31.12.04

Draumalandið
Stundum koma löng tímabil þar sem ég man ekki drauma - og mér finnst mig ekki dreyma neitt. En stundum koma tímabil þar sem ég hrekk upp úr draumi sem er næstum eins og martröð eða ég man eftir einhvers konar tilfinningu eða hughrifum í draumi. Það er mjög erfitt að muna drauma, já eins og maður sé með eitthvað forrit í gangi sem sléttar yfir alla drauma um leið og maður vaknar alveg ... það er bara ef maður vaknar upp inn í drauminum og er einhvers staðar á milli draums og vöku að draumurinn er ljóslifandi fyrir manni... en ef maður nær ekki að klæða hann strax í búninga orða eða mynda eða leturs þá tínist draumurinn inn í dá gleymskunnar. Og maður man ekkert lengur nema hughrifin af draumnum...
En alla vega man ég að aðfaranótt jóladags dreymdi mig draum þar sem ég man hver hughrifin voru. Man það vegna þess að jóladagurinn er hátíð þar sem fæðingu sveinbarns er fagnað og vænting um betri tíð og frelsun er tengt þeirri fæðingu. Þess vegna fannst mér svo svo óhugnanlegt að dreyma feigð. Það sem ég man úr draumnum er að það voru tvö sveinbörn, nokkura ára að ég held og þau voru feig og það var vitað hvenær þau myndu deyja, þau höfðu lent í einhverju verið hrist eða fengið einhverja veiki og ég man að voru læknar að útskýra hvernig þeir sáu feigðarmerkin... þetta var svona andstæðan við leit að lífsmerkjum. En það var m.a. að vera blár á maganum og að þola ekki hljóð. Tveim nóttum seinna dreymdi mig líka langan draum en ég man að hann fjallaði eitthvað um hesta. Svo dreymdi mig að ég væri í lestarferð í ókunnu landi. Lestin var á ferð og ég ætlaði í vagninn sem var fyrir framan og geng út úr lestarvagninum sem ég var í, en þá villist ég og fer út úr lestinni sem þá hefur staðnæmst á lestarstöð. Ég reyni að komast í lestina aftur og lendi í hópi með fólki sem er eins ástatt með og heimafólk gefur okkur bendingar um hvert við eigum að fara, við skiljum ekki málið og við höldum að við séum að fara að inngangi inn í lest en svo rennur upp fyrir okkur að lestin er farin og líka skil ég að það var ekkert hægt að komast í lestina, það var enginn inngangur og kannski heldur enginn útgangur, ég hafði bara villst einhvern veginn út. Og mér finnst ég stödd á stað sem ég skildi ekkert í, það voru engin kennileiti þarna, bara hús eins langt og augað eygði og landið hækkaði lítillega í átt frá brautarstöðinni. Húsin voru mismunandi en mynstur þeirra var bara óreiða fyrir mér.Mér leið eins og ég væri einhverf miðað við fólkið þarna... ég var algjörlega vegalaus, ég var í umhverfi þar sem ég skildi ekki. Í nótt dreymdi mig líka svona feigðardraum, þar var líka um barn sem myndi deyja en það var íslenskt barn og tengt mér og það var þessi tilfinning og hugmynd um hvort lífið væri þess virði að lifa því af gleði ef endalokin væru skammt framundan. Og svona tilfinning sem líktist sorg, svona tilfinning um að vita örlög sín fyrir.

24.12.04

Grýlukastljósið
Ég mætti í Kastljósið 22.des. ásamt Davíð Þór Jónssyni og ræddum við um Grýlu og jólasveina við þá Sigmar og Kristján. Hér er hljóðupptaka af umræðunum




Davíð var að plögga bók eftir sjálfan sig, það er vísnabók um jólasnótirnar þrettán sem eru hrekkjóttar og viðsjárverðar og nútímalegar systur jólasveinanna. Stórskemmtileg bók og jólasnótirnar eru margar hverjar hugljúfar eins og t.d. Rauðsokka sem læðir hárrauðum sokk í þvottavélina og litar allt bleikt. Davíð Þór hefur með þessari bók fetað í fótspor margra karlmanna á liðnum öldum sem hafa reynt að persónugera og kveða í kútinn óvininn eða ógnina í umhverfi sínu. Ég misnotaði náttúrulega aðstöðuna þarna í Kastljósinu þar sem ég sat með jólasveinunum og plöggaði jólavefinn minn og læddi líka inn lævísum femínistaáróðri, sagði Grýlu ekki hættulega fyrir börn lengur heldur væri hún núna fyrst og fremst ógn fyrir fullorðna karlmenn og svo væru jólasveinasögur nútímans ekki þroskasögur um börn heldur frekar þroskasögur karlkyns jólasveina sem verða að takast í við ný hlutverk t.d. að ala upp börn. Svo sálgreindi ég Ómar Ragnarsson og sagði frá því hvernig Grýlukvæði hans frá 1962 endurspeglar ógnina sem Ómar sér í virkjunum og stóriðju - Hann yrkir þar grínkvæði um Grýlu sem eldar fjöll og notar steypuhrærivél við matartilbúninginn en það er undirtónn í kvæðinu sem varar við hættunni, Grýlu sem er með hár sem er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla er önnum kafin við Kárahnjúka í dag og hefur þar mætt hinni erlendu St. Barböru sem hefur sest að á Íslandi. Ég bar líka saman hina mæddu Grýlu Þórarins Eldjárns frá 1992 og Grýluna hans Jóhannesar úr Kötlum frá 1932. Það er líka heill kafli í Grýluvefriti mínu frá 1996 sem ber saman þessi kvæði. Ég er langt komin með Grýluannál 2004.

22.12.04

Grýla og jólasveinar í Kastljósinu
Sigmar í Kastljósinu var að hringja og vill fá mig í Kastljósið í kvöld að spjalla um jólasveina. Ég sagði náttúrulega strax já þó ég verði að vera mætt upp í sjónvarp með minna en einnar klukkustunda fyrirvara. Hver segir að konur vilji ekki koma í fjölmiðla? Það er nú heldur ekki eins og það sé neitt í húfi. Aldrei hef ég sungið í útlöndum og ekki er ég að selja neinn geisladisk.

Í Kastjósinu verður líka Davíð Þór sem hefur kveðið upp ný jólasveinakvæði. Davíð Þór var einu sinni ritstjóri á Bleikt og Blátt og hafa femínistar ekki látið neitt dælt með hann. En ég hugsa að það verði ekkert talað um klám og staðalímyndir kvenna í kvöld í Kastljósinu. Nema kannski í sambandi við jólasveinanna. Ég held að kvæðin hans Davíðs séu um kvenkyns jólasveina.

21.12.04

Huldulandið - Ólöf eskimói
Vetrarsólstöður 2004



Í bókinni Ólöf eskimói er sögð saga húnvetningsins og vestur-Íslendingsins Ólafar Sölvadóttur frá Ytri Löngumýri sem meikaði það í Ameríku með því að villa á sér heimildir og segja sögur. Hún sagði Ameríkönum það sem þeir vildu heyra um frostna Norðrið. Á forsíðu DV í dag er því ljóstrað upp að Baltasar Kormákur vilji gera kvikmynd um þennan smávaxna sagnameistara. Það er gaman að lesa bókina frá 1887 Olof Krarer, the Esquimaux lady: A story of her native home sem er á Netinu, hér er ein tilvitnun í bókina sem lýsir hve vel hún miðar frásögnina við þann sem hlustar á söguna og hagræðir söguefninu eftir því:
"Americans, I think you do not realize your blessings in this great land of plenty, where you have so many fine things. Even here, I often see sad faces, and hear words of discontent. Sometimes I am a little discontented myself, when I see something I want, and think I cannot, or ought not to, have it.
But I soon get over that feeling when I remember my home in the frozen north, when we sat still in through the weary hours, shivering with the cold, choked be the smoke, and often perishing with hunger. If I was to go back to my race of people, I would not be able to tell them about what I see and hear in this country. They have not the language to express the thought. They have seen nothing like a sewing machine, or a piano. They have no materials to enable them to make machines. They never saw a painting or a drawing. Their wild rude songs is all they have that is anything like music.They have no idea of a book. They eat when they are hungry, and sleep when they're sleepy. They are happy and contented when they don´t know any better. "

Ólöf eskimói - ævisaga íslensks dvergs í Vesturheimi
Frásögn af fyrirlestri Ingu Dóru hjá Mannfræðifélaginu

Annars er dáldið vinsælt að segja lygasögur af Íslandi út í hinum stóra heimi og það er ekkert að marka þá við höfum Google til að afla sjálf heimilda og hrekja lygina. Já, prófið bara að slá þar inn leitarorðin Google buys Iceland og fáið upp sannleikann um hvernig Ísland hefur verið keypt upp. Þar stendur:
"Iceland is not known for the strength of its information technology sector. It is, however, a forbidding, sulfurous, isolated place which would be perfect for a secret fortress, say industry observers. Many suspect Google of seeking a sutiable location in which to build a high-technology hideaway "with dark and pointy towers," free from international law."

En það er náttúrulega gríðarlega móðgandi að þeir skuli grínast með Ísland eins og eitthvað afturhaldsríki varðandi Internetið, við sem erum svona framarlega biggrin.gif

En ég man eftir þegar ég var við nám í Iowa í Bandaríkjunum þá birtist í stúdentablaðinu grein um Björk og það var svona hneykslunartón, það væri allt of mikið látið með þetta furðufrík sem kæmi frá "obscure island in the middle of nowhere that nobody ever heard of". Ég var náttúrulega mjög móðguð. Man þetta ekki vel alla fréttina en bara orðið OBSCURE... hmlrrrrrrr... ég er ennþá reið út af því

Þetta er svona viðhorf eins og í nútíma vesturíslenska unglingnum sem býr í USA og sendir okkur tóninn til Íslands í dag:
"...... fattid thid thad i alvorunni ekki ad thid buid a omerkilegri eyju sem skiptir engu mali fyrir restinni af heimunum? er einhver til sem er ekki islendingur sem finnst islendingar vera blomstrandi i tonlist og menningu? farid allir saman til helvitis og kafnid i eigin aelu, thid sem teljid thad merkilegt hversu margar hljomsveitir seu a storreykjavikursvaedinu, eda haldid ad sigurros meikid se klart takn um thad ad islendingar hafi upp a goda tonlist ad bjoda. thid erud ekkert skarri en fiflin sem bua i heimabae michael jackson og finnst thad spennandi, eda folkid i L.A. sem selur kort sem syna hvar "fraega folkid" a heima i hollywoood...." (sjá http://www.folk.is/sindrieldon )

Annars var ég búin að vera mógðuð í áratugi yfir að Ísland væri kallar "obscure island" en verð að viðurkenna að ég vissi aldrei hvað það þýddi, hélt að obscure væri eitthvað niðrandi dónaorð. Nú datt mér í hug að fletta því upp á Netinu og ég sé nú ekkert neikvætt í því orði - það þýðir held ég frekar hulið sjónum, eitthvað sem er erfitt að finna.
Hulduland eða yfirskyggður staður.

20.12.04

Fréttir frá Ísafirði
Mig dreymdi Ísafjörð og Vestfirði í nótt. Mig dreymdi að ég væri að fylgjast með fréttum þaðan, eitthvað sem mér fannst stórkostlega merkilegt. Þetta tengdist samt ekki snjó, frekar eldi og fólki. Það var einhver tómleikatilfinning að vakna og uppgötva að þetta var draumur. Engar fréttir. Þegar ég kom frá Skagafirði í gærkvöldi fór ég beint í laufabrauðsskurð. Þar var ein frænka mín sem sagði fréttir frá Suður-Ameríku.

Þegar við ókum norður var snjór yfir öllu, fimmtán stiga frost og heiðskírt. Við vorum á tveimur bílum og keyrðum beint inn í líkfyldina sem var á leið frá Sauðárkróki að Silfrastaðakirkju. Skrýtið af því við vorum einmitt komin norður í kistulagningu og líkfylgd. En ekki þessa - þetta var líkfylgd Guðmundar á Egilsá. Hann dó sama dag og Gísli og var líka jarðsettur sama dag. Sama dag dó einnig ungur maður á Sauðárkróki, hann fannst örendur í brennandi húsi. Við fórum í kistulagningu á Sauðárkrók og fylgdum svo líkbílnum eftir að Miklabæ. Við Kristín sofnuðum á leiðinni og þegar við vöknuðum sáum við glitrandi stjörnur á himni og uppljómaðan krossinn á kirkjunni í hliðarspeglinum. Daginn eftir var jarðarförin og svo erfidrykkja í Héðinsminni. Við fórum í heimsókn til Önnu og Sindra í Brekkukoti á leiðinni suður.

