31.1.02

Heftiplástur á Hörðuvöllum


Minnir að ekki alls fyrir löngu hafi það komið í fréttum að í leikskólanum Hörðuvöllum hefði komið upp að börnum væri refsað með að teipa þaum með heftiplástri. Held að þar hafi verið um einstakan starfsmann að ræða og sá verið látinn hætta. Man ekki mikið um það mál nema nafnið á leikskólanum (fer kannski ekki með það rétt heldur) en smart ef leikskólinn hét Hörðuvellir. En þó einhverjir noti teipi börn með heftiplástri þá er sýnu alvarlega þegar fólk sem ekki getur hamið skap sitt hefur umsjón með börnum.Las á vefnum þessa sögu af hristu barni og svo sögur af
Angelo og Devin og Justice og Kimberlin og Mariah og Mikey og Ryanog Christianog Kyle

28.1.02

Stjórnarfar í Kína


Í háskólanum í den þurfti ég að taka námskeið í lögfræði, held í einhvers konar stjórnsýslulögfræði. Það námskeið kenndi orðheppinn lögfræðiprófessor einn sem virðist nú vera einn aðalálitsgjafi fjölmiðla um lögfræðileg ágreiningsmál. Ég er löngu búin að gleyma öllu frá þessu námskeiði nema þeirri kenningu sem prófessorinn hélt stíft fram og að mér virtist í fullri alvöru. Hann sagði að því aumingjalegri og þynnri sem stjórnarskrá einhvers ríkis væri - því betra væri stjórnarfarið. Mér finnst þetta mikil viska og gilda á fleiri sviðum - ef menn eru svo sammála um leikreglurnar að þeir eru ekki einu sinni meðvitaðir um að það gildi sérstakar reglur hvað þá að þeir hafi klædd í orðanna búning hvernig málum skuli skipað, þá alla vega er líklegra að sátt ríki um stjórnarfarið.

Nú veit ég ekkert um hvernig stjórnarskráin er í Kína, held helst að stjórnarfarið þar fari batnandi og velmegun sé að aukast. En ég spái í aðra hluti en gamli lögfræðkennarinn minn og ég hef komið mér upp mínum eigin mælikvarða á stjórnarfar í hverju landi og hann er þessi: Því meiri hömlur og takmarkanir sem lagðar eru á notkun almennings á Internetinu þeim mun verra stjórnarfar er í landinu. Ég er alveg tilbúin til að breyta þessum mælikvarða ef einhver eða eitthvað getur sýnt mér fram á að annað sé rétt. Hingað til hefur barasta flest beint til þess að þetta sé nokkur nákvæmur mælikvarði sb. þetta blogg mitt í byrjun september á síðasta ári. Nú finnst mér allt benda að Kína sé ekki á réttu róli, þar eru stjórnvöld núna búin að setja afar strangar Internetreglur m.a. um að allan tölvupóst verði að skima og athuga hvort hann inniheldur áróður sem er fjandsamlegur stjórnvöldum.

20.1.02

Snæfríður ÍslandssólSkil ekki allt þetta brambolt út af Halldóri Laxness og meintum ósannindum hans um sæluna í Sovétinu. Við hverju býst fólk eiginlega? Fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir að segja sannleikann ekkert nema sannleikann og allan sannleikann? Nei, maðurinn var atvinnulygari eins og allir skáldsagnahöfundar og fékk meira segja opinber skáldalaun og heiðurslaun í hlutfalli við hvað hann gat uppdiktað mikið af lognum sögum sem samt einhvern veginn hefðu getað verið sannar og hrærðu einhverja strengi í hjörtum lesenda því svona sögur fannst þeim að ættu að vera til.

Hann var líka sjálfur stoltur af lyginni og vildi alls ekki bendla sig við sannleikann í sögum sínum eða hann væri í sínum uppdiktuðum veröldum að taka eitthvað nótís af því sem aðrir skrifa. Halldór skrifar Heimsljós upp úr æviminningum Magnúsar skálds á Þröm en hann þrætir alveg fyrir að þetta sé neitt ævisaga Magnúsar og kannski er hún ekki frekar en annað sem Halldór skrifar byggð á raunverulegu jarðlífi, þetta var alveg eins svona draumaveröld sem honum fannst alveg eins geta verið sönn og lýsa hans heimssýn og kannski var hann líka Ólafur Kárason ljósvíkingur og kannski var hann líka Snæfríður Íslandssól og kannski var hann líka eiginmaður Rauðsmýrarmaddömunnar. En hann var aldrei boðberi sannleikans eða talsmaður þess að til væri einn sannleikur.

