31.5.02

Bótakerfið og þeir sem drekka fyrir hádegi


Ég var að skoða vefinn baetur.is hjá Bótum, félagi áhugamanna um kortlagningu bótakerfisins. Gott framtak en ég held að einhver alls herjar kortlagning bótakerfisins sé óvinnandi og þó eitthvert kort fengist þá verður að taka tillit til þess að sumar bætur virka eiginlega til að spara útgjöld opinberra aðila svo sem ummönnunarbætur til foreldra mikið fatlaðra barna sem eru mikli lægri en umönnun á sólarhringsstofnun.

Fór svo á vef Tryggingarstofnunar til að tékka betur á bótakerfinu. Þar stendur að 75% örorka er viðmiðun til að eiga rétt á fullum bótum og svo eru upplýsingar um hvernig örorka er metin og er þar m.a. notaður þessi örorkumatsstuðull. Hmm... sá að fólk sem drekkur fyrir hádegi fær 2 stig fyrir það. Eins gott fyrir alkana að vakna snemma og muna máltækið "Morgunstund, gefur gull í mund".

30.5.02

Undir eftirliti


Alríkislögreglan bandaríska FBI hefur núna breytt starfsreglum sínum. Áður mátti ekki fylgjast með fólki á opinberum stöðum nema verið væri að rannsaka einhver mál, núna má fylgjast með fólki bara til að fylgjast með því, sjá nánar þessa grein FBI Given More Latitude í Washingtonpost.com í dag. Það eru ekki strippbúllur og spilavíti og sollurinn í stórborgunum sem FBI hefur mestan áhuga á að fylgjast með núna, nei það er að sækja guðþjónustur, hanga á bókasöfnum og svo náttúrulega að fylgjast með Internetinu eða eins og segir í greininni: "...will give FBI agents latitude to monitor Internet sites, libraries and religious institutions without first having to offer evidence of potential criminal activity".

Klám og erótík


Það er engin ein rétt skilgreining á hvað er klám og hvað er erótík og það er heilmargt sem fellur þarna á milli og er ekki klám og er samt of lágkúrulegt til að kallast erótík. Ég held líka að það breytist með tímanum hvað manni finnst klám og hvað ekki. Kannski það sé bara gott að segja að allt sem særir blygðunarkennd manns sé klám. Listamaðurinn Egon Schiele var á fyrri hluta þessarar aldar handtekinn fyrir klám en ég held ekki að myndir hans hneyksli fólk í dag.

Það getur vel verið sá tími komi að klámstjarnan Cicciolina verði almennt þekkt sem listamaður og aktívisti en mörkin milli listar og lágkúru og kláms og erótíkur eru ansi fljótandi í lífi hennar og fyrrum eiginmanns Jeff Koons. Þau gerðu kynlíf að inntaki lífs síns um skeið og viðfang í listsköpun og tákni fyrir baráttu og lífssýn svo sem í verkunum Made in Heaven en Koons segir: "I use Modernism as a metaphor foor sexuality without love - a kind of masturbation."

Ávöxtur ástar þeirra og kynlífs var barn sem þau börðust árum saman um forræði yfir. Svo fór að Cicciolina var dæmd óhæf móðir og Jeff Koons fékk forræðið enda lagði hann áherslu á í réttarhöldunum að líferni hennar og klámsækni væri hryllileg og að hve mikilvægt væri fyrir hann að eiga sannkristna og borgaralega fjölskyldu (to have a family based on Protestant values was important to me), sjá nánar frásögnina," I can't define porno, but I know it when I want to see more of it . Þetta er besta dæmi um tvöfalt siðgæði varðandi klám sem ég veit af.

28.5.02

Femínistar, klám og vændi


Bjarni segir : "....Margir feministar í dag eru farnir að draga þá staðreynd í efa og vilja meina að baráttan gegn klámi og vændi sé í besta falli tímasóun og í versta falli beinlínis skaðleg fyrir konur um allan heim." Þetta er einkennileg fullyrðing hjá Bjarna og ég vildi gjarnan heyra meiri rök fyrir henni, kannski nokkur dæmi um þessa mörgu femínista og hvar þeir hafa flutt mál sitt?

Frjálslyndir mannréttindasinnar (femínismi er einn undirflokkur mannréttindasinna) hafa varla á móti því að menn finni sér útrás fyrir losta og enginn neitar því að kynhvötin er eitt sterkasta hreyfiafl manneskjunnar og aflvaki í listum og samskiptum manna. Ástarleikir og kynlíf fullorðinna, sjálfs síns ráðandi einstaklinga sem mætast á jafnréttisgrundvelli er eðlilegur hluti lífsins og það eru vissulega mannréttindi að þurfa ekki að lúta óþarfa boðum og bönnum á því sviði.

Vændi og mannsal
Vændi er hins vegar alltaf einhvers konar valdbeiting af hendi þess sem kaupir þjónustuna og vændi í Evrópu hefur hvarvetna fylgt annað og ömurlegra en það er "trafficking" sem er ekki held ég til í íslensku, kannski mannsal sé réttasta orðið. Þetta er þegar fólk (í flestum tilvikum barnungar stúlkur) er flutt eða tælt frá heimkynnum sínum og haft í eins konar nútíma hvítu þrælahaldi undir stjórn melludólga og misyndismanna sem hafa neyð, fátækt, örvæntingu, úrræðaleysi eða einfeldningshátt annarra að féþúfu. Mér finnst það frekar almennt mannréttindamál heldur en sérmál femínista að stemma stigu við þessu.

Barátta gegn klámi
Hvað er klám og hvað er erótík? Fann þessa fínu skilgreiningu á Bríet, hún er eftir Dionnu Russels: "Klám er efni sem tengir kynlíf og/eða kynfæri við misnotkun eða vanvirðingu á hátt sem virðist styðja, afsaka eða ýta undir þess konar hegðun. Erótík er hins vegar kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttarfordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sýnir virðingu fyrir öllum manneskjum og dýrum sem þar birtast."
Ef við tökum undir þessa skilgreiningu á klámi þá hugsa ég að það sé vandfundinn sá femínisti sem telur að barátta gegn klámi sé tímasóun eða skaðleg fyrir konur. Þeir sem vinna að mannréttindum á friðsamlegan hátt verða hins vegar að vera vandir að virðingu sinni og leita þannig leiða í baráttu sinni að ekki sé gengið á önnur mannréttindi.

Annars trúi ég á fræðslu og að fólk kynni sér málið. Hér eru nokkrir vefir sem fjalla um málið:

Skýrsla um vændi á Íslandi frá mars 2001
Violence Against Women and Sexual Exploitation
Coaliton Against Trafficking in Women
Prostitution Research
The Protection Project
Alliance for Speaking Truths On Prostitution
Trafficking in Women for the Purpose of Sexual Exploitation (norræn/baltesk/rússnesk skýrsla frá 1998)
NSWP (vefur fyrir þá sem starfa í kynlífsiðnaði)
Trafficking in Women from Ukraine Research Project
Traffickers' New Cargo: Naive Slavic Women (New York Times grein frá 1998)
IOM - Internationan Organization for Migration
Human Trafficking

Söguþingið


Mér finnst að fyrirlestrarnir um Minni og vald og um Sjálfsmynd andspænis framandleika á Söguþinginu sem verður um helgina hljóti að vera spennandi.

27.5.02

Ein trappa


Ég er búin að vera svo ánægð með um hvaða mál hafa verið í brennidepli í kosningunum núna, svona áhersla á mjúku málin og hinn félagslega infrastrúktúr og samhjálparkerfi eða öryggisneti sem hjálpar þeim sem þurfa. Líka áhersluna á skólamálin, kannski ætti kosningaréttur að vera frá 12 ára aldri þá myndi örugglega hafa meira vægi skólamálin. Hmmm... kannski ætti kosningaréttur að miðast við persónur ekki persónur yfir ákveðnum aldri og foreldrar að fara með atkvæði barna sinna þangað til þau næðu ákveðnum aldri.

