Merkisdagur, magadans, afmælishátíðir1. apríl er merkisdagur því þá var framhaldsstofnfundur Femínistafélagsins, ég var kosin í ráð Femínistafélagsins fyrir tveimur árum og þann sama dag var vefsetur félagsins
http://www.feministinn.is/ opnað. Ég hef séð um vefinn og netmálin frá stofnun félagsins, það er búin að vera gífurleg vinna, bæði að skrifa inn á vefinn og setja þar inn myndir og texta, ég hefi tekið flestar myndir sjálf, skrifað fréttabréf og sent þau út, vaktað pósthólf félagsins , haft umsjón með femínistapóstlistanum og femínistaspjallinu. Ýmis konar tæknistúss hefur tekið mikinn tíma en stundum hefur farið mikill tími í að lægja öldur og stilla til friðar og glíma við tröll sem beinlínis hafa komið inn á póstlistann og vefspjallið til að reyna að skemma sem mest.
Allt fyrsta árið sem Femínistafélagið starfaði þá skall alltaf yfir okkur holskefla af hatri í hvert skipti sem umfjöllun varð um félagið eða einhverja aðgerð í fjölmiðlum, tröllin ærðust og böðluðust áfram í netrýmum femínista. Núna síðasta árið hefur hins vegar allt verið með spekt og eins konar regla komin á, femínistapóstlistinn lifir sem aldrei fyrr, þar eru allir harðlínufemínistarnir og sennilega böns af fjölmiðlaliði og öðrum sem þora ekki annað en vakta hvað femínistar eru að leggja á ráðin um, þar eru ennþá nálægt fimm hundruð áskrifendur á lokuðum póstlista. Núna er þar umræða um hvernig femínistar eiga að hrifsa til sín völd í stjórnmálum, femínistar í Svíþjóð hafa stofnað stjórnmálaflokk og við viljum líka völd.
Það er fyndið að í febrúar þá blossaði upp geysilegt líf í póstlistanum með fleiri tugum pósta á dag og það sem var rætt út í það óendanlega var magadansatriðið á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það voru ábyggilega nálægt 100 póstar bara um það mál eitt og sér. Það fyndnasta og skrýtnasta frá mínum bæjardyrum séð í þessu máli er að fyrir ári síðan þegar við vorum að undirbúa eins árs afmælishátíð félagsins þá reyndi ég að útvega skemmtiatriði og hafði fengið listakonu til að sjá um magadansatriði á skemmtuninni. Ég held að hún hafi ætlað að koma með hóp dansmeyja. En þá kom í ljós að í ráði félagsins voru skiptar skoðanir um magadans og sumir líta á slíkan dans sem eina birtingarmynd klámvæðingarinnar og voru algjörlega mótfallnir því að svona skemmtiatriði yrði á árs afmælinu.
Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði þetta viðhorf fyrst, Dóttir mín hefur verið á magadansnámskeiði og ég hef í gegnum hana og umfjöllun í fjölmiðlum fylgst með þessari listgrein sem mér finnst dæmi um svona "empowering" iðju , að vera í skrautlegum búningum og hafa vald yfir líkama sínum, láta taka eftir sér og taka rými í tilverunni. Vissulega er magadans erótískur en það er ekki sama að vera erótískur og klámfenginn. Mér finnst balletsýningar líka oft erótískar og sviðsframkoma margra hljómlistarbanda er klárlega erótísk, það nægir bara horfa á hvernig þeir munda hljóðfærin.
Mörkin milli þess sem fólk telur erótík og klám eru flæðandi en ég man eftir að mér sárnaði verulega í fyrra út af magadansatriðinu fyrirhugaða, já eiginlega er þetta djúpasti ágreiningurinn sem komið hefur upp, ég íhugaði að hætta að starfa í Femínistafélaginu út af þessu, ég hugsaði með mér að ég gæti ekki starfað í félagi sem væri svo púrítanískt að samasemmerki væri sett milli þess sem er erótískt og klámvæðingar. En svo hætti ég að vera sár og mér finnst eftir á hafa verið gott að virða sjónarmið þeirra sem hefðu stuðast af svona skemmtiatriði og mér finnst svo mikið sem sameinar femínista að það sé alveg svigrúm fyrir mismunandi viðhorf til klámvæðingar. Svo finnst mér ástæða til að velja atriði á viðburðum félagsins sem stuða ekki félagsmenn þó að sem aktívistafélag þá sé bara oft hið besta mál að stuða út á við.
