31.12.03

Hugleiðing um árið 2003


Árið sem Kristín Helga fermdist fór Magnús í hermennsku til Afganistan, hann var þýskri herdeild þar og líf hans frá morgni til kvölds snerist um hermennsku og heraga. Ég var á klakanum og tók þátt í stofnun Femínistafélags Íslands, gerðist ein af ráðskonum félagsins og tók að mér það sem sneri að vef og Interneti í félaginu. Það hefur verið mikil vinna hjá mér að sjá um póstlistann, fréttabréfið, vefinn feministinn.is og femínistaspjalli? en að auki hefur verið mikið starf tengt ýmsum viðburðum. Femínistafélagið var stofnað í mars og framhaldsstofnfundur var í apríl, við komum fyrst fram á 1. maí göngunni og 19. júnímáluðum við bæinn bleikan. Í lok október héldum við femínistaviku. Síðastliðið vor var brjáluð umræða ? á femínistapóstlistanum og á ýmsum vefsvæðum. Bæði voru þetta árásir á femínista og svo umræða um ýmis femínísk mál s.s. vændi og kynjaímyndir í auglýsingum. Þar sem þetta var kosningaár var tap kvenna á Íslandi í kosningum og ósýnileiki og valdalelysi kvenna í stjórnmálum og fjölmiðlum mér mjög hugleikin og tjáði ég mig um það á ýmsum vefmiðlum.

Ég var meira í fjölmiðlum (þ.e.öðrum en Netinu) þetta ár en áður, ég kom í viðtal um blogg í Morgunblaðinu í Fréttablaðinu. fór í nokkur útvarpsviðtöl t.d. í Víðsjá hjá Ægi, ég mætti í Laufskálann hja Sigríði 19. júní, í Hrafnaþing og fékk hin rómuðu vefverðlaun Gneistans.

Annars var umræðan á Netinu afar illskeytt á köflum og ég varð persónulega fyrir töluverðu aðkasti. Ég hef ekki ennþá skilið hvers vegna hófstillt og málefnaleg umræða mín og annarra femínista gat vakið svona heiftarleg viðbrögð. En heiftarleg viðbrögð eru kannski betra en þöggun, þau eru merki um árangur amk að umræðan hafi hreyft við fólki. En mér fannst óþægilegt þegar ég fann að fólk hundelti mig á Netinu og reyndi að koma höggi á mig persónulega. Það voru mörg dæmi um það á árinu og tók ég það alltaf nærri mér. Ég hugleiddi að hætta að tjá mig á Netinu eða að hætta að skrifa á íslensku um íslenskan veruleika. Eitt versta dæmið um það var að í einu tilviki var farið vandlega yfir allt sem ég hafði skrifað inn á málefnin. com til að geta fundið eitthvað á mig til að koma á mig höggi. Það tókst að því leyti að ég hafði mikinn ama af þessu og það rændi mig löngun til að starfa að ákveðnu verkefni. Eiginlega finnst mér þyngstu höggin vera sem maður fær af fólki sem rænir mann gleði, bjartsýni eða trú. Ég er ein af fáum sem tjái mig undir nafni á þeim málefnavefnum... Ég var í þessu tilviki að tjá mig um tjáningarfrelsi, var að verja tjáningarfrelsi eins og ég hef alltaf gert og ekki síst tjáningarfrelsi þeirra sem eru mér ekki sammála og sem hafa skoðanir sem ég hef viðbjóð á. Þessi tjáning mín um tjáningarfrelsi annarra varðaði krossfestingaratriðið Gaypride, fyrir mér snýst málið um samkynhneigð, trú og tjáningarfrelsi - um umburðarlyndi fyrir lífsstíl og lífsviðhorfum annarra, um rétt fólk til að tjá sig og um þá ábyrgð sem fylgir tjáningu sem er særandi fyrir aðra hópa en maður tilheyrir sjálfur. Annars birtist krossfestingarmyndin mín í Fréttablaðinu en ljósmyndir sem ég tók á árinu birtust á hinum ýmsu fjölmiðlum og tímaritum , s.s. tímaritinu Veru, Morgunblaðinu og svo margar á vefsíðu Femínistafélagsins.

Ferðir:
Innanlands: Fór í nokkrar ferðir í Skagafjörð og Borgarfjörð. Í fyrstu reisunni fór ég með frænku minni og vinkonu á ættarslóðir í Húnaþingi og Skagafirði, og reisti þar minnisvarða um óþekktu systurina,ég fór í sjötugsafmæli Kristínar á Vöglumí byrjun ágúst og brúkaup Önnu og Sindra í september.

Ég fór þrisvar erlendis á árinu, í apríl til Joensuu i Finnlandi sem er miðja Karelia svæðisins.
Fór í júní til Kaupmannahafnar með Kristínu Helgu í menningarferð m.a. í Lousiana listasafnið, Rungstedlund, Ég veiktist alvarlega og ber ennþá ör sem aldrei hverfa. Ég fór út í nóvember til Lulea í Norður Svíþjóð.

Þetta ár einkenndist af tvennu - femínisma og hermennsku, Ég á kafi í mannréttindabaráttu femínista og Magnús við friðargæslu í Afganistan. Þetta var viðburðaríkt ár en ekki hamingjusamt. Sú tilfinning sem ég hef eftir þetta ár er kannski hægt að lýsa með einkennilegu atviki sem kom fyrir um það leyti sem Íraksstríðinu lauk. Síðdegis á föstudegi var ég á leiðinni heim, akandi niður að sjó eftir Kringlumýrarbrautinni, var að velta fyrir mér að fara á friðarfund kvenna á Arnarhóli en var ekki viss um að fundurinn yrði, kannski hafði honum verið aflýst úr því stríðið væri búið. En allt í einu fékk ég blóðnasir, ég fékk blóðnasir úr báðum nösum, ekki smávegis heldur fossandi blóðnasir og ég varð hrædd og ég réð ekkert við blæðinguna - satt að segja hélt ég að mér væri að blæða út og ég ákvað að ekki heim heldur á læknamiðstöðina í Lágmúla. Þar var ég skráð inn og var flutt á sjúkrabíll upp á slysavarðstofu, man að það var starfsmaður í sjúkrabílnum að spyrja mig spurninga, hann var að fylla út einhverja skýrslu og ég skildi ekki hvernig hann ætlaðist til að ég gæti talað með munninn fullan af blóði. Eftir einhverjar klukkustundir á slysavarðstofunni þá stöðvaðist blæðingin og það var framkvæmd einhver aðgerð. Ég fór heim með einhvers konar kemísk brunasár í andliti.

24.12.03

Jólaguðspjallið og indversk mannfjöldastatistik


Gleðileg jól til allra! Ég er að komast í hátíðarskap, búið að renna yfir jólaguðspjallið og vona að ég eigi eftir að hlusta á það líka í útvarpi eða sjónvarpi aftur í kvöld. Æ... sakna svolítið bernskujólanna þegar jólin komu bara með einhverri klukknahringingu og útvarpsmessu, alltaf á sama tíma og það hefðu verið helgispjöll ef allir hefðu ekki verið komnir í spariföt, allt glansandi hreint og allir við hátíðarborð nákvæmlega þegar útvarpið hringdi inn jólin. Breytti aðeins nethegðun minni í gær og dag í tilefni hátíðarinnar, hef ekkert verið að fletta upp á helförinni og stríði og raðmorðingjum og lýsingum á glæpum þeirra heldur verið mest að grúska í trúarlegum fróðleik á Netinu. Ekki bara kristninni trú. Reyndar hef ég heillast sérstaklega mikið af hindúasið, aðallega út af helgimyndunum held ég. Jú, kannski líka út af því að ég hef verið að pæla í mismunandi guðshugmyndum - eingyðistrú og svo trú á marga guði. Mér finnst þessi guðshugmynd á einn alvaldan guð sem hefur alla þræði í hendi sér og eigi að ráða öllu því hann einn viti hvað er best fyrir okkur - vera álíka gáfuleg eins og að trúa á miðstýrt ráðstjórnarríki. En ég afvegaleiddist þegar ég var að skoða alla guði Hindúa og fór að skoða mannfjöldatölur frá ýmsum héruðum í Indlandi.

Ég hef alltaf verið svo veik fyrir mannfjöldastatistik og tilburðum ríkisvaldsins til að safna upplýsingum um þegnana og það er líka svo jólaguðspjallslegt... byrjar ekki sjálft jólaguðspjallið á þessu "....En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina...." Jósep og María voru einmitt í svona skráningarferð þegar Jesú fæddist. En mannfjöldatölurnar frá Indlandi eru skrýtnar, þær sýna að það vantar meira en 20 milljón konur. Sumar voru deyddar í móðurkviði, sumar seinna.

19.12.03

Maður kemst bara í jólastuð með að sjá allan þann varning sem fólk býður fram á netinu. Skyldu þessir bolir verða vinsælir í ár svona er framhliðin og svona bakhliðin

18.12.03

Bylgjan fjallar um ásakanir mínar um ritstuld


Eftir að ég setti upp vefsíðu í gær þar sem ég rakti hvernig vefsetrið www.jol.is stundar blygðunarlausan ritstuld þá hringdi Júlíus á Dalvík í mig, hann sér um Jólavef Júlla og hann sagði farir sínar ekki sléttar varðandi www.jol.is. Júlíus sagðist í fyrra hafa orðið þess áskynja að gríðarlega mikið efni af hans jólavef, m.a. efni sem hann hafði samið eða frásagnir annarra sem hann hafði fengið leyfi til að setja á Jólavef Júlla - allt þetta efni amk 25 sögur hafði verið afritað og sett upp á www.jol.is og það án þess að geta hvaðað það er tekið og huga að höfundarrétt. Einnig virðist stór hluti af efninu á www.jol.is hafa verið afritað af Jólavef Ríkisútvarpsins. Júlíus sagðist hafa margoft gert athugasemdir við meðferð hjá www.jol.is á efninu og átt í miklu stappi við þá aðila. Þetta er ótrúlega svívirðileg framkoma, aðilar sem standa að þessum vef fara eins og engisprettufaraldur yfir vefsvæðin og éta allt í kópí-paste æði og þetta virðist vera gert í auðgunartilgangi, þarna er hugverkum annarra stolið í þeim tilgangi að lokka fólk inn á vefsvæði sem selur ýmis konar jólaglingur. Núna hefur hluti af efninu sem ég benti á að þeir hefðu afritað frá mér. En skömm þeirra verður meiri og meiri þvi það seinasta er að ljúga því upp að það hafi verið haft samband við mig í síma í fyrra og fengið leyfi fyrir þessari birtingu.

Það hringdi í mig útvarpsmaður frá Bylgjunni áðan, Hann var búinn að tala við Jón Gunnar hjá www.jol.is og vildi núna tala við mig. Mér skilst hann ætli að tala um þetta í hádegisfréttum á Bylgjunni í dag. (hægt að hlusta í beinni á www.bylgjan.is).

Hann hafði eftir Jóni Gunnari hjá www.jol.is að Jón Gunnar hefði sagt að hann hefði hringt í mig fyrir jólin í fyrra og fengið leyfi til að birta þetta. Það er í besta falli misminni hjá þessum Jóni Gunnari en í versta falli svívirðileg lygi og yfirklór. Ég myndi muna það ágætlega ef hann hefði haft samband við mig og ég hefði ALDREI, ALDREI gefið leyfi fyrir þessari meðferð á mínu efni.

En það fór eins og svo oft þegar maður vekur athygli á einhverju hróplega röngu - maður er sjálfur á einhvern undraverðan hátt gerður að sakborningi. Stór hluti af þessu símtali snerist um hvort ég væri ekki að brjóta höfundarréttarlög með að hafa sett ljóðlínur eftir Jón úr Vör inn á bloggsíðu mína í gær.

Ég skrifaði pistil um Patreksfjörð og ljóðabókina Þorpið eftir Jón úr Vör sem einmitt er frá Patreksfirði. Ég var spurð að því hvort ég væri ekki að brjóta höfundarréttarlög með að fara með þessar ljóðlínur. Til að taka af allan vafa þá hafði ég samband áðan við Bryndísi Kristjánsdóttur ekkju Jóns úr Vör og fékk leyfi hjá henni til að birta þetta á bloggsíðu minni. En mér sýnist að núna sé líklegt að ég verði sjálf hundelt út af höfundarréttarmálum. Það er örugglega hægt að finna dæmi um að ég hafi sjálf brotið höfundarrétt eða vísað rangt í heimildir en ég held því fram að ég reyni eins og ég get að vanda það sem ég set á Netið og virða hugverk annarra. Það gera ekki aðstandendur vefsins www.jol.is

17.12.03

Ritstuldur á www.jol.is



Þeir ættu að skammast sín þeir sem eru með vefsetrið jol.is. Þeir hafa stolið fullt af efni af jólavefnum mínum, þar á meðal nokkrum köflum sem eru algjörlega frumsamdir af mér og þar sem fram kemur efni sem enginn hefur safnað saman annar en ég. Þeir svara bara með skætingi ef haft er samband við þá og þeim bent á höfundarréttarbrotin. Ég veit ekki hvað á að gera í svona málum, ég hafði samband við Hagþenki, félag fræðirita og kennslugagnahöfunda en sá sem svaraði mér í síma gerði ekki ráð fyrir að félagið kæmi að öðru en að senda bréf og biðja viðkomandi að taka út efnið.
Ég hef sett upp vefsíðu um málavöxtu.

