13.6.05

Myndasyrpur og gæsalappir

xIMG_6094 Kristín Helga stendur við útstillingu í bókabúð í Barcelona, þar var stillt út bók eftir Halldór Laxness, bókin er Sjálfstætt fólk og er að ég held þarna til sölu á katalónsku. Sagt er að sumt í sögupersónunni Bjarti í Sumarhúsum sé sótt í langalangafa minn Björn Eysteinsson og munnmælasögur um hann. Ein sagan er sú að hann hafi verið fram á heiði með langömmu mína barnunga og þá slátrað hesti og látið barnið í haminn til að halda á því hita. Annars hefur bróðir minn núna unnið varnarsigur í gæsalapparmálinu hvernig sem það fer nú að lokum. Annars er gaman að pæla í hvort að höfundur textans sem Rauðsmýrarmaddaman mælir fram í Sjálfstæðu fólki hafi einhvern tíma fengið uppreisn æru. En eins og lífshlaup skáldsins á Þröm var yrkisefni og efniviður annarra skálda þá verður skáldið á Gljúfrasteini yrkisefni annarra höfunda, já meira segja með titlinum Höfundur Íslands. Sem er sniðugt vegna þess að höfundur Íslands er efniviður í verk sem endurspegla mest upplausn höfundarins.

Hér er myndasyrpa af ferð okkar Kristínar Helgu til Barcelona og myndasyrpa af ráðstefnunni sem ég var á þar.

Gypsy womenÉg hef verið áður í Barcelona, við vorum þar í þrjár vikur fyrir nokkrum árum. Núna vakti götulífið athygli mína, sérstaklega fólkið sem lifir á götunni. Það eru margir betlarar í Barcelona, það eru flest konur um ung börn, sennilega eru það Sígaunar. Þar eru líka margir ræningjar, alla vega tveir af ráðstefnunni sem ég var á voru rændir um hábjartan daginn á fjölförnum götum.







Kristin in front of the hostelVið vorum á gistiheimili í hliðargötu við Römbluna fyrstu nóttina og þegar við komum þar að þá brunuðu fimm lögreglubílar inn götuna og stöðvuðu fyrir framan gistiheimilið og nokkrir lögregluþjónar hlupu út úr hverjum bíl inn í dimma hliðargötu. Það er mikið skemmtanalíf í Barcelona og það er líka mikill munur á lífskjörum ríkra ferðamanna og þeirra koma til borgarinnar og lifa á götunni. Það eru mjög margir ólöglegir innflytjendur á Spáni.




Rafael quarter - muslin women  2 Í miðborg Barcelona búa margir útlendingar, margir eru frá Suður-Ameríkulöndum en margir eru líka frá múslímaríkjum. Í innflytjendahverfinu Rafael er þessi róluvöllur þar sem bara múslímar virðast sækja. Allar konur og stúlkur þar báru höfuðslæðu og voru klæddar á mjög frábrugðinn hátt en aðrir í Barcelona. Fólkið á þessari mynd tók því mjög illa að ég tók mynd af því og gerði hróp að mér. ´





xIMG_6090Í götunni andspænis Nýlistasafninu í Barcelona er mjög mikið af graffiti myndum sem augsýnilega eru gerðar af myndlistamönnum. Reyndar er allt hverfið þar í kring ríkulega graffítiskreytt. Sennilega er það vegna þess að til stendur að rífa húsveggina.









xIMG_6112Ásta tók þátt í kvennahlaupinu í ár og er hér í bolnum sem hún fékk.







Áslaug frænka mín útskrifaðist úr Háskólanum úr Reykjavík úr viðskiptafræði og héldu foreldrar hennar útskriftarveislu. Áslaug er aðeins 21 árs og lauk prófi með afbragðseinkunnum. Hún lauk menntaskólanámi á tveimur árum. Hér er mynd af henni ásamt foreldrum og systkinum.
xIMG_6115

IMG_6120Mæðgur frá Noregi Eli og
Hanna hafa verið gestir okkar í nokkra daga. Móðirin býr í Þrándheimi og dóttirin hjá föður sínum í Bergen. Móðirin var hérna á ráðstefnu, hún bjó á Gamla Garði samtímis Magnúsi fyrir mörgum árum.

