30.6.03

Myndir frá strippstaðnum Goldfinger - TalbloggKristín fór til vestur á laugardaginn og ég er ein. Hún fór með fangið fullt af birkihríslum. Ég lagðist beint í djammið og fór víða m.a. á strippbúlluna Goldfinger í Kópavogi. Þar var ég utan dyra við merkjasölu ásamt nokkrum öðrum femínistum. Sumum finnst svona merkjasala ómerkileg. Hér eru nokkur talskeyti frá kvöldinu á talbloggi.

Ég tók slatta af myndum, þær eru á feministinn.is/myndir/goldfinger. Þessar aðgerðir vöktu fjölmiðlaathygli, var í fréttum á Stöð 2 á laugardaginn að þær væru fyrirhugaðar og sýnt frá þessu á sunnudaginn á RÚV og svo var líka grein um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Svo fór ég í tvö partý við Ásvallagötu, fyrst með femínistum í ofbeldisvarnarhópnum og síðan afmæli Emblu. Kom heim um fjögurleytið.25.6.03

Jónsmessa - HuldubókasafniðÉg fór í bókmenntagöngu Borgarbókasafnsins í gærkvöldi. Það var gengið um miðbæinn og rithöfundar lásu úr verkum sínum og bókmenntafræðingar skýrðu sögusvið borgarinnar. Á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið las Sjón úr bók sinni Með titrandi tár kafla þar sem verið er að samþykkja nýja ríkisborgara á Alþingi og þannig verður gullgerðarmaðurinn Leó Löwe íslenskur ríkisborgari og getur byrjað að grafa eftir gulli í endajöxlum tvíburabræðra en þess þarf hann til að vekja til lífsins leirlíkneski sem hann hefur í farteskinu.

Í andyri MR las Steinunn Sigurðar upp úr Tímaþjófinum . Það var farið á torg súrrelistanna og lesið úr sögu eftir Braga Ólafssonar kafla um reykjandi konur. Á leiðinni þangað var farið fram hjá húsinu þar sem ég sá einu sinn hengdan kött. Þar eru undarleg skilti og skreytingar. Það var farið um Njáluslóðir Reykjavíkur þ.e. götur sem heita eftir sögupersónum Njálu. Ég hafði ekki áhuga á því enda hef ég afneitað Njálu, það er ekki minn þjóðararfur.

Svo var áð við Hallgrímskirkju og farið í garðinn við Hnitbjörg þar sem lesið var úr verki eftir Einar Kvaran sem var mikill spíritisti, var í tilraunafélaginu og hélt mikið upp á Indriða miðil en þó Einar hafi samið eina fyrstu Reykjavíkurskáldsöguna þá er borgin eins og úr fókus í verkum hans, þau fjalla um mannlegt eðli og fyrirgefningu - ekki hið efnislega umhverfi.

Það var gengið niður Válastíg, þar var lesið úr bók Jóhamars og það var farið að styttu Jónasar Hallgrímssonar og þar var talað um Reykjavíkursögur þar sem sögusviðið er eins og það hafi gerst hræðilegir atburðir - orðið stórslys eða stríðsátök.

Það var ekki farið á Kaffibarinn þar sem 101 Reykjavík gerist og þar var heldur ekki farið á Súfistann sem er sögusviðið í merkilegum draumum mínum og annarra og það er þar sem leiðin inn í öngstrætið liggur.Þær bækur sem nú eru vinsælastar og það eru sakamálasögur Arnaldar Indriðasonar eru borgarsögur, meira segja nöfnin eru sótt í borgarlandslandslagið og það sem býr undir húsunum t.d. Mýrin og Grafarþögn og ef maður les þessar sögur eins og borgarlýsingar og leiðarkort um borgina þá verða þær vegahandbækur. Eftir bókmenntagönguna fór ég á kaffihús í Austurstræti sem núna er skreytt regnbogafánum og svo gengum við um miðbæinn og Austurvöll og skoðuðum listsýninguna í hálfrökkri Jónsmessunætur, svona mynstur í náttúrunni og samfélagi mannanna, sjónarhorn risa sem horfir á okkur og jörðina utan úr geimnum.

