31.7.02

Að yrkja á grísku


Nú er ég byrjuð að yrkja ljóð á grísku og öðrum tungumálum sem ég skil ekkert í. Það aftrar mér samt ekkert, enda veit ég ekki hvað hógværð er í sambandi við ljóðagerð. Þetta var bara einfalt, ég skrifaði inn ljóðið á ensku í innsláttarglugga í WorldLingo og valdi svo á hvaða máli ég vildi fá það og smellti á Machine-Translate. Ég hefði samið það á rússnesku ef það tungumál hefði verið í boði því rússneskan er svo ljóðrænt tungumál. Það er bara í boði að þýða úr rússnesku. Þetta er kannski eitthvað gloppótt þýðing, ég sé að laufblöð (leaves) er þýtt eins og það væri sögnin að fara.

Ljóðið mitt er svona á grísku:


Μια ασφαλής θέση

Περιμένω τα κίτρινα φύλλα.
Περιμένω τις σκληρές θύελλες.
Περιμένω την κρύα βροχή.
Περιμένω το χιόνι.

Όταν το χιόνι έρχεται.
Θα με καλύψει.
Θα ταξιδεψετε σε έναν μαύρο και άσπρο κόσμο.
Θα κρυφτώ κάτω από το χιόνι.


Ég snaraði því líka yfir á spænsku og þá er það svona:

Un lugar seguro

Espero el amarillo me voy.
Espero las tormentas ásperas.
Espero la lluvia fría.
Espero la nieve.

Cuando viene la nieve.
Me cubrirá.
Usted viajará en un mundo negro y blanco
que me ocultarán debajo de la nieve.

Bloggfídusar - Tenglasöfn og skinn


Kannski ég ætti að tengja við bloggið mitt svona Add-a-link kerfi eins og er t.d. á þessari síðu hjá kdlog.com. Er búin að hlaða þessu niður, virkar auðvelt en ég er kann ekkert að nota php svo ég þarf að pæla aðeins í þessu. Virkar þannig að allir geta bætt við krækju í sína vefi og krækjusafnið geymist hjá viðkomandi, ólíkt og hjá blogrolling.com þar sem tenglasöfnin eru geymd á vefþjóni þeirra og þar er mikið álag og bloggrúllurnar lengi að hlaðast inn. Sniðugt líka að geta skipt svona um skinn.

29.7.02

Er blogg heimskuleg síbylja?Mikael Torfason rithöfundur er ekkert hrifinn af blogginu og skrifar pistilinn Blogg.is er heilagur sannleikur þar sem hann segir: "Og nýjasta tilraun fólks til að gera sjálft sig og líf sitt raunverulegt er þetta blogg sem kollríður öllu núna. Í dag er tilgangslaust að eiga pennavin og skrifa honum því það er ekki marktækt nema það verði hluti af þeirri heimskulegu síbylju sem rafrænar dagbækur eru." Skemmtileg ádrepa frá einum sem hefur atvinnu sína af því að skrökva og spinna upp sögur. Les út úr pistli Mikaels að honum finnist blogg vera heimskuleg síbylja af því þar sé fólk að ímynda sér að það sé raunveruleikinn og hann vitnar í lærðar kenningar um ofurraunveruleika í fjölmiðlum og kvartar yfir vinum sínum sem sem taka meira mark á viðtali við fjölmiðlum en samtali við hann sjálfan. Mikael sparar ekki stóryrðin, hann kallar bloggið "þessa helvítis krepputísku sem hefur breytt besta vini mínum í fávita". En Mikahel er einlægur og segist vera: " öfundsjúkur út þetta fokkings blogg af því að ég lifi svo fjandi einföldu lífi að ég hef ekki frá neinu að segja".

