30.4.01

Hamlet er linur



Kíkti inn á Kvikmyndaþingið í háskólabíó á laugardaginn. Náði bara dagskránni eftir hlé og átti stundum erfitt með að halda mér vakandi. Ekki af því það væri leiðinlegt, nei síður en svo, heldur var bara ekkert í umhverfinu sem var myndrænt og gat haldið athygli minni. Það er svo erfitt að hlusta á fyrirlesara í einu horni á risastórum bíósal þar sem allt umhverfið miðar að því að sýna myndir. Sérstaklega ef svo fyrirlesararnir eru að tala um kvikmyndir það eins og undirstrikaði myndleysi og hreyfingarleysi þessa kvikmyndaþings. En fyrirlestrarnir sem sagt fjölluðu um hvernig bók er breytt í kvikmynd.

Eitt áhugaverðast og það sem ég vissi ekki áður var að sögupersónan Hlynur (linur) í 101 Reykjavík er eftirmynd Hamlets. Meira að segja nöfn á sögupersónum eru teknar úr leikritinu fræga og staðfærð þannig verður Ofelia að Hóffý osfrv. En bæði þessi verk sækja svo frumefnin í goðsögnina grísku um Ödipus þó efnistök séu ólík. Þessu sagði Geir Svansson frá og hann er líka einn aðalsérfræðingur landsins í hinseginfræðum.

Sem sagt 101 Reykjavík er ekki saga um landeyðuna Hlyn sem sullast áfram í ketheimi og netheimi heldur er þetta djúpristandi listaverk sem sprettur upp úr heimsbókmenntunum.

Minnislisti
Lesa 101 Reykjavík aftur (nýjar upplýsingar hafa komið fram)
Lesa Njálu.
Lesa Hamlet.
Lesa Flögð og fögur skinn.

Þúfnabaninn ryðgar niður


Bændaskóli verður að landbúnaðarháskóla

Fór í Borgarfjörð um helgina. Var í Stafholtstungum en svo fórum við líka að heimsækja skagfirska bóndasoninn Óðinn á Hvanneyri en hann stundar þar nám. Þár er ekki bændaskóli lengur heldur er skólinn að færast yfir á háskólastig og heitir Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Óðinn stundar nám á landnýtingarbraut en svo segir á vefsíðum skólans: "Í landnýtingu er hin óbeislaða náttúra viðfangsefnið þar sem maðurinn uppsker á forsendum náttúrunnar. Þá er vistkerfum ekki umbylt, heldur haldið sjálfbærum og lítt breyttum. Í ræktunarbúskap er þessu öfugt farið. Þar er markmiðið að umbreyta kerfinu með hámarksafrakstur í huga og veruleg orka lögð til kerfisins til að svo megi vera."

Þetta er svolitið skemmtilegt. Er verið að kenna í gömlu bændaskólunum eitthvað sem er andstæðan við ræktunarbúskap? Hvað er átt við með ræktunarbúskapur? Ég held að um þúsundir ára hafi landbúnaður óg akuryrkja verið stunduð víða um heim á sjálfbæran hátt en samt verið markmiðið að fá sem mestan afrakstur. Það er hins vegar bara á seinustu öldum sem menn hafa svo öflug verkfæri að það er mögulegt að umbylta landinu á örskömmum tíma. Á Hvanneyri er búvélasafn og fyrir utan það eru nokkur forn landbúnaðarverkfæri og eitt þeirra var stórfenglegur þúfnabani sá eini sem hefur varðveist af svona vélum sem fluttar voru til landsins um 1925. Þetta er gríðarstór beltavél sem hefur ætt yfir mólendið og spænt upp þúfurnar svo hægt væri að breyta öllu í rennislétta akra.

Rúllubaggar

Það var á Hvanneyri sem ég sá fyrst hvítu plastpokana. Það var árið 1987 minnir mig og ég tók ljósmyndir af þessu furðulega fyrirbæri, risastórum skjannahvítum snjókornum um hásumarið. Frá Hvanneyri breiddist þetta um landið og nú er víða verkað hey í plastpoka og bændur hafa keypt rúllubaggavélar og traktora sem eru nógu stórir fyrir þær og um hásumarið eru núna tún í öllum íslenskum sveitir þaktar þessum glansandi haglkornum.

Þegar ég velti fyrir mér hvernig staðan er í sambandi við íslenskan landbúnað þá finnst mér ekki aðalvandamálið vera hve mikið landinu er umturnað og umbylt. Þvert á móti virðist mér um allar sveitir land sem áður var tún sem borið var á núna vera einhvers konar beitarland. Svo held ég að það sé frekar lítið um það núna að mýrar séu framræstar og reyndar heilmikið gert í sambandi við endurheimt votlendis. Ástæðan held ég að sé fyrst og fremst hve afurðir landsins (hey) eru verðlitlar í dag. Úrgangur frá landbúnaði og óhófleg notkun á áburði og eiturefnum er vandamál landbúnaðar víða um lönd en það eru önnur vandamál brýnni í íslenskum landbúnaði. Það er beitin.

Beitin

Eftir því sem mér skilst þá eru stærstu eyðimerkur í Evrópu á Íslandi, þar eru gífurlegar svartar sandauðnir og erlendir ferðamenn koma hingað og hrífast af eyðingarkröftum náttúrunnar. En eyðimerkurnar og landeyðingin á Íslandi er ekki fyrst og fremst verk eldsumbrota heldur afleiðing af þúsund ára beitaráþján sem er meiri en landið þolir en eyðingin verður samt svo lítil og hægfara að hver kynslóð tekur ekki eftir henni.

