31.5.03

Ratað í rigningu


Hátíð hafsins var opnuð niðri í bæ í dag. Fáir mættu segir Mogginn og kennir rigningunni eftir sólardagana um. En það er náttúrulega viðeigandi að fagna hafinu með rigningu, með vatni sem breytir um form og flæðir og táknar breytingar og segir okkur að skjótt skiptast veður á lofti. Í nótt var sólmyrkvi. Ég var vakandi en sá ekkert óvenjulegt. Var heldur ekkert að spá í þennan sólmyrkva eða leita eftir teiknum um hann. Eða leita eftir neinu óvenjulegu. Þetta var björt nótt eins og allar nætur núna.

En dagurinn fór í að rata. Ráð femínistafélagsins fór í sumarbústaðaferð og lagði á ráðin um næstu aðgerðir en ég var ekki þar. Ég var allan daginn á námskeiði hjá Landsbjörg í að nota áttavita og GPS staðsetningartæki. Þetta var námskeið fyrir fólk á viðbragðslista. Nú veit ég allt um krossmið og vegpunkta og nú langar mig mikið í svona GPS tæki. Hef samt ekki uppgötvað til hvers ég ætti að nota það en það hefur hingað til aldrei staðið í vegi fyrir að ég keypti mér tæki.

Tæki eru leikföng. Og þegar maður fær leið á þeim þá verða þau uppstilling. Upp á eldhússkápunum er ég með svona listræna innsetningu á ýmsum ónauðsynlegum tækjum sem ég hef fjárfest í og sem hafa aldrei haft neitt nytsemisgildi og sem hafa misst gildi sitt sem leikföng. Svona eins og rafhlöðudrifinn mjólkurþeytari til að þeyta froðumjólk í kaffibolla. Þessi þeytari entist bara nokkrar mínútur sem leikfang, ég kláraði ekki einu sinni eitt batteri.

Mér finnst skemmtilegt að spá í verkfæri til að staðsetja sig og ferð sína um heiminn. Fannst sniðug sagan um að hjálparsveitin hefði verið send á vettvang til að aðstoða mann sem vissi alla GPS punkta, hann vissi nákvæmlega hvar hann var staddur. Hann vissi bara ekki meira, vissi ekki hvað hann ætti að gera við þessa þekkingu, ekki hvað væri norður og niður og hvert hann ætti að fara. Og svo er líka áhugavert að spá í að þó maður hafi staðarákvörðun og geti stikað út leið fyrir sig þannig þá er maður samt alltaf að ferðast í hinum þekkta heimi. Öll viðmið eru innan þessa heims.

Hvað skildi gerast við pólskipti? Hætta þá allir áttavitar að virka? hvað með GPS kerfin?

28.5.03

Kynjuð stjórnmál
Það var morgunverðarfundur Kynjuð stjórnmál á vegum Femínistafélagsins, Kvennréttindafélagins og Mannréttindaskrifstofu og hér er frásögn og myndir frá fundinum

27.5.03

Hellisbúakynslóðin



Verst að vefsetrið hans Ólafs forseta miðar svona hægt áfram í tilraunum sínum við að komast upp á alheimsnetinu. Það er búin að vera uppi mjög ræfilsleg tilraunasíða forseta Íslands í alla vega þrjú ár. Eða hefur einhver gárungur þetta lén og er að gera gys að forsetanum? En forsetinn er nútímalegur og vitnar í unga fólkið og alþjóðavæðinguna og upplýsingabyltinguna sem kennd er við alheimsnetið (hann er sennilega að meina Internetið, gott samt að hann kallar það ekki lýðnet) þegar hann var að setja þingið og þá sagði hann:

Nú hefur þjóðin sent til þings yngri kynslóð en hér hefur sést um áraraðir," sagði Ólafur Ragnar. ,,Kynslóð sem komist hefur til vits og þroska á tíma alþjóðavæðingar og upplýsingabyltingar sem kennd er við alheimsnetið, fóstruð í samfélagi þar sem sjónvarp er sterkast miðla, nam frásögn í myndum áður en hún lærði að lesa. Kynslóð sem man ekki annað Ísland en sjálfstætt og sterkt."

Þetta eru svona forsmekkurinn af bloggkynslóðinni sem hlýtur að verða sú næsta á þingi, svona innsprengingarkynslóð með heimsmynd þar sem tími og rúm renna saman. En hennar tími er ekki kominn ennþá.

En þó ég geti ekki orðað það ennþá , þá finnst mér að ungu athafnamennirnir sem hafa nú verið handteknir grunaðir um að stela miklu fé frá Símanum líka vera fulltrúar þessarar sömu kynslóðar og forsetinn fer svo fögrum orðum um. Þetta eru mennirnir sem settu á svið Hellisbúann. Ég hef ekki séð það verk en eftir því sem ég hef lesið þá er einfaldur og auðskiljanlegur boðskapur í verkinu, boðskapur að konur séu safnarar og menn veiðimenn og í gegnum brandara eru áhorfendur gladdir og sannfærðir um að þeir þurfi ekkert að óttast að mörkin milli karl- og kvenkyns máist úr, karlmenn séu karlmenn og allt öðruvísi en konur. Þessi kynjafarsi varð grunnurinn að þeirra fjármálaveldi. Þeir voru sviðsetjarar og settu á svið leikverk þar sem þeir léku viðskiptajöfra og þotulið og fjármálasnillinga sem reka sjónvarpsstöðvar, glæsihótel, kaffihús og líkamsræktarstöðvar og alþjóðleg fyrirtæki fyrir annað þotulið. Þeir voru leikarar í þeirri leiksýningu sem nú er sviðsett fyrir okkur í fjölmiðlum og kallað fjármálamarkaður og atvinnulíf. Leiksýningu þar sem galdramenn í fjármálakúnstum höndla með hlutabréf og möndla til sjóði og búa til fé úr engu og vita allt um skuldsetta yfirtöku og eigendalaust fjármagn sem svífur í loftinu bíðandi eftir að einhver komi og klófesti það. Sjónhverfingamenn vestræns neyslusamfélags og taumlausrar markaðshyggju. Sem virkar ekki.

26.5.03

Flugvél með friðargæsluliðum ferst í Afganistan


Ég horfði ekki á sjónvarpsfréttirnar en systir mín hringdi og sagði að það hefði verið frétt um að flugvél með spænskum friðargæsluliðum frá Afganistan hefði farist. Ég fór strax á ISAF Kabul, það eru bara einar friðargæslubúðir í Afganistan og Magnús er í þeim. Það er komin þar fréttatilkynning þar, það voru 54 friðargæsluliðar og 8 manna áhöfn í vélinn sem fórst yfir Svarta hafinu. Það er líka frétt um þetta á BBC og önnur um rannsóknina. Vélin var á leið til Spánar og þetta voru verkfræðingar. Magnús ætlaði að koma í 10 daga orlof til Íslands um miðjan júní. Það er sams konar ferð.

Eru konur minnihlutahópur?


