31.12.01

Skotárásin á turninn

Í kvöld þegar kirkjuklukkurnar hringja inn nýtt ár þá stefni ég á að vera við Hallgrímskirkju eins og í fyrra. En ég veit að þegar árið líður hjá og Hallgrímskirkjuturninn baðast í flugeldum og hylst af reykjarkófi þá mun ég endurlifa það augnablik þegar ég fylgdist með turnunum falla í New York þann 11. september - þegar heimsmynd Vesturlanda hrundi með turnunum og sorg og öryggisleysi grúfði sig yfir okkar heimshluta. Það verður líka eins og sterkara að vera við kirkjuna sem sjálf er eitt af táknum Reykjavíkur og kennd við trúarskáldið Hallgrím sem fór tvítugur að aldri til Danmerkur að taka á móti og uppfræða í trúarfræðslu hóp af íslensku fólki sem hafði verið hernumið til Alsír og því óttast var um að einhverjir úr hópnum hefðu orðið fyrir áhrifum af villutrúnni Islam. Fyrir framan Hallgrímskirkjuna er líka annað tákn, tákn fyrir þúsund ára tengsl Íslendinga við Ameríku, stytta af Leifi Eiríkssyni.

Guðríður sem fór í austur, Guðríður sem fór í vestur
Ég hugsa líka að hugurinn reiki til þeirra tveggja íslenskra kvenna sem víðförlastar voru á sinni tíð, önnur fór til Alsírborgar árið 1627 og hin fór til New York árið 1001, önnur minnir mig tengsl okkar við lönd Múhameðstrúarmanna en hin minnir mig á tengsl okkar við Ameríku.

Guðrún Símonardóttir var hernumin í Vestmannaeyjum í Tyrkjaráninu 1627 og var ambátt í mörg ár í Alsír þar til hún kemur til baka og giftist sálmaskáldinu Hallgrími Péturssyni. Guðríður Þorbjarnardóttir var landnámskona í Ameríku, hún sigldi fyrir þúsund árum með manni sínum Þorfinni karlsefni til að setjast að í landinu sem Leifur heppni fann. Þorfinnur og Guðríður sigldu suður með þessum ókunnu ströndum og settust að þar sem sumir fræðimenn telja að New York-borg standi nú. Fyrsta veturinn í Vesturheimi fæddi Guðríður barnið Snorra Þorfinnsson sem talið er fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæðist í Vesturheimi.

Báðar þessar Guðríðar sneru aftur til Íslands og helga líf sitt trúnni, önnur sem eiginkona sálmaskáldsins og prestsins Hallgríms og hin sem nunna í klaustri. Þær voru víðförlari en flestir Íslendingar og lifðu báðar í heimi þar sem ólíkir trúarstraumar runnu saman. Hin herleidda Guðríður býr í mörg ár í ríki Múslíma og er sjálf kristin , landnámskonan Guðríður er kristin, hún býr fyrst í Grænlandi og síðar í nýja heiminum í samfélagi þar sem heiðinn siður og kristni takast á og hún fer í pílagrímsferð til Rómar.

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar hafa verið trúaruppspretta Íslendinga í margar aldir og við jarðarfarir óma sálmar Hallgríms um hrynjanda lífsins. Enginn veit hve mikinn áhrifavaldur Guðríður og lífsreynsla hennar hefur verið í kveðskap Hallgríms en alltaf þegar tveimur menningarheimum lýstur saman og andstæður takast á þá myndast skapandi straumar sem eins geta endað í innblásnu trúarljóði. Guríður kom úr Vestmannaeyjum og það eru tveir atburðir sem Vestmanneyingar kenna tímatal sitt við, það er Tyrkjaránið 1627 og það er gosið 1973. Í þeim heimi öryggisleysis og spennu í samskiptum ríkja, trúarhópa og þjóðflokka sem við höfum nú farið inn í þá er erfitt að missa ekki sjónar á því að þær mestu hættur sem steðja að þessu landi koma ekki í líki innrásarliðs eða eru af manna völdum, heldur koma úr iðrum jarðar og það eru eldsumbrot og náttúruhamfarir.

30.12.01

Hrói höttur felur sig í netþykkninu í Skírisskógi



Það var kannsi ekki svo fréttnæmt að það næði inn í íslensku pressuna en um miðjan desember var FBI og US Customs með alþjóðlega aðgerð í mörgum löndum til að uppræta hakkara- og forritaafritunarhring sem heitir DrinkorDie. Sjá nánar í þessari fréttatilkynningu frá FBI. Þessi aðgerð var lengi í undirbúningi og mér finnst margt sem ég hef lesið um undirbúning og framkvæmd að þetta sé eins og verið sé að ráðast gegn og uppræta hryðjuverkasamtök. Kannski er ekki tilviljun að FBI leggur áherslu á svona mál núna, þetta er einn angi af alþjóðlegri og ólöglegri starfsemi sem hefur viðgengist lengi og Internet hefur gert margfaldlega auðveldari og eftirsóttari og í kjölfar 11 september þá hefur gripið um sig mikil hræðsla um spellvirki á Internettengdum tölvukerfum og alveg eins og flugræningjarnir þurftu að kunna undirstöðuatriði flugs þá er líklegt að þeir sem ætla sér að valda glundroða í tölvuheiminum komi úr röðum hakkara og þá sé að finna í hakkaraleynifélögum á Netinu. Miklir bandarískir viðskiptahagsmunir eru hér líka í húfi að bandarísk höfundarréttarlög séu virt um allar álfur en það er þó ekkert sem getur sannfært mann um að a þeir sem nú búa á svæðum þar sem laun eru lág á okkar mælikvarða eins og í Kína og Rússlandi og nú afrita hugbúnað ólöglega muni hafa þann valkost á að kaupa þennan sama hugbúnað á löglegu heimsmarkaðsverði þegar einn hugbúnaðarpakki kostar kannski eins og árstekjur verkamanns.

Það fara líka sögur af aðgerðum kínverskra stjórnvalda við að hefta ólöglegan hugbúnað, ég las grein frá einum vestrænum blaðamanni þar sem sagði frá blaðamannafundi þar sem fulltrúar kínverskra stjórnvalda voru að með himinháa stafla af ólöglega afrituðum myndsnældum og geisladiskum sem þeir höfðu lagt hald á og voru að sýna hvernig þeir tækju þetta alvarlega og förguðu draslinu, mig minnir að í greininni hafi verið sagt frá hvernig þeir kveiktu í dótinu eða eyðilögðu á annan hátt. Svolítið broslegt og ég sé þarna fyrir mér kínversku lögregluna eins og mann með sveppakörfu sem tínir alla sveppi sem hann kemur auga á út í náttúrunni og heldur að hann hafi svepphreinsað svæðið. Alls staðar eru samt gróin og sveppir sem eru að vaxa upp og mest of sveppalífinu fer hvort sem er fram fyrir neðan yfirborð jarðar. En ég vona svo sannarlega að lögregluyfirvöld í þeim löndum þar sem kaupgjald og lífsgæði eru mörgum sinnum lakari en hjá okkur fari ekki of harkalega að í að uppræta þá uppsprettu þekkingar og aukinnar færni sem felst í aðgangi fátæks fólks og háskólanema að hugbúnaði. Ég held að ekkert geti eins mikið greitt fyrir að lífskjör þar batni eins og að fólk þar hafi almennt aðgang að þeim verkfærum sem þarf til að byggja upp framsækið þekkingarsamfélag.

Ég er mjög efins um að þessi aðgerð FBI og US Customs hafi haft meiri áhrif en snældu- og diskabrenna kínversku lögreglunnar. Sennilega er eina jákvæða sem kemur út úr þessum aðgerðum að þeim skilaboðum er komið til hagsmunaaðila (höfundarrétthafa) að eitthvað sé verið að vinna í málinu og löggæsluyfirvöldum sé ekki alveg sama. Svona svipað eins og þegar tollararnir og löggan gera öðru hverju skurk í dópsölumálum og koma upp um höfuðpaura og við foreldrar verðum ánægð yfir að það sé verið að gera eitthvað í þessu. En ég held ekki að almenningur, alla vega sá almenningur sem Netið samanstendur af sé neitt yfir sig hrifið af þessum aðgerðum eða hafi skilning á að þær séu hluti af eðlilegri löggæslu og FBI þurfi að koma fyrir ýmis konar búnaði til hlera og fylgjast með netverjum.