Það er óheft og of mikil beit sauðfjár og hrossa á afréttum sem er mesta plágan varðandi íslenska náttúru í dag. Og það er lausaganga sauðfjár sem er versti óvinur allra þeirra sem vilja að landið verði víði vaxið. Hvað er hins vegar náttúrulegra og sveitasælulegra en hrossastóð og lambær á beit í fjallalöndunum?

Landbúnaður á heimskautasvæðum

Mér finnst spennandi að bændaskólarnir séu að breytast svona og vona að þar verði tekið á vandamálum sem eru sérstök fyrir Ísland og íslenskan landbúnað og viðkvæmt vistkerfi nærri heimskautsbaug en ekki eingöngu þeim vandamálum sem einkenna landbúnað í nágrannalöndum. Öll aðstaða nemenda virðist vera góð á Hvanneyri, nemendur í háskóladeildum búa í litlum húsum með sjö herbergjum og hafa sameiginlegt eldhús og setustofu. Umhverfið er fallegt þarna á bökkum Hvítár og margir nemendur eru með hesta með sér. Svo hafa nemendur hraðvirka sítengingu við Internetið í herbergjum sínum og ferðin í bæinn er ekki nema þrjú korter. Sem sagt frábært námsumhverfi þarna í Borgarfirðinum. Þetta hlýtur samt að vera einn minnsti háskóli landsins núna eru víst bara um þrjátíu nemendur á háskólabrautinni. Ég held líka að landbúnaðarskólarnir séu einir dýrustu skólar landsins þ.e. ekki fyrir nemendur þar (sömu skólagjöld og í HÍ) heldur á því sem Ríkissjóður kostar til. Það eru löngu liðið að eingöngu séu karlmenn í þessum skólum nú er meirihluti nemenda konur.

Eftir heimsóknina á Hvanneyri fórum við aftur í Arnarholt í Stafholtstungum og þar var um kvöldið fyrsta grillhátíð sumarsins. Komum í bæinn um miðnætti.



28.4.01

Ég er heili í hulstri


Ég er heili í hulstri og þessi vefleiðari er einkahjúpur minn. Komst að þessari niðurstöðu áðan þegar ég las greinina Ég er hulstur um heilann eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur í lesbók Morgunblaðsins í dag. Sigurbjörg fjallar þar um tíðarandann í aldarbyrjun og heimfærir orð menningarfræðingsins Baudrillard upp á Ísland í dag. Það var ýmislegt í þessari grein sem fékk mig til að hugsa og tengja saman hluti eins og að horfa á sjónvarp í stofu, fjarstýringar á vélum og tækjum, skynjun á líkama og tíma. Svolítið erfitt að kyngja sumu í greininni t.d. þessu: "Fyrst tekur Baudrillard sem dæmi nærveru sjónvarps og bendir á hvernig hún breytir afganginum af heimilinu í umslag eða fornminjar..."

Sigurbjörg segir: "Þegar ekki þarf lengur að nota líkamann til burðar, framkvæmda, erfiðis og handavinnu verður hann himinhrópandi gagnlaus og "fyrir" í ýmsum skilningi. Of fyrirferðarmikill til að burðast með og mætti út frá því fara út í viðamiklar hugrenningar um megrunaráráttu nútímamannsins. Kannski er það vegna þess hve líkaminn er óþarfur sem slíkur, með alla sína vessa, vefi, líffæri og fituforða, að fólk fyllist smám saman viðbjóði á því að þurfa að búa í honum. Kannski er það af þessum sökum sem við förum í fitusog, húðstrekkingar og Trimform. Líkaminn er nefnilega ekki orðinn annað en hulstur utan um heilann þar sem allt fer fram sem máli skiptir."

Hér fer ég að hugsa um hve mikið sú fegurðarímynd líðandi stundar sem ég skynja úr kvikmyndum, sjónvarpi og blöðum er mikið til sneytt öllu því sem minnir á grósku, hold, blómgun og frjósemi. Þessi fegurðarímynd er frekar svona Drakúlaleg, skinn á beinum þar sem sjá má móta fyrir beinagrindinni undir og svipurinn er soltinn. Það er reyndar tvennt í fegurðarímynd kvenna sem mér finnst ekki stemma við þetta og það er munnur og brjóst. Hvers vegna stórir munnar og svona stór brjóst á holdskörpum, grannvöxnum líkömum?

En mér finnst skemmtilegt að hugsa um megrun sem eins konar tilraun heilans til að tempra vöxt á því hulstri sem umlykur hann og það að reyna að tempra vöxt er í raun tilraun til að deyða.

Huldufólk kveður sér hljóðs



Undir háa hamrinum
býr huldukona.
Það veit enginn Íslendingur
annar en ég hve vel hún syngur.

Þetta stef ómar í huga mínum núna en ég heyrði það kveðið og sungið í kvöld.Þetta var líka dagur huldufólks og týndrar menningar í lífi mínu.

Í morgun svaraði ég bréfi frá Forn Sed í Noregi og gaf þeim góðfúslegt leyfi til að nota það úr safni mínu af ljóðum um álfa ´sem ekki væri höfundarréttur hjá einhverjum öðrum. Forn siður er viðukennd trúarhreyfing í Noregi og eru í söfnuðinum um 60 manns og eru þar í forsvari menn íslenskir. Ég held að Forn siður sé ekki ásatrú frekar svona sambland af vætta-, ása- og þjóðtrú. Þeir eru að fara að opna nýjan þjóðfræðavef með norsku og íslensku efni sem ég held að verði mjög góður.

