29.12.06

Síbloggandi á salvor.blog.is

Ég er ekki hætt að blogga, það er öðru nær. Núna síðasta mánuðinn hef ég bloggað grimmt á heitasta reitnum í íslensku netsamfélagi sem er auðvitað moggabloggið.
Slóðin hjá mér er http://salvor.blog.is

Þetta bloggsamfélag hefur haft þau áhrif að ég er síbloggandi um merkilegar jafnt sem ómerkilegar fréttir og tjái mig grimmt um hneykslismálin og dægurmálin í íslensku samfélagi. Hér er listi yfir bloggin undanfarin mánuð, hann er óhugnanlega langur. Það verður eitt af nýársheitunum í ár að tempra moggabloggið.

10 þúsund týndar skopmyndir eftir Sigmund - Veit einhver um þær?
Hver má blogga hjá RÚV?
Fangelsið Ameríka - topplistar hjá Time.
Bakslag? Getur það orðið verra?
Vargafélagið
Fann ég á fjalli fallega steina
Ísafold velur Íslending ársins
Upp á hól stend ég og kanna
Jólaboð 2. í jólum - myndir
Jól í Bolungarvík
Ferðalag keisaramörgæsanna
Úðuð list
Jólamyndir - pakkaupptaka
Gleðileg jól
Reykskynjarar, kerti og jólaskreytingar
Sendiherrann á Súfistanum
Núðlur á Naustinu, engin skata
Netið er dýrið
Heggur sá er hlífa skyldi
Kastljós fangavarðanna
Vetrarsólhvörf og Afturelding
Klikkað Kastljós
Siðferði á Netinu - Að skjóta fólk
Óskar og ofsóttir Framsóknarmenn
Grafarþögn er góð
Meðferð og skutl
Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti
Trú, víma og umburðarlyndi
Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins
Föndur dagsins - Framsóknarlokkar
Keyrði yfir umferðareyju
Fagnað með Framsókn
Aumastir allra - Ólafía og vændiskonurnar
Grýla á Bolafjalli
Tóm steypa hjá Orðinu á götunni
Cult Shaker kúltúr á Íslandi
Bloggtoppur árið 2007
Kona ársins
Að drepa konu
Með jólalögum skal land byggja
Jólaskraut truflar netsamband í þráðlausum heimi
Frú Blair í bláum kjól, nakin
Ég þekki Grýlu, ég hef hana séð..
Eitur í listsköpun
Skrauthnappar - lítil listaverk
Allir á móti hlerunum... nema þegar það kemur þeim sjálfum vel
Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?
Grýla Ómars Ragnarssonar
Orð dagsins er seiðmagnað
Guðrún Halldórs opnar dyr
Mynd mín af Hallgrími Péturssyni
Móðuharðindi bernskunnar
Olíumálverk - Snerting, sjón og tjáning
Austurstræti, ys og læti...fálkaæti
Hávær umræða um hleranir
Hvað er Fons?
Upplýsingalög, Myspace og kynferðisafbrotamenn
Olíumálun - fyrsta myndin
Offita barna mest í Breiðholti
Siðblindir á meðal vor
Æskulínan,Tröð , Alexander mikli, bílar og fílar
Framsókn Margrétar
Ekki frétt dagsins - Coldplay semur ný lög
Frjálslynt nýtt afl - Einhvers staðar verða vondir að vera
Lífsýni og pabbi hans Lúðvíks
Fínir kandidatar hjá Vinstri Grænum
Rósu Park dagurinn
Árásin á Second Life og netárás al-Qaeda
Jólamoggablogg og jólaglæpurinn
Fugl dagsins er margæs
Dagsbrún var einu sinni verkalýðsfélag...
Hannibal hleraður
Borgarastyrjöld í Írak og ábyrgð hinna viljugu þjóða
Fjölskyldumyndir
Virkjanir kosta meira en peninga og heiðalönd
Orð dagsins eru hacktivism og slacktivism
Kaupum ekkert dagurinn á 66 norður
Menning heimsins er rituð í leir
Fyrrverandi ljóska
Víkindainnrásin og West Ham
Orð dagsins er Pískirís
Kortakvart
Að verja hagsmuni sína... fyrir sjálfum sér
Kanahúsin á floti
Ævisaga Hannesar
Myspace,netsamfélög og höfundarréttur
Er líf eftir Frontpage?
Sturla, Einar, Einar
Stafrófskverið - flott framtak hjá bókasöfnunum
Konungsbók og eineygður köttur
Bifrastarmálið - þrjú atriði til umhugsunar: umboð, nafnlaus skrif, ástarsambönd nemenda/kennara
í augsýn er nú frelsið...
Runólfur á Bifröst, Árni í Eyjum og Arnar í Rannsóknarlögreglu
Labpixies
Youtube uppfinning ársins samkvæmt Time
Wikispaces fyrir kennara - skjákennsla
Skrifað á veggi í Barcelona
Að skrifa greinar um fólk í íslensku wikipedia
Go open source
Jumpcut - Iceland 2006

11.11.06

Mannval hjá Samfylkingunni

Ég held að það séu fáir flokkar sem geta státað af eins miklu mannvali í prófkjörum eins og Samfylkingin í Reykjavík í prófkjörinu í dag. Núna er ég að skoða blöðin og þar er mikið um auglýsingar og myndir frá frambjóðendum og ég held að þetta sé einvala lið, allt fólk sem ég myndi treysta til að taka ábyrga og vel ígrundaða afstöðu í málum og vinna að velferð allra en vera ekki málpípur eða talrör forréttindastétta. Þetta segi ég þó ég sé ekki í Samfylkingunni.

Það er áberandi hversu margir af þeim sem eru í framboði hafa unnið að jafnréttismálum og ýmis konar mannréttindamálum. Ég starfaði með Ingibjörgu Sólrúnu, Guðrúnu Ögmunds, Steinunni Valdísi og Þórhildi í Kvennalistanum og Bryndísi Ísfold í ráði Femínistafélagsins. Kristrún Heimis hefur einnig starfað í Femínistafélaginu. Allt alveg frábærar konur sem ég hef fylgst lengi með treysti til allra góðra verka.

Össur og Mörður eru skólabræður mínir úr MR og voru þar strax forustumenn í félagslífinu. Össur hefur nú verið í forustu síðan ég byrjaði að fylgjast með félagsmálum, fyrst í MR, síðan í stúdentapólitíkinni og svo þjóðmálunum. Jóhanna hefur verið í eldlínu stjórnmála í marga áratugi og staðið fyrir mörgum góðum málum. Ég man að þegar hún var félagsmálaráðherra var komið á fyrir hennar tilstilli styrk úr ríkissjóði til atvinnumála kvenna en um það leyti var verulegt atvinnuleysi meðal kvenna og miklu meira en meðal karla, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég hugsa að það verði ekki fyrr en eftir marga áratugi þegar stjórnmálasaga liðinna áratuga verður skrifuð að menn átta sig á því hve miklir gerendur Össur og Jóhanna hafa verið í íslenskum stjórnmálum og það þrátt fyrir að þau hafi mestan sinn stjórnmálaferil verið í stjórnarandstöðu.

Ég hef fylgst með verkum Helga Hjörvar í borgarstjórn og verkum Ágústs Ólafs á þingi og þeir hafa báðir staðið sig afar vel og starfað að heilindum og dugnaði að ýmsum umbótamálum. Ég man að fyrir mörgum árum þá var ég á fundi hjá ofbeldisvarnarhópi Femínistafélagsins og þar voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna og þá var Ágúst Ólafur þar mættur fyrir hönd Samfylkingarinnar. Ég man að þá var töluvert sótt að honum af fundarmönnum - að mig minnir út af því að að ungir Samfylkingarmenn að mig minnir í Reykjavík höfðu spornað á móti því að fá súludansstaðina og kjöltudansinn útræka úr Reykjavík og verið með einhverjar ályktanir eða skrif um það. Ágúst Ólafur var á þessum fundi ekki ofsæll af því að þurfa þar að verja sína samherja en síðan þá hefur hann staðið sjálfur fyrir ýmsum lagafrumvörpum sem taka á kynbundnu ofbeldi og að rétta hlut fólks sem stendur höllum fæti í samfélaginu.