16.12.04

Leiðir sem skerast - um lífið og dauðann

Þegar saga er sögð í bíómyndum er síminn oft notaður til að klippa á milli sena - til að sýna samband á milli persóna þó þær séu á sitt hverjum stað. Ég festist alltaf við að skoða símann og hvernig símtalið er og gleymi söguþræðinum um stund. Bílar og ökuferðir eru notaðar til að tákna hvernig persónur fjarlægjast eða nálgast. Hvað skyldi það tákna ef mann dreymir síma eða bíla? Það er eins og í lífinu sjálfu sé sími og bifreið tákn fyrir ferðalög í tíma og rúmi.

Í sumar var ég út í París kvöldið fyrir Bastilludaginn. Ég var að koma út úr neðanjarðarlestinni við Bastilluna þegar síminn minn hringdi. Þar sem Bastillan stóð er alltaf dansað á torginu fram á nótt þennan dag. Í símanum var íslenska lögreglan. Tilkynnti mér að keyrt hefði verið á bílinn þar sem hann stæði kyrrstæður á bifreiðastæði við Landsspítalann. Ég var undrandi, skyldi ekki af hverju bílinn var þarna. Daginn eftir náði ég í Ástu og fékk þá að vita að Embla og Ingó hefðu fengið bílinn lánaðan til að keyra á fæðingardeildina og þennan dag fæddist Úlfur sonur þeirra. Einhver hafði svo keyrt á bílinn í bílastæðinu og haft samband við lögregluna.

Svo var það seint um kvöld 12 nóvember síðastliðinn að ég er að sækja Emblu í Kópavoginn, Magnús og Ásta eru í bílnum og þar er hálka og snjókoma. Þegar við komum þangað bíðum við um stund í bílnum því Embla er svæfa Úlf og Ingó sýnir Ástu fyrsta eintakið af Brennunni sem hann hafði þá fengið í hendur. Síminn hringir og það er systir mín. "Ég lenti í árekstri, ég er heppin að vera á lífi - ég get ekki talað meira", hún sagði mér staðinn, það var á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns og ég lofa að koma þangað. Embla kemur inn í bílinn og við ökum á stað. Það er glerhált og ég er hrædd að keyra og kvíði aðkomunni á árekstrarstað. Hlusta annars hugar á þegar Embla segir Ástu frá því að bróðir Ingó hafi verið hættulega veikur, hafi fengið sýkingu í hjarta. Við komum niður í Borgartún einmitt þegar dráttarbíll er að draga bílinn í burtu, það er búið að draga hinn bílinn í burtu og það er bara lögreglan og systir mín á staðnum. Hún hafði verið á leiðinni til mín að sækja ferðatösku.

Í morgun þegar ég var að semja minningargreinina um Gísla las ég í Morgunblaðinu minningargrein um bróður Ingós.

15.12.04

Þegar raunveruleikinn er settur á svið

Núna er nýkomin sérstök rás á breiðbandið sem heitir Reality TV en sviðsettur raunveruleiki er ekki bara á þeirri rás. Ég held að svona frásagnir séu tjáningarform sjónvarpsins í dag og sennilega eitt vinsælasta sjónvarpsefnið. Ég horfði í gærkvöldi á þátt á einni dönsku stöðinni - það var heimildarmynd um heimildarmynd um raunveruleikann. Það var dauðastríð Lance Loud. Árið 1971 er Lance eitt af börnunum í fjölskyldu sem verður fyrsta raunveruleikasjónvarpsfjölskyldan. Fjölskyldunni var fylgt eftir af sjónvarpsmönnum í sjö mánuði og árið 1973 eru þættir um hana sýndir í bandarískum sjónvarpsstöðvum. Foreldrar Lance eru að skilja og hann sjálfur að koma út úr skápnum. Hann er fyrsti homminn sem kemur út úr skápnum í útsendingu og ræðir opinskátt um kynhneigð sína. Tíu milljónir horfa á þættina og þeir vekja mikla athygli og hneykslun. Lance verður frægur. Og það sem hann á eftir ólifað þá er hann frægur fyrir að vera frægur.

Helstríð Lance Laud er kvikmyndað, hann er kominn á líknardeild og kveður líf sitt og horfir yfir ævina, hann er að deyja úr eyðni og lifrarbólgu C en hann dettur aldrei út úr gervi. Hann er fyrirmynd, hann er tákn. "I also stand as a role model as to what not to do in one’s life" segir hann og það er varpað upp svipmyndum úr ævi hans, við sjáum lífsglaðan ungling á hjóli, uppreisnarmann í vafasömum félagsskap, poppara í hjómsveit, steratröll, rithöfund við tölvu, fársjúkan og tálgaðan mann á banabeði.

En það er eins og frægðin hafi yfirskyggt allt líf hans og hann lifði á því að vera frægur. Og á því að selja sig. Í frásögn Jim Fouratt um Lance Laud segir "Disco hit, Studio 54 was the place to be. Lance still was a recognizable celebrity and he was welcomed. Like many of the Studio 54 youth, he became a working boytoy for what has become known as the Velvet Mafia. Then it was the 80s and Lance had stopped performing as a musician and discovered the gym and cocaine. AIDS hit NYC and he moved back to California, to LA to become a writer. And so had some of the Velvet Mafia, so he continued with his survival work. West Hollywood and Silver Lake were his turfs. He was both a WeHo gym bunny/escort and a Silver Lake rock and roll fag. "

Á meðan ég horfi á myndina þá rennur það upp fyrir mér hversu mikil blekking líf Lance Laud í útsendingu er. Ungmennið sem brakar af lífsgleði á skjánum er djúpt sokkinn fíkill og stríðir við þunglyndi. Massaða vöðvatröllið sem ljómar af hreysti er felubúningur til að dylja veikindi því þá hefur hann veikst af Aids.

Lance Laud sagði: "Television ate my family" og hann sökk djúpt og var mörg ár ævi sinnar að leita að sjálfum sér. Þegar ég horfi á hans síðustu daga og boðskap hans til heimsins þá finnst mér eins og hann hafi ekki fundið það sem hann leitaði að. Persónan í sjónvarpinu er gríma- eins og hann vildi vera og eins og áhorfendur vildu sjá.
En var nokkuð bak við grímuna?

13.12.04

Íslenska sveitin

Einu sinni var íslenska sveitin í hugum okkar Skagafjörður og alltaf þegar við komum yfir Vatnsskarðið og horfðum niður á sléttuna og inn í dalina þá snýr Magnús sér að mér glaður í bragði og segir: "Það er alltaf sól í Skagafirði". Og svei mér ef það er ekki rétt, það er alltaf sól einhvers staðar í firðinum, ég held að það sé vegna þess að víðáttan er svo mikil að fjörðurinn spannar mörg veðurbelti. Það er sama þó það sé þykk þoka á láglendinu það stirnir alltaf á einhvern tindinn á Tröllaskaga eða einhvers staðar er rof á skýjahulunni sem sólarljósið smýgur í gegnum.

Magnús er frá Vöglum í Blönduhlíð, bæ sem er svo langt upp í hlíðinni að mér finnst hann alltaf vera upp á fjalli og afleggjarinn að bænum frá þjóðvegi númer 1 er langur, ekki bara í kílómetrum heldur líka í tíma. Það er eins og að fara inn í annan heim að koma þangað en samt er sá heimur ekki framandi. Ég þekki aftur það Ísland sem einu sinni var alls staðar og sem ég kynntist gegnum minningar móður minnar og annarra af íslensku sveitinni, það Ísland sem núna er varðveitt til í bæjum sem eru fjarri alfaraleið.

En svo umhvolfðist heimsmyndin 11 september 2001 og Magnús bóndasonur úr Blönduhlíðinni fór í friðargæslu til Afganistan sumarið sem Kristín fermdist og svo aftur núna í ár. Hann var eini Íslendingurinn fyrra sumarið en þá var hann þar í sex mánuði og lenti í ýmsum háska. Í sumar var hann í íslensku sveitinni sem nú taldi sautján manns og vann við flugvöllinn í Kabúl. Flestir Íslendingarnir voru flugumferðarstjórar eða slökkviliðsmenn, Magnús var eini verkfræðingurinn. Fyrstu vikurnar voru með þeim kvikmyndatökumenn sen unnu heimildarmynd um Íslendinganna og við fórum 2 desember á frumsýningu á kvikmyndinni Íslenska sveitin Þetta var góð heimildarmynd og lýsti að ég held lífinu þarna á raunsannan hátt. Reyndar ef til vill ýkjusögu, hetju- og ofurhugasögustíl ... mér finnst eins og að í gegnum frásagnir Magnúsar þá hafi vistin á flugvellinum ekki einkennst af þeim hraða og spennu og framkvæmdum sem er í frásögninni í myndinni. En ég held að persónusköpun sé góð og það sé lýst á raunsannan hátt hvernig hópur af Íslendingum kemur í framandi umhverfi í sundursprengt múslímaríki þar sem stríðsástand ríkir og tekur að sér framandi hlutverk og ber vopn.

Magnús leikur sjálfan sig í myndinni og hann kemur alla tvisvar einn í viðtal á skjánum - og í bæði skiptið er hann bóndasonurinn sem hugar að uppskerunni og ástandi jarðarinnar. En það sem hann segir eru döpur sannindi. Hann segir frá því hve ópíumframleiðslan hafi margfaldast í Afganistan og hann segir frá því hvernig sífellt gengur á grunnvatnið í landi sem nú er orðið skóglaust og bert eftir langvarandi stríðástand. Og Magnús á lokaorðin í kvikmyndinni um íslensku sveitina í Afganistan. Myndin endar á því að rödd Magnúsar segir með klingjandi skagfirskum hreim: "Það er alltaf sól og blíða".

9.12.04

Sniðugt bloggkerfi - MSN Spaces
Ég var að prófa glænýtt bloggkerfi hjá MSN og bjó til blogg: http://spaces.msn.com/members/salvor/
Þetta er að mörgu leyti sniðugt kerfi, það er ókeypis og sennilega eitt það besta fyrir byrjendur. Því miður er ekki hægt að íslenska viðmótið, ég fann ekki út úr því. Það er einfalt að setja inn myndir (10 mb hámark í fríu plássi) og setja upp sjálfspilandi myndasýningar. Ég setti inn myndaalbúm af Kristínu sem hármódeli. Þetta bloggkerfi býr líka til RSS og tengist MSN þannig að það sést í MSN hvenær bloggið var uppfært. Þetta er Beta útgáfa þannig að ef til vill verður þetta betra. Það á að vera hægt að uppfæra bloggið í tölvupósti en ég er ekki búin að prófa það.

Ég spái því að þetta framtak MSN verði til þess að bloggurum fjölgi verulega í heiminum, sums staðar eru nefnilega fáir sem vita hvað blogg er, hér á Íslandi virðast flestir yfir tíu ára hafa bloggað einhvern tíma og íslensku vefsvæðin folk.is, blogcentral.is, hexia.net, simblogg.is og fleiri eru vinsæl. Blogger hefur samt verið vinsælastur og það var til marks um ógurlegar vinsældir bloggsins að það hafa verið búin til yfir milljón blogg þar. En möguleikar á MSN eru gríðarlega miklu meiri það eru 360 milljónir í heiminum sem nota MSN í hverjum mánuði og bloggið er ekki enn orðið eitthvað sem allur almenningur í heiminum gerir. Ég sá í Yahoo grein að samkvæmt Pew Internet and American Life Project hafi 6 prósent fullorðinna Bandaríkjamanna búið til blogg en 17% lesið blogg annarra.