19.1.02

Lýðhylli og kjörþokki


Skrýtið hvað maður metur fólk vitlaust. Ég hefði ekki haldið að hann Steingrímur Sigfússon hjá Vinstri grænum væri sá sem mest pældi í ímyndinni og almenningsálitinu og að selja sig. Nema kannski helst að vera passlega úfinn, upprunalegur, vistvænn og hrjúfur svo maður fengi trú á að hann væri ekki stútfullur af alls konar E-aukaefnum. En nú er Steingrímur áhyggjufullur um hvaða möguleika Björn Bjarnason hafi í að leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins og Steingrímur segir í DV í dag að Björn muni "...kannski skorta lýðhylli og kjörþokka. Björn er atorkumaður en ég hef miklu meiri efasemdir um að frambjóðandinn Björn Bjarnason seljist vel."

Þessi orð lýðhylli og kjörþokki mætti nú alveg einhver skýra fyrir mér. Hver nær hylli fólks og með hverju? Hvernig geislar þessi kjörþokki af fólki? Ég hugsa að það hafi eins og áður áhrif hversu mikið menn kosta til og hve slyngar auglýsingastofur og ímyndarseljendur þeir skipta við og hve greiðar boðleiðir þeir hafa til kjósenda og hversu sýnilegir þeir eru. Ég velti fyrir mér hvort nýir miðlar og nýir tímar hafi áhrif og þá hvernig. Sjónvarpið hafði gríðarleg áhrif og gerbreytti kosningabaráttunni.

Ég veit ekki hvernig fólk vann kosningar hér áður fyrr, þekki ekki kosningar án sjónvarps en mamma sagði alltaf að hann afi hefði ekki átt sjéns inn á þing hér fyrr á öldinni þegar hann bauð sig fram í Húnaþingi vegna þess að mótframbjóðandi hans sem var alltaf Jón á Akri hafi verið svo duglegur að kyssa og faðma allar konurnar á bóndabæjunum. Þá fólst held ég kosningabaráttan í því að vera orðheppinn og skemmtilegur á bændafundum og svo að visitera hvern einasta sveitabæ og tala kumpánlega við alla mögulega kjósendur, strjúka konum og klappa körlum.

Spurning hvort vefurinn fer að skipta einhverju máli í kosningabaráttunni. Ég er reyndar sannfærð um að svo er með þá sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni í dag á vefnum en held reyndar ekki að það sé ekki ennþá nema lítið brot af kjósendum. Ég held hins vegar að sá hópur sem bæði hlýðir á og tekur þátt í umræðu á vefnum sé ekki auðblekktur. Það er fólk sem leitar upplýsinga úr öllum áttum en treystir ekki á eina eintóna sjónvarps- eða útvarpsrás og það er fólk sem krefst frekari upplýsinga en hægt er að koma á framfæri í nokkurra sekúndna sjónvarpsumfjöllun og það er fólk sem myndar sér skoðun með því að að leita sjálft að upplýsingum.

Einn af þeim stjórnmálamönnum sem hefur verið með vefsetur lengst er Björn Bjarnason og hans vefur www.bjorn.is geymir að ég held flestar greinar og ræður sem hann hefur skrifað undanfarin ár. Björn hefur skrifað á vefinn frá 18. janúar 1995 og vefur hans veitir mjög skýra mynd af því hvaða áherslur hann hefur og hvað hann stendur fyrir og ekki síst hvað hann hefur gert undanfarin sjö ár. Það er heilsíðuauglýsing frá Eyþóri Arnalds í Morgunblaðinu í dag og þar er gefin upp vefslóðin hans www.eythor.is og ég var náttúrulega spennt að sjá hvað hann stendur fyrir. Núna síðdegis er ekkert á þeirri vefslóð nema ein aumingjaleg setning: "Vefur Eyþórs Arnalds verður opnaður laugardaginn 19. janúar 2002". Eitthvað fatta ég ekki þessa tímasetningu, hélt að það væri mikilvægt að hafa vefinn virkan daginn sem hann er auglýstur á heilsíðum.