Ásta Ragnheiður og Valgerður Bjarnadóttir eru líka skeleggar baráttukonur um jafnréttismál þó þær hafi ekki verið í Kvennalistanum. Mig minnir reyndar að Ásta Ragnheiður hafi verið í Rauðsokkuhreyfingunni. Ellert Scram hefur unnið farsælt starf innan íþróttahreyfingarinnar og þar tekið þátt í að rétt hlut kvenna.

Ég veit nú reyndar ekkert um einn frambjóðandann Glúm annað en stendur á heimasíðunni hans og það er nú ekkert sérstaklega að höfða til mín þó það sé fjörlegt og maðurinn glæsilegur. Það verður að segjast hreinskilnislega - það virkar bara á mig sem innihaldslaust orðagjálfur það sem ég er að lesa þar.

Ég vona að Kristrún Heimisdóttir, Bryndís Ísfold, Ágúst Ólafur og Helgi Hjörvar verði framtíðarleiðtogar í íslenskum stjórnmálum og mér finnst þau öll hafa sýnt með störfum sínum að þeim er treystandi til þess. Ég vona að þau fái mikinn stuðning í prófkjörinu svo það hvetji þau til dáða og til að halda áfram á sömu braut.

Ég vona líka að reyndir þingmenn njóti verka sinna í svona prófkjöri og fólk skoði verk þeirra og leggi mat á störf þeirra. Ég óska nú sérstaklega fyrrum Kvennalistakonum og félagsmönnum í Femínistafélaginu góðs gengis og reyndar finnst mér hryggjarstykkið í Samfylkingunni sem og fleiri stjórnmálaöflum hafa vaxið upp úr jafnréttishreyfingum undanfarinna áratuga.

Annars fyrst ég er að mæra svona Samfylkingarfólk þá er best að strá lofinu á fleiri stjórnmálaflokka sem ég tilheyri ekki. Ég var sérstaklega ánægð með að Grazyna M. Okuniewska komst áfram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, ég þekki Grazynu ágætlega og veit að hún er mannvinur og bæði heiðarleg, greind og dugleg og verður öflugur og góður talsmaður nýbúa hér. Grazyna er ættuð frá Póllandi eins og stór hluti af nýbúum hérna. Ég veit að hún brást strax við og skrifaði blaðagrein á móti þessari nýju línu hjá Frjálslynda flokknum. Ég get nú ekki ausið lofi á Frjálslynda flokkinn fyrir þetta nýja útspil að gera út á útlendingahatur en það var náttúrulega bara tímaspursmál, það eru alltaf hægrisinnaðir litlir flokkar sem taka svona dýfur og hér á Íslandi hefði það ekki getað verið neinir nema Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn. Sem betur fer þá leggst minn flokkur Framsóknarflokkurinn ekki svona lágt og þar talar formaðurinn um að flokkurinn um þjóðhyggju en ekki þjóðernishyggju væntanlega einmitt til að greina sig frá útlendingahatursflokkum. Ég velti nú líka fyrir mér hvað pólskri eiginkonu formanns Frjálslynda flokksins finnst um þessa umræðu. Reyndar var ég bara ánægð með efsta fólk á lista hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, það er fólk sem ég treysti ágætlega þó mér finnist hlutur kvenna rýr þarna en ég held að Guðfinna, Ásta Möller og Dögg og Grazyna verði ágætir málsvarar mannréttinda.

21.9.06

Maður af erlendum uppruna

Ég hef reynt að slá inn í google í dag frasa eins og "how to blow up the world" og "how to get rich and make bombs without really trying" í veikri von um að draga að mér athygli hinnar árvökulu íslensku lögregluyfirvalda sem tékka á því að þegnarnir séu ekki að skoða að óþörfu alls konar óhollustu vefdrasl. Merkilegasta frétt dagsins er um manninn af erlenda upprunanum sem vafrar á Netinu og heldur að hann komist upp með það.

Þessi frétt var á Rúv í dag:
"Fréttablaðið greinir frá því á forsíðu í dag að lögregluyfirvöld hafi til rannsóknar mál sem varði þjóðaröryggi. Ábendingar hafi borist um að maður af erlendum uppruna liti oft á vefsíður sem fjölluðu um sprengjugerð. Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans, segir að embættinu berist ýmsar ábendingar um mál t.d. frá borgurunum. Hann segir ýmis mál koma til ríkislögreglustjórans og þau séu könnuð og séu formlega rannsökuð, sé tilefni til."

Ég er dauðhrædd um að lögregluyfirvöld komist að því að ég hef sérstakan áhuga á vefsíðum sem fjalla um raðmorðingja og vefsíðum um Helförina og vefsíðum um voðaverk í stríði og þjóðarmorð og útrýmingarherferðir. Nei bíddu við... sennilega finnst engum það grunsamlegt... við erum í samfélagi sem dýrkar ofbeldi og morð og ódæðisverk og á hverjum einasta degi er dælt yfir okkur uppskriftum af morðum og valdbeitingu, stundum eru þessar uppskriftir kallaðar fréttir, stundum sakamálaþættir stundum klámefni og stundum sögulegt efni.

En hinn fróðleiksfúsi maður af erlenda upprunanum sem skoðar alls konar vefsíður um sprengjur ætti kannski að beina fróðleiksfýsn sinni í aðrar áttir. Kannski að byrja á að kynna sér hvernig hann getur ferðast um sporlaust í óravíddum Internetsins. Það eru til verkfæri til þess, t.d. Torpark frá Hacktivismo.

Ég veit ekki hvort Ísland er að breytast í lögregluríki eða hvort það er þegar orðið lögregluríki eða hvort það hefur kannski verið lögregluríki sem njósnaði um þegnanna í marga áratugi. Það er ekkert eins hættulegt fyrir lýðræðið og stjórnvöld sem telja þegnana í eigin ríki vera sína verstu óvini.

19.9.06

Guðlast, guðleysi, vísindahyggja og bókstafstrú

Hörmulegustu stríðin sem nú eru háð í heiminum eru ekki innblásin trúarstríð og mesta ógn okkar er ekki brjálaðir ofsatrúarterroristar. Það stafar meiri ógn af stjórnvöldum sem nota hræðslu við trúarterrorisma sem átyllu og skálkaskjól til að byggja upp lögregluríki og eftirlitsþjóðfélag. En trúin er lím sem límir saman sundurleita hópa og getur veitt fólki sem fremur voðaverk einhvers konar réttlætingu gjörða sinna.

Það eru ekki skýrar markalínur milli bókstafstrúarmanna í Múslimalöndum og hinna frjálslyndra Vesturlanda, það er jafnmikill uppgangur í bókstafstrú sums staðar á Vesturlöndum, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem núverandi stjórnvöld sækja reyndar fylgi sitt til slíkra afla.

Þetta er skrýtin heimsmynd, geysistórar fylkingar af sama meiði - báðar vopnaðar eldgömlum skræðum biblíunni og kóraninum. það er alveg lygilegt hvað margir eru tilbúnir til að nota gagnrýnislaust gamlar bækur sem sitt leiðarstef í lífinu.