Staffið hjá MSN Spaces bloggar og þar má fylgjast með þróuninni. Hér er 14 mín. vídeóklipp Demo of MSN Spaces það er hjá
Boingboing hefur prófað MSN Spaces og líkar ekki hvað MSN telur dónaskap

Ég fann þessa ágætu mynd hér fyrir neðan á MSN spaces


7.12.04

Remix er hið stafræna listform nútímans
Eftir að ég endurskapaði sjálfa mig sem "remix artist" fyrir nokkrum dögum þá hef ég verið að lesa um REMIX sem listform. Við Remix listamenn verðum að taka okkur alvarlega, það skiptir samt ekki máli þó enginn annar geri það. Ég hef ekki fundið neitt á íslensku, reyndar held ég að bókin Níu þjófalyklar eftir Hermann Stefánsson sé soldið í þessum anda.
En hetja remix listamanna er Danger Mouse, sniðugur strákur sem blandaði saman svörtu og hvítu og fékk út grátt. En þá gránaði gamanið því svoleiðis list er bönnuð í dag.

Fóður fyrir remix listamenn:
Radio Show: The Creative Remix, by Benjamen Walker
tvær hljóðskrár, yfir 100 mb af eðalefni.
http://www.negativland.com/nobiz/ það er hægt að syngja og tralla með í þeim tveimur lögum sem komin eru, "there is no business like stealing..." og "downloading."
http://www.downhillbattle.org Músíkaktívistar

6.12.04

FACE REALITY er mitt Quarashi remix

Það er ömurlegt að hlusta á textann í mörgum hip hop og rapp textum og hjá mörgum þeim músíkböndum sem vinsælust eru í dag. Ég held að hið illræmda árshátíðarlag MR um stúlkuna með brund í hárinu - lag um stúlku í menntaskóla sem mætir á árshátíðina, strippar, deyr í áfengis- eða dópvímu og strákarnir taka heim til sín og hafa mök við - sé enduróm frá tónlistarmyndböndum sem þessi kynslóð hlustar á. Sama kvenfyrirlitning er áberandi í fjölmörgum af textum þeirra hljómsveita sem nú eru vinsælastar. Hljómsveitin Quarashi sem núna er með remix samkeppni á vefnum er þar engin undantekning. Ég tók þátt í þessari remix samkeppni og sendi inn eitt remix úr textum frá Quarashi. Mitt remix er unnið út frá hughrifum af árshátíðarlagi MR.
Þetta remix sem ég skýrði FACE REALITY eða Horfðu í augu við raunveruleikann tekur einn bút úr lagi með Quarashi, bút þar sem flytjandi ávarpar stúlku sem hann hefur verið í sambandi við. Hér er tenging í kosninguna sem nú stendur yfir á mbl.is: http://www.mbl.is/mm/folk/quarashi-kosning.html


Reyndar gekk svolítið erfiðlega að fá mitt remix samþykkt í keppnina. Ég þurfi töluverð bréfaskipti til þess. Hákon á rokk.is skrifaði og sagðist hafa verið 99.9% viss um að það væri ekki ég að senda inn heldur einhver í mínu nafni.

Skilgreining á remix er þessi:

The Remix: An appropriation from a source in which there is invervention and transformation of the original intent. Often cultural content such as newspapers, radio programs, television, Internet is recombined to form new context. There is often strong political objective in the remix, particularly when there is cultural content.

En það er erfitt að horfast í augu við raunveruleikann því það er eins og að vakna upp og horfa á hryllingsmynd. Adam Horovitz í bandinu Beastie Boy orðar það svo: "Sexism is so deeply rooted in our history and society that waking up and stepping outside of it is like I'm watching "Night of the Living Dead Part Two" all day everyday."

30.11.04

Vormenn Íslands

Í mínum gamla skóla MR er nú allt logandi út af árshátíðarlaginu 2004, lagi sem stjórn skólafélagsins sá ástæðu til að verðlauna í lagasamkeppni og sem var til skamms tíma birt á vef skólans. Það eru fimm strákar í stjórn skólafélagsins en engin stelpa. Það var viðtal við Inspektorinn í Speglinum á Rúv þar sem hann er hrokafullur að verja þetta glappaskot. Það hefur verið töluverð umræða um þetta lag á málefnin.com og á sumum bloggum nemenda í MR og tveir pistlar á Málbeininu (Árshátíðartussan og Árshátíðartussan í MR-taka 2 )

En það er ekki bara í MR þar sem kvenfyrirlitning er dagskipunin. Ég skoðaði vef nemendafélags verkmenntaskólans á Akureyri og t.d. eru hér myndir frá karlakvöldi VMA sem haldið var nýverið.
Um það segir á vef skólafélagsins:
"Loksins koma myndirnar af karlakvöldinu sem var glæsilegt. yfir 250 manns voru á staðnum og skemmtu sér við leoncie og var keppt í nokkrum "karla"keppnum." Af myndum að dæma þá virðast karlaíþróttirnar hafa verið fólgnar í að tengja sjálfan sig með slöngu við bjór og drekka sér til ólífis. Svo virðist Leoncie hafa mætt á staðinn og dansað og fáklæddar stúlkur úr skólanum verið til sýnis.

Svona eru þrjár myndir frá thorduna.is
Það er einnig óhugnanlegt hvað er undir flokknum tenglar á vef nemendafélags VMA. Þar er t.d. einn liður "Unglingafræðsla Yngvars" og þar er sú argasta mannfyrirlitning og klám sem ég hef séð á íslenskum vef síðan Ranturinn leið undir lok. Uppfært 6.des. nú virðist sem betur fer vera búið að taka þessa vefsíðu niður.
Stjórn skólafélags MR virðist þó hafa lært sína lexíu, því þeir birtu svona afsökunarbeiðni á vefsíðunni og tóku út lagið:
" Afsökunarbeiðni frá stjórn
29. nóvember kl. 15:51 - Skólafélagsstjórn -
Jón Bjarni Kristjánsson
Stjórn Skólafélagsins biðst hér með formlega afsökunar á að hafa birt hið umtalaða Árshátíðarlag á vefnum. Skólafélagið viðurkennir fúslega að texti lagsins sé niðurlægjandi fyrir kvenfólk og var það slæm dómgreind og hugsunarleysi sem varð til þess að lagið var birt á vefnum okkar. Það var aldrei ætlun Skólafélagsins að niðurlægja neinn né að sverta ímynd MR sem því miður hefur gerst. Stjórn Skólafélagsins biður alla þá sem lagið særði eða móðgaði á nokkurn annan hátt afsökunar og heitir því að við munum í framtíðinni sjá til þess að nokkuð þessu líkt gerist aldrei aftur.
Með von um fyrirgefningu - Jón Bjarni Kristjánsson, Einar Búi Magnússon, Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, Ásgeir Birkisson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson"

23.11.04

Eldur í Sundahöfn - Vídeóklipp
Systir mín hringdi rétt rúmlega tíu í gærkvöldi og sagði að eitthvað væri að gerast. Lögregla og slökkvilið dreif að Sundahöfn og götum var lokað. Ég fór á staðinn og gerði þriggja mínútu stuttmynd um brunann.
Ég setti það upp á þessa vefsíðu:
http://www.asta.is/sundahofn.htm
Eftir því sem ég best fæ séð er þetta eina vídeóið af brunanum sem fór strax á vefinn. Það hefur verið auglýst að Rúv sýni myndir í sjónvarpinu kl. 8 núna. Það er núna í fréttum að um 600 manns hafi orðið að yfirgefa heimili sín í hverfinu mínu Laugarnesi og það hafi verið sett upp hjálparstöð í Langholtsskóla.

Hérna eru nokkrar stillimyndir sem ég klippti úr vídeóinu.







20.11.04

Fegurðin ein
Kennarinn Ólafur Kárason og lömuðu kennslukonurnar


Ég hlýddi á erindi Ingvars í gær um einstaklingsmiðað nám. Það voru líflegar umræður eftir erindið en ég man mest eftir því sem Þuríður sagði um kennara Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki.

Ég hafði heldur ekki hugleitt áður hve vel söguhetjan úr Heimsljósi Laxness hinn ofurnæmi Ólafur Kárason ljósvíkingur fellur inn í ímyndina um kennarann sem aðlagar námsefnið að hverjum nemanda. Og ljósvíkingurinn á ljóslifandi fyrirmynd í skáldinu á Þröm sb. frásögnina Magnús og mýtan

Hvað skyldi vera sameiginlegt með kennurum í Heimsljósi og Sjálfstæðu fólki Laxness og söguhetjum í Lömuðu kennslukonunum eftir Guðberg Bergsson. Kannski ekkert nema skáldverkin eru bæði eftir skáldjöfra sinna tíða og enduróma viðhorf þeirra til kvenna.

Um sögupersónuna Ólaf Kárason segir á vef mbl.is : "Ólafur Kárason Ljósvíkingur er aðalpersóna Heimsljóss. Hann er skáldið sem þráir að þjóna fegurðinni einni en ranglætið í kringum hann kemur í veg fyrir að hann geti það því að: „það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt.“ Heimsljós er mikið verk, í því er bæði mikil ádeila á þjóðfélagið og hvernig hinum veraldlega auði er skipt á milli manna. " og það segir líka "Eftir að hafa skrifað sögu saltfisksins og íslenska bóndans eins og Halldór sagði sjálfur snýr hann sér að skáldinu í næsta verki, Heimsljósi, sögunni af niðursetningnum og skáldinu Ólafi Kárasyni sem kom út í fjórum bindum árin 1937 til 1940 er nefnast Ljós heimsins, Höll sumarlandsins, Hús skáldsins og Fegurð himinsins. Ólafur Kárason á sér ekki viðreisnar von í þessum heimi en þjáning hans og hin skáldlega fegurð sem af henni sprettur eru miklu stærri og gjöfulli en það líf sem heimurinn hefur að bjóða.".

19.11.04

100% lán
Það er kannsi til eitthvað fólk til á Íslandi í dag sem er ekki annað hvort búið að endurfjármagna eða að hugsa um að gera það eða er búið að kaupa húsnæði með aðstoð bankanna eða er að leita að íbúð sem það ætlar að fjármagna með allt að hundrað prósent láni... en ég þekki bara ekkert svoleiðis fólk. Allir sem ég þekki eru önnum kafnir í einhverju húsnæðisbraski, annað hvort að endurfjármagna, nýfjármagna eða örmagnast í einhverjum peningapælingum "Ég get ekki tapað á þessu", "við lækkuðum mánaðargreiðslurnar um 40 þúsund eftir að við endurfjármögnuðum" þetta eru setningar sem maður heyrir ansi oft í dag. Reyndar er ástandið á íslenskum húsnæðismarkaði farið að líkjast því sem er þar erlendis sem ég þekki til, í flestum nágrannalöndum tíðkast að fólk borgi ekki nema lítill prósentuhluta út í íbúðum. Margir benda þó á að það sé sams konar ástand núna á fasteignamarkaði í heiminum eins og var með Internetbólunni sem sprakk um árþúsundamótin. Hér er úttekt í Economist í fyrra :House of cards May 29th 2003
Það virðist margir hagfræðingar á því að hrun sé í vændum á fasteignamarkaði í heiminum en það eru skiptar skoðanir um hvaða áhrif það hefur á hagkerfið og hversu mikið við munum taka eftir því. Mun verð fasteigna lækka? Það er bent á að hrun á húsnæðismarkaði hefur meiri áhrif en hrun verðbréfamarkaðar m.a. vegna þess að fyrsta lagi vegna þess að fleira fólk á húsnæði en verðbréf, í öðru lagi vegna þess að það er mun líklegra að fólk taki lán til að fjármagna húsnæði heldur en til að fjármagna hlutabréfakaup, í þriðja lagi vegna þess að hrun húsnæðismarkaðar mun valda því að hluti af húsnæði er veðsettur langt yfir markaðsverði og húseigendur geta ekki staðið í skilum við banka og arðsemi verður því minni í bankakerfinu vegna lána sem falla í vanskil.