En Jónsmessan er kynjanótt og sögurnar í Huldubókasafninu verða þessa nótt ekki venjulegt letur á bók heldur galdrastafir og græn augu og leiðarlýsingar um huldar lendur og yfirskyggða staði.

24.6.03

Alþjóðavæðing og fátækt


Fór í hádeginu í dag á fyrirlestur Róbert Hunter Wade um áhrif alþjóðavæðingar í viðskiptum á jöfnuð og fátækt. Það var stjórnsýslustofnunin í HÍ og Þróunarsamvinnustofnun sem stóðu fyrir þessu og það stendur í kynningu: "Talsmenn alþjóðavæðingar og frjálsra viðskipta halda því fram að fátækt og ójöfnuður hafi minnkað í heiminum s.l. tvo áratugi. Ástæður séu einkum aukin alþjóðavæðing og alþjóðaviðskipti, sem hafi í för með sér betri nýtingu framleiðsluþátta. Það leiði svo til aukins hagvaxtar og tekna, ekki bara að meðaltali heldur aukist einnig tekjur þeirra sem minnst hafa. Þannig aukist hagsæld allra. Minni fátækt og meiri jöfnuður s.l. tuttugu ára staðfesti því spá nýklassísku hagfræðinnar og stefnu Alþjóðabankans, Alþjóðaviðskipta-stofnunarinnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra alþjóðastofnana. En þessar stofnanir byggja starf sitt m.a. á þeirri kenningu, að aukið viðskiptafrelsi og samræmdar reglur á mörkuðum auki hagsæld allra.Robert H. Wade mun í fyrirlestrinum setja fram rök og staðreyndir sem draga þetta í efa."

Ég hef líka soldið dregið þetta í efa. Þetta með alþjóðavæðinguna og allan hag sem við eigum að hafa af henni. Sérstaklega þessa alþjóðavæðingu sem er bara fólgin í frelsi fjármagnsins og þeirra sem eiga fjármagnið og það kannski á sama tíma og fólk er hneppt í nánast átthagafjötra og ánauð vegna þess að það getur ekkert farið - bara horft á atvinnuna og lífsbjörgina hverfa í burtu. Það er fróðlegt að bera saman hvaða hömlur eru á því að fólk flytjist á milli landa og fjármagn flytjist á milli landa.

En Wade er ekkert mjög hrifinn af valdhöfum í USA, hann segir stjórnina miða að því að koma upp viktoríkönsku stjórnarfari þar sem örfáir eru ríkir og allt miðast við að þeir geti haft það sem best og látið sem flesta þjóna sér. Þar stuðli allt að ójöfnuði. Hann vill líka meina að það séu öfl sem haldi 80% af heiminum niðri og jafnframt auðlegð OECD ríkjanna uppi. Maður fær samviskubit við að heyra þetta, sérstaklega vegna þess að ég var að glugga í Economist og þar er úttekt á Norðurlöndunum og mikið rætt um auðlegð þeirra, ekki síst Noregs og Íslands. Wade er mjög hrifin af alls konar línuritamyndum sem mynda mjög flott form eins og þessi mynd af bikar sem sýnir tekjudreifingu heimsins.

The Rising Inequality of World Income Distribution
Inequality of world incomes: what should be done?
The invisible hand of the American empire
World Development Report 2000/2001 - Attacking Poverty

23.6.03

Með skothylki um hálsinn 19. júní


Sólmánuður byrjar í dag. Það er búið að vera mikið að gerast síðustu viku, fyrst ferming Kristínar Helgu 15. júní og kaffiboð 17. júní. Magnús er núna farinn aftur út til Afganistan. Hann fór á föstudagsnóttina. Við vorum í sveitarsælunni í Borgarfirði á miðvikudaginn 18. og svo var mikið að gerast 19. júní. Ég náttúrulega reyndi að skrá sögu dagsins á myndmáli og ná bleiku stemmingunni og lífsgleðinni á mynd, hér er myndasíðan frá 19. júní með 33 myndum.

Mér finnst þessi mynd hér fyrir ofan skemmtilegust, hana tók ég á Austurvelli, þarna er Gyða í forgrunni bleik og grallaraleg og virkar bara soldið hættuleg og líkleg til að láta draumana rætast. Kristín Helga og Ólöf í bakgrunni.