En hér eru almennar hugleiðingar um höfundarrétt í framhaldi af þessu:

Það virðast margir halda að þeir geti farið ránshendi um allt efni sem er á vef og gert að sínu og notað í sínum verkefnum. Ég hef sett afar mikið af frumsömdu efni á vefsíður undanfarin ár og það gleður mig auðvitað að fólk noti það efni og þá vinnu og þær hugmyndir sem þar birtast og vitni í það. Það gleður mig hins vegar mismikið þegar fólk tekur efni sem ég hef lagt mikla vinnu í og gerir að hluta af sínum hugverkum án þess að geta höfunda eða þeirra upphafshugmynda sem verk þeirra eru sprottið úr. Í sumum tilvikum er þetta frekar lítilfjörlegt, samantektir eða hugmyndir frá mér eru notaðar af öðrum sem hafa það göfuga markmið að fræða aðra og er þá jafnan gleði mín yfir að fólk vilji nota mitt efni og mínar hugmyndir miklu yfirsterkari pirringi yfir að upphaflegt verk mitt sé gert ósýnilegt.

Ég vil nefna tvö nýleg dæmi þar sem mér finnst farið langt yfir strikið. Fyrra dæmið er að ég fór nýlega á alþjóðlega ráðstefnu og hafði ég áður verið beðin um myndir til að nota í einhvers konar inngangs powerpoint kynningu fyrir ráðstefnuna. Sem ég gerði fúslega. En þegar ég skráði mig á ráðstefnuna þá fékk ég og allir sem voru á ráðstefnunni vandaðan litprentaðan ráðstefnubækling og stórt plakat. Forsíða og baksíða bæklingsins og allar myndir á plakatinu voru fjölmargar ljósmyndir sem ég hef tekið, unnið og sett á vef. Ég var aldrei beðin um leyfi fyrir þessari myndnotkun og nafn míns var ekki getið. Hins vegar var getið um hver hefði hannað bæklinginn. Einnig sá ég heila opnu í háskólatímariti þar sem þessi ráðstefna var kynnt og voru þar einnig notaðar nokkrar af mínum myndum. Allar þessar myndir virðast bara hafa verið teknar beint af vefsvæðum mínum. Ég segi þessa sögu hérna vegna þess að ég veit að allir sem unnu að þessari ráðstefnu koma úr háskólaumhverfi þar sem gífurleg áhersla er lögð á vandaða notkun heimilda og siðfræði. Það virðist hins vegar alls ekki vera skilningur á hugverkum annarra ef þau eru efni á vef eða á öðru formi en texti í bók.

Annað nærtækt dæmi er grófur ritstuldur sem núna er á mínu efni á vefsetrinu www.jol.is. Í stuttu máli er það þannig að söluvefurinn www.jol.is tók marga kafla af efni af jólavefnum mínum http://jol.ismennt.is og birtir í algjöru óleyfi og án þess að geta höfundar eða uppruna efnisins. Þetta er brot á mörgum ákvæðum í höfundarréttarlögum og algjört siðleysi.Sjá nánar á vefsíðu um málið


Aðstandendum vefsins www.jol.is var bent á þetta mál þannig að þeir geta ekki borið fyrir sig að þekkja ekki lög og reglur eða hafa gert þetta í athugunarleysi. Þeir svara ábendingum af fullkomnum hroka og hafa ekki fjarlægt efnið. Hér er tilvitnun í svarbréf frá þeim eftir að þeim var bent á að þeir afrituðu efni í heimildarleysi:

"Mikið af því efni sem er á jól.is er sótt á aðra vefi og ef það hefur verið efni merkt höfundum þá er þeirra getið. Ef Salvör væri höfundur laufabrauðsins er sjálfsagt að geta hennar þar, og það sama um þann sem er höfundur að grjónagrautnum."

Það er ljóst að í nánustu framtíð þarf einhverjar breytingar á höfundarréttarlögum og einhverjar skýrar reglur um hvernig nota megi hugverk annarra, ekki síst hugverk sem birtast á formi sem er ekki hefð fyrir (t.d. efni á vef). Það íslenska fræðsluefni sem nú er á vef er sett þar að mestu leyti í hugsjónastarfi einstakra manna sem vilja að aðrir njóti efnis sem þeir hafa lagt vinnu í að taka saman eða koma á vefform. Internetið gegnir sama hlutverki varðandi alþýðufræðslu hjá okkur eins og almenningsbókasöfnin. Það er mikilvægt að stuðla að því að sem mest efni komi á vef og að þar komi líka efni sem aðrir mega nota áfram og jafnvel breyta. En það táknar ekki það sama og ritstuldur eða að nöfn þeirra sem hafa þróað upphaflegu einingar verksins séu þurrkaðar vísvitandi út.

Það þarf einhvers konar "open source" hugsun í framsetningu á fræðsluefni á vef og reyndar almennt um upplýsingatækni í skólastarfi það þarf einhvers konar kerfi til að deila hugverkum, svona eins og http://creativecommons.org

15.12.03

Þorpið



Það eru meira en fimmtíu ár síðan ljóðabókin Þorpið eftir Jón úr Vör kom út. Þorpið er Patreksfjörður og ljóðin eru um fátækt fólk í sjávarþorpi snemma á síðustu öld. Jón lýsir fólkinu í þorpinu og lífi þess, mörg ljóðin eru eins og minningabrot. Hann yrkir um systkini sín og föður sinn:

Faðir minn hefur setið í fimmtíu ár
við skóaraborðið sitt og sólað fyrir þorpið,

frá þeirri tíð er bæði hans börn og annarra gengu á
roðskóm, sem brunnu í sundur í sjávarseltunni,
og fram á þennan dag.

Og hendur föður míns urðu svo svartar og harðar,
að hann varð að hafa þær í vösunum,
þegar hann fór til kirkju með konu sína og barnaskara.

Hann þekkir alla skó þorpsins
og veit hvernig það treður.


Ég held að Jón segi í einhverju ljóðinu að enginn geti flúið sinn fæðingarhrepp og hann segir frá móður sinni sem fylgir honum áleiðis út í heim og þorpinu sem býr alltaf innra með manni:

Enginn slítur þau bönd,
sem hann er bundinn átthögum sínum.

Móðir þín

fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í

heiminn

en þorpið fer með þér alla leið.


Það er sennilega enginn skóari á Patreksfirði núna og fólk flytur núna úr þorpinu af öðrum orsökum en fólkið sem flosnaði upp í ljóðum Jóns og fátæktin er öðruvísi. Kannski er ekki lengur efnahagsleg fátækt, frekar fátækt sem er fólgin aðstöðumuni... að vera afskekkt þorp í byggðalagi sem er að fara í eyði... að hafa ekki von um framtíð...

Stöku sinnum berast fréttir frá Patreksfirði. Oft eru það ekki góðar fréttir. Núna síðast voru það fréttir af grun um kynferðisafbrot gagnvart börnum og birti DV ítarlega umfjöllun og mynd af hinum grunaða og frásögn að því hvernig staðið var að handtökunni, sjá umræður á press.is. Ég veit ekki hvort myndbirting skiptir svo miklu máli, ég held að allir Patreksfirðingar hafi vitað strax hver sakborningur var og líklegt að frétt um hver maðurinn væri og fleiri upplýsingar hafi fljótlega verið á ýmsum vefsíðum. Kannski er bara betra að bakgrunnsupplýsingar komi fram í opinberum fjölmiðli, það er auðveldara að leiðrétta þar rangar upplýsingar heldur en ef rógur og slúður færi eftir óformlegri leiðum. Fréttaflutningurinn í DV sló mig samt. Ekki orð blaðsins sem mér fannst ekki vega af æru þess sem er núna handtekinn, heldur fannst mér einstaklega ómanneskjulega og níðingslega staðið að handtökunni og mér fannst agalegt þegar vitnað var í bæjarstjórann í þorpinu sem talaði mest um áfallahjálp sem börnin í skólanum þyrftu að fá og um hvað það væri mikið áfall að þorpið væri í umræðunni út af svona atburði.... Ég skil þetta ekki, var aðaláfallið fjölmiðlaumfjöllunin? Varð glæpurinn til þegar talað var um hann í fjölmiðlum?

Ég held að við því verði ekki spornað að fjölmiðlar komi með svo nærgöngula umfjöllun og DV. Það er eðli nútímans og það er hér frjáls fjölmiðlun og það verður varla sagt að löggæsluyfirvöld á Patreksfirði séu að halda málinu leyndu, þeir handtóku manninn í þrítugsafmæli eiginkonu sinnar og það kemur fram í fréttum að múgur og margmenni úr rannsóknarlögreglunni hafi verið að störfum á Patreksfirði til að upplýsa málið. Vonandi gerist það sem fyrst að réttað verður í þessu máli og þá fyrst verður einhver dæmdur sekur eða saklaus.

Ég held að það sé miklu nær að beina orkunni að því að upplýsa fólk um að ákæra er ekki jafnt og sök og að maður sem er ákærður um eitthvað er ekki endilega sekur, við höfum dómara og málaflutningsmenn til að finna út úr því. Og það allra mikilvægasta er að beina fólki að því að velta sér ekki upp úr ógæfu annarra og niðurlægingu - í gær var Saddam handtekinn og ég hef sá á ótal breiðbandsstöðvum sömu niðurlægjandi senuna af handtöku hans - lúsaleit og svokallaða læknisskoðun. Samt er þetta brot á alþjóðasamþykktum um meðferð fanga, þeir eiga ekki að vera til sýnis á niðurlægjandi hátt. Ég heyrði líka marga ágæta menn íslenska tala af lítilsvirðingu um manninn sem hefur verið handtekinn, ég heyrði forsætisráðherra tala um kallinn í holunni, ég heyrði Jón Orm tala og ég las blogg Hr. Muzak um málið:"..... Sitjandi á botni þriggja metra djúprar holu, skítugur og skeggjaður, auðmjúkur og aumingjalegur með 750.000 dollara í ferðatösku... Hversu lágt leggjast menn? Hversu aumingjalega er hægt að enda feril sinn sem harðstjóri? Hann gat ekki einu sinni sýnt þann dug að skjóta sig í hausinn..."

Þarna er verið að tala um beygðan mann sem hefur þolað mikið mótlæti undanfarið, synir hans hafa verið drepnir og hann hefur ennþá ekki verið dæmdur. Ég held ekki að Saddam sé góður maður og hann lét fremja voðaverk í stjórnartíð sinni en ég held að við séum ekki á réttri braut ef við látum blindast af hefndarþorsta og múgæsingu. Það var vestrænum fjölmiðlum til skammar hvernig fréttaflutningur var af handtöku Saddams og það var til skammar þessi líksýning af sonum hans á sínum tíma. Herra Muzak skrifar nokkrum dögum áður í bloggið sitt undir yfirskriftinni Verðug áminning þar sem hann vitnað í óhappasöguna hans Togga. Sú frásögn lætur engan ósnortinn og látum frásögn Togga verða verðuga áminningu - ekki bara um eitthvað sem gerðist í fortíðinni - heldur um að réttlát og manneskjuleg umfjöllun á líka að vera um allt fólk sem er handsamað fyrir glæpi. Jafnvel þó okkur finnist þeir glæpir viðurstyggilegir og við teljum að viðkomandi sé hættulegur. Fólk telst líka saklaust þangað til það hefur verið dæmt af dómstólum. En fólk sem hefur verið dæmt fyrir glæpi og afplánað refsingu sína á heldur ekki að sæta eilífri útskúfun. Ég ætla ekki að verja umfjöllun DV en að sumu leyti þá finnst mér þessi nærgöngula umfjöllun varpa betra ljósi á málin og að stundum vera manneskjulegri. Mér fannst átakanleg örstutt frásögn í DV af vitorðsmanni í vopnuðu ráni í Bónus, ungum pilti sem reyndi að fyrirfara sér eftir ránið. Mér fannst maður átta sig betur á hvernig sá sem fremur glæp eða er ásakaður um glæp er ekki bara einhver ófreskja heldur líka venjulegur maður í venjulegri fjölskyldu og það er ekki bara sá sem fremur glæpinn sem líður.

12.12.03

Grýluannáll 2003


Er búin að uppfæra jólavefinn minn fyrir árið 2003. Samdi líka Grýluannál ársins, kannski bæti ég einhverju við ef ég finn meira efni eða hef tíma. Í dag er líka árlegur Grýludagur og ég er á leiðinni í jólahangikjöt.

10.12.03

Tæki til að afrita heiminn


Var að róta í draslinu heima hjá mér í dag. Er búin að gefast upp við að kalla slíka iðju tiltekt... en þetta alla vega byrjaði með þannig ásetningi. Eins og venjulega fann ég fullt af áhugaverðu dóti sem ég fór að spá í .... val alveg búin að gleyma sumum af þessum vélum og tækjum sem ég hef fengið mér og nota aldrei. Reyndi aðeins aftur við þetta digital hljóðupptökutæki sem ég hef aldrei fengið til að virka. Mundi svo eftir að ég á tvo skanna sem ég hef aldrei notað... Þetta er undarlegt... er þetta ekki einhvers konar árátta?? ... að vera alltaf að reyna að afrita heiminn og sanka að sér tækjum til þess. Trúa á tæknina og halda að hún muni virka... en hún virkar bara ekki...

