30.4.02

Klukkan


Klukkan orðin sex og vinnudagurinn búinn - frídagur verkafólks á morgun. Ég að leika mér og finna sniðugt dót á vefnum. Féll alveg fyrir þessum klukkubendli, svo gaman að láta mælitækið sem mælir tímann verða eins og töfrasproti.

29.4.02

Einfarar og viðundur


Ekki mætti ég á Laxnessþingið sem var fyrir rúmri viku en engin hætta er á því að ég missi af neinu því það á að gefa alla fyrirlestra út á prenti orðrétt og svo líka sérvalda rétti, þetta heita Laxnessrannsóknir. Ég hef fengið nógan laxnesskammt í bili og spái bara í þá sem eru frík, viðundur, sjení og einfarar. Hmmm... kannski var hann þetta allt eða hefði getað verið ef á hann hefði ekki fallið frægðin í útlöndum og sögurnar hans væru ekki svona máttug hljómkviða um líf alþýðufólks á Íslandi. En kannski ég mæti á fyrirlestur í Norræna húsinu 2. maí um Ólöfu Sölvadóttur sem sýndi sig í Vesturheimi og spann sögur fyrir þarlenda um uppruna sinn. Svo er líka málþing um naívisma í listum þriðjudagskvöldið 30. apríl kl. 20-22 hjá Reykjavíkurakademíunni.

28.4.02

Pæling um stílsnið (CSS)


Ég er að reyna að finna og taka saman námsefni til að gera fólki sem ekki er neitt inn í html forritum kleift að nota stílsnið í Dreamweaver 4. Það hlýtur að vera hægt að nota flott stílsnið frá öðrum án þess að kafa á bólakaf í kóðann.

Magnað hvað er hægt að gera með stílsniðum, sjá þessi dæmi á css/edge og þessi glish.com dálkasnið eru sniðug. Líka bloggsniðið hans. Svo er bláa vélmennið með þessi snið sem allir mega fá. Kannski maður ætti að verða einn af þessum töfluleysingjum, ég held að framtíðin sé í því. Bara þetta væri ekki svona tæknilegt og ekki beint gaman .. en skemmtilegur er þó þessi stílsniðagaur á ChnkySoup.Net

Hættulegar krossgötur og flugvöllur á vitlausum stað


Klukkan var að verða tólf í gærkvöldi og það var heiðskírt og tungsljós. Ég var á ferð vestur úr bæ en umferðin tafðist því það dreif að lögreglu- og sjúkrabíla á bláum blikkljósum og sírenum. Löngu áður en við komum að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklabrautar vorum við nokkuð viss um að árekstur hefði orðið þar, það var tölfræðilega langlíklegast, þetta er svartur blettur í borgarlandslaginu. Það reyndist líka rétt, við sáum einn bíl þar sem hafði farið á hliðina, vonandi hefur fólkið þar verið í bílbelti svo það hafi ekki slasast mikið.

Mér finnst samgöngukerfi borgarinnar sem og allur infrastrúktúr vera stórmál og fór að kynna mér stefnumál þeirra fylkinga sem bjóða fram núna í Reykjavík varðandi samgöngumál. Ég fann ekki stefnuskrá Sjálfstæðismanna í Reykjavík, ég fór á www.xd.is og smellti á allt sem mér datt í hug til að finna stefnumálin og svo á svo á lógóið "Reykjavík í fyrsta sæti" og þá birtist neðst til hægri slóðin www.reykjavik2002.is en hún virkaði eitthvað skrýtilega.

Ég skoðaði www.xr.is og fann þetta um samgöngumálin hjá Reykjavíkurlistanum:

"...Almenningssamgöngur eiga að vera raunhæfur og öruggur valkostur við að komast leiðar sinnar í Reykjavík. Á meginleiðum á að veita strætisvögnum forgang og fjölga á ferðum á álagstímum. Kanna á möguleika á rekstri sporvagna eða einteinunga innan Reykjavíkur......
......Átak þarf að gera í samgöngumálum og umferðaröryggismálum höfuðborgarsvæðisins. Reykjavíkurlistinn krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi beiti sér í þeim efnum. Það er óviðunandi að ónóg uppbygging samgöngumannvirkja standi framþróun höfuðborgarinnar fyrir þrifum. Nauðsynlegt er að ríkið taki þátt í kostnaði vegna almenningssamgangna enda samræmist það sameiginlegum markmiðum heimsbyggðarinnar um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Greiða á fyrir umferð með því meðal annars að leggja fyrsta áfanga Sundabrautar og ný gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Jafnframt verði Miklabraut lögð í stokk við Lönguhlíð...."

Mér sýnist þetta ansi loðið orðalag "ný gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar". Ég skil ekki hvers vegna ekki hefur löngu verið ráðist í mislæg gatnamót þarna og vildi alla vega heyra góðan rökstuðning á hvers vegna kostir séu betri en það verður að vera rökstuðningur sem kemur frá öðrum en þeim sem hafa hagsmuni af að beina umferð á þetta svæði í aðlægar verslunarmiðstöðvar.

Svo er það með staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, mér finnst hljóti að vera hagkvæmt að innanlands og millilandaflug sé á sömu slóðum og nýti sömu samgöngumannvirki og sýnist þróunin einnig vera þannig í nágrannalöndunum, svona lítill flugvöllur inn í miðri borg passar ekki við það.

Ég hef verið að föndra heilmikið með blogrolling.com og er búin að bæta nokkrum bloggrúllum hér til hægri .

Æ... stóðst ekki mátið og tók þetta heimasmíðaða próf. Niðurstaðan:

Þú ert
Bre


Þú hefur yndi af löngum stundum fyrir framan tölvuskjá fullan af óskiljanlegum perl galdraþulum og fílar að deila því með umheiminum hvað þú ert klár tölvukall.


Taktu hvaða
bloggari ert þú prófið hér!Tók líka ameríska bloggaraprófið og fékk þetta:

You are a Megnut.

You help to empower expression while getting money for

commentating and speaking -- or trying to anyway.

Take the What Blogging Archetype Are You test at GAZM.org27.4.02

Hekl


Sniðugir þessir hekluðu ferningar með mynstrum sem allir geta gert og eru geymdir á The Virtual Afgan
26.4.02

Hugsmíðatól


Var að skoða vefi um ýmis hugsmíða- og samskiptatól, sé að þar að allt staðar sama tískan þ.e. að nota svona hugkort og þá gjarnan eitthvað sett upp í Mind Manager eða svipuðum kerfum. Samt finnst mér svoleiðis hugkort vera ansi ófullkomin þ.e. ef þau eru eins og flæðirit. Stundum finnst mér megi líta á bloggskrif eins og uppbyggingu á margvíðu hugkorti. En ég var að spá í myndmál og myndræna framsetningu og var að skoða xBlog og þar er útskýring á einu hugkortatóli xplanation og svo m.a. saga um fíla Fór að hugsa um hvort myndmál hefði eitthvað fram yfir ritmál.