Ég var í bleikum bol allan daginn og með sérstaka hálsfesti og eyrnalokka í tilefni dagsins, það voru djásn sem ég keypti í Finnlandi í vor, eitthvað voða etniskt mynstur með kvenlíkneski, mynstrið heitir "dúkkan" og er frá Kalevala Koru. Hugmyndin er frá trélíkneskjum sem stóðu fyrr á öldum við við kirkjur og voru söfnunarkassar fyrir fátækraölmusu. Þessi líkneski eru kölluð "fattigglubbar" á sænsku en "vaivaisukot" á finnsku og um þau segir: ""fattiggubbar, benämning på träskulpturer som förr var ett slags penningbössor för insamling av frivilliga allmosor åt de fattiga." og ég fann þessa grein á sænsku: Fattiggubbar är hans passion. Hef ekki heyrt um þennan sið á Íslandi. Hér er mynd af mér með Ástu á Prikinu að kvöldi 19. júní með þessa finnsku hálsfesti og eyrnalokka. Ég var tvisvar spurð að því þennan dag hvort ég væri með skothylki um hálsinn. Fyrst spurði Magnús mig að því, hann er hermaður í Afganistan og hugsar um vígvélar og skotfæri allan daginn. Svo hittum við tvo Bandaríkjamenn á Prikinu sem sögðust vera í stopover á Íslandi og höfðu villst inn á gleðskap femínista og vildu vingast við okkur en virkuðu óöruggir og varir um sig í návist allra þessara baráttuglöðu femínista. Öðrum varð starsýnt á festina mína og spurði svo líka hvort þetta væru skothylki. Ég held hann hljóti líka að vera hermaður.

En bærinn var bleikari en nokkru sinni áður og femínistar voru áberandi í fjölmiðlum. Ég var í Laufskálanum um morguninn, Kristín Ástgeirs var í útvarpsþætti um söguna og í hádegisfréttum RÚV var frétt um bleiku steinana, í kvöldfréttum var frétt um daginn og sýnt heilmikið af bleikum femínistum á kvennaslóðum. Svo var Kristín Ólafs. í Kastljósinu en fjölmiðlar fylgdust vel með þegar hún og Erla færðu ráðamönnum bleika steina, Birna flutti ávarp á Hallveigarstöðum og Auður flutti ávarp í kvennamessunni í Laugardal og Gísli Hrafn flutti ávarp í Sælingsdal. Bloggarar flögguðu líka bleiku þennan dag og tjáðu sig um jafnréttismál. Sem dæmi um hina stórkostlegu vakningu dagsins í blogglandi má nefna að Svanson fór í bleika skyrtu, Bloggari Andskotans eyddu nokkrum línum í að nöldra um blúndur og bleikt og Katrín er eitthvað að meyrna því hún sagði: "...sko feministar sem eru að berjast fyrir því sem skiptir máli eru alveg góðir og gildir fyrir mér.." en hún tók reyndar sérstaklega fram að ég er ekki í þeim hópi. Hún var samt í bleiku eins og venjulega. Bryndís Ísold vill einn dag þar sem allar konur ganga með eyrnatappa í kringum menn sem þær telja ekki hlusta á sig og Unni finnst kosningarétturinn ekki skili endilega svo miklu með núverandi kerfi að það gefi tilefni til hátíðarhalda.

En skemmtilegasta setningin á blogginu 19. júní var hjá Kirk-aranum sem sam bloggaði í bleiku og sagði: "...
Af því að í dag er 19. júni og kvennréttindadagurinn og feminitar að hvetja fólk til að mála bæjin BLEIKAN. Þess vegna er þessi færsla svo rosalega BLEIK því ég styð jafnrétti kynnjana en þó ekki málflutning feminsta því hann er aðeins of ýktur alltaf og í raun mannskemmandi fyrir þá sem hlusta og þær líka.

Dýpsta spekin á blogginu 19. júní var svo hjá Örvitanum sem klæddist ekki bleiku en var bleikur í verki og segir : "Mér finnst skipta meira máli hvað fólk gerir heldur en það hvað það segir."

