24.10.04

Þessi dagur í sögunni
24. október er einhvers konar minningadagur. Þann dag var kvennafrídagurinn 1975 og útifundurinn stóri í miðbænum. Þess vegna var Kvenréttindafélagið með ræðumaraþon í Kringlunni og þess vegna var Kvennasögusafnið með umræður og sýningu í Þjóðarbókhlöðunni. Ég mætti á hvort tvegga og talaði í korter á ræðumaraþoninu og flutti þar líka eitt ljóð. Það voru náttúrulega ekki margir í Kringlunni milli ellefu og tólf á sunnudeginum 24. október en þetta var ekki spurning um að ná til fjöldans. Bara spurning um að tjá sig. Ég ákvað að fara á Netið og skoða hefði gerst þennan dag 24. október í mannkynssögunni og splæsa því svo saman á korterinu mínu.

Ég sneri saman þessa fjóra atburði:

1. Símskeyti sent stranda á milli
Það var 24. október árið 1861 sem fyrsta símskeytið var sent milli austur- og vesturstrandar Bandaríkjanna sem er 2000 mílna leið. Þessi tækninýjung Morse gerði fljótt úrelt hraðboðakerfi með hestum "pony express" sem hafði verið hraðvirkasta boðskiptaleiðin og tók 10 til 16 daga.

2. Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar
Svo var 24. október 1945 sem stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gekk í gildi. Markmið þeirra var að vinna að friði og samvinnu milli þjóða, eftir tvær blóðugar heimstyrjaldir.

3. Verðbréfamarkaður hrynur í New York
24. október 1929 er kallaður Black Thursday eða Wall Street Crash því þann dag hrundi verðbréfamarkaðurinn og heimskreppan hófst. Verðbréf voru fyrir þann tíma í svimandi háu verði og almenningur fjárfesti grimmt í hlutabréfum. Skyndilega hóft keðjuverkun, allir reyndu að selja bréfin á sama tíma og bréfin urðu verðlaus.

4. Kvennafrídagurinn á Íslandi
Sameinuðu þjóðirnar helguðu árið 1975 málefnum kvenna. Hér á Íslandi sameinuðust ýmis kvennasamtök í því 24. október að halda útifund og fá konur til að leggja niður vinnu þennan dag. Þeta er talinn einn stærsti útifundur Íslandssögunnar og langflestar konur lögðu niður vinnu.

Ég splæsti saman þessa fjóra atburði - símskeyti sem gerðu mögulegt að senda boð gegnum málmþræði, alþjóðavettvang til að vinna að friði og samvinnu milli þjóða, verðbréfahrun og kvennafrídag. Allir þessir atburðir voru kveikjur og höfðu stórkostleg áhrif.

Næst á eftir mér í ræðumaraþoninu var Anna formaður Kvenfélags Eyrarbakka og hún las uppáhaldsljóðið sitt, ljóðið um konuna sem kyndir ofninn sinn. Svo lagði hún út af ljóðinu og spurði hvort verið gæti að samfélagið vildi ekki að konur hefðu rödd, hvort allt miðaðist að því að því að fá konur til að skrifa í öskuna öll sín bestu ljóð. Ég tendraðist upp við þetta og sté aftur í pontu og fór með ljóð eftir mig. Þetta eina sem ég hef birt. Það er ljóðið Eldborg og þar er stundum baráttuljóð. En ég skrifa ekki í öskuna. Ég skrifa á blogg.

21.10.04

Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?

Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.

15.10.04

15 ára afmælið
Kristín Helga varð 15 ára 15. október. Daginn fyrir afmælið var hún í Kringlunni ásamt vinkonum sínum og var valin sem hármódel í Salon Veh kynningu. Það þýddi að hún fór á afmælinu í klippingu og litun hjá erlendum stílista. Svo núna um helgina tekur hún þátt í tveimur sýningum á námsstefnu fyrir fagfólk í háriðnaði, hún þarf að fara eldsnemma um morguninn í förðun og greiðslu því sýningarnar byrja klukkan níu. En Kristín er alsæl með það og finnst ævintýralegt að prófa sig í módelbransanum. Við héldum matarboð á afmælisdaginn. Hér eru myndir af Kristínu Helgu nýklipptri:







14.10.04

Ætla ekki að æða á stað með rannsókn

Ég er búin að fylgjast með viðbrögðum lögreglunnar frá því að dópsalalistinn hans Björns komst í ljósvakamiðlana. Stöð 2 fjallaði um málið í kvöldfréttum í gær og í dag var þetta í fréttum á Rúv og Bylgjunni. Hér er fréttaskotið sem var í tíufréttum í sjónvarpinu og hér er fréttin í Speglinum á rás 1 fyrr um daginn.