Meta Learning Lab - þarf að skoða betur.
eLearning Forum = fræðslufræðingar í Kísildalnum spá í tæknina og blogga.
Online Learning News Blog
Jay Cross er viss um að blogg er sniðugt fyrir hugsun og nám.
OpenCourseWare er gott framtak hjá MIT þar sem allt efni úr námskeiðum er sett út á Netið! Fyrstu 100 námskeiðin koma í september.
TECLA

Hljómgæði og rafmagnMeira um kartöflur. Það var spilaklúbbur og matarboð hjá einni vinkonu minni í gær. Skemmtileg tilviljun að aðalrétturinn var kartöflur en ég var allan sumardaginn fyrsta með hugann við þann merkilega jarðarávöxt og að búa til vefsíður um kartöflur og nú hef ég mikið plön um lífræna kartöflurækt í sumar og svona afturhvarf til sjálfsþurftarbúskapar og sveitasælu. Er að spá í hvort ég get ekki fengið svona garðlönd á leigu hjá Reykjavíkurborg í sumar. Ætla líka að kynna mér hvers vegna garðhúsamenning (kolonihaver) var svona fátækleg á Íslandi - eða var hún það kannski ekki?

Meira um vistvæna lifnaðarhætti: Húsráðandi þar sem ég var í gærkvöldi er mikill áhugamaður um tónlist og hljómgæði. Hann hefur innréttað hljóðspilunarsal (já sal - ekki herbergi) og var nýbúinn að fá sér næstum mannhæðarháa hátalara - svona elektróstatíska en það sagði mér ekkert. Svo er í hljóðverinu hans líka alls konar teppi og tuskur fest í loftið til að ná sem fullkomnustum hljómgæðum, svo hljóðið dreifist um salinn og komi ekki frá hátölurunum. Bara á einum stað í einum stól í salnum eru hljómgæðin fullkomin. Ég skildi ekki alla þessa hljóðtækni sem var þó útskýrð alltæknilega fyrir mér en eitt finns mér sniðugt. Það er að hann hefur sett upp eitthvað sem hann kallar einangrunarspenni og það er til að hreinsa rafmagnið - hann segir að

25.4.02

Sumargjöfin í ár er kartöflur
Nú er sumardagurinn fyrsti og mér finnst gaman af gömlum venjum. Svona eins og að gefa sumargjöf. Á sumardaginn fyrsta í fyrra setti ég upp sérstaka vefsíðu Að gefa vef svona til að benda á að vefir eru hentug gjafavara þó það sé erfitt að pakka þeim inn. Nú í dag er ég að setja upp nýjan vef og hann er um kartöflur. Mér finnst kartöflur vera táknrænar fyrir tíðarandann og svona þessa vistvænu stemmingu - samt eru þær svo algengar og óspennandi að við nennum ekkert að pæla í þeim. En fyrsti vísirinn af kartöfluvefnum mínum er kominn upp. Voða fátæklegt ennþá, bara ein vefsíða. En þetta er semsagt sumargjöfin í ár.

24.4.02

Njósnaforritum lætt inn í tölvur og uppsett varnarforrit skemmd

Hmmm... Las að Kazaa forritið hefði lætt inn einhverju extraforriti með öllum niðurhleðslum. Kannski maður ætti að fá sér Kazaa Lite
Það er reynt með öllum ráðum að pína netverja til að skoða auglýsingar og allur ættu að hafa settan upp varnarbúnaði fyrir njósnaforrit eins og Ad-Aware. Nú er hins vegar komið í ljós að þegar maður hleður inn sumum forritum t.d. margmiðlunarspilaranum RadLight þá er farið í gegnum tölvuna manns og leitað að Ad-Aware og það forrit eyðilagt, sjá þessa grein í newsbytes.com þann 23 apríl.

23.4.02

Gæjaþemað mitt

Það eru oft gagnlegar upplýsingar og skemmtilegt myndefni á vefsíðum kennara. Eins og þegar smellt er á myndina á vefsíðu þessa kennara. Svona vefsíður koma manni í gott skap.

PalestínufundurÉg fór á fundinn í Háskólabíó í gær, þar var allt troðfullt. Það er ár og öld síðan ég man eftir svona mikilli þátttöku í stjórnmálafundi um alþjóðamálefni, ég fór líka á fundinn um daginn sem var á Austurvelli í rokinu en það voru ekki næstum eins margir. Einu sinni var ég í Jerúsalem og dvaldi í hverfi Palestínumanna og tók bláu strætisvagnana, síðan hef ég haft mikla samúð með þeim kröppu kjörum sem margir hópar þar búa við.
Matador á hebresku og ensku
Loftárásir á Betlehem
Jerúsalem og Svíþjóð

22.4.02

Geisladiskalæsing - Höfundarréttur - Bloggrúllur - BlogghringirHöfundarréttarmál eru stórmál í sambandi við stafrænt efni og efni sem er miðlað á vef. Menntamálaráðuneytið ætlar að kanna stöðuna í sambandi við gjaldið á óbrennda geisladiska því það er skrýtið að þurfa að borga afritunargjald og mega svo ekkert afrita. Mér finnst mjög brýnt að finna nýjar leiðir til að umbuna listamönnum og greiða þeim fyrir list sína, þau markaðskerfi og opinberu styrkjakerfi sem núna eru í gangi eru á skjön við efni sem miðlað er á stafrænan hátt og gegnum Internetið. Annars þekki ég best hvernig þetta snýr við námsefnishöfundum. Ef maður semur námsefni sem gefið er út á pappír hjá Námsgagnastofnun eða öðrum útgefendum eða flutt í RÚV þá er borgað fyrir efnið eftir samningum sem félag fræðiritahöfunda og útgefendur hafa gert en ef maður setur námsefnið á sínar eigin vefsíður og leyfir hverjum sem er aðgang að því þá þarf maður sjálfur að borga fyrir að vista það einhvers staðar.

Bloggrúllur og blogghringir
Um draumabloggið mitt: Ég er núna að prófa að setja upp bloggrúllur í blogrolling.com, mér sýnist þetta ansi sniðugt kerfi til að uppfæra alls lagst tenglalista - vildi óska þess að þetta væri innbyggt í Blogger. Svo var mér bent á að það er þegar mögulegt að uppfæra blogg í tölvupósti og þar með gegnum gemsa ef maður er með Blogger Pro. Ég hef líka verið að prófa bloggkerfið xanga.com og það býður líka upp á uppfærslur í tölvupósti ef maður er með borgaða áskrift, ekki ókeypis eins og ég prófaði. Vildi óska að það væri hægt að íslenska notendaviðmótið í xanga.com, mér finnst það ferlega sniðugt kerfi og það alauðveldasta sem ég hef prófað. Mér finnst það hafa nokkra hluti fram yfir Blogger, miklu auðveldara að byrja (tók bara nokkrar sekúndur að gefa upp hvaða notendanafn og lykilorð maður vill hafa), tilbúið kerfi fyrir "comment" og til að skrifa um bækur, bíómyndir eða atburði, auðvelt að búa til og gerast félagi í blogghringjum (listi yfir bloggara sem hafa sömu áhugamál - svona leshringir), fríir notendur geta verið þremur blogghringjum. Hér er prufusvæðið mitt í xanga, ég bjó til svæði sem notandi annasigga og fékk þá slóðina xanga.com/annasigga

