31.10.02

Pennavinur í Brasilíu fundinn


Í gærkvöldi var ég að flytja gögn af gamalli tölvu sem ég er að losa mig við og fara í gegnum hvað þarf að henda. Fann helling af gömlum tölvubréfum og þar á meðal bréf frá 1992. Þá átti ég pennavin sem ég skrifaðist á við í einhvern tíma og hann bjó í Brasilíu. Mér datt í hug að slá nafnið hans inn í Google og ég mundi að hann orti hækur og sagði mér frá því ljóðformi og sendi mér þetta ljóð á sínum tíma.

Solidão no ninho
o pássaro se assusta
no eco do trovão

Alone in the nest
the bird gets frightened
in the thunder's echo.

Það var auðvelt að finna Rodrigo de Almeida Siqueira á vefnum og hann hefur sérstaka vefsíðu um hækur og ég fann viðtal á portúgölsku við hann í blaði. Sé hann hefur gert alls konar skemmtilegar vefsíður m.a. um skrímslasafnið sitt og sjónblekkingar hjá Escher og stærðfræðimynstur og búið til ýmis sniðug forrit og það voru líka myndir af honum og hann hefur búið til vef um á rubik-kubbum og vefi um arabíska skrautskrift og um portúgalska skáldið Fernando Pessoa.

30.10.02

Töfrabloggarar Már, Stefán og Katrín


Var að lesa heilsíðugrein í Stúdentablaðinu í dag þar sem Guðmundur Svansson fjallar um þá sem setja sálina á netið. Skemmtileg grein og fræðandi og ágætis byrjun. Fínir punktar í greininni um bloggsamfélagið, rss fréttaveitur og skjallbandalög bloggara sem hlekkja sig saman, um hvernig nördaiðjan hefur breyst í múgmenningu og um hvernig blogglestur getur verið aðferð til að kynnast hugarheimum þeirra sem búa við aðrar aðstæður en maður sjálfur.

En setja bloggarar sálina á netið? Ég held að þeir geri það ekki frekar en fólk gerir vanalega þegar það segir sögur eða ræðir við annað fólk. Már segir í greininni að vefurinn neyði okkur til að endurskilgreina raunveruleikann og tekur sem dæmi samfélög sem hafa myndast með tilkomu vefsins t.d. í gegnum blogg. Raunveruleikinn hafi hingað til átt fast lögheimili í efnisheiminum. Ég er ekki sammála þessu, ég held að sá raunveruleiki sem hafi verið teiknaður upp löngu fyrir tilkomu vefsins hafi verið engu minni blekking, svona kort af heiminum þar sem línur og landamæri voru dregin upp í gegnum tungumál og siðvenjur og varðveittar sameiginlegar minningar sem sögðu til um hvað mætti og ætti og það sem ekki er orð eða tákn yfir það er ósýnilegt og það er ekki til fyrir fólki.

Sjónhvelfingar
En fólk dagsins hjá mér í dag eru Már, Stefán og Katrín. Eiginlega mest fyrir að vera svo sannfærandi að það bara eins og þau búi til töfrahjúp og sjónhverfingar í kringum sig. Ættu bara öll að fá gylltu bloggflautuna í verðlaun.

Már fyrir að vera mikilvirtur álitsgjafi í fjölmiðlum um blogg en blogga samt ekkert sjálfur. Jú veit... hann stefnir á að byrja aftur að blogga sem fyrst... hefur bara stefnt ansi lengi að því...hmmm... ég man þá tíð að Már birti háalvarlegt manifesto um vefskrif sín þar sem hann lofaði sjálfum sér að breyta aldrei neinu og varðveita allt... get ekki vísað í manifesto hans, bara í smáklausu í minni dagbók sem vísar í það. Manifesto-ið sem lofaði óbreytileika hvarf eins og allt bloggið hans Más.

Svo er það Stefán. Ótrúleg kænska hjá manninum og snilli að lýsa því yfir og hamra látlaust á að hann sé mesti og frægasti bloggarinn svo oft að allir eru farnir að trúa honum. Sýnir best stjórnviskuna hjá honum að öll orkan hjá þeim sem hafa einhverjar valdafíkn í bloggheimum fer í að munnhöggvast um hver sé NÆSTfrægasti og NÆSTbesti bloggarinn. Ef þessi maður á ekki framtíð fyrir sér í stjórmálum...

Eða þá Katrín. Hún er heimsfræg á í Íslandi fyrir að blogga og vera mest lesni bloggarinn og hafa teljara sem sýnir svimandi tölur og Stúdentablaðið spyr hana hvaða ráð hún geti gefið byrjanda sem stefnir hátt. Fólk treystir tölum og prósentum og mælinganiðurstöðum þó það sé löngu búið að glata trúnni á að það sé allt sannleikur sem stendur á prenti. Tölurnar hjá Katrínu eru eins og fullyrðingin hjá Stefáni, uppsprettan er hjá þeim sjálfum en það er gömul viska að það getur verið að eitthvað verði sannleikur ef nógu margir trúa því og það er endurtekið nógu oft. Og bloggið hjá Má er úr eins fíngerðu og þéttriðnu efni og nýju fötin keisarans voru á sínum tíma, það er varla að maður þori að láta uppi að það sé sjónhverfing:-)

Maður og slys



Ég fór á fyrirlestur um Fridu Kahlo á þjóðhátíðadegi Mexíkó. Núna fyrir jólin kom út bók um hana á íslensku og í gærkvöldi var þáttur um hana í sjónvarpinu. Árið sem aldirnar runnu saman hafði ég dagbók með myndum eftir Fridu Kalho á skrifborðinu hjá mér. Vissi þá ekkert um hana nema að hún var suðuramerísk listakona sem málaði mest myndir af sjálfri sér, myndir þar sem hún var eins og karlmaður með samvaxnar augnabrúnir og yfirskegg en líka oft skrautlega klædd og umvafin náttúru. Ég safnaði saman vefslóðum og nokkrum myndum eftir og úr lífi Fridu Kahlo. Örlagavaldar í lífi hennar voru slysið og maðurinn. Lest og strætisvagn skullu saman og hún örkumlaðist í hræðilegu slysi. Seinna giftist hún Diego.