Saumavél


Á enga. En þetta hefur gerst í tæknimálum undanfarið. Ég fór fyrir nokkrum dögum á örnámskeið í notkun prentara-ljósritunarvélar sem er komin í Kennó, svakasniðug græja, prentar bæklinga út beint úr tölvu, prentar báðum megin og heftir líka. Uppgötvaði að ég hef ekki dreift neinu efni á pappír í kennslunni þetta misseri og prenta sjálf voða lítið út. Er búin að vera að föndra og gera tilraunir með alls konar bæklinga síðan á námskeiðinu. Stefni á kombakk í pappír á næsta ári.

Keypti mér nýjan GSM síma í fyrradag, féll fyrir vodafone jólatilboðinu, þessi nýji er með vasaljósi, útvarpi, myndavél og litaskjá og svo fylgdi með eitthvað föndurkitt til að breyta um útlit. Alls konar nýjir fídusar. Þetta er GSM sími númer þrjú í minni eigu.

En mig langar í saumavél. Mér finnst saumavélaspor og útsaumsspor flott - sérstaklega ef það er eins og einhver slóð eða leið og er ekki beint.... Mig langar að prófa að sauma í pappír... sauma bækur...

3.12.03

Ég og hin hundrað skáldin


Það er dáldið góð tilfinning að eiga sitt ritverk í jólabókaflóðinu. Ég er þegar búin að fara í tvö útgáfuteiti út af jólabókum af því ég þekki höfundana vel og það voru sko engin smáverk þar - ég fór til Emblu og Ingós höfunda Blóðregns sem er teiknimyndasaga byggð á Njálu og ég fór líka í boð daginn sem fyrsta bók bróður míns um skáldjöfurinn mikla kom út. Hvort tveggja er þetta byrjanir á miklum sagnaflokkum - nýr kveðandi og ný sjónarhorn um það íslenskast af öllu - um Njálu og Nóbelskáldið. Óska þessum höfundum til hamingju með ritverkin og megi hróður þeirra vaxa með hverju riti!

Verst að ég missti af mínu eigin útgáfuteiti. Hmmm.... kannski var ég ekki boðin?? En ég sé mér til mikillar gleði að búið er að gefa út ljóðabókina Hundrað og 1 ljóð og það var haldið útgáfusamkvæmi 27. nóvember. Ég er ansi stolt að eiga eitt ljóð í þeirri bók og hér eftir fer ég fram á að fólk tali um mig sem Skáldið. Það hefur aldrei verið sett samasem merki milli magns og gæða í ljóðagerð og maður getur alveg verið skáld þó eftir mann hafi bara birst á prenti eitt ljóð.

Svo er þetta eina prentaða ljóð mitt líka galdraljóð. Alla vega fyrir mig. Það breytir um merkingu með aldrinum... eða kannski var merkingin alltaf þarna... kannski var einhver fyrirboði í ljóðinu. En þetta ljóð er nokkurra ára gamalt, það var fyrsta ljóðið sem ég skilaði inn í fyrsta tímanum á ritlistarnámskeiði hjá Nirði P. Njarðvík. Ég man að hann var ósáttur við orðalagið "tifaði á strengjasteypunni" en ég hef ekki fengið mig til að taka það út. Því ef það orðalag er ekki þá skynja ég ekki tímasprengjuna í ljóðinu. Það er mikilvægt... ég sá alltaf fyrir mér tikkandi tímasprengju í þessu ljóði. Þetta ljóð er með alvöru fyrirmynd. Það er á yfirborðinu um strák sem ég frétti af upp í Flétturima sem kveikti í öllu sem hann náði í. Það er líka um Rimahverfið sem á þeim tíma var kallað Rimlahverfið og stöðvaðist snögglega í byggingu þegar góðærið stöðvaðist og hálfbyggðar blokkirnar stóðu auðar árum saman og byrjuðu að líktust rústum en höfðu samt aldrei verið hýbýli mannanna. Einu blokkirnar sem voru kláraðar á tímabili voru félagslegt húsnæði og þeir sem bjuggu þarna milli nýbyggingarrústanna voru mestmegnis fátækt fólk sem bjó þarna af neyð af því það gat ekki fengið húsnæði annars staðar.

Það er í ljóðinu vísun í ljóð Davíðs Stefánssonar um konuna sem kyndi ofninn hans.
Ég birti þetta ljóð aftur 1. maí. Þá breyttist það í baráttuljóð og ljóð um kvenfrelsi.

28.11.03

Hvíta gullið


Ég hef bara farið á einn stað í Mexíkó. Það er í landamæraborgina Ciudad Juarez og þar var ég bara í tvo daga. Ég hefði viljað vera þar lengur og rölta um hlíðar sem einu sinni voru beitarlönd fyrir stórar nautgripahjarðir. Hlíðar sem voru þaktar kofum og hreysum, þetta voru íbúahverfi í þessari borg en þarna var ekkert rafmagn og ekkert vatn, ég held að vatnið hafi komið í vatnsbílum. Vegarslóðar liðuðust um hlíðarnar eins og kimar í völundarhúsi, það voru engar vegamerkingar, engin merki um áhrif frá miðstýrðu borgarskipulagi, þessi byggð virtist reist utan við lög og rétt.

Ég hef oft komið í slömm í erlendum borgum þó sjaldan hafi þau verið fátæklegri. En þetta hverfi hreif mig - mér fannst hreysin vera dulbúnar hallir og það var eitthvað við landslagið - andstæður og fegurð - það var útsýni yfir Rio Grande ána og og yfir í Texas þar sem stjarnan stóra blikar öll kvöld. Þessi stjarna hefur logað frá 1940 og þekur heila fjallshlíð, hún var fyrst vörumerki rafveitunnar í El Placo en er núna orðið tákn borgarinnar og síðustu árin hefur hún blikað á hverju kvöldi, ekki bara um jólaleytið. En séð frá fátækrabyggðum í hlíðum Ciudad Juarez er stjarnan vonarstjarna. Eða villuljós.

Sitt hvorum megin við ána Río Grande standa borgirnar El Plaso og Ciudad Juarez. Önnur er í USA og hin er í Mexíkó. Ég veit ekki við hverju ég hafði búist þegar við fórum yfir ána. Alla vega ekki þessu. Ekki svona örtröð, svona óendanlegri bílalest, bílarnir voru líka skrýtnir, margir ævagamlir og illa útlítandi, svona eins og skröltandi brotajárnshaugar. Og svo margir bílarnir voru fullir af fólki. Réttara sagt fullir af karlmönnum í vinnugöllum. Einhvers konar farandverkamenn á leið til USA. Svo voru öll uppljómuðu vegaskiltin sem blöstu við þegar komið var yfir í Mexíkó. Mörg voru að auglýsa lyf og pillur það stóð alla vega víðast hvar Drugstore.

Svo síðdegis fylltust göturnar af verksmiðjustarfsfólki á heimleið. Mér sýndist það vera mest ungar stúlkur og ég tók eftir að þær voru í einföldum klæðnaði en með litskrúðug hárskraut og eyrnalokka og hálsfestar. Á mörgum gatnamótum í Ciudad Juarez voru Indjánar stundum voru það konur með fléttu á baki og barnahóp í togi sem fetuðu milli bílanna með tusku undna í vatni og buðust til að þurrka af framrúðunni fyrir smáaura. Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar.

Það er einhver gullgrafarablær yfir Ciudad Juarez. Það sogast fólk að þessari borg og þessum landamærum í leit að betri framtíð og auðteknum gróða. En það er ekki málmurinn gull og þar er ekki jarðefnið olía sem er verðmætin og varningurinn. Þarna er hlið inn í vestrænt neyslusamfélag og skiptimyntin er vinna verkafólks. En í landamæraborginni Ciudad Juarez og dauðalínan. Það var grein um ástandið í Ciudad Juarez í Morgunblaðinu í dag. Þar hafa 263 konur verið myrtar frá því í janúar 1993.

Ég vona að þessi grein í Morgunblaðinu sé merki um að augu heimsins muni einhvern tíma opnast fyrir ástandinu í gullgrafarabæjum nútímans eins og Ciudad Juarez. Ég vona að fólk átti sig á að mannfallið og aftökurnar eru ekki mestar í skotbardögum þar sem bófagengi og góðu kúrekarnir plaffa hvern annan niður. Í þessari landamæraborg eru konur kyrktar og limlestar í svo stórum stíl að borgin hefur verið nefnd Ciudad Juarez: The Serial Killer´s Playground eða leikvangur raðmorðingja. Það er gífurlega víðfeðm leit að morðingjanum og löggæslumenn í borginni eru ásakaðir um spillingu og vanhæfni. En kannski er morðinginn ekki einn maður heldur margir og kannski eru morðin afleiðing af ástandi og spennu og viðhorfum á þessum stað. Um ástandið má lesa í þessari grein:
NPR : Curruption at the Gates (September, 2002).

8.11.03

Femínistaumræða í útlöndum og á Netinu


Á fimmtudagsmorgni hringdi í mig Siri Lindstad sem er norsk frílans fjölmiðlakona. Þetta var símaviðtal því hún ætlar að skrifa grein í norskt tímarit um Femínistafélagið. Hún bendi mér á að það hefði komið viðtal við Rósu um félagið í Kilden. Mér sýnist það sé töluverður áhugi meðal femínista á Norðurlöndum að fylgjast með Femínistafélaginu, það eru alltaf að koma bréf og erindi erlendis frá. Ég verð að bæta meiri upplýsingum við ensku síðuna, mér sýnist að allir sem hafa samband séu þegar búnir að stúdera allt sem þar stendur. Það er búin að vera mikil umræða seinustu daga á femínistapóstlistanum um vændi, um auglýsingar og um heimsfréttirnar. Siri sagði mér að hún væri áskrifandi að listanum. Gaman að heyra hvað margir erlendis eru á listanum.

En það er femínisk umræða víða. Ég hef t.d. startað tveimur umræðum á málverjavefnum, einni um hve ónákvæmir lögfræðingar geta verið (útlegging á grein Andra Óttarssonar á deiglunni) og einni um siðfræði og vændi. Senni umræðan er búin að vera ansi lífleg, það voru 163 svör komin og næstum tvö þúsund flettingar. Svo reyni ég að fylgjast með netumræðunni á femínistaspjallinu.

5.11.03

Meðlíðan


Ég var á femínista-hitti upp á lofti á Sólón í gærkvöldi. Þetta eru óformlegar samkomur sem eru alltaf fyrsta þriðjudagskvöld í hverjum mánuði. Fínt að fá sér eitt rauðvínsglas eða bjór og hitta hugsjónafólk og reyndar líka fínt að hitta þarna þá sem eru tortryggnir í garð femínista. Það er svo lítið púður í því að vera bara innan um þá sem eru manni sammála. Halla var fyrst með flott innlegg og síðan voru heitar umræður við borðin. Ég sat hjá nokkrum strákum sem voru sumir mjög skeptískir á femínistafélagið, hvort þetta væri ekki félag sem væri bara að berjast fyrir sérréttindum kvenna, hvort þetta væri ekki fáránlegt nafn á félagið að kenna það við eitthvað kvenlegt o.s.frv.... við fengjum ekki fólk inn í félagið með svona áherslu.... Ég skil ekki hvað eru margir sem standa utan félagsins sem vilja breyta félaginu og meira segja ganga svo langt í byrjun áður en þeir hafa kynnt sér fyrir hvað félagið stendur að þeir vilja breyta nafni félagsins. Af hverju ættum við að breyta nafni félagsins t.d. í Líonsklúbburinn Kiddi bara til að þóknast einhverjum???? Af hverju ættum við líka að breyta áherslum sem sýnilegt er að virka þrælvel til að þóknast einhverjum sem tja... virðist vera mest umhugað um að félagið virki ekki... Þetta er aktívistafélag og það er markmiðið að ná fram breytingum. Á friðsamlegan hátt og með rökum og málefnalegri baráttu og með því að fara að lögum. En við ræddum líka í gær hvað er erfitt að vera alltaf málaður út í horn... hvað er erfitt að vera alltaf gerðar upp skoðanir og viðhorf og það sé reynt að draga upp þá mynd af femínistum að þetta sé fólk sem er urgandi fullt af hatri og beiskju og pirringi ... dæmi er um þegar í kastljósþætti þar sem tveir málefnalegir femínistar mættu til að tjá skoðanir sínar (takk RÚV fyrir að leyfa okkur að koma og segja eitthvað... ég er alla vega þakklát fyrir það!!) þá hóf fréttamaðurinn orðræðu sína með: "Af hverju eru þið svona pirraðar???". Hver var pirraður? Af hverju heitir það að vera pirraður að heimta að það sé hlustað á fólk sem vinnur að mannréttindum og vill benda á gróf mannréttindabrot.

En í gær þá sagði ég við viðmælendur mína (strákana) að ég dáðist að fólki sem léti sig mannréttindi varða svo mikið að það berðist fyrir mannréttindum hópa sem það tilheyrði ekki sjálft eða hefði tilheyrt eða hefði hag af að berjast fyrir. Ég sagði að það væri prófsteinn á hversu mikið fólk ynni mannréttindum og ég sagði að ég ætlaði að nota það sem prófstein á sjálfa mig. Og það er alveg satt, ég ætla að ganga í eitthvað félag eða vinna að einhverjum mannréttindamálum þar sem ég hef engra hagsmuna að gæta en þar sem mér finnst brýnt að eitthvað gerist. Ég fór að hugleiða hvaða félag það ætti að vera eða hvaða fólk er niðurkýldast í samfélaginu.... er ekki alveg búin að sjá það út en það eru hópar eins og fangar og fíklar. Líka fólk sem er mikið fatlað. En mér finnst flott að hafa einhvers konar meðlíðan með öðrum - ekki svona halldór-laxness meðlíðan heldur líka meðlíðan sem felst í því að vilja gera eitthvað í málunum. Ekki bara horfa.

