31.7.01

Nokkurs konar umönnunarstörf



Þeir Jóhann Óli í Securitas og Bjössi í Kaffi Austurstræti eru einstaklega hjartahlýir menn og mega ekkert aumt sjá. Ég er þakklát Morgunblaðinu fyrir að hafa birt viðtal við Jóhann Óla á FIMM HEILUM BLAÐSÍÐUM svo við lesendurnir mættum sannfærast um mannkosti hans og hvernig þetta brölt með að láta Lyfjaverslunina kaupa samninginn sem hann gerði við heilbrigðisráðherra um hjúkrunarheimili fyrir aldraða er meira og minna bara vegna þess að Jóhann Óli vill að vel sé búið að öldruðum. Svona er Bjössi líka. Hann skýtur skjólshúsi yfir þá sem hvergi fá annars staðar inni og rekur að sögn nokkurs konar félagsmálastofnun og griðastað fyrir róna í miðbænum. Ekki nóg með það, hann styrkir líka rausnarlega Háskóla Íslands, Landsbjörgu, Rauða krossinn og SÁÁ , allar þessar göfugu stofnanir og samtök sem tappa peningum af spilavítum í borginni.

Eina sem er að þessu félagsmálabatterí hans Bjössa er að það viðheldur eymdinni þ.e. ef maður gefur sér að gestir hans séu flestir alkóhólistar og fíklar.
Ég vona að í framtíðinni verði margir valkostir fyrir aldraða og aðstandendur og einkaframtak í þeim geira verði ekki eingöngu þannig aðilar sérhæfðir í öryggisgæslu og lyfjum reki einkarekin hjúkrunarheimili.

Lautarferð á Garðskagavita



Ég fór í bíltúr með vinkonu minni í gærkveldi til Sandgerðis og þaðan út að Garðskagavita.

Það voru ekki margir á ferli í þorpinu en við höfnina sáum við þegar verið var að ferma bíl af þorski í skærlitum plastkössum. Hvert skyldi aflinn fara? Kannski til fullvinnslu í eitthvað annað þorp. Það eru nokkrir skuttogarar og margir smærri bátar sem leggja upp afla í Sandgerði. Blómatími Sandgerðis hófst með vélbátum í byrjun tuttugustu aldar. Þegar eingöngu var róið á árabátum var engin þörf á höfn og þorpi í kringum hana.

Næst þegar ég er á þessum slóðum ætla ég að skoða Hvalneskirkju sem er 6 km sunnan Sandgerðis. Þar var Hallgrímur Pétursson prestur og þar samdi hann flesta Passíusálmana. Þar er líka steinn Steinunnar

Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn rétt norðan við byggðina og hún heitir Sandgerðistjörn. Við ókum fram hjá tjörninni og út að Garðskagavita, fram hjá golfvelli, hrossahópum á beit og í gegnum kríuvarp. Áðum við sjóinn hjá nýrri vitanum sem núna er byggðasafn og horfum á sólina setjast:
Þeir sem reynt hafa segja að óvíða munu betri skilyrði til þess að skynja víðáttu hafsins en á Garðskagatá, þessum mjóa tanga, þar sem annars vegar er Faxaflói en hinum megin sjálft Atlandshafið. Hér er berangur, engin hæð skýlir, útsýni er víðfemt og fagurt. Gamli vitinn á Garðskagatá var reistur 1897 og er því rúmlega hundrað ára.



27.7.01

Innsýn í útsýni

Um síðustu helgi fór ég í Arnarholt í Borgarfirði. Veðrið var gott og ég rölti um sumarbústaðasvæðin og fylgdist með hvernig afdrep fyrir náttúru landsins menn reisa sér. Ég las þrjár sögur í sveitakyrrðinni, það var Gunnlaðarsaga og Z-ástarsaga og Leigjandinn. Vissi ekki að Leigjandinn væri svona mögnuð og margræð saga fyrr en ég fór á málþing sem helgað var Svövu Jakobsdóttir en þar héldu erindi þrír bókmenntafræðingar sem allir höfðu valið sömu tilvitnun í Leigjandann án þess að vita hver af öðrum. Það var lýsing á því þegar maður verður eitt með húsi sem hann er að byggja, hann leggur hönd að vegg og æðar húss og handar verða að einni veru. Þetta var virkilega pínlegt fyrir alla bókmenntafræðingana en vakti áhuga minn á sögunni.