Sé það samt fyrir mér sem þátt í endalokum á mínu safni að stór hluti þess endurritist í öðrum söfnum sem hafa annan tilgang. Á vefnum er ekki hægt að sjá hvað er frumgerð og hvað er afrit. Eftir því sem fleiri afrit og endurgerðir verða til á vefnum þá verður ósýnilegri sú vinna sem ég lagði í frumgerðina - að vinna hugmyndina og að safna saman og slá inn þessi ljóð og vinnan við að pæla í gegnum ljóðabækur. Ég held að það sé einkenni vefverka að þau leysist upp, sérstaklega ef þar er inntak sem aðrir hafa áhuga á. Þá eru verkin eða hlutar þeirra endurrituð og endurrituð aftur og þannig verður frumgerðin smám saman ógreinanleg frá afritum.

Annars fór dagurinn mest í að rýna í rúnir og tákn og finna þar merkingu og mynstur. Þessar nútímarúnir voru tölur og súlurit og kökurit. í kvöld fór ég á samkomu í kvæðamannafélaginu Iðunni og gekk þar formlega í félagið. Tveir félagsmenn mæltu með mér en það voru Ólína Þorvarðardóttir og Magdalena Thoroddsen. Ég tók með mér þrjár smámeyjar á samkomuna í þeirri von að þær yrðu kvæðamenn í framtíðinni eða alla vega í svona rímnaflæði með þjóðlegu ívafi. Félagsmenn í kvæðamannafélaginu eru nokkuð við aldur og kynntust þær einni konu sem þarna var stödd sem er 92 ára. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og nýstárlegt, stökur og kvæði fengu allt aðra og dýpri merkingu og vídd þegar þau voru sungin eða kveðin af tilfinningu. Það voru bæði einstakir kvæðamenn og svo hópsöngur og kveðandi auk þess sem þarna virtust flestir vera hagyrðingar og skáld.


26.4.01

Klifað á karlmennsku



Ég var núna í hádeginu að koma af fyrirlestri hjá Rannsóknarstofu í Kvennafræðum. Þar var Ármann Jakobsson að tala út frá grein sem hann skrifaði í Skírni í vetur. Ármann var svekktur yfir að einhverjum þótti greinin hans vanvirðing við Njálu, hann er mikill Njáluunnandi og hefur lesið bókina linnulaust síðan hann var átta ára. Ármann sagði að það sýndi bara hvað fræðileg umræða um kyn væri komin skammt á Íslandi hvernig umræður um greinina voru. Hún hefði verið túlkuð þannig að Ármann héldi því fram að Gunnar og Njáll væru hommar. Það er er af og frá sagði Ármann að hann hefði haldið því fram. Eina sem hann hefði gert var að segja að flestallir í Njálu væru öfugir.

Ég hef aldrei lesið þessa Njálu, hefur verið svo fráfælandi þetta kvenhatur sem ég hef haldið að einkenndi söguna en sé núna að ég verð að lesa söguna sjálfa ekki láta mér nægja þessi slitrur og úrdrætti og orðatiltæki sem eru tekin úr sögunni. Í gegnum tíðina þá hef ég verið upptekin af öðrum sögum og þjóðsagnapersónum en þeim sem hrærast í Njálu og hef reynt að smita það viðhorf út til annarra. Gekk það nokkuð vel og t.d. hefur listamaðurinn Steingrímur Eyfjörð eftir mér í bókinni Flögð og fögur skinn svohljóðandi: "Grýla er miklu meiri partur af einhverri sameiginlegri vitund Íslendinga heldur en Njáll á Bergþórshvoli"

Hér er meira um Njálu á vefnum:
Njála - nemendur ML undir stjórn Hörpu Hreinsdóttur
Njála fyrir tvö - handrit að Galleri Njála

...klára seinna ...hef ekki tíma núna...

Ferming


Á sunnudaginn fór ég í fermingarveislu í Eggertsgötu. Það var Gísli Magnússon sem var að fermast og þar tók ég þessar myndir af fermingarbarninu og fjölskyldunni.

Ég er að æfa mig í Fireworks 4 myndvinnsluforritinu þess vegna eru allar þessar kringlóttu myndir og myndir sem hallað er á ská. Ég held að frásögn með myndum verði skemmtilegri og listrænni ef myndirnar eru ekki allar kassalaga.

22.4.01

Teiknað með tölvum



Var heillengi að laga til í þessum vef sem ég hugsa fyrst og fremst sem hvatningu fyrir tilvonandi og núverandi leikskólakennara þannig að þeim finnist áhugavert að nota verkfæri eins og tölvuteikniforrit við skapandi iðju barna. Slóðin er Teiknað með tölvum

Skemmtilegt það sem Björn hefur verið að vinna með nemendum í Hagaskóla um hreyfimyndir (sjá Hreyfimyndir )og ýmsa aðra myndlistarvefi (sjá Tölvumyndir 6. bekkja 2001), líka það sem Ásthildur var að láta nemendurna gera í fyrra þ.e. gera teiknimyndasögur í tölvu upp úr hluta Íslandsklukkunnar (sjá Íslandsklukkan myndskreytt)

Ég uppfærði líka vefsíðu um (frásagnarlist sem ég hef haldið úti síðan 1998. Fann nokkrar ansi skemmtilegar tengingar eins og frásögn af námskeiði í blaðamannaskóla þar sem nemendurnir áttu að semja frásögn á vef þar sem mynd segði stóran hluta af sögunni, ekki máttu vera meira en þrjár myndir og 500 orð, þetta er í Cardiff háskóla sem þetta námskeið var í fyrra

21.4.01

Örsöfn



Fékk hugmynd að nýju örsafni (lesist: safn sem tekur ekkert pláss) og það er að safna frægum setningum eftir íslenska stjórnmálamenn sem bera visku þeirra, dómgreind og framsýni fagurt vitni. Ennþá eru í safninu bara þetta:
Minn tími mun koma
Mafía er hún og mafía skal hún heita
Þetta er skítlegt eðli
Staða konunnar er bak við eldavélina

Þetta bætist við hin örsöfnin mín. Ég safna viðurnefnum. Ég safna uppnefnum. Sérstaklega uppnefnum af húsum og þjóðmálahreyfingum og slagorðum. Spái í hvaða áhrif svona uppnefni hafa á merkingu og hvers vegna þau breiðast út. Bætti orðinu Litaver í húsauppnefnasafnið í gær. Heyrði það notað um Píanóbarinn í Hafnarstræti.