28.10.02

Milli svefns og vöku


Hvaða drauma man maður og hvers vegna? Svo undarlegt að muna vel allar aðstæður í draumaveröld í örskotsstund rétt þegar maður vaknar og síðan er eins og loka hafi verið sett fyrir dyr - þó að meðvitundin reyni árangurslaust að nota hefðbundnar upprifjunaraðferðir. Á sunnudagsmorguninn vaknaði ég upp í draumi og man bara endirinn, man að ég hafði stillt inn á einhvers konar rás í myndsíma og fylgdist með tattóveraðri veru undirbúa fæðingu, þetta var svona frumbyggjalegt tattó sem ég held ég hafi samt aldrei séð ljósmynd af, allur líkaminn málaður með stórgerðum mynstrum úr rauðum, brúnum, hvítum og svörtum leirtónum og mynstrið lá eins og línur líkamans. Svo voru þessir fæðingaritualar ekki líkir neinu sem ég hef spurnir af, þetta voru ekki hreyfingar heldur frekar stellingar - jú kannski eins og einhver konar jóga og virtist vera allt eftir nákvæmlega fyrirfram skipulögðu kerfi. Dáldið skrýtið að dreyma fæðingu á Dias de los Muertos.

Fór að hugsa um drauma og þessa þekktu draumaráðendur síðustu aldar. Svona eins og sálfræðinginn Freud sem sagði sagði að það yrði að grandskoða eigin drauma til þess að geta gerst sálgreinandi. Ekki mjög einfalt að túlka drauma skv. Freud því næstum allar myndir og tákn er hægt að túlka sem einhvers konar óskir og þrár og ótta sem blunda í dulvitundinni. Kannski sniðugra að leita að tilgangi drauma eins og Alfred Adler sem sér heilann vinna á fullu og leita að lausn og koma með vísbendingar þó maður sofi. Eða spá í hugmyndir Jung um einhvers konar sammannlegar hugmyndir, tákn og myndir - sem við erfum og eru eins og eðlishvöt eins og fugl sem sinnir hreiðurgerð. Hugsa sér að innsti kjarni vitundarinnar sé eldri en persónan og að draumatákn geti verið skilaboð eðlishvatar til skynseminnar, þ.e.túlkað löngu glatað tungumál.

Kannski má frekar hugsa þetta þannig að dulvitundin vinni úr öllu í umhverfinu, líka því sem við erum þjálfuð í að taka ekki eftir og útiloka og því sem við höfum ekki nein táknkerfi til að útskýra. Goðsagnafræðingurinn Joseph Campbell sagði "Myths are public dreams, dreams are private myths."

27.10.02

Árshátíð, spilakvöld og rímnavaka


Var að koma úr leiðangri um næturlíf Reykjavíkur. Vorum fyrst á árshátíð á Sögu, eitt skemmtiarið þar var söngur Ólafs Kjartans óperusöngvara og ég held að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem ég hlusta á hann Óla syngja. Þekki hann frá fornu fari, þegar ég byrjaði að kenna í KHÍ vann hann við tölvuumsjón þar. Svo fór hann að læra söng og hefur að ég best veit ekki verið mikið í tölvum. Óli er ein af þessum fjölhæfu og hæfileikaríku mönnum sem geta allt. Eftir Sögu fórum við á nokkra bari í miðbænum. Hitti Unni á Kaffi List.

Það var spilakvöld hjá mér á föstudagskvöldið. Var búið að boða það en mundi svo eftir að mig langaði á fund á sem var á sama tíma hjá Kvæðamannafélaginu Iðunni. Ákvað að vera sniðug og sameina þetta og bjóða upp á skemmtiatriði í byrjun spilakvöldsins hjá mér. Skemmtiatriðið var að byrja spilakvöldið á rímnasöngnum hjá Kvæðamannafélaginu. Heppnaðist ekki vel, ég held að vinkonur mínar sem eru með mér í spilaklúbb deili ekki með mér aðdáun á skrýtnum og antik félagssköpum sem eru svona eins og aftan úr grárri forneskju, svona gamlir rímnamenn sem kyrjuðu rímur eftir langafa sinn.

25.10.02

Hljóð- og myndstraumar í fjarkennslu



Þessa daganna er ég að prófa hljóð- og myndstrauma á Netinu (streaming media) og er sérstaklega að prófa stafræna útsendingu með Microsoft producer en það verkfæri sem vinnur með Powerpoint 2002 og hægt er hlaða niður ókeypis á Netinu. Hér er kynning á þessu forriti og hér eru dæmi um glærusýningar í því. Mér sýnist þetta kerfi henta ágætlega til fjarkennslu og er að gera tilraunir með þannig notkun.
Var síðdegis í gær með nemendum mínum í staðbundna náminu hjá Karli Jeppesen en hann sýndi okkur stafræna upptökutækni og hvernig hægt væri að klippa slíkar upptökur í iMovie fyrir Macintosh og þjappa svo til að setja á vefinn.

Ég held reyndar að það sé langt í það að svona streymi og "video on demand" verði útbreitt, minnir að ég hafi séð spádóma á www.nua.com um að það yrði fyrst árið 2005 sem markaðurinn taki við sér í USA. Endanotendur þurfa að hafa mikla bandvídd en kannski verður þróunin eitthvað örari á Íslandi, alla vega eru grunnskólarnir í Reykjavík komnir með öflugar ljósleiðaratengingar (held allir með 100 Mb) og svo er núna búið að semja um FS-net þar sem framhaldsskólar og símenntunarmiðstöðvar um landið eru með 100 Mb sambönd.

24.10.02

Ef þú smælar framan í heiminn


Á dögum eins og í gær þegar ég sá engan tilgang í lífinu á þessu vindbarða skeri og fannst allt ömurlegt og leitaði að lækningu á Netinu og fann bara ráð um að hugsa jákvætt þá kannski hjálpar það að strá um sig smælum

Alla vega segir í kvæðinu að ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.

