31.8.03

þekkingareinokun


Ég var áðan að hlusta á Kastljósið í RÚV, það var svona týpisk fjölmiðlar-um-fjölmiðla umræða og þar var Elín fréttastjóri á RÚV að tala við Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóra EV og Magnús Hreggviðsson forstjóra Fróða og Árna Snævar sem var til skamms tíma fréttamaður á Stöð 2. Þarna voru sem sagt fulltrúar úr tímaritabransanum, sjónvarpsbransanum og dagblaðabransanum að pæla í því hvort eigendur hefðu eða ættu að hafa áhrif á fjölmiðlunina. Enginn var náttúrulega frá netbransanum enda er ekki litið á hina óformlegu orðræðu þar sem fjölmiðlun - það sé í besta falli slúður og óánægjutuldur og í versta falli skrílslæti. Hvers vegna er netmiðlunin ekki tekið með þegar rætt er um fjölmiðlun og þróun og áhrif eigenda á fjölmiðlum? Af því hún er eigendalaus? Af því hefðbundnu fjölmiðlarnir hafa ekki trú á þessum miðli og sjá ekki framþróunina þar? Af því ennþá eru svo fáir sem netmiðlunin hefur áhrif á? En alla vega get ég ekki séð annað en svona fjölradda miðlun þar sem allir tengjast í alla verði stór hlutur af framtíðarmiðlun.

Í Kastljósinu var rætt um áhrif eigenda á sjálfstæði fréttastofa. Sem einn af yfir 250 þúsund eigendum RÚV finnst mér völd mín og áhrif á dagskrána þar vera sárgrætilega lítil. Hef ég þó ýmsar skoðanir á því hvernig mætti bæta þá stofnun. En ég þeir sem fara með umboð mitt þar þ.e. stjórnvöld hafi mikil áhrif og RÚV sé ákaflega fylgispök stjórnvöldum og stundum án þess að taka eftir því, stundum er eins og "...í fréttum var þetta helst.." sé upptalning á því sem stjórnvaldið var að gera og viðtöl við ráðamenn eða þá sem hafa mikla viðskiptahagmuni af að selja vörur eða þjónustu.

En ég hef ekki næstum eins miklar áhyggjur af fjölmiðlum á Íslandi og af því sem er að gerast í höfundarréttarmálum í heiminum. Á morgun 1. september átti að greiða atkvæði um hugverkalög sem margir þar á meðal ég telja mjög hamlandi fyrir framþróun á Netinu. Hér er hægt að skrifa undir áskorun til Evrópskra stjórnvalda um frelsi frá höfundarrétti á hugbúnaði. Annars er gaman að sjá að aktívistar í Evrópu nota WIKI vef eins og AEL (á ensku Association for Electronic Freedom). Ég prófaði að skrifa eitthvað inn í ævingasvæðið (sandbox). Reyndar prófaði ég líka að setja upp wiki hjá SeedWiki. Það eru alltaf að sjást fleiri og fleiri dæmi um wiki. Uppástungur fyri íslensk orð yfir WIKI t.d. KVIKI eða VITKI eða KVIKA - orð sem lýsa að það er fljotlegt að setja þar inn síbreytilega þekkingu.

30.8.03

Hjól, tölva og útsýni á Esjuna


Nú er ég búin að fá mér hjól og nýja tölvu. Hjólið er voða flott með dempurum að framan. Fór út að hjóla í dag. Maður kemst miklu hraðar yfir á svona hjóli en gangandi. Varðandi tölvu þá keypti ég turn frá Tölvulistanum bætti við minni (er með 1 GB ) og dvd/d drifi og lét setja í hljóðlátari viftu. Langaði til að kaupa dvd skrifara en það virðast vera tveir staðlar í gangi svo ég er ekki viss um að það sé rétti tíminn núna. Tékka aftur á því eftir einhverja mánuði. Er núna með cirka fimm tölvuræksni hér heima. Erfitt að henda gömlum tölvum...

Er að flytja inn í nýju skrifstofuna sem er í listgreinahúsi Kennó í Skipholti. Það er örstutt fyrir mig að hjóla þangað. Ég sé Esjuna og svolítið út á Sundin úr glugganum. Var áður með skrifstofu sem glugga þar sem ég sá bara í húsagafl en sá gafl breyttist reyndar í listaverk. En af skrifstofuhæðinni var þó flottasta útsýni í Reykjavík, yfir kvosina og út á Arnarhól og Sundin. Samstarfsfólkið á gamla vinnustaðnum bauð mér í vín og osta á fimmtudagskvöldið til að kveðja mig, frábært samstarfsfólk og merkilegt verkefni sem ég vann í. Fínn tími þar og tími mikilla umskipta bæði í mínu lífi og í heiminum. Held það sjái ekki fyrir endann á því, veit ekki hvort ég get spáð fram í tímann, alla vega hefði ég ekki getað séð fyrir árið 1999 að árás yrði gerð á New York 2001 og að Magnús yrði hermaður í þýska hernum í Afganistan 2003.

