29.11.05

Bryggjutröllin og mannréttindi glæpamanna

Dómstóll götunnar er oft harðari en hinir opinberu dómsstólar. Það vita Bryggjutröllin og þau kveinka sér stundum undan ummælum múgsins á bloggsíðu sinni. Bryggjutröllin eru hópur ungra afbrotamanna sem núna afplánar á Kvíabryggju og þegar Bryggjutröllið Grétar sem sjálfur kallar sig góða strákinn í líkfundarmálinu kvartaði við almenning að hann þyrfti að sitja of lengi inni þá var fólk alls ekki sammála honum og lét það í ljós með frekar bitrum orðum. Bryggjutröllið Ívar sem er búinn að sitja inni í tæpt ár er ósáttur við þetta og mælir til almennings á blogginu 24 nóvember:

"....Þið viljið greinilega hafa okkur í hlekkjum, ekkert sjónvarp, enga vinnu, enga útivist, enga síma, helst eins lítið að borða og hægt er og eins lítil samskipti við umheiminn og mögulegt er. Þið viljið sem sagt búa til hreinræktaða geðsjúklinga sem verða bitrir úti kerfið allt og alla. Þannig er það ekki hér hjá okkur við höfum það nú bara bærilegt, en þið þarna úti sem hafið þessar skoðanir getið huggað ykkur við það að það er nú alltaf verið að reyna að herða alla dóma í dag. Svo þegar þið misstígið ykkur og brjótið af ykkur á lífsleiðinni þá skulum við vona að það verði búið að breyta fangelsum og dómum.Þá fáið að dúsa í einhverjum holum hlekkjaðir og hýddir daglega. Það verður fróðlegt að sjá hvort þið séuð eins hörð og þið gefið ykkur út fyrir að vera, falin bakvið lyklaborð og tölvu."

Reyndar virðist Bryggjutröllunum líka bara vel að fólk tali við þau og hafa skoðun á hvað þau eru að gera eða hvernig þeim líður eða eigi að líða og mér finnst reyndar frábært að lifa í samfélagi þar sem allir hafa rödd og geta tjáð sig. Ég hugsa ef heimspekingurinn Foucault hefði verið uppi núna að vesenast með Prison Information Group (GIP) þá hefði hann reynt að fá alla fanga til að blogga.

Ég held að staða mannréttindamála í hverju landi endurspeglist ekki síst í því hvernig komið er fram við þá sem eru útskúfaðastir, mest fyrirlitnir, mest hataðir og valdalausastir. Íslenskt samfélag fær þar ekki háa einkunn og núna hefur Netið tekið við sem gapastokkur götunnar. Ég var að skoða íslensku Wikipedia áðan, ætlaði að fara að kvarta yfir því að mitt framlag þar væri forsmáð en þá sá ég dæmi um alvarleg mannréttindabrot gagnvart sakfelldum manni. Það er þar vefsíða um Stefán H. Ófeigsson og það er rækilega sagt frá glæpaferli hans. Þar er líka sagt frá vísindaferli hans og það virðist hafa verið tengt í allar greinar hans hjá Vísindavefnum. Vísindavefurinn virðist hafa tekið niður allar þær greinar. Það hefur komið fram í blöðum að Stefáni hefur verið sagt upp störfum á sínum vinnustað. Þessi opinbera umfjöllun er brot á mannréttindum og mjög sennilega ólögleg, þetta er brot á lögum um persónuvernd og skráningu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Fangar og dæmdir glæpamenn hafa líka mannréttindi, fólk sem okkur líkar illa við hefur líka mannréttindi og fólk á ekki að vera hengt á almannafæri fyrir glæpi sína.
Höfundarréttur og fiskarnir í sjónum

Hver á orð og hugsanir? Hver á íslenskt mál? Hver ræður hver má segja hvað? Hver á fiskinn í sjónum? Það er til skrýtla um tvo umrenninga sitja að drykkju og fara að slá um sig í ölæði og annar segir "Ég er að hugsa um að kaupa allar silfur- og gullnámur í heiminum". Félagi hans verður þungur á brún og svarar "Ég er ekki viss um að ég vilji selja". Er eignarhald okkar á íslenskri menningu af sama toga og eignarhald þessara umrenninga? Eru orð eins og sameign þjóðarinnar og íslensk menning merkingarlaus gjálfuryrði? Eru sameiginlegar minningar okkar einkaeign einhverra og er tungumálið sem við tölum í einkaeign? Geta fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir fengið einkarétt á orðum og hugsunum? Eru minningar um fjölskyldur okkar sem birtust í minningargreinum dagblaðs núna eign eigenda blaðsins?

