31.12.05

Jarðarsala

Þau undarlegu tíðindi bárust mér rétt í þessu að Kristín á Vöglum hefði selt Gísla Birni syni sínum jörðina Vagla. Gísli Björn er eitt af átta börnum Kristínar og einn af þremur sonum hennar sem býr þarna. Þeir munu ekki hafa vitað af þessum gjörningi né nokkurt annað barn Kristínar. Kristín situr í óskiptu búi. Það er skilningur minn og að ég held allra Vaglasystkina nema Gísla Björns að búið á Vöglum sé félagsbú þeirra bræðra og móður þeirra og sú eign sem skapast hefur í búinu með vinnu þeirra undanfarna áratugi sé sameign þeirra. Þetta er stórbýli og bara kvótinn er langt yfir hundrað milljónir. Gísli Björn hefur flæmt báða bræður sína burtu og hafa þeir að undanförnu unnið daglaunastörf hjá öðrum bændum í grenndinni. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þessi lagagjörningur stenst.
Glamúr-afmælisboð Ástu

Ásta hélt upp á afmælið sitt í gær með glamúrboði, allir áttu að koma klæddir glitklæðum eða í það minnsta skreyttir á einhvern hátt. Sumir brugðu á það ráð að klæðast jólaskreytingum. Hún bauð upp á marglita kokteila og fagurlega skreytt borð hlaðið ávöxtum og ostum. Ýmis skemmtiatriði voru og hreifst ég mest af söng Kolbráar af lagi eftir hana "Every man is a women" en það lag tileinkar hún Elvis Prestley og hefur enda gert stórt listaverk sem þetta lag er samið í tengslum við. Einnig var spilaður geisladiskur sem afmælisbarnið fékk í afmælisgjöf frá bróður sínum sem er í MH og syngur hann öll lög á disknum. Geisladiskurinn heitir "Sindri syngur um kynsjúkdóma" og fjallar hvert lag um kynfæri og einn kynsjúkdóm á grípandi og melódískan hátt. Sennilega speglar þetta lagaval og flutningur vilja höfundar til að hneyksla og ná athygli en líka að hann er að lýsa samtíma sem er upptekinn af líftækni og líkama og hvernig líkaminn eyðist og breytist vegna utanaðkomandi áhrifa.

Ég held að Gestur Guðmundsson sem er sérfræðingur í ungmenningu/popmenningu hafi einhvers staðar skrifað um nöfn hljómsveita. Núna heita margar hljómsveitir nöfnum bílategunda, sérstaklega bílategunda frá Austur-Evrópu og Rússlandi, ég er að spá í hvaða merkingu það hefur, kannski einhvers konar nostalgía eða hylling á veröld sem var, framleiðslukerfi á farartækjum sem brotnaði niður.

En ég prófa að setja hérna inn myndasýningu úr flickr frá afmælisboðinu.
Það gengur reyndar ekki ennþá, en hér er þá slóð á myndasýninguna á meðan ég finn út hvers vegna hún vill ekki spilast.

29.12.05

Netfyrirlestur um Wikipedia og wiki 30. des. kl.10

Á morgun ætla ég að halda fyrirlestur á Netinu, sjá eftirfarandi auglýsingu:


Fyrirlestur á Netinu : Wikipedia alfræðiritið og önnur wiki samvinnuverkefni

Netfyrirlestur verður föstudaginn 30. desember 2005 kl. 10:00 á vegum Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands

Fyrirlesari: Salvör Gissurardóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands Í þessum fyrirlestri verður skoðað hvernig ný tegund af samvinnu og ritun ryður sér til rúms með wiki. Sérstaklega verður fjallað um alfræðiritið Wikipedia
www.wikipedia.org Skoðað verður hvernig wiki getur nýst í námi og kennslu, sjá nánar á http://www.esjan.net/wiki

Þessi fyrirlestur verður á Netinu og þú getur hlustað á hann í nettengdri tölvu og tekið þátt í umræðum ef tölvan er rétt uppsett. Til að hlusta á hann þarf að fara í fyrirlestrasal KHÍ á Netinu en hann er í fjarkennslu/fjarfundakerfinu Horizon Wimba.

1) Fara á slóðina
http://wimba.skyrr.is
2) Smella á "Participant login"
3) Slá þar inn nafnið þitt og smella á Enter
4) Ef þú hefur ekki áður farið inn í Horizon Wimba þarf að athuga uppsetningu á tölvunni þinni (Setup Wizard), quicktime og java þarf að vera á tölvunni og leyfa þarf pop-up glugga. Setup Wizard athugar þessa uppsetningu og setur inn þau kerfi sem vantar en ef þú hefur einu sinni sett þetta upp þá má smella beint á "Click here" to enter Live Classroom
5) Þá kemur listi yfir hvaða fyrirlestraherbergi eru opin.
6) Smelltu á "KHI" til að fara inn í netfyrirlestrasal KHÍ.
7) Þegar fyrirlestur byrjar sérðu glærur og heyrir rödd fyrirlesara. Þú getur tekið þátt í umræðum með annað hvort að skrifa inn í textaglugga neðst á skjánum eða smella á TALK hnappinn og halda honum niðri á meðan þú talar.
Mælt er með því að þú athugir uppsetningu töluvert áður en fyrirlestur hefst því það getur tekið tíma ef hlaða þarf inn hugbúnaði.

27.12.05

Um tilgangsleysi allra hluta

Ég ráðlegg fólki að eindregið að smella ekki á rauða hnappinn hér fyrir neðan. Það er líka tilgangslaust að láta sandinn í keröld í þessum java-leik og tóm tímaeyðsla að sprengja upp þetta bóluplast hérna neðan.










26.12.05

Þar sem göturnar eru kviksyndi
Ég límdi inn hér fyrir neðan vídeó með Akon frá Senegal sem flutti 7. ára til New Jersey. Akon syngur í laginu Ghetto um borgarhverfi sem eru eins og kviksandur sem íbúarnir sökkva.
Ég stillti autostart=0 þannig að það verður að smella á örina til að byrja að spila vídeóklippið. Það er mjög óþægilegt að hafa einhverja tónlist sem spilast í síbylju þegar maður kemur á vefsíður.

Music Videos & Codes - MusicVideoMonster.com

Akon er þekktur m.a. fyrir lagið Belly Dancer

25.12.05

Gleðileg jól - flash jólaborðar og jólakort















Hér eru tveir flash jólaborðar sem þú getur notað fyrir jólakveðjur á vefsíðum og bloggi. Það er hægt að setja sinn eigin texta inn í talblöðruna og líma inn kóða sem er á þessari vefsíðu http://freecartoons.blogspot.com og breyta slóðinni þar í http://starfsfolk.khi.is/salvor/jol/jol1.swf eða http://starfsfolk.khi.is/salvor/jol/jol2.swf ef fólk vill hafa textann Gleðileg jól en ekki Merry Christmas. Í blogger verður að smella á Edit Html áður en maður límir inn kóða, annars kemur kóðinn bara sem letur. Það er sniðugt að geta notað tilbúin flash jólakort og sérhanna þau fyrir sínar jólakveðjur.

23.12.05

Neysluskrímslið og netaktívismi


Jólakötturinn hefur breyst í neysluskrímsli.
Mín fyrsta tilraun til netaktívisma utan Íslands hefur aðeins farið úr böndunum. Ég skrifaði pistil á ensku Myspace in the Brave New World og það hafa þúsundir skoðað þann pistil og það hefur verið stofnaður Y-O-U-T-U-B-E stuðningshópur á Myspace. Youtube bloggið vísaði í pistilinn og þaðan hafa væntanlega flestar heimsóknir komið. Það hafa margir skrifað athugasemdir og ábendingar m.a. að það er hægt að komast hjá ritskoðun með að nota urlsnip.com en það er ótrúlegt hvernig Myspace hefur brugðist við þessari mjög svo málefnalegu gagnrýni minni og því að nokkur hundruð manns skoðuðu myspace bloggið mitt í gær. Núna rétt áðan tók ég eftir því að það er búið að loka fyrir aðgang minn á Myspace og koma í veg fyrir að nokkur maður geti skoðað gagnrýnina sem ég póstaði þar og það kemur orðsending um að þetta blogg sé ekki opinbert. En ég á sem betur fer skjámyndir af fyrsta (sjá hérna) og öðru blogginu (sjá hérna). Hér er skjámynd af því sem Myspace er að gera núna við aðgang minn og Myspace bloggið mitt

Þetta er hryllingsmynd af framtíðinni og ef einhver heldur að við á Vesturlöndum lifum í eitthvað skárri heimi að Kínverjarnir með sína ritskoðun þá er bara gott að aflétta strax þeirri blekkingu. Ritskoðun á bloggi á Vesturlöndum er bara öðruvísi en hún gengur út á það sama og ritskoðun í Kína, hún gengur út á að sá sem hefur vald yfir miðlunum notar vald sitt til að tryggja að ekki sé umfjöllun sem grefur undan valdinu. Í kínverskum bloggum eru ritskoðuð út orð eins og "human rights , Taiwan independence, freedom, democracy, demonstration" en í einu vinsælasta vefrými unglinga í heiminum í dag þá eru ritskoðuð út orð þar sem vitnað er í fyrirtæki eða vefþjónustu sem er Myspace ekki þóknanlegt - væntanlega út af viðskiptahagsmunum - og þar að auki skirrist Myspace ekki við að loka umsvifalaust aðgangi þeirra sem á einhvern hátt ógna hagsmunum fyrirtækisins t.d. með umfjöllun sem þeim er ekki að skapi.

Ég bjó til nokkur baráttuspjöld í comicstripgenerator.com

Technorati tags Myspace , Youtube , censorship , social networks , freedom of expression , citizen journalism

21.12.05

Vetrarsólhvörf - Stefnuljós - Slepptu mér aldrei

Einmitt í því augnabliki sem ég skrifa þetta er sólstöðumínútan ef Gneistinn fer með rétt mál. Það er hátíðastund og ég hef fagnað Vetrarsólstöðum frá því í gærkvöldi, þá fór ég með Ástu á tónleika hjá Moskvits og hljómsveit Hafdísar Bjarnadóttur í Alþjóðahúsinu. Í hádeginu í dag hitti ég nokkrar skólasystur mínar úr viðskiptafræðinni á La Primavera í Austurstræti og eftir það gekk ég upp Laugarveginn í vetrarbirtunni og skoðaði í búðir. Eða öllu heldur skoðaði búðir því frá því ég fór seinast um á þessum slóðum hafa sprottið upp margar nýjar spennandi búðir. Það eru komnar margar hönnunarbúðir neðst á Laugaveginn, svona staðir sem selja bæði föt og fagra og sérstaka muni sem ekki eru fjöldaframleiddir.

xIMG_0040Ég hreifst mest af skyrtubolahönnun í sönnum anda jólanna, meyrnaði öll við slóganið BE KIND en margar aðrar búðir voru líka skemmtilegar t.d. Oni búðin hennar Bryndísar Ísfold og önnur búð neðst á Laugaveginum sem ég man ekki hvað heitir var svona eins og listræn kaupfélagskrambúð.

