31.3.03

Beðið eftir fréttum


Ég hef ekkert frétt ennþá af Magnúsi en var áðan að horfa á frétt á BBC um árásina á ISAF friðargæslubúðirnar í gærkvöldi. Ekki er vitað ennþá hver stóð að árásinni en giskað á að það séu Talibanar og Al-Quida. Búðirnar eru rétt hjá ameríska sendiráðinu í Kabúl. Það virðist vera mikið hættuástand í Kabúl og það að flugskeytum sé varpað á friðargæslubúðir á vegum Sameinuðu þjóðanna sýnir að engu er eirt og stríðsmenn í Afganistan beina heift sinni sem magnast dag frá degi að öllum útlendingum í landinu. Eftir fréttinni að dæma virðist vera mikil ringulreið þarna, ég efast um að það sé mögulegt að sinna uppbyggingarstarfi þessa daganna.

Ég las í Afganistan On-line í gær um árásina og terrorista í Afganistan:
German Lt. Col. Thomas Lobbering, spokesman for the 5,000-strong force, said forces loyal to renegade rebel leader Gulbuddin Hekmatyar _ a suspected ally of the Taliban _ have been "reorganizing" for several months.

"To our judgment, they are not capable of reorganizing themselves in any military sense, but they are capable to commit terrorist attacks, suicide attacks, grenade attacks," Lobbering told The Associated Press.


Þetta stríð er ekki bara háð um Bagdad núna, það stigmagnast andóf í löndunum í kring og það er líklegt að terroristar í miðausturlöndum fái með því meðbyr og hefji aðgerðir. Hættulegustu staðirnir eru kannski þeir sem sem merktir eru á á þessu korti War on Terror - what next

30.3.03

Flugskeytaárás og slys


Ég var að sjá eftirfarandi frétt á mbl.is sem birtist fyrir klukkustund þar. Það virðist hafa verið gerð loftárás núna í kvöld á búðirnar sem Magnús er í (afganistan.blogspot.com)
Erlent | AFP | 30.3.2003 | 19:22
Flugskeytaárás á búðir friðargæsluliða í Kabúl
Flugskeytaárás var gerð á bækistöðvar alþjóðlega friðargæsluliðsins í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í kvöld. Sagði Harouun Azzefi, ríkislögreglustjóri Afganistans, að tveimur flugskeytum hefði verið skotið á búðirnar sem eru í nágrenni við sendiráð Bandaríkjanna og forsetahöllina. Enginn mun hafa látið lífið í árásinni.


Rocket Hits Peacekeepers HQ in Kabul
Ekkert er komið um þessa árás á ISAF Kabul
ABC segir: — KABUL (Reuters) - A rocket slammed into the headquarters of U.N. peacekeeping force in Kabul on Sunday, U.N. officials in the Afghan capital said. There were no immediate reports of injuries in the attack on the compound of the International Security Assistance Force (ISAF) situated near the U.S. embassy, they said.

Ég verð mjög stressuð þangað til ég hef heyrt frá honum. Í sjónvarpinu í kvöld horfði ég á viðtal við aldraðan mann sem hafði misst fótinn í loftárás sem var gerð á Seyðisfjörð á stríðsárunum. Svo heyrði ég áðan í útvarpsfréttum hver hefði látist í slysinu á Reykjanesbrautinni og Ásta Lilja sagði mér að A. hefði verið í bílnum ásamt föður sínum sem lést og stjúpu sinni sem liggur mikið slösuð. Ég er búin að vera hugsa um hvað það er stutt milli lífs og dauða. Við höfum fengið að skynja það seinustu daga og erum þakklát að ekki fór verr þegar Ásta Björg lenti út í ánni. Það var bara bíllinn sem er gjörónýtur, hún þarf að vísu að vera í kraga einhvern tíma en er ómeidd. Systir mín er núna í Keflavík með litlu stelpurnar, ég hringdi áðan og bað hana að fara varlega á Reykjanesbrautinni og þá var hún að skoða bíla á bílasölu í Keflavík.