Hér er saga um tvo fiska sem synda í sama sjó sem útskýrir það farg sem hvílir núna á samskiptum og skapandi vinnu vegna hins gífurlega víðfeðma höfundarréttar sem nú er lögbundinn, höfundarréttar sem miðaðist við allt annars konar veruleika í miðlun en við búum við í dag. Þessi saga um fiskana skýrir hvað Creative Commons er , hvernig höfundarrétthafar geta leyft tiltekna og jafnvel ófyrirséða notkun á sínu efni t.d. leyft öðrum að nota efnið sem efnivið í nýtt hugverk.

Ég vona að sú stund renni einhvern tíma upp að á Íslandi og víðar í heiminum verði komin önnur lög og aðrar vinnureglur um höfundarrétt og hugverk og Íslendingar eigi í framtíðinni eftir að brosa yfir því hve fáránleg höfundarréttarlög voru árið 2005, já finnist þau álíka fáránleg og þrúgandi og við lítum núna á sum valdboð í Íslandssögunni, t.d. að fátækt fólk mátti ekki vera í litskrúðugum fötum og ekki sitja á fremsta bekk í kirkjunni, það voru forréttindi bara ætluð höfðingjunum. Við áttum okkur á því núna að svona boð og bönn fortíðarinnar voru einn þáttur í að afmarka línu milli þeirra sem voru útvaldir og þeirra sem voru það ekki og líka einn liður í að halda þeim undirokuðu undirokuðum áfram. En í dag er ástandið þannig að við erum sjálf á vaktinni yfir hver notar orð og hugsanir og með hvaða hætti og við erum gegnsýrð af þeirri hugsun að við þurfum að gæta hagsmuna þeirra sem eiga hugverkaréttindi.

Það þó örlar á breytingum í gegnum hreyfingar sem vinna að útbreiðslu Open source og Open content og Creative Commons. Alfræðiritið Wikipedia er oft tekið sem dæmi um árangursríkt samstarf margra - um mátt fjöldans. Það er til íslensk útgáfa af Wikipedia en þar er ekki ennþá komið mikið efni. Ég ákvað að taka þátt í að bæta efni við íslensku Wikipedia og setti inn nokkra pistla þar í gær, ég var einnig að læra hvernig ætti að setja inn greinar. Er skemmst frá því að segja að þeir voru strax nokkrum mínútum seinna þurrkaðir út og í staðinn kom eftirfarandi orðsending á skjáinn:
"Athugið!Innihald greinar þessarar hefur verið fjarlægt vegna gruns um höfundarréttarbrot og hún hefur verið flokkuð sem mögulegt höfundarréttarbrot á Wikipedia."

Ég var nú ekki svo ósátt í fyrsta skiptið, ég var ánægð að sjá að það væri svona nákvæmt eftirlit með Wikipedia, ég hafði vissulega afritað og límt nokkrar setningar af vef nat.is , ég hafði ákveðið að skrifa pistil um Grábrókarhraun og prófa að setja inn ljósmyndir sem ég hafði sjálf tekið af hrauninu og hlaðið inn á Wikipedia Commons, ég var með allan hugann við að finna út úr hvernig ég afsalaði mér höfundarrétti af myndunum á Wikipedia Commons og að prófa að setja upp Wikipedia vefsíður með myndum. Ég umorðaði og endursamdi textann um Grábrókarhraun og fletti upp öllum tiltækum heimildum og skrifaði inn nýjan pistill með myndunum mínum tveimur. Nýi pistillinn var samstundis þurrkaður út líka og aftur kom á skjáinn orðsending um höfundarréttarbrot.