Einu sinni var ribbaldalýður sem faldi sig í skógi í Bretlandi og virti hvorki lög né rétt, lifði á dádýrum konungsins og rændi þá ríku sem áttu leið um skóginn og gaf fátækum. Svo urðu þessir útlagar frægir sem verndarar smælingjanna og ennþá er Hrói höttur og gengi hans tákn okkar um þá sem láta ekki ósanngjarnt kerfi kúga sig. Það getur verið að ef bandaríska alríkislögreglan fer of geyst í þessum málum að hún búi til píslavotta úr hökkurum og þeim sem opna óheftan aðgang almennings að hugverkum og þjappi þeim saman um málstað sem kannski er ekki til í dag en er samt mjög auðvelt að sjá fyrir að geti virkað sannfærandi. Það er auðvelt að sjá hvernig tapa á glæpastarfsemi eins og eiturlyfjasölu og þeir sem koma út sem stærstu taparar þar eru þeir sem stóðu höllum fæti fyrir. Því held ég að almenningur hafi fullan skilning á lögregluaðgerðum gegn fíkniefnum. Það er hins vegar erfitt að sjá hverjir eru að tapa í sumu af því streymi af hugverkum sem fljóta um Netið án þess að gjald komi fyrir. Jú, auðvitað tapa höfundarrétthafar einhverju en það eitthvað sem þeir hefðu selt áður hvort sem var og það eru margir að græða og þeir græða mest sem stóðu verst efnahagslega fyrir. Kannski verður einhvern tíma skrifað eitthvað manifesto fyrir þennan menningarkima og það verður ekki það
Hackers Manifesto frá 1986 sem sýnir hakkara sem hrokafulla táninga sem leiðist og telur sig klárari en aðra og þarf einhverja staðfestingu á því. Kannski verður það meira í ætt við þetta Hackers Manifesto 1 og Hackers Manifesto II eftir McKenzie Wark í Ástralíu sem er meira eins og eitthvað sem Karl Marx hefði skrifað ef hann væri uppi á okkar tímum og einn af netverjum.

Hakkarakúltúr og ólögleg afritun er einn menningarkimi á Netinu og kannski stærri en margur hyggur, kannski gegnir hann jafnstóru hlutverki eins og svartimarkaðurinn einu sinni gerði í ríkjum fyrir austan járntjaldið og kannski taka margir af einhverju leyti þátt í honum. Það sem sennilega breytist er að núna verður ímynd þessa menningarkima ekki hrokafullur tölvunörd á unglingsárum - sem aðhefst á móti kerfinu af því hann bara þarf að láta á sér bera og mótmæla og láta taka mark á sér - svona svipað eins og fyrri kynslóðir eins og í Rebel without a cause myndinni frá 1955. Hinir ofsóttu hakkarar á næstu árum verða kannski eins konar Hróa-hattar gengi sem gerir uppreisn gegn þeim eignarétti sem fólgin er í hugverkum og lítur á afritun hugbúnaðar eins og dádýrin í skógi lénsherrans og hefur fengið hlutverk - að stela frá þeim ríku og gefa til þeirra fátæku.
Hackers - The beauty of the bored
Grein um hakkaraárás á yahoo árið 1997

Ég fann grein sem segir frá að FBI hafi miklar fyrirætlanir um rafræna vöktun og rafræna njósnastarfsemi og rafrænar hleranir: FBI officials have acknowledged that the agency is developing a combination computer worm/Trojan horse called Magic Lantern that's designed to capture keystrokes on a target computer and encryption keys used to conceal data.

"The availability of new surveillance technologies and the government's eagerness to employ them certainly do pose a challenge to traditional civil liberties," said Steven Aftergood, director of the Project on Government Secrecy at the Federation of American Scientists in Washington. "There is some danger that the surveillance impulse will take on a life of its own, producing an unwholesome mutation of our political system."
Mikið er ég sammála þessari síðustu setningu. Ég vona að sú stund renni ekki upp að stjórnvöld hérlendis taki að sér eða leyfi rafræna vöktun til að gæta viðskiptahagmuna erlendra stórfyrirtækja.

Hrói höttur nútímans?
Hrói Höttur
Moscow cracks done on pirate CD
drinkOrDie raid overkill?
DoD overkill?
Fed bust...
Skýrsla ríkisendurskoðunar frá 1999 um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisstofnunum (á pdf formi)

29.12.01

Tölvuskipti

Ég er alvarlega að spá í að fá mér nýja heimilistölvu fyrir áramót. Ég þarf betri skjá(19 tommu), geislaskrifara,stærri harðan disk(40 GB) og hraðvirkari tölvu (1 GB eða meira). Finn fyrir því núna þegar ég er alltaf með mörg forrit í gangi og mikla myndvinnslu að það er erfitt að vinna á fartölvuna og gamla heimilistölvan er frá árinu 1998 og voða hægvirk. Núna er ég að spá í hvaða útgáfu af stýrikerfi ég eigi að hafa þ.e. millenium eða windows xp. Ég hallast mjög mikið að Windows XP en er ekki sérlega hrifin af þessu kerfi sem Microsoft hefur sett inn til að vernda höfundarréttarhagsmuni sína, það er einhvers konar kerfi þar sem það verður að senda alltaf staðfestingu til Microsoft og fá samþykki þaðan til að forrit/stýrikerfi sé nothæft.Líka óþolandi hvernig reynt er að þröngva öllum til að nota bara búnað sem Microsoft framleiðir og styður. Ég er aðdáandi Netscape og Opera vafrara, kann vel Realplayer útsendingar og finnst frábært að spila stafræna tónlist á mp3 formi. Microsoft vill hafa vit fyrir mér og vill ekki að ég noti svona utanaðkomandi dót. En Microsoft framleiðir þrælgóðan hugbúnað og ég hlakka til að kynnast Windows XP, mér skilst að það sé gott t.d. varðandi stafrænar ljósmyndir.
windows xp blues
Microsoft piracy protection cracked
Coders claim a crack in Windows XP
digital photography og Windows XPp
Big brother Microsoft
En hvert stefnir þetta? Er framtíðin að það þurfi alltaf að tala við Microsoft og fá samþykki þaðan þegar maður breytir einhverju á tölvunni hjá sér? Úfff...... En svona er veruleikinn í dag: "From the time you first boot XP, you have 30 days to activate it either online or via telephone. The activation is based on a 50-digit installation code that consists of the XP software product ID and a hardware hash value. Once you activate XP, you can't make more than five major changes to the hardware configuration without reactivating. Every 120 days, the clock is reset and you can make an additional five hardware changes. If you replace or reformat the hard drive, you must always reactivate."

28.12.01

Vængstýfðir englar


Skrýtið með ríkissjónvarpið sem er svona opin einstefnuháhraðagátt inn á hvert heimili í landinu, það er eins og það sé langt á eftir tímanum og það sem endurkastast þaðan inn á heimilin er löngu hætt að vera veruleiki og orðið sögulegur fróðleikur. Það verður þannig til notaleg fjarlægð sem gerir manni kleift að sjá annað sjónarhorn á þeirri sögu sem einu sinni var samtíminn. Það gerðist núna um jólin þegar sýndar voru í sjónvarpinu tvær íslenskar kvikmyndir Englar alheimsins og 101 Reykjavík. Ég hef lesið báðar bækurnar sem myndirnar byggja á og séð báðar myndirnar áður. Bara ekki á sama tíma og ekki tengt þær sérstaklega saman. Samt eru þær framleiddar á á svipuðum tíma og sama fólkið kemur að gerð þeirra. Að horfa á þær núna aftur varð til þess að það rann upp fyrir mér hversu líkar þessar myndir eru.

