30.8.01

Mýrin


Núna stendur yfir húsfundur í stofunni hjá mér. Allt út af húsinu sem er ég bý í og vatninu. Það nefnilega kemur upp dularfullt vatn úr grunninum og er allt á floti í kjallaranum þá að það sé búið að skipta um allar leiðslur og búið að þrýstiprófa allt. Það er nefnilega þannig að húsið stendur í botnlausri mýri og grunnvatnshæðin er ekki nema um einn metri. Svo var eitthvað um að hárpípukrafturinn er svo mikill að húsið sýgur í sig vatn. Mér finnst þetta skrýtið, að húsið eins og sogi til sín vatn og næstum eins og fljóti á vatnspolli. Hvað ætli gerist þegar vatnið er leitt burtu, verður þá holrúm undir húsinu svona eins og sakamálasögunni Mýrin eftir Arnald Indriðason? Annars held ég að ef það er borað nógu djúpt niður í garðinn hjá mér þá komi upp hver. Allt í kring eru gamlar borholur hitaveitunnar og þetta er nálægt þeim stöðum þar sem reykirnir voru sem Reykjavík fékk nafn sitt af.

27.8.01

Eyjan


Hún fór í dag. Flaug burt af Íslandi eins og farfuglarnir sem fljúga í stórum hópum suður á bóginn. Sem hafa vetursetu á Spáni eða fljúga alla leið til Afríku. Farfuglarnir munu koma aftur og boða vorið eins og þeir hafa alltaf gert. En sum ferðalög eru ekki svona taktföst og fyrirsjáanleg. Ísland er ekki lengur einangruð eyja þar sem vorskip koma með vistir og engir sigla frá landi nema kaupmenn og Hafnarstúdentar og Vesturfarar til fyrirheitna landsins. Fór svo síðdegis á málverkasýningu á Kjarvalsstöðum, það voru verk listakonu af vesturíslenskum ættum en forsætisráðherra Manitoba gaf verkin til Íslands. Winnipeg er í Manitoba. Þangað fóru flestir Vesturfararnir. Listakonan sem líka er mannfræðingur sýndi margar myndir um eyju sem hafði verið skorin í sundur sundur og raðað upp á nýtt. Ég held hún vinni mikið með svona eyjahugmyndir og eyjamenningu. En það standa yfir miklir þjóðflutningar í Evrópu núna og menningarlandslagið hlýtur að breytast á Íslandi sem og annast staðar. Ennþá er Ísland einangrað og þessi vefur EuroView átelur Íslendinga fyrir fordóma.

26.8.01

Afmæli í Akrahreppi


Var um helgina í Skagafirði og fór í áttræðisafmæli tengdaföður míns að Vöglum í Blönduhlíð. Öll börn hans og barnabörn komu í afmælið og sveitungar af næstu bæjum í Akrahreppi. Afmælið stóð í tvo daga og byrjaði með kökum og kaffi um miðbik dagsins og þegar fór að líða á daginn gerðust veigarnar sterkari og um nóttina fóru veislugestir að syngja skagfirsk ættjarðarlög. Eitt lag var sungið oftar en önnur og það var Undir bláhimni. Það var náttúrulega vel við hæfi því þann texta samdi faðir tengdaföður míns.

Njála er kennslubók í lagaklækjum
Á leiðinni norður og suður las ég upphátt úr Njálu við mismikinn fögnuð samferðamanna. Svona upplestur er ein af þeim aðferðum sem ég hef fundið upp á til að komast í gegnum þá bók þvi hún engin skemmtilesning. Sofnuðu enda allir nema bílstjórinn og ég stuttu eftir að ég hóf lesturinn. Ég er komin á þá skoðun að Njála hafi annað hvort verið skrifuð sem svefnmeðal eða sem kennslubók í lögum og lagaflækjum. Þessir dramatísku kaflar um brennur og einvígi og bardaga hafi verið settir inn til að gera kennsluefnið skemmtilegra og geta tekið sem fjölbreytilegust dæmi um lagaákvæði. Las langan og snúinn kafla um hvernig brennuvargur, Flosi að nafni skipti um lögheimili og sagði af sér embætti til að mál gegn honum út af íkveikju í bóndabænum Bergþórshvoli félli niður vegna formgalla. Verjandi hans reyndi líka alls konar klæki til að hafa áhrif á hverjir sætu í kviðdóm og vísaði til stjórnsýsluákvæða þeirra tíma. Svo er magnað hvað mikil áhersla er á allt þetta lagaákvæðamál í Njálu og þau brögð sem verjendur og sækjendur beita því alltaf liggur í loftinu að ef málin falla ekki eins og málsaðila vilja muni þeir grípa til vopna. Þetta er svona sambland af ringulreið og upplausn valds og svo því að halda í torskilin lagaákvæði og komast langt í skjóli þess að vita einhver lagaákvæði sem öðrum eru ekki kunn.