En semsagt ný öflugri tölva, reiðhjól og skrifstofa í listgreinahúsi. Tímamót. Vonandi meiri áhersla á listir og mannrækt og umhverfismál og heilsu.

Annars er ég soldið montin hvað ég fæ margar beiðnir um að fá að nota ljósmyndir þessa daganna. Íslenskt tímarit bað um myndir sem ég hef tekið af femínistaviðburðum, svo var hringt í mig áðan og erindið var að einhver bandarískur maður sem ætlar að fara að gefa út bók um gay túrisma á Íslandi hafði fundið mínar gaypride myndir á vefnum og hafði áhuga á að fá myndir frá mér og semja við myndrétthafa. Mér finnst gaman að taka ljósmyndir en mér finnst skemmtilegast samt tjá mig bæði með myndum og texta.

Ásta Björg var að hringja og segja okkur að hún kæmist áfram í Idol keppninni. Hún flaug að vestan til að taka þátt í einhverri keppni sem var í morgun og komst áfram. Það eru víst bara rúmlega hundrað af fjórtán hundruð sem komust áfram.

28.8.03

Fólk í forgrunni





Myndir af Kristínu á Louisiana listasafninu í Danmörku

Ég vaknaði eldsnemma í morgun, keyrði Óðinn út á Loftleiðir um fimmleytið því hann er að fara til náms í Kaupmannahöfn. Hann fer í mastersnám í "biological engineering" minnir mig að hann hafi sagt. Ég setti á vef fyrsta hlutann af myndunum frá sumarfrísvikunni okkar Kristínar í Danmörku, þetta eru myndir frá ferð okkar í Louisiana listasafnið í Humlebæk og reyndar ein mynd af þegar við heimsóttum Ringstedlund sem var heimili Karenar Blixen. Ég er orðin svo leið á hefðbundnum myndaalbúmum og ákvað að gera einhverja tilraun með myndvinnslu - nota einhverja photoshop filtera. Kveikjan að þessu myndaalbúmi er líka verk Roni Horn, hún gerði bók sem heitir held ég "you are the weather" allt með myndir af sömu manneskju í mismunandi veðri. Ég ákvað að taka myndir af Kristínu fyrir framan listaverk mismunandi listamanna og spá í samspil listaverksins sem er bakgrunnurinn og manneskjunnar í forgrunni. Hvort það rynni eitthvað saman. Hvort listaverkið hefði áhrif á hvernig maður sér fólkið í forgrunni. Þetta er líka svona leikur með túristamyndir. Túristamyndir eru nefnilega ótrúlega skemmtilegar, túristinn er oft svo eins og uppstilltur aðskotahlutur.

Annars finnst mér maður geta bara búið til list úr öllu. Ég tók mynd af fótunum á mér þegar útbrotin voru sem mest út af mýbiti eða hvað sem það nú var.
Myndasýning Louisiana listasafnið

27.8.03

Irkið og málverjar


Verst að missa af Bjarna í Ísland í bítið þegar hann var að tala um irk. Ég prófaði Irkið á sínum tíma bæði í kennslu og sem félagslegt tæki. Eru margir á Irkinu ennþá? Ég hefði haldið að svona netspjallkerfi og messenger og SMS hefðu komið í staðinn. íslenski spjallrásalistinn og Félag íslenskra irkara eru alla vega til. Kannski rása linuxarnir ennþá um í Irklandi og tala saman á nördamáli.

Mér finnst Irk og MSN og blogg og vefspjall o.fl. allt vera merkilegt sem svona tæki fyrir félagsleg net. Tæknin til að hafa samskipti er ekki mikils virði ef það er ekkert inntak í samskiptunum. Það er gaman að spá í hvernig ímynd fólk dregur upp af sér í svona samskiptum og til hvers svona samskipti eru. Ég var að pæla í Irkinu, þetta var hentugur samskiptamáti fyrir tæknifólk sem var dreift út um allt en var mest að vinna on-line. Mér virðist líka netleikjahópar áberandi á Irkinu og líka fólk sem er sækjast eftir ýmis konar efni á stafrænu formi. Þannig var irkið á sínum tíma ein mikilvæg leið til að dreifa upplýsingum m.a. um á hvaða netsvæðum væri hægt að nálgast efni. Irkið var sem sagt notað til að flytja þekkingu og þá oft svona óformlega og jafnvel ólöglega þekkingu.

Það gerðist líka að spjallrásir á vefnum urðu svona höslmarkaður og þessi eiginleiki þeirra að maður var ekki í eigin persónu á staðnum og hafði þannig visst svigrúm sem er ekki í daglega lífinu skipti þar máli. Þetta var góð leið til að prófa sig áfram án alla eftirmála við bláókunnugt fólk. Fólk getur í svona tölvuumhverfi þar sem það er bara sálin sem talar dregið upp þá mynd af sjálfu sér sem það vill að viðmælendur sjái , ákveðið sjálft hvaða persónulegar upplýsingar koma fram og svo klippt á samræður hvenær sem er. Fólk er eins og með grímu og það er meira svigrúm en í raunveruleikanum (hver sem hann nú er...) til að leika sér, til að prófa að vera öðruvísi og till að fela sig eða fela einhverja þætti í persónu sinni bak við grímuna. Kannski gildir það sama um blogg og um svona persónulega "profíla" sem fólk gefur af sér á ýmsum vefsíðum. Mér finnst blogg hins vegar vera merkilegra sem persónulýsing vegna þess að það hefur þessa tímavídd, það er saga þroska og breytinga og frekar eins og tal einstaklingsins við sjálfan sig heldur en samskipti við aðra. Reyndar hafa margir bloggarar verið á Irki. Trigger var mikil Irkfrömuður og ritaði leiðbeiningar sem ég notaði mikið með nemendum og sumir bloggara hafa kynnt á Irki eins og Sigurós og Jóhannes.

