27.2.03

Iceland X-rated


Svona í tilefni þess að núna er dagur hinna mörgu X-a í háskólanum þar sem háskólanemar krossa við í kjörklefunum og (hvernig voru hlutföllin þar aftur... eru konur komnar yfir 70% nemenda??) kjósa stúdentaforustuna þá langar mig til að minna á hvernig sumar auglýsingar Flugleiða erlendis hafa átt þátt í að bæta XXX við ímynd Íslands. Á femínistapóstlistanum er núna mikil umræða um hve slagorð á borð við "One night stand in Reykjavík..." og "Dirty weekend..." hafa markaðsett íslenskar konur sem fallegar og auðfengnar. Þar stendur að Bretar sem spurðir voru að því hvernig bæri að túlka þessar auglýsingar hefðu svarað : "Cheap tarts in Iceland". Ég sá því miður ekki Sópranóþáttinn en það er talað um að hann hafi beina tilvísun í auglýsingarnar. Einnig hafa íslenskar konur sagt frá því að þær hafi orðið fyrir áreitni erlendis sem beinlínis megi rekja til þjóðernis. Mér sýnist þessar auglýsingar hafa virkað.

Á morgun verður ráðstefnan Átak gegn verslun með konur

Jafnréttismál hjá stúdentum eru skrípaleikurFélagið Vaka sem segist vera traustsins vert segist leggja mikla áherslu á jafnréttismál og segir svo á vef sínum: "Eitt af mikilvægustu málum Stúdentaráðs er að tryggja öllum stúdentum jöfn tækifæri til náms, án tillits til kynferðis, efnahags, þjóðernisuppruna eða stöðu að öðru leyti. Athygli yfirvalda HÍ hefur á undanförnum árum nær eingöngu beinst að jafnrétti kynjanna og hafa önnur jafnréttismál fallið í skuggann. Stúdentaráð, undir forystu Vöku, hefur lagt mikla áherslu á að þeir sem vinna að jafnréttismálum innan Háskólans líti einnig til annarra hópa. Jafnréttisnefnd HÍ hefur nú tekið undir þetta sjónarmið og hefur starfssviði nefndarinnar verið breytt í samræmi við það. "

Það er eftirtektarvert hvernig forustumenn stúdenta hafa beitt sér í jafnréttismálum í vetur og vil ég þar bara vísa í eftirfarandi blogg frá mér og umræðu þeim samfara í nóvember og desember.
Kynjamál í Hí í fréttatíma RÚV
Lágmarkskröfur sem Brynjólfur Ægir gerir á bloggið mitt
Málsvörn Brynjólfs Ægis Sævarssonar
Eggert Þór hefur úr nógu að moða
Föstudagsgetraun í boði Meinhornsins
Það sýður í Pottinum
Stáltaugar

Vissulega ber að fagna að fólk temji sér víðsýni og sé vakandi fyrir jafnréttismálum í víðum skilningi. Mér finnst hins vegar ekki margt benda til þess að stúdentaforustan sé núna sérlega vakandi í jafnréttis- og mannréttindamálum. Meira segja ekki málum sem snúa beint að félagsmálum stúdenta og áhrifum þeirra innan háskólans. Ég vil nefna eitt nærtækt dæmi og þar varðar fjarnema en þeim fer mjög fjölgandi í Háskóla Íslands sem og öðrum skólum á háskólastigi. Fjarnemar borga sömu skólagjöld og aðrir nemendur en þeir hafa langt í frá sömu aðstöðu til að nýta sér skólasamfélagið. Systir mín er búsett á Vestfjörðum og er fjarnemi við HÍ og hún hefur núna á seinustu dögum skrifað mörg bréf til Stúdentaforustunnar og óskað eftir því að fá að kjósa til Stúdentaráðs og háskólafundar. Eftir því sem ég veit best hefur erindi hennar verið synjað (eða bréfum ekki svarað, man það bara ekki..) og þar virðist ekkert vera gert ráð fyrir að nemendur í fjarnámi fái að kjósa nema þeir geri sér sérstaka ferð til Reykjavíkur.