Þegar ég fór að kjósa í Laugardalshöllinni og gekk upp að andyri hallarinnar þá mætti ég ráðvilltum eldri hjónum. Þau vissu greinilega ekki hvað þau ættu að gera og ég heyrði á tal þeirra, heyrði að konan sagði: "það er alveg útilokað að ég komist upp þessa tröppu" og svo fóru þau að svipast um eftir öðrum uppgöngumöguleikum á kjörstaðinn og þarna var fullt af merkjum sem vísuðu einhverja hjólastólaleið sem er lengst bak við húsið. Seinasta sem ég sá var að þau röltu í burtu aftur inn í bílinn og konan átti erfitt með gang og annað hvort ætluðu þau að keyra eitthvað bakvið og leita að hjólastólainngangi eða þau hafa hætt við að kjósa.
Þetta var engin venjuleg trappa þarna við Laugardagshöllina, þetta var risastór brík eða stallur og alveg furðulegt aðgengi að stórri miðstöð í eigu almennings (Hver á annars Laugardalshöllina? - Íþróttahreyfingarnar?) Það er alveg ótrúlegt hugsunarleysi að setja ekki upp einhver konar millitröppu eða ramp þarna og handrið á kjördag, að vísu þurfti fólk líka að fara upp nokkrar tröppur þegar inn var komið sem er alveg afleitt líka en það voru þó venjulegar tröppur og þar var hægt að halda sér í handrið. Þessi aldraða kona var ekki í hjólastól og hún ráðvillt og áttaði sig ekki strax á því að þessi örvar sem bentu á aðgengi fyrir hjólastóla voru fyrir alla sem ekki geta klifið stalla. Svo fannst mér þessi aðkoma þarna hjá andyrinu vera einstaklega niðurlægjandi fyrir alla hreyfihamlaða og hlyti að gera þessa reynslu þeirra að kjósa á nokkurra ára fresti að mjög leiðinlegum viðburði. Það hlýtur að vera sárt að koma að íþróttamannvirki, reyna við uppgöngu og gefast upp og verða komast einhvern veginn bakdyramegin. Í blaðaauglýsingum fyrir kosningarnar stóð að alls staðar væri aðgengi fyrir fatlaða. Ég kvartaði við kjörstjórnina á staðnum og þessi atburður hafði mikil áhrif á mig. Mér fannst þetta lélegt aðgengi fyrir fatlaða og mér fannst þetta líka bending um að blákaldur veruleikinn er annar heldur en það sem skrifað er í fjölmiðla eða lesa má úr orðræðu ráðamanna. Alla vega ætla ég í framtíðinni að berjast fyrir því að almannafé sé ekki látið í framkvæmdir nema tryggt er að allir geti notað þeirra og komist þar um, mér finnst líka alveg ferlegt að skipta fólki í fatlaða og ófatlaða (svona eins og með þessu hjólastólaútgangamerkjum) við erum bara mismikið fötluð og við byrjum öll lífið ósjálfbjarga og sennilega eigum við flest erfitt með hreyfingar og athafnir á seinasta skeiði ævinnar.

Fólkið sem enginn vill


Skv. fréttum í Morgunblaðinu kom nítján manna hópur sígauna frá Rúmeníu með Norrænu og leitaði hælis hér sem flóttamenn. Þeir komu í þremur sendibílum sem fundust við tjaldstæðið í Laugardal. Þeir tala bara rúmönsku. Lögreglan í Kópavogi rannsakar nú mál unglings úr hópnum en hann er grunaður um að hafa gert tilraun til vasaþjófnaðar í gær. Sigaunar eru með eina verstu stöðu allra minnihlutahópa fyrrverandi kommúnistaríkja Austur-Evrópu en þeir eru fjölmennastir í Rúmeníu, eru að ég held um 9% af fólksfjöldanum þar. Ég er að lesa núna bókina Þjóðríkið og ætla að pæla í hópum eins og sígaunum og bedúínum í leiðinni.
Safnaði upplýsingum og vefslóðum um sígauna og setti á vefsíðu.

26.5.02

Kosningabaráttan með kynjagleraugunum


Kosningabaráttan með kynjagleraugum er góð grein sem Drífa Snædal á vef UVG á kosningadaginn. Ég sá auglýsingu um Kvennahátíð þar sem kvenframbjóðendur sýndu föt og loðfeldi og skartgripi, auk þess var snyrtivörukynning, leiðsögn í blómaskreytingum og kynning á því nýjasta í förðum sumarsins. Ég hætti við að mæta.

Ungar konur með skoðanir
Annars er fagnaðarefni að nú eru tveir vefir þar sem ungar konur með skoðanir tjá sig þ.e. briet.is og tikin.is, ég vona að umræðan verði lífleg. Tíkin segir: "Að Tíkinni standa ungar konur með skoðanir. Við fjöllum hvorki um varaliti né megrunaraðferðir heldur um hluti sem skipta fólk raunverulegu máli." Bríet segir í stefnuskránni "Við berjumst gegn stöðluðum kvenímyndum í samfélaginu, sem fjölmiðlar, afþreyingarmenningin og menningin öll viðhalda. Við teljum að þessar ímyndir njörvi konur niður í ákveðin mót, og koma í veg fyrir einstaklingsfrelsi kvenna."

Internetið skiptir ekki máli við kosningarnar núna
Ég held að Internetið hafi ekki skipt neinu máli hvað varðar úrslit þessara kosninga. Það eru að ég held ennþá ekki margir sem tjá þjóðmálaskoðanir á Netinu og ekki margir sem sækjast eftir að lesa slíkt efni. Mest áberandi þjóðmálavefritin hafa verið skrifuð af ungum mönnum og að mér virðist flestum á hægri væng stjórnmálanna. Ég held að vefrit eins Múrinn, Andríki og Deiglan þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að styrkja samkennd þeirra hópa sem að þeim standa og séu næstum eingöngu lesin af jábræðrum. Þau þjóna ábyggilega vel því hlutverki að vera styrkur og stoð fyrir lesendur sína en ég held ekki að þau hafi mikil áhrif utan þess hóps sem er strangtrúaður fyrir.

Þjóðmálaumræða og blogg
Mér finnst það að einstaklingurinn hafi rödd og geti náð milliliðalaust til annarra sem líka hafa rödd vera eitthvað öflugasta lýðræðistæki sem til er. Lýðræði er ekki bara kosningar, lýðræði er umræða og skoðanaflæði. Bloggurum hefur fjölgað mjög á undanförnum mánuðum og ég hef á tilfinningunni að innihald blogga sé núna alvarlegra og sumir skrifa vandaða pistla um þjóðmál eða útleggingar á fréttum dagsins og oft er skemmtilegra að lesa blogg einstaklinga heldur en pólitísku vefritin vegna þess að einstaklingar eru óbundnir af þeirri pólitísku rétttrúnaðarstefnu sem einkennir vefrit með stefnuskrá og flokk að bakhjarli. Margir bloggarar synda þó í grunnu lauginni og bara rugla um bjór og eigin drykkjuskap og hvað allir aðrir séu hallærislegir og taka endalaus einhver próf og gefa stig. Ég held að í sumum tilvikum sé þetta eins konar tíska, svona hiphop whitetrash stemming en í öðrum tilvikum vegna þess að viðkomandi lifir svona lífi og hefur ekki hugmyndaflug til að dreyma um öðruvísi líf. Þrátt fyrir allt ruglið held ég að blogg sé tjáningamáti sem á eftir að hafa áhrif á skoðanamyndun í framtíðinni og þá líka í þjóðmálum - alla vega í þeim málum sem snerta upplýsingasamfélagið.

Einkadansinn dunar
Ég held svo sannarlega að það þurfi að setja kynjagleraugu á sig fyrir kosningar en það er víst betra að hafa þau gleraugu alltaf uppi því það er ekki trúverðugt ef stjórnmálaöfl hafa bara áhuga á mjúku málunum rétt fyrir kosningar og vakna svo upp hardcore daginn eftir kosningar og vilja klámtán Reykjavík áfram. Svona eins og daginn fyrir kosningar 24. maí birtist þar málefnaleg og alvarleg ádeila á andriki.is um biðlista á leikskólum í Reykjavík en strax eftir kosningar eru skríbentar blaðsins búnir að fella blæjuna og vilja núna ólmir einkadans. Þeir segja: "Svo lengi sem dansari og áhorfandi ganga fúsir og frjálsir til leiks þá er það beinlínis skylda stjórnvalda að blanda sér ekki í leikinn."

Nettækni notuð til að niðurlægja konur eða til að hjálpa konum
Auglýsingin um kvennahátíð var ekki alveg í takt við tíðarandann en ef það eru einhverjir sem dragast inn á stjórnmálaskemmtanir út af fötum, skarti og föðrun þá er ekki mitt að hafa vit fyrir því fólki. Mér fannst það miklu verra og minna í takt að bjóða upp á það sem xxxd.is gerði, sá vefur sver reyndar af sér að vera bendlaður við stjórnmálaflokk. Þessi vefur og viðhorf þeirra sem að honum stand sýndi vel að það geta fleiri en Ástþór í frið 2000 verið lágkúrulegir og smekklausir. Vefurinn er núna lokaður en þar var um tíma hægt að velja úr hópi fáklæddra stúlkna einhverja til að senda sér sms-áminningu fyrir kosningarnar. Þetta var auðvitað alveg sjálfvirkt og þessar stúlkumyndir til skrauts en þarna var nettæknin notuð til að niðurlægja konur. Það er nú eitthvað annað en mannvinurinn Bjarni hefur gert með sms-pilluáminningu sinni.

