27.3.02

Fagurfræði fegurðarsamkeppna


Sé að strik.is er búið að setja upp sérstaka síðu fyrir Hrönn í skóm drekans. Mér finnst fegurðarsamkeppnir vera mjög áhugaverðir ritúalar sem endurspegla þrá eftir fullkomnun - stundum með því að gera alla sem taka þátt eins og stundum er leiðin að meiri fegurð ritúall eins og manndómsvígsla eða krossferð með þjáningum og pyndingum sem breyta líkamanum.

Höfundatal


Höfundur Höfundur Íslands fékk bókmenntaverðlaun bókaútgefenda fyrir 2001. Höfundur Höfundar Njálu fékk fræðibókaverðlaun Hagþenkis fyrir 2001. Svona er íslensk menning um árþúsundamót, þá eru verðlaunuð þau umfjöllunarefni sem íslenskust og þjóðlegust eru.

Hvað er íslenskara en Njála og nóbelskáldið? Miðaldasaga þar sem hetjur riðu um héruð og skáld sem söng með hreinum tón sem náði um allar álfur, hann söng um saltfiskinn og sauðkindina og lýsti af innsæi og andagift lífi sem ekkert okkar lifir lengur og sem hann heldur aldrei lifði sjálfur. Hvað er ekki göfugra en þegar nútímasagnaþulir spinna nýjar sögur út frá Nóbelsskáldsþjóðararfinum og þegar fræðimenn vegsama Njálu og segja frá hvernig hver kynslóð hefur skrifað upp sína Njálu. Fylgdi ekki líka margmiðlunardiskur með verkinu?

Guðbergur Bergsson var verðlaunaskáld Íslendinga árið 1968 og það var bók hans Ástir samlyndra hjóna sem blaðamenn hömpuðu þá. Nóbelsskáldið hefði orðið hundrað ára í apríl og Guðbergur verður sjötugur í ár. Báðum er þeim hampað í ár, Laxnesshátíðarhöldin standa allt árið og margar samkomur eru Guðbergi til dýrðar, ég var fyrir hálfum mánuði á fagurfræðiþingi í Hafnarborg sem bara var helgað honum. Svo verður Guðbergur eittt aðalnúmerið í páskadagskrá ríkissjónvarpsins, klámhundurinn og kvenhatarinn Guðbergur mun æða inn á hvert heimili. Laxness og Halldór, hvað er líkt með þeim? Alla vega eitt. Sjávarþorpið. Grindavík.

26.3.02

Spjátrungur sem var ekki með


Ég fór eftir vinnu í dag í Norræna húsið og hlustaði á erindi um Halldór Laxness sem Gerður Kristný skáld og ritstjóri Mannlífs flutti. Erindið var ansi fyndið og dró upp mynd af Halldóri sem spjátrungi og stílista og sviðsmyndarhönnuði sem var ekki þátttakandi í lífi fólksins sem hann skrifaði um - hann var áhorfandi. Mér finnst reyndar ekki skrýtið að listamaður sé fagurkeri á öllum sviðum en ég hef velt fyrir mér hvernig Halldór réttlætti fyrir sjálfum sér að vera svona öreigaskáld sem var rómaður í Sovétinu og hafa svo sjálfur svona dýran og broddborgaralegan smekk fyrir sjálfan sig, gaf mikið fyrir flottar veislur, lúxushótel og eðalvagna.

Eftir erindið varð ég svo bókmenntalega þenkjandi að ég fór í Mál og menningu og skoðaði þar bækur um og eftir Halldór sem stillt var upp. Skyldi fólk gefa í fermingargjafir svona bækur eins og Perlur úr verkum Halldórs Laxness eða Gullkorn úr greinum Halldórs Laxness? V
Þessar bækur virtust vera settar saman úr litlum nokkurra lína lesköflum teknum á víð og dreif úr sögum og greinum. Það var líka ný bók með titli sem byrjaði á Fegurð.. og fjallaði um handrit Laxness, laxneska bókakápugerð í gegnum tíðina, laxneska leikritunarhefð og uppfærslur á leikritum, laxneskan tónlistarflutning, laxneskar myndastyttur og málverk af Laxnesi og ljósmyndir af húsum þar sem Laxnes hafði stansað í um æfina.