Mér sýnist þetta ekki benda til þess að Eyþór leggi áherslu á þennan miðil og þetta minnir mig soldið mikið á vefsetur Ólafs forseta www.forseti.is en þar hefur núna staðið í meira en tvö ár þessi eina setning: "Tilraunasíða forseti.is". Mig minnir reyndar að Ólafur hafi í kosningabaráttunni lagt mikið upp úr hvað hann væri hlynntur allri svona nýsköpun og margmiðlun og svoleiðis, svona maður nýrra tíma þannig að ég varð nú fyrir smá vonbrigðum með að vefurinn hans er ekki orðinn flottari.


18.1.02

Auðlegð þjóðanna


Adam Smith skrifaði fyrir 250 árum ritið Auðlegð þjóðanna en það kom fyrst kom út í Lundúnum árið 1776. Þetta hefur verið síðan eitt af trúarritum frjálshyggjumanna enda margt skynsamlegt þar sagt. Bara spurning hvernig maður mælir auðlegð þjóðanna. Ein leið til að mæla svona bilið á milli velsældar og vesældar er þessi auðlegðarkvarði í 63 liðum hjá worldpaper.com. Mér finnst nú þessir auðlegðarmælikvarðar sem tengjast "Information infrastructure" vera svolítið gamaldags og ekki taka mið af þróuninni. Samt er er skemmtilegt hvað það er talinn mikill mælikvarði á hagsæld að pressan sé frjáls og mörg útgefin rit. Sniðugt að að spá í hvort ekki verði í framtíðinni einn mælikvarði á velferð hve margir blogga í samfélaginu, því fleiri einstaklingar sem tjá sig og taka þátt í umræðunni, því ríkara samfélag.
Lendi eitthvað óvart inn á Vísbendingu frá apríl 1999 þegar ég fletti upp auðlegð þjóðanna, þar er því spáð er að efnahagskreppunni sem hófst í Tælandi 1999 sé lokið. Skrýtið. Hún stendur ennþá og árið er 2002. kreppan í Asíu hefur bara magnast ef eitthvað er. Hmmm...kannski svona svona vísbendingar fjármálaráðgjafa og hagfræðinga séu ekki alltaf svo sannspáar. En fann skemmtilega grein um spagettifyrirtæki í greinasafni Vísbendingar.

Um auðlegð einstaklinga
Blaðaði smá í bókinni Íslenskir auðmenn í Mál og menningu í hádeginu í gær. Góð bók en ég bara tími alls ekki að kaupa hana. Mér blöskar alveg verð á bókum núna. En mér fannst sniðugt þetta trix sem sumir virðast nota til auðsöfnunar. Kallað skuldsetning og gengur út á að kaupa eitthvað stórt, svona eins og landsvæði eða stórhýsi eða eyjar eða jarðir eða fyrirtæki. Borga lítið sem ekkert út og fá svo lán í banka fyrir meiru en það sem maður kaupir. Þá getur maður líka farið og keypt eitthvað annað. Virkar víst vel á góðum tímum en góðir tímar standa nú ekki að eilífu. Skoðaði sérstaklega kaflana um Jón Ólafsson og Sighvat kvikmyndaframleiðanda.

17.1.02

Truflun á línunni til útlanda


Og ég sem hélt að það væri helst að óttast að einhver klippti sundur sæstrenginn. Nú les ég á mbl.is í dag að truflanir á netsambandi megi rekja til DoS-árása. Ég sé líka í atburðaskrá ISnet að þetta ástand sem hefur varað í margar vikur.

16.1.02

Dýr lén


Ofsalega er ég fegin að ekki skuli vera ræktað kaffi á Íslandi. Hugsa sér ef verðlag á kaffi færi eftir því sama og verðlag á papríkum og káli, væri nokkur þúsund krónur pakkinn á meðan íslenska framleiðslan entist og færi svo niður í venjulegt verð yfir bláveturinn þegar íslenska kaffið væri búið. Mér finnst þetta eitthvað furðulegt með grænfóðrið hvað það kostar mikið þó það sé bæði bragðvont og gamalt, minnir soldið á sögurnar um myglaða danska rúgmjölið á einokunartímanum. Mikið er ég þakklát að nú eru aðrir tímar á Íslandi, öll einokun fyrir bí og þessi líka bullandi samkeppni á matvælamarkaðnum.