Hallir sumarlandsins

Það hafa ekki margir reist sumarbústaði ennþá. Núna eru sums staðar komnir litlir skúrar og ég sá fólk vera að leggja göngustíga upp að þeim og búa til palla. Á öðrum stað sá ég fólk vera að reisa skjólveggi utan um pall kringum skúr. Skjólveggirnir voru meira en tveggja metra háir í allar áttir nema norðan megin og það eiga að vera tvennir umgangar af þverspýtum. Til að brjóta vindinn. Það var bara kominn annar umgangurinn af spýtum og það var þess vegna ennþá hægt að sjá í gegnum rimla út á Norðurána í norðri. Það var komið rafmagn og sjónvarpsloftnet.

Alls staðar sem ég kem í borgarlandinu er fólk að reisa háa skjólveggi úr timbri kringum híbýli sín og afmarka lóðir þannig. Hef haldið að þetta væri fyrst og frest skjólveggir gegn innsýni, eitthvað um að fólk vildi vera í friði. Núna sé ég að skjólveggjatískan er líka komin í sumarlandið og núna eru reistir skjólveggir þar svo náttúran flæði ekki óhindrað inn. Kannski er betra að beisla náttúruna inn í skjái eða sófamálverk svona eins þetta þar sem þingvallalandslagið flæðir inn í herbergi.

19.7.01

Lesið í snjóinn í júlí


Nýtt tímabil er hafið í lífi mínu. Tímabil það sem allt er í röð og reglu, hlutirnir á sínum stað og ég skila bókum á bókasöfn. Þetta hófst allt með því að ég skilaði hljóðbókum á Blindrabókasafnið. Þær bækur hef ég haft undir höndum í næstum eitt ár og voru þó ekki teknar út í mínu nafni. Ég ætlaði bara alltaf að hlusta á sögurnar til enda áður en ég skilaði. Önnur hljóðbókin var Atburðir við vatn og hin var sakamálasagan Lesið í snjóinn eftir danska höfundinn Peter Høeg. Um þá bók segir:

"...mens civilisationskritikken i samtidsromanen Frøken Smillas fornemmelse for sne (1992) kredser om forskellen mellem verdensbilleder. Ved at udstyre sin centrale figur med en dobbelt kulturel baggrund skildrer Høeg Danmark som et administrations- og overvågningssamfund."

Ég hef margoft reynt að halda áfram að hlusta á söguna af ferð hinnar grænlensku Smillu út á heimskautaísinn þar sem ég endaði í september síðastliðnum en það gengur ekki. Úr því að ég get ekki hugsað til þess að hlusta á þessa sögu án þess að yfir mig hellist myrkur, skelfing og ískuldi þótt um hásumar sé þá verð ég víst bara að lifa með því að vita ekki hvað beið hennar á landinu kalda. Atburðir við vatn verða líka alltaf bara kyrralífsmynd í huga mínum, ekki saga. Skrýtið samt að ég skuli hafa byrjað að hlusta á tvær sakamálasögur á þessum tíma og báðar bera þær titil sem sóttur er til vatns - held reyndar að sakamálasögur og sú hugfróun sem menn sækja í þær sé tengd hinni eilífu og vonlausu baráttu mannanna við að sigrast á dauðanum - að þeir geti með tækni sinni, ráðkænsku og snilld fundið lykilinn að lífinu.

17.7.01

Sagan af brauðinu dýra

Það er sönn helgisögn úr Mosfellssveitinni sem Halldór Laxness hefur skráð í letur. Það er sagan af henni Guðrúnu sem var vinnukona prestsins á Mosfelli og var send eftir einu hverabrauði. Hún villtist í þoku á heiðinni og reikaði þar um í fjóra daga en þá fannst hún og hafði ekki snert brauðið og bara drukkið rigningarvatn af steinum á heiðinni. Guðrún sagði: "Því sem manni er trúað fyrir er manni trúað fyrir". Held að Guðrún hafi ekki verið sérlega úrræðagóð og skynsöm og ekki getað lagað sig vel að breyttum aðstæðum. Þetta er ekki neitt til eftirbreytni. Frekar dæmi um heimsku en trúmennsku.