Þetta er skemmtileg og hressileg grein, líka fyrstu skrifin sem ég man eftir frá rithöfundi um þennan nýja tjáningarmáta. Held reyndar að Hallgrímur Helgason hafi eitthvað tjáð sig um vefdagbókaskrif í útvarpi og lýst eins miklu frati á það og Hallgrímur. Ekki nema von, tjáningarform eins og bloggið grefur undan veldi rithöfunda og annarra sem haldið hafa hingað til utan um veldissprota orðræðunnar, ég get eiginlega ekki séð mikinn eðlismun á bloggi og sagnagerð rithöfunda. Blogg er eins konar saga sem spinnst áfram og kannski endar aldrei eða ekki er hægt að sjá fyrir endirinn. Svo hefur bloggið fleiri vinkla og getur farið í fleiri útúrdúra með tengingum í hugsanir annarra og er ekki svo línulegt eins og bók. Ég get bara alls ekki séð að bloggið sé verra listsköpunarform en bókagerð og mikið vildi ég óska að rithöfundar eins og Mikael gerðu tilraunir með skrif í þessum miðli. Það þýðir bara ekki að spá í að selja skrifin í þeim miðli, enginn heilvita borgar fyrir að lesa blogg og ekkert nothæft markaðsmódel hefur litið dagsins ljós fyrir gögn á Netinu.

Talandi um ritstörf erum við sem bloggum ekki öll rithöfundar, kannski maður ætti að sækja um listamannalaun næst?

Náttúrusýn í fjölmiðlum - Stink and Destroy


Síðustu daga hafa fréttir í sjónvarpi og útvarpi varað okkur við hættum og plágum sem stafa af ofgnóttinni í lífríki náttúrunnar. Núna eru óvinirnir kanínur, mávar og kóngulær - allt dýr sem hvorki eru gæludýr né húsdýr og sjá sjálf um að afla sér matar. Talað er um kanínuplágu í Öskjuhlíðinni og kanínum lýst eins og örgustu grafarræningjum sem éti blómskrúð af leiðum í kirkjugarðinum. Sílamávar sem voru að verja varpið sitt í nálægð golfvallar í Garðabæ eru kallaðir vargfuglar og látið í það skína að þeir ráðist á fólk.

Núna í gær heyrði ég svo frétt í útvarpi um kóngulóarpláguna á Suðurlandi, hljómaði eins og kóngulær séu í samsæri um að spinna vefi utan um íbúðarhús þar og á þvílíku geti ekkert unnið nema eitur. Það er mjög áhugavert að spá í á hve fjandsamlegan hátt villtri náttúru er lýst í fjölmiðlum, líka að bera það saman við hvernig sigrihrósandi fréttaflutningur er af því hvernig menn umbreyta og yfirvinna náttúruna, leggja vegi og mannvirki, virkja fallvötn og veita vatni í lón á öræfum og framleiða dýr og vinna dýraafurðir í verksmiðjum.

Það óhugnanlegasta sem ég sé í fréttum er þessar sláturhúsamyndir af kjötvinnslunni og myndir sem teknar eru úr kjúklingabúum og loðdýrabúum, samt er alltaf verið að sýna þessar myndir, alltaf þegar eitthvað er verið að tala um kjöt. Sérstaklega óhugnanlegar myndir voru sýndar í vikunni af kú sem var söxuð sundur, man ekkert eftir um hvað fréttin sem var lesin með var, myndi gerast jurtaæta ef það væri ekki svona erfitt á Íslandi.

Ég er döpur yfir þessari náttúrusýn sem kemur fram í fjölmiðlum og þeirri litlu umræðu sem er hérlendis um samspil manns og umhverfis. Líka þessi tilbeiðsla á fæðuframleiðslu sem er verksmiðjubúskapur og notar mikla orku og afkastamikil verkfæri. Finnst þetta ekki nógu gott hjá þjóð sem lifir mikið til á lífríki náttúrunnar og byggir afkomu á veiðum, er kannski öllum sama um hvort fiskurinn er sóttur í sjóinn sem hráefni í loðnubræðslu sem síðan fer til dýraeldis eða hvort hann er veiddur tilbúinn til matar fyrir fólk.

Þessi náttúrusýn að gera einhver dýr að blórabögglum endurspeglast líka í að þau eru endurskírð, sílamávarnir eru kallaðir vargfuglar og ég hef líka heyrt að mávar séu kallaðir fljúgandi rottur. Það er örugglega mikil mengunarhætta gegnum máva sem fljúga um allt og byggja viðkomu sína á úrgangi frá sláturhúsum eða fiskvinnslunni. En er leiðin að skjóta og eitra fyrir öllum mávum? Á að breyta allri náttúru í lífvana og steingerða veröld sem lítur fullkominni stjórn manna?