Hér eru tvö góð myndbönd um vísindahyggju versus bókstafstrú. Þar er bókstafstrú máluð sem óvinurinn og andstæða við vísindahyggju. Ég held hins vegar ekki að það sé einhver skörp skil milli vísindahyggju og trúar, vísindahugsun er ekki alltaf andstæða við gagnrýnislausa bókstafstrú. Vísindahugsun hefur á ýmsum tímum verið alveg eins og bókstafstrú lokuð inn í eigin kerfi og komist að furðulegum niðurstöðum með því að nota viðteknar aðferðir.

Reyndar finnst mér vísindamenn sem hafa komist niðurstöðum sem við núna teldum fáránlegar og skrýtnar vera mjög áhugaverðir. Mínir eftirlætisvísindamenn eru Daninn Tyche Brahe sem gekk með gullnef og færði lærð rök fyrir kenningu um að sólin snerist í kringum jörðina og svo Íslendingurinn Finnur Magnússon sem var etatsráð og leyndarskjalavörður konungs og samdi geysilegar doðrant um rúnirnar í Runamo og las út úr þeim vísur þar sem aðrir sáu jökulristur.

Guðleysinginn Richard Dawkins sem talar í myndböndunum mælir fram þau vísdómsorð að "religion thrives on unsolved mystery" en hann setur það fram eins og eitthvað slæmt. Trúarþörf er samofin hinu ókannaða, hinu ókunna, ímyndunaraflinu og tilfinningum, því sem við getur ekki sett inn í tilbúin kerfi.



12.9.06

Skjákennsla

Ein sniðug aðferð í fjarkennslu er að taka upp efni sem nemandinn getur spilað - annað hvort í tölvunni hjá sér eða hlaðið inn í videó iPod. Ég hef verið að taka upp það ýmis konar sýnikennslu og setja á vefinn, hér eru dæmi um sýnikennslu um Wikimapia.org og um hugarkortsforritið Freemind. Ég vista upptökurnar sem flash formi og wma en set þetta líka á youtube eða google video þó það þýði minni gæði. Þessi myndræmukerfi eru alltaf að verða betri og betri og youtube er eitt mest sótta vefsvæði í heiminum í dag. Þar er margt efni svo sem tónlistarmyndbönd sem eru sennilega ekki þarna með samþykki höfundarrétthafa. Það er núna hægt að senda beint út á blogger frá bæði youtube og google video þannig að þetta er einföld leið til að gefa út margmiðlunarefni. Ég nota Camtasia til að taka upp sýnikennslu.



1.9.06

Gender trouble í Póllandi

Ég er stödd í borginni Lodz í Póllandi, ég er þar á evrópskri kynjafræðiráðstefnu. Rétt áðan var ég að hlusta á Judith Butler flytja fagnaðarerindi sitt og mér heyrðist hún ekki tala í neinum samhljómi með Bush forseta sínum fremur en aðrir bandarískir menntamenn. Ég á eina bók eftir Butler, bókina Gender Trouble en verð að viðurkenna að ég hef aldrei lesið hana. Reyndar er það svo að þessi bók hefur ferðast með mér víða, þetta er svona kilja sem hentar að taka með sér í flugvélar. Ég hafði í mörg ár þann sið að hafa með mér í handfarangri sem lestrarefni tvær bækur, það var bókin Gender Trouble eftir Judith Butler og bókin Metaphors We live By eftir George Lakoff og Mark Johnson. Ég hef samt aldrei svo mikið sem lesið fyrstu blaðsíðuna í þessum bókum og það rann smán saman upp fyrir mér að þetta var einhvers konar rituall að pakka þeim með í ferðalög. Svona eins og að pakka með biblíunni eða einhverjum verndargripum með ristuðum táknum.

Nú er ég hætt að taka þessar bækur með mér í flug. Það er samt ætlun mín að lesa þær einhvern tíma. Þetta einhvern tíma getur samt verið afar langt í burtu í tíma. Núna hef ég nefnilega mestan áhuga á sakamálasögum og þá helst sakamálasögum úr íslenskum veruleik. Reyndar hef ég svo mikinn áhuga núna á sakamálasögum að mig langar til að skrifa sakamálasögu. Ég fékk þennan áhuga nýlega út af þrennu. Í fyrsta lagi þá hlustaði á heimildarþátt í danska sjónvarpinu um Blodgruppen sem er sænsk glæpasögukvennamafía og um glæpasagnahöfundinn Lizu Marklund, það rann upp fyrir mér að sakamálasaga er frásagnarform sem hæfir beittri samfélagsrýni og því að segja sögu um kúgun og vald. Heimildarþátturinn var "dokumentar om seks andre kvindelige svenske krimiforfattere, der mødes i "Blodgruppen" for at diskutere nye og anderledes metoder til at slå folk ihjel i deres romaner". Í öðru lagi var ég í Flatey í sumar og hitti þar glæpasagnahöfundinn Viktor Arnar Ingólfsson og hann sagði okkur frá bókinni sinni sem gerist í Flatey og svo í þriðja lagi hlustaði ég á leiklesturinn á Tíma nornarinnar eftir Árna Þórarinsson á rás 1 núna í sumar. Ég er sem sagt búin að bæta því við á listann yfir markmið í lífinu að skrifa eina sakamálasögu. Það kemur næst á eftir markmiðinu að verða skopmyndateiknari sem vílar ekki fyrir sér guðlast. Ég las því í Flateyjargátunni á flugleiðinni frá Íslandi, vonandi klára ég hana á heimleiðinni til Íslands.

21.6.06

Sjóræningjaflokkurinn

Ef ég byggi í Svíþjóð og hefði kosningarétt þar þá myndi örugglega hvarfla að mér að kjósa nýja sænska Femínistaflokkinn . En svo mundi ég upptendrast og æða beint í Sjóræningjaflokkinn, ganga í þann flokk og starfa eins og ég gæti að baráttumálunum. Bæði þessi nýju sænsku stjórnmálaöfl snúast um brýn mannréttindamál og ég gæti varla gert upp á milli hvort er mér hugleiknara - að berjast fyrir réttindum kvenna og barna eða berjast fyrir tjáningarfrelsi og athafnafrelsi á Internetinu og frjálsu flæði þekkingar. Ég held hins vegar að akkúrat núna magnist rödd femínista ekki neitt upp með að vera lokuð inn í einhverju einu stjórnmálaafli. Ég held að málstaður femínista eigi hljómgrunn hjá öllu hugsandi fólki og það sé mikilvægara að bergmála rödd kvenfrelsis í öllum stjórnmálaflokkum og vinna líka saman þvert á flokka.

Þannig er það ekki með deilingu á efni á Netinu. Fæstir þeirra sem nú stjórna og setja okkur lög og leikreglur hafa skilning á því hversu mikilvægt frjálst flæði þekkingar er fyrir mannréttindi og fyrir athafnalíf á upplýsingaöld. Almenningsálitið er ekki hliðhollt netverjum, margir telja að við sem deilum og skiptumst á efni á Netinu og setjum saman efni úr ýmsum áttum séum ribbaldalýður og glæponar. Það fara fram ofsóknir á hendur netverjum í ýmsum löndum. Ef það gerist í Kína eða Miðausturlöndum þá hefur pressan á Vesturlöndum skilning á þessu sem mannréttindabrotum en ef það gerist á Vesturlöndum þá er fréttaflutningur oft afar litaður og orðið hakkari er notað sem heiti yfir einhvers konar hryðjuverkastarfsemi á Netinu og látið líta út fyrir að aðaliðja netlýðsins sé að hanga froðufellandi yfir dreifingu á klámi. Margt af því sem stjórnvöld og löggjafar aðhafast á þessu sviði er ekki með hagsmuni almennings í huga heldur til að tryggja hagsmuni ríkisvalds sem vill hafa eftirlit með þegnunum og til að tryggja hagsmuni fjölþjóðlegra stórfyrirtækja. Allar leikreglur um höfundarrétt og hugverkarétt og blöndun og dreifingu á efni eru miðaðar við veruleika sem er víðs fjarri þeim veruleika sem við lifum við í dag. Það er mjög erfitt fyrir marga þeirra sem lifa og hræra í heimi þekkingar og sem hafa hlotið skólun sína í heimi prentmiðla og miðstýrðrar ljósvakafjömiðlunar að skilja að sá markaðsmekanismi sem við búum við í dag er alls ekkert að virka í þessum nýja nettengda þekkingarheimi.