20.4.01

Að gefa vef




Smelltu hérna fyrir sumargjöfina mína til þín!!!!



Gjafir gegna stóru hlutverki í samfélagi manna, ég held að mannfræðingar hafi rannsakað gjafir og bent á að svona gjafir sitt á hvað eru nátengdar viðskiptum, viðskipti og gjaldmiðlar þróast upp úr því að fólk skiptist á gjöfum. Hvenær gefur maður gjafir og hvað gefur maður? Ég held að flestum detti þá fyrst í hug jólagjafir og afmælisgjafir. Það eru ýmsar óskráðar reglur um hvað er viðeigandi að gefa í gjafir og hverju skal kosta til. Fáir gefa fermingarbörnum koníaksflöskur í fermingargjöf og fáir gefa ömmum sínum tölvuleiki í jólagjöf.

Fólkið í Skagafirði segir mér að hér fyrr á öldinni hafi sumardagurinn fyrsti verið einn aðalhátíðisdagur ársins. Þá tíðkast að gefa gjafir og sumarkomu var fagnað með hátíðarkaffi og allir fóru í sparifötin. Segir ekki í kvæðinu : "Á sumardaginn fyrsta; var mér gefin kista; mosóttur hrútur; og rauður vasaklútur". Þessi gjafahefð á sumardaginn fyrsta datt nú uppfyrir þangað til núna að Kringlan, bóksalar o.fl. reyna að fá fólk til að kaupa dót til sumargjafa.

Nú er altítt að við gefum bækur, geisladiska með tónlist og tölvuleiki í gjafir. Allt eru þetta gjafir sem eru mest fólgnar í inntakinu og getur það alveg verið og verður sennilega fljótlega allt á stafrænu formi. Ég er að spá í hvernig verður með þessar tegundir gjafa þegar þær eru þannig að þetta er bara allt á örlitlum minnisflögum. Svolítið klént að mæta í boð með svo litla gjöf. Hvernig eigum við að pakka svoleiðis gjöfum inn? Kannski eins og skartgripum í pínulitla kassa. Eða eins og seljendur gera nú, setja dótið í risavaxnar umbúðir og áberandi box og kassa sem eru mestmegnis fullir af lofti. Kannski ætti maður að kynna sér bókina hans Harðar Bergmanns um umbúðaþjóðfélagið.

En að öðru. Ég er farin að gefa vefi til ættingja við ýmis tækifæri. Seinast gaf ég systur minni vef og geymslu/uppfærslu fyrir hann í eitt ár í afmælisgjöf og dóttur minni vef í sumargjöf. Alveg er þetta upplagt fyrir handlagna fátæka en vefkunnandi námsmenn að gefa ættingjum og vinum vefi þegar einhver tilefni gefast. Til dæmis í sumargjöf. Ég ákvað að gefa netsamfélaginu vef í sumargjöf og það er einmitt vefur fyrir þá sem vilja gefa vefi og föndra á vefsíðum.

Mér finnst skrýtið að vefir séu ekki meira notaðir til gjafa. Ég held vefir hljóti að vera merkileg og verðmæt eign, get ekki markað annað á fréttum. Varla líður svo dagur eða þannig samkoma sett að vefsetur sé opnað við hátíðlega athöfn, einhver háttsettur styður á hnapp og gjörið svo vel - allir geta skoðað vefinn. Þetta minnir á þegar byggingar voru reistar, svona helgiathöfn eins og taka fyrstu skóflustunguna eða vígja húsið/skipið. Ég held helst að vefir séu ekki notaðir mikið til gjafa út af umbúðum. Það er svo erfitt að pakka þeim inn.

18.4.01

Greinar um annálaskrif og frásagnarlist á Neti



Blogmania 17. júní 2001 í USA Weekend
Firms underestimate power of 'blogging'
elearningpost - June 2001: Grassroots KM through blogging
Storytelling in business,storytelling in organizations,organizational storytelling
destinationCRM - Knowledge Management
JOHO - Hyperlinked Organization - Home Page (David Weinberger)
Small Pieces Public Draft (David Weinberger með bók í smíðum)

Fjörbrot bókarinnar



Núna stendur yfir einhvers konar bókavika, held þetta sé svona framtak hjá bókaútgefendum og bóksölum til að dreifa sölunni, reyna að selja eitthvað núna svo álagið sé ekki allt í desember. Ég mætti á tvennt í dag, sýningu á námsbókum í Þjóðarbókhlöðunni og ljóðaupplestur í Þjóðmenningarhúsinu í kvöld. Veit ekki hve lengi svona pappírsbækur muni verða í notkun en þegar fistölvur eða einhver afspilunartæki önnur verða góð og ódýr þá verða svona pappírsbækur eins óþjál og klunnaleg eins og að burðast með rúnasteina. Svo vil ég komast í þetta allt á vefnum. Átti tal við bókasafnsfræðing sem varaði við að eingöngu brot af vísindaritum væru á vefnum. Mér er svo sem sama, það er bara miklu líklegra að ég noti það sem er á vefnum og frekar ólíklegt að ég beri mig eftir því sem ekki er á vefnum. Eins ólíklegt eins og ég leiti upp texta á sanskrít og vesenist með að snúa þeim á íslensku. Svo les ég ekki texta, ég skima texta . Þekking sem er ekki á vefnum er ekki til fyrir mér (nema þegar ég fer til Skagafjarðar og blaða í bókum þar). Hef samt spurnir af fólki sem er alveg öðruvísi, það lifir og hrærist í heimi bókarinnar og þessi netheimur er ekki til fyrir því. Verst er að ennþá virðast flestir íslenskir rithöfundar og semjendur á textainntaki í þeim hópi.

