
Það er mjög áhugavert að fylgjast með þessu máli, sérstaklega að sjá hvað áhrifamáttur mynda er mikill og hvaða boð og bönn gilda um myndir. Stundum eru þessi boð og bönn fólki ekki sýnileg nema í svona tilvikum eins og þegar tveimur menningarheimum lýstur saman en og hérna.
Hér er myndasafn með ýmsum myndum af Múhamed spámanni gegnum tíðina. Á mörgum virðist andlit spámannsins ekki sjást. Þetta er áhugaverð myndhefð. En ég vona að það takist ekki að setja meiri hömlur en verið hefur á okkar vestrænu myndhefð undir nafni trúar.
Konan á krossinum var í Gaypride á Íslandi 2003 eins og sjá má á þessari mynd:

Þetta atriði sló mig í göngunni, mér fannst þarna vegið að tákni sem er mjög heilagt í augum margra kristinna. Það kom líka á daginn að fleirum fannst það og einn maður skrifaði lesendabréf í Morgunblaðið og Samtökin 78 ætluðu að kæra (hér er það sem ég póstaði á málefnaþræðinum um þetta) en málið snerist um eftirfarandi:
"Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna ´78, kærir Einar Ingva Magnússon til lögreglu á grundvelli 233a gr. almennra hegningarlaga þar sem m.a. er kveðið á um fjársektir og fangelsi fyrir að hafa með háði, rógi, smánun og ógnun ráðist opinberlega á mann eða hóp manna vegna kynhneigðar þeirra. Fer kærandi fram á refsikröfu. Grein Einars Ingva nefnist Svívirða og birtist í Morgunblaðinu 12. september 2003."
Í þessu íslenska dæmi þá varð sá sökudólgur sem misbauð að trúartákn sem honum var heilagt væri notað á þennan hátt. Hann skrifaði lesendabréf sem opinberaði fordóma hans gagnvart samkynhneigðum og það varð það eina sem fólk á þessum tíma sá úr þeirri umræðu. Það gleymdist alveg að manninum var misboðið og hann mátti alveg tjá sig um það. Tjáningarfrelsi er líka fyrir ruddalegt fólk sem fylgir ekki því sem okkur finnst vera rétta skoðunin og rétta framsetningin. Ef ég man rétt þá baðst Morgunblaðið afsökunar á þessu lesendabréfi.
Það er áhugavert að danski forsætisráðherrann tjáir sig um teikningarnar. Skyldi hann almennt hafa skoðanir á teikningum og myndum í dönskum dagblöðum? En dönsk stjórnvöld taka þetta mál alvarlega og það virðist full ástæða til, sjá þessa grein Danes face growing Muslim storm bbc 31. jan Ég sá að Íslendingurinn Hjörtur Guðmundsson skrifaði grein á Brussel journal um teikningamálið.
Danska utanríkisráðuneytið varar við hættum sem Dönum á ferðalagi stafa af fuglaflensu og öðrum pestum. Það er líka varað við hættunni á að verða pep í teikningastríði:
Dagbladet Jyllandspostens tegninger af profeten Muhammed har vakt stærke følelser blandt muslimer i en række lande. Udenrigsministeriet råder på denne baggrund danskere, der opholder sig i et muslimsk land, til at udvise ekstra stor agtpågivenhed og i øvrigt følge udviklingen i disse lande nøje via nyhedsmedierne og Udenrigsministeriets hjemmeside.
Konuna á krossinum og teikningarnar af Múhammeð verður að skoða í hvaða samhengi þær birtust í og hver var tilgangurinn með birtingunni. Það eitt að ætla sér að ögra er ekki vont í sjálfu sér og það var örugglega tilgangurinn í báðum þessum tilvikum. Þegar ég horfði á konuna á krossinum í fyrsta skipti þá brá mér, mér fannst þetta afar óviðeigandi í sýningu þar sem var svona karnivalstemming þar sem gengur allt út á að vera í búningum sem vekja sem mesta athygli. En mér finnst reyndar líka hægt að túlka myndina öðruvísi og ég hef kosið að gera það og mér finnst þessi mynd vera tákn fyrir kvennakúgun, svona symbólískt að sýna hver það er sem er kvalinn og píndur. Á sama hátt eru það mín fyrstu viðbrögð við Múhammed teikningunum að skilja ekki hvað það er sem stuðar og verja tjáningarfrelsið. Það kann að vera að einhvern tíma öðlist ég dýpri eða öðru vísi skilning á múslímatrú svo ég skynji hvað það er í teikningunum sem stuðar svona ofboðslega.