Soldið skrýtið. Hélt að það orð væri notað um þá sem eru hlutfallslega í minnihluta, ekki hóp sem er helmingur fólksins í landinu. Eða kannski er ég að misskilja eitthvað, kannski skiptist Ísland í fólkið sem fær bróðurpartinn af öllu og restin er bara minnihlutahópar. Sama hvað þar eru margir. En Hr. Muzak hefur líka samið gott ljóð og lag um minnihlutahópa sem hægt er að hlaða niður: Ésú elskar ekki minnihlutahópa

Nú er mikil umræða á femínistapóstlistanum um málþingið sem var á Akureyri fyrir helgi. Fólki finnst skrýtið að þar var talað um konur sem minnihlutahóp. Það var forstöðumaður ríkisstofnunar einn af mælendum og eftir honum er haft í Morgunblaðinu á sunnudaginn : "...en spurði hvort eitthvað munaði um þær sem vantaði. Út frá hagsmunum annarra minnihlutahópa væri ekki sjálfgefið að brotthvarf kvennanna væri slæmt, en Grétar sagði að samkvæmt pólitískum rétttrúnaði árið 2003 væru konur merkilegasti og rétthæsti minnihlutahópur landsins. Hann nefndi aðra hópa eins og fatlaða, samkynhneigða, aldraða og öryrkja sem ekki ættu sína fulltrúa á Alþingi".

Kristín Ástgeirsdóttir var lengi á þingi fyrir Kvennalistann, hún þekkir líka sögu kvennahreyfinga á Íslandi manna best. Hún póstaði á listann í gær þessa pælingu: "Á hvaða leið er umræðan má ég spyrja. Hvaðan skyldi þessi maður koma? Samkvæmt þessu eru konur frekur minnihlutahópur (sem útilokar aðra) og hvað? Áttu konur að víkja fyrir öðrum minnihlutum (búnar að vera allt of lengi auðvitað og tími til kominn að hleypa öðrum að). Eiga konur að gæta hagsmuna allra minnihlutahópa? Og hvers konar viðhorf er þetta til þeirra kvenna sem féllu út af þingi (munar eitthvað um þær, þrautreyndar konurnar?) Hvers konar rugl er þetta ef rétt er eftir haft. Þetta er einhver mesta karlremba sem ég hef heyrt lengi. Tengist þetta umræðunni um útvíkkun jafnréttishugtaksins? Er sem sagt einhver sneið fyrir "minnihlutahópa" (konur meðtaldar) og þessir hópar eiga að skipta henni á milli sín."

24.5.03

Haglél í Afganistan og Afbrigði af fegurð
Myndir frá opnun sýningar


Vá, Magnús var að hringja rétt áðan frá Kabúl í Afganistan og á meðan við töluðum saman þá hrópaði hann upp að það væri farið að rigna. Það á ekki að geta gerst á þessum árstíma þarna sagði hann, það á að vera þurrkur núna í marga mánuði. Svo varð hann ennþá meira undrandi og sagði: " Það er ekki rigning, það er haglél. Haglél í sól og þrátíustiga hita." Hann lýsti því hvernig menn hlypu til og frá í skjól undan haglinu, eins og haglkornin væru byssukúlur af himni. Þetta eru undur og stórmerki finnst mér, sérstaklega þar sem hann var að tala í símann til Íslands þegar haglið kom.

Í gær fór ég fyrst í veislu til einnar frænku minnar sem var að útskrifast sem stúdent. Hún stefnir á nám í bandarískum háskóla næsta vetur, verður væntanlega á skólastyrk þar og spilar með kvennaknattspyrnu liði skólans. Systir hennar fór líka fyrir nokkrum árum í bandarískan háskóla á skólastyrk og spilaði líka kvennaknattspyrnu. Margar íslenskar afrekskonur í fótbolta hafa fengið tækifæri til að fara í bandaríska háskóla, kvennaknattspyrna er víst lengra komin hérna en víða í USA.

Eftir stúdentsveisluna þá fór ég á opnun sýningarinnar "Afbrigði af fegurð", þetta er sýning á mótmælum gegn fegurðarsamkeppnum á Íslandi seinustu 33 árið. Skemmtilegt að sjá hvernig það sem varð seinna Rauðsokkuhreyfingin kom fyrst fram 1. maí 1970 þegar "konur í rauðum sokkum" gengu saman aftast í 1. maí göngunni með stóra gifsstyttu þar sem á stóð : "Manneskja, ekki markaðsvara". Gaman að hafa tekið þátt í göngu sama dag einum mannsaldri seinna og þar mátti sjá sama slagorðið bæði í texta og á myndmáli.
Ég tók helling af myndum á sýningunni og setti þær á vefsíðu hérna.

23.5.03

Afbrigði af fegurð



Staðalímyndahópur Femínistafélagsins stendur fyrir uppákomu í kringum Ungfrú Ísland keppnina í kvöld. Það verður opnuð sýningin Afbrigði af fegurð - sýning um sögu mótmælaaðgerða gegn fegurðarsamkeppnum í húsakynnum kvikmyndagerðarinnar Cut’n Paste, Íslandi, Síðumúla 12, á föstudaginn kl. 20:30. Þegar fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland.is var haldin fyrir u.þ.b. mánuði dreifðu félagar í staðalímyndahóp bæklingum til gesta, gáfu keppendum boli merkta Femínistafélagi Íslands og efndu til sýningar á kvikmyndinni Í skóm drekans eftir Hrönn og Árna Sveinsbörn. Um sýninguna:
Það verða sýnd sögubrot allt frá árinu 1970 þegar slagorðið "Manneskja ekki markaðsvara" kom fyrst fram.
Allt frá þeim tíma hafa ýmsir hópar vakið athygli á því fyrir hvað fegurðarsamkeppni stendur og frægt var þegar borgarfulltrúar Kvennalistans mættu á borgarstjórnarfund í síðkjólum með kórónur og borða með merkingum eins og "Ungfrú spök" og "Ungfrú meðfærileg" árið 1985. Það vakti ekki síður athygli þegar félagar í Rauðsokkahreyfingunni krýndu kýrina Perlu Fáfnisdóttur um leið og ungfrú Vesturland var krýnd á Akranesi snemma á áttunda áratugnum.


Hér eru mínar pælingar um fegurðarsamkeppnir sem ég skrifaði á blogg fyrir margt löngu:
Mér finnst fegurðarsamkeppnir vera mjög áhugaverðir ritúalar sem endurspegla þrá eftir fullkomnun - stundum með því að gera alla sem taka þátt eins og stundum er leiðin að meiri fegurð ritúall eins og manndómsvígsla eða krossferð með þjáningum og pyndingum sem breyta líkamanum.

Fegurðarsamkeppnir virðast líka keppnir í að vera sem mest eins. Eins háralitur. Eins hárgreiðsla. Eins augnabrúnir. Eins munnsvipur. Eins augnaráð. Eins tennur. Eins kjálkabygging. Eins nef. Eins húðlitur. Eins förðun. Þarna sér maður hvernig Eðal-Íslendingur af kvenkyni á að líta út - svona norrænt yfirbragð og hjarðmeyjarlegt útlit, upplitsdjarfar, hraustlegar, ákveðni í svipnum en þó milt yfirbragð.

Hver skyldi svo vinna í svona EINS keppni? Sú sem er mest eins - sú sem er mest lík öllum hinum eða mest lík einhverri fullkominni fyrirmynd? Eða sú sem er fulltrúi fyrir eitthvað sem þeim sem velja finnst vert og tímabært að draga fram. Árið 1945 að aflokinni heimstyrjöld varð stúlka af gyðingaættum fegurðardrotting Ameríku. Árið eftir sprengiárásirnar í fylkinu Oklahoma þá vann fegurðardrottning frá því fylki Ameríkukeppnina. Þegar ég var við nám í USA þá varð svört kona fegurðardrottning Ameríku. Strax eftir krýninguna var hún umkringd af fjölmiðlafólki og spurð hvað eftir annað eitthvað hvernig væri að vera svört og vinna svona keppni. Hún sagði þessi orð: "Being black is the least of what I am" og allt ætlaði að verða vitlaust í pressunni næstu daga, hún var ásökuð fyrir að afneita uppruna sínum og skammast sín fyrir að vera svört.