Svona eru pistlarnir:
Ég setti líka víða tengitexta inn í pistlana og tvær ljósmyndir frá mér.

Pistillinn sem ég setti inn um Grábrók:
"Grábrók er um 170 metra hár gjallgígur norðaustan við Hreðavatn. Grábrók er stærst þriggja gígja á stuttri gossprungu. Úr þessum gígjum Stóru-Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðabrók) og Litlu-Grábrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum.
Vinsælt er að ganga upp á Grábrók, það er auðveld gönguleið og þangað liggur vandaður göngustígur."


Pistillinn sem er á nat.is
"Grábrók (173 m) er fagurmyndaður gíghóll rétt norðaustan við Hreðavatn. Úr Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðbrók) og Litlubrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum. Hraunið stíflaði Norðurárdal og þá myndaðist stöðuvatn þar fyrir ofan. Vatnið eyddist síðar og skildi eftir sig rennisléttan botn þar sem dalbotninn er nú. Göngustígar eru upp á Grábrók og bílastæði undir fellinu enda er útsýni þaðan frábært um Norðurárdal. Hreðavatnsskáli stendir undir fellinu sunnanverðu og Bifröst er mitt á milli þess og Hreðavatns."

Pistillinn sem ég setti inn um Grábrókarhraun
"Grábrókarhraun er úfið apalhraun í Norðurárdal. Það er um nokkur þúsund ára gamalt og er vaxið mosa, lyngi og birkikjarri. Grábrók er stærst þriggja gígja á gossprungu. Þessir gígir eru Stóra-Grábók, Litla-Grábrók og Grábrókarfell sem stundum er nefnt Rauðabrók. Litla-Grábrók er að mestu horfin vegna jarðrasks. Gígirnir eru friðlýstir sem náttúruvætti. Grábrókarhraun er á náttúruminjaskrá."

Pistill um Grábrókarhraun á nat.is:
"Grábrókarhraun er meðal úfnustu apalhrauna hérlendis. Það rann frá Grábrókargígum í Norðurárdal fyrir 3600-4000 árum og er vaxið mosa, lyngi og trjágróðri. Grábrók er stærst gíganna þriggja á gossprungu með stefnu norðvestur til suðausturs.
Gígarnir voru friðlýstir sem náttúruvætti 1962 eftir að búið var að nema úr þeim talsvert gjall til ofaníburðar. Hraunið sjálft er á náttúruminjaskrá. Ganga upp á Grábrók er auðveld, þar sem búið er að koma fyrir tröppum upp erfiðustu hjallana, og fólk er beðið um að halda sig einungis á þeim stíg. Útsýni er fagurt af Grábrók í góðu veðri og stutt þaðan í aðrar náttúruperlur, s.s. Hreðavatn, Paradísarlaut og fossinn Glanna í Norðurá.
Aðrar skemmtilegar gönguleiðir, bæði stuttar og langar liggja um svæðið meðfram Norðurá og alla leið að Múlakoti og Jafnaskarði."


