29.4.05

Mynd af gámahúsi
Hér er mynd sem Gunnella í Edinborg tók af gámahúsi þar. Ég er að prófa myndatilvísanir í flickr og það er því miður ekki hægt að nota þetta vel með blogger, að ég held vegna þess að blogger notar eitthvað gamalt API kerfi sem ruglar íslenskum stöfum. Flickr myndir virka hins vegar afar vel með wordpress. Ég er búin að læra að hlaða myndum inn á Flickr á mjög snöggan og einfaldan hátt, ég nota Flickr Uploadr sem er eitt af frábærum verkfærum hjá Flickr, það er box sem ég set myndirnar sem ég ætla að setja á vefinn og hleð inn tugum mynda í einu með að draga þær í boxið. Afar einfalt þegar maður er með margar myndir. Það er reyndar ekki hægt að setja myndir beint inn í albúm um leið og maður hleður þeim á vefinn, ég sakna þess. Svo getur maður bara sett myndirnar inn á blogg með texta en því miður virkar það ekki með íslensku í blogger. Einfalt er líka að vísa í myndir annarra Flickr notenda eins og ég hef hérna gert með þessari mynd:

Beauty below north bridge
Myndasmiður er Gunnella.

28.4.05

Gámahús eru falleg

Gámauppskipun í SundahöfnÉg keyrði framhjá Sundahöfn í morgun og þar var verið að skipa upp úr gámaskipi. Svona gámar hrífa mig alltaf, ég er heilluð af marglitum gámum í ryðbrúnum og skipamálningartónum. Gámastaflar mynda líka svo falleg og stílhrein form. Ég undrast alltaf yfir að fólk sjái ekki fegurðina í gámum, ég held að það sé út af því að fólk sér þá ekki, fólk sér bara umbúðir utan um vörur og ég held að fegurðarmat almennings sé þannig að það sem er partur af framkvæmdum og atvinnulífi sé sjálfkrafa gjaldfellt sem eitthvað ljótt. Ég held að fegurð sé kyrrstaða og hrörnun. Þannig verða fiskiþorpin fyrst falleg þegar fiskurinn berst ekki lengur á land og þau fara að vera minninng. Þannig verða bændabýlin fyrst falleg þegar þau fara í eyði og þannig sjáum við fegurð gámanna fyrst þegar þeir hætta að vera umbúðir utan um vörur.

Í fyrradag sá ég byggingarþátt á BBC þar sem fylgst er með byggingar- og endurbótaverkefnum, það var til sölu lóð í enskri borg, lóð sem var klesst upp við leiðínglegt iðnaðarhverfi og lestarstöð. Lóðina keypti arktitekt í London sem ætlar að setja þar upp gámahús, hann hefur gert önnur gámahús og það var sýnd mynd af því. Það var mjög fallegt, margra hæða hús með kringlóttum gluggum og svölum og gámunum var ekki staflað hverfum ofan á annan eins og í skipum heldur voru þeir settir óreglulega hver á annan og milli þeirra voru göngubrautir og sums staðar súlur. Ég náði á leitaði á Netinu að gámahúsum og sé að í gömlu iðnaðarhverfi Trinity Buoy Wharf í London er núna að spretta upp listamannahverfi og þar er ContainerCity búið til úr gámum, þetta eru ódýrar vinnustofur. Svo fann ég líka upplýsingar um
Containerbayhome. Núna er draumurinn hjá mér að koma mér upp gámasumarhúsi og ég vona að í einhverjum af sjávarplássunum á Íslandi þá rísi gámahús við sjóinn. Það væri sennilega hægt að gera skemmtilega öðruvísi vistarverur í svona gámahúsum, það er hægt að stafla þeim upp þannig að það séu svalir og útsýnisbrautir á milli þeirra og þar sem þakið er alltaf slétt þá getur það alltaf verið pallur eða veröld.

Hér er mynd af Container City (Telegraph):
Container City London

25.4.05

Bílslys í Kópavogsgjá

Bílslysið í Kópavogsgjánni

Bílslys í Kópavogsgjá

Kristín Helga býr oft til minningar og hátíðarstundir. Hún vill halda upp á sérstaka áfanga í lífi sínu með sviðsetningu, vera á stað og stund sem á við atburðinn. En lífið er ekki bara innsetningar og gjörningar og atburðir sviðsettir af mönnum. Eftir áreksturinn í Kópavogsgjánni síðasta vetradag sat Kristín ringluð og hrædd í framsæti sundurkramins bíls á miðri hraðbrautinni - æðinni sem liggur á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur - niðri í gjánni sem nú er verið að byggja hús yfir - einmitt undir grunninum á því húsi varð áreksturinn. Hún sat við hliðina á bílstjóra og blóðið lak niður höfuð hans í þá átt sem sneri að henni. Það dreif að lögreglubíla og sjúkrabíla og mannfjöldi safnaðist saman á brúnni og horfði niður í gjána og straumur bifreiða sem rann eftir þessum manngerða farvegi stöðvaðist og staflaðist upp.

(hér tók ég út kafla vegna beiðni frá K.H.M)

Við fórum á La mala educación á föstudagskvöldið, eftir sýninguna fengum við okkur kaffi í kofa Tómasar frænda á Laugaveginum. Þar sáum Kristínu Helgu koma inn, eða svo sýndist bæði mér og Ástu. Eins andlit, eins hárgreiðsla, eins líkamsbygging, eins eyrnalokkar, eins úlpa, eins buxur. En það var ekki Kristín Helga , þetta var brotakennd skynjun , sjónhverfing eða sjónarspil eins og þegar Magnús sá sjálfan sig í Roni Horn og ég sá hann líka í henni í sláturhúsinu í Laugarnesi þar sem hún talaði um vatn og ána Thames á degi hinna dauðu.