Talibanar banna Netið í Afganistan
Las þessa frétt á fréttavef mbl.is: "Taliibanastjórnin í Afganistan bannaði í dag notkun Netsins og skipaði trúarlögreglunni að refsa þeim sem yrðu uppvísir að netnotkun í samræmi við íslömsk lög. Sagði Mohammad Omar leiðtogi talibana að ráðuneyti fjarskipta í landinu bæri skylda til að stöðva netnotkun. Í yfirlýsingu sem hann las í útvarpi sagði hann að innan landamerkja Afganistan mætti engin fyrirtæki, stofnanir, samtök eða einstaklingar nota Netið".
Þetta rifjaði upp fyrir mér að hér fyrir mörgum árum þá var ég á opnum fundi hjá Kvenréttindafélagi Íslands og var umræðuefnið fjölmiðlar/margmiðlunarefni og ofbeldi. Var Internetið þá alls óþekkt nema meðal háskólamanna og minnir mig að við höfum bara verið einn eða tveir á fundinum sem notuðum það en einhverjir fundamanna höfðu fengið pata af því að þetta væri einhvers konar opin klámlína frá útlöndum. Var stungið upp á því á þeim fundi að send yrði áskorun til stjórnvalda um að loka alveg fyrir Internetið til Íslands þangað til búið væri að komast fyrir þennan ósóma, þ.e. tryggja að alls ómögulegt væri að senda klám og ofbeldisefni gegnum Internetið. Gætum við þannig sett gott fordæmi fyrir þjóðir heimsins. Mér finnst Talibanar ekki hafa sett gott fordæmi fyrir þjóðir heimsins með þessu Internetbanni sínu. Nema kannski með því að að sýna okkur að það að hefta boðleiðir og samskiptaleiðir milli fólks er samofið annars konar misbeitingu valds og gerræðisstjórnun. Hvergi eru mannréttindi nú eins augljóslega fótum troðin í heiminum og í ríkjum Talibana.

20.8.01

Verbúðin brennur


Það rigndi og mér leið illa og langaði ekkert niður í bæ þetta eina kvöld á árinu þar sem skrúfað er frá öllum menningarkrönum. Rigningin um daginn var líka eins og fyrirboði um haustið. Boðaði eyðileggingu og missi. Út um gluggann sá ég fyrsta tréð þar sem laufið var orðið logagullt. Ég var ein heima, horfði fyrst á sjónvarpið, það var mynd um konu plantekrueiganda og þræla í Suðurríkjum USA, slökkti á sjónvarpinu þegar plantekrueigandinn kemur með logandi kyndil og vill kveikja í eigin húsi sem var orðið mótttökustöð fyrir flóttafólk. Fór þá að lesa og hugsa um þrælahald. Las mest í bókinni Sandur og svo hugsaði ég um kenningar heimspekingsins Foucault um fangelsi og fjötra.(Fann þennan vef um þrælahald í Ameríku og kenningar Foucaults Body and Power).