24.5.02

Þrívíddarteikniforrit



Ég er núna að lesa um þrívíddarteikniforritið Maya 4.0 og er að spá í hvort ég eigi að prófa það. Skil ekki alveg út á hvað það gengur, en sé að það er hægt að teikna mynd af Björk og svo búa til svona þrívíddarhreyfimyndir t.d. í leiki.

Kosningar í Akrahreppi og Reykjavík


Ég mun sennilega bara fylgjast með hvernig kosningarnar fara í Akrahreppi og í Reykjavík. Í Arkahreppi eru 20 manns í framboði sem er nálægt því að vera tíu prósent íbúa (íbúar 230 í desember 2001)
Það verða 5 valdir í sveitarstjórn sem þýðir að það eru að bak við hvern í hreppsnefndinni eru 46 íbúar.

Í Reykjavík eru 141 manns í framboði sem er nálægt að vera 0,13% íbúa (íbúar eru 112.276 í desember 2001)
Það eru 15 borgarfulltrúar sem verða valdir í Reykjavík sem þýðir að bak við hvern borgarfulltrúa eru 7485 íbúar.

Ljóð og höggmyndir út á Laugarnestanga


Fór í gærkvöldi í Listasafn Sigurjóns Ólafssonar út á Laugarnestanga. Það var verið að opna sýningu með verkum hans sem tengjast konum og svo var þetta líka ljóðakvöld því að skáldkonurnar Elísabet Jökulsdóttir, Fríða Á. Sigurðardóttir, Guðrún Eva Mínervudóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Vigdís Grímsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þórunn Valdimarsdóttir höfðu hver um sig samið eitt ljóð um hvert verkanna á sýningunni sem þær fluttu.

Einstaklega skemmtileg og vel heppnuð hugmynd að tengja ljóðlist og höggmyndir og sýna hvaða hughrif verk Sigurjóns vekja hjá núlifandi skáldkonum. Ég bjó á bernskuárunum á Laugarnesveg og bý ennþá í Laugarneshverfinu, hús Sigurjóns og verk hans og hann sjálfur að störfum var kær hluti af hverfismyndinni. Núna er safnið komið þar sem vinnustofa Sigurjóns var í útjaðri braggahverfisins, braggarnir allir rifnir og í næstu húsum búa listamenn. Húsið hans Hrafns Gunnlaugssonar er þarna við hliðina en hann búinn að skreyta það og nánasta umhverfi með ýmsu sem til fellur. Mikil hverfisprýði er að svona kynlegum kvistum.

23.5.02

Myndir af fólki



Hugleiðing um heimildarmyndir: Ljósmyndasýningin Mary Ellen Mark: American Odyssey sem núna er á Kjarvalsstöðum var opnuð með viðhöfn sem einn hluti af listahátíð. Þessi sýning er samt sama eðlis og kvikmyndin ennþá ósýnda Í skóm drekans, mér finnst eitthvað siðlaust við bæði verkin og hneykslanlegt - veit ekki hvernig ég á að orða það - jú, það er ekki að myndefnið eða viðfangsefnið sé hneykslanlegt, frekar hitt að sá sem skapar verkin (ljósmyndir eða kvikmyndir) þrengir sinni sýn og viðhorfum í gegn og opinberar líka fyrirlitningu sína á þeim manneskjum sem eru viðfangefnið í verkinu og notar samt svona miðla eins og ljósmynd og kvikmynd sem gefa í skyn að það sé verið að segja sannleikann.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson segir í greininni Siðferði og myndir sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóv. 1993:
"Ef við gerum ráð fyrir því að það sé nauðsynlegt að fá fullt samþykki fólks til þess að taka þátt í gerð ljósmynda eða kvikmynda, þá er það ekki skýrt, í ljósi reynslunnar, hvað fullt samþykkir þýðir og hvort það sé fullnægjandi til að myndasmiðurinn öðlist það vald yfir myndgerðinni, að hann ráði alfarið gerð og notkun hennar. Hér snýst siðferðilega spurningin um það hvort að nokkur geti gefið fullt samþykki á grundvelli skilnings á viðfangsefninu. Kvikmyndagerðarmenn halda því stundum fram að aðeins þeir skilji eðli miðilsins vegna þess að þeir vinna með hann. Getur þá nokkur leikmaður gert sér grein fyrir afleiðingum þátttökunnar? Hvað ef viðfangsefnið er geðveikur maður? Getur hann gert sér grein fyrir því hvað hann er að samþykkja?

Ágætt dæmi um þetta eru ljósmyndatökur Mary Ellen Mark á geðveikrahæli og ekki síst heimildarmynd Bandaríkjamannsins Frederick Wisemans, Titicut Follies, sem hann tók á geðveikrahæli fyrir afbrotamenn. Mynd Wisemans lýsir dapurlegri aðstöðu fanganna. Fangelsisyfirvöld stefndu Wiseman eftir að hafa séð myndina á þeim grundvelli að hann hafi brotið munnlegan samning um að hann skyldi leita eftir samþykki um þátttöku allra þeirra fanga sem birtust í myndinni. Stefnandi vann málið og lagt var bann við sýningu myndarinnar sem hélst þar til fyrir nokkrum árum. Í aðstöðu sem þessari getur myndasmiðurinn borið fyrir sig þau siðferðilegu rök að það sé tilgangur myndarinnar að knýja fram endurbætur. Réttlæting af þessu tagi er mjög útbreidd og þekkist vel úr heimi fréttanna. Það er aftur á móti álitamál hvort að þær skoðanir um menningarlegar, félagslegar eða efnahagslegar umbætur geti réttlætt myndagerð sem oftar en ekki hefur ekki neinar merkjanlegar breytingar í för með sér fyrir þá sem sjást á myndunum. Hið sama verður ekki sagt um þá sem hafa af því atvinnu að taka þær. Ágætt dæmi um þetta er bandaríski ljósmyndarinn Mary Ellen Mark. Hún hefur farið víða um heim og sóst eftir myndum af fólki sem býr við bágbornar aðstæður. Fyrir þessar myndir hefur hún öðlast heimsfrægð, en það fara litlar sögur af því fólki sem hún hún hefur myndað og aðstæðum þess. "

22.5.02

Stafræn leikföng fyrir börn


Í greininni Digital toys to stimulate the mind á BBC í dag segir Mitchel Resnick hjá MIT Media Lab Livelong Kindergarten Group að ein besta leiðin fyrir börn að læra sé gegnum leikföng og verkfæri sem þau geta notað til að hanna, búa til og finna upp á einhverju nýju. Með nýrri tækni geta börn byggt hluti sem hegða sér eins og lifandi, hluti sem hreyfast, framkvæmt eitthvað og bregðast við umhverfinu, hluti sem eru búnir skynjurum. Með því að búa til og nota lítil vélmenni með skynjurum þá geta börnin lært bæði um hinn lífræna og tæknilega heim. Mitchel Resnick bendir sérstaklega á tæknilegóið í þessu sambandi. Hann segir að auk tölvutækninnar þá muni stafræn leikföng í vaxandi mæli nota samskiptatækni, börnin búi ekki bara til eina vél eða vélmenni sem ferðist um heldur heilan hóp af vélverum sem hafi samskipti sín á milli - við munum nota bæði samskiptatækni og tölvutækni.

Áhugavert að pæla í hvernig hægt væri að búa til námsumhverfi í gegnum Internetið sem fæli í sér einhvers konar fjarstýringarverkefni fyrir börn þar sem þau fjarstýra einhverju í gegnum Internetið t.d. reka gróðurhús - fylgjast með ástandi í gegnum myndavélar og skynjara, setja upp sjálfvirka vökvun og áburðargjöf o.s.frv. Framleiðsluferlin verða víst svona í framtíðinni og eru kannski þegar orðnir æði sjálfvirkir svona eins og á íslenskum bóndabæjum. Í nýja mjaltaklefanum á Vöglum er tölva við hvern mjaltabás og það er kálfafóstra sem skammtar hverjum kálfi ákveðna gjöf og það er róbot sem fer yfir gólfið og mokar flórinn. Svona mikið hefur breyst á fimm árum.

Verða merkipennar bannaðir?