Ég hef heyrt samfélagsfræðinga og síðnútímafræðinga (postmodernista) tala um ÖÐRUN (þýðing á "othering") sem einhvers konar leið til að skilja milli síns og hinna, að framandgera og draga fram í dagsljósið allt sem getur búið til bil og sýnt að einhverjir séu öðruvísi.

Ég held helst að það sem fer fram í svona fegurðarsamkeppnum sé andstæðan við það, kannski frekar einhver skonar EINSUN eða leit að einhverju sameiginlegu viðmiði - svona eins og að finna minnsta hugsanlegan samnefnara. Einhvern sem smellpassar í tilbúið mót - kannski skó eins og í sögunni um Öskubusku.

Fegurðarímynd samfélagsins þröngvar einhverju tilbúnu normi upp á fólk, kannski sérstaklega ungt fólk eða ungar stúlkur. Kannski er sú kvöl og pína sem fólgin er í að nálgast og aðlagast þetta fegurðarnorm einn liður í félagsmótun samfélagsins. Þannig var því varið um þúsundir ára í Kína þegar fætur ungra stúlkubarna voru reyrðar og brotnar til að fylgja ákveðnu fegurðarnormi. Kannski er sú lögun líkamans sem fram fer með megrununum og svo silikoninnsprautun líka eitthvað dýpra en líkaminn, kannski er þetta lífspeki nútímans og einhver tilraun til að hafa hömlur á hlutunum. Það var heimspeki Konfúsíusar sem síaðist inn í stúlkurnar sem voru örkumlaðar smám saman í Kína með þessum reyrðu fótum en hvaða siðspeki og fegurðarsýn er það sem örkumlar nútímastúlkur?

Eitrað andrúmsloft - skotbardagi


Bandaríska sendiráðið í Kabúl er nánast í næsta húsi við ISAF kamp friðargæsluliða í Kabúl þar sem Magnús er núna. Ég sé á vefnum isafkabul.org að það var skotbardagi þar í fyrradag 21. maí milli afganskra hermanna og bandarískra hermanna. Afgönsk yfirvöld segja að þrír hafi látið lífið og tveir slasast. ISAF blandaðist eitthvað í málið, held ég til að leysa úr ágreiningnum og ganga á milli aðila:

Það virðist mikil spenna í lofti þarna núna. Fyrir viku var fleygt handsprengju að hliðinu á ISAF kampinum þar sem breska herdeildin er. Enginn slasaðist alvarlega. Svo var skotárás úr launsátri 13. maí á norska ISAF friðargæsluliða og annar slasaðist lífshættulega. seinasta bréfi sagði hann frá skotárás úr launsátri á norska friðargæsluliða í síðustu viku og hvaða afleiðingar það hefur á líf allra í kampinum, núna eru gerðar miklu strangari öryggiskröfur og voru þær þó ærnar fyrir. Alltaf er farið um í tveim bílum og allir vopnaðir og í skotheldum vestum þó það sé 40 stiga hiti og svo verður að vera vélbyssa í hverjum bíl.

Svo sá ég í frétt á BBC í gær að það eru teikn sem benda til að andrúmsloftið kannski eitrað, ekki bara út af út af stríðsástandi og tortryggni milli aðila heldur líka í orðsins fyllstu merkingu. Það hefur greinst afar hátt úraníum magn í þvagi hjá hópi Afgana og það eru grunsemdir um að ný tegund af geislavirkum vopnum hafi verið notuð í Afganistan.
Sjá nánar í þessari frétt frá BBC.
Sjá líka frásagnir Magnúsar um ástandið á afganistan.blogspot.com

22.5.03

Myndir og bréf frá Kabúl



Var að renna yfir blogg undanfarna mánuði hjá mér og komst að því að frá byrjun mars hef ég eiginlega ekki bloggað um neitt annað er stríð og femínisma. Sem er reyndar furðulegt því ég er líka með tvö önnur blogg með öðrum, annað sem er eingöngu um femínisma feministinn.blogspot.com og svo annað afganistan.blogspot.com þar sem ég set inn bréf eða hluta af bréfum frá Magnúsi sem er friðargæsluliði í Kabúl í Afganistan. En svona er lífið, þetta er það sem mér liggur mest á hjarta þessa daganna. Samt þessu ótengt þá hafa þessir atburðir gerst í dagsins önn: ég er búin að fá bílinn úr viðgerð, hann vildi ekki starta og stóð lengi fyrir utan slysadeildina í Fossvogi, ég er búin að fara nokkrar ferðir á Borgarspítalann, Kristín fór í aðgerð þar sem nefbrotið var rétt og er ekki lengur með þetta alternatíva fegurðarútlit trölla og múmínálfa. Búið er að fylla upp að húsinu þar sem ég bý og það er ekki lengur eins og kastali með síki umhverfis. Spurning hvað verður þá með þetta dularfulla vatn. Ýmis skakkaföll fyrir vestan.

Magnús er búinn að senda tvo geisladiska með myndum sem hann hefur tekið sjálfur og svo líka nokkra með myndum sem aðrir ISAF menn hafa tekið. Ég vann upp nokkrar af myndunum frá Magnúsi og setti á þrjár vefsíður.
Myndasíða 1 frá Kabúl, Afganistan
Myndasíða 2 frá Kabúl, Afganistan
Myndasíða 3 frá Kabúl, Afganistan

Annars held ég að það sé ekki alltaf gaman hjá Magnúsi. Það hefur verið gerð eldflaugaárás oftar en einu sinni á kampinn sem hann er í og félagar hans voru skotnir úr launsátri nýlega og svo hefur verið varpað handsprengjum inn á kampinn. Allt virðist þetta vera hluti af þeirri blindu heift sem sumir innfæddir hafa gagnvart öllum Vesturlandabúum. Magnús skrifaði í dag um skotárásina sem gerð var í síðustu viku á Norðmennina:

Um daginn urðu félagar mínir, sem sinna uppbyggingarstarfi á vegum fridargaeslusveitanna hér, fyrir skotárás. Þetta var Norskur hópur á tveimur bílum í heimsókn á lögreglustöð í þorpi norðan við Kabúl. Þorpið er á svokölluðum “Shamali” sléttum, miklu bardagasvæði frá dögum Talibana. Tveir menn voru inni að drekka te með þorpsleiðtogum en aðrir tveir úti að passa bílana.Þá hefur uppgjafa Talibani skothríð á þá af húsþaki, með Kalashnikoff riffli. Annar Norðmaðurinn særðist lífshættulega, hinn minna. Þeir voru sóttir með þyrlu og síðar fluttir með sjúkraflugvél til Óslo. Þeir hafa þetta af. Því miður voru þeir ekki í skotheldu vestunum sínum þegar árásin átti sér stað.