Ég sá Erlu listakonu tilsýndar inn í einni fatahönnunarbúðinni og þá mundi ég eftir tjöldunum í Ráðhúsinu sem þær Gerla og Erla hönnuðu og kalla Vetrarsólhvörf - Endurspeglun. Einu sinni hittust þær alltaf á vetrarsólstöðum í Ráðhúsinu og yfirfóru tjöldin. Ég hitti reyndar fleiri listakonur, ég hitti Kristínu Blöndal og ég hitti myndlistarkennarann minn úr listaskólanum Rými, hún rak þann skóla í Listhúsinu í Laugardal fyrir fimmtán árum. Hún sagðist ekkert mála núna, hún vinnur að vefverkefninu grasagudda.is

Ég fór á Súfistann og ákvað hvaða bækur ég skyldi skanna með kaffinu til að fagna vetrarsólstöðum. Fyrir valinu urðu Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro og Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson , þessar bækur heilluðu mig mest í dag. Mér finnst gaman að lesa bækur við sérstakar aðstæður og velja sérstaklega bækur fyrir aðstæður, þá verður bóklesturinn eins og ritúall sem færir mér merkingu og hughrif sem tengjast mínu lífi og þeim stað og stund sem ég leyfi þessum hugsunum annarra að flæða inn í mína hugsun. Þannig verður saga úr bók til að spinna áfram mína sögu og merking sögunnar breytist og tekur á sig lit eftir þeim aðstæðum sem ég les hana í. Annars er áhugavert að skoða blogg sem fyrirbæri þar sem höfndurinn er fastur í eigin sögu.

Ég var búin að lesa Never let me go á ensku nema seinustu blaðsíðurnar, ég las þá bók upp í háloftunum á leiðinni yfir Atlandshafið, þegar ég fór til Kanada í nóvember og horfði niður á Grænlandsjökullinn og ísbreiðurnar og úthafið á meðan ég las um fólkið sem var framleitt í varahluti sem var skólað og siðmenntað til að sýna fram á að það hefði sál. Góð bók sem en ég skil ekki alveg pointið með sálina, er það að vera með sál að vera formaður í það mót sem bresk yfirstétt notar til fága og skóla sína nýliða? Kannski er sálarmæling eins og einsun á fegurð í fegurðarsamkeppnum þeir sem eru eins og við eða eins og við viljum vera eru með sál, aðrar verur eru sálarlausar. Og hvers vegna eiga verur sem við skilgreinum með sál að meðhöndlast á betri hátt en aðrar verur? Eru dýr þá ekki með sál og ekki verðug góðrar umönnunar? Ég hélt líka að plottið í bókinni myndi vindast upp eins og í Agötu Christie glæpasögu á seinustu blaðsíðunum en það gerði það ekki, það var bara staðfest það sem við vitum öll að það er enginn frestur gefinn á endalokunum, það er bara hægt að gera hérvistina bærilegri.

Stefnuljós hjálpaði mér ekkert með aksturlag í lífinu því ég hvort sem er gef alltaf stefnuljós og þessi bók ku vera svo djúp og torskilin að það sé bara fyrir innvígða bókmenntafræðinga að fatta út á hvað hún gengur. En mér fannst hún samt góð bók og áhugaverðar pælingar um bakstur í brauðgerðarvélum og nauðsyn þess að hafa reykskynjara um allt og setja upp úðunarkerfi. Þetta er mikilvæg þekking einmitt svona um jólaleytið.

20.12.05

Böddi bloggari á Roklandi

Í bókinni Rokland eftir Hallgrím Helgason er sögupersónan bloggarinn Böðvar Steingrímsson á rokland.blogspot.com. Ég las í gegnum byrjunina á þessari bók yfir kaffibolla á Súfístanum fyrir nokkrum dögum , bókin vakti áhuga minn vegna þess að hún er eftir Hallgrím sem hefur skrifað óborganlega skemmtilegar sögur t.d. söguna "Þetta er allt að koma" og svo er söguhetjan bloggari og sagan gerist í Skagafirði og sögusviðið er að hluta hótelið þar. Dætur mínar eru báðar af skagfirskum ættum og ég fer oft í Skagafjörð og þegar ég var 18 ára þá réði ég mig í sumarvinnu á hótelið á Sauðarkrók. Það varð þó ekkert úr því að ég færi þangað en ég hef oft hugsað um hvernig hefði verið að vinna þar. Svo fjallar sagan á sinn hátt um samfélagsbreytingu, ekki um flutninginn í úr sveit í borg eins og Indriði Þorsteinsson skrifaði um á sínum tíma heldur um flutninginn úr þorpinu inn í fjölmiðlaheim og netheim, nú flytur fólkið ekki á mölina heldur grefur sig í skjáina og vefur sig inn í tengingarnar við útlönd.

Ég var nú ekki komin lengra í sögunni en Bödda hefur fæðst sonur eftir mjög lítið rómantískt næturævintýri og hann er að reyna að fá barnsmóður sína til fylgilags við sig á þeirri forsendu að þau eigi barn saman. Í lýsingu á þeim aðstæðum er sérstaklega getið um nautn Bödda að serða dóttur vinnuveitenda síns sem hefur nýlega rekið hann og nautn Dagbjartar sem felst í því að leggjast með þeim sem hún vissi að fjölskylda hennar hefði ímugust á. Dagbjört þakkar Bödda fyrir dráttinn og býður honum far. Það kemur fram að hún vildi gjarnan eiga barn og þetta mökunarsena er þáttur í því. Móðir Bödda og sú sem eldaði fyrir hann soðningu á hverjum degi hefur dáið. Reyndar var hún lifandi dauð fyrir. Þessi tenging við móður, afkvæmi og barnsmóður er dáldið lík 101 Reykjavík svona karlhlutverk að vera sæðisgjafi og njóta umönnunar.

Ég les nú eitthvað annað út úr þessari bók en í þeirri bókmenntagagnrýni sem ég hef séð, þar er Böddi kallaður vitsmunavera og heimspekingur. Sögupersónan Böddi er álíka gáfulegur og spennandi og Bryggjutröllin og hugðarefni hans og hugrenningar eru álíka spennandi og langhundar Bryggjutröllanna um ekki-kynlíf. Reyndar finnst mér Bryggjutröllin vera alveg eins og sögupersónur úr Íslendingasögunum sem hafa dagað uppi og orðið að steini á vitlausri öld. Það er bara þannig að mannkostir sem þóttu gjörvuleiki á söguöld koma fólki í steininn í dag.

Eini munurinn er að Böddi böðlast áfram með þýskum skáldum og vill þrykkja öllum út úr 21. öldinni inn í Grettissögu. Svo finnst mér magnað að heyra að Böddi sé einhvers konar andsvar við umhverfi þar sem lágmenningin hafi sigrað. það skín í gegn það viðhorf höfundar að þetta tímabil Grettissögu hafi verið eitthvað betra menningarstand. Ég hef fyrir langa löngu afneitað Njálu og öllum hinum Íslendingasögunum, það var nú meira lágmenningartímabilið , það er ekki minn menningararfur og svona karlasaga eins og Grettissaga er bara eins og hver önnur blóð og hryllingssaga sem núna fæst í búnkum á vídeóleigum.

Hér er þrjár mínútur á Odeo hljóðbloggi það eru hljóðklipp sem ég tók úr viðtali við Hallgrím í Víðsjá RÚV 7. desember. Ég setti þetta fyrst inn í Audicity og stillti svo recording á "mono out".

19.12.05

Myspace er meira draslið

My Odeo Channel

Nú er ég að prófa podcasting og hljóðupptökur, smelltu á hnappinn hér fyrir ofan til að heyra upptökuna, ég las þetta blogg upp og gerði líka annað um íslenskun á podcasting.

Ég prófaði Myspace.com um helgina vegna þess að það var grein í Business week Online um þetta kerfi og sagt frá því að þar væru amk 20 milljónir notenda, sérstaklega unglingar. Það er líka podkast með þar sem þetta umhverfi er dásamað fyrir möguleikana sem það býður í að láta krakkana tala hvert við annað um vörur og þjónustu, þannig geti þau sjálf auglýst vörurnar fyrir fyrirtækin. Þetta kerfi minnir um margt á Livejournal, þarna var einfalt bloggkerfi og þarna var einhvers konar félagskapur eins og í flestum svona kerfum, hægt að skrá sig í hópa og skrá einhverja sem vini sína. Þessir vinir sem eru á flakki þarna eru nú ekki allir raunverulegir, það var mikið um illa dulbúnar auglýsingar sem margar virtust fyrir kynlífsþjónustu. Það þarf ekki að taka fram að slíkt efni var jafnan löðrandi í kvenfyrirlitningu. Það er einhver tilbúinn kall sem skrifar þér bréf og þykist vera vinur allra sem gerast áskrifendur en það er líka tiltölulega auðvelt að kaupa sér vini þarna. Svo var kerfið ósmekklegt og mikið kraðak og allt þakið í auglýsingum.

Þetta virðist stíla upp á aðila sem selja ungu fólki þjónustu svo sem hljómsveitir sem eru að selja tónlist. Látum nú vera þó þetta sé hallærislegt kerfi með gervifólki sem þykist vingast við unglinga til að selja þeim vörur og þjónustu og látum vera þó þetta sé svona lokað og hallærislegt. Þessi kerfi sem íslenskir unglingar eru læstir inni í eru ekkert skárri, sjá bara auglýsingaborðana á folk.is.

En það sem stuðar mig óendanlega var hallærisleg ritskoðun á því sem maður skrifar inn. Það virðist vera eitthvað stríð í gangi milli myspace.com og youtube.com þannig að ekki er lengur hægt að spila vídeóklipp frá youtube á myspace. Ég ætlaði að vísa í vídeóklippin mín hjá youtuber en viti menn... í hvert skipti sem ég skrifaði nafn fyrirtækisins youtube þá breyttist það í þrjá punkta ... og það var ekki hægt að tengja í þann vef. Mér fannst eins og ég væri komin til Kína í það ritskoðunarumhverfi sem þar ríkir. En er þetta hin frjálsa nýja veröld sem netkynslóðin vex upp í? Ef svo er þá er @-kynslóðin þrælakynslóð innmúruð í umhverfi neyslusamfélags og miðstýringar. Hryllileg blanda.


Ég skrifaði pistil á ensku á vídeóblogginu mínu um þetta og setti þetta líka inn í digg.com:
Myspace in the Brave New World

Technorati tags: myspace youtube censorship citizen journalism digg

15.12.05

Podcasting - Ég í Skype viðtali

Í hinni nýju veröld alþýðlegrar fréttamennsku þá eru ekki bara stjörnublaðamenn að taka viðtöl við stjörnur. Mér sýndist á bloggráðstefnunni um daginn að fólk væri mest að tala viðtöl hvert við annað. Nicole Simon tók fjölmörg podcast viðtöl bæði fyrir og meðan á Les Blogs ráðstefnunni stóð. En það það er ekki einu sinni nauðsynlegt að hitta þá sem maður tekur viðtal við, nú eru viðtöl gegnum Skype afar vinsæl hjá bloggurum. Damien sem var á bloggráðstefnunni Les Blogs sá að ég var femínisti, ég held hann hafi séð það út af flickr myndunum mínum og hann spurði mig hvort ég væri til í Skype viðtal og ég var nú alveg til í það. Hann hringdi svo í mig og við spjölluðum saman (ég talaði, hann þagði:-) í 20 mínútur og hann hefur sett viðtalið við mig út á bloggið sitt Bloggingthenews

Hann með podcastinu einhvern texta á frönsku sem ég skil ekkert í. En þetta var bara skemmtilegt, þetta var mitt fyrsta Skype viðtal og mér finnst svona Podcasting alveg æði og ætla að kenna nemendum mínum svoleiðis á næstu önn. Það finnst víst fleiri Podcasting sniðugt því að PODCAST var kosið orð ársins 2005. Hérna er mynd af Kristínu Helgu með nýja Ipodinn sinn, hún fékk hann þegar ég kom frá Kanada í nóvember.