Nokkrar slóðir um Sjóræningjaflokkinn
Wikinews viðtal við stofnanda Sjóræningjaflokksins 20. júní
Upplýsingar á ensku um Sjóræningjaflokkinn
Myndir af mótmælum sænskra sjóræningja
Meiri myndir frá sænskum sjóræningjum

Ef til vill eru sænski femínistaflokkurinn og sænski sjóræningjaflokkurinn vísbending um þróun stjórnmála, ef til vill breytast stjórnmálaöfl úr því að vera gamlir flokkar og breiðfylkingar í að vera tímabundnar fylkingar fólks sem þjappar sér í kringum mjög skýrt afmarkaðan málstað - gjarnan málstað sem orðið hefur á einhvern hátt útundan en sem hefur samt þunga undiröldu og er á einhvern hátt boðberi nýrra tíma. Kvennalistinn sálugi og Frjálslyndi flokkurinn eru slík dæmi í íslenskum stjórnmálum, flokkar sem stofnaðir voru í kringum kvenfrelsi og kvótakerfi. Vinstri Grænir eru líka okkar græningjaflokkur. Ég velti fyrir mér hvort eða hvernig rótgrónir flokkar geta tekið í sátt femínista, græningja og sjóræningja.

Ég óska eftir að komast í samband við þá netverja sem hafa áhuga á að berjast fyrir því sama hérlendis og sænsku sjóræningjarnir. Við gætum kannski komið þessum málum eitthvað inn í umræðuna í næstu þingkosningum. Skrifið mér á salvorice@hotmail.com

19.6.06

Myndir frá 19. júní - Framtíð lýðræðis

Hefur maður einhvern rétt til að vera sinnulaus um stjórnmál? Ekki á 19. júní því það er dagurinn þar sem íslenskir femínistar mála bæinn bleikan og minnast þess að þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt til Alþingis. Ég gekk um kvennaslóðir í dag, drakk kaffi á Hallveigarstöðum og hlustaði á femíniska tónleika á Laugaveg 22. Hér er myndaalbúm með 72 myndum sem ég tók, það er líka hægt að skoða þær sem sjálfkeyrandi myndasýningu.

IMG_0162IMG_0194IMG_0175xIMG_0189


En hefur maður einhvern rétt til að vera sinnulaus um stjórnmál á hversdagslegri dögum en 19. júní? Ég held að það sé skylda okkar að taka þátt í stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu og reyna að hafa áhrif á samfélagsþróun. Það eru ágætir þættir á sunnudögum Rás 1 núna í sumar um framtíð lýðræðis og í gær 18. júní var viðtal við Atla Harðarson heimspeking þar sem hann veltir einmitt upp spurningu um ábyrgð þeirra sem sýna stjórnmálum tómlæti.

Úr útvarpsþætti um framtíð lýðræðis 18. júní

Lýðræði gengur út á að ólíkar skoðanir takist á og menn séu tilbúnir til að hlusta á aðra og geti skipt um skoðun ef rök andstæðinga eru nógu sannfærandi, lýðræði snýst um umburðarlyndi, tjáningarfrelsi og trúfrelsi.

Atli fjallaði um hvernig miðaldamenn gerðu ráð fyrir stigveldi, að mennirnir væru ekki jafnir og hin miklu umskipti í heimspeki verða þegar menn hætta að gera ráð fyrir að til sé einhver einn sannleikur og sá æðsti í stigveldi manna hefði eitthvað betri aðgang að sannleika og þekkingu en aðrir lægra settir. Á sautjándu öld fara heimspekingar að gera ráð fyrir að allir menn séu jafnir. Atli ræddi um heimspekingana John Locke og Baruch Spinoza en þeir voru uppreisnarmenn, þeir settu fram hugmyndir á tíma þar sem ekki var til neitt lýðræðisríki, hugmyndir sem voru afar róttækar á 17. öld á öld sólkonungsins, á öld þar sem flestir í fararbroddi í samfélaginu álitu það framfaramál að allir þræðir væru í hendi einvalds sem stjórnaði með ráðgjöfum sínum og töldu að ef skríll eða lýður ráði þá sé ekki stjórnað af þekkingu.

Fyrstu skrefin í lýðræðisátt voru tekin af þeim sem aðhylltust trúfrelsi. Ef samfélag er skipulagt í kringum eina trú og einn sið og það er glæpsamlegt að gagnrýna hana opinberlega þá verður ekki til það hugmyndatorg sem lýðræði gengur út á. Konungur átti að hafa þegið vald sitt beint frá guði. Locke notaði efahyggjurök til að mæla fyrir trúfrelsi. Locke setti fram hugmynd um fulltrúalýðræði, Spinoza varpar fram þeirri hugmynd að ríki það sem skoðanafrelsi og umburðarlyndi ríkir kunni að vera stöðugra, í þannig ríki væri minni hætta á blóðugum byltingum. Heimspekingurinn Rousseau á mikil ítök í draumaheimi nútímans - þeim draum að allir ráði ráðum sínum í sameiningu og komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Atli ræðir um hve stjórnmál njóti lítillar virðingar í dag og hættuna á því að við tökum lýðræðið sem of sjálfsagðan hlut. Stjórnmál snúist um málefni þar sem fólk er í nágrenni við alls konar drullupolla, það er tekist á um ýmis konar hagsmuni og þeir sem taka þátt hljóta óhjákvæmilega að fá á sig einhverjar slettur. En til þess að lýðræði virki þá þurfa margir að taka þátt og gefa kost á sér, almennir kjósendur að hlusta á hugmyndir og taka afstöðu til þeirra á yfirvegaðan hátt, kjósendur verða að taka stefnumál flokkanna alvarlega og hlusta á frambjóðendur. Annars er hætta á að kosningar verði skrípaleikur, einhvers konar ómerkileg vinsældakosning þar sem frambjóðendur dæla út áferðarfallegum sjónvarpsauglýsingum þar sem ýtt er á einhverja takka í sálinni á fólki.

Meira um kosningaþátttöku íslenskra kvenna og 19. júní

Þann 19. júní 1915 fengu konur sem voru 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið skyldi lækka um eitt ár næstu 15 árin, eða þar til 25 ára aldri væri náð en það voru þau mörk sem almennur kosningaréttur karla miðaðist við. Sama dag fengu þeir karlar sem voru vistráðin hjú kosningarétt með sömu skilyrðum og konur. Ástæðan fyrir aldurstakmarkinu var sú að stjórnvöld (karlar) töldu hina nýju kjósendur ekki nægilega þroskaða til að takast á við kosningaréttinn og töldu að ef þeim yrði öllum hleypt að kosningaborðinu í einu gæti það haft ófyrirsjáanleg áhrif á niðurstöður kosninga.
Þessar takmarkanir voru á kosningarétt voru síðar felldar niður og árið 1920 verða karlar og konur jöfn að lögum að því er snertir kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.

Árið 1908 sameinuðust kvenfélögin í Reykjavík um fyrsta kvennaframboðið á Íslandi. Fjórar konur skipuðu listann, þar á meðal Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og komust þær allar í bæjarstjórn - fyrstar kvenna hér á landi. Árið 1922 hlaut Ingibjörg H. Bjarnason skólastýra kosningu til Alþingis, fyrst kvenna.

