28.3.05

Páskar 2005

Ég var í sól og blíðu í Skagafirði um páskana og hér er páskamyndasyrpan mín. Kristín Helga prófaði að keyra í fyrsta skipti á páskadag, hún er aðeins 15 ára og ekki komin með æfingaleyfi þannig að fyrsta ökuferðin var utan þjóðvega, á vegaslóðunum á jörð ömmu hennar, upp að fjósi og hring í kringum fjósbyggingarnar og svo niður að þjóðvegi nr. 1. Vegurinn að þjóðveginum er einn brattasti vegur á Íslandi og Vaglar standa svo hátt að það er eins og maður sé að keyra upp á fjall. Það er gífurlega víðsýnt og fallegt útsýni yfir Skagafjörð og Héraðsvötnin á þessum bratta vegaslóða , það sést út á sjó og inn til heiða og fjallahringurinn er ægifagur. Margir fylgdust með fyrstu ökuferð Kristínar, við mættum Gísla Birni á traktornum að ferja heyrúllu, hestar voru í úthaga, kýr í fjósi, hundar á hlaði hlupu með bílnum. Við mættum tveimur bílum á leiðinni, þar voru Anna og Sindri og bróðir Önnu, þau voru að skoða byggingarstæðið sitt en þau stefna að því að hefja húsbyggingu í sumar. Við fengum SMS frá Hóffý sem var þessari stundu að flytja inn á bernskuheimili sitt í Kópavogi og við sendum henni til baka fregnir af ökuferðinni.

Það er öðruvísi að koma að Vöglum núna en í fyrra. Gísli faðir Magnúsar lést í desember. En núna er María komin. Anna og Sindri ætla að byrja að byggja íbúðarhús í Vöglum í vor og Gísli Björn og Kristín eru líka að spá í nýbyggingu. Nú hefur verið ákveðið að hitaveita verður lögð um Blönduhlíðina og hefjast framkvæmdir við það í vor. Málin standa sem sagt þannig að núna er allt útlit fyrir að tvö ný íbúðarhús rísi á Vöglum og ekki verði lengur þörf fyrir gamla húsið. Það er reisulegt og byggt í gömlum sveitastíl og reyni ég nú eftir megni að telja fólk á að varðveita það. Hingað til hafa fjórir unnið að Vaglabúinu, Kristín sem núna er aðaleigandi bússins og skrifuð fyrir eignunum og svo bræðurnir Gísli Björn, Sindri og Þorkell. Núna er þetta orðið stórbú með yfir 200 þúsund mjólkurlítra kvóta. Það er svolítið einkennilegt að stærð á búum er núna reiknum í mjólkurkvóta og kvótinn er ein stærsta eignin í búinu. Búið er orðið svo stórt og viðamikið að það þarf núna skýrara sameignarform og samninga. Vonandi gengur það vel hjá öllum hlutaðeigandi. Við fórum í heimsókn til Þorkels og Lindu á Víðivellum annan páskadag. Bræðurnir Þorkell og Gísli Björn keyptu saman Víðivelli fyrir nokkrum árum og nytjað þá jörð með Vaglabúinu. Þar eru núna miklir byggakrar og tún.

Ólöf Dís setti svip á páskahaldið á Vöglum, hún er lítt til friðs. Hún hefur ekki mætt í skólann á Hofsósi í nokkrar vikur og strýkur út í buskann við öll tækifæri og er ekki samvinnufús. Hún virðist ekki hyggja á að ljúka grunnskólanámi í vor. Skólahald er í molum og hún hefur þvælst víða í vetur. Ég held að allir séu ráðþrota og ég sannfærist ennþá meira um það að þetta stoðkerfi sem við höldum að sé til við svona aðstæður er alls ekki fyrir hendi. Það er ekkert félagslegt öryggisnet á Íslandi til að grípa þig og taka úr fallinu , það er alla vega jafnósýnilegt í dag og kóngulóarvefur.