22.10.02

Alþjóðavæðing í Granada og í Reykjavík


Svona alþjóðavæðing hlýtur að vera mikið í tísku, ég kíkti á ráðstefnuna sem var í Reykjavík um alþjóðavæðingu og fannst skrýtið að vera á ráðstefnu á Íslandi þar sem allir eða næstum allir voru íslenskir en samt fór ráðstefnan fram á ensku. Í dag fékk ég bréf frá Sigurjóni sem núna dvelur í Andalúsíu á Spáni og hann var að spyrja mig um alþjóðavæðingarráðstefnuna hér heima því hann var nefnilega á icem-cime ráðstefnu í Granada í Andalúsíu á sama tíma og flutti þar erindi um alþjóðavæðingu. Erindið hans var Globalization, New ICT and Rural Empowerment og það tengist mér þannig að hann tók sem dæmi grein sem ég skrifaði 2001 út frá tveimur ljósmyndum sem ég tók. Greinin er How globalization has affected my family og hér er mynd af glærunni hjá Sigurjóni.

Svo er líka Ögmundur nýbyrjaður að blogga og eitt fyrsta bloggið hans er einmitt um alþjóðavæðingarráðstefnuna. Hann býður upp á English og Dansk en það er bara galtómt ennþá svo hann er greinilega bara rétt að byrja að alþjóðavæðast.

21.10.02

Tölvuhengi fyrir klámhunda í Ikea


Maður komst bara í jólaskap við að fara í Ikea á laugardaginn. Búið að setja alls staðar upp jólatré og fullt af sætu dóti. Mig langaði mikið í svoleiðis og fann hjá mér þörf fyrir að kaupa margt smálegt t.d. rauða kertastjaka undir sprittkerti sem voru eins og epli. Var stöðvuð af dóttur minni og bent á að ég hefði ekki geymslupláss fyrir meira dót sem ég notaði hvort sem er aldrei. Hún kallaði þetta neyslufíkn. Mér tókst samt að kaupa einhvers konar litlar klemmur með jólalegu hjartamunstri á - á eftir að finna út hvernig ég ætla að nota það. Svo sáum við þetta undarlega fyrirbæri sem hér er á myndinni. Þetta er eins konar hengi fyrir tölvuborð. Við höldum helst að hér sé markhópurinn þeir sem vilja einhverra hluta vegna loka sig af á meðan þeir hanga á Netinu. Kannski er hérna komið vinsælasta jólagjöfin í ár fyrir þá sem er mikið í Internetkláminu.

Táningsafmæli



Kristín hélt upp á 13 ára afmælið með fjölskylduboði. Það voru 25 manns í afmælinu. Hún bakaði sjálf allar kökur í afmælinu. Hér er mynd af Kristínu að undirbúa afmælið þ.e. sjálfa sig. Einnig mynd af því þegar ein afmælisgjöfin var opnuð, það var svokallaður baugahyljari sem mun er víst einnig geta hulið bólur.

20.10.02

Atburðir og alsæla


Hvað er innsprenging? Hvernig hefur veruleikinn látið undan sjálfum sér? Hefur tími og rúm runnið saman??? Skynjum við heiminn í brotum eða skynjum við heiminn í samhengi? Geta skrif Baudrillard og McLuhan skýrt og spáð fyrir um áhrif Netsins? Er búin að pæla í því síðan ég fór á málstofuna um miðlun í heimsþorpi á föstudaginn. Þetta var ráðstefna um hnattvæðingu. Kannski hafði þetta líka svona mikil áhrif á mig vegna þess að ég fór svo beint á opnun á Carnegie listasýningunni, þeirri opnun var sjónvarpað beint og það var risastjórt tjald, margar mannhæðir á hæð sem sýndi hvað gerðist á opnuninni. Eins og í einu atriðinu þar sem dansarar dönsuðu á vegg í köðlum, maður sá dansarana eins og litlar verur í loftinu, mest þó sá maður skuggann af þeim sem tæknilýsingin framkallaði og svo sá maður skýra nærmynd á risaskjánum.

Annars er erfitt að einbeita sér við þetta blogg því bráðum hefst hér barnaafmæli og dóttirin þarf að komast hérna alltaf öðru hvoru á Netið og tékka á uppskriftinni af skúffukökunni.

18.10.02

Postulín frá Ungverjalandi


Magnús kom í gær frá Búdapest í þann mund sem systurnar komu frá Vestfjörðum. Magnús kom með matar- og kaffisett úr ungversku postulíni og handsaumaða dúka. Hann var orðinn mjög fróður um postulínsframleiðsluna þar. Postulínið er með gyllingu og má ekki fara í uppþvottavél, ekki einu sinni nota uppþvottabursta, það má bara strjúka af því með klút.

Þetta verður ekki mikið notað.

17.10.02

Árás í New York 13. júní


Á sólskinsdegi í Reykjavík um það leyti þegar Falun Gongliðarnir lituðu bæinn gulan var gerð árás í New York. Árásin var á John Hiler sem bloggar um blogg. Bloggið hans Microcontent News er ein besta uppsprettulind bloggfróðleiks. Hann segir frá árásinni og eftirköstum hennar í blogginu Blogging as Rehab í gær. Mér finnst ég hafa orðið fyrir þessari árás.

Bolvíska innrásin


Fyrri hópurinn af Bolvíkingum kom í gær. Það var hin þrevetra Þorsteina Þöll og mamma hennar. Í dag koma að vestan systurnar Magnea Gná og Ásta Björg. Þær ætla að vera hjá okkur fram á þriðjudag. Ég hef ekki hitt þær frá því í júní í sumar þegar ég fór í heimsókn vestur.

Ég spjallaði lengi við Þorsteinu áðan við morgunverðarborðið. Hún sagði mest NEI og mótmælti öllu.

16.10.02

Hvað er Blogg?


Fékk spurningu í bréfi frá Vísindavefnum: "Hvað er blogg og hvaðan er það upprunnið?". Miðað er við að svör við spurningum á Vísindavefnum séu 1-2 síður og svarendur þurfa ekki að hafa meiri áhyggjur af málfari og stafsetningu en þeir vilja því allt er rækilega lesið yfir fyrir birtingu..

Hmmm... hvernig á eiginlega að svara þessu? Meina þar sem svar er mælt í blaðsíðum og þar sem einhver hefur áhyggjur af málfari fyrir birtingu. Mér fallast hendur...


