31.1.06

Konan á krossinum

Wikipedia sýnir enn og aftur hvað það kerfi er gott fyrir bakgrunnsupplýsingar fyrir samtímaatburði. Hér er síðan um Jyllands-Posten Muhammad caricatures

Það er mjög áhugavert að fylgjast með þessu máli, sérstaklega að sjá hvað áhrifamáttur mynda er mikill og hvaða boð og bönn gilda um myndir. Stundum eru þessi boð og bönn fólki ekki sýnileg nema í svona tilvikum eins og þegar tveimur menningarheimum lýstur saman en og hérna.

Hér er myndasafn með ýmsum myndum af Múhamed spámanni gegnum tíðina. Á mörgum virðist andlit spámannsins ekki sjást. Þetta er áhugaverð myndhefð. En ég vona að það takist ekki að setja meiri hömlur en verið hefur á okkar vestrænu myndhefð undir nafni trúar.

Konan á krossinum var í Gaypride á Íslandi 2003 eins og sjá má á þessari mynd:Þetta atriði sló mig í göngunni, mér fannst þarna vegið að tákni sem er mjög heilagt í augum margra kristinna. Það kom líka á daginn að fleirum fannst það og einn maður skrifaði lesendabréf í Morgunblaðið og Samtökin 78 ætluðu að kæra (hér er það sem ég póstaði á málefnaþræðinum um þetta) en málið snerist um eftirfarandi:

"Þorvaldur Kristinsson, formaður Samtakanna ´78, kærir Einar Ingva Magnússon til lögreglu á grundvelli 233a gr. almennra hegningarlaga þar sem m.a. er kveðið á um fjársektir og fangelsi fyrir að hafa með háði, rógi, smánun og ógnun ráðist opinberlega á mann eða hóp manna vegna kynhneigðar þeirra. Fer kærandi fram á refsikröfu. Grein Einars Ingva nefnist Svívirða og birtist í Morgunblaðinu 12. september 2003."

Í þessu íslenska dæmi þá varð sá sökudólgur sem misbauð að trúartákn sem honum var heilagt væri notað á þennan hátt. Hann skrifaði lesendabréf sem opinberaði fordóma hans gagnvart samkynhneigðum og það varð það eina sem fólk á þessum tíma sá úr þeirri umræðu. Það gleymdist alveg að manninum var misboðið og hann mátti alveg tjá sig um það. Tjáningarfrelsi er líka fyrir ruddalegt fólk sem fylgir ekki því sem okkur finnst vera rétta skoðunin og rétta framsetningin. Ef ég man rétt þá baðst Morgunblaðið afsökunar á þessu lesendabréfi.

Það er áhugavert að danski forsætisráðherrann tjáir sig um teikningarnar. Skyldi hann almennt hafa skoðanir á teikningum og myndum í dönskum dagblöðum? En dönsk stjórnvöld taka þetta mál alvarlega og það virðist full ástæða til, sjá þessa grein Danes face growing Muslim storm bbc 31. jan Ég sá að Íslendingurinn Hjörtur Guðmundsson skrifaði grein á Brussel journal um teikningamálið.

Danska utanríkisráðuneytið varar við hættum sem Dönum á ferðalagi stafa af fuglaflensu og öðrum pestum. Það er líka varað við hættunni á að verða pep í teikningastríði:

Dagbladet Jyllandspostens tegninger af profeten Muhammed har vakt stærke følelser blandt muslimer i en række lande. Udenrigsministeriet råder på denne baggrund danskere, der opholder sig i et muslimsk land, til at udvise ekstra stor agtpågivenhed og i øvrigt følge udviklingen i disse lande nøje via nyhedsmedierne og Udenrigsministeriets hjemmeside.

Konuna á krossinum og teikningarnar af Múhammeð verður að skoða í hvaða samhengi þær birtust í og hver var tilgangurinn með birtingunni. Það eitt að ætla sér að ögra er ekki vont í sjálfu sér og það var örugglega tilgangurinn í báðum þessum tilvikum. Þegar ég horfði á konuna á krossinum í fyrsta skipti þá brá mér, mér fannst þetta afar óviðeigandi í sýningu þar sem var svona karnivalstemming þar sem gengur allt út á að vera í búningum sem vekja sem mesta athygli. En mér finnst reyndar líka hægt að túlka myndina öðruvísi og ég hef kosið að gera það og mér finnst þessi mynd vera tákn fyrir kvennakúgun, svona symbólískt að sýna hver það er sem er kvalinn og píndur. Á sama hátt eru það mín fyrstu viðbrögð við Múhammed teikningunum að skilja ekki hvað það er sem stuðar og verja tjáningarfrelsið. Það kann að vera að einhvern tíma öðlist ég dýpri eða öðru vísi skilning á múslímatrú svo ég skynji hvað það er í teikningunum sem stuðar svona ofboðslega.
Teiknimyndir af Múhameð spámanni

Nú er Jótlandspósturinn búinn að biðjast afsökunar á að hafa dirfst að birta nokkrar teiknimyndir sem gera grín að Múhameð spámanni. Ég sé nú ekki að þessar myndir séu neitt verri en alls konar grín sem við erum vön að gera að Guði og Jesú.

Mig minnir að í Mad blöðunum sem ég las í gamla daga hafi það varið venjan að gera gys að alls konar kristilegu efni, svona eins og þegar Jesú gekk á vatninu. Sviðsetning á því þegar fólk knýr dyra í himnaríki og eitthvað óvænt mætir því er uppspretta margra brandara og kvæða og leikþátta t.d. Gullna hliðsins. En ég er kannski orðin svona ónæm á hverju má gera grín að, ég hef svo lengi tilheyrt þeim 50% mannkynsins sem má hæðast að og niðurlægja á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum og á skemmtunum og í samkvæmum hvar og hvenær sem er. Það er oft þannig að frásagnir um kynferðisofbeldi eru dulbúnar sem brandarar.

En múslimar virðast víða taka teiknimyndunum af Múhameð illa, sjá þessa grein Protests Over Muhammad Cartoon Grow og sjálfur Clinton hefur lýst frati á þær en það er núna voða stemming fyrir öllu dönsku á Netinu og Køb dansk-kampagne" i USA.

En hér eru dönsku myndirnar sem lætin voru út af, fólk getur velt fyrir sér hvort það er sammála Clinton. Það má líka nota tækifærið að setja sig inn í menningu múslíma, það er allt annað viðhorf til mynda af fólki þar og sérstaklega mynda af trúarlegu efni. Í bóksalanum í Kabúl þá segir frá því hvernig allar myndir í bókum voru bannaðar á Talíbanatímabilinu í Afganistan, ólæsir Talibanahermenn ruddust inn í bókabúðir og fóru í gegnum bækurnar og þær sem fundust með myndum í voru brenndar. Bóksalinn reyndar límdi bara miða yfir myndirnar og bókin hefst einmitt á því þegar bóksalinn er að losa miðana af.