Síðasti vetrardagur miðvikudaginn 20. apríl 2005 verður eftirminnilegur. Mest út af árekstrinum. En fyrr um daginn var ég í spurningakeppni á Talstöðinni. Ég segi alltaf já þegar ég er beðin um að koma í fjölmiðla og spyr svo hvað ég eigi að gera eða hvaða skoðun ég eigi að verja. Ég hef ekki lent í því áður að þurfa að vita eitthvað. Þegar keppnin hófst rann upp fyrir mér hvað ég var hrikalega mikið rangur maður á röngum tíma í vitlausu húsi og þar sem ég var með tússpenna fór óg bara að krassa og skreyta forsíðu á einhverju innblaði Fréttablaðsins og breytti litlum börnum í ungbarnasundi í kynjaverur. Ég gat næstum ekki svarað neinni af spurningunum, ég vissi ekki einu sinni hvað synir Njáls á Bergþórshvoli hétu, samt hef ég reynt að nota Njálu sem vegahandbók og ég vissi ekki hvað Guðrúnu í Laxdælu hefði dreymt marga drauma og hver hefði ráðið þá og þó ég vissi ekki hvaða tvær götur afmörkuðu Bræðraborgarstíginn. Jú, ég nefndi Hringbraut og ég veit alveg hvar Bræðraborgarstígurinn virðist enda, ég þekki þann stað vel, hann er greyptur í hug mér og hann blasir við á olíumálverki í stofunni hjá mér. Samt gat ég ekki svarað því og ég er ekki einu sinni viss um að götur endi þar sem okkur sýnist þær enda eða hvort borgin sé völundarhús og vegamótin séu dularfull öngstræti.


Ósigur minn var þó mestur varðandi bókarkafla sem lesinn var upp og átti ég að segja ýmislegt um hann. Ég vissi ekkert um hann, hef aldrei lesið þá bók og aldrei heyrt á höfundinn minnst svo ég muni. Áttaði mig heldur ekkert á aðstæðum, nema einhver maður var færður í lítinn klefa, hann var með byssur og hann var kallaður aumkunarverður Júpíter.

Það var lesinn fyrir mig kafli úr bókinni Innstu myrkur eftir Joseph Conrad, þetta er bók sem gerist á tveimur fljótum, maður sem situr við Thames ána segir öðrum manni söguna sem gerist á fljótabáti í Kongó. Þetta mun vera vera fræg bók í eftirlendufræðum og kvikmyndin Apocalypse Now byggir á henni. Þetta allt veit ég núna. Mér virðist auðvelt að finna svörin á vefnum ef spurningarnar og tengslin eru þekkt.

En með því að einblína á ein tengsl og eina merkingu þá sjáum við ekki það sem þó blasir við. Ég held að siðmenning sé að hluta til fólgin í að slá merkingu í hluti og lýsa þá upp með einhverjum kennileitum sem hafa samt enga merkingu utan kerfisins - en með því að sjá veröldina eins og safn af GPS punktum sem heita einhverjum nöfnum og örnefnum eins og vegir eða fjöll þá lærum við að sjá ekki það sem er milli punktanna og erum örugg alltaf að ferðast inn í veröld sem við höfum sjálf búið til.

Ég leit á laugardaginn inn á ljóðaþingið, ég man mest eftir því þegar Steinunn Sigurðardóttir brást við analýsu á ljóði eftir hana um ferð í þoku og sagði frá að ferðin í þokunni væri byggð á sannsögulegum atburðum, ég held reyndar að þetta ljóð sé úr bók sem byrjar hérna framan við gluggann hjá mér í Sigtúninu á tíma þegar þar ennþá tún og styttugarður, en Steinunn sagði frá lífshættulegum ferðum með Páli Stefánssyni yfir heiðar. Hann vildi alltaf stoppað á blindhæðum til að taka ljósmyndir.

20.4.05

Martröð

Ég ætlaði með Ástu á La mala educación í tíubíó í kvöld og bað hana að hringja í Kristínu Helgu áður en við færum út úr húsinu, ég vildi vita hvar hún væri. Fyrr í dag keyrði ég Kristínu og vinkonu hennar niður á Laugarveg en svo hafði vinkonan hringt og spurt um hana svo ég vissi að þær voru ekki lengur saman. Ég heyrði að Ásta sagði í símann "Við komum strax og sækjum þig, hvar ertu?" og ég spurði hvort Kristín ætlaði líka með okkur í bíó.

Nei, það var ekki þannig. Kristín Helga var á bráðamóttöku Borgarspítalans, Ásta sagði að hún hefði talað óskýrt og eitthvað hefði komið fyrir, sennilega árekstur. Við fórum beint á bráðamótttökuna og þar var Kristín og þar var einhver strákur sem var með henni í bílnum. Kristín var lítið meidd og strákurinn sem þá var nýkominn úr rannsókn mun hafa fengið að fara eftir að við fórum.

Það var mjög harður árekstur tveggja bíla, að ég held vegna þess að bíllinn sem Kristín var í stöðvaðist á hraðbrautinni, strákurinn mun hafa sett á blikkljós en ökumaður í öðrum bíl séð það of seint og keyrt á. Sem betur fer voru þau bæði í bílbeltum. Vitni kölluðu til lögreglu sem tók skýrslu, þau voru öll flutt í sjúkrabíl á slysavarðstofu. Ég sé að það er komin frétt um þetta á mbl.is:

Innlent mbl.is 20.4.2005 21:43
Fjórir fluttir á slysadeild eftir árekstur í Kópavogsgjá
Fjórir voru fluttir á slysadeild með minni háttar meiðsl eftir árekstur tveggja bíla í Kópavogsgjá á Hafnarfjarðarvegi klukkan rúmlega níu í kvöld. Voru bílarnir óökufærir og fluttir á brott með krana.


Kristín vildi strax fara heim og sagði að hjúkrunarfólk segði að hún mætti það, þegar heim var komið hringdum við í lækninn og fengum upplýsingar um hvað hefði komið út úr rannsókninni á henni og hvort við þyrftum að vera á varðbergi fyrir einhverjum einkennum. Sem betur fer virðist enginn hafa slasast alvarlega.

Þetta er ljóslifandi martröð allra foreldra unglinga. Ég skil ekki hvers vegna Kristín Helga sem er fimmtán ára var ein í bíl með tvítugum strák sem hún segist ekki þekkja neitt "eitthvað að rúnta um" og ég skil ekki hvers vegna ekki var haft strax samband við mig af lögreglu og/eða læknum sem forráðamann hennar, hún gaf upp kennitölu strax á slysstað.

En ef við hefðum ekki hringt þá væri ég núna sennilega núna að horfa á endirinn á myndinni.
Útlandasamband gegnum dropateljara - ræsum fram Vatnsmýrina!

Tvær fréttir í Morgunblaðinu í dag vöktu athygli mína og áhyggjur. Annars vegar var mjög gleðileg frétt um að Ísland tæki sæti í upplýsingamálanefnd Sameinuðu þjóðanna og að Hjálmar W. Hannesson hefði flutt ávarp á ársþinginu og vakið athygli á að Íslendingar eru í fremstu röð ríkja heims í tölvumálum og þróun hugbúnaðar. Hins vegar var mjög dapurleg frétt um nýtingu Farice sæstrengsins þar sem leiðtogar í Internetmálum í háskólasamfélaginu segja að þessi mikli stafræni þjóðvegur milli Íslands og umheimsins sé núna ekki nýttur nema að örlitlu leyti. Þeir segja að líkja megi þessu við að þarna sé 72 akreina braut en aðeins sé leyfð umferð á einni akrein.