Á að leyfa malbikinu að flæða um allt svo hvergi verði stingandi strá? Talandi um stingandi strá og hvernig nafngiftir og endurskírnir á dýrategundum endurspegla náttúrusýn þá er hér saga um íslenska hljómsveit sem heitir einmitt Stingandi strá. Þessi hljómsveit sem í eru Sigvarði, Guðjón og fleiri spilar undurfagra og dúnmjúka frumsamda tónlist og hefur gefið út geisladisk. Hljómsveitin hefur líka reynt fyrir sér erlendis, tróð þar upp í tónleikum í öldurhúsi en eitthvað skolaðist til nafnið á hljómsveitinni. Það glumdi í öllum hátölurum rödd þularins á tónleikunum þar sem hann kynnti hina æðislegu þungarokkhljómsveit sem komin væri alla leið frá Íslandi: hljómsveitin Stink and destroy !

24.7.02

Frænka mín er ættuð frá Palestínu


Á misgengisárunum flutti frænka mín og nafna út til Osló með manni sínum og kornungum börnum og bjó þar næstum tvo áratugi. Hún hefur núna flutt aftur til Íslands en Kristjana dóttir hennar staðnæmdist í Noregi og er nú gift og á barn. Kristjana er núna í heimsókn á Íslandi með manni sínum og dóttur sinni Lilju.

Hér er mynd af fjölskyldunni en ég hitti þau óvænt í Smáralindinni í gær. Lilja frænka mín býr í Noregi og hún er ættuð frá Íslandi, Noregi og Palestínu. Amma hennar í föðurætt er norsk en afi hennar í föðurætt er frá Palestínu.

23.7.02

Íslenskt-katalónskt brúðkaup í Viðey


Mario og Ragga giftu sig í Viðey núna á laugardaginn. Það voru um sjötíu brúðkaupsgestir, þar af komu 23 frá Spáni. Við vorum í veislum í meira en tólf klukkustundir, fórum fyrst með bátnum út í Viðey rétt yfir eitt og þegar við komum þar að landi var boðið upp á hvítvín áður en gengið var til kirkju. Kirkjugólfið var þakið lavendergreinum úr garðinum þeirra Marios og Röggu en þau búa upp í sveit nálægt Barcelona. Það lagði ilm frá Miðjarðarhafinu um Viðeyjarkapellu og öðru megin sat íslensk fjölskylda brúðurinnar og hinu megin fjölskylda brúðgumans sem er öll frá Katalóníu. Presturinn talaði á íslensku og ensku og Sylvía systir brúðarinnar sem er í guðfræði las úr um kærleikann úr 1. Korintubréfi á spænsku. Svo var skálað í kampavíni fyrir utan kapelluna.

Síðan var borðhald í Viðeyjarstofu. Það voru flutt minni brúðhjónanna og dansað og spjallað. Kristín Helga flutti þar ræðu bæði á ensku og íslensku og gaf brúðgumanum fótbolta í íslensku fánalitunum, hún rifjaði upp í ræðunni að þegar við komum að heimsækja þau í fyrrasumar þá buðu þau okkur með sér í ferðalag og fótboltaleik vinahóps þeirra þar sem giftir léku á móti ógiftum. Þetta var fyrsta ræðan sem Kristín Helga heldur í veislum enda er hún bara tólf ára.

Það var mikil gleði og dansað í Viðey þangað til ferjan fór í land um sjöleytið. Systkini Magnúsar og makar komu til okkar í samkvæmi og svo fórum við öll upp í Mosfellssveit um miðnættið, þar voru Spánverjarnir í sumarbústað inn í skógi við ána á dýrðlega fallegum stað. Við vorum þar fram eftir nóttu. Á sunnudeginum fóru Spánverjarnir og fleiri ættingjar í hvalaskoðunarferð frá Hafnarfirði. Kristín Helga sagðist fáa hvali hafa séð en langar núna mikið til norður í hvalaskoðunarferð að sjá steypireyður.