Höfundarréttur og aðgerðir höfundarétthafa til að stemma stigu við afritun eru stórmál í heimi þar sem sífellt fleiri gögn verða á stafrænu formi og flæða frá einum miðli til annars. Alltaf eru fundnar upp nýjar aðferðir við að vernda afritun og alltaf eru hakkararnir samir um sig, finna bara upp nýjar aðferðir við að krassa ritvörnina og það síðasta er bara beinlínis að krassa. Krassa með merkipenna á geisladiska, svona eins ogsagt er frá í þessari frétt Copy-proof' CDs cracked with marker pen á CNN.

21.5.02


Skrýtið að ljósmyndir sem ég tók af sveitabæ í Skagafirði séu komnar í þetta Around the World Architecture

Þar sem jökulinn ber við loft


„Þar sem jökulinn ber við loft hættir loftið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu." segir í Heimsljósi og skáldpersónan Ólafur Kárason ljósvíkingur gekk í sögulok inn í jökullinn, inn í sól upprisunnar, gegnum dauðann til að hverfa inn í hið eilífa ljós þar sem fegurðin ein ríkir. Bárður snæfellssás hvarf líka í jökulinn enda af hrímþursakyni, fæddist upp með Dofra í Dofrafjöllum. Hlynur skáldpersóna í 101 Reykjavík reyndi líka að ganga í jökul en það lukkaðist ekki vel.

Síðustu mánuði hef ég gegnum mbl.is getað ferðast í huganum með Haraldi sjötinda sem var svo lengi einn á ísnum. Svo gekk Magnús á Hvannadalshnjúk núna um Hvítasunnuna ásamt vinkonu minni og fleira fólki, það var eitthvað um fjórtán tíma erfið gönguför en þau voru stutt á tindinum, það var svo hvasst. Hann kom heim jöklasólbakaður en hvítur kringum augun út af snjógleraugum.

Skyldi vera gaman að ganga í jökul eða ganga á jökla? Það hlýtur að vera öðruvísi að vera á vettvangi heldur en liggja útaf í sófa og horfa á jökulinn og jöklafara í gegnum þau spegilbrot sem frásagnir annarra kalla fram í huga manns. Eða er betra að dreyma um stað þar sem fegurðin ein ríkir heldur fara á staðinn og þola kannski ekki við út af ofbirtu og næðingi?

17.5.02

Skólanet, lína.net, borgarstjórnarfundur


Ég var með kveikt á útvarpinu í gærkvöldi og lenti inní einhverjum borgarmálaumræðum, held að þetta hafi verið útsending frá borgarstjórnarfundi. Umræðan var um línu.net og svo snerist umræðan líka um netvæðingu grunnskólanna í Reykjavík en þeir munu núna vera í ljósleiðarasambandi (skólanet er það kallað). Ég heyrði að það voru að tala Guðrún Pétursdóttir, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún og Guðlaugur Þór.

Það var gott að það sé inn í pólitísku umræðunni hvernig staðið er að og hvernig eigi að standa að netvæðingu skóla og hvernig menn sjá fyrir sér að skólarnir taki þátt í að móta þekkingarsamfélagið. Ég heyrði samt ekki betur að Guðrún Pétursdóttir væri að tala um að mér skildist offjárfestingu í ljósleiðarakerfi í grunnskólunum og talaði í því sambandi um (man ekki orðrétt) "...gífurlega afkastagetu sem skólarnir munu aldrei nota nema brotabrot af..." og svo að þetta hefði alveg eins mátt leysa með sambandi gegnum símalínur. Ég er svolítið hissa. Vissi ekki að grunnskólarnir hefðu nema 100 mb tengingu? ...það er allt of lítið...

16.5.02

Spilavíti á verndarsvæðum Indjána

Það var í fyrrakvöld danskur fræðsluþáttur í sjónvarpinu um Indjána í Ameríku. Í þættinum var fjallað um hve Indjánar væru að sækja í sig veðrið, legðu áherslu á að sækja rétt sinn með lögum og legðu rækt við menningararf sinn. Þetta er alveg rétt og það er ekki bundið við þá sem rekja ættir sínar til Indjána að hafa áhuga á þessari arfleifð. Bandaríkjamenn eru stoltir af þessum menningararfi og saga Ameríku hófst ekki þegar Cólumbus gekk þar á land, hluti af sögu Bandaríkjanna er t.d.Anasazi fólkið sem bjó í New Mexíkó.

The Anasazi - DesertUSA
Sipapu
Anasazi Site Planning

Það stakk mig samt að í þessum þætti var farið mjög lofsamlegum orðum um það framtak Indjána að byggja spilavíti á verndarsvæðum sínum. Ég var á ferð í suðurríkjum Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum og fór um mörg verndarsvæði. Alls staðar þar sem þau lágu að stórum borgum eða samgönguæðum höfðu verið sett upp spilavíti. Þetta er vegna þess að verndarsvæðin lúta ekki fylkislögum og þarna er glufa til að bjóða upp á þjónustu sem er bönnuð í nærliggjandi fylkjum.

15.5.02

Emerging Technologies


Ég vildi vera núna á ráðstefnunni Emerging Technologies í Californiu en úr því ég get það ekki þá ætla ég bara að kynna mér út á hvað þetta hugtak gengur.

Fann viðtal í infoworld
O'Reilly skoðar hakkara og fylgist með hvað þeir gera og reynir að setja þekkingu þeirra í bækur og miðla þeim á ráðstefnum. Skoða svona "open source" vinnslu.
"The future is here, it's just not evenly distributed yet." hefur O'Reilly eftir William Gibson og á við að við tökum ekki eftir þróuninni fyrr en hún er gengin yfir. Svona eins og þegar við höldum að við séum ennþá á stigi PC einkatölvunnar, sá tími er liðinn núna þegar fleiri og fleiri verða sítengdir.

Svo segir O'Reilly að bloggkerfin séu toppur á ísjakanum varðandi efnisstjórnun (content management space) og líka framþróun á þeim tegundum af samfélögum sem hafa þróast á Netinu. Það þurfi að fylgjast með grasrótinni, ekki bara nýjungum sem koma frá tæknifyrirtækjum.

O'Reilly er fúll yfir fólki og löggjöf sem vill grípa inn í framþróunina og stöðva hana, sem það getur svo sem ekki en svoleiðis inngrip geta samt minnkað aðgang almennings og það bara vegna þess að útgefendur hefur ekki fundið viðunandi viðskiptamódel - hann á hérna við hljómplötuútgefendur.

Það sem er að breytast núna er að við gerum ráð fyrir að allir séu tengdir alltaf. Út á það gengur framþróunin sem við sjáum í Napster, fólkið á MP3.com vildi leysa málið með að setja öll lög á sama stað. Shawn Fanning sem bjó til Napster spáði í hvers vegna hann þyrfti að hafa öll lög þegar vinur hans hefði þau - og bjó til kerfi sem vísaði í lögin sem geymd voru á tölvu vinar síns. Þetta er umskipti frá hinum gamla client/server hugsunarhætti í það að hugsa um allt Netið breiðist út og með því ný notkun - svona eins og skrár geymdar á mörgum tölvum (file sharing), vefþjónustur (web services) svona eins og að geta tengt stafræna myndavél í gemsa og sent myndir með tölvupósti.

Við erum þegar inn í veröld þar sem Netið er samskiptaflöturinn og þetta er gífurleg umskipti, seinustu umskiptin af þessari stærðargráðu voru snemma á níunda áratugnum þegar einkatölvan varð útbreidd - þegar tölvutæknin náði út úr miðlægum glerbúrum. Tilkoma Internetsins markaði vissulega tímamót en það var samt framlenging utan á einkatölvuna, sniðug og töff kerfi sem hægt var með innhringibúnaði að komast í samband. En O'Reilly tekur að núna með Netinu sem samskiptafletinum þá sé meiri háttar tímamót og við eigum eftir að sjá nýjar þjónustur og kerfi sem byggja á því. Fólk finnur líka upp nýja notkunarmöguleika. Svona eins og iPod og Xplay, það er markaðssett sem hver annar tónlistarmiðlari en hakkararnir nota það fyrir öll sín gögn og öll sín forrit (ipod geymir 5 gígabyte) , eins og svona færanlegt aðgangskerfi, þeir þurfa bara að komast í tölvu einhvers staðar og plögga iPod við hana.

Svo eru minnisgeymslur að verða svo ódýrar að við getum verið með þær í lyklakippunum.






Netnám androgogy vs. pedagogy

Hvernig á að skipuleggja fyrirlestur? Jú, ég lærði í kennslufræðinni í gamla daga töfraþuluna við það : tell them what you're going to tell them, tell them, then tell them what you told them". Þetta virkar samt ekki lengur þegar byggja skal upp netnám. Svoleiðis nám verður að vera nemendamiðað og kannski frekar svona: "ask them what they want to know, ask them how and when they would like to learn it, and then ask if you were successful in helping them learn it."