Ætlaði að skoða á moggavefnum í dag hvernig menningarnóttin hefði tekist, ég var ekki þar. Þá er á forsíðu ekkert nema fréttir um bruna í einhverju frystihúsi. Las smávegis og svo rann það upp fyrir mér að þarna hafði ég komið. Einmitt fyrir ári síðan leitaði ég að þessu húsi í Grindavík, vildi sýna vinkonu minni verbúðina sem ég dvaldi í eitt sumar fyrir löngu þegar ég vann í fiski í Grindavík. Vann í frystihúsi og bjó í verbúð á efstu hæð frystihússins. Fór aldrei út úr húsinu nema í litla sjoppu sem var í tréskúr við hliðina. Á kvöldin var húsinu læst, við vorum læst inni. Fann ekki húsið strax því það hafði breyst í svona slömmhús sem virtist ekkert í notkun, neglt fyrir glugga og veggjakrot, virtist samt eins og afdrep fyrir unglingaklúbba. Þekkti húsið af flata þakinu þar sem við skriðum stundum út um glugga í hádegishléi ef það var sól. Núna sé ég mynd af þessu sama þaki á fréttavef mbl.is og það eru tveir slökkviliðsmenn sem standa þar. Ég sé líka að herbergið sem ég var í á verbúðinni stendur í ljósum logum.

myndin er frá Fréttavef mbl.is og ljósmyndari er Jón Svavarsson

18.8.01

Runaway World


Er núna að kynna mér verk Anthony Giddens en hann er einn þekktasti samfélagsfræðingurinn í heiminum í dag. Er víst einn aðalráðgjafi Tony Blair og þar á bæ sækja menn línuna til Giddens. Hugmynd Giddens um þríðju leiðina var valin maður árins í Bretlandi 1998. (hugmynd valin maður árins? athuga) Las á Netinu bókina Runaway World því þetta er skyldulesning í fjarnáminu sem ég er í. Það er mjög þægilegt að hafa bókina svona á vefnum og geta svo stillt á að fyrirlestrana bæði í hljóði og mynd með Realplayer. Setti upp síðu með tengingum í slóðir sem ég fann um Anthony Giddens.

Það var skemmtilegt að lesa/hlusta á Runaway World og ég man mest eftir pælingum um siðvenjur og fjölskyldubönd og svo um lýðræði. Mér finnst þetta reyndar ekki djúpristandi efni, hef eiginlega á tilfinningunni að Giddens sé í þessu verki að segja fólki það sem það vill heyra og það sé þess vegna sem hann hefur svona mikla hylli hjá stjórnmálamönnum, það er tjáningarform sem þeir þekkja vel og kunna sjálfir að beita.

17.8.01

Eldgos í Keflavík

Fór með vinkonu minni til Keflavíkur í gærkvöldi. Skoðuðum bæinn og strandlengjuna og komum við í kaffihúsi og ölstofu sem heitir Duushús og þar er gott útsýni út á smábátahöfnina. Það er verið að gera upp margar götur og hús í bæjarhlutanum þar í kring, búið að helluleggja götur og setja upp falleg götuljósker. Ég held að menning standi í blóma í þessu þorpi sem er alþjóðlegra er flest önnur á Íslandi. Héðan hljómaði popphljómlistin um Ísland og menningarstraumar bárust frá Ameríku því rétt hjá búa mörg þúsund bandaríkjamenn. Þorpið er rétt hjá alþjóðaflugvelli og þar voru margir útlendingar í Duushúsi, ég held að Keflavík sé fyrsti eða seinasti íslenski næturdvalarstaður margra ferðamanna. Við sáum eitt hús þarna sem var graffitimálað og á einni hliðinni var þessi mynd af eldgosi.

16.8.01

Konan í gáminum


Mig vantaði eitthvað að lesa í gærkvöldi. Gat ekki verið á vefnum því ég er núna örkumluð af vöðvabólgu eftir vitlausar vinnustellingar í framhaldi af því að ég fékk fartölvuna sítengdu heim til mín. Er búin að komast að því að það er ekki heppilegt að sitja í sófa við lágt stofuborð og vinna á fartölvu. Ég valdi milli tveggja pappírskilja, svona sjoppubókmennta frá fimmtándu og tuttugustu öld. spennusögunnar Njálu og sakamálasögunnar Konan í gámnum. Ég er reyndar byrjuð á Njálu og komin þar sem Gunnar hefur verið veginn og syngur og trallar í haugnum en sama hver er drepinn, alltaf þessi ritúall að kona tekur morðvopnið og geymir það blóði drifið og lætur til einhvers sem þá verður að drepa líka. Svo alls lags auka sögur á þessa leið "maður er nefndur...bla,bla,bla....og er hann nú úr sögunni." Mér gengur afar, afar illa að lifa mig inn í söguna og finnst þetta ekki vera mín saga. Ég á ekkert í þessum þjóðararfi. Ég valdi Konuna í gámnum. Þetta er norsk saga eftir Kim Småge