Það er áhugavert að skoða hvernig lögreglan starfar. Ég fékk áhuga á að kynna mér starfshætti lögreglunnar eftir rassíuna í deilismálinu. Ég reyni líka að vera löghlýðinn borgari og aðstoða lögregluna eftir megni.

Mér fannst lögreglan koma afar illa út í viðtalinu í Speglinum.

7.10.04

Dópsölulistar og dómstóll götunnar

Ég veit ekki hversu víðfeðm atvinnugrein dópinnflutningur og dópsala er á Íslandi en geri ráð fyrir að þetta sé ábatasöm iðja sem talsvert margir komi að - annað hvort í innflutningi, dreifingu, fjármögnun eða neyslu. Skyldi sá tími koma á Íslandi að dópsalar vitni í tjáningarfrelsi í stjórnarskránni og mótmæli að mega ekki auglýsa eiturlyf og lokka að nýja kúnna? Skyldi sá tími koma á Íslandi að dópsalar verji athafnafrelsi dópista - segi það hluta af frjálsu vali einstaklinga að verða háður fíkn? Skyldi sá tími koma að dópsalar vitni í atvinnufrelsi og hrópi hástöfum um að þeir eigi að hafa rétt á að eitra fyrir öðru fólki.

Fólk safnar ýmsu. Ég safna viðurnefnum en Björn Sigurðsson safnar dópsölum. Hann byrjaði þessa söfnun fyrir fjórum árum þegar Binni bike (af hverju hefur hann viðurnefnið bike?) í Unufellinu rændi syni hans og fór með hann í skottinu upp að Vatnsenda. Þetta var einhvers konar handrukkun sem mun vera orðinn algengur innheimtumáti á Íslandi. Það var brotist inn hjá Birni nýverið og hefur hann farið þá óvenjulegu leið við að upplýsa innbrotið að hann setur safnið sitt dýrmæta að veði. Ef hann fær ekki dótið sitt innan ákveðins frests þá ætlar Björn að opinbera almenningi dóplistann á http://www.dopsalar.tk/ og þá getur dómstóll götunnar dæmt sjálfur þessi 60+ nöfn til útskúfunar.

Ég sé ýmislegt athugavert við svona listabirtingu og tjáði mig um það á málverjaþræðinum. Ég vil helst lifa í samfélagi þar sem við treystum ekki á einstaklinga heldur á lögreglu við að upplýsa mál. Og þar sem það er ekki dómstóll götunnar sem dæmir menn heldur dómstólar. Og þar sem sátt ríkir um lög og leikreglur samfélagsins. Ég veit ekki hvort það ríkir sátt um hvernig við lítum á fíkniefni og ég veit ekki einu sinni hvort að íslenska ríkið hefur einhverja stefnu í fíkniefnamálum.

En nýi hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson hefur fundið stefnu ríkisins í fíkniefnamálum og hann er bara ekki sáttur við hana. Hér er brot úr grein sem hann skrifaði Morgunblaðið 10. mars 2oo1:

"..Sem dæmi um þjóðfélagsmál sem lýtur lögmálum rétttrúnaðarins er stefna ríkisins í fíkniefnamálum. Þar ríkir sá rétttrúnaður, að herða beri refsingar og löggæslu til að draga úr vandanum. Engu máli skiptir þótt það hafi sýnt sig bæði hér á landi og erlendis, að þessi stefna ber engan árangur. Neyslan fer vaxandi. Auk þess fylgja þessari stefnu ótal óæskilegir fylgifiskar. Fíkniefnaheimurinn er neðanjarðarheimur, þar sem lög og regla gilda ekki í samskiptum manna. Glæpir eru framdir, efnin sem seld eru geta verið blönduð og því miklu hættulegri en ella, ungmenni sem leiðast til neyslu eru gerð að afbrotamönnum o.s.frv. Þar að auki er mikill tvískinnungur fólginn í því að banna fíkniefni en leyfa áfengi. Eina leiðin sem er til þess fallin að minnka bölið sem leiðir af neyslu fíkniefna er sú sama og dugar best gegn áfengisbölinu: Að fá neytendur til að taka sjálfir ábyrgð á lífi sínu..."