Mér sýnist vera kominn upp vísir að laxneskri iðnaðarframleiðslu og sennilegt að þetta teygi sig á fleiri svið en bara bækur. Hvað gæti verið það smekklausasta og fáránlegasta..hmm.. kannski litlar fígúrur úr sögupersónum Laxness, slökunargeisladiskar með kraftbirtingarhljómi guðdómsins og hinum hreina tón, litlar íslandsklukkur til að hengja á jólatré, púðurdósir með speglaloki til að horfa á jökulinn, Gerpla sem teiknimyndasaga, hitaveitubaðstrandarhótelið Höll sumarlandsins og margmiðlunardiskur þar sem þú ert gestur í Unuhúsi og geta flakkað þar um og smellt á Þórberg eða Halldór eða Erlend eða alla hina og spilað með þá.

Netspámaður - Noosphere


Jesúítapresturinn og steingervingafræðingurinn Teilhard de Chardin (1881-1955) er spámaður Netsins.
Noosphere
Toward a Science Charged with Faith
TEILHARD DE CHARDIN
Tailhard de Chardin

25.3.02

Brúðkaupsvefur Röggu og Mario


Ragga og Mario sem við fórum að heimsækja út í Barcelona síðasta sumar ætla að gifta sig í Viðey í sumar. Þau hafa sett upp brúðkaupsvef en ég skil ekki mikið þar því hann er á spænsku - ég hef víst ekki verið nógu áhugasöm á spænskunámskeiðinu í fyrrasumar.

Föla fólkiðÉg var að horfa á fræðsluþáttinn um Internetið í sjónvarpinu - The Future Just Happened og þar lýsti barn í nördafjölskyldu því yfir hvað það væri hrætt um að fjölskyldan yrði svona föla fólkið sem færi aldrei út og bara tölvaðist. Ég held ég sé bæði nörd og ein af föla fólkinu með óheppilegan og óheilsusamlegan netlífstíl. Ætti kannski að gera eitthvað í því...En hvað?

Skírn í Miklabæjarkirkju


Næsti bær við Miklabæ í Skagafirði er Víðivellir. Fyrir meira en tvö hundruð árum hvarf presturinn á Miklabæ þegar hann var á leið heim til sín frá Víðivöllum. Núna á Pálmasunnudag var barn frá Víðivöllum skírt í Miklabæjarkirkju. Ég var viðstödd og tók þessar myndir af skírninni. Seinna var skírnarveisla á Víðivöllum og þar tók ég líka myndir. Barnið var skírt Heiðar Sigurmon, fyrra nafnið fær hann frá báðum ömmum sínum en þær heita Kristín Heiður frá Kolkuósi sem nú býr á Vöglum og Ragnheiður sem býr í Mosfellsbæ en seinna nafnið er frá langafa sínum Sigurmoni í Kolkuósi sem ræktaði frægt hestakyn.

22.3.02

Gjörningur Hannesar Lárussonar


Eftir vinnu í gær fór ég á Kjarvalsstaði á sýninguna Hús í hús og svo á auglýstan fyrirlestur listamannsins Hannesar Lárussonar um eigin verk. Þetta reyndist vera eins konar gjörningur svona tæknibasl með ýmis konar tækni og dót, skjávarpa, tölvur, skyggnuvélar. Dótið virkaði stundum og virkaði stundum ekki og stundum vörpuðust á vegg myndir af fyrri sýningum Hannesar og hann talaði um list sína og myndlist almennt. Annars var hann mest að basla með tæknina og skyggnur hrukku um öll gólf. Hannes velti fyrir sér hvort myndlistamenn væru ekki alltaf að gera það sama, tók dæmi um tvö verk eftir sjálfan sig sem líta gerólíkt út en samt líkt myndbygging og táknmál. Ég náði ekki alveg hvað Hannes kallaði þennan gjörning í gær, kannski var það Input not found en það var alla vega textinn sem var lengst varpað upp á skjáinn. Gjörningnum lauk svo með því að Hannes skipti um vasaklút á táknrænan hátt.