19.6.03

Málum bæinn bleikan


Það gengur bara vel að mála bæinn bleikan og gefa bleika steina, femínistarnir sem hafa farið niður í miðbæ segja að Laugavegurinn sé ansi bleikur í dag og svo linnir ekki fyrirspurnum út af hvar bleiku bolirnir og femínistamerkin fást. Vona að þessi nýju snið séu komin í GK og Spútnik á Laugaveginum. Ég er komin í bleika bolinn minn og ætla í gönguna frá Ráðhúsinu kl. 16:30 og svo að femínistast eitthvað fram á nótt. Er meira að segja að spá í að fara á messuna í þvottalaugunum í kvöld til hátíðarbrigða. Hugsa að það verði nú samt meira stuð á Prikinu og ég ætla þangað líka, þar verður Páll Óskar að spila kvennatónlist í kvöld og allt í bleiku, líka drykkirnir. Ég er að spá í að taka saman vefsíðu með femínistatónlist, það komu góðar ábendingar um svoleiðis tónlist á femínistapóstlistann.

Annars er frábært hvað femínistar eru mikið í fjölmiðlum, Halla og Gísli Hrafn og Guðrún og Sóley slógu í gegn í fólk hjá Sirrý í gær. Svo var dagurinn í dag bara fjölmiðladagur hjá mér, fyrst var ég í heljarlöngu viðtali í Laufskálanum á Rás 1 og svo var smávegis viðtal við mig í hádegisfréttum í útvarpinu í dag. Ég talaði mest um femínisma en svo talaði ég heilmikið um blogg og tölvuleiki og Internetmenninguna. Bendi aðdáendum mínum sem misstu af þessu viðtali í morgun á að Laufskálinn er endurtekinn næstkomandi sunnudagskvöld. Ég valdi tvö lög til að spila, það var "Draumar heimsins" og svo "Konan sem kyndir ofninn minn" enda hef ég mikið fálæti (ekki prentvilla, ætlaði EKKI að segja dálæti) á því lagi. Annars hefði verið flott að fagna deginum í Laugarnesfjörunni í safninu hans Sigurjóns og við óðal Hrafnsins og Hallgerðarleiði. En svona byrjar ljóð Jóhannesar úr Kötlum:
"Draumar heimsins dóttir góð
munu reynast margvíslegir
glímdu sjálf við sannleikann
hvað sem hver segir."

18.6.03

Myndir frá fermingunni og 17 júní


Setti inn á vefsíðu nokkrar myndir frá fermingunni og sautjánda júní. Það er búið að vera svo mikið að gera í öðru þessa daga að ég hef ekki tíma eða orku fyrir femínistastúss. Mætti ekki á karlmennskufundinn á Grand Rokk sem var í fyrradag, þar var fjölmenni og fjör. Mæti ekki heldur í salinn í Fólk með Sirrý í kvöld en þar verður bærinn skoðaður með kynjagleraugum í beinni kl. 21 í kvöld. En ég er alla vega búin að setja upp vefsíðu fyrir 19. júní :
Málum bæinn bleikan 19.júní

16.6.03

Kristín fermd


Kristín var fermd í Áskirkju í gær. Svo var veisla hérna heima, það voru eitthvað um fimmtíu manns í veislunni. Það komu ættingjar frá Bolungarvík, Akranesi, Skagafirði og Hvanneyri. Það komu meira segja nokkrir sem búsettir eru á Spáni. Nú er Kristín komin í fullorðinna manna tölu og orðin töluvert efnuð. Það verður aftur kaffiboð hjá okkur á 17. júní fyrir þá sem voru úti á landi eða komust ekki. Magnús fer aftur út um jónsmessuleytið. Hér er Kristín að setja á skig skotthúfu og Þorsteina Þöll fylgist með. mynd af öllum systradætrunum fyrir utan kirkjuna og mynd af Kristínu með pabba sínum í fermingarveislunni.