28.3.03

Fimm frænkur í heimsókn


Í seinustu viku fannst mér allt í einu einmanalegt og tómlegt hjá okkur Kristínu, við bara tvær alltaf. Þetta varði ekki lengi og nú hefur húsið fyllst af gestum. Gott að hafa nóg pláss, því fleiri sem koma því betra. Alveg óvænt kom systir mín frá Vestfjörðum með Magneu Gná 5 ára og Þorsteinu Þöll 3 ára og þær verða fram á mánudag. Í dag koma svo Ólöf 13 ára og Signý 10 ára og verða hjá okkur um helgina. Allir gestirnir okkar eru sveitastúlkur, Magnea og Þorsteina búa á bóndabæ í Syðridal nálægt Bolungarvík og Ólöf og Signý munu flytja í vor á bóndabæ í Hjaltadal.

Í gær fór ég á undirbúningsfund fyrir Femínistafélag Íslands í Kvennagarði, þar voru um fimmtán manns. Ég tók nokkrar myndir á fundinum.
Lauksúpa í Kabúl
Var að fá áðan bréf frá Magnúsi í Afganistan sem ég setti strax inn á bloggið afganistan.blogspot.com. Hann sagði frá því að í gær heimsótti hann bókasafnið í Kabúl (skrýtið, Kabúl er milljónaborg, er bara eitt bókasafn þar?) og þar eru hillur ennþá tómar og svo er elduð þar lauksúpa innan um bækurnar. Svona er ástandið og samt er langt síðan Talibanar voru reknir frá völdum. Mér finnst þetta átakanlegt, þetta virðingarleysi við þekkingu sem var eitt af því sem einkenndi ógnarstjórn Talibana. Åsne Seierstad lýsir vel verklagi þeirra í bókinni Bokhandleren i Kabul, lýsir því hvernig Talibanar sem flestir voru ólæsir komu hvað eftir annað í bókabúðina og fletti í gegnum bækurnar og rifu út allar myndir og leituðu að bönnuðu efni. Ég held það hafi allt verið bannað nema einhvers konar trúarlegt efni og fræðsluefni sem passaði við strangtrúarstefnuna. Öll listsköpun var bönnuð nema helst ljóðlist. Bóksalinn seldi samt alltaf undir borðið bannað efni og svo kom að því að einn viðskiptavinur var gripinn eftir að hafa keypt bannaðar bækur þar og bóksalinn lenti í fangelsi.

Talibanar gengu berserksgang á bókasafninu í Kabúl og brenndu og eyðilögðu bækur. Átakanleg er þessi lýsing afgans menntamanns á ástandinu árið 2000 Afghanistan: The Library is on Fire
THE TALIBANS HAVE BANNED ALL MUSIC IN AFGHANISTAN 1998

Tónlist var bönnuð, Netið var bannað. Allt bannað. Það var samt kæfandi kvennakúgunin sem var hrikalegust : When you look at these women wrapped in their burkas, there is an esthetic harmony on the outside, but on the inside, under every burka, there is suffocation. It’s a strange contradiction. As they do not have the right to show their physical beauty they use the beauty of their clothing.

mbl.is birti frétt um bloggarann í Bagdad.

Ég las í vefviðtali hvernig Talibanar hefðu orðið til meðal bláfátækra afganskra flóttamanna sem sóttu strangtrúarskóla í Pakistan. Borgarastyrjöld braust út þegar Sovét innrásarherinn fór og Talibanarnir hrifsuðu völdin.:
A civil war took place. The poorest people took refuge in Pakistan. In the Koran school camps, Pakistan, which has the total support of Saudi Arabia and the United States, created the Taliban group, an army of ignorance. The Afghans, tired of the war, surrendered themselves to this army, which had supposedly come to bring peace and restore order.

Hvað gerist þegar innrásarliðið fer frá Írak?

