24.10.03

Femínistavikan stendur kannski mörg ár...


Ég var að skoða gamalt blogg hjá mér, það var frá því í mars í ár. Það stendur að þetta stefni í femíniska viku í lífi mínu - það var vikuna sem ég fór á uppákomu hjá Bríetum, afmælisfagnað Kvennalistans sáluga og stofnfund Femínistafélagsins. Allt í sömu vikunni. Svo hélt ég að þessu femíniska tímabili í lífi mínu væri þar með lokið. Punktur. En það gerðist ekki. Eiginlega hefur þetta bara magnast upp.... Ég veit ekki alveg af hverju. Einfaldasta skýringin væri að það hefði verið svo mikil þörf, kvenfyrirlitningin og klámvæðingin hefði verið í hámarki og þöggun kvenna átakanleg. En ég held að það sé ekki bara það... ég held að það hafi verið einhver knýjandi innri þörf að einhverjum nýjum viðmiðum og eitthvað tómarúm og dapurleiki yfir ástandinu í samfélaginu bæði á Íslandi og í heiminum fyrir utan.

13.10.03

Draumar um vatn


Kristín sagði við mig í morgun að hana hefði dreymt að hún væri að vaða út í sjó með systur sinni. Hún var áhyggjufull, sagði að draumar um vatn boðuðu veikindi. Ég veit ekki hvaðan hún hefur svona draumaráðningar, kannski úr svona draumakverum en mér hafa alltaf þótt þau kver skrýtin. En ég tek samt mikið mark á draumum, held að í þeim séu oft einhvers konar persónulegar vitranir, eitthvað sem býr innra með manni leitar inn í drauminn eða einhver boð frá umhverfinu sem maður skynjar og getur ekki endilega ráðið í koma fram í draumum. En ég efast um að dulmálslyklar til að ráða drauma séu svo einfaldir að þeir komi fram í draumaráðningarkverum. Annars dreymdi mig mjög undarlega eina nóttina þegar ég fór til Skagafjarðar í brúðkaupið í september. Mig dreymdi að ég væri einhvers konar vísindamaður og ég var að ræða um einhverja vísindauppgötvun sem að mér fannst vera fólgin í því að sýna fram á að einhvers konar örverugróður- sveppagróður hefði samband hvert við annað. Ég var að ræða um að sýnt hefði verið fram á að svona sveppakólóníur - eða einhvers konar örverusamlífi sem myndar stórar heildir - gæfi frá sér boð um hvert rakastigið væri á ákveðnum stað og að þessi boð væru numin af einhverri annarri kólóníu einhvers staðar annars staðar. Það var eihver tilraun sem ég var að útskýra. Mig minnir að ég hafi verið að tala eitthvað um ísótópa (fletti því seinna upp á netinu, kannski var það þetta?) eða einhvers konar ísótópamælingar í þessum draumi, einhver orð sem ég skil ekkert í og nota aldrei.

Lýðræði og þjóðþing á Netinu


Ég hef mest tjáð mig síðustu vikurnar á Netinu á ýmsum spjallkerfum, aðallega þremur en eitt af þeim er malefnin.com. Það er gaman að fylgjast með hvernig þjóðmálaumræða flyst inn á Netið og spá í hvort hún komi til með að hafa áhrif - bæði áhrif inn í fjölmiðla og áhrif beint á almenning. Mér fannst umræðan um nafnlausa uppreisn vera góð og margir punktar þar komu fram sem vöktu mig til umhugsunar um lýðræði og réttlæti. Á sama tíma og það er að vaxa upp málefnavettvangur á Netinu þá eru í gangi hjá nokkrum pólitískum ungliðahreyfingum einhvers konar kosningar sem eru í meira lagi vafasamar sem túlkun á vilja félagsmanna - kosningar sem sýna okkur að lýðræði er ekki fólgin í kosningu og smölun og atkvæðaveiðum rétt fyrir kosningar. Kosningar er vissulega einn liður í lýðræði og einn farvegur fyrir óbreytta félagsmenn eða almenning til að hafa áhrif. En það eru aðrar aðferðir miklu árangursríkari og miklu gæfulegri til að hlustað sé á alla. Kosningar eru bara einn þáttur í lýðræði - það er alveg eins mikilvægt að umræðan sé lýðræðislegt og þeir sem áhuga eða hagsmuni hafi tækifæri til að taka þátt í umræðunni - ekki bara eftir að ákvörðun er tekin - ekki bara sem neytendur heldur einnig til að móta samfélagið.