11.6.03

BBC og siðaði farvegurinn


Á femínistapóstlistanum er sagt frá viðtali í BBC við Guðjón Arngrímsson hjá Icelandair og Valgerði Bjarnadóttur hjá Jafnréttisstofu vegna "Dirty Weekend" auglýsinga félagsins í Bretlandi. Það er hægt að hlusta á viðtalið hérna Guðjón er miklu mjúkari á manninn í þessu viðtali heldur er þegar hann kallaði netumræðuna rógsherferð sem nú væri komin í siðaðan farveg. En það er nú gott að þetta sé allt komið í siðaðan farveg, Guðjón svona hógvær og kurteis að tala við BBC og Kvenréttindafélagið og Jafnréttisstofa taka á málinu. Ég held reyndar að það skipti ekki máli fyrir Icelandair hvort eitthvað dómsmál vinnist eða tapast í þessu, það er ímynd flugfélagsins sem málið snýst um og varla er það gott fyrir viðskiptavildina í Bretlandi að vera alræmt þar fyrir kynferðislega slagsíðu í auglýsingum. Ekkert gerði femínistafélagið í þessu annað en leyfa umræðu um þessar auglýsingar í femínistapóstlistanum - reyndar eru næstum allar umræður leyfðar þar (tja...kannski ekki allt frá Geir...þetta er jú póstlisti fyrir femínista). En það var miður að þessi mótmælakeðjubréf voru send út um allt, svona keðjubréf eru eins og hver annar tölvuvírus. Það eru til aðrar og kröftugri leiðir fyrir aktivisma á Netinu. Þessi keðjubréf voru ekki á vegum Femínistafélagins

10.6.03

Fjölmiðladagur


Magnús kom á sunnudagsnóttina, daginn eftir hryðjuverkaárásina. Hann kom í einkennisbúningnum og ferðatöskurnar hans týndust á einhverjum herflugvelli sem hann millilenti á. Fjölmiðlar hafa núna áhuga á frásögn hans á lífinu í Afganistan. Morgunblaðið talaði við hann í gær og birti pistil með myndinni sem ég sendi þeim á baksíðu, Þórarinn á Fréttablaðinu tók símaviðtal og sendi ljósmyndara, Guðjón kom frá fréttastofa Útvarpsins og tók upp viðtal, Borgþór kom frá fréttastofu Sjónvarpsins og tók viðtal út í garði og svo er Magnús núa að fara í Ísland í dag klukkan sjö og tala við Dóru Takefusa. Svo hringdi Svanhildur líka frá Kastljósinu en hann kemst ekki þangað í dag.

Fyrir utan að vera fjölmiðlafulltrúi Magnúsar í dag þá byrjaði ég daginn líka í fjölmiðlaviðtali sjálf. Ég fór í Laufskálaviðtal í útvarpið í morgun sem verður sent út 19. júní.

7.6.03

Magnús hringdi


Magnús var að hringja frá Afganistan rétt áðan og hann var ekki í rútunni sem sjálfsmorðsárásin var gerð á. Það munaði hins vegar mjóu. Þeir sem voru að fara frá Kabúl til Þýskalands voru sendir í tveimur hópum í flugvél yfir Hindu Kush fjöllin. Fyrri hópurinn fór í dag og átti svo að bíða í Uzberkistan yfir nótt og svo báðir hóparnir að fara þaðan með sömu flugvél til Þýskalands. Hann lenti í seinni hópnum. Það var á fyrri hópinn sem sjálfmorðsárásin var gerð, það voru 33 friðargæsluliðar sem voru í rútu sem var á leið út á flugvöll og nokkrir dóu og margir eru lífshættulega slasaðir. Margir Afganar sem voru á götunni slösuðust líka.

Kabúlárás í fréttum - Hryðjuverk


Kristín heyrði rétt áðan endinn á einhverri frétt í útvarpinu um friðargæsluliða í Kabúl og er núna að fletta upp í textavarpinu. Þar stendur að allt að sex þjóðverjar hafi dáið í sprengjuárás og margir særst. Þetta var hryðjuverk, það var leigubílsstjóri sem klessti á rútuna og sprengdi sjálfan sig í loft upp. Ég skoðaði fréttina á isafkabul.org. Okkur Kristínu brá mikið. Magnús er í þýsku herdeildinni. Ég held að engir íslenskir fjölmiðlar viti að það er íslenskur friðargæsluliði þarna.
....
Búin núna að finna frétt á mbl.is : Sjálfsmorðsárás á friðargæsluliða í Afganistan. Það er líka frétt á ruv.is vefnum um árásina.

Frétt um árásina er líka á forsíðu BBC, Peacekeepers killed in Kabul blast. Þar stendur m.a. :
"The majority of peacekeepers on the bus are believed to have been German. Afghan police put the death toll at six, but German military officials said three soldiers had been killed." og líka að margir í rútunni séu mjög alvarlega slasaðir.
.