20.1.06

Hnattrænir straumar í lífi mínu

Stundum er ég ekki viss um að ég búi á Íslandi. Alla vega ekki sama Íslandi og ég ólst upp í . Ef til vill er ég flutt, flutt inn í netheima og inn í hugsun og minningar annarra. Eða hafa útlönd flutt sig til Íslands? Er það blekking að jörðin sé hnöttur?

Um kvöldmatarleytið í fyrradag var ég á fundi. Fundurinn var úti í Kanada og allir á fundinum voru staddir það nema ég´sem tengdist frá Íslandi og svo einn annar sem tengdist frá Japan. Fundurinn fór fram í netheimum, í kerfi sem heitir Illuminate og var á vegum deildar í University of British Columbia í Vancouver og það var Sandy sem ég kynntist í Vancouver sem stýrði fundinum.
Svona leit fundarstaðurinn út:

illuminate-kanada-fundur-18jan06
Hér er stærri mynd af umhverfinu.
Á meðal ég var á Kanada netfundinum hringdi Andrea og svo talaði ég við hana á Skype. Hún fór til Indlands í gær. Í gær fór ég á fyrirlestur hjá RIkk um femínisma í Afríku, það var Magnfríður Júlíusdóttir að tala um staðbundna sérstöðu og hnattræna strauma í Zimbabwe. Eftir fundinn fór ég í líkamsrækt og sund. Á meðan ég synti hugleiddi ég fyrirlesturinn um femínisma í Afríku og hvað Andrea myndi sjá í Indlandi og hlustaði á kliðinn og hjalið og buslið í litlum börnum sem voru með foreldrum sínum í ungbarnasundi í grunnu lauginni.

Svo fór ég í heita pottinn og foreldrarnir komu líka þangað með börnin sín. Þá komst ég að litlu börnin og foreldrar þeirra voru hópur númer níu. Það eru komnir tólf hópar. Foreldrarnir höfðu farið til Kína og sótt börnin sín, allt stúlkubörn sem fædd eru í Kína. Núna eru þær Íslendingar og tala íslensku. Reyndar ekki alveg farnar að tala því þær voru allar svo litlar en þær virðast skilja flest sem við þær er sagt.

18.1.06

Njósnavélin

Hér er myndræma af Sigur Rós að spila lagið Njósnavélin. ég er að prófa hvernig gengur að líma þetta inn í blogger. Ég setti það sem verkefni fyrir nemendur mína að líma inn vídeó í blogg og það virkar ekki hjá þeim. Ekki heldur á einu bloggi sem ég bjó sjálf til. Þetta er mjög undarlegt því þetta hefur virkað alveg á ágætlega hingað til að spila Youtube vídeó í blogger. Vonandi hefur Google sem núna á blogger ekki lært að beita sömu brögðum og Myspace, það er reyndar hart barist um vídeo markaðinn í heiminum og Youtube er eitt flottasta videóklipp kerfið og þykir hafa betur í baráttunni við Google.

Þetta er skrýtið. Þetta virkar ágætlega hjá mér og ég var að skoða erlend blogspot blogg áðan sem eru með youtube videoklipp. Þannig að þetta virkar á sumum blogspot bloggum en virðist vera ritskoðað á öðrum og ekki leyft á öðrum.

14.1.06

Hvað er múgsefjun?

Til að leita svara við því tók ég púlsinn á málverjaumræðunni og skrifaði þar fjóra pistla. Þar hefur mýgrautur þráða verið stofnaður um DV og meint óhæfuverk þess blaðs og eru fyrrum ritstjórar þess uppnefndir Jónas Blóðöxi og Mikael Böðull. En hér eru dæmi um umræðuna á málverjavefnum. Það eitt að voga sér að ljóstra því upp að maður lesi DV kallar á eftirfarandi ádrepu frá málverja:

"Það sem DV hefur verið að gera er að ala á múgsefjun og slá sig til riddara með þessari umfjöllunum sínum. Það eru einmitt þínir líkir sem eru þeirra markhópur í áskriftar- eða lausasölu, fólk sem nærist á kjaftasögum, veit upp á sig skömmina og felur sig bak við "það er verið að opna umræðuna" kjaftæði. Þú og þínir líkir vilja samt ekki sleppa hendinni af daglegri kjaftasögu þó svo allir sem vit hafa á þessum málum, Stígamót, fórnarlömbin, lögfræðingar sem gerþekkja svona mál, ítreki það aftur og aftur að svona kjaftasögu-fréttir eru ekki neinum til góðs, ekki til annars en að fullnægja lægstu hvötum þeirra sem vilja safaríka kjaftasögu."

Svo eru hér nokkur dæmi um DV orðræðuna á málefnavefnum. Orðræðu sem á að vera fordæming á illu umtali:

"En Jónas er greinilega skítleg sál. Minnti mig reyndar ótrúlega mikið á innviði ákveðins Málverja, verð nú bara að segja það! Maðurinn fór eins hárfína línu og hægt var í að kveða loka dóm yfir Gísla heitnum. Hann ýjaði hvað eftir annað að því að Gísli væri sekur ....
Skoðun mín á Jónasi: Jónas er að hreinn rugludallur með hringlandi huga og slappa sál!
Jónas er afffall mannkynsins og það er ömurlegt til þess að hugsa að svona hreinræktaður drullusokkur sé laus. .... Manninum er ekkert heilagt, það kæmi mér í sjálfu sér ekki á óvart að einn góðan veðurdag verði hann fyrir "slysi". Jónas Kristjánsson er bráðgreindur maður en fullkomlega siðblindur (geðvilltur). Það blasir við af skrifum hans um áratugaskeið. Sama má segja um kunnan Austurríkismann sem gat sér orð á fyrri helmingi liðinnar aldar: Adolf Hitler var bráðgreindur maður en fullkomlega siðblindur (geðvilltur). .... Jónas er siðlaus, samviskulaus og með stórmennskubrjálæði á háu stigi..... Khomeni þekkir aðeins til Mikka. Hann kemur mér fyrir sjónir sem er kallað á fræðimáli; Sociopath. Þetta er þýtt á íslensku sem andfélagslegur eða e-ð í þeim dúr. Ef e-r hefur lesið bókina hans um heimsins heimskasta pabba, má skyggnast inn í sjúlklegt sálarástand Mikaels.
Það að hann skuli ritstýra blaði í samfélagi sem hann hatar er eiginlega brandari. Þetta er svipað og þegar sadistar ráðast til vinnu sem fangaverðir eða löggur. það að Mikael hafi snefil af samvisku er því miður vitleysa. hann er sjúkur á sálinni .... Ég ætla ekki að draga orð mín til baka: Jónas Blóðöxi og Mikael Böðull ráku þennan mann út í dauðann. Þeir bókstaflega sendu honum snöruna. Svo nú má Auður grenja samúðartárum vegna Jónasar og Mikka.Þetta eru mannorðsmorðingjar. .... Illgirni blaðsins virðist nánast kerfisbundin; regla en ekki undantekning. Lífið eins og það blasir við í DV er eins og andstyggileg hringekja.
Stefnu ritstjórnarinnar má helst kenna við níhilisma, gapandi tómhyggju, sem væri sök sér að rekast á í skáldsögu eftir ungan höfund eða í dálkum fullorðins pistlahöfundar en dugir ekki sem grundvöllur að blaðaútgáfu.
Sjálfum hefur mér stundum liðið eins og ritstjórn DV séu ofbeldismenn. Það sé hættulegt að eiga samskipti við þá, yrða á þá, láta þá ná augnsambandi. Þá rjúki þeir upp með ofbeldi. (þessi seinasta tilvitnun var í Egil Helgason, annað eru tilvitnanir í nafnleysingja"


Svo hefur þjóðartrúbatorinn Bubbi sett eitt af sínum ljóðum í endurvinnsluna og út kemur ljóð um DV sem endar svona:

Tökum svona kauða
dæmum hann til dauða
forsíðuna auða viljum ekki í dag.