Reyndar finnst mér svona spjallkerfi vera í einhverju kombakk akkúrat núna, kannski bara af því að ég hef verið á kafi í þessu femínistaspjallkerfi og svo verið seinustu daga að prófa malefnin.com. Það er áhugavert að flestir eru undir dulnefni þar inni. Held ekki endilega að það sé til að dyljast, held eiginlega frekar að það sé partur af þeirri skemmtun að búa til einhverja persónu sem talar fyrir mann. Fólk velur sér nöfn eins og "íslenski bóndinn" eða "komminn" eða "flakkarinn". Sumt í þessu minnir mig á irkið, kannski er þetta eins og Irk á vef þar sem öll umræða er geymd og aðgengileg. Það þýðir að fólk getur alltaf hoppað inn í umræðuna og lesið ef með þarf það sem áður hefur gerst. Núna er það mest þjóðmálaumræða sem er á svona kerfum. En svo ætla málverjarnir á málefnin.com að hittast á föstudagskvöldið á Dubliners og hafa búið til glæsilegt plakat fyrir skemmtunina.

Þetta virðist vera miðill fyrir hina óformlegu umræðu í landinu (lesist: slúður og skammir) og heilmikið notaður því skv. vefnum voru 83 notendur að skoða malefnin.com samtímis í gær, sennilega út af uppsögn Árna Snævarr. Þetta var náttúrulega líka mál málanna á mörgum bloggum.Áhugavert var að í sjónvarpsfréttum var ein aðalheimildin bloggvefurinn frettir.com. Allt virðist benda til að vefumræðan sé að sækja á og það sé besti kosturinn til að fá upplýsingar sem renna eftir óformlegum leiðum. Það er hins vegar áhyggjuefni að fólk vandar ekki nóg orð sín og sumir eru með dylgjur og rógburð um nafngreinda stjórnmálamenn, ég varð vör við það í umræðunni sem ég tók þátt í um slarkara og slæðukonur en sama efni er til umræðu víðar

Er þetta rógur og illmæli eða er hér komið aðhald sem boðar siðbót í íslenskum stjórnmálum?

26.8.03

Strippdansarar og kóngurinn í Swazilandi



Kóngurinn í Swazilandi velur sér árlega nýja konu. Hann velur hana úr hópi strippdansara sem dansa einhvers konar þjóðlegt stripp sem kallast Umhlanga. Hann var einmitt núna að velja sér konu númer 11 og nú er hann farinn að nota tæknina því hann valdi þessa síðustu af strippdansi á vídeóspólu .

Kannski valdi kóngurinn núna stúlku eftir vídeó vegna þess að hann lenti nefnilega í veseni seinast þegar hann tók 10. konuna sína nauðuga úr hópi strippdansara því þá kærði móðir stúlkunnar brotið.. Hún varð nú samt að leggja kæruna á hilluna um aldur og ævi enda er kóngurinn einvaldur og ekki gott að kalla reiði hans yfir sig. Kóngurinn af Swazilandi stjórnar eins og Talibani hefur sett siðgæðislög sem hann segir að séu út af AIDS sjúkdómnum. En það er ekki búrkakufl í Swazilandi heldur eiga ungar stúlkur þar að bera höfuðskúf sem kallast umcwasho til að tákna að þær séu hreinar meyjar.

Konur hafa lítinn rétt í Swazilandi, þær mega hvorki ganga í síðbuxum né SWAZILAND: stuttpilsum og þær mega ekki hafa yfiráð sjálfar yfir eignum og gera samninga í eigin nafni. Þær eru ekki fjárráða samkvæmt lögum landsins. Samt eiga þær þrjá fjórðu af öllum smáfyrirtækjum. Ef eiginmaður deyr erfir fjölskylda hans eignir hans - þ.e. konuna, börnin og aðrar eignir.

Það býr milljón í landinu og 34.4 prósent af fullorðnum í Swazilandi eru annað hvort HIV jákvæðir eða hafa AIDS.

25.8.03

Hreint hvalræði



Ég var að skoða Action Network því núna er ég svo upptekin af því hvernig aktivistafélög geta starfað á vefnum. Gaman sjá eitthvað nýtt til að prófa svo á femínistavefnum. Ég held að það sé kominn tími á að skoða hvernig Netið getur virkað þannig að almenningur geti breytt stjórnarháttum, ekki alltaf að skoða hvernig stjórnvaldið og stórfyrirtækin geta breytt almenningi, uppfrætt fólk, miðlað efni til fólks og fengið fólk til að kaupa vörur og þjónustu og hafa ákveðnar skoðanir. Af hverju getur þetta ekki verið í hina áttina? Eða í margar áttir?

