30.4.03

Faust á Valborgarmessunótt
Faust á á Valborgarmessunótt

Cogito ergo feminista sum


Jæja, nú er undirbúningur undir fyrsta maí á fullu. Ég er búin að setja upp vefsíðu fyrir hátíðarhöldin og setja auglýsingu á forsíðu á www.feministinn.is og feministinn.blogspot.com. Setti líka upp vefsíðu almennt um fyrsta maí, ég á nú eftir að bæta heilmiklu efni þar inn á.Vona að það rigni ekki mikið á morgun. En ef það gerist þá verður bara að hafa það. Ég fer þá bara með bleika regnhlíf í gönguna.
Eftirlætis slagorðin mín eru:
Ég hugsa - þess vegna er ég femínisti og það sama á latínu Cogito ergo feminista sum
Sannir karlmenn eru femínistar
Ég er líka femínisti

Þetta seinasta er samt ekki á bolunum, en það kom fram í uppástungum á póstlistanum. Mér finnst það svo flott vegna þess að það segir að maður sé samsettur úr mörgu, maður sé margt annað en líka femínisti. Og svo er hægt að taka það á annan hátt, þannig að maður sé að sýna samstöðu. Ég kann vel við margræð slagorð. Líka margræð ljóð. Þegar ég var út í USA við nám vann blökkustúlka í fyrsta skipti fegurðarsamkeppnina Úngfrú Ameríka. Hún var hundelt af fjölmiðlafólki og spurð hallærisspurninga eins og hvernig væri að vera svona svört fegurðardrottning. Hún svaraði: "Being black is the least of what I am" og allt varð vitlaust. Hún var ásökuð um að afneita kynþætti sínum og niðurlægja svertingja. Það hefði kannski verið smartara ef hún hefði haft tækifæri til að segja: "I am also black"

28.4.03

Óskipuleg ritskoðun eða ofsóknir?Friðbjörn skrifar um það sem hann kallar ofsóknir femínista og Svanson skrifað í framhaldi af því. Friðbjörn segir m.a. "Sem betur fer eru uppi áform til að mæta þessum aðgerðum feminista og brjóta ógnarstjórn þeirra á bak aftur."
Ansi er ég svekkt yfir því að Svanson skuli ekki vera kominn ennþá í femínistafélagið. Það væri mikill fengur fyrir friðsamlegt aktívistafélag sem berst fyrir mannréttindum og að ekki sé traðkað á rétti einstaklinga að fá hann til liðs við sig. Mér finnst hann skrifa góðan pistil í dag Skipulögð ritskoðun? Reyndar held ég að sú ritskoðun sem hann og aðrir upplifa að femínistar standi fyrir sé ansi óskipulögð. Það hafa ekki allir femínistar sömu sýn á hvaða vinnuaðferðir séu bestar og það væri virkilega gott að fá sýn skynsamra manna sem trúa á einstaklingsframtakið eins og Guðmundar Svansonar á því. Ekki fara í stríð. Freka taka rökum. Annars er fróðlegt að spá í hvort frjálshyggja og femínisti séu tveir andstæðir pólar.

Feminisminn breiðist út


Ég var alveg steinhissa þegar ég kom frá Finnlandi í nótt og kíkti á umræðuna á Netinu. Maður bara bregður sér út fyrir landsteinana eina helgi og hefur það næs í finnsku gufubaði með stelpunum á hólma í ánni sem borgin Joensuu er reist kringum og hugsar um vatn - um vatnið í ánni, gufuna í gufubaðinu, gjálfrið í gosbrunninn á flugvellinum, skýin í háloftunum og snjóinn á götunum og les Fakta om Finland sem er saga um mann sem hugsar líka um vatn og býr til ferðabæklinga en vill ekki ferðast sjálfur - hann er á móti breytingum og vatn er breytingar og ferðalög eru breytingar.

Svo er líka breyting að femínisk umræða sem mál málanna á Tilveran.is. Og það er líka breyting að vefsetrið www.rantur.com sé dáið drottni sínum, hver sem hann nú er, alla vega var það ekki femíniskur drottinn sem yfir þeim vakti. Það virðist hafa gerst eitthvað fyrir tilstilli femínista. Svo fannst mér gaman að sjá að femínistar og aðstandendur fegurðarkeppninnar Ísland.is eru bandamenn þegar á reynir, bandamenn í því að fólki leyfist ekki að svívirða nafngreindar stúlkur í opinberu rými. Ég er ekki alveg komin inn í málið því ég hef ekki ennþá fundið tíma til að lesa meira en hundrað bréf frá femínistapóstlistanum sem bara komu um helgina. Mér sýnist femínistaumræðan vera heitasta umræðan í íslensku þjóðfélagi í dag. Og hún virkar.