Svo ári seinna veldur magadansatriði sprengju á póstlista femínista, reyndar eru skiptar skoðanir og margir held ég með sama viðhorf og ég - og flestum finnst magadans fallegur - en ég held að öllum hafi fundist þetta einkar seinheppið atriði á opnunarhátíð Framsóknarflokksins, sérstaklega núna þegar Freyjumálið er nýliðið. Ég hef núna sannfærst ennþá betur um töfra magadansins, það er eitthvað ögrandi við þá list sem getur hrært svona upp í fólki. Mér finnst magadans líka vera frjósemisdans - ég hugsa að ef einhvern tíma hefur verið gyðjutrú í Evrópu þá hafi svona dansar verið dansaðir gyðjunni til dýrðar.
Reyndar mætti ég á þetta fræga magadansflokksþing og flutti þar líka ræðu 26. febrúar. Það er afmælisdagurinn minn og ég hélt upp á afmælið í fyrra með glans í listasafni Sigurjóns í Laugarnesinu á þeim slóðum þar sem Hallgerður langbrók er heygð og hafði þá bleikt þema og bauð fullt af femínistum. Í ár hafði ég framsóknargrænt þema og hélt sem sagt upp á það á flokksþinginu á Nordica hóteli og flutti afmælisræðu - já eða öllu frekar ádrepu. Mér fannst þetta nú allt í lagi að taka svona yfir flokksþing Framsóknar fyrir mína afmælisveislu, bæði af því að enginn í fundarsalnum vissi af því að ég ætti afmæli og svo er viss hefð fyrir því í Framsókn að samkomur eru þar ekki allar það sem það sem sést á yfirborðinu, þar hafa t.d. heilu ættarmótin verið dulbúin sem fundir í kvenfélögum.
Og ég hélt áfram 1. apríl 2005 að halda upp á ýmis afmæli í Framsóknarboðum. Ég hélt upp á fjögurra ára bloggafmælið, ég hélt upp á tveggja ára afmæli femínistavefsins, ég hélt upp á það voru akkúrat tvö ár frá því ég var kosin í ráð Femínistafélagins. Allra mest hélt ég upp á árangurinn af öflugu starfi Framsóknarkvenna og því ákvæði að núna er 40 % kynjakvóti regla í flokknum. Ég hélt upp á daginn með því að fara á Alþingi í boði þingkvenna Framsóknarflokksins og síðan út að borða á Thorvaldssen með Framsóknarkonum.
Hér eru myndir sem ég tók.
Ég spjallaði við margar konur þar, ég man m.a. eftir konu sem býr á
Eyrarbakka og hún var að halda upp á að barnabarnið hennar fæddist þennan dag, það var fyrsta stelpan og amman færði henni strax eitthvað bleikt, þarna var líka kona sem hafði verið við búskap á Snæfellsnesi, þarna var móðir Þ., þarna var kona sem var einu sinni
litla manneskjan í þekktri sögu og ég skynjaði að það er til önnur ósögð saga af bernsku hennar ólík þeirri sögu sem rithöfundurinn skrifaði um sjálfan sig og kallaði hennar sögu. Það var líka þarna kona sem afgreiddi í sjoppu föður síns í
Grindavík sumarið sem ég flúði þangað, hún var þá unglingur eins og ég og var líka úr Laugarneshverfinu, ég man að sjoppan var í skúr við hliðina á frystihúsinu og verbúðin sem ég bjó í var þar á efstu hæð. Sjoppan var eini staðurinn sem var þá opinn í Grindavík á kvöldin og það var eiginlega ekkert hægt að gera í plássinu nema fara út í sjoppu og hanga þar, jú nema auðvitað vinna og það var unnið flest kvöld til miðnættis.
Þann 1. apríl 2005 opnaði ég líka mína fyrstu útvarpsstöð á Netinu.