En mér finnst eins og pappírbókarinnar bíði sömu örlög og ljósmyndafilmunnar. Það er svo óendanlega miklu hagkvæmara, ódýrara og þægilegra að hafa þetta á stafrænu formi að það verður bara fyrir einhverja nostalgiu sem fólk heldur í gamlar aðferðir eins og að prenta út texta eða myndir í stað þess að skoða á skjá. En það táknar ekki að frásögnin eða tjáningin í mynd eða orðum sé minni, hún hefur bara færst á aðra miðla. Reyndar skil ég ekki í öðru en að hljóðbók verði vinsælli núna, hvers vegna að skrá frásögn í letur þegar alveg er eins hægt að varðveita hana sem hljóðfrásögn á stafrænu formi.

Í Þjóðmenningarhúsinu núna í kvöld voru þessi örlög pappírsbókarinnar eitthvað svo bersýnileg. Sjálf umgjörðin var gamla landsbókasafnið en nú eru allar bækur farnar þaðan og skáldin stóðu í forgrunni og lásu úr verkum sínum í bókarlausum sal nema nokkrir glerbókaskápar með fornfálegum og fallegum bókarkiljum var í baksýn - bækur sem ekki eru til lestrar heldur hluti af skreytingu og minningunni við að draga upp mynd af fortíðinni.

17.4.01

Hvað á barnið að heita?

Líf okkar í samfélagi lýtur lögum og reglum. Ef við brjótum leikreglur samfélagsins þá verðum við að hlýta viðurlögum. Þessar leikreglur eru settar af stofnunum eins og Alþingi og það eru aðilar eins og dómarar sem skera úr um hvort við höfum brotið reglurnar og hvaða viðurlög eru við því. En það eru ýmsar ósýnilegri hömlur lagðar á líf okkar og athafnir. Sérstaklega áhugavert er að skoða hvernig valdið seitlar niður í gegnum orðnotkun og hvernig orð og tungumál eru notuð til að afmarka valdið. Meira segja er það ákveðið fyrir okkur hvaða nöfnum við megum heita. Það er haldin mannanafnaskrá og mér skilst að ekki megi skíra börn öðrum nöfnum en eru á þeirri skrá. Svo er til mannanafnanefnd sem dæmir hvaða nöfn má skíra.

Þetta er mjög furðulegt. Hvers vegna ætti að setja hömlur á hvaða nöfnum fólk heitir? Passar þetta í samfélagi þar sem útlendingar með framandi nöfn setjast að þúsundum saman? Mér finnst svolítið furðulegt að barn frá Filippseyjum sem heitir Miguel verði að umskírast í Michael af því það sé íslenskara. Svo einkennilegt að spá í þessi lög um mannanöfn, hvað gengur eiginlega löggjafanum til? Eigum við að vera gangandi þjóðminjasafn hvort sem við viljum eða ekki? Er ekki nóg að vera kennitala og þurfa alltaf að gala hana upp hvar sem maður kemur?

16.4.01

Smásögum safnað í Skagafirði

Var að koma úr þessari árlegu páskapílagrímsför minni í Skagafjörð þar sem ég grúfði mig ofan í skagfirsk fræði og hindurvitni og horfði á hesta og snjó. Veiddi málsháttinn "Lítið mun gagn að göngukonuverki" út úr einni þjóðsagnabókinni en þar las ég mest um landshlaupara og tíndi upp viðurnefni. Safna nefnilega smásögum og þá virkilega meina ég SMÁsögum og ég hef ekki fundið smærri sögur en þessar sem eru fólgnar í viðurnefnum - sögurnar eru bara eitt orð t.d. Jón tíkargjóla, Sigurður Íslandströll, Hálfdán strigakjaftur, Ástríður auðga, Þorbjörg digra, Magnús sálarháski, Kristján svartidauði, Jón skóli, Magnús merarköngur, Sólveig meyjarblómi, Vísi-Gísli, Þórunn hyrna.

Namm, namm...

Kynnti mér líka eðla matargerðarlist fyrri tíma, sérstaklega það sem er ekki hversdagsmatur nútildags. Var sagt frá afar athyglisverðri aðferð við harðfiskverkun sem nú mun lítt stunduð. Það er að láta harðfiskinn hanga um sumarleytið þannig að flugur verpi í hann og svo lengi að maðkurinn skriði út og dytti niður. Svoleiðis fiskur er kallaður maðkamelta og ku vera mjög gómsætur. Þetta er eitthvað svo vistvænt að láta maðkinn skríða svona um fiskinn og hjálpa til að búa til loftgöng svo fiskurinn verði alveg þurr, minnir svolítið á hvernig ánamaðkar hjálpa til að halda moldinni frjósamri og loftríkri. Er þetta ekki enn eitt dæmið um hvernig við getum notað gamlar aðferðir í svona nýjum vistvænum og sjálfbærum lífsstíl.

Lífið er saltfiskur og það ætti að flagga fyrir því
Annars finnst mér að Íslendingar eigi að hugsa um skreið og saltfisk um páskana og helst að draga að hún fánann með saltfisknum eða skreiðinni útflöttu. Mig minnir að Jörundur hundadagakóngur hafi ætlað að hafa þann fána í hinu íslenska konungsdæmi sínu en hann var líka dáldið sniðugur kall. Gleymist oft að það er þessi páskafasta og fiskát kaþólskra sem varð undirstaðan að útflutningi Íslendinga. Við ættum eiginlega að hafa einhvers konar íslenska þakkargjörðarhátíð í kringum páskaleytið þar sem við minnumst þessa og þökkum fyrir að fólk í útlöndum vilji borða íslenskan fisk.