En alla vega þá barasta varð ég voða glöð yfir hvað Ísland er þekkt á svona aktivistavefjum núna. Barasta á forsíðunni og allir hvattir til að skrifa svona bréf "decicion makers" á Íslandi. Þessi "decicion maker" er Helgi Ágústsson sendiherra. Það eru víst tveir ritarar í starfi að svara öllu. Mér finnst þetta dáldið óréttlætt, af hverju að mylja svona undir útlendinga og gera þeim hærra undir höfði en íslenskum jólasveinum, svaraði einhver öllum bréfunum frá Ástþóri í Friði 2000?

Ég held þetta hafi heilmikið áhrif að senda svona bréf sem sendendur taka þátt í að semja - áhrifin eru kannski ekki svo mikil á viðtakandann, hann verður varla var við það núna þegar ormaveislan stendur sem hæst en áhrifin eru á sendandann, hann verður virkur við að forma og senda bréfið.

Annars í sambandi við þessar hvalveiðar og viðbrögð Vesturlanda við því þá hefðu allir sem eitthvað fylgjast með getað spáð fyrir um hver viðbrögðin eru - hvalurinn er orðinn tákn fyrir náttúruna og útrýmingu. Ég er á þeirri skoðun að þjóðir sem hafa lifað af hvalveiðum og fiskveiðum kynslóðum saman og byggt sína menningu á því, eigi sama rétt til sinna veiða og önnur dýr sem veiða í hópum. Það má líka alveg eins vernda það samfélag manna sem byggir á slíkum veiðum. Og það er ferlegt ef náttúruvernd er þannig að hún gildi bara fyrir dýr og ef fólk amast við grindhvalaveiðum Færeyinga af náttúruverndarsjónarmiðum. Ef grindin er ekki ofveidd þá er þetta liður í menningu Færeyinga og það á bara að vernda grindhvalaveiðandi Færeyinga eins mikið og hvali.

Gildir það sama um Ísland? Eins og í kvæðinu sem Helgi syngur "Hér höfum við lifað í þúsund ár..." Og höfum við alltaf verið að veiða hvali? Víst er hvalreki og serímoníur í kringum hann merkilegt í sögu okkar en stórhvalalveiðar við Ísland eru blóði drifin saga argasta arðráns á íslenskri náttúru. Hvet fólk til að kynna sér sögu Ellertsen eða hvað hann hér sem bjó í Sólbyrgi á Flateyri og tæmdi Vestfirði af hvölum.

Tilveran í ess-inu sínu - Púsluspil fyrir netverja


Ég er búin að uppgötva hvernig á að fá margar heimsóknir á spjallvef og vil af gæsku minni deila þessari leið með netverjum ef þetta getur hjálpað einhverjum öðrum. Það er tvennt sem hrífur:

1) Gera stafsetningarvitleysu
Ég gleymdi óvart einu essi í orðinu Femínistapjall og þjóðmálavefurinn tilveran.is henti það á lofti og benti á þá umræðu.
2) Fá einhvern fjölmiðlamann til að skammast út í Femínistafélagið.
Þessar tvær leiðir hafa skilað á fjórða þúsund heimsóknum á umræðuna um greinarnar hennar Eyrúnar sem núna stendur yfir á Femínistaspjallinu. Þeir sem vilja fylgjast skoða þessa mögnuðu umræðu er beint á þessar síður: umræðan byrjar - umræðan heldur áfram - Eyrún blandar sér í umræðuna og fjör færist í leikinn - umræðan heldur áfram af krafti (síða 2) og hún er ennþá í gangi.

Ég er að vísu dáldið sár út í Eyrúnu fyrir að finnast ekki Femínistaspjallið ekki eins merkileg og skrif í Moggann. Hún sagði nefnilega þetta: "Hins vegar furða ég mig á því að enginn hafi svarað þessum greinum í Morgunblaðinu! Það er ofsalega þægilegt að rasa út á tiltölulega smárri spjallrás á Netinu, miklu þægilegra en að senda grein í blað allra landsmanna, Morgunblaðið."

Svo er ég búin að prófa umræðukerfið malefnin.com sem mér finnst alveg ágætur vefur. Ég var þar í gær í dáldið heitri umræðu um hvað það er ljótt að keyra fullur.

Ég hafði ferlega mikið að gera um helgina en ég afvegaleiddist þá eins og vanalega og fór að gera einhverja algjöra tímasóun. Svo núna er ég búin að búa til fjögur femínistapúsluspil sem eru hérna: Púsluspil 1 og púsluspil 2 og púsluspil 3 og púsluspil 4. En ég veit að það eru svo margir netverjar sem hafa gaman af því að púsla svona með femínista. Það er líka hægt að gleðja vini sína og senda þeim svona púslkort. Líka keppast um tímann, hver er fljótastur að raða. Athuga ef fólk ræður ekki við að raða svona mörgum púslustykkjum þá er bara að smella á "shapes" og stilla 6 eða 12 stykki. Nú ef fólk hefur mikinn tíma þá er ágætt að stilla á 240 stykkja púsl.