Hvað er sannleikur?
spyr ég
í öllum litum
svara ég
sannleikurinn er meira
en hið prentaða orð
sannleikurinn getur aldrei,
réttlætt vinur aldrei
í hans nafni sé framið morð.

Þetta er múgsefjun.

Hér eru pistlarnir fjórir sem ég skrifaði á málefnin.com um DV-málið

Um grein Egils Helgasonar
Egill lætur hérna berast eins og rótlaust þang með þeim straumi múgæsingar sem nú flæðir um Íslandsála. Ég hef verið lesandi DV árum saman og ég hef ekki orðið vör við þennan nihilisma eða þessa gapandi tómhyggju. Það er fráleitt að dæma alla umræðu í DV af því sem þar er verst gerst. Umfjöllun í DV hefur oft einkennst af alvöruleysi og hressilegum galgopahætti sem á köflum jaðrar við að vera meinlegur fyrir þá sem fyrir því verða en fyndinn fyrir marga sem lesa. Mér hefur á stundum fundist DV skipa sér með þeim hrjáðu og smáðu í samfélagi okkar og segja sögu þeirra. Ég nefni hér t.d. sögu eiturlyfjafíkla í Reykjavík, ég hef fylgst með umræðunni um það og nýlegri umræðu um fólk sem tengist eiturlyfjaheimi sem er að kaupa upp hús á ákveðnum götum í Reykjavík. DV umræðan nýtur ekki sannmælis með þessum orðum Egils.

Um ummæli Kára Jónassonar um Netið
Netið er að taka við hinum hefðbundnu prentfjölmiðlum, Kári áttar sig alveg á því eins og flestir athugulir fjölmiðlamenn. Þetta er ekki spurning um hvort heldur hvenær. Miðað við sömu þróun og er í dag þá er búist við því að síðasti dagblaðslesandinn hendi blaðinu sínu endanlega í pappírsendurvinnslu í apríl 2040.
Sjá þessa grein í Economist future of journalism
Yesterday's papers
Apr 21st 2005
Þar stendur:
In 1995-2003, says the World Association of Newspapers, circulation fell by 5% in America, 3% in Europe and 2% in Japan. In the 1960s, four out of five Americans read a paper every day; today only half do so. Philip Meyer, author of “The Vanishing Newspaper: Saving Journalism in the Information Age” (University of Missouri Press), says that if the trend continues, the last newspaper reader will recycle his final paper copy in April 2040.

Núna er að vaxa upp allt öðruvísi fréttamennska það má nefna blogg og wiki og það má líka nefna fréttaþjónustur eins og www.digg.com ég myndi ráðleggja öllu fjölmiðlafólki að skoða slíkt, það er vísbending um hvernig fréttakerfi allir fara í eftir einhvern tíma - svona fréttakerfi þar sem lesendur koma með fréttirnar og velja hversu mikilvægar fréttir eru.

Um orðræðu Össurar og Marðar

Það er mjög ómaklegt að kalla Össur málverjafífl. Ég get ekki séð neitt athugavert við orðræðu hans. Hún er mjög litrík eins og jafnan hjá Össuri og tiltölulega hófstillt en það er orðræða Össurar ekki alltaf. Ég tek undir með Össuri í báðum þessum pistlum sem þú vitnar í, DV hefur verið litríkasta, líflegasta og ósvífnasta blaðið á Íslandi og þar hafa oft verið frökkustu og hugmyndaríkustu síðurnar. Þess vegna hef ég verið áskrifandi að þessu blaði.

Það breytir hins vegar alls ekki því að mér og öðrum finnst DV hafa oft farið yfir strikið og valdið hugarangri hjá fólki sem á um sárt að binda og forsíðan 10. janúar var reiðarslag. En það breytir ekki fortíðinni og því sem gott hefur verið við DV gegnum tíðina. Það er til of mikils mælst að Össur sem er í framlínu stjórnmála á Íslandi fari að endurtaka einhverja jákvæða umræðu um DV núna þegar múgæsing er í algleymingi, svo miklum að jafnvel alþingismenn ásaka DV um morð.

Mörður Árnason hvatti fólk á blogginu sínu að sýna stillingu og hófsemi í þessu máli en fyrir það eitt er hann úthrópaður hérna á Málefnunum með orðum eins og "Ég vona að Mörður verði ekki kosinn út af þingi næst, þá þarf hann að fara að ganga á líkklæðunum einum fata" og "..mér hefur Mörður aldrei þótt merkilegur pappír. Nú er hann ekki einu sinni skeinipappír."

En ég er sem betur fer ekki að í neinni framlínu stjórnmála á Íslandi svo ég get alveg tjáð mig óhindrað hérna. Ég er bara óbreyttur Framsóknarmaður sem vill vinna að siðbót og jafnrétti í stjórnmálum og þá fyrst og fremst í Framsóknarflokknum, ég er í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en frami minn þar hefur verið frekar gloppóttur hingað til Ég get því alveg hætt ærunni og mannorðinu og pólitískri framtíð og segi hátt og snjallt aftur:

DV hefur verið litríkasta, líflegasta og ósvífnasta blaðið á Íslandi og þar hafa oft verið frökkustu og hugmyndaríkustu síðurnar.Takk fyrir DV blaðamenn fyrir það sem þið hafið gott gert á undanförnum árum. Ég ætla ekki að skammast út í ykkur fyrir mistökin, það eru nógir aðrir sem gera það núna.

En svo vil ég benda á stórgóðan pistil eftir einn hjartahlýjasta okkar málverja og þá á ég auðvitað við hana Cecil á Ísafirði sem er frá sömu slóðum og Gísli heitinn og þekkir hann vel og minnist hans af hlýhug.

Það eru allir menn saklausir þangað til sekt þeirra hefur verið úrskurðuð með dómi, þannig er skilningur laganna og það er ágætis viðmiðun fyrir okkur hin að líta líka svoleiðis á málin og átta okkur á því að sá sem er ákærður er í mjög erfiðri og viðkvæmri stöðu.