Hér er efni sem ég setti á vef frá 19. júní 2003 og 2004.
19. júní 2003
Bleiku steinarnir afhentir 2003
Kvennasöguslóðir í kvosinni 19. júní 2004
19. júní 2004 ( myndir)
Borðar á vefsíður

19. júní 2006 myndaalbúm með 72 myndum
19. júní 2005 - Við viljum
Videóklipp frá þingvallahátíð (athuga, að til að spila vídeóið getur þurft að ýta tvisvar á myndina)



15.6.06

Femíniskt samkynhneigt samfélag

Eftirminnilegustu erindin á ráðstefnunni Tengslanet III- Völd til kvenna á Bifröst 1. og 2. júní voru gífuryrðaflóðið hjá Germaine Greer og skörp greining hjá Þórhildi Þorleifsdóttur á hinu samkynhneigða karlmannasamfélagi sem við lifum í og ádrepa Katrínar Önnu þar sem hún spyr hvort það sé kvenna verk að verja sæmd karla. Þetta var öflug ráðstefna og dúndurpartý um kvöldið, svona stemming eins og á landsfundum Kvennalistans þegar baráttugleðin var mest. Þórhildur talaði um að við þyrftum femíniskt samkynhneigt samfélag en hugmyndin hennar gekk út á að við og fornmæður okkar búum í samkynhneigðu karlmannasamfélagi þar sem karlmenn elska aðra karlmenn og þar sem konum er líka kennt að elska karlmenn, dá þá og virða. Eftir orðræðu Þórhildar þá hef ég leitað að merkjum um hið karlmannlega samkynhneigða samfélag og þau blasa hvarvetna við. Ekki síst á þessum HM tíma. En merkin eru ekki bara í boltanum, þau eru líka í bókmenntunum og þau eru í öllum valdastrúktúr samfélagsins.

Á Súfistanum í gær las ég yfir kaffibolla fyrstu hlutann af bókinni Margs er að minnast eftir Jakob F. Ásgeirsson en það eru minningarbrot þar sem Kristján Albertsson bregður um mynd af samferðamönnum sínum. Kristján þessi var hliðvörður íslenskra bókmennta í marga áratugi og það var hann sem uppgötvaði eða bjó til með orðræðu sinni snilligáfu hins verðandi nóbelsskálds en Kristján lofsöng æskuverk íslenska bóndasonarins Halldórs frá Laxnesi í frægum ritdómi Loksins, loksins. Þessi minningabrot Kristjáns sem skráð eru eftir honum háöldruðum eru eins og kaflar úr rómantískum ástarsögum og ástarjátningum, mér fannst ég vera að lesa í bókum Theresu Charles eða Barböru Cartland þegar ég las hástemmdar frásagnir Kristjáns á því þegar örlagaþræðir hans og skáldjöfra spunnust saman. Kristján skrifaði líka bók um Hannes Hafstein en það rit er ef til vill eitt besta dæmið um hin samkynhneigða íslenska karlmannasamfélag. Um þá bók segir:

"Ævisaga Hannesar eftir Kristján varð strax umdeild bók en nú í dag þykir hún einna helst merkilegt fyrir þá gagnrýnislausu dýrkun á Hannesi sem þar kemur fram. Í sögunni er dregin upp mynd af honum sem nær gallalausum bjargvætti íslensku þjóðarinnar. Mannkostir hans er tíundaðir af svo miklum móð að menn hafa sagt að textinn nálgist það að vera hómóerótískur. " Kistugrein nr. 3412

Ég held að ritdómur um Vefarann sé líka hómóerótískur og það eru líka margar sögur Halldórs, sögur sem upphefja karlmenn og lýsa andstyggð á konum og sjá konur sem fórnarlömb hinna máttugu. Sagan Óvinir eftir Isaac Bashevis Singer hefur alltaf stuðað mig á sama hátt og sumar sögur Halldórs Laxness og sumar sögur eftir Guðberg Bergsson - svona sögur sem eru draumsýn og heimsýn karlmanna sem elska karlmenn og fyrirlíta konur.

Það er kominn tími til að steypa Hannesi Hafsteini af stalli - ekki með því að sprengja upp styttur bæjarins heldur með því að vefja um þær bleikum treflum og binda á þær bleik armbönd og endurskipa og endurraða sameiginlegum minningum með hliðsjón ef því að við höfum hingað til búið við samkynhneigt karlmannasamfélag í bókmenntum, stjórnmálum og allri sameiginlegri vitund.


29.5.06

Listræn form í náttúrunni

Lifandi verur og lifandi vefir taka á sig falleg form ef maður skoðar þær frá ákveðnu sjónarhorni - eða býr til einhvers konar punkta og tengslakerfi til að lýsa verunni/vefnum. Hér til vinstri en mynd af blogginu mínu Metamorphoses þann 28 maí 2006. Sum kerfi eru ósýnileg augum okkar en við getum skoðað þau gegnum einhvers konar tækni og lýst þeim með táknrófi.

Einn nördinn hefur búið til skemmtilegt kerfi til tjá vefsíður á myndrænan hátt þannig að tengsl vefsins við aðra vefi sjáist líka. Mér finnst gaman af svona föndri og það finnst mörgum Flickr notendum líka, það eru komnar meira en 400 tengslamyndir af vefsíðum á Flicr. Þessar venslamyndir eru eins og blóm eða verur - eins og eitthvað lifandi. Það væri flott ef hægt væri að búa til vensla- eða ferlamyndir af ýmsu í lífinu. Mig hefur oft langað til að sjá GPS kort yfir ferðir mínar gegnum lífið, hvar ég hef búið og hvar ég hef unnið - ef til vill kemur eitthvað mynstur í ljós - mynstur sem ég sé ekki núna - ef til vill hringsólum við alltaf í kringum einhverja miðju. Ef til vill byggjast borgir alltaf upp á sama hátt eða eftir sama mynstri eða ferli.

Annars minna þessar tengslamyndir af vefsíðum mig á myndirnar í bókinni Kunstformen der Natur eftir Ernst Haeckel. Ernst þessi skoðaði lífsferla og þróun og hélt því fram að þroskaferill lífveru væri eins og þróunarferlið sem tegundin hefur gengið í gegnum og að kynþættir þroskuðust eins og einstaklingar innan kynþátta - þannig væru sumir kynþættir þroskaðri og æðri en aðrir. Þessi kenning var hent á lofti af Nasistum og varð hluti af hugmyndakerfi þeirra. Ernst Haeckel er þekktur fyrir orðin: "Politics is applied biology".

26.5.06

Að toppa á réttum tíma

Ekki hefur Sjálfstæðisflokkurinn eða Samfylkingin sett mikinn lit á þessa kosningabaráttu, ég hef nú lítið séð til Sjálfstæðisflokksins nema einhverjar óljósar auglýsingar þar sem flokkurinn er núna í bleikingarleik og nýja ímyndin er að þetta sé félagshyggjuflokkur sem hlúi sérstaklega að öldruðum. Samfylkingin er nú ekki á neinu sérstöku flugi, Dagur eins og biluð grammófónplata sem segir í sífellu að Samfylkingin vilji vera kjölfestan í nýjum meirihluta og svo lætur hann Vilhjálm etja sér út í kappræður um hvort hann ætli að rukka fyrir bílastæði. Ég get nú ekki alveg séð dagsbirtuna né það sem Hallgrímur Helgason segir að sé hip og kúl við Samfylkinguna, Hallgrími er eignað slagorðið "Frekar Dagur en Gærdagur" og vissulega eru dagheimili flottari en róluvellir en er ekki dáldil kyrrstaða í því þegar heitasti ágreiningurinn í kosningabaráttu tveggja stærstu fylkinganna er eitthvað útfærsla á því hvar og hvernig menn megi parkera?