Ætlun mín var bara að skrifa einn lítinn pistil um Grábrókarhraun, aðallega til að koma þessum tveimur ljósmyndum mínum af hrauninu inn á íslensku wikipedia. Ég sá svo að það var eðlilegra að vísa í sérstaka síðu um Grábrók, það líka passaði við þá uppsetningu sem mér sýnist vera á vefnum og svo hnaut ég um orðið náttúruvætti, hugsaði mér að það myndu nú krakkar í grunnskóla ekki skilja svo það þarnaðist útskýringar. Þannig að ég setti inn pistill um Náttúruvætti og varði heilmiklum tíma í að finna bestu útskýringuna og nákvæmustu á því, ég fann góðar upplýsingar á vef umhverfisstofnunar. Ég setti inn nánast óbreytta skilgreiningu á náttúruvætti, skilgreiningu sem ég fann á vef opinberrar stofnunar sem sinnir umhverfismálum. Eina sem ég gerði er að ég breytti smávægilegu til að textinn yrði læsilegri, t.d. felldi burt að auglýsingar um náttúruvætti væru birtar í Stjórnartíðindum. Ég setti síðan inn listann yfir þau 34 náttúruvætti sem nú eru. Svo hafði ég tengill í þá undirvefsíðu Umhverfisstofnunar þar sem meiri upplýsingar m.a. kort og lýsingar um náttúruvætti var að finna. Þessi wikipedia síða um Náttúruvætti var líka umsvifalaust fjarlægð og sama orðsending kom:
"Athugið!Innihald greinar þessarar hefur verið fjarlægt vegna gruns um höfundarréttarbrot og hún hefur verið flokkuð sem mögulegt höfundarréttarbrot á Wikipedia." Einnig sá ég að meðal stjórnenda á íslensku wikipedia hafði farið fram umræða um hvort birting á listanum yfir náttúruvætti væri höfundarréttarbrot.
Það verður að segjast eins og er, ég er dáldið fúl (það er mikið understatement:-) yfir þessu. Ég hafði varið drjúgum tíma í að finna og setja fram opinberar upplýsingar á eins nákvæman hátt og mér var unnt, ég vísaði í heimild og setti inn lista sem beinlínis er tekinn saman til að upplýsa almenning. Ég sé að síðar hefur komið aftur upp síða um náttúruvætti og þar er þar hefur listinn yfir náttúruvætti verið settur inn aftur og svo á náttúruvætti umorðuð á að mér virðist ónákvæmari hátt.

Pistillinn sem ég setti inn um náttúruvætti:
"Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og haun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask. Á landinu hafa 34 svæði verið friðlýst sem náttúruvætti. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir náttúruvætti."

Pistillinn sem hefur verið settur inn í staðinn er svona:
"Náttúruvætti er staður eða svæði sem Náttúrustofnun hefur skilgreint sem sérstakt og ber að vernda fyrir jarðraski. Þetta geta verið hellar, fossar, hraun, drangar, eldstöðvar, eða hverir, en einnig fundarstaðir steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvættum má ekki spilla né skemma og eru því friðlýst."

Í nýju útgáfunni er talað um Náttúrustofnun. Ég finn ekkert um Náttúrustofnun undir umhverfisráðuneyti. Hvaða stofnun er það? Ég finn ekki annað en náttúruvætti heyri undir Umhverfisstofnun.

Það er vissulega mikilvægt að gæta að höfundarrétti og hlíta landslögum, það er mikilvægt að fara að lögum þó að manni finnist lögin óréttlæt og fáránleg. En það sem mér finnst sorglegast er að hugsunin um höfundarrétt er svo ströng hjá okkur að sá hópur sem núna stýrir íslensku Wikipedia - sá hópur sem er sennilega í framlínu þeirra fylkinga sem vilja hafa þekkingu og upplýsingar almenningseign- skuli svo mikið á vaktinni yfir broti á höfundarrétti og í varðgæslu fyrir hagsmuni þeirra sem vilja að þekkingin flæði til okkar eftir leiðum þar sem höfundarrétthafar geta ráðið rennslinu - skuli telja að þessi dæmi sem ég tiltek hérna séu talið brot á höfundarrétti.

25.11.05

Kauptu ekkert dagurinn

bnd-clipart-salvor1bnd-clipart-salvor2
Enn einn hátíðisdagur nethakkara runninn upp. Í dag er kauptu-ekkert-dagurinn og í tilefni hátíðarhaldanna skreyti ég bloggið mitt með alls kyns djásnum frá adbusters.org
Þar er skipulagningarmiðstöð hátíðarhaldanna, það er hægt að fá þar alls konar dót til að prenta út. En af því ég er svo löt þessa dagana þá nenni ég ekkert að vera með skilti á almannafæri heldur bara set glingur hér á vefinn. Ég bjó líka til svona íslenskt kauptu-ekkert lógó, náttúrulega með bleiku sem er tískulitur aktívista hér á Íslandi. Svo bjó ég til annað gult. Þessi lógó mín er öllum heimilt til notkunar, hér er stærri png mynd af gula
og líka stærri af bleika Reyndar er Kaupum-ekkert dagurinn haldinn á mismunandi dögum eftir löndum, í Ameríku er hann á föstudagi eftir Þakkarhátíðina en í Evrópu og Japan á laugardeginum.
Hér eru litlar útgáfur:
bnd-clipart-salvor1bnd-clipart-salvor2 bnd-clipart-salvor4 bnd-clipart-salvor3