10.4.01

Dæturnar með í vinnuna
Auður í krafti kvenna


Í dag er dætradagurinn, það tilkynnti dóttir mín mér og hún boðaði komu sína á vinnustað minn. Þegar hún kom þá fórum við um vinnustaðinn og hún heilsaði öllum og kynnti sér hvað þeir störfuðu við. Ég tók heimsóknina alvarlega, ákvað að uppfræða hana um athafnalíf og stjórnarháttu í landinu og reyndi að gera það með því að sýna henni útsýnið yfir borgina úr glugga í miðbænum.

Ég sagði eitthvað á þessa leið: "Þarna er Alþingishúsið, þar eru lögin búin til og ef menn brjóta lögin þá þurfa þeir að svara til saka í húsinu þarna en það er Héraðsdómur Reykjavíkur. Ef manni finnst dómurinn ósanngjarn þá er hægt að biðja um annan dóm í húsinu þarna en það er Hæstiréttur. Þarna er Arnarhólstúnið og efst á því er styttan af fyrsta landnámsmanninum Ingólfi Arnarsyni og kringum túnið sérðu Seðlabankann og Arnarhvoll. Við hliðina á Hæstarétti er svo Þjóðmenningarhúsið."

Hún borðaði hádegismat hjá okkur og hlýddi á umræðurnar en í dag var talað um vefnað, sérstaklega gobelínveggdúkana sautján sem danska drottningin fékk í afmælisgjöf og hanga í Riddarasalnum í Kristjaníuborg í Kaupmannahöfn. Þar er saga dönsku þjóðarinnar sögð í myndmáli frá víkingatímanum til nútímans. Svo fórum við í stutta gönguferð um miðbæinn, komum við á skrifstofu Námsflokkanna í gamla Miðbæjarskólanum við Tjörnina og skoðuðum nýja Borgarbókasafnið í Grófarhúsinu við Höfnina. Við fórum í heimsókn í Stjórnarráðshúsið og til Óbyggðanefndar og fengum heilmikið að vita um hálendi Íslands. Ég spurði dóttur mín hvað henni þætti eftirminnilegast og hún sagði: "Það var að koma í gamla fangelsið og sjá hvað veggirnir eru þykkir".

7.4.01

Kitsch og Bitch

Í dag fór ég á tvær listsýningar. Ég fór á Kjarvalsstaði á sýningu á verkum kitsch málarans Odd Nedrum og ég fór í gula húsið á þar sem stendur yfir samsýning 14 kvenna. Ég hélt að kitsch þýddi smekkleysa en málarinn segir að list sem byggist á handverki og tilfinningum sé kitsch. Mér finnst mjög sniðugt að sjálfsmynd Odds í gulum kyrtli hafi verið umdeild og að Iceland Review - blaðið sem birtir ósvífnar greinar um næturlíf og lauslæti í Reykjavík - hafi neitað að birta auglýsingu um sýninguna með þessari mynd af ótta við hópuppsagnir. Ég hengdi kort af þessu fallega listaverki á ísskápinn heima hjá mér en það olli uppnámi og myndin var klippt í búta í samsæri heimilisfólksins gegn listinni og þegar ég kom heim af sýningunni spurði barnið mig hvernig hefði á verið á dónasýningunni. En myndir Odds eru fallegar og tilfinningaþrungnar. Sýningin í gula húsinu var eitthvað sem ég hefði frekar haldið að væri kitsch en nú veit ég betur.

5.4.01

í fréttum er þetta helst....

Stundum horfi ég á fréttir í sjónvarpinu, oftast þannig að ég sé slitrur úr fréttatíma því ég hef ekki þolinmæði til að sitja undir heilum fréttatíma, finnst svo pirrandi að geta ekki hraðspólað yfir það sem mér finnst ekki áhugavert og þessi samsetning á hvað er fréttnæmt á hverjum degi sem sett er í einn fréttapakka höfðar einhvern veginn ekki til mín.

Svo er ég eiginlega ekki sannfærð lengur um að aðaltilgangur frétta sé miðlun upplýsinga.. held það verði að skoða á hvers vegum fréttamiðill er og spá í hvað vakir fyrir þeim aðilum. Ég held að það hljóti alltaf að vera að hafa áhrif... þó ekki sé nema með trú á það að viðtakendur frétta séu einhverju bættari í lífi sínu og hegði sér eða hugsi öðruvísi vegna þess að þeir heyrðu fréttirnar.

Boðun fagnaðarerindis, hámörkun ágóða eða viðhald þjóðríkis

Fréttamiðlar sem reknir eru af trúfélögum eða einhvers konar hreyfingum hafa væntanlega þann tilgang að snúa sem flestum á sitt band, sýna fram á ágæti þeirra hugmynda og hornsteina sem hreyfingin hvílir á og sýna hvers konar glapstigu þeir feta sem ekki eru rétttrúaðir. Ekki síst miða slíkir miðlar að því að styrkja samkennd hópsins og sýna hversu miklu betra er að vera innan hans en utan og hegða sér eins og til er ætlast. Allt þetta miðar að því að viðhalda og efla það samfélag eða hreyfingu sem stendur að fréttamiðlinum.