Þetta gerðist í lífi mínu í gærkvöldi: Fór með Kristínu afmælisbarni og Ástu og Kjartani á Hornið þar sem við héldum upp á táningsafmælið með pitsum og rjómaís og tertum. Horfði svo á spóluna The Majestic með Jim Carrey. Sú mynd kom út 21. desember í fyrra. Óhugnanleg mynd ef maður les hana með 11. september í huga. Varla hægt að trúa því að hún hafi verið fullkláruð löngu fyrir þann tíma.

15.10.02

H2NO


Var að lesa um markaðsátakið H2NO hjá Coka Cola í fyrra. Það gekk út á að fá matargesti á veitingastöðum til að drekka kók frekar en ókeypis kranavatn eða "to influence costumer to abandon their default choice of tap water and experience other beverages choices to improve their dining experience"Kannski gengur markaðsfræðin út á þetta - fá einhverja til að borga glaðir í bragði fyrir einhver sams konar gæði og aðrir fá ókeypis og til er ofgnótt af. Eða er til nóg af vatni? Hér á landi er kannski nóg af uppsprettulindum og hreinu vatni en samt veiktist fólk í Reykjavík fyrir einni öld vegna þess að vatnið var mengað og fúlt eins og sjá má í sögu vatnsveitunnar. En við líkumst vatnsberunum gömlu þegar við berum heim gruggað neysluvatn úr matvöruverslunum í tveggja lítra kútum. Annars er þetta goðsögn um góða kranavatnið á Íslandi, alla vega þar sem ég bý, þar er kalda vatnið ódrekkjandi nema láta það renna í margar mínútur - annars er hitaveitubragð af því.

Táningur


Kristín á merkisafmæli í dag, er orðin táningur. Við fögnuðum deginum með kakó og rjóma og kökum í morgunmat.

Þetta er fyrsti dagur vetrarins þar sem héla er á bílrúðum, ég þurfti að nota sköfu í morgun.

14.10.02

Hvers vegna er bara haldið upp á afmæli Martins Luther King með frídegi en ekki afmælið hans Malcolm X?


Þetta útskýrði Magnús Þorkell Bernharðsson íslömskufræðingur á fyrirlestrinum sem ég var á í hádeginum. Þeir Malcolm X og Martin Luther King eru þekktustu frelsishetjur svartra Bandaríkjamanna og unnu saman, annar kristinn prestur úr suðrinu, hinn íslamstrúar. Á fyrirlestrinum var líka talað um hvernig Nation of Islam hefði unnið í Harlem, það væri reynt að koma fólki inn í þjóðfélagið. Magnús ræddi um 11. september og hve mikilvægt væri að fá að rýna í þau skjöl sem hryðjuverkamennirnir létu eftir sig, hann benti líka á að 11. september hefði ekki verið árás hins múslamska heims á Vesturlönd heldur árás runnin frá ákveðnu stjórnmálaafli með það markmið að henda Bandaríkjamönnum út úr Saudi-Arabíu, þetta væri stutt einhverri kennisetningu í Kóraninum. Það var líka talað um sameiningartákn Múslima sem nú eru samúð með almenningi í Írak út af efnahagsþvingunum og samúð með málstaði Palistínumanna.
Af hverju hata þeir okkur
Hvað gekk þessum mönnum til? eftir Björn Þorsteinsson
Umhverfisorsakir hryðjuverka Ingibjörg Elsa Guðjónsdóttir
Magnús talar núna mest um ástandið í miðausturlöndum en ég fann líka grein frá 2000 þar sem hann ber saman háskóla í USA og á Íslandi.

Fimmtán systur í Réttarholti






Skoska helgin er liðin. Vináttuheimsókn skoskrar alþýðu setti svip á bæinn og næturlífið og ég var í slátri sem er líka mjög skosk iðja. Fór á miðbæjardjammið á laugardagskvöldi og þar var allt fullt af Skotum og ýmsu öðru fólki. Fór á Næstabar og hitti m.a. Sibbu, Guðrúnu Ögmunds og Þóru Kristínu sem hélt garðveisluna um Jónsmessuna.

Á sunnudaginn fórum við í barnaafmæli, leiðin lá fyrst í Smáralind að kaupa afmælisgjafir, þar voru trúðar og þar var dans.Fórum svo í afmæli systranna á Eggertsgötu, þar var amma þeirra en hún er ein af systrunum fimmtán úr Réttarholti í Sogamýrinni í Reykjavík. Hún ólst upp í sveit þar sem nú er miðsvæðis í Reykjavík, Sigrún mamma hennar var frá Bíldudal úr sjómannafjölskyldu sem var líka með kindur eins og allir í plássinu, hún kynntist ungum manni sem kom í plássið til að leggja rafmagn. Þau fluttu suður og settu upp hænsnabú við þéttbýlið, það var fyrsta hænsabúið á Íslandi og fyrsta útungunarvélin kom þangað. Eignuðust fimmtán dætur og sú dóttir sem var í afmælinu giftist loftskeytamanni, fluttist á Lóransstöðina á Gufuskálum en þar töluverð byggð og börnin ólust þar upp. Fjölskyldan fluttist svo suður og var líka um tíma í Ísrael og Pakistan.

Svo var ekki þörf lengur fyrir loftskeytamenn, hún missti manninn sinn og börnin hafa farið víða um lönd. Ein dóttirin kynntist hollenskum pilti á Irkinu fyrir mörgum árum og fluttist út og bjó þar þangað til hún lést í hitteðfyrra. Einn sonur býr í Tælandi og vinnur núna eitthvað í sambandi við símaloftnet. Einn sonur býr í Danmörku og stundar nú skóla þar og vonast til að fá vinnu hjá meðferðarstofnun eftir einhvern tíma en til þess þarf hann að hafa verið þurr í minnst eitt ár. Ein dóttir bjó í Danmörku í mörg ár, giftist og átti börn þar en flutti svo til Íslands. Yngsti sonurinn fannst vegalaus í Bretlandi nýlega en hún hafði þá ekki heyrt af honum í marga mánuði. Hún kom honum á Vog og vonar að hann haldist þar í einhverja daga. Saga fjölskyldunnar segir íslenska tæknisögu seinustu áratuga og kannski skýra tæknibreytingar og alþjóðavæðing og umskiptin út sveit í borg og úr borg út í heim og það rótleysi og uppflosnun sem því hefur fylgt þessi beisku örlög.