Um orðræðuna á málefnunum um DV-málið

Þetta er því miður satt. Það er algjör múgsefjun í gangi. Vonandi rennur æðið af fólki eftir einhvern tíma. En það eru strax teikn á lofti um að þetta mál verði til að fram komi menn sem vilja skerða réttindi okkar til að tjá okkur. Það sem er allra skrýtnast og reyndar grátbroslegt að það eru helstu málsvarar einstaklingsfrelsis og fjármagnsfrelsis sem tala fyrir því. Sigurður Kári (þingmaðurinn sem hefur það baráttumál að leyfa okkur að kaupa rauðvín í verslunum og önnur háleit frelsismál) hefur lagt fram eitthvað frumvarp um aukna skaðabótaskyldu í meiðyrðamálum og vitnar í Bretland sem eitthvað fyrirmyndarland þar.

Í Bandaríkjunum er nýbúið að setja lög sem banna orðræðu eins og þá sem er hér á málefnunum þ.e. það má ekki gagnrýna fólk nema undir nafni. Friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi eru stundum þannig að annað verður að koma ofar. Kannski munu vera þrír hópar á Íslandi í framtíðinni
1) Þeir sem eru svo ríkir og máttugir að þeir kaupa upp fjölmiðla til að tryggja að umræðan um þá sé eins og þeir vilja hafa hana.
2) þeir sem eru svo ríkir og voldugir að þeir geta ráðið lögfræðinga til að fara í mál við alla sem segja eitthvað og fengið dæmdar bætur eftir nýju lögunum hans Sigurðar Kára.
3) þeir sem eru fátækir og valdalausir og mega ekkert segja,
bara þegja.

13.1.06

Dúlla ársins

Dóttir mín benti mér áðan á að ég væri meðal tilnefndra í dúllu ársins. Ég er náttúrulega mjög spennt en tel ekki að ég hafi mikla sigurmöguleika þar sem þarna er samsafn íðilfagurra og dúllulegra manna og kvenna.

Ef til vill hefði ég haft meiri möguleika ef fyrsta bloggmyndin mín hefði verið þarna, þá hefði ég flotið langt á þessu íhugula gáfumannalúkki, þessu hvelfda enni og þessu meitlaða augnaráði. Ég vandaði mig mikið við þessa sjálfsmynd á sínum tíma, set hana hér til hliðar.

12.1.06

Hvenær drepur maður mann?

"Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? Hver hefur drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?"

(Íslandsklukkan. 17. kafli. Jón Hreggviðsson.)

Á þessari stundu finnst mér erfitt að taka afstöðu í DV málinu. Mér finnst ég þurfa meira að hugsa um þetta mál og horfa á það úr meiri fjarlægð og í gegnum þá slikju sem fellur yfir allt með tímanum. Ég finn til með þeim manni sem svipti sig lífi og ég finn til með aðstandendum hans.

En ég fylki mér ekki í hóp þeirra sem nú gera hróp að DV og fullyrða að blaðið hafi drepið mann. Fréttir og orðræða eru beitt vopn en þau drepa engan. Óvægin og ruddaleg umfjöllun í fjölmiðlum getur fyllt fólk svo mikilli örvinglun að það sjái enga leið út. En sama má segja um mörg annars konar skyndileg og alvarleg áföll sem fólk verður fyrir í lífinu en ég minnist þess ekki að í þeim tilvikum hafi verið bent á sökudólg á þennan hátt.

Hugsanlega skiptir ekki máli hvort það fólk sem hefur þolað fjölmiðlaumfjöllun DV er sekt eða saklaust. Hugsanlega er umfjöllunin viðbótarrefsing en það er reyndar ekki eingöngu umfjöllun í DV sem er viðbótarrefsing, sakfellt fólk sem hefur tekið út sína refsingu eða bíður eftir afplánun eða dómi er hundelt á Netinu eða gerð hróp að því á almannafæri og það hrakið úr heimkynnum sínum.

Því miður mun umfjöllun um þetta mál ekki breyta neinu fyrir manninn sem svipti sig lífi en ég held að öllum væri hollt að huga að öðrum sem ef til vill eru í sömu sporum. Ég nefni hérna þrjá sakfellda menn og fjölskyldur þeirra. Ég hef áður fjallað um tvo þeirra og framkomu samfélagsins gagnvart þeim sjá bloggpistlana Bryggjutröllin og mannréttindi glæpamanna og Þorpið . Þessir menn eru ungur maður úr Reykjavík sem dæmdur var nýlega fyrir nauðganir með svefnlyfi, maður frá Patreksfirði sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot gagnvart unglingspiltum og maður frá Siglufirði sem oft hefur verið dæmdur fyrir kynferðisafbrot gagnvart drengjum. Sá síðastnefndi er þekktasti kynferðisafbrotamaður landsins og hefur verið hrakinn stað úr stað á undanförnum árum, margoft gerð aðsúg að honum. Hann mun hafa ráðist inn á skrifstofur DV í gær.

Fangar og dæmdir glæpamenn hafa líka mannréttindi, fólk sem okkur líkar illa við hefur líka mannréttindi og fólk á ekki að vera hengt á almannafæri fyrir glæpi sína. Fólk sem hefur verið ákært fyrir glæpi og tekið út sína refsingu á ekki að sæta eilífri útskúfun. En það á ekki að hilma yfir með glæpum og stundum verður að hrópa hátt að dómsvaldið og almenningur heyri ef það er eina leiðin til að upp um glæpi komist eða á þeim sé tekið. En það má aldrei gleymast að sakamenn og sakbornir menn eru líka manneskjur. Stundum margbrotnar manneskjur eins og Skáldið á Þröm en alltaf manneskjur sem eru einn hluti af kraftbirtingarhljómi guðdómsins.
Álfar á rás 2, blogg á NFS

Fyrir mörgum árum setti ég upp álfavef og safnaði saman ýmsu efni um álfa. Upp frá því hef ég kallað mig álfasérfræðing og tjái mig sem slíkur í fjölmiðlum. Á þrettándanum var uppákoma í Slippnum við Reykjavíkurhöfn. Þar á að rífa allt á næstu árum og byggja glæsihýsi með útsýni út á himinbláu sundin. En núna er þar verslunin Guerrilla store, það mun vera ein tegund af alþjóðlegum verslunarkeðju, það eru settar upp tímabundnar verslanir í húsum sem á að rífa. Það var slagveður á þrettándanum þannig að það voru ekki margir á þessari hátíð Slippsins. En ég var þar og fór í álfaviðtal á Rás 2.

Hér eru viðtölin
Breyting: Ég var að prófa að setja inn í blogg á "streaming", það virkar ekki vel svo ég setti þetta upp á sérstaka síðu

En hér eru hljóðskrárnar:

álfaviðtalið 6. janúar Quicktime skrá

Í gær 11. janúar fór ég í viðtal á nýju síbylju sjónvaps/útvarpsrásinni NFS. Það talaði ég um blogg. Hérna er viðtalið:
Viðtal um blogg 11. janúar 2005 mp3 skrá
NFS viðtal um blogg 11. janúar 2006 Quicktime skrá
Það þarf að hafa quicktime uppsett á tölvu til að hlusta á quicktime hljóðskrár.