Á vef Stúdentaráð HÍ stendur:
"Stúdentaráð Háskóla Íslands er lýðræðislega kjörin fulltrúasamkoma stúdenta. Kosningar til ráðsins fara fram í febrúar á ári hverju og hafa allir stúdentar atkvæðisrétt og eru kjörgengir. Í ráðinu sitja 20 fulltrúar úr flestum deildum Háskólans auk þess sem tveir þeirra sitja einnig í háskólaráði, æðstu stjórn skólans." Mér finnst allt tal um jafnréttismál hreinn skrípaleikur ef málum er þannig fyrirkomið að ákveðnir hópar stúdenta eru útilokaðir frá því að kjósa vegna þess hvar þeir eiga heima. Það er ekki nóg að hæla sér af því að hafa fjarlægt þröskulda ef maður er gersamlega blindur á allar tröppur.

Er eins dauði annars brauð?


Ég var að skoða vefsíðu Starfsmenntaráðs en þar eru nú auglýstir styrkir vegna starfsmenntunar. Það sló mig dáldið að undir fyrirsagnaborðanum með lógói Starfsmenntaráðs og myndskreytingu af starfandi fólki er málshátturinn "Eins dauði er annars brauð". Nú veit ég ekki hvort þetta sé sú kennisetning sem starfsemi Starfsmenntaráðs snýst um eða hvort þetta sé java-rútína sem spinnur upp nýjan málshátt á hverjum degi og ég hafi bara lent á dauðadeginum af því ég skoðaði vefinn í dag. Þetta virkar ekki vel á mig, er álíka stuðandi og þarna hefði staðið Arbeit Macht Frei

24.2.03

HakkarahelgiÉg var um helgina að spá í svona hakkarakúltúr á Netinu og hvernig gögn flæða nánast hindrunarlaust frá tölvu til tölvu. Ég hlóð niður forritinu Kazaa lite og tengdi mig við svona P2P net með því að ræsa það. Ég skilgreindi möppu á mínum harða disk fyrir sameiginlegt svæði með heimsbyggðinni þar sem allir eru tengdir við alla. Forritið gefur upplýsingar um hvað margir eru tengdir á hverjum tíma og hvað margar skrár væru sameiginlegar öllum og í gær voru það um 4.6 milljónir og það voru 900 milljónir af skrám sem hægt er að ganga í. Ég hugsa að langmest sé tónlist á mp3 formi en þarna eru líka vídeómyndir, tölvuleikir og öll algeng forrit. Það sem mér kemur mest á óvart er hve lítið er reynt að fela að þarna fer fram ólögleg afritun þvert á höfundarréttarlög og nánast allar leitarniðurstöður af algengum orðum sem ég prófaði skiluðu lista af því sem mér virtist vera afar gróft klámefni. Ég var að leita að vídeóklippi til að nota í kennslu og prófaði leitarorð eins og "education", "learning" og "Spanish". Það var langt í frá verið að fela að þetta væri bannað eða ólöglegt efni, það kom mjög oft fram í titlum t.d. í endi forrita stóð "cracked", "full version" eða "with serial" sem eru svona skrauthvörf fyrir hakkaðar útgáfur og titill klámefnis gaf til kynna afar gróft efni.

Kazaa er neðanjarðarheimur og mér virðist það vera einhvers konar kúltúr sumra þar að virða ekkert lög og reglur, sérstaklega ekki um lög um eignarrétt og bann við dreifingu á ósiðlegu efni. Þarna ríkir einhvers konar anarkismi og er áhugavert að sjá hvernig þetta virkar til lengdar. Reyndar virtist mér sem töluvert margir af þeim sem buðu fram efni vildu gefa til kynna að þeir gerðu það af einhvers konar hugsjón og settu einhvers konar reglur t.d. að þeir sem fengju efni frá þeim yrðu að miðla öðrum af því í einhvern tíma s.s. tvær vikur. Það var gjarnan einhver hótun til þeirra sem bara tækju efni en legðu ekkert inn svona s.s. að þeir fengju ekki að hlaða niður. Þetta er næstum eins og einhvers konar netskæruhernaður, það er ráðist á stafrænar eignir og höfundarréttarvernduð hugverk og þessar eignir eyðilagðar með hver sem er getur afritað það sem liggur á opnu svæði á Netinu.