Mér virðist að fólk á Íslandi sem er ekki vant svona lánum sé allt of bjartsýnt - það getur vel gerst að húsnæðisverð hér snarlækki, það gerðist í Osló og reyndar fleiri Norðurlöndum fyrir tæpum áratug, ég var þá stödd í Osló og það var fáránlegt ástand. Fólk hafði fylrir hrunið fengið 100% lán frá bönkum til að fjárfesta í íbúðum, það hafði verið svona offramboð á lánsfjármagni á góðum vöxtum, svo snarlækkaði verðið á fasteignum og margt ungt fólk átti bara skuldir og enginn vildi kaupa húsnæði. Íbúðarverð í miðbæ Osló var eftir hrunið um það bil þrisvar sinnum ódýrara en hérna í Reykjavík og kaup sem fólk fékk í Osló var næstum helmingi hærra og það var næstum ekkert atvinnuleysi og mikill húsnæðisskortur. Samt var fólk í Osló paník og fólk þar þorði ekki að kaupa húsnæði, það höfðu svo margir brennt sig á því og enginn vissi hvort að botninum hafi verið náð. Á þessum tíma varð búseturéttur einskis virði, það skipti engu máli þó að maður hefði verið í búsetufélagi áratugum saman, það voru bara engir sem vildu kaupa húsnæði. Það tók mörg ár fyrir þessi panikárhrif að fjara út. Og margt ungt fólk varð stórskuldugt, þetta var eiginlega sams konar ástand og þessi misgengisár hér á Íslandi - árin þegar húsnæðislán voru verðtryggð en kaupið ekki. Verðbólgan varð eitt árið 70%.

17.11.04

Barn fætt í Brekkukoti
Anna og Sindri sem nú búa í Brekkukoti í Akratorfunni eignuðust son í morgun. Það er þriðji sonurinn, stóru bræður þess nýfædda eru Kristján 6 ára og Heiðar Sigurmon 2. ára.
Daginn sem drengurinn fæddist þá geysar hatrammt stríð í Írak, bandarískur innrásarher heyjir stríð um borgirnar Mosul og Falluja. Arafat leiðtogi palestínsku þjóðarinnar er fallinn frá og enginn veit hver kemur í staðinn. Á Íslandi er haldið upp á afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar - dag íslenskrar tungu og í fréttatíma sjónvarpsins var mynd af hátíðardagskrá á Ísafirði þar sem svartklæddir kennarar stilltu sér upp eins og líkfylgd á götum bæjarins þar sem menntamálaráðherra fór um - þögul mótmæli grunnskólakennara sem hafa verið í verkfalli í tvo mánuði í deilu þar sem engin lausn er í sjónmáli.

Það er núna hægt að fletta upp í timarit.is gömlum Morgunblöðum og mér datt í hug að skoða hvað hefði verið í fréttum daginn sem ég fæddist.

Daginn sem ég fæddist var gerð bylting í Sýrlandi og Egyptalandsforseta steypt af stóli. Daginn sem ég fæddist er kaldastríðið í algleymingi. Leiðarar Morgunblaðsins virðast á þessum tíma hrópa heróp gegn kommúnisma og Sovétinu. En hluti af leiðara Morgunblaðsins daginn sem ég fæddist er þó um Austurlönd. Hann er svona:

Sofandi lönd
Á skammri stund skipast veður í lofti. Á einum degi er tveimur einvöldum Arabaríkjanna velt úr valdastóli. - Byltingarráðið egypzka sviftir Naguib öllum mannvirðingum og setur hann í stofufangelsi. Uppreisn sýrlenzkra hersins fellir Shishakly einræðisherra, svo að hann kemst naumlega undan á flótta.
Slíkir atburðir eru að vísu lítið nýnæmi í Araba og múhameðstrúarlöndunum í Vestur-Asíu og Afríku. Hver uppreisnin hefur rekið aðra í Sýrlandi og Egyptalandi. Og enn er mönnum í fersku minni atburðirnir í Persíu, þar sem Mossadek hrifsaði smám saman alræðisvald í sínar hendur og var svo að lokum steypt af stóli.
Ástandið í þessum múhameðstrúarlöndum er alþjóðlega alvarlegt, vegna þess að á næsta leiti hlakkar í Rússum vegna þessarar pólitísku óreiðu. Þeir vænta þess að afleiðingin verði algert öngþveiti og auðvelt að ná yfirráðum á þessu þýðingarmikla svæði heimsins. Hvergi í heiminum beita kommúnistar eins áróðri sínum sem þarna og þeir munu vissulega ekki sleppa neinu tækifæri til að efla völd sín.
Arabalöndin eru sofandi lönd.
Þau dveljast enn á sviði miðaldanna. Gamalt og úrelt lénsskipulag er þar enn við ríkjum, fáeinir höfðingjar deila um völdin meðan allur þorri íbúanna lifir við sárustu neyð. - Menntun og menning er á furðulega lágu stigi og sjúkdómar herja fólkið. Flestum þessum ríkjum hefur boðizt aðstoð frá Vesturlöndum um framkvæmdir til að bæta kjör alls almennings, en þetta hefur komið að minna gagni en skyldi vegna innnalandsástandsins. Sem dæmi má nefna að Arabía hefur á síðustu árum fengið ógrynni fjár í olíugreiðslur, sem nota hefði mátt til að gerbreyta kjörum fólksins. En höfðingjarnir hafa sóað miklu af þessum fjármunum í óhófseyðslu.
Vesturlandaríki þau sem mest skipti hafa við þetta svæði telja enn sem fyrr mjög mikilvægt fyrir allan umheiminn að vekja múhameðslöndin af þyrnirósasvefni miðaldanna. Það má og benda á að eitt ríkið hefur vaknað, þar sem er Tyrkland.

Mér sýnist það helst hafa breyst í heimsmyndinni frá því að ég fæddist og þangað til litli drengurinn í Brekkukoti fæddist að núna eru miðstýrðu Sovétríkin engin ógn - já ógnin er eiginlega meiri af að þar sé of mikill glundroði. Rússlandsforseti, Bretlandsforseti og Bandaríkjaforseti virðast einhuga um það sem kallað er "the international war on terror".

12.11.04

Kosningarétt fyrir börn strax... takk!!!
Ég gæti ekki verið meira sammála Torfa Tulinius og öðrum sem töluðu á hugvísindaþingi Hí nýlega og færðu rök fyrir því að börn ættu að hafa kosningarétt.

Ef börn væru með kosningarétt þá myndi ekki yfir 40 þúsund manna hópur barna og unglinga og kennara hafa verið í verkfalli í næstum tvo mánuði og ef börn væru með kosningarétt þá hefði verið meiri pressa í þessu verkfalli og viðsemjendur ekki dirfst að bjóða fólki sem var búið að þreygja langt verkfall næstum sama samning og var á borðinu í upphafi og ef börn væru með kosningarétt þá myndi sáttasemjari gera meiri skurk í málum en að boða til funda með tveggja vikna millibili. Og ef börn væru með kosningarétt þá myndi hið háa Alþingi sem núna hefur pínt kennara aftur til starfa hafa lobbíað fyrir þessum stóra kjósendahóp sem á framtíðina undir hvernig tekst til með menntunina og einn stór partur af því er að bjóða kennurum sómasamleg laun.

8.11.04

Púður, súkkulaði og bækur
Fæða fyrir heilann


Hugleiðing um nýlegar snyrtivöruauglýsingar, hip-hop fataauglýsingar og súkkulaðiauglýsingar.

Tákn og ímyndir í auglýsingum er mál nútímans til að koma mikilvægum skilaboðum og boðskap til almennings. Ég vek athygli á splúnkunýrri auglýsingaherferð fyrir hinum frábærum snyrtivörum Cachez sem eru afar góðar til að hylja bauga og áverka. Það er Amnesty í Bretlandi sem stendur fyrir þeirri
auglýsingaherferð
og mér skilst að núna í nóvember verði í neðanjarðarlestum í London auglýsingaplaköt um þessar snyrtivörur, sjá nánar á vefslóð:
http://www.problemwhatproblem.com
http://www.amnesty.org.uk/svaw/pwp

Skilaboðin í auglýsingum er oft flókin og margræð - samt þannig að þau hitti fyrir markhópinn og ímyndin brennist inn í huga viðtakenda. Ég held að ein magnaðasta auglýsing sem ég hef séð hafi verið Willie Horton sjónvarpsauglýsingin í kosningabaráttu Bush eldri og Dukakis 1988 . Í þeirri frægu og illræmdu auglýsingu var Dukakis ásakaður um linkind gagnvart glæpamönnum og ennþá hljómar í eyrum mér hljóðið í fangelsishliðunum þar sem fangar fóru út og inn.

Önnur mögnuð auglýsing var oft sýnt í sjónvarpi þeim tíma sem ég bjó í USA 1988-1990. Þar i var egg brotið og spælt á pönnu. Þetta var áróður á móti eiturlyfjum. Eggið var heilinn og spælegg sem kraumar á pönnu sýndi hvernig eiturlyf fara með heilann. Þessi "This is your brain on drugs" er talin vera ein áhrifamesta auglýsing allra tíma. Eftir þessa auglýsingu sé ég alltaf heilann fyrir mér sem egg og skipti fólki í steiktum heila, harðsoðin egg, spælegg og fúlegg.

En það sjá ekki allir heilann fyrir sér sem fjöregg sem sumir fara illa með og steikja á pönnu. Það sést vel í auglýsingaherferðinni "Read Books, Get Brain". Hér er eitt af plakötunum frá þeirri herferð.


Þetta plakat virðist nú ansi sakleysislegt - virðist vera einhvers konar átak til að fá ungt fólk til að lesa bækur. Mjög gott náttúrulega á þessum síðustu og verstu tímum þegar allt liðið hengur bara hérna á Netinu og les ekkert á Borgarbókasafninu. Enda var þetta plakat sett á strætisvagna og hengt upp í strætóskýlum í Miami, Chicago, Los Angeles, Detroit, San Francisco og Philadelphiu.

En þetta er bara ekki auglýsing to að örva bóklestur. Þetta er klám og kóðað þannig að hin klámfengnu skilaboð komist bara til viðtakenda, ungs fólks í stórborgum - en aðrir skilji ekkert.
Sjá nánar grein í nydailynews 5. nóvember 2004.

Samgönguyfirvöld í New York voru í sjöunda himni þegar hip-hop klæðaframleiðandinn Akademiks vildi auglýsa á strætisvögnum og hvetja ungt fólk til að lesa. En þetta var bara hálfsögð saga. Núna hafa auglýsingarnar verið rifnar niður því það vakti svo sannarlega ekki fyrir auglýsandanum að stuðla að læsi. Markmiðið var að nota kóðað mál til að ná til markhópsins og skerpa skilin milli þeirra sem skilja skilaboðin og eru þannig hipp-og-kúl og hinna sem ekkert fatta. Markmiðið var þannig óbeint að gera gys af þeim sem ekki eru innvígðir - þeim sem eru ekki læsir á skilaboðin. Það kom nefnilega í ljós að slagorðið sem hefur verið á 200 strætisvögnum "Read books, get brain" er slanguryrði fyrir munnmök. Þetta er þrælútpælt hjá fatalínunni:

"We knew this," fessed up Anthony Harrison, Akademiks' ad designer. "It's coded language, city slang. Teens know what it means but the general public doesn't."

Þegar plakötin eru lesin eins og þau eru hugsuð fyrir markhópinn þá endurspegla þau hlutverk stúlkna sem aðila sem er til sýnis og þjónustar karlmenn. Meira segja fatnaðurinn endurspeglar það rými sem stúlkur hafa. Fatnaður stúlkna er reyrður eins og fjötrar, þær krjúpa og eru til þjónustu reiðubúnar. Á sumum plakötunum er mynd af ungum karlmönnum í fráhnepptum skyrtum, víðum peysum og gallabuxum í yfirstærðum og myndir af konum í níðþröngum kynæsandi klæðnaði. Í einni auglýsingin er mynd af ungum karlmanni að lesa bók og hálber stúlka situr í kjöltu hans. Ein auglýsingin er af konu í eggjandi búningi sem krýpur á hnjánum og heldur á opinni bók. Hún er ekki að lesa bókina.

Sjá nánar um málið í þessari grein í Guardian:
Guardian: Rauncy bus ads a no-brainer

Not for girls
Sumir halda því fram að "Not for girls" súkkulaðiauglýsingin frá Nestle sem birtist nýlega á heilsíðu í Morgunblaðinu sé saklaust grín og við femínistar sem ekki sjáum glensið í þessu séum að taka okkur of alvarlega. En auglýsingin er ekkert grín, þetta er útpæld markaðsetning á vöru að undangenginni markaðsrannsókn eins og tíðkast í heimi auglýsinga og ímynda. Heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu kostar heilmikið og í þessu tilviki er erlend markaðshugmynd flutt tilbúin inn til Íslands. Af því hún hefur virkað erlendis og væntanlega af því að söluaðilar telja að hún virki hérna.