4.11.03

Stuttmyndir


Ég er búin að vera að gera helling af örstuttum vídeóklippum til að setja á vefinn. Gæðin eru svo sem ekkert góð þegar búið er minnka myndina fyrir vefinn en þetta er sniðugt og sennilega það sem koma skal. Held að blómatími svona vefstuttmynda fari brátt að renna upp - alla vega finnst mér þetta ansi sniðugt, að geta klippt myndina í Movie Maker 2 og dælt henni á vefinn. Forsetinn kom í heimsókn í Listgreinahús KHÍ í dag og ég náttúrulega bjó til videóklipp um það. Svo fór ég síðdegis á fyrirlestur um sænskt háskólasjónvarp. Mér finnst reyndar það megi alveg sleppa svona kapalkerfisdreifingu og dreifa efni bara á stafrænu formi - ekki með neina ákveðna útsendingartíma.

2.11.03

Sátt
Var að koma heim af djamminu. Femínistavikan endaði með Kvennabandaballi á Vídalín og þar var tryllt stuð. Tónleikar þar sem fullt af kvennaböndum og tónlistarfólki tróð upp - þar voru Dúkkulísurnar og Heimilistónar og hluti af Rokkslæðunum, Stella Hauks og Lísa Páls og Rósa Guðmunds. Reyndar er þetta sama Rósa og var hér á árum áður skemmtanastjóri á Spotlight - núna er hún orðinn alvarlegur tónlistarmaður sem treður upp á femínistaböllum með eigin lög. Femínistavikan búin að var meiri háttar flott og þetta var góður endir áðan. Er að hugsa um hvað það eru margir listamenn og aðrir sem gáfu vinnu sína til að viðburðir femínistavikunnar gætu fyrir fram - gott að vita að það er til svona mikið af hugsjónafólki í heiminum.

Það verður ágætt að gera smáhlé á þessum aktivísma, ég er búin að senda fréttabréf út á hverjum degi alla vikuna og það fer til 900 manns. Hef líka reynd að uppfæra femínistavefinn með myndum og upplýsingum um femínistavikuna. Ég hef verið að prófa að setja inn svona videóklipp og hljóðskrár.

24.10.03

Femínistavikan stendur kannski mörg ár...


Ég var að skoða gamalt blogg hjá mér, það var frá því í mars í ár. Það stendur að þetta stefni í femíniska viku í lífi mínu - það var vikuna sem ég fór á uppákomu hjá Bríetum, afmælisfagnað Kvennalistans sáluga og stofnfund Femínistafélagsins. Allt í sömu vikunni. Svo hélt ég að þessu femíniska tímabili í lífi mínu væri þar með lokið. Punktur. En það gerðist ekki. Eiginlega hefur þetta bara magnast upp.... Ég veit ekki alveg af hverju. Einfaldasta skýringin væri að það hefði verið svo mikil þörf, kvenfyrirlitningin og klámvæðingin hefði verið í hámarki og þöggun kvenna átakanleg. En ég held að það sé ekki bara það... ég held að það hafi verið einhver knýjandi innri þörf að einhverjum nýjum viðmiðum og eitthvað tómarúm og dapurleiki yfir ástandinu í samfélaginu bæði á Íslandi og í heiminum fyrir utan.

13.10.03

Draumar um vatn


Kristín sagði við mig í morgun að hana hefði dreymt að hún væri að vaða út í sjó með systur sinni. Hún var áhyggjufull, sagði að draumar um vatn boðuðu veikindi. Ég veit ekki hvaðan hún hefur svona draumaráðningar, kannski úr svona draumakverum en mér hafa alltaf þótt þau kver skrýtin. En ég tek samt mikið mark á draumum, held að í þeim séu oft einhvers konar persónulegar vitranir, eitthvað sem býr innra með manni leitar inn í drauminn eða einhver boð frá umhverfinu sem maður skynjar og getur ekki endilega ráðið í koma fram í draumum. En ég efast um að dulmálslyklar til að ráða drauma séu svo einfaldir að þeir komi fram í draumaráðningarkverum. Annars dreymdi mig mjög undarlega eina nóttina þegar ég fór til Skagafjarðar í brúðkaupið í september. Mig dreymdi að ég væri einhvers konar vísindamaður og ég var að ræða um einhverja vísindauppgötvun sem að mér fannst vera fólgin í því að sýna fram á að einhvers konar örverugróður- sveppagróður hefði samband hvert við annað. Ég var að ræða um að sýnt hefði verið fram á að svona sveppakólóníur - eða einhvers konar örverusamlífi sem myndar stórar heildir - gæfi frá sér boð um hvert rakastigið væri á ákveðnum stað og að þessi boð væru numin af einhverri annarri kólóníu einhvers staðar annars staðar. Það var eihver tilraun sem ég var að útskýra. Mig minnir að ég hafi verið að tala eitthvað um ísótópa (fletti því seinna upp á netinu, kannski var það þetta?) eða einhvers konar ísótópamælingar í þessum draumi, einhver orð sem ég skil ekkert í og nota aldrei.

Lýðræði og þjóðþing á Netinu


Ég hef mest tjáð mig síðustu vikurnar á Netinu á ýmsum spjallkerfum, aðallega þremur en eitt af þeim er malefnin.com. Það er gaman að fylgjast með hvernig þjóðmálaumræða flyst inn á Netið og spá í hvort hún komi til með að hafa áhrif - bæði áhrif inn í fjölmiðla og áhrif beint á almenning. Mér fannst umræðan um nafnlausa uppreisn vera góð og margir punktar þar komu fram sem vöktu mig til umhugsunar um lýðræði og réttlæti. Á sama tíma og það er að vaxa upp málefnavettvangur á Netinu þá eru í gangi hjá nokkrum pólitískum ungliðahreyfingum einhvers konar kosningar sem eru í meira lagi vafasamar sem túlkun á vilja félagsmanna - kosningar sem sýna okkur að lýðræði er ekki fólgin í kosningu og smölun og atkvæðaveiðum rétt fyrir kosningar. Kosningar er vissulega einn liður í lýðræði og einn farvegur fyrir óbreytta félagsmenn eða almenning til að hafa áhrif. En það eru aðrar aðferðir miklu árangursríkari og miklu gæfulegri til að hlustað sé á alla. Kosningar eru bara einn þáttur í lýðræði - það er alveg eins mikilvægt að umræðan sé lýðræðislegt og þeir sem áhuga eða hagsmuni hafi tækifæri til að taka þátt í umræðunni - ekki bara eftir að ákvörðun er tekin - ekki bara sem neytendur heldur einnig til að móta samfélagið.

Ég veit að mörgu fjölmiðlafólki ofbýður umræðan á Netinu og kannski ekki nema eðlilegt því á fjölmiðlum starfa margir sem árum og áratugum saman hafa unnið við fjölmiðla þar sem það þarf að aga mál sitt og hugsa um hvaða áhrif hvert orð hefur og ekki sé vegið að einhverjum ákveðnum hópum. Það sem hefur líka gerst er að umræðan á netmiðlum svo sem malefnin.com hafa verið sérlega óvægilegt einmitt í garð fjölmiðla og þekks fjölmiðlafólks og reyndar svo að ákveðinn hluti af umræðunni var tekinn út eftir mikinn þrýsting. Reyndar velti ég fyrir mér hvort umræðan á málverjavefnum sé ekki svona hatrömm út í fjölmiðla og einstaklinga sem starfa á fjölmiðlum að einhverju leiti vegna þess að hér er nýr miðill - ekki fjömiðill - frekar margmiðill eða sammiðill - og það eins og þessi nýi miðill sé að máta sig við þá miðla sem fyrir eru - og það er kannski persónugert í gagnrýni á þætti og einstaklinga sem eru í hinum hefðbundnu fjölmiðlum, sérstaklega dagblöðum og sjónvarpi.

Innlegg á málverjum týnast í málskóginum mikla og þess vegna setti ég öll mín innlegg á sérstaka síðu svo ég hefði yfirsýn yfir hvar ég hefði tjáð mig og hvað ég hefði sagt.

4.10.03

Nafnlaus uppreisn



Ég startaði umræðu rétt áðan um nafnlausu uppreisnina á Málverjunum. En nú er ég að fara upp í sveit og það verður gaman að sjá þegar ég kem aftur hvort þessir grímuklæddu ofurnotendur sitji þegjandi undir svona ádrepu eins og þeir fengu í viðhorfi Morgunblaðsins í dag.

2.10.03

Að hleypa heimdraganum



Núna í kvöld þegar sjónvarpið íslenska sýndi frá stefnumótunarumræðu á Alþingi þó hringdi í mig sænskur femínisti sem er að rannsaka eitthvað sem hún kallar "feminist media critics" og spjallaði við mig í hálftíma. Ég sagði henni náttúrulega frá öllu sem við værum að gera í Femínistafélaginu en ég er búin að setja upp enska síðu þar. Svo sagði ég henni frá baráttu minni við pressuna og ýmsa fjölmiðla síðasta árið, baráttu sem byrjaði þegar ég var í rimmu við forustumenn Stúdentablaðsins fyrir ári síðan og þar sem ég fékk ekki að skrifa í Stúdentablaðið þá héld ég uppi linnulausu málþófi á blogginu. Svo hef ég upp á síðkastið mest verið að rövla um Kastljósið og fleiri sjónvarpsþætti og fréttatengt efni enda finnst mér ástandið vera sérlega slæmt þar. Hingað til hef ég ekki orðið vör við annað en svona barátta virki alveg og þetta er tilraun í að sjá hvort að einstaklingar fái einhverju áorkað með að tjá sig í tíma og ótíma á netmiðlum.

En þetta er stór dagur hjá Femínistafélaginu vegna þess að í kvöld var fyrsti fundur félagsins á erlendri grund. Ég var að fá bréf frá Erlu í Kaupmannahöfn, það mættu um 35 á femínistafundinn sem var í Jónshúsi í kvöld og sum komu alla leið frá Svíþjóð bara fyrir þennan fund. Ég er búin að setja erindi Erlu á vef Femínistafélagsins. Það var einhver von um betri tíma í vændum að vita að framtak okkar í Femínistafélaginu hefur núna sprota í Kaupmannahöfn og vekur athygli líka í útlöndum.

Grey strákarnir í Pepsíkippuframboðinu



.Ég get bara ekki annað en vorkennt strákunum þarna í Heimdalli í þessum Bolla-Atla slag. Þetta er svona kosning og kosningaaðdragandi þar sem allir tapa. Og kannski er stærsta hrapið í tiltrú fólks á að í þessu félagi sé unnið af heiðaleika og réttsýni. Ásakanir og brigsl ganga nú á víxl. Ef ég skil málið rétt þá var heiftarleg atkvæðasmölun rétt fyrir kosningar ástæðan, sitjandi stjórn tók ekki gildar nýskráningar og önnur fylkingin dró sig þá til baka í fússi. Allir svekktir. Nú veit ég ekki hvernig vanalega er staðið að kosningum í þessari ungliðahreyfingu en þær sögur sem núna eru sagðar eru hreint út sagt óhugnanlegar.

Svei mér þá ef þetta er ekki verra en prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðvestur-kjördæmi í vor sem var gerð góð skil í Deiglupistli Andra Óttarssonar Ranglætið sigrar. Um það mál segir Andri:
"Þetta þýðir að eitt mesta kosningasvindl sem vitað er um í sögu lýðveldisins er nú lokið með fullkomnum sigri óréttlætisins. Þeir sem höfðu rangt við komust upp með það og þeir sem reyndu að spyrna við fótum og upplýsa misferlið voru sendir til Washington.
Rétt er að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að tala um neitt smávægilegt kosningasvindl einstakra manna heldur stórfellt kosningamisferli sem einræðisherrar í harðræðisríkjum hefðu verið fullsæmdir af. Það er ljóst að hópur manna á Akranesi og nágrenni fór um bæinn eins og eldur í sinu með kjörkassa og kjörgögn. Farið var heim til fólks, á vinnustaði, í skip, á rúntinn og á alla mögulega og ómögulega staði með kjörgögn til að láta fólk kjósa. Til dæmis má nefna að samkvæmt heimildum sem pistlahöfundur hefur ástæðu til að treysta þá var kjörkassi staðsettur við hliðina á lottóvél í sjoppu á Akranesi og fólki boðið upp á að kjósa sína menn á meðan þeir fylltu út lottóseðilinn! "


Ég er að spá í hvort að þeir sem börðust núna í Heimdalli hafi ef til vill tamið sér vinnubrögð sem af þeim toga sem Andri lýsir og ég hef áhyggjur af þvi af fólk sem starfar í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka vinnur ekki á lýðræðislegan og heiðvirðan hátt. Ég vissi ekki að ástandið væri svona slæmt og kannski er þetta ekki rétt sem málverjinn Helgafell segir
staðreyndirnar í málinu. Hann segir um liðið sem dró framboð sitt til baka (deigluliðið):

"Þau blekktu fjölda framhaldsskólakrakka til að skrifa undir plagg sem bar yfirskriftina Stuðningsyfirlýsing vð Heimdall. Á þessu skráningarformi var fólki gefinn kostur á að haka við innskráningu í "fl." og úr "fl." Svona plagg getur ekki verið löglegt skráningarform á nokkurn hátt og það vissu Bolla/deiglufólkið og því var þeim blöðum ekki skilað inn. Heldur var brugðið á það ráð að slá inn þessi nöfn mánudag nokkrum klukkustundum áður en frestur átti að vera úti um nýskráningar. .........Hringt er í fólk og því tjáð að það hafi verið skráð í Sjálfstæðisflokkinn og því geti það allt eins mætt og kosið fyrir vinagreiða. 15-16 ára krökkum boðin kippa af 2lítra Pepsi fyrir skráningu og mætingu á aðalfundinn...."