The image “http://static.flickr.com/31/61864743_2d0ded2c62.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Technorati tags: lesblogs podcast feminism flickr

12.12.05

Vídeóviðtöl - Vídeóklipp - Flott myndakerfi

Ég dæli út á vef stuttum vídeóklippum af Les Blogs 2.0 ráðstefnunni. Núna var ég að prófa kerfi sem heitir Woomp.com, það er kerfi sem maður getur notað fyrir bæði myndir og vídeóklipp. Vídeóklippin verða að vera á svokölluðu Flash Videóformi, hafa endinguna .flv en upprunalega koma vídeóklippin mín á .avi formi, þannig skilar stafræna myndavélin mín þeim frá sér. Ég tek öll vídeóklipp núna upp á litlu Ixus myndavélina mína, hún er lófastór og ég er alltaf með hana á mér. Ég keypti nýlega Gígabæta minniskubb að það breytir öllu þegar maður tekur upp vídeó.

Það þarf sem sagt að umbreyta .avi eða .mov í Flash Video. Ég hlóð niður Riva FLV Encoder sem er frítt forrit og set vídeóklippin þar inn til að breyta þeim. Það er frekar einfalt kerfi og virkaði þrælvel fyrir .avi vídeóklippin mín sem ekkert þurfti að breyta.

Í flestum tilvikum þarf vill maður vinna vídeóklippin eitthvað áður en maður skellir þeim á vefinn. Ég nota til þess Windows MovieMaker eða Quicktime Pro, það er eru bæði afskaplega einföld kerfi. Það kom hins vegar í ljós að woomp.com virkar ekki fyrir fyrir nýjasta Windows Movie Maker (virkar ekki fyrir codex 9 af því hann er ekki open source) þannig að ég gat ekki umbreytt .wmv skrám. Ég prófaði þá að klippa saman vídeóin í Quicktime Pro en get ekki umbreytt .mov skrám frá Quicktime í .flv skrár. Ég fann hins vegar út úr því að það var vegna þess að það var ekki réttur staðall á hljóði og með að vista úr Quicktime Pro (velja export) undir öðrum hljóðstaðli (smella á options og sound og velja annan hljóðstaða) þá gekk þetta eins og skot. Ég set þetta tækniblogg hérna inn ef það gagnast einhverjum, ég hef ekki hugmynd um hvað allir þessir staðlar í vídeó og hljóði merkja og vil helst ekki setja mig inn í það. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt núna eins og sést á þessu dæmi. Eins og er þá er sennilega langbesta leiðin fyrir vídeóbloggara að setja vídeóklipp á eitthvað flash eins og www.youtube.com og www.woomb.com gera, það tryggir að bæði makka og pc notendur geta spilað þau og flestir hafa Flash uppsett.

Það er mjög flott hvernig hægt er í Woomp að setja upp síðu fyrir vídeoklippin mín. Það þarf bara að smella smámynd af hverju vídeóklippi til að það byrji að spila. Annars get ég líka mælt með www.woomp.com og www.bubbleshare.com sem kerfum til að setja inn hefðbundin myndaalbúm, þetta eru einföld kerfi og það kostar ekkert að skrá sig. Hámarkið er hins vegar 100 mb sem maður má setja inn af efni, það er fljótt að fara ef maður setur inn vídeóklipp. Flickr er náttúrulega samt skemmtilegasta myndakerfið.

Technorati tag: lesblogs, lesblogs2, lesblogs2.0, woomp youtube flickr

7.12.05

Blogg um blogg - Bakrás á bloggráðstefnu

Bloggráðstefnunni Les Blogs 2.0 í París lauk í fyrradag og ég mun blogga nokkur blogg um hana á næstunni. Margir bloggarar blogguðu um þessa ráðstefnu í beinni og halda áfram eftir að heim er komið, það voru allir beðnir um að setja efnisorðið "lesblogs" á bloggin sín fyrir technorati.com og því þá geta allir fylgst með lesblogs ráðstefnuumræðustraumnum. Nú og svo áttu allir líka að merkja flickr myndirnar sínar með lesblogs og þar sem bloggarar virðast vera búnir að fá sér stafræna myndavél eða farsíma með myndavél þá streyma lesblogs myndirnar á flickr, seinast þegar ég athugaði voru komnar um 4000 myndir af báðum les blogs ráðstefnunum sem hafa verið haldnar. Ég fann þessa mynd af mér þarna í flaumnum þar sem ég sit á fremsta bekk umkringd af nördum.



Annars er allt brjálað í bloggheimum út af uppákomu sem átti sér stað seinni dag ráðstefnunnar. Á ráðstefnunni var irkrás í gangi sem er ekki í frásögur færandi en margir þátttakendur göntuðust með menn og málefni á rásinni. Það var hins vegar skrýtið að irk-rásin var stundum til sýnis, notuð til að flikka upp á sviðsmyndina og var varpað upp fyrir aftan fyrirlesara á tveimur risastórum skjáum. Það kom sem sagt oftar en einu sinni fyrir að fyrirlesarar voru hafðir að háði og spotti á irkrásinni sem rann fram fyrir aftan þá og allir þáttakendur fylgdust með. Ég hef nú reyndar verið að blogga á meðan á ráðstefnunni stóð og eftir að henni lauk en mér fannst það vera að bera í bakkafullan lækinn að blogga á hefðbundinn hátt og setja myndir inn á flickr. Þess vegna ákvað ég að halda mig við vídeóblogg, fannst það framúrstefnulegra og það eru ekki ennþá margir sem blogga þannig þó að flestir hafi mjög aðgengileg verkfæri til þess. Ég nota bara ókeypis verkfæri og tek öll vídeóin upp á litlu stafrænu myndavélina mína, Canon Ixus. Vídeobloggið mitt er hérna http://www.samkoma.net/videoblog og í dag póstaði ég pistil og vídeó þar með titlinum Every story has two points of view þar sem ég fjalla um þetta irk-rásarmál.

technorati: lesblogs, backchannel

4.12.05

Félagslíf í París

Hvað gerir maður í París þegar maður er einn og þekkir engan? Nú, það er hægt að hanga á Netinu eins og venjulega ef maður hefur góða Internettengingu. En það er líka hægt að nota Netið til að koma sér í samskipti við annað fólk. Ég athugaði hvort það væri ekki eitthvað meetup í París sem ég gæti farið í og viti menn, það var samkoma hjá listamönnum á föstudagskvöldinu í gallerýi í Montmartre. Ég tel sjálfa mig listamann svo ég skráði mig hið snarasta í hópinn og mætti með vínflösku í partýið. Þetta var mjög gaman, þetta var haldið á heimili einnar í hópnum en hún rekur líka gallerý á heimili sínu og hefur þar sýningar. Ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki um kvöldið en að öllum öðrum ólöstuðum þá fannst mér Susanne og Alexandra skemmtilegastar, þær eru báðar bloggarar og áhugasamar bæði um tækni og Internet og listir sem er ekki mjög algengt. Susanne er frá Edinborg, hún stofnaði þennan listahóp og stýrir honum og hún rekur vefinn IVYparis . Mamma Alexsöndru rekur bloggþjónustu í USA.

Susanne er þessi í íslensku lopapeysunni á efri myndinni og Alexandra er þessi í svörtum jakka og fjólubláum sokkabuxum að hella víni á neðri myndinni.

xIMG_0018

IMG_0015
Laura sem var í partýinu sagði mér frá vini sínum Jim Haynes sem er heimsborgari í París og heldur svona opin sunnudagsmatarboð. Ég fer þangað í kvöld. Mér skilst að þessi matarboð hjá Jim séu þekkt en hann hefur haldið þau í mörg ár.

Hér eru fleiri myndir frá þessu skemmtilega og listræna samkvæmi á föstudagskvöldið.

1.12.05

Bloggráðstefna í París

Ég fer til Parísar á morgun, ætla að verða þar í viku, sinna fræðistörfum og fara á ráðstefnuna Les Blogs 5. og 6. desember. Vonandi verða allir fyrirlestrar á ráðstefnunni á ensku, annars er ég í vondum málum því ég skil nánast ekkert í frönsku. Flestir þátttakendur á ráðstefnunni eru franskir, það er væntanlega af því að blogg er mjög í tísku í Frakklandi og líka af því að ráðstefnan er haldin þar. Ráðstefnan var svo vinsælt að það varð uppselt á hana fyrir löngu þó það væru 350 sæti en ég var á biðlista en komst inn.

Ráðstefnan verður í 17. hverfi en ég ætla að búa í 11. hverfi í íbúð í Marais sem ég leigði áðan gegnum Netið í gegnum Yellowstay . Ég á að fara á staðinn, slá inn kóða til að komast inn í húsið og þá á ég að finna lyklana að íbúðinni í póstkassanum. Þegar ég fer á ég að skilja lykilinn eftir í íbúðinni og skella í lás. Það á að vera þráðlaus háhraðainternettenging í íbúðinni og öll þægindi. Flugið til Parísar kostar um 28 þús. með sköttum og íbúðin kosta um 6300 kr á sólarhring. Ég skoðaði ýmsa möguleika á gistingu og mér sýnist álíka dýrt að vera á hóteli og í svona íbúð. Það er hins vegar notalegra og heimilislegra að vera í íbúð og meiri þægindi.

Ég er viss um að svona ferðamáti á eftir að vinna á, það þarf þá ekkert að vera nein móttaka á hóteli og engin yfirbygging. Ég íhugaði að leigja einhverja íbúð eftir auglýsingum sem ég sá á Craigslist fyrir París en lagði ekki í að leigja beint eftir svona auglýsingu þar sem ég er ein á ferð, mér þótti öruggara að leigja í gegnum fyrirtæki sem væri með margar íbúðir í útleigu.

Ég hef einu sinni fengið gistingu erlendis í gegnum smáauglýsingu, það var í New York og það var vissulega á besta stað í bænum, það var alveg við aðalhornið á Central Park en það var í kjallara sem var svo niðurgrafinn að aðeins um 20 cm gluggi var efst og þar voru rimlar fyrir honum og mjög dularfullt fólk sem stóð fyrir þeirri gistiaðstöðu svo mér varð ekki svefnsamt þá nótt. Núorðið þegar ég ferðast erlendis þá er ég annað hvort í svona íbúðum eða á farfuglaheimili eða þá í íbúðaskiptum.