Báðar eru þær sagðar frá sjónarhóli ungs karlmanns og áhorfendur fylgjast ekki með honum utan frá heldur eru inn í huga hans og sjá heiminn með augum hans, hann er líka sögumaðurinn. Ég veit ekki hvort eigi að kalla þetta þroskasögur, aðalpersónurnar Páll og Hlynur eru andhetjur og báðir öryrkjar og útlagar sem samlagast ekki einhverju sem þeir skynja sem eðlilegt lífshlaup. Þeir eru ekki einfarar, í báðum myndum er dregnar upp skýrar myndir af þeim í félagahópi, eins konar gengi sem brallar ýmislegt saman og hefur sérstaka ritúala sem þjappa hópnum saman. Páll er í Klepparagengi þeirra sem hafa verið grafnir lifandi og Hlynur er í Kaffibarsgengi þeirra sem halda að þeir ráði því hvort og hvenær þeir eru grafnir lifandi. En félagar þeirra beggja eru auðnuleysingjar og utangarðsmenn og þeirra heimur er þröngur, eins konar fangelsi og fangaverðir þar eru þeir sem vilja þröngva þeim á rétt spor í lífinu, hvort sem það eru geðlæknar á Kleppi, starfsfólk á atvinnuleysisskrifstofu eða foreldrar.

Utan um hinn þrönga heim þeirra hvort sem það er á hælinu eða á Netinu/barnum/miðbænum þá er annar heimur svona úthverfalíf sem þeir eru engir þátttakendur í. Báðir eiga þeir umhyggjusama fjölskyldu sem þeir nærast á og traðka á. Í báðum myndum er ein sögupersóna tannlæknir á jeppa sem tákn um velgengni í heimi þeirra sem fylgja rétta sporinu. Í báðum myndum fara sögupersónur í heimsókn að Háskóla Íslands en eru þar utangátta, þeirra ritverk finnast ekki þar og græn lesljósin eru þeim framandi. Stúlkurnar Hófi og Dagný sem sögupersónurnar Hlynur og Páll eru í tygjum við eru báðar af öðrum meiði en þeir og eru fulltrúar borgaralegra gilda sem þeir fyrirlíta og hæðast að og geta ekki eða vilja ekki lifa eftir. Stúlkurnar koma báðar úr velstæðum fjölskyldum og eru á framabraut, Dagný notar Pál sem leikfang um tíma og kastar honum frá sér en gefið er í skyn að Hófí vilja hneppa Hlyn í fjötra og gera hann að húskarli í sinni þriggja herbergja íbúð.

Þeir eru báðir í hópi þeirra sem ríkið þarf að ala þá en þeir eru ólíkir því að Hlynur er iðjuleysingi af eigin hvötum, það er eins konar lífsstíll og töff tískustefna "slaaker" að vera eitt stórt núll. Hann er hrokafullur, forðast ábyrgð og heldur að með honum sé borgað meðlag og hann einhvern veginn eigi líka rétt á því. Á meðan Hlynur telur sig hafa vilja til að vera eða vera ekki, fylla sig af vímuefnum og tortíma sjálfum sér eða gera það ekki þá getur Páll ekki stjórnað lífi sínu og huga, hann er fylltur af lyfjum og getur engu ráðið um örlög sín. Nema dauðanum.

Páll er kviksettur í myndinni, hann er grafinn lifandi með þeim sem hugsa öðruvísi, þeirra sem eru með "brenglað veruleikaskyn". Báðir eru þeir barðir niður og blóðgaðir í myndinni, Páll á skyndibitastað af öðru utangarðsfólki sem ásælist hamborgarann hans og Hlynur á klósetti á bar af bróður Hófíar.

Það er freudísk undiralda og upplausn kynhlutverka í 101 Reykjavík og myndin snýst mikið um kynlíf. Orkuboltinn og spennugjafinn í þeirri mynd er hin utanaðkomandi ástkona sem seiðir bæði móður og son. Söguhetjan Hlynur er dauðyfli, hann er mattur og framtakslaus. Það er sálarlíf Páls sem er krafturinn og sveiflan í Englum alheimsins, svona ofursál sem lætur ekki að stjórn og verður ekki hamin og bælt niður nema með deyfilyfjum.

Þeir tortíma báðir sjálfum sér í myndinni og það er eitthvað líkt með þeim atriðum. Páll hefur sest upp á syllu á hæstu hæðinni í öryrkjablokkinni og hann hefur sig til flugs úr því fangelsi sem líf hans er en þó hann sé einn af englum alheimsins þá virka vængirnir ekki og hann hrapar til jarðar þegar hann kastar sér fram af svölum. Hlynur gengur í jökulinn og ætlar að krókna í hel, hann er orðinn að fuglsunga, einhvers konar ófleygum bastarði, afkvæmi tveggja annarra fugla alka og lesbíu en hann endurfæðist á einhvern hátt með barninu sem ástkona móður hans elur, hann hefur náð að klóna sjálfan sig og myndin endar á senu þar sem Hlynur og sonur hans busla í baði, og njóta umhyggju kvennanna eins og barn sem hefur fengið tvo misstóra líkama og tvær mæður. Er nokkuð sáttur með sig og hefur fundið tilgang sinn í lífinu. Að vera sæðisgjafi og njóta umönnunar.

Báðar þessar kvikmyndir eru sögur um samtímann eins og hann var á Íslandi um aldamótin síðustu.
Slóðir:
Ópið í óreiðu listarinnar
Kvikmyndagagnrýni Ólafs H. Torfasonar um 101 Reykjavík
Gagnrýni um 101 Reykjavík

27.12.01

Jólamyndirnar


Nú er ég búin að setja á vefsíðu jólamyndir sem ég tók með nýju stafrænu myndavélinni. Þær eru ágætlega skýrar en þó er eitt sem ég skil ekki.Ég held að það eigi að vera eitthvað sem tekur af rauð augu og það virkar alveg með augnlit en augasteinninn kemur stundur alveg eldrauður þegar ég tek með flassi. Ég var líka að prófa að setja upp myndaalbúm í Frontpage 2002 og það er mjög einfalt því það er innbyggt. Hingað til hef ég notað Dreamweaver 4 til að búa til myndaalbúm.

26.12.01

Blogger í jólaskapi


Það var breytt lykilorðinu mínu í Blogger eins og hjá Karli og sett inn mjög algengt orð í staðinn. Sem betur fer er auðvelt að breyta aftur og það gerði ég strax. Ekki get ég séð neinar tilkynningar hjá Blogger um svona breytingar og ef þetta er svona öryggisrútína til að notendur breyti lykilorðum reglulega þá er út í hött að setja svona algengt lykilorð í staðinn. Lítur frekar út eins og einhvers konar innbrot eða hrekkur. Sá sem gæti t.d. breytt Blogger lykilorðum alls staðar í sama algenga orðið gæti þannig komist inn á alla þá vefþjóna sem Blogger sendir gögn á með ftp. Þetta er umhugsunarefni. Kerfi eins og Blogger gætu virkað eins og Trojuhestar. Alla vega er ekki viturlegt að hafa dýrmæt og viðkvæm gögn inn á sama vefsvæði og Blogger sendir inn á.

Viðbót: Blogger hefur tilkynnt að þetta hafi verið hakkaraárás og kerfið var niðri einn dag.

24.12.01

Blót með Ásatrúarmönnum og uppistand á Næstabar


Fór á fimmtudaginn í jólaboð með vinnufélögum þar sem ég heyrði margar skemmtilegar sögur og svo á Næstabar því þar var eitthvað jólauppistand. Kom svona klukkustund af snemma á Næstabar og var ein af fjórum gestum á barnum en það kom ekki að sök því hinir gestirnir voru skemmtilegir og ræðnir og höfðu miklu að miðla, þarna voru leikarar, bókagerðarlistamenn og kvikmyndasemjendur. Uppistandið var þó afar hversdagslegt. Á föstudaginn var annað boð og svo fór ég og horfði á botnplötuna steypta í húsinu og svo um kvöldið á blót Ásatrúarmanna. Það var haldið í salnum þeirra við sjóinn rétt hjá Kaffivagninum á Granda, þar er stór salur og eru komnir reflar skreyttir af Hauki Halldórssyni á veggina og ljósakrónur veglegar sem Jörmundur alsherjargoði hefur hannað.