Ég var mest að leita að freeware vídeóklippi sem ég gæti notað sem sýnishorn í kennslu en það gekk nú ekki vel. Ég stóðst samt ekki mátið og hlóð niður nokkrum lögum og forritum. Gerðist aðdáandi kólmbísk-arabísku söngkonunnar Shakira eftir að ég hlóð niður nokkrum lögum hennar því ég var að leita að einhverju sem nýttist mér til að læra spænsku. Svo hlóð ég niður yfir 200 mb skrá sem var eftir titlinum að dæma Age of Mythology sem er tölvuleikur frá Microsoft. Svo þegar ég opnaði þetta þá var það allt annar leikur, einhver Empire Earth sem hefur víst selst í 1.5 milljón eintökum. Ég ræsti leikinn sem mér sýndist vera svona strategíuleikur og mjög spennandi og reyndar líka fræðandi en ég fór að hugsa um hve smitandi þetta viðhorf og heimsmynd sem leikurinn gengur út á væri. Í kynningu fyrir leikinn þá er beinlínis haldið fram þeirri söguskoðun að stórveldi hafi fyrst og fremst byggst upp gegnum stríð og baráttu við andstæðinga og þar er heimsvaldastefna vegsömuð. Þetta var stingandi boðskapur núna á þessum síðustu og verstu tímum í heimsmálunum en jafn satt er það samt að sá sem vinnur stríðið hefur miklu betri líkur á að skrifa söguna um hvað gerðist og miðla henni til allra og gera hana að sannleika.

17.2.03

Google + Blogger = Að hugsa og muna


Hvað skyldi gerast á næstunni þegar Google hefur gleypt Blogger?. Mér finnst þetta góð tíðindi. Þessi tól eru nú ekki ennþá á Mikrósoft-stærðarkvarða svo það er kannski ekki mikil hætta á einokun. Læt fylgja með hérna myndskreytingu sem ég gerði á blogglistartímabilinu í lífi mínu fyrir ári síðan. Þá var ég að hugsa um að þessi tvö verkfæri Google og Blogger eiga það sameiginlegt að þau geta hjálpað okkur að koma einhverri reiðu á glundroðann í netlífinu - Bloggið hjálpar okkur að skrá niður eitthvað leiðarstef og Google hjálpar okkur að muna. Ég held að ef ég væri spurð í dag hvaða verkfæri á Netinu ég vildi síst vera án þá myndi ég nefna þessi tvö.

Þegar Svanson talar ekki um teljarann sinn (teljarabloggin eru fyndin ef þau eiga að vera brandari en ég barasta held að þau séu ekki meint þannig) þá getur hann verið skemmtilegur. Hann tjáir sig um tjáningu Katrínar á tjáningu Ágústs á grein Þórarins sem hefði náttúrulega ekki átt að gleyma svona gömlum góðbloggara eins og Ágústi og hefði betur rætt líka við Svanson sem veit miklu betur hvað blogg er og við hverja á að tala. Hmmm....talaði Svanson við mig í Stúdentablaðsblogggreininni sinni ? Nei. Var ég sár? Nei. Það er af og frá. Eins og ég vilji koma í Stúdentablaðið. Hef ég nokkurn tíma viljað það???? -:)