20.4.02

Námskeiðslota í apríl

Núna á fimmtudag til laugardag er ég búin að vera með umsjón með námskeiðslotu fyrir nemendur á námskeiðinu Nám og kennsla á Netinu framhaldsnámi í KHÍ, við höfum þrjár staðbundnar lotur á námskeiðinu en annars er þetta fjarnám í gegnum ýmsa tölvumiðla. Það er vefhönnun og myndvinnsla fyrir vefinn sem er inntak þessarrar lotu og við höfum aðallega stuðst við forritin Dreamweaver og Fireworks. Við höfum m.a. farið í hvernig á búa til og nota template og nota tilbúnar uppsetningar og hvernig á að nota CSS stílsnið. Svo hafa nemendur skoðað vefverkefni hvert hjá öðru og komið með ábendingar. Ég hef verið með kennslu í tölvustofu og Gunnar Grímsson hefur verið með fyrirlestra um vefsmíði og vefhönnun. Einnig voru með fyrirlestra Guðbjörg Gissurardóttir grafískur hönnuður, hún talaði um sjónræna skynjun,Jón Jónasson en hann talaði um textalaust samfélag og mismunandi námstíla, Sigurbjörg Jóhannessdóttir sýndi dæmi um margmiðlun og fjallaði um undirbúning fyrir margmiðlunar- og vefverkefni og kynnti verkfærið Prepro og Þuríður Jóhannsdóttir stýrði umræðu um möguleg lokaverkefni en allir eiga að skila einnar einingar verkefni.

19.4.02

Dýrt fjármálanámskeið

Ég held að það sé eitt dýrasta sjálfsnámið sem ég hef farið í um ævina þegar ég fór versla hlutabréf á Netinu erlendis í fyrra. Mér sýnist það allt hafa verið stórfellt tap, líka var ég að kaupa fyrir svo litlar upphæðir að kostnaður við hver kaup var hlutfallslega mjög mikill. Svo fannst mér ekkert gaman að kaupa nema hlutabréf í Internetfyrirtækjum og svo líftækni og allt hefur það lækkar.

Bara að ég hefði haft vit á að kaupa í þessu Arcadia. Skoðaði reyndar allar upplýsingar sem ég fann um það fyrirtæki á Netinu og gat ekki séð teikn um að það fyrirtæki eða markaðurinn sem það gerir út á (keðja lágvöruverslana með föt í Bretlandi) væri í neinni uppsveiflu, sjá Baugsbloggið mitt í fyrra. Mér finnst þetta allt mjög skrýtið en þetta er ágæt lexía, ég verð að viðurkenna að verð hlutabréfa ræðst af einhverju sem ég hef ekki upplýsingar um gegnum vefráp mitt. En það er nú gleðilegt "að Baugur fái alls um 300 milljónir króna í arð af fjárfestingunni í Arcadia á yfirstandandi ári, að því er segir í tilkynningu Baugs. Það mun vera svipuð upphæð og vaxtagreiðslur Baugs vegna lána sem voru tekin vegna kaupa félagsins i Arcadia."

18.4.02

Draumabloggkerfið mittHvernig dagbókarkerfi vildi ég hafa? Vil ég kerfi sem hjálpar mér að hugsa og glósa og hafa yfirsýn? Vil ég kerfi sem hjálpar mér að tengja mínar hugleiðingar við það sem aðrir segja og gerir auðvelt fyrir aðra að koma með viðbrögð við mínu bloggi? Er blogg eins konar hugkortagerð eða er það samskiptamáti?

Mér finnst gaman að skoða vefannála og spá í hvort fólk er að skrifa svona eins og eintal sálarinnar (þeir sem tengja aldrei í neitt), eða eigin hugsanakort (þeir sem tengja í vefi sem þeim finnst athyglisverðir) eða sem samskiptamáli (þeir sem tengja í oft í aðra bloggara, kallast á við aðra vefleiðara, sækjast eftir umræðum og viðbrögðum lesenda).

Ég fór að spá í hvað er til og hvað mér finnst vanta í bloggkerfin. BlogChat er spjallkerfi sem hægt er að tengja við Blogger. Held að enginn á Íslandi hafi sett það upp. BlogKomm er umræðukerfi þar sem lesendur vefleiðara geta skrifað inn athugasemdir sem vistast textaskrá. Íslensk dæmi er Gummi Jóh. Það er hægt að uppfæra blogg gegnum BlogBuddy sem er íslensk hugsmíð, ég prófaði það en nota ekki.

Blogger Pro lofar að koma fljótlega með kerfi þar sem maður getur uppfært blogg gegnum tölvupóst. CNET skoðaði nýlega og bar saman fjögur kerfi til að skrifa vefannála þ.e. Blogger Pro, Diaryland, Livejournal og Radio Userland.

Nokkrir Íslendingar hafa sett upp sín eigin heimasmíðuðu dagbókarkerfi og mér finnst sum af þeim mjög góð eins og það sem Bjarni notar. Ég hugsa að ef ég hefði til að bera nóga tækniþekkingu (kynni Perl og svoleiðis) eða aðgang að slíku þá myndi ég setja upp kerfi eins og Movable Type hmmm... kannski maður ætti að þiggja þessa þjónustu hjá þeim að setja þetta upp fyrir mann á $20 , ekki er það nú dýrt. Ég hef ekki tekið eftir að neinn á Íslandi hafi sett upp Moveable Type.

Draumadagbókarkerfið mitt hefur allt sem Blogger hefur nú þegar PLÚS eftirfarandi möguleika:
* Geta dregið tengingar og myndir inn í bloggið mitt (hafa IE opið í einum glugga og bloggkerfi opin í öðrum glugga og geta dregið bæði myndir og vefslóðir "drag and drop" - þetta er hægt í Frontpage, af hverju er þetta þá ekki í bloggkerfum?)
* Geta uppfært blogg gegnum SMS í gsm símanum mínum (eða gegnum tölvupóst). Geta líka sent myndir inn í bloggin þegar ég verð komin með gsm síma með stafrænni myndavél eða tengingu í stafræna myndavél. Þegar bloggkerfin geta þetta þá verða þau orðin fín kerfi til að taka glósur t.d. þegar maður er á fyrirlestri.
* hafa leitarmöguleika og öflugt flokkunarkerfi t.d. fyrirsagnir, leitarorð (nú er ég búin að blogga í meir en ár og bloggin skipta hundruðum, nú væri gott að hafa kerfi til að leita og fletta upp, ég hef það bara eftir mánuðum núna)
* hafa möguleika á að á að umræðum/athugasemdum (Blogkomm) og rauntímaspjalli (Blogchat)
* auðvelt að búa til fréttaveitur og tengingar í aðra bloggara á forsíðu vefdagbókar (ég við líka "drag and drop" fídusa í þessu, ekki að þurfa að breyta blogger "template")
* góða möguleika á að setja upp eigin myndasöfn og líka flokkunarkerfi fyrir myndir.
* meiri möguleika í útliti texta þ.e. auðvelt að breyta um leturgerð o.fl. setja litaðan bakgrunn á textabúta.
...og fleira ... og fleira ... og fleira... óskalistinn heldur áfram....