14.5.03

Hraustar stelpur eru flottar stelpur

Nú fer fram mikil umræða og skoðanaskipti á femínistapóstlistanum um knattspyrnu og klám og léttklæddar knattspyrnukonur. Rætt er að við þurfum að vera meðvituð um þau skilaboð sem við sendum þegar við sýnum jákvæð viðbrögð þegar kynlíf er notað sem sölutrix. Töluverð umræða er um auglýsingar með léttklæddum knattspyrnukonum. Sumum finnst auglýsingar eins og íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu smellnar því þar sáust hraustar, flottar og stæltar stelpur, sem ætluðu að fara að berjast fyrir Íslands hönd, ólíkt þeim vannærðu fyrirmyndum sem yfirleitt er haldið að konum.

Fólki finnst ekki þær myndir sem sagðar eru vera af brasilíska kvennalandsliðinu sem eru inn á síðunni fotbolti.net eiga heima á síðu um knattspyrnu og margir hafa áhyggjur af slíkri þróun og benda á að klám og knattspyrna eiga ekki samleið.

Mér finnst þessar brasilísku myndir vera óviðeigandi og lítillækkandi fyrir konur í knattspyrnu sem myndefni á fótboltavef. Ekki af því þær væru neitt grófar heldur út af því að uppstillingar allar voru eins og konur sem leikföng og myndbygging og sjónarhorn klárlega sótt í hefðir í klámmyndatökum. Svo er ekkert sem bendir til að þessar myndir séu raunverulega af knattspyrnukonum í Brasilíu, það er bara einhver brandari að halda því fram.

En mér finnst ekkert að því að íslenskar knattspyrnukonur bregði á leik einu sinni í auglýsingum og vekji athygli að því að þær séu til og þær standi sig vel. Hér er tjáningarfrelsi og konur mega klæðast því sem þær vilja og þær geta tekið þátt í leikjum sem auka þor þeirra og baráttuhug. Það er flott að tengja saman kvennaknattspyrnu og kvenleika með svona þori-vil-og-skal-og-get viðhorfi.
En það eru auðvitað skiptar skoðanir um hvað fólki finnst viðeigandi. Í september 2001 var umræða í íslenskum fjölmiðlum um ögrandi auglýsingar íslenska landsliðsins í kvennaknattspyrnu og sýndist sitt hverjum. Liðið auglýsti leiki sína undir nafninu Stelpuslagur og birti auglýsingar þar sem þær voru léttklæddar á hópmynd. Ég skrifaði í vefdagbókina mína pistil um þetta mál þann 10. september 2001. Í þessum pistli bar ég saman stöðu kvenna á Íslandi og stöðu kvenna í Afganistan. Þetta kvöld var sýnd í sjónvarpinu mynd um konur í Afganistan sem þá urðu að vera ósýnilegar og klæðast bláum kuflum sem kallast búrkar. Þessi dagur og þessi pistill varð mér eftirminnilegri vegna þess að þetta var það síðasta sem ég skrifaði í dagbókina mína áður en heimsmyndin hrundi þann 11. september 2001.

Eftir þetta tengi ég alltaf saman myndir af hressum stelpum vera að auglýsa fótboltaleik og ósýnilegar konur huldar undir bláum serkjum.
Fyrir mér eru þetta tvo tákn.
Tákn um frelsi og tákn um fjötra.

13.5.03

Hinir stóru taparar


Þessar kosningar eru ekki sigur fyrir íslenska femínista.
Einn mikilvægur mælikvarði á jafnrétti hlýtur að vera hver hlutur kvenna er á Alþingi, hvernig hlutfallið er varðandi nýliða og hve líklegt er að konur komi til með að hafa völd í nýrri ríkisstjórn.

Sú staðreynd blasir við að meira en átta af hverjum tíu nýjum þingmönnum eru karlmenn.

Hulda Þórisdóttir orðar ástandið nokkuð vel í eftirfarandi málsgrein úr greininniKöld er kvennafæð frá 12.maí:
"Í stærsta flokki landsins eru einungis 18% þingmanna konur. Þetta er talsvert undir 30% markinu sem sett var á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í Peking árið 1995 um hvað þjóðir skyldu stefna á sem lágmarkshlutfall kvenna á þjóðþingum sínum. Það er með eindæmum að stærsti flokkur lands þar sem algjört jafnrétti hefur verið tryggt með lögum nái ekki að uppfylla markmið sett með þriðja heims ríki og arabalönd í huga! "

Nokkrar tölur

Konum á Alþingi fækkar úr 23 í 19
Nýir þingmenn eru 18, þar af 15 karlmenn og 3 konur.
Þær þrjár konur sem núna koma nýjar inn á þing eru:
Anna Kristín og Katrín hjá Samfylkingunni og Dagný hjá Framsókn.

Framsókn (33%) 4 af 12 - ein kona nýr þingmaður
Sjálfstæðisflokkur (18%) 4 af 22 - engin kona nýr þingmaður
Fjálslyndi flokkurinn (0%)0 af 4 - engin kona nýr þingmaður
Vinstri grænir (40%) 2 af 5 - engin kona nýr þingmaður
Samfylking (45%) 9 af 20 - tvær konur nýir þingmenn

Fjölmiðlaumfjöllun
Það hefur verið afar dapurlegt að fylgjast með þessari framvindu. Ömurlegt hefur líka verið að horfa á umræðuþætti í sjónvarpi undanfarna daga, að fylgjast með hvernig rödd kvenna heyrist ekki og framlag þeirra er ekki sýnilegt nema í gegnum túlkun karlmanna sem skrumskæla og gera lítið úr konum og jafnréttismálum og vægi þeirra í þessari stjórnmálabaráttu.

Konur eru hinir stóru taparar í þessum kosningum. Þessar niðurstöður á árinu 2003 hljóta að vekja okkur til umhugsunar um hve óréttlátt það fulltrúalýðræði og kosningakerfi sem við búum við er og hve ójafna möguleika þegnar þessa lands hafa.

Eða eru það bara femínistar sem taka eftir þessari slagsíðu? Sennilega. Og ein ástæðan er sú að umræðan í þeim miðlum sem mest móta og hafa áhrif á stjórnmál núna er umræða karlmannasamfélags og feðraveldis og stundum finnst manni ekkert hafa breyst frá tímum Jóns Sigurðssonar.

Ég bendi hér á tvo dæmi um nýlega umræðuþætti í sjónvarpi sem hafa vakið sérstaka athygli mína yfir hve gjörsamlega konur eru fjarverandi úr þeim þáttum og hve lítið var gert úr jafnréttismálum og hlut kvenna.

Annars vegar var síðasta venjulega Kastljósið í RÚV fyrir kosningar þ.e. daginn áður en leiðtogar flokka í framboði öttust við. Í þessu Kastljósi var einn spyrjandi (karlmaður) og tveir viðmælendur (báðir karlmenn). Umræðuefnið var að taka út kosningabaráttuna, spá í um hvað hún hefði snúist og spyrja að leikslokum. Ég man eftir að rætt var lítillega um jafnréttismál og einn viðmælandinn (Sigmundur Ernir) svaraði á þá leið (hef ekki orðalag nákvæmlega eftir) að þau hefðu því miður ekki komið mikið inn og eitthvað um að hann harmaði það, þetta væru svo mikilvæg mál. Svo var heilmikið tal um auglýsingar og ímyndir og ég man bara eftir að Sigmundur sagði um að þegar leiðtogar flokkanna kæmu saman þá væri það sterk mynd að Ingibjörg Sólrún væri eina konan í hópi nokkurra karlmanna. Það var eitthvað svo ferlegt að heyra viðmælanda í umræðu í þætti sem var sjálfur algjörlega sneyddur af öllu næmi fyrir jafnréttismálum eða að nærvera kvenna skipti máli vera að spá svona ímynd af konu í karlahóp.