Ekki var neitt dúndurstuð þarna, heldur var setið í rólegheitum og snætt hrossakjöt og heilsteikt svín og drukkið jólaöl með. Svínshöfuðið var stillt upp fyrir framan sæti alsherjargoðans. Svo var grjónagrautur með möndlugjöf. Ég saknaði þess nú að þar var engin dagskrá eins og þegar ég fór á samkomu Hvítasunnumanna í Örkinni um verslunarmannahelgina þegar ég var í Njáluslóðapílagrímsferðinni. Var að vona að þarna myndi verða einhvers konar gerningur eins og þegar Hrímnisljóð voru flutt í Ráðhúsinu á Vetrarsólstöðum fyrir nokkrum árum.

En það voru margir skemmtilegir til að spjalla við þarna, sumir voru fornir í tilsvörum og klæðaburði og gengu um með horn rist galdrarúnum og svo voru þarna nokkur ungmenni sem voru frekar vígaleg, svartleðurklædd og gödduð málmbroddum og hringjum. Möndlugjöfina hlaut ung stúlka með biksvartar augnabrúnir og í mansongervi og það var svínshöfuðið og sælgætisaskja. Hún hafnaði samt algjörlega að taka við svínshöfðinu og sagðist vera grænmetisæta og lék sér að svartri plastrottu í bleiku bandi. Sagðist búa heima hjá foreldrum og ekki mega hafa þar rottu sem gæludýr. Þetta varð kveikjan að umræðum um dýravernd og ég notaði tækifærið til að koma að þeirri lífspeki í sýn á dýraríkið og verndun þess að "cuteness should not be a factor".

Svo hitti ég þarna líka tvo bræður sem sögðu sögur. Man ég mest eftir sögum af Jóni* ýtumanni og kvennamálum hans. Þær sögur spönnuðu marga áratugi og byrja þar sem Jón* gengur úr rúmi fyrir vottum Jehóva boða fagnaðarerindið og sænga hjá konu hans og enda þar sem Jón* hinn kvensami var nýlega viðstaddur brúðkaup sonar síns sem er að giftast karlmanni en þennan son hafði hann einmitt getið með hjúkrunarkonu sem lagðist ofan á hann þegar hann hafði einu sinni fengið hjartaáfall og var fluttur á spítala en hann gjörðist kramur á hjarta eftir að vera hart leikinn árum saman af hinni færeysku Jóngerði* fyrrum ástkonu sinni sem einnig ofsótti margar af síðari sambýliskonum hans á hrottalegan hátt. Breyti hér nöfnum til öryggis ef þetta skyldi vera eins sannar sögur og bræðurnir héldu fram.

Jólabakstur

Ég er svolítið þreytt og dösuð eftir allan jólabaksturinn. Ekki að ég hafi bakað neitt eða komið eitthvað nálægt þessum bakstri, nei ég hef forðast eldhúsið undanfarnar klukkustundir en dóttir mín tólf vetra hefur þar farið hamförum. Hún ákvað að þessi jól þá þyrftum við að hafa kransaköku, bananatertu, marenstertu og rise krispies smákökur og hefur verið að framleiða það. Ég hafði ekki leitt hugað að því áður hve svona kransakökur eru flóknar að gerð, verða að bakast í pörtum í einhvers konar hringjum og svo settar saman og skreyttar.

23.12.01

Brennið þið vitar...



Meira um höfundarrétt og Netið
Brennið þið vitar syngja karlakórarnir og á strandlengju Íslands lýsa vitarnir leiðina fyrir sjófarendur og það hefur aldrei verið spáð í að setja upp afruglunarbúnað svo bara útvaldir geti numið geislann. Enda er það ekki hægt. Bjarni Rúnar skrifaði fyrir nokkrum dögum pistil um höfundarétt á vefnum þar sem hann segir að stafrænt efni lúti ekki lögmálum efnisheimsins og tekur dæmi um að ef hann steli penna, þá hafi einhver misst penna en ef hugverki er stolið þá hafi það ekki neinn sambærilegan missi í för með sér. Ég fann á vefnum áhugaverðar greinar eftir Dan Kohn einmitt um þetta, sjá Steal This Essay . Boðskapurinn í skrifum Dans er að efni á vefnum verði almenningseign (public goods) og því geti hvorki útgefendur né höfundar breytt og þetta gerist þegar allir eru komnir með ljósleiðaratengingar. Hann segir frá því að þó Napster hafi verið lögsótt og orðið að loka þá hafi sprottið upp önnur kerfi sem ekki byggja á miðlægum grunni og það er enginn til að lögsækja og þar er núna allt það efni sem var á Napster fáanlegt en þar að auki hafi bæst við allar nýjustu myndirnar.

Í heimi þar sem það kostar næstum ekki neitt að afrita efni og þar sem allir geta afritað er það hagfræðilíkan úrelt sem hugverkaiðnaðurinn byggir nú á. Núna er það talinn þjófnaður að afrita efni án leyfis. Það eru tekin dæmi sem eru svipuð og pennadæmið hjá Bjarna. Sum gæði eru nonvital en það er orð sem hagfræðingar nota um stafræn gæði, þá er enginn að tapa þó annar afriti, þetta er ekki eins og að stela bíl, þá er sá sem átti bílinn að tapa. Svo er í greininni talað um gæði sem eru bæði nonvital og nonexcludable en það eru gæði þar sem ekki er hægt að hemja og hindra aðgang annarra í gæðin. Dæmi um slíkt eru t.d. vitar. Allir sjófarendur sjá ljósin frá vitanum. Svona er líka um allar þessar útsendingar sem við verðum fyrir á stafrænu formi. Það er nánast ókjörlegt að rugla þær útsendingar, alltaf verða einhverjir til að brjóta þá lása. Vandamálið segir Dan er hver á að borga fyrir framleiðslu á efninu? Hver á að borga listamönnum og höfundum fyrir vinnu sína? Styrkir og framlög úr ríkisjóði er algeng leið til að borga kostnað við það sem er almenningaseign, það væri líka hægt að hugsa sér að efnisframleiðslan sé kostuð af frjálsum samskotum frá styrktaraðilum. Ég veit ekki hvort að það eru réttir spádómar um nánustu framtíð sem koma fram í greinum Dan Kohns en þetta vekur samt upp spurningar um eðli eignarétts á hugverkum og líka um hlutverk ríkisins við að kosta gæði sem eru almenningseign. Verða ekki að koma til framlög úr opinberum sjóðum til efnisgerðar? Ég hef mest pælt í Internetinu í sambandi við menningar- og fræðsluefni og ég get ekki séð neitt markaðsmódel sem ný er við lýði sem virkar í sambandi við slíkt. Sérstaklega ekki á slíkum örmarkaði sem Ísland er.

21.12.01

Vetrarsólstöður



Hátíðisdagur og síðasti vinnudagurinn fyrir jól! Síðdegis var jólaboð með sænskum hætti í vinnunni. Í dag eru vetrarsólstöður og þessi dagur er hátíðisdagur allra þeirra trúarbragða sem nota sólarganginn til að merkja hátíðir. Í dag var steypt botnplata í húsi sem ég er að byggja. Það komu fimm steypubílar og það voru nokkrir menn í skærlitum búningum að vinna í grunninum í dag. Þeir voru að járnabinda og leggja rör í rör kerfi. Það var orðið dimmt þegar byrjað var að steypa. Steypunni var dælt í grunninn með steypudælu, hún var víbruð með víbrator og slödduð með sladdara. Grunnurinn var lýstur upp með sterkum kösturum eins og leiksvið. Verktakarnir eru sérfræðingar í sviðsmyndum fyrir kvikmyndir. Ásatrúarmenn eru með hátíð í kvöld. Kannski maður kíki þangað.

