11.11.06

Mannval hjá Samfylkingunni

Ég held að það séu fáir flokkar sem geta státað af eins miklu mannvali í prófkjörum eins og Samfylkingin í Reykjavík í prófkjörinu í dag. Núna er ég að skoða blöðin og þar er mikið um auglýsingar og myndir frá frambjóðendum og ég held að þetta sé einvala lið, allt fólk sem ég myndi treysta til að taka ábyrga og vel ígrundaða afstöðu í málum og vinna að velferð allra en vera ekki málpípur eða talrör forréttindastétta. Þetta segi ég þó ég sé ekki í Samfylkingunni.

Það er áberandi hversu margir af þeim sem eru í framboði hafa unnið að jafnréttismálum og ýmis konar mannréttindamálum. Ég starfaði með Ingibjörgu Sólrúnu, Guðrúnu Ögmunds, Steinunni Valdísi og Þórhildi í Kvennalistanum og Bryndísi Ísfold í ráði Femínistafélagsins. Kristrún Heimis hefur einnig starfað í Femínistafélaginu. Allt alveg frábærar konur sem ég hef fylgst lengi með treysti til allra góðra verka.

Össur og Mörður eru skólabræður mínir úr MR og voru þar strax forustumenn í félagslífinu. Össur hefur nú verið í forustu síðan ég byrjaði að fylgjast með félagsmálum, fyrst í MR, síðan í stúdentapólitíkinni og svo þjóðmálunum. Jóhanna hefur verið í eldlínu stjórnmála í marga áratugi og staðið fyrir mörgum góðum málum. Ég man að þegar hún var félagsmálaráðherra var komið á fyrir hennar tilstilli styrk úr ríkissjóði til atvinnumála kvenna en um það leyti var verulegt atvinnuleysi meðal kvenna og miklu meira en meðal karla, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég hugsa að það verði ekki fyrr en eftir marga áratugi þegar stjórnmálasaga liðinna áratuga verður skrifuð að menn átta sig á því hve miklir gerendur Össur og Jóhanna hafa verið í íslenskum stjórnmálum og það þrátt fyrir að þau hafi mestan sinn stjórnmálaferil verið í stjórnarandstöðu.

Ég hef fylgst með verkum Helga Hjörvar í borgarstjórn og verkum Ágústs Ólafs á þingi og þeir hafa báðir staðið sig afar vel og starfað að heilindum og dugnaði að ýmsum umbótamálum. Ég man að fyrir mörgum árum þá var ég á fundi hjá ofbeldisvarnarhópi Femínistafélagsins og þar voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna og þá var Ágúst Ólafur þar mættur fyrir hönd Samfylkingarinnar. Ég man að þá var töluvert sótt að honum af fundarmönnum - að mig minnir út af því að að ungir Samfylkingarmenn að mig minnir í Reykjavík höfðu spornað á móti því að fá súludansstaðina og kjöltudansinn útræka úr Reykjavík og verið með einhverjar ályktanir eða skrif um það. Ágúst Ólafur var á þessum fundi ekki ofsæll af því að þurfa þar að verja sína samherja en síðan þá hefur hann staðið sjálfur fyrir ýmsum lagafrumvörpum sem taka á kynbundnu ofbeldi og að rétta hlut fólks sem stendur höllum fæti í samfélaginu.

Ásta Ragnheiður og Valgerður Bjarnadóttir eru líka skeleggar baráttukonur um jafnréttismál þó þær hafi ekki verið í Kvennalistanum. Mig minnir reyndar að Ásta Ragnheiður hafi verið í Rauðsokkuhreyfingunni. Ellert Scram hefur unnið farsælt starf innan íþróttahreyfingarinnar og þar tekið þátt í að rétt hlut kvenna.

Ég veit nú reyndar ekkert um einn frambjóðandann Glúm annað en stendur á heimasíðunni hans og það er nú ekkert sérstaklega að höfða til mín þó það sé fjörlegt og maðurinn glæsilegur. Það verður að segjast hreinskilnislega - það virkar bara á mig sem innihaldslaust orðagjálfur það sem ég er að lesa þar.

Ég vona að Kristrún Heimisdóttir, Bryndís Ísfold, Ágúst Ólafur og Helgi Hjörvar verði framtíðarleiðtogar í íslenskum stjórnmálum og mér finnst þau öll hafa sýnt með störfum sínum að þeim er treystandi til þess. Ég vona að þau fái mikinn stuðning í prófkjörinu svo það hvetji þau til dáða og til að halda áfram á sömu braut.

Ég vona líka að reyndir þingmenn njóti verka sinna í svona prófkjöri og fólk skoði verk þeirra og leggi mat á störf þeirra. Ég óska nú sérstaklega fyrrum Kvennalistakonum og félagsmönnum í Femínistafélaginu góðs gengis og reyndar finnst mér hryggjarstykkið í Samfylkingunni sem og fleiri stjórnmálaöflum hafa vaxið upp úr jafnréttishreyfingum undanfarinna áratuga.

Annars fyrst ég er að mæra svona Samfylkingarfólk þá er best að strá lofinu á fleiri stjórnmálaflokka sem ég tilheyri ekki. Ég var sérstaklega ánægð með að Grazyna M. Okuniewska komst áfram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, ég þekki Grazynu ágætlega og veit að hún er mannvinur og bæði heiðarleg, greind og dugleg og verður öflugur og góður talsmaður nýbúa hér. Grazyna er ættuð frá Póllandi eins og stór hluti af nýbúum hérna. Ég veit að hún brást strax við og skrifaði blaðagrein á móti þessari nýju línu hjá Frjálslynda flokknum. Ég get nú ekki ausið lofi á Frjálslynda flokkinn fyrir þetta nýja útspil að gera út á útlendingahatur en það var náttúrulega bara tímaspursmál, það eru alltaf hægrisinnaðir litlir flokkar sem taka svona dýfur og hér á Íslandi hefði það ekki getað verið neinir nema Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn. Sem betur fer þá leggst minn flokkur Framsóknarflokkurinn ekki svona lágt og þar talar formaðurinn um að flokkurinn um þjóðhyggju en ekki þjóðernishyggju væntanlega einmitt til að greina sig frá útlendingahatursflokkum. Ég velti nú líka fyrir mér hvað pólskri eiginkonu formanns Frjálslynda flokksins finnst um þessa umræðu. Reyndar var ég bara ánægð með efsta fólk á lista hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, það er fólk sem ég treysti ágætlega þó mér finnist hlutur kvenna rýr þarna en ég held að Guðfinna, Ásta Möller og Dögg og Grazyna verði ágætir málsvarar mannréttinda.