22.7.02

Ljúfir júlídagar


Síðasta vika var bara ágæt, ég var ein heima þangað til á fimmtudagskvöld og varði kvöldunum í að skoða mig um á Netinu og hlusta á íslenska tónlist. Ég lá í að skoða vefsíður um alls konar undarleg heilkenni á Netinu, líka undarlegt hvernig eiginleikar sem okkur finnast óskyldir fara saman eins og heilkenni þar sem fólk er með afar stóran munn og á erfitt með að vinna með tölur. Skoðaði mikið af vefsíðum frá aðstandendum og fólki sem er með sjaldgæf heilkenni, uppgötvaði hve Netið er mikilvægt tæki fyrir þá að finna hvern annan og pældi í hvers vegna það er svona mikilvægt að komast í samband við aðra sem eins er ástatt fyrir.

Svo hlusta ég á miklu meira á tónlist en vant er, held að það sé annars vegar því að í vinnunni er ennþá oft hávaði út af framkvæmdunum í næsta húsi (er búið að standa yfir frá áramótum minnir mig) og ég hlusta á geisladiska til að reyna að yfirgnæfa hávaðann. Heima var svo enginn til að tala við og ég hlusta þar á geisladiska til að yfirgnæfa þögnina. Ég hlusta mest á sjómannalög og sveitalög frá gamalli tíð, ég ákvað að koma mér upp einu nýju safni, ég er byrjuð að safna sjómannalögum. Líka svona lögum úr landvinnslunni hrognineruaðkoma og síldarsöltunarlögum.

Besti hluti vikunnar var ljúft vídeókvöld með vinkonu minni á mánudagskvöldið þó að myndin sem við horfðum á væri ekkert sérstök. Svo var ég í fríi eftir hádegi á þriðjudag bara til að liggja í rúminu og njóta lífsins og svo allan fimmtudaginn því þá var sólbaðsveður.

Á fimmtudaginn fór ég á kaffihús, skrýtið að ég hitti þá sama fólk og á Næstabar um síðustu helgi, fyrst hitti ég Steindór Andersen og Stefán í Kaupfélaginu og við töluðum um rímur svo hitti ég Svölu, Signhildi og Ingibjörgu sem sátu úti í sólskininu á Kaffi Viktor og þar barst talið áfram að rímum. Svala er alin upp við rímur. Jón og Helga foreldrar hennar fóru nefnilega fyrir löngu nokkur sumur um sveitir landsins og töluðu við gamalt fólk og söfnuðu þjóðlegu efni, mamma hennar safnaði sérstaklega vísum og tónlistarefni. Svala fór stundum með þeim heim á sveitabæina og man ennþá orðrétt hvernig þau kynntu sig og verkefnið fyrir heimilisfólki.

15.7.02

HoldsveikiÁ safnadaginn fór ég með vinkonu minni í Nesstofu, þar er lyfjafræði- og læknisfræðisafn. Sniðugur svona safnadagur einu sinni á ári, það var frábær þjónusta hjá starfsfólki safnsins, einhver var með okkur allan tímann til að uppfræða okkur og svara spurningum og sýna hvernig verkfærin virkuðu. Nesstofa er eitt af elstu steinhúsum landsins, reist á árunum 1761-1763 fyrir fyrsta landlækninn á Íslandi.

Við skoðuðum tæki og tól sem apótekarar notuðu til að sjóða saman smyrsl og mixtúrur og pillugerðarverkfæri. í Nesstofu er endurgert elsta apótek landsins, málað himinbláum litum og flúr á hirslum. Gaman að sjá þarna krydddúnka fyrir negulnagla og þess háttar, safnvörðurinn sagði okkur að krydd hefði verið selt í apótekum. Líka málning. Ekki samt svo skrýtið, margar kryddjurtir og framandi matvæli hafa borist til okkar sem lækningajurtir.

Þarna voru líka blóðtökutæki . Af hverju skyldu svoleiðis lækningar ekki vera tíðkaðar núna? Svo voru þarna minjar um sullaveikina sem var einu sinni svo algeng að hér dó fimmti hver maður úr sullaveiki. Sérstakt herbergi var um holdsveiki, þar voru einar fystu ljósmyndir af Íslendingum (eða voru það fyrstu litljósmyndir) en þar blöstu við afmynduð andlit holdsveikissjúklinga.