Allar systurnar frá Réttarholti hafa myndina frægu af mömmu sinni í eldhúsinu hjá sér. Reyndar rak eitt barnabarnið um tíma kaffistofu í Ísafoldarprentsmiðjunni gömlu sem hét Amma í Réttarholti og myndin var þar yfir dyrum. Systurnar sem héldu afmæli í gær á Eggertsgötunni eru barnabarnabörn hennar og aldar upp í Reykjavík en þær flytja vonandi að ári upp í norðlenska sveit og alast þar upp.

Á sunnudagskvöldið horfum við á nýja kvikmynd um Sigurð Guðmundsson listmálara. Man mest eftir listaverki sem hann gerði fyrir held ég Málmey. Það var þannig að hann tók grjóthnullunga úr fjörunni og raðaði upp á nýtt, sendi suma til Kína þar sem þeir voru pússaðir og slípaðir. Svona koma þeir aftur í fjöruna svona forframaðir og gjáfægðir. Útleggingin var að allir hlutir eru fagrir í eðli sínu eða það er ekkert til sem heitir fegurð. Eða til að fegurð hluta komi í ljós þá þurfi einhver að elska þá.

12.10.02

Sláturgerð

Hér er tvær myndir úr sláturgerðinni, ein tekin í dag og hin er mynd sem ég málaði fyrir um áratug við sömu aðstæður, börnin bara minni. Þá átti ég enga stafræna myndavél. Kannski ætti ég að fara að mála aftur, ég er ekkert viss um að það séu sannari myndir sem teknar eru á stafrænu vélina, ég held að smáatriðapunktataka týni oft myndefninu.

Sekkjapípur í Sigtúninu - Slátur


Allt að fyllast hérna í hverfinu af Skotum í pilsum og skikkjum og í fjarska heyrist í sekkjapípum. Það er svo angurvært að heyra í sekkjapípum og ég hugsa þá alltaf til fjárbændanna sem voru reknir burt af skosku heiðunum (clearing of the highlands )og á sögurnar sem ég heyrði þegar ég var í Edinborg 1994, sögur af undirokun og sjálfstæðisbaráttu Skota. Annars getur verið að ég fari í sláturgerð í dag, ætla alla vega að kíkja til vinkonu minnar sem er ein af þessum myndarlegu sem taka alltaf slátur, kannski maður geti saumað einhverjar vambir og hrært í blóði. Mér finnst Skotarnir vera miklu taka þessa sláturgerð sína mikla alvarlegra en við, þeir kalla þetta haggis og hafa svo í janúar sérstakan sláturdag, day of the haggis með alls konar ritúölum. Það var líka þeirra þjóðskáld Burns sem orti óð til slátursins. Ekkert íslenskt skáld hefur ort sláturóð svo ég viti.

11.10.02

Málfarsráðunautur um blogg


Það var hringt í mig áðan og ég beðin um ábendingar um blogg-málfar. Hér byrja ég á smá bloggorðabók:
bloggari = sá sem skrifar pistla, nýjasti efst í opna vefdagbók.
blogg = pistlar eða safn af pistlum í tímaröð. Dæmi: Þú segir í síðasta bloggi ... Bloggið hans er svalt. Hvað ertu að böggast út í bloggið hennar?
uppfæra = skrifa nýjan pistil sem bætist efst. Dæmi: Hann uppfærir reglulega. Tíðni uppfærslna hefur ekki verið meiri en nú í vikunni. Blogg dauðans hefur ekki verið uppfært lengi.
les = lesa bloggsíður. Dæmi: Þessa bloggara les ég reglulega. Ég les hana. Ég veit hann les síðuna mína þó hann þykist dissa mig.
netkaffi eða netkaffihús = staður til að blogga á í útlöndum. Þar sem hægt er að kaupa aðgang að vefnum í smátíma.
vera sítengdur = hafa alltaf aðgang að tölvu og geta þar af leiðandi bloggað fyrirhafnarlaust hvenær sem er.
skrifa komment í kommentadót eða gestabók = lesendur bloggsins tjá sig um efni þess.
stalka - ofsækja einhvern, skrifa endalaust í gestabókina eða rövla.
dissa = þegar einhver níðir mann niður eða virðir mann ekki viðlits, þegar ekki er tengt í bloggið manns og enginn þykist ekki lesa það. Dæmi: Það þýðir ekkert fyrir Jón að dissa mig, ég veit hann les mig.
bloggheimur = samfélag bloggara
bloggfrumskógur = öll blogg. Dæmi: Ég barðist í gegnum bloggfrumskóginn til að sjá hvernig skrifuðu um mig..
bloggfall = dagur sem ekki er bloggað á. Dæmi: Bloggfall varð vegna veðurs í gær og fyrradag.
linka á einhvern = hafa vísun í önnur blogg.
tenglasafn = vísun í önnur söfn. kontaktalisti
Naggurinn = listi yfir bloggara www.nagportal.net (liggur niðri)
Fyrirsagnalisti rss mola = listi yfir nýjustu bloggin, fréttaveita.
liggur niðri = bloggkerfi eða bloggsíða sem ekki er hægt að kalla fram. Dæmi: Blogger lá niðri í gær svo ég gat ekkert uppfært. Dagbókin hans Más hefur verið niðri í marga mánuði.
logga IP tölur = fylgjast með hverjir skoða bloggið manns (hvaðan þeir koma)
teljari = fylgjast með hve margir skoða bloggið manns.
rövl = tjáning frá lesendum viðkomandi bloggs. Dæmi: 15 rövluðu í dag.
svarþræðir aftan í greinum = tjáning frá lesendum um innihald greina. Sama og rövl.
kommablogg = vinstri sinnað blogg. Dæmi: Ég hélt að olinjall.tripod.com væri kommablogg.
grobbblogg = mjög sjálfhverft blogg sem upphefur bloggarann.
aumingjabloggari = sá sem hefur ekki uppfært lengi. sluxar.
gyllta bloggflautan = viðurkenning fyrir besta bloggið veitt er á uppskeruhátíð bloggara. Smíðuð úr html.
tuð = samheiti yfir blogg

Svo er hægt að fá fleiri bloggorð á grísku og latínu á Bloggaturi te salutamus

hvað væri íslenska orðið fyrir ego - surfing ?