Í íslensku pressunni er í dag um fátt talað meira en sunnlenska þingmanninn og steinana. Hann lætur sér ekki nægja rigningarvatn af steinum upp á heiði heldur birgir sig upp af grjóti á kostnað Þjóðleikshússins. Ótrúlega heimskulegt og alls ekkert dæmi um trúmennsku. Ég held hann skilji ekki milli eigin sjóða og þeirra sjóða sem honum hefur verið falin forsjá yfir. Núna nýlega frétti ég ef einum ungum og efnilegum framkvæmdastjóra félagasamtaka á landsbyggðinni sem gekk í sjóð samtakanna þegar hann skorti fé, það varð náttúrulega sjóðþurrð sem uppgötvaðist við uppgjör og um var samið að hann greiddi féð og málið yrði þaggað niður. Maðurinn samþykkti það og greiddi féð sem var gott og blessað ef hann hefði bara ekki greitt í því sama þ.e. seildist bara aftur í sjóð samtakanna til að greiða og hélt áfram að draga sér fé svo hann var rekinn og kærður. Virtist fyrirmunað að gera greinamun á eigin eignum og þeim sem honum var trúað fyrir. Þessi framkvæmdastjóri dró að sér mikið fé en hafði ágæt laun og barst ekkert á þannig að enginn skildi í hvað féð fór. Seinna kom í ljós að maðurinn hafði ánetjast símaklámi og súludansi og kom peningum þannig í lóg. Ekki veit ég hvers vegna þingmaður Sunnlendinga sankar að sér grjóti, ég held að það sé hvorki út af fátækt eða því að hann hafi ánetjast kynlífsfíkn. Þessi þingmaður er í miklum metum hjá sértrúarhreyfingum fyrir dyggðugt líferni og fyrir að vera ákafur talsmaður gagnkynhneigðar.

12.7.01

Blóm á leiði


Í gærkvöldi fór ég upp í Gufuneskirkjugarð með blóm á leiði því móðir mín hefði átt afmæli þann dag. Fór líka í heimsókn á Líknardeild til vinkonu hennar sem þar liggur þungt haldin og síðan í matarboð til bróður míns. Mér finnst kirkjugarðar friðsælir og fallegir staðir og það hvílir hugann og eykur skilning á lífinu að hugleiða þar.

11.7.01

Eyrarbakki


Í gærkvöldi fór ég með vinkonu minni á Eyrarbakka og kom ekki heim fyrr en um tvöleytið eftir miðnætti. Ferðaáætlunin var upprunalega að fara út í Viðey en veðrið var ekki svo gott þegar ferjan fór frá Sundahöfn þannig að planið breyttist í austur fyrir fjall og svo bara beygt af veginum til Þorlákshafnar því Hveragerði-Selfoss var ekki nógu framandi. Þetta var fagurt kvöld á Eyrarbakka og gaman að skoða húsin þar. Drukkum líka rauðvín í eina veitingahúsinu sem við sáum opin - það var fallegt uppgert rautt hús við sjóinn við hliðina á kirkjunni. Þar var maður að mála bát og hundar og börn léku sér í fjörunni. Þetta gamla fiskiþorp og kaupmannasetur sem stendur svona lágreist við opið haf er eins og minning um hvernig Ísland einu sinni var. Þegar ég kom barn á Eyrarbakka þá man ég mest eftir tilfinningu um fátækt og hrörnun og hús í niðurníðslu. Núna er plássið meira eins og safn. Orðið eins Flatey. Hvergi eins fallegt safn gamalla lítilla timburhúsa, nú eru flest uppgerð og yfir plássinu svífur andblær liðins tíma - þess tíma sem Eyrarbakki var eitt mesta menningarsetur á Íslandi. Eitt hús er öðrum þekktara á Eyrarbakka en það heitir bara Húsið á Eyrarbakka . Eyrarbakki er griðastaður skálda og listamanna og þangað flúði Halldór Laxness þegar byggingarskarkallinn stóð yfir í Laxnesi, hann lét öðrum eftir að byggja það hús en hefur samt litið á sig sem húsbyggjanda og pælt í húsum á þeim tíma því þarna á Eyrarbakka skrifaði hann smásöguna Ungfrúin góða og húsið sem nú hefur verið kvikmynduð.

