Vængstýfðir englar

Skrýtið með ríkissjónvarpið sem er svona opin einstefnuháhraðagátt inn á hvert heimili í landinu, það er eins og það sé langt á eftir tímanum og það sem endurkastast þaðan inn á heimilin er löngu hætt að vera veruleiki og orðið sögulegur fróðleikur. Það verður þannig til notaleg fjarlægð sem gerir manni kleift að sjá annað sjónarhorn á þeirri sögu sem einu sinni var samtíminn. Það gerðist núna um jólin þegar sýndar voru í sjónvarpinu tvær íslenskar kvikmyndir Englar alheimsins og 101 Reykjavík. Ég hef lesið báðar bækurnar sem myndirnar byggja á og séð báðar myndirnar áður. Bara ekki á sama tíma og ekki tengt þær sérstaklega saman. Samt eru þær framleiddar á á svipuðum tíma og sama fólkið kemur að gerð þeirra. Að horfa á þær núna aftur varð til þess að það rann upp fyrir mér hversu líkar þessar myndir eru.

Báðar eru þær sagðar frá sjónarhóli ungs karlmanns og áhorfendur fylgjast ekki með honum utan frá heldur eru inn í huga hans og sjá heiminn með augum hans, hann er líka sögumaðurinn. Ég veit ekki hvort eigi að kalla þetta þroskasögur, aðalpersónurnar Páll og Hlynur eru andhetjur og báðir öryrkjar og útlagar sem samlagast ekki einhverju sem þeir skynja sem eðlilegt lífshlaup. Þeir eru ekki einfarar, í báðum myndum er dregnar upp skýrar myndir af þeim í félagahópi, eins konar gengi sem brallar ýmislegt saman og hefur sérstaka ritúala sem þjappa hópnum saman. Páll er í Klepparagengi þeirra sem hafa verið grafnir lifandi og Hlynur er í Kaffibarsgengi þeirra sem halda að þeir ráði því hvort og hvenær þeir eru grafnir lifandi. En félagar þeirra beggja eru auðnuleysingjar og utangarðsmenn og þeirra heimur er þröngur, eins konar fangelsi og fangaverðir þar eru þeir sem vilja þröngva þeim á rétt spor í lífinu, hvort sem það eru geðlæknar á Kleppi, starfsfólk á atvinnuleysisskrifstofu eða foreldrar.
Utan um hinn þrönga heim þeirra hvort sem það er á hælinu eða á Netinu/barnum/miðbænum þá er annar heimur svona úthverfalíf sem þeir eru engir þátttakendur í. Báðir eiga þeir umhyggjusama fjölskyldu sem þeir nærast á og traðka á. Í báðum myndum er ein sögupersóna tannlæknir á jeppa sem tákn um velgengni í heimi þeirra sem fylgja rétta sporinu. Í báðum myndum fara sögupersónur í heimsókn að Háskóla Íslands en eru þar utangátta, þeirra ritverk finnast ekki þar og græn lesljósin eru þeim framandi. Stúlkurnar Hófi og Dagný sem sögupersónurnar Hlynur og Páll eru í tygjum við eru báðar af öðrum meiði en þeir og eru fulltrúar borgaralegra gilda sem þeir fyrirlíta og hæðast að og geta ekki eða vilja ekki lifa eftir. Stúlkurnar koma báðar úr velstæðum fjölskyldum og eru á framabraut, Dagný notar Pál sem leikfang um tíma og kastar honum frá sér en gefið er í skyn að Hófí vilja hneppa Hlyn í fjötra og gera hann að húskarli í sinni þriggja herbergja íbúð.
Þeir eru báðir í hópi þeirra sem ríkið þarf að ala þá en þeir eru ólíkir því að Hlynur er iðjuleysingi af eigin hvötum, það er eins konar lífsstíll og töff tískustefna "slaaker" að vera eitt stórt núll. Hann er hrokafullur, forðast ábyrgð og heldur að með honum sé borgað meðlag og hann einhvern veginn eigi líka rétt á því. Á meðan Hlynur telur sig hafa vilja til að vera eða vera ekki, fylla sig af vímuefnum og tortíma sjálfum sér eða gera það ekki þá getur Páll ekki stjórnað lífi sínu og huga, hann er fylltur af lyfjum og getur engu ráðið um örlög sín. Nema dauðanum.
Páll er kviksettur í myndinni, hann er grafinn lifandi með þeim sem hugsa öðruvísi, þeirra sem eru með "brenglað veruleikaskyn". Báðir eru þeir barðir niður og blóðgaðir í myndinni, Páll á skyndibitastað af öðru utangarðsfólki sem ásælist hamborgarann hans og Hlynur á klósetti á bar af bróður Hófíar.
Það er freudísk undiralda og upplausn kynhlutverka í 101 Reykjavík og myndin snýst mikið um kynlíf. Orkuboltinn og spennugjafinn í þeirri mynd er hin utanaðkomandi ástkona sem seiðir bæði móður og son. Söguhetjan Hlynur er dauðyfli, hann er mattur og framtakslaus. Það er sálarlíf Páls sem er krafturinn og sveiflan í Englum alheimsins, svona ofursál sem lætur ekki að stjórn og verður ekki hamin og bælt niður nema með deyfilyfjum.
Þeir tortíma báðir sjálfum sér í myndinni og það er eitthvað líkt með þeim atriðum. Páll hefur sest upp á syllu á hæstu hæðinni í öryrkjablokkinni og hann hefur sig til flugs úr því fangelsi sem líf hans er en þó hann sé einn af englum alheimsins þá virka vængirnir ekki og hann hrapar til jarðar þegar hann kastar sér fram af svölum. Hlynur gengur í jökulinn og ætlar að krókna í hel, hann er orðinn að fuglsunga, einhvers konar ófleygum bastarði, afkvæmi tveggja annarra fugla alka og lesbíu en hann endurfæðist á einhvern hátt með barninu sem ástkona móður hans elur, hann hefur náð að klóna sjálfan sig og myndin endar á senu þar sem Hlynur og sonur hans busla í baði, og njóta umhyggju kvennanna eins og barn sem hefur fengið tvo misstóra líkama og tvær mæður. Er nokkuð sáttur með sig og hefur fundið tilgang sinn í lífinu. Að vera sæðisgjafi og njóta umönnunar.
Báðar þessar kvikmyndir eru sögur um samtímann eins og hann var á Íslandi um aldamótin síðustu.
Slóðir:
Ópið í óreiðu listarinnar
Kvikmyndagagnrýni Ólafs H. Torfasonar um 101 Reykjavík
Gagnrýni um 101 Reykjavík