Svo er ég líka að reyna að starta umræðu um blogg og lýðræði og blogggreinarnar í Veru og í Fréttablaðinu. Allir geta skrifað þar inn, það þarf ekki að vera innskráður. Hvet bloggara til að tjá sig þar.

Skil Svansson vel. Það var heldur ekki minnst á mig í þessari bloggúttekt. Ég er líka svekkt :-) :-)

23.8.03

Jarðskjálfti


Það hristist allt mjög snögglega. Varð jarðskjálfti?

Skráði fyrstu línuna kl. 2:04 skv. Blogger. Svo bætti ég eftirfarandi við:

Jú, það varð jarðskjálfti. Ég var við tölvu. Veit ekki hvers vegna en fyrstu viðbrögðin voru að leita að upplýsingum - fór á www.mbl.is og www.ruv.is og www.vedur.is og skrá þetta hjá mér á blogginu. Ekkert var á þessum vefjum um skjálftann. Ég er dáldið hissa á Veðurstofunni, ég stúderaði eitthverja sjálfvirka jarðskjálftavakt hjá þeim og það var bara eitthvað nokkurra tíma gamalt. Eitthvað er að hjá hvernig þeir miðla upplýsingum á netið.
En svo datt mér í hug að kveikja á útvarpinu þ.e. hlusta á netstrauminn þeirra. Gamla Gufan stendur fyrir sínu. Það var einhver að lesa mjög, mjög rólegri röddu um hver viðbrögð væru.... Ég varð smá hrædd.... hvers vegna svona rosa rólegur... að róa fólk niður... hafði eitthvað gerst?

Þetta voru tveir skjálftar 4.9 á rikter. Miðstöð á Krísuvíkursvæðinu.

Það eru ennþá skjálfar...eða er það ímyndun... mér finnst þetta ekki mjög þægilegt

Smá úttekt á öryggismálum þjóðarinnar. Er vefurinn notaður?
Núna er klukkan 2:43 þ.e. hálftími er liðinn frá þessum jarðskjálfta.
Nokkrir bloggarar voru komnir með fréttir kl. 2.05 mbl.is setti þetta í innlendar fréttir kl. 2.21 en er ekki á forsíðu. Almannavarnir.is er ekki með neitt um skjálftann. Vedur.is er ekki með neitt nema sína sjálfvirku skráningu sem kemur á 5 mín. millibili. Ruv.is er ekki með fréttir um skjálfann.

Hmmmm. núna er kl. 3:10 og í útvarpinu er sagt frá því að útvarpið hafi ekki náð sambandi við Almannavarnir... eitthvað beinlínusamband virkar ekki...... þetta hljómar ekki vel. Eitthvað þarf að athuga öryggismál þessarar þjóðar...

Jæja klukkan er 3:15 og Rúv hefur tekist að ná í Almannavarnir og er með einn á línunni. Ruv.is er líka kominn með smáfrétt um skjálftann á vefinn sinn.

kl. 3:42 Hmmmm... nú er verið að lesa af bloggunum Ég sendi þeim línu rétt áðan á frettir@ruv.is (náði ekki í símann á rúv, þar var bara einhver símsvari) og gaf upp slóðina á molana http://rss.molar.is/rss/blogs.cgi og þeir bara hafa lesið bréfið strax og skoðað jarðskjálftabloggin.

Æ... ég er orðin svo syfjuð en getur maður farið að sofa mitt í náttúruhamförum? Geisp.

20.8.03

Málefnaleg umræða á femínistaspjallinu
Það er bara hasar á femínistaspjallinu, ég held að svona opin umræðukerfi séu sniðug. Ég hef líka skoðað jafnréttisumræðuna á málefnin.com en sá vefur er almennur þjóðmálavefur. Það er líka sniðugt að hafa svona umræðu opna þ.e. hver sem er getur lesið umræðuna, þá fréttir fólk af því ef verk eða orð þess eru til umræðu þar. Á femínistapóstlistanum var oft rætt um einstök fyrirtæki, stofnanir, ritverk, rithöfunda, stjórnmálamenn og blaðamnn og þar sem þeir voru í fæstum tilvikum áskrifendur á póstlistanum þá ef til vill fréttu þeir sem um var rætt ef til vill ekki um umræðuna. Ég held að það geti verið heppilegt á svona umræðuvefjum að fá einhverja sem eru með andstæð sjónarmið til rökræða á sama umræðuþræði. Núna er heilmikil umræða um greinar Eyrúnar og svo er alltaf umræða um greinarnar hans Gunnars Smára á Fréttablaðinu. Það væri flott ef hann kæmi lika inn í umræðuna. Mér finnst eiginlega samræða um skrif vera einn liður í nútíma blaðamennsku.