Hins vegar var það Silfur Egils eftir kosningar þar sem spámenn (allt karlmenn) tjáðu sig um hvað gerðist. Ég heyrði þennan karlahóp vera að spá í úrslit kosninganna fyrir konur og spá í hvernig stæði á þessu og þá kom einn viðmælenda með þá skrumskælingu að það hve margar reyndar þingkonur dyttu út hjá Sjálfstæðisflokk væri einhvers konar kvennaverk, konum hefði verið nær að kjósa svona og svona. Þetta var sett upp sem skýring á að núna eru 82% af þeim þingflokki karlmenn.

Röksemdir til að viðhalda valdaleysi kvenna

Það er mjög skrýtið að heyra hvernig röksemdir eru notaðar af karlmönnum sem eru að verja og viðhalda valdaleysi kvenna. Á sínum tíma þegar ég starfaði í Kvennalistanum þá man ég að æ ofan í æ fengum við að heyra að við þar værum sökudólgar út af slæmu gengi kvenna innan stjórnmálaflokkanna - með því að vera til þá drægum við athygli frá og slagkraft frá konum sem störfuðu innan flokkanna. Það hefur komið á daginn að svo var ekki. En það má velta fyrir sér hvers vegna Kvennalistinn kom fram hérlendis og hvers vegna hann varð svona stórt afl. Þetta gerðist ekki á öðrum Norðurlöndum, þar áttu konur mun greiðari leið til áhrifa innan hefðbundnu stjórnmálaflokkanna.

Síðustu helgi fórum við í kurteisisheimsókn í kosningaskrifstofur. Á einum stað varð fyrir okkur hópur ungra manna sem vildi segja okkur frá sinni sýn á jafnrétti á vinnumarkaði. Einhverra hluta vegna voru engar konur að störfum í þessari kosningaskrifstofu. Sýn ungu mannanna á jafnrétti á vinnustöðum var sú að það væri bara alltaf spurning um að láta tímann vinna með sér, það væri mikilvægast að ráða hæfasta einstaklinginn og þetta mundi allt lagast með tímanum, það ætti ekki að skoða neinar hausatölur um konur og karla og sjá þannig að karlmenn stjórni flestu. Það þurfi að hafa það í huga að hér þurfi kynslóðaskipti, það þurfi að skoða nýráðningar í stjórnunarstöður í fyrirtækum og hvernig hlutur kvenna réttist smám saman. Mér flaug í hug hvernig þessi sömu ungu menn myndu þá líta á samsetningu nýrra þingmanna á Alþingi núna og hvaða skilaboð eru í henni fólgin.

Það er athyglisverð að fylgjast með orðræðu hinna nýkjörnu ungu karlmanna, hvernig málum þeir ætla beita sér fyrir og hvernig þeir líta á aðstæður. Einn nýr þingmann Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmum var glaður og sigurhreifur í hinu kvenmannslausa Silfri Egils með öðrum ungu karlmönnum sem komu á þing, hann hlakkaði til að taka til starfa og var svo ánægður með hvað það væri mikið af ungu fólki komið á þing sagði hann. Hann sagði ekkert um hver dró hlassið og tryggði honum það mikla fylgi sem hann flaut inn á og hann sagði ekkert um að þar er miklu nær að segja að það séu ungir karlmenn sem hafi komist á þing heldur en ungt fólk.

Mér sýnist mikil verkefni vera framundan fyrir femínistafélag á Íslandi.

12.5.03

Katrín og tjáningarfrelsið



Ég skrifaði áðan eftirfarandi bréf til Katrínar:
Hæ Katrín,

Ég hef einhvern veginn fengið á tilfinninguna að fólk hafi lagt einhverja djúpa merkingu í komment sem ég skrifaði í kommentakerfið þitt fyrir helgi. Í þessu kommenti bauðst ég til að skrifa bréf og vekja athygli á ögrandi innihaldi á vefsíðu þinni katrin.is ef þú bæðir mig sérstaklega um það. Þetta var náttúrulega mjög óábyrgt og léttúðugt komment hjá mér þar sem ég var að bjóða manneskju sem hefur gaman af að ögra smáaðstoð ef hún vildi meiri hasar. Ég átti ekki von á að þú tækir þessu tilboði mínu enda hefur mér aldrei dottið í hug að litla títuprjónsstóra merkið sem er á mjög óáberandi stað á síðunni þinni væri auglýsing, því ég hugsa að íþróttafélag myndi aldrei auglýsa á síðu með svona innihaldi, merkið er örsmátt og ógreinilegt og lítið áberandi og eins ólíkt auglýsingu og vera má. Svo hef ég almennt ekki séð að íþróttafélög auglýsi neitt á vefsíðum hvorki hjá fyrirtækum né einstaklingum.

En svona var kommentin sem ég skrifaði:

"Ef þú biður fallega skal ég skrifa bréf til ÍBR (er ekki pínkulitla merkið í horninu auglýsing) og benda þeim á að þú sýnir ekki respekt fyrir fólki á síðunni þinni og biðja þá að hætta að auglýsa á síðunni þinni. en ég nenni því ekki nema þú biðjir mjög fallega um það."

Bara svo það sé alveg á hreinu. Ég mun verja tjáningarfrelsi og málfrelsi þitt á Netinu út í rauðan dauðann og þó það höfði ekki alltaf til mín það sem þú segir á þínum vef þá er það réttur þinn að tjá þig eins og þú vilt og vísa í það sem þú vilt. Ég vil gera orð heimspekingsins Voiltaire að mínum :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it".

Á sama hátt mun ég verja tjáningarfrelsi þeirra sem hafa eitthvað við það að athuga hvernig þú eða aðrir tjá sig á Netinu.

Með von um að þetta komment hafi ekki valdið þér hugarangri. Það var ekki dulbúin hótun, það var ekki liður í aðför einhvers öfgahóps að málfrelsi og það var ekki liður í neins konar net-terrorisma.

Með bestu kveðju,
Salvör Gissurardóttir

p.s. sjá nánar viðhorf mín til málfrelsis á
http://www.ismennt.is/not/salvor/meinhorn/2002_02_01_eldri1.htm#10137033
og einnig ýmsa pistla mína á www.asta.is/blogg

8.5.03

Femínistar í kosningaham


Það er ekki seinna vænna er leggjast yfir jafnréttisáætlanir hjá stjórnmálaflokkum. Eins gott að fylgjast bæði með stefnunni og efndunum. Ég vona að kjósendur séu ekki fólk sem flöktir til og frá eftir einhverjum sjónvarpsauglýsingum síðustu vikuna fyrir kosningar. Ég vona að Netið geri okkur að ábyrgum borgurum sem leita sjálfir að upplýsingum og fylgjast með hvað stjórnmálamenn aðhafast og hvort þeir leitast við að uppfylla það sem þeir lofa. Líka vera á varðbergi fyrir þeim aðilum sem koma fram eins og úlfur í sauðagæru, svona eins vefsetrið andriki.is gerði fyrir seinustu borgarstjórnarkosningar, þar var pistilll um dagvistunarmál daginn fyrir kosningar en daginn eftir var pistill sem krafðist þess að hið dulbúna vændi sem einkadans er yrði áfram leyft.
En ég skrifaði um það vefsetur í pistlinum Kosningabaráttan með kynjagleraugum
"Það er ekki trúverðugt ef stjórnmálaöfl hafa bara áhuga á mjúku málunum rétt fyrir kosningar og vakna svo upp hardcore daginn eftir kosningar og vilja klámtán Reykjavík áfram. Svona eins og daginn fyrir kosningar 24. maí birtist þar málefnaleg og alvarleg ádeila á andriki.is um biðlista á leikskólum í Reykjavík en strax eftir kosningar eru skríbentar blaðsins búnir að fella blæjuna og vilja núna ólmir einkadans. Þeir segja: "Svo lengi sem dansari og áhorfandi ganga fúsir og frjálsir til leiks þá er það beinlínis skylda stjórnvalda að blanda sér ekki í leikinn."

