28.1.05

Bloggsamkeppnin 2005

Var að renna yfir tilnefningar til bloggverðlauna 2005
Ég ætla að velja flickr sem besta meme og Warning Blogs Can Be Infectious sem bestu greinina um blogg.

Hér eru tilnefnd memes og blogggreinar

Nokkrar hugmyndir (memes) sem hafa dreifst um bloggheima
Flickr - Þetta er frábært kerfi, ég læt alla nemendur mína nota þetta núna og hef samið leiðbeiningar um þetta Það er ekki bara að þetta sé kerfi til að geyma myndir, þetta er netsamfélag um myndir og það er svo einfalt að setja merkingar á myndirnar sínar og nota merkingar annarra.
Podcasting Get ekki sagt að þetta hafi kveikt í mér, ég er ekki búinn að fá mér ipod. En hér er grein í wikipedia um podcasting og skilgreining hjá Dave Winer.
The grey album Danger Mouse kom remix á aktívistakortið. hjóðblendilist.
Er ekki blendilist annars flott orð fyrir remix?
Is my blog burning? Sniðug hugmynd til að tengja saman þá sem blogga um mat.
Photofriday Póstuð hugmynd vikunnar og allir geta skilað inn myndaslóð. Sniðug hugmynd. Ég setti strax inn hlekk í myndasíðu hjá mér undir þemanu "youth". Ég er númer 410 þessa viku.

Nokkrar greinar um blogg sem tilnefndar eru:
Warning Blogs Can Be Infectious Mest lesnu bloggin eru ekki endilega þau með frumlegustu hugmyndirnar. Það er áhugavert að skoða hvernig hugmyndir flæða um Netið. Rannsóknir á mynstrum í bloggheimi hafa sýnt að hugmyndir sem hentar eru á lofti á einhverjum vinsælum bloggum hafa oft komið fram áður einhvers staðar á einhverjum tiltölulega óþekktum bloggum.
"What we're finding is that the important people on the Web are not necessarily the people with the most explicit links (back to their sites), but the people who cause epidemics in blog networks". Þetta sýnir hve miklar veilur eru í leitarkerfum sem leita að uppsprettu þekkingar eftir tíðni vísana og hve margir skoða.
How to blog er ágætar leiðbeiningar til nýrra bloggara, hentar þeim sem vilja nota blogg sem tjáningartæki og hafa lesendur. Ég er ekki viss um að ég líti þannig á blogg. Einmitt núna lít ég á blogg fyrst og fremst sem samræður við sjálfa mig og framlengingu á vitsmunalífi. Einhvers konar verkfæri til að mæla ferli eða þroska. Líka tæki til að gera miðlunartilraunir með. En mér fannst flott að höfundur ráðleggur fólki að nota Blogger, ég er sammála því og þeim rökum sem hann notar, blogg er taltól alþýðunnar.
Blogs, bandwith and banjos er grein um hvernig blogg þróast og hvað gerist þegar það verður tæki til að binda saman litla hópa.
Random reality bites er grein um bloggara sem vinnur á bráðamótttöku. Ég skil reyndar ekki hvers vegna þessi grein er tilnefnd til verðlauna, kannski það sé vegna þess að við höfum Sigga pönkhjúkku sem hefur bloggað til marga ára. Reyndar oftast ekki um spítalalífið.
New kids on the blog enn en grein fyrir upplýsta dagblaðslesendur sem spyrja" Hvað er þetta blogg sem allir eru að tala um?"

Svo var ég að skoða myndabloggin sem eru tilnefnd. Ég er hrifin af þessu satanslaundromat.com það eru myndir götulífi og af niðurníddum hverfum en þær eru svo hrífandi fallegar og listrænar þrátt fyrir að myndefnið sé ljótleikinn.









24.1.05

Við erum gestir og hótel okkar er...
Hér er skemmtileg myndasaga Eric Conveys um mann sem að efast um lífið.
Er lífið hér á jörð blekking og lygi?

23.1.05

Connectivism: A Learning Theory for the Digital Age
Það snýst allt um tengingarnar núna, það er hin nýja námskenning fyrir stafrænan heim. Hér er grein um málið eftir George Siemens frá því núna í janúar. Það er við hæfi að ég prófa þetta technocrati kerfi um leið og ég les þá grein, technocrati er kerfi sem finnur út tengingar milli blogga. Hér skrifar Joho um það greinina "...and the tagging revolution continues.." .
Flickr myndakerfið, del.icio.us bókamerkjakerfið og technocrati ásamt svo auðvitað bloggi eru allt dæmi um kerfi sem eru það sem kallað er Folksonomy

Ég bjó til Technorati Profile í technocrati.
Hér er pistill um connectivism sem gæti verði á íslensku tenglaspeki eða krækjufræði.