Ég er reyndar að mörgu leyti sammála þessum pistli. Það er mikilvægt að fá neytendur til að taka ábyrgð. Það er einmitt aðalröksemdin í vændismálinu - það er að færa ábyrgðina þar sem hún á heima - til viðskipavinarins sem er að kaupa sér aðgang að eymd og niðurlægingu. Og mér finnst ástæða til að fólk sem hefur dómgreind til að hugsa sjálfstætt og neytir fíkniefna sem hluta af einhverju skemmtanahaldi t.d. kókaíns taki ábyrgð og átti sig á því sem það hefur gert með þessari neyslu sinni. Það er ekki langt síðan maður frá fátæku Austur-Evrópulandi dó voveiflega á Íslandi með innyflin full af fíkniefnum og nýverið var annar frá sama landi handtekinn með fíkniefni innvortis. Í fátækustu og stríðsþjáðustu löndum heims t.d. Kólumbíu og Afganistan er stór hluti af gróðurlendi undirlagður undir ópíumrækt og fólkið sem starfar á ópíumökrunum þjáist af ýmsum sjúkdómum sem fylgja eitrinu.

Það að taka ábyrgð sem neytandi er ekki eingöngu að taka ábyrgð út frá sjálfum sér og meta hvaða afleiðingar neysla hefur á heilsu og lífsstíls manns sjálfs. Það þarf líka að taka ábyrgð á hvaða áhrif manns eigin lífsstíll hefur á samfélagið sem maður lifir í.

En það er auðvelt að segja að fólk í bullandi neyslu eigi að taka ábyrgð á eigin lífi. Það bara virkar ekki. Og ég hef ekki séð það virka neitt í sambandi við áfengi sem nota bene er stórhættulegt og samfélagsfjandsamlegt fíkniefni. Því síður hef ég séð það virka varðandi tóbak. Fólki sem er undirlagt af fíkn er ekki sjálfrátt. Eina sem mér hefur virst virka er að takmarka aðgengi í fíkniefni og gera neysluna erfiðari.

4.10.04

Stelpan sem passaði afa sinn

Sagan af stelpunni sem passaði afa sinn úr íslenskum samtíma byrjar eins og sagan um stúlkuna Þóru frá Ey eftir Herbjörgu Wassmo. Ég held reyndar að þetta sé sama sagan og ég held að þetta sé ekki saga hinna orðlausu , heldur bara saga sem ekki er hlustað á. En þessi saga berst áfram frá einni kynslóð til annarrar og núna streymir hún frá á bloggsíðum. Stelpan sem passaði afa sinn vakir nú yfir velferð sonar síns. En ég get ekki varist því að hugsa um hver passar hann þegar hann verður orðinn afi.

1.10.04

Sniðug RSS veita hjá Mikka vef

Mjög handhægt og þægileg bloggveita hjá Mikkavef, svona eins og Bjarni er með. Takk fyrir þetta.

Mér finnst þetta mjög þægileg og sniðugt. Reyndar þætti mér ennþá sniðugra ef það væri svona kerfi þar sem fólk býr saman til svona veitulista t.d. yfir þá sem deila einhverjum áhugamálum eða þjóðfélagssýn. Segjum t.d. að einhverjir vildu fylgjast með bloggum um jafnréttismál. Ég bjó til smásýnishorn fyrir femínistaveitu http://www.mikkivefur.is/rss/rss.asp?user=feministi
og hakaði við nokkra sem ég vissi að væru femínistar og/eða skrifa oft um jafnréttismál. Ef einhver vill bæta við listann þá er notendanafnið feministi og lykilorðið prufa

Mér finnst það sniðugt að fólk skrái saman í svona veitulista, alveg eins og mér finnst sameiginleg bókamerki eins og spurl eða delicio.us og sameiginleg kerfi eins og wikipedia sniðug. Ég væri fegin ef einhver vildi bæta við einhverjum femínistum í listann sem ég bjó til.