Annars sé ég að Tilveran hefur tekið heilmikið upp af efni frá mér, bæði af feministinn.blogspot.com og af www.asta.is/kyn og orðalagið Femínistar fara offari kemur þaðan, það er frá sniðugum og brosmildum krakka sem bar svoleiðis skilti í fyrsta maí göngunni í fyrra. Ég veit ekki alveg hversu mikill heiður það er að Tilveran vitni svona mikið í efni frá manni, en fagna því að umræðan nái til fleiri og ef þetta er ekki gert til að gera lítið úr og snúa út úr þá er þetta sennilega bara hið besta mál. En sums staðar hafa þeir tekið greinar frá mér þar sem er efni frá öðrum t.d. í pistlinum Glyðrugildran þá hafa þeir tekið líka með bréf frá Arnari á Mbl. sem ég fékk sérstaklega leyfi hjá honum til að pósta á blogginu feministinn.blogspot.com. Það verður að athuga að umræður á femínistapóstinstanum ERU EKKI OPINBERAR og það varðar við höfundarrétt að pósta þær á bloggi nema með leyfi þeirra sem skrifa. Ég skrifa þetta hérna í veikri von um að aðstandendur Tilverunnar lesi þetta og gæti sín betur í framtíðinni. Ekki ætla ég samt að böggast út í að þeir taki efni frá mér svo framarlega sem það er ekki illa meint hjá þeim og þjónar málstaðnum og vekur athygli á femínisma.

25.4.03

Sumarkvedja fra Karelia


Eg er nuna stodd i borginni Joensuu i Finnlandi. Borgin er nalaegt Russlandi og er midja Karelia svaedisins i Finnlandi. Karelia er reyndar badum megin vid landamaerin, stor hluti i Russlandi. Eg fagnadi sumardeginum fyrsta ad vanda med vef, setti upp fyrstu drog ad vef um fyrsta mai

9.4.03

Ekki vinnufriður hjá Magnúsi


Það gengur á ýmsu þarna á herkampnum í Afganistan hjá Magnúsi, í dag skrifar Magnús að það sé ekki vinnufriður fyrir eldflaugaárásum og jarðskjálftum.

Svo sá ég í þessari frétt að fyrsti námshópurinn í upplýsingatækni var að útskrifast frá háskólanum í Kabúl og það eru sex konur í hópnum. En það er barist þarna og Bandaríkjamenn felldu óbreytta borgara í gær í ógáti.

8.4.03

Hamingjusama hóran, rannsóknir og hagsmunaaðilar


Snörp orðaskipti eru á femínistapóstlistanum um hamingjusamar hórur, hvort þær séu til.

Hér tók ég út skrif mín.
Mér var bent á að þau væru afa kvikyndisleg
Þau voru það.
****** Ég biðst innilega afsökunar, mér þykir þetta mjög leiðinlegt *****

Úr þessu er ekki hægt annað en læra á þessu. Lexían er sú að það virkar oft miklu beiskara það sem maður skrifar á prenti en ef maður hefði sagt það. Einnig verður að vara sig sérstaklega þegar maður vitnar í orðræðu annarra og tengi í efni annarra og setur það í samhengi við eigin skrif - setur það í samhengi sem sá sem skrifar er ekki sáttur við. Ég vil taka fram að ég virði mikils skoðanir Bjarna sem ég vitnaði í þessu tilviki og er oftast nær innilega sammála því sem hann segir. Nema í sambandi við viðhorf til vændis og kynlífsþjónustu og þessi færsla fjallaði um það.

Megi aðrir sem tjá sig á bloggi læra af þessu.

7.4.03

Klámvæðingin tröllríður öllu
Ég fór á Stígamótafundinn á föstudaginn um klámvæðingu þar sem Kolbrún kom, sá og sigraði og lét klámmyndablað ganga og skilgreindi hvað er klám. Það er allt vaðandi í klámi og kynfæratengdu efni. Völsadýrkun nútímans sést víða, svo sem á samkomum bókmenntafræðinema en blótmunir eru núna úr plasti eða latexi. Svo á að færa upp leikþáttinn Pupperty of the penis sem er eins konar tippaföndur. Kannski fróðlegt að bera það leikrit við Píkusögur. Ég held að áhersla á kynfæri og líkama verði að skoðast í samhengi við breytt viðmið - þetta sé tengt því að skoða heiminn út frá einstaklingnum og skynjunum hans.