Ég bara botna heldur ekki í verðlagningu á lénum og vefhýsingu á Íslandi. Mér sýnist mikið ódýrara að versla erlendis og lén með endingunni .net falla vel að íslenskunni. Tripod.com býður 20mb vefsvæði fyrir um $4.95 á mánuði, Aplus.net býður 500 mb vefsvæði og ókeypis eigið lén nema það kostar $20 að setja þetta upp og svo $9.95 á mánuði. Yahoo Geocities býður lén og 25mb svæði á $8.95 á mánuði og $15 uppsetningarkostnað.

15.1.02

Bjarni frændi


Ég fór í jarðarför og erfidrykkju í gær og hitti marga ættingja mína. Þarna var Bjarni frændi og hann var svolítið þungbúinn því það var verið að jarða bróður hans. Ég hitti Bjarna sjaldan núorðið en fylgist með því sem hann gerir. Hann er lítt við alþýðuskap og hefur ekki linnt við fólk. Því vann hann mikið einn svona sem vélamaður og svo síðar við verkefni eins og að útbúa sprengimottur úr gömlum bíldekkjum, hann fékk svoleiðis verkefni hjá bróður sínum sem var var athafnamaður og lagði vegi og byggði úr steypu, það þurfti svona sprengimottur til að leggja yfir þegar bergið var sprengt. Svo hætti bróðirinn þessum umsvifum og Bjarni hafði ekkert að gera í mottunum.

Hann fór þá að skrifa í blöð. Svo var hann búinn að skrifa svo mikið í blöð að hann var kominn í einhvers konar ritstraff hjá öllum dagblöðum og Þjóðviljinn hætti líka að koma út. Þá fór hann að gefa út sín eigin blöð. Hann fjölritaði þau í þúsundum eintaka og svo gekk hann hús úr húsi og bar inn á hvert heimili í úthverfunum, ég man eftir að hafa hitt hann veðurbarinn í slagviðri í Breiðholti þar sem hann hafði verið marga tíma að bera út. Ég hef skoðað þau mörg þessi blöð hans Bjarna en aldrei botnað neitt í því um hvað þau fjalla, held helst að þetta sé einhvers konar trúarrit með alls konar talnaútreikningi og heimsendaspám og véfréttum. Pýþagoras var líka hrifinn af svona talnamystík. En Bjarni er listrænn og gerir þetta allt sjálfur á makkanum sínum því hann gjörðist snemma tölvugaldramaður, hann töfrar fram alls konar skreytingar, mikið er um myndir af honum sjálfum með skinnhúfu og svona myndrænar tilvitnanir og fyrirsagnir á dulmálum sem hann einn skilur.

Í mörg ár hefur hann rekið sína eigin rannsóknarstofu sem hann rekur í bíl með frystigám sem hann hefur innréttað sem skrifstofu og heimili og þar skrifar hann árlega bók um ástandið á Íslandi til sjávar og sveita. Á hverju sumri þá keyrir hann um landið og selur bókina sína í sveitunum því hann hefur engar taugar til höfuðborgarsvæðisins þó hann þurfi að hafa hér vetursetu.

Mér finnst eiginlega synd að Bjarni hefur ekki uppgötvað vefinn og hvaða möguleika fámennur málstaður eins og hans hefur þar, svona eins manns barátta og rödd eins hrópanda úr frystigámi. Það er enginn prentkostnaður á vefnum og að mörgu leyti er allt hægara, ekki þarf að ganga hús úr húsi að bjóða fram bækur og rit. Bjarni er líka farinn að ganga við staf núna svo það væri betra að útbreiða boðskapinn bara sitjandi við tölvu. Ég færði þetta í tal við Bjarna í gær, bauð honum að aðstoða hann við að setja eitthvað af hans gríðarlega greinasafni á vefinn svona til að sýna honum og sannfæra um ágæti miðilsins.