4.6.03

Bloggað um bloggara - bókmenntabloggKannski maður ætti að skrá sig í HÍ næsta vetur... barasta til að fara í bloggbókmenntakúrsinn hjá galdramanninum. Eða stúdera kynjafræði. Það ætti ekki að taka neinn tíma, ég er hvort sem er alltaf að stúdera og pæla í kynjafræði þessa daganna og þessi endalausa nauðgunarumræða á femínistapóstlistanum hefur orðið til þess að ég hef lesið málsatvik í flesturm nauðgunardómum síðustu ára sem eru á www.haestirettur.is vefnum.

Hef ekki fundið neinn dæmdan eða ódæmdan nauðgara sem játar brotið, meira segja þessi ostaskeraskrælari sem nauðgaði og barði stanslaust í þrjár stundir þannig að stúlkan fór beint í kvennaathvarfið næstu vikurnar, hún vildi ekki vera heima hjá sér því hún vildi hlífa yngri syskinum sínum við hvernig hún leit út - hann sagði við fystu yfirheyrslur að hann héldi ekki að þetta væri nauðgun en bar fyrir sig minnisleysi. Líka þessi morðingi sem undirbjó nauðgun vandlega þegar fyrrum kærasta var að passa systkini hans, planaði allt og setti upp myndbandsupptökuvél og tók upp nauðgunina, fjölfaldaði upptökuna og dreifði til ýmissa aðila og montaði sig af nauðguninni við vini og kunningja, hann sagði líka í yfirheyrslum að þetta væri ekki nauðgun. Það er víst alltaf óljóst hvað er nauðgun og hvað ekki.

Annars finnst mér þessir hæstaréttardómar sem varða svona tilfinningamál vera sterkar frásagnir sem gefa innsýn í sálarlíf fólks. Reyndar kannski of mikla, mér finnst eiginlega skrýtið hvað fólk er berskjaldað fyrir innsýn dómsvaldsins og hvað mjög viðkvæm persónuleg atriði er að finna í málskjölunum á vefnum. Stundum langar frásagnir af lífi fólks og basli. Þeir sem eru dæmdir eru í mörgum tilvikum fólk sem hefur þvælst í kerfinu og komist oft í kast við yfirvöld dómsmála eða félagsmála.

Eiginlega finnst mér sumt af þessum frásögnum í hæstaréttardómum vera óþægilegar á sama hátt og myndin Hlemmur og bókin Sálmurinn um blómið og ljósmyndasýning Mary Ellen af undirmálsfólki. Næstum eins og þetta sé skrifað sem skemmtiefni. Kannski eru þetta eins konar bókmenntir, svona nauðgunarsenur og aðdragandi þeirra og eftirmál - þetta er eitthvað svo sterkt sambland af valdi og valdaleysi og svo er líka þetta sambland af valdi og valdaleysi þegar nauðgari er dæmdur og tekur út refsingu. Kynferðisafbrot Ljósvíkingsins Magnúsar Hjaltested varð Halldóri Laxness yrkisefni.

En mér finnst eins og það séu núna að koma fleiri ritsnillingar inn í bloggið og það er líka komin einhver meiri menning í sambandi við samræður á bloggi - ef maður hugsar um blogg eins og bókmenntir þá er þetta mikilvæg vídd sem er öðruvísi en bækur - hvernig höfundur kemst í samband við lesendur sína og lesendur eru sumir líka höfundar annars staðar eða inn í kommentakerfum og hvernig ritverkið (bloggverkið) spinnst áfram á einhvern ófyrirséðan hátt en stundum fyrir bein áhrif frá lesendum. Það er líka áhugavert hvernig blogg getur eins og vaxið inn í annað blogg. Kannski gera bækur það líka, það er bara þetta trjákvoðuform sem villir fyrir okkur, bækur verða fyrir áhrifum frá öðrum bókum.