Ég veit að mörgu fjölmiðlafólki ofbýður umræðan á Netinu og kannski ekki nema eðlilegt því á fjölmiðlum starfa margir sem árum og áratugum saman hafa unnið við fjölmiðla þar sem það þarf að aga mál sitt og hugsa um hvaða áhrif hvert orð hefur og ekki sé vegið að einhverjum ákveðnum hópum. Það sem hefur líka gerst er að umræðan á netmiðlum svo sem malefnin.com hafa verið sérlega óvægilegt einmitt í garð fjölmiðla og þekks fjölmiðlafólks og reyndar svo að ákveðinn hluti af umræðunni var tekinn út eftir mikinn þrýsting. Reyndar velti ég fyrir mér hvort umræðan á málverjavefnum sé ekki svona hatrömm út í fjölmiðla og einstaklinga sem starfa á fjölmiðlum að einhverju leiti vegna þess að hér er nýr miðill - ekki fjömiðill - frekar margmiðill eða sammiðill - og það eins og þessi nýi miðill sé að máta sig við þá miðla sem fyrir eru - og það er kannski persónugert í gagnrýni á þætti og einstaklinga sem eru í hinum hefðbundnu fjölmiðlum, sérstaklega dagblöðum og sjónvarpi.

Innlegg á málverjum týnast í málskóginum mikla og þess vegna setti ég öll mín innlegg á sérstaka síðu svo ég hefði yfirsýn yfir hvar ég hefði tjáð mig og hvað ég hefði sagt.

4.10.03

Nafnlaus uppreisn



Ég startaði umræðu rétt áðan um nafnlausu uppreisnina á Málverjunum. En nú er ég að fara upp í sveit og það verður gaman að sjá þegar ég kem aftur hvort þessir grímuklæddu ofurnotendur sitji þegjandi undir svona ádrepu eins og þeir fengu í viðhorfi Morgunblaðsins í dag.

2.10.03

Að hleypa heimdraganum



Núna í kvöld þegar sjónvarpið íslenska sýndi frá stefnumótunarumræðu á Alþingi þó hringdi í mig sænskur femínisti sem er að rannsaka eitthvað sem hún kallar "feminist media critics" og spjallaði við mig í hálftíma. Ég sagði henni náttúrulega frá öllu sem við værum að gera í Femínistafélaginu en ég er búin að setja upp enska síðu þar. Svo sagði ég henni frá baráttu minni við pressuna og ýmsa fjölmiðla síðasta árið, baráttu sem byrjaði þegar ég var í rimmu við forustumenn Stúdentablaðsins fyrir ári síðan og þar sem ég fékk ekki að skrifa í Stúdentablaðið þá héld ég uppi linnulausu málþófi á blogginu. Svo hef ég upp á síðkastið mest verið að rövla um Kastljósið og fleiri sjónvarpsþætti og fréttatengt efni enda finnst mér ástandið vera sérlega slæmt þar. Hingað til hef ég ekki orðið vör við annað en svona barátta virki alveg og þetta er tilraun í að sjá hvort að einstaklingar fái einhverju áorkað með að tjá sig í tíma og ótíma á netmiðlum.

En þetta er stór dagur hjá Femínistafélaginu vegna þess að í kvöld var fyrsti fundur félagsins á erlendri grund. Ég var að fá bréf frá Erlu í Kaupmannahöfn, það mættu um 35 á femínistafundinn sem var í Jónshúsi í kvöld og sum komu alla leið frá Svíþjóð bara fyrir þennan fund. Ég er búin að setja erindi Erlu á vef Femínistafélagsins. Það var einhver von um betri tíma í vændum að vita að framtak okkar í Femínistafélaginu hefur núna sprota í Kaupmannahöfn og vekur athygli líka í útlöndum.