Það er aðalþemað í þessari auglýsingu að um sé að ræða vöru sem er "not for girls" og það er tilgangur að 1) hamra á mismuni milli kynjanna (svona eins og leikritið Hellisbúinn) og 2) snúast gegn öllu sem femínismi stendur fyrir. Ég læt hér fylgja með tilvitnun úr markaðskönnun (Sjá hérna pdf skjal) :

Hence, the campaign. Its objective was "to reclaim Yorkie as the chocolate for men." Its research revealed "key consumer insights":

"1. Society is moving towards 're-genderization'. Beyond feminism and beyond androgyny, people are examining the different values men and women can bring to a society: 'Vive la différence'. Men love being men - and women appreciate and/or are amused by the differences. Coupled with this is increasing gender equality. PC boundaries have therefore changed and humour is once again exploring 'men being men'

"2. The rise of feminism has led to a decreased role for men today. The media are constantly reminding us of the increasing success of women in today's society. Whether it's better reading ability of girls at primary school or female graduates now getting better degrees than men, the rise of the woman, particularly to men, seems unstoppable. With women now having the gall even to drink pints (of Guinness!), you have to agree with one respondent who said, 'There aren't many things a man can look at and say, "that's for me".'"


Öll markaðssetning á þessari Nestle súkkulaðitegund er í andanum "not for girls" og það er reynt að skapa umtal. Þannig hafa svona súkkulaðistykki verið gefin t.d. á neðanjarðarstöðvum en þá passað að gefa bara strákum en skilja stelpur út undan. Skilaboðin eru skýr frá Nestle. Í markaðskönnunum hefur verið fundið inn á að það selur súkkulaði að höfða til öryggisleysis drengja varðandi eigið kynhlutverk í heimi þar sem hefðbundin kynhlutverk eru að rakna upp - og það er gert með því að hamra inn að kynhlutverkin séu eins og þau hafa alltaf verið "men will be men".

Ég held að sumar auglýsingar séu áhrifaríkar vegna þess að þær segja markhópnum það sem hann vill heyra. Ég held að auglýsingar séu áhrifaríkar vegna þess að þær hugga þá sem auglýsingar beinast að og benda á "quick fix". Að fá sér súkkulaðistykki. Að hlægja að Hellisbúanum og samsama sig þeirri heimsmynd sem það leikrit miðlar. Heimsmynd eðlishyggju og heimsmynd þar sem kynhlutverk eru skýr. Og það er ekki svo mikill munur á þeirri heimsmynd sem kemur fram í auglýsingunni "read books get brain" og auglýsingum um "not for girls" súkkulaði. Í báðum er bullandi kvenfyrirlitning og svona "þú-skalt-ekki-halda-að-þú-sért-eitthvað" viðhorf til stúlkna.

Ég er að safna saman slóðum í plaköt gegn kynbundu ofbeldi á þráð á femínistaspjallinu. Ég held að besta leiðin í stöðunni sé að tileinka sér og læra táknmál auglýsinga og beita því eins og Amnesty púðurauglýsingarnar gera. Það er þannig púður sem þarf sem sprengiefni.

2.11.04

Kosningamaskínan í USA

Spennandi að fylgjast með forsetakosningunum og ekki síst hvernig þeim gengur við það sem margir kalla rafrænt lýðræði. Það hafa gegnum tíðina verið fundnar um ýmsar bráðsnjallar og tæknilega fullkomnar kosningavélar og núna í dag munu sum fylki bjóða upp á rafrænar kosningavélar, hér er fyndið vídeóklipp um hvernig þessar kosningavélar vinna núna árið 2004 . Þetta er náttúrulega stór munur á milli kosninga, miklu auðveldara og skýrara fyrir kjósandann og gaman að skoða muninn frá kosningunum 2000 en þær voru með gamaldagslagi, svona kjörseðlum sem párað var á, svona eins og þessi:



1.11.04

Fjölmiðlanemar og blogg

Ég sá þessa setningu á bloggi nemanda í fjölmiðlafræði:
"Ég var að koma úr tíma (fjölmiðlafræði) og þar var verið að tala um blogg..hverjir blogga og af hverju..nú, svo spurði kennarinn hvort að einhverjir blogguðu og ég náttúrulega játti því...sem eina manneskjan í bekknum sem blogga...og þá spurði kennarinn hvort að ég væri tilbúin að taka ábyrgð á því sem ég er að skrifa eftir 20 ár...20 ár...ég er ekkert viss um að ég sé tilbúin til þess..."
Hér les ég milli línanna að blogg er ekki í hávegum haft í fjölmiðlafræði. Ætli það sé út af því að svoleiðis margradda, persónuleg og óritstýrð miðlun er framandi fyrir þá sem líta eingöngu á fjölmiðla sem eitthverja miðstöð þar sem ritrýndu efni er útvarpað eða dreift til fjöldans. En þetta er afar leiðandi spurning hjá kennaranum. Af hverju snýr hann sér ekki að nemanda sem ekki er með blogg og spyr hvort hann geri sér grein fyrir afleiðingum þess að vera ósýnilegur og reyna ekki að öðlast ritfærni í samræðu við sjálfan sig? Af hverju eru ekki allir í fjölmiðlafræði með blogg? Þetta er aðgengilegt, ódýrt og einfalt verkfæri til að skrá persónulega þroskasögu - sem einn part af portfolíó mati. Þetta er líka miðlun sem er mjög í takt við tímann og póstmoderniskan hugsunarhátt í heimi innsprengingarinnar. Útvarpaðir miðlar og prentmiðlar sem eru eins og gjallarhorn í eigu þeirra sem hafa völdin hentuðu ákaflega vel í miðstýrðu verksmiðjusamfélagi síðustu aldar, það var ágæt leið til að koma boðum til fjöldans. Og það er reyndar ágæt leið til að halda völdunum annó 2004 því ennþá er það bara lítill hluti af fólkinu í landinu sem tjáir sig á Netinu og netmiðlun hefur ennþá ekki haft afgerandi áhrif á stjórnmálin. En það eru ýmis teikn sem benda til að það sé að breytast. Það þarf ekki annað en að fara yfir þá umræðu sem hæst er í samfélaginu - og sjá að nú er ekki lengur þannig að netumræðan tekur upp það sem er í fjölmiðlum og ræðir það - heldur er það æ oftar í hina áttina. Það er því glappaskot hjá fjölmiðlanemum nútímans ef þeir skoða ekki vel og prófa blogg sem eina tegund af miðlun. Bloggmiðlun er miklu nær þeirri miðlun sem verður ríkjandi í framtíðinni og svona "communities of practice", svona sjálfstýrðum laustengdum hópum þar sem hópurinn eða samfélagið er vitrara og flóknara en einstaklingarnir. Þetta er svona eins og maurabú þar sem sú heild er vél sem getur framkvæmt flóknari og vitrænni hluti en einstakir maurar.

En er ástæða til að óttast það sem maður segir í dag eftir 20 ár? Ég held satt best að segja að það sé miklu meiri ástæða til að óttast að verða ósýnilegur og undir hulinshjálmi í samfélagi morgundagsins - og þeir sem leiða hjá sér samskiptaverkfæri og tjáningarform nútímans eru ekki vel undirbúnir undir framtíðina. Allra síst í fjölmiðlun. Þeir sem eru ósýnilegir í orðræðu samfélagsins hætta líka á að vera valdalausir. Í mörgum löndum er einmitt reynt að gera ákveðna hópa ósýnilega t.d. í Saudi Arabíu þar sem konur fengu til skamms tíma ekki persónuskilríki og í sumum strangmúslimaríkjum verða konur að hylja sig kufli. Talibanar settu í lög að konur ættu að læðast um eins og konan sem kynti ofninn í kvæðinu eftir Davíð.

Sennilega munum við eftir tuttugu ár gjarnan vilja orna okkur við minningar um veröld sem var og verðum bara fegin ef við höfum blogg eða dagbók frá liðnum tíma. Kannski rifja upp tímann þegar bloggin voru einu óháðu miðlarnir á Íslandi, tímann þegar Baugur átti allt annað.

24.10.04

Þessi dagur í sögunni
24. október er einhvers konar minningadagur. Þann dag var kvennafrídagurinn 1975 og útifundurinn stóri í miðbænum. Þess vegna var Kvenréttindafélagið með ræðumaraþon í Kringlunni og þess vegna var Kvennasögusafnið með umræður og sýningu í Þjóðarbókhlöðunni. Ég mætti á hvort tvegga og talaði í korter á ræðumaraþoninu og flutti þar líka eitt ljóð. Það voru náttúrulega ekki margir í Kringlunni milli ellefu og tólf á sunnudeginum 24. október en þetta var ekki spurning um að ná til fjöldans. Bara spurning um að tjá sig. Ég ákvað að fara á Netið og skoða hefði gerst þennan dag 24. október í mannkynssögunni og splæsa því svo saman á korterinu mínu.

Ég sneri saman þessa fjóra atburði:

1. Símskeyti sent stranda á milli
Það var 24. október árið 1861 sem fyrsta símskeytið var sent milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna sem er 2000 mílna leið. Þessi tækninýjung Morse gerði fljótt úrelt hraðboðakerfi með hestum "pony express" sem hafði verið hraðvirkasta boðskiptaleiðin og tók 10 til 16 daga.

2. Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar
Svo var 24. október 1945 sem stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gekk í gildi. Markmið þeirra var að vinna að friði og samvinnu milli þjóða, eftir tvær blóðugar heimstyrjaldir.

3. Verðbréfamarkaður hrynur í New York
24. október 1929 er kallaður Black Thursday eða Wall Street Crash því þann dag hrundi verðbréfamarkaðurinn og heimskreppan hófst. Verðbréf voru fyrir þann tíma í svimandi háu verði og almenningur fjárfesti grimmt í hlutabréfum. Skyndilega hóft keðjuverkun, allir reyndu að selja bréfin á sama tíma og bréfin urðu verðlaus.

4. Kvennafrídagurinn á Íslandi
Sameinuðu þjóðirnar helguðu árið 1975 málefnum kvenna. Hér á Íslandi sameinuðust ýmis kvennasamtök í því 24. október að halda útifund og fá konur til að leggja niður vinnu þennan dag. Þeta er talinn einn stærsti útifundur Íslandssögunnar og langflestar konur lögðu niður vinnu.

Ég splæsti saman þessa fjóra atburði - símskeyti sem gerðu mögulegt að senda boð gegnum málmþræði, alþjóðavettvang til að vinna að friði og samvinnu milli þjóða, verðbréfahrun og kvennafrídag. Allir þessir atburðir voru kveikjur og höfðu stórkostleg áhrif.

Næst á eftir mér í ræðumaraþoninu var Anna formaður Kvenfélags Eyrarbakka og hún las uppáhaldsljóðið sitt, ljóðið um konuna sem kyndir ofninn sinn. Svo lagði hún út af ljóðinu og spurði hvort verið gæti að samfélagið vildi ekki að konur hefðu rödd, hvort allt miðaðist að því að því að fá konur til að skrifa í öskuna öll sín bestu ljóð. Ég tendraðist upp við þetta og sté aftur í pontu og fór með ljóð eftir mig. Þetta eina sem ég hef birt. Það er ljóðið Eldborg og þar er stundum baráttuljóð. En ég skrifa ekki í öskuna. Ég skrifa á blogg.

21.10.04

Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?

Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.

15.10.04

15 ára afmælið
Kristín Helga varð 15 ára 15. október. Daginn fyrir afmælið var hún í Kringlunni ásamt vinkonum sínum og var valin sem hármódel í Salon Veh kynningu. Það þýddi að hún fór á afmælinu í klippingu og litun hjá erlendum stílista. Svo núna um helgina tekur hún þátt í tveimur sýningum á námsstefnu fyrir fagfólk í háriðnaði, hún þarf að fara eldsnemma um morguninn í förðun og greiðslu því sýningarnar byrja klukkan níu. En Kristín er alsæl með það og finnst ævintýralegt að prófa sig í módelbransanum. Við héldum matarboð á afmælisdaginn. Hér eru myndir af Kristínu Helgu nýklipptri:







14.10.04

Ætla ekki að æða á stað með rannsókn

Ég er búin að fylgjast með viðbrögðum lögreglunnar frá því að dópsalalistinn hans Björns komst í ljósvakamiðlana. Stöð 2 fjallaði um málið í kvöldfréttum í gær og í dag var þetta í fréttum á Rúv og Bylgjunni. Hér er fréttaskotið sem var í tíufréttum í sjónvarpinu og hér er fréttin í Speglinum á rás 1 fyrr um daginn.