Það taka nokkrir til máls á málefnunum og verja þetta, segja að svona vinnubrögð hafi lengi viðgengist í Heimdallarkosningum, það segir enginn að þetta sé rangt. Það er eitthvað að

29.9.03

Málfrelsi og fordómar



Ég lenti í skrýtnu áðan. Fékk að vita að innlegg sem ég skrifaði á málefnin.com fyrir næstum hálfum mánuði hefðu verið túlkuð sem fordómar mínir gagnvart samkynhneigðum. Svo frétti ég líka að það hefði verið vitnað í mig í greininni Að birta eða birta ekki - Fréttablaðið 16.sept og svo var ítarlega fjallað um málið í Fréttablaðinu í gær 28. september.

Tildrög málsins eru að Morgunblaðið birti lesendabréf frá manni sem úthúðaði Gaypride og svo birti Morgunblaðið afsökunarbréf um lesendabréfið.
Skönnuð grein með afsökunarbeiðninni

Það hefur mikil umræða um þetta á malefnin.com á alla vega tveimur spjallþráðum:
Mogginn biðst afsökunar á tjáningarfrelsi
Samtökin 78 kæra

Ég tekið þátt í þessari umræðu með tveimur innleggjum 16. og 23. september. Mér kemur mjög á óvart að þau þyki bera vott um að ég hafi fordóma gagnvart samkynhneigðum.

Sent: Sep 14 2003, 23:57
Mér finnst það meiri háttar furðulegt að biðjast afsökunar á þessari grein. Reyndar finnst mér það mælikvarði á hversu umburðarlynd og víðsýn einhver manneskja er hversu mikið fólk þolir öðrum að hafa skoðanir og viðhorf sem maður tekur ekki undir sjálfur og sem stuða mann.

Þetta var soldið brosleg grein og bernsk og náttúrulega löðrandi í fordómum en ég gat ekki séð að það væri vegið að æru eins eða neins með þessum skrifum. Mér finnst líka einn punktur í greininni alveg vera sjónarmið sem ætti að heyrast og mér finnst að fólk sem finnst það hjartans mál ætti að hafa hátt og láta vita að því að það var farið yfir markið. Það var í sambandi við manneskjuna á krossinum, það stakk mig. Ekki af því að ég sé svo trúuð eða kristin að það hafi komið illa við mig... frekar af því að mér finnst að maður eigi að virða trúartákn eða tákn sem öðrum hópum finnast vera heilög og ekki alla vega skrumskæla þau og hæðast að þeim. Ef krossfestingaratriðið í Gaypride var gert af fólki sem er trúað eða alla vega á einhvern hátt virðir kristin tákn og þetta hafi verið einhver partur af því stefi að tengja samkynhneigð, fjölbreytileika og umburðarlyndi við kristni og vera vísun í þá sem eru ofsóttir og þjáðir þá er það gott mál... en mér fannst þetta bara eins og einhvers konar glensatriði.


Myndina hér fyrir ofan tók ég á Gaypride 2003. Ég tók líka fleiri myndir, þær eru hérna:
Myndir ´frá Gaypride 2003


Mér finnst svona barátta við fordóma fara í báðar áttir... það er lítilsvirðing á því sem stórum hluta fólks finnst heilagt að hafa svona krossfestingaratriði... og það er bara gott mál að fólk sem sárnaði þetta skuli fá að tjá sig.

Það er náttúrulega samt erfitt að hafa ekki fordóma fyrir fólki sem er með fordóma fyrir öðru fólki.

**************************************

Sent: Sep 23 2003, 3:12

Sá þetta á samtökin78 vefnum:

233. gr. a. [Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna] 1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar] 1) sæti sektum ... 2) eða fangelsi allt að 2 árum.] 3)
1) L. 135/1996, 2. gr. 2) L. 82/1998, 126. gr. 3) L. 96/1973, 1. gr.


Skemmtileg lagagrein. Gaman að pæla í útfærslunni.
Hvað telst smánun?
Hvað telst ógnun?
Hvað telst trúarbrögð?
Hvað telst opinbert?

Mín finnst skrýtið ef þetta moggalesendabréf sem Mogginn hefur beðist afsökunar á og sem Samtökin 78 hafa kært á grundvelli þessarar lagagreinar geti verið tilefni til mikilla dómsmála. Þetta bréf var auðvitað níð og skammir og gegndrepa af fordómum og þröngsýni en fólk með fordóma ætti líka að mega tjá sannfæringu sína og það þótt það geri það á ruddalegan og ósiðaðan hátt. Mér virtist á lestri bréfsins að bréfritari væri mjög æstur yfir að svívirt hefði verið trúartákn eða eitthvað sem hann telur heilagt.

Vissulega smánar bréfritari samkynhneigða með orðum sínum og hæðist að Gaypride en mér fannst það varla svo gróft að það væri tilefni dómsmála.

Kannski er ég orðin ónæm fyrir grófu orðbragði. Frá því í vor hef ég margoft orðið skotspónn og orðið fyrir verulega svæsnu orðbragði á vefnum sem tengjast því að ég er yfirlýstur femínisti og starfa að baráttumálum Femínistafélags Íslands.

Sem dæmi um þá orðræðu sem menn hafa viðhaft þar er þessi hótun til mín sem birtist á opinberu vefsvæði í vor. Þar er ég kölluð portkona og get ég ekki annað skilið en í orðalaginu felist hótun. Þetta er samt langt í frá það versta. Hótunin var undir því netfangi og vefslóð sem hér fylgir með:

"Bezt að Horas hálfrisnauðgi þessari portkonu og sulli svo yfir henni kinnarnar á henni! Það þarf einhver að taka hring á henni. 3T-in. Taka hana í tað, trant og tussu!
horas@rantur.com - http://www.rantur.com "


Mér brá við að lesa þetta á sínum tíma. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið ætlunin. Mér finnst þessi orð vera mun alvarlegri bæði sem smánun og ógnun en það sem Samtökin 78 kæra skv. 233 grein. Eru einhverjar lagagreinar sem ná yfir svona orðræðu?

Fegurðarsamkeppni Badabings og Gneistaverðlaunin




Það hefur rignt yfir mig hamíngjuóskum eftir að ég fékk hin eftirsóttu bloggverðlaun Gneistans en nokkrir verlaunahafar og Gneistinn sjálfur voru kynntir á heilsíðugrein á bls.26 í Fréttablaðinu á laugardaginn. Nú hefur komið á daginn að ég er ekki bara handhafi Gneistaverðlaunanna heldur komst í úrslit í fegurðarsamkeppni Badabing.is sem samdi viðtalið eða eins og hann orðar það þegar hann er að þagga niður í æstum múgnum sem ekki fékk mynd og umfjöllun um sig í Fréttablaðinu: " Merkilegt hvað þetta blogghyski er upp til hópa sjálfhverft og sensitíft. Það var enginn ritskoðun í gangi og ég lét fagurfræðilegar ástæður ráða því hvaða verðlaunahafar voru taldir upp."

Ég stunda núna innhverfa íhugun og ýmis konar andleg fræði til að ofmetnast ekki of mikið af þessari fremd. Það er ekkert smá erfitt að halda vanalegu lítillæti þegar ofan á bætista að núna dag eftir dag birtir Fréttablaðið einhverja speki eftir mig, hvern ég málsmetandi manneskjan vildi fá sem forseta, hvað mér finnist um ríkissjónvarpið, hvort ég vildi ekki sjálf verða forseti, hvort ég eigi ekki myndir af krossfestingunni o.s.frv.

En ég er hæversk og segi svona við þá sem óska mér til hamíngu:

Þetta er nú alvöruverðlaun hjá Gneistanum og ég er virkilega stolt af þeim. Þau eru samt gefin og við þeim tekið með miklu meira alvöruleysi en þessi heilsíðugrein í Fréttablaðinu gefur til kynna. Svo voru bara sumir teknir með í greininni, það fengu fleiri Gneistaverðlaun ársins annars má sjá um hérna um Vefverðlaun Gneistans.

Þetta að fá verðlaun sem umtalaðasti bloggarinn er nú fólgið í forsögunni. Ég hef nokkuð komið við sögu í bloggheimum þegar brennandi femínistaumræða fór þar yfir eins og eldur í sinu, sennilega í hámarki um 1. maí. Eftir á finnst mér bara gaman að hafa tekið þátt í að kveikja svona mikla umræðu og blása í glæðurnar en það var ekki alltaf gaman þegar á því stóð.

En ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessu þá er það að það á að hlusta á alla. Líka þá sem tjá sig ruddalega og hafa skoðanir sem maður hefur ógeð á. Líka þá sem hafa enga bakjarla og standa einir með óvinsælar skoðanir. Líka á þá sem hafa veika rödd og eru ekki vanir að tjá sig. Málfrelsið á að vera fyrir alla. Það er eina leiðin til að byggja upp lýðræðisþjóðfélag sem virðir fjölbreytileikann og sýnir umburðarlyndi þeim sem eru öðru vísi að við hlustum hvert á annað og virðum aðra. Líka þá sem virða okkur ekki á móti.

Við þurfum samt ekki að vera sammála eða hafa öll sömu skoðanir.

Einhver sagði að það þyrfti að passa sig þegar maður berst við skrímsli að verða ekki að skrímsli sjálfur. það er erfitt þegar einhver ræðst á mann með skömmum og níði að slá ekki til baka á sama hátt. En ef maður gerir það þá verður maður fljótt að skrímsli sjálfur.

frettabladid-030926ruv.jpg
frettabladid-vefverdlaun.jpg

28.9.03

Heimdallur og jafnréttismálin



Núna standa kosningar fyrir dyrum í Heimdalli. Það virðast vera tvö strákagengi sem eru að slást um völdin og það virðist ekkert hafa snert þessa ungliðahreyfingu stærsta stjórnmálaflokksins í landinu hvernig gengi kvenna var í flokknum í síðustu kosningum. Nema helst að forherða þá í því að halda þessari hreyfingu alveg hreinni af öllu sem heitir femínismi eða mannréttindahugsun.

Skoðum hvernig lítur Heimdallur á jafnréttismálin:

Á vef Heimdallar er sérstakur flokkur um jafnréttismál http://www.frelsi.is/jafnretti og þar eru nú þegar þetta er skrifað sex pistlar á vefsíðunni sem ætla má að endurspegli hvaða hræringar og áherslur eru upp á borði í jafnréttismálum hjá þessari ungliðahreyfingu.

Þetta er inntak þessara sex pistla:

1) Ungur maður skrifar um það sem hann kallar vinstrivillur í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, hann notar stór orð og kallar það forræðishyggju að reynt sé að stuðla að jafnara námsvali kynja og karlmenn verði hvattir til að starfa innan skólakerfisins.

2) Ung stúlka skrifar afsökunargrein fyrir hvers vegna hún sé í heimdalli. Hún afsakar það margoft í greininni og byrjar þannig: "Þó nokkrir hafa á því hvers vegna ung kona eins og ég skyldi ákveða að starfa innan flokks sem er alræmdur fyrir að sniðganga konur..."

3) Vísað er í níðgrein Eyrúnar um Femínistafélagið sem birtist í Morgunblaðinu í sumar þar sem fyrisögnin er "Barist fyrir athygli en ekki hugmyndum"

4) Níðgrein um jafnréttisstofu. Greinin endar svona: "Hljóta ekki að vakna upp ákveðnar spurningar um eðli og tilgang jafnréttislaga þegar framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu getur ekki framfylgt þeim?"

5) Skammargrein um að Vinnumálastofnun veiti sérstaka styrki til atvinnumála kvenna. Greinin ber titilinn "Undarleg leið í jafnréttisbaráttu"

6) Vísað í grein á Deiglunni eftir Brynjólf Sævar þar sem hann fjallar um réttindi samkynhneiðra víða um lönd og segir hvað honum finnst um hugmyndir einhverra örfárra hægri þingmanna í USA um að breyta stjórnarskrá Bandaríkjanna. Greinarhöfundur segir ekkert hvað honum finnst um réttarstöðu samkynhneigðra á Íslandi.

Sem sagt, það sem Heimdallur kallar jafnréttismál það er að níða skóinn af öllum þeim á Íslandi sem eru að gera eitthvað í jafnréttismálum og vinna akkúrat minna en ekki neitt í því sem hægt er að gera á Íslandi. Svona birtist mér þessi ungliðahreyfing núna þegar kosningar þar fara fram. Mér virðist þessi hreyfing vera mjög á rangri braut.

