Ég var í sól og blíðu í Skagafirði um páskana og hér er páskamyndasyrpan mín. Kristín Helga prófaði að keyra í fyrsta skipti á páskadag, hún er aðeins 15 ára og ekki komin með æfingaleyfi þannig að fyrsta ökuferðin var utan þjóðvega, á vegaslóðunum á jörð ömmu hennar, upp að fjósi og hring í kringum fjósbyggingarnar og svo niður að þjóðvegi nr. 1. Vegurinn að þjóðveginum er einn brattasti vegur á Íslandi og Vaglar standa svo hátt að það er eins og maður sé að keyra upp á fjall. Það er gífurlega víðsýnt og fallegt útsýni yfir Skagafjörð og Héraðsvötnin á þessum bratta vegaslóða , það sést út á sjó og inn til heiða og fjallahringurinn er ægifagur. Margir fylgdust með fyrstu ökuferð Kristínar, við mættum Gísla Birni á traktornum að ferja heyrúllu, hestar voru í úthaga, kýr í fjósi, hundar á hlaði hlupu með bílnum. Við mættum tveimur bílum á leiðinni, þar voru Anna og Sindri og bróðir Önnu, þau voru að skoða byggingarstæðið sitt en þau stefna að því að hefja húsbyggingu í sumar. Við fengum SMS frá Hóffý sem var þessari stundu að flytja inn á bernskuheimili sitt í Kópavogi og við sendum henni til baka fregnir af ökuferðinni.
Það er öðruvísi að koma að Vöglum núna en í fyrra. Gísli faðir Magnúsar lést í desember. En núna er María komin. Anna og Sindri ætla að byrja að byggja íbúðarhús í Vöglum í vor og Gísli Björn og Kristín eru líka að spá í nýbyggingu. Nú hefur verið ákveðið að hitaveita verður lögð um Blönduhlíðina og hefjast framkvæmdir við það í vor. Málin standa sem sagt þannig að núna er allt útlit fyrir að tvö ný íbúðarhús rísi á Vöglum og ekki verði lengur þörf fyrir gamla húsið. Það er reisulegt og byggt í gömlum sveitastíl og reyni ég nú eftir megni að telja fólk á að varðveita það. Hingað til hafa fjórir unnið að Vaglabúinu, Kristín sem núna er aðaleigandi bússins og skrifuð fyrir eignunum og svo bræðurnir Gísli Björn, Sindri og Þorkell. Núna er þetta orðið stórbú með yfir 200 þúsund mjólkurlítra kvóta. Það er svolítið einkennilegt að stærð á búum er núna reiknum í mjólkurkvóta og kvótinn er ein stærsta eignin í búinu. Búið er orðið svo stórt og viðamikið að það þarf núna skýrara sameignarform og samninga. Vonandi gengur það vel hjá öllum hlutaðeigandi. Við fórum í heimsókn til Þorkels og Lindu á Víðivellum annan páskadag. Bræðurnir Þorkell og Gísli Björn keyptu saman Víðivelli fyrir nokkrum árum og nytjað þá jörð með Vaglabúinu. Þar eru núna miklir byggakrar og tún.
Ólöf Dís setti svip á páskahaldið á Vöglum, hún er lítt til friðs. Hún hefur ekki mætt í skólann á Hofsósi í nokkrar vikur og strýkur út í buskann við öll tækifæri og er ekki samvinnufús. Hún virðist ekki hyggja á að ljúka grunnskólanámi í vor. Skólahald er í molum og hún hefur þvælst víða í vetur. Ég held að allir séu ráðþrota og ég sannfærist ennþá meira um það að þetta stoðkerfi sem við höldum að sé til við svona aðstæður er alls ekki fyrir hendi. Það er ekkert félagslegt öryggisnet á Íslandi til að grípa þig og taka úr fallinu , það er alla vega jafnósýnilegt í dag og kóngulóarvefur.



