28.11.03

Hvíta gullið


Ég hef bara farið á einn stað í Mexíkó. Það er í landamæraborgina Ciudad Juarez og þar var ég bara í tvo daga. Ég hefði viljað vera þar lengur og rölta um hlíðar sem einu sinni voru beitarlönd fyrir stórar nautgripahjarðir. Hlíðar sem voru þaktar kofum og hreysum, þetta voru íbúahverfi í þessari borg en þarna var ekkert rafmagn og ekkert vatn, ég held að vatnið hafi komið í vatnsbílum. Vegarslóðar liðuðust um hlíðarnar eins og kimar í völundarhúsi, það voru engar vegamerkingar, engin merki um áhrif frá miðstýrðu borgarskipulagi, þessi byggð virtist reist utan við lög og rétt.

Ég hef oft komið í slömm í erlendum borgum þó sjaldan hafi þau verið fátæklegri. En þetta hverfi hreif mig - mér fannst hreysin vera dulbúnar hallir og það var eitthvað við landslagið - andstæður og fegurð - það var útsýni yfir Rio Grande ána og og yfir í Texas þar sem stjarnan stóra blikar öll kvöld. Þessi stjarna hefur logað frá 1940 og þekur heila fjallshlíð, hún var fyrst vörumerki rafveitunnar í El Placo en er núna orðið tákn borgarinnar og síðustu árin hefur hún blikað á hverju kvöldi, ekki bara um jólaleytið. En séð frá fátækrabyggðum í hlíðum Ciudad Juarez er stjarnan vonarstjarna. Eða villuljós.

Sitt hvorum megin við ána Río Grande standa borgirnar El Plaso og Ciudad Juarez. Önnur er í USA og hin er í Mexíkó. Ég veit ekki við hverju ég hafði búist þegar við fórum yfir ána. Alla vega ekki þessu. Ekki svona örtröð, svona óendanlegri bílalest, bílarnir voru líka skrýtnir, margir ævagamlir og illa útlítandi, svona eins og skröltandi brotajárnshaugar. Og svo margir bílarnir voru fullir af fólki. Réttara sagt fullir af karlmönnum í vinnugöllum. Einhvers konar farandverkamenn á leið til USA. Svo voru öll uppljómuðu vegaskiltin sem blöstu við þegar komið var yfir í Mexíkó. Mörg voru að auglýsa lyf og pillur það stóð alla vega víðast hvar Drugstore.

Svo síðdegis fylltust göturnar af verksmiðjustarfsfólki á heimleið. Mér sýndist það vera mest ungar stúlkur og ég tók eftir að þær voru í einföldum klæðnaði en með litskrúðug hárskraut og eyrnalokka og hálsfestar. Á mörgum gatnamótum í Ciudad Juarez voru Indjánar stundum voru það konur með fléttu á baki og barnahóp í togi sem fetuðu milli bílanna með tusku undna í vatni og buðust til að þurrka af framrúðunni fyrir smáaura. Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar.

Það er einhver gullgrafarablær yfir Ciudad Juarez. Það sogast fólk að þessari borg og þessum landamærum í leit að betri framtíð og auðteknum gróða. En það er ekki málmurinn gull og þar er ekki jarðefnið olía sem er verðmætin og varningurinn. Þarna er hlið inn í vestrænt neyslusamfélag og skiptimyntin er vinna verkafólks. En í landamæraborginni Ciudad Juarez og dauðalínan. Það var grein um ástandið í Ciudad Juarez í Morgunblaðinu í dag. Þar hafa 263 konur verið myrtar frá því í janúar 1993.