Það er gaman að málefnalegri umræðu þar sem fólk virðir skoðanir annarra - jafnt þeirra sem eru á sama máli og maður sjálfur og þeirra sem eru á öndverðum meiði. Ég held að allir geti lært af slíkri umræðu og ef til vill breytt skoðunum sínum, held alla vega að það sé mikið þroskamerki ef maður hlustar á rök annarra og er tilbúinn að breyta sínum viðhorfum ef einhver samfærir mann um að önnur viðhorf eru skynsamlegri eða réttari á einhvern hátt.

En mér finnst sumir andstæðingar femínisma ekki vera málefnalegir og skrýtið margt sem þeir dunda við. Hér hefur t.d. einn föndrað þetta merki.

19.8.03

Mikið að gera - skólar að byrja


Ég hef svo mikið að gera að það er ekki tími fyrir blogg þessa daganna. En ég hef verið að kenna á tveimur námskeiðum og þá í bæði skiptin komið heilmikið inn á blogg. Var með fyrirlestur á námskeiði STÍL þ.e. tungumálakennara í MK, fyrirlesturinn var um notkun bloggs í námi og kennslu, sérstaklega tungumálakennslu. Svo var hópur fjarnema á 5. misseri að byrja hjá mér á námskeiði á föstudaginn og voru líka í gær. Fékk upplýsingar í vor um að eitthvað um 14 hefðu valið kjörsvið í upplýsingatækni af fjarnámsnemunum en svo reyndust vera nálægt 40 nemendur skráðir á námskeiðið og þau mættu nánast öll. Gaman að hafa svona stóran hóp af fjarnemum sem hafa valið upplýsingatækni. Þurfti að tvískipta hópnum í staðbundnu lotunni. Þau eru nú öll komin með blogg, það er partur af námskeiðinu að halda leiðarbók á Netinu. Önnur tvö námskeið sem ég hef umsjón með byrja svo 1. september. Svo mun ég flytja erindi á fimmtudaginn í FÁ um hvort upplýsingatæknin hafi breytt skólakerfinu. Svo er ég að flytja á milli skrifstofa og vinnustaða og ekki komin með húsgögn enn og ég er að flytja gögn á milli tölva og allt er á rú og stú og ég finn ekki neitt. Er að tæma tölvuna á gamla vinnustaðnum. Nú er ég komin með skemmtilega skrifstofu í verk- og listgreinahúsi KHÍ í Skipholti.

Magnús kemur frá Afganistan í byrjun september, það er allt með kyrrum kjörum hjá honum, sjá afganistan.blogspot.com. Hann hefur sent tvo geisladiska með myndum, ég hef ekki haft tíma til að setja neitt á netið.

Ef ég hef einhverja orku afgangs þá fer hún í umræður á femínistaspjallinu www.feministinn.is/umraedur en við erum að taka vefumræður í notkun þar. Kerfið lofar bara góðu, þetta er ókeypis, open source kerfi sem ég sá uppsett hjá Öreind og fannst flott. Baldur hjá Öreind hefur líka þýtt allt viðmót á íslensku. Reyndar finnst mér kerfið sem malefnin.com er með vera ennþá fullkomnara. En það eru bara orðnar strax krassandi umræður á femínistaspjallinu, nú er Eyrún farin að skrifa þar inn þannig að nú er ekki allir á sömu skoðun. Eyrún skrifaði tvær greinar í Moggann í sumar þar sem hún gagnrýndi Femínistafélagið og svo skrifaði hún gestapistil á tikin.is þar sem líka var hnýtt í Femínistafélagið. Sumir ganga svo langt að segja að þetta séu beinar árásir hjá Eyrúnu á félagið. En það er bara gaman að það sé hasar í umræðunum.

13.8.03

Lefties have rights!


Ég held upp á daginn, í dag 13. ágúst er alþjóðlegur dagur örvhentra. Ég er í þessum minnihlutahóp. Það er stundum erfitt að vera í heimi sem er búinn til fyrir rétthenta og þar sem flestir virðast bara hugsa með vinstra heilahvelinu. Svo eru mýsnar alltaf vitlausu megin á tölvum sem ég kem að.

En ég þekki ekki hægri frá vinstri og ruglast stundum á hvaða hendi ég skrifa með. Ég skrifa samt miklu verr með hægri hendinni svo ég fatta það eftir smátíma. Það háir mér eiginlega meira að þekkja ekki hægri og vinstri en að vera örfhent. Kemur sér stundum illa þegar t.d. ég er að keyra og fólk segir snöggt "Beygðu núna til hægri". Þá tek ég bara sjensinn og beygi í aðra hvora áttina. Í 50 % tilvika fer ég rétta leið. Í 50% tilvika er ég í vondum málum. Þetta var sérstaklega bagasamt þegar ég var að taka bílpróf. Prófdómaranum var þó sagt frá þessu og ég fékk svona leiðbeiningar "Beygðu í áttina þar sem gula húsið er.... "

Sniðugt nýtt bloggkerfi - typepad.com


Ég er að prófa núna nýtt bloggkerfi, ég skráði mig inn á typepad.com og stofnaði blogg þar. Er að gera tilraun með svona fjölskyldublogg þ.e. fréttir sem tengjast ákveðinni ætt og fjölskyldu. Setti upp blogg fyrir það sem varðar fjölskylduna í Skagafirði, sjá á asta.typepad.com/vaglar. Þetta er afar einfalt bloggkerfi og með fullt af fídusum sem eru ekki inn í blogger. Þetta byggir á movable type en maður þarf ekki sjálfur að setja það upp hjá sér heldur er þetta á vefþjóni eins og blogspot. Það virðist vera auðvelt að setja inn bæði myndblogg og textablogg úr GSM símum og það er auðvelt að setja inn myndaalbúm. Það er líka hægt að búa til alls konar lista.