15.8.01

Netscape eða Internet Explorer


Nú hef ég hlaðið niður Netscape 6.1 og er að prófa það kerfi í staðinn fyrir Internet Explorer 6. Ástæðan er að IE hjá mér fór að hegða sér undarlega, vistaði allar myndir sem .bmp og vildi stundum ekki sýna myndir. Ekki var mögulegt að kasta út forritinu til að hlaða því inn aftur og kallaði ég þó til tækniaðstoð til þess. Ég fór þó yfir í IE á sínum tíma vegna þess að það er orðið langútbreiddast og stundum vesen að skoða síður í Netscape sem greinilega voru gerðar fyrir og prófaðar bara með IE. Bara sú hætta fyrir hendi að lokast inn í Microsoft heimi sem fylgir ekki stöðlum og þar sem netverkfærin fylgja með vélum og geta skrúfað sig á stýrikerfið á annan hátt en samkeppnisaðilar.

Á næstunni mun eflaust færast í vöxt að við hlöðum niður svona mynd- og hljóðstraumum. Núna er Microsoft að ryðja út Realplayer á þeim markaði sb. að núna sendir Ríkisútvarpið ekki lengur út í Realplayer heldur fyrir Windows Media Player sem líkt og IE fylgir með pc tölvum. Eða svo segir á vefsíðu RUV:"Beinar útvarpssendingar Ríkisútvarpsins á vefnum sem hingað til hafa verið í Real kóðun hafa nú verið færðar yfir í Windows Media kóðun."

Lifi samkeppnin og megi notendur hafa raunverulega valkosti í hvaða verkfæri þeir nota á vefnum!

14.8.01

Hver les póstinn þinn? Hver fylgist með þér?


Jón Levý sagði á vefleiðara sínum fyrir nokkru frá því að starfsmenn í því netþjónustufyrirtæki sem hann skipti við læsu tölvupóstinn hans og upplýsingar úr bréfum hans hefðu borist frá einum starfsmanni til annars. Sem betur fer hefur þetta mál vakið eftirtekt og umræðu. Þetta er núna á forsíðu Fréttablaðsins og á Vísi.is. Mér finnst mjög brýnt að þetta mál verði til þess að við beinum kröfum til netþjónustufyrirtækja um hvernig þjónustu við viljum.

Að fylgjast með persónulegum tölvupósti og hvað fólk er að gera í netheimum (t.d. hvaða vefsíður við erum að skoða og hlaða niður) er dæmi um rafræna vöktun.
Um síðustu áramót tóku gildi ný lög um persónuvernd og Persónuvernd tók til starfa. Í lögunum er kveðið á um að þegar rafræn vöktun fer fram á vinnustað eða á almannafæri skal með merki eða á annan áberandi hátt gera glögglega viðvart um þá vöktun og hver sé ábyrgðaraðili .

Hér er komið málefni sem ég vildi óska að Félag Netverja beitti sér fyrir. Ég gekk í þetta félag held ég við stofnun þess en hef bara aldrei heyrt neitt í því, aldrei fengið fundarboð en sé félagið hefur vefsvæði www.netverjar.is og þar má sjá hverjir eru í stjórn og vefsíðunni er haldið við. Ég skora á þá stjórn ef hún er eitthvað virk að beita sér í þessum málum þ.e. að starfsmenn netþjónustufyrirtækja þurfi að hlýta ákveðnum siðareglum eins og aðrar stéttir sem vinna með viðkvæmar upplýsingar.

13.8.01

Námsmaður í Háskólanum í Linköping

Í dag byrjaði ég í háskólanámi. Það er Intercontinental Master's Programme in Adult learning and Global Change og ég stunda námið við háskólann í Linköping í Svíþjóð. Námið er samstarfsverkefni fjögurra háskóla sem eru í Svíþjóð, Suður-Afríku, Kanada og Ástralíu og er einn nemendahópur frá hverju landi. Þetta er fjarnám og er namsumhverfið á Netinu, það er notað kerfi sem heitir Blackboard.