En helstu bókmenntatíðindi bloggheimsins íslenska eru að Bloggari Dauðans sté upp frá dauðum. Margir ritfærir tjá sig nú í bloggheimum og þeim fjölgar og bloggverkin verða líka flottari í lúkkinu. Hinn orðheppni blaðamaður á badabing.is er kominn með nýtt súperflott lúkk og margir tjá sig um það í kommentunum hjá honum. Þar er líka skemmtileg frásögn af bloggskjalli: "En nú, í skjóli bloggsins, hefur hetjan Tóti Soprano skyndilega öðlast hugrekki, og ástarjátningarnar brjótast fram eins og stórfljót...".

Auður rithöfundur bloggar um fagurfræði og bókmenntir og amstur hversdagslífsins. Gaman að sjá að rithöfundar eru komnir inn í bloggheima. Annars sló Auður í sló í gegn með Mikkanum sínum eftir að Hallgrímur Helgason hafði áður skrifað um sinn Mikka. Hmmmm... Allir ættu að skrifa svona um sinn Mikka. Talandi um Mikka þá hefur hann tengst bloggi þannig að hann skrifaði illa um bloggið. Það verður ekki fyrirgefið. Sagði það hafa gleypt vin sinn Dr. Gunni. En það var bara hans tap, þetta var gróði bloggheima, mér finnst Dr. Gunni vera mikill bloggritsnillingur. Svo finnst mér skemmtileg þessi nornasveimur og rölt um blindgötuna.

Annars finnst mér þessi MT blogg vera orðn smart. Ef Blogger og blogspot blogg lagast ekki bráðum þá er ekki annað í stöðunni er yfirgefa það taltól. En mér líst vel á typepad.com sem sama fyrir MT og blogspot er fyrir Blogger.

2.6.03

Furstinn af Íslandi


Magnús kann ansi vel við sig þarna í þýsku herdeildinni í Afganistan. Hann átti afmæli í dag og hélt grillveislu. Góður matur, góður þýskur bjór, fullt af ferðum þar sem hann er keyrður á milli staða í Bens - að vísu hermannabíl og allir gráir fyrir járnum.

Attac


Það er oft voða mikið vesen að vera í landi þar sem maður skilur ekki málið. Svoleiðis er það um alla Evrópu og ekki einu sinni neitt sameiginlegt mál eins og latína eða enska sem allir skilja. Sums staðar vill fólk alls ekki tala ensku og þykist ekkert skilja í því máli. Ég var eitt kvöld, mig minnir að það hafi verið árið 2000 á gangi í miðbænum í Brussel. Ég var ein og hafði ekkert að gera um kvöldið og kem að einhverju samkomuhúsi eða að ég hélt bíó þar sem fólk var að streyma inn. Ég reyndi að lesa eitthvað í auglýsingaskiltin fyrir utan, þau voru á flæmsku eða frönsku en með fullt af myndum og ég komst að þeirri niðurstöðu að þarna væri að hefjast teiknimyndahátíð, svona í anda Asterix sagnanna. Ég ákveð að smella mér inn, hélt að það gerði kannski ekki til þó allt væri á flæmsku eða svoleiðis málum, ég gæti bara horft á myndirnar.

Bíósalurinn var skrýtinn en mjög flottur. Svona underground stemming, það hafði allt verið rifið úr þessu húsi sem ábyggilega var ekki upprunalega leikhús og svo steypan verið barin að utan og svo málmklumpar í burðarvirkjum allir sjáanlegir. Leit svolítið út eins og rústir. Minnti mig ekkert á stuðlaberg. Svo voru eldgamlir leikhússtólar. Það var troðfullt af fólki og mikil stemming. Svo byrjaði einhver maður að flytja ræðu og honum var mikið niðri fyrir, ég hélt að þetta væri kynning á teiknimyndunum og skildi náttúrulega ekkert.

Svo byrjaði sýningin. Þá fattaði ég strax að þetta var ekki teiknimyndahátíð en ég var langan tíma að skilja samt út á hvað myndin gekk. Er ekki viss um að ég viti það ennþá. Það var brugðið upp svipmyndum af þjóðarleiðtogum í Evrópu að segja eitthvað og svo fór ég fyrst að ná þræði þegar gamli gúrúinn Milton Friedman birtist á skjánum og hann virtist vera mikið númer í myndinni. Ekki samt sem hetja. Svo varð þetta bara heimilislegt þegar farið var að tala um Mont Pelerin samtökin og sýnt frá samkomum þeirra hér og þar um heiminn.