Ef það væru ekki litlu flokkarnir Framsókn, Vinstri-Grænir og Frjálslyndir þá væri þetta arfaleiðinleg kosningabarátta. Það er langmest að gerast hjá þessum fylkingum og langsnaggaralegast og skýrast hvað þær standa fyrir. Núna virðist staðan vera þannig samkvæmt skoðanakönnunum Gallup að annað hvort fær Sjálfstæðisflokkurinn átta fulltrúa og hreinan meirihluta eða Framsókn kemur inn manni og hindrar þannig meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

Mér finnst það sínu betri kostur að Framsókn komi inn manni í borgarstjórn og barátta Framsóknar hefur verið heiðarleg og skýr og efsti fulltrúinn þar Björn Ingi staðið sig vel alls staðar. Í einu fjölmiðlaviðtali sagði Dagur Eggerts að stjórnmálabaráttan gengi út á að toppa á réttum tíma - og þá væntanlega á kjördag - inn í kjörklefanum. Töluvert stór hluti kjósenda mun ákveða sig þar. Ég vona alla vega að Framsókn nái inn manni, það getur ekki verið betra fyrir Reykvíkinga að hafa hér svartbláan meirihluta sem mun kasta bleiku felulitaskikkjunni strax eftir kosningar. Það er rétt að rifja upp hvernig var fyrir síðustu kosningar. Ég skrifaði þetta á blogg eftir kosningarnar 2002 um skrif harðlínu frjálshyggjunagga og ungra Sjálfstæðismanna:

Einkadansinn dunar
Ég held svo sannarlega að það þurfi að setja kynjagleraugu á sig fyrir kosningar en það er víst betra að hafa þau gleraugu alltaf uppi því það er ekki trúverðugt ef stjórnmálaöfl hafa bara áhuga á mjúku málunum rétt fyrir kosningar og vakna svo upp hardcore daginn eftir kosningar og vilja klámtán Reykjavík áfram. Svona eins og daginn fyrir kosningar 24. maí birtist þar málefnaleg og alvarleg ádeila á andriki.is um biðlista á leikskólum í Reykjavík en strax eftir kosningar eru skríbentar blaðsins búnir að fella blæjuna og vilja núna ólmir einkadans. Þeir segja: "Svo lengi sem dansari og áhorfandi ganga fúsir og frjálsir til leiks þá er það beinlínis skylda stjórnvalda að blanda sér ekki í leikinn."


Mér finnst reyndar frekar leiðinlegt hvað kosningabaráttan gengur mikið út á kannanir, vonandi verða það ekki kannanir sem búa til úrslitin. Það má reyndar minna á að það var könnun sem á sínum tíma bjó til Reykjavíkurlistann. Anna Kristinsdóttir hefur bent á að það er skynsamlegt að setja lög um að ekki megi birta skoðanakannanir síðustu daga fyrir kosningar. Ég vona svo sannarlega að stjórnmál á Íslandi í dag snúist samt um annað og meira en toppa á réttum tíma og rífast um parkeringar.

24.5.06

Hundrað dollara fartölvan

laptop-orange-rotate
Í gær var kynnt fyrsta starfshæfa $100 fartölvan en 17. nóvember næstkomandi verður kynnt næsta skref, hún verður þá tilbúin í framleiðslu. Þetta er námstæki og verkfæri sem verður sérstaklega sniðið fyrir börn og unglinga í skólum. Þetta er feikispennandi verkefni en aðalmarkhópurinn er börn í þróunarlöndum. Markmiðið er ein fartölva á hvert barn. Það er Nicolas Necroponte sem er driffjöður í þessu verkefni, hann hefur mikið skrifað um skólastarf í þekkingarsamfélagi, ég fann vefpistill sem ég skrifaði árið 1998 um hugmyndir Negroponte.

En núna seinustu ár hefur Necroponte einbeitt sér að ódýru fartölvunni. Hér er upptaka af fyrirlestri Necroponte (realmedia) nýlega. Hér eru tæknilegar upplýsingar um fartölvuna og fedora hugbúnaðinn sem hannaður er fyrir hana. Fedora er opinn hugbúnaður fyrir framsetningu og vinnslu á stafrænu efni, allt í Fedora er sett fram eins og vefþjónusta.

19.5.06

GOD 2.0 - trúarbrögð nýrra tíma

Sniðug hugmynd að setja upp "open source" trúarbrögð en binda sig ekki við niðurnjörvuð og óbreytanleg mörg þúsund ára skrif einhverra karla. Bæði biblían og kóraninn eru tákn hins lokaða prentheims - bækur sem tilheyra hinum ritstýrða merkingarheimi þar sem einhverjir fáir hafa valið sig sem sérstaka sendiboða og túlkendur milli Guðs og manna. Ég var að lesa greinina New-time religion og umræðuna um hana á Digg.com þar sem sköpunarsagan er endurrituð í kóða:
?
$CreateDate = strtotime(0);
$SawThatItWas = (light == true) ? "Good" : "Bad";
include("seas");
include("heavens");
require_once("birds");
require_once("fish_in_sea");
$mammal => "Human";
rest(86400);
?
Svo er Bíblían borin saman við opin hugbúnað og kemur ekki allt of vel út:
"Open source means you can add things to it, and fix the parts that are broken. Unless you're an eccumenical council, the Bible isn't really very much like open source. You're sort of stuck with the compiled version your particular leader hands you."

Það er ákall frá leitandi sálum meðal linuxa :
"Give me the source code so I can compile my own religion. "

En það eru þegar komin upp nokkur open source trúarbrögð. Mér líst bara nokkuð vel á yoism sem er hægt að kynna sér hérna á bara 30 sekúndum og ef manni sýnist svo þá er hægt annað hvort að taka þátt í að skrifa trúarrit yoinista á wiki nú eða bara búa til sín eigin trúarbrögð. Þetta er svo fyndið sumt að það jaðrar við guðlast. En svona "open source" í trúarbrögðum er alls ekki slæm hugmynd. Ég hugsa að ég væri ekki eins fráhverf því að nota Biblíuna sem mitt leiðarstef í lífinu ef ég gæti fyrst tekið þátt í því í samvinnu við aðra að leiðrétta og strika út það sem mér finnst tómt bull nú og svo náttúrulega skrifa inn í Biblíuna nýja kafla sem sárlega vantar.

18.5.06

Bloggandi borgarstjórnarkandidatar

Ég hef undanfarnar kosningar jafnan tekið púlsinn á vefnotkun í stjórnmálabaráttunni og reynt að spá í hvort eða hvernig vefurinn og netumræðan skipti máli. Ég held að ennþá skipti Internetið ekki miklu máli varðandi úrslit kosninga - það eru ennþá of fáir sem nota Netið sem sinn aðalmiðill til að fylgjast með og mynda sér skoðun á þjóðfélagsmálum. Það mun hins vegar breytast með tímanum. Ég held að flestir stjórnmálamenn hafi ekki ennþá náð tökum á þessum nýja miðli - nýr miðill kallar á ný vinnubrögð og annars konar samband við lesendur/hlustendur/aðdáendur. Það er ekki neitt sérstaklega sniðugt hjá stjórnmálamönnum að rikka upp flottum vef nokkrum vikum fyrir kosningar og halda honum svo ekkert við þess á milli. Þeir stjórnmálamenn sem bestum árangri hafa náð í að vekja athygli á því sem þeir segja í vefmiðlum nota einhver konar bloggform, þeir tjá sig reglulega um málefni líðandi stundar og fólk getur flett í gegnum fyrri skrif þeirra á auðveldan hátt. Það eru þeir stjórnmálamenn sem fanga mesta athygli fjölmiðlafólks. Ég nefni hérna bloggsíður Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra. Það er reyndar flott hvað margir ráðherrar eru bloggarar, það eru fimm ráðherra sem blogga, auk Sivjar og Björns þá eru það Einar Guðfinnsson og Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Það er líka flott að sjá hvað margir þingmenn í dreifbýlum kjörndæmum eru með blogg sem greinilega eru fyrir fólkið í þeirra kjördæmum og hvað þingmennirnir eru að vinna við t.d. Kristinn í Vestfjarðakjördæmi og Dagný í Austfjarðakjördæmi. Það er eins og á þessum misserum sé einhvers konar vitundarvakning meðal stjórnmálamanna varðandi svona síbyljuskrif eins og blogg, margir eru farnir að skrifa reglulega og krassandi greinar eins og Össur , Þórunn , Ögmundur og Mörður.