21.3.02

Sæborgarskipulag


Hvað er Morphogenesis og hvað er Emergence?

Var í gær að lesa um bókina Emergence: The Connected Lives of Ants, Brains, Cities, and Software eftir Steven Johnson sem kom út í september 2001, er búin að panta hana. Minnir mig á Sim City og vakti áhuga minn á félagsskipan skordýra (social insects). Áhugavert hvernig maurar geta fundið stystu leiðina að mat með einhverjum svona ferómóna slóðum. Rakst á skemmtilegt kennsluefni um maura. Kottke veltir fyrir sér hvort bloggarasamfélög séu "emergent" eins og maurasamfélög og skoðar sérstaklega hvernig sögur verða til þar.

20.3.02

Að vísa út og suður


Ég var að lesa nokkrar greinar um blogg. Ein þeirra var All the News That's Fit to Blog frá apríl 2002 eftir John Ellis. Þar er hugleiðing um hvernig blaðamennska mun þróast og hvernig bloggarar eru hluti af því. Þar segir að ekki sé lengur hægt að líta á höfuðstöðvar fréttamiðla sem alvísa miðju fyrir greiningar, umsagnir og álitsgjöf. Ný tækni hafi grafið undan því og nú flæði tölvupóstur og hraðboð (instant messaging) frá manni til manns og það er ekki lengur áhersla á fjölmiðlun eða útvörpum - heldur á upplýsingastreymi frá einum manni til annars, svona jafningjafræðslu. Jafningjahópar skipuleggja sig á ýmsa lund en hafa einhvert sameiginlegt keppikefli eða hugsjón sem byggir upp samskiptanetið.

Blaðamennska gengur út á að miðla upplýsingum, fyrst upplýsingum um staðreyndir og síðan túlkun á þeim staðreyndum. Ljósvakamiðlar og vefsetur eru fljótari að birta og uppfæra fréttir en pappírsmiðlar og blaðamennska er farin að snúast um að greina framvindu atburða. Það er samt eitt sem einkennir fréttamiðill eða fréttastofu, það er að hann vill halda fólki inn á sínu verndarsvæði, inn á sínu vefsetri og er þannig ekki uppbyggður eins og fólk vill (reyndar sýnist mér þróun í þessu, núna eru t.d. bæði mbl.is og cnn.com farin að vísa í aðra utanaðkomandi vefi).

Greinarhöfundur tekur dæmi um reynda og virta blaðamenn og fjölmiðlafólk sem hafa byrjað að blogga eins og Andrews Sullivan og Glenn Reynolds og Mickey Kaus og Virginia Postrel

Greinarhöfundur segir það einkenna bloggara er að þeir tengja í hvaðeina sem þeir hafa áhuga á, þeir eru ekki er reyna að fangelsa lesandann inn á einum vef og líta á það sem köllun sína að beina þér annað, ekki múra þig inni. Annað einkenni bloggara er að þeir tala ekki niður til lesenda, þeir skilja lesendahópinn (hmmm.. skrifa þeir ekki hvort sem er mest fyrir sjálfa sig og þá sem hugsa eins og þeir?) og líta á lesendur sem jafnoka sína. Á meðan blaðamaður af gamla skólanum er spáir mikið í að vernda heimildir og heimildarmenn þá er bloggarinn í stanslausum samskiptum við lesendur. Bloggarar græðist ekki fé en þeim virðist vera sama og það eru aðrar hvatir er gróðavon sem ráða ferðinni.

Greinarhöfundur segir að stórir fréttamiðlar hafi varpað öndinni léttar þegar dotkom móðurinn rann af fjárfestum og Internetmarkaðurinn hrundi. Þetta þýddi nefnilega að þær aðgangstakmarkanir og einokun sem bjó þeim skjól og þeir byggðu á festi sig aftur í sessi. En bloggararnir standa í túnjaðrinum og höggva sig inn í þann virðisauka sem stóru fréttamiðlarnir eru að reyna að skapa með sínum greiningum, umsögnum, rannsóknarblaðamennsku og upplýstri álitsgjöf. Þeir hamra með verkfærum sem byggja á beinum samskiptum og slagkraftur þeirra verkfæra er mikill.