Þarna voru myndir og texti um holdsveikraspítalann í Laugarnesi sem brann í stríðinu. Þangað kom Kristófer sextán ára og var þar í 27 ár. Ég hef unnið á holdsveikrahæli, ég vann einn vetur í mötuneyti Kópavogshælisins en það var þá staðsett í kjallara þess húss sem var síðasta holdsveikrahælið á Íslandi. Þá voru allir hinir holdsveiku dánir nema ein gömul kona, hún var höfð í algjörri einangrun á efri hæð hússins.

Hryllileg örlög hafa það verið fyrr á tímum að vera holdsveikur eins og Hallgrímur og ein versta pynting sem lífið getur lagt á fólk að bæði örkumlast og afskræmast líkamlega og því samfara sé útskúfun úr mannlegu samfélagi. Ennþá verra þegar útskúfunin er réttlætt með að þetta séu makleg málagjöld, maður hafi kallað þetta yfir sig með breytni sinni eða syndum. Mér finnst viðhorf til eyðni minna að sumu leyti á það sem ég hef lesið um holdsveikisögu. Líka annars konar útskúfun í gegnum tíðina. Hvernig leið fólki sem bar gyðingastjörnuna og mátti ekki ganga á gangstéttum og hvernig leið fólk sem varð að hringja bjöllum á undan sér til að vara fólk við sjálfu sér?

14.7.02

Djammið


Er ein heima og hitti engan. Er alltaf með útvarpið á eða sjónvarpið eða tónlist svona til að skapa læti í kringum mig og blekkingu um að ég sé innan um fólk. Einu sinni leigði ég hjá öldruðum manni sem var svo einmana og hann hafði alltaf kveikt á stillimyndinni á sjónvarpinu. Kannski maður verði þannig með tímanum. Annars fór ég ekkert út úr húsi á laugardaginn fyrr en um miðnættið, varð þá að fara að hitta fólk, það er svo erfitt að halda uppi uppbyggjandi samræðum við útvarpið eða sjálfan sig á Netinu.

Ég var svo þungt haldin um tíma að ég íhugaði að fara á irkið en veit ekki hvort það er ennþá við lýði og vettvangur fyrir félagsleitandi sálir í úthverfum og afdölum. Svo skrapp ég úr netheimum yfir í kjötheima og hitti vinkonu mína fyrst á Kofa Tómasar frænda og þaðan lá leið okkar á Næstabar. Við hliðina á Næstabar er rimlahlið og þar logaði á blysum og ég sá uppábúna karlmenn hringja þar dyrabjöllu og vera vísað inn. Þar er víst einkaklúbbur karlmanna sem eru fyrir leður, gúmmí, einkennis- og gallaföt og leggja mikið upp úr góðum félagskap. Mig langaði nú smá að kíkja þangað og skoða búningana ...

Ekki það að ég hafi nokkuð á móti Kofa Tómasar frænda, þar er indælt kaffihús og engir sem berja með pískum þar. Bara ekki að gera sig þessar teiknuðu bækur á veggjunum en það er samt ágætt úrval af Séð og heyrt til að lesa með kaffinu. Hitti marga á Næstabar þó vinkonan plantaði okkur þar út í dimmu skoti. Spjallaði m.a. við Ingibjörgu líffræðing, Svölu myndlistarkennara og Signhildi hjúkrunarfræðing, Gauju dýralækni , Steindór Andersen kvæðamann og Ingólf og Emblu Barcelónabúa. Svo margir eru að flytja til Spánar..

10.7.02

Kvöld á Eyrarbakka


Fórum í kvöld til Hveragerðis, skoðuðum blómskrúðið í Eden og sandana nálægt Eyrarbakka. Drukkum kaffi í Rauða húsinu og fórum svo niður á bryggju. Þar var fólk sem við þekkjum að veiða
Ókum um þorpið sem liggur meðfram fjörunni og bak við það gnæfir fangelsið en þar starfa 60 manns. Veit ekki hvað það eru margir fangar þarna en held þar hafi flestir framið afbrot meðan þeir voru í rugli. Ég veit ekki hvort að svona betrunarhús eins og Litla Hraun með tvöfaldri rafgirðingu hjálpa fólki að feta rétta slóð þegar út kemur, kannski er þetta bara afvötnunarstöð um tíma, Hallgrímur Helgason orti í orðastað fanga þarna og Bubbi orti um mann sem fékk svo vægan dómað hann slapp við Hraunið og fór á Kvíabryggju. Hús Verndar hérna á Laugarteig er held ég orðið að eins konar opnu fangelsi og sennilega vinsælt að vera þar.