20.12.01

Garðar Hólm


Ég var að hugsa um Garðar Hólm í kvöld. Byrjaði reyndar þá hugleiðingu í gær en þá var ég í bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum og blaðaði í gegnum eina jólabókina, það var bók um manninn sem lék Garðar Hólm. Ég þekkti einu sinni bróður hans. Kannski fór ég að hugsa um Garðar Hólm af því að í Mósaíkþættinum í sjónvarpinu í kvöld var þáttur um Sigvalda Kaldalóns og þar var sagt stuttlega frá bróðir hans Eggerti Stefánssyni en mig minnir að í jólabókina hafi komið fram að hann sé fyrirmynd að Garðari Hólm. Eða kannski var ég að hugsa um Garðar Hólm af því að einmitt í kvöld var heimsfrægasti söngvarinn íslenski hún Björk að halda tónleika í næsta nágrenni við mig í Laugardalshöllinni. Garðar Hólm var stórsöngvari, heimsfrægur Íslendingur sem fór um lönd og álfur og leitaði að hinum eina sanna tón. Garðar Hólm var ekki til, hann er sögupersóna í bókinni Brekkukotsannáll og höfundurinn sem bjó hann til sagði: "Og þegar spurt er um Garðar Hólm get ég svarað: hann er holdi klædd hugleiðing mín um eðli frægðarinnar".

Þegar kvikmyndin Brekkukotsannáll var sýnd þá vann ég í kjallaranum í Holdsveikrahælinu í Kópavogi. Þarna var eldhús fyrir Kópavogshælið sem þá var stórt vistheimili fyrir þroskahefta. Bróðirinn var þar vistmaður, sinnti erindum og axlaði ábyrgð. Hann var skemmtilegur og góður maður og ljómaði þegar hann sagði frá bróður sínum sem var frægur íslenskur leikari og kvikmyndastjarna og hafði unnið marga leiksigra á erlendri grund.Ég held ég hafi aldrei séð Garðar Hólm öðruvísi en með augum þessa bróður og mér finnst hann líka vera langsamlega litríkasta og stórbrotnasta persónan í Brekkukotsannál. Ég blaðaði gegnum jólabókina þarna í Mál og menningu í gær og ég sá að bróðirinn frægi hefur lifað inntaksríku lífi fullu af ævintýrum og skrýtnum atburðum og lifað hamingjusömu fjölskyldulífi þó fjölskyldan sé afar óvenjulega samsett. Sennilega er engin ein gerð af fjölskyldu það eina rétta og þar sem margir hjálpast að við að annast börn og hlú að þeim er líklegra að þau komist vel til manns. Ég skoðaði fleiri jólabækur þarna í bókastöflunum í Mál og menningu og þar á meðal eina sem heitir Ósýnilegar fjölskyldur og undirtitillinn sagði mér að bókin fjallaði um þroskaheftar mæður og börn þeirra. Ég brosti með sjálfri mér þegar ég sá þessa bók þarna í jólabókakösinni, skyldi hún hafa komið út fyrir jólabókamarkaðinn, hver skyldi gefa svona bók í jólagjöf? Svona lítinn pakka fullan af volæði og vandamálapælingum. Ég brosti ekki lengur þegar ég blaðaði gegnum bókina því þá rann upp fyrir mér að ég þekkti sumar af þessum konum, þær komu í sendiferðir í eldhúsið á hælinu og sátu þarna stundum og fengu sér kaffi og spjölluðu. Þær voru vistmenn á hælinu og ég man eftir að margar höfðu átt börn áður en þær komu á hælið. Í bókinni er sögð saga nokkurra kvenna og barna þeirra og þetta er ekki saga um mannréttindi og virðingu fyrir fólki.

19.12.01

Auðkenni


Fyrir tveimur árum var Magnús að fletta Dagblaðinu og sýndi mér mynd og sagði "Þessi kona er alveg eins og ég" og benti mér á mynd af bandarísku listakonunni Roni Horn sem um var grein í blaðinu. Við skoðuðum myndina mjög vandlega og vorum bæði á því að þetta hefði alveg eins getað verið mynd af Magnúsi. Síðan hef ég alltaf fylgst með umfjöllun um þessa listakonu og svo þegar hún var hér með myndlistasýningu í I8 í haust og hélt í framhaldi af því fyrirlestur í Listaháskólanum 2. nóvember þá fór ég á þann fyrirlestur, ég hef áhuga á verkum hennar en vildi líka sjá hvort hún væri svona nauðalík Magnúsi að hann gæti ekki greint á mynd hvort það væri hann sjálfur eða hún.

18.12.01

Um höfundarrétt á myndefni


Ég held að fólk sé mjög lítið meðvitað um höfundarétt á myndefni og get nefnt þrjú nýleg dæmi sem eru núna út á vefnum. Fyrsta dæmið er að á nýju vefsíðu Kennaraháskóla Íslands er bæði á forsíðu og á sérstakri fréttasíðu mynd af tveimur krökkum að föndra og er þetta myndskreyting með frétt um erlenda skólamálarannsókn. Þessi mynd er ekki ósvipuð myndinni sem ég tók í eldhúsinu heima hjá mér árið 1998 af frændsyskinum að búa til pappírspáskaegg úr blöðrum og birti á einni vefsíðu á Páskavefnum mínum, hún er bara smækkuð og afskræmt. Þetta getur varla verið mín mynd, enginn hefur beðið mig um leyfi til að nota hana á öðrum vefjum eða breyta henni.

Annað dæmið er á jólavef hjá visir.is en þar er núna auglýsingaborði fyrir söluvörur sem er samsettur úr jólasveinamyndum eftir Halldór Pétursson sem ég skannaði inn á sínum tíma inn og birti á mínum jólavef með fullu leyfi höfundarrétthafa enda greiddi ég sérstaklega fyrir það. Það var í þeim tilgangi að sýna minningu Halldórs Péturssonar sóma því hann skapaði myndræna ímynd þeirrar Grýlu sem hrædd íslensk börn í áratugi. Þó það sé snerti mig ekki mikið að ljósmyndir mínar séu notaðar og birtist breyttar á vefsetrum skólastofnana til að fjörga upp á þá vefi þá finnst mér mjög sárt ef teikningar listamanna sem ég hef haft frumkvæði af að koma á vefinn eru notaðar í auglýsingaborðum án leyfis höfundarétthafa. Kannski ferst mér ekki að fjalla um þetta, get svo sem ekki sagt að ég sé syndlaus í myndbirtingum en ég reyni þó alla vega að kynna mér höfundarréttarlög og vinna eins og hagsmunasamtök myndhöfunda vilja þó ég geti það ekki alltaf.

Þriðja dæmið er á vef listamannsins Páls í Húsafelli. Fyrst þegar sá vefur kom upp þá var á forsíðunni ljósmynd af Páli að spila á hljóðfæri úr steinum en þessa mynd hafði ég tekið á sýningu í Ásmundarsafni og eytt töluverðum tíma í að breyta henni, taka út fólkið sem var í bakgrunni og setja inn bakgrunn sem passaði við náttúrustemminguna í þessum viðburði. Ekki hafði ég verið spurð um þessa birtingu en ég ákvað að tilefnið væri ekki mikið til að gera veður út af svo ég skrifaði vefstjóranum og gerði athugasemd við þetta og sagði jafnframt að þeim væri heimilt að birta myndina ef nafn myndhöfundar væri með. Nú sé ég að myndin er farin af forsíðu en er ennþá inni á einni undirsíðu en þar er þó ekki hirt um að geta myndhöfundar.

Jólasérfræðingurinn




Það var árið 1995 sem ég hengdi fyrst upp jólaskreytingar á vefsíðuna mína. Bara nokkrar greinar og jólakúlur sem ég fann á einhverjum myndavef á Netinu. Það er eins með jólaskreytingar á vefsíðum og þessar ljósasnúrur sem menn vefja um húsin sín og hengja í glugga, þetta vindur upp á sig og magnast og margfaldast með hverju árinu. Árið 1996 byrjaði ég á jólavef, ætlaði fyrst að hafa þetta svona þjóðlegt um íslensku jólasveinana en þegar ég fór að skoða málið þá komst ég að því að þeir eru frekar litlausir einfeldningar og blikna alveg við samanburð við móður sína Grýlu sem er miklu meira spennandi og ég helgaði nú vefinn mest minningu hennar. Skreytti svo vefinn með alls lags jólaglingri, mataruppskriftum, ljóðum og myndum og hef föndrað með vefinn á hverju ári ef ég hef haft tíma og setti upp enska útgáfu út í fyrra.