Svo finnst mér óþarfi af sumum bloggurum að gera lítið úr því þegar fólk af manngæsku sinni upplýsir pressuna um tjáningarmáta sinn:) Ef einhver rappari væri að semja lög og pressan vildi heyra um það. Ætti hann þá að neita að tala við pressuna um lögin sín og sína listsköpun af því það hefði verið greinar um rapp áður í blöðunum? En mér finnst upplagt fyrir alla bloggara sem telja sig hafa eitthvað að segja inn í prentmiðlana að bera sig upp við þá, ég veit ekki betur en það sé í undirbúningi bloggumfjöllun þar. Það er barasta gustuk og góðverk að reyna að útskýra fyrir menningarvitum hvers vegna maður tjáir sig á bloggi og hvernig blogg getur verið rödd einstaklings sem heyrist ekki í hinum ritskoðuðu miðstýrðu útsendingarfjölmiðlum. Ég var að skoða vef Reykjavíkurborgar og sé að Borgarfræðasetur er nýbúið að gefa út skýrslu " ....þar sem fjallað er um nýlegar hugmyndir um valddreifingu í stjórnmálum almennt og í sveitarstjórnarmálum sérstaklega."

Ég tók sérstaklega eftir því að höfundur skýrslunar er Svanborg Sigmarsdóttir sem starfar nú sem sérfræðingur við Borgarfræðasetur. Ég hugsa að hún hafi ekki séð möguleikana á valddreifingu um tjáningu eins og blogginu, annars hefði hún ekki móðgað alla bloggara með þessu "Plís get a læf" pistli sínu á Kreml.

16.2.03

Haloscan athugasemdakerfið klikkað


Haloscan athugasemdakerfið virkar ekki núna og mér virðist það gera allar vefsíður ólæsilegar í Internet Explorer. Ég er með útgáfu 6. Pirrandi að vafrinn sjái ekki við svona. Mozilla birtir síðurnar án villuboða. Maður getur náttúrulega ekki kvartað því það hefur verið ókeypis aðgangur að haloscan. En alla vega kann ég ekki annað ráð í stöðunni en að taka bara athugasemdakerfið úr sambandi þangað til það er komið í lag. Það er umhugsunarefni þegar vefsíður fara að vera þannig að þær birta eigindi hingað og þangað, sprettglugga og i-frame glugga sem eru í raun tengingar við vefi og kóðabúta sem geymdir eru hér og þar á vefþjónum um heiminn hvað maður getur orðið háður að allt virki. Mér sýnist hér sé ansi djúp öryggishola t.d. ef eitthvað eitt útbreitt kerfi eins og haloscan hættir að virka þá geri það þúsundir bloggsíðna ólæsilegar. Sama með blogger.com. Það hefur komið fyrir að það kerfi hafi verið hakkað og það gæti gerst aftur. Mér sýnist eina lausnin að reiða sig ekki um of á eitt kerfi og gera ráð fyrir að það lokist á aðgang hvenær sem er.

Annars er ég búin að vera að grúska í tveim þrælsniðugum kerfum. Annars vegar er það Contribute frá Macromedia.com, þetta er vefsmíðaverkfæri fyrir alla sem vilja einhfalt kerfi og bara læra að setja efni á vefsíður (content provider). Það er hægt að uppfæra vefi í þremur skrefum: fara á vefsíðuna,. smella á Edit og skrifa innihaldið, smella á Publish. Svona á vefumhverfið að vera fyrir alla. Ég er búin að prófa þetta og ég mæli með þessu fyrir alla. Kostar innan við 8000 kr. íslenskar ($99).

Svo langar mig til að setja upp vefumræðukerfið http://www.phpbb.com ég var að lesa leiðbeiningarnar og mér sýnist þetta vera svo einfalt að ég ætti að ráða við að setja það upp. Það er meira segja búið að íslenska kerfið og þetta er open source hugbúnaður (hmmm... ég kann samt ekkert í php .... er einhver sem getur aðstoðað mig?

Meira af veitumálum. Pípulagningamaðurinn kom í fyrradag og gerði ekkert nema greina vandann og taka termostatið af öllum krönum. Þetta þýðir að ekki er hægt að stilla hitann. Nú hefur hlýnað úti en ofninn hér við hliðina á tölvunni er sjóðandi heitur og ég get engu breytt um það. Mér geðjast ekki að svona hitaveitum sem kæfa þmann úr hita þegar maður þarft ekki á því að halda og skrúfa fyrir hitann þegar kalt er úti.