Vitundarvakning um blogg


Ég held barasta að bloggKastljósið og greinar um blogg í blöðum undanfarið hafi komið bloggi á inn á hugarkortið hjá Íslendingum, þeir hafi innlimað þennan nýja tjáningarmáta og miðill inn í málið ástkæra og ylhýra. Fræðimenn og lærimeistarar hafa krufið til mergjar samfélagsleg áhrif bloggsins eins og þessi frásögn bloggarans og rapparans otee úr félagsfræðitíma í Iðnskólanum í gær ber með sér:
"....en í skólanum í dag fór ég semsagt bara í einn tíma, og það var félagsfræði...kennarinn fór að tala um kastljósið sem var í gær og það var verið að tala um blogg, hann bað nemanda að koma og skrifa "blogg" á töfluna svo hann myndi vita hvernig það væri skrifað...gæjinn skrifaði þetta á töfluna og kennarinn sagði "hvurn andskotann þýðir þetta" og þar með lauk umfjölluninni um blogg í félagsfræði 103 :) "

Svo hefur bloggvakningin valdið því að fólk hefur séð ljósið og himnarnir opnast fyrir því. Í gær lýsir bloggarinn domustadir.tk þeirri hugljómun sem hún varð fyrir þegar hún las bloggið hennar Ernu um blogg:
"Múhwhahahahaaaaa!!!
Var að vafra um netið að lesa um álit fólks á Kastljósi í gær (blogg-umræðan) og rakst á þessa sem er skrifuð af íslenskufræðingi greinilega, því hún er færa rök fyrir því að orðið blogg sé bara fínt og falli vel að íslenskri málfræði.
Svo útskýrir hún það voða vel og vandlega, svo vel og vandlega að ég fattaði heimaverkefnið mitt!!!! Hljóðskipunarreglurnar skvo."

10.10.02

Kynjamyndir



Hér eru nokkrar ljósmyndir sem ég tók á ráðstefnunni um kvenna- og kynjafræðirannsóknir sem var 4 og 5 október síðastliðinn.
Í dag keypti ég mér ljósgeislamús á fartölvuna heima, þetta er sennilega stærsta heilsuátakið sem ég hef afrekað í ár. Sennilega þarf ég bara ekki að fara til sjúkraþjálfara núna út af músarverkjum. Sérstaklega mikilvægt í myndvinnslu.

Var í beinni útsendingu, lifði það af


Er dáldið drjúg yfir Kastljósviðtalinu, ég fraus ekki og sagði stundum eitthvað. Þekki samt ekki þessa virðulegu konu sem var kynnt sem ég, svona með slæðu og skart. Meira segja röddin var öðruvísi. Varð samt eðlilegri eftir því sem líða fór á samtalið og mér finnst þetta hafa verið ágæt kynning á bloggheimum. Svo var ekket smá heiður að vera þarna í þætti með einum merkasta bloggara Íslands. Eva María og Sigmar höfðu undirbúið okkur um hvaða áherslu þau myndu hafa og hvaða spurningum þau mundu varpa fram. Þetta var samt allt öðruvísi. Skemmtilegt að fá svona innsýn inn í heim fólks sem lifir alveg svona í sjónlínu þjóðarinnar, sérstaklega kynnast því hve ströng krafa er um íslenskunotkun og hve margt af því sem skrifað er í bloggum er alls ekki birtingarhæft í þessum miðli sem nær til alls fólks í landinu. Ég held þau hafi lent í einhverju klúðri út af kvikindislegum setningum úr bloggi sem þau ætluðu að sýna en ekki getað XXX-að út öll dónaorð og því hafi það ekki verið birt. En ég er fegin að umræðan fór ekki í þann farveg að tala bara um þá bloggara sem kunna sér ekki hóf í árásum á allt og alla og reyna að ná athygli með að ruddalegu og klúru orðbragði.

Annars baða bloggarar sig í sviðsljósinu þessa daganna, þessir svölustu í Fókus og Bleiku og Bláu og Séð og heyrt og fleiri menningarritum. En sviðsljós bloggara er kannski fyrst og fremst aðrir bloggarar og það var gaman að sjá hve margir hafa fjallað um Kastljósbloggþáttinn, sumir pælt í orðnotkun, að þetta hefði mátt vera fjörlegra því það væri einkenni bloggheima, það hefði átt að hafa þarna svalari bloggara og svo hafa sumir pælt í hvers vegna þeir blogga. Gaman að sjá að sumir bloggarar í útlöndum séð á blogginu að það yrði þessi umræða í Kastljósinu og horfa svo Kastljósið á Netinu.

9.10.02

Bloggarar í Kastljósi


Það verður umræða um blogg í Kastljósi Sjónvarpsins kl.19:30 í kvöld. Ég verð þar en núna dettur mér ekkert gáfulegt í hug varðandi blogg. Hvað á ég eiginlega að segja??

Kolkuós



Það var næstum ein blaðsíða í Morgunblaðinu í dag um Kolkuós og þær hugmyndir sem núna eru uppi um að hefja staðinn til vegs og virðingar. Það eru núna held ég um fimmtán ár síðan ég kom fyrst í Kolkuós, ég man vel eftir hughrifunum sem ég varð fyrir. Fór með Magnúsi og Óðni bróður hans að skoða bæinn þar sem afi þeirra og amma bjuggu en þau voru þá flutt burt komin á dvalarheimilið á Sauðárkróki en ennþá var mikið af húsgögnum í húsinu, bara eins og einhver hefði skroppið burtu. Mér fannst vegurinn niður af bænum ógnarlangur og umhverfið óhemju kaldranalegt og hrjóstrugt. Svo þessar tvær ár sem steypast niður í fossi og hóminn fyrir framan bæinn. En ég hef oft hlustað á frásagnir Kristínar á Vöglum af uppvextinum í Kolkuósi og Magnús og elstu systkini hans dvöldu líka oft hjá afa sínum og ömmu.