29.11.05

Bryggjutröllin og mannréttindi glæpamanna

Dómstóll götunnar er oft harðari en hinir opinberu dómsstólar. Það vita Bryggjutröllin og þau kveinka sér stundum undan ummælum múgsins á bloggsíðu sinni. Bryggjutröllin eru hópur ungra afbrotamanna sem núna afplánar á Kvíabryggju og þegar Bryggjutröllið Grétar sem sjálfur kallar sig góða strákinn í líkfundarmálinu kvartaði við almenning að hann þyrfti að sitja of lengi inni þá var fólk alls ekki sammála honum og lét það í ljós með frekar bitrum orðum. Bryggjutröllið Ívar sem er búinn að sitja inni í tæpt ár er ósáttur við þetta og mælir til almennings á blogginu 24 nóvember:

"....Þið viljið greinilega hafa okkur í hlekkjum, ekkert sjónvarp, enga vinnu, enga útivist, enga síma, helst eins lítið að borða og hægt er og eins lítil samskipti við umheiminn og mögulegt er. Þið viljið sem sagt búa til hreinræktaða geðsjúklinga sem verða bitrir úti kerfið allt og alla. Þannig er það ekki hér hjá okkur við höfum það nú bara bærilegt, en þið þarna úti sem hafið þessar skoðanir getið huggað ykkur við það að það er nú alltaf verið að reyna að herða alla dóma í dag. Svo þegar þið misstígið ykkur og brjótið af ykkur á lífsleiðinni þá skulum við vona að það verði búið að breyta fangelsum og dómum.Þá fáið að dúsa í einhverjum holum hlekkjaðir og hýddir daglega. Það verður fróðlegt að sjá hvort þið séuð eins hörð og þið gefið ykkur út fyrir að vera, falin bakvið lyklaborð og tölvu."

Reyndar virðist Bryggjutröllunum líka bara vel að fólk tali við þau og hafa skoðun á hvað þau eru að gera eða hvernig þeim líður eða eigi að líða og mér finnst reyndar frábært að lifa í samfélagi þar sem allir hafa rödd og geta tjáð sig. Ég hugsa ef heimspekingurinn Foucault hefði verið uppi núna að vesenast með Prison Information Group (GIP) þá hefði hann reynt að fá alla fanga til að blogga.

Ég held að staða mannréttindamála í hverju landi endurspeglist ekki síst í því hvernig komið er fram við þá sem eru útskúfaðastir, mest fyrirlitnir, mest hataðir og valdalausastir. Íslenskt samfélag fær þar ekki háa einkunn og núna hefur Netið tekið við sem gapastokkur götunnar. Ég var að skoða íslensku Wikipedia áðan, ætlaði að fara að kvarta yfir því að mitt framlag þar væri forsmáð en þá sá ég dæmi um alvarleg mannréttindabrot gagnvart sakfelldum manni. Það er þar vefsíða um Stefán H. Ófeigsson og það er rækilega sagt frá glæpaferli hans. Þar er líka sagt frá vísindaferli hans og það virðist hafa verið tengt í allar greinar hans hjá Vísindavefnum. Vísindavefurinn virðist hafa tekið niður allar þær greinar. Það hefur komið fram í blöðum að Stefáni hefur verið sagt upp störfum á sínum vinnustað. Þessi opinbera umfjöllun er brot á mannréttindum og mjög sennilega ólögleg, þetta er brot á lögum um persónuvernd og skráningu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Fangar og dæmdir glæpamenn hafa líka mannréttindi, fólk sem okkur líkar illa við hefur líka mannréttindi og fólk á ekki að vera hengt á almannafæri fyrir glæpi sína.
Höfundarréttur og fiskarnir í sjónum

Hver á orð og hugsanir? Hver á íslenskt mál? Hver ræður hver má segja hvað? Hver á fiskinn í sjónum? Það er til skrýtla um tvo umrenninga sitja að drykkju og fara að slá um sig í ölæði og annar segir "Ég er að hugsa um að kaupa allar silfur- og gullnámur í heiminum". Félagi hans verður þungur á brún og svarar "Ég er ekki viss um að ég vilji selja". Er eignarhald okkar á íslenskri menningu af sama toga og eignarhald þessara umrenninga? Eru orð eins og sameign þjóðarinnar og íslensk menning merkingarlaus gjálfuryrði? Eru sameiginlegar minningar okkar einkaeign einhverra og er tungumálið sem við tölum í einkaeign? Geta fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir fengið einkarétt á orðum og hugsunum? Eru minningar um fjölskyldur okkar sem birtust í minningargreinum dagblaðs núna eign eigenda blaðsins?

Hér er saga um tvo fiska sem synda í sama sjó sem útskýrir það farg sem hvílir núna á samskiptum og skapandi vinnu vegna hins gífurlega víðfeðma höfundarréttar sem nú er lögbundinn, höfundarréttar sem miðaðist við allt annars konar veruleika í miðlun en við búum við í dag. Þessi saga um fiskana skýrir hvað Creative Commons er , hvernig höfundarrétthafar geta leyft tiltekna og jafnvel ófyrirséða notkun á sínu efni t.d. leyft öðrum að nota efnið sem efnivið í nýtt hugverk.

Ég vona að sú stund renni einhvern tíma upp að á Íslandi og víðar í heiminum verði komin önnur lög og aðrar vinnureglur um höfundarrétt og hugverk og Íslendingar eigi í framtíðinni eftir að brosa yfir því hve fáránleg höfundarréttarlög voru árið 2005, já finnist þau álíka fáránleg og þrúgandi og við lítum núna á sum valdboð í Íslandssögunni, t.d. að fátækt fólk mátti ekki vera í litskrúðugum fötum og ekki sitja á fremsta bekk í kirkjunni, það voru forréttindi bara ætluð höfðingjunum. Við áttum okkur á því núna að svona boð og bönn fortíðarinnar voru einn þáttur í að afmarka línu milli þeirra sem voru útvaldir og þeirra sem voru það ekki og líka einn liður í að halda þeim undirokuðu undirokuðum áfram. En í dag er ástandið þannig að við erum sjálf á vaktinni yfir hver notar orð og hugsanir og með hvaða hætti og við erum gegnsýrð af þeirri hugsun að við þurfum að gæta hagsmuna þeirra sem eiga hugverkaréttindi.

Það þó örlar á breytingum í gegnum hreyfingar sem vinna að útbreiðslu Open source og Open content og Creative Commons. Alfræðiritið Wikipedia er oft tekið sem dæmi um árangursríkt samstarf margra - um mátt fjöldans. Það er til íslensk útgáfa af Wikipedia en þar er ekki ennþá komið mikið efni. Ég ákvað að taka þátt í að bæta efni við íslensku Wikipedia og setti inn nokkra pistla þar í gær, ég var einnig að læra hvernig ætti að setja inn greinar. Er skemmst frá því að segja að þeir voru strax nokkrum mínútum seinna þurrkaðir út og í staðinn kom eftirfarandi orðsending á skjáinn:
"Athugið!Innihald greinar þessarar hefur verið fjarlægt vegna gruns um höfundarréttarbrot og hún hefur verið flokkuð sem mögulegt höfundarréttarbrot á Wikipedia."

Ég var nú ekki svo ósátt í fyrsta skiptið, ég var ánægð að sjá að það væri svona nákvæmt eftirlit með Wikipedia, ég hafði vissulega afritað og límt nokkrar setningar af vef nat.is , ég hafði ákveðið að skrifa pistil um Grábrókarhraun og prófa að setja inn ljósmyndir sem ég hafði sjálf tekið af hrauninu og hlaðið inn á Wikipedia Commons, ég var með allan hugann við að finna út úr hvernig ég afsalaði mér höfundarrétti af myndunum á Wikipedia Commons og að prófa að setja upp Wikipedia vefsíður með myndum. Ég umorðaði og endursamdi textann um Grábrókarhraun og fletti upp öllum tiltækum heimildum og skrifaði inn nýjan pistill með myndunum mínum tveimur. Nýi pistillinn var samstundis þurrkaður út líka og aftur kom á skjáinn orðsending um höfundarréttarbrot.

Svona eru pistlarnir:
Ég setti líka víða tengitexta inn í pistlana og tvær ljósmyndir frá mér.

Pistillinn sem ég setti inn um Grábrók:
"Grábrók er um 170 metra hár gjallgígur norðaustan við Hreðavatn. Grábrók er stærst þriggja gígja á stuttri gossprungu. Úr þessum gígjum Stóru-Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðabrók) og Litlu-Grábrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum.
Vinsælt er að ganga upp á Grábrók, það er auðveld gönguleið og þangað liggur vandaður göngustígur."


Pistillinn sem er á nat.is
"Grábrók (173 m) er fagurmyndaður gíghóll rétt norðaustan við Hreðavatn. Úr Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðbrók) og Litlubrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum. Hraunið stíflaði Norðurárdal og þá myndaðist stöðuvatn þar fyrir ofan. Vatnið eyddist síðar og skildi eftir sig rennisléttan botn þar sem dalbotninn er nú. Göngustígar eru upp á Grábrók og bílastæði undir fellinu enda er útsýni þaðan frábært um Norðurárdal. Hreðavatnsskáli stendir undir fellinu sunnanverðu og Bifröst er mitt á milli þess og Hreðavatns."

Pistillinn sem ég setti inn um Grábrókarhraun
"Grábrókarhraun er úfið apalhraun í Norðurárdal. Það er um nokkur þúsund ára gamalt og er vaxið mosa, lyngi og birkikjarri. Grábrók er stærst þriggja gígja á gossprungu. Þessir gígir eru Stóra-Grábók, Litla-Grábrók og Grábrókarfell sem stundum er nefnt Rauðabrók. Litla-Grábrók er að mestu horfin vegna jarðrasks. Gígirnir eru friðlýstir sem náttúruvætti. Grábrókarhraun er á náttúruminjaskrá."

Pistill um Grábrókarhraun á nat.is:
"Grábrókarhraun er meðal úfnustu apalhrauna hérlendis. Það rann frá Grábrókargígum í Norðurárdal fyrir 3600-4000 árum og er vaxið mosa, lyngi og trjágróðri. Grábrók er stærst gíganna þriggja á gossprungu með stefnu norðvestur til suðausturs.
Gígarnir voru friðlýstir sem náttúruvætti 1962 eftir að búið var að nema úr þeim talsvert gjall til ofaníburðar. Hraunið sjálft er á náttúruminjaskrá. Ganga upp á Grábrók er auðveld, þar sem búið er að koma fyrir tröppum upp erfiðustu hjallana, og fólk er beðið um að halda sig einungis á þeim stíg. Útsýni er fagurt af Grábrók í góðu veðri og stutt þaðan í aðrar náttúruperlur, s.s. Hreðavatn, Paradísarlaut og fossinn Glanna í Norðurá.
Aðrar skemmtilegar gönguleiðir, bæði stuttar og langar liggja um svæðið meðfram Norðurá og alla leið að Múlakoti og Jafnaskarði."