Ég setti inn myndaalbúm fyrir 70 ára afmæli Kristínar á Vöglum sem var 2. ágúst síðastliðinn. Ég er mjög hrifin af þessum myndaalbúm fídus. Mér finnst typepad.com vera töluvert betra kerfi en blogger. Það hefur samt tvo ókosti. Í fyrsta lagi er það dýrt, það kostar $9 á mánuði ef maður ætlar að hafa möguleika á myndaalbúmum og í öðru lagi þá virðist mér ekki hægt að íslenska fyrirsagnirnar á hliðarvalmyndum. Vonandi kemur svona alþjóðlegt viðmót það sem maður getur valið tungumál. Það er líka boðið upp á að maður geti látið eigið lén vísa á typepad blogg. Ef maður setur ekki fyrir sig verð og að hafa eitthvað á síðunni á ensku þá finnst mér typepad vera góður kostur fyrir alla sem vilja byrja strax að blogga og vera bara 15 mínútur að setja upp blogg. Þetta er líka mjög hraðvirkt kerfi.

Bloghosting grein um Typepad
umræður um typepad

Blogging software and tools
Weblog kitchen

http://radiofreeblogistan.com/

12.8.03

Er ég rausari?


Rakst áðan á grein á Aco um bloggheimsmet Íslendinga. Ég náttúrulega eigna mér part af því enda er ég ekkert lítillát manneskja og hef bara verið iðin við að útbreiða bloggfagnaðarerindið í mörg ár. Er farin að taka að mér fyrirlestra sérstaklega upp blogg, á morgun ætla ég t.d. að halda fyrirlestur fyrir tungumálakennara í framhaldsskólum um blogg og hvernig hægt sé að nota það í tungumálakennslu. Vonandi tengdrast einhverjir þar svo af áhuga að þeir láta nemendur sína blogga í tungumálanáminu næsta vetur. Fólk ætti bara að vita hvað ég hef búið sjálf til mörg blogg á blogspot , ég held að í fyrra hafi það verið yfir hundrað sem ég hef stofnað fyrir nemendur mína. Þeir sem hafa fengið áhuga á þessu hafa sumir látið nemendur sína blogga. En ég er ekki ánægð með þetta:
Til fróðleiks má nefna að Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands hefur lagt til að hugtakið “raus” verði notað yfir það sem í dag er kallað í daglegu tali “blogg” og því er sá sem “bloggar” nefndur “rausari”, jafnvel “vefrausari”. Í pistli nefdarinnar frá 5. maí segir orðrétt: "Frá ómunatíð hafa menn rausað um gerðir sínar og hugsanir og nú er kominn nýr miðill, lýðnet og veraldarvefur, þar sem aðrir geta fylgst með rausinu. Einhverjum hefur hugkvæmst að gefa þessu athæfi nýtt heiti og tala um blogg, að blogga og jafnvel bloggun. En er nokkur þörf á þessum nýju heitum þó að miðillinn sé nýr? Er ekki ágætt að halda áfram að rausa og leyfa öðrum að lesa rausið? Og sá sem rausar er rausari. Ef menn vilja minna á nýja miðilinn mætti kalla athæfið vefraus."

Þetta er nú bara gróf móðgun. Að kalla mig rausara. Og kalla mín djúpúðgu skrif vefraus. Orðanefnd SKýrslutæknifélagsins getur bara hoppað um á skrílnetinu (lýðnetinu) á stikluleggjum sínum (hypertext) og reynt að fá einhvern annan en mig til að nota svona orðskrípi.

En það er gaman að spá í orð fyrir blogg. Orðið blogg er svona eins og að jogga eða vagga. Það er dáldið alvöruleysi í þessu orði og það minnir mig alltaf á hænsn... sem vagga um og eru með gogg. Minnir mig líka svolítið á bla..bla eða blaður. Það er þess vegna sem mér finnst svo skemmtilegar setningar eins og stendur um blogg á Vísindavefnum: "Bloggið er ný bókmenntategund í örri þróun. ..."
Það er bara ekki hægt að taka alvarlega bókmenntagrein sem er kölluð blogg:-) Það þarf þar að nota eitthvað skáldlegra og -ismalegra heiti.

En það er reyndar flott hvað orðin blogg og dragg eru lík. Og blogg er alltaf einhvers konar dragg.