Ásgrímur Jónsson listmálari er einn þeirra sem mannaðist af veru sinni í menningarsetrinu Eyrarbakka. Á vef Listasafns Íslands stendur: "Eftir fermingu var hann ráðinn vikapiltur hjá Pétri Nielsen, verslunarstjóra Lefoliiverslunar á Eyrarbakka, og var þar hálft þriðja ár. Á heimili verslunarstjórans í Húsinu á Eyrarbakka komst Ásgrímur í kynni við erlenda menningu sem var að skjóta rótum í íslenskum sjávarþorpum, einkum tónlist, og þar eignaðist hann fyrstu vatnslitina sína."

Einn íslenskur rithöfundur bjó á Eyrarbakka, það er Guðmundur Daníelsson.
Um Guðmund Daníelsson
Titlaskrá - verk Guðmundar Daníelssonar
um fáein skáldverk Guðmundar Daníelssonar
Ávarp Páls Lýðssonar um Guðmund Daníelsson árið 1980

Móðir mín kenndi á Eyrarbakka og Stokkseyri sem ung stúlka í einn vetur eftir að hún útskrifaðist frá Kennaraskólanum. Hún hlýtur að hafa kennt í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ég spái í hvort skólastjórinn hafi þá verið Guðmundur Daníelsson eða hvort það hefur verið sérstakur skóli þá á Eyrarbakka og annar á Stokkseyri. Man ekki eftir að hún hafi talað um Guðmund.
Eyrarbakki-Stokkseyri-Ferdavisir
Eyrarbakki - loftmynd

9.7.01

Helgin

Kristín fór í Skagafjörð á hestanámskeið og Magnús vaknaði upp í vikunni með köllun til að klífa fjöll. Það snýst allt um viðlegubúnað og göngur þessa dagana hjá honum og um helgina fór hann í gönguferð milli Fimmvörðuháls og Þórsmerkur. Ég var í bænum. Fékk gesti á föstudagskvöldið, fór aðeins að kíkja á næturlífið á laugardagskvöldið, fór á Kaffibrennsluna og hitti þar systurnar Röggu og Rebekku en Ragga býr á Spáni skammt frá Barcelona og er í sumarleyfi hér. Fór líka á Kaffi list og hitti þar unga kona sem var að halda upp á afmælið sitt. Hún sagði að ég hefði tekið myndir á afmælisdaginn hennar fyrir ári síðan. Ég mundi vel eftir því. Ég sat inn í borðstofunni á Líknardeildinni og sá út um gluggann þegar hún sýndi manninum sínum gullsleginn bíl sem hún hafði fengið beint úr kassanum þann morgun og hjúkrunarlið í hvítum búningum aðstoðaði með hjólastólinn, súrefnis- og næringartæki og tilheyrandi slöngur. Þetta var mikil hamingjustund og ég spurði hvort þau vildu ekki að ég tæki myndir. Ég las minningargreinar um manninn hennar og þar kom fram að þau höfðu bæði verið leðurbrynjaðir þungarokkarar á tímabili í lífi sínu. Það tímabil var liðið þegar ég kynntist þeim. Ég var líka með myndavél á laugardagskvöldið og tók afmælismynd af henni þarna á Kaffi List. Hún sagði mér frá því hve mikið hún saknaði mannsins síns og hve mikið hún elskaði hann. Ég held að ástin þekki engin landamæri, ekki einu sinni skil á milli lífs og dauða.

Á sunnudaginn fór ég suður með sjó. Fór í kaffi í Sjávarperluna í Grindavík og skoðaði bæinn sem mér er finnst orðið bara fallegur, þetta var í annað skipti sem ég kom þangað eftir að ég vann einu sinni heilt sumar í fiski þarna í plássinu. Skoðaði líka virkjunina við Bláa lónið, fannst þetta vera stórfengleg orkustöð, sennilega bara eins og Snæfellsjökull, er líka einstaklega fallegt mannvirki. Skoðaði líka Bláa lónsbaðstaðinn, það er nokkuð smart þar og gaman að sjá allt fólkið kístrað af hvítum leir í framan. Svona eins og einhvejir frummenn. Fór síðan til Njarðvíkur. Skoðaði svo fjörur í Grafarvogi og út á Nesi. Fylgdist með kríuvarpinu þar, nú eru ungarnir orðnir stórir og trítla um allt, vegurinn út að golfskála fullur af agnarlitlum ófleygum kríuungum.