Það voru Sigurmon og Hartmann sem bjuggu í Kolkuósi og Sigurmon ræktaði hinn frægu Kolkuós hross, ég held hann hafi átt yfir hundrað hross og sá frægi Hörður frá Kolkuósi var í elli sinni í stóðinu á Vöglum. Kolkuós er sögufrægur staður, þar var uppskipun fyrir Hóla eins og kemur í sögunni af SiIlfrastaða-Grími og þar eru frásagnir af fyrsta íslenska hestinum, hryssunni Flugu sem hvarf í Brimnesskóga.

Það hefur staðið í stappi með Kolkuóslandið í mörg ár. Sveitarfélagið Skagafjörður vill gera það að ruslahaugum og einhvern veginn hefur það gerst í gegnum árin að jörðin Kolkuós bara hreinlega týndist og hvarf, sveitarfélagið heldur að það eigi allt land en Vaglabændur og ættmenni Magnúsar hafa haldið uppi þrætum sb. :"Gísli Björn Gíslason og Þorkell Gíslason vekja athygli á því að landsvæðið við Kolkuós þar sem sorpurðunin er fyrirhuguð sé ekki allt í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar heldur óskipt sameignarland."

Þetta er hið besta mál að hlú að Kolkuós og gömlum minjum þar, þetta eru minjar um gamla tímann og það er aðdáunarvert hvernig Vesturfarasetrið hefur verið byggt upp í Skagafirði. Vonandi verður Kolkuós byggt upp og það mun án efa auka heimsóknir ferðamanna í Skagafjörð og sérstaklega gera spennandi þetta svæði, Hóla í Hjaltadal, Vesturfarasetrið á Hofsósi og Kolkuós.

Fyrirlestur um hádegismat í hádeginu


Brenndi í hádeginu í gær á fyrirlestur sagnfræðingafélagsins í Norræna húsinu. Þar talaði Eggert Þór Bernharðsson sem hefur rannsakað braggalíf. Núna varða hins vegar hádegismatartíminn sem var inntak fyrirlestrarins og þróun byggðar í Reykjavík 1940 til 1960, þegar byggðin þandist út var ekki lengur mögulegt að fara heim í mat. Gaman að heyra um þetta tímabil fjöldaframleiðslu og vélvirkni og spá fram í tímann út frá því. Ég held að heimilin breytist aftur í vinnustaði, eða einhvers konar iðjuver verða í íbúðabyggðum. Alla vega þar sem einhvers konar fjarvinnslu verður við komið. Mig dreymir um að taka að mér vélgæslu í Nesjavallavirkjun og sinna því heiman frá mér gegnum Netið og í frístundum rækta alls konar hollustusamlegar matjurtir til eigin nota í fjarstýrðu gróðurhúsi sem ég hef upp í Borgarfirði og hef eftirlit með og stýri vökvun og hitastigi heiman frá mér. Svo myndi ég bara fara öðru hverju í sveitina og búskapast og sinna uppskerustörfum.

8.10.02

Kynjafræðirástefna


Fór um helgina á ráðstefnu um íslenskar kvenna- og kynjarannsóknir. Hlýddi þar á fyrirlestur Rosi Braidotti og fann náttúrulega til mikillar samkenndar því nýjasta bókin hennar heitir Metamorphoses eins og þessi vefannáll minn og fjallar stundum um svipað efni, bara í örlítið kennimannlegri búningi eða eins og það er orðað : "Cross-referring in a creative way to Deleuze's and Irigaray's respective philosophies of difference, the book addresses key notions such as embodiment, immanence, sexual difference, nomadism and the materiality of the subject. Metamorphoses also focuses on the implications of these theories for cultural criticism and a redefinition of politics. It provides a vivid overview of contemporary culture, with special emphasis on technology, the monstrous imaginary and the recurrent obsession with 'the flesh' in the age of techno-bodies."
Fór á helling af fyrirlestrum. Fór á málstofu Tyranny of the flesh:Cyberotics and Phallopian Dreams in Cyberpunk Fiction, Films & Comics og hlýddi á Anneke Smelik, Úlfhildi Dagsdóttir og Geir Svansson. Fór á málstofu um Kynjamyndir í rómenskum bókmenntum, þar voru Margrét Jónsdóttir, Ásdís R. Magnúsdóttir og Ellen Gunnarsdóttir. Fór á málstofu um hugveru, aðferð og kyn en þar voru Dagný Kristjánsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir, Rannveig Traustadóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Fór á málstofu um kvenfrelsishugmyndir en þar töluðu Gunnar Karlsson, Guðrún Ólafsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Páll Björnsson, Sigríður Matthíasdóttir og Sigríður Þorgrímsdóttir. Svo hlustaði ég á Helgu Kress flytja erindið Hlátur Hallgerðar.

3.10.02

Hver stal IP tölunni???


Einn af vefþjónum KHÍ er búinn að vera í lamasessi undanfarna daga og það er út af því að einhver sem er á sveimi í byggingum Kennó gerði sér lítið fyrir og tók IP töluna af vefþjóninum. Margir námsvefir lágu niðri og þetta er bagalegt í einni stærstu fjarkennslustofnun á landinu. Skrýtin svona ný tegund af afbrotum - að stela aðgangi. Maður er vanari því að fólk steli efnislegum verðmætum. Annars getur allt gerst í Kennó, það eru núna fjögur ár frá bankaráninu sem var framið var þar - og þá meina ég alvöru bankarán!!! Bankanum var stolið barasta í heilu lagi...

Málefnaleg umræða varðandi Stúdentablaðið
má gagnrýna það?