15.2.03

Bloggstraumur í kvöld


Það var heil opna í Fréttablaðinu í dag um blogg, viðtal við mig og Katrínu o.fl. Gaman að sjá að hefðbundna pressan er alla vega ekki blind fyrir þessum miðli, eftir fyrirlesturinn í gær veit ég að sýnileiki ofsóttra minnihlutahópa er mjög mikilvægur og orð eru á sífelldri hreyfingu, kannski verður einhvern tímann í framtíðinni bara virðulegt að blogga og orð eins og bloggbókmenntir verða ekki notuð eins og háðsyrði af bókmenntafræðingum:) Kannski kemst orðið blogg og bloggari inn í orðabækur... kannski verður þróunin í þrepum þannig að bloggari verður fyrst skilgreint sem læknisfræðilegt heiti til að lýsa afbrigðilegu og sjúklegu sálarástandi sem lýsir sér í einhvers konar strípiþörf á prenti. Mikil ónáttúra. Annars frétti ég á fyrirlestrinum í gær að dragg er komið inn í orðabækur sem góð og gild íslenska og þá er leiðin greið fyrir blogg. Annars hugsa ég að að sé skemmtilegt að lesa draggblogg.Eða fara í bloggdragg. Það væri hægt að gera ansi skemmtilega g og gg málfræðiæfingu með þessum nýju orðum.

Í útlöndum er líka bloggið í sviðsljósinu, alla vega sviðsljósi annarra bloggara og bloggstórviðburðurinn í dag er Live from the Bloghosphere. Enginn þarf að missa af því svo framarlega sem hann er sítengdur því það bloggumræðan streymir fram á Netinu, það verður bæði hægt að horfa á í Realplayer og svo Shoutcast mp3 straum. Tíminn er klukkan 7.30ish pm (pacific standard time). Hmmm... hvað er klukkan þá hérna? Við erum einhverjum tímum á eftir.

14.2.03

Skrauthvörf


Þetta er búinn að vera ágætur dagur og ég hef spáð í orð og ástir og skrauthvörf í tilefni dagsins. Fór í hádeginu á fyrirlestur í HÍ um orð á hreyfingu, þar fjallaði Þóra málfræðingur um orð varðandi samkynhneigð og farið yfir hvernig merking orða breytist, frá því að vera bannorð, slangur eða verða sjúkdómsvædd sem frávik frá því sem er eðlilegt - að því að vera eðlileg orð sem eru bara ein af mörgum sem lýsa fjölbreytileika mannlegs samfélags. Lærði nýtt sniðugt orð sem ég er samt ekki alveg með á hreinu hvað merkir, það er orðið skrauthvörf.

Fór svo eftir vinnu á formlega opnun hjá Skýrr á háhraðaneti framhaldsskóla, nú held ég að nánast allir framhaldsskólar í landinu séu komnir með 100 mb nettengingu. Gaman að heyra að meira segja Kópasker sé komið með 100 mb. Kópasker og Ólafsfjörður eru sögustaðir í Internetsögu skólakerfisins. Um kvöldið fór ég á Hornið með tveimur skemmtilegum konum.
Þorgerður hefur stofnað póstlistann Feministinn.

Ennþá enginn hiti


Fartölvan ennþá lemstuð og hitaveitan virkar ekki. Ég er búin að nota ýmis ráð til að hita upp svo sem að kveikja á öllum tölvum (komst að því að tölvur eru lélegir hitagjafar), hafa kveikt á ofninum og eldavélinni og rafmagnsofni. Magnús gerði ekkert í þessu, hann er líka farinn að hegða sér eins og hann sé í Víkingasveitinni, bara fjasar um að það sé mátulega heitt og kuldinn í Kabúl geti nú verið meiri en þetta. Það var svo í gær sem ég hótaði að kveikja eld í stofunni og brenna upp húsgögnin eitt af öðru að hann dreif í að fá pípulagningamann sem kom í gærkvöldi og hefur greint að vandamálið sé að hitinn komist inn en það sé stífla í rörunum þannig að hitinn kemst ekki út.