6.7.01

Frábærir nemendur


Nám og kennsla á Netinu 2001 - Skilasíður nemenda

Núna á vormisseri var ég með umsjón með og kenndi ásamt öðrum á námskeiði í KHÍ. Þetta var fjarnám að mestu, við hittumst þrisvar, tvær staðbundnar lotur og svo setti ég ráðstefnuna UT-2001 sem þriðju staðbundnu lotuna og allir sem gátu reyndu að mæta á þá ráðstefnu. Nemendurnir voru víðs vegar um Ísland og svo voru nokkrir staðsettir utan Íslands. Einn nemandinn var í Namebíu í Afríku, einn var í San Diego í USA og einn var hluta tímans í Þýskalandi. Þeir sögðu okkur á vefráðstefnukerfinu hvernig ástandið væri þar sem þeir voru staddir og allir nemendur miðluðu af sinni sérþekkingu. Sumir af nemendunum eri tölvukennarar og gátu miðlað af þekkingu sinni um ýmis forrit og búnað. Einnig var amerískur Fulbright prófessor sem kenndi á námskeiðinu hjá okkur. Nemendurnir hittust sjálfir oft og fóru í heimsókn til skólastofnana hvers annars. Þetta var sem sagt alveg fyrirmyndarnámsumhverfi og það eru forréttindi að fá að kenna svona hóp. Ég hef sett upp vefsíðu með tengingum í skilaverkefnin þeirra og persónulegar heimasíður þeirra. Hún er þessi :Nám og kennsla á Netinu 2001 - Skilasíður nemenda

4.7.01

Mín skoðun á Kárahnjúkavirkjun



Vildi að ég hefði einhverja. Jú, er nokkuð sátt við að virkja. Það verður bara að borga sig. Og varla fer ég að lesa og pæla í arðsemismati Kárahnjúkavirkjunar í mínum nauma frítíma. Svo eru mötin mismunandi, Náttúruverndarsamtökin og Landsvirkjun hafa ólíkar skoðaðir á arðsemi. Skil það helst að þetta sé spurning um hvort talið sé að álverð muni lækka um 1% eða 2% á ári næstu sextíu ár. Alveg dáist ég að fólki sem er svo sannfært um spásagnargáfu sína og getu til að horfa inn í framtíðina og það þótt svona spásagnaverkfærin séu svona gróf - bara einfaldur prósentureikningur og svo að gefa sér þá forsendu að það sem gerðist í fortíðinni þurfi endilega að gerast í framtíðinni.

Held samt að það hljóti að borga sig að virkja á Íslandi og reka hér orkufrekan iðnað sem byggir á sjálfvirkni og tækni og þar sem lega landsins og hafnarskilyrði eru hentugir fyrir markaði og aðföng. Ég er svo trúuð á þetta að ég keypti í síðustu viku hlutabréf í Járnblendifélaginu. Það er rekið með bullandi tapi og þess vegna var gangverð bréfanna undir nafnvirði, ekki nema 0,7. Ég verð bara að vona að þróunin snúist við. Annars tapa ég. Hef reyndar ekki gert annað en að tapa á þeim hlutabréfum sem ég hef keypt undanfarna mánuði, verðið heldur áfram að fara niður á við. Nema í deCode. Keypti bréf þar fyrir þremur mánuðum á genginu 6,1 en núna er það held ég um 10 og svo hefur líka krónan fallið.

Um ósnortnu náttúruna og allt tapið af túristum sem hætta við að koma til Íslands út af virkjun á hálendinu: Kaupi ekki alveg útreikninga um þetta, hef séð of mikið af vefsíðum frá náttúruelskandi háfjallatúristum sem hafa lagt leið sína til Íslands og það er eins og ekkert toppi Gullfoss-Geysishringinn nema Bláa lónið. Lónið með undarfulla litnum tekið sem dæmi um hina stórbrotnu og ómenguðu og ósnortnu náttúru Íslands.