En hvað skyldu margir af þeim sem sækjast eftir að komast í borgarstjórn flytja okkur reglulega pistla af bloggsíðum? Nánast allir frambjóðendur settu upp vefi rétt fyrir kosningar en mér sýnist ekki allir nota þá, kannski voru þeir notaðir bara í prófkjörinu. Ég set hér með tengingar í blogg sem ég veit um í 2 efstu í litlu framboðunum og 8 efstu í stóru framboðunum. Ég tók ekki með vefi frambjóðenda sem virðast ekkert hafa tjáð sig eftir prófkjörin. Það eru ekki bloggarar. Þannig virðast bæði Gísli Marteinn og Stefán Jón Hafstein ekki hafa séð ástæðu til að tjá sig eftir prófkjörin. Ég fann engin blogg hjá frjálslyndum í Reykjavík, þeir hafa bara hringitón og bara eitt hjá Sjálfstæðismönnum. Þessi athugun bendir til að langmest áhersla sé á blogg hjá Framsókn, Samfylkingu og Vinstri Grænum og frambjóðendur þar virðast líta á persónulega tjáningu frambjóðenda sem mikilvægt innlegg í stjórnmálastarfið. Mér finnst það góðs viti og það ættu allir að huga að því fyrir kosningar hvort frambjóðendur sem þeir styðja séu tilbúnir til að bregðast snöggt við aðstæðum í borgarmálum og þjóðmálum og tjá sig reglulega. Ef við fylgjumst með bloggsíðum frambjóðenda þá höfum við miklu betri sýn yfir fyrir hvað þeir standa og hvernig þeir eru líklegir til að bregðast við málum. Það er bara skrýtið að finna bara eitt blogg hjá Sjálfstæðisflokknum.

en hér er sem sagt úttektin, um það bil helmingurinn með blogg í heildina - ég bæti við tengingum ef ég finn fleiri blogg

Framsókn
  1. Björn Ingi Hrafnsson, Hálsasel 52, aðstoðarmaður ráðherra
  2. Óskar Bergsson, Ljárskógar 25, rekstrarfræðingur og húsasmíðameistari
Samfylking
  1. Dagur B. Eggertsson, Óðinsgata 8b, borgarfulltrúi
  2. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Rauðalækur 23, borgarstjóri
  3. Stefán Jón Hafstein, Freyjugata 44, borgarfulltrúi
  4. Björk Vilhelmsdóttir, Depluhólar 9, borgarfulltrúi og félagsráðgjafi
  5. Oddný Sturludóttir, Sjafnargata 10, rithöfundur og píanókennari
  6. Sigrún Elsa Smáradóttir, Jöldugróf 3, markaðsstjóri og varaborgarfulltrúi
  7. Dofri Hermannsson, Logafold 19, meistaranemi í hagvísindum
  8. Stefán Jóhann Stefánsson, Fljótasel 32, hagfræðingur
Frjálslyndir
  1. Ólafur F. Magnússon, Vogaland 5, læknir og borgarfulltrúi
  2. Margrét K. Sverrisdóttir, Grenimelur 29, framkvæmdastjóri
Sjálfstæðisflokkur
  1. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Máshólar 17, borgarfulltrúi
  2. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Helluland 2, borgarfulltrúi
  3. Gísli Marteinn Baldursson, Melhagi 12, dagskrárgerðarmaður og varaborgarfulltrúi
  4. Kjartan Magnússon, Hávallagata 42, borgarfulltrúi
  5. Júlíus Vífill Ingvarsson, Hagamelur 2, lögfræðingur
  6. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjalarland 28, ráðgjafi menntamálaráðherra
  7. Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, Kirkjuteigur 29, hjúkrunarfræðingur og varaborgarfulltrúi
  8. Sif Sigfúsdóttir, Þorfinnsgata 8, MA í mannauðsstjórnun
Vinstri Grænir
  1. Svandís Svavarsdóttir, Hjarðarhagi 28, framkvæmdastjóri
  2. Árni Þór Sigurðsson, Tómasarhagi 17, borgarfulltrúi

16.5.06

Grín og alvara í stjórnmálabaráttu

Hugleiðingar parkeringar, farartæki og aksturslag í stjórnmálum

Háðfuglarnir á rvik.blogspot.com fá mig til að brosa af annars frekar litlausri kosningabaráttu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Reyndar er baráttan alls ekki litlaus hjá litlu framboðunum Framsókn, Vinstri Grænum og Frjálslyndum en ég tek ekki ennþá eftir neinni kosningabaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.Kannski þessi framboð telji að best sé að minna sem minnst á sig á meðan litlu framboðin hafa allt að vinna. Þetta breytist nú sennilega núna á lokasprettinum.


Hver eru baráttumálin?

Ég er að spá í um hvað þessar kosningar snúast í ár - hver eru aðalmálin og hvernig skilur á milli framboða? Í Reykjavík eru stóru málin infrastrúktúrmál eins og staðsetning flugvallar og Sundabraut. En það virðist snúast fremur um leiðir heldur en markmið - allir vilja fá meira byggingarland miðsvæðis í Reykjavík og allir vilja betri samgöngur í Reykjavík. En kannski kristallast kosningamálin mest í því hvers konar þjónustu menn vilja niðurgreiða og fyrir hverja. Sjálfstæðismenn víða vilja lækka fasteignagjöld en aðrir svo sem Framsókn, Vinstri grænir og Samfylking vilja styrkja barnafjölskyldur t.d. með styrk vegna umönnunar ungra barna, hafa gjaldfrjálsan leikskóla (samfylking og VG) og greiða niður frístundir barna.

Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu

Meira segja Sjálfstæðismenn leggja núna áherslu á leikskólamálin, boða lækkun á gjaldskrá og ýmis framfaramál í leikskólum. Verður þar að segjast að batnandi flokki er best að lifa og er ekki annað en gott um það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins áttað sig á því að þetta eru brýn mál - þetta rifjar hins vegar upp fyrir mér ömurlegan tíma þegar yngri dóttir mín var á leikskólaaldri og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu í borginni fyrir tíma Reykjavíkurlistans. Þá var hrikalega búið að barnafólki og útilokað að fá nema hálfsdags leikskólapláss og það fyrst eftir margra ára biðlista - á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík eins og steingert tröll sem hafði dagað uppi, algjörlega blint á brýn samfélagsmál. Mig minnir að ein helstu kosningamálin hjá Sjálfstæðisflokknum árið sem hann tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum hafi verið að byggja og byggja glás af bílastæðahúsum. Þetta var táknrænt fyrir ástandið þá - í staðinn fyrir að greina vandamálin og fylgjast með kalli tímans þá parkeruðu Sjálfstæðismenn. Vonandi hefur langt tímabil í stjórnarandstöðu kennt þeim að hlusta á raddir borgarbúa og koma sér inn í 21. öldina.