Í gær var tekin ákvörðun um staðsetningu Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Í sólskininu í gær keyrði ég þangað og skoðaði mig um og hugsaði um hve miklu varðaði fyrir Reykvíkinga og alla Íslendinga að vel tækist að byggja upp þekkingarsamfélag hér á Íslandi og þessi staðsetning væri í alla staði frábær, nálægt við náttúru og strönd, fallega staði, menningu og mannlíf í miðborginni. En ekki hvað síst er þessi staðsetning frábær vegna þess að hún staðsetur Háskólann í Reykjavík í nálægð háskóla- og rannsóknarsamfélagsins á Íslandi og réði það mestu um staðarákvörðun.

Það er einmitt þetta sem er EKKI AÐ GERAST varðandi þá þjóðbraut sem sæstrengurinn ætti að vera fyrir íslenskt þekkingarsamfélag. Í stað þess að vera samskiptaæð sem gerir háskólasamfélaginu kleift að vera í nálægð við alþjóðlegt háskóla- og rannsóknarsamfélag þá er Farice stjórnað núna þannig að kostnaður við að opna nýjar rásir er óhóflegur og þar með einungis nýtt 2 gb af 720 gb flutningsgetu strengsins. Þannig er strengurinn núna gríðarlega vannýtt fjárfesting. Til að breyta þessu er þörf á pólitískri ákvörðun, það þarf að gera sæstrenginn að opinni þjóðbraut.

Núna er útlandasamband skammtað í gegnum dropateljara. Vatnsmýrin er vissulega falleg en þekkingarsamfélag á Íslandi þarf meira en mýri og staðið vatn. Það þarf að vera opin og greið rás fyrir flæði þekkingar til og frá Ísland og sá farvegur sem þekkingarstraumar í dag flæða um til landsins er sæstrengurinn..

Hér er byrjun á þessum greinum sem birtust í Morgunblaðinu í dag.


"Ísland tekur sæti í upplýsingamálanefnd SÞ

Ísland hefur í fyrsta sinn sæti í upplýsingamálanefnd Sameinuðu þjóðanna en ársfundur nefndarinnar stendur nú yfir í New York. Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, flutti ávarp á fundinum og vakti athygli á því að Íslendingar væru nú í fremstu röð ríkja heims í tölvumálum og þróun hugbúnaðar. Sú reynsla gæti komið Sameinuðu þjóðunum að liði.

Hjálmar fjallaði einnig í erindinu um góðan árangur við að koma á hagræðingu í starfi upplýsingadeildar Sameinuðu þjóðanna, einkum umbætur í kynningarstarfi, öfluga nýtingu netmiðla og tölvutækni, endurskipan safnamála Sameinuðu þjóðanna og það að almenningi hafi verið opnaður aðgangur um Netið að öllum gögnum SÞ. " úr grein á mbl.is 20/4/05

"Svalbarði með betri nettenginug en Ísland

Farice- sæstrengurin hefur ekki reynst sú fjarskiptaviðfót sem vænst var og er íslenskt rannsóknarsamfélag útilokað frá stórum og mikilvægum verkefnum í alþjóðasamfélaginu vegna mikils kostnaðar og takmarkaðrar nýtingar á flutningsgefu Farice. Þetta er mat Helga Jónssonsr, framkvæmdastjóra Internet á Íslandi (Isnicd), Sæþórs L. Jónssonar, forstöðumanns Reiknistofnunar HÍ (RHÍ), og Jóns Inga Einarssonar, framkvæmdastjóra Rannsókna- og háskólanets Íslands (RHNET). Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri Fararice, segir rekstrarforsendur ekki leyfa ódýrari gjaldskrá á Farice. Þörf sé á pólitískri ákvörðurn, eigi að gera Faricestrenginn að "opinni þjóðbraut".

Helgi, Sæþór og Jón segja einungis brot af Farice-strengnum nýtt vegna þess að kostnaður viðað opna nýjar rásir sé úr öllu valdi. Þannig séu nú einungis nýtt innan við 2 Gb/s af 720 Gb/s flutningsgefu strengsins og opið fyrir um 10 Gb/s nýtingu. Þetta sé gríðarlega vannýtt fjárfesting.

"Við getum líkt þessu við Héðinsfjarðargöng. Þau eru umdeild, en það er ókeypis að fara í gegnum þau vegna þess að þau eru talin þjóðhagslega hagkvæm og gera fólkinu í þessum byggðalögum lífið léttara" segir Helgi. "Við getum líkt Farice við 72 akreina göng sem standa tilbúin en einungis er opið á eina akrein".

Til samanburðar má nefna að nýleg tenging frá Noregi til Svalbarða hefur tæplega tvöfalda mögulega flutningsgetu á við Farice og er þar nú þegar opið fyrir 20 Gb/s gagnaflutning.

Flöskuháls ónýtir háhraðatengingar

Sæþór segir stöðugar fyrirspurnir berast að utan um af hverju íslenskar rannsóknarstofnanir séu ekki með í verkefnum eins og t.d. stóra hraðlingum í Sviss og risasmásjá.

"Við erum útilokuð frá fjölda klasaverkefna þar sem þarf að vera öflug tenging við umheiminn" segir Sæþór. "Ef við ætlum að taka þátt í svona stærri rannsóknarverkefnum þá þurfum við alveg jafnmikla bandvídd og t.d. Sviss. Þetta má ekki vera háð hausatölu. Meginatriðið er að telja ekki fjölda símalína í ljósleiðarastreng, því rannsóknir eru óháðar því, þær gera kröfu um gríðarlegan gagnaflutning, eða lágmark 2,5Gb/s á sérrás fyrir rannsóknarþjónustuna.

Segja þeir til lítils að hafa allt Ísland tengt háhraðatengingum, tengingin til útlanda sé í gegnum dropateljara. Það sé samgönguyfirvalda að liðka fyrir þessum málum. "Þegar gáttir eru opnaðarar koma nýjar hugmyndir. Þök og hindranir loka á þetta hugmyndaflæði" segir Jón Ingi......" (grein á síðu 4 í mbl. 20 apríl 2005)

19.4.05

Eitt stingandi strá

Fór með Ástu á laugardagskvöldið síðasta í afmælisveislu Sigvarðar á Þórsgötu. Þar var margmenni því Sigvarður á marga vini og hefur verið aktívur í alls konar félögum um ævina, spilaði í hinni stórgóðu hljómsveit Stingandi strá og var og er mikill umhverfissinni og vinstri grænn, ég held hann hafi gefið út anti-virkjunar geisladisk. Hér er flickr myndaalbúm með myndum sem ég tók í samkvæminu.