En kannski ætti maður bara að vera í góðu skapi og ljúf í lund, það er Valentínusardagurinn í dag og Morgunblaðið býður upp á konfekt og ég býð upp á fræðslu um súkkulaði.. Það er samt erfitt að vera í góðu skapi ef manni er mjög kalt.


6.2.03

Ekki góður dagur


Ekki góður dagur í dag.... ekki góður dagur í gær.... ekki góður dagur síðan fartölvan mín hrundi á sunnudaginn. Svo virkar hitaveitan ekki hérna heima hjá mér, ég skrúfa termóstatið í topp í öllum herbergjum en það er enginn hiti. Heimilið var gersamlega sambandslaust við umheiminn seinni part sunnudagsins en svo tókst mér að fá Internetsamband á hina tölvuna. Það fór allt í rugling, Magnús gat ekki tékkað á veðrinu, Kristín gat ekki spilað Neopets og ég gat ekki hlaðið niður vídeóklippum og lögum. Veit ekki hvað gerðist, mágkona mín kom með stafræna myndavél sem hún hafði fengið í jólagjöf og ekki getað tekið myndir úr og vildi að ég sýndi henni hvernig maður færi að því. Ég setti þetta bara í samband við USB tengið og geisladiskinn sem fylgdi í drifið en eftir það get ég ekki ræst fartölvuna nema í Save mode og stundum ekki einu sinni þannig. Sennilega bara eitthvað farið í stýrikerfinu. Ég uppgötva að þó að ekkert hafi að ég held eyðilagst af gögnum þá er ég handalaus af því ég hef ekki ýmsar uppsetningar.

Í morgun átti ég að vera að kenna í tölvuveri khí og tíminn hafði verið pantaður fyrir löngu. Svo kom í ljós að það var einhver annar hópur í stofunni og ég var sett í aðra stofu í fyrri tímanum með skjávarpa og ætlaði að koma með mína fartölvu. Þar sem hún krassaði þá fór ég gær og bað um að fá í dag fartölvu frá skólanum sem yrði að vera með nýrri útgáfu af media player. Ég kom sjálf með hátalara heiman frá mér. Það kom náttúrulega í ljós að fartölvuræksnið frá skólanum gat ekki keyrt þetta mediaplayer dót sem ég hef keyrt á ótal tölvum að undanförnu og ekki heldur þó hlaðið væri inn nýrri útgáfu af spilarum. Svo færðum við okkur í aðra tölvustofu en þá var ekki hægt að tengja skjávarpann við tölvu þar og skjávarpinn sem við komum með þar og skjávarpinn sem var í loftinu var bilaður. Þá voru komnar frímínútur. Seinni tímann var ég í tölvuveri þar sem allt virkaði nema nokkur heyrnartæki og svo voru tvær tölvur með biluðum hljóðkortum og sumir nemendur voru með heimasvæðin sín svo full þeir gátu ekki geymt þar hljóð- og vídeóklipp því að það eru einhverjar takmarkanir frá skólanum á stærð heimasvæða nemenda. Samt var ég búin að vera lengi að setja saman pakka af nógu litlum hljóð- og vídeó því ég vissi af þessum takmörkunum. Svo fór ég þá svo hratt yfir út af veseninu í fyrri tímanum að einhverjir nemendur sem ekki kunnu að búa til möppur eða vista myndir, hljóð og vídeó af Netinu fylgdu ekki yfirferðinni. Mér finnst ekkert eins leiðinlegt eins og að horfa framan í ráðvillt andlit nemenda sem leggja sig fram en eru ekki að ná því sem ég er að segja. Þá finnst mér ég ekki vera góður kennari.