6.5.03

Búrkarnir komnir


Búrkarnir sem Magnús sendi frá Afganistan komu síðdegis í gær. Ég tók þá upp úr kassanum og við skoðuðum þá á meðan við biðum á slysavaktinni. Kristín nefnilega slasaðist á fimleikaæfingu við heljarstökk og ég sótti hana og fór með hana á slysavakt. Hún er nefbrotin en það er ekkert hægt að gera nema bíða eftir að bólgan minnki og ef nefið verður þá ennþá skakkt verður að skoða það og rétta eftir eina eða tvær vikur. Læknirinn sem skoðaði hana sagði að ekkert væri vanalega gert í svona tilvikum, ekki væru teknar röntgenmyndir því reynt væri að forðast geislun á augnbotnanna og myndirnar væru líka óskýrar. Hann sagði líka að í flestum tilvikum gréri brotið rétt saman aftur án þess að það væri neitt að gert. Hann aðvaraði okkur líka að það myndi koma fram mar á nefi og kinnum. Það hefur ekki ennþá gerst en bólgan er mikil. Þetta er svona Startrek-Múmínálfalúkk en það er kannski ekki í tísku hjá fermingarbörnum í ár að líta út eins og sambland af álfi og geimveru.

Þetta er í annað skipti sem ég fer á slysavakt á innan við mánuði. Seinast fór ég síðdegis föstudaginn 11. apríl og það var undarlegt atvik. Ég var á leið heim akandi niður Kringlumýrarbraut og var að hugleiða í hvort ég ætti að fara á friðarfundinn á Arnarhóli, var ekki viss um hvort sá fundur hefði verið blásinn af eða hvort stríðið væri búið. En allt í einu fæ ég fossandi blóðnasir úr báðum nösum og ég ákvað að keyra heim og bíllinn verður blóði drifinn því mér gekk ekkert að stöðva blæðinguna. Ég panikeraði smá því ég fæ aldrei blóðnasir og hafði ekki orðið fyrir neinu sem skýrði þetta. Hélt að þetta gætu kannski verið einhverjar innvortis blæðingar svo ég fór á læknavaktina í hverfinu mínu, beið um stund á biðstofunni með fullt af fólki og enn blæddi og ég var dáldið eins og píslarvottur sá ég á svip þeirra sem biðu ´með mér. Svo sendi læknirinn mig með sjúkrabíl upp á slysavakt af því að ég gat ekki keyrt og enn blæddi og ég man hvað ég var pirruð út í sjúkraflutningsmanninn sem spurði mig um nafn og kennitölu og eitthvað fleira og hvernig átti ég að geta svarað því með fullan munninn af blóði. Þá getur maður ekki talað.

Eftir einhverjar klukkustundir stöðvaðist blæðingin og það var brennt fyrir með einhvers konar kemisku efni sem brennir hörundið. Af því ég missti af friðarfundinum þá ákvað ég bara að halda minn eigin innri friðarhugvekju og notaði tímann á meðan ég beið til að hugleiða hvað væri að gerast í heiminum og finna til með fólkinu áátakasvæðum í miðausturlöndum. Ég tók leigubíl heim og hlustaði á útvarpsþátt í bílnum, man að það var eitthvað um hvaða vestræn olíufyrirtæki kæmu nú að því að stýra olíuiðnaði í Írak.

5.5.03

Ósýnileg bleik hönd
með uppþvottabursta og sápulöður



Fréttastofa Meinhornsins þorir þegar aðrir þegja. Hér með uppljóstrast það að nokkur hundruð brjálaðir femínistar máluðu bæinn bleikan á fyrsta maí. Það er rétt að vara við þessum ofstækis- og öfgahóp og vara við þessum myndum sem fréttastofa Meinhornsins náði af ósköpunum. Sérstaklega viðkvæmum sálum er bent á að stilla tölvuskjáina sína á svart-hvítt áður en þeir skoða þessar myndir:

Myndir af fysta maí kröfugöngu og fundi hjá femínistum

Til að fólk átti sig betur á hættunni og sé ekki alveg andvaralaust þá birti ég hérna bréf sem ég póstaði á femínistapóstlistann fyrir stundu.

Hæ öll,

Í framhaldi af umræðu um þöggun fjölmiðla vegna 1. maí göngu:

Þetta eru mjög áhugaverðar umræður um fréttamat fjölmiðla. M. spyr hvort fréttatilkynning hafi verið send út. Ég vil upplýsa að fjölmiðlum var send í tölvupósti daginn áður 1. maí ávarp Femínistafélagsins og fremst í því bréfi var vefslóð sem tengdi í vefsíðu með dagskrá göngu og fundar, sama síða og er núna á http://www.feministinn.is/fyrstimai/dagskra.htm . Einnig veit ég að í fleiri en einu tilviki var fjölmiðlafólki m.a. á sjónvarpsmiðlum sagt frá því um að reikna mætti með að gangan þar sem femínistar færu um yrði sérstaklega myndræn, bleik og öðruvísi.

Fjölmiðlar leita að verkalýðsrauðu myndefni á fyrsta maí. Það er eitt af lögmálum lífsins að ef maður er að leita að einhverju sérstöku þá finnur maður það frekar en það sem maður ekki er leita að og það sem maður vill ekki sjá. Ég hef farið í 1. maí göngur síðan elstu menn muna og hef gaman að því að skoða skiltin sem fólk heldur á lofti eða fylkir sér undir sem eins konar barómeter á hvað er að gerast í samfélaginu á hverjum tíma. Fjölskyldan hefur líka gert það að eins konar leik að horfa á gönguna og velja sér svo skilti sem við viljum ganga undir og hoppa þá inn í gönguna, eitt árið í árdaga einkavæðingarinnar var það t.d. skiltið "Gefur ekki ríkisfyrirtækin" sem heillaði okkur. Myndir sem ég hef tekið í fjórum síðustu fyrsta maí göngum má sjá á http://starfsfolk.khi.is/salvor/fyrstimai

Eins og fleirum finnst mér hafa verið vatnaskil í fyrsta maí göngunni í ár. Núna í ár komu fram tvö öfl sem settu svip sinn á gönguna. Það voru umhverfisverndarsinnar og það voru femínistar. Umhverfismál og mannréttindamál. Mér finnst það líka táknrænt að fólk hélt ekki bara skiltum á lofti og fylkti sér undir skilti hjá öðrum - fólk merkti sig sjálft með því að vera í bolum. Svo finnst mér líka táknrænt að femínistar voru í bolum sem höfðu ekki allir sömu slagorð, mér finnst það segja að þó við séum öll femínistar þá erum við ólík. Svo fannst mér líka táknrænt hvað það var kalt og mikill næðingur og að í upphafi göngunnar þá mætti okkur mikill mótbyr og sterkur vindstrengur sem reif borðann með nafni félagsins svo margir urðu að leggjast á eitt við að halda honum á lofti.