Um myndaalbúm
Mér finnst gaman að búa til svona myndalbúm , það er líka afar einfalt að gera það í flickr, ég hef gerst áskrifandi þar og vonast til að setja þar inn þúsundir mynda. Það nægði mér ekki að hafa ókeypis áskrift, þá má maður bara hlaða inn 100 myndum. Maður getur líka sett efnisorð á myndir og flett upp í efnisorðum annarra og fylgst með rss myndstraumum frá einstökum notendum, eftir efnisorðum og eftir hópum. Flikcr er þannig ágætis dæmi um lýsigagnaskráningu almennings eða "folksonomy". Ég tók saman leiðarvísir með flickr.com á íslensku. Nún þegar allir eru komnir með stafrænar myndavélar og myndsíma hugsa ég að fólk fari að tjá sig og tala saman meira með myndum, það er alþjóðlegra táknkerfi en tungumál orðanna, mér finnst ég ná ágætu sambandi við fólk á flickr sem ég skoða myndir hjá, ég sé oft hvernig lífi það lifir, og hvernig það hugsað eftir því hvernig það tekur myndir og af hvaða myndefni. Svo passar þetta líka ágætlega fyrir mig, ég hef alltaf tjáð mig mest með myndum um ævina, reyndar kannski frekar krassi sem enginn skilur. Það truflar mig reyndar frekar lítið þó fólk skilji ekki það sem ég segi eða geri, tjáning þarf ekki endilega áhorfanda og það er stundum eyðileggjandi fyrir hugmyndir að ræða þær við aðra. Þá þarf maður að setja sig inn í hugarheim þess sem maður útskýrir fyrir og stundum fer maður þannig úr sínusbylgju yfir í beina línu.

Bæði Flickr.com og buzznet.com er sniðug myndakerfi, ég held það sé ekki ennþá til neitt gott nafn yfir svona umhverfi - þetta er miklu meira en myndaalbúm, þetta eru eins konar myndablogg og myndasamskiptakerfi. Það er líka hægt að stilla þetta þannig að myndirnar sendist bent inn á blogg, maður smellir á "blog it" takka.

18.4.05

Málsvari búlausra manna

Í bókinni "Ágúst á Hofi lætur flest flakka" segir Ágúst frá því hvernig Hannes afi minn breytti orðræðu Vatnsdælinga á fyrri hluta síðustu aldar :
"Segja má að þrjátíu ára stríðið hefjist ekki að marki, fyrr en Hannes Pálsson kemur að Undirfelli. Hann átti mikinn hlut í þeim breytingum, sem í hönd fóru í sveitarmálum. Hannes var ungt og glæsilegt foringaefni eins og kyn þeirra Guðlaugsstaðamann stóð til. Hann gerðist snemma atkvæðamikill og óragur á mannamótum, handgenginn Jóni í Stóradal og heittrúaður framsóknarmaður. Hann kvæntist Hólmfríði dóttur Jóns Hannessonar á Undirfelli, stórgreindri gerðarkonu, og fluttist í Undirfell 1924, en sat þar búlaus að kalla fyrsta árið. Jón tengdafaðir hans hafði fengið lífstíðarábúð á jörðinni. Hann vildi þó gjarnan kaupa hana og sótti tvisvar um meðmæli sýslunefndar, en fékk afsvar í bæði skiptin, og réðu því pólitísk viðhorf. Um það leyti sem Hannes fluttist þangað, sótti Jón um kaup á jörðinni í þriðja sinn og fékk þá kaupheimild, en á allra vitorði var þá, að þetta var aðeins sýndarleikur, ákveðið var að Hannes keypti jörðina þegar aftur af honum, og varð svo.

Hannes tók við Undirfelli 1925, en Jón Hannesson fluttist aftur í Þórormstungu. Hannes fór mjög fljótlega að taka þátt í hreppsmálum. Fram að þeim tíma höfðu átök manna í sveitinn markast af viðhorfi til hreppsmála að mestu leyti, þótt landsmálasjónarmiðin gægðust oftast undan gærunni í hinum stærri og langvinnari deilum, þegar glíman harðnaði. En með tilkomu Hannesar varð sú breyting á, að afstaða manna í landsmálum fór að hafa enn meiri áhrif. Hannes lagði mælikvarða stjórnmálanna á æ fleiri þætti hreppsmála. Hannes var atkvæðamikill félagsmálamaður og gerðist þegar í stað málsvari búlausra manna. Hann taldi, að skipta bæri stórjörðum eftir þörfum. Til þess að sýna gott fordæmi í því, sagði hann, að skipta bæri Undirfelli í þrjár jarðir, en það ætti að gerast eftir sína daga þar." (bls. 27)

Þó Hannes afi minn hafi verið greindur og íhugull maður þá sá hann ekki fyrir þær breytingar sem áttu eftir að verða í landbúnaði á Íslandi. Á þeim tíma sem hann er að hefja búskap þá var erfitt að komast yfir jarðnæði og í Vatnsdalnum voru mörg stórbú. Þar eru frjósöm flæðiengi og miklir hagar fyrir sauðfé. Núna eru margar jarðir í Vatnsdalnum í eyði. Móðir mín vildi helst aldrei koma í Vatnsdal, það rifjaði upp sárar minningar um bernsku hennar. Hún var þó með okkur systkinin þar eitt eða tvö sumur, ég man að ég var þar þegar ég átti að byrja í skólanum sjö ára gömul og ég kom einhverjum dögum of seint í skólann vegna þess að fréttir bárust ekki í Vatnsdalinn af því hvenær skólar hæfust fyrir sunnan.

Undirfelli var skipt í tvær jarðir, Undirfell og Nautabú en þær eignuðust tveir bræður móður minnar sem létust báðir fyrir nokkrum árum. Þar hefur í marga áratugi enginn búskapur verið og enginn búið þar en þeir höfðu þar hrossastóð. Búskap var hætt á Undirfelli áður en afi minn dó. Afi og amma skildu, hann flutti á mölina en hún bjó ein á Undirfelli og ól þar upp yngsta son þeirra. Það er harmsaga.