17.4.02

TungutækniÍ dag var kynnt hverjir fengu styrki í tungutækniverkefninu og hér er Friðrik Skúlason sem fékk einn hæsta styrkinn fyrir beyginga- og málfræðigreiningakerfi að segja frá því verkefni.

16.4.02

Trégólf

Nú er komið parket á stofurnar og verið að sparsla og mála. Verst að netsambandið datt út, veit ekki hvort það tengist trégólfinu en núna er ég bara í upphringsímasambandi. Hryllilega er ég þreytt á svona ógurlega viðkvæmri tækni sem hrynur þegar minnst varir. Svona var þetta kannski þegar fólk var fyrst að fá rafmagn, það kom og fór og var stundum skammtað. Svo er mesta basl að skipuleggja kennslu eða fundi þar sem þarf skjávarpa, tölvur og Internetengingar, margmiðlunarbúna og hugsanlega einhvern hugbúnað. Ég er eiginlega orðin leið á svoleiðis..

Blaðamennska og blogg


Margar greinar hafa birst nýlega í netpressunni þar sem blaðamennska og blogg er borið saman og spáð í hvort blogg sé ein tegund af fjölmiðlun eða blaðamennsku og hvort vefannálar (weblogs) komi í stað stóru netmiðlanna.

Greinin No More Free Lunch sem birtist í Wall Street Journal 15. apríl endurspeglar viðhorf þeirra sem vinna með og trúa hefðbundin fjármálalíkön og gera lítið úr því sem ekki passar inn í þau en þar segir um vefannála: "These noncommercial sites are a growing source of online opinion, gossip, analysis and reviews -- just the sort of thing readers flock to Salon and similar sites for.But Web logs are limited, in part by lacking the broad credibility that comes with brand recognition. Inevitably, mainstream consumers will have to pay for some content and services on the Web".

En aðrir skoða vefannála sem miklilvæga uppsprettu frétta og fréttaumræðu, sjá greinina Talk is cheap and so is blogging og grein Glenn Reynolds frá 9. janúar A Technological Reformation en þar segir hann:

"Beware the people who are having fun competing with you! Nonetheless, weblogs are not likely to mark the end of traditional media, any more than Martin Luther marked the end of the Popes. Yet the Reformation did mark an end to the notion of unchallenged papal authority, and it seems likely that the weblog phenomenon marks the beginning of the end to the tremendous power wielded by Big Media in recent years".

Þetta er kannski kjarninn í hvernig vefannálar og hefðbundin fjölmiðlun tengjast - þetta nýja tjáningarform einstaklinga grefur undan því gífurlega valdi sem stórir fjölmiðlar hafa haft á síðustu árum.

Microcontent News vísar á ýmsar greinar um blogg.

15.4.02

Fréttaskammtur að morgni


Var á mbl.is að athuga hvað hefur gerst í landinu til sjávar og sveita. Það virðist allt með spekt því seinust sex innlendu fréttirnar á mbl.is núna á mánudagsmorgni voru um veður, vatnavexti í ám, magapest íslenskt fjallaklifrara í útlöndum, opnun á kosningamiðstöð, mætingar fulltrúa í Kópavogi á bæjarastjórnarfundi og hve margar rúður voru brotnar í einum skóla á Akureyri. Er engum nema mér sem finnst svona fréttir fyndnar?
Þetta eru síðustu sex fyrirsagnirnar á mbl.is:
* Éljagangur um sunnan- og vestanvert landið
* Sigurrós mætti best á fundi í bæjarstjórn Kópavogs
* Reykjavíkurlistinn opnar kosningamiðstöð
* Skeiðará aurug á að líta
* Haraldur Örn frestaði uppgöngu vegna magakveisu
* Átta rúður voru brotnar í Lundarskóla

Sólarhringur í lífi mínu


Hvenær skyldi sá tími koma að helgarnar séu dagar til að flatmaga og hvíla sig og safna kröftum fyrir vikuna framundan? Þetta gerðist á síðasta sólarhringi í lífi mínu: Tilfinningaleg spenna í samtölum langt fram eftir nóttu, ég fór ekki að sofa fyrr en klukkan þrjú, það dyngdi niður snjó en það var logn og snjókornin svifu til jarðar eins og vængjuð fræ.Í dag fór ég í fermingarveislu til frænda míns, hér er mynd af fermingarbarninu með foreldrum og systrum en ég setti nokkrar myndir á vefsíðu.


Í kvöld tæmdum við stofurnar og tókum af eldgömlu gólfteppið því það á að byrja að leggja parket á morgun. Núna sit ég ein með fartölvuna í galtómum stofum og það bergmálar við hvern staf sem ég slæ á lyklaborðið. Svo afrekaði ég það líka að ná að skila skattframtalinu rétt fyrir miðnætti en þá rann framlengingarfrestur út.

14.4.02

Hús og menningarstand


Það var verið að undirrita samkomulag milli ríkis og bæjar um óperuhús og hótel úti við sjóinn í miðbæ Reykjavíkur. Ég hlustaði á umræður í útvarpinu í gær þar sem framtakið var lofað, það væri mikilvægt að styðja við menningu og það besta væri jú að byggja yfir hana.

Svo held ég að núna sé tískan að byggja menningarhús á landsbyggðinni. Mér finnst þetta svo dæmigert íslensk viðhorf, þessi trú á að setja allt sitt í járnbenta steinsteypu. Þetta endurspeglar líka gildismat stjórnmálamanna og þörf á að reisa sýnilega minnisvarða, ég heyrði eitt sitt sagt um þekktan bandarískan stjórnmálamann að hann styddi aldrei opinberar framkvæmdir sem væru grafnar í jörðu, bara sýnilega flotta hluti eins og brýr og byggingar sem hann gæti hampað í kosningabaráttu. Ef á að styðja við menninguna á Íslandi er þá besta leiðin að reisa yfir hana hús?

13.4.02

Evrópusambandið, Ísland og Noregur

Íslensk stjórnmál eru núna í brennidepli ESB umræðunnar í Noregi og frásögn af fundi forsætisráðherra Íslands og Noregs í Osló á föstudaginn á forsíðum norskra dagblaða. Svo er viðtal við utanríkisráðherra Íslands í Aftenposten í síðustu viku.