27.9.03

Er Lancer perra-kerra?



Ég held að einhver sé að gera grín að bílaumboðinu Heklu, trúi ekki að þessi auglýsing sé raunverulega frá þeim. En ég trúði heldur aldrei upp á Flugleiðir að þeir hefðu auglýst "pester a beauty queen" og "one-night stand". Eða kannski er þetta svona auglýsingatrikk, verið að ögra til að fá umræðu. Það heppnast vel að fá umræðu og fólk virðist taka eftir auglýsingunni en það fer allt úr böndunum. Bílaumboðið Hekla er haft að háði og spotti og gárungarnir kasta fram vísum og afskræma auglýsinguna. Hér er auglýsingin og einn variantur af henni og ein vísa.


ljóðskáldið drullusokkur kastar fram stöku:
Viltu, kall minn, krakka smakka
og kossa meyja berra, herra?
Flassarans mátt frakka pakka
fram er komin perra-kerra!

24.9.03

Þungarokk og uppreisnarsöngvar Christinu Aguilera


það er mikill femínistaáróður núna í gangi á Popptíví og hinum ýmsustu útvarpsstöðvum. Um þessar mundir heyrist oft á PoppTíví femínistalag með Christinu Aguilera og Lil Kim. Textinn er argasti femínismi og oft hljómar " þú getur ekki haldið mér niðri" og svo eru konur bara hvattar til að hafa hærra og snúa vörn í sókn. Ég hef staðið á vaktinni og varað málverja við þessu hættulega útlenda efni.

Í kjölfarið snaraðimálverjinn MissM byltingarsöngnum Balls to to Walls með Accept á fem-íslensku. Hún segir að þegar þungarokkshljómsveit leggur þungavigt á að benda á kvöl þeirra undirgefnu sé ekki annað hægt en að syngja með af mikilli innlifun.

Textinn með þungarokkslaginu er einum of heví og ofbeldiskenndur fyrir minn smekk. Kannski myndi samt femíniskur boðskapur ná í gegn til einhverra með svona texta. Og tónlist er mál tilfinninga og skynjunar. Ég held hins vegar að ef maður leggur áherslu á umburðarlyndi og fjölbreytni og það sem sameinar frekar en það sem sundrar þá sé maður á hættulegri leið ef kynt er undir hatri og magnaður upp óvinur sem hatrið beinist að.

Meira um tónlist. Ég fékk bréf frá Anne Lorentzen sem heillaði mig í Finnlandi síðastliðið vor. Hún ætlar að gefa út geisladisk og vill halda útgáfutónleika á Íslandi í janúar. Hún spyr mig hvort ég geti bent á einhverja í Reykjavík sem taka að sér að sjá um svoleiðis. Ég veit bara ekkert um þann bransa. En mér finnst Anne frábær listamaður og hún syngur bæði á nýnorsku og ensku. Hún er í doktorsnámi í einhverju sem tengist femínisma og tónlist. Hér er eitt lag sem hún syngur Såre sinn á mp3 formi. Það er um þá sem hafa verið særðir og yfirgefnir af elskunni sinni og hvernig tónlistin veitir hugsvölun, hér er textinn á nýnorsku.

23.9.03

Ég og forsetaframboðið



Vefverðlaun Gneistans 2003


Mér hefur hlotnast mikil viðurkenning. Vefverðlaun Gneistans 2003 sem umtalaðasti bloggarinn. Þetta eru merkilegustu verðlaun íslenskra bloggheima, fyllilega sambærilegt við að vinna Edduverðlaun hinna gömlu miðla. Að vinna slík verðlaun þýðir að maður hefur náð langt, fátt getur toppað þetta nema verða forseti eða borgarstjóri eða ráðherra. Ég hef verið að spá í forsetann sem næsta þrep...

Að vandlega athuguðu máli hef ég ákveðið að gefa ekki að kost á mér í næstu forsetakosningum. Þó það væri náttúrulega gaman að keppa við Ástþór í Friði 2000 og hann myndi láta ófriðlega og hóta sprengjuregni en ég náttúrulega tala út í eitt um femínisma og hvað engar konur væru í Kastljósinu og svo myndi ég hafa það sem aðalkosningaloforðið að hafa alternatívar Jóns Sigurðssonar þjóðræknishátíðir. Það myndi örugglega slá í gegn...

Ég fékk þessa hugmynd að lýsa yfir að ég myndi EKKI gefa kost á mér þegar Þórarinn á Fréttablaðinu hafði samband við mig um daginn og ég sem "málsmetandi manneskja" var beðin um að tilnefna kandidata í forsetann hjá Fréttablaðinu. Ég uppveðraðist svo við að vera kölluð málsmetandi að ég skrifaði Þórarni strax bréf og stakk upp á þessum Katrín Önnu, Birni Bjarnasyni og Má.
Einn femínisti, einn upplýsingatæknifrömuður og einn bloggari.

Það var reyndar erfitt val á milli tveggja bloggara hjá mér í tilnefningunni, það voru Már og Einkamálabloggarinn og það var þessi meitlaði texti hjá Einkamálabloggaranum nýlega sem mér finnst vera vísbending um að hann sveigi sig að þeim aðstæðum sem nú ríkja í viðskiptum og stjórnmálum og verði einhvern tíma stór stjarna í íslensku samfélagi. Hann skrifar:
"Nóg komið
Þegar ein leið bregst verður að taka aðra. Ég hef reynt að vera bjartsýnn og uppbyggilegur, en nú ætla ég að gerast súr og bitur.
Svo er ég líka til sölu hæstbjóðanda, sama hversu lágt er boðið. Af hverju ætti ég að skera mig úr að því leyti?
"

En ég hef aldrei séð svo mikið sem fótósjoppaða mynd af Einkamálabloggaranum og það er ekki nóg að hafa fyrirmannalunderni, forsetakandidat verður líka að vera valdsmannslegur á mynd og skjáþokkinn að streyma til manns. Sjáið til dæmis núverandi forseta. Geisla ekki af honum á öllum myndum? Þess vegna tilnefni ég Má, hann er svo fótógeniskur og sló rækilega í gegn sem bláa höndin í einni mynd sem birtist fyrir margt löngu.

Þessa tilnefndi ég málsmetandi manneskjan sem forsetaframbjóðendur og með þessum rökum:

1) Katrín Anna talskona Femínistafélagsins væri fínn kandidat, það væri sniðugt að hún færi í framboð þá myndum við koma femínistamálum líka inn í þá umræðu.... Mér finnst ekki veita af einhverjum bleikum tón í æðstu stjórn landsins. Kæmi líka svo flott út á öllum myndum af ríkisstjórninni, bleikt fer svo vel við öll svörtu jakkafötin. Hún myndi líka breyta áherslunum, Vigdís var að gróðursetja tré en Katrín Anna myndi gefa öllum bleika steina og uppræta staðalímyndir.

2) Björn Bjarnason.www.bjorn.is Það myndi þá fyrst komast einhver skriður á kynningar og upplýsingamál hjá forsetaembættinu ef Björn væri þar. Hann myndi drífa upp vefinn forseti.is sem núverandi forseti er búinn að vera gera einhverjar tilraunir með undanfarin þrjú ár og ekkert gengur. Svo myndi Björn vera í miklu betru sambandi við íslenskan almenning og alllir gætu leitað til hans gegnum tölvupóst og hann myndi greiða strax úr erindum allra.

3) Már Örygsson Það er kominn tími til að bloggari hefjist til valda á Íslandi og mér lýst ágætlega á að Már ryðji þá braut. Hann hefur áhuga á þjóðfélagsmálum og mannréttindum og er jafnt tækninörd sem listamaður. Svo getur hann klætt sig í ýmis gervi og það fer honum allt vel, hann er flottur sem bláa höndin og hann er líka flottur að falun gong mótmælast. Svo myndi líka allir geta sent honum SMS blogg og hann myndi alltaf vera í samskiptum.

16.9.03

Samviska Sjálfstæðisflokksins



"Ungir sjálfstæðismenn eiga að vera samviska Sjálfstæðisflokksins og veita honum aðhald frá hægri þegar ástæða er til og berjast jafnframt gegn vinstriöflunum." Svo mælir nýbakaður formaður SUS á vef sínum hafsteinn.is. Þetta virðist aðalstefnumál hans.

Það var kosin ný stjórn í ungliðahreyfingu SUS núna um helgina. Það var ungur karlmaður Hafsteinn Þór Hauksson kjörinn formaður. Hann tekur við formennsku af öðrum ungum karlmanni Ingva Hrafni Óskarssyni. Hinn nýji formaður er stúdent úr Verslunarskólanum, stundar nú nám í lögfræði og hefur m.a. verið blaðamaður og skrifar reglulega pistla á Frelsi.is.

Hafsteinn tók á sínum tíma þátt mælskukeppni Sjónvarpsins Morfís fjögur ár í röð. Hafsteinn virðist vel tengdur við aðra unga sjálfstæðismenn og forvera sína í formennskunni og var hann kosningastjóri Sigurðar Kára Kristjánssonar í framboði hans til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna árið 1999.

Það er áhugavert að sjá hvernig ungliðahreyfing í stærsta stjórnmálaflokki landsins þróast og hvaða áherslur eru þar núna efst á borði. Formennska í SUS er hefðbundið þrep á framaleið stjórnmálamanna Sjálfstæðisflokksins og það er líklegt að þeir sem undanfarin ár hafa gengið upp þá tröppu hafi hug á að verða framtíðarleiðtogar Sjálfstæðisflokksins. Mér virðist hinn nýkjörni formaður hafa svipaðan bakgrunn, viðhorf og feril og aðrir ungir karlmenn sem hafa á síðustu misserum hafist til metorða innan Sjálfstæðisflokksins.

Þess má geta að kynjahlutföllin í þessum kosningum voru þessi:
Það voru 26 kosnir í stjórn.
Þar af voru 5 konur.

Ég vil óska þessum fimm konum (af 26) sem núna eru í stjórn SUS velfarnaðar og velgengis og einnig öllum femínistum innan hreyfingar SUS. Það væri mjög fróðlegt að heyra hvort þeim finnst ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins vera á réttri leið.

11.9.03

Uppbygging



Í dag byrja ég blogg á nýjum stað á eigin léni. Slóðin er www.asta.is. Set sama bloggið inn á báðum stöðum þangað til ég er búin að stilla allt og flytja yfir.

Í dag eru tvö ár síðan árásin var gerð á New York. Enginn atburður í heimsmálunum hefur haft meiri áhrif á mig. Frá þeim tíma hef ég fylgst miklu betur með alþjóðamálum og reynt að kynna mér ástandið, ekki bara frá sjónarhóli valdhafa og í gegnum vestrænar fréttastofur. Þessi eyja hérna út í Atlandshafi sem ég bý á og þessi örsmáa þjóð sem ég tilheyri hafa sogast með inn í hvirfilbyl manngerðra hamfara sem ég hvorki skil né veit hvert stefnir.

Þetta er ekki bara tilfinning sem ég hef því árásin hafði með beinum hætti áhrif á fjölskyldu mína núna í ár. Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan eftir New York árásina og þar kom á eftir ISAF sem er fjölþjóðlegt friðargæslulið vestrænna þjóða. Magnús fór í mars til Afganistan á vegum íslensku friðargæslunnar og kom aftur núna í byrjun september. Hann var hermaður eins og allir í friðargæsluliðinu þarna og hann var með þýskri herdeild. Nokkrum sinnum á þeim tíma sem Magnús dvaldi þarna var alvarlegt ástand vegna sprengjuárása og hryðjuverka og slysa. Dögum saman vissi ég ekki hvort hann væri óhultur. Margir ISAF hermenn dóu á þessum tíma, flestir í einu mannskæðu flugvélahrapi. Sérstaklega alvarlegt var þegar hann kom í frí heim þegar Kristín fermdist í júní og lenti þá í bráðri lífshættu því hryðjuverkamenn gerðu þá sjálfsmorðsárás og keyrðu inn í rútu sem flutti þýska hermenn út á flugvöll. Það vildi honum til happs að hermenn voru fluttir út á flugvöllinn í Kabul í tveimur hópum og hann lenti í seinni hópnum. Þegar Magnús fór til Afganistan voru aðaláhugamál hans skógrækt og útivist og gönguferðir um hálendi Íslands. Eftir hálfs árs friðargæslustörf í stríðsþjáðu landi hugsar hann mest um hermennsku og stríðstæki og hann telur öflugan og vel búinn her vera bestu leiðina til að tryggja frið á þessum slóðum nú.

En árásin á New York hafði líka óbein áhrif á líf mitt og viðhorf. Ég hef þá tilfinningu núna að stjórnkerfi á Vesturlöndum og alþjóðasamstarf sé afar brothætt og ég er hrædd við að stríðsástand, tortryggni og hræðsla við upplausn og sundrungu geti orðið til að mannréttindi og frelsi séu fótum troðin í heiminum. Ég er hrædd við heim sem kennir sig við frelsi en þar sem frelsið er skilgreint þröngt og bara notað um athafnafrelsi stórra fyrirtækja og fjármagnseigenda til að flytja fjármuni og vörur.

Mér finnst að þau kenningakerfi sem tókust á í uppvexti mínum og skiptu sviðsmynd heimsins með járntjaldi í austur og vestur, í kapitalisma og kommúnisma séu núna götótt og slitin og passi ekki inn í nýja sviðsmynd.