Ég held ekki að þetta sé nein vísvitandi þöggun hjá fjölmiðlum en ég held að það sé ekki tilviljun að falleg og öðruvísi ganga femínista fær ekki rými í fréttatímum nú. Femínistar hafa haft áhrif og þess vegna eru þeir stuðandi. Ganga af sætum litlum femínistabörnum með blöðrur og veifur og fallegu lífsglöðu fólki í bleikum bolum passar ekki lengur sem "jákvæða og uppbyggjandi fréttaskotið í lok fréttatímans" - til þess eru þeir of ögrandi. Kannski lýsir vísunin á gönguna sem núna er á vefnum batman.is vel viðhorfinu. Þar tengja þeir sem standa að þeim vef 3. maí í myndir af göngunni:
wtf Kröfuganga: myndir [2]
wtf Kröfuganga: myndir [1]

Í fyrra tilvikinu er tengt í myndir af fyrsta maí göngu femínista, í síðara tilvikinu er tengt í http://fcit.coedu.usf.edu/holocaust/gallery/08063.HTM þ.e. mynd af "Hitler Youth Parade" frá 1933.

En þó að hefðbundnir fjölmiðlar hafi ekki sýnt okkur áhuga þá verður ekki það sama sagt um netmiðla. Allt efni frá femínistum er þar lúslesið og iðulega vitnað í vef félagins og umræðu á póstlista sem er ekki opinn og bara er fyrir yfirlýsta femínista og þar sem voru yfir 800 innlegg í aprílmánuði og þar sem áskrifendur fóru yfir 600 þann 1. maí. Sá áhugi sem vefmiðlar sýna hefur þó ekki alltaf verið bundinn við að útbreiða skilning á málstað femínista, hann snýst ekki síst núna um að vara við femínistum.

Vefsetrið www.deiglan.com birtir í maíbyrjun tvær greinar um femínista.
1. maí birtist greinin:
Í skjóli femínista 1
http://www.deiglan.com/index.php?itemid=2311
Þessi grein verður varla skilin öðru vísi en varnaðarhróp út af hættulegri öfgahreyfingu og niðurlagsorðin eru: "Ofbeldi, niðurlæging og refsingar án dóms og laga er boðskapurinn og böðullinn á að vera Félag íslenskra feminista."
2. maí birtist greinin:
Í skjóli femínista 2
http://www.deiglan.com/index.php?itemid=2318Þar er ennþá meira varað við femínistum og þeir bendlaðir á sama hátt og í vísun á batman.is við hreyfingu sem vill vernda hreinleika hins aríska kynstofns. Greinarhöfundur segir:
"Það er rétt að vara Félag íslenskra feminista við þessari braut. Eins öfugsnúið og það hljómar þá er félagið þegar komið í sömu spor og Félag íslenskra þjóðernissinna"
Svo varar greinarhöfundur við að umræðan sé farin að hafa áhrif:
"Umræðan á sér öll stað á vettvangi félagsins þ.e. á fundum og póstlista þess. Í ofanálag hefur umræðan greinilega áhrif...". Nú, það var alltaf tilgangurinn að hafa áhrif, ég skil eiginlega ekki í því að það sé vont í sjálfu sér:-)

Svo get ég barasta ekki skilið eftirfarandi setningu úr greininni öðru vísi en við höfum hvorki félagafrelsi né tjáningarfrelsi úr því við erum svona vond: "...Hópar og félög sem hvetja til lögbrota njóta hvorki verndar félagafrelsis né tjáningarfrelsis stjórnarskrár."

Svo segir greinarhöfundur líka:"...þá geta feministar ekki heldur hvatt til skemmdarverka, ofbeldis, innrásar inn í einkalíf sakaðra manna eða logið upp á menn sakir." Kannast einhver við að femínistar hafi gert eitthvað af þessu??? Í greininni er heilmikið fjallað um stjórn félagsins og því haldið fram að hún hafi leyft félagsmönnum að boða lögbrot á póstlista félagsins. Ég er í stjórn félagsins og ég barasta skil þetta ekki... Hefur einhver í stjórninni hvatt til lögbrota? Eða hefur stjórnin eða einhverjir í nafni félagsins gert eitthvað sem er ólöglegt?

Greinarhöfundur segir um stjórn félagsins "Hún hefur opinberlega tekið undir grófar aðgerðir gegn fjölmiðlunum vegna kláms sem jaðra við að vera ólögmætar". Ég veit ekki hvort hér er verið að vitna í Kastljósviðtalið við Katrínu eða þau kurteislegu bréf sem einstakir félagsmenn sendu til stjórnmálaflokka og Vísa þar sem þeir aðilar voru upplýstir um að þeir auglýstu á vefsetrum sem vísuðu á gróft og ósiðlegt efni sem niðurlægði konur. Ég vil hér með þakka þessum aðilum sem drógu auglýsingar til baka úr þessum miðlum fyrir að hafa brugðist svona fljótt við. Ég vil líka þakka þeim fjölmiðlum sem hafa fylgst með umræðunni hérna og í kjölfarið orðið meðvitaðri um orðnotkun varðandi konur.

Orðalagið "..jaðrar við að vera ólöglegt" er afar óljóst og vissi ég ekki áður að það og þessar vísanir í félagafrelsi og stjórnarskrá væri notað með þessum hætti af lögfræðingum. Þessi seinni grein endar svo með því að greinarhöfundur skilgreinir hvað eru "hinir alvöru femínistar".

Það kemur manni í gott skap að lesa þessar greinar á www.deiglan.com með greininni "Hinar hættulegu öfgar" sem birtist 2. maí á www.murinn.is
http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=858&gerd=Frettir&arg=4 og kannski skoða myndirnar frá 1. maí skrúðgöngunni okkar http://www.feministinn.is/fyrstimai og horfa á þetta hættulega öfgalið:)

Umfjöllunin á Múrnum er greinilega háðsádeila á þá sem nú hafa skorið upp herör gegn femínistum. Ég er ekki jafn viss um að greinarnar á Deiglunni séu grín, það kemur alla vega ekki nógu skýrt fram.

1.5.03

Steinolíustrákurinn og konan sem kyndir ofninn sinn



Núna er ég að vakna upp úr því sem ég kalla martröð Salvarar í framhaldi af draumi Gyðu. Mér finnst eins og þeirri kvenfyrirlitningu, mannhatri og illsku sem þrífst á Netinu og dreifðist áður út um allar koppagrundir sé nú hellt saman og skvett yfir femínista. Og mér finnst flestir í netsamfélaginu vera hatrammir í garð femínista, reyndar finnst mér eiginlega fólk ekki tala um neitt annað en femínisma þessa daganna – það er náttúrulega ákveðinn áfangi og sigur í sjálfu sér að hafa náð því – og það eru margir, ekki síst margar hugsandi konur sem blogga sem gagnrýna Femínistafélagið, lýsa því yfir hvernig femínisti þær vilji EKKI vera og að þær ætli ekki í gönguna í dag í femínistableikum eða katrínarbleikum bol. Unnur og Nanna og Erna og Katrín eru meðal þeirra.