9.7.02

Geitlandsjökull, Hraunfossar og HúsafellUm helgina fórum við í Borgarfjörð. Við fórum að Hraunfossum sem falla hvítfyssandi undan Hallmundarhrauni niður í Hvítá. Skrýtið að sjá fossa sem birtast í miðjum hlíðum og koma úr ósýnilegu fljóti milli hraunlaga - neðanjarðarfljóti sem við myndum ekki vita að væri til ef við sæum ekki ummerkin þegar fossarnir brjótast fram. Annars er margt grafið undir hrauni þarna og hulið.

Við fórum leiðina milli jöklanna um Geitland í Þjófakrók hjá Langjökli að kvöldlagi og þar sáum við mikið vetrarríki, ísauðnir og þrjátíu grænlenska sleðahunda.

Á sömu slóðum var Grettir þegar hann fann dalinn þar sem jöklarnir lukust saman yfir en í Grettissögu segir:

"Um haustið fór Grettir í Geitland og beið þar til þess er bjart veður kom. Þá gekk hann upp á Geitlandsjökul og stefndi á landsuður eftir jöklinum og hafði með sér ketil og eldsvirki. Það ætla menn að hann hafi farið að tilvísan Hallmundar því að honum hefir verið víða kunnigt. Grettir fór þar til er hann fann dal í jöklinum, langan og heldur mjóvan, og lukt að jöklum öllum megin svo að þeir skúttu fram yfir dalinn. Hann komst ofan í einhverjum stað. Hann sá þá fagrar hlíðir grasi vaxnar og smákjörr. Þar voru hverar og þótti honum sem jarðhitar mundu valda er eigi luktust saman jöklarnir yfir dalnum. Á lítil féll eftir dalnum og sléttar eyrar báðum megin. Lítill var þar sólargangur en það þótti honum ótal hve margur sauður þar var í dalnum. Það fé var miklu betra og feitara en hann hefði þvílíkt séð."

Margir hafa síðan leitað að þessum dal.

Við fórum svo um kvöldið að Húsafelli þar sem hinn fjölkunnugi Snorri Björnsson (1710-1803) bjó. Hann var magnaður draugabani og hjá draugaréttinni í túninu á Húsafelli á hann að hafa kveðið niður marga drauga. Það var varðeldur á Húsafelli og mörghundruð manns, það er víst alltaf varðeldur þar á laugardagskvöldum. Eftir varðeldasöngvana á Húsafelli fórum við í Munaðarnes og dönsuðum þar undir harmóníkuleik. Grilluðum svo einhvern tíma um miðja nótt.

Ásgrímur Jónsson málaði margar myndir frá Húsafelli og nágrenni, hann málaði m.a. Barnafoss og Eiríksjökul.

Fórum Draghálsinn og fyrir Hvalfjörð á heimleiðinni í bæinn, áðum við Skorradalsvatn í lúpínubreiðu og borðuðum nesti. Skoðuðum líka útsýnið í Botnsdal og Botnsúlurnar þar sem margir voru að leggja á Leggjabrjót. Það er örugglega skemmtileg gönguleið þessi gamla póstleið frá Hvalfirði yfir á Þingvelli, þar er svona 5-7 stunda létt ganga. Í Botnsdal er líka hægt að ganga í gljúfri upp að hæsta fossi Íslands, Glym. Til að komast að honum þarf að ganga upp eftir ánni og ofan í henni hluta af leiðinni.

Um Leggjabrót stendur:
Leggjabrjótur er forn leið frá Þingvöllum til Hvalfjarðar. Þegar Öxarárdalinn þrýtur er farið yfir litla á sem heitir Súlnaá og þá byrjar hinn raunverulegi Leggjabrjótur, sem öll leiðin dregur nafn sitt af.