10.1.06

Í Vesturvíking - barist við Rúpert

Í desember réðist ég til atlögu gegn Rupert Murdoch og fjölmiðlaveldi hans og hef síðan stundað netskæruhernað á hann og Fox og News Corp. og aðallega undirfyrirtæki þeirra Myspace.com. Það eru margir komnir í baráttuna og hún er háð á hinum ýmsu vefsvæðum. Vopnin eru orð og málstaðurinn er náttúrulega góður, þetta er krossferð gegn ritskoðun og þetta er krossferð fyrir tjáningarfrelsi. Einmitt á sama tíma er mikil umræða á bloggum um ritskoðun í Kína og hvernig Microsoft hefur gerst handbendi kínverskra stjórnvalda.

Sjá greinarnar:
Microsoft takes down a Chinese blogger and my thoughts about this Robert Scoble
Microsoft takes down Chinese blogger RConversation Rebecca MacKinnon

Ég geri mitt til bera eld að þessum glóðum og magna umræðuna og reyni eins og ég get að benda á hve lík ritskoðun á vestrænum samskiptavefjum er þeirri ritskoðun sem á sér stað í Kína. Í svona baráttu þar sem vopnin eru orð og orðræða þá eru vopnin beittari ef sá sem orðum er beint að skilur það sem sagt er. Það virkar því ekki vel að tjá sig á íslensku, hér á landi eru ekki margir sem fylgjast með þessu máli eða setja sig inn í út á hvað það gengur og fáir tilbúnir að taka þátt í alþjóðlegri baráttu fyrir tjáningarfrelsi. En þessi barátta hefur bara gengið vel hjá mér og mér sýnist ennþá loga glatt og eldurinn heldur að magnast.

Ég hef skrifað nokkra bloggpistla:
Myspace censorship continues
Misunderstanding??? MySpace swallows and silences Youtube
Flushing Myspace Down the Tubes
Mypspace in the Brave New world

Ég er ekki í vafa um að pistlarnir hafa haft áhrif, sérstaklega fyrsti pistillinn, ég held að hann hafi verið kveikja að vefumræðunni og mörg þúsund skoðað þann pistil, það eru nálægt hundrað athugasemdir þar. Það er áhugavert að fylgjast með hvernig sögur breiðast út á Netinu, sirkúlera fyrst á bloggum minni spámanna (eins og mín) og síðan taka stærri vefsvæði þær upp eins og slashdot í fyrradag eftir að einhver blöð og tímarit sem liggja á technorati og digg hafa grafið upp söguna.

6.1.06

Andrea undirbýr Indlandsferð

Andrea 2
Andrea Róberts er orðinn bloggari, bloggið hennar er spennidbeltin.blogspot.com og hún var að prófa Skype 2.0 sem kom út í gær og er búin að fá sér 60 GB video iPod. Hér er mynd af Andreu að prófa að tengja stafrænu myndavélina sína við video iPodinn og það virkaði allt vel. Sniðugt að geta geymt myndirnar og skoðað þær í iPod. Andrea er að fara til Asíu núna í janúar og byrjar á Indlandi og ætlar að liggja þar á naglabretti eins og fakírar gera og verða svo liðug að hún komist í splitt á báðum þegar hún kemur heim. Hún ætlar að klífa fjöll í Nepal, fara í spa á Tailandi og helst að fara til Laos, Cambodiu og Vietnam. Ég vona að hún verði dugleg að blogga og ég heyri oft í henni á Skype á næstu mánuðum. Andrea er búin að koma tvisvar til mín að læra á alls kyns netgræjur, hún er alveg með tæknina á hreinu og ég hugsa að hún yrði frábær tölvukennari. Ég hitti Andreu í flugvélinni þegar ég fór til Parísar á bloggráðstefnuna í desember.

Fyrrum ráðskonur úr okkar ágæta félagsskap eru núna að leggja undir sig heiminn
Auður Magndís er í Egyptalandi og Halla er einhvers staðar á flakki um heiminn. Það er gott að hafa útsendara í öllum álfum. Því fleiri sem fara um þeim mun fyrr munu heimsyfirráð nást.

Annars er þrettándinn í dag og ég ætla þess vegna að fara núna á eftir niður í Slipp og fylgjast með dagskrá þar, sjá nánar á http://www.urbanistan.org . Það ætla ég líka að hitta útvarpsfólk við búð sem heitir Guerrella store og reyna að komast að til að tala á öldum ljósvakans í þrettándavöku útvarpsins. Útvarpskonan spurði hvernig hún að kynna mig. Ég svaraði: "Salvör Gissurardóttir álfasérfræðingur". Ég vona þetta sé ekki lögverndað starfsheiti.
Kýrhaus

Ég reyni að þoka jarðasölumálinu úr huga mér en það er erfitt. Ættingjar hafa oft þráttað og rifist vegna arfs- og eignaskipta og fólk á oft í málaferlum. Það er ekkert athugavert við deilur og það er ekki endilega markmið til að forðast deilur. Deilur eru oft nauðsynlegur þáttur í að leysa mál, fólk þarf að tala saman til að koma vitinu hvert fyrir annað. Málaferli eru nú reyndar ekki annað en mjög formfastar deilur.

Ég hef um ævina undirbúið mig undir tvenn málaferli, í öðru tilvikinu þurfti ég að höfða mál og en svo var samið þannig að lögfræðingar töluðu við lögfræðinga. Í hinu tilvikinu kom aldrei til málshöfðunar. Amma mín Hólmfríður á Undirfelli stóð í alla vega tvennum málaferlum og mörgum illdeilum, frægast er þegar hún skaut stóðhest bónda í nágrenninu. Það er víst bannað. Sem betur fer skaut hún ekki nágrannann, þá hefði hún sennilega tapað málinu.

Hvers vegna hugsa ég svona mikið um þetta mál? Ég get ekki alveg svarað því, ég held að það sé vegna þess að mér finnst þetta ... (hér er tók ég út nokkur mergjuð naforð... liður í sjálfsritskoðun þegar ég lít yfir textann tveimur vikum seinna). Ég er ekki aðili að væntanlegum málaferlum og hef ekki hagsmuna að gæta. En ég þekki alla sem málið varðar og þekki aðstæður og forsögu. Móðir selur eignir sem hún klárlega ekki á nema hluta í til sonar sem er fullvel kunnugt um þessa annmarka á eignarhaldi. Hún selur og gefur eign sem er ævistarf elsta sonar hennar án þess að bera það undir hann. Móðirin selur líka atvinnutæki og lífsafkomu tveggja bræðra og lífsbjörg fimm lítilla barna til þriðja bróðursins án þess að hinir viti af því eða hafi neitt um það að segja. (...sjálfsritskoðun 2 vikum seinna.. tók út eina dómharða setningu...)