Ég vona að þessi grein í Morgunblaðinu sé merki um að augu heimsins muni einhvern tíma opnast fyrir ástandinu í gullgrafarabæjum nútímans eins og Ciudad Juarez. Ég vona að fólk átti sig á að mannfallið og aftökurnar eru ekki mestar í skotbardögum þar sem bófagengi og góðu kúrekarnir plaffa hvern annan niður. Í þessari landamæraborg eru konur kyrktar og limlestar í svo stórum stíl að borgin hefur verið nefnd Ciudad Juarez: The Serial Killer´s Playground eða leikvangur raðmorðingja. Það er gífurlega víðfeðm leit að morðingjanum og löggæslumenn í borginni eru ásakaðir um spillingu og vanhæfni. En kannski er morðinginn ekki einn maður heldur margir og kannski eru morðin afleiðing af ástandi og spennu og viðhorfum á þessum stað. Um ástandið má lesa í þessari grein:
NPR : Curruption at the Gates (September, 2002).

8.11.03

Femínistaumræða í útlöndum og á Netinu


Á fimmtudagsmorgni hringdi í mig Siri Lindstad sem er norsk frílans fjölmiðlakona. Þetta var símaviðtal því hún ætlar að skrifa grein í norskt tímarit um Femínistafélagið. Hún bendi mér á að það hefði komið viðtal við Rósu um félagið í Kilden. Mér sýnist það sé töluverður áhugi meðal femínista á Norðurlöndum að fylgjast með Femínistafélaginu, það eru alltaf að koma bréf og erindi erlendis frá. Ég verð að bæta meiri upplýsingum við ensku síðuna, mér sýnist að allir sem hafa samband séu þegar búnir að stúdera allt sem þar stendur. Það er búin að vera mikil umræða seinustu daga á femínistapóstlistanum um vændi, um auglýsingar og um heimsfréttirnar. Siri sagði mér að hún væri áskrifandi að listanum. Gaman að heyra hvað margir erlendis eru á listanum.

En það er femínisk umræða víða. Ég hef t.d. startað tveimur umræðum á málverjavefnum, einni um hve ónákvæmir lögfræðingar geta verið (útlegging á grein Andra Óttarssonar á deiglunni) og einni um siðfræði og vændi. Senni umræðan er búin að vera ansi lífleg, það voru 163 svör komin og næstum tvö þúsund flettingar. Svo reyni ég að fylgjast með netumræðunni á femínistaspjallinu.

5.11.03

Meðlíðan


Ég var á femínista-hitti upp á lofti á Sólón í gærkvöldi. Þetta eru óformlegar samkomur sem eru alltaf fyrsta þriðjudagskvöld í hverjum mánuði. Fínt að fá sér eitt rauðvínsglas eða bjór og hitta hugsjónafólk og reyndar líka fínt að hitta þarna þá sem eru tortryggnir í garð femínista. Það er svo lítið púður í því að vera bara innan um þá sem eru manni sammála. Halla var fyrst með flott innlegg og síðan voru heitar umræður við borðin. Ég sat hjá nokkrum strákum sem voru sumir mjög skeptískir á femínistafélagið, hvort þetta væri ekki félag sem væri bara að berjast fyrir sérréttindum kvenna, hvort þetta væri ekki fáránlegt nafn á félagið að kenna það við eitthvað kvenlegt o.s.frv.... við fengjum ekki fólk inn í félagið með svona áherslu.... Ég skil ekki hvað eru margir sem standa utan félagsins sem vilja breyta félaginu og meira segja ganga svo langt í byrjun áður en þeir hafa kynnt sér fyrir hvað félagið stendur að þeir vilja breyta nafni félagsins. Af hverju ættum við að breyta nafni félagsins t.d. í Líonsklúbburinn Kiddi bara til að þóknast einhverjum???? Af hverju ættum við líka að breyta áherslum sem sýnilegt er að virka þrælvel til að þóknast einhverjum sem tja... virðist vera mest umhugað um að félagið virki ekki... Þetta er aktívistafélag og það er markmiðið að ná fram breytingum. Á friðsamlegan hátt og með rökum og málefnalegri baráttu og með því að fara að lögum. En við ræddum líka í gær hvað er erfitt að vera alltaf málaður út í horn... hvað er erfitt að vera alltaf gerðar upp skoðanir og viðhorf og það sé reynt að draga upp þá mynd af femínistum að þetta sé fólk sem er urgandi fullt af hatri og beiskju og pirringi ... dæmi er um þegar í kastljósþætti þar sem tveir málefnalegir femínistar mættu til að tjá skoðanir sínar (takk RÚV fyrir að leyfa okkur að koma og segja eitthvað... ég er alla vega þakklát fyrir það!!) þá hóf fréttamaðurinn orðræðu sína með: "Af hverju eru þið svona pirraðar???". Hver var pirraður? Af hverju heitir það að vera pirraður að heimta að það sé hlustað á fólk sem vinnur að mannréttindum og vill benda á gróf mannréttindabrot.