Í norskum fjölmiðlum sér maður að staða í íslenskum stjórnmálum, skoðanakannanir um viðhorf til umsóknar og niðurstaða þinkosninga 2003 á Íslandi er talin hafa mikil áhrif varðandi Noreg. Maður ætti kannski að fara að kynna sér meira þessi mál og skoða hvað er að gerast hjá fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg, skoða vef utanríkisráðuneytisins ees.is og Evrópuvef Samtaka atvinnulífsins.

Ég var að skoða upplýsingar um rannsóknar- og þróunaráætlanir á www.evropusamvinna.is. Undanfarin ár hafa verið miklu meiri tækifæri fyrir íslenska nemendur og íslenska fræðimenn að taka þátt í ýmsum Evrópuverkefnum og Evrópusamstarfi en verkefnum sem tengjast öðrum heimshlutum. Ég sakna sérstaklega að hve lítil tengsl eru við Ameríku og Asíu.

Athyglisvert að sjá hvað úrslit atkvæðagreiðslu um EU-aðild árið 1994 var mismunandi eftir landsvæðum á Norðurlöndum

12.4.02

Vefsagan - Fornminjar


Ég hef fundið silfur í jörðu - eh, kannski ekki beint jörðu, frekar í þráðunum sem tengja okkur saman og núna er ég upptendruð af fornleifauppgröfti á vefnum. Björn benti mér á vefinn www.archive.org og þar hafa menn sinnt varðveisluskyldu við mannkynið og tekið afrit af öllum vefsíðum síðan 1996. Ég sem er búin að vera svo leið árum saman um allt vefefnið sem fer í glapkistuna, allir þessir vefir sem hafa horfið einn daginn. Sumir hafa ekki horfið heldur tekið stakkaskiptum í takt við tíðarandann og verið uppfærðir og enginn hugsað um að eiga afrit af gamla lúna og hallærislega vefnum. Engum dottið í hug að það gæti verið mælistiki á samtímann hvernig fólk setur efni fram á vefnum á einhverjum tíma, hvernig voru persónulega heimasíður á íslandi árið 1996?

Lengi hef ég syrgt fyrsta vefinn á Íslandi sem var helgaður listum, það var vefurinn www.saga.is sem bara dó einn daginn þrátt fyrir nafnið. Ekkert eftir. engin spor. Bara þessi skilaboð um "meltdown". En þökk sé archive.org þá fann ég mest af því dóti sem var á saga.is aftur eftir öll þessi ár.

Svona var forsíðan á saga.is árið 1996. Svo fann ég ýmsar undirsíður svo sem eldgamla vefsíðu skáldsins Braga í ljós og vefsíða á ensku um vestfirska snillinginn hann Samúel með nokkrum myndum af musterum hans. Mig minni fyrsta íslenska myndlistarsafnsíðan á vefnum.

Svona má lengi telja. Þetta er algjört fjársjóður svona antik vefdót. Hvílík gullnáma fyrir safnara að finna upplýsinga um UXI 95 að finna vefsíðu frá hátíðinni á Kirkjubæjarklaustri 1995 og hvað lógóið var er mikið djásn! Og hvernig er hægt að spá í andlegar hræringar á Íslandi í fornöld vefsins, ef vefsíða eftir einhver óþekktan Andrés um PÍ frá 1997væri glötuð?

Skólarnir hafa breyst á vefnum. Svona var vefur Kennaraháskólans árið 1996, svona var hann árið 1999 og svona er hann núna árið 2002.. Skrýtið að í mörg ár var forsíða á vef Háskóla Íslands á ensku, ef til vill var vefurinn hugsaður mest sem gluggi til umheimsins utan Íslands. Elsta vefsíðan sem ég fann frá mér er þessi sem seinast var uppfærð 1998 og þar kemur fram að ég hef sett teljara á síðuna 16. febrúar 1996.

Stjórnsýslan hefur líka breyst á vefnum. Svona hefur forsíða stjórnarráðvefsins breyst í gegnum tíðina frá 1996-2002: Elsta vefsíðan sem ég fann er síðast uppfært 2. október 1996
árið eftir í september 1997 er hún svona.
Það er í desember 1997 sem hún breytir um svip og frá apríl 2001 hefur hún haft þetta útlit.

11.4.02

Að finna upp framtíðina í NetheimiBlogg eru í tísku. Það er grein eftir Andrew Sullivan um blogg í maíútgáfunni af Wired The Blogging Revolution - Weblogs Are To Words What Napster Was To Music.. Þar segir hann að sérstaða vefleiðaranna sé að framsagan er með persónulegum hætti og viðhorf og persónuleiki bloggarans skína gjarnan í gegn. Svo hafa bloggarar tekið yfir framleiðslutækin! Frá fornu fari hefur leiðin frá blaðamanni að lesanda farið í gegnum ritstjóra og útgefanda og þetta bjagar frásögnina, blaðamaðurinn er að skrifa til að þóknast örfáum aðilum, ritstjóranum, blaðaútgefandanum og auglýsendum. Vefannálar tengja framhjá þessu kerfi. Andrew Sullivan stingur upp á því að svona gáfumenn eins og hann sjálfur sem líka skrifa bækur, haldi úti vefleiðurum sem trekki að lesendur og ausi svo úr viskubrunni sínum að þeir geti selt bækurnar sínar þar eftir "print on demand" kerfi. Og hann skilur ekki hvers vegna greinahöfundar eru að sækjast eftir að birta greinarnar sínar í tímaritum og dagblöðum, af hverju ekki að gefa sitt efni bara út sjálfur?

Mín hugleiðing um eigin útgáfu og tekjur af inntaki af vef
Veit ekki hvort þessi hugmynd um að gefa út sjálfur virkar á dvergmarkaði eins og Íslandi. Ég hef reyndar sjálf ágæta reynslu af eigin bókaútgáfu, mér græddist fé hér fyrir mörgum árum þegar ég gaf út ýmsa eigin bæklinga um tölvukerfi og framleiddi alltaf beint upp í pantanir, hafði þetta svo ódýrt að það borgaði sig ekki að ljósrita og passaði alltaf að fá alla vega fyrir framleiðslukostnaði beint fyrstu vikuna eftir útgáfu. En ég hef ekki mikla trú á bókum í dag og langar ekki til að semja bækur eða eitthvað sem er svona endanlegt og óþjált framsetningarform. Ég hef hins vegar ekki fundið neina aðferð til að hafa tekjur af vefefni.

Það var líka smá um Björk í Wired.


Tim O'Reilly sem hefur samið margar námsbækur og stýrir forlagi sem við hann er kennt skrifar í greininni Inventing the Future þann 9. apríl um "the alpha geeks" en það er fólkið sem hefur náð tökum á tækninni og býr til eigin verkfæri ef það hefur ekki það sem það þarf. Þetta er fólk sem er nokkrum árum á undan öðrum í tækninotkun, hikar ekki við að splæsa saman ýmis verkfæri til að fá nýjar, óvæntar niðurstöður
Tim O'Reilly fylgist með slíku fólki spáir í stefnuna og telur að þessi atriði skipti máli á næstu árum:

Þráðlaust (wireless) - Allir eru að gera tilraunir með þráðlaust kerfi, alveg frá því að nota gsm síma við fartölvu í að vera íklæddur tölvum (wearable computers).