BND_banner_consumer_05

3.11.05

Úti og inni í Vancouver

Það rignir og ég ákvað að vera bara inni í dag. Það er líka alveg ágætt hérna, ég lifi lúxuslífi, er í hótelíbúð með svölum og útsýni yfir borgina og iðandi mannlífið í Davie village, ágæta Internettengingu og öðru hverju fylgist ég með sjónvarpinu, horfi á fréttaþætti um Vancouver. Núna eru borgarstjórnarkosningar hérna og það er mikið lagt upp úr að upplýsa almenning um borgarmálefni, í hvað skattpeningarnir fara og um hvað er kosið. Það er mikill áróður fyrir að fólk skrái sig og kjósi. Vancouver er æðisleg borg, ég sá það strax úr flugvélinni, landslagið er stórbrotið, þetta er vatnaborg umkring fjöllum og hafi. Flestir hafa aðgang að útsýni og náttúru og veðurfar er milt og veður er stillt, það verður sjaldan kaldara en núna í nóvember en þá er hitinn um 9 gráður. Fólkið hérna er líka einstaklega vinsamlegt, margir gefa sig að manni á förnum vegi, brosa og kasta á mann kveðju og fólk er hjálpsamt og umhyggjusamt og opinskátt. Jafnvel heimilislausa fólkið sem betlar á götunni segir jafnan eitthvað fallegt við mann "Have a nice day" þó maður hafi bara hrist höfuðið og ekki gefið því neitt. Það eru kaffihús á hverju götuhorni. Það er áberandi blandað mannlíf hérna, mér sýnist sums staðar meirihlutinn vera fólk af asíuuppruna enda er borgin á Kyrrahafsströnd Ameríku. Margir munu hafa flust til Vancouver frá Hong Kong þegar kínversk stjórnvöld tóku yfir borgina. Það eru mjög fáir blökkumenn hérna. Vancouver þykir ein eftirsóttasta borgin í heiminum til að búa í og það er auðvelt að sjá hvers vegna. Jafnvel þó að flestir búi í skýjakjúfum og háhýsum þá er skipulag borgarinnar þannig að háhýsin eru falleg og mikið lagt upp úr að þau séu dreifð og allir fái notið útsýnisins. Flestir hérna virðast vera í góðum efnum en það virðist ekki mikill munur á fólki eftir efnahag, kannski af því að allir klæðast frjálslega og sportlega og flestir eru fótgangandi.

Það eru mjög margir heimilislausir í Vancouver, sennilega af því að borgin dregur til sín þá sem eru í leit að betri lífskjörum og sums staðar er dapurlegt að sjá heimilislausa fólkið. Ég gekk um East Hastingsstræti sem er ein versta gata borgarinnar og kom þar að félagsmiðstöð, ég fór þar inn. Það voru mörg hundruð manns þar, næstum eingöngu karlmenn og flestir á aldrinum tuttugu til fjörutíu ára. Þetta var skjól fyrir heimilislaust fólk, bókasafn, staður þar sem hægt var að lesa blöð og spila og tefla og fá mat fyrir vægt verð eða ókeypis.
Margir líta ekki út fyrir að vera eiturlyfjaneytendur og margir virðast óhamingjusamir. Það eru næstum engar konur sem betla og ég hef ekki ennþá séð neinn af asíuuppruna sem betlar. Ég velti fyrir mér hvaða harmleikur er í lífi þeirra sem ég sé betla á götunni og sem ég sé hreiðra um sig á kvöldin á pappa, hvort ástandið endurspegli að karlmenn af kákasusuppruna hafi veikara félagsnet eða hvort þetta endurspegli að í borginni er ekki þörf lengur fyrir ófaglærða karlmenn, þetta er borg þar sem störfin eru sérfræðingastörf og þjónustustörf. Eða hvort þetta séu karlmenn sem hafa farið einir frá fjölskyldum sínum úr einhverjum fátækum plássum. Það eru örugglega einhverjir af götufólkinu veikir á geði eða á einhvern hátt ekki færir um að framfleyta sér og búa sér heimili sjálfir. En ég dáist að Hjálpræðishernum og öðrum sem hlú að fólki við svona aðstæður, ég held að sjómannaheimilin hafi einmitt verið sett upp til að mæta þessari miklu óhamingju vegalausra og tengslalausra manna á erlendri grund.