Svo var ég að uppgötva að ein rásin á breiðbandinu er klámrás, það er nú frekar meinlaust efni sýnt þar sýndist mér, alla vega miðað við það sem flýtur á Internetinu. Er ekki einu sinni viss um að það flokkist undir klám skv. skilgreiningunni sem Kolbrún les upp. Kannski ekkert verra en ofbeldisefni og "Make love - not war" er nú eins mikil speki í dag og það var á tímu Vietnamstríðsins.

Táknmyndir og stríð


Í greininni Metaphor and War, Again eftir George Lakoff fjallar hann um hvernig táknmyndir eru notaðar til að réttlæta stríð. Hann bendir á hvernig utanríkisstefna Bandaríkjanna notar einn mann sem tákn fyrir þjóð, hvernig Saddam Hussein er tákn fyrir óvininn og hvernig stríðið sem nú er háð felur alla aðra Íraka sem þjást í stríðinu.

5.4.03

Stemming í stríðinu


Sé á fréttavefjum að nú er hart barist í Bagdad. Allir eru að frelsa íröksku þjóðina. Eftir fréttamiðlunum að dæma finnst fólki þar mjög gaman að láta frelsa sig. Ég sá myndskeið með Saddam þar sem hann er umkringdur fullt af fólki og rífandi stemming hjá þeim og þeir voru glaðir og sigurhreifir í bragði. Ég sá líka myndskeið af þegar hersveitir USA fara inn í bæi og glaður og fagnandi almúginn vinkar þeim á götunum í svona 17 júní stemmingu.Svo voru líka í DV í gær myndir af amerískum hjúkrunarliða í einni hersveitinni með nýfætt barn í fanginu og yfirskriftin var Hermenn koma barni í heiminn. Allir eru sem sagt að hjálpa öllum og allir velkomnir.

Er stríðið svona? Eða er stríðið sprengjuregn og eldglæringar og götubardagar? Eða er stríðið fyrir flesta seta fyrir framan fréttamiðlanna bíðandi eftir fréttum og metandi áreiðanleika þeirra.

3.4.03

Femínistavorið - grænjaxlar og krækiber


Frjóangar femínistavorsins á Íslandi teygja sig núna um bloggberjalandið. Upp úr grasrótinni hafa sprottið mörg grös og það er Netið sem er svörðurinn, femínistapóstlistinn hefur legið í jörð og vaxið allt frá 10. febrúar þegar hann var stofnaður. Í fyrradag voru yfir þrjú hundruð skráðir á póstlistann. Það er búið að halda tvo gífurlega velsótta fundi og stofna félag og það var nýlega heil opna í Morgunblaðinu um femínistavorið á Íslandi.

Ef maður les blogg þessa daganna þá hefur maður á tilfinningunni að flestir bloggarar séu femínistar, það sé bara spurningin um hvers konar femínistar. Það er líka áberandi hvað bloggarar hafa verið virkir á femínistapóstlistanum því í umræðu um mannréttinda- og þjóðfélagsmál er gott að vera þjálfaður í að tjá sig á beinskeyttan og látlausan hátt og hlusta á rök annarra. Það er líka gaman að fylgjast með þróuninni, þarna er að spretta upp mannréttindahreyfing og hún vex upp sem netsamfélag þó hún teygi líka anga sína yfir í raunheiminn og prentmiðlana.

En svona er umræðan:
Unnur gerir upp sinn femínisma, hún vill bæta kynferðislega sjálfsmynd/ímynd og Bragi skrifar grein um hvernig hann upplifir sig sem femínista. Örvitinn ætlar að fylgja Unni stíft eftir í sínum femínisma. Óli Gneisti segir flatt nei í sínum femínisma og vill ekki ýta undir lært hjálparleysi og úrræðaleysi. Erla er búin að skrá sig í tvo málefnahópa hjá femínistafélaginu.

Bjarna finnst skrýtin tilfinning að upplifa sig að vera í minnihluta og mæta fordómum bæði vegna kynferðis og vegna skoðana sinna. Bjarni skrifar um hve erfitt er að vera karlmaður í hópi femínista og segir "Þegar karlmönnum er svarað á póstlistum þá eru reglulega notaðir frasar eins og "þið ungu mennirnir" og fleira í þeim dúr, svona orðræða sem virðist hönnuð til að skapa fjarlægð milli "okkar" og "þeirra". "

Potturinn er grænjaxl í femínismanum og spáir bara í trukkalessur. Már er miklu þroskaðri, hann er orðinn krækiber og það ansi kreist. Hann skrifar pistilinn Helvítis krækiberið ég þar sem hann lýsir hvað það er leiðinlegt að opna munninn á Femínistapóstlistanum ef maður er ekki af réttu kyni því vissir karlfordómar virðist djúpt greyptir inn í femínistakúltúrinn. Binni er jafnréttissinni og pælir í hvort karlmenn geti verið femínistar.