Ekki sá ég fyrir allar þær bréfaskriftir sem þessi jólavefur myndi hafa í för með sér. Núna er ég orðin einhvers konar jólasérfræðingur og fæ bréf hvaðanæva úr heiminum og er spurð ráða um spilareglur í marjas, hvernig eigi að baka randalín (kaka sem Vestur-Íslendingum finnst það þjóðlegasta af öllu en Íslendingar vita ekki að sé til), hvernig eigi að búa til jólasultu eins og mamma einhvers gerði alltaf, hvaða söngva eigi að syngja á jólaböllum Íslendingafélaga hér og þar um heiminn og meira og meira. Seinustu bréfin eru frá breskri útvarpsstöð sem ætlar að taka upp jólaþátt á Íslandi og vill fá álit mitt á við hverja eigi að hafa viðtal og frá konu í Frakklandi sem þekkir hóp af börnum íslenskum og frönskum sem vilja skrifa gömlu íslensku jólasveinunum og vill fá að vita hvaða heimilisfang þau eiga að skrifa til á Íslandi. Ég er auðvitað svolítið drjúg yfir að vera orðin svona mikill jólasérfræðingur en ég barasta veit ekki svör við þessu öllu.

17.12.01

Hreyfimyndir


Nýja stafræna myndavélin mín sem er bara lófastór er með svona fídus þar sem ég get tekið upp stutta vídeóbúta og það meira segja með tali. Ég er búin að prófa þetta og hér eru nokkur brot sem ég tók upp á jólafundinum í kvæðamannafélaginu Iðunni og smábútur úr leiðsagnartíma með nemendum. Ég þarf að pæla í hvernig ég get notað þennan vídeómöguleika í framtíðinni en sé strax að það eru viss vandamál í sambandi við minni og heimasvæði. Myndskeiðin eru svona 1-2 mb og eru samt örstutt. Ég þarf nokkurra gígabyta heimasvæði ef ég ætla að hafa mikið svona út á vefnum og núna þá borga ég sjálf fyrir mest af mínu heimasvæðaplássi svo það er illt í efni því ég giska á að kostnaður minn við Internetsamband, vef og þess háttar sé núna um 15. þús. á mánuði. Samkveðskapur á jólafundi í Iðunn 1
Samkveðskapur á jólafundi í Iðunn 3
Samkveðskapur á jólafundi í Iðunn 5
Samkveðskapur á jólafundi í Iðunn 6
Leiðsagnartími í tölvuveri KHÍ

16.12.01

Kaupfélagið, Grái kötturinn og Sigfúsarmessunótt


Á laugardaginn fór ég niður í bæ og fór fyrst á leiksýninguna Draumur á Sigfúsarmessunótt sem dóttir mín leikur í. Tók myndir frá sýningunni og setti á vefinn. Svo fór ég með fjölskyldunni að skoða mannlífið, kaffistofurnar og vörur kaupmanna á Laugarveginum. Allt krökkt af fólki því það viðraði betur fyrir Laugaveginn en Smáralind og Kringlu. Gaman að spá í þróunina á Laugavegnum, í mörg ár hafa verslanir breyst í bari og vídeóleigur. Núna er eins og eitthvað annað sé að gerast, það eru að koma nýjar gerðir af kaffihúsum eða samkomustöðum eða menningarmiðstöðvum þar sem maður getur spjallað, lesið, vafrað og borðað og drukkið. Nú eru það bankarnir sem eru að hverfa úr miðbænum og húsnæði þeirra fær annan tilgang. Búnaðarbankinn efst á Laugavegi hefur breyst í kaffibarinn Kaupfélagið og þar eru ýmsir munir ennþá sem muna á bankann. Það eru rammgerðar peningageymsluhurðir og ég tók mynd af dóttur minni við eina slíka hurð. Þá kom þar að starfsmaður og sagði að það væri bannað að taka myndir þarna inni og það væri sérstaklega auglýst á skilti fyrir utan staðinn. Ég spurði hvers vegna þetta væri bannað og fékk þau svör að það væri til að myndir væru ekki birtar á Netinu. Þetta finnst mér merkilegt, skil svo sem að veitingastaðir vilji að gestir séu í friði en vissi ekki að ágengni Net-paparazzi ljósmyndara væri orðin svo mikil að merkja þyrfti sérstaklega í skiltaskreytingum að nærveru þeirra væri ekki óskað. Svo finnst mér þetta skilti líka stórmerkilegt, nú er kominn sá tími að það þarf að ráða í flókið en samt alþjóðlegt táknmál til að skilja hvað staðurinn stendur fyrir. Það skellur líka á mann veggur af öllum lýsingarorðum íslenskum ef maður hættir sér á klósettið þar. Það er smart hönnun í Kaupfélaginu, útpældar litasamsetningar og stílhreint sambland milli fortíðar og nútíðar. Stundum finnst mér reyndar að það vanti eitthvað ef allt er svona stílhreint, fágað og smekklegt. En mér fannst ekkert vanta á stemminguna í Gráa kettinum á Hverfisgötu en þar enduðum við. Kannski það hafi verið plastjólasnjókarlaljósið í glugganum sem toppaði þann stað.

15.12.01

Jólafundur í Kvæðamannafélaginu Iðunni

Í gærkvöldi fór ég á jólafundinn hjá Iðunni, ég er félagsmaður þar. Þetta er dálítið forneskjulegur félagsskapur og þar koma saman hagyrðingar, alþýðuskáld og aðrir þeir sem unna hrynjanda og ljóðrænu í tungumáli. Mér sýndist ég vera nokkrum áratugum yngri en flestir á fundinum og fann mjög til þroska- og reynsluleysis míns, hafandi aldrei borið við að kveða rímur og vitandi ekkert um sléttubönd, hringhendur og stuðlasetningu.

Ég hef þó lesið Kvæðaskapur - Icelandic Epic Song eftir Hrein Steingrímsson og fyrsta ríman sem ég heyrði kveðna var í partýi á Gamla Garði fyrir margt löngu og það var Unndórsríma. Síðan hef ég verið heilluð af rímum.

14.12.01

Ísland = Björk, álfar og Internet


Í Times tímaritinu síðasta er fjallað um Björk og hún tjáir sig um Ísland og elur á þeirri ímynd sem nú er dregin upp af Íslandi í fjölmiðlum erlendis - hrikalegri og dularfullri náttúru og skrýtnum veiðimönnum og hirðingjum á hjara veraldar sem grúska í gömlum bókum, flakka um á Netinu og trúa á álfa og huldufólk.

Skemmtilegt er að það virðist oft vera borið saman í fjölmiðlum þessi almenna trú á hulduverur og hinir upplýstu, menntuðu og tæknivæddu Íslendingar. Í greininni í Times segir t.d.:

"In fairness, despite the fact that Icelanders have a 99.9% literacy rate, most believe in elves. In fact, the government had to reroute a planned highway because it would have passed over elf territory. It appears that elves, while remaining hidden, somehow manage to hand out their maps."

Seinna í greininni er líka talað um Internetnotkun Íslendinga og hin mikla notkun þess skýrð svona:

".....This also reflects tech-heavy Iceland, which has more cell phones and Internet connections per capita than any other country. If you lived on an island that is mostly flat, barren, rocky, frozen landscape, you would make sure you had an Internet connection too...."

Erlendir fréttamenn virðast hugfangir af þessum andstæðum milli trúar á huldar vættir og menntaðrar, upplýstrar þjóðar sem vafrar á Internetinu. Ég held að trú á huldar vættir sé stór partur af íslensku þjóðarsálinni og setti á sínum tíma upp vefinn Álfar og huldufólk þar sem ég reyndi að safna saman hvernig skáld nota svona álfaminni í ljóðum sínum. Fyrsta íslenska skáldsagan, Ólafs saga Þórhallasonar fjallar um fólk sem fer milli álfheima og mannheima og ein versta bíómynd sem Íslendingar hafa framleidd, kvikmyndin Sóley sem Róska stýrði (myndin er hrein snilld, ekki síst fyrir að ganga svona gersamlega á snið við allt sem við teljum bera vott um góðan smekk í kvikmyndum) hefur líka álfaþema. Margir núlifandi listamenn fjalla um álfheima og hamraborgin, há og fögur er vörumerki eins okkar frægasta söngvara hans Kristjáns og Björk okkar sem er ennþá frægari er eins og álfkona sjálf og syngur og talar um álfa. Spurning hvort nútímaálfar eru ekki líkari geimverum og svona Starwars verum en þessir í litklæðunum sem þjóðsögur Jóns Árnasonar segja frá. Enginn ástæða til að ætla annað en álfar hafi þróast í sinni tækninotkun eins og við mannfólkið og þeir voru komnir lengra fyrir mörgum öldum og eru það kannski núna líka.