Ætlun mín var bara að skrifa einn lítinn pistil um Grábrókarhraun, aðallega til að koma þessum tveimur ljósmyndum mínum af hrauninu inn á íslensku wikipedia. Ég sá svo að það var eðlilegra að vísa í sérstaka síðu um Grábrók, það líka passaði við þá uppsetningu sem mér sýnist vera á vefnum og svo hnaut ég um orðið náttúruvætti, hugsaði mér að það myndu nú krakkar í grunnskóla ekki skilja svo það þarnaðist útskýringar. Þannig að ég setti inn pistill um Náttúruvætti og varði heilmiklum tíma í að finna bestu útskýringuna og nákvæmustu á því, ég fann góðar upplýsingar á vef umhverfisstofnunar. Ég setti inn nánast óbreytta skilgreiningu á náttúruvætti, skilgreiningu sem ég fann á vef opinberrar stofnunar sem sinnir umhverfismálum. Eina sem ég gerði er að ég breytti smávægilegu til að textinn yrði læsilegri, t.d. felldi burt að auglýsingar um náttúruvætti væru birtar í Stjórnartíðindum. Ég setti síðan inn listann yfir þau 34 náttúruvætti sem nú eru. Svo hafði ég tengill í þá undirvefsíðu Umhverfisstofnunar þar sem meiri upplýsingar m.a. kort og lýsingar um náttúruvætti var að finna. Þessi wikipedia síða um Náttúruvætti var líka umsvifalaust fjarlægð og sama orðsending kom:
"Athugið!Innihald greinar þessarar hefur verið fjarlægt vegna gruns um höfundarréttarbrot og hún hefur verið flokkuð sem mögulegt höfundarréttarbrot á Wikipedia." Einnig sá ég að meðal stjórnenda á íslensku wikipedia hafði farið fram umræða um hvort birting á listanum yfir náttúruvætti væri höfundarréttarbrot.
Það verður að segjast eins og er, ég er dáldið fúl (það er mikið understatement:-) yfir þessu. Ég hafði varið drjúgum tíma í að finna og setja fram opinberar upplýsingar á eins nákvæman hátt og mér var unnt, ég vísaði í heimild og setti inn lista sem beinlínis er tekinn saman til að upplýsa almenning. Ég sé að síðar hefur komið aftur upp síða um náttúruvætti og þar er þar hefur listinn yfir náttúruvætti verið settur inn aftur og svo á náttúruvætti umorðuð á að mér virðist ónákvæmari hátt.

Pistillinn sem ég setti inn um náttúruvætti:
"Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og haun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask. Á landinu hafa 34 svæði verið friðlýst sem náttúruvætti. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir náttúruvætti."

Pistillinn sem hefur verið settur inn í staðinn er svona:
"Náttúruvætti er staður eða svæði sem Náttúrustofnun hefur skilgreint sem sérstakt og ber að vernda fyrir jarðraski. Þetta geta verið hellar, fossar, hraun, drangar, eldstöðvar, eða hverir, en einnig fundarstaðir steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvættum má ekki spilla né skemma og eru því friðlýst."

Í nýju útgáfunni er talað um Náttúrustofnun. Ég finn ekkert um Náttúrustofnun undir umhverfisráðuneyti. Hvaða stofnun er það? Ég finn ekki annað en náttúruvætti heyri undir Umhverfisstofnun.

Það er vissulega mikilvægt að gæta að höfundarrétti og hlíta landslögum, það er mikilvægt að fara að lögum þó að manni finnist lögin óréttlæt og fáránleg. En það sem mér finnst sorglegast er að hugsunin um höfundarrétt er svo ströng hjá okkur að sá hópur sem núna stýrir íslensku Wikipedia - sá hópur sem er sennilega í framlínu þeirra fylkinga sem vilja hafa þekkingu og upplýsingar almenningseign- skuli svo mikið á vaktinni yfir broti á höfundarrétti og í varðgæslu fyrir hagsmuni þeirra sem vilja að þekkingin flæði til okkar eftir leiðum þar sem höfundarrétthafar geta ráðið rennslinu - skuli telja að þessi dæmi sem ég tiltek hérna séu talið brot á höfundarrétti.

25.11.05

Kauptu ekkert dagurinn

bnd-clipart-salvor1bnd-clipart-salvor2
Enn einn hátíðisdagur nethakkara runninn upp. Í dag er kauptu-ekkert-dagurinn og í tilefni hátíðarhaldanna skreyti ég bloggið mitt með alls kyns djásnum frá adbusters.org
Þar er skipulagningarmiðstöð hátíðarhaldanna, það er hægt að fá þar alls konar dót til að prenta út. En af því ég er svo löt þessa dagana þá nenni ég ekkert að vera með skilti á almannafæri heldur bara set glingur hér á vefinn. Ég bjó líka til svona íslenskt kauptu-ekkert lógó, náttúrulega með bleiku sem er tískulitur aktívista hér á Íslandi. Svo bjó ég til annað gult. Þessi lógó mín er öllum heimilt til notkunar, hér er stærri png mynd af gula
og líka stærri af bleika Reyndar er Kaupum-ekkert dagurinn haldinn á mismunandi dögum eftir löndum, í Ameríku er hann á föstudagi eftir Þakkarhátíðina en í Evrópu og Japan á laugardeginum.
Hér eru litlar útgáfur:
bnd-clipart-salvor1bnd-clipart-salvor2 bnd-clipart-salvor4 bnd-clipart-salvor3

BND_banner_consumer_05

3.11.05

Úti og inni í Vancouver

Það rignir og ég ákvað að vera bara inni í dag. Það er líka alveg ágætt hérna, ég lifi lúxuslífi, er í hótelíbúð með svölum og útsýni yfir borgina og iðandi mannlífið í Davie village, ágæta Internettengingu og öðru hverju fylgist ég með sjónvarpinu, horfi á fréttaþætti um Vancouver. Núna eru borgarstjórnarkosningar hérna og það er mikið lagt upp úr að upplýsa almenning um borgarmálefni, í hvað skattpeningarnir fara og um hvað er kosið. Það er mikill áróður fyrir að fólk skrái sig og kjósi. Vancouver er æðisleg borg, ég sá það strax úr flugvélinni, landslagið er stórbrotið, þetta er vatnaborg umkring fjöllum og hafi. Flestir hafa aðgang að útsýni og náttúru og veðurfar er milt og veður er stillt, það verður sjaldan kaldara en núna í nóvember en þá er hitinn um 9 gráður. Fólkið hérna er líka einstaklega vinsamlegt, margir gefa sig að manni á förnum vegi, brosa og kasta á mann kveðju og fólk er hjálpsamt og umhyggjusamt og opinskátt. Jafnvel heimilislausa fólkið sem betlar á götunni segir jafnan eitthvað fallegt við mann "Have a nice day" þó maður hafi bara hrist höfuðið og ekki gefið því neitt. Það eru kaffihús á hverju götuhorni. Það er áberandi blandað mannlíf hérna, mér sýnist sums staðar meirihlutinn vera fólk af asíuuppruna enda er borgin á Kyrrahafsströnd Ameríku. Margir munu hafa flust til Vancouver frá Hong Kong þegar kínversk stjórnvöld tóku yfir borgina. Það eru mjög fáir blökkumenn hérna. Vancouver þykir ein eftirsóttasta borgin í heiminum til að búa í og það er auðvelt að sjá hvers vegna. Jafnvel þó að flestir búi í skýjakjúfum og háhýsum þá er skipulag borgarinnar þannig að háhýsin eru falleg og mikið lagt upp úr að þau séu dreifð og allir fái notið útsýnisins. Flestir hérna virðast vera í góðum efnum en það virðist ekki mikill munur á fólki eftir efnahag, kannski af því að allir klæðast frjálslega og sportlega og flestir eru fótgangandi.

Það eru mjög margir heimilislausir í Vancouver, sennilega af því að borgin dregur til sín þá sem eru í leit að betri lífskjörum og sums staðar er dapurlegt að sjá heimilislausa fólkið. Ég gekk um East Hastingsstræti sem er ein versta gata borgarinnar og kom þar að félagsmiðstöð, ég fór þar inn. Það voru mörg hundruð manns þar, næstum eingöngu karlmenn og flestir á aldrinum tuttugu til fjörutíu ára. Þetta var skjól fyrir heimilislaust fólk, bókasafn, staður þar sem hægt var að lesa blöð og spila og tefla og fá mat fyrir vægt verð eða ókeypis.
Margir líta ekki út fyrir að vera eiturlyfjaneytendur og margir virðast óhamingjusamir. Það eru næstum engar konur sem betla og ég hef ekki ennþá séð neinn af asíuuppruna sem betlar. Ég velti fyrir mér hvaða harmleikur er í lífi þeirra sem ég sé betla á götunni og sem ég sé hreiðra um sig á kvöldin á pappa, hvort ástandið endurspegli að karlmenn af kákasusuppruna hafi veikara félagsnet eða hvort þetta endurspegli að í borginni er ekki þörf lengur fyrir ófaglærða karlmenn, þetta er borg þar sem störfin eru sérfræðingastörf og þjónustustörf. Eða hvort þetta séu karlmenn sem hafa farið einir frá fjölskyldum sínum úr einhverjum fátækum plássum. Það eru örugglega einhverjir af götufólkinu veikir á geði eða á einhvern hátt ekki færir um að framfleyta sér og búa sér heimili sjálfir. En ég dáist að Hjálpræðishernum og öðrum sem hlú að fólki við svona aðstæður, ég held að sjómannaheimilin hafi einmitt verið sett upp til að mæta þessari miklu óhamingju vegalausra og tengslalausra manna á erlendri grund.

Vancouver er hrífandi borg en það er stundum betra að vera inni en úti þar.

1.11.05

Hrekkjavaka í Vancouver

Rauðgullin laufblöð, appelsínugul grasker, haust, líf sem hefur fölnað og visnað, dauði, eldur og eyðilegging, blóð, myrkur og óvættir. Þannig er halloween hátíðin, hausthátíð þar sem fólk klæðist dulbúningum, setur upp grímur og blæs til orustu gegn myrkrinu og dauðanum, sker út tákn á grasker, holar þau að innan og lýsa þau upp innanfrá og setur í glugga eða dyr við heimkynni sín, eins og logandi galdrastafi til að stugga burt illum öndum.

Davies stræti þar sem ég bý var lokað um morguninn, það var fjölmennt kvikmyndagengi að taka upp mynd við krána Oasis. Vancouver er sviðsmynd fyrir margar kvikmyndir. Ég tók himnalestina upp á Barnaby fjallið. Þar er Simon Fraser háskólinn á fjallstoppnum, arkitektinn Arthur Eirickson teiknaði háskólabyggingarnar sem eins konar Akropolis:

"The mountain top location inspired Erickson to reject multi-story buildings, which he thought would look out of place. Instead, Erickson turned for inspiration to the acropolis in Athens and the hill towns of Italy, where the mountain was incorporated into the design itself."

Á háskólatorginu höfðu nemendur í ensku komið upp halloween miðstöð og buðu gestum og gangandi upp á graskerskökur og graskersskreytingar. Ég prófaði að skera grasker eins og sjá má að þessari mynd, það var gaman.

Halloween on Burnaby mountain

Reyndar sendi Elísabet mér líka flassútgáfu af svona graskersskreytingum, það er nú eiginlega auðveldara og þægilegra, sérstaklega fyrir netóðar manneskjur eins og mig.






Um kvöldið fór ég á skemmtistað á Davies stræti, þar var stemming eins og í Fassbinder mynd, margt fólk í halloween ófreskjubúningum, húsnæðið skreytt með sundurtætt líkum og blóðslettum og kóngulóarvefjum og hauskúpum. Það voru líka margir í búningum sem ekki eru endilega tengd halloween, sjóliðar, kúrekar, leðurhommar, dragdrottningar. Stundum var erfitt að sjá hver var að leika og hver var grímuklæddur eða hvort það er eitthvað á bak við grímuna. Ég tók vídeóklipp af því þegar nokkrar dragdrottningar tróðu upp með dansi og söng. Þetta var skemmtileg sjóv, ég held að þetta hafi verið þannig að gestir á staðnum gátu bara troðið upp með sitt atriði, svona listrænn eftirhermudans og eftirhermusöngur. Ég er að spá í svona dragkúltúr og reyna að skilja út hvað hann gengur. Karlmenn í ýktu kvengervi að dansa eftirlíkingu af kynæsandi dansi fyrir áhorfendahóp sem er næstum eingöngu samkynhneigðir karlmenn. Karlmenn að míma kvensöngvara og leika súperkvenmenn. Kannski er þetta það sama og leiklist gengur út á ... að leika það sem maður ekki er... eða almennt list... að búa til draumaheim... að breyta veruleikanum.. að endurskapa heiminn... að endurskapa sjálfan sig.