Best að enda á því að vísa eitthvað út í buskann að bloggarasið. Eða eins og meistarinn sagði "Djúp tenging er góð tenging".

Skynjanir sem sýnast í NýlistasafninuÁ laugardaginn fór ég á opnun myndlistarsýningar í Nýlistasafninu. Myndverkin voru svona boltar vafðir inn í klæði og pappírsdót sem minnti mig á spilaborgir. Skildi ekki verkin vel og varði mestum tímanum í að skoða sýningargestina og tók myndir af þeim og verkunum en hér eru ljósmyndir frá opnuninni. Það var verið að opna nýjan sýningarsal í Nýlistasafninu og var þetta fyrsta sýningin þar.

19.3.02

Í útsaumuðum lótusskóm


Veit svo sem ekki hvernig Í skóm drekans kvikmynd Hassen systkina um fegurðarímyndir og fegurðarsamkeppnir tekur á málum en ég hef verið að spá í hvernig fegurðarímynd samfélagsins þröngvar einhverju tilbúnu normi upp á fólk, kannski sérstaklega ungt fólk eða ungar stúlkur. Kannski er sú kvöl og pína sem fólgin er í að nálgast og aðlagast þetta fegurðarnorm einn liður í félagsmótun samfélagsins. Þannig var því varið um þúsundir ára í Kína þegar fætur ungra stúlkubarna voru reyrðar og brotnar til að fylgja ákveðnu fegurðarnormi. Kannski er sú lögun líkamans sem fram fer með megrununum og svo silikoninnsprautun líka eitthvað dýpra en líkaminn, kannski er þetta lífspeki nútímans og einhver tilraun til að hafa hömlur á hlutunum. Það var heimspeki Konfúsíusar sem síaðist inn í stúlkurnar sem voru örkumlaðar smám saman í Kína með þessum reyrðu fótum en hvaða siðspeki og fegurðarsýn er það sem örkumlar nútímastúlkur?


Hér er grein um reyrðar fætur kínverskra kvenna

Kínverskar konur með reyrðar fætur bjuggu til svona lótus skóm

chinese foot binding

Marie Vento: One Thousand Years of Chinese Footbinding: Its Origins, Popularity and Demise

Chinese Lotus Shoes

FOOTBINDING - Lotus Petals

fagurfræði og sjónræn menning

Ljóðaupplestur í kirkjum og skólum
Sumt fólk er svo hégómagjarnt að það svífst einskis til að koma verkum sínum á framfæri. Ég er svoleiðis fólk og ég er skáld og ég hef ort eitt ljóð. Ég hef bæði birt það hér hér í dagbókinni og svo hef ég troðið því inn á Ljóð.is og þar var það ljóð dagsins 4. mars síðastliðinn. Maður skyldi halda að þetta væri nóg fremd í bili fyrir svona glænýtt eins ljóðs skáld. Nei. Þetta nægði mér ekki. Þegar barnið mitt varð fulltrúi fyrir sinn skóla í Stóru upplestrarkeppninni og átti að velja eitt ljóð til flutnings á lokahátíðinni sem var í Áskirkju í gær þá náttúrulega kom ég því þannig fyrir að hún flutti mitt ljóð. Upplesararnir voru fjórtán og allir hinir fluttu ljóð eftir þjóðkunn skáld. Svo las hún líka ljóðið mitt upp fyrir allan Laugarnesskólann í morgun. Hér eru myndir sem ég tók á Stóru upplestrarkeppninni í Áskirkju í gær.

14.3.02

Menningarefni og klám


Nýr evrópskur menningarvefur kominn í loftið,þarf að skoða hann við tækifæri. Hef verið að spá í vefhönnun og svona flash tækni, ég þarf að fara að læra á flash. Skoðaði verk í samkeppni listrænna flassara frá 2001 og svo núna í ár. Athugaði sérstaklega þau tækifæri sem bjóðast til að verða klámstjarna, þar eru nokkur skondin dæmi um flassnotkun.