Frá árásinni á New York hef ég hugsað miklu meira um mannréttindamál og heimsfrið en áður. Ég hef líka meira velt fyrir mér hvernig hægt sé að breyta ástandinu og hvort ég sjálf geti gert eitthvað.

Auðlindir heimsins og möguleikar á góðum lífsgæðum eru ekki föst stærð sem eru þannig að ef einn tapar þá græðir annar. Auðlindir heimsins eru að miklu leyti fólgnar í sameiginlegu hugviti jarðarbúa og sameiginlegum infrastruktur þar sem þekking, hugmyndir og kunnátta flæða um heiminn og þar sem varningur dreifist um og manneskjur ferðast. Þetta sameiginlega hugvit er hins vegar ekki neinn miðlægur gagnagrunnur heldur óteljandi mörg net sem tengjast og dreifast í margar áttir, síkvik og lifandi.

Ég held að vænlegasta leiðin til að auka þennan mannauð jarðar sé að búa til og hvetja til samfélags þar sem allt flæði þekkingar er frjálst og þar sem sem flestir jarðarbúar hafa rödd og möguleika á að taka við efni og miðla efni. Sumt af því sem við erum orðin vön á að líta á sem hornsteina frjáls markaðskerfis er orðnir þröskuldar fyrir því að hið sameiginlega hugvit jarðarbúa leysist úr læðingi. Sumar reglur sem við höfum fest í lögum svo sem um eignarrétt á þekkingu og peninga sem gjaldmiðill í viðskiptum geta þar verið þröskuldar.

En ég held að þó mannauður og hugvit jarðarbúa séu mikið og geti margfaldast þá sé það ekki trygging fyrir að allir fái aðgang að þeim auðæfum að þau séu mikil. Ég held að þar sé mikilvægt að jarðarbúar hafi einhvers konar samkennd og sameiginlegan skilning á að það sé skynsamlegast, árangursríkast og farsælast fyrir alla að deila með öðrum - líka þeim sem gefa lítið í staðinn og að aðgangur að hugviti og þekkingu sé sem frjálsastur. Og ég held að mikilvægt skref í auknum skilningi á kjörum annarra sé að geta sett sig í spor annarra sem tilheyra ekki hópum sem maður er í sjálfur og líta ekki á aðrar manneskjur sem hluti á markaði, ekki sem nokkurs konar neysluvarning eða söluvöru sem hægt að kaupa aðgang að og miða ekki verðmæti annarra eftir því hve mikla þjónustu þeir geta veitt eða hve mikinn einkaaðgang að auðlindum jarðar þeir hafa komist yfir.

Hér er það sem ég skrifaði 11. september 2001:

Dimmalimm

Minningargreinar. Saga um veröld sem var, sagnalist Íslendinga nútímans. Í morgun las ég minningargreinar í Morgunblaðinu. Ég komst að því að ég hef hitt prinsessuna Dimmalimm, ævintýrapersónu úr sögu Muggs. Ekki von að ég þekkti hana aftur, hún var orðin öldruð kona þegar ég hitti hana og hún var kynnt fyrir mér sem amma hans Kjartans. Hún var jörðuð í dag og á sama tíma lauk ævintýrinu. Ævintýrinu sem ég hef lifað í fram að þessu, um heim þar sem friður og velmegun ríkir, um heim þar sem hver nýr dagur ber með sér von um betri tíð. Þegar turnarnir á ævintýrahöllinni hrundu og reykjarmistrið lagði yfir eyjuna vissi ég að því ævintýri var lokið


Hér er það sem ég skrifaði 11. september 2002

Árið eftir

Veit svo sem ekki hvað ég get sagt núna í dag þegar ár er liðið frá innrásinni í New York. Jú, get kannski rifjað upp hvernig þetta breytti mínu lífi og hvernig ég fylgist núna miklu betur með heimsmálunum og hvernig ég hef tapað traustinu - traustinu á að yfir heimi mínum vaki velútbúnir og hæfir bjargvættir og varnarflokkar ávallt til taks og í viðbragðsstöðu þegar einhver óvænt ógn steðjar að - traustinu á að heimur minn samanstandi af fólki sem spilar eftir sömu leikreglum og ég og virði það sem mér er heilagt og kært - traustinu á að þeir sem ráða yfir valdi og vopnum í heiminum líti á venjulegt fólk eins og mig sem vini og samherja þangað til annað kemur í ljós - traustinu á að áfram verði unnið að því að létta af hömlum sem ríkisvald setur einstaklingum og að létta af tálmum á ferðafrelsi, skoðanaskiptum og upplýsingagjöf.

Innrásin og eftirmálar hennar hafa haft gífurleg áhrif á líf mitt og heimsmynd mína og ákvarðanir í lífi mínu frá þeim tíma hafa verið teknar með hliðsjón af þessu. Að sumu leyti finnst mér eins og ég hafi glatað einhverju bernsku sakleysi og tiltrú - einhverju sem kemur aldrei aftur því það hafi runnið upp fyrir mér að ég hafi lifað í blekkingu og ævintýraveröld - eða kannski er ég núna komin inn í aðra og ógnvænlegri ævintýrasögu?


Þessi vefannáll sem ég hef haldið úti undanfarið ár ber líka merki frá 11. september. Hann hefur verið í svartri umgjörð frá þeim tíma, í eins konar sorgarbúningi. Nafnið Metamorphoses er líka komið frá 11. september, það er þannig til komið að ég ákvað að breyta vefannálnum miðað við hvað hefði verið efst í huga mínum og hvað ég hefði seinast skoðað og pælt í á Netinu áður en heimsmyndin hrundi. Það reyndist vera þessi sagnaflokkur Orvid um hamskipti, ég hafði verið að fletta upp sögunni um Iphis og heillaðist af Metamorphoses.


Einhvern veginn finnst mér mikilvægt hvað er í huga fólks rétt áður en örlagaatburðir gerast í lífi þess. Í dag reikaði ég um á Netinu eins og venjulega og kom inn á vefannál bandarískrar konu sem virðist búa í New York. Þetta var skemmtilegur annáll og ég fór að lesa áfram og skoða fjölskyldumyndir, líka frá bernsku hennar þar sem voru margar myndir af systkinum. Úr því það væri þessi dagur þá datt mér líka í hug að lesa dagbókina og spá í hvort atburðirnir 11. september hefðu einhver áhrif á líf hennar. Ég las það sem hún skrifaði í dagbókina sína 3. mars 2002 :
I Really don't Know What To Say
My brother killed himself last night. He was going to turn 27 years-old next month. He jumped off his building in Manhattan. His girlfriend had to identify his body. My dad called to wake me up and tell me, just like he woke me up early and told me about the planes on September 11.


Mér fannst mikilvægt að vita hvað leitaði á huga þessarar konu rétt áður en hún fékk þessar sorgarfréttir og sá að hún hafði skrifað í dagbókina 1. mars 2002 endurminningar um bernsku sína og martröð sem leitar á hana, þetta var frásögn um ungan mann sem kallaður var í Vietnam stríðið og kom stórskaddaður á sál frá þeim átökum og þegar hann eignaðist fjölskyldu gerði hann líf konu sinnar og barnanna sinna tveggja að martröð. Það er endurminning dóttur hans sem skrifuð er í dagbókina, hughrif sem leita á hana rétt áður en bróðir hennar fremur sjálfsmorð. Hún skrifar: I do still, however, I wake up in the night from terrible nightmares of someone trying to kill my family. And I know the person in my dreams is my father. I hate the Vietnam War for robbing me of my childhood, for robbing my dad out of his childhood at nineteen.

8.9.03

Dagskrá RÚV og leiðinlega fólkið



Núna er ég með RÚV á heilanum, enda virðist ekkert vera að gerast hjá Stúdentablaðinu núna og ekkert gaman að rövla um það. En ég rövla um RÚV hvar og hvenær sem er og ef fólk sem er alltaf í boltanum er í rólegheitum að tala um hvað það sé gaman að horfa á boltann í sjónvarpinu þá er ég mætt á svæðið. Og sé femíniska hlið á boltanum líka:-) Reyni að stuða fram í rauðan dauðann og það barasta gengur vel. Gaman að láta umræðu sem snerist um íþróttir í sjónvarpinu fara að snúast um femínisma. Líka ef fólk keyrir svona eða hins segin, það er líka femíniskt.

Þetta eru kveðjurnar sem ég fékk hjá einum á malefnin.com í gær:

"Aftur á móti hafa engir, nema fáeinar sérdeilis afundnar vælukerlíngar, áhuga á einhverjum sænskum grátkerlíngafemínismasósíalismafasisma. Þú, Salvör, verður bara að bíta í það súra rassgat að dagskrá sjónvarpsins er ekki sniðin fyrir ykkur, leiðinlega fólkið.
"
viðbót: RÚV gerði heimsókn Margaretu Winberg afar vel skil í sunnudagsfréttum sjónvarps og Kastljósið þar var líka tileinkað komu hennar. RÚV er bara fínt!!!

7.9.03

Fjölmiðlar og fjölbreytileiki


Ég er mikið að spá í fjölmiðla þessa daganna, sérstaklega hvernig eða hvort þeir muni breytast núna með hinu netvædda þekkingarsamfélagi og þessari innsprengingu sem ég fatta kannski einhvern tíma út á hvað gengur... Ég er líka að spá í svona "Í fréttum var þetta helst..." og hver ákveður hvað er fréttnæmt og fyrir hvern eru fréttirnar skrifaðar og í hvers þágu. Mér finnst gaman að bera saman þessa miðstýrðu einstefnumiðla eins og RÚV og hið óformlega flæði frétta og upplýsinga og skoðana í samfélaginu, sérstaklega á Netinu. Er ég ein um að finnast RÚV vera innhverf stofnun sem flytur bara fréttir af því sem fólk (lesist þeir sem stjórna vilja segja þeim sem er stjórnað) vill heyra? Sjónvarpið hefur ekki að ég best veit fjallað neitt um þann boðskap sem Margareta Winberg varaforsætisráðherra og jafnréttisráðherra Svíþjóðar flutti okkur á tveim mjög velsóttum fundum en hún kom hingað í boði ellefu íslenskra kvenna- og jafnréttishreyfinga.

Ég átti von á frétt þar um málið í gærkvöldi og beið og beið eftir að einhverjum íþróttaleik lyki og horfði á allan fréttatímann en þar kom ekkert um heimsókn Margaretu. Samt var heilmikið frétt um nokkur ungmenni sem höfðu verið að elda hrefnukjöt fyrir framan grínpís skipið. Svo fannst mér eftir öðru þegar næst á dagskrá var Gísli Marteinn á laugardagskvöldi og þar var fyrsti viðmælandi hans Jónas er annar fjölmiðlamaður sem vinnur á sama stað og hann og er þekktur líka fyrir viðtalsþætti og hvað voru þeir að tala um? Jú Gísli Marteinn var að spurja eldri fjölmiðlamanninn hver væri galdurinn við að vera svona góður í að tala viðtöl. Gísli sagði m.a. eitthvað á þessa leið við viðmælanda sinn: "...þú hefur eitthvað lag á því að fá fólk til að opna sig.... þú hefur sagt mér hérna á göngunum.... faðir þinn var fyrsti útvarpsstjórinnn...."

Ég veit að þessi þáttur "Laugardagskvöld með Gísla Marteini" er ekki fréttaþáttur en þetta er afþreyingar og spjallefni sem RÚV býður okkur upp á. Báðir þessir fjölmiðlamenn Gísli Marteinn og fyrsti viðmælandi hans eru afbragðsgóðir og áheyrilegir og ég er ekki að gagnrýna þá sem fjölmiðlamenn. Það sem ég er að benda á er að það er einum of auðvelt að taka bara viðtöl við vini sína, samherja og vinnufélaga og þá sem maður hittir á göngunum og ef starfsfólk á ríkisfjölmiðli eins og RÚV er valið inn með ansi einsleitan vinahóp og jafnvel ansi einsleitan pólitískan bakgrunn þá eru þær raddir sem þar heyrast ekki að bergmála samfélagið.

Ég held að ein skýringin á slæmu gengi kvenna í síðustu kosningum hafi verið hve ósýnilegar konur voru í þjóðmálaumræðu og hve greiðan aðgang ákveðnir hópar ungra manna áttu að hinni sýnilegu þjóðmálaumræðu sem fór fram m.a. viðtalsþáttum í sjónvarpsmiðlum. Og það hafa margir fræðingar bent á að þegar konur eru sýnilegar í þjóðmálaumræðu m.a. reyndar stjórnmálakonur þá var það á annan hátt en karlar. Þeir Gísli Marteinn og Jónas ræddu m.a. um þörf fólks við að láta hlusta á sig. Það er galdurinn við að vera góður spyrjandi í spjallþætti að kunna að hlusta á fólk og leyfa því að tala. Og það er galdurinn við að vera góður ríkisfjölmiðill í lýðræðisríki að kunna að hlusta á samfélagið og skynja samfélagsbreytingar og leyfa þeim sem búa í samfélaginu að tala og láta umræðu og fréttir endurspegla þann fjölbreytileika sem býr í samfélaginu.