Brjóturinn sjálfur er grýttur melhryggur, á að giska einn km á lengd. (467 m y.s.) Hann var illur yfirferðar, en nú hefur verið rudd leið um hann.

Um Leggjabrjót liggja sýslumörk Árnes- og Kjósasýslu. Síðan liggur leiðin milli Sandvatns og Botnssúlna vestur á Sandhrygg, til vinstri af honum niður í Brynjudal en beint áfram yfir Breiðaflóa ofan í Botnsdal, þar sem leiðin endar.

Þessi forna leið var fjölfarin áður fyrr og er hún mörkuð vörðubrotum, víða all heillegum.


Góðar upplýsingar um gamlar götur í Árnessýslu eru á ferðavef Ölfus.

Náttúruverndarsamtök - ofveiði fiskistofnaEarth 'will expire by 2050' segir í nýrri skýrslu frá World Wildlife Fund (WWF) og þar er varað við því að mannfólkið gengur á auðlindir jarðar hraðar en þær auðlindir geta endurnýjað sig. Það er afar brýnt fyrir Íslendinga að fylgjast með þessari umræðu, ekki síst vegna þess að það eru lífríki hafsins sem náttúruverndarsamtök telja að sé í einna mestri hættu. Mengun í hafi og ofveiði fiskistofna hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Íslendinga og það ekki síður þó að mengun og ofveiði sé í höfum fjarri Íslandi. Þetta getur haft áhrif á viðhorf heimsins til fiskveiða almennt. Í þessari skýrslu er minnkun þorskstofnsins í Atlandshafi undanfarna áratugi tekið sem eitt aðaldæmið um hvernig gengið sé vægðarlaust á auðlindir jarðar.

Annars sá ég að á vefsetri samtakanna á panda.org er Ísland í sviðsljósinu, þar er sérstakt átak undir yfirskriftinni Iceland's wilderness threatened by aluminium smelter. Samtökin beita sér gegn ofveiði fiskistofna og þar er í gangi átakið Stop over-fishing or fishing will be over. Fiskveiðistefna Evrópubandalagsins er þar svo sannarlega ekki talin til fyrirmyndar og reyndar er afleiðingum hennar líkt við náttúruhamfarir.

2.7.02

Varmahlíðarskóli í Skagafirði


Var að skoða vefverkefni um heimabyggðina sem nemendur í Varmahlíðarskóla í Skagafirði voru að vinna í vetur. Frábær verkefni og sýnir hvernig fyrirmyndarskóli í sveitahéraði notar upplýsingatæknina til að vinna með nánasta umhverfi. Mér finnst sérstaklega gaman að fylgjast með þróunarstarfinu í Varmahlíðarskóla því ég hef nokkrum sinnum verið með fræðslufundi í skólanum fyrir kennara og var seinast þar með námskeið fyrir kennara í notkun upplýsingatækni í skólastarfi árið 1998.

Það ár var skólinn að fá Internettengingar á allar tölvur nemenda sem þá var einsdæmi. Kennarar voru að byrja að nota vefinn í verkefnavinnu með nemendum og gerðu það ár verkefni með nemendum um skyrgerð í grunnskóla, gömul matarílát og bolludaginn. Það var gaman að fylgjast með hve gott samstarf var milli skólans og byggðasafnsins í héraðinu.

Ég sá líka að í lok júní þegar einkunnir úr samræmdu prófunum voru birtar þá skar Varmahlíðarskóli úr þvi skólinn var meðal allra hæstu grunnskóla landsins, með hæstu meðaleinkunn í íslensku og náttúrufræði og þá næsthæstu í stærðfræði en það voru þrettán nemendur í 10. bekk.

Páll Dagbjartsson skólastjóri segist í viðtali við Morgunblaðið 27. júní sl. fyrst og fremst þakka þennan góða árangur reyndu kennaraliði og aðnemendahópurinn hafi verið jafn að getu. Einnig sé aðstaða til kennslu sé með eindæmum góð. Tölvukostur sé góður og lögð sé áhersla á að nýta tölvur í sem flestum greinum.