13.3.02

Ungfrú Ísland.is


Nú hefur verið sett lögbann á sýningu á kvikmynd eins keppanda á Ísland.is fegurðarsamkeppninni. Allir hinir keppendurnir og aðstandendur keppninnar skrifa undir það. Það er ekki nema von, hvers vegna ættu þær að vilja leika í annarra manna leikritum, þær voru að taka þátt í ævintýri lífs síns og vilja væntanlega ekki að sá draumur sé skrumskældur á opinberum vettvangi. Þetta er líka siðlaust að taka upptökur af öðrum og nota í tilgangi sem viðkomandi veit ekki um og væntanlega samþykkir ekki. Spurning hvernig þetta kemur inn á lög um persónuvernd. En mig langar nú samt að sjá myndina og dáist að keppandanum bíræfna

11.3.02

Organistar í Ölfusinu


Á laugardaginn fór ég á tvær listsýningar, eina sýningu í Hafnarhúsinu þar sem var sýnishorn úr safneign og svo á sýningu á portraitmyndum af ánamöðkum í Gallerí Hlemmur. Á sunnudaginn fór ég á ættarmót í Hátúni en einn frændi minn stefndi þar saman afkomendum langafa míns og langömmu. Þau bjuggu á Hvoli í Ölfusi. Það vantaði organista í kirkjuna þeirra þarna í Ölfusinu og amma mín og alnafna bauð sig fram í það og var send til Reykjavíkur til að læra á orgel. Hún kynntist afa og fór ekki aftur í Ölfusið því hún giftist, eignaðist tvö börn, fékk berkla og dó á Vífilstöðum rúmlega þrítug þegar börnin hennar voru fimm og sex ára. Ég er búin að setja á vefinn myndir af ættarmótinu og líka myndir af því þegar bróðir minn skipti um skrifstofu um daginn og svo líka myndir af nemendum mínum sem ég tók á UT-2002 ráðstefnunni um seinustu helgi.

9.3.02

Í djúpum míns hjartaFór í freyðivínsboð með samstarfsfólki í gærkvöldi strax eftir vinnu, svolítið kveðjuhóf því yfirmaður minn er núna að fara í annað mjög spennandi verkefni. Fór svo í heimsókn í vesturbæinn. Annars er ljóðræn stemming þessa dagana, dóttirin tólfvetra hefur tekið þátt í Stóru upplestrarkeppni 7. bekkinga sem m.a. felst í því að allir lesa ljóð og sögur með tilþrifum og tilfinningu og þó að að keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast eigi að einblína á sigur þó hafa flest kvöld farið í upplestraræfingar og hún slökkt á sjónvarpinu svo við foreldrarnir fylgdumst örugglega með æfingunum og klöppuðum á réttum augnablikum. Eins gott að við höfum æft klappið því kappið við æfingarnar hefur skilað sér í því að hún hefur nú verið valin sem keppandi síns skóla og aðstandendur mega mæta á lokahátíðina og þá er gott að vita hvenær má klappa og fyrir hverjum.

En ljóðaáhuginn er víðar en hjá 7. bekkingum. Magnús var að skipuleggja skemmtidagskrá á sínum vinnustað sem var í gærkvöldi og viti menn að á undan félagsvistinni hjá þessu gamalgróna tæknifyrirtæki þá var ljóðaupplestarkeppni allra starfsmanna og mæltist bara vel fyrir. Hvaðan skyldi hann eiginlega hafa fengið hugmyndinni að þessum ljóðaupplestri? Rétt áðan hringdi vinkona mín og las fyrir mig ljóð vikunnar sem birtist í DV í dag en það er Í djúpum míns hjarta eftir Jón Helgason.