Mér finnst alltaf skrýtið að lesa þessa frásögn af afa mínum. Ég efast ekki um að hann var á sínum yngri árum hugsjónamaður og heittrúaður samvinnumaður og málsvari búlausra manna en hann komst sjálfur yfir jarðnæði vegna flokkshollustu sinnar og hann bjó sjálfur árum saman á stórbýli, hann vildi ekki skipta jörðinni sinni fyrr en "eftir sinn dag".

En mér finnst smart að vera málsvari búlausra manna og ég held bara að ég taki upp merki afa míns og verði málsvari búlausra manna á Íslandi í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar. Núna eru verðmætin í búunum ekki jarðeignir og búpeningur, núna eru verðmætin í búum til sjávar og sveita kvótaeignin og framleiðslurétturinn og það er hart barist um þessar eignir.

15.4.05

Rusl í Reykjavík
Það er spennandi alltaf að vakna núna og horfa út um gluggann. Stundum er sól og vor í lofti en stundum er allt orðið hvítt aftur. Samt hopar snjórinn smám saman og bráðum vinnur vorið og bræðir snjóinn.

Ég reyni að fanga vorið á mynd en það er erfitt. Kannski er vorið hérna í borginni ekki það sem ég held, kannski er það ekki brumið á trjánum, kannski er það ekki fuglar í hreiðurgerð, kannski er það ekki bráðnandi snjór. Kannski er það eins og jólatréið mitt, úr plasti.

Einn sólardaginn í mars fór ég út í vorblíðuna til að mynda vor í Reykjavík. Ég var í svo mikilli Reykjavíkurstemmingu, nýbúin að lesa að það ætti að gera vídjó um vorkvöld í Reykjavík og svei mér ef það sveif ekki fjólublátt ský yfir Esjunni. En það var meira sem sveif um Reykjavík en blessuð skýin. Og það var meira sem brumaði á trjánum en hið ófædda vor sem býr í limi trjánna. Vorði í Reykjavík er plastruslið út um allt. Á meðan trén í útlöndum blómstra á vorin með fjólubláum, gulum og hvítum blómum þá blómstra trén í Reykjavík með plastblómum. Það eru svona plastdræsur sem feikast í vindi og limið klófestir þær þangað til í næsta stormi þá fara þær á annað tré eða fjúka í skaflana.

Vorin á Íslandi er alltaf þannig að skaflarnir sem hafa fokið saman um veturinn byrja að bráðna en þessir Reykjavíkurskaflar bráðna alls ekki. Hvarvetna er ruslið í sköflum svona öldur úr plasti og pappakassaræksnum og plastílátum sem eru létt eins og fræ með svifhárum og meðfram öllum götum borgarinnar er draslið.

Reykjavík lítur núna út eins og völlur eftir útihátíð um verslunarmannahelgina. Það eru meira en mánuður þangað til unglingarnir koma í bæjarvinnuna og unglingavinnuna. En er ekki eitthvað einkennilegt að fólk skuli ekki sjá þetta drasl? Ég safna myndum af vorinu í myndasyrpuna Rusl í Reykjavík og svo óf ég líka þráð á málverjavefnum utan um ruslið í Reykjavík.

14.4.05

Megas LX Remix - Út úr þessari borg er enginn vegur fær

Ég fór með Kristínu Helgu á Megas LX tónleikana 7. apríl. Megas er löngu orðinn þjóðskáld en það var ekki alltaf þannig. Textar hans hafa alltaf heillað mig, líka tónlist hans - en lengi vel fannst mér alltaf eins og hann ætti ekki að syngja sjálfur. Núna hlusta ég á sömu lögin áratugum seinna og skil ekki hvað mér fannst að þessari hrjúfu og einkennilegu rödd. Annars var fyrsta hljómplatan sem ég keypti einmitt með verkum Megasar. Það var platan "Á bleikum náttkjól", ég keypti hana um leið og hún kom út og hélt mikið upp á lögin þar, kunni þau öll utanað og fór með Megasi út í heiminn á barbítúr til Bahamaeyja.

"Á bleikum náttkjól" var ekki bara fyrsta hljómplatan sem ég keypti, þetta var eina hljómplatan sem ég hef keypt um ævina. Ég veit ekki alveg hvers vegna, kannski það hafi eitthvað með það að gera að ég átti aldrei plötuspilara. Ég þurfti að fara í önnur hús til að spila plötuna og svo hagaði til að ég fór til vinkonu minnar sem þá var og spilaði plötuna. Nema hvað hún hafði vægast sagt afar lítið álit á Megasi og framlagi hans til lista og á meðan ég sveif með Megasi inn í draumalandið þar sem regnið bylur á þakinu eins og hamar á steðja þá skullu á mér háværar og ergilegar athugasemdir um sargið í Megasi og lélegan tónlistarsmekk minn. Það er reyndar partur af minningu við að hlusta á þessa texta, ég kippist ennþá við og mér finnst ennþá eins og ég þurfi að skammast mín fyrir að hafa fundist þetta góð plata. En ég gerði ekki aðra tilraun til að kaupa plötu og hlusta á hana í óvinveittum húsum.

Á tónleikunum mundi ég allt í einu eftir því að nýja lófastóra stafræna myndavélin mín er með upptökufídus og ég ákvað að prófa hann og tók upp smábúta eftir hlé. Ég setti það saman í stuttmynd sem ég kalla "Út úr þessari borg er enginn vegur fær". Myndin er um 5 mínútur. Þetta er svona mitt remix af þessum tónleikum, sett upp í svona villir hann, stillir hann og gakk í björg og bú með oss fíling og pæling um hvað hefði gerst ef Liljurós hefði lokast inn í hamrinum og hvort hamarinn sé úti eða inni.

Annars er sorglega lítið um Megas og verk hans á vefnum. Já það er ekki einu sinni kvæðið sem hann orti um Jónas Hallgrímsson út í hrauni, í túlkun bókmenntafræðinga var tilgangur Megasar sá að heiðra sérstalega Jónas. Svo er núna er duftað yfir allt sem Megas hefur hneykslað okkur á um daganna og það er nú ekki svo lítið, það er duftað yfir þetta með svona töfradufti sem lætur okkur sjá allt öfugt og skilja að Megas hefur með sínum ósvífnu og rustalegum textum verið mikill þjóðfélagsrýnir sem bara var að hjálpa okkur að sjá ljósið og við eigum að þakka honum sérstaklega fyrir ósómann:
Sjá t.d. þennan fyndna texta um Megas á Wikipedia:
"Það verður þó ekki fram hjá því horft, að umfjöllun Megasar um þá anga samfélagsins sem ekki mátti ræða, tabúin, höfðu heilmikil áhrif í samfélagsumræðu á Íslandi. Það er líklega óhætt að segja að hann hafi verið tíu árum á undan öðrum að benda Íslendingum á að til sé fólk sem ber ást til barna sem lítið á skilt við kristilegan kærleik. Eins má þakka honum umfjöllunina um rónana í textum hans á áttunda áratugnum, en um þá var ekki rætt opinberlega fram að því. Í báðum þessum tilvikum braut Megas ísinn."



