Myndasyrpur og gæsalappir

Kristín Helga stendur við útstillingu í bókabúð í Barcelona, þar var stillt út bók eftir Halldór Laxness, bókin er Sjálfstætt fólk og er að ég held þarna til sölu á katalónsku. Sagt er að sumt í sögupersónunni Bjarti í Sumarhúsum sé sótt í langalangafa minn Björn Eysteinsson og munnmælasögur um hann. Ein sagan er sú að hann hafi verið fram á heiði með langömmu mína barnunga og þá slátrað hesti og látið barnið í haminn til að halda á því hita. Annars hefur bróðir minn núna unnið varnarsigur í gæsalapparmálinu hvernig sem það fer nú að lokum. Annars er gaman að pæla í hvort að höfundur textans sem Rauðsmýrarmaddaman mælir fram í Sjálfstæðu fólki hafi einhvern tíma fengið uppreisn æru. En eins og lífshlaup skáldsins á Þröm var yrkisefni og efniviður annarra skálda þá verður skáldið á Gljúfrasteini yrkisefni annarra höfunda, já meira segja með titlinum Höfundur Íslands. Sem er sniðugt vegna þess að höfundur Íslands er efniviður í verk sem endurspegla mest
upplausn höfundarins.
Hér er myndasyrpa af ferð okkar Kristínar Helgu til Barcelona og
myndasyrpa af ráðstefnunni sem ég var á þar.

Ég hef verið áður í Barcelona, við vorum þar í þrjár vikur fyrir nokkrum árum. Núna vakti götulífið athygli mína, sérstaklega fólkið sem lifir á götunni. Það eru margir betlarar í Barcelona, það eru flest konur um ung börn, sennilega eru það Sígaunar. Þar eru líka margir ræningjar, alla vega tveir af ráðstefnunni sem ég var á voru rændir um hábjartan daginn á fjölförnum götum.

Við vorum á gistiheimili í hliðargötu við Römbluna fyrstu nóttina og þegar við komum þar að þá brunuðu fimm lögreglubílar inn götuna og stöðvuðu fyrir framan gistiheimilið og nokkrir lögregluþjónar hlupu út úr hverjum bíl inn í dimma hliðargötu. Það er mikið skemmtanalíf í Barcelona og það er líka mikill munur á lífskjörum ríkra ferðamanna og þeirra koma til borgarinnar og lifa á götunni. Það eru mjög margir ólöglegir innflytjendur á Spáni.

Í miðborg Barcelona búa margir útlendingar, margir eru frá Suður-Ameríkulöndum en margir eru líka frá múslímaríkjum. Í innflytjendahverfinu Rafael er þessi róluvöllur þar sem bara múslímar virðast sækja. Allar konur og stúlkur þar báru höfuðslæðu og voru klæddar á mjög frábrugðinn hátt en aðrir í Barcelona. Fólkið á þessari mynd tók því mjög illa að ég tók mynd af því og gerði hróp að mér. ´

Í götunni andspænis Nýlistasafninu í Barcelona er mjög mikið af graffiti myndum sem augsýnilega eru gerðar af myndlistamönnum. Reyndar er allt hverfið þar í kring ríkulega graffítiskreytt. Sennilega er það vegna þess að til stendur að rífa húsveggina.

Ásta tók þátt í kvennahlaupinu í ár og er hér í bolnum sem hún fékk.
Áslaug frænka mín útskrifaðist úr Háskólanum úr Reykjavík úr viðskiptafræði og héldu foreldrar hennar útskriftarveislu. Áslaug er aðeins 21 árs og lauk prófi með afbragðseinkunnum. Hún lauk menntaskólanámi á tveimur árum. Hér er mynd af henni ásamt foreldrum og systkinum.


Mæðgur frá Noregi Eli og
Hanna hafa verið gestir okkar í nokkra daga. Móðirin býr í Þrándheimi og dóttirin hjá föður sínum í Bergen. Móðirin var hérna á ráðstefnu, hún bjó á Gamla Garði samtímis Magnúsi fyrir mörgum árum.