11.8.01

Hinsegin dagar 2001


Fór í skrúðgönguna niðri í bæ í dag og tók myndir sem ég hef sett á vefinn:Myndir frá Hinsegin dögum 2001

Mér sýnist efasemdir um kyngervi og kynferði líffræðilegu kynjanna tveggja, karls og konu séu eitt af því sem er efst á baugi í dag. Kannski er það rétt sem ég hef heyrt hinsegin fræðinga halda fram að meira segja að áhersla á klám sé partur af sterkri tilhneigingu til að staðfesta hefðbundin kyngervi (karls og konu).

Mér gengur ekki vel að lesa hinsegin fræði. Hef ekki fundið mikið á íslensku á vefnum nema greinina eftir Dagnýju Kristjánsdóttur Skápur, skápur herm þú mér og svo skrifaði Geir Svansson ritdóm hvenær er stúlka stúlka? um sögu af stúlku eftir Mikael Torfason.

Ég á bókina Gender Trouble eftir Judith Butler sem hefur haft mikil áhrif, hef samt ekki ennþá komist í að lesa bókina, þarf að gera það við tækifæri.

10.8.01

Lénsveldi á farandsfæti


Tvennt markvert sem varðar upplýsingatækni gerist í dag í lífi mínu. Ég fékk fartölvu og ég setti upp mitt eigin lén www.asta.is sem er nafn móður minnar og dóttur. Nú er ég komin heim og smellti fartölvunni í samband við Netið (svona hub sem tengist loftlínu) og allt virkar.Nú hef ég tvær tölvur hérna heima hjá mér sem eru beintengdar við Netið. Get líka tengt fartölvuna við Netið í KHÍ þegar ég er þar. Hvaða áhrif skyldi þetta hafa? Ég var að lesa í Tölvumálum að orðið "Hot Spot" er þýtt sem netvangur og þá er átt við stað t.d. á flugvöllum þar sem fólk með fartölvur býðst aðgangur að Netinu. Ætli þetta verði framtíðin á næstu árum? Að allir verði með fartölvur og geti á ákveðnum stöðum tengt þær við alheiminn. Að fólk sem vinnur með upplýsingar geti unnið hvar sem er þar sem hraðvirkt netsamband er fyrir hendi.

5.8.01

Ferðin á Hlíðarenda


Fór úr bænum á föstudag og kom aftur eftir miðnætti á laugardag. Svolítið furðulegt að ég sem ætlaði á Galdrafár á Ströndum skuli enda ferðina á vakningarsamkomu Hvítasunnusafnaðins í Fljótshlíð. Allt út af þessari hugmynd að fara að skoða sögusvið Njálu. Magnús heldur áfram að klífa fjöll og hljóp Laugaveginn um verslunarmannahelgina en ég fór með vinkonu minni á vit Njálu.

Sú ferð hófst í Njálusetrinu á Hvolsvelli en við vorum á eigin vegum, ekki í skipulagðri Njáluferðarkjötsúpuferð. Við vorum einu gestirnir í Njálusetrinu og þar var hempuklæddur maður sem gaf sig að gestum (okkur) og spjallaði um þá við Njálu. Ég sá ekki betur en þetta væri séra Gunnar sem eitt sinn var prestur í Holti í Önundarfirði og átti þar í töluverðum væringum við sóknarbörn sín og gekk það svo langt að biskup setti hann af. Gunnar var fyrir mörgum árum prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík en lenti þar líka upp á kant við sum sóknarbörnin og varð að hverfa þaðan. Hann er núna prestur á Bergþórshvoli en við vorum einmitt á leið þangað. Það var frekar tilbreytingarlaust landslag á leiðinni að Bergþórshvoli og allt er þetta grösugt láglendi og ekki svipmikið eða rismikið útsýni en þaðan er þó víðsýnt.

Við ókum svo áfram að Skógum og gistum þar á Edduhótelinu. Þar eru gljáfægð gólf og reflar og útsaumsverk á veggjum og dýrindis kvöldverðarhlaðborð. Daginn eftir fórum við að Skógarfossi, breiddum ábreiðu á jörðina og drukkum rauðvín með foss og fossúða í regnbogalitum í baksýn og litir landslagsins voru fagurblár himinn og iðjagrænar hlíðar. Það var glampandi sólskin. Við fórum yfir svarta sanda og gráar jökulurðir til Víkur í Mýrdal. Þar áðum við í Halldórskaffi í Brydebúð sem er gamalt uppgert hús og skoðuðum sýningu á málverkum af hulduverum og kynjavættum. Við gengum berfættar í brennheitum sandi í fjörunni og ég tíndi steina sem hafið hefur fágað og horfði á drangana sem gæfa oddhvassir eins og sverð upp úr sjónum.