Ég skrifaði í blogg 9.11.01 þetta:
ég var hreykin af sjálfri mér. Fannst þetta næstum eins gott hjá mér og það sem Geir Svansson sagði um Megas og Jónas þegar ég gekk um sýninguna Omdúran á Nýlistasafninu um seinustu helgi undir leiðsögn hans. Geir Svansson (frægur hinseginfræðingur) sagði eitthvað á þá leið að Megas hefði orðið fyrir miklum áhrifum frá Jónasi Hallgrímssyni og hann hefði á sinn hátt verið að heiðra Jónas með því að gera honum svona hátt undir höfði að yrkja um hann og steypa honum af stalli. Það er tær snilld að fatta að Megas var að heiðra Jónas með kvæði eins og þessu hérna , ekki hefði ég séð það nema út af þessum töfraumsnúningi bókmenntafræðingsins. Það er ekki nema von að Megas fengi verðlaun Jónasar Hallgrímssonar í fyrra. Mikið hefði það glatt Sigurð Breiðfjörð.

Ég fann þessar greinar um Megas á vefnum:

Grein í Wikipedia um Megas

Pistill á tónlist.is um Megas

Megas er sextugurFreyr Eyjólfsson skrifar á Rúv vefinn

Svo ver laugardagskvöldið seinasta með Gísla Marteini tileinkað Megasi.

13.4.05

Bloggbrú milli Íslands og umheimsins
Wikipedia skilgreinir hvernig blogg geta tengt menningarheima á þrennan hátt þ.e. verið gluggi, brú eða kaffihús. Í gegnum gluggablogg getum við gægst inn en ekki átt nein samskipti. Bloggbrú eru blogg sem skrifað fyrir aðra lesendur en sem eru daglegu lífi bloggarans og lesendur geta skrifað inn ummæli á bloggið og þannig geta lesendur byggt brú á milli. Hvaða íslensku blogg skyldu vera svona bloggbrú milli menningarheima? Ég veit ekki um mörg íslensk blogg um íslenskan veruleika sem skrifuð eru á öðru máli en íslensku og sem eru samfélagsrýnin. Það vantar eiginlega þannig blogg, það er margt sem gerist hérna sem mér finnst mikilvægt að sé skráð og útvarpað frá sjónarhóli þeirra sem eru þolendur eða segja söguna frá hlið sem stjórnvöld og opinberir fjölmiðlar vilja ekki að snúi upp. Það hefur risið upp grasrótarhreyfing í lýðræði meðal bloggara víða um heim og stofnuð átök eins og Committee to Protect Bloggers sem minnir á Amnesty hugmynd. Á svæðum þar sem tjáningarfrelsi er lítið þá hafa blogg og spjallkerfi verið ein helsta lind þeirra sem vilja breytingar. Stjórnvöld hafa sums staðar brugðist harkalega við og fangelsað bloggara, lokað netkaffihúsum og sett upp einhvers konar eldveggi. Þannig lokar Kína fyrir Google og blogger. En það eru ekki bara miðstýrð strangtrúarríki múslima sem takmarka tjáningarfrelsið, það berast sögur af því að tjáningarfrelsi sé mjög heft í Kína og þar séu bloggarar og þeir sem skrifa vefpistla handteknir og spjallsvæðum lokað. Ég fitjaði fyrir nokkru upp á þræði á málverjavefnum þar sem ég vakti athygli á því að spjallsvæðum er nú lokað í Kína og ýmislegt undarlegt að gerast þar varðandi Internetaðgengi. Núna er stór hópur Íslendinga að fara til Kína, ég held að það sé einhvers konar opinber heimsókn með forsetanum og öllu. Verst að það eru engar upplýsingar á forsetavefnum um það. Vonandi fer nú Ólafur að drífa sig í netmálunum, hann hefur tekið sér góðan tíma í að koma upp vefnum.

11.4.05

Sonarsonur landshöfðingjans

Í hádeginu í dag þá fór ég í þriðja álfaviðtalið á tæpu ári. Fyrst komu tveir menn frá Danmörku, þeir voru að gera margmiðlunarefni á vefsvæði, það var eitthvað tengt ferðamennsku. Það viðtal var tekið í Hellisgerði í Hafnarfirði. Það var í fyrsta skipti sem ég fór í Hellisgerði síðan ég fótbrotnaði þar. Ég fer ekki ótilneydd í Hellisgerði. Síðan kom þýsk stúlka, hún heitir Isabella og var að ljúka námi í blaðamannaskóla. Hún hafði unnið styrk í samkeppni sem fólst í því að fara til Íslands og vera ferðast um landið og rannsaka álfa og álfatrú Íslendinga. Isabella kom heim til mín. Hún býr nú í París. Viðtalið í dag var við konu af indverskum ættum sem heitir Nisha Inalsingh og býr í New York. Hún vinnur að heimildarmynd og ætlar að koma aftur til landsins í sumar.

Ég hélt að hún myndi koma ein og stefndi henni á skrifstofu mína. En hún kom með heilt kvikmyndagengi með sér og þau spurðu um hvort ég vissi ekki um einhvern stað úti. Mér datt enginn í hug nema niðri við Sundahöfn þar sem sér yfir í Viðey. Sá staður hefur seiðmagn, þar skarast athafnalíf nútímans á hafnarsvæðinu við athafnalíf og sögu í Viðeyjarklaustri og Innréttingum og þar var valdastóll Íslands. Mér finnst alltaf svo gaman að horfa út í Viðey þar sem fagurlitaðir gámastaflarnir eru í forgrunni. Í forgrunni voru landslag úr gámakubbum, brotajárnshaugar og dekkjabingir. Í brotajárnshauginum fann ég mína Íslandsklukku. Dekkjabingurinn er horfinn, hann gufaði upp í eiturský sem lagðist yfir Laugarnesið í brunanum mikla 22. nóvember síðastliðinn.

Ég stakk upp á þessum stað vegna þess að ég hugsa alltaf um eina álfasögu þarna, það er sagan af sonarsyni landshöfðingjans. Þegar við komum þangað var mikið umrót á hafnarsvæðinu og þau fundu tökustað þar sem Viðey bar við. Stór björg voru báðum veginn við slóð sem lá út í sjó og landfógetahúsið í Viðey blasti við.