Ef það er eitthvað sem þessi staða sem núna er uppi sýnir þá er það að illsku og ofríki verður að mæta strax af fullri hörku, það hefði verið betra fyrir alla að sá bróðir (sjálfritskoðun ... tók út nafn) sem stendur að þessum gjörningi hefði verið stöðvaður af fyrr. Það eru núna komin mörg ár síðan hann flæmdi eldri bróður sinn úr öllum verkum í fjósinu, það er ófögur saga. Hann hefur undanfarin ár ráðskast með allt á bænum eins og það væri hans einkaeign og ekki hirt um (sjálfritskoðun..breytti orðalagi) þó að ráðstafanir hans hafa komið flatt upp á bræður hans. Hann hefur til dæmis keypt kvóta fyrir margar milljónir án þess að bera undir neinn. Hann hefur oft komið aftan að bræðrum sínum og þó hann sé grunnhygginn þá hefur hann áttað sig á því að völd eru fólgin í upplýsingum og bræðrum sínum hefur hann haldið valdalausum með að takmarka aðgengi þeirra að upplýsingum um búið. Hann hefur smám saman hindrað alla möguleika þeirra til að hafa yfirsýn yfir búið og sölsað undir sig yfirráð yfir alla reikninga bússins og alla reikninga foreldra sinna, hann sá um aðdrætti fyrir foreldra sína sem fóru aldrei af bæ.

Síðustu árin hafa liðið þannig að aðstæður gömlu hjónanna urðu alltaf verri og verri og það var eins og allt gengi út á einhverja sjúklega samkeppni í sparnaði. Hann reyndi líka að kúga fjölskyldur bræðra sinna undir þennan lífsstíl. Stundum hefur viðurgerningur á bænum verið stórundarlegur eins og á Skírdag 2002 en þá um páskana voru nokkrir gestir á bænum en þá sauð hann kýrhöfuð í heilu lagi og reisti upp á rönd og bar fram fyrir gesti sem kvöldverð. Það var eins og hann væri að reisa níðstöng og virtist mér þetta þáttur í deilu hans við bróður sinn eða þá liður í að flæma burt gesti. Það tókst, ég alla vega fór beina leið suður og hef síðan reynt að koma sem minnst á bæinn og reynt að þiggja þar engar veitingar. Ég held að fáir hafi komið þar í heimsókn undanfarin ár og heimilið hafi verið mjög einangrað, meira segja systkinin sem ættuð eru frá bænum eiga erfitt með að koma þangað. Í sumar gekk svo langt að hann lagði hendur á eina af mágkonum sínum sem var að heimsækja móður hans. Hann reyndi að hrinda henni og reka hana út úr húsi móður sinnar. Það varð lögreglumál. Báðir bræður hans eru hræddir um að hann skaði börnin þeirra og þora ekki að fara með þau í heimsókn til ömmu sinnar nema undir eftirliti. Það var ekki svona heimilisbragur á búinu þegar elsti bróðirinn stýrði þar búskapnum.

Athugasemd 20 janúar
Núna tveimur vikum seinna þá lít ég núna yfir þennan pistil og sé að það er afleitur tónn í honum, allt of mikil dómharka og geðshræring. Ég vil samt ekki taka pistilinn út, þetta er partur af sögunni en ég tek út öll nöfn og öll lituð og neikvæð lýsingarorð. Það eru ekki góð stílbrögð að skapa persónulýsingu með lýsingarorðum um innræti, það er fyrsta boðorð í ritlist að sýna en ekki segja. Fólk lýsir sér sjálft með gjörðum sínum og orðum.

5.1.06

Tvítugsafmæli í Húsi málfrelsisins

Ásta Björg 20 ára afmæli 5
Ásta Björg hin vestfirska frænka mín hélt upp á tvítugsafmæli sitt 4. janúar með matarboði á Hringbraut í húsi bróður míns. Hér er mynd af Kristínu Helgu 16 ára og Ástu Björgu 20 ára á afmælisdaginn. Ég veit nú reyndar ekki hver er nú skráður eigandi hússins á Hringbraut, á sínum tíma þá seldi hann það til Kjartans Gunnarssonar að því er ég las í fréttum. Að því er ég best veit til að eiga fyrir málskostnaði og fésektum og hugsanlega til að ekkert væri til sem Jón Bæjó gæti gert fjárnám í. Jón sá við því og gerði fjárnám í skuldabréfi. Bróðir minn stendur nú í málaferlum bæði vegna meiðyrða og meints ritstuldar, þó það séu erfiðir tímar núna hjá honum þá held ég að sá tími komi að dýpri skilningur verði í samfélaginu á málfrelsi og frjálsu flæði þekkingar og þeim klafa sem lög, ekki síst höfundarréttarlög eru á frjálsa tjáningu. Það örlar á von núna í Svíþjóð, þar hefur nú verið stofnað nýtt stjórnmálaafl Piratpartiet.se eða Sjóræningjaflokkurinn, ég held ég myndi kjósa þann flokk ef ég væri búsett í Svíþjóð.

Meiðyrðamál og ritskoðun

Ég kom seint í afmælisboðið því við vorum á fundi með systkinum Magnúsar þar sem framsal móður hans á jörðinni Vöglum til Gísla Björns var rædd eins og kemur fram í síðasta bloggi. Ingibjörg mágkona mín hringdi í mig í gærkvöldi þung í bragði og var óánægð með orðaval mitt um bróður sinn og vill að ég ritskoði síðasta bloggið mitt. Hún vill ekki að ég lýsi bróður sínum með orði eins og "siðblindur" og sagði að það geri erfiðara fyrir hana og systur hennar að miðla málum en þær huga nú að því að gera sér ferð norður á næstunni og tala við bróður sinn og móður. Ingibjörg varaði mig einnig við hættunni á því að Gísli Björn höfði meiðyrðamál á hendur mér. Ég hló að þessu, ég tek alveg áhættu á meiðyrðamáli hér á Íslandi vegna lýsingarorðsins "siðblindur" og ég tel hverfandi líkur á því að bóndi úr Blönduhlíðinni rífi sig upp af kúabúi og búsetji sig í London og saki þar mann og annan um að tala illa um sig eins og Jón Bæjó gerði fyrir breskum dómstólum. Svo mikil er nú ekki alþjóðavæðing Skagfirðinga ekki orðin.

Það lengsta sem Gísli Björn hefur komist í alþjóðavæðingunni hingað til er að ráða fátæka landbúnaðarverkamenn úr Austur-Evrópu til bústarfa hjá sér og er rétt að taka fram að sumir þeirra eins og Serbinn sem þar er núna eru löglegir og borgað eftir taxta. Þeir fá líka mat og húsaskjól. Hann hefur enda oft lýst því yfir í samtölum við mig að hann þurfi ekki lengur á vinnuframlagi bræðra sinna að halda, núna sé búið orðið svo tæknivætt að hann komist alveg yfir þetta einn með því að ráða til sín erlent faraldverkafólk eftir þörfum.