Hvergi er landslag á Íslandi eins og undir Eyjafjöllum. Sum fjöllin eru eins og risastórir steinar sem einhver bergrisi hefur þeytt á undan sér næstum út á sjó. Jöklarnir magna upp og endurkasta birtunni og nánast þverhnípt björg eru algróin og græn að efstu brún. Sums staðar allt þakið í steinum. Ekki svona grótmulningi eins og í Esjunni heldur frekar björgum af öllum stærðum sem eru eins og bústaðir álfa og dverga. Er að reyna að rifja upp sögn um Steinabæina gömlu sem ég las einhvers staðar, eitthvað um álög. Við gengum bak við Seljalandsfoss og fundum Paradísarhellir.

Af þjóðbraut númer eitt beygðum við inn að Fljótshlíð því við leituðum að Hlíðarenda, ókum lengi þannig að á hægri hönd voru grænir lúpínuakrar en á vinstri hönd auðnir og sandur. Þegar við beygðum inn í Fljótshlíðina við Múlakot komum við auga á mannsöfnuð og tæki og vorum forvitnar og fórum þangað. Þar var fyrir fjöldi fólks og tún þakin litlum stálfuglum eða örlitlum opnum flugvélum. Voru alltaf flugvélar að hefja sig til lofts og sveima yfir Fljótshlíð og inn að Þórsmörk þann tíma sem við vorum þarna.

Við settumst þar niður og horfðum á flugvélarnar. Þá skyndilega svífur fyrir framan okkur vængjuð vera og lendir á jörðinni. Við lítum til himins og þá er allt fullt af svona fljúgandi englum í ýmsum litum og þeir svífa niður og lenda fyrir framan okkur. Þeir eru glaðir með glampa í augum þegar þeir lenda og vefja saman vængjunum og hraða sér burt. Vængirnir eru spenntir á þá í eins konar ólar, þetta er einhvers konar svifflugstæki.

Við héldum áfram leið okkar að Hlíðarenda. Ókum þar upp að fallegri kirkju og þar nálægt er skilti með fróðleik um Gunnar á Hlíðarenda. Ég tók mest eftir að þar stóð að Gunnar væri fulltrúi hins heiðna siðar. Hans staður er samt orðinn kirkjustaður. Við héldum áfram leið okkar eftir Fljótshlíðinni og komum að skilti þar sem allir voru boðnir velkomnir. Vegmóðar ökum við áfram upp landið, þar eru þúsundir bíla og menn sem stjórna umferðinni og segja að við getum ekið alveg upp að Örkinni og lagt þar.

Ég veit ekkert hvar þessi Örk er en ek þá einu leið sem er fær og við lendum á vakningarsamkomu hjá Hvítasunnusöfnuðinum í risastóru skýli. Ég þekki mig strax, ég var seinast inn í þessu húsi fyrir mörgum árum með eldri dóttur minni og hún heimtaði að hringsnúast í rafmagnstækjum þar. Tívolí í Hveragerði.

Núna er maður í skikkju og með leðurhatt að tala á sviðinu, það eru tveir risaskjáir sem varpa því sem gerist á sviðinu upp og öðru hverju er kristilegur söngur og textanum er varpað upp á skjáina svo þær þúsundir sem eru í salnum geti sungið með. Maðurinn í skikkjunni snýr baki í fjöldann og hatturinn er bundinn á herðum hans og hann sveiflar út örmum, búningurinn er eins konar prestgervi og maðurinn talar mest um að það þurfi meira land og meira fé, það þurfi að kaupa upp fleiri jarðir í Fljótshlíðinni. Mér sýnist margir taka þátt í söngnum og fólkið sem ég sé í kringum mig er venjulegt fjölskyldufólk, mikið af ungu fólki með börn. Þarna var Gunnar í Krossinum og margir sem tilheyra öðrum trúarhreyfingum en þjóðkirkjunni, ég hitti fyrrum mág minn sem er í Veginum og hans fjölskylda kemur alltaf þarna á hverju ári.