Þegar bíósýningunni lauk voru einhvers konar umræður þar sem fólk út úr sal kom með innlegg, allir voða æstir og heitir af baráttugleði, ég var náttúrulega ansi mikið út á þekju, skildi ekkert en skemmti mér við að horfa á fólkið og spá í hvernig er að skilja ekkert - skilja hvorki tungumálið og né málstaðinn. En ég tók eftir að þessi fundur og bíósýning virtist vera á vegum einhvers hóps sem kallaður var Attac. Eða ég var ekki alveg viss, kannski var það nafnin á þessari kvikmynd.

Það var í gær þegar ég fór að leita á Netinu að hverjir hefðu skipulagt mótmælin við G8 fundinn að ég rakst aftur á þetta nafn Attac. Þetta virðist vera hreyfing sem var stofnuð í Frakklandi 1998 og er víða til. Mér virðist aðaltakmarkið hjá hreyfingunni að berjast gegn einhvers konar frjálshyggju eða neo-liberalism. Nafn hreyfingarinnar er komið úr hugmynd um fjármagnsskatt, kallað Tobin skattur. Ég held að þessi mótmæli í Genf hafi verið á vegum margra aðila og ekki endilega samhljóða. En þetta virðast samt hafa verið mótmæli gegn heimsvaldastefnu og yfirgangi Vesturlanda í Austurlöndum og Afríku, mótmæli gegn því að engar hömlur séu lagðar á að fjármagn flytjist milli landa á sama tíma og það gífurlegar hömlur á að fólk flytjist óhindrað á milli, mótmæli gegn stríði og umhverfisvá og slagorðin eru m.a. opin landamæri og að það séu ekki fáir sem ráða fyrir marga: "þið eruð 8, við erum 6 billjónir".

Kannski eru þessi mótmæli einhver birtingarmynd á byrjandi upplausn þjóðríkja á Vesturlöndum. Þetta voru ekki róstur í kjölfar æsinga eftir fótboltaleik, þetta voru ekki slagsmál þar sem fólk af mismunandi kynþáttum barðist hvert við annað. Þetta voru skipulagðar aðgerðir andspyrnuhópa í Evrópu sem beint er gegn þeirri markaðshyggju sem stjórnvöld flestra ríkari lönd fylgja nú.

1.6.03

Netið og aktivistar - Óeirðir í Genf


Það eru mótmæli og óeirðir núna í Genf, svona mótmæli í tengslum við G8 fundi. Skrýtið að Mbl.is skuli ekki finnast það fréttnæmt og RÚV talar mest um fundinn og kallar mótmælendur "andstæðinga alheimsvæðingar í viðskiptum" og eina fréttin sem ég sá um það hjá fréttahauknum á drudgereport.com var vísun í Washington Post þ.e. grein um að mótmælendur væru að berjast innbyrðis. G-8 Protesters Clash Among Themselves. Skrýtið fréttamat. Lítið innsæi. En BBC er með frétt um málið og svo er náttúrulega hægt að fylgjast með G8 indymedia coverage.

Þetta vekur athygli mína vegna þess að hve mikið Netið og ýmis þráðlaus samskiptatól s.s. SMS sendingar hafa verið notuð í þessum mótmælum og undirbúningi þeirra, bæði til að miðla upplýsingum, styrkja samstöðuna og til að skipuleggja baráttuna. Þetta er einhver vísbending um að aktívismi sé núna kominn á fullu inn í netheima og fari þaðan út. Þetta eru margra daga mótmæli og víða á vefsetrum má sjá frásagnir af þessi tagi: Riot in Geneva í nótt og á nokkrum myndum frá mótmælunum 30. maí má sjá mörg slagorð sem mér líklegt að komið séu frá netverjum, sjá t.d. þessar myndir:

Víðbót
Jæja, Drudgereport er kominn með meira um málið (náttúrulega á eftir mér:-) og vísar núna í ýmsar greinar sem spretta upp t.d. þessa. Ég er að hlusta núna á eitthvað útvarp hjá Indymedia um einhverjar mótmælabúðir (protest villages) sem eru einangraðar og lögreglan er búin að loka öllum vegum. Fólk kemst ekkert á bílum.