..

22.10.05

Kínversk lokun á Wikipedia

Kínversk stjórnvöld hafa í sumum héruðum lokað fyrir aðgang að alfræðiritinu Wikipedia Lokunin hefur staðið frá 18. október sjá nánar greinina Online encyclopedia Wikipedia censored (Reporters without Borders, 21 október 2005). Kínversk stjórnvöld hafa áður lokað aðgangi að Wikipedia, það var í júní og september 2004.

Ég var að fletta upp í Reporters without Borders til að athuga hvort þar væri umræða um svipuð málferli og þau sem Jón Ólafsson, búsettur í Bretlandi höfðaði gegn bróður mínum. Ég gúglaði líka um málið og fékk upp m.a. þennan áhugaverða pistil á kínversku:

Ég skil nú lítið nema mannanöfnin í þessum pistli en það er gaman að sjá hvað Kínverjar fylgjast vel með hömlum á ritfrelsi og tjáningarfrelsi á Íslandi, sennilega telja þeir sig geta lært á því. Það er svo bara trix hjá mér að setja þennan kínverska pistil hérna inn, það er til að draga að mér athygli kínverskra leitarvéla, þessi bloggfærsla er beinlínis skrifuð í því augnamiði að ná til kínverskra stjórnvalda og sýna að fréttir af ritskoðun í Kínaveldi berast strax í alla afkima og afskekktar eyjar á jarðkringlunni.
Jafnvel til Íslands.

20.10.05

Untitled

Flock - nýr open source vafri

Ég er núna að prófa nýjan vafra sem byggir á Firefox. Þessi vafri heitir Flock og hann er oft nefndur sem dæmigert web 2.0 verkfæri. Það er mjög sniðugt að sjá hvernig blogg er partur af vafranum, þetta virkar með blogger, typepad og wordpress. Það er líka mjög auðvelt að ná í flickr myndir og del.icio.us bókamerki. Mér sýnist þetta vera vafri sem smellpassar fyrir mig, ég nota hvort sem er þessi kerfi öll mikið. En þetta er í beta útgáfu og sennilega töluvert í land að allt virki vel. Ég setti inn mynd úr flickr með að draga hana svona inn.

Flickr Photo

Þessi Flock tilraun heppnaðist mjög vel. Flock vafrinn virðist góð endurbót við þá vafra sem ég nota þegar. Sennilega verða vafrar svona í framtíðinni. En ég fann grein á Wired um Flock Killer Buzz Flocks to New Browser og aðra grein í BusinessWeek Online Flock, the New Browser on the Block Þessi útgáfa sem ég prófa er Flock o.5 preview sem kom fyrst út í dag.

Harpa Sjöfn heitir nú Flügger

Það stóð í Mogganum í dag. Líka að Flügger verslanir eru allar skipulagðar með sama sniði og innréttaðar í sama stíl hvar í heiminum sem er og viðskiptavinir geta gengið að vörunum vísum hvar sem þeir finna Flügger verslun. Svo styrkir það vörumerkið að allar verslunir heiti það sama.

Við sogumst hratt inn í heim alþjóðavæðingar en samt tökum við ekki eftir því .. nema eitthvað verði til að við mælum breytingarnar eða tökum eftir breytingum sem verða á þekkingarlandslagi og leiðarkerfi okkar. Ég fór á erindi um alþjóðavæðingu í gær, einn fyrirlesarinn benti á að það mætti fylgjast með alþjóðavæðingunni á því að skoða veitingahúsin á Íslandi, hvaða vörumerki séu komin hingað. Þegar Sovétríkin liðuðust sundur og vestræn fjármálahugsun lagðist yfir Rússland þá man ég að það var stórfrétt í alþjóðapressunni þegar fyrsti MacDonald staðurinn opnaði í Moskvu, sagt frá því að eins og mikilvægum áfanga í frelsisátt.

En það eru ekki bara veitingahúsin sem eru vísbending um breytt landslag, það eru líka skiltin og verslunaheitin sem spretta upp núna á ensku. Vegmerkingar eru núna komnar á ensku, það stendur stórum stöfum BUS á nýrri rák fyrir strætó á breiðgötum borgarinnar og ungviðið talar einhvers konar ísl-ensku í sinni msn-gsm-sms veröld. Það verða alltaf fleiri og fleiri sem tala ensku í vinnunni. Enska verður smán saman vinnumálið, án þess að maður taki eftir því - fyrst þannig að stór hluti af vinnunni eru erlend samskipti og svo seinna þannig að allt upplýsinga- og skjalakerfið verður á ensku. Við erum nú tvítyngdu samfélagi þar sem enska vinnur á sem samskiptamál í atvinnulífi og reyndar öllu okkar lífi og íslenskan hopar.

Ef þróunin heldur áfram í sömu átt og með sama hraða þá bendir margt til þess að íslenskan muni smán saman hverfa, kannski ekki hverfa alveg, kannski verða svona skrautmál til að yrkja ljóð og minnast gamalla tíma og halda upp á fjölbreytni heimsmenningarinnar en verða ónauðsynlegt og óhentugt verkfæri í alþjóðavæddu daglegu lífi okkar.

Það er samt skrýtið hvað alþjóðavæðingin gengur á misvíxl, að mér virðist fyrir tilverknað stjórnvalda. Það er skrýtið hvað almenningi eru settar strangar skorður með athafnarými, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi á sama tíma og fjármagn getur flætt eins og vatn yfir öll lönd og landamæri. Það er bara fyndið að sjá öll þessi ensku vörumerki í landi þar sem þegnarnir mega ekki heita enskum nöfnum, já þar sem þegnarnir verða bara að heita nöfnum sem eru á sérstökum samþykktum lista yfir lögleg skírnarnöfn.

Kannski breytist samfélagið ekki mikið með svona alþjóðavæðingu, kannski er það bara umgjörðin sem breytist. Fólkið er eins og málningin er eins. Kannski verður eins að mála heiminn með svona Flügger litum og kannski verður eins auðvelt að þvo burt Flügger málningu.

19.10.05

Jakob Nielsen skrifar um blogg

Það hlaut að koma að því, Nielsen "usability" gúrú er farinn að tjá sig um blogg. Hann hefur sett saman þennan lista: Weblog Usability: The Top Ten Design Mistakes , frekar skynsamlegt flest og naumhyggjulegt eins og allt sem frá honum kemur en sumt er þó bara út í hött, hann segir t.d. " Having a weblog address ending in blogspot.com, typepad.com, etc. will soon be the equivalent of having an @aol.com email address or a Geocities website: the mark of a naïve beginner who shouldn't be taken too seriously." Hvað heldur hann eiginlega að hann sé? Það er þrælfínt að hafa blogg hjá blogspot eða typepad og það eru einmitt margir bloggarar sem vilja vera í þessum alþýðlegu miðlum, blogger er taltól alþýðunnar og það eru svo margir sem nota það verkfæri. Það er flott og grasrótarlegt hjá einstaklingum að hafa blogspot blogg. Það kostar nú reyndar ekki nema nokkra dollara á mánuði að hafa sitt eigið lén og það er nú sennilega sniðugt til lengdar, það er reyndar hægt að hengja eigið lén bæði á blogger og typepad.

18.10.05

Tjaldborg eða netbúðir sem námstæki

Ný tegund af óformlegum þingum eða ráðstefnum CAMP sem eru núna mikil tíska í tölvunördaheiminum, ekki síst hjá þeim sem þróa saman open source kerfi. Þekktasta dæmið um svona tjaldborgarráðstefnur eða netvinnubúðir er Foo-camp en hér er frétt á cnn.com um hvað fór fram á fyrsta Foo-camp árið 2004. When geeks go camping, ideas hatch.

Ég fór á Wikimania 2005 í Frankfurt síðasta ágúst, þar var svona CAMP stemming, ráðstefnan var haldin á farfuglaheimili og bara boðið upp á svefnpokapláss. margir saman í herbergjum en alls staðar súper nettenging. Það hefði náttúrulega líka verið stílbrot að vera á einhverju lúxushóteli að tala um verkfæri eins og Wikipedia. Enda líta Wikipedians á sig sem frelsisher netalþýðunnar og aðalgúrúinn opinberaði líka wikiboðorðin tíu á ráðstefnunni.

Á Wikimania var hefðbundin ráðstefnudagskrá og ég var þar með hefðbundið ráðstefnuerindi en áður en ráðstefnan hófst voru þar sem kallað er "hacking days" þar sem hundruðir nörda komu saman og leystu og ráðslöguðu um vandamál. Ég tók ekki þátt í því en held að stemmingin þar hafi verið eins og á "foo-camp". Stemmingin á Wikimania var allt öðru vísi en vanalega gerist á ráðstefnum sem ég fer á, ég held að það sé vegna þess að margir sem starfa við Wikipedia líta á sig sem "social activists" og líta á Wikipedia starfið sem þjóðfélagshreyfingu og eru miklir baráttumenn fyrir open source og opnum þekkingarkerfum. Ross Mayfield skrifaði ágætan pistil um Wikimania.

Hugmyndin með svona "camp" eða vinnubúðum er að það er engin dagskrá - dagskráin er bara búin til á staðnum eða rétt áður og uppskriftin er: Kallaðu saman stóran hóp snillinga sem hafa margt sameiginlegt, láttu þá tjalda á svæðinu og koma sér fyrir í notalegum fíling og logga sig inn í þráðlaust háhraða netsamband. Sjáðu svo til hvað gerist.... og það virðist margt gerast.

Hugmyndin er að brjóta niður múra milli þeirra sem vita (fyrirlesara/kennara) og þeirra sem hlusta (áheyrendur/nemendur), hugmyndin er að búa til námsumhverfi/námshóp sem stýrir sér sjálfur. Eða eins og segir í leiðbeiningum til þeirra sem fóru á Foo-camp:
"...Breaking the traditional barrier between The Ones Who Know (the presenter/teacher) and The Ones Who Listen (attendees/students) was surprisngly easy to implement... there were NO pre-arranged sessions. There was, however, a giant board that looked like a conference schedule--complete with rooms and times--except the session topics were blank! It was up to the campers to fill them in. A self-organizing learning experience"

Svo hafa komið nokkrar eftirmyndir af foo camp (foo camp er bara fyrir boðsgesti og það þykir merki um að þú sért með þeim færustu í heiminum ef þér er boðið) sem eru með opnari aðgangi fyrir alla. Barcamp http://barcamp.org er fyrir þá sem vinna við að þróa open source kerfi og tæknikerfi ýmis konar og Tag Camp http://tagcamp.org fyrir þá sem spá mikið upp á lýsigögn (metadata, tagging).