Hann var dáldið veikur fyrir þessu en sagði af og frá að hann tæki þessu boði þó það væri vel meint. Ég yrði að átta mig á því að hans vefsíður yrðu strax hakkaðar sagði hann og hann vildi ekki setja neitt efni út á vefinn nema hann gæti haldið um það vakt 24 tíma á sólarhring. Ég bara hló að honum en honum varð ekki þokað, þóttist vita af einhverjum sem myndu breyta meiningunni og afbaka hans djúpu speki. Ég bauðst til að skipuleggja vaktina með honum, ég skyldi alltaf vakna eldsnemma á morgnana og tékka á hakkinu og hvort hans brenglaða meining væri ekki örugglega ennþá brengluð en það var ekki nóg. Svo Bjarni verður víst ekki á vefnum um sinn, bara heldur áfram að hringsóla um landið og sýnir sig ekki með almenningi nema á baráttudögum þeirra sem hafa skrýtna málstaði svona eins og í fyrsta maí skrúðgöngunni en hér er einmitt mynd sem ég tók af honum vorið 2000 í baráttugöngunni fysta maí.

11.1.02

Þetta má EKKI!!!


Það má ekki nota upptökur/rafræna vöktun í eignavörsluskyni í opinbera mannorðsmeiðandi birtingu. Tölvulistinn gengur gróflega á svig við lög og rétt þegar í dag voru birtar á vef fyrirtækisins margar myndir af fólki sem sagt er að séu að stela úr búðinni og boðin verðlaun fyrir að bera kennsl á meinta þjófa. Núna er búið að fjarlægja myndirnar en í staðinn stendur þar: "Hér voru myndir af mönnum sem voru teknir upp á myndband í öryggiskerfi okkar við að stela tölvubúnaði, nú erum við búnir að fá upplýsingar um hverjir voru þar að verki og viljum við þakka fyrir skjót viðbrögð og jafnframt taka fram að verðlaunin sem í boði voru hafa gengið út.". Grunnregla í dómskerfinu er að menn eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð. Það er dómsstóla en ekki einkafyrirtækja að skera úr um hver er sekur og hver er saklaus. Ég vildi óska að fólk og fyrirtæki kynntu sér betur persónuvernd og þau lög og reglur sem ber að fara eftir. Hér til hliðar er ein af myndunum sem Tölvulistinn birti en hún er hér mikið smækkuð og gerð óskýrari.

10.1.02

Að vera karlmaðurÁgúst vísaði í gær á góða grein í Economist um hve erfitt væri að vera karlmaður.Ég las greinina og er sammála mörgu þar. Mér finnst þessi tilvistarkreppa ungra karlmanna líka vera eitt af því sem höfundar íslensku myndanna 1001 Reykjavík og Englar alheimsins eru að reyna að lýsa.

9.1.02

Öreigaskáldið
Ég hef verið að lesa frásagnarbók Auðar konu Halldórs Laxness á Gljúfrasteini. Fékk áhuga á að glugga í þessa bók út af hve núna er mikið spáð í líf og orð hans. Egill hefur silfrað tvo pistla, Uppgjörið við Halldór og svo í dag aðeins meira um Nóbelsskáldið. Svo hefur Hallgrímur slegið í gegn í ár með Höfundi Íslands. Í ár hefði Halldór orðið 100 ára.

7.1.02

Andlát


Móðurbróðir minn lést í gær. Ég þekkti hann vel og dóttir hans hefur verið vinkona mín frá því í barnæsku. Á menntaskólaárum mínum vann ég líka hjá fyrirtæki hans í tvö sumur upp á hálendinu. Ég var í eldhúsinu í vinnubúðum við Þórisós. Móðurbróðir minn stýrði einu sinni einu af stærstu verktakafyrirtækjum landsins og þegar virkjanirnar stóðu yfir við Þórisvatn þá hafði hann mörg hunduð manns í vinnu. Hann fór til Kína og Tíbet og var mikill Kínavinur. Ég hitti hann síðast fyrir um það bil mánuði og þá var hann hress í bragði þrátt fyrir langvinn veikindi og talaði fyrir lausn á allri lágdeyðu í íslensku athafna- og atvinnulífi. Lausn hans var að fá hingað til lands 2000 Kínverja en hann lagði áherslu á að þeir yrðu að vera frá Norðurhéruðunum.