Grey strákarnir í Pepsíkippuframboðinu



.Ég get bara ekki annað en vorkennt strákunum þarna í Heimdalli í þessum Bolla-Atla slag. Þetta er svona kosning og kosningaaðdragandi þar sem allir tapa. Og kannski er stærsta hrapið í tiltrú fólks á að í þessu félagi sé unnið af heiðaleika og réttsýni. Ásakanir og brigsl ganga nú á víxl. Ef ég skil málið rétt þá var heiftarleg atkvæðasmölun rétt fyrir kosningar ástæðan, sitjandi stjórn tók ekki gildar nýskráningar og önnur fylkingin dró sig þá til baka í fússi. Allir svekktir. Nú veit ég ekki hvernig vanalega er staðið að kosningum í þessari ungliðahreyfingu en þær sögur sem núna eru sagðar eru hreint út sagt óhugnanlegar.

Svei mér þá ef þetta er ekki verra en prófkjör Sjálfstæðismanna í Norðvestur-kjördæmi í vor sem var gerð góð skil í Deiglupistli Andra Óttarssonar Ranglætið sigrar. Um það mál segir Andri:
"Þetta þýðir að eitt mesta kosningasvindl sem vitað er um í sögu lýðveldisins er nú lokið með fullkomnum sigri óréttlætisins. Þeir sem höfðu rangt við komust upp með það og þeir sem reyndu að spyrna við fótum og upplýsa misferlið voru sendir til Washington.
Rétt er að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að tala um neitt smávægilegt kosningasvindl einstakra manna heldur stórfellt kosningamisferli sem einræðisherrar í harðræðisríkjum hefðu verið fullsæmdir af. Það er ljóst að hópur manna á Akranesi og nágrenni fór um bæinn eins og eldur í sinu með kjörkassa og kjörgögn. Farið var heim til fólks, á vinnustaði, í skip, á rúntinn og á alla mögulega og ómögulega staði með kjörgögn til að láta fólk kjósa. Til dæmis má nefna að samkvæmt heimildum sem pistlahöfundur hefur ástæðu til að treysta þá var kjörkassi staðsettur við hliðina á lottóvél í sjoppu á Akranesi og fólki boðið upp á að kjósa sína menn á meðan þeir fylltu út lottóseðilinn! "


Ég er að spá í hvort að þeir sem börðust núna í Heimdalli hafi ef til vill tamið sér vinnubrögð sem af þeim toga sem Andri lýsir og ég hef áhyggjur af þvi af fólk sem starfar í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka vinnur ekki á lýðræðislegan og heiðvirðan hátt. Ég vissi ekki að ástandið væri svona slæmt og kannski er þetta ekki rétt sem málverjinn Helgafell segir
staðreyndirnar í málinu. Hann segir um liðið sem dró framboð sitt til baka (deigluliðið):

"Þau blekktu fjölda framhaldsskólakrakka til að skrifa undir plagg sem bar yfirskriftina Stuðningsyfirlýsing vð Heimdall. Á þessu skráningarformi var fólki gefinn kostur á að haka við innskráningu í "fl." og úr "fl." Svona plagg getur ekki verið löglegt skráningarform á nokkurn hátt og það vissu Bolla/deiglufólkið og því var þeim blöðum ekki skilað inn. Heldur var brugðið á það ráð að slá inn þessi nöfn mánudag nokkrum klukkustundum áður en frestur átti að vera úti um nýskráningar. .........Hringt er í fólk og því tjáð að það hafi verið skráð í Sjálfstæðisflokkinn og því geti það allt eins mætt og kosið fyrir vinagreiða. 15-16 ára krökkum boðin kippa af 2lítra Pepsi fyrir skráningu og mætingu á aðalfundinn...."

Það taka nokkrir til máls á málefnunum og verja þetta, segja að svona vinnubrögð hafi lengi viðgengist í Heimdallarkosningum, það segir enginn að þetta sé rangt. Það er eitthvað að