En í gær þá sagði ég við viðmælendur mína (strákana) að ég dáðist að fólki sem léti sig mannréttindi varða svo mikið að það berðist fyrir mannréttindum hópa sem það tilheyrði ekki sjálft eða hefði tilheyrt eða hefði hag af að berjast fyrir. Ég sagði að það væri prófsteinn á hversu mikið fólk ynni mannréttindum og ég sagði að ég ætlaði að nota það sem prófstein á sjálfa mig. Og það er alveg satt, ég ætla að ganga í eitthvað félag eða vinna að einhverjum mannréttindamálum þar sem ég hef engra hagsmuna að gæta en þar sem mér finnst brýnt að eitthvað gerist. Ég fór að hugleiða hvaða félag það ætti að vera eða hvaða fólk er niðurkýldast í samfélaginu.... er ekki alveg búin að sjá það út en það eru hópar eins og fangar og fíklar. Líka fólk sem er mikið fatlað. En mér finnst flott að hafa einhvers konar meðlíðan með öðrum - ekki svona halldór-laxness meðlíðan heldur líka meðlíðan sem felst í því að vilja gera eitthvað í málunum. Ekki bara horfa.

4.11.03

Stuttmyndir


Ég er búin að vera að gera helling af örstuttum vídeóklippum til að setja á vefinn. Gæðin eru svo sem ekkert góð þegar búið er minnka myndina fyrir vefinn en þetta er sniðugt og sennilega það sem koma skal. Held að blómatími svona vefstuttmynda fari brátt að renna upp - alla vega finnst mér þetta ansi sniðugt, að geta klippt myndina í Movie Maker 2 og dælt henni á vefinn. Forsetinn kom í heimsókn í Listgreinahús KHÍ í dag og ég náttúrulega bjó til videóklipp um það. Svo fór ég síðdegis á fyrirlestur um sænskt háskólasjónvarp. Mér finnst reyndar það megi alveg sleppa svona kapalkerfisdreifingu og dreifa efni bara á stafrænu formi - ekki með neina ákveðna útsendingartíma.

2.11.03

Sátt
Var að koma heim af djamminu. Femínistavikan endaði með Kvennabandaballi á Vídalín og þar var tryllt stuð. Tónleikar þar sem fullt af kvennaböndum og tónlistarfólki tróð upp - þar voru Dúkkulísurnar og Heimilistónar og hluti af Rokkslæðunum, Stella Hauks og Lísa Páls og Rósa Guðmunds. Reyndar er þetta sama Rósa og var hér á árum áður skemmtanastjóri á Spotlight - núna er hún orðinn alvarlegur tónlistarmaður sem treður upp á femínistaböllum með eigin lög. Femínistavikan búin að var meiri háttar flott og þetta var góður endir áðan. Er að hugsa um hvað það eru margir listamenn og aðrir sem gáfu vinnu sína til að viðburðir femínistavikunnar gætu fyrir fram - gott að vita að það er til svona mikið af hugsjónafólki í heiminum.

Það verður ágætt að gera smáhlé á þessum aktivísma, ég er búin að senda fréttabréf út á hverjum degi alla vikuna og það fer til 900 manns. Hef líka reynd að uppfæra femínistavefinn með myndum og upplýsingum um femínistavikuna. Ég hef verið að prófa að setja inn svona videóklipp og hljóðskrár.