Sumir fréttamiðlar eru reknir af hagsmunaaðilum í viðskiptalífi og er endanlegur tilgangur þá væntanlega að hámarka einhvers konar ágóða og selja vörur. Þó því sé haldið fram að þær fréttastofur séu frjálsar og óháðar þá finnst mér ólíklegt að hnjóðsyrði og níð um eigendur og þær vörur sem þeir selja séu vel liðnar. Ef fréttirnar eru líka eins konar agn til að ginna áhorfendur til að sitja undir auglýsingainnskotum sem skapa tekjurnar þá er líklegt að fréttaflutningi sé hagað þannig að mörk auglýsinga og upplýsinga máist út og allt gangi út á sem mest áhorf og kostun.

En hvað með ríkisfjölmiðla? Er það ekki rödd þjóðarinnar sem hljómar þar - sjálf þjóðarsálin sem þar er á sveimi og endurvarpar því sem hollt er fyrir okkur að vita um atburði líðandi stundar. Tja... ég er ekki alveg viss... Stundum finnst mér eins og fréttaskammtarnir sem dælt er í æðar okkar á hverjum degi séu helst fallnir til að styrkja einhverjar goðsagnir um heiminn og þá hættur og óvini sem þar sitja á fletum fyrir. Ég held ég hefði alls ekki tekið eftir þessu ef það væri ekki þetta vandamál með óvininn og hætturnar... þeir hverfa og þær hverfa... Heimsmyndin er svo kvikul í dag að það þarf oft að hugsa upp ný tortímandi öfl. En það er fyrir tilstuðlan illmenna sem þessi öfl eiga að leysast úr læðingi og það eru hinir árvökulu fjölmiðlar sem kenna okkur að bera kennsl á óvininn.

Hvað tortímir? Hver er óvinurinn?

Mér finnst eins og undirliggjandi hræðsla við þessi öfl hafi breyst í fjölmiðlum síðustu áratugi - áður var alið á hræðslu við kjarnorkusprengjur og atómstríð stórvelda en nú er eins og hræðsluáróður sé einstaklingsmiðaðri og smærri - nú er það hræðsla við eiturbyrlun, sóttkveikjur og efni sem hættuleg eru líkama eða sál. Það er eins og það sé ekki eins yfirvofandi og hættulegt að heimurinn með þeim lífsformum sem við þekkjum springi í einu vettfangi í tætlur í kjarnorkusprengingum - það er eins og það sé miklu líklegra og hættulegra að lífsformin leysist upp og breytingar geti gerst hægt og grafið um sig á ósýnilegan hátt. Og er það ekki þessi hræðsla við óvininn sem býr til landamæri í hugum okkar og segir okkur hvar heimalönd okkar enda og eitrandi, mengandi og hættulegur utangarðsheimur tekur við.

Landamæri hugans og landamæri heimsins

Stundum sé ég í fjölmiðlum að þessi landamæri hugans blandast saman við raunveruleg landamæri - hér fer ég að hugsa um ljósmyndir sem ég sá nýlega á forsíðum norskra dagblaða þar sem ábúðarmiklir tollverðir leituðu að kjöti frá landsvæðum á bannlista í farangri eldri kvenna sem voru að koma til landsins úr húsmæðraorlofi. Líka um þessar mottur sem ég hef heyrt að búið sé að setja upp í flughöfninni í Keflavík og mér skilst að þeir sem koma með vélum frá kjötinnflutningsbannsvæðum verði að ganga yfir þessar mottur.

Persaflóastríðið og paprikumafían

Núna í vikunni hlustaði ég á og las margar fréttir um hvernig flett hefur verið ofan af íslensku paprikumafíunni. Eftir því sem mér skilst þá hafa einhver illmenni bundist samtökum til að hindra að við - venjulegt fólk á Íslandi gætum fengið grænmeti á góðu verði og orðið hraust og heilbrigð. Þetta er náttúrulega ekki dæmigerð frétt um að verið sé að eitra fyrir okkur eins og allar sláturdýrasjúkdómafréttirnar en svona frekar um að það sé verið að hindra að við náum í móteitur eða einhvern valkost við allt þetta vafasama kjötát. Nú er ég alls ekki að efast um að til sé íslensk papríkumafía - nei mér dettur ekki í hug að efast um það - ekki frekar en um að Persaflóastríðið hafi raunverulega geysað - en ég er bara að spá í hvort þetta mál hefði komið til eða fengið jafnmikla umfjöllun á einhverjum öðrum tímum.

Nútímavíkingur smíðar óvini og girðir landið

Fjölmargir netmiðlar fjalla nú um málið og vil ég hér taka sem dæmi þann sem mest glamrar nú. Þannig er að allir franskir byltingarsinnar fyrr og síðar hafa endurholdgast í einum íslenskum nútímavíkingi, Agli að nafni sem nú kveður við raust og bræðir silfur sem skvettist yfir okkur af sjónvarpsskjám og tölvuskjám. Svo kveður Egill í síðasta pistli sínum :

"...Mennirnir sem vildu láta þjóðina éta ónýtar kartöflur komu úr sama hópi og nú hefur orðið uppvís að stórfelldum brotum gegn samkeppnislögum og samsæri gegn heilsufari Íslendinga. Þeir eru, svo að segja, enn að reyna að taka þjóðina í afturendann....Forstjórar grænmetisfyrirtækjanna munu hafa hist í Öskjuhlíðinni. Það er á flestra vitorði hvers konar mannleg samskipti fara þar fram að staðaldri. "

Úr silfri sínu smíðar Egill nú óvin, býr til samsæriskenningu og persónugerir óvin sem þröngvar okkur til hættulegs, eyðnismitandi holdlegs samræðis - óvin sem er utangarðs og stundar hættuleg kynmök við ókunnuga á leynifundum utan alfaraleiðar. Það er ekkert í þrumandi orðræðu þessa nútímavíkings sem færir okkur ný sannindi eða nýja vitneskju. Hann gerir ekki annað en ala á óttanum sem við höfðum fyrir, óttanum við eitruð matvæli og drepsóttir sem tæra upp líkama okkar. En hann gerir meira, hann dregur upp mynd af óvininum - íslenska grænmetisbóndanum og grænmetissalanum og hann snýr einnig úr silfri sínu víravirki sem er eins og gaddavírsgirðing til að halda áfram utangarðs öllum þeim sem þar eru fyrir - í þessu tilfelli öllum samkynhneigðum. Heimsmyndin er kvik, óvinirnir breytast en silfur Egils er kvikasilfur með þeim eitrunaáhrifum sem því fylgja.