Það er áhugavert að skoða hvernig lögreglan starfar. Ég fékk áhuga á að kynna mér starfshætti lögreglunnar eftir rassíuna í deilismálinu. Ég reyni líka að vera löghlýðinn borgari og aðstoða lögregluna eftir megni.

Mér fannst lögreglan koma afar illa út í viðtalinu í Speglinum.

7.10.04

Dópsölulistar og dómstóll götunnar

Ég veit ekki hversu víðfeðm atvinnugrein dópinnflutningur og dópsala er á Íslandi en geri ráð fyrir að þetta sé ábatasöm iðja sem talsvert margir komi að - annað hvort í innflutningi, dreifingu, fjármögnun eða neyslu. Skyldi sá tími koma á Íslandi að dópsalar vitni í tjáningarfrelsi í stjórnarskránni og mótmæli að mega ekki auglýsa eiturlyf og lokka að nýja kúnna? Skyldi sá tími koma á Íslandi að dópsalar verji athafnafrelsi dópista - segi það hluta af frjálsu vali einstaklinga að verða háður fíkn? Skyldi sá tími koma að dópsalar vitni í atvinnufrelsi og hrópi hástöfum um að þeir eigi að hafa rétt á að eitra fyrir öðru fólki.

Fólk safnar ýmsu. Ég safna viðurnefnum en Björn Sigurðsson safnar dópsölum. Hann byrjaði þessa söfnun fyrir fjórum árum þegar Binni bike (af hverju hefur hann viðurnefnið bike?) í Unufellinu rændi syni hans og fór með hann í skottinu upp að Vatnsenda. Þetta var einhvers konar handrukkun sem mun vera orðinn algengur innheimtumáti á Íslandi. Það var brotist inn hjá Birni nýverið og hefur hann farið þá óvenjulegu leið við að upplýsa innbrotið að hann setur safnið sitt dýrmæta að veði. Ef hann fær ekki dótið sitt innan ákveðins frests þá ætlar Björn að opinbera almenningi dóplistann á http://www.dopsalar.tk/ og þá getur dómstóll götunnar dæmt sjálfur þessi 60+ nöfn til útskúfunar.

Ég sé ýmislegt athugavert við svona listabirtingu og tjáði mig um það á málverjaþræðinum. Ég vil helst lifa í samfélagi þar sem við treystum ekki á einstaklinga heldur á lögreglu við að upplýsa mál. Og þar sem það er ekki dómstóll götunnar sem dæmir menn heldur dómstólar. Og þar sem sátt ríkir um lög og leikreglur samfélagsins. Ég veit ekki hvort það ríkir sátt um hvernig við lítum á fíkniefni og ég veit ekki einu sinni hvort að íslenska ríkið hefur einhverja stefnu í fíkniefnamálum.

En nýi hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson hefur fundið stefnu ríkisins í fíkniefnamálum og hann er bara ekki sáttur við hana. Hér er brot úr grein sem hann skrifaði Morgunblaðið 10. mars 2oo1:

"..Sem dæmi um þjóðfélagsmál sem lýtur lögmálum rétttrúnaðarins er stefna ríkisins í fíkniefnamálum. Þar ríkir sá rétttrúnaður, að herða beri refsingar og löggæslu til að draga úr vandanum. Engu máli skiptir þótt það hafi sýnt sig bæði hér á landi og erlendis, að þessi stefna ber engan árangur. Neyslan fer vaxandi. Auk þess fylgja þessari stefnu ótal óæskilegir fylgifiskar. Fíkniefnaheimurinn er neðanjarðarheimur, þar sem lög og regla gilda ekki í samskiptum manna. Glæpir eru framdir, efnin sem seld eru geta verið blönduð og því miklu hættulegri en ella, ungmenni sem leiðast til neyslu eru gerð að afbrotamönnum o.s.frv. Þar að auki er mikill tvískinnungur fólginn í því að banna fíkniefni en leyfa áfengi. Eina leiðin sem er til þess fallin að minnka bölið sem leiðir af neyslu fíkniefna er sú sama og dugar best gegn áfengisbölinu: Að fá neytendur til að taka sjálfir ábyrgð á lífi sínu..."

Ég er reyndar að mörgu leyti sammála þessum pistli. Það er mikilvægt að fá neytendur til að taka ábyrgð. Það er einmitt aðalröksemdin í vændismálinu - það er að færa ábyrgðina þar sem hún á heima - til viðskipavinarins sem er að kaupa sér aðgang að eymd og niðurlægingu. Og mér finnst ástæða til að fólk sem hefur dómgreind til að hugsa sjálfstætt og neytir fíkniefna sem hluta af einhverju skemmtanahaldi t.d. kókaíns taki ábyrgð og átti sig á því sem það hefur gert með þessari neyslu sinni. Það er ekki langt síðan maður frá fátæku Austur-Evrópulandi dó voveiflega á Íslandi með innyflin full af fíkniefnum og nýverið var annar frá sama landi handtekinn með fíkniefni innvortis. Í fátækustu og stríðsþjáðustu löndum heims t.d. Kólumbíu og Afganistan er stór hluti af gróðurlendi undirlagður undir ópíumrækt og fólkið sem starfar á ópíumökrunum þjáist af ýmsum sjúkdómum sem fylgja eitrinu.

Það að taka ábyrgð sem neytandi er ekki eingöngu að taka ábyrgð út frá sjálfum sér og meta hvaða afleiðingar neysla hefur á heilsu og lífsstíls manns sjálfs. Það þarf líka að taka ábyrgð á hvaða áhrif manns eigin lífsstíll hefur á samfélagið sem maður lifir í.

En það er auðvelt að segja að fólk í bullandi neyslu eigi að taka ábyrgð á eigin lífi. Það bara virkar ekki. Og ég hef ekki séð það virka neitt í sambandi við áfengi sem nota bene er stórhættulegt og samfélagsfjandsamlegt fíkniefni. Því síður hef ég séð það virka varðandi tóbak. Fólki sem er undirlagt af fíkn er ekki sjálfrátt. Eina sem mér hefur virst virka er að takmarka aðgengi í fíkniefni og gera neysluna erfiðari.

4.10.04

Stelpan sem passaði afa sinn

Sagan af stelpunni sem passaði afa sinn úr íslenskum samtíma byrjar eins og sagan um stúlkuna Þóru frá Ey eftir Herbjörgu Wassmo. Ég held reyndar að þetta sé sama sagan og ég held að þetta sé ekki saga hinna orðlausu , heldur bara saga sem ekki er hlustað á. En þessi saga berst áfram frá einni kynslóð til annarrar og núna streymir hún frá á bloggsíðum. Stelpan sem passaði afa sinn vakir nú yfir velferð sonar síns. En ég get ekki varist því að hugsa um hver passar hann þegar hann verður orðinn afi.

1.10.04

Sniðug RSS veita hjá Mikka vef

Mjög handhægt og þægileg bloggveita hjá Mikkavef, svona eins og Bjarni er með. Takk fyrir þetta.

Mér finnst þetta mjög þægileg og sniðugt. Reyndar þætti mér ennþá sniðugra ef það væri svona kerfi þar sem fólk býr saman til svona veitulista t.d. yfir þá sem deila einhverjum áhugamálum eða þjóðfélagssýn. Segjum t.d. að einhverjir vildu fylgjast með bloggum um jafnréttismál. Ég bjó til smásýnishorn fyrir femínistaveitu http://www.mikkivefur.is/rss/rss.asp?user=feministi
og hakaði við nokkra sem ég vissi að væru femínistar og/eða skrifa oft um jafnréttismál. Ef einhver vill bæta við listann þá er notendanafnið feministi og lykilorðið prufa

Mér finnst það sniðugt að fólk skrái saman í svona veitulista, alveg eins og mér finnst sameiginleg bókamerki eins og spurl eða delicio.us og sameiginleg kerfi eins og wikipedia sniðug. Ég væri fegin ef einhver vildi bæta við einhverjum femínistum í listann sem ég bjó til.

30.9.04

"Þetta er alls ekki óframkvæmanleg réttarvarsla sem við stöndum í.“
.... sagði Jón H.B.Snorrason yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en hún mun hafa staðið fyrir rassíunni sem var í vikunni. Hann sagði líka "Hvar [rannsóknin] endar er auðvitað ennþá óljóst. Þessi samskipti eru rekjanleg og verða rakin og sönnunargagna aflað með þeim hætti."

Jón hefur á röngu að standa og sagan mun sýna það. Það vinnst ekkert með svona aðferðum nema að búa hérna til lögregluríki. Þeir sem vilja miðla efni munu finna nýjar leiðir.

Ég var að lesa frétt á mbl.is "Hald lagt á tölvur og gögn í tólf húsleitum"
Þar stendur um upphaf lögreglurassíunnar: "Upphaf málsins er kærur frá umboðsmönnum rétthafa tónlistar, kvikmynda og tölvuforrita sem og Samtökum myndbandaleigna sem beint var til embættis efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra." Þá vitum við það. Það var ekki ráðist í þessa rassíu gegn unglingunum vegna þess að löggæsluyfirvöld höfðu áhyggjur af velferð þeirra - heldur vegna hagsmuna rétthafa. Það muna kannski einhverjir eftir því að fyrir nokkrum árum gegnu opinberir aðilar erinda Microsoft og tóku upp einhvers konar hagsmunagæslu fyrir það ágæta fyrirtæki - það voru víða sett upp einhvers konar njósnaforrit í tölvur t.d. í skólum. Það hefur ekki verið gerð úttekt á því hvaða áhrif það hafði en ég held að það hafi ekki aukið viðskiptavild Microsoft og kannski er þetta ein af ástæðum þess að margir reyna að sniðganga það fyrirtæki - og nota helst bara ókeypis, open source hugbúnað. Kannski verður viðlíka þróun á tónlistarefni í framtíðinni... en ég held að fólk verði að búa sig undir að viðskiptamódelin bak við suma starfsemi er hrunin eða hrynja á næstu árum. Ég held að svo sé um tónlistardreifingu og ýmis konar þekkingu t.d. sem er miðluð í gegnum bækur. ´

Það er ekki víst að það komi fram eitthvað annað sams konar módel. Kannski verður tónlist og þekking verðlaus í framtíðinni.
Lögreglumál Deilis

Mér finnst þessi rassía hjá lögreglunni vera afar furðuleg. Ég er reyndar ekki búin að lesa allt um málið en sé að það er blússandi umræða á korkinum hjá Deili. En ég las pistil um þetta í DV og snöggreiddist. Þar var fyrirsögnin "Sjóræningar flýja netið eftir áhlaup lögreglu". Það var talað um Ásgarð og notendur þar eins og hættulega hryðjuverkamenn sem lögregla hefði gert vandlega undirbúið áhlaup á, löggan hefði skráð sig inn og farið að shara dóti og svo skráð hjá sér IP tölurnar sem voru þarna og fengið heimild til að rekja hverjir væru bak við IP tölurnar.


Var lögreglan virkilega að eltast við unglinganna á Ásgarði? Mér vitanlega eru það aðallega 12 til 14 ára krakkar og er dóttir mín og vinir hennar meðal þeirra. Ég tók eftir því fyrir einhverjum mánuðum að hún hafði hlaðið inn á tölvuna einhverju deiliforriti og fyllt stóran hluta af harða disknum með einhverju óspennandi rapptónlistardóti. Ég ætlaði að henda þessu með það sama en lét tilleiðast undan þrábeiðni hennar að láta þetta vera, hún sagði "þú veist ekki hvað það hefur tekið mig langan tíma að komast upp í gígabætið" sem mér skilst að hafi verið lágmarkið sem deilt var á Ásgarði. En þýðir þetta athæfi unglinganna að við séum komin á skrá hjá lögreglu sem grunsamlega IP tala og hugsanlegir glæpamenn?