Næstu kynslóð af leitarvélum. Fyrst var bara gróf leit, svo kom Google sem finnur fyrst þá sem mest er vísað í. Næsta kynslóð verður vitrænni, þar verður spurning líka um hver vísar í hvern.

Blogg (weblogs) Tim O'Reilly kallar vefannála hvorki meira né minna en "the new medium of communication for the technical elite". Vá! manni líður bara vel að vera bloggari. Er ég tæknielíta? Tim segir að vefannálar sem eru bæði persónulegir og byggðir kringum tengsl milli fólks og hugmynda séu að búa til nýja alheimshugsun. Vefannálar eru ekki bara næsta kynslóð af persónulegum heimasíðum þar sem hönnun og inntak er aðskilið og auðveldara er með allar uppfærslur. Þeir eru líka tæki til að gera tilraunir með hvernig vefurinn virkar: sameiginlegir tenglalistar, netsamfélög, fréttaveitur, vísanir og vefþjónustur. Alveg er ég sammála þessu!.

Hraðboð (Instant messaging) - ekki bara milli fólks heldur milli forrita. Tim talar um "presence management", ég held hann eigi við einhvers konar forritanlega fjarstýringu á forritum/vefverkfærum.

Skráarmiðlun (file sharing) svona eins og Napster kom okkur upp á bragðið með. Þegar allir eru tengdir þá getur inntakið verið hér og þar og það þarf kerfi sem heldur utan um það (distributed-content management systems)

Grid computing - að notfæra sér reiknigetu milljóna af nettengdum tölvum sem ekki eru í notkun.

Vefkóngulær (Web spidering) t.d. svona forrit sem fara um vefinn og efnistaka síður, leita að einhverjum mynstri og greina síður og efni og safna saman efni.

Meira nýlegt um blogg:
Er blogg eitt form blaðamennsku?
Blogging Code of Ethics
Is Weblog Technology Here to Stay or Just Another Fad?


Plastpokakjólar, prjónahúfur, húðflúr og húðgötunEin listakonan á sýningunni Púslusving sem nú er í Norræna húsinu sýndi fullt af kjólum sem hún hafði saumað úr plastpokum. Hún gekk líka um svæðið íklædd slíkum plastpokakjól og hafði á höfði sér viðamikla prjónaða búálfahúfu eins og allir sem fylgja tískustraumum hafa í dag. Skemmtilegar andstæður svona prjón og plast. Mér finnst reyndar gaman að spá í hvernig tískan endurspeglar hræringar samfélagsins, held að þessi áhersla á húðflúr og götun og að stinga alls konar málmflísum í líkamann og ganga með til skrauts sé einhver endurómun af því að öðru vísi sýn á líkamann eða það farteski sem við ferðumst með gegnum lífið. Svona þáttur í að venja sig við samruna hins vélræna og hins lífræna og með húðflúrinu sé verið að merkja einstaklinginn - kannski líka eins og húðin sé eins konar fatnaður. Sá tími er líka að renna upp þar sem við íklæðumst tölvum og berum innra með okkur tölvur s.s. gangáða og mælitæki.
Bodies of Cultures

9.4.02

Palestínufundur


Ég fór eftir vinnu í dag á fund á Austurvelli um Palestínu.
Tók nokkrar myndir.


Handayfirlagningar


Mikið er ég fegin að að Hrunadansi upplýsinga- og tæknifyrirtækja sé senn lokið eins og sagði á forsíðu mbl.is í dag. Held samt ekki að það mál sé alfarið í mínum höndum en á ég ekki bara að vera ánægð með að mynd af mér birtist á forsíðu Morgunblaðsins á Netinu? Eins og ég þekki ekki aftur mínar eigin hendur og mína fartölvu, þessi handamynd sem skreytir greinina var tekin út í fyrra og fylgdi viðtölum við nokkra bloggara, þar á meðal mig sem birtust í Morgunblaðinu 22. júní 2001.

Velferðarþjóðfélagið og helförinFór í hádeginu á fyrirlestur Guðmundar Jónssonar hjá Sagnfræðingafélaginu um Velferðarþjóðfélagið og sjálfsmynd Íslendinga. Það var fjallað um norrænt velferðarkerfi og spáð í hvers vegna það var ekki eins mikið í tísku hérna, hér voru kratarnir í litlum veikburða flokki og voru tryggingamálefni jafnvel talin einkamálefni þeirra og talað um sænsku Mafíuna hérna meðan sósíaldemókratar réðu öllu á hinum Norðurlöndum. Þjóðernishyggja hafði hér á landi meira vægi en stéttavitund. Hér var bændasamfélag og fátækt meiri en það breyttist með stríðsgróðanum.

Í umræðum eftir erindið sagði Gunnar Karlsson að fjölskyldubætur hefði verið svona háar á Norðurlöndum m.a. til að fólk ætti börn og svo sagði hann: "Það þarf ekki að borga Íslendingum fyrir að eignast börn". Þetta fannst mér ekki viturlega sagt og minna á kenningar Maltusar og veisluborð hans. Það er hægt að benda á mörg dæmi sem sýna að það er langt í frá línulegt samband milli fólksfjölgunar og fjárhagslegrar velsældar, ég var að lesa að í Ísrael fjölgar Palestínumönnum mun hraðar en Gyðingum vegna náttúrulegrar viðkomu en Gyðingum fjölgar ekki síst vegna innflutnings fólks af Gyðingaættum frá Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Allra mest fjölgar þó Bedúínum á vissum svæðum þar sem þeir búa við afar þröngan kost. Svo sagði Gunnar Gunnarsson sagnfræðingur að Íslendingar hafi verið miklu grimmari og verri við fátæklinga en hinar Norðurlandaþjóðirnar.

Ágætt að fara í dag í samkunduhús og hlýða þá lærdómsmenn sem skrifa og endurskrifa sameiginlegar minningar. Í dag 9. apríl er nefnilega minningardagur Gyðinga um Helförina (Holocaust) og þá er minnst þeirra milljóna Gyðinga sem létu lífið fyrir tilstilli þess ríkis sem þeir voru þegnar í. Orð dagsins þar eru að muna og minna aðra á að gleyma aldrei. Ekki veit ég hvernig sagan af Helförinni hefði hljómað ef Hitler hefði unnið stríðið.

Ég var núna um daginn að fletta upp á Netinu eitthvað um Bedúína í Ísrael því ég man að þegar ég var þar fyrir tveimur áratugum þá voru aðstæður þeirra ömurlegar. Lenti þá bara af tilviljun inn á vefsíðum sem sögðu frá af útrýmingu Armena í Tyrklandi eitthvað um 1915. Svo er haft eftir Hitler nokkrum áratugum seinna þegar hann var að sannfæra fylgismenn sína um að Vesturlönd mundi ekki skipta sér af útrýmingu Gyðinga í ríkjum Þjóðverja: "Who, after all, speaks today of the annihilation of the Armenians?"