19.1.05

Sniðugt kerfi Flash og 43things.com

Ég er að læra Flash núna, er að reyna að læra það svona sjálf og ætla að komast af með sem minnsta kunnáttu í því, ég er fyrst og fremst að spá í að geta tekið fla skrár og breytt t.d. íslenskað og sett inn sem módúla í kennsluefni á vef. Mér finnst Flash vera að þróast í mjög skemmtilega átt, mér finnst þetta afbragðstæki fyrir kennsluefni á vef, ekki síst svona einingar sem hægt er að stinga inn í kennsluvefi. Annars datt ég líka inn í að skoða 43things.com sem mér finnst minna á flickr.com og er eitt sniðugt lítið "social network" dæmi. Fólk segir frá þörfum sínum, setur markmið og tjáir sig. Ég setti hér upp 43 hluti fyrir mig.

Hér er flash sem ég litaði bleikt og breytti. Ég er að prófa að líma flass inn í blogg. Þetta virkaði ekki, ég þarf að finna betur út hvað maður gerir en hér er bleiki flasskarlinn minn.


18.1.05

Ung kona á uppleið
Kristín Helga kom heim áðan. "Ég er að koma úr vinnunni" sagði hún og var smásvekkt yfir að það vakti ekki verðskuldaða athygli. Hún var að koma af sinni fyrstu vakt sem afgreiðslumaður á kassa í Bónus. Vonandi hefur hún nú samt tíma til að læra eitthvað fyrir samræmdu prófin í vor. Annars hefur þessi vetur einkennst af því að hún hefur reynt fyrir sér með ýmis störf. Enda var tveggja mánaða hlé á skólagöngunni vegna kennaraverkfallsins.

13.1.05

Deilum og drottnum!

Það kemur manni í gott skap að spila Free Software Song og kannski ennþá betra að spila það með sönglinu í Stallman sjálfum og ef það virkar ekki þá er bara að tralla og syngja undir með Negativland í there is no business like stealing og downloading

í dag hélt ég fyrirlestur um opinn hugbúnað. Ég er mjög svekkt yfir að missa af Stallman á Íslandi en ég var að hlusta núna Indymedia viðtalið við Stallman sem Bjarni benti á. Ég er hrifin af svona netaktívisma og mér finnst áhugavert hvernig aðgerðir stjórnvalda og stórfyrirtækja hrekja fólk út í svona aktívisma. Ég held að harðneskjuleg lög sem eingöngu tryggja hagsmuni þeirra sem halda um völdin og eiga eignir eða verkfæri skapi uppvaxtarskilyrði fyrir andspyrnuhreyfingar sem ekki fara að lögum. Ég skrifaði um það grein fyrir nokkrum árum á þetta blogg: Hrói höttur felur sig í netþykkninu í Skíriskógi. Þessi samræmda og skipulagða lögregluaðgerð sem virðist hafa verið gerð í mörgum löndum samtímis að beiðni alþjóðlegra samtaka höfundarrétthafa og beindist á Íslandi gegn notendum á deilir.is hefur hugsanlega áhrif til að þjappa netnotendum saman á netfrelsi.is , í augnablikinu virðist það vera fyrst og fremst um ókeypis niðurhal.

Ég held að baráttan standi um að sannfæra fólk um að til langs tíma litið þá það hafa allir hag af því að deila efni og hafa sem greiðastar boðleiðir í stafrænum heimi. Þetta er líka spurning um viðhorf til náms og hvað maður telur réttlæti. Aðgangur að þekkingu og upplýsingum á að vera ókeypis og fyrir alla. Hvar sem þeir búa á jarðarkringlunni og hvaða tungumál sem þeir tala og hvað lagi samfélagsins sem þeir koma úr. Að berjast fyrir því í dag er eins og áður var að berjast fyrir að öll börn fái skólagöngu og að til séu almenningsbókasöfn og söfn opin fyrir almenning.

12.1.05

Satanía er fallegt nafn

Í fyrradag fór ég viðtal í Dægurmálaútvarp Rásar 2 og var á móti mannanafnanefnd og ríkisafskiptum af nöfnum. Presturinn í hverfinu mínu var líka, hann var með mannanafnanefnd og prédikaði líka smá um Guð og Jesú. Ég vissi reyndar ekki að ég væri á móti mannanafnanefnd fyrr en fyrr um daginn þá var hringt í mig og ég beðin um að koma í þáttinn út af því að ég hefði tjáð á móti nefndinni, ég mundi nú ekki strax eftir því en var alveg til í að hafa þessa skoðun, ég geri allt til að komast í fjölmiðla.