Fyrsta ökuferðin

Kristín og Ólöf 4


Sólskin á Vöglum

Óðinn og Kristín

24.3.05

Aftur týnd
Ólöf Dís er týnd aftur. Núna á Akureyri. Það á að lýsa eftir henni í kvöld. Hún hefur verið týnd frá því í gær. Á laugardagskvöldið síðasta birtist hún óvænt hérna heima hjá mér, nokkur hundruð kílómetra frá heimili sínu. Hún var þá búin að vera í bænum eina nótt, móðir hennar vissi ekkert af Reykjavíkurferð hennar, hélt hún hefði gist hjá vinkonu í Varmahlíð og væri á leiðinni heim. Ólöf Dís hefur ekki mætt í skólann í nokkrar vikur og hún eirir hvergi. Ólfö hefur oft týnst. Ólöf og Kristín dóttir mín eru báðar 15 ára og hafa verið vinkonur frá því þær muna eftir sér. Ólöf eru hálfum mánuði eldri, hún átti reyndar að fæðast mánuði seinna en Kristín en mamma hennar var ein að þrífa íbúðina og skila henni af sér kvöldið áður en Ólöf fæddist, þau voru að flytja. Þau voru oft að flytja á þeim árum.

23.3.05

Er þetta brandari?

Alla vega finnst mér dáldið fyndnar greinar sem hafa birst í DV núna tvo daga í röð. Fyrst var það á baksíðu í gær og svo næstum heilblaðsíða með flennimynd í dag. Ég var í sakleysi mínu að tjá mig á málefnavefnum og það verður tilefni tveggja greina í DV og blaðið sparar ekki stóru orðin. Fyrst byrjaði ég á að kvarta yfir að Steinn Ármann væri ekkert fyndinn og hefði sagt dónalegan brandara með kvenfyrirlitningarívafi í uppistandi á skjá einum. DV spurði Stein Ármann út úr þessu og talaði líka við Magnús forráðamann á Skjás 1. Þeir voru bara með útúrsnúninga og sýndu lítil iðrunarmerki. En í dag rifjar DV upp það sem ég skrifaði um árshátíð sem ég fór á fyrir nokkrum árum og þar sem ég hafði ekki smekk fyrir bröndurunum sem heiðursgesturinn sagði í hátíðarræðu sinni, mér fannst þeir klúrir og ruddalegir og fullir af kvenfyrirlitningu. Heiðursgesturinn var Árni Matthíasson sjávarútvegsráðherra en hann hefur séð að sér og er núna hættur að segja svona dónabrandara og flytur DV mér þau skilaboð frá Árna að mér sé alveg óhætt að hlusta á ræður hans í framtíðinni. Gott að vita það. En mér fannst illa gert af DV að vera með svona andstyggilega rannsóknarblaðamennsku að þeir voru búnir að komast yfir einn af bröndurum sem Árni sagði og það kemur bara alls ekki vel út fyrir ráðherrann. En mér finnst flott hjá Árna að vera ekki að verja þetta, segjast bara hafa lært af þessu. En hér eru myndir af þessum greinum:

Nunnubrandari Árna Matthíasson

Mömmubrandari Steins Ármanns

18.3.05

Kristín Ingólfsdóttir

Ég er sérstaklega glöð yfir rektorskjörinu í HÍ. Það er náttúrulega æði að kona skuli núna í fyrsta skipti verða háskólarektor, það er merkisatburður í kvenréttindasögunni. Kristín er líka velmenntuð og farsæll og góður vísindamaður og kennari, að vera kona sem náð hefur svona langt er einn af mörgum verðleikum hennar. Það má leysa í Morgunblaðinu í dag að Ágúst Einarsson mótframbjóðandi hennar telur að stemming hafi verið fyrir að fá konu núna í starfið, það hefur örugglega haft eitthvað að segja. Ég hugsa nú reyndar líka að það hafi ekki verið Ágústi til framdráttar að vera svona bendlaður við ákveðið stjórnmálaafl, það eru margir innan háskólanna sem vilja að rektor sé hafinn yfir argaþras stjórnmála. Ég held líka að þarna hafi skipt einhverju máli að þeir frambjóðendur sem kepptu til úrslita voru annars vegar í viðskiptum og hins vegar í lyfjafræði/líftækni. Ef til vill hefur það skipt líka máli núna að einmitt í lyfjarannsóknum og líftækni er vænst mikilla framfara á næstu árum og menn skynjað að það er mikilvægt að háskólarektor hafi þekkingu á þeim geira. En allir frambjóðendurnir voru reyndar afbragðsmenn sem njóta mikillar virðingar og mér sýndist að baráttan hafi verið mjög heiðarleg og allir ættu að geta unnið saman nú að bættum hag háskólans undir stjórn Kristínar. Það er fróðlegt að bera saman hvernig staðið var að vali á æðsta stjórnanda í íslensku fræðasamfélagi og hvernig staðið var að vali á æðsta stjórnanda á fréttastofu RÚV. Mér sýnist að rektorskjörið sé dæmi um einstaklega vel lukkað val þar sem fólk vissulega skiptist í fylkingar en ég held ekki að rektorskjörið hafi veikt háskólann. Þvert á móti styrkt hann til nýrrar sóknar. Fréttastofa útvarps er hins vegar alveg í sárum eftir síðustu ráðningu og allt í hers höndum þar.