Framfaraskeið í Reykjavík - Reykjavíkurlistinn

Það tímabil sem Reykjavíkurlistinn hefur verið við völd í Reykjavík hefur verið mikið framfaraskeið. Reykjavík hefur breyst í blómlega höfuðborg þar sem er gott að búa. Það var Reykjavíkurlistasamstarfið sem varð til að sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyrði þ.e. Kvennalistinn leið undir lok - eða öllu fremur rann inn í Samfylkinguna. En það er ekki hægt annað en fagna því hverju Kvennalistinn kom í verk inn í Reykjavíkurlistanum og ég stolt yfir þeim tveimur borgarstjórum í Reykjavík sem komu frá Kvennalistanum, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steinunni Valdísi og sem og af öllu því starfi sem Kvennalistakonur unnu í borgarstjórn. Það er engin eftirsjá í Kvennalistanum, það var flott að enda með því að komast til valda og að fá tækifæri til að móta stefnu og framfylgja henni í stærsta sveitarfélaginu og einu stærsta atvinnufyrirtæki á landinu.

Engan hefði grunað að allir flokkar væru nú árið 2006 með stefnu í fjölskyldumálum sem hefðu þótt týpiskar Kvennalistaáherslur á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum. En tími Reykjavíkurlistans virðist vera liðinn - það er sorglegt því samstarfið hefur gengið alveg ágætlega fyrir utan djúpstæðan ágreining sem varð um borgarstjóra þegar Ingibjörg Sólrún fór í framboð til alþingis. Bæði Kvennalistinn og Reykjavíkurlistinn voru frábær umbótaöfl en hjól tímans halda áfram að snúast og það er ekkert við því að gera þó hreyfingar deyi út. Upp úr svörðinum munu vaxa upp nýjar hreyfingar með nýjar áherslur.

Farartæki í kosningabaráttunni


Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í huga mínum tengdur við úrræðaleysi og bílastæðahús og kyrrstæða bíla þá hefur Framsókn verið í nokkrum hremmingum vegna Hummer bíls sem lánaður (eða leigður, ég veit ekki hvort) var í kosningabaráttuna. Gárungar í Framsóknarflokknum kalla núna hummerinn bömmerinn og hann hefur orðið viðfangsefni ýmis konar spés og gagnrýnis. Það hefði örugglega verið sniðugra fyrir Framsókn að hafa fararskjóta sem vekti upp öðru vísi hugrenningar, ég held að það hefði verið snjallt að tengja Framsókn meira við sveitina, það er nokkuð sama hvað það eru fáir bændur orðnir eftir í flokknum og væntanlega engir í Reykjavík, samt er uppruni Framsóknar alltaf sem bændaflokkur og táknmyndir fyrir flokkinn eru alltaf kýr og búkonur og sveitabúskapur. Mér finnst það reyndar stórfínt og finnst að það ætti bara að ýta undir þetta í ímyndarmálum, þetta er hvort sem er sterk ímynd fyrir. Þá hefði kannski verið meira viðeigandi að keyra um á traktor eða gömlum landrover eða einhver konar vinnubíl t.d. pallbíl - já til að undirstika að þetta væri stjórnmálaflokkur sem ynni í málunum.

Ég styð Framsóknarflokkinn, mér finnst frambjóðendur í efstu sætunum þau Björn Ingi, Óskar, Ásrún og Marsibil öll vera frábær í borgarmálin. Mér finnst reyndar líka þrælfínir frambjóðendur hjá öðrum flokkum, ekki síst frambjóðendurnir sem eru í öðru sæti á listunum ég hef mikla trú á Margréti Sverrisdóttur hjá Frjálslyndum, Árna Þór hjá Vinstri grænum, Steinunni Valdísi hjá Samfylkingunni og Hönnu Birnu hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er reyndar umhugsunarverk að það eru karlmenn í fyrsta sæti hjá öllum flokkum nema VG. Er það vegna þess að það var prófkjör í öllum flokkum nema VG en þar var ákveðið að Árni Þór væri í öðru sæti þó hann hefði afar farsæla reynslu í borgarstjórn og mesta reynslu í borgarstjórn til þess að kona væri í fyrsta sæti?

Ég fylgdist best með prófkjörinu í Framsóknarflokknum, þar börðust Björn Ingi, Óskar og Anna um fyrsta sætið. Anna stóð sig mjög vel og lagði mjög mikið undir í prófkjörsbaráttu, hún hins vegar varð fyrir vonbrigðum með úrslitin og tók ekki sæti á listanum. Ég held að jafnvel þó að svona opin prófkjör nái að vekja athygli á stjórnmálaflokk þá fylgja þeim gífurleg útgjöld og vinna fyrir þá sem eru í framboði og það sem verra er að svoleiðis barátta getur sprengt gjár á milli frambjóðenda. Það er alla vega ekki konum til framdráttar í flokkum ef frambjóðendur eru valdir í svona prófkjörum.

Akstur Árborgarframbjóðandans

Í framhaldi af umræðu um parkeringar og bílategundir þá enda ég þennan pistil á aksturlagi. Einn frambjóðanda keyrði ölvaður á staur. Ég finn til með Eyþóri í Árborg sem núna hefur dregið sig út úr kosningabaráttunni vegna ölvunaraksturs. Vonandi tekst Eyþór vel að vinna úr sínum málum og vonandi á hann eins og aðrir stuðning vísan hjá samfélaginu þegar hann hefur tekið út sína refsingu og vonandi verður hann öflugur málsvari þess að stilla neyslu vímuefna í hóf. Fall hans er stórt og það hafa fáir sem teknir hafa verið við ölvunarakstur þurft að þola það að vera svona opinberlega afhjúpaðir. Eyþór var ein af skærustu stjörnum Sjálfstæðismanna og hans framboð var í bullandi siglingu. En vandamál Eyþórs er einn angi af því samfélagsmeini sem er hvað ömurlegast í íslensku samfélagi. Það er vímuefnaneysla.

Leiðrétting
Mér var bent á það var prófkjör hjá Vinstri Grænum. Borgarfulltrúar þeirra voru Árni Þór og Björk Vilhelmsdóttir. Þau hafa bæði staðið sig vel og eru vinsæl meðal borgarbúa. Þau halda bæði áfram í baráttunni en með sitt hverjum hætti. Árni Þór var oddviti Vinstri Grænna en það kom á óvart að hann bauð sig fram í annað sæti og skv. reglum VG þá er fléttulisti karla og kvenna í efstu sætunum. Björk Vilhelms tók ekki þátt í prófkjörinu og fór úr Vinstri Grænum yfir í Samfylkinguna og er í 4. sæti á lista þar. Björk mun hafa verið óánægð með að VG voru það stjórnmálaafl sem lagði kapp á að splundra Reykjavíkurlistanum. Í Morgunblaðinu 1. september stendur þetta um prófkjör Vinstri Grænna og ákvörðun Árna Þórs:

"Ákvörðun Árna Þórs Sigurðssonar, sem hann kynnti sl. þriðjudag, um að gefa kost á sér í annað sæti á lista flokksins kom mörgum á óvart og má ráða af samtölum við VG-félaga að mikil óvissa er uppi um hverjir muni sækjast eftir efsta sætinu og leiða listann í vor. Árni Þór hefur verið oddviti VG í borgarstjórn og nýtur víðtæks stuðnings. Er talið að ganga megi út frá því vísu að hann verði valinn í það sæti sem hann sækist eftir í forvalinu. Boðinn verður fram svonefndur fléttulisti fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor þar sem konur og karlar skipa sætin á víxl. Má því að öllum líkindum ganga út frá því að kona muni skipa fyrsta sæti á lista vinstri grænna í vor."

Svandís formaður VGR skipar fyrsta sæti hjá Vinstri Grænum. Það er flott hjá VG að vera með eitt framboða með konu í fyrsta sæti og það er umhugsunarvert að það gerist vegna þess Árni Þór sem verið hafði oddviti listans ákveður sérstaklega að sækjast ekki eftir fyrsta sætinu og eftirláta það konu. Það var hins vegar ekki flott hjá VG að hamast eins og ólmir við að sundra Reykjavíkurlistanum.