Þari, ufsi, kajakar, ylströnd, kanínur, viti

Fór með vinkonu minni í ökuferð um strendur Reykjavíkur og nágrennis í gær. Hér eru ljósmyndir sem ég tók. Fyrst fórum við í Kópavogshöfn, þar voru að koma að landi þaraveiðimenn.
Þeir veiða þara sem notaður er sem fóður fyrir sæeyru. Hittum nokkra sem voru að veiða á stöng á Kópavogshöfn. Ég held að veiðin hafi mest verið litlir ufsar. Við fórum svo í Nauthólsvík, horfum á krakka vaða í sjónum, kajaka sigla um og hvolfast og komast aftur á réttan kjöl. Fengum okkur kaffi í Kaffihúsinu Nauthól og horfðum á kanínurnar sem léku fyrir utan. Horfum á sólina hverfa bak við ský út á Nesi við Gróttu og Akrafjallið og Esjuna speglast í sjónum við Garðsstaði.

1.7.02

Mannlíkið


Hugleiðing um íslenskun orða. Eitt skáld sagði að landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt. Ég hugsa samt að við sjáum nafnlaust landslag og við skynjum tilfinningar og hugmyndir þó þær hafi ekkert nafn og kalli ekki fram neinar minningar eða samhljóman við aðra reynslu hjá okkur. En með því að hafa nafn yfir fyrirbæri þá finnst okkur við hafa einhvers konar vald á því og ef nafnið vísar í einhverja reynslu sem við þekkjum þá finnst okkur við skilja fyrirbærið.

Ólafur H. Torfason er ekki slyngasti nýorðasmiður Íslands. Í greininni Mannlíki -Mannskepnur notað hann orðið mannlíki yfir það sem enskumælandi fólk kallar t.d. cyborg, replicant eða android. Ólafi finnst mannlíki ákaflega þjált orð og renna eins og smjörlíki inn í íslenskuna þar sem það stirðnar í föllum eins og hvert annað lík. Hann segir: "Mannlíkið líkist mönnum eins og smjörlíkið smjöri og hefur marga eiginleika þeirra. Það hefur hins vegar ekki orðið til við æxlun og þroska heldur eru eftirlíkingarnar einkum af tvenns konar uppruna...". Ólafur talaði um mannlíki á ráðstefnu í fyrra um Blade Runner, það eru tuttugu ár síðan sú kvikmynd. Á sömu ráðstefnu flutti Þorkel Ágúst Óttarsson erindið
Það er eitthvað rotið í Eden - Edenstef í kvikmyndinni Blade Runner.

Ef ég væri sæborg þá þætti mér verra að vera líkt við smjörlíki og beygjast eins og lík.

Þingvellir á Þórsdegi í 10. viku sumars


Við fórum á Þingvelli 27. júní 2002 í kvöldgöngu á vegum þjóðgarðsins. Dr. Gunnar Kristjánsson prestur á Reynivöllum í Kjós sagði frá Jóni Hreggviðssyni og baráttu hans við réttvísina hér á landi og erlendis. Þar var fjölmenni enda glampandi sól. Ásatrúarmenn voru með samkomu á Lögbergi á sama tíma en þar var skuggi. Ég setti á vefsíðu myndir frá ferðinni og fróðleiksbrot um Þingvelli.

Fiskur í ofni


Kristín fór síðdegis á laugardag norður í Skagafjörð. Hún bauð okkur í mat daginn sem hún fór og eldaði þennan fiskrétt:
600 g ýsuflök, roð- og beinlaus
2 dl súrmjólk
4 msk léttmajones
2 tsk karrý
salt
100 g sveppir, nýjir eða niðursoðnir
ostur, rifinn og stráð yfir

Sjóða hrísgrjón
Hræra saman súrmjólk, majonesi, karrý og salti
Hrísgrjón sett í smurt eldfast mót
Fiskurinn skorinn í bita og raðað yfir grjónin og salti stráð yfir
Sveppirnir sneiddir og dreift yfir fiskinn
Karrýsósunni hellt yfir
Bakað í miðjum ofni á 200° í 45 mín en þá er osti stráð yfir og bakað þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.
Kjartan er kominn frá Portúgal og Magnús frá Spáni og tuskumottan úr Ikea er farin úr stofunni og í staðinn kominn silkidregill frá Berbum.