Byggt á greininni E-learning - Is E-learning Floundering? sem birtist í elearningmag.com 1. maí.

Skipulag á netnámi (e-learning) þarf að breytast. Það er allt of mikið brottfall úr þannig námi og oft það skipulegt eins og hefðbundið nám, námsgögn eru bækur sem settar hafa verið óbreyttar á Netið og námskrá og námskipun er úrelt. Nemendur læra með því að prófa sig áfram, með því að kljást við einhver viðfangsefni. Það þarf að hanna netnámskeið þannig að þau taki mið af því hvernig fólk lærir. Netnám í dag byggir gjarnan á hefðbundinni kennslu- og uppeldisfræði (pedagogy), þ.e. er kennaramiðað, hlutlægt og beinskeytt - allt gengur út á að skilja og meðtaka námsefnið. Svoleiðis kennslumiðað netnám er byggt upp þannig að nemandinn byrjar að skoða lista yfir námsmarkmið og kynningu á námskeiði og hvað nemandinn á að geta að námskeiðinu loknu. Nemandinn er svo leiddur í gengum námskeið, gjarnan með skilgreiningum og lýsingum. Eftir hverja námslotu er frammistaða hans oft mæld í hve mikið hann man. Fullorðinsfræðsla (Androgogy) á Netinu þarf að vera nemendamiðuð og leggja áherslu á að nemandinn tileinka sér námsefnið, áherslan er á ferli og verkefni, hvernig námið snýr að nemandanum WIFM (what´s in it for me) og nemandinn stýrir sjálfur námsreynslu sinni. Fullorðnir nemendur hafa oft mótaðan námsstíl, eru ekki byrjendur, koma til námsins hver um sig með sérstaka reynslu og færni, hafa ákveðið markmið og væntingar um námið. Námumhverfið þarf að styðja við nemandann, kennarinn á ekki að vera miðstöð eða útvarpsstöð, heldur þjónustuaðili sem gerir nemendum kleift að stunda nám og nemendur eru hvattir til sjálfsnáms og skipuleggja sjálfir eigið nám. Verkefni nemenda ættu að hafa tengsl við umhverfi nemenda og einstaklingsmunur/sérstakar þarfir og námsstílar að fá notið sín og sú reynsla sem nemendur koma með að nýtast í námsferlinu. Nemendur ættu amk að hluta að bera ábyrgð ásamt kennara á að byggja upp námsferlið.

Nemendur ættu að hafa valfrelsi og geta stýrt sjálfir sínu námi, námið á að vera hagnýtt og byggt á að leysa verkefni og nota fyrri reynslu nemenda og tengja nýjar hugmyndir við fyrri þekkingu, byggja upp nemendur og trú þeirra á eigin getu og byggjast á virðingu fyrir hverjum einstökum nemenda.

14.5.02

Lýsispillur

Er það ekki að fara yfir lækinn að sækja vatnið að fylla blessuð börnin af ritalini og svoleiðis pillum? Hvað ef lýsispillur virka alveg eins vel?

Natófundur í Reykjavík


Merkisdagur í dag og flaggað um allan bæ. Forsetinn á afmæli og svo er ekki á hverjum degi sem utanríkisráðherrar fjölmargra ríkja þinga í Reykjavík og Nató og Rússland strengja vinarbönd. Svo verður víst rætt um stækkun Nató en ríkin sem banka á dyrnar eru Eistland, Lettland og Lithauen, Slóvakia, Slóvenia, Búlgaría, Rúmenía, Makedónia og Albanía. Kalda stríðinu er lokið og Nató þarf að endurskilgreina hlutverk sitt en í fréttaskýringu BBC segir: It always used to be said that Nato was created to keep "the Russians out, the Americans in and the Germans down". , það er góður leiðarvísir hjá BBC um Nató og einstök Nató ríki.

Ég las á mbl.is að fólki í Vesturbænum gat ekki sofið fyrir látum í kafbátaflugvélum í nótt.

13.5.02

Gáfur og gáfnapróf


Bretar voru á laugardaginn að mæla í sér gáfurnar, BBC var með Test the Nation, þar geta líka allir þó þeir séu ekki hluti af gamla heimsveldinu og ekki af engilsaxnesku bergi brotnir tekið gáfnaprófið á Netinu. Ég gerði það og kom ekki allt of vel út... (hmmm)... það var sem mig grunaði að það væri ekkert að marka þessi gáfnapróf:)

Besta að halda sig við fjölgreindarkenningu Howard Gardners.

Pim Fortuyn - Hvernig maður var hann?


Hollenski stjórnmálamaðurinn Pim Fortuyn var skotinn til bana þann 6. maí síðastliðinn. Morgunblaðið sagði: "Fortuyn er á jaðri stjórnmálanna til hægri og hefur haft uppi áróður gegn innflytjendum." Heimspressan kallaði Pim Fortuyen "Hard Right winger", "The Dutch LePen", "anti-muslim", "Racist". Adam Curry segir annað í blogginu The Big Lie.

12.5.02

Íslensk nútímalist, amerískar ljósmyndir og útskriftarsýning í LHÍ


Fór á þrjár listasýningar seinni partinn í dag. Fyrst í Hafnarhúsið á íslenska nútímalist sem var svona samsýning, svo á Kjarvalsstaði á ljósmyndasýninguna American Odyssey og svo á útskriftarsýningu LHÍ.



Ljósmyndir Mary Ellen Mark eru áhrifamiklar en sumar myndir stuða mig eins og þessi sem er tekin á geðdeild (hvernig fékk hún leyfi til að taka og birta svona myndir?) og þessi uppstillta mynd af barni í fíkniefnaneyslu (það stuðar mig hvað hún er uppstillt og gegnsósa af steríotýpum og fordómum). Mary Ellen hefur tekið flottar myndir af því sem Ameríkanar kalla "celebrities" svona eins og sögupersónan Fraser.

"Synirnir fikta við samrásir í bílskúrum feðranna."



Ég er að taka til, réttara sagt að fara í gegnum dót og henda. Reyni að henda öllu úr pappír sem ég mögulega get, var áðan að henda fullt af gömlum eintökum af Veru, blaði kvennaframboðsins. Blaðaði samt í gegnum öll tímaritin áður fann þá grein eftir sjálfa mig í 2. tölublaði frá 1984. Ég hef svolítið gaman af þessari grein vegna þess að þetta var fyrsta greinin í tímarit sem ég skrifaði og þetta fjallar um upplýsingasamfélagið og framtíðina eins og ég sá hana fyrir mér fyrir 18 árum. Hefur eitthvað breyst? Gæti þessi grein verið skrifuð í dag? Þetta var áratug áður en vefurinn kom til Íslands og engin sá fyrir Internetþróunina. Á þessum tíma var mikil umræða um að tölvuvæðing myndi valda atvinnuleysi og margar konur höfðu hug á framtíðarstörfum sem tölvuritarar. Svona er greinin:





"Synirnir fikta við samrásir í bílskúrum feðranna"
grein sem birtist í Veru 1984

Yfirskrift þessa pistils er fengin að láni úr grein um tölvumál sem birtist í Dagblaðinu nýlega. Fyrirsögn þeirrar greinar var "Æskan og öldungaveldið" og birti höfundur þar á einkar grunnfærinn hátt þá hugmynd að engir nema ungir menn kunni tökin á tækninni. Nám og verkkunnátta hinna eldri ásamt reynslu samsafnaðri á langri starfsævi er að engu metin. Á konur er hvergi minnst en auðséð að þeim er ekki ætlaður stór hlutur í tækniþróun.

Umrædd grein ýtir undir þann beyg sem almenningur hefur af yfirvofandi þróun. Verða störf lögð niður af því þau eru úrelt og ný tækni getur leyst verkefnin á fljótari og ódýrari hátt? Verða ný störf einhæfari og leiðinlegri og vinnuumhverfi ömurlegra en áður? Hvernig tapa og hverjir græða á aukinni sjálfvirkni og vélvæðingu?

Almenn fækkun starfa er ekki ennþá orðin áberandi. Störfum hefur að vísu fækkað í einstökum starfsgreinum en sjaldnast komið til beinna uppsagna heldur hefur nýráðningum fækkað. Svo virðist að í starfsgreinum þar sem konur eru fjölmennari svo sem á skrifstofum fækki störfum meira en annars staðar. Þetta hefur vakið konur til umhugsunar um hvort hin nýja tækni rýrir kjör og mátt kvenna á vinnumarkaði. Eðlilegt er þá að spyrja hvaða störf það eru ser líklegt er að hverfi og hvers vegna?