Ég er að prófa hvernig vefannáll getur nýst í umræðum og skoðanaskiptum. Setti á vefsíðuna www.asta.is/kyn pistilinn sem ég skrifaði 24. september um kynjaskiptingu í HÍ og sendi í fyrradag eftirfarandi bréf inn á póstlista í HÍ:
Til fróðleiks
Þann 24. september 2002 var nokkurra blaðsíðna fylgirit um Háskóla Íslands með Morgunblaðinu m.a. var þar greinin "Eru karlmenn í útrýmingarhættu í Háskóla Íslands?".
Ég skrifaði pistil um þessa grein og setti á vefslóð: http://www.asta.is/kyn
Með bestu kveðju,
Salvör Gissurardóttir



Ég fékk í tölvupósti til mín mikil jákvæð viðbrögð við þessum pistli og þessu framtaki frá konum í röðum háskólakennara. Það kom á póstlistann eitt svarbréf og það var frá ritstjóra Stúdentablaðsins og framkvæmdastjóra Stúdentaráðs þar sem þeir upplýsa að þetta fylgirit með Morgunblaðinu sem ég var svona pirruð út af er Stúdentablaðið. Á vefsíðu Stúdentaráðs kemur fram að það var áður bara í 7.000 eintökum en er núna gefið út í 60.000 eintökum og dreift með Morgunblaðinu og haldið var sérstakt útgáfuteiti til að fagna þessu og var öllum stúdentum boðið. Úpps! stóreflis boð, það eru næstum fimm þúsund konur í námi við HÍ.

Stúdentablaðið er gefið er út af Stúdentaráði Háskóla Íslands en er unnið í samvinnu við háskólayfirvöld og eiga þau einhvern hluta af efni í blaðinu en það var alls ekki ljóst hvaða greinar eru frá háskólayfirvöldum og hvaða greinar eru frá stúdentum og reyndar hafði ég ekki áttað mig á að þetta væri Stúdentablaðið. Það kemur fram að markmiðið með því að gefa Stúdentablaðið út í svona stóru upplagi er að gera Stúdentaráð Háskóla Íslands og Háskóla Íslands sýnilegri meðal fólksins í landinu og vænta aðstandendur blaðsins þess að blaðið verði góð kynning á starfi nemenda og starfsmanna Háskóla Íslands.

Ég er einn af þessum almenningi utan HÍ sem fletti þessu blaði og hef líst hvernig það virkaði á mig. Vonandi hafa aðstandendur blaðsins áhuga á að vita eitthvað um viðbrögð sem það hefur fengið og taka þessari gagnrýni vel. Samt er ég svolítið efins um það því ritstjóri Stúdentablaðsins og framkvæmdastjóri Stúdentaráðs enda svarbréf sitt á póstlistann með þessum orðum:

"Athygli vekur að Salvör telur greinina flausturs- og yfirborðslega en segist sjálf ekki hafa "pælt mikið í" hvers vegna konur séu í meirihluta við HÍ eða hvaða afleiðingar það hefur. Spurningin er því hvort ekki sé betur heima setið en af stað farið."

Veit ekki alveg hvernig ég á að taka þessu, á ég að lesa út úr þessu að ég eigi að halda kjafti og eigi ekkert með að vera að tjá mig um svona mál því ég hafi ekkert vit á þeim og ég bara viti það best sjálf?? Hmmmm..... þá er ég nú dáldið sár.... það er bara einum of heví að gefa blað út í 60.000 eintökum, halda rosa útgáfupartý og bjóða í það mörg þúsund manns (veit náttúrulega ekki hvort allir mættu...) og bregðast þannig við gagnrýni....

2.10.02

Miracles are my visiting cards


Íslenskur dulsálfræðingur Erlendur Haraldsson er einn af þeim sem mest hefur rannsakað Sai Baba. Erlendur skrifaði bókina "Miracles are my visiting cards" um Sai Baba og ýmis önnur rit svo sem An Investigative Report on These Psychic Phenomena Associated With Sathya Sai Baba

Frægðarljómi um Sai Baba hhefur mjög dofnað síðustu ár og skuggahliðar í lífi hans komið fram. Fyrrum áhangendur halda úti vefnum www.exbaba.com. Annars var fall Sai Baba mjög tengt orðrómi sem barst eins og eldur um sinu um Internetið. Danskur mannfræðingur Helle Johannessen hefur skoðað Sai Baba sem dæmi um nútíma heilara Shaman, Bigman, Godman.

Sai Baba According to Haraldsson
Är Sai Babas mirakler äkta?
Sai Baba - er miraklerne ægte?
SATYA SAI BABA Retelling The Story
Sai Baba : How Does He Do it?
SRI SATHYA SAI BABA

1.10.02

Leðurblökumaður og klukkuguð


Á læknavaktinni á föstudaginn lenti ég númer 15 í biðröðinni og las þar af leiðandi marga árganga af Nýju lífi, Mannlífi og alls konar lífi. Man samt bara eftir smábroti úr viðtali við íslenska konu og rithöfund sem heitir Oddný Sen. Mér skildist á viðtalinu að hún hafi verið gift manni sem innanhússarkitekt en líka einna fróðastur á Bretlandseyjum um leðurblökur og svo hafi þau keypt hús þar sem var einhver leðurblökuhellir og skemmt gestum með því að bjóða þeim í hellirinn í niðamyrkri með vasaljós þar sem leðurblökur flögruðu allt um kring.

Svo hafi það bara gerst einu sinni að þau fóru í búðir og hún hafði litið smástund af manninum sínum og hann vafrað inn í bókabúð og farið að blaða í bókum, þar á meðal ritum eftir hinn indverska Sai Baba. Brá þá svo við að maðurinn fékk vitrun um að ganga til liðs við hreyfingu Sai Baba og gaf allar eigur sínar og hún hrökklaðist örsnauð úr hjónabandinu.

Veit ekki hvort mér finnst furðulegra að maður sem nýtur þess að sitja í dimmunni innan um flögrandi leðurblökur skuli blaða í bók eftir indverskan gúrú og fylgja honum í blindni upp frá því eða hvers vegna allar þær milljónir manna á Indlandi sem líta á Sai Baba sem trúarleiðtoga sinn skuli virkilega trúa á mann sem segist vera guð og gerir kraftaverk sem eru fólgin í að alls konar glingur, hringir og armbönd og aska og pennar og úr birtast. Eitthvað svo absúrd að hugsa sér guð sem býr til klukkur . Sai Baba skapar líka úr engu Titan quartz úr og þau eru bara líka með framleiðslunúmeri á, sama og einhver verksmiðja í Bangalore er með. Honum hefur vegnað betur með sitt glingur en Láru miðli með slæðurnar.