6.1.02

Syndaaflausn hjá Microsoft


Nú er bara að játa syndirnar því í þessum mánuði veitir Microsoft og BSA afritunarglæponum sakaruppgjöf.. Ég veit ekki hvort Íslendingar geta verið með í að játa en það er hægt að að hlaða niður GASP forriti sem hjálpar manni til að búa til syndaregistur.

5.1.02

Bandvíddarbruðl í framhaldsskólum


Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu um tölvukerfi í framhaldsskólum og frétt um málið er í Morgunblaðinu.

Alvarleg öryggisvandamál: Sprungin rör og myglaðar mýs
Skýrsla Ríkisendurskoðunar fjallar um tölvuöryggi og ég hlýt hingað til að hafa misskilið hvað átt er við með tölvuöryggi en skv. skýrslunni má ráða að það er einna mikilvægast að hafa hvorki miðstöðvarofna né vatnsrör í tölvuherbergjum svo dótið og gögnin skemmist ekki ef vatnsrör gefur sig. Jahérna, ég vissi ekki að þetta tölvuvatnstjón væri svona algengt! Í kaflanum um áhættumat og öryggisstefnu er þetta gullkorn: "Neysla matvæla samhliða tölvunotkun er óæskileg þar sem matarleifar safnast undir mýs og hætta er fyrir hendi að það hellist yfir lyklaborð og tölvu með alvarlegum afleiðingum."

Bandvíddarbruðlið verður að stoppa!!!
Ríkisendurskoðun varar við óhóflegum kostnaði vegna Netnotkunar þegar nemendur og starfsfólk skóla hafa óhindraðan aðgang að Netinu og þó orðalagið sé loðið er ekki hægt að lesa annað út en Ríkisendurskoðun vilji skömmtun á bandvídd. Tónninn í skýrslunni er að það verði að passa upp á nemendur og hafa hemil á fikti þeirra og bandvíddarbruðli. Nefnt er dæmi um framhaldsskóla sem borgar utanaðkomandi aðila fyrir síun á efni "sem skólayfirvöld hafa ekki áhuga á að notendur kerfanna komist í", svo notað sé orðalag beint úr skýrslunni og "með því að takmarka aðgang að áðurnefndu efni gat skóli lækkað kostnað vegna Net notkunar úr 300.000 kr í 80.000 kr á mánuði þar sem gagnaflutningur minnkaði stórlega við þessa ráðstöfun". Ég hef heyrt þessa setningu um sparnaðinn orðrétt áður því hún var svarið sem ég fékk þegar ég kvartaði yfir því í skóla þar sem ég var að kenna á námskeiði síðastliðið sumar að ég hefði ekki aðgang að efni á Netinu, sjá þetta blogg mitt um Klámsíur í skólum. Ég hugsa að almennt megi spara stórfé í skólahaldi með að koma í veg fyrir allt gagnaflutninga- og upplýsingastreymi en út á hvað gengur skólahald eiginlega ef ekki einmitt það?????

Vormenn Íslands
Lokaorð skýrslu Ríkisendurskoðunar vitna í Mbl. 12. desember síðastliðinn:"Hluti af heimasvæði kennara var aðgengilegur - Nemandi í véla- og iðnaðarverkfræði tilkynnti að nemendur hefðu aðgang að prófum". Já, framtíð okkar sem erum föst í Netinu er í góðum höndum þegar hin upplitsdjarfa, siðprúða og heiðarlega æska þessa lands er af þessum toga. Þessi óþekkti nemandi er sannarlega einn af vormönnum Íslands og fyrir þessu er ekki annað hægt en bera virðingu.

3.1.02

Reykvísk lágkúra á Netinu

Ég fór áðan að skoða þessa samræmdu vefmælingu hjá Modernus og þar var sagt að reykjavik.com hefði í síðustu viku rokið upp í vinsældum og af því ég skoða þann vef endrum og eins og græt þá tíð þegar þetta var öflugur og góður menningarvefur þá varð ég virkilega undrandi og fór að kanna málið.