13.12.01

Níu klikk á klámið


Þvílíkt óþverramál að hafa lögguna svona að ginningarfífli og notfæra sér hrekkleysi hennar og grandaleysi!!! Ég sá í fréttum á strik.is að þar velta menn sér upp úr því að með níu músarsmellum megi komast af heimasíðu lögreglunnar okkar yfir á danskt tenglasafn þar sem allt er vaðandi í klámi. Löggan íslenska situr náttúrulega ekki þegjandi undir þessu og þann 12. desember kom bréf til strik.is frá embætti ríkislögreglustjóra þar sem þeir útskýra málið. Það er sem sagt þannig að tengli var laumað inn í trássi við samstarfsaðila þegar danska lögreglan var að reyna að upplýsa glæpamál og hafði um það samvinnu við sjónvarpsstöð þá "...telja starfsmenn upplýsingadeildar dönsku lögreglunnar að sjónvarpsstöðin hafi, eftir að það samstarf hófst, sett inn tenglasíðu yfir á klámsíður, sem því miður virðist oft vera ráð hjá netfjölmiðlum, líklega í þeim tilgangi að afla fleiri heimsókna.Skýringin virðist því einfaldlega vera sú, að þarna hafi fjölmiðill, sem er að afla sér heimsókna á netinu, laumað inn tenglum inn á klámsíður, í trássi við þann aðila sem þeir eru í samvinnu við, í þessu tilviki danska ríkislögreglustjórann.." Svei og aftur svei að að krækja svona inn á silikonsíðurnar í algjöru leyfisleysi. Í dag fara þessir hrekkjóttu jólasveina að tínast til byggða. Skyldu vera til netjólasveinar? Ef það væri til netjólasveinn sem laumaði inn þessum krækjum á klámið þá væri sniðugt að kalla hann Júgnakrækir.

11.12.01

Suður Afríka og Svíþjóð



Var um helgina á námskeiði í Svíðþjóð. Það var SIDA sem er þróunarsamvinnustofnun Svía sem styrkti þetta námskeið en það gekk út á að nemendur í fjarnámi í fullorðinsfræðslu og alþjóðavæðingu við háskólann í Linköping og nemendur sem eru á sama námskeiði í háskóla í Cape Town í Suður-Afríku hittust. Skemmtilegt námskeið og gaman að hitta fólk frá svona mismunandi menningarheimum. Varð miklu fróðari um lífið í Suður-Afríku eftir aðskilnaðartímann og þá gerjun og breytingar sem nú eiga sér stað þar. Gaf sjálfri mér jólagjöf, keypti nýja digital myndavél. Er búin að setja myndir sem ég tók í ferðinni á gömu myndavélinaá sérstaka vefsíðu. Það verður gaman að sjá hver munurinn er með nýju vélinni. Þetta er bara lófastór canon vél með súmmi og öllu sem með þarf og svo getur hún líka tekið stuttar vídeómyndir. Ótrúleg tæknibreyting. Gamla vélin er bara um tveggja og hálfs árs en er orðin algjörlega úrelt. Sennilega nenni ég ekki að taka fleiri myndir á gömlu vélina en hún hefur nú samt staðið sig vel.

8.12.01

Linköping

Nuna er eg stodd i Linköping i Svithjod, thad er borg sem er um tveggja tima lestarferd sudur af Stokkholmi, her er riki vestgota. Eg kom beint fra Islandi i gaerkvoldi, tok lestina fra Arlanda flugvellinum hingad. Atti ad hitta i lestinni hopinn fra Sudur Afriku og thad atti ad saekja okkur a lestarstodina. Eg beid i halftima a stodinni i bidsalnum thar en enginn kom svo eg tok leigubil hingad ad Valla lydhaskolanum en thar var enginn, allt laest og engin ljos neins stadar nema saensku adventuljosin i gluggunum. Eg skildi vid leigubilinn thar sem eg var ein a rolti i myrkrinu i skogarkjarrinu og hugsadi med mer ad thad vaeri sem betur fer ekki kalt. Ekki thurfti eg lengi ad vera ein, thad kemur madur hropandi i myrkinu og spyr hvort eg se a namskeidinu. Thetta var Dave sem er einn af saensku thatttakendunum og hann sagdi mer ad thad vaeri verid ad saekja okkur a lestarstodina. Skommu seinna komu tveir bilar med nemendunum fra Sudur Afriku og thad rann upp fyrir mer ad eg hafdi allan timann verid med theim i lestinni. Eg var bara svo viss um ad eg thekkti hopinn, thau baru med ser ad thau vaeru fra Sudur Afriku og alla vega vaeru flest blokkumenn. Svo er bara enginn i hopnum blokkumadur, sum voru thad sem kallad var a timum apartheid stefnunnar thar lidud "colored" en hefdu alveg getad verid Sviar. I gaerkvoldi vorum vid bara ad spjalla saman i eldhusinu i einu husinu a Valla thvi thau sem komu fra Sudur Afriku voru buin ad vera tuttugu tima eda lengur a leidinni og thurftu ad fara gegnum London. Thau hofdu tekid fyrst flugvel fra Hofdaborg en sum koma ur svaedum sem eru thar langt fra.

I morgun byrjadi dagurinn med morgunmat og gitaspili og song. Dave kom med tvo gitara, hann aflar aukatekja med thvi ad vera farandsongvari a gotum Linkoping.

Meira seinna...

6.12.01

Klámhundar setjast að í yfirgefnum lénum



Aðvörun! Ekki fylgja þeim vefslóðum sem gefnar eru upp í þessu bloggi, þær vísa á klám!!!!
Er Björk búin að opna klámsíðu á Netinu? Voru hátíðarhöld í tilefni af því að það eru þúsund ár síðan Leifur Eiríksson fann Ameríku ein alls herjar klámorgía?
Ég í sakleysi mínu var að leita að efni um forfeður okkar víkingana og hann Leif heppna og fann þessa síðu Vikings og Asatru. Á engu illu átti ég von þegar ég smellti á tenginguna wwwleif2000.org á síðunni en um hana stendur: Leif Ericson Millennium Celebration "celebrates the 1000 year anniversary of the first documented European to set foot in North America." Margar síður á Internetinu vísa á þennan vef t.d. þessi um ferð 12 víkingaskipa til Ameríku en þar segir um m.a. "You can find out more about the Sponsor, the Leif Ericson Millennium
Committee, by looking at www.leif2000.org" og ég barasta spái í hvort þessi vefur hafi verið einhvern tíma verið á vegum einhverrar íslenskrar nefndar.

Einu sinni vísaði vefslóðin www.selmasongs.com okkur á vef þar sem hlaða mátti niður hljóðdæmum af söng Bjarkar í Dancer in the Dark. Það breyttist.

5.12.01

Brothætt tækni



Í seinustu viku var ég svona farandfyrirlesari og leiðbeinandi á upplýsingatækninámskeiðum. Ég var með erindi á endurmenntunarnámskeiði í HÍ á námsbraut í opinberri stjórnsýslu. Það var í kennslustofu í Þjóðarbókhlöðunni og ég var að tala um íslenska upplýsingasamfélagið og notaði skjávarpa, tölvu og hafði ætlað að nota Netið líka. Hafði farið á fætur eldsnemma og brennt glærusýningu á geisladisk en kom með fistölvu til vara. Eins gott því að geisladrifið virkaði ekki á tölvunni sem var í stofunni og svo gekk ekki að fá Internetaðgang á því lykilorði sem ég fékk uppgefið. En þetta bjargaðist fyrir utan Internettenginguna því ég gat tengt fartölvuna sem ég kom sjálf með við skjávarpann. Einkennilegt samt að vera að flytja erindi um upplýsingasamfélagið og það í þeim viskunnar brunni sem Þjóðarbókhlaðan er og hafa sjálf ekki aðgang að þekkingarlindum heimsins þ.e. Internetinu.

