað meetup í París sem ég gæti farið í og viti menn, það var samkoma hjá listamönnum á föstudagskvöldinu í gallerýi í Montmartre. Ég tel sjálfa mig listamann svo ég skráði mig hið snarasta í hópinn og mætti með vínflösku í partýið. Þetta var mjög gaman, þetta var haldið á heimili einnar í hópnum en hún rekur líka gallerý á heimili sínu og hefur þar sýningar. Ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki um kvöldið en að öllum öðrum ólöstuðum þá fannst mér Susanne og Alexandra skemmtilegastar, þær eru báðar bloggarar og áhugasamar bæði um tækni og Internet og listir sem er ekki mjög algengt. Susanne er frá Edinborg, hún stofnaði þennan listahóp og stýrir honum og hún rekur vefinn IVYparis . Mamma Alexsöndru rekur bloggþjónustu í USA.

Susanne er þessi í íslensku lopapeysunni á efri myndinni og Alexandra er þessi í svörtum jakka og fjólubláum sokkabuxum að hella víni á neðri myndinni.

xIMG_0018

IMG_0015
Laura sem var í partýinu sagði mér frá vini sínum Jim Haynes sem er heimsborgari í París og heldur svona opin sunnudagsmatarboð. Ég fer þangað í kvöld. Mér skilst að þessi matarboð hjá Jim séu þekkt en hann hefur haldið þau í mörg ár.

Hér eru fleiri myndir frá þessu skemmtilega og listræna samkvæmi á föstudagskvöldið.

1.12.05

Bloggráðstefna í París

Ég fer til Parísar á morgun, ætla að verða þar í viku, sinna fræðistörfum og fara á ráðstefnuna Les Blogs 5. og 6. desember. Vonandi verða allir fyrirlestrar á ráðstefnunni á ensku, annars er ég í vondum málum því ég skil nánast ekkert í frönsku. Flestir þátttakendur á ráðstefnunni eru franskir, það er væntanlega af því að blogg er mjög í tísku í Frakklandi og líka af því að ráðstefnan er haldin þar. Ráðstefnan var svo vinsælt að það varð uppselt á hana fyrir löngu þó það væru 350 sæti en ég var á biðlista en komst inn.

Ráðstefnan verður í 17. hverfi en ég ætla að búa í 11. hverfi í íbúð í Marais sem ég leigði áðan gegnum Netið í gegnum Yellowstay . Ég á að fara á staðinn, slá inn kóða til að komast inn í húsið og þá á ég að finna lyklana að íbúðinni í póstkassanum. Þegar ég fer á ég að skilja lykilinn eftir í íbúðinni og skella í lás. Það á að vera þráðlaus háhraðainternettenging í íbúðinni og öll þægindi. Flugið til Parísar kostar um 28 þús. með sköttum og íbúðin kosta um 6300 kr á sólarhring. Ég skoðaði ýmsa möguleika á gistingu og mér sýnist álíka dýrt að vera á hóteli og í svona íbúð. Það er hins vegar notalegra og heimilislegra að vera í íbúð og meiri þægindi.

Ég er viss um að svona ferðamáti á eftir að vinna á, það þarf þá ekkert að vera nein móttaka á hóteli og engin yfirbygging. Ég íhugaði að leigja einhverja íbúð eftir auglýsingum sem ég sá á Craigslist fyrir París en lagði ekki í að leigja beint eftir svona auglýsingu þar sem ég er ein á ferð, mér þótti öruggara að leigja í gegnum fyrirtæki sem væri með margar íbúðir í útleigu.

Ég hef einu sinni fengið gistingu erlendis í gegnum smáauglýsingu, það var í New York og það var vissulega á besta stað í bænum, það var alveg við aðalhornið á Central Park en það var í kjallara sem var svo niðurgrafinn að aðeins um 20 cm gluggi var efst og þar voru rimlar fyrir honum og mjög dularfullt fólk sem stóð fyrir þeirri gistiaðstöðu svo mér varð ekki svefnsamt þá nótt. Núorðið þegar ég ferðast erlendis þá er ég annað hvort í svona íbúðum eða á farfuglaheimili eða þá í íbúðaskiptum.