10.6.05

Blogg í Svíaríki og Kína

Ég var að lesa greinina Forskare utforskar bloggar og fleiri blogggreinar hjá miðstöð um Internet samskipti við háskólann í Umeá í Svíþjóð. Þar er líka Humlab vinnustofa þar sem hugvísindi og menning mæta nútíma samskiptatækni. Nemar þar hafa skemmtilegt hópblogg og það er gaman að sjá að þarna er verið að gera að hluta til það sama og ég er að gera með mínum nemendum hér á skerinu. En Svíarnir eru alveg dottnir í bloggið og efna til virðulegra ráðstefna um það, ég var að skoða Bloggforum Stockholm 2.0 vefinn.

Kannski það sé bara í sænsku þjóðarsálinni að taka hlutina svona alvarlega og kalla þetta núna bloggvísindi, hér á Íslandi fæ ég ekki nokkurn mann til að taka það alvarlega að blogg sé mikilvirkt verkfæri í námsferli - verkfæri fyrir nemendur til að kortleggja sína þekkingu og mynda síkvikt þekkingarnet með öðru fólk - og eitt af mörgum verkfærum sem gerbreyta hvernig við tengjum saman og vinnum með og vistum þekkingu margra þannig að heildin sé vitrari en einingarnar.

Það er kannski ekki hægt að taka blogg alvarlega á Íslandi, hér er nánast hvert mannsbarn 10 ára og eldra að blogga eða hefur einhvern tíma prófað að blogga og foreldrar búa til viðburðaskrá um líf barnsins strax í móðurkviði og skrá á barnaland.is. Fjölmiðlasettin tvö, visir.is og mbl.is hafa bæði spyrt sig núna við blogg þar sem venjulegt fólk skráir viðburði úr lífi sínu - að mér virðist til að fá með því meiri traffík á vefsvæðin sem innihalda greinar úr venjulegu pressunni.

En þjóðarsálin í Kína er líka frábrugðin íslensku þjóðarsálinni þegar kemur að bloggi. Mér virðist þeir í Kína hafa sama hugsunarhátt og þegar Ágústínus keisari lét þau boð ganga að það skyldi skrásetja alla heimsbyggðina - núna vilja nefnilega stjórnvöld í Kína koma einhverjum böndum á bloggin með því að skrásetja þau. Það virður að líta þetta útspil kínverskra stjórnvalda mjög alvarlegum augum, það eru mörg dæmi um það í sögunni að svona upplýsingaskráning er undanfari miklillar valdbeitingar þegar stjórnvöld eru að bæla niður mótþróa. Ég horfði nýlega á sjónvarpsþátt um Nasístatímann í Þýskalandi þar sem kom fram hve mikið vopn tölfræði og gagnasöfnun voru - og voru notuð eins og til að plægja akurinn fyrir voðaverk helfararinnar. Það var byrjað á að safna upplýsingum um fólk og skrá og merkja þá sem voru öðruvísi - fatlaðir eða óæskilegir á einhvern hátt. Tölfræði er ekki bara skrýtnar formúlur og normalkúrfa sem er eins og brjóst í laginu, tölfræði og úrvinnsla gagna getur líka verið beitt og harðneskjulegt vopn í höndum stjórnvalda.

Svíar og Kínverjar taka blogg alvarlega. En málið er þannig að Svíar eru á réttri leið, búnir að uppgötva bloggið og taka það alvarlega sem verkfæri til breytinga. Kínversk stjórnvöld eru ekki á neinni gír, þau eru bara að keyra í bakkgír afturbak á allt sem þau sjá og eru því miður alveg út úr korti - alla vega því korti sem við á Vesturlöndum teiknum upp af mannréttindum og lýðræði og einstaklingsframtaki.