Martröðin er hryllileg... kannski verður 1. maí algjört flopp, enginn mætir og kaupir boli eða barmmerki og við sitjum uppi með fullt af bolum og ég verð að gefa bleika boli í afmælisgjafir og jólagjafir næstu áratugina. Verð kannski að lita bolina áður, kannski verður femínistableikt orðið bannaður litur sem er bara fyrir ýtið og skrýtið fólk og það þýðir ekki einu sinni að reyna að koma bolunum út til leikfimisiðkenda og útivistarfólks því alltaf þegar erlendir þjóðhöfðingjar koma til Íslands verður sérstaklega passað að þeir sjái enga vera að hreyfa sig og stunda leikfimi í femínistableiku og enginn þorir að vera í þessum lit af því enginn vill láta skilgreina sig með ýtna og skrýtna fólkinu.

En mér finnst sjálfri þessi femínistaumræða hafa breytt bloggsamfélaginu – kannski hefur svo margt gerst í heiminum undanfarin ár að það var komin tími til að umræðan og hugsun okkar snúist um mannréttindamál. Ekki bara á Íslandi heldur líka hvernig þessi mál standa víða í heiminum. Magnús hringdi í morgun frá Afganistan. Hann var svekktur yfir að búrkarnir hefðu ekki komið í tæka tíð fyrir 1. maí gönguna og ég sagði honum að Femínistafélagið væri mikið í kastljósinu á Íslandi en sætti mikilli gagnrýni. Hann hló við og sagði að félagið ætti að koma til Afganistan, þar veitti svo sannarlega ekki af að taka til hendinni.

Ég var búin að skrifa afar svar inn á kommentakerfið hjá Nönnu en svo varð svarið svo langt að kerfið tók ekki við því svo ég pósta þar bara hérna:

Hæ Nanna,
þú segir:
"Ég er bara búin að sjá svo mikið að undanförnu af sjónarmiðum og skoðunum hjá sumum femínistum sem ég get ekki með nokkru móti sætt mig við"

Áttu þá við fleiri en draumar Gyðu? Það eru ekki margir femínistar sem tjá sig á Netinu. Ég er ein af þeim og ég hef reynt (ekki tekist alltaf vel:-) að vanda það sem ég segi og held að flestir femínistar hafi lagt sig fram um að vera kurteisir, málefnalegir og staðfastir. Það verður ekki það sama sagt um viðbrögðin hjá mörgum þeim sem tjá sig á móti femínistum. Veit ekki hvort þú hefur verið áskrifandi að póstlistanum þar sem flestir tjá sig því hann er ekki opinber. En umræðan þar gefur góða mynd af því sem hefur verið rætt innan félagsins og þá fjölbreyttu sýn sem femínistar innan þess hafa.

Ég er algjörlega andvíg því sem kemur fram í draumum Gyðu en skil hana. Mér finnst hins vegar í svona félagi í dag eigi ekki að vera skoðanakúgun, þetta er umræðuvettvangur þar sem fólk kemur vitinu hvert fyrir annað. Félagið er opið öllum sem eru femínistar. Félagið hefur ekki sjálft staðið fyrir neinum aðgerðum nema fundum fyrir félagsmenn, sett upp vefsetur og póstlista og staðið fyrir sýningu á myndinni Í klóm drekans. Talskonur félagsins hafa reynt að vera sýnilegar í fjölmiðlum og tjá sig þar. Margir félagsmenn hafa í eigin nafni reynt að hafa áhrif á þá aðila sem niðurlægja konur m.a. haft samband við íslensk fyrirtæki sem auglýsa á vefsvæðum sem vísa á gróft klámefni. Eftir því sem ég best veit hefur það allt verið á löglegum og frekar siðlegum nótum.

Þetta er friðsamleg mannréttindabarátta og það er hornsteinn lýðræðisins að fólk stofni frjáls félagasamtök utan um málefni sem standa því nær.

Það hefur samt alltaf verið markmið félagsins að hafa áhrif.

Ég er ekki sjálf sátt við að femínistar verði allt of herskáir en þegar ég hugsa til baka þá hefur mér í gegnum árin fundist langerfiðast að horfa upp á konur með engan baráttuvilja og gersamlega kúgaðar og blindar sjálfar á kúgunina. Ég held að það sé auðveldara að virkja sprengikraftinn í herskáum femínistum til góðra hluta en að fá þrælkúgaðar og bældar konur til að rísa upp og mótmæla kúguninni.

Mér finnst líka með ólíkindum hve mikla athygli stofnfundarávarp Gyðu hefur vakið og er mjög leið yfir því hve það hefur fælt margar ágætar konur frá þátttöku í félaginu og verið skotskífa allra sem vilja nú knésetja félagið og koma í veg fyrir að það hafi áhrif. Ég er að spá í hvort ég eigi einhverja sök, alla vega væri þetta ávarp sennilega ekki á vefnum nema af því ég beitti mér fyrir að fá sem flest ávörp frá stofnfundinum og setti þetta upp á vefsíðu, ég sé um vef félagsins. Þetta félag er alþjóðlegt og ekki staðbundið, aðalumræðuvettvangurinn er á Netinu og margir eru staðsettir í framhaldsnámi og vinnu erlendis eða utan höfuðborgarsvæðsins. Það er markmið okkar að reyna að byggja upp netsamfélag með því að hafa sem mest aðgengilegt á vef fyrir félagsmenn og það er líka markmið okkar að vera sýnileg.

Tíminn verður að skera úr um hvort það eru mistök og hvort sá neikvæði sýnileiki sem félagið hefur núna mun skemma fyrir.

Ég vona það besta, vona að þessi niðursveifla verði bæði til að koma femínistum rækilega á kortið og líka til að við setjumst rækilega yfir baráttuaðferðir okkar, skilgreinum hvernig femínisma við viljum og hvernig femínisma við viljum EKKI. Ég vil alla vega sjá þjóðfélag sem byggir á umburðarlyndi, mannvirðingu og frelsi. Og tilgangurinn helgar aldrei meðalið.

Nanna og Gyða standa fyrir tvenns konar sjónarmið femínista í dag. Mér flaug í hug þegar ég las lokaorðin hjá Nönnu í dag og setti það saman við yfirskriftina á blogginu hennar ”Konan sem kyndir ofninn sinn”, ég hugsa að þetta sé vísun í ljóð Davíðs Stefánssonar ”Ég finn það gegnum svefninn” , ljóðið um konuna sem fer að engu óð og er öllum mönnum góð og vinnur verk sín hljóð. Þetta ljóð sem á svo mikla samhljóman með íslenskri þjóðarsál hefur alltaf stuðað mig og verið fyrir mér tákngervingur kvennakúgunar og ósýnileika þeirra valdalausu og framandleika þess manns (í þessu tilviki ljóðskáldsins) sem skrifar af lítilsvirðandi vorkunn um þá hópa sem hann tilheyrir ekki sjálfur og sem hann bæði finnur til með og arðrænir.

Reyndar hefur ljóðið um konuna sem kyndir ofninn hans Davíðs orðið mér eldiviður í það eina ljóð sem ég hef birt opinberlega. Það er ljóðið Eldborg og það er svona:

Þegar borgin rumskar
Læðist steinolíustrákurinn
Inn í grátómu húsin
Tifar á strengjasteypunni
Og safnar sprekum í eldinn

Þegar borgin sprettur á fætur
Með sírennuvæli, hrópum og skarkala
Og gráir bólstrarnir teygja sig til himins
Þá veit hann
Að þeir njóta eldanna best
Sem kveikja þá.