4.4.05

Merkisdagur, magadans, afmælishátíðir
1. apríl er merkisdagur því þá var framhaldsstofnfundur Femínistafélagsins, ég var kosin í ráð Femínistafélagsins fyrir tveimur árum og þann sama dag var vefsetur félagsins http://www.feministinn.is/ opnað. Ég hef séð um vefinn og netmálin frá stofnun félagsins, það er búin að vera gífurleg vinna, bæði að skrifa inn á vefinn og setja þar inn myndir og texta, ég hefi tekið flestar myndir sjálf, skrifað fréttabréf og sent þau út, vaktað pósthólf félagsins , haft umsjón með femínistapóstlistanum og femínistaspjallinu. Ýmis konar tæknistúss hefur tekið mikinn tíma en stundum hefur farið mikill tími í að lægja öldur og stilla til friðar og glíma við tröll sem beinlínis hafa komið inn á póstlistann og vefspjallið til að reyna að skemma sem mest.

Allt fyrsta árið sem Femínistafélagið starfaði þá skall alltaf yfir okkur holskefla af hatri í hvert skipti sem umfjöllun varð um félagið eða einhverja aðgerð í fjölmiðlum, tröllin ærðust og böðluðust áfram í netrýmum femínista. Núna síðasta árið hefur hins vegar allt verið með spekt og eins konar regla komin á, femínistapóstlistinn lifir sem aldrei fyrr, þar eru allir harðlínufemínistarnir og sennilega böns af fjölmiðlaliði og öðrum sem þora ekki annað en vakta hvað femínistar eru að leggja á ráðin um, þar eru ennþá nálægt fimm hundruð áskrifendur á lokuðum póstlista. Núna er þar umræða um hvernig femínistar eiga að hrifsa til sín völd í stjórnmálum, femínistar í Svíþjóð hafa stofnað stjórnmálaflokk og við viljum líka völd.

Það er fyndið að í febrúar þá blossaði upp geysilegt líf í póstlistanum með fleiri tugum pósta á dag og það sem var rætt út í það óendanlega var magadansatriðið á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það voru ábyggilega nálægt 100 póstar bara um það mál eitt og sér. Það fyndnasta og skrýtnasta frá mínum bæjardyrum séð í þessu máli er að fyrir ári síðan þegar við vorum að undirbúa eins árs afmælishátíð félagsins þá reyndi ég að útvega skemmtiatriði og hafði fengið listakonu til að sjá um magadansatriði á skemmtuninni. Ég held að hún hafi ætlað að koma með hóp dansmeyja. En þá kom í ljós að í ráði félagsins voru skiptar skoðanir um magadans og sumir líta á slíkan dans sem eina birtingarmynd klámvæðingarinnar og voru algjörlega mótfallnir því að svona skemmtiatriði yrði á árs afmælinu.

Ég man hvað ég var hissa þegar ég heyrði þetta viðhorf fyrst, Dóttir mín hefur verið á magadansnámskeiði og ég hef í gegnum hana og umfjöllun í fjölmiðlum fylgst með þessari listgrein sem mér finnst dæmi um svona "empowering" iðju , að vera í skrautlegum búningum og hafa vald yfir líkama sínum, láta taka eftir sér og taka rými í tilverunni. Vissulega er magadans erótískur en það er ekki sama að vera erótískur og klámfenginn. Mér finnst balletsýningar líka oft erótískar og sviðsframkoma margra hljómlistarbanda er klárlega erótísk, það nægir bara horfa á hvernig þeir munda hljóðfærin.

Mörkin milli þess sem fólk telur erótík og klám eru flæðandi en ég man eftir að mér sárnaði verulega í fyrra út af magadansatriðinu fyrirhugaða, já eiginlega er þetta djúpasti ágreiningurinn sem komið hefur upp, ég íhugaði að hætta að starfa í Femínistafélaginu út af þessu, ég hugsaði með mér að ég gæti ekki starfað í félagi sem væri svo púrítanískt að samasemmerki væri sett milli þess sem er erótískt og klámvæðingar. En svo hætti ég að vera sár og mér finnst eftir á hafa verið gott að virða sjónarmið þeirra sem hefðu stuðast af svona skemmtiatriði og mér finnst svo mikið sem sameinar femínista að það sé alveg svigrúm fyrir mismunandi viðhorf til klámvæðingar. Svo finnst mér ástæða til að velja atriði á viðburðum félagsins sem stuða ekki félagsmenn þó að sem aktívistafélag þá sé bara oft hið besta mál að stuða út á við.

Svo ári seinna veldur magadansatriði sprengju á póstlista femínista, reyndar eru skiptar skoðanir og margir held ég með sama viðhorf og ég - og flestum finnst magadans fallegur - en ég held að öllum hafi fundist þetta einkar seinheppið atriði á opnunarhátíð Framsóknarflokksins, sérstaklega núna þegar Freyjumálið er nýliðið. Ég hef núna sannfærst ennþá betur um töfra magadansins, það er eitthvað ögrandi við þá list sem getur hrært svona upp í fólki. Mér finnst magadans líka vera frjósemisdans - ég hugsa að ef einhvern tíma hefur verið gyðjutrú í Evrópu þá hafi svona dansar verið dansaðir gyðjunni til dýrðar.

Reyndar mætti ég á þetta fræga magadansflokksþing og flutti þar líka ræðu 26. febrúar. Það er afmælisdagurinn minn og ég hélt upp á afmælið í fyrra með glans í listasafni Sigurjóns í Laugarnesinu á þeim slóðum þar sem Hallgerður langbrók er heygð og hafði þá bleikt þema og bauð fullt af femínistum. Í ár hafði ég framsóknargrænt þema og hélt sem sagt upp á það á flokksþinginu á Nordica hóteli og flutti afmælisræðu - já eða öllu frekar ádrepu. Mér fannst þetta nú allt í lagi að taka svona yfir flokksþing Framsóknar fyrir mína afmælisveislu, bæði af því að enginn í fundarsalnum vissi af því að ég ætti afmæli og svo er viss hefð fyrir því í Framsókn að samkomur eru þar ekki allar það sem það sem sést á yfirborðinu, þar hafa t.d. heilu ættarmótin verið dulbúin sem fundir í kvenfélögum.