Sá þá það lágkúrulegasta sem ég nokkurn tíma séð á íslenskri vefgátt sem höfðar til almennings en það eru mismunandi klámfengnar myndir af fólki undir áfengisauglýsingu og undir yfirskriftinni kynþokkamæling og spurningunni Hvað þarft ÞÚ marga (bjóra af viðkomandi áfengistegund) til að sofa hjá þessari/þessum ? og fyrir neðan var þeim sem skoða síðuna boðið máta sig við kynlíf með viðkomandi og á hvaða kjörum eða að fletta áfram gegnum myndirnar. Svo var líka hægt að senda inn myndir og virtust margar myndir frá almenningi.

Það sem sló mig svo við að skoða þetta er sú lítilsvirðing og niðurlæging sem sýnd er þeim sem eru á myndunum, bæði að hafa eins og svona kjötmarkaðaruppboð og svo líka að voga sér að láta unglinga vera módel í afar lævísum og lágkúrulegum, niðurlægjandi og klámfengnum áfengisauglýsingum. Það virðist augljóst að í mörgum tilvikum hefur fólkið á myndunum en flestar eru þær af ungum stúlkum ekki gefið leyfi fyrir þessari myndbirtingu.

Sumar af myndunum eru klámmyndir gegnsýrðar af kvenfyrirlitningu eins og þessi mynd sem birtist allra fremst í myndasyrpunni. Aðrar myndir eru af fallegu fólki en eru settar í lágkúrulegt og viðbjóðslegt samhengi t.d. af stúlku sem keppir í fegurðarsamkeppni á Broadway, mynd af barnungri stúlku í íþróttasal, mynd af ungri stúlku þar sem auglýstar eru margar áfengistegundir, mynd af nokkrum stúlkum að skemmta sér, mynd af barnungri stúlku í útilegu og mynd sem virðist tekin í einhverju barnaboði eða á unglingadansleik.

Mér finnst þessi vefur reykjavik.com vera algjör hryllingsmynd um hvernig siðlaus og eftirlitslaus markaðsbúskapur einkaaðila á Netinu getur verið og í hvaða ógöngur Internetkreppan hefur leitt Internetfyrirtæki og valdið því að þeim stjórna nú ófyrirleitnir náungar sem svífast einskis. Ég hef heyrt að eigendur reykjavik.com hafi áhuga á að selja Reykjavíkurborg þetta vefsetur þar sem verðmætin felast eingöngu í léninu og einhverjum gagnagrunnsbúnaði og svo náttúrulega þessum roknavinsældum og rífandi auglýsingatekjum, veit svo sem ekki hvort það er satt en mér finnst alla vega það vera álíka fyrir borgina að kaupa þetta vefsetur og að kaupa súlustaðinn Clinton út á nafnið og orðróminn og viðskiptavildina.

Vefmælingar og vinsælir vefir


Hér er listi yfir samræmdar vefmælingar á Íslandi en umfjöllun um vinsælustu bandarísku vefirnir frá október er á Top 50 Web And Digital Media Properties For October 2001 skv. Jupiter media matrix. Tuttugu vinsælustu vefirnir voru þessir. Netið er að skreppa saman ef maður mælir það í vefsetrum. Samkvæmt Netcraft's Web Server Survey, fækkaði vefsetrum um 182.142 frá nóvember til desember á síðasta ári. Í nóvember fundust 36.458.394 vefsetur er fóru niður í 36.276.252 í desember. Best að kynna sér þessa lista yfir vefi sem þykja góðir:
Best Free Reference Web Sites 2001
US News Best of the Web
Forbes.com Best of The Web Directory
PC magazine - Best of 2001
PC world best websites 2001
The Webby arwards in 2001
10 TOP TECHNOLOGIES FOR 2002

Æsispennandi kosningar?


Hann Ágúst hélt því fram vefriti sínu í nóvember að það væru æsispennandi kosningar framundan í Reykjavík næsta vor. Þetta fannst mér verulega fyndið þá en núna hef ég smávon um að hann verði sannspár. Ég held alla vega að það sé hollt ef fókusinn beinist frá flokkum og yfir í einhver málefni. Vonandi munu svona úthverfaframboð, umhverfisframboð eða framboð sem gerir út á einhverja sérstaka hópa svo sem aldraða og öryrkja verða til að gera umræðuna málefnalegri. Reyndar hugsa ég samt að framboð sem snúast um eitt mál eða höfða eingöngu til ákveðins hóps þrengi umræðuna.