27.3.03

Villta vestrið og vonda austrið


myndskreyting í Aftenposten.no eftir Grødum

Umhverfið í stríðinu núner er villta vestrið þar sem kúrekahetjur eltast við bófa. Þegar leitin að Bin Laden hófst var það kynnt með "Wanted...Dead or Alive" og þannig vísað beint í vestramyndirnar og dregin upp lína milli bófanna og hetjunnar. Hetjur kúrekamyndanna komu á röð og reglu, þar var heimsmyndin sýnd þannig að réttlát og réttsýn siðmenning sigraði framandi heiðingalýð.

Nú snýst mýtan um landamæri, landamæri góðs og ills, landamæri siðmenningar og villimennsku og um skyldu hinna siðmenntuðu að berjast gegn villimennskunni og illskunni :"Amerikaneren har en plikt, ikke bare overfor Gud, men overfor selve Historien, til å sivilisere verden ved å nedkjempe barbariet, eller som nasjonalsangen sier det: «Conquer we must when our cause it is just.» " las ég í þessari grein í norska blaðinu Bergens Tidende um USA og westernmyten.

Annars er stríðið háð í sjónvarpinu bæði í Bagdad og á Vesturlöndum og það er mismunandi mynd sem dregin er upp eftir því hver segir fréttirnar :Krigens første offer er fjernsynsseeren
Það er erfitt að flytja fréttir frá Bagdad en minn eftirlætis fréttaritari er hin norska Åsne Seierstad sem nú kemst hvorki lönd né strönd og er bara í Bagdad og segir heimsbyggðinni frá Ali sem selur varahluti nálægt einni brúnni yfir Tígrisfljótið.

Vanskelig for pressen i Bagdad
Seierstad lýsir ástandinu í Bagdad 26. mars vel í greininni Bagdad holder pusten


Draumar
Í gærmorgun vaknaði ég upp í draumi, ég var stödd á jökli eða fjalli og að mér fannst við inngang að einhverjum helgistað. Þar voru tvær verur í einkennilegum búningum, kínverskum miðaldabúningum að mér fannst og andlit þeirra sáust ekki, þær voru með slétta litla silkidúka fyrir andlitinu. Mér fannst sem þær væru að koma þarna í einhvers konar helgiathöfn eða jarðarför barns síns - eða réttara sagt hluta þess, það virtist bara hafa varðveist af því einn illa útleikinn fótur og þær voru þarna til að jarða þennan eina fót. Ekki beint jarða, frekar að varpa inn um þennan inngang sem var þarna. Mér finnst ég fara líka inn um þennan inngang og vera þá stödd í risastórri hvelfingu og ég gat flogið eða svifið þarna.

25.3.03

Dverghermenn


Forsíðumyndin í Mogganum í dag var ekkert smart. Hún var svo lítið flott að það þurfti skýringatexta undir myndina til að útskýra að myndin væri ekki af því sem hún virtist vera af. Myndin var af hermönnum í því liði sem við höldum með vera að miða byssum að hópi fólks sem sem hafði verið tekið til fanga í hernaði og var mjög yfirbugað á svip og upp með hendur. Neðanmáls var skýring á því að þetta væru hermenn að handtaka hermenn sem hefðu dulbúið sig sem borgara. Maður bara býst við að á morgun komi á forsíðunni mynd af hermönnum að miða byssum að barnahóp og fullyrt verði að það séu dverghermenn sem hafi dulbúið sig sem börn. En jafnvel þó hinir buguðu hafi verið hermenn þá er þetta brot á sáttmálum um meðferð fanga þ.e. svona fangasýning til að sýna velgengni í stríðinu.

Ég dáist af öllum fínu skýringarmyndunum sem finnast á Morgunblaðsvefnum svo sem um verndun olíusvæða sem er víst mikið forgangsatriði. Einhvern veginn finnst mér þessi framsetning á stríðsskýringarmyndum á mbl.is minna mig á tölvuleik eins og Empire Earth.