6.9.03

Myndir frá fundi femínista með Margaretu Winberg



Ég fór í morgun á fundinn á Grand Hótel með varaforsætis- og jafnréttisráðherra Svíþjóðar Margaretu Winberg enda er ég mikill aðdáendi hennar og hin femíniska stjórn í Svíþjóð er fyrirmynd heimsins um þessar mundir. Tók nokkrar myndir á fundinum og þegar Margareta tók við gjöf frá Femínistafélaginu en það var svona bolur með slagorðinu "Cogito ergo feminista sum" eða "Ég hugsa - þess vegna er ég femínisti". Hef sett myndirnar inn á femínistavefinn.

4.9.03

Magnús á heimleið


Vonandi er Magnús núna í Uzbekistan og á leiðinni til Þýskalands. Hann hringdi í gær, er væntanlegur til Íslands á sunnudagskvöldið. Ég er smeyk við þessar ferðir, tveir mannskæðustu atburðirnir í ISAF á þeim tíma sem Magnús hefur verið þarna eru þegar flugvél með spænskum verkfræðingum á heimleið hrapaði og þegar sprengjuárás var gerð á rútu með þýskrum hermönnum sem var á leið út á flugvöll. Annars held ég að Magnús þurfi einhverja endurhæfingu inn í íslenskt samfélag þegar hann kemur heim, hann er farinn að hugsa undarlega og mikið snýst um stríð og stríðsvopn. Vissi ekki til að hann hefði nokkurn áhuga á byssum og vígvélum áður, hans helstu áhugamál áður en hann fór voru skógrækt og ferðalög og gönguferðir um hálendi Íslands. Breytist fólk svona í stríði og hermennsku?

Á eftir að setja fullt af myndum og frásögn hans á vef en hér er eitthvað
Myndir 4
Myndir 5
Myndir 6

3.9.03

Myndir af femínistum á Hittinu


Setti á vefinn slatta af myndum af Hittinu 2. september.






Þetta er góð hugmynd og framtak að hafa svona Hitt á kaffihúsi/bar. Eina sem var að er að það var dáldill kliður frá neðri hæðinni á Sólón og fyrst hafði sá sem var í bleiku pontunni ekki mæk. Það er nauðsynlegt að hafa hljóðnema og hátalara ef maður ætlar að ná til fólks.

Hittið er staður og stund…

…til að fá umræðu af stað
…til að varpa fram spurningum
…til að vera í góðum félagsskap
…til að bjóða nýliða Femínistafélags Íslands velkomna
…til að kynna niðurstöður rannsókna sem snúast um jafnréttismál
…til að kynna útskriftarverkefni sem snúast um jafnréttismál
…til að flytja ræður um femínisma og jafnrétti hér heima og erlendis
…þar sem femínistum er velkomið að tjá sig
…þar sem fólk úr stjórnmálum og viðskiptalífi getur komið og kynnt sér mál sem
snúast um jafnrétti og femínisma
…þar sem okkur gefst tækifæri til að sjá andlitin á bak við nöfnin á netinu
…fyrir starfandi hópa innan félagsins til að hittast, kasta fram hugmyndum og
bralla eitthvað skemmtilegt og bráðnauðsynlegt.

Húsfyllir á Hittinu


Fyrsta Hittið var hjá Femínistafélaginu í kvöld 2. sept á Sólón. Það var troðfullt. Andrea Róberts hefur skipulagt þetta og kom með bleika pontu fyrir alla sem vildu tjá sig. Flestir viðstaddir voru samt meira fyrir að tala við mann og annan þannig að eftir ræðuhöld var fólk bara að spjalla saman. Það er líka tilgangurinn. Katrín sagði frá starfi félagsins og Kristín Ástgeirs frá evrópsku ráðstefnunni. Það er meiningin að hafa Hittið alltaf fyrsta þriðjudagskvöld í mánuði á 2. hæðinni á Sólón. hér er mynd af Katrínu í bleiku pontunni sem var vígð á fyrsta Hittinu.

2.9.03

Mörg blogg blogga um blogg


Get ekki hugsað djúpt núna. Held að ég þoli ekki mergjaðra vefefni en bloggfyrirsagnir. Þær eru líka svo krassandi núna. Margar eru blogg um blogg. Eru þetta samantekin ráð?

Þessar bloggfyrirsagnir eru á molunum þessa stundina:
Nú skal bloggað.
Vísanablogg
Ég er komin úr bloggfríi sem stóð í nokkra daga
Eftir að hafa másið og blásið bloggið mitt næstum um kolll..
Gamlar bloggminningar


Svo tíndi ég nokkrar setningar úr bloggbloggunum:
"Nú skal bloggað. Hef fengið nokkrar kvartanir síðustu daga vegna bloggleysis og nú skal reynt að bæta úr því: "....".Hvađ varđar fyrri ummćli mín um ađ nenna ekki bloggúthaldi, ţá hef ég tekiđ ţá ákvörđun ađ halda ţví áfram" .... "Er að gera tilraun með vísanablogg í síðustu færslu. Vísanablogg kalla ég blogg þar sem fyrst og fremst er vitnað í og vísað á aðrar síður."....." Ég er komin úr bloggfríi sem stóð í nokkra daga. Bloggheili minn var sem eyðimörk og guðleg andagipt víðs fjarri" ... "Nýkomnir aftur í leitirnar og leitarvélarnar, tveir fyrstu mánuðirnir sem ég bloggaði" ......" Netið hrökk í gang á görðunum."

Þetta blogg tekur líka trendið lengra, þetta er blogg um blogg annarra um blogg. Það hlýtur að vera til í bókmenntafræðinni eitthvað orð yfir svona blogg um blogg eða tal um tal. Líka um blogg um blogg um blogg. Þegar miðillinn er inntak í sjálfu sér. Rósamál. Endurspeglast líka í orðum um blogg s.s. bloggleysi, bloggúthald, vísanablogg, bloggfrí, bloggminningar.
p.s. ég vann. það eru þrjú blogg í fyrirsögninni hjá mér.:-)

31.8.03

þekkingareinokun


Ég var áðan að hlusta á Kastljósið í RÚV, það var svona týpisk fjölmiðlar-um-fjölmiðla umræða og þar var Elín fréttastjóri á RÚV að tala við Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóra EV og Magnús Hreggviðsson forstjóra Fróða og Árna Snævar sem var til skamms tíma fréttamaður á Stöð 2. Þarna voru sem sagt fulltrúar úr tímaritabransanum, sjónvarpsbransanum og dagblaðabransanum að pæla í því hvort eigendur hefðu eða ættu að hafa áhrif á fjölmiðlunina. Enginn var náttúrulega frá netbransanum enda er ekki litið á hina óformlegu orðræðu þar sem fjölmiðlun - það sé í besta falli slúður og óánægjutuldur og í versta falli skrílslæti. Hvers vegna er netmiðlunin ekki tekið með þegar rætt er um fjölmiðlun og þróun og áhrif eigenda á fjölmiðlum? Af því hún er eigendalaus? Af því hefðbundnu fjölmiðlarnir hafa ekki trú á þessum miðli og sjá ekki framþróunina þar? Af því ennþá eru svo fáir sem netmiðlunin hefur áhrif á? En alla vega get ég ekki séð annað en svona fjölradda miðlun þar sem allir tengjast í alla verði stór hlutur af framtíðarmiðlun.

Í Kastljósinu var rætt um áhrif eigenda á sjálfstæði fréttastofa. Sem einn af yfir 250 þúsund eigendum RÚV finnst mér völd mín og áhrif á dagskrána þar vera sárgrætilega lítil. Hef ég þó ýmsar skoðanir á því hvernig mætti bæta þá stofnun. En ég þeir sem fara með umboð mitt þar þ.e. stjórnvöld hafi mikil áhrif og RÚV sé ákaflega fylgispök stjórnvöldum og stundum án þess að taka eftir því, stundum er eins og "...í fréttum var þetta helst.." sé upptalning á því sem stjórnvaldið var að gera og viðtöl við ráðamenn eða þá sem hafa mikla viðskiptahagmuni af að selja vörur eða þjónustu.

En ég hef ekki næstum eins miklar áhyggjur af fjölmiðlum á Íslandi og af því sem er að gerast í höfundarréttarmálum í heiminum. Á morgun 1. september átti að greiða atkvæði um hugverkalög sem margir þar á meðal ég telja mjög hamlandi fyrir framþróun á Netinu. Hér er hægt að skrifa undir áskorun til Evrópskra stjórnvalda um frelsi frá höfundarrétti á hugbúnaði. Annars er gaman að sjá að aktívistar í Evrópu nota WIKI vef eins og AEL (á ensku Association for Electronic Freedom). Ég prófaði að skrifa eitthvað inn í ævingasvæðið (sandbox). Reyndar prófaði ég líka að setja upp wiki hjá SeedWiki. Það eru alltaf að sjást fleiri og fleiri dæmi um wiki. Uppástungur fyri íslensk orð yfir WIKI t.d. KVIKI eða VITKI eða KVIKA - orð sem lýsa að það er fljotlegt að setja þar inn síbreytilega þekkingu.

30.8.03

Hjól, tölva og útsýni á Esjuna


Nú er ég búin að fá mér hjól og nýja tölvu. Hjólið er voða flott með dempurum að framan. Fór út að hjóla í dag. Maður kemst miklu hraðar yfir á svona hjóli en gangandi. Varðandi tölvu þá keypti ég turn frá Tölvulistanum bætti við minni (er með 1 GB ) og dvd/d drifi og lét setja í hljóðlátari viftu. Langaði til að kaupa dvd skrifara en það virðast vera tveir staðlar í gangi svo ég er ekki viss um að það sé rétti tíminn núna. Tékka aftur á því eftir einhverja mánuði. Er núna með cirka fimm tölvuræksni hér heima. Erfitt að henda gömlum tölvum...

Er að flytja inn í nýju skrifstofuna sem er í listgreinahúsi Kennó í Skipholti. Það er örstutt fyrir mig að hjóla þangað. Ég sé Esjuna og svolítið út á Sundin úr glugganum. Var áður með skrifstofu sem glugga þar sem ég sá bara í húsagafl en sá gafl breyttist reyndar í listaverk. En af skrifstofuhæðinni var þó flottasta útsýni í Reykjavík, yfir kvosina og út á Arnarhól og Sundin. Samstarfsfólkið á gamla vinnustaðnum bauð mér í vín og osta á fimmtudagskvöldið til að kveðja mig, frábært samstarfsfólk og merkilegt verkefni sem ég vann í. Fínn tími þar og tími mikilla umskipta bæði í mínu lífi og í heiminum. Held það sjái ekki fyrir endann á því, veit ekki hvort ég get spáð fram í tímann, alla vega hefði ég ekki getað séð fyrir árið 1999 að árás yrði gerð á New York 2001 og að Magnús yrði hermaður í þýska hernum í Afganistan 2003.

En semsagt ný öflugri tölva, reiðhjól og skrifstofa í listgreinahúsi. Tímamót. Vonandi meiri áhersla á listir og mannrækt og umhverfismál og heilsu.

Annars er ég soldið montin hvað ég fæ margar beiðnir um að fá að nota ljósmyndir þessa daganna. Íslenskt tímarit bað um myndir sem ég hef tekið af femínistaviðburðum, svo var hringt í mig áðan og erindið var að einhver bandarískur maður sem ætlar að fara að gefa út bók um gay túrisma á Íslandi hafði fundið mínar gaypride myndir á vefnum og hafði áhuga á að fá myndir frá mér og semja við myndrétthafa. Mér finnst gaman að taka ljósmyndir en mér finnst skemmtilegast samt tjá mig bæði með myndum og texta.

Ásta Björg var að hringja og segja okkur að hún kæmist áfram í Idol keppninni. Hún flaug að vestan til að taka þátt í einhverri keppni sem var í morgun og komst áfram. Það eru víst bara rúmlega hundrað af fjórtán hundruð sem komust áfram.

28.8.03

Fólk í forgrunni





Myndir af Kristínu á Louisiana listasafninu í Danmörku

Ég vaknaði eldsnemma í morgun, keyrði Óðinn út á Loftleiðir um fimmleytið því hann er að fara til náms í Kaupmannahöfn. Hann fer í mastersnám í "biological engineering" minnir mig að hann hafi sagt. Ég setti á vef fyrsta hlutann af myndunum frá sumarfrísvikunni okkar Kristínar í Danmörku, þetta eru myndir frá ferð okkar í Louisiana listasafnið í Humlebæk og reyndar ein mynd af þegar við heimsóttum Ringstedlund sem var heimili Karenar Blixen. Ég er orðin svo leið á hefðbundnum myndaalbúmum og ákvað að gera einhverja tilraun með myndvinnslu - nota einhverja photoshop filtera. Kveikjan að þessu myndaalbúmi er líka verk Roni Horn, hún gerði bók sem heitir held ég "you are the weather" allt með myndir af sömu manneskju í mismunandi veðri. Ég ákvað að taka myndir af Kristínu fyrir framan listaverk mismunandi listamanna og spá í samspil listaverksins sem er bakgrunnurinn og manneskjunnar í forgrunni. Hvort það rynni eitthvað saman. Hvort listaverkið hefði áhrif á hvernig maður sér fólkið í forgrunni. Þetta er líka svona leikur með túristamyndir. Túristamyndir eru nefnilega ótrúlega skemmtilegar, túristinn er oft svo eins og uppstilltur aðskotahlutur.

Annars finnst mér maður geta bara búið til list úr öllu. Ég tók mynd af fótunum á mér þegar útbrotin voru sem mest út af mýbiti eða hvað sem það nú var.
Myndasýning Louisiana listasafnið