Ég hef ekkert frekar við það að athuga að unglingar æfi sig í að deili efni og mynda sameiginleg vinnusvæði á Netinu heldur en t.d. dóttir mín hefði fengið geisladisk lánaðan hjá vinkonu sinni og afritað einhver lög á honum. En ég skoðaði sérstaklega Ásgarð til að fullvissa mig um að þetta væri ekki einhver klámdreifingarmiðstöð eða eitthvað sem ýtti undir ólöglega starfsemi og ég sá ekki annað en þar væri allt með felldu - þetta virtist vera öruggt umhverfi og það virtust vera sett skilyrði um hverju væri dreift og það voru póstaðar ábendingar um að virða höfundarrétt og dreifa ekki klámefni - reyndar sýndist mér nokkuð skorta á að krakkarnir þarna væru mjög meðvituð um lög og rétt - sem kannski er ekki nema von því þarna eru ekki sprenglærðir lögfræðingar heldur unglingar og þau tala og hugsa eins og unglingar. Mér sýndist mest vera þarna skipst á tónlist sem höfðar til unglinga. Mér finnst svona miðstöðvar eins og Ásgarður vera miklu betri en t.d. Kasaa.

Ég er að spá í að skrifa til dómsmálaráðuneytis og biðja um skýringar og hvort þetta sé virkilega satt sem stendur í DV greininni. Varðar þetta ekki umboðsmann barna eða barnavernd ef lögregla og höfundarétthafar leggja svona til atlögu við börn og unglinga?

Hér eru nokkrir molar úr umræðum á Deiliskorknum - notendur deilis virðast telja að rassían sé að undirlagi Skífunnar og það kemur fram að löggan er að leita að klámi og einhver notandi hefur falið gróft klámefni með sama heiti (shrek2.avi) og vinsælt kvikmyndaefni.

Úr umræðunum:

"Úff maður! Ég er með fasta ip tölu heima hjá pabba mínum og ég var hálfnaður að downloada Shrek2.avi fyrir litla bróður minn seinast þegar ég var þar! Vá maður! og svo var viss vinur minn sem að er btw. 12 ára opp á server hjá ykkur gegnum vin sinn. Úff maður hann er í fkn djúpum skít! En megi Skífan bara rotna! Nógu andskoti mikið græðir hún á okkur! Ég hef ekki borgað fyrir tónlist í 2 ár og er ekkert að fara að gera það á næstunni! "

"Einn á ircinu er að segjast hafa veirð tekinn í yfirheyrslu.. Hann sagði það vera útaf klámi í share hjá sér. "
"Datoffy þá gæti hann verið í vondum málum "
"Ójá I know.. Hann er í 7. bekk!En er eitthvað til í því að maður hafi fengið 120 milljóna króna sekt?"

"Okay! Þetta er búið að vera að berast á msn og ircinu og öllu bara.. En hvað.. haldiði í alvörunni að þeir taki 12 ára krakka? "

Ég reyndar vona að það sem löggan var fyrst og fremst að eltast við hafi verið klámdreifing og ólögleg sala á höfundarréttarvörðu efni. Mér finnst ferlegt ef börn og unglingar hafa getað nálgast klámefni á þessum miðlurum eða fólk verið ginnt til að hlaða niður efni sem það hélt að væri allt annað en var svo klám.

26.9.04

Týnd

Ólöf Dís er týnd. Hún er fjórtán ára. Hún átti að gista hjá mér í nótt af því hún fór á Scooter tónleikana með dóttur minni og við búum rétt hjá Laugardalshöllinni. Svo hringdi hún korter yfir tólf og sagðist fá far til ömmu sinnar í Grafarvogi, hún myndi gista þar. Ég sagðist henni að hringja til mín þegar hún væri komin til ömmu sinnar og þá myndi ég hringja í símanúmerið hjá ömmu hennar.

Ólöf hringdi ekki. Ég hringdi í ömmu hennar og hún var ekki komin þangað um tvöleytið í nótt. Ég hringdi í lögregluna og var sagt að koma niður á stöð ef hún skilaði sér ekki snemma í fyrramálið. Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem Ólöf Dís hverfur á þennan hátt.

Ég get ekki sofið og ég veit að amma hennar á áttræðisaldri getur ekki heldur sofið. Ég vil ekki hringja í mömmu hennar fyrr en í fyrramálið því þá mun hún verða andvaka líka og það er ekkert sem hún getur gert. Ég er að leita að mynd af Ólöfu Dís en finn ekki neina nýlega, bara mynd sem var tekin fyrir ári síðan.

23.9.04

Kínverski eldmúrinn

Kínverski eldmúrinn er ritskoðun nútímans. Kínversk stjórnvöld hleypa ekki því sem kemur frá blogger og typepad (sem eru ein vinsælustu aðsetur bloggara) inn í landið. Reyndar virðast stjórnvöld í Kína ekki vera búin að fatta ennþá að margir lesa blogg gegnum RSS strauma og hægt er að fylgjast með bloggum í Kína gegnum Bloglines. Þetta er eitt nýtt notkunarsvið á RSS veitna á vefnum - að komast fram hjá ritskoðun.

Hér segir bloggarinn Joi Ito frá því þegar hann var í Kína núna í september og fékk ekki upplýsingar í fréttalesarann sinn: The Chinese Firewall. Það er gaman að lesa svör lesenda hans, það koma ýmsar ráðleggingar m.a. um að nota Switchproxy og Stayinvisible og svo kemur fram að í Víetnam og fleiri löndum eru sams konar proxy-eldmúrar. Það miður vekur litla athygli á Vesturlöndum að fólk í mörgum Asíulöndum býr við ritskoðun á Netinu, persónunjósnir á Netinu, heftingu á tjáningarfrelsi á Netinu og heftingu á aðgengi að upplýsingum á Netinu. Ég held að það sé vegna þess að viðhorf okkar til margra þessara ríkja er mjög jákvætt, við dáumst að kínverskum stjórnvöldum og við teljum þau vera á réttri leið markaðshyggju og framfara.

En það er gaman að sjá í netpressunni í dag að augu heimsins beinast að bloggurum í Íran. Það var frétt á forsíðu prentaða Morgunblaðsins í morgum um málið - sem mér fannst skrýtið - er blogg virkilega orðið svo mikið afl og svo mainstream að það koma svona forsíðufréttir - sem meira segja ganga út frá því að lesendur viti hvað blogg er. Svo var þetta forsíðufrétt á BBC og hafa verið það áður. Sjá þessar greinar:
BBC: Iran's bloggers in censorship protest (sept 2004)
Iranian bloggers rally against censorship (des 2003)

21.9.04

Í bleikum börum

Það var bara flott þegar við afhentum forsætisráðherra bleiku börurnar um hádegisbilið í dag. Ég tók slatta af myndum og hér er Flickr slideshow með þeim. Femínistafélagið afhenti forsætisráðherra hjólbörufylli af lesefni um jafnréttismál og gjafabréf á jafnréttisnámskeið fyrir ríkisstjórnina.

Svona byrjaði fréttatilkynningin:
Þriðjudaginn 21. september kl. 11.30 afhendir Femínistafélag Íslands nýjum forsætisráðherra hjólbörufylli af lesefni um jafnréttismál, sem félagið telur mikilvægt að forsætisráðherra kunni góð skil á, tileinki sér og miðli til þjóðarinnar. Í hjólbörunum er að finna margvíslegan fróðleik um jafnréttismál, svo sem rannsóknir á viðhorfum kynjanna, hegðun þeirra og stöðu, sagnfræðirannsóknir, ævisögur, frásagnir og fæðingarsögur. Það er von Femínistafélags Íslands að forsætisráðherra hafi af gjöfinni bæði gagn og gaman og að hann stuðli að þeim breytingum sem þörf er á í samfélaginu til að jafnrétti náist í raun.


Paparazziland



Fjölmiðlun er að breytast á Íslandi. Nýjasta dæmið er nýja viðskiptahugmyndin hjá forsetaframbjóðandanum en hann hefur sett upp ljómandi laglega vefsíðu sem sýnir að hann er á rangri hillu, hann ætti auðvitað að vinna hjá DV, hann er náttúrutalent í því. Enda hóf Ástþór sinn feril í myndmiðlun, í framköllunarþjónustu. Svo er Ástþór þessa daganna ekki að kaffæra opinbera embættismenn í spammi heldur veður hann elginn á málefnunum og kallar bljúgar afsökunarbeiðnir hjá DV frímerki. Og ég sem hef aldrei séð þvílíka auðmýkt hjá gulu pressunni á Íslandi.

Hér hitti skrattinn ömmu sína.

Hér er myndbrot úr nýjasta listaverkinu hjá Ástþór.
Hann stalkaði staffið á DV og Fréttablaðinu í dag.
Hér er frásögn þolanda
Það verður að skipuleggja áfallahjálp fyrir þetta fólk.


18.9.04

Lýðræði - Hugsjón ekki veruleiki?

Það var viðtal við Pál Skúlason háskólarektor um lýðræði í Morgunblaðinu 17. september. Páll segir að í raun og veru sé lýðræðið fremur hugsjón en veruleiki því ákvarðanir í samfélaginu séu oft ekki teknar eftir lýðræðislegum leiðum.

Hann bendir á að háskólar hafi verið meðal lýðræðislegustu stofnana og segir"....það er mjög merkilegt að það eru einmitt þessar lýðræðislegu stofnanir sem hafa lifað lengst. Þær virðast hafa feikilega aðlögunarhæfni og möguleika á að endurnýja sig eftir ákveðnum lýðræðislegum leikreglum. Háskólalýðræðið einkennist af því að þar er mjög ör, skipulögð og öguð miðlun upplýsinga og skoðana þar sem fólk veik hvað aðrir eru að hugsa og á hvaða forsendum. Þannig er það sem einkennir háskólalýðræðið er sífelld rökræða þar sem menn koma saman til að ræða mál og leiða þau sameiginlega til lykta."

Einnig segir Páll í viðtalinu: "Með nýrri tækni virðast menn nú í fyrsta sinn eygja möguleika á að mynda samfélag þar sem upplýsingum, skoðunum og hugmyndum er miðlað mjög hratt innan mjög stórra hópa fólks. ........ En með þessum tækninýjungum og samskiptamöguleikum eygjum við engu að síður þann möguleika að gera drauminn um eiginlegt lýðræði að veruleika. Ég er sjálfur sannfærður um að hann verður að veruleika"

Þó ég hafi verið háskólakennari í einn og hálfan áratug þá er ég ekki viss um að háskólar séu eðli sínu samkvæmt neitt sérlega lýðræðislegar stofnanir.... ekki alla vega í þannig skilningi að allir séu þátttakendur í ákvörðunum og hlustað sé á alla. Frekar má lýsa háskólum nútímans amk á Íslandi sem afar dreifstýrðum stofnunum þar sem sjálfstæði lítilla eininga er mikið. Kannski andstæðan við her. En háskólar hafa verið miðstöðvar fyrir nýsköpun þekkingar og fyrir miðlun þekkingar. En ég held að það sé töluvert til í því að lýðræðisfyrirkomulagi fylgir aðlögunarhæfni og meira svigrúm til breytinga..og það er mikilvægt á umrótstímum. Sennilega liðaðist skipulag Sovétríkjanna svona snögglega í sundur vegna þess að það var ekki innbyggt í það kerfi nóg aðlögunarhæfni við nýjum aðstæðum, það fer ekki saman miðstýrður áætlanabúskapur til fimm ára og snögg viðbrögð.

16.9.04

Allt fram streymir...

Það er allt orðið að bloggi eða einhvers konar straumum. Nú er einn bloggari í Mexíkó búinn að búa til kerfið Gallina sem lætur tölvupóst sem maður sendir í Gmail birtast eins og blogg. Svör við tölvupósti birtast svo sem komment á bloggfærslurnar. Ég nota Gmail og það er ferlega sniðugt póstkerfi.

Svo var að koma útgáfa af Firefox sem birtir víst RSS strauma eins og bókamerki. Ég fékk það reyndar ekki til að virka hjá mér. En það má búast við að einhvers konar tækni til að lesa XML/RSS verði innbyggð í fleiri vafra á næstunni.

Svo býr Flickr.com til RSS fyrir alla myndstrauma, það er hægt að fá RSS fyrir sínar myndir - en það er ennþá sniðugra að það er hægt að fá RSS fyrir ákveðin efnisorð eða merki (tags) sem sett hafa verið á myndir. Þannig er hægt að vera áskrifandi að RSS straumi frá Flickr yfir allar myndir sem eru merktar með Iceland eða allar myndir sem eru merktar með menningarnótt eða hestar eða hvað sem manni sýnist.