Ég tók myndir á stafrænu vélina mína fyrir vinnuna í gær og af því að fartölvan krassaði gat ég ekki ræst upp rétta drivera á henni og ekki tekið inn myndir. Ég leitaði um allt að geisladiskunum sem fylgdu myndavélinni en fann þá hvergi, reyndi að finna einhverja drivera á Netinu og hlaða niður en ekkert gekk, veit ekki hvort það var út af því að kerfið í skólanum var læst fyrir svona niðurhleðslur eða hvort ég var ekki með rétta drivera. Loksins þegar ég kom í vinnuna eftir hádegi þá fann ég orginal diskana þar. Þá kom líka í ljós að það hafði verið beðið eftir þessum myndum og fréttatilkynning ekki verið sett út af því mynd vantaði. Mér finnst leiðinlegt að það sé beðið eftir hvað ég geri. Þá finnst mér ég ekki vera góður starfsmaður.

1.2.03

Árshátíð - opið hús á laugardögumMagnús lenti í gær í árekstri í innkeyrslunni hjá okkur, hann var að ferja steinolíubrúsa fyrir brennarann því það þarf að kynda undir plötunni sem var steypt á miðvikudaginn. Það er glerhált, snjór og frost fer vaxandi. Ég fór í klippingu hjá Eiríki í Hödd í gær en hann var að loka stofunni fyrir fullt og allt einmitt í gær eftir klippingar í aldarfjórðung en hann byrjaði að klippa þarna fimmtán ára hjá pabba sínum og er núna að fara út í einhvers konar hellisbúaútgerð. Fórum svo á á árshátíð á Sögu í gærkvöldi, aðalræðumaðurinn var hann Jón heilbrigðisráðherra, hann sló í gegn með fínni og fyndinni ræðu og móðgaði engan. Jón er nú eiginlega stjarna vikunnar, hann kom líka vel út úr Kastljósviðtali, virkaði hógvær og íhugull, sagðist hafa talað persónulega við alla sem skiluðu inn mótmælum út af Norðlingaölduveitu og pældi svo í lausn sem mér sýnist sem leikmanni sé ansi miklu betri frá umhverfissjónarmiði. Ég kann vel við svona vinnubrögð, minna mig á Þorgeir ljósvetningagoða sem mælti þau orð sem mér finnast spökust í Íslendingasögum að ef við slítum sundur lögin þá slítum við einnig friðinn. Erpur og Steindór skemmtu með rímnarappi og svo spilaði hljómsveitin í Svörtum fötum. Við litum aðeins á kráarstemminguna í miðbænum á leiðinni heim, komum við á Næstabar, Prikinu, Kaffi list, Kaffibarnum og Grand Rokk. Vorum lengst á Grand Rokk og hlustuðum á hljómsveit sem mér var sagt að héti skíthæll.is spila.

Í morgun fór ég í tölvustofuna í Kennó en ég er að prófa hvernig virkar að hafa svona opið hús kl.10-14 á laugardagsmorgnum fyrir nemendur í framhaldsnámi í upplýsingatækni. Það voru held ég um tuttugu sem mættu, sumir komu langt að t.d. frá Þorlákshöfn. Svo var ég að æfa mig að taka upp og klippa hljóð í hljóðherbergi sem er búið að setja upp í gagnasmiðjunni. Lenti svo í tómu tjóni þegar ég ætlaði að fara að setja þetta á vefsvæði. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði að fá mér bæði svona minniskubb sem tengist í USB port núna þegar ég er að fara að vinna með hljóð og myndir svo ég skrapp í Tölvulistann á leiðinni heim og keypti 128 MB svoleiðis kubb en hann kostaði um 8000 kr.
Er að velta fyrir mér hvernig ég geti samið einhvers konar leiðbeinendur fyrir nemendur sem skilja ekki hvernig vinnugangur í að setja upp vefsvæði er og að flytja skrár yfir frá heimatölvu yfir á vefsvæði. Ætla að skoða hvort ég get ekki notað svona Viewlet kerfi til að búa til svoleiðis.