Málverkauppboð á Netinu
Í gær keypti ég málverk á uppboði á dönskum vef. Þetta er mín önnur tilraun til þátttöku í svona uppboðsmarkaði á Netinu. Fyrir nokkrum árum þá skráði ég mig inn í verðbréfaviðskipti á Netinu bæði innanlands og á Wall Street og byrjaði að versla hlutabréf. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og pældi heilmikið í þessu, ég gruflaði í gegnum ársreikninga á Netinu og veðjaði svo í krafti þeirra upplýsinga sem ég aflaði mér á ákveðin fyrirtæki, ég er nefnilega viðskiptafræðingur upphaflega. Það verður bara að segja þá sögu eins og hún er - að þetta var dýrasta námskeið sem ég hef farið í á ævinni. Ég tapaði miklu á þessu erlenda hlutabréfabrölti mínu, þar virðast bréf hafa verið í frjálsu falli árum saman. Það er alveg takmarkað hvað maður hefur gaman af því að tapa miklu svo ég missti áhugann á þessum viðskiptum.
En ég held að svona viðskipti þar sem að verðið ræðst í viðskiptunum sjálfum með svona tilboðum sé eitthvað sem fylgir upplýsingaöld. Og núna ákvað ég sem sagt að prófa aftur netviðskipti og keypti málverk óséð á uppboði. Það var hægt að skoða málverkið á Netinu og súmma á hluta af málverkinu. Ég bauð í eitt málverk 2 mínútum áður en það fór undir hamarinn og fékk það. Ég bauð líka í annað málverk og var búin að vera að bjóða í það dáldinn tíma og var með hæsta boð en svo bara örfáum mínútum fyrir hamarshögg þá bara byrjuðu tveir aðrir að bjóða grimmt og yfirbuðu mig.
Gömul málverk virðast ekki vera í háu verði. Mörg verk eru selt á 1000 til 1500 danskar krónur og það eru þá verk sem eru í ramma.
Að mörgu leyti eru málverk og listmunir og hlutir sem eru bara til eitt í einu eintaki mjög heppilegar vörur fyrir svona netuppboð. Þetta eru vörur þar sem mjög óljóst er hver markaður og hver eftirspurnin er. Og þeir sem hafa áhuga á svona - alls konar safnarar og kverúlantar eins og ég - eru dreifðir út um allt. Ég var bara heima hjá mér við tölvuna á meðan ég bauð í málverkin og ég var að gera fullt annað á meðan, ég var á
málþingi á Netinu hjá EDUCAUSE Live um
Collaborative Open Source Software og talið datt út þar á tímabili svo ég fór þá að bjóða í málverk.
Annars eru þessi málþing hjá Educause sniðug, það er einfalt kerfi þar - fyrirlesarinn hefur rödd og glærur hans sjást en allir þátttakendurnir geta bara skrifað fyrirspurnir og umræður í svona spjallglugga. Það voru sjötíu á málþinginu í gær. Kerfið sem Educause notar heitir
Horizon Wimba en ég var líka nýlega á netmálþingi/námskeiði hjá Macromedia og þar var notað kerfið
Macromedia Breeze. Það var megaklúður, hljóðið var nánast aldrei inni, ég held líka að þátttakendur hafi verið eitthvað um 300 en ég gafst upp að fylgjast með án þess að hafa hljóðið. Mér sýnist ástand í svona netmálþingakerfum vera þannig núna að hljóðútsendingin er flöskuhálsinn, kerfin krassa ef of margir eru skráðir. En svona kerfi eiga framtíðina fyrir sér þó allt gangi á afturfótunum í dag.