2.7.01

Nýtt aðalskipulag í Reykjavík og ljósþræðir

Núna er Teigahverfið þar sem ég bý sundurgrafið.Stórvirkar vinnuvélar hamast við að grafa skurði og leggja leiðslur. það eru þarna risaspólur með uppþræddum köplum. Mér finnst ástandið vera eins og í orkukreppunni um árið þegar það var verið að leggja hitaveitu um allt. Ég held að núna sé verið að endurnýja lagnir en það sem er langmerkilegast er það er verið að LEGGJA LJÓSLEIÐARA um hverfið og það er eitt það merkilegasta sem er að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík. Ég sá að það er verið að kynna eitthvað nýtt aðalskipulag í Reykjavík og ég held að þar sé ekkert fjallað um þessa neðanjarðarþræði sem eru jafnmikilvægir og allur annar infrastrúktúr í borgum. Ég var árið 1996 á erindi hja netgúrú sem heitir Metcalfe og hann sagði setningu sem ég man ennþá: "Let´s hook up the homes and let people stay there". Hann meinti að með því að búa til vinnuumhverfi á heimilum þá værum við að fría alla þessa orku og efni og tíma sem fer í að flytja fólk fram og til baka og tilheyrandi infrastrúktúr..Verður ekki einmitt að halda uppi samgöngukerfi sem getur tekið við einhverjum kúf um níuleytið á morgnana og byggja upp miðað við það. Ef eitthvað er asnalegt skipulag þá er það þetta. Ef ég fengi einhverju ráðið um skipulagsmál í Reykjavík þá myndi ég skipuleggja borg þar sem fólk þyrfti að fara sem minnsta vegalengd í vinnu og helst þannig að vinnustöðvar væru inn í íbúðahverfum. Ég myndi líka skipuleggja borg þar gert er ráð fyrir að hávaðasamir, stórir bensínbílar væru ekki helsta samgöngutækið, ég myndi gera ráð fyrir leiðakerfi sem reiðhjól og litlir rafbílar/rafhjól gætu keyrt um. Ég myndi líka hugsa um að það er ekkert náttúrulögmál að umferðarmannvirki þurfi að vera forljót og ég mundi heimta að engin mislæg gatnamót í Reykjavík væru gerð nema ákveðnu prósentu af verkinu væri varið til listskreytingar á þeim eða í tengslum við þau. Svo mundi ég skipuleggja hverfi þannig að sú þjónusta sem borgin veitir þegnum sé miðsvæðis og aðgengileg fyrir alla, ekki eins og í Grafarvogi þar sem t.d. bókasafnið er í kirkjunni og kirkjan er staðsett í útjaðri hverfisins þannig að allt of langt er fyrir börn t.d. úr Rimahverfi að ganga í bókasafnið. Ég myndi alla vega hanna hverfin þannig að börn og eldra fólk og aðrir sem ekki eiga heimangengt nema stuttar vegalengdir í göngufæri hafi frjótt og skapandi umhverfi og möguleika til að virkja athafnaþrá sína. Ekki að eina athafnalífið sé bensínstöð og matvörubúð með malbikuðum bílastæðum.
Bara að ég fengi einhverju ráðið...

En nú er ég að lesa um framtíðina með Bill Gates:

Bill Gates -- Business at the Speed of Thought

Bill segir að við höfum tilhneigingu til að ofmeta þær breytingar sem eiga sér stað næstu tvö ár en vanmetum þær breytingar sem eiga sér stað næstu tíu ár. Hann segir að við verðum að vera viðbúin þeim nýja lífstíl sem vefurinn kemur með en þær breytingar gerist yfir árabil og það verður en byggja upp nauðsynlegan infrastrúktúr áður. Er ekki einmitt ljósleiðarinn sem núna er verið að leggja dæmi um slíkan infrastrúktúr? Þetta segir Bill:
"The social adaptations that have to occur take years and the infrastructure has to be built out. But when the social and technical changes reach critical mass, the change will be quick and irreversible. The point will come where the Web lifestyle really will take off, and I believe that's sometime in the next five years. As I said in The Road Ahead, we always overestimate the change that will occur in the next two years and underestimate the change that will occur in the next ten......The Web lifestyle's critical mass is tied to improvements in devices and software, but bandwidth availability is the biggest factor."

But the Internet is enabling a new way of life that I call "the Web lifestyle." ....to turn to the Web to get news, to learn, to be entertained and to communicate...one of the most fundamental shifts will be the degree to which consumers will manage their finances, including banking, mortgage, utilities and credit cards online....Community building is going to be one of the biggest growth areas in the next few years on the Web. The Web dramatically increases the number of communities you can bond to...One of the most powerful socializing aspects of the Web is its ability to connect groups of like-minded people independent of geography or time zones.