Og ekki nóg með það að tölvupósturinn, myndasafnið og bloggið sé farið að streyma með RSS tækni - heldur er ég núna farin að safna bókamerkjum (bookmarks, favorites) sem hægt er að gerast áskrifandi að bókamerkjastraumi frá mér ... ég er byrjuð að safna bókamerkjum yfir kennsluefni á vef og það er hægt að sjá það á http://del.icio.us/salvorice þar er neðst á skjánum RSS merki svo hægt er að vera áskrifandi að þeim straumi. En það er líka hægt að gerast áskrifandi að undirstraumum t.d. öllum bókamerkjum sem ég safna um eðlisfræði eða plöntur eða dýr. Hér er t.d. bókamerkjastraumurinn minn um dýr: http://del.icio.us/rss/salvorice/dýr

Þetta deli.icio.us er ferlega sniðugt og það er held ég svipað og Spurl sem kynnt er á vefnum hjá Hexia.net, ég sá íslenskt nafn sem höfundur á Spurl. Svo hefur Sigurður Fjalar reynslu af að nota Furl og hælir því kerfi. Hér er blogggrein um muninn á Furl og Spurl og hún byrjar "Bookmarks are so yesterday...".

Eins gott að hanga ekki á Þjóðarbókhlöðunni á kvöldin og lesa í þykkum skræðum eins og Jón Helgason í den í Köben þegar hann orti:

Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti
út við kvikaði borgin með gný sinn og læti
hálfvegis vakandi, hálfvegis eins og í draumi
heyrði ég niðinn í aldanna sígandi straumi.

Í túlkun ársins 2004 er borgin orðin sæborg og straumurinn er RSS /XML.


15.9.04

Gekk í Framsókn

Ég veit ekki hvort það verða einhver veðrabrigði í íslenskum stjórnmálum í dag en akkúrat núna stendur yfir ríkisstjórnarfundur þar sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson skiptast á ráðherrastólum. En ég ákvað að minnast þessa með þeim hætti að ég gekk í Framsóknarflokkinn rétt áðan. Ef ég hef tíma þá ætla ég að starfa með þeim flokki og hafa þau baráttumál helst að stuðla að siðbót og jafnrétti í íslenskum stjórnmálum. Ég hef ekkert starfað með stjórnmálahreyfingu síðan Kvennalistinn var sjálfstæð hreyfing.

14.9.04

Skype er sniðugt

Ég var að hlaða niður símaforritinu http://www.skype.com/ sem ég held að sé bráðsnjallt og vera fyrirboði þess hvernig síminn rennur algjörlega inn í Internetið. Það hefur góð hljóðgæði, það er einfalt að setja það upp og það er ókeypis. Gallinn er hins vegar sá sami og var í árdaga tölvupóstvæðingar - eins og er þá eru svo fáir sem maður getur talað við. Reyndar er einhvers konar kerfi sem ég er ekki búin að prófa þannig að hægt er að kaupa einhvers konar pakka til að geta hringt inn í símakerfi viðkomandi landa þ.e. ef maður ætlar að hringja í einhvern sem er ekki með Skype. Ég sé að það eru þegar yfir fimmtíu Skype notendur skráðir undir Íslandi en það vakti furðu mína að það virðast bara vera karlmenn. Það eru 47 karlkyns nöfn en 5 kvenkyns nöfn skráð. Sem sagt 9 af hverjum 10 íslenskum skype notendum eru núna karlkyns. Fyndið... það var nefnilega alltaf gert grín í skrýtlunum í gamladaga að konur töluðu svo mikið í síma.
En svo getur maður sett svona borða á heimasíðuna sína svo fólk sem hefur líka Skype uppsett hjá sér hringt í mann:


Skype er frá sömu og Kasaa. Margir óttast að það séu einhver njósnaforrit inni eða eigi greiðan aðgang gegnum það því þetta er P2P kerfi eða deiliforrit. Reyndar er fullyrt að það sé ekkert njósnaforrit núna með Skype.

Ég hugsa að Skype verði spennandi kostur fyrir símafundi, mér skilst að í framtíðarútgáfum eigi að koma útgáfa fyrir ráðstefnur. Ég hugsa að þetta verkfæri nýtist í fjarkennslu, ekki síst að bjóða nemendum sem eru utan Íslands upp á símatíma/símafundi. Þeir sem búsettir eru erlendis og vilja hringja ókeypis til Íslands ættu að kynna sér Skype. Það er líka útgáfa fyrir makka.

13.9.04

Fréttastraumar framhald


Ég er að stúdera meira svona RSS og er núna búin að setja svona merki á þetta blogg sem vísar í atom.xml skrána sem blogger býr til.


Ég er líka búin að brenna svona fréttarás á Feedburner:



Hér er svo RSS straumur sem 2RSS.com bjó til úr atom.xml straumnum , það þarf að breyta atom í rss þar. Ég reyndi að setja upp svona rsslib hjá mér en eitthvað klikkaði. Ég ætlaði er reyna að setja upp vefsíðu með nokkrum rss straumum - svona eins og fréttaveitu, hvert straumur kæmi svona. Mér finnst ekki nógu handhæg verkfæri núna til að setja upp rss strauma á vefsíðu, það hljóta samt bráðlega að koma fram einfaldari verkfæri.

12.9.04

Gamli hundraðkallinn

Á hundraðkallinum frá 1957 er mynd af Tryggva Gunnarssyni sem var fyrsti íslenski bankastjórinn, reyndar var bankinn víst bara opinn til að byrja með tvo tíma á dag tvisvar í viku en hann var við Bakarastíg sem við það breyttist í Bankastræti. Ég man eftir að í sögukennslunni sem ég hlaut í íslenska skólakerfinu var mikið gert úr þessum banka á Íslandi og hvaða máli fjármálastarfsemi hérlendis skipti fyrir íslenskt atvinnulíf - að auðurinn sem varð til í atvinnulífi hérlendis væri settur í fjárfestingar hérna. Tryggvi bankastjóri lánaði á fyrstu árum bankans í þilskip sem hann segir að hafi borgað sig upp á þremur árum. En núna er öldin önnur bankarnir eru ekki lengur við íslensku verslunaræðina á Bankastræti og Laugaveg heldur sprettur upp fjármálahverfi hérna í fjörunni við Sæbrautina með undrahraða og allir hafa útsýni út á Atlandshafið og Esjuna enda eru allir í útrás. Reyndar finnst mér þetta ganga allt út á að flytja þann auð sem verður til hér á landi til annarra landa. Ég á nokkuð erfitt með að kyngja gamla skólalærdóminum um að það sé best fyrir Ísland að auðlegðin sem skapast hér á landi sé lögð í íslensk atvinnulíf... og mér finnst dáldið furðulegt kerfi í heiminum í dag, þessi ofurtrú á mátt peninganna til skapa verðmæti með óheftu flæði.


Á hundraðkallinum með Tryggva er líka mynd af fjárrekstri. Ég fann á dyravernd.is þetta um Tryggva og dýr:

Árið 1891 skrifaði Tryggvi eftirfarandi í Dýravininn:

"Mig hefur oft á seinni árum langað til að gangast fyrir því að stofna íslenskt dýraverndunarfélag, en ég ann þess ekki, hvorki sjálfum mér né nokkrum öðrum karlmanni. Konunum er tileinkuð blíða og viðkvæmni, er það því eðli þeirra samboðið að taka málstað munaðarleysingjanna."


Soldið skemmtilega orðað hjá hundraðkallinum.



Soldið skemmtilegt líka að hafa mynd af bankamanni


11.9.04

Beslan og Madrid og 911

Hryðjuverkin í New York 11. september fyrir þremur árum eru núna eins og í þoku... þoku sem sprengjur í Beslan og Írak og Madrid hafa þyrlað upp. En ég get ekki varist þeirri tilhugsun - Hvar verður sprengt næst?

10.9.04

Skeiðarsafnið

Síðdegis í dag fór ég með samstarfsfólki í ferð í Gnúpverjahrepp, okkur var boðið í sumarbústað hjá Kálfá. Okkur sóttist ferðin seint því við mættum Skeiðasafninu, það voru mörg þúsund kindur sem lögðu undir sig veginn. Það verður réttað á morgun í Skeiðum en í dag var réttardagur í Skaftholtsrétt í Gnúpverjahreppi og núna í kvöld þá keyrðum við fram hjá fjárhópum sem verið var að reka heim á bæi.

Hér er kennsluvefur um kindur sem Ástríður nemandi minn gerði árið 2002. Svo er hérna kindaleikur,
Fréttaveitur, fréttastraumar, efnisvakar

Ég hef tekið saman pistil um RSS og fréttalesara fyrir nemendur mína.
Slóðin er þessi:
http://starfsfolk.khi.is/salvor/skolastarf/rss.htm
Vonandi nýtist það einhverjum öðrum. Ég held að núna sé akkúrat tíminn fyrir RSS, við eigum að fara fram á að félög og opinberar stofnanir og fyrirtæki hafi rétt upp sett RSS yfirlit svo við getum gerst áskrifendur að því efni sem við höfum áhuga á. Ég skoðaði nokkra vefi og mér sýnist það bara vera Stjórnarráðið og Þjóðkirkjan sem býður upp á þetta. Einstaklingar virðast fljótari að tileinka sér þessa tækni enda gera mörg bloggkerfi svona sjálfkrafa.

Mér finnst sniðugt að nota Bloglines.com til að kynna þetta fyrir fólki sem þegar er með blogg á blogspot. Það geta allir skráð sig í Bloglines og gerst áskrifendur að bloggum og búið þar til einhvers konar hópblogg eða vefrit eins og ég gerði á http://www.bloglines.com/blog/salvor
Svo er hægt að hnoða saman bloggrúllum úr þeim bloggum sem maður er áskrifandi að, ég bjó til bloggrúllu yfir nokkur íslensk blogg sem ég tók af handahófi.

Það er góð leið til að setja sig inn í rss hugsunarháttinn að vera þátttakandi í þessu sjálfur. Að útvarpa sjálfur sínum rss yfirlitum og gerast sjálfur áskrifandi að bloggum. Annars hafa þeir bloggarar sem eru á rss.molar.is þónokkra reynslu í þessu og skilning á málinu því Bjarni Rúnar setti upp fyrir mörgum árum þessa fínu græju.

7.9.04

Hljóðblogg og vídeóblogg

Skyldi verða vinsælt á næstunni setja hljóðklipp og vídeóklipp á blogg? Ég held reyndar að það þurfi dáldinn tíma til að venja fólk við - nú þegar er mjög einfalt að senda talblogg úr GSM síma en mér virðast fáir gera það. Textastraumar hafa svo mikla yfirburði þegar kemur að því að greina þá og flokka og geyma og fletta upp í þeim seinna. Mér finnst hljóðbloggið á þessu Audioblogging Manifesto vera fyndið og svo finnst mér drepfyndið þetta kynningardemó á einu vídeóblogg verkfæri þar sem bloggarar geta sett upp eigið stúdíó og skipt um bakgrunn heima hjá sér svo þeir séu heimsborgaralegri. Það fylgir með einhver framsóknargrænn dúkur til að hafa bak við sig það er lestrarvél svo maður þarf ekkert að muna bara vera læs og svo er hægt að þvo burt framsóknargrænkuna með einu klikki og setja einhvern heimsborgaralegri flassandi bakgrunn.

Það er áhugaverður vefur http://www.itconversations.com sem er mest með hljóðklippum og þar er t.d. um stafrænt lýðræði O'Reilly & Associates' Digital Democracy Teach-In 2004

Annars er spurning um hvernig fólk notar samskiptatækni nútímans mest í á næstu árum og hvaða áhrif það hefur á samfélagið. Verður það kannski til að blogga þ.e. skrásetja líf sitt og reyna að finna úr því einhverja merkingu? Eða verður það til að vera í stöðugu sambandi við annað fólk og byggja upp félagslegt net? Það er gaman að fylgjast með breytingum í notkun verkfæra, mest notaða verkfærið núna er væntanlega ritvinnsla og tölvupóstverkfæri en í nýrri PEW könnun um How Americans Use Instant Messaging kemur fram að 53 milljónir Bandaríkjamanna nota IM og 24% þeirra nota IM meira en tölvupóst. Svo fannst mér athyglisvert að fólk virðist verja töluverðum tíma og sýna áhuga á að setja upp prófælinn og buddy icon þ.e. skrá sína eigin tilvist í slíkum kerfum.