8.3.02

8. mars Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
Dáldið flækt einkalíf þessa dagana, sumt fólk sem ég reyni að hafa samband við annað hvort skellir á mig eða setur símsvara á þegar ég hringi. Hmm... ég ætti kannski barasta að taka þessu og gefast upp..... nei annars, ekki gott að vera uppgjöf í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Dagurinn er hjá mér helgaður minningu rithöfundarins sem skóp Línu langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningadóttur og bræðurna Ljónshjarta og það er Astrid Lindgren sem hefur samið margar barnabækur. Hún Astrid verður einmitt borin til grafar í Stokkhólmi í dag. Astrid átti barn utan hjónabands 19 ára gömul sem hún varð að láta frá sér til fósturforeldra og þá fór hún til Stokkhólms og vann fyrir sér sem hraðritari þar til hún giftist. Hún tók barnið seinna til sín aftur. Hún byrjaði fyrst að skrifa 37 ára gömul en bækur hennar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál, sérstaklega bókin um stelpuna Línu langsokk. Astrid fékk aldrei nóbelsverðlaunin en hún komst á sex krónu frímerki og fékk verðlaun sem kennd eru við Selmu Lagerlöf. Astrid tók kornung meðvitaða ákvörðun um að verða ekki rithöfundur því heima í Vimmelby þaðan sem hún var ættuð var gert ráð fyrir að hún yrði rithöfundur og henni strítt á því að hún yrði eins konar Selma Lagerlöf fyrir Vimmelby. Selma fékk nóbel og komst á tuttugu kallinn sænska. Sterkar listakonur þær Astrid og Selma og líka þessir ljósmyndarar .

Sumum finnst svona baráttudagar óþarfi, er ekki allt jafnrétti þegar komið en ég vil bara benda á að sums staðar um víða veröld byrjar óréttlætið þegar í móðurkviði .
7.3.02

Fakta om FinlandVið erum fólkið sem ekki byggði þetta land. Þannig kynnir norski rithöfundurinn Ering Loe sig og sína kynslóð. Ég hitti tvo Norðmenn í Danmörku og þeir sögðu mér frá nýjustu bókinni hans Fakta om Finland en það er bók um kveragerðarmann sem hræðist vatn og allt sem flýtur en sjálfur rekald og vinnur að ferðakynningarbæklingi um Finnland - land sem hann veit ekkert um og hefur engin tengsl við. Einn bókmenntagagnrýnandi sagði "..Med Fakta om Finland har Erlend Loe forlatt generasjonsromanens relativt trygge svaberg og kastet seg ut på dypere vann". Hvort sem Erlend Loe kafar í hyldýpi eða ekki þá langar mig til að lesa þessa bók og þessi pæling um vatn minnir mig líka á Roni Horn því hún talaði um vatn allan tímann.

Bernskulandslag


Enginn getur flúið sinn fæðingarhrepp, var það ljóðlína úr Þorpinu eftir Jón úr Vör? Eins og Patreksfjörður bjó innra með Jóni þá býr landslag bernsku okkar alltaf innra með okkur, landslagið þar sem við lærum að sjá og lærum að lifa. Í gærkvöldi fór ég á rannsóknarkvöld á Tapasbarnum hjá Félagi íslenskra fræða og framsögu hafði Anna Heiða Pálsdóttir barnabókahöfundur og þýðandi sem líka kennir fólki að skrifa barnabækur. Hún hefur núna lokið doktorsprófi og viðfangsefni hennar var samband barns við umhverfið og hvernig það endurspeglast í barnabókum. Hún segir að landslag bernskunnar sé hluti af sjálfsmynd okkar sem fylgi okkur alla ævi. Hún ræddi um heimili og landslag í þrenns konar skilningi:
Heimili - umhverfi æskuheimilis, staðurinn það sem maður lærði að sjá og og lifa (locale)
Heimaland - netkerfi, samskiptakerfi, tilfinningar gagnvart heimaþorpi
Heimat - það sem maður þráir, minningin um æskuheimilið
Anna Heiða talaði um tengsl við náttúruna og rútínur sem mynda heimili, sagði frá kenningum um að börn væru á vissu skeiði mótttækileg vegna þess að þau hleyptu öllu inn, það væri sérstakt stig í bernskunni þar sem maður uppgötvar náttúruna og drekkur í sig og skynjar umhverfið - hvort sem það er lykt, hljóð, tilfinning - eitthvað sem svo fylgir manni allt lífið. Hún talaði líka um hvernig mörk umhverfis eru dregin í barnabókum, mörk um hvað má, hvar eru góðir og slæmir staðir, hvar eru hætturnar og hvað er fallegt og hvað er ljótt. Ég fór að hugsa um erindi listamannsins Roni Horn þar sem hún sagði að manneskjan væri umhverfið og hún sagði líka að Ísland væri sögn en ekki nafnorð.