24.3.03

Sannar sögur


Búum við í heimi þar sem eftirlíkingin er orðin raunverulegri en "raunveruleikinn" sjálfur? Það segir menningarfræðingurinn Baudrillard og ég held hann hafi heilmikið til síns máls. Hann skrifaði bók um Persaflóastríð sem var ekki háð, en það er byggt á blaðagreinum sem hann skrifaði 1991 þegar stríðið var í hámarki. Eða eins og Geir Svansson segir í inngangskafla bókarinnar Frá eftirlíkingu til eyðimerkur: "Baudrillard benti á að stríðsreksturinn væri enn eitt dæmið um ofurraunveruleikann þar sem hátæknibrellur væru í aðalhlutverki. Hörmungarnar og dauðinn væru aðeins sýndarverulegar eftirlíkingar sem við Vesturlandabúar fylgdumst með í beinni útsendingu í fullkomnu fálæti."

Það eru tvö nýleg dæmi sem sýna mér mátt eftirlíkinga á íslenska fréttamenn og íslenska alþingismenn. Annars vegar var það myndin Lilja4ever sem var núna sýnd nýlega. Myndin er áhrifarík leikin saga um mansal og vændi. Þingmaður lýsti yfir í fjölmiðlum að það ætti að hafa sérstaka sýningu fyrir alþingismenn á myndinni, það myndi sannfæra þá um hve mansal og vændi væru átakanleg vandamál og mig minnir að líka hafi verið vitnað í þingforseta sem tók bara vel í svoleiðis sérstaka kvikmyndasýningu fyrir íslenska alþingismenn. Hitt dæmið er fréttaflutningur í RÚV á föstudagskvöldið af mótmælunum við Stjórnarráðshúsið. Þar höfðu listnemar atað sig blóði eða rauðri málingu og léku gjörning eins og þeir væru dauðir eftir skotárás. Fréttamaðurinn sem gekk um meðal hinna "slösuðu og látnu" lýsti með stórum orðum hughrifunum og hve líkt þetta væri bara eins og að vera í hringiðu átakanna.

Fréttamenn og alþingismenn láta hrífast af eftirlíkingum af raunveruleikanum og stundum finnst mér eins og það sem berst til mín gegnum ljósvakann séu eftirlíkingar af eftirlíkingum. En nú er háð sálfræðistríð.

23.3.03

Moggablogg


Gaman að fletta Mogganum í dag, það er heilsíða um blogg. Vitnað heilmikið í mig og Má og stór mynd af okkur það sem bloggið "Jafnréttismál hjá stúdentum eru skrípaleikur" fellur á okkur. Svo er líka mynd af Unni sem er líka femínisti. Svo er á baksíðu fjallað aðeins um greinina og líka á www.mbl.is. Svona er bloggið orðið merkilegt, það er orðið forsíðufrétt í málgagni allra landsmanna og ekki nóg með það, Matthías Viðar verður með kúrs í samtímabókmenntum í háskólanum á næsta skólaári og sá kúrs heitir Blogg, blogg, blogg og fjallar um þessa nýju og merkilegu bókmenntagrein - bloggið. Rosalega er ég roggin yfir þessu moggabloggi og að vera "...ein af fyrstu bloggurunum..."
Úffff....skattskýrslan bíður.... ÓbÆÆæærrRrillega leiðinlegt verkefni... best að lesa nokkur blogg fyrst... skoða fréttir af stríðinu....skrifa öllum sem ég þekki tölvupóst... lesa allar greinarnar sem eru komnar á femínistapóstlistann...nei, annars...best að fara í skattskýrsluna...

Útafakstur á Vestfjörðum



Systir mín kom í morgun frá Borgarnesi. Hún vaknaði í morgun við hringingu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Lögreglan var að tilkynna henni að Ásta Björg dóttir hennar hefði keyrt út í á þegar hún var í morgun að keyra Óshlíðina milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Ásta Björg er sautján ára og fékk bílpróf núna í janúar.Sem betur fer slapp Ásta Björg ómeidd og komst út úr bílnum. Hann er talinn gerónýtur og verður dreginn úr ánni í dag. Það var krap og hálka og hún missti stjórn á bílnum við brúna yfir Ósá.
Í gær var steypt þakið á húsið sem ég er að byggja. Ég fór og fylgdist með. Fór svo á fund með undirbúningsnefnd Femínistafélags Íslands.
Á miðvikudagskvöldið fór ég í veislu á Skólabrú. Á föstudagskvöld í matarboð og spilaklúbb í Kópavog. Í kvöld kom vinkona mín í mat hingað.