Vancouver er hrífandi borg en það er stundum betra að vera inni en úti þar.

1.11.05

Hrekkjavaka í Vancouver

Rauðgullin laufblöð, appelsínugul grasker, haust, líf sem hefur fölnað og visnað, dauði, eldur og eyðilegging, blóð, myrkur og óvættir. Þannig er halloween hátíðin, hausthátíð þar sem fólk klæðist dulbúningum, setur upp grímur og blæs til orustu gegn myrkrinu og dauðanum, sker út tákn á grasker, holar þau að innan og lýsa þau upp innanfrá og setur í glugga eða dyr við heimkynni sín, eins og logandi galdrastafi til að stugga burt illum öndum.

Davies stræti þar sem ég bý var lokað um morguninn, það var fjölmennt kvikmyndagengi að taka upp mynd við krána Oasis. Vancouver er sviðsmynd fyrir margar kvikmyndir. Ég tók himnalestina upp á Barnaby fjallið. Þar er Simon Fraser háskólinn á fjallstoppnum, arkitektinn Arthur Eirickson teiknaði háskólabyggingarnar sem eins konar Akropolis:

"The mountain top location inspired Erickson to reject multi-story buildings, which he thought would look out of place. Instead, Erickson turned for inspiration to the acropolis in Athens and the hill towns of Italy, where the mountain was incorporated into the design itself."

Á háskólatorginu höfðu nemendur í ensku komið upp halloween miðstöð og buðu gestum og gangandi upp á graskerskökur og graskersskreytingar. Ég prófaði að skera grasker eins og sjá má að þessari mynd, það var gaman.

Halloween on Burnaby mountain

Reyndar sendi Elísabet mér líka flassútgáfu af svona graskersskreytingum, það er nú eiginlega auðveldara og þægilegra, sérstaklega fyrir netóðar manneskjur eins og mig.


Um kvöldið fór ég á skemmtistað á Davies stræti, þar var stemming eins og í Fassbinder mynd, margt fólk í halloween ófreskjubúningum, húsnæðið skreytt með sundurtætt líkum og blóðslettum og kóngulóarvefjum og hauskúpum. Það voru líka margir í búningum sem ekki eru endilega tengd halloween, sjóliðar, kúrekar, leðurhommar, dragdrottningar. Stundum var erfitt að sjá hver var að leika og hver var grímuklæddur eða hvort það er eitthvað á bak við grímuna. Ég tók vídeóklipp af því þegar nokkrar dragdrottningar tróðu upp með dansi og söng. Þetta var skemmtileg sjóv, ég held að þetta hafi verið þannig að gestir á staðnum gátu bara troðið upp með sitt atriði, svona listrænn eftirhermudans og eftirhermusöngur. Ég er að spá í svona dragkúltúr og reyna að skilja út hvað hann gengur. Karlmenn í ýktu kvengervi að dansa eftirlíkingu af kynæsandi dansi fyrir áhorfendahóp sem er næstum eingöngu samkynhneigðir karlmenn. Karlmenn að míma kvensöngvara og leika súperkvenmenn. Kannski er þetta það sama og leiklist gengur út á ... að leika það sem maður ekki er... eða almennt list... að búa til draumaheim... að breyta veruleikanum.. að endurskapa heiminn... að endurskapa sjálfan sig.


..