8.4.02

Kraftaverk orðanna og sáðfrumur - Gleðimenn og gleðikonur"Og þó erum við ekki fyrr búin að falla í stafi yfir kraftaverki orðanna, en það rennur upp fyrir okkur hve afföllin eru ótrúleg. Nærtækast væri að grípa til líkingar við sáðfrumurnar sem milljónum saman leggja af stað í einu sæðiskasti, en mega sæta því að fara allar í súginn - utan þegar getnaður verður - þá er ein úr allri hersingunni útvalin - hinna bíða þau örlög að farast."
Þetta segir skáldið og hugsuðurinn Pétur Gunnarsson í grein þar sem hann mærir skáldið Halldór Laxness í lesbók Moggans núna um helgina. Ég tók ekkert eftir hólinu um Halldór heldur einblíndi á þessari myndrænu líkingu Péturs á sáðfrumunum, þessum angurværum trega af sjálfsmorðsveitum sem þeysast fram með ógnarkrafti en eru dæmdar til að farast - í baráttu þar sem aðeins er einn sigurvegari.

Ég er svona upptekin af orðræðu um sáðlát og egglos vegna þess að ég las greinina Ævintýrin eggið sæðið sem Gunnar Hersveinn skrifaði í Moggann þann 5. apríl en þar segir hann frá erindi sem Berglind Rós Magnúsdóttir á ráðstefnu um konur í vísindum. Hún spáði í hvernig sagt frá kynfrumum, frjóvgun og æxlun í íslenskum kennslubókum. Núna er nefnilega í tísku í femínistaheiminum að spá í orðræðu vísinda og skólabóka um svoleiðiðs og skoða hvort hún sé gildishlaðin. Berglind Rós kannaði og greindi orðræðu um kynfrumur og kynfæri mannsins í íslenskum kennslubókum. Í kennslubækur ratar einfölduð útgáfa af fræðilegum textum. Kennslubókahöfundar ákveða hvað er aðalatriðið og koma á framfæri á alþýðlegu og einföldu málsniði og það er svona: Eggið bíður, og sáðfruman borar sér leið inn í það.

Berglind Rós er undir áhrifum frá Emily Martin og skoðaði vernig orðræða um frjóvgunarferli, kynfrumur og æxlunarfæri í fræðitextum og kennslubókum. Fornar kenningar lýsa karlmanninum sem geranda og konunni sem viðtakanda og má sjá enduróm af þessum hugmyndum í mörgum frásögnum um sæðið og eggið, þar sem frumurnar eru persónugerðar. Fyrsta og langlífasta útfærslan á sögunni um eggið og sæðið er í búningi Grimmsbræðra um hetjuna og hina vanmáttugu prinsessu. Algengt er að lesa um hættuför sæðisins í leit að egginu, og einnig virðist hefðbundið að skrifa að sæðið bori sér í gegn.

Sæðisfrumunum er lýst eins og hersingunni hans Péturs Gunnarssonar og stundum líkt við hermenn með hjálm á höfðinu og efnavopn til að brjóta hjúp (virkismúr) eggsins. Eggið er í dvala og sáðfrumurnar leggja upp í erfitt ferðalag til að frelsa það, "en aðeins ein kemst að": "Sáðfrumurnar fara inn í legið og upp í eggjaleiðara þar sem frjóvgunin verður. Er það torsótt leið og mikil þrekraun. Hundruð milljóna sáðfrumna deyja í leghálsinum í súru slími sem þær mæta þar. Slímið verkar eins og sía: aðeins ein af hverjum hundrað sáðfrumum kemst inn í legið. Þar deyja margar í viðbót úr þreytu, og örfáar komast upp í eggleiðara til að leita að eggi. Sé frjóvgunin eðlileg kemst aðeins ein þeirra í gegnum himnuna sem lykur um eggið og frjóvgar það."

Berglind fann út að vísindalegar skýringar á frjóvgun, kynfrumum og kynfærum eru menningarlega gildishlaðnar og endurspegla ríkjandi viðmið um kynin á hverjum tíma. Ég fann út að það sama gildir um kraftaverk orðanna þegar karlkynsskáld eru að bera lof á önnur karlkyns skáld.

Identity, Science and the New Technologies
Culture, cognition and the human body
Sáðfruma í þyngdarleysi
Hvernig sniglar eðla sig - Hmmm.... er ekki kynbundin skekkja í þessari umfjöllun?

Fyrst á Esjuna, svo á Hvannadalshnjúk..


Alveg er ég úr takti við aðra í fjölskyldu minni. Nú þeyttist liðið upp á Esjuna í dag, lenti í snjóbyl og torfærum. Þetta er liður í að æfa sig undir ferð á Hvannadalshnjúk um hvítasunnuna, þau príla upp á öll nálæg fjöll á þessum æfingum. Ég hins vegar hreyfi mig ekki nema á jafnsléttu og þá helst í bíl.

Er að velta fyrir mér hvort ég lifi kannski of mikið í svona net- og tækniheimi þar sem allar skynjanir fara í gegnum einhverja milliliði/tæknimiðla. Fór á laugardagskvöldið á opnun á sýningunni Púslusving í Norræna húsinu og þar var geggjað áreiti, það var verið að spila mörg vídeóverk með hjóði á stórum myndflötum um allan salinn. Ein listakonan hafði búið til marga kjóla úr auglýsingaplastpokum og gekk um sýninguna í svoleiðis kjól. Skemmtilegust fannst mér verkin þar sem áhorfandinn átti að gera eitthvað, sérstaklega gagnvirka verkið XLIP þar sem áhorfandinn gat spilað með myndir, stjórnað myndbandsskeiðum með MIDI-nótnaborði. Sumar stuttmyndirnar voru sniðugar og öðruvísi, ég man sérstaklega eftir viðtalsmyndum eins og Kosmos þar sem maður með geðklofa ræðir um heimsýn sína og geðsjúkdóm og svo auglýsingamynd um nýtt heimsskipulag þar sem það þykir eftirsóknarvert að vera feitur.