Marhnútar og málfiskar

Verðmyndun er alls ekki frjáls á landbúnaðarvörum á Íslandi og verðsamráð er afar algeng þar sem fáir aðilar selja á markaði. Svo er ég líka að velta fyrir mér hvers vegna svona lítil umræða er um fiskverðið - fiskverð til neytenda á Íslandi hefur undanfarin fjögur ár hækkað miklu meira en verð á grænmeti. Fiskur sem er holl og góð matvara sem við getum bara mokað upp úr eigin námum - úr fiskimiðunum sem eru sameign okkar allra. Hér áður fyrr þegar vistarbandið raknaði settust tómthúsmenn að hvarvetna við strandlengju Íslands þar sem róa mátti á sjó. Einu sinni var Seltjarnarnesið eins og önnur nes á Íslandi lítið og lágt og þar lifðu fáir og hugsuðu eingöngu um að draga fisk úr sjó en nú býr þar velmegandi fólk sem dregur mat í innkaupakörfur í stórmörkuðum. Einu sinni var kveðið um Setirninga: " Draga þeir marhnút í drenginn sinn; Duus kaupir af þeim málfiskinn". Fiskur er munaðarvara.

1.4.01

Álitsgjafar Íslands

Í helgarblaði DV í gær var ein opna sem bar yfirskriftina: Álitsgjafar Íslands - fólkið sem segir okkur hvað er rétt og hvað er rangt og hvað okkur finnst. Þarna voru myndir og nöfn á 31 karlmanni og einni konu og svo smávegis texti um álitsgjafargetu hvers og eins. Mér finnst gaman að skoða myndir og ég skoðaði þessar vandlega, sá að ég kannaðist ekki við neinn nema þá sem voru með mér í skóla í gamla daga eða eru eitthvað skyldir mér. Hef reyndar áður séð þessa einu konu, hún heitir Sigrún og hennar framlag sem álitsgjafi er að sögn blaðsins það að armæðast yfir fjarveru kvenna í fjölmiðlum og ástæðum þess. Mér finnst næsta ótrúlegt að allt þetta fólk sem ég þekki lítið sem ekkert til og fylgist ekkert með hvað er að gera hafi áhrif á hvað mér finnst um hlutina.

Fjölmiðlar um fjölmiðla um fjölmiðla...

Reyndar virðist mér að í þessum hóp séu annars vegar þáttastjórnendur á hefðbundnum fjölmiðlum sem láta móðan mása um hvað þeim finnst um hitt og þetta og svo menn sem í krafti þess starfs sem þeir gegna eru alltaf spurðir þegar viss mál eru á dagskrá. Svo er það nú þannig að þegar fréttastofurnar þurfa eitthvað uppfyllingarefni milli ráðherraviðtalanna þá er oft haft viðtöl við þá sömu aftur og aftur. Svo er það líka bara góð sparnaðarleið hjá pressunni og ljósvakamiðlunum að hafa bara fréttir og viðtöl hvert um annað - forsíða DV kannski viðtal við fréttamann á RUV og svo fréttaskýringarþáttur á RUV sem er kannski endursögn á einhverju úr Mbl. Þannig geta fjölmiðlarnir fjallað mest um aðra fjölmiðla og þrengt sjónarhornið þannig að úr verður bara fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun .... fyrir fjölmiðlafólk.

Valdið sem orðræðan býr til

Það er svosem ekkert tiltökumál þó að það birtist einhver bullgrein í DV um hverjir séu álitsgjafar á Íslandi. Það er bara skemmtilegra að hafa svona skapandi skrif og blaðið leggur greinilega metnað sinn í að vera gott daglegt safn af nútímaþjóðsögum og uppspuna. Ég held að í blaðið skrifi núna helst engir nema þeir sem eru vel skólaðir í þjóðfræði og faraldsfræði kviksagna. Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Undir hulinshjálmi

Hvað sem þessum pælingum líður þá hlýtur umræða þar sem margir og mismunandi þegnar þjóðfélagsins taka þátt í að vera lýðræðilegust og reyndar líka sennilega gjöfulust því þá heyrast sem flest sjónarmið. Umræða er ekki jafnt og atkvæðagreiðsla en opinber orðræða getur skapað vald eða ýtt undir valdaleysi. Við lifum á tímum fjölbreytileikans en ekki fjöldaframleiðslunnar en það er ekki að sjá að orðræða í hefðbundnum fjölmiðlum endurspegli þá þegna sem búa í þessu landi. Margir hópar og menningarkimar eru þar ósýnilegir. Það er meira segja hægt að varpa hulinshjálmi yfir helming þjóðarinnar- allar konur - eins og gert var í DV greininni um álitsgjafana. En ef orðræðan í hefðbundnum fjölmiðlum á Íslandi í dag er eingöngu til að styrkja völd hinna innvígðu þá er ástandið síst skárra hvað varðar netmiöla. Þar er ansi einsleitur hópur einstaklinga hvað varðar kyn, aldur og aðra þætti sem núna halda úti sínum eigin fréttamiðlum eða atburðaskrám á Netinu. Það eru möguleikar fyrir alla að nota það tjáningarfrelsi sem stjórnarskráin tryggir en ennþá eru afar fáir sem nota þá.