En af því að ég met Ingibjörgu mikils þá ætla ég að verða við bón hennar og ritskoða síðasta blogg hjá mér og taka þar út það orð sem hún vill ekki sjá. Ég sagði henni reyndar að ég myndi nú örugglega eiga eftir að skrifa svæsnari bloggpistla um Vaglaframsalið. Það er þannig að það þögn um rangsleitni, svik og ofríki gagnast fyrst og fremst þeim sem kúga aðra.

Það er öllum hollt að skoða þær leikreglur sem samfélag okkar byggir á og hvernig boð berast um samfélagið, skoða hverjum klukkan glymur og hvaða hagsmuni er verið að vernda. Það er blekking að halda að lög og reglur í samfélagi okkar og sú samræða sem er leyfileg og talið viðeigandi sé til að vernda lítilmagnann og alla borgara jafnt. Við búum í samfélagi þar sem allt miðar að því að vernda hagsmuni og auka afl þeirra sem þegar hafa völd og áhrif og eiga eignir.

4.1.06

Málaferli um Vagla

Mjaltatími á Vöglum 4

Í gærkvöldi var fundur hjá þeim fimm systkinum frá Vöglum sem stödd voru í bænum og tveir bræður funduðu í gær með þeim lögmönnum og fasteignasölum á Akureyri sem sáu um söluna á Vöglum. Það hefur margt ótrúlegt komið fram, móðir Vaglasystkina mun hafa framselt Gísla Birni syni sínum jörðina með kvóta á kjörum langt undir sanngjörnu verði og m.a. gefið honum hluta af jörðinni (nokkra tugi milljóna) með sérstöku gjafabréfi. Mjólkurvótinn á jörðinni einn og sér mun vera um 108 milljóna virði og útihús og tæknibúnaður er nokkrir tugir ef ekki hundruðir milljóna að kostnaðarverði. Allt fór þetta mjög laumulega og ekkert haft samband við neitt hinna systkinanna. Gunnar Sólnes lögfræðingur á Akureyri sem sá um samninga og að útbúa pappíra og fasteignafyrirtæki í tengslum við lögfræðistofu hans sem gekk frá samningum.

Búskipti í sveitum eru alltaf erfið ef það eru margir erfingjar og einungis ein jörð. Núna eru bújarðir orðnar svo stórar og dýrar einingar að það er erfitt ef ekki útilokað að hefja búskap nema að taka við búi í rekstri, stofnkostnaður við kúabú af þessari stærð (jörð, vélar, hús, vélar og búnaður, kvóti) er nokkur hundruð milljónir. Það er því þannig að flestar jarðir sem núna er búskipti á er þegar þeir sem hefja búskap fá hluta bússins í arf.

Í mörgum tilvikum taka þeir sem eiga tilkall til arfs tillit til þess hve erfitt er að hefja búskap og afsala sér arfi eða samþykkja að eignir bússins séu látt metnar til að gera auðveldara fyrir systkini sín að taka við búi, móðir mín afsalaði sér á sínum tíma arfi eftir foreldra sína og lét sinn hluta af jörð renna til bróður síns sem ætlaði að hefja búskap.

Það er ekkert að því að foreldrar aðstoði sum börn sín meira en önnur ef með þarf, ekki síst yfir svona erfiða byrjunarhjalla eins og að hefja búskap í eigin nafni. En í þessu tilviki er gríðarleg rangsleitni og mismunun því þarna eru þrír bræður sem allir vilja búa og hafa unnið á búinu eins og þeir hafa getað í marga áratugi þó að tveir hafi lítið geta komið að búinu að undanförnu vegna ofríkis Gísla Björns. Elsti bróðirinn Þorkell tók við búi strax af loknu stúdentsprófi fyrir meira en aldarfjórðungi, faðir hans var þá að kikna undan búrekstrinum og grátbað hann um að koma að búinu, annars ætlaði hann að bregða búi. Þá var yngsta systkinin nokkurra ára gamalt. Þorkell vann hörðum höndum að uppbyggingu bússins við erfiðar aðstæður og búið kostaði öll yngri systkini hans í menntaskólanám á Akureyri. Það er mat allra sem til þekkja að Þorkell eigi langstærstan hlutann í uppbyggingu bússins og eigi mest í því. Sennilega hefðu foreldrar þeirra brugðið búi ef Þorkell hefði ekki tekið við búinu og þá hefði ekki verið neinu búi til að skipta núna. Þorkell hefur aldrei tekið neitt út úr búinu nema til brýnustu lífsnauðsynja, hann hefur unnið þarna kauplaust í meira en aldarfjórðung, enda allir litið svo á að þetta væri hans bú, bú sem hann ætti í samvinnu við foreldra sína og síðar bræður sína tvo sem komu miklu seinna að búinu. Hefur hann reynt að ná samningum við móður sína og systkini um skiptingu bússins og allar tillögur hans verið sanngjarnar og sýnt að hann ber hag systkina sinna fyrir brjósti.

Gísli Björn kom til Vagla mörgum árum seinna að loknu stúdentsprófi. Fyrstu árin sem hann var þar þá vann hann mikið annars staðar. Sindri kom svo frá Vestfjörðum fyrir um átta árum, hann hafði þá hafið búrekstur á jörð í Önundarfirði en hann var beðinn að koma í samvinnufélag Vaglabræðra og hann taldi sig líka vera að koma til að vera þarna bóndi í félagi við bræður sína og móður. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að erfitt yrði að skipta þessu búi, sérstaklega yrði erfitt að skipta á milli bræðranna þriggja sem allir hafa gert bústörf að ævistarfi og vilja allir halda því áfram. Það hafa verið haldnir fundir á Vöglum til að reyna að komast að samkomulagi og vildi Kristín móðir þeirra hafa þann hátt á að hún brygði búi í vor.

Töldu systkinin að Gunnari Sólnes hefði verið falið að koma með tillögu að skiptum milli bræðranna enda var það sameiginlega sýn allra að þeir hefðu með vinnu sinni síðustu áratugina skapað sér eign í búinu og kvótanum, vinnu sem færi eftir því hve lengi þeir hefðu starfað við búið. Nú hefur hins vegar komið á daginn að einum bræðranna var seld jörðin og gefinn stór hluti hennar og var algjörlega farið á bak við alla aðra með þann gjörning. Þetta kemur öllum systkinunum í opna skjöldu og getur enginn séð neina sanngirni í þessu, þetta er hróplegt óréttlæti og að mér virðist beinlínis sviksamlegt.