Í þessu sambandi getum við flokkað störf í þrennt. Í fyrsta lagi störf sem miða að því að undirbúa, skipuleggja og hrinda í framkvæmd nýrri framleiðslu, en þetta eru störf sem starfsstéttir eins og t.d. stjórnendur fyriritækja og kerfisfræðingar vinna nú. Í öðru lagi eru það störf við sjálfa framleiðsluna svo sem vinna við færiband eða innskrift á tölvuskerm. Í þriðja lagi eru það viðhaldsstörf en sem dæmi um slíkt má nefna viðgerðir á vélum og tækjum og breytingar á forritum.

Þegar skyggnst er inn í framtíðina með hliðsjón af þessari flokkun getum við ályktað sem svo: Núna er þegar fyrir hendi tæknikunnátta til að vélvæða nánast alla framleiðslu og aðeins spurning hvenær sú tækni verður svo aðgengileg og ódýr að þeir sem framleiðslunni ráða taki hana í þjónustu sína. Þetta merkir að störf við sjálfa framleiðsluna leggjast smám saman af. En hversu mikil sem sjálfvirknin verður hljóta alltaf einhverjir að vinna við að brydda upp á nýrri framleiðslu, hanna ný sjálfstýrikerfi. Mikið fjármagn er bundið í hinni alsjálfvirku framleiðslu og því mikilvægt að framleiðslan gangi sem greiðast og allir hnökrar séu uppgötvaðir og lagfærðir strax. Það merkir að alltaf verða einhverfir að vinna við viðhald og eftirlit. Því virðist líklegt að störf við hönnun, viðgerðir og eftirlit heldi velli og að auki verða þessi störf flóknari og krefjast meiri sérfræðikunnáttu. Þær starfsstéttir sem þessi störf vinna mega því búast við að þokast ofar og öðlast meiri mátt á vinnumarkaði.

Eins og áður sagði eru það störf við sjálfa framleiðsluna sem líklegast er að hverfi með aukinni sjálfvirkni. Þannig munu vélmenni taka við af starfsmanninum við færibandið og inntaksaðferðir sem byggja á t.d. ljóstækni gera tölvuritarann þarflausan svo eitthvað sé nefnt. Einmitt í þessum störfum, sem ljóst er að muni brátt heyra sögunni til, eru konur fjölmennastar. Hvað er það sem veldur því að sótr hluti kvenna hefur hafða í þessari sjálfsheldu og að fjöldi ungra stúlkna velur nám og starfsþjálfum sem miða að slíkum störfum? ER það ef til vill vegna þess að konur setja menningu og lífsfyllingu ofar hagkvæmnissjónarmiðum við starfsval? Það getur tæpast átt við þar sem flest þessara starfa eru tilbreytingarlaus og hugletjandi. Önnur skýring og nærtækari er að uppeldi og félagsumhverfi kvenna sé þess elis að þær sneiði hjá störfum sem líklegt er að muni halda velli svo sem viðgerðir. Sem dæmi um slíkt má nefna skrúfjárnsforboðið. Í mörgum samfélögum þykir ekki viðeigandi að konur beiti skrúfjárni en naupsynleg forsenda þess að geta gert við vél er að skrúfa hana fyrst í sundur. Þar sem slík forboð gilda (skráð og óskráð) eru konur jafnframt sviptar möguleika á innsýn í heim tækninnar.

Hvernig eiga konur að bregðast við komandi tæknibreytingum? Það er harla ólíklegt að barátta um viðhald dauðadæmdra starfa skili árangri. Sú barátta getur aðeins orðið samkeppni ódýrs vinnuafls og véla. Það vinnuafl sem eftir stendur er þar einugis vegna þess að það er svo ódýr framleiðsluþáttur að ekki er aðrvænlegt að vélvæða framleiðsluna. Vænlegri leið er að tileinka sér þessa nýju tækni, gerast þátttakandi í heimi sem í augnablikinu virðist lokur öðrum en karlmönnum undir miðjum aldri samanber upphaf þessa pistils. Til þess að það sé hægt verða konur að brjóta ýmis félagsleg forboð og kjást við fordóma og þá ekki síst sína eigin fordóma um að þessi nýja tækni sé leiðinleg og þeim óviðkomandi.

Salvör Gissurardóttir skrifaði þessa grein árið 1984.



11.5.02

Barn fætt á Víðivöllum


Þorkell bóndi á Víðivöllum í Skagafirði var að hringja og sagði gleðitíðindi. Linda átti stelpu sem dafnar vel. Núna eru fjögur börn undir skólaaldri á Víðivöllum, ég var í skírn þar á Pálmasunnudag

10.5.02

GONZO - Fjölmiðlun og örmiðlun



Í grein í Guardian í gær Rebel without a pause er fjallað um muninn á fjölmiðlum og Interneti. Internetið er ekki fjölmiðill, það er meira svona örmiðill, það er ekki lengur þannig að þeir stóru með völdin og peningana útvarpi til fjöldans. Það þýðir ekkert að nota það módel sem sjónvarpið og kvikmyndaiðnaðurinn byggir á og halda að svona muni þetta vera áfram, bara færast yfir í stafrænt sjónvarp með breiðbandsvæðingunni. Það varða ekki bara milljónamyndir úr draumaverksmiðjum Hollywood sem flæða um Netið, það verður líka urmull af stuttmyndum (atomfilms) sem ekki þarf mikið fjármagn í að gera.

Chris Locke skrifaði bók Gonzo Marketing sem kom út seinasta haust en hann er einn af höfundum Cluetrain Manifesto. Ekki góður tímapunktur sem bókin kom út á, Internetmarkaðurinn hrundi og niðursveifla varð í fjármálaheiminum í kjölfar af 11. september. Þessi þrengingatími í netgeiranum ætti samt einnig að vera tími til að horfa fram á við, spá í hvernig viðskiptamódel dagsins í dag virka í heimi morgundagsins. Og þau virka barasta ekki ef marka má orð Chris Locke.

Þetta orð gonzo kemur frá blaðamanninum Hunter Thompson en hann er þekktur fyrir gonzo journalism sem þýðir að blaðamaðurinn er sjálfur beinn þátttakandi í þeim atburðum sem hann skrifar, þetta er andstæða við þann ritstíl í fjölmiðlum þar sem horft er á atburði hlutlaust og úr fjarlægð. "Gonzo marketing" gengur þá út á að vera í beinum tengslum við þá sem þú vilt selja eitthvað, að tala beint við neytandann.

Reading Gonzo

Netið breytti markaðsaðstæðum. Fólk á auðveldara með tengsl og fólk skiptist á upplýsingum um það sem því finnst skipta máli - fólk segir sögur.

Sögur sem fólk segir á Netinu hafa ekki markmið eða markhóp, þær kanna og þær fara umhverfis það efni sem er viðfang sögunar. Í samfélagi mannanna hefur fólk alltaf laðast að sagnaþulum sem bæði segja frá því sem það hefur áhuga á og sem hafa sérstakan hæfileika til að tjá sig, hafa rödd sem fær fólk til að staðnæmast og hlusta.

Það eru svo litlar hindranir á því að tjá sig á vefnum að það gilda ekki sömu lögmál og í sambandi við fjölmiðla. Fjöldi áheyrenda skiptir ekki eins miklu máli og við getum talað um örmiðlun - miðlun fyrir örfáa áheyrendur miðað við stóru fjölmiðlana sem tala við alla landsmenn til sjávar og sveita. Svoleiðis netmiðlun notar verkfæri eins og póstlista, vefumræður, vefleiðara og vefsíður.

Chric Locke spáir að svona örmiðlun muni í framtíðinni koma í staðinn fyrir auglýsingar. Þær verði besta uppspretta frétta um vörur og þjónustu. Netmarkaðir eru örmarkaðir þar sem einstaklingar safnast saman í kringum sameiginleg áhugamál. Þannig netsamfélög eru að spretta upp úr grasrótinni og þeim er ekki hægt að lýsa á þann hátt sem fyrirtæki eru vön að lýsa nýjum viðskiptatækifærum.

9.5.02

Samvinnufélög "Communities of Practice" eða CoPs



Vinnan og vinnuumhverfið er að breytast. Störfin eru að hverfa eða öllu heldur að breytast í verkefni sem við vinnum að skamma hríð og þegar þeim er lokið byrjum við á nýjum verkefnum. Það eru myndaðir vinnuhópar um ákveðin verkefni. Það er vel sýnilegt að vinnuhópar sem búa til einhverja áþreifanlega afurð skapa verðmæti en við sjáum ekki að dulinn kostnaður getur falist í vinnuumhverfi sem eingöngu byggist á svona skammtímaverkefnum og þeirri skammsýni sem þau geta leitt til. Í gegnum vinnu sína tilheyrir fólk vinnuhóp sem vinnur að verkefnum en í þekkingarsamfélagi þarf það jafnframt að tilheyra langlífara samfélagi til að viðhalda færni og sérfræðiþekkingu sinni.