Og ég hélt áfram 1. apríl 2005 að halda upp á ýmis afmæli í Framsóknarboðum. Ég hélt upp á fjögurra ára bloggafmælið, ég hélt upp á tveggja ára afmæli femínistavefsins, ég hélt upp á það voru akkúrat tvö ár frá því ég var kosin í ráð Femínistafélagins. Allra mest hélt ég upp á árangurinn af öflugu starfi Framsóknarkvenna og því ákvæði að núna er 40 % kynjakvóti regla í flokknum. Ég hélt upp á daginn með því að fara á Alþingi í boði þingkvenna Framsóknarflokksins og síðan út að borða á Thorvaldssen með Framsóknarkonum. Hér eru myndir sem ég tók.

Ég spjallaði við margar konur þar, ég man m.a. eftir konu sem býr á Eyrarbakka og hún var að halda upp á að barnabarnið hennar fæddist þennan dag, það var fyrsta stelpan og amman færði henni strax eitthvað bleikt, þarna var líka kona sem hafði verið við búskap á Snæfellsnesi, þarna var móðir Þ., þarna var kona sem var einu sinni litla manneskjan í þekktri sögu og ég skynjaði að það er til önnur ósögð saga af bernsku hennar ólík þeirri sögu sem rithöfundurinn skrifaði um sjálfan sig og kallaði hennar sögu. Það var líka þarna kona sem afgreiddi í sjoppu föður síns í Grindavík sumarið sem ég flúði þangað, hún var þá unglingur eins og ég og var líka úr Laugarneshverfinu, ég man að sjoppan var í skúr við hliðina á frystihúsinu og verbúðin sem ég bjó í var þar á efstu hæð. Sjoppan var eini staðurinn sem var þá opinn í Grindavík á kvöldin og það var eiginlega ekkert hægt að gera í plássinu nema fara út í sjoppu og hanga þar, jú nema auðvitað vinna og það var unnið flest kvöld til miðnættis.

Þann 1. apríl 2005 opnaði ég líka mína fyrstu útvarpsstöð á Netinu.

1.4.05

Páfinn, RúV, Fémínistafélagið og bloggafmælið

Í dag 1. apríl þá á Femínistafélagið afmæli. Framhaldsstofnfundur Femínistafélags Íslands var 1. apríl 2003 í hlaðvarpanum og þá var í fyrsta skipti kosið í ráð Femínistafélagsins. Sjá myndir og frásagnir af þessum fundi. Ég var þá kosin í stjórn félagsins og hef verið þar síðan. Mér finnst þetta soldið merkilegur dagur vegna þess að það hittist svo á að einmitt tveim árum áður þann 1. apríl árið 2001 þá byrjaði ég að blogga og í fyrsta blogginu "Álitsgjafar Íslands" þá skrifa ég einmitt um konur og áhrifaleysi þeirra í opinberri umræðu og fjölmiðlum. Ég geri það reyndar soldið mikið undir rós, sjá Þegar tímar liðu fram þá fór ég að blogga meira um femínistamálefni sem þá voru algjörlega tabú í bloggheimum - nema bara það mátti rakka niður femínista og jafnréttismál. Ég man ekki eftir neinum öðrum femínistum sem tjáðu sig á Netinu þá, reyndar var ástandið þannig þá að bloggarar voru bara þrenns slags, það voru tækninördar að blogga um tölvumál, það voru perrar að blogga um pornó og reyna að fá fólk til að skoða bloggið sitt með að benda á nýjar og nýjar klámslóðir og það voru í þriðja lagi strákar sem ætluðu sér einhvern framgang í stjórnmálum og voru að skrifa um þjóðmál. En það var bloggið sem varð einmitt sá farvegur sem varð til að ég fór að tjá mig um femínisk málefni og það byrjaði með ati við ritstjóra stúdentablaðsins og framkvæmdastjóra stúdendaráðs (sjá hérna http://www.asta.is/kyn ) en þá stóðu yfir miklar árásir á allt jafnréttisstarf í Háskóla Íslands og var Rósa Erlingsdóttir sérstaklega í eldlínunni. Ég sóttist eftir að fá birta grein í Stúdentablaðið en fékk ekki. Margt sem var á vefnum á þessum tíma er því miður horfið m.a. setti ritstjóri Stúdentablaðsins upp sérstakan varnarvef fyrir sig og það voru margir bloggarar með árásir á jafnréttisstarf í hí. Það er með ólíkindum hve mikið hefur breyst frá þessum tíma.

Mér finnst ástæða til að fagna núna, ég er sannfærð um að barátta femínista hefur gerbreytt orðræðunni um jafnréttismál á Íslandi. Það er hins vegar þannig að femínistar eru í stjórnarandstöðu á Íslandi og það verður erfitt að breyta því nema femínistar í öllum flokkum vinni saman og femínistar láti sig stjórnmál varða og reyni að komast til valda innan stjórnmálaflokka.

Það er reyndar líka áhugavert að einmitt í ár 1. apríl 2005 þá sverfur til stáls á fréttastofu útvarps.Þannig að allt stefnir í að þetta verði merkilegur dagur fyrir opinbera orðræðu og fjölmiðlun á Íslandi.Það er ástæða til að gera þennan dag í ár líka eftirminnilegan. Ég ætla að gera það með að fara í boð hjá framsóknarkonum þars sem fagnað er kynjakvóta í flokknum sjá auglýsinguna hérna.

Það segir kannski sína sögu að á sama tíma og konur í Framsóknarflokknum fagna merkum jafnréttisáfanga þá boðaði Framsóknarfélag í Reykjavík Norður (kjördæmi tveggja framsóknarráðherra, forsætisráðherra og félagsmálaráðherra) Herrakvöld þar sem framsóknarkonur áttu að ganga um beina og aðstoðarmaður forsætisráðherra átti að vera veislustjóri.

Ég held að femínistar í stjórnmálum séu bjartasta vonin fyrir lýðræði á Íslandi og ég held að við berjumst best fyrir því með að styðja konur og jafnréttisstarf í stjórnmálum og opinberri orðræðu ekki síst með að taka þátt sjálf í stjórnmálum - og láta það ekki á okkur fá þó að almenningur hafi ímugust á stjórnmálum og telji þátttöku vera fyrst og fremst hagsmunapot. Stjórnmálaflokkar eru eins og öll félög ekki annað en fólkið sem í þeim er á hverjum tíma.
En núna á 1. apríl er ástandið þannig í heiminum að páfinn heygir sitt dauðastríð og það er stríðsástand á íslenska ríkisfjölmiðlinum RÚV, starfsfólk þar hefur í dag fjölmennt á Alþingi og sent bænaskjal til þingsins og umræður voru í þinginu um málið.