Seinustu kennslustundirnar voru í síðustu viku í KHÍ á námskeiði sem ég hef umsjón með og nemendur voru að reyna að klára sem mest af vefverkefnum. Það var settur upp nýr vefur fyrir skólann 29. nóv en þá brá svo við að án nokkurrar aðvörunar þá var tilvísunum í gömlu vefsvæði nemenda og kennara breytt þannig að vísanir í þá vefi virka ekki lengur. Mér sýnist að vefsíður margra kennara þar á meðal mín virki ekki rétt eða séu óaðgengilegar út af þessu. Einnig hefur eitthvað hefur gerst þegar nýi vefurinn var settur upp í sambandi við Frontpage vefsíðuumhverfið, það gerist núna að þegar vefir eru gefnir út og fluttir á vefþjóninn þá koma Frontpage hnappar og bakgrunnar ekki fram. Í haust þegar kennsla hófst þá voru heimasvæði nemenda tóm og þau fundu ekki vefi sem þau gerðu í fyrra og ekki var hægt að nota ný vefsvæði nemenda fyrr en um miðja önnina. Það var tekið upp nýtt póstkerfi og allur póstur sem var fyrir varð ekki aðgengilegur, ég þurfti að hætta að nota ELM, eina forritið sem ég hef notað í meira einn einn áratug. Mér skilst að einhver bilun hafi orðið í hörðum diski en það tókst að bjarga gögnum þá. Einnig gerðist það nýlega að allt í einu þurrkuðust út öll gögn á vefumræðukerfi sem flestir nota og eru aðal snertiflöturinn milli nemenda og kennara, algengt að nemendur skili af sér verkefnum þar, mér skilst að það hafi verið efni frá á 22 námskeiðum sem þarna gufaði upp og eru þau flest voru í fjarnáminu enda KHÍ einn stærsti fjarnámsskólinn. Núna eru tvær fréttir á KHÍ vefnum nýja á www.khi.is, önnur um vefumræðukerfið sem hvarf og ekkert afrit var til af (röð af mannlegum mistökum heitir svona á fagmáli) og hinn um opnunina á nýja vefnum sem rústaði allri uppsetningunni sem fyrir var. Mjög óþægilegt fyrir nemendur og kennara að geta ekki treyst á stöðugt vinnuumhverfi en þetta er nú næstum náttúrulögmál að öll gögn hverfi fyrirvaralaust í því námsumhverfi sem ég hef hrærst í undanfarin ár, ég hef ekki tölu á öllum þeim námsgögnum sem ég hef misst út af þessu.

Svo var ég á laugardagsmorgninum síðasta á Laugarvatni með fyrirlestur fyrir nemendur í framhaldsnámi í KHÍ í upplýsingatækni og þar voru þau með fartölvur og svona þráðlaust net en ef of margar komu inn á Netið þá fraus allt og fór rafmagnið af daginn áður höfðu nemendur á því námskeiði orðið að kynna verkefni sín um stund við kertaljós. Fór með Láru Stefánsdóttur fartölvufrömuði á bílaleigubíl til Laugarvatns síðdegis á föstudegi og var með hópnum í góðu yfirlæti í kvöldverði og kvöldvöku í einum sumarbústað Vélstjórafélagsins á svæðinu. Það voru um 25 manns þar og þrumufjör fram á nótt. Yndislega fallegt kvöld og nótt, dúnalogn og tunglskin lýsti upp snæviþakið umhverfið og fjallið glóði og hríslurnar drjúptu undan fannferginu, allt úti í bláhvítum ljóma en inn í bústaðnum var allt í heitum jarðarlitum , rauðvín á borðum og kertaljósin lýstu upp viðarveggina. Við vorum reyndar veðurtepptar nokkra tíma á Laugarvatni á laugardaginn og það var ófært en þegar hætti að snjóa þá lögðum við á stað, festum reyndar bílinn einu sinn en tiltölulega vel gekk að komast í bæinn.


Svo gerðist það í vikunni að ég fékk bréf frá Utanríkisráðuneytinu um að ég væri komin á viðbragðslista hjá Íslensku friðargæslunni og yrðu boðuð á námskeið fljótlega á næsta ári.

4.12.01

Hlaupahjól Segway



Ein jákvæðasta fréttin í langan tíma var að í gær var kynnt hlaupahjól sem framtíðarfarartæki í miðbæjum borga. Þetta Segway hlaupahjól sem líka er kallað IT er með rafhlöðum og lagar sig að hreyfingum líkamans. Á Time.com er nánari lýsing á hvernig hvernig Segway virkar. Bílaumferð með þeim gný, mengun og plássi sem henni fylgir er ein mesta plága fyrir mannlíf í miðborgum. Það er virkilega þörf fyrir eitthvað sem leysir bílana af hólmi og ef til vill horfum við fram á tíma þar sem allt nema lítil, hljóðlát rafknúin tæki verður bannað í miðborgum. Hugsa sér hvað mikið pláss sparast þá og hvað það getur orðið vistlegra, hér dettur mér t.d. í hug Barcelona sem er dýrleg borg en hefur þann ljóta löst að þar er allt morandi í bílum og hávaðasömum vespum. Hugmyndin er að fólk leggi bílum langt frá og ferðist síðan á rafhlaupahjóli inn í miðbænum. Ég held reyndar að samgöngutæki sem eigi að slá í gegn verði að vera þannig að auðvelt verði að taka það með í almenningssamgöngukerfi t.d. í lest og svo að nota það til að komast leiðar sinnar.

3.12.01

Loftárásir á Betlehem


Allt á kafi í snjó í Reykjavík, jólaljósin komin upp og núna á sunnudaginn var kveikt á fyrsta aðventukertinu, spádómskertið held ég það sé kallað og siðurinn er að kveikja á einu kerti í aðventukransinum hvern sunnudag fram að jólum. Gamall siður til að minnast ljóssins og komu frelsara fyrir 2000 árum í bænum Betlehem. Þar ríkir ekki friður og í dag gerðu Ísraelsmenn loftárásir úr þyrlu á Betlehem. Um jólaleytið í fyrra var ástandið líka slæmt þar og þá fóru kristnir menn og múslimar í borginni í göngu með kyndla og ljós og báðu um "the Power of the Light – and not the Fire of Might."

Ég skil ekki hvers vegna Ísraelar ráðast á höfuðstöðvar Arafats, las á moggavefnum að loftárásir Ísraelsmanna á höfuðstöðvar Yassers Arafats í Gasaborg í dag voru "viðvörun" til Arafats um að herða aðgerðir gegn öfgasinnum og stjórnvöld í Ísrael ásaki Arafat um að bera beina ábyrgð á árásum á ísraelska borgara. Miðað við þær fréttir sem ég hef hlýtt á þá get ég ekki séð að þessar ásakanir hafi við neitt að styðjast og hef haldið að Arafat hafi gert eins mikið og hann hefur getað til að hindra blóðbað og vígaferli m.a. handtekið marga úr palestínskum öfgahópum. Mér finnst þessar aðgerðir Ísraelsmanna eins og að stökkva olíu á eld. Það er mjög skiljanlegt að ísraelska þjóðin kalli á hefnd og aðgerðir í kjölfar hryðjuverka en hvernig er líka hægt að gera Arafat eða alla Palestínumenn ábyrga fyrir sjálfsmorðsárásum nokkurra öfgamanna?
Leitaði upplýsinga á vefnum um ástandið í Palestínu og fann þetta:
CNN Middle East Struggle for Peace
Félagið - Ísland Palestína
Tillaga til þingályktunar um sjálfstæða Palestínu 29. nóvember
Samskipti Íslands og palestínskra yfirvalda (ræða utanríkisráðherra 19. mars 2000)
Thor Thors árið 1947 sagði þetta
Svo fann ég líka áhugaverð bréfaskipti um hversu hlutdrægir fjölmiðlar væru:
Til Útvarpsráðs
Siðanefnd Blaðamannafélagsins