Þannig samfélög eru "Communities of Practice" eða CoPs en ég hef ekkert gott íslenskt orð á hraðbergi sem nær þessu hugtaki. Þetta eru svona sjálfsprottnir og sjálfstýrð félög sem þar sem aðalatriðið er hvað fólk gerir þar, ekki hvernig skipulagið er eða yfirlýstur tilgangur. Við erum flest þátttakendur í mörgum svoleiðis samfélögum. Fólk lærir og fær nýja færni í CoPs og er bundið óformlega af því sem það gerir saman . Flest CoPs hafa ekkert nafn og engin félagsskírteini en samt höfum við nokkuð skýra mynd af hver tilheyrir félagsskapnum og hver ekki og hvers vegna. Við getum einnig greint á milli hvaða CoPs við erum í hringiðunni eða kjarnanum og hvaða CoP við tilheyrum þar sem við rétt lufsumst svona á jaðrinum. Bloggarasamfélög er ein tegund af "Communities of Practice" og mjög áhugaverð sem slík. Líka hakkarasamfélög og svona Open Source samvinna.

Það er nýlega komin út bók um hvernig eigi að rækta og hlú að svona CoPs. Þar eru settar fram sjö meginreglur fyrir CoPs sem en þær eru :
1. Gera ráð fyrir þróun og breytingum
2. Opin orðræða
3. Mismunandi þátttökustig
4. Bæði almenningssvæði og lokuð svæði
5. Áhersla á gildi
6. Tengja saman það þekkta og það framandi
7. Búa til rythma

Ég las ágæta grein Communities of Practice - Learning as a social system og þars sem kom fram að CoPs má skoða út frá:
* um hvað er það? - hvernig er það sem starfað er sameiginlega að skilið og stöðugt endurskilgreint af félögum
* hvernig virkar það? -hvað gera þátttakendur sem bindur þá saman í samfélag
* hvað hefur það búið til? sameiginlegt safn (verklagsreglur, viðhorf, smíðisgripi, orðalista og orðbragð, tísku o.s.frv) sem allir geta notað og hefur þróast með tímanum.

CoPs félagsskapur er frábrugðin formlegum vinnuhóp því þátttakendur þróa sjálfir eigin sýn á hvers vegna þeir taka þátt og hvað þeir gera. Það er ekki eitthvað sameiginlegt viðfangsefni sem mótar félagskapinn, heldur snýst hann um að búa til,miðla, endurskrifa og skipuleggja þekkingu. CoP er ekki tengslanet því tengslin eru ekki markmið í sjálfu sér.

CoPs hafa stórt hlutverk í að búa til, dreifa og safna þekkingu í þekkingu innan stofnunar eða fyrirtækis:
* CoPs eru hnútpunktar fyrir skipti og túlkun á uppplýsingum. Þar sem þátttakendur hafa sameiginlegan skilning þá vita þeir hverju er mikilvægt að miðla og hvernig best er að setja fram upplýsingar. Þess vegna eru CoPs ágæt rás til að flytja upplýsingar t.d. um góðar fyrirmyndir, gefa ráð og kalla eftir viðbrögðum.
*CoPs geyma líka þekkingu á "lífrænan hátt" þ.e. ekki eins og gagnasöfn eða handbækur. Þó að verkferli séu kerfisbundin og notaðar þekktar og algengar lausnir þá eru þær staðfærðar og aðlagaðar eins og henta þykir. Þannig geta CoP geymt ósýnilega eða dulda þekkingu. CoPs er þess vegna afar gagnleg fyrir nýliða.
* CoPs geta samhæft færni þátttakenda og þannig haldið hópnum í fremstu röð. Ef svona félagsskapur einsetur sér að vera brautryðjendur á einhverju sviði þá dreifa þátttakendur með sér ábyrgðinni á að fylgjast með og þróa eitthvað nýtt. Þátttakendur ræða nýjungar, vinna sameiginlega að vandamálum og fylgjast með þróun.
* CoPs byggja upp sjálfmynd og hvernig þátttakendur skynja hlutverk sitt - hvað skiptir okkur máli, í hverju tökum við þátt, hvað forðumst við.

Það er bæði miðja og jaðar á þekkingu sem er byggð upp í CoPs og ef það á ekki að vera stöðnun þarf flæðið að vera gott þar á milli. Miðjan er kjarni þeirrar sérfræðiþekkingar sem hefur hlaðist upp en á jaðrinum blása ferskir vindar nýrra hugmynda og innsæis.

CoP eru sjálfsprottinn og sjálfstýrður félagsskapur. Þó slíkur félagskapur spretti upp og dafni þá er hann háður innri stjórnun. Ef félagsskapurinn á að vera staður til að miðla og búa til þekkingu þá þurfa viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði að taka þátt á einhvern hátt. Þátttakan eða innri stjórnun getur verið á ýmsa lund: hugmyndasmíði, skipulagning á hvað er gert, að safna, flokka og skipuleggja þekkingu, efla félagsandann, sjá um tengja samfélagið við önnur samfélög, sjá um tengingu við formleg stjórnkerfi, fylgjast með nýjungum. Til að hafa áhrif í CoPs þarf að vinna með þeim innan frá - ekki reyna að hanna eða stýra þeim utan frá.
Knowledge Garden

6.5.02

Internetlögregla í Kína


Ekki skemmtileg þessi frétt á BBC í dag : Shanghai cybercafes shut down
"The move is reported to coincide with the launch by the central government of a drive against "harmful" content on the web, to prevent young people from being corrupted". Internetkaffihús í Peking mega ekki starfa nema hafa uppsett kerfi sem síar efni og njósnar um notendur og hindrar aðgang að "óæskilegum" vefsíðum. Í fyrra var 17.000 Internetkaffihúsum lokað af því þar hafði ekki verið settur upp þessi búnaður.

Þetta segir sína sögu um stjórnarfarið í Kína.

Vísdómsorð bloggara


The web isn't a refuge from the stupids. It's all of us now, stupids included.(nubbin

"If it's not phallic, try looking at it sideways."..las þetta á útlenskri bloggsíðu um hönnun. Eða var hún um arkitektúr? Alla vega smart setning. Veit ekki hvers vegna mér datt þetta í hug þegar ég skoðaði flotta nýja hönnun eins listrænasta íslenska bloggarans.

"Deyr fé, deyja frændur...bla, bla. bla....en orðstír deyr aldrei, hvern sér góðan getur..." sá sem þetta mælti fram forðum daga var ekki bloggari annars hefði hann haft vit á að bæta inn í þetta einhverju um tengingarnar og tilveruna á Netinu. Nú er Arnar búinn að þurrka út öll ummerki um sínar merkilegu hugleiðingar og mismerkilega rugl. Skiljanlegt samt - ekki vill hann breytast í grafreit á Netinu. Vona að einhvern tíma seinna taki hann aftur upp þráðinn svo við dyggir lesendur hans megum áfram njóta snilldarinnar - eða bara taka eftir breytingunni og þroska persónunnar. Mér finnst blogg eða einhvers konar skrásetning á viðburðum í eigin lífi og hvernig þeir koma manni fyrir sjónir vera mikið til kerfi til að fylgjast með framvindu sjálfsins gegnum lífið eða einhver tímabil þess og ég held það hljóti eitthvað að vera að og það vera merki um stöðnun ef blogg er eins og fyrirsjáanlegt í langt tímabil eða árum saman.

Ólöf Sölvadóttir



"The Little Esquimaux Lady" Miss Olof Krarer þegar hún 34 ára. Þessi Olof var ansi merkileg kona og flutti 2500 erindi á þrjátíu ára tímabili víða í Ameríku um heimskautalöndin t.d. var svona fréttatilkynning í Antioch News í Millburn 5 desember 1901: "Miss Olof Kramer native esquimaux lady will give her celebrated lecture on Greenland and life in the frozen north, at the church Tuesday evening Dec. 31. Afterwards a watch meeting seeing the old year out and the new one in. December 26, 1901". Ævisaga hennar var færð í letur af Albert S. Post og heitir Olof Krarer, the Esquimaux lady: a story of her native home. Sú bók var 39 blaðsíður og kom út í Ottawa 1887 og fjallaði um lífið á rit um æskuslóðir sínar. Þar segir hún m.a.:"Our house was built of snow. It was round, perhaps sixteen feet acroos, and coming to a point at the top. It was lined with fur on all sides, and was carpeted with a double thickness of fur. They way they lined the house was to take a skin of some animal, and hold it near a fire, which was in the centre of the room. When the skin was heated through, they took it and pressed it against the wall. In a short time, it stuck to the wall so tightly that it could not be pulled off without tearing the skin."