Reyndar finnst mér þessi hugmynd CAMP vera ansi svipuð og notuð hefur verið áratugum saman í Roskilde Universitet í Danmörku. Mér virðist flestar svona ráðstefnur tölvunörda í dag vera með myndasafn á flickr.com, hér er myndasafnið um Wikimania, ég á töluvert margar myndir þar.
Blogg og breiðband á Íslandi

Ég vil benda öllum sem hafa einhverjar upplýsingar um íslenska bloggsamfélagið og breiðbandsvæðingu á Íslandi að skrá sínar upplýsingar inn í tvö wiki hjá Socialtext. Það er til sérstakur wiki um evrópska bloggheiminn sem heitir LoicLeMeur Wiki: The European blogosphere , þar hef ég bætt við vefsíðu um blogg á Íslandi. Núna nýlega var stofnaður wiki um breiðbandsvæðingu í heiminum Broadband Planet Wiki og þar hef ég byrjað á vefsíðu um íslenska breiðbandsvæðingu.

Svo vil ég benda öllum sem hafa tekið saman eitthvað fræðandi efni sem þeir vilja að aðrir njóti á að kannski passar það inn í íslenska alfræðiritið http://is.wikipedia.org sem er íslenski hluti af Wikipedia. Hver sem er getur bætt þar við efni.

Svona wikiupplýsingaveitur fara núna eins og eldur í sinu um Netheima og hafa sýnt að þau vinnubrögð að allir geta bætt við og breytt geta alveg virkað vel. Það er líka miklu skynsamlegra að allir leggist á eitt við að lýsa upp heiminn, það sé ekki hlutverk einhverra útvalinna.

Eða eins og þjóðskáldið Jónas orðaði það:

Bera bý
bagga skoplítinn
hvert að húsi heim.
En þaðan koma ljós
hin logaskæru
á altari hins göfga guðs.

Hmm.. ef til vill var Jónas ekki að hugsa um wiki og opensource vinnubrögð þegar hann kvað þetta en hann var það er samt næstum öruggt að hann hafði veraldarvíðnetið í huga þegar hann kastaði fram þessari stöku:

Ég er kominn upp á það
- allra þakka verðast -
að sitja kyrr í sama stað
og samt að vera að ferðast.

13.10.05

Betlarabörn í Barcelona

Á mörgum hornum í miðbænum í Barcelona sitja konur með ungabörn og betla. Hér er vídeóklipp sem ég tók af nokkrum þeirra. Ég er að bera saman tvö verkfæri til að setja vídeóklipp inn á vefinn, annars vegar www.youtube.com og hins vegar www.videoegg.com

Þetta virðast hvorutveggja vera aðgengilega kerfi.




Hér er videoegg









If the video does not display properly
click here to upgrade to Flash 8

12.10.05

Bloggarar, lagið straumana ykkar!

Upp á síðkastið hef ég verið að prófa ýmsa fréttalesara og podcasting verkfæri og ég hef tekið eftir einu, það eru sárafáir bloggarar með straumana sína í lagi. Þetta þýðir að vinir ykkar og kunningjar og allir aðrir sem vilja fylgjast með því lífi sem þið varpið út á bloggsíður eru í stökustu vandræðum, vandræðum sem verða meiri og meiri eftir því sem dagarnir líða og fleiri og fleiri fara að vilja bara fylgjast með netpressunni í gegnum lesarana sína. Það mun með tímanum fækka þeim sem leita uppi vefsíðurnar ykkar, fólk vill að efnið frá ykkur flæði beint inn í fréttalesarana sem það hefur uppsett. Þess vegna er miklu, miklu mikilvægara í dag að vera með strauminn sem maður sendir út í lagi heldur en vera með eitthvað punt og glingur á síðunni.

Það er ekkert þjált íslenskt orð sem ég veit um fyrir svona strauma eða útsendingargeisla (feed, RSS feed eða Atom feed), kannski væri sniðugt að nota orðið geislavarp um þetta, eða eitthvað í sambandi við rásir því að fólk þekkir vel útvarp og útvarpsrásir og skilur hvernig maður tjúnar inn á ákveðna rás - en svona straumar eru fréttayfirlit á stöðluðu formi, stundum ítarleg en stundum bara fyrirsagnir á síðustu bloggum.

Það er mjög einfalt fyrir alla sem eru með blogg á blogspot að hafa þetta í lagi. Það eina sem þarf að gera er að velja SETTINGS og þar undir velja SITE FEED og þar er fyrsta spurningin "Publish Site Feed?" og það á að stilla á YES og vista svo þessar breyttu stillingar.
Ef þetta er gert þá býr blogger sjálfkrafa til straum þannig að bloggarinn anna.blogspot.com er með strauminn anna.blogspot.com/atom.xml og reyndar þarf oftast ekki að vita þetta því næstum allir fréttalesarar eru þannig að það nægir bara að slá inn blogspot slóðina. Þeir sem láta hins vegar blogger blogg vistast annars staðar en á blogger verða að tiltaka í hvaða möppu "sitefeed" á að vistast í (sama og blogger) og verða að tiltaka alveg slóðina inn í fréttalesurum. Helst ættu allir að hafa tengil á síðunni sinni sem vísar beint á strauminn, það auðveldar öllum að gerast áskrifendur.

Wordpress býr líka til rss straum og hnapp fyrir það (ég hef samt þurft að breyta því svolítið á mínu wordpress bloggi)

Þeir sem vilja fara einfalda leið, fatta ekki að breyta stillingum í blogger eða eru ekki eru með kerfi sem búa sjálfkrafa til RSS eða ATOM strauma sem fréttalesarar geta lesið ættu að notfæra sér að það er fullt af kerfum á netinu sem brennir svona strauma fyrir fólk og smíðar svona fréttayfirlit. Það nægir að skrá einu sinni bloggslóð t.d inn í feedburner.com þetta tekur enga stund. Ég spái í hvort það varðar eitthvað við höfundarréttarlög að brenna straum með bloggi annars fólks, hér er t.d. bloggið hjá formanni höfunda http://feeds.feedburner.com/Einkaml sem er víðlesinn (hér í merkingunni lesinn á bloggi af mörgu fólki) en hefur eins og margir bloggarar ekki kveikt á straumnum.

Það fer að líða að því að það verði algengara að fólk fylgist með straumum heldur en fólk leiti uppi fréttamiðlana á Netinu. Bloggveitan hans Bjarna sem margir íslenskir bloggarar eru á er náttúrulega dæmi um það og bloggveitan hans Mikka líka. Ég held samt að það hafi ekki verið mjög margir sem nýttu sér að búa til eigin bloggveitu þó að Bjarni hafi fyrir mörgum árum sett á vefinn leiðbeiningar með því. Það var of tæknilegt og mikið vesen fyrir flesta. En nú eru komin verkfæri sem eru miklu, miklu einfaldari, ég hvet alla til að prófa http://www.netvibes.com það er frábærlega einfalt, bara að skrifa ofan í hvað sem er og hver sem er getur sett upp sína eigin fréttasíðu á netvibes með þeim straumum sem viðkomandi vill fylgjast með og þá er líka hægt að skoða sína síðu á öðrum tölvum. Ég er sérstaklega hrifin af svona vefsíðum, ég held að þetta sé framtíðin, ég hef séð wiki síður sem eru svona, það þarf bara að byrja að skrá og breyta öllu og ekkert pæla í neinu. Önnur svona fréttastaumveita sem ég hvet fólk til að skoða er http://www.rojo.com Ég hef hingað til notað http://www.bloglines.com sem bloggfréttaveitu en mér sýnist þessi kerfi vera einfaldari, sérstaklega netvibes. Það er hægt að finna fullt af fréttalesurum á Netinu, bara slá inn newsreaders, hér er listi yfir fréttalesara sem ganga á Makka

Reyndar er Google með svona lesara í beta útgáfu http://www.google.com/reader en það verður að segjast eins er, það kerfi er ekkert spes núna. Hinir þrír risar Google, Yahoo og Microsoft eru núna í óðaönn að búa til netstaði fyrir sitt fólk - og reyndar líka netstaði sem loka á vissan hátt fólk inn í rýmum sem eru sérstaklega tengd þessum fyrirtækjum. Þetta er uggvænleg þróun en það besta sem getu spornað við henni er samkeppni þessara fyrirtækja, og að það verði mörg stór fyrirtæki sem keppa sín á milli. Annars er líka uggvænleg þessi þróun á Íslandi þar sem bloggin hjá litlu krökkunum og unglingunum á blogcentral.is, folk.is og barnaland.is eru notaðir sem peð í fjölmiðlaslagnum sem núna stendur yfir á Íslandi, klikk á bloggsíður eru mikilvæg til að sýna vinsældir fjömiðlavefja og auglýsa upp ákveðna fjölmiðla.

7.10.05

Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

Þegar ég kom heim til Íslands var nýtt mál bróður míns í algleymingi, mál sem ég vissi ekki að væri til. Það virðast öll spjót standa á honum þessa dagana. Öll blöð og ljósvakamiðlar fjölluðu um að hann hefði verið dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði, fyrir að láta að því liggja að íslenskur athafnamaður hafði komið undir sig fótunum á eiturlyfjasölu. Þetta munu vera ummæli sem sögð voru á fjölmiðlaráðstefnu á Íslandi fyrir nokkrum árum og sem voru á íslenskri heimasíðu. Það mun vera til einhver samþykkt(Lugano samningur) sem Ísland er aðili að, sem kveður á um að dómar sem kveðnir eru upp í einu landi séu aðfararhæfir á Íslandi. Það er raunar eðlilegt í fjölþjóðasamfélagi, viðskiptahagsmunir eru ekki bara bundnir við ákveðið landssvæði. En mér finnst skrýtið og bein og harkaleg aðför að tjáningarfrelsi hér á Íslandi ef breskur dómstóll getur ákveðið hvað má segja á Íslandi.

Geta Íslendingar geta ekki gagnrýnt einhvern sem er atkvæðamikill í íslensku samfélagi og lýst íslenskum veruleika án þess að eiga á hættu að á þá falli dómur í Bretlandi? Ég hef hingað til alltaf haldið að það sem við segjum hérna á Íslandi og á íslenskum vettvangi sé eitthvað sem við þurfum að vera tilbúin til að verja fyrir íslenskum lögum. Ég hef kynnt mér íslensk lög og reyni að passa hvað ég segi miðað við þau. Ég hef engin tök á að kynna mér ensk lög og haga því sem ég segi eftir breskum reglum og ég geri ráð fyrir að það eigi við um velflesta Íslendinga.

Bróðir minn mun hafa látið að því liggja að þekktur og valdamikill íslenskur athafnamaður sem hefur núna dvalarleyfi í London muni hafa auðgast á eiturlyfjasölu. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við dópsalalistann hans Björns, ég sá í fjölmiðlum að nýlega hafa tveir lögreglumenn sem nafngreindir voru á listanum hafið málaferli og krefjast fébóta af Birni. Það mál er rekið á Íslandi. Í báðum þessum tilvikum eru menn ásakaðir um eiturlyfjasölu, menn sem augljóst er að skaðast af því að vera bendlaðir við slíka iðju og í báðum tilvikum eru það gögn á vefsíðu sem er það saknæma - annars vegar gögn á vefsíðu sem er vistuð á Íslandi og hins vegar gögn á vefsíðu sem vistuð er á blogspot.