21.3.03

Innsprenging í Bagdad



"Með hinni nýju rafrænu miðlunartækni voru hlutir ekki lengur aðskildir í rúmi og tíma. Heimurinn hafði fallið saman og orðið að einum stað og einum tíma". Nú þegar ég skrifa þá er sjónvarpið á og BBC segir frá gríðarlegum sprengingum og hernaði sem færist nær Bagdad. Mér líður illa.

Hafa tími og rúm runnið saman? Ég fór í haust á málstofu um heimsþorpið og las grein Þrastar Helgasonar í Lesbók Morgunblaðsins 19. október, 2002 - EIN JÖRÐ - EIN DAGSKRÁ.

Þröstur endar greinina á þessum orðum:
"McLuhan sagði að stríð væri aldrei neitt annað en "aukin hröðun á tæknilegum breytingum". Stríð eru ávallt háð með nýjustu tækni. Til þess að hafa betur í stríði þarf að vita hvaða áhrif nýjasta tækni hefur á manninn og umhverfi hans. Svo virðist sem örveldi bin Ladens hafi áttað sig betur á því en stórveldi Bush. Og fyrir áhrif hinnar hnattvæddu fjölmiðlunar hefur örveldi bin Ladens orðið að eins konar miðju þessa heims en vandinn er hins vegar sá að þrátt fyrir það finnst það hvergi. Og einmitt það benti McLuhan á: Miðjan er nú alls staðar og hvergi. Allar línur í landslagi samtímans skerast. Það er kjarninn í stríði, pólitík, valdabaráttu á tímum innsprengingarinnar."

19.3.03

Saumaskapur í Afganistan


Magnús hefur svolítið aðra sýn á samfélagið í Afganistan og ég. Líka hvað er sniðugt að gera til að styðja uppbygginguna þar. Hann skrifar mest um hvað er að gerast á herkampinum þar sem hann dvelur og þar snýst lífið um hermennsku og aftur hermennsku.

En það var smáklausa um saumaskap í bréfinu hans frá því í gær. Hann skrifar í gær: "Keypti 3 burkha til að styrkja afganskar saumakonur. Sendi þá heim til Íslands." Þetta er dáldið skondið. Burkha kuflinn er sterkasta táknmyndin fyrir kúgun og ósýnileika kvenna í Afganistan. Það eru hugsanlega til aðrar leiðir til að styrkja konur í Afganistan en kaupa af þeim bróderaðar táknmyndir fyrir kúgunina. Svo er spurning hverjum hann ætlað þessa kufla. Á ég og dæturnar að fá þá? Ég hef grun um það.

Stríð við Írak



Það er voða erfitt að leiða hjá sér þetta yfirvofandi stríð við Írak. Ég sá mótmælin fyrir framan Stjórnarráðið í gær og undanfarna daga hefur fjölmiðlar varla fjallað um annað. Svo fæ ég daglega bréf frá Magnúsi í Afganistan og það fjallar mest um stríð og herbúðalíf, hann er kominn með sérstakt blogg afganistan.blogspot.com.
Það voru hrópuð slagorð fyrir framan Stjórnarráðið í gær og þar var slegið á trommur. Þarna var mest kornungt fólk en líka nokkar reyndir kröfuspjaldahaldarar. Mér heyrðist það vera Birna Þórðardóttir og formaður Albaníuvinafélagsins sáluga sem leiddu hrópin þegar mig bar þar að. Þá var byrjað að hrópa "Niður með stjórnina" en áður var búið að hrópa oft "Ekkert blóð fyrir olíu". Mér sýndist þessi öldnu mótmælendur vera í essinu sínu og vera að upplifa gamla tíma þegar heimsmyndin var skýr, óvinurinn var USA og draumalandið var sæluríki kommúnismans. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði formann Albaníuvinafélagsins segja frá árlegum heimsóknum til Albaníu en þeir voru held ég alltaf bara tveir í því félagi og fóru báðir. Þá var Albanía lokaðasta ríki heims og það var sérstakur heiður sem bara veittist nokkrum útvöldum að fara í heimsókn þangað. Þar réði Hoxa öllu. Þeir voru teknir beint á flugvellinum og settir í klippingu enda var engum rytjulegum hippum leyft að vera í landinu og svo voru þeir í skipulegt prógramm að sjá það sem stjórnvöld í Albaníu vildu að útlendingar sæu af Albaníu.