Svo fletti áðan ég upp í þeirri framlengingu á minni mínu sem heitir Google og Blogger og fann ég hafði tjáð mig í árdaga þessa bloggs um mannanöfn. En alla vega þá mætti ég í útvarpið og varði rétt foreldra til að velja börnum sínum nafn, líka rétt fólks sem gefur ekki mikið fyrir það sem ríkisvaldinu og klerkum finnst smekkvísi. Reyndar vakir það einmitt ekki fyrir sumum foreldrum að nefnda börnin sín einhverjum viðurkenndum og algengum nöfnum, sumir foreldrar velja meðvitað skrýtin og ögrandi nöfn til að barnið skeri sig strax úr fjöldanum. Margir listamenn taka líka upp listamannanafn og endurskapa og endurskíra sjálfan sig. Ég get bara alls ekki munað hvað Kiljan, Megas og Bubbi heita að skírnarnöfnum, jú er það ekki Halldór, Magnús og Ásmundur. Það var talað í þættinum um hvort ekki ætti að stoppa af fólk sem vill skíra börnin sín nöfnum eins og Satanía eða vörumerkjum eins og Baugur og Bónus. Ég sá nú bara ekkert því til fyrirstöðu, af hverju mættu ekki litlar stelpur heita Diesel í dag, liðið gengur hvors sem er í þessum vörumerkjum og merkir sjálfan sig stórum stöfum með einhverjum vörumerkjum. Reyndar fellur Drýsill betur að íslenskri beygingu en Diesel og er nú ágæt íslenskun á þessari vörumerkjavæðingu en það er nú annað mál...

En varðandi vörumerki þá er nú þannig að flest vörumerki eiga uppruna sinn í málinu og mikil vinna hefur verið lögð í að finna vörumerki sem kalla fram góð hughrif hjá neytendum, langflest nöfn úr grísku goðafræðinni hafa verið notuð sem vörumerki og er ekki hérna heima Draupnir og Glitnir og ýmis goðsagnaheiti notuð í peningaheiminum. Ég þekki foreldra sem skírðu dóttur sína Samara fyrir meira en tuttugu árum og finndu nafn sem þeim fannst fallegt og það merkir vængjað fræ. En svo nokkrum árum seinna fór Lada verksmiðjan að framleiða Lada Samara bílana sem voru vinsælir hér um tíma.

Svo varpaði ég fram þeirri kenningu að þar sem núna væri tíska hjá stjörnum í útlöndum að skíra börnin sín eftir staðanöfnum, kalla þau Oklahoma eða Atlanta væri þess skammt að bíða að sú tíska bærist hingað. Einkar vel fer að skíra íslensk börn Reykjavík og Vopnafjörður og Melrakkaslétta, þetta væru hljómfögur orð en hugsanlega bönnuð. En ég held að einmitt þegar rót kemur á fólk og það er á faraldsfæti þá vakni löngun til að festa sig við ákveðna staði með nöfnum. Skyldu staðarnöfn eða átthaganöfn hafa verið algengari á tímum Vesturfaranna? Ég held að Sigurður Breiðfjörð hafi ekki borið þetta nafn nema einmitt af því hann var ekki alltaf rótfastur á Breiðafirði. Annars sagði einn nemandi minn mér að hún hefði ekki fengið að skíra son sinn Darra Eydal fyrir átján árum, presturinn hefði neitað því en viljað hafa nafnið Darri Eydalur. Ég held að þessi prestur og almennt mannanafnanefnd hafi ekki skilning á hrynjandi hljóða eða hughrifum nafna.

Báðar dætur mínar heita reyndar eftir ömmum sínum. Ég heiti sjálf eftir ömmu minni og langömmu og öll systkini mín heita eftir ættingjum. Þar sem við heitum öll tveimur nöfnum var búið að skíra eftir öllum þegar kom að seinna nafni á tveim yngri systkinum mínum og þeirra seinna nafn eru "út í loftið" eins og mamma sagði en það eru nöfnin Dagur og Stella. Þau nöfn eru ef til vill andstæðan við staðarnöfn eða átthaganöfn - þetta eru nöfn sem eiga við birtu og skugga og himinhvolfið.