Íslenskur mannfræðingur Inga Dóra Björnsdóttir hefur rannsakað ævi, störf og lygasögur íslenska dvergsins í eskimóagervinu.

Svindl á prófum, ritstuldur í ritsmíðum



Það er jákvætt að nemendur í lagadeild HÍ geri vandaðar glósur fyrir prófin en mikið er átakanlegt aðstöðuleysið í háskólanum á Melunum að geta ekki boðið nemendum upp á betri aðstöðu til að rýna í glósurnar sínar en kvennaklósettið! Svo voru glósurnar gerðar upptækar af klósettinu og mbl.is segir um málið"Lagadeild hyggst í samráði við kennara í réttarfari og prófstjóra senda bréf til þeirra nemenda, sem eru skráðir í prófið, þar sem skorað er á þann sem á glósurnar, eða kom þeim fyrir, að gefa sig fram. Að öðrum kosti liggi allir nemendur, sem eru skráðir í prófið, undir grun". Grun um hvað? Að hafa farið á kvennaklósettið í prófinu eða hafa ætlað að fara á kvennaklósettið? Fyrir að hafa útbúið þessar glósur eða fyrir að hafa ætlað sér að nota þessar glósur?

Lagadeildin var einnig í kastljósi frétta síðasta haust. Það var út af því að í ljós kom að 45% af lokaritgerð nýbakaðs lögfræðings var tekin orðrétt eða nær orðrétt úr ritsmíð annars manns án þess að heimilda væri getið. Lögfræðingurinn var sviptur titlinum og varð að skila nýrri ritgerð en hann segir þetta um málið.

Ég velti fyrir mér hvernig uppbygging laganámsins er núna. Þegar ég var í háskólanum forðum daga þá voru lagadeild og guðfræðideild langforneskjulegustu deildirnar og það var ekki merkjanlegur neinn breytingavilji í lagadeild. Laganámið var þar þá (og er kannski ennþá?) fólgið í því að nemendur lásu og lásu og lásu og svo fóru þeir einstaka sinnum í próf og þá var undir námsefni eins eða fleiri ára. Tölvutæknin og Netið hafa skilað okkur miklu betra aðgengi að upplýsingum um lög og allir geta flett upp í lagasöfnum, fylgst með nýjum lögum og fylgst með úrskurðum Hæstaréttar. Fljótlegast og aðgengilegast er að fletta upp í stafrænum lagasögnum og bækurnar rykfalla.

Ætti ekki námsumhverfi fyrir lögfræðinema í dag að endurspegla þessar breytingar á starfi lögfræðinga? Ætti ekki að hvetja til aðgangs að öllum tiltækum heimildum og helst að prófa í umhverfi þar sem öll gögn eru leyfileg - prófa í hvernig og hversu fljótt nemandinn getur unnið úr gögnum og hversu vönduð sú úrvinnsla er? Ætti ekki námsumhverfið að hvetja til samvinnu og þess að menn nýti sér vinnu og rannsóknir annarra á heiðarlegan og viðurkenndan hátt?

Don Norman er alþekktur hönnunargúru en ég rakst á ritsmíð eftir hann á Netinu þar sem hann tekur upp hanskann fyrir prófsvindlarana og bendir á hvernig skólanám og sú færni sem þar er reynt að efla er gjörsamlega á skjön við þá færni sem lífið eftir skólann byggir á. Hann bendir á að skólinn upphefji einstaklingsvinnu og verðlauni einstaklinga með hliðsjón hver af öðrum þ.e. í samkeppni hver við annan en vinnuumhverfið þegar skóla sleppir reyndir mest á samvinnufærni og að vinna með öðrum að verkefnum. Skólinn refsi einnig fyrir að afrita en það sé einmitt það sem skiptir máli á vinnumarkaðnum - að mega nota vinnu annarra og byggja á henni. Alla vega er þetta góð pæling frá manni sem er frumkvöðull og áhrifavaldur varðandi notendamiðaða hönnun og greinin er hér: In Defence of Cheating frá ágúst 2001.

3.5.02

Þráðlaust samband


Stórt skref stigið á upplýsingahraðbrautinni miklu - Nú er ég komin með þráðlaust Internet. Var að fá svoleiðis kort í fartölvuna sem virkar bara í KHÍ við Stakkahlíð og 100 metra radíus frá húsum þar en frábært samt. Núna sit ég hér fyrir framan gagnasmiðjuna og prófa. Ég gæti farið á bókasafnið og verið eitthvað að vinna þar og notað blogger sem glósubók. Reyndar held ég að bloggkerfi geti verið góð glósutækni eða hugkortasmíð fyrir nemendur. Jæja, nú sendi ég fyrsta þráðlausa bloggið......

Vefsmíðaverkfæri í skólanámi


Nú er komin ný útgáfa af þeim forritum sem ég hef mest notað við vefsmíðar. Þessi útgáfa heitir Macromedia Studio MX og er reyndar ekki komin opinberlega á markað ennþá, það má hlaða þessu niður frá Macromedia.com (er samtals 200 mb) og þessi forútgáfa virkar þangað til 30 júní næstkomandi. Ég sé á vefnum að verð á þessum pakka til kennara og nemenda í USA er afar lágt, aðeins $199 eða um 20 þús. íslenskar en inn í pakkanum eru fimm stór forrit en það er vefsmíðaverkfærið Dreamweaver, vefmyndaverkfærið Fireworks, verkfærið ColdFusion sem er m.a. fyrir gagnagrunnstengingar, verkfærið Freehand fyrir grafíska hönnun og síðast en ekki síst verkfærið Flash til að búa til margmiðlunarefni fyrir vefinn. Ég hef nokkuð lengi notað Dreamweaver og Fireworks og kann vel við þau forrit. Nýjar útgáfur af Frontpage hafa sumt fram yfir og sennilega hentar sá pakki betur byrjendum t.d. á kjörsviði í upplýsingatækni við KHÍ en núna hefur verið samið um að nemendur í KHÍ geta keypt Frontpage afar ódýrt. Mér finnst nauðsynlegt að nemendur í vefsmíðanámi hafa verkfærin uppsett á sínum fartölvum/einkatölvum og það er fyrst núna sem hillir undir að það sé mögulegt. Áður var bæði tölvubúnaður og hugbúnaður svo dýr að það var bara mögulegt að hafa þetta í skólanum. Nemendur hafa þó verið í minni vandræðum en ætla má varðandi aðföng af dýrum forritum.

2.5.02

Vafrar


Það getur verið að 90% netnotenda noti núna Internet Explorer en það er samt engin trygging fyrir að svo verði um aldur og ævi. Margir eru hrifnir af Netscape og Opera og svo eru miklar væntingar bundnar við Mozilla. Þessi kerfi verða öll að vera betri en IE til að hafa einhverja möguleika - oftast er það svo að það algengasta er það besta. Ég veit svo sem ekki hvort að þessi skemmtilegi vafri RIOT hefur eitthvað fram yfir IE en hann er alla vega frumlegri.

Fyrsti maí 2002


Fór að vanda í 1. maí gönguna og tók myndir sem ég setti á sérstaka vefsíðu.Vísindavefurinn segir þetta um 1. maí







1.5.02

pomo, camp, kitch


Lærði nokkur ný orð, þarf að æfa þau. Póstmódernismi er pómó (PoMo ) en ég ekki með á hreinu muninn á camp og kitch. Kitch er smekkleysa en er camp það ekki líka? Reyndi að lesa mér til á vefnum: camp og Notes on Camp og Sour Notes on Camp. Camp er list sem vill láta taka sig alvarlega en er ekki hægt að taka alvarlega vegna þess að það er of mikið. Það var Susan Sontag sem notaði fyrst Camp hugtakið 1964. Vinsældir verka eins og Rocky Horror hafa verið skýrðar með þessu hugtaki - Camp er heimsmynd byggð á stíl - gegnum verk, ýkjur og tákn um veröld sem var. Camp er ofgnótt - svona eins og kona sem íklæðist fjaðraskrauti úr milljón fjöðrum. Camp er líka það sem við hæðumst að eða það sem hefur verið aflagt.
Mary Yaeger saumar út og þessi mynd finnst mér flott eftir Ron English.