6.4.02

Matador á hebresku og ensku


Mig langar svo eitthvað til útlanda. Nú eru spennandi ferðatilboð í gangi og ódýrar ferðir til Ísrael og New York. Samt svolítið óþægileg tilhugsun að heimsækja staði þar sem svona móttökur eru í gangi. Fyrir tveimur áratugum greip ég tækifærið og fór ein til Jerúsalem því ferðin var á spottprís því þar var eitthvað stríðsástand. Hafði það nokkuð gott, var á litlu hóteli í hverfi Palestínumanna rétt hjá borgarmúrunum og við vorum bara þrír hótelgestir, ég og tveir strákar frá Jótlandi en starfsmennirnir miklu fleiri. En ég man ennþá hvað það var ströng skoðun í kringum flugferðina frá Ísrael til Kaupmannahafnar og maður var yfirheyrður um hvað maður hefði keypt og allt skoðað og spurt hvort einhver hefði beðið mann fyrir bréf eða pakka.Ég hafði bara keypt einn hlut til að gefa dóttur minni, það var spilið Matador á hebresku og ensku. Þetta var staðfært eins og Matador (heitir á ensku Monopoly)er alltaf og spilið gekk ekki út á götur í Reykjavík heldur landsvæði utan og innan Ísraels. Hélt að henni þætti gaman að spila vestrænt fjármálaspil og setja upp hús og hótel á landsvæðum sem hún hefði keypt og rukka afgjald fyrir það og það myndi rifja upp minningar mínar frá Ísrael að horfa á svona pínulítil matadorhús. Gerir það líka, alltaf þegar ég sé Matador spilað hugsa ég til Ísrael og rifja upp sögurnar sem ég heyrði þar. Um hús sem voru byggð í skjóli nætur og um hús sem voru rifin og rýmd í skjóli nætur.

Dóttir mín var í basli með að spila Matadorspilið því hún skildi hvorki hebresku né ensku. Frænka hennar sá aumur á henni og þýddi spjöldin sem maður átti að draga þegar lenti á einhverjum reit. Frænkan reyndi sitt besta en var kannski ekki nógu sleip í enskunni eða vel inn í fjármálareglum hinna vestrænu samfélaga svo hún þýddi spjaldið "You have to pay taxes" þannig "Þú þarft að taka leigubíl".

5.4.02

Þekkingarþorp og vitsmunahús


Í gær fór ég á hádegisfund hjá Skýrslutæknifélaginu um þekkingarsetur . Þar voru kynntar hugmyndir slík setur við Urriðavatn í Garðabæ, í Vatnsmýrinni við Háskóla Íslands og við Lund í Kópavogi. Það var dáldið mikil áhersla á hús og atvinnuhverfaskipulag þarna á fundinum, sýndar glansandi fínar myndir af hvernig þessi hverfi gætu litið út en þau eru bara á teikniborðunum núna. Fundurinn vakti mig til umhugsunar um hvers konar atvinnufyrirtæki verða í borgum í framtíðinni og hvernig verða atvinnuhverfin. Mér finnst alla vega ekki mjög heillandi teikningar af þekkingarsetrum sem eru eins og fyrstu blokkarhverfin í Breiðholtinu þó allt í kring séu græn svæði og golfvellir.Sú hugmynd sem alltaf hefur heillað mig mest varðandi vinnustaði framtíðarinnar er að heimili og vinnustaður renni aftur meira saman þ.e. séu í sama húsi t.d. á neðri hæðum húsa séu vinnustaðir en efri hæðum íbúðarhús. Svona eins og verkstæði og vinnustaðir fyrir iðnbyltinguna. Svona eins og þorp. Þetta er reyndar bara mín hugmynd og kannski draumórar, kannski af því að gamaldags handverk hefur alltaf heillað mig, svona staðir þar sem klæðskerar og skósmiðir eru að störfum á handverksgötum og fyrir framan er iðandi mannlíf og fólkið býr á sama stað eða svipuðum stað og það vinnur á. Svo finnst mér líka hljóti að vera mikilvægt varðandi það að fara vel með auðlindir að eyða ekki orku og kröftum í að byggja upp infrastrúktúr til að ferja fólk og vörur að óþörfu fram og til baka.

Ég hlustaði einu sinni á Bob Metcalfe mæla með því að það ætti bara að tengja heimilin og svo gæti fólk verið þar - ekki vera að flandrast neitt í vinnuna að óþörfu - flytja vinnuumhverfið að fólkinu. Bob er frumkvöðull sem þekktur er fyrir að finna upp Ethernet og Metcalfe lögmálið um notagildi Netsins en kjarni þess er að því fleiri sem nota Netið þeim mun notadrjúgra er það. Úfff... hér man ég þá tíð þegar ég komst í Internetsamband fyrst gegnum módem um 1986 og það virkaði allt ágætlega eða senda tölvupóst og lesa tölvuráðstefnur, aðalvandamálið var að maður gat verið í samskiptum við svo fáa.

Metcalfe skrifaði geysivinsælan tímaritsdálk og þar spáði hann því að árið 1996 myndi Internetið hrynja. Hann reyndist ekki sannspár og ég var WWW ráðstefnunni í Santa Clara þetta ár og sá Metcalfe þegar hann þurfti að éta ofan í sig sín eigin orð fyrir framan þúsundir tölvunörda. Hann gerði það á mjög táknrænan hátt, tætti fyrst blað með tímaritsdálkinum sínum í blandara og át hann svo í bókstaflegri merkingu þess orðs. En þó honum hafi skjátlast um þetta þá hlýddi ég á erindi hans og mér fannst hann mæla margt skynsamlegt þegar hann sagði að það ætti bara að tengja heimilin og fólk bara að vera þar. Sparar ýmislegan infrastrúktúr virðist mér. Er ekki þessi aðskilnaður borgarhverfa í atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði eitthvað sem er afsprengi iðnaðarsamfélagsins? Annars er Metcalfe farinn upp í sveit og ræktar kindur.

Gaman að lesa um svona frumkvöðul. Eftir honum eru höfð þessi orð: "The only difference between being visionary and being stubborn is whether you're right."

Metcalfe er vellauðugur enda uppfinningamaður og frumkvöðull með sannfæringarkraft. Hann segir: "There's a lot of young engineers that I meet who think that I made my fortune because I invented ethernet. That's a slight missing of the point. I made my fortune by SELLING ethernet, which is different."

4.4.02

Páskarnir


Bænadagarnir voru drungalegur tími og mér fannst heimurinn eins og illskupottur fullur af kraumandi innyflum og hausum, vígaferli á frelsarans slóð og hatrammar bræðradeilur í Skagafirði. Gat samt ekki annað en glaðst yfir merkjum um vaknandi vor, fyrstu vorblómin koma upp úr jörðinni, farfuglar fljúga til landsins og á Páskadag kom í heimsókn vinkona sem hefur dvalið veturlangt í Suður-Evrópu.

3.4.02

Kvöldmáltíð á skírdag


Það eru frásagnir í Biblíunni af síðustu kvöldmáltíðinni en hún var á skírdag. Þar var boðið upp á vín og brauð og þess er minnst í messuhaldi núna þó liðin séu meira en tvö árþúsund. Ég var í Skagafirði á skírdag og þar var kvöldmáltíðin reyktur kýrhaus sem var soðinn með heila í þvottapotti og settur á eldhúsborðið reistur upp á rönd eins og níðstöng. Þessi matur mun seinast hafa verið þar á borðum fyrir fjölmörgum árum enda mun núna fátítt að kýrhausar séu hirtir vegna hræðslu við kúariðu. Ég bragðaði ekki á þessum mat og fastaði allan föstudaginn langa og fór í bæinn á laugardagsmorgun.