6.3.02

Aumingja ÖssurLáttu sólina ekki setjast yfir reiði þína er máltæki sem ég lærði einu sinni og hef reynt að fara eftir. Hef túlkað það sem svo að það sé mikilvægt að vinna strax úr reiðinni, sættast eða finna lausnir og vinna úr málum og leyfa ekki reiði og heift að éta upp sálarlíf sitt. Ekki samt of gott af vera allt of fljótfær og bráðlátur, ég kenndi dóttur minni að telja alltaf fyrst upp á tíu ef hún snöggreiddist og þyrfti að tjá sig, ég held að Össur þyrfti að miða við miklu hærri tölu. Hans ógæfa var að vera svona vel tengdur Internetinu þegar hann reiddist og senda í bræði sinni út bréf í tölvupósti og svo að viðtakendur virtu ekki Net Etiquette - siðareglur fyrir Netnotkun sem segja að það megi alls ekki framsenda eða opinbera persónuleg bréf án samþykkis sendanda. Össur er langt í frá eini maðurinn sem hefur reiðst snögglega einhverjum upplýsingum sem svo reynast ekki réttar og þó það sé hvorki landsföðurslegt né traustvekjandi að bregðjast við af slíkum skapofsa þá skiptir meira máli að hann gengst við mistökum sínum.

Það er víst dagsatt að allt sem við skrifum og fer um tölvukerfi getur elt okkur á röndum. Kannski væri rétt að búa til nýtt máltæki: Láttu Internetið ekki bergmála reiði þína.

Nordlit - Ráðstefna um norræna vefgátt um bókmenntir


Ég fór á mánudagsmorgni út til Kaupmannahafnar á norræna ráðstefnu Nordlit en þar var verið að ræða hugmynd um að setja upp sameiginlegan norrænan vef um bókmenntir eða "drøfte fremtidige strategier for samarbejde om formidling, forstået som anmeldelser, omtale og anden eksponering via Internettet af de nordiske landes litteraturer". Það voru yfir fimmtíu manns á ráðstefnunni flestir bókasafnsfræðingar, rithöfundar og sérfræðingar tengdir bókmenntum og menningarmálum.

Ég flutti erindi á ráðstefnunni um Menningarnet Íslands og hvað væri að gerast á Íslandi varðandi bókmenntir og Internet, sagði frá norrænum samvinnuverkefnum og sagði frá nokkrum íslenskum verkefnum og vefsetrum tengdum bókmenntum t.d. bokmenntir.is, menningarvefjum s.s. Kistunni og menningarvefjum á Suðurlandi og Akureyri ljod.is, hljomskali.is, trassi.is, alfheimar.is, dis.is o.fl. Minntist örlítið á vefleiðara og vefdagbækur sem einn vaxtarsprota í að nota Netið í ritun. Erindið flutti ég á dönsku og var 45 mínútur, ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem ég flyt svona langt erindi á skandinavísku. Ég var með um þrjátíu glærur og talaði í kringum þær og þetta gekk allt mjög vel og það vakti athygli og aðdáun margra hvað við erum að gera hérna. Kom heim eitthvað um miðnætti á þriðjudagskvöldi og þegar ég mætti í vinnuna í morgun höfðu stórtíðindi gerst.

4.3.02

Ljóð dagsins

Á ljóðavefnum ljod.is er á hverjum degi valið ljóð dagsins. Mér hefur hlotnast sá heiður að einmitt í dag 4. mars er ljóð eftir mig ljóð dagsins. Sérstaklega skemmtilegt vegna þess að þetta er eina ljóðið sem ég hef birt opinberlega. Svo hef ég fengið tvö bréf frá aðstandendum ljóðavefsins ljod.is. Í þeim bréfum kemur fram að alls ekki er nein ritskoðun á ljóðavefnum eins og ég gaf í skyn hér í dagbókinni minni í síðustu viku heldur verða innsend ljóð af fara í gegnum samþykktarferli sem er auðvitað allt annað. Hmm... Var ég búin að nefna að í dag er ljóð eftir mig ljóð dagsins?