Vinkona mín vildi ekki staldra þarna lengi við og sagði þetta trúarofstæki og heilaþvott. Ég gat ekki séð nein dæmi um slíkt og leið ágætlega þarna, held að það hefði bara verið fjörugt og öðruvísi að verja laugardagskvöldi í Örkinni inn í Fljóthlíð. Við eigum snörp orðaskipti um trúmál og umburðarlyndi fyrir mismunandi skoðunum og viðhorfum þegar við ökum til Selfoss. Það er líka erfitt að aka því kvöldsólin blindar mig og ég á erfitt með að sjá veginn og ég hef engin ráð við slíkar kringumstæður önnur en að aka hægt og alla vega fylgja veginum þó ég grilli ekki í umhverfið.

Við borðuðum seint á Hróa Hetti á Selfossi og höldum umræðunni áfram um trúarhreyfingar og umburðarlyndi og samhjálp. En þetta var góð ferð á slóðir hetjunnar Gunnars á Hlíðarenda og hún hófst þar sem við hittum séra Gunnar þjóðkirkjuprest í Njálusetrinu og henni lauk þar sem við sáum séra Gunnar trúarleiðtoga í Krossinum.

3.8.01

Blautur morgunn


Eldsnemma í morgun byrjaði vatn að leka í eldhúsinu hjá mér. Fossa reyndar frekar en leka. Ég var inn í stofu og heyrði skrýtin hvæshljóð úr eldhúsinu, fór fram til að athuga og þá var hrikalega mikill kraftur á vatni og það fossaði um allt. Það hefur pípulagningamaður verið að vinna í húsinu en ég hafði ekki númerið hjá honum og var ein heima og vissi ekki hvar kaldavatnsinntakið í húsið var. Datt ekkert í hug nema hringja í 112 og þeir sendu björgunarsveit á staðinn. Held að það hafi verið nokkrir lögregluþjónar og svo fólk með öfluga vatnssugu inn í eldhúsinu hjá mér í morgun. það var nokkurra sentimetra pollur í eldhúsinu og byrjað að leka í önnur herbergi. Lexía: Kynna mér eftirleiðis alltaf hvar vatnsinntakið er í húsum sem ég bý í og hvernig á að skrúfa fyrir vatnið ef eitthvað gerist. En ég er þakklát fyrir aðstoð frá neyðarlínunni, þetta er virkileg björgunarsveit.

Leiðarkort fyrir verslunarmannahelginaVegahandbók, landakort, vegir, skilti... hvernig ratar maður? Kannski það skipti svo sem ekki máli hvaða staðsetningartól maður notar ef markmiðið með ferðinni er ekki á hreinu. Eða svo sagði kötturinn í Lísu í Undralandi þegar Lísa spurði hann um hvaða leið hún ætti að fara:
Would you tell me, please, which way I ought to go from here?' spurði Lísa.
That depends a good deal on where you want to get to,' said the Cat.
`I don't much care where--' said Alice.
`Then it doesn't matter which way you go,' said the Cat.

Vinafólk mitt var að koma úr gönguferð á Hornströndum. Þau rötuðu leiðina eftir GPS mælingum. Ætli fólk sé hætt að nota áttavita svona eins maður lærði á í skátunum í gamla daga? Ég held þessi GPS tækni sé þannig að með því að ná sambandi við gervitungl þá getir þú miðað út með mikilli nákvæmni hvað þú ert staddur. Annars hafa alltaf himintungl verið notuð til að staðsetja sig í tíma og rúmi. Það er tekin sólarhæðin og siglt eftir stjörnum.

Ég hef fundið mér leiðarkort fyrir verslunarmannahelgina. Það er Njála. Líka nokkrar aðrar leiðabækur s.s. Ferð höfundarins , Launsynir orðanna eftir Einar Má Guðmundsson, Skyggst bak við ský eftir Svövu Jakobsdóttur og Undir leslampa eftir Gyrðir Elíasson. Spurning bara hvernig mér gengur að rata eftir þessum bókum.