Jörðin og þar með kvótinn er allur var þinglesin eign foreldra Vaglasystkina og móðir þeirra situr í óskiptu búi en það vita öll systkinin að sú eign sem hefur myndast í búinu er verk allra bræðranna sem búa og móður þeirra og allra mestan þátt í þeirri eign á Þorkell. Það var sem betur fer algjör samstaða með systkinunum sjö að standa saman gegn þessum gjörningi, réttlætiskennd allra bauð þeim að gera allt sem þau gætu til að sporna gegn þessu óréttlæti og fláttskap og fá þessa gjörninga ógilda og sölunni rift og fara saman í löng og ströng málaferli ef þess þarf. Það er erfitt að sækja mál á hendur móður sinni og það er erfitt að sjá bróðir sinn í því ljósi sem hann birtist í með þessum gjörningi en fáir munu í vafa hvern hlut hann á í þessari gjörð.

Það er sorglegt að þetta hafði gerst, þetta mun reka fleyg milli systkina sem erfitt er að sjá að geti gróið, fólki finnst að komið hafi verið aftað að því á óheiðarlegan og undirförulan hátt og einn bróðir í átta systkina hópi svífist einskis við að sölsa undir sig eigur foreldra sinna og systkina sinna.
Lögfræði

Lögfræði er mjög áhugavert fag. Ég hugsa að ef ég hefði verið að velja mér grein í háskóla í dag þá hefði ég hugleitt að fara í lögfræði. En ef til vill hefði ég ekki haft eins mikinn áhuga á leikreglum samfélagsins og hver býr til reglurnar og hvernig þeim er framfylgt þegar ég var um tvítugt. Tölvutæknin hefur líka gert miklu þægilegra að fletta upp í dómum og lagasafni, því miður eru það aðeins hæstaréttardómar en ekki héraðsdómar sem maður getur flett upp. Ég hef verið að fletta upp erfðalögum, samningalögum og lögum um fasteignakaup.

Svo hef ég flett upp í Hæstaréttardómum og prófað að nota ýmis leitarorð eins og Gunnar Sólnes, svik, vanheimild, misbeyting, ólögmæti, riftun, ógilding og það sem mér hefur dottið í hug. Ég hef nú ekki fundið það sem ég leitaði að en ég hef fundið margt annað sniðugt t.d. þennan hæstaréttardóm um kallinn sem gaf systur sinni hlutabréfin sín í Eimskip. Það sem mér fannst áhugavert t í þessum dómi er að sækjendur og verjendur voru á bólakafi í að reyna að sanna að hefði verið orðinn elliær eða ekki og það er ýmislegt týnt til. Í dómnum stendur þessi setning: "Fullljóst hefði verið að hann hefði ekki haft dómgreind til þess að gera ráðstafanir og dómgreindarskerðingin fólgin t.d. í því að hann hefði viljað fara til Kanaríeyja." Einnig stendur "...Hann hefði oft komið með gjafir eftir Kanaríeyjaferðir sínar." Nú er mér reyndar fyrirmunað að sjá hvernig það getur verið dæmi um dómgreindarskerðingu að vilja komast til Kanaríeyja, jafnvel þó að maðurinn hafi verið við dauðans dyr, reyndar finnst mér það einmitt hafa verið fullgóð ástæða til að fara þangað sem honum leið vel.

Hér eru áhugaverð ákvæði um ógildingu löggerninga í þriðja kafla samingalaga:

30. gr.
Löggerningur skuldbindur eigi þann mann, sem gerði hann, ef hann var fenginn til þess með svikum, og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða hann vissi eða mátti vita, að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns. Hafi sá, sem tók við löggerningnum, sviksamlega skýrt rangt frá atvikum, sem ætla mátti að skiptu máli um löggerninginn, eða hann hefir sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum, skal líta svo á, sem gerningurinn hafi verið gerður fyrir þau svik, nema það sannist, að þessi atriði hafi engin áhrif haft um það, að löggerningurinn var gerður.

31. gr.
[Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum. Sama gildir þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. þessarar greinar, enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt.]1)

33. gr.
[Löggerning, sem ella mundi talinn gildur, getur sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.]1

Hér eru áhugaverð ákvæði í erfðalögum
9. gr.
[Því hjóna, sem lengur lifir, verður ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi ef bú þess er til gjaldþrotaskipta eða í ljós kemur að eignir þess hrökkva ekki fyrir skuldum. Sama er ef því verður ekki treyst til að hafa forræði bús vegna vanhirðu um fjármál sín

15. gr.
Erfingi getur krafist skipta sér til handa, ef hann sannar …1) að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til, að óttast megi slíka rýrnun. Nú hefur maki gefið gjöf úr óskiptu búi, og er gjöf óhæfilega há, miðað við efni búsins, og getur þá erfingi fengið gjöf hrundið með dómi, ef viðtakandi sá eða átti að sjá, að gefandi sat í óskiptu búi og að gjöf var úr hófi fram. Mál til riftunar verður því aðeins höfðað, að búið hafi verið tekið til skipta eða erfingi hafi krafist skipta. Mál skal höfða, áður en ár sé liðið frá því, að erfingi eða lögráðamaður hans fékk vitneskju um gjöfina, og þó ekki síðar en innan þriggja ára frá afhendingu gjafar.

17. gr.
Nú hafa efni bús rýrnað til muna vegna óhæfilegrar fjárstjórnar maka, og geta erfingjar þá við búskipti krafist endurgjalds út af því úr búinu. Ef rýrnunin verður ekki bætt með þeim hætti, má krefja greiðslu á helmingi þess, er á vantar, úr séreign makans, en sú krafa verður þó að þoka fyrir kröfum skuldheimtumanna.

20. gr.
Maki, sem situr í óskiptu búi, getur aðeins ráðið yfir sínum hluta úr búinu með erfðaskrá. Honum er heimilt að ráðstafa einstökum munum innan þessara eignarmarka, ef það gengur ekki í berhögg við fyrirmæli hins látna maka samkvæmt 2. mgr. 36. gr.

25. gr.
Nú sannast það í opinberu máli, að maður hefur komið því til leiðar með nauðung, svikum eða misneytingu, að annar maður geri erfðaráðstöfun, eða láti hjá líða að gera hana, og er þá heimilt að ákveða í dómi, að hann hafi glatað rétti til annars arfs en skylduarfs eftir þann mann.

2.1.06

Jól og áramót

Hátíðirnar liðu áfram með hefðbundnum hætti, hér er mynd af dætrum mínum við jólagjafaupptöku:


Á jóladag var hangikjöt hjá okkur og Kristinn og Birtna komu til okkar. Á gamlárskvöld fórum við í dýrindis matarboð til Hóffý í Grænutungu, grillaður humar og graflax í forrétt, hreindýrasteik og sítrónufromage og heimagerður ís í eftirrétt. Það þarf að vera mjög nákvæmur með svona rétti, humarinn varð að vera nákvæmlega þrjár mínútur í grillinu og það voru tveir kjöthitamælar í hreindýrasteikinni til að hún yrði rétt steikt. Hérna eru nokkrar myndir frá áramótamatarveislunni og hér fyrir neðan er mynd af matreiðslunni þegar hreindýrasteikin var tekin úr ofninum.