Þessi mál eru mjög áhugaverð út frá tjáningarfrelsi, hver er lögsaga Internetsins, nær íslensk lögsaga yfir það sem skrifað er á blogspot og nær bresk lögsaga yfir það sem er skrifað í íslenskum vefrýmum? Er alveg sama hvar við vistum gögn okkar og upplýsingar, er hægt að sækja okkur til saka hvar sem er í heiminum? Eða getum við fengið okkur vefsvæði í Malasíu eða einhverju landi sem ekki er aðili að milliríkjasamningum, skráð okkur undir dulnefni og þannig verið hrópendur í útlegð og tjáð okkur hömlulaust um íslenskt samfélag? Það eru reyndar til nokkur íslensk netsamfélög þar sem flestir virðast undir dulnefni og vettvangurinn er vistaður erlendis s.s. malefnin.com og hugsjon.com

Ég get ekki séð að það sé með nokkru móti mögulegt að koma böndum á Internetið og ritstýra orðræðu þar með meiðyrðalöggjöf, það er vissulega hægt að elta uppi þá sem skrifa undir nafni og þá sem skrifa í vefrýmum sem vistuð eru á Íslandi. En ef miklar hömlur og viðurlög eru við að fólk tjái sig undir nafni þá mun sennilega flest svona tjáning fara fram nafnlaus og með hætti þar sem ekki er hægt að rekja.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga. Tjáningarfrelsi er ekki bara að verja rétt þeirra sem eru sammála okkur og tjá sig á þann hátt sem við viljum, tjáningarfrelsið er líka fyrir óvini okkar, óvinsælar skoðanir og upplýsingar og gögn sem okkur finnst að ætti ekki að tjá sig um. Tjáningarfrelsi er líka fyrir rógburð og illmælgi. Fólk verður hins vegar að vera tilbúin til að verja mál sitt og sýna fram á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem það hefur fram að færa og sæta refsiábyrgð ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti eða eru upplýsingar sem ekki má birta t.d. sem varða einkahagi og persónuvernd.

Það er réttlætismál að sem minnstar hömlur séu á tjáningarfrelsi, í mörgum tilvikum er það eina vopn hins smáða og réttlausa að hafa rödd og geta tjáð sig um kúgunina. Þannig er hins vegar að samfélög eru oft skipulögð þannig að eina röddin sem heyrist og bergmálar í samfélaginu eru rödd þeirra sem hafa þegar völd og áhrif - og það eru í gangi alls konar mekanismar til að þagga niður raddir jaðarsettra hópa. Heimspekingurinn Voiltaire sagði :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" og ég vil geta sagt það sama. Það skiptir ekki máli hversu vel okkur geðjast að því sem einhver segir, það mikilvægasta er að það séu sem minnstar hömlur lagðar á tjáningarfrelsi viðkomandi.

Einn liður í kúgun er að maður sé dæmdur eftir leikreglum sem maður þekkir ekki og sem maður hefur enga möguleika á að hafa áhrif á. Við Íslendingar getum fylgst vel með íslenskum lögum og ef okkur finnst þau ósanngjörn þá getum við barist fyrir breytingum á þeim. Við höfum hins vegar enga möguleika á að hafa áhrif á bresk lög og fæst okkar vita einu sinni hvaða lög og reglur gilda í Bretlandi - ég geri ráð fyrir að fæst okkar hafi leitt hugað að því að þau gætu þurft að hlíta dómi í útlöndum yfir það sem við segjum hérna.

Það hvernig við tjáum okkur um íslenskan veruleika er hluti af íslenskri menningu. En hérna er tjáningin oft svo hömlulaus og tillitslaus við menn og málefni að það er þörf á nýjum vinnureglum. Hérlendis eru gífurlega margir sem tjá sig í netrýmum og þeir tjá sig oft alveg eins og þeir væru að tjá sig við vinahóp sinn í einkasamkvæmi. Það hefur komið sumum bloggurum illa að hafa ekki viðhaft nógu mikla varúð í umtali. Í ágúst síðastliðnum missti fjölmiðlamaður á RÚV vinnuna vegna þess að hann fór mjög óvægnum orðum um nafngreinda Íslendinga á bloggsíðu sinni. Það var umræða um þetta mál og bloggfrelsi á málefnavefnum og ég skrifa þar 26. ágúst svohljóðandi hugleiðingu:

".......
Það eru því miður margir Íslendingar sem tjá sig svona á bloggsíðum, sérstaklega er margt ungt fólk sem finnst svona tjáningarmáti bara vera eðlilegur. Ég veit að margt af því fólki er ágætt sem einstaklingar en það kann sér bara ekki hófs í opinberri orðræðu. Það er líka þannig með íslenskt samfélag að til skamms tíma hefur verið hér mjög einleitur hópur Íslendinga sem allir hugsa mjög svipað og við höfum ekki kippt okkur neitt verulega upp við ruddalegt orðfæri, vegna nálægðarinnar þá þekkjum við einstaklingana á bak við og vitum hvaða meining býr að baki. Í öðrum samfélögum þar sem fjölbreytileikinn er meiri og fjöldinn meiri þá hefur þetta aldrei liðist. Það myndi strax vera farið í málaferli ef fólk leyfði sér sumt af því orðfæri sem ég hef séð á íslenskum bloggsíðum.

Ég hef oft óskað þess að einhver sem orðið hefur illa fyrir barðinu á umræðu á bloggsíðum fari í mál og það mál yrði til umræðu í fjölmiðlum, ég held að það væri einn liður í því að bloggarar lærðu mörkin milli þess sem þeir mega segja. Ég er viss um að fólk gætir orða sinna betur ef það kostar það mörg hundruð þúsund að svívirða aðra.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að bróðir minn lagði fram útprent af bloggsíðu í málaferlum sem hann er sakborningur í núna, þ.e. þessu gæsalappamáli. Þar hafði bloggari sem tengdur er fjölskyldu Halldórs Laxness ráðist á bróður minn af fullkominni heift og orðið sjálfum sér til skammar með níðskrifum. Þessi skrif bloggarans lýstu líka djúpstæðum fordómum hans á samkynhneigðu fólki, fordómum sem hann gerði sér ábyggilega ekki grein fyrir sjálfur.

Þessi bloggari er listamaður sem ég dái og ég hef oft gaman af að lesa þetta blogg og skoða verk hans, ekki síst vegna þess að í bæði orðum hans og myndum býr kraftur. Svona svipað eins og í bloggi dr. Gunna sem er geysiskemmtilegur bloggari sem þó á það til að vera óvæginn og kjarnyrtur þegar hann talar um menn og málefni. En mér finnst aðalatriðið að dæma ekki fólk af því sem það gerir verst og hafa hugann við að bloggið og svona tjáning almennings er nýr miðill og það eru einnþá bernskubrek þar, fólk er ekki búið að læra á hvernig að umgangast svona miðla..."

Þegar ég les þetta yfir þá finnst mér lífið skrýtið, ég hef oft óskað þess að einhver hefji málaferli til að lækka rostann í netverjum og kenna þeim mannasiði en svo hefur það gerst að Jón Ólafsson sem er ekki vammlausasti maður Íslandssögunnar (smáníð til að prófa hvað margar milljónir ég þarf að borga fyrir þetta :-) hefur gerst sá krossfari og bróðir minn orðið sá sem var sakborinn.

Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu annarra og reynslu bróður míns og vera viðbúin því við verðum sótt til saka bæði fyrir að tala ógætilega um menn og málefni og fyrir brot á höfundarrétti. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt í þeim miklu hræringum sem eru í samskiptamunstri okkar þegar við hringsnúumst inn í netsamfélagið - þær venjur og þau lög og þær reglur sem gilda um orðræðu og hver má tala og hvenær og hvernig og hver á orð og hugsanir og hver má nota orð og hugsanir og hin hefðbundnu lög um tjáningarfrelsi og eignarrétt á hugverkum eru engan veginn í takt við hin nýja netsamfélag.

Ég geri ráð fyrir að bróðir minn hafi vel verið meðvitaður um áhættu á málaferlum sem hann tók með þessari orðræðu en hafi búist við því að það yrði málaferli á Íslandi miðað við þá mildu meiðyrðalöggjöf og refsingar sem hér tíðast. Það hefði líka verið líklegt að það neikvæða kastljós sem myndi þá beinast að Jóni Ólafssyni þar sem fortíð hans yrði gerð tortryggileg yrði til að málaferlin sköðuðu Jón mest sjálfan. Sumir bloggarar tala á mjög rætinn hátt um þekkta einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst stjórnmálamenn, eiginlega stundum í ofurdrambi þeirra sem halda að þeir séu óhultir vegna þess að stjórnmálamenn eða fyrirtæki sem þurfa að varðveita ímynd vilja með engu móti vera í umræðunni baðaðir í neikvæðu ljósi, skotspænir gróusagna og niðrandi kjaftasagna.

Bróðir minn vera á góðri leið með að verða píslarvottur og ég vona að hann haldi uppi öflugri málsvörn, ég vona að á orðræða á Íslandi verði í framtíðinni þannig að hann og aðrir Íslendingar geti gagnrýnt miskunnarlaust þá sem með völdin fara - hvort sem það eru fjármálaleg eða stjórnmálaleg völd - og að allir Íslendingar hafi aðgang að upplýsingum og gögnum en þau séu ekki lokuð inn fyrir útvalda og ég vona að einhvern tíma komi skilningur á því að við erum að fara inn í remix tíma þar sem ekkert er að því að endurnýta og endurvinna upp úr verkum annarra.

Mér finnst þær sakir sem á hann hafa verið bornar í tveimur óskyldum málaferlum vera öðrum þræði spurning um hver má lýsa íslenskum veruleika og hver má skrá íslenska sögu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á verk hans eða hann verði að standa fyrir máli sínu en sú aðför sem er að honum núna er svo heiftúðug að það nálgast vitfirringu.

4.10.05

Á ströndinni
xIMG_0009
Ég fer til Íslands á morgun og nú er ég í tvö daga á öðrum stað í Barcelona, ég er gisti í Residencia Campus del Mar, það er alveg niður við sjóinn í Barceloneta. Mjög þægilegt gistiheimili, það fylgir eldhúsaðstaða með herberginu og það er hægt að tengjast internetinu. Reyndar ömurlega hæg Internettenging. Það er allt öðru vísi andrúmsloft hérna, allir bara að ganga um og njóta lífsins, það er sól og blíða þó það sé komið fram í október. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á ströndina hér í Barcelona í þessari ferð, ég sat lengi í dag í svona strandstól eins og sést á myndinni, mjög fallegir steyptir stólar sem snúa að sjónum, og hlustaði allan tímann á lífið er ljúft geisladiskinn með Bubba, sérstaklega lögin sem aldrei fyrr, öldueðli og afkvæmi hugsana minna. Yfirleitt leiðist mér að sitja svona í sól og aðhafast ekkert en eftir ipod/itunes væðingu þá hefur það breyst. Ég er búin að hlaða helling af spænskum lögum inn í itunes, finna textana og setja þá inn líka, ég ætla að prófa hvort það er ekki góð leið til að læra spænsku. Reyndar er svolítið takmarkað orðalag í spænskum lögunum, virðist allt ganga út á "dolor" og "corizon" og trega og söknuð og brostin hjörtu. Gott að orðaforðinn sé svona takmarkaður en soldið dapurt að hlusta of mikið á alla þessa kvöl. En þarna á ströndinni í dag þá var ekki spænska kvölin heldu Bubbi sem passaði best við stemminguna, mér finnst hann líka stórbrotinn listamaður.