En mér finnst reyndar sérstaklega vænt um að Kristín verður rektor vegna þess að ég þekki hana persónulega. Hún er bekkjarsystir mín úr eðlisfræðideild MR og var reyndar sessunautur minn seinasta ár okkar í skólanum. Kristín hefur alltaf notið trausts allra, hún er gáfuð og víðsýn og ég veit að hún er brautryðjandi í sínum fræðum þó ég hafi nú ekki mikla innsýn í lyfjafræðina.

16.3.05

Vermenn á norðurleið



Loðnuvertíðin er búin í Vestmannaeyjum. Það gistu tveir skagfirskir farandverkamenn hjá okkur í fyrrinótt, þeir Óðinn frá Vöglum og Jakob frá Borgarhóli. Þeir voru í mánuð í Vestmannaeyjum á loðnuvertíð og sögðu það mikið ævintýri og uppgrip. Þeir fóru saman til eyja þrír bóndasynir að norðan. Nú eru ekki lengur verbúðir í Vestmannaeyjum þannig að þeir voru á gistiheimili. Ég spurði þá fregna af vinnunni, þeir sögðust hafa verið að slá frá pönnum þar sem loðnunni er pakkað til manneldis í poka sem eru frystir og líka verið í vinnslunni þar sem loðnuhrognin eru unnin, þeir segja að hrognavinnslan sé að miklu leyti sjálfvirk og vélvædd. Ég held að Bubbi hafi verið að lýsa loðnuvinnslu í laginu "Hrognin eru að koma".

Það er aldagömul hefð að ungir menn úr sveitahéruðum fari í verið að vetrarlagi, oft langa leið og í aðra landshluta. Ég held þetta hafi haft óhemjuáhrif á íslenskt samfélag og íslenska menningu - þrátt fyrir að við búum í svona strjálbýlu og hrjóstugu landi hefur alltaf verið mikill samgangur og samblöndun milli landshluta, ekki síst vegna svona atvinnuhátta eins og ferða í verið. Reyndar verður saga þorpa og þéttbýlis á Íslandi ekki skilin nema að skoða verbúðamenningu og hafið hin mikla matarkista hafði óhemjuþýðingu á lífskjör. Það er gamall draumur hjá mér sem ég veit ekki hvort rætist einhver tíma að fara í pílagrímsför út í Oddbjarnarsker á Breiðarfjarðareyjum, sagnir frá þeirri verbúð hafa heillað mig. En því miður er þessum stað enginn sómi sýndur í dag og melgrasið grær yfir búðirnar.

Ég held að það sama sé að gerast með hina nýja erlenda farandverkafólk sem kom upphaflega í sjávarplássin, þau skapa verðmæti með vinnu sinni en þau auðga líka mannlífið og menningu og flytja fjarlæga menningu til Íslands og tengja núna í dag saman álfur á sama hátt og vermenn fyrri alda tengdu saman landshluta á Íslandi.

En vermennirnir í dag eru ekki eins og áður var vinnumenn bænda sem senda þá í hópum í verið. Af Skagfirðingunum þremur sem fóru á loðnuvertíð í Eyjum þá eru tveir með háskólapróf og í námi og sá þriðji vinnur ýmis störf m.a. mikið við að plægja niður ljósleiðara á Norðurlandi.

Ég keypti nýja stafræna myndavél í vikunni og vígði hana í að taka myndir af vermönnunum sem gistu hérna á heimleiðinni. Þetta er þriðja stafræna myndavélin sem ég eignast, hin bilaði og það borgar sig ekki að gera við hana. Þessi nýja er Canon Ixus 500, hún er 5 megapixlar og með 3 sinnum optical súmm.