Helgin - UT ráðstefnaNú er sunnudagskvöld. Systir mín var að koma inn úr dyrunum, samt eru bara nokkrir tímar síðan ég keyrði hana út á flugvöll og beið þangað til vélin fór í loftið. Vélin fór til Ísafjarðar og sveimaði yfir flugvellinum þar en gat ekki lent vegna éljagangs og var svo snúið aftur til Reykjavíkur. Í allan dag vorum við að bíða eftir hvort yrði flogið og fórum niður í bæ og kíktum á ljósahátíðina, fórum á fyrirlestra um ljós og myrkur í Borgarbókasafninu og hlustuðum á Rússibanana á Súfistanum. Akkúrat þegar ég skrifa þetta stendur yfir frumsýning á Ísafirði á leikritinu Gísl sem systurdóttir mín leikur í, hún syngur þar líka nokkur lög.

Á laugardaginn gerðist þetta: Ég fór á ráðstefnuna UT-2002 og flutti þar erindið Búum til námsumgjörð í kringum hvern nemanda ( glærur ). Boðskapur minn var sá að til að byggja upp fjarnám eigi ekki að leggja áherslu á að búa til stofnanir eða stór miðlæg kerfi - ekki að reyna að búa til skólaumhverfi á Netinu sem eins og hús með veggjum og byggt upp eins og hefðbundinn skóli þar sem einstök námskeið eru í lokuðum rýmum - með því séum við hugsanlega að búa til hindranir fyrir því að nemandinn geti vaxið að þekkingu og byggt upp sín eigin leiðarkerfi. Við eigum frekar að horfa á nemandann og byggja upp námsumhverfið í kringum hann eða öllu frekar gera honum kleift að byggja það upp sjálfur. Það væri miklu meira í anda námskenninga eins og hugsmíðahyggju (constructivism) og verkefnamiðaðs náms (problem based learning). Ég ræddi líka um hvernig við ættum að láta nemandann byggja upp "digital portfolio" sem væri bæði sýnimappa yfir það sem nemendinn hefur gert, umgjörð utan um efni sem nemandinn hefur safnað sem og hjálpartæki við námið og lýsing á námsframvindunni. Ég tók dæmi úr námskeiðinu Nám og kennsla á Netinu og tveir nemendur mínir og samkennari komu líka með stutt erindi. Skemmtileg ráðstefna, sérstaklega gaman að hitta nemendur mína og spjalla við þau, svo var líka boð í ráðstefnulok og þá hitti ég fjölmarga sem ég sé ekki dags daglega. Um kvöldið fór ég í matarboð til listakonu sem býr við sjóinn, hreifst af list hennar og útsýninu - málverkum, höggmyndum og máluðum gólfum. Frábært kvöld og skemmtilegt fólk í boðinu, ég man mest eftir umræðu um drauma og draumaráðningar.

Á föstudaginn fór ég eftir hádegi á UT-ráðstefnuna og um kvöldið í veislu í Apótekinu. Varð margs vísari um ástandið í atvinnulífinu, hve baráttan væri hörð í tilboðum vegna verklegra framkvæmda og hvað verkfræðingar sýsla við því þarna voru næstum ekkert nema verkfræðingar, nokkrir tugir af þeim. Það var dularfullur, skrýtilega skreyttur matur fram borinn og við hvern rétt kom maður á vegum hússins og sagði frá hvernig rétturinn væri samsettur en ég var engu nær því orðfærið var svo framandi. Þess meira ræddi ég við borðfélaga mína um íslenskan mat því einn var Strandamaður sem sagði f frá æðarfuglarækt, selveiðum og lundaveiðum og tilheyrandi matartilbúningu frá heimaslóðum sínum og uppvexti og annar borðfélagi minn var í hvalskurði í mörg sumur og vissi mikið um gæði hvalkjöts og hvalveiðar. Ég rifjaði upp að hvalkjöt var oft á borðum á bernskuheimili mínu. Gat því miður ekki verið lengur en til miðnættis og komst ekki í samkvæmi hjá samkennara en þar söfnuðust nemendur mínir saman.