18.3.03

Sannir karlmenn


Siggi pönk dreifir barmmerkjum með slagorðinu: "Sannir karlmenn eru femínistar". Það finnst mér töff. Mér finnst alltaf töff þegar fólk er lætur sig varða mannréttindi annarra hópa en það tilheyrir sjálft. Ég tók nokkrar ljósmyndir á stofnfundi femínista. Það eru margir bloggarar femínistar eins og sjá má á myndunum og umræðunum á femínistapóstlistanum. Núna eru víst yfir fjögur hundruð komnir á þann lista. Geir hefur sig mjög í frammi á póstlistanum en maður hefur næstum samúð með honum, hann er púaður svo mikið niður. Hann hlýtur að vera beygður maður.
Bryndís Ísold tók líka myndir á stofnfundinum.

14.3.03

Femínistavikan búin


Var áðan á stofnfundi Femínistafélags Íslands í Miðbæjarskólanum. Fór með dætrum mínum á fundinn. "Er ég femínisti?" spurði Kristín Helga áður en við fórum á fundinn. "Já, þú ert það." svaraði ég.

Myndir frá 20 ára afmælishátíð Kvennalistans 13. mars 2003


Fór í gærkvöldi á afmælishóf á Hótel Borg. Hér eru myndir sem ég tók. Það var ansi gaman, hitti aftur margar sem ég hef ekki séð í mörg ár. Ég starfaði mjög mikið í Kvennalistanum í Reykjavík í nokkur ár eða allt fram að því að Reykjavíkurlistinn og þar með Kvennalistinn tók við völdum í borginni. Eiginlega finnst mér það hafa verið endalokin á Kvennalistanum þó hann hafi verið til sem hreyfing í mörg ár eftir það. En það var kannski bara töff að enda á toppnum og að hreyfingin eyðist upp þegar konur í listanum komast til valda. Kvennalistinn hafði alla vega miklu meiri völd stjórnun Reykjavíkur heldur en stuðningur við hann var, ekki síst vegna þess að borgarstjórinn var Kvennalistakona og hreyfingin var í oddaaðstöðu þegar Reykjavíkurlistinn bauð fram í fyrsta skipti. Þegar ég leit yfir þennan hóp á Borginni í gær þá finnst mér að Kvennalistinn hafi verið merk hreyfing sem hafði og hefur ennþá mikil áhrif. Það voru um sjötíu konur þarna í gær og þær eru flestar ennþá virkar í ýmis konar starfi sem tengist því að upplýsa fólk, breyta skoðunum og hrinda í gegn umbótum. Sumar taka þátt í stjórnmálabaráttu annarra hreyfinga, flestar í Samfylkingunni en nokkrar líka í Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki.

Borðhaldið var skemmtilegt, ég sat við hliðina á Rannveigu Löve sem er ein af þeim elstu af systrunum fimmtán úr Sogamýrinni og Skúlínu sem ég hef reyndar bara einu sinni hitt áður, það var í haust þegar ég átti að vera að kenna í tölvuveri KHÍ en það hafði verið tvíbókað og var Skúlína þar fyrir að kenna nemendum á námskeiði í Listaháskólanum. Hún er hönnuður og vinnur við búa til tölvuleiki og gæðastjórna tölvuleikjaframleiðslu, vinnur núna við leik sem á að koma út bráðlega hjá CCP og heitir "Eve: The Second Genesis". Svo voru líka við borðið kátar systur úr Hafnarfirði og Þórunn þingkona sem reyndar þurfti að bregða sér frá til að stofna eitthvað samfylkingarfélag í Garðabæ, Unnur sem hefur skrifað um kynbætur á mönnum og Eydís sem skrifar um hve litla samúð konur með einn í útvíkkun fá.

Sem sagt, skemmtilegt borðhald og mikið skálað, sungnir helgisöngvar eins og "Dómar heimsins dóttir góð..." og baráttusögnvar eins og "...þori, vil ég, get ég, já ég þori, skal og get og vil...", söngsveit og söguskýrendur tróðu upp og minningar um fyrstu árin og fysta blaðamannafundinn... hvernig Helga Kress hefði verið snögg upp á lagið þegar hún var spurð "Hvað ætlið þið að gera í hafnarmálum?" svaraði hún bara: "Við ætlum að setja grindverk utan um bryggjurnar til að börn detti ekki í sjóinn" og svo hvernig Helga Jóhanns hefði verið eins konar guðmóðir Kvennalistans. Svo leiddi Elsa sams konar salsaæfingu og var um árið á landsfundinum á Dýrafirði og Kristín dansaði upp á borðum á meðan salurinn söng um fjallkonuna Möggu sem býr ein í bragga við auman kost eftir að útlendingarnir eru farnir og æskublómi hennar horfinn.
En texti Jóhannesar úr Kötlum við Valgeirs Guðjónssonar barst út í nóttina:
Dómar heimsins dóttir góð
munu reynast margvíslegir
trúðu sjálf á sannleikann
hvað sem hver segir.

13.3.03

Feminísk vika



Þetta eru myndir frá Silfri Egils seinasta sunnudag þar sem ungu mennirnir sem eru núna að taka við stjórnartaumunum og orðræðunni á Íslandi voru að æfa sig í orðavaðli. Kemur það femínisma eitthvað við? Sumum finnst það ekki. Þeir um það.

Þetta stefnir í að verða ansi femínisk vika í lífi mínu. Á föstudaginn hélt ég upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að fara á samkomu sem Bríet-konur héldu á 22. Þar var rætt heilmikið um femínista og ekki síst hvernig ástandið er í stjórnmálum og fjölmiðlum. Talað var um að það væri ekki nóg að fá fleiri konur á þing og í fjölmiðla, það þyrfti fleiri femísta. Samkomunni lauk með því að kvennabandið Rokkslæðan spilaði nokkur lög. Annað kvöld ætla ég fara út að borða með öðrum Kvennalistakonum og halda upp á að það eru 20 ár síðan Kvennalistinn var stofnaður. Það er langt síðan Kvennalistinn leystist upp og sú upplausn hófst löngu áður en síðustu brotin af honum runnu saman við Samfylkinguna. Ég held það sé reyndar allt í lagi að hreyfingar spretti upp, vaxi og dafni fyrir atorku og áhuga þeirra sem í þeim starfa og veslist upp og lognist út af fyrir áhugaleysi og sundurþykkju - ég held að samfélög og hreyfingar séu eins konar lífandi verur sem vaxa og þroskast og staðna og hjaðna og deyja út. En ef málstaðurinn er ennþá brennandi þá kemur annar sem tekur við kyndlinum og á föstudagskvöldið stendur til að stofna íslenskt femínistafélag og ég ætla að mæta þar.

12.3.03

Frá herkampi í Afganistan


Var að fá bréf frá Lt.Col. Gislason sem núna er í þýska hernum í herkampi í Afganistan ásamt nokkur þúsund manna liði frá 16 þjóðum. Þar er lýst lífi þar sem menn ganga í skotheldum vestum og setja á sig vélbyssuna og skammbyssuna þegar their fara á fætur á morgnana og taka þetta ekki af sér fyrr en á kvöldin. Sjónvarpið sýnir bara stríðsmyndir og á kampinum eru barir og samkomustaðir.
Og þó að Magnúsi finnist Kabul ekki falleg borg, er fjallahringurinn stórglæsilegur, snævi þaktir tindar allt um kring. En hann sér aðeins leir og grjót, göturnar ýmist drulla eda ryk. Í Kabúl tók á móti honum sundurskotin flugstöð, víggirt með sandpokum og gaddavír.   Alls konar hertól voru þar i kring, t.d. skriðdrekar og stórir trukkar með vélbyssum.

10.3.03

.af fyrir Afganistan


Þetta er merkisdagur fyrir netvæðinguna í Afganistan, nú er landslénið af komið aftur í gagnið. Magnús hringdi í dag, hann er kominn til Kabúl. Nú er bara að sjá hvort hann kemst í netsamband þarna. Hann er þarna í friðargæslusveit sem á að vinna að uppbyggingu skóla, heilsugæslustöðva og lögreglustöðva. Friðargæslusveitirnar heita ISAF og það er víst ekki allt með spekt þarna, ég las það hefði verið gerð sprengjuárás á friðargæslusveit á föstudaginn var. Konur í Kabúl héldu upp á alþjóðakvennadaginn á laugardeginum. Það er virkilega alvarlegt ástand í landinu og hagur kvenna hefur lítt batnað þó að Talibanar hafi verið hraktir frá völdum. Það segir Fatana Said Gillani sem stýrir kvennaráði Afganistan og hún segir líka: "Until and unless the previous criminals and warring groups are kicked out of power, Afghan women will have no political development”. Ég er ekki búin að kynna mér nóg afgönsk stjórnmál til að ég viti hvað hún á við en ég hef samt séð að stríðsherrar eins og Dostum og Gul Agha hafa ekki gott orð á sér.

Talibanar bönnuðu nánast allt og sérstaklega allt sem viðkom konum, þær voru ósýnilegar, rödd þeirra mátti ekki heyrast. Reyndar mátti ekki einu sinni heyrast að kona væri á ferð. Ó, hve létt er þitt skóhljóð... gæti verið ort um afganska konu... það var meira bannað að það heyrðist í sköm kvenna sem gengu um stræti. Svo þurfti að vera málað yfir glugga þar sem konur voru fyrir innan. Talibanar heimtuðu að allir menn væru með skegg og túrbana. Þeir bönnuðu og bönnuðu - eiginlega var flest bannað svo sem tónlist, skák og að fljúga flugdrekum. Og auðvitað var Internetnotkun harðbönnuð. Ég get engan veginn skilið hugsunarhátt Talibana, skil þetta ekki frekar en hugsunarhátt Nazista sem vildu útrýma Gyðingum og gerðu þá að blóraböggli fyrir einhverja innbyggða sameiginlega gremju. Las eftirfarandi um Talibana sem voru aldir upp í einangruní einhvers konar strangtrúarskólum í Pakistan, sérstaklega komu flestir frá Haqqania: "....Haqqania seminary in the North-West Frontier province, thinktank of Taliban policy. There she makes an important connection between the isolation of boys in such seminaries, and probable psycho-sexual abuse sanctioned by Pashtun custom, which left young Talibs silently angry, and converted them to priggish thugs who projected their frustration outwards as hatred of women.."

En það er ekki eins og Talibanar hafi fundið upp kvennakúgunina á þessum slóðum. Hún var þar fyrir. Þeir komu á friði. Ég las:"..For the Pashtuns of the south, the Taliban did not mean oppression and taking away women's rights. They had never known anything different. However, the Taliban did bring freedom from thugs and the rule of the gun. " Það er líklegt að Talibanar hafi töluverða samúð hjá almenningi af Pashtun uppruna.

Dáldið erfitt að venjast því að vera einstætt foreldri aftur. Kristín er búin að vera veik frá því að Magnús fór.

8.3.03

Bokhandleren i Kabul
Ég er búin að lesa bókina Bokhandleren i Kabul.
Magnús er farinn. Fór í gær til Kölnar og sendi áðan SMS og sagði að hann er núna ásamt 200 hermönnum frá ýmsum Natóþjóðum í skemmu á herflugvelli að bíða eftir flugi til Austurlanda.