Ég er viss um að Már finnur bráðum eitthvað listrænna orð fyrir blogggjörninga (talblogg, myndblogg, farblogg og gamaldags blogg þ.e. eins og það var fyrir daga hinna handfrjálsu manna). Már er reyndar gullkista í svona orðum, aldrei hefði mér dottið í hug að kalla komment svarhala en það er flott orð. Minnir mig á einhvern barnaleik það sem allir fara í halarófu... inn og út um gluggann (windows frá microsoft), alltaf sömu leið. Svarhali minnir mig reyndar líka á ranghala og botnlanga og völundarhús sem maður týnist í.

Ef bloggiðjan verður útbreidd þá koma mörg orð yfir hana, svona til að tákna blæbrigðin. En það hefur áhrif hvert við sækjum líkingamálið, er það úr talmáli fólks (raus, mal, skvaldur, rödd, tal, hvísl, ræða, segja sögur) er það úr hannyrðum (spuni, vefur, band, þræðir, prjón, hekl), eða úr þegar skorið er í málm eða trjé eða steina (rista, rispa, skera, höggva...) eða úr einhvers konar hreyfingu, ég hef stungið upp á að nota orðið kviksögur fyrir bloggpistla, það er reyndar neikvætt orð eins og raus en það er líka fyrir hina óformlegu orðræðu og hvernig fréttir berast.

Blogg er ekki bara að skrá dagbækur, ekki bara að skrá atburðarás í tímaröð. Blogg getur verið kerfi til að umskrifa eitthvað sem gerist í eitthvað annað og geyma það á stafrænu formi á Internetinu. Þetta er skráð í tímaröð en það er hægt að kalla þetta fram eftir ýmsu öðru og tengja saman og vísa út og suður. Það að blogg er geymt á Internetinu er líka það sem gerir það part af einhvers konar alheims heila eða alheimshugsun sem er ekki eins og neinn miðlægur gagnagrunnur heldur eins og drefð þekking sem er geymd í hinum smæstu eindum og er næstum eins og lifandi efni, getur horfið eða breyst og flust til hvar sem er og hvenær sem er.

Ég held að orð eins og raus nái ekki yfir miðlunar- og geymslumáta af þessu tagi. En að sumu leyti gæti þetta verið þjált, það mætti kalla einstögg blogg raust og fólk sem bloggar segir svona: "Ég hef nú upp raust mína...."

Myndir frá Gaypride 2003




Hér eru mínar ljósmyndir af Gaypride 2003. Þetta eru myndir af ótal regnhlífum í skrautlegum litum og sums staðar sést líka glytta í fólk. Ég fór í bæinn án regnhlífar af því ég vil vera handfrjáls manneskja eins og söguhetjan í Lovestar . Ég gat samt ekki slökkt á rigningunni og á Lækjargötu lenti ég á bersvæði í regnhlífaþykkninu og varð blaut.

Eftirmæli regndropanna

Flúði af Lækjartorgi áður en dagskráin hófst inn á kaffihús. Hitti Ástu og katalóníubúa á 22. Fór á opnun á Nýlistasafninu. Þar horfðist ég í augu við ljósið - þar voru lampaskermar með augum. Líka blúndugardínur og kartöflulandi.


Gaypride 2003 myndir


Salvör Gaypride 2003
Árni Torfason - Gaypride 2003 (æði.. bara maður gæti tekið svona myndir!!!)
Finnur Þorgeirsson - Gaypride 2003

9.8.03

Póstkort fyrir femínista



Ég setti upp áðan vef til að senda póstkort. Slóðin er www.feministinn.is/kort. Ég fann afar einfalt og ókeypis kerfi á vefnum, sótti það og breytti. Svo setti ég upp vef með klás af ljósmyndum sem ég hef sjálf tekið á femínistaviðburðum og Gaypride. Ég held að svona póstkortavefur sé sniðugur sem ein tegund af myndverkum um ákveðið þema, svona eins og eitthvað málefni á aktivistavef eða um ákveðinn viðburð eða stað. Ég er að spá í að hafa það sem eitt verkefni fyrir nemendur í haust þegar þau eru að læra vefmyndvinnslu að hver geri eitt vefpóstkort sem síðan er steypt saman í svona póstkortavef. Kennarar í grunnskóla geta auðveldlega sett upp svona póstkortavefi ef þeir fá uppsetninguna tilbúna.

Annars er þessi póstkortavefur eitt atriði af mörgum sem ég er að prófa sem vefverkfæri fyrir aktívista og til að byggja upp vefsamfélag. Það verður að setja upp vefi sem eru ekki bara til að skoða, líka einhvers konar kerfi til að virkja fólk og taka þátt. Erum þegar búin að setja upp vefumræðukerfi. Næsta skrefið er að setja upp einhvers konar fyrirfram útfyllt bréf sem hægt er að breyta. Hef séð svoleiðis ágætlega uppsett á erlendum aktivistavefjum. Það verður samt að passa að það verði ekki svona ruslpóstsmekkleysa eins og Friður 2000 hefur staðið fyrir.

Óska öllum til hamingju með daginn, Gaypride hátíð fjölbreytileikans og kynfrelsis. Það er náttúrulega tilvalið að senda vinum og velunnurum femínistavefkort með Gaypride þema í tilefni dagsins. Hmmm... kannski vissara að senda svoleiðis kort bara til fólks sem maður heldur að séu femínistar.