Vonandi verða líka í brennidepli mál sem miða að því að gera Reykjavík að eftirsóttum stað til búsetu, atvinnu og athafnalífs. Ég held að þá verði að vera hér góðir skólar, öflugt menningarlíf, friðsælt, fallegt og öruggt umhverfi þar sem hver getur ræktar garðinn sinn á þann máta sem hann ákveður sjálfur og þar sem fólk hefur val á sem flestum sviðum - val við hverja það verslar , val við hvað það starfar, val hvernig og hvar það býr og í hvernig fjölskyldugerð, val hvernig það ver frítíma sínum. Líka að hér byggist upp samfélag umburðarlyndis og samhjálpar. Ég held að opið og víðsýnt samfélag þar sem frumkvæði, fjölbreytileiki, sköpunarauðgi, framtak og fróðleiksþrá fá notið sín sé líklegt til að búa til þekkingarsamfélag þar sem fólk býr við velmegun og nýtur lífsins.

Framsýni og heiðarleiki eru eiginleikar sem mér finnst mikilvægt að leiðtogar í borgarmálum hafi. Það þarf framsýni til að sjá fyrir breytingar og langtíma þróun svo hægt sé að gera skynsamlegar áætlanir og taka skynsamlegar ákvarðanir og það þarf framsýni til að sjá stóru línurnar en týna sér ekki í smáatriðum og bráðabirgðalausnum. Það þarf heiðarleika því ef borgarbúar upplifa að þeir getur ekki fullkomlega treyst kjörnum fulltrúum og þeim upplýsingum sem þeir gefa eða gefa ekki og fá þá tilfinningu að borgarfulltrúar séu handbendi einhverra hulinna hagsmunaafla þá grefur það bæði undan lýðræði og valdi.

1.1.02

Áramót 2001


Er búin að setja myndir frá gamlaárkvöldi inn á vefsíðu. Hefðbundin áramót, matarboð og horft á fréttaannála og Skaupið. Farið að Hallgrímskirkju um miðnætti og seinna um nóttina í heimsókn í Kópavog. Allir sammála um að Skaupið hafi verið óvenju gott og ekki farið neitt yfir strikið. Illa farið með Árna fyrrum þingmann Sunnlendinga en fyndið á köflum, sérstaklega sakamálaviðtölin þar sem vitni bera að Árni sé valdur að Tyrkjaráninu og gosinu í Heimaey. Það var fulllítið gert úr stjórnarandstöðunni og brandarinn um dvergakastið var næstum yfir markið og ég hélt líka að svo yrði þegar forseti vor var að dufla við tandrað og hann fór með heitkonu sinni að uppbúnu rúmi. Get bara ekki lýst hvað mér létti þegar kom í ljós að hann var bara að þakka fyrir þetta svigrúm sem þjóðin hafði veitt honum, enda var það flott og bogadregin með mjúkum línum.

Sjónvarpið kom á óvart núna yfir hátíðirnar, margar nýlegar íslenskar kvikmyndir, fyndið og vandað Áramótaskaup, kvikmyndin júgóslavneska Underground sem er algjört konfekt fyrir auga og sál og vekur upp hugleiðingar um sannleikann og hvernig sagan er sögð og svo hinn stórfenglegi heimildarþáttur um Kristnihátíðina miklu sem sýndur var í tvígang, ég kann orðið bara utanað hvað gerðist og hve mikilvægt það er fyrir mig og mína að þessi hátíðarhöld hafi farið fram og er farin að óska þess að hafa verið á Þingvöllum um daginn þegar allt fjörið var, ótrúlegt hvað þessi myndskot hafa heppnast vel sem sýna mannmergðina, spæling að hafa ekki komið þarna fyrr en mjög seint um kvöldið þegar allir voru farnir og ég sá ekkert nema útikamra, girðingar, vegatálmanir og löggæslufólk. Þetta segir Egill um hina opinberu útgáfu á því sem raunverulega gerðist.