Dömustaðir og Már syrgja að hafa ekki komist á Hlaðvarpafundinn og Jósi skilgreinir sig sem femínista, hann segist vera maskúlínisti og segir að það sé aldrei að vita nema hann dúkki upp á fundi hjá feministafélaginu einhverntímann. Andri ætlar líka að skrá sig því hann heldur að hann sé líklega femínisti (þegar hann er ekki upptekinn við að vera svín)

Hr. Muzak heimtar jafnrétti strax og er fokreiður út af Flugleiðaauglýsingum, hann vill að yndisþokki hans og annarra íslenskra karlmanna sé auglýstur upp.
Svanson hefur verið að kynna sér femínisma frá Rósu-fundinum en honum finnst ennþá allt vera í góðu gengi í samfélaginu varðandi kynjamálin og segir það " ... pínulítið sorglegt að verið sé að stofna öflugan félagsskap sem virðist ganga út óþarfan fjandskap við ímyndaða karlrembu..." Ég held að honum finnist líka pínulítið sorglegt að vera ekki kominn sjálfur í Femínistafélagið og inn í hringiðu umræðnanna.

En Siggi pönk slær í gegn með pistlinum sínum 2. apríl um ótta og ofbeldi - ekki bara óttanum hjá þolanda ofbeldis heldur hvernig hegðun gerandans mótast af ótta. Þessi pistill er gullkorn.
Sannir karlmenn eru femínistar.

2.4.03

Myndir úr bloggafmælinu ...
meina femínistafundinumHér eru myndir sem ég tók á afmælishátíð bloggsins míns í gær. Þetta var líka framhaldsstofnfundur Femínistafélagsins þar sem rætt var um skipan félagsins, samþykkt lög og starfsáætlun Það er heilmikið líf í þessu félagi, troðfullt hús bæði á stofnfundinum og á fundinum í gær. Margir eru á því að þetta marki tímamót á Íslandi, þetta sé þriðja bylgja femínismans.

1.4.03

Tveggja ára bloggafmæliðÍ dag eru nákvæmlega tvö ár síðan ég byrjaði að blogga. Ég hélt upp á bloggafmælið með glans. Það voru nokkrar uppákomur í tilefni dagsins. Ég opnaði vefsvæði Femínistafélags Íslands www.feministinn.is því ég hef tekið að mér að vera ráðskona yfir útgáfuhóp félagsins þ.e. að byggja upp netsamfélag. Svo hélt ég bloggafmælisveislu í Hlaðvarpanum en þar var troðfullt hús því bloggafmælið var auglýst sem framhaldsaðalfundur Femínistafélags Íslands. Það var sérstakt afmælisávarp þar sem vitnað var í heilmikið þetta blogg. Það var vel við hæfi því fyrsta bloggið 1. apríl 2001 bar heitið Álitsgjafar Íslands og var ansi femíniskt. Ég er nokkuð ánægð með daginn og glöð yfir hversu margir gerðu þetta að hátíðardegi með því að koma í Hlaðvarpann eða með því að minnast dagsins á annan hátt. Mér sýnist heilmikið hafa miðað áfram fyrir femínista á þessum tveimur árum og spakmæli dagsins er : Betra er á stað farið en heima setið.

Svanson setti upp verðlaunasamkeppni í tilefni dagsins enda er hann mikill femínisti. Eina sem skyggði á daginn var að Blogger ræksnið virkaði ekki.
Óvinir okkar voru með leiðindi...

Í morgun kom bréf frá Magnúsi þar sem hann sagði frá elflaugaárásinni á kampinn. Hann orðar þetta svolítið öðruvísi en BBC og aðrir fréttamiðlar sem lýstu ástandinu sem kaótísku og sýndu myndir af hermönnum að hlaupa til og frá. Magnús segir að óvinirnir hafi verið með leiðindi og þetta hafi verið fremur óþægileg sending:

Óvinir okkar voru með leiðindi í aðfaranótt sunnudags, skutu eldflaug á kampinn. Flaugin lenti sem betur fer um 1 km frá markinu. Þetta var 160 mm sver flaug með um 6 kg sprengihleðslu. Ekki sérstaklega öflug sending, sennilega kínversk framleidsla, en fremur óþægileg. Allir á fætur og út í byrgin. Þurftum að vera þar í um tvo tíma. Veiki punkturinn hér á kampinum eru loftvarnir. Gagnflaugar duga ekki þegar skotið er af svo stuttu færi. Vitað er hins vegar hvaðan skotið var og fara menn